Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

43/2013 Höfðaströnd

Árið 2014, fimmtudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 43/2013, kæra á ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2013 vegna fasteignarinnar Höfðastrandar í Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2013, er barst nefndinni 3. s.m., kærir Ó, Brunnagötu 20, Ísafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að leggja sorpförgunargjald á fasteignina Höfðaströnd í Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að kærð sé álagning sorpgjalds fyrir árið 2013 og að gerð sé krafa um að hún verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Ísafjarðarbæ 6. mars 2014.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2013 eru dagsettir 30. janúar 2013. Kæranda var gert að greiða 13.230 krónur í sorpgjald vegna Höfðastrandar. Með bréfi til Ísafjarðarbæjar, dags. 15. febrúar s.á., óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Í svari, dags. 18. s.m., sagði að ósk um lækkun sorpgjalda væri hafnað. Var vísað til sorpsamþykktar Ísafjarðabæjar um að sumarhús skyldu bera lágmarkssorpgjald og að ógjörningur væri að fylgjast með notkun. Þá væri greitt fullt sorpgjald vegna margra íbúða þótt þær væru ekki nýttar nema nokkra daga á ári. Kærandi sendi annað bréf, dags. 13. mars s.á., þar sem hann óskaði eftir að fá að semja við annan aðila um sorpförgun og fá gjaldið fellt niður. Erindinu var hafnað í bæjarráði og kæranda tilkynnt þar um með bréfi, dags. 27. s.m. Kærandi leitaði til umboðsmanns Alþingis sem leiðbeindi henni um kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að um sé að ræða eyðijörð sem sé flokkuð sem sumarhús. Kerfið eigi að virka þannig að komið sé með sorp frá Höfðaströnd og það sett í gám, sem eigi að vera staðsettur við Ísafjarðarhöfn. Sé sorpförgunargjaldið því aðeins förgunargjald en ekki sorphirðugjald. Þá bendir hún á að fyrirtæki í Ísafjarðarbæ séu ekki hluti af sorpförgunarkerfi bæjarins heldur semji þau sjálf við förgunaraðila.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Sorpgjöld hafi í fyrsta sinn verið lögð á sumarhús í Ísafjarðarbæ árið 2012, en skv. 9. gr. sorpsamþykktar Ísafjarðarbæjar skuli öll íbúðarhæf sumarhús greiða 50% af sorpförgunargjaldi. Í álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2013 sé gjaldið 13.230 krónur, eða innan við 33% af sorpförgunargjaldi, sem sé 39.300 krónur, en árið 2012 hafi gjaldið verið 14.700 krónur. Ísafjarðarbær hafi komið fyrir sorpílátum annars vegar við smábátahöfnina á Ísafirði og hins vegar á Snæfjallaströnd. Allt sorp frá Hornströndum sé losað á annan hvorn þessara staða en ekki sé heimilt að brenna rusli á Hornströndum. Því þurfi ferðafólk að taka það með sér þegar það fari þaðan og falli mikið sorp til vegna þessa.

Í 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs segi m.a. að innheimta skuli gjald fyrir förgun úrgangs. Gjaldið skuli nægja fyrir öllum kostnaði við förgun, þ.m.t. uppsetningu og rekstur viðkomandi förgunarstaðar. Sveitarfélaginu sé heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi en gjaldið skuli þó aldrei vera hærra en nemi þeim kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu vegna þess.

Á Hornströndum séu skráð 52 sumarhús og því megi áætla að Ísafjarðarbær hafi 687.960 krónur í tekjur vegna sorphirðugjalda á árinu 2013 en 764.400 krónur á árinu 2012. Þegar litið sé á heildartekjur Ísafjarðarbæjar vegna sorphirðu megi sjá að þær séu töluvert undir sorphreinsunarkostnaði og hafi verið það undanfarin fimm ár. Áætlanir sveitarfélagsins bendi til að svo verði einnig árið 2014.

   Áætlun 2014         2013       2012  2011
Skatttekjur -64.280.000 -64.480.289 -71.972.624 -71.186.386
Sorphreinsun 69.000.000 77.710.498 121.742.272 100.392.786
Tap 4.720.000 13.230.209 49.769.648 29.206.400

Aðrar tekjur v/
sorpeyðingar -8.348.880 -10.018.616 -11.718.347 21.890.855
Önnur gjöld v/
sorpeyðingar 11.455.422 13.103.397 11.992.904 1.752.748
Rekstrarniðurstaða 7.826.542 16.314.990 50.044.205 9.068.293

