Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

39/2006 Mýrargata

Ár 2006, föstudaginn 28. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 39/2006, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. maí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi með 61 íbúð á lóðinni að Mýrargötu 26 í Reykjavík og takmarkað byggingarleyfi fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð á sömu lóð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. maí 2006, er barst nefndinni sama dag, kæra H og G, f.h. Reykjaprents ehf., eiganda fasteignarinnar að Grandagarði 2, Reykjavík, þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. maí 2006 að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi með 61 íbúð á lóðinni að Mýrargötu 26 í Reykjavík og takmarkað byggingarleyfi fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð á sömu lóð.  Greindar afgreiðslur byggingarfulltrúa voru lagðar fram á fundi skipulagsráðs hinn 17. maí 2006 og staðfestar í borgarráði hinn 18. maí s.á. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda á lóðinni samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum þar til efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu og kærumálum kæranda vegna deiliskipulagsákvarðana fyrir viðkomandi svæði.  Þar sem gögn og greinargerðir vegna deilumála þessara hafa borist úrskurðarnefndinni og hún átt þess kost að kynna sér framkomin gögn verður málið nú tekið til efnisúrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 6. apríl 2005 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir svonefndan Ellingsenreit, sem tekur til lóðanna að Grandagarði 2 og Mýrargötu 26, og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 14. apríl s.á.  Öðlaðist deiliskipulagstillagan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. júlí 2005.  Skaut kærandi í máli þessu þeirri deiliskipulagsákvörðun til úrskurðar¬nefndarinnar þar sem hann taldi að með ákvörðuninni væri brotið gegn lögvörðum hagsmunum hans, m.a. vegna mismununar í nýtingarheimildum fyrrgreindra lóða. 

Að lokinni grenndarkynningu var tillaga að breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 5. október 2005 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 13. október s.á.  Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. nóvember 2005.  Fól tillagan í sér heimild til nýbyggingar á lóðinni að Mýrargötu 26 í stað fyrri áforma að byggja ofan á hús það sem fyrir var á lóðinni og var nýtingarhlutfall lóðarinnar aukið frá því sem deiliskipulag hafði gert ráð fyrir.  Kærði kærandi í máli þessu jafnframt þessa deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar og taldi að með henni væri enn frekar á rétt hans hallað hvað varðaði nýtingarheimildir á þeim tveim lóðum sem umrætt skipulag tæki til. 

Þann 16. maí sl. var samþykkt á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishús með sextíu og einni íbúð, um 100 fermetra atvinnuhúsnæði og bílageymslu fyrir 89 bíla á lóðinni nr. 26 við Mýrargötu.  Húsið skyldi byggt úr steinsteypu nema efsta hæðin sem yrði byggð úr stáli.  Erindinu fylgdi bréf burðarvirkishönnuðar, dags. 25. október 2005, brunahönnun, dags. 17. júlí, endurskoðuð 22. nóvember 2005, ásamt samkomulagi eigenda lóðarinnar, dags. 15. júní 2005.  Jafnframt var á fundinum samþykkt umsókn um takmarkað byggingarleyfi fyrir umrædda lóð er heimilaði m.a. gröft, fyllingu og uppsetningu aðstöðu vegna væntanlegra byggingarframkvæmda.  Borgarráð staðfesti greind byggingarleyfi hinn 18. maí 2006.  Skaut kærandi þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til málsraka sinna fyrir skipulagskærum er varði umrætt svæði.  Ógilt eða ógildanlegt deiliskipulag geti ekki verið fullnægjandi grundvöllur byggingarleyfis og beri því að ógilda slíkt byggingarleyfi án þess að frekari rökstuðning þurfi fyrir því.  Hins vegar sé það einnig álit kæranda að við útgáfu umrædds byggingarleyfis hafi ekki verið gætt ákvæða 75. gr. byggingar¬reglugerðar nr. 441/1998 um fjarlægð frá lóðamörkum og bil milli húsa.  Sé þess óskað að þetta atriði verði nánar rannsakað við úrlausn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld vísa til þess að kærandi geri ekki neinar efnislegar athugasemdir við umþrætt byggingarleyfi, þrátt fyrir kröfu um ógildingu, eða bendi á atriði sem leitt geti til ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  Kröfu um ógildingu sé því hafnað enda ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að byggingarleyfin séu háð ógildingarannmörkum. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Vakin er athygli á því að krafa kæranda um ógildingu byggingarleyfis sé ekki studd neinum sérstökum rökum öðrum en þeim sem snúi að deiliskipulagi svæðisins.  Áréttað sé að útgefin byggingarleyfi styðjist við samþykkt deiliskipulag og uppfylli að öðru leyti ákvæði skipulags- og byggingarlaga. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda byggingarleyfi fyrir nýbyggingu fjölbýlishúss á lóðinni að Mýrargötu 26 og takmarkað byggingarleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum á lóðinni sem hér eru til umfjöllunar voru veitt með stoð í deiliskipulagi sem samþykkt var í borgarráði hinn 14. apríl 2005 með breytingu sem borgaráð staðfesti hinn 13. október s.á. 

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumálum vegna greinds skipulags með áorðinni breytingu og voru skipulagsákvarðanirnar felldar úr gildi. 

Því liggur nú fyrir að hin kærðu byggingarleyfi í kærumáli þessu eiga sér ekki stoð í gildandi skipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og verða hinar kærðu ákvarðanir af þeim sökum felldar úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. maí 2006, sem borgarráð staðfesti hinn 18. maí s.á., um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi með 61 íbúð á lóðinni að Mýrargötu 26 í Reykjavík og takmarkað byggingarleyfi fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð á sömu lóð, eru felldar úr gildi. 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

  

 
_____________________________                  ____________________________         
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir