Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/1998 Skútustaðaskóli

Ár 1998, fimmtudaginn 9. júlí kl. 16:00, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru: formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson hæstaréttarlögmaður, og aðalmennirnir Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/1998; 98050003

Kæra Ólafs Axelssonar hrl. f.h. B, G og K Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi vegna samþykktar byggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á viðbygginu við Skútustaðaskóla, staðfestingar hennar í sveitarstjórn 30. apríl 1998 og eftirfarandi framkvæmda.       

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. maí 1998, sem barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir Ólafur Axelsson hrl. f.h. B,  G  og  K, Skútustöðum 2, Skútustaðahreppi samþykkt byggingarnefndar Skútustaðahrepps frá 16. apríl 1998 á umsókn Jóns Ó. Ragnarssonar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við Skútustaðaskóla, afgreiðslu sveitarstjórnar 30. apríl 1998 á henni, útgáfu byggingarleyfis sama dag og eftirfarandi framkvæmdir.

Um kæruheimild vísast til 39. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 8. gr. sömu laga.

Kærendur krefjast ógildingar hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana og að breytt notkun hússins verði bönnuð. 

Málsatvik:  Helstu málsatvik eru þau að á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 23. mars 1998 var samþykkt að selja J skólahