Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2005 Hörpugata

Ár 2005, miðvikudaginn 4. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl., varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Hörpugötu 1, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2004 um að veita leyfi til að byggja einlyft einbýlishús á lóðinni nr. 2 við Hörpugötu.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, Hörpugötu 1, Reykjavík ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2004 um að veita leyfi til að byggja einlyft einbýlishús á lóðinni nr. 2 við Hörpugötu.  Hin kærða ákvörðun var staðfest af borgarstjórn Reykjavíkur hinn 7. desember 2004.

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi, dags. 23. mars 2005, var byggingarleyfishafa gerð grein fyrir kærunni og gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu fyrir 22. apríl 2005, en ekkert svar hefur borist frá honum við erindi nefndarinnar.

Af hálfu borgaryfirvalda er krafist frávísunar kærumálsins með þeim rökum að kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni og þykir rétt, með vísan til ákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að taka málið sérstaklega til úrskurðar um frávísunarkröfu borgaryfirvalda.  Var kæranda gert kunnugt um framkomna frávísunarkröfu með bréfi, dags. 12. apríl 2005, og veittur frestur til 26. sama mánaðar til að koma að andmælum, en ekkert svar hefur borist frá kæranda af því tilefni.  Er málið nú tekið til úrlausnar um frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar og verður í úrskurði þessum aðeins gerð grein fyrir málsatvikum og málsrökum aðila að því marki sem nauðsynlegt þykir við úrlausn frávísunarþáttar málsins.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að  í nóvember 1997 samþykktu borgaryfirvöld að skipta lóðinni nr. 1 við Hörpugötu í tvær lóðir.  Var jafnframt, að sögn borgaryfirvalda, samþykkt deiliskipulag fyrir lóðina nr. 2 við Hörpugötu, sem skipt var út úr lóðinni nr. 1.
Hinn 27. júlí 2004 barst embætti byggingarfulltrúa umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar húss á lóðinni nr. 2 við Hörpugötu og var umsókninni vísað til grenndarkynningar vegna breytinga frá áður gerðu skipulagi, sem borgaryfirvöld mátu smávægilegar.  Fólst í breytingunum að fallið var frá byggingu bílgeymslu á lóðarmörkum að Hörpugötu 1 en þess í stað gert ráð fyrir að þrjú bílastæði yrðu sunnan við húsið.  Jafnframt var gert ráð fyrir að nýbyggingin yrði með flötu þaki í stað mænisþaks eins og gert hafði verið ráð fyrir í skipulaginu. 

Athugasemdir bárust frá kæranda og lutu þær einkum að nálægð nýbyggingarinnar við hús kæranda að Hörpugötu 1 og að innkeyrslum að húsum og bílskúrum að Hörpugötu 1, 2, 3 og 4, sem kærandi taldi þröngar og að hætta gæti skapast af umferð ökutækja á svæðinu.  Athugasemdum þessum var svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. september 2004, en hið umdeilda byggingarleyfi var síðan veitt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. nóvember 2004.  

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2004, var kæranda tilkynnt að umsókn um leyfi til byggingar húss að Hörpugögu 2 hefði verið lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 16. nóvember 2004.  Jafnframt sagði í bréfinu að samþykkt byggingarfulltrúa væri háð staðfestingu borgarstjórnar og að tilkynnt yrði tafarlaust ef staðfesting fengist ekki.  Loks var í bréfinu vakin athygli á ákvæðum 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ásamt 8. gr. sömu laga sem fylgdu í afriti kæranda til upplýsingar.

