Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2014 Arnargata

Árið 2014, fimmtudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
 
Fyrir var tekið mál nr. 20/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 um breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits og á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 25. mars 2014, um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður:

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2014, er barst nefndinni 24. s.m., kæra G og G, Fálkagötu 23a, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 12. febrúar 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Fálkagötureits. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða skipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. maí 2014, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. mars 2014 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10 og kefjast þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gera þau jafnframt kröfu til þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 45/2014, sameinað máli þessu. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök:  Hinn 8. nóvember 2013 var á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur tekið fyrir erindi lóðarhafa Arnargötu 10 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja við einbýlishús á lóðinni. Samþykkt var að grenndarkynna tillögu að deiliskipulagsbreytingu í samræmi við erindið og bárust athugasemdir frá kærendum, sem töldu m.a. að breytingin myndi hafa í för með sér skerðingu á útsýni úr íbúð þeirra og birtuskerðingu á svölum á ákveðnum tímum árs sem hefði í för með sér verðrýrnun á fasteign þeirra. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 10. janúar 2014, segir m.a. að viðbyggingin sé ekki afgerandi stór og falli að byggingarstíl hússins. Ekki verði fallist á að útsýni teljist til réttinda og ekki talið að um sé að ræða afgerandi skerðingu á birtu eða sólarljósi. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. febrúar s.á. var skipulagstillagan samþykkt. Deiliskipulagsbreytingin tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. mars 2014.

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 25. mars 2014 umsókn um leyfi til að byggja 45 m² viðbyggingu með þaksvölum við húsið að Arnargötu 10 og var byggingarleyfi gefið út 28. maí s.á. Að sögn kærenda hófust framkvæmdir við breytingar á húsinu 26. s.m. Vinna hafi að mestu legið niðri 27. maí í kjölfar kröfu um að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar. Hinn 28. maí hafi þær hafist á ný og kærendur komist að því að byggingarleyfi hefði verið gefið út þann dag.

Kærendur vísa til þess að ekki hafi verið tekið tillit til ofangreindra athugasemda þeirra og til til þess að þau hafi keypt íbúðina fyrir tæpu ári óafvitandi um nefndar framkvæmdir, en fermetraverð hafi verið langt yfir meðaltali svæðisins. Kynningarferli skipulagsbreytingarinnar hafi verið sýndarmennska og hafi kærendur m.a. ekki fengið að sjá skýrslu um skuggavarp á nærliggjandi lóðir. Þá hafi ekki verið hlustað á þau þegar þau hafi látið í ljós að þau væru tilbúin að skoða aðrar útfærslur.

Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til fyrrgreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Þá geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem geti haft í för með sér breytingar á þeirra nánasta umhverfi. Byggingarleyfið sé í samræmi við deiliskipulag og fresti kæra á deiliskipulagsbreytingu því ekki réttaráhrifum þess. Vísað sé til meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Jafnframt sé ljóst að kjósi byggingarleyfishafi að halda framkvæmdum áfram, áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri hann það á eigin ábyrgð og áhættu.

Byggingarleyfishafa var gefinn frestur til 4. júní 2014 til að koma að athugasemdum vegna fram kominnar stöðvunarkröfu, en athugasemdir hans hafa ekki borist úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 5. júní 2014.

———————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin frekar í bráðabirgðaúrskurði þessum en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn þessa þáttar málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.  Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.

Í máli þessu er krafist ógildingar deiliskipulagsákvörðunar og byggingarleyfis sem við hana styðst vegna Arnargötu 10. Hið umdeilda deiliskipulag heimilar að reist verði viðbygging, allt að 50 m², á tveimur hæðum með þaksvölum á viðbyggingunni. Nýtingarhlutfall hækkar við breytinguna úr 0,51 í 0,72. Á lóðinni er fyrir 120 m² einbýlishús og voru byggingarheimildir fyrir lóðina samkvæmt eldra skipulagi frá 28. maí 2008 fullnýttar fyrir umdeilda breytingu.

Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinna kærðu ákvarðana, m.a. er til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið til að grenndarkynna tillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Framkvæmdir eru þegar hafnar og geta haft röskun í för með sér, m.a. fyrir kærendur. Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir sem hafnar eru á grundvelli samþykktar byggingarfulltrúans í Reykjavík 25. mars 2014, um að veita leyfi til að byggja viðbyggingu við húsið að Arnargötu 10, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
 

__________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson