Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2015 Urðarhvarf

Árið 2015, mánudaginn 22. júní, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 37/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 12. maí 2015 um að samþykkja breytt deiliskipulag Urðarhvarfs 4.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. maí 2015, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Hjörleifur B. Kvaran hrl., f.h. Húsa & lóða ehf., eiganda Urðarhvarfs 2, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs, dags. 12. maí 2015, að samþykkja breytt deiliskipulag Urðarhvarfs 4. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er farið fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök:
Hinn 19. janúar 2015 var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar umsókn, dags. 15. s.m., um breytt deiliskipulag Urðarhvarfs 4 en á því svæði gildir deiliskipulagið Vatnsendahvarf, Athafnasvæði. Í breytingunni fólst að hús á lóðinni yrði hækkað um tvær hæðir með inndregna efstu hæð og yrði sjö hæðir auk kjallara. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu, var sú afgreiðsla staðfest af bæjarráði 22. s.m. og af bæjarstjórn 27. s.m. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum 3. febrúar s.á. með athugasemdarfresti til 23. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 23. mars s.á. og málinu vísað til frekari meðferðar hjá skipulags- og byggingardeild Kópavogsbæjar. Hinn 4. maí s.á. barst umsögn hennar þar sem lögð var til hækkun um eina hæð í stað tveggja. Á fundi skipulagsnefndar sama dag var kynntri tillögu hafnað, þ.e. hækkun um tvær hæðir, en hækkun um eina hæð var samþykkt í samræmi við umsögn skipulags- og byggingardeildar þar sem komið var til móts við innsendar athugasemdir. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest af bæjarráði  7. s.m. og af bæjarstjórn 12. s.m. Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2015.

Kærandi skírskotar til þess að hækkun hússins muni leiða til þess að það verði hærra en fasteign hans að Urðarhvarfi 2 og brjóti í bága við skipulags- og útlitshönnun hverfisins í heild. Engin frambærileg rök hafi verið færð fyrir hækkuninni en hún muni jafnframt hafa í för með sér þrengra umhverfi en áður hafi verið og að umferð muni aukast. Kærandi leigi út fasteign sína fyrir líkamsræktarstöð og gistiheimili. Eitt aðalsmerki gistiheimilisins sé víðfeðmt útsýni frá efstu hæðum hússins. Það útsýni muni vera verulega skert með breyttu deiliskipulagi. Verði að gera þá kröfu til skipulagsyfirvalda sveitarfélaga og bæjarstjórna að deiliskipulagstillaga sé vönduð og henni fylgi rökstuðningur. Gengið sé á grenndarhagsmuni kæranda og leiði breytingin til þess að fasteign hans muni lækka í verði.

Af hálfu Kópavogsbæjar er skírskotað til þess að umrætt svæði sé skipulagt sem atvinnuhúsnæði og verði að telja aðrar kröfur gerðar til útsýnis á atvinnuhúsalóðum en á íbúðarhúsalóðum. Gerð hafi verið breytingartillaga um hækkun um tvær hæðir, efsta hæðin yrði inndregin og byggingarmagn myndi aukast um 530 m2. Við meðferð málsins hafi verið talið rétt að koma til móts við athugasemdir kæranda að hluta og heimila hækkun um eina hæð í stað tveggja og auka byggingarmagn um 350 m2. Hafi tillagan því gengið skemur en þegar hún hafi verið auglýst og ekki hafi verið séð að þörf hefði verið á að auglýsa tillöguna að nýju. Deiliskipulagsbreytingin sé lögmæt og sé því ekki ástæða að stöðva framkvæmdir.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði að ekki er tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kæranda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir