Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2004 Strandvegur

Ár 2005, fimmtudaginn 7. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2004, kæra byggingarleyfishafa að fasteigninni Strandvegi 7, Garðabæ á ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004 um að synja beiðni kæranda um breytingu á gildandi byggingarleyfi fasteignarinnar, er fólst í því að fella brott millihurðir í forstofum íbúða umrædds húss. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. maí 2004, er barst nefndinni hinn 1. júní s.á., kærir B ehf., byggingarleyfishafi að fasteigninni Strandvegi 7, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004 að synja beiðni hans um breytingu á byggingarleyfi fasteignarinnar er fólst í því að fella brott millihurðir í forstofum íbúða umrædds húss.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 6. maí 2004.  Skilja verður erindi kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Á fundi byggingarnefndar Garðabæjar hinn 10. október 2003 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir þriggja til fjögurra hæða 13 íbúða fölbýlishúsi að Strandvegi 7 í Garðabæ.  Á samþykktum teikningum var gert ráð fyrir millihurðum í forstofum íbúða, en gengið er inn í þær úr sameiginlegu stigahúsi fjölbýlishússins.

Hinn 24. apríl 2004 tók byggingarnefnd bæjarins fyrir umsókn kæranda um breytingu á greindu byggingarleyfi er fólst m.a. í því að fella brott millihurðir í forstofum.  Var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað.  Vegna athugasemda varðandi lofthljóðeinangrun milli íbúðar og rýmis utan hennar.“  Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu þessa með bréfi, dags. 12. maí 2004, að aflokinni staðfestingu bæjarstjórnar Garðabæjar á afgreiðslu byggingarnefndar og skaut hann málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur lofthljóðeinangrun milli stigahúss umrædds fjölbýlishúss og einstakra íbúða uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þótt millihurð í forstofu yrði felld brott.  Séu því ekki rök til þess að hafna umsókn hans um þá breytingu á grundvelli ónógrar lofthljóðeinagrunar.

Við hönnun hússins að Strandvegi 7 hafi góð hljóðvist verið sérstaklega tryggð.  Allir innveggir milli íbúða séu 200 millimetrar að þykkt með hljóðeinangrun meiri eða jafnt og 55 desibel og plötur hafi hljóðeinangrun sem sé meiri eða jafnt og 57 desibel.  Hljóðeinangrunargildi í forstofu íbúða hússins sé á bilinu 43-48 desibel en krafan, eins og hún hafi hingað til almennt verið túlkuð, sé að hljóðeinangrun sé meiri eða jafnt og 39 desibel.

Í gr. 173.1 í byggingarreglugerð komi fram að vegið hljóðeinangrunargildi fyrir lofthljóð milli forstofu, innan við ganghurð, og sameiginlegs gangs eða stigahúss skuli vera meiri eða jafnt og 39 desibel.  Krafa byggingarnefndar Garðabæjar virðist hins vegar vera að lofthljóðeinangrun í því tilfelli þurfi að vera meira eða jafnt og 52 desibel.

Með hliðsjón af því misræmi sem komið sé upp á túlkun byggingaryfirvalda sveitarfélaga á byggingarreglugerð að þessu leyti og með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé máli þessu skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að hin kærða ákvörðun standi óröskuð.

Ákvörðun byggingarnefndar, um að gera kröfu um millihurðir í forstofu til að tryggja lofthljóðeinangrun, byggi á skýrum viðmiðum sem byggingaraðilar eigi að uppfylla skv. grein 173.1 í byggingarreglugerð.

Kærandi hafi á engan hátt sýnt fram á að þau viðmið geti talist uppfyllt ef felld sé niður krafa um millihurðir í forstofum umrædds fjölbýlishúss.

Ákvæði byggingarreglugerðar um lofthljóðeinangrun séu sett til að vernda heilsu manna gagnvart hávaða og eigi íbúðareigendur rétt á að þeim ákvæðum sé framfylgt.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á þeirri breytingu á byggingarleyfi hússins að Strandvegi 7, Garðabæ, að fella brott millihurðir í forstofu íbúða fjölbýlishússins með skírskotun til athugasemda varðandi lofthljóðeinangrun milli íbúðar og rýmis utan hennar.  Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hverjar þessar athugasemdir voru og ekki er vikið að þeim í umsögn Garðabæjar vegna kærumálsins.  Þar kemur þó fram að krafa um millihurð í forstofu styðjist við kröfur um lofthljóðeinangrun skv. gr. 173.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Í nefndri grein byggingarreglugerðar, sem er í 8. kafla hennar um hollustuhætti, er að finna töflu þar sem tilgreindar eru lágmarksviðmiðanir vegins hljóðeinangrunargildis fyrir lofthljóð í mismunandi tegundum húsnæðis.  Eru leiðbeiningargildi þar tilgreind innan sviga.  Þar er gerð sú almenna lágmarkskrafa um fjölbýlishús að hljóðeinangrunargildi milli íbúðar og rýmis utan hennar skuli vera 52 (55) desibel.  Slakað er á þessari kröfu hvað varðar hljóðeinangrunargildi milli forstofu eða rýmis innan við ganghurð og sameiginlegs gangs eða stigahúss þar sem viðmiðunargildið er 39 desibel.  Í tilvísunargrein um það viðmiðunargildi er tekið fram að almennt megi telja að krafan sé uppfyllt með hurð í hljóðeinangrunarflokki 35 desibel ef skilveggurinn sjálfur er með a.m.k. 10 desibela betri hljóðeinangrun en hurðin.  Ekki er í reglugerðinni að finna kröfu um að tvær hurðir þurfi að vera milli stigagangs og meginrýmis íbúðar í fjölbýlishúsi til þess að greindu skilyrði um lofthljóðeinangrun sé uppfyllt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið liggja ekki fyrir neinar lögmætar ástæður fyrir hinni kærðu ákvörðun og ber því að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004, að synja beiðni kæranda um breytingu á byggingarleyfi fasteignarinnar að Strandvegi 7, Garðabæ, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir