Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2006 Kiðjaberg

Ár 2006, miðvikudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í sumarhúsi að Heiðarlundi í landi Hallkellshóla, Grímsnesi.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 56/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 25. október 2005 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni að Kiðjabergi 109 í Grímsnes- og Grafningshreppi.   

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. júlí 2006, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. Þog Þ, Glaðheimum 14, Reykjavík, eigenda sumarhúss á lóð nr. 111 að Kiðjabergi í Grímsnes- og Grafningshreppi, þá ákvörðun  byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 25. október 2005 að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni að Kiðjabergi 109 í Grímsnes- og Grafningshreppi. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kveðinn upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinni kærðu ákvörðun þar til niðurstaða liggur fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Hinn 7. desember 2005 samþykkti sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar á svæði C í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Hinn 25. október 2005 veitti byggingarfulltrúi uppsveita Árnessýslu leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni nr. 109 í landi Kiðjabergs.  

Hinn 14. júní 2006 barst Skipulagsstofnun erindi sveitarfélagsins vegna fyrrgreindrar deiliskipulagsbreytingar og í bréfi stofnunarinnar, dags. 28. sama mánaðar, segir eftirfarandi:  „Skipulagsstofnun hefur farið yfir innsend gögn og til að geta tekið afstöðu til málsins þarf að huga að eftirfarandi atriðum og lagfæra uppdrátt:  Yfirfara þarf skipulag á svæðinu m.t.t. ofangreindra umsagna, merkja fornleifar á uppdrátt og gera þarf grein fyrir kvöðum á lóðum sem eru til komnar vegna fornleifa eða annars.  Skipulagssvæði það sem breytingin nær til þarf að afmarka á yfirlitsuppdrætti.“  

Kærendur hafa kært byggingarleyfið til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.    

Kærendur skírskota m.a. til þess að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag frá árinu 1990.  Sveitarstjórn hafi raunar samþykkt breytingar á því deiliskipulagi en málsmeðferðinni sé ekki lokið enda hafi gildistaka breytinganna ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  

Ekki liggja fyrir sjónarmið byggingarleyfishafa til framkominnar kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, en eins og málum er háttað þykir það ekki koma í veg fyrir að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um kröfuna.  Í símbréfi úrskurðarnefndarinnar hinn 7. júlí 2006 var þess óskað að byggingarfulltrúi kynnti byggingarleyfishafa kröfuna.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 25. október 2005 um að veita leyfi til byggingar sumarhúss á lóðinni nr. 109 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi.  Eru framkvæmdir á umræddri lóð hafnar.  

Þegar litið er til þess að verulegar líkur eru á að hið kærða byggingaleyfi eigi ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svæðisins þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru að lóðinni nr. 109 í landi Kiðjabergs í Grímsnes- og Grafningshreppi, með stoð í hinu kærða byggingarleyfi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

              ___________________________          
    Ásgeir Magnússon  

                               

___________________________         ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Aðalheiður Jóhannsdóttir