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi ítrekað athugasemdir sínar og ritað byggingaryfirvöldum bréf, sem svarað var með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 28. janúar 2005.  Vildi kærandi ekki una ákvörðun borgaryfirvalda og skaut málinu því til  úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 15. mars 2005, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að verulega hafi skort á að henni væri leiðbeint um rétt sinn af hálfu borgaryfirvalda.  Hafi henni m.a. verið sagt í viðtali við borgarfulltrúa hinn 7. desember 2005 að ekkert væri hægt að gera í málinu þar sem byggingarfulltrúi hefði samþykkt að veita hið umdeilda byggingarleyfi.  Það hafi ekki verið fyrr en komið var fram í marsmánuð 2005 sem máli hennar hafi verði sýnd athygli og henni verið bent á að snúa sér til úrskurðarnefndarinnar, sem þá hafi verið gert.  Allt fram til þess tíma hafi þeir aðilar sem kærandi hafi haft samband við hjá Reykjavíkurborg varðandi málið ítrekað fullyrt að ekkert væri hægt að gera í málinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Í greinargerð borgaryfirvalda um frávísunarkröfu þeirra er á það bent að fullir þrír mánuðir hafi verið liðnir frá staðfestingu borgarstjórnar á hinu umdeilda leyfi þegar kæra í málinu hafi borist úrskurðarnefndinni.  Þó hafi kæranda írekað verið leiðbeint um kæruheimild, kærufrest og kærustjórnvald, m.a. með bréfum byggingarfulltrúa, dags. 18. og 29. nóvember 2004, og bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2004.  Kæranda hafi jafnframt verið gerð grein fyrir því með bréfi, dags. 29. nóvember 2004 að afskiptum byggingarfulltrúa af málinu væri lokið nema að því leyti er sneri að framkvæmd verksins.  Hins vegar hafi erindi kæranda í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 23. nóvember 2004, verið framsent skipulagsfulltrúa til frekari meðferðar vegna ýmissa atriða í bréfinu er ekki varði starfssvið byggingarfulltrúa.  Skipulagsfulltrúi hafi svarað umræddum atriðum í bréfi kæranda með umsögn til byggingarfulltrúa, dags. 28. janúar 2005, sem kæranda hafi verið send til upplýsingar með bréfi, dags. 1. febrúar 2005.  Sé augljóst af framansögðu að kæra í málinu hafi borist of seint og sé því ítrekuð krafa Reykjavíkurborgar um frávísun málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna einn mánuður frá því að kæranda er kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Verður að telja að ákvarðanir sem byggingarfulltrúi tekur á grundvelli samþykktar um embættisafgreiðslur og staðfestar eru í sveitarstjórn, falli einnig hér undir, enda fer byggingarfulltrúi þá með vald sem byggingarnefndum er annars falið að lögum.  Var frestur til að kæra hina umdeildu ákvörðun því einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um staðfestingu hennar.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 18. nóvember 2004,  var kæranda tilkynnt að umsókn um byggingarleyfi að Hörpugötu 2 hefði verið lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 16. nóvember 2004.  Ekki er í bréfinu berum orðum sagt hvaða afgreiðslu umsóknin hafi fengið en af því verður þó helst ráðið að hún hafi verið samþykkt.  Í niðurlagi bréfsins segir svo:  „Athygli yðar er vakin á ákvæðum 4. mgr. 39. gr. byggingarlaga nr. 73/1997 ásamt 8. gr. sömu laga sem fylgja hér með í afriti yður til upplýsingar.“

Með bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2004, var kæranda tilkynnt að tillaga að fyrirhugaðri byggingu að Hörpugötu 2 yrði til endanlegrar afgreiðslu á fundi borgarstjórnar 7. desember 2004.  Jafnframt var gerð grein fyrir því að unnt væri að kæra ávörðun borgaryfirvalda í málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var kæranda ítrekað bent á kæruheimild og kærustjórnvald og var því fullnægt skilyrðum 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um það efni.  Þykir ekki skipta máli þótt finna megi að þeirri málsmeðferð byggingarfulltrúa að senda kæranda afrit úr lagatexta, í stað þess að orða kæruheimildina í texta bréfsins, þegar til þess er litið að skilmerkilega var gerð grein fyrir kæruheimildinni í bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 30. nóvember 2004.  Var kæranda því kunnugt um hina kærðu ákvörðun undir lok nóvember 2004 og að staðfesting borgarstjórnar væri fyrirhuguð hinn 7. desember 2004.  Verður að leggja til grundvallar að upphaf kærufrests miðist í síðasta lagi við 7. desember 2004, en frá þeim degi voru liðnir rúmir þrír mánuðir er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.  Var kærufrestur þá löngu liðinn, enda er hann aðeins einn mánuður í umræddu tilviki eins og þegar hefur verið rakið.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa beri kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að hún verið tekin fyrir.  Verður ekki talið að neinar þær ástæður hafi verið fyrir hendi er leiði til þess að afsakanlegt hafi verið hversu seint kæran barst, enda hafði kæranda ítrekað verið gerð grein fyrir því hvert beina ætti kærunni og hver kærufresturinn væri.  Verður ekki heldur talið að það skipti máli í þessu sambandi þótt skipulagsfulltrúi hafi svarað síðbúnu erindi kæranda með umsögn, dags. 28. janúar 2005, enda var áréttað af hálfu byggingarfulltrúa að umfjöllun um byggingarleyfið væri lokið.  Var kæranda því ekki rétt að líta á síðari afskipti skipulagsfulltrúa sem ígildi endurupptöku málsins.  Leið þar að auki meira en mánuður frá því kæranda var kynnt umsögn skipulagsfulltrúa og hefði kærufrestur því einnig verið liðinn þótt afskipti skipulagsfulltrúa hefðu verið talin hafa áhrif á kærufrestinn.

Loks verður ekki séð að neinar veigamiklar ástæður séu fyrir hendi er leiði til þess að taka eigi kæruna til meðferðar á grundvelli undantekningarákvæðis 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sæta undantekningarákvæði málsgreinarinnar þröngri lögskýringu.

Með hliðsjón af framansögðu ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Jóhannes R. Jóhannsson

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir