Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2005 Rafstöðvarvegur

Ár 2005, miðvikudaginn 4. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2005, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og bílskúr við austurhlið hússins að Rafstöðvarvegi 31 í Reykjavík.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. apríl 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu með kjallara við austurgafl parhússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki byggingarinnar ásamt byggingu bílskúrs með kjallara.  Þessi ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 1. mars 2005.  Gerir kærandi þá kröfu að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og heimilaðar framkvæmdir stöðvaðar þar til efnisúrlausn liggi fyrir í málinu.

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis þar sem fyrrgreind viðbygging er heimiluð og skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi er barst nefndinni hinn 15. október 2004.

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna greindrar skipulagskæru og umþrætts byggingarleyfis barst úrskurðarnefndinni hinn 2. maí sl., en gefa þarf kæranda kost á að tjá sig um hana.  Með hliðsjón af því og þeirri staðreynd að undirbúningur framkvæmda var þegar hafinn er byggingarleyfishafa varð kunnugt um kæruna verður ekki dregið að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda enda er málið enn ekki tækt til efnisúrlausnar.  Verður hér því einungis tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda og málið reifað með hliðsjón af því.

Málsatvik og rök:  Hús kæranda stendur norðaustanvert við hús byggingarleyfishafa og eiga fasteignirnar sameiginleg lóðamörk.  Hinn 11. desember 1995 samþykkti skipulagsnefnd Reykjavíkur uppdrátt af íbúðarsvæði við Rafstöðvarveg þar sem lóðir voru m.a. afmarkaðar og skilmálar settir um íbúðarbyggðina.  Samkvæmt þeim uppdrætti var heimilað að reisa bílskúra á lóðum kæranda og byggingarleyfishafa.  Uppdráttur þessi og skilmálar voru staðfestir í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. febrúar 1996. 

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á fyrrgreindum skipulagsuppdrætti að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fól sú breyting það í sér að heimilað var að reisa einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, 38 fermetra að grunnfleti, við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki viðbyggingarinnar. Við grenndarkynningu tillögunnar komu fram athugasemdir af hálfu íbúa hússins að Rafstöðvarvegi 29, þ.á m. kæranda í máli þessu, þar sem kærandi taldi umrædda viðbyggingu ganga óhæfilega á grenndarrétt hans með útsýnisskerðingu og skertum nýtingarmöguleikum á lóð.  Taldi hann að téðar framkvæmdir myndu rýra verðgildi fasteignar hans.  Af hálfu Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa er á því byggt að umdeild viðbygging hafi lítil sem engin grenndaráhrif gagnvart kæranda en komið hafi verið til móts við framkomnar athugasemdir hans með því að minnka glugga á gafli viðbyggingarinnar og færa fyrirhugaða verönd á þaki hennar um einn og hálfan metra frá þakbrún.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. september 2004 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar.  Skaut kærandi umræddri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar eins og fyrr greinir.

Hinn 15. febrúar 2005 veitti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu, sem heimiluð hafði verið með fyrrgreindri skipulagsbreytingu, ásamt bílskúr og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar með skírskotun til þeirra raka sem færð voru fram gegn skipulagsbreytingunni.  Hefur Reykjavíkurborg mótmælt kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda með sömu rökum og færð voru fram í svörum borgarinnar við framkomnum athugasemdum kæranda við meðferð fyrrgreindrar skipulagsbreytingar.  Byggingarleyfishafi hefur bent á að hann hafi þegar verið búinn að semja um framkvæmd verksins og undirbúningur hafinn þegar honum varð kunnugt um málskot kæranda á skipulagsbreytingunni og veittu byggingarleyfi og myndi stöðvun verksins óhjákvæmilega hafa í för með sér verulegt óhagræði og fjártjón fyrir hann.

Niðurstaða:  Hið umþrætta byggingarleyfi heimilar byggingu um 20 fermetra bílskúrs norðaustan við parhúsið að Rafstöðvarvegi 31 með kjallara.  Umrædd bílskúrsbygging á stoð í fyrrgreindum uppdrætti fyrir íbúðarbyggð við Rafstöðvarveg sem samþykktur var fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en meta verður uppdráttinn sem gildan deiliskipulagsuppdrátt fyrir umrætt svæði samkvæmt 11. tl. bráðabirgðaákvæðis greindra laga.  Jafnframt er heimiluð einnar hæðar viðbygging með kjallara, sem verður í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum kæranda í vestur.  Á þaki viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir verönd í eins og hálfs metra fjarlægð frá þakbrún að framanverðu.  Er viðbyggingin 38 fermetrar að grunnfleti en með heimiluðum kjallara er heildarflatarmál hennar 63 fermetrar  Á sú viðbygging stoð í skipulagsbreytingunni er tók gildi hinn 30. september 2004 og sætt hefur kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verður heildarbyggingarmagn á lóðinni að Rafstöðvarvegi 31 473,6 fermetrar en lóðin er 1124 fermetrar.  Fer nýtingarhlutfall lóðarinnar því í 0,42.

Umdeild viðbygging er ekki stór að grunnflatarmáli og stendur hún lægra en núverandi austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 þar sem háreist rishæð rís frá fyrstu hæð hússins.  Verða grenndaráhrif byggingarinnar því ekki talin veruleg með hliðsjón af umfangi hennar.  Eins og málið liggur nú fyrir og í ljósi aðstæðna sem raktar hafa verið þykja ekki efni til, með hliðsjón af hagsmunum málsaðila, að stöðva þegar hafnar framkvæmdir þar til efnisniðurstaða liggur fyrir í kærumálum kæranda.  Frekari framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru hins vegar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er hafnað.

 

____________________________________
Jóhannes Rúnar Jóhannsson

 

______________________________           _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Ingibjörg Ingvadóttir