Ljóst sé að heildartekjur sveitarfélagsins hafi verið mun lægri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangs og sé eyðing sorps hjá sveitarfélaginu því rekin með verulegu tapi. Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustu vegna sorps, sbr. 8. gr. sorpsamþykktar Ísafjarðarbæjar. Þar sem sorphirða sé til staðar og jafnframt rekin með tapi sé ekki grundvöllur til að fella gjaldið niður.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á sumarbústað. Álagningarseðill er dagsettur 30. janúar 2013 og kæra barst rúmum þremur mánuðum seinna, eða 3. maí s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi bað um rökstuðning með bréfi, dags. 15. febrúar 2013, og var hann veittur með bréfi, dags. 18. s.m. Þá óskaði kærandi með bréfi, dags. 13. mars s.á, eftir að ákvörðunin yrði endurskoðuð, en beiðninni var hafnað með bréfi 27. s.m. Nýr kærufrestur byrjar að líða að tilkynntum rökstuðningi, skv. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 73/1993, og rofnar kærufrestur við beiðni um endurupptöku máls, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Kæranda voru hvorki veittar leiðbeiningar um kæruleið og kærufrest með upphaflegri ákvörðun né í síðari bréfum stjórnvaldsins, en var leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 24. apríl 2013. Með vísan til framangreinds er talið afsakanlegt að kæran hafi borist utan kærufrests og verður málið því tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ísafjarðarbær setti með vísan til þessa samþykkt nr. 1221/2011, um sorphirðu í Ísafjarðarbæ, sem staðfest var af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 28. desember 2011. Í samþykktinni segir að Ísafjarðarbær annist söfnun sorps frá íbúðarhúsnæði í þéttbýli og á gámastöðvum fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli. Þá annist bærinn förgun úrgangs, sbr. 2. mgr. 1. gr. samþykktarinnar. Í dreifbýli sé heimilt að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili, sbr. 4. mgr. 3. gr.

Sveitarfélögum er skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. samþykktar nr. 1221/2011 innheimtir bæjarstjórn Ísafjarðar gjald fyrir förgun úrgangs og er sveitarfélaginu heimilt að innheimta gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar 11. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Gjöld fyrir hirðu og förgun úrgangs skulu innheimtast með fasteignagjöldum og skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóta þjónustunnar, sbr. 2. mgr. 8. gr. samþykktarinnar. Um álagningarforsendur segir í 9. gr. að öll sumarhús í Ísafjarðarbæ greiði 50% af sorpförgunargjaldi.

Ísafjarðarbær setti, með vísan til fyrri samþykktar fyrir sorphirðu hjá Ísafjarðarbæ nr. 135/2000 og 25. gr. laga nr. 7/1998, gjaldskrá nr. 304/2010 fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Ísafjarðarbæ, sem var birt 9. apríl 2010. Þar kemur fram í 1. gr. að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar sé heimilt að leggja á sérstakt gjald vegna sorphirðu, þ.e. sorphreinsunar og sorpeyðingar, í Ísafjarðarbæ. Gjaldið fyrir íbúðir og íbúðarhúsnæði er alls 41.580 krónur, sem skiptist í sorphirðugjald að fjárhæð 13.500 krónur og sorpeyðingargjald að fjárhæð 28.080 krónur, sbr. A-lið 1. mgr. 2. gr. Vegna sumarbústaða og íbúðarhúsnæðis með ákvæði um takmörkun á íveru vegna snjóflóðahættu skal greiða 14.000 króna sorpeyðingargjald, eða tæplega helming hins almenna sorpeyðingargjalds, en ekki er innheimt sorphirðugjald vegna slíkra eigna. Bæjarstjórn hefur heimild til að breyta gjaldtöku, með tilliti til réttmætis athugasemda við gjaldtöku, sbr. 4. gr. Hafnað var að beita nefndri heimild til lækkunar í máli kæranda og verður að telja að sú ákvörðun hafi verið tekin á málefnalegum grundvelli enda liggur fyrir að Ísafjarðarbær hefur með almennum hætti ákveðið lægri gjöld á sumarhús, sbr. álagningarforsendur 9. gr. samþykktar nr. 1221/2011.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og er raunar skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 9. gr. samþykktar nr. 1221/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hennar. Er fjárhæðin sem kærandi var krafinn um lægri en sú sem heimilt var að leggja á. Þá var heildarkostnaður sveitarfélagsins samkvæmt framlögðum gögnum hærri en heildarútgjöld þess. Í samræmi við framangreint verður kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um að leggja á sorpgjald fyrir árið 2013 vegna fasteignarinnar Höfðaströnd í Jökulfjörðum, Ísafjarðarbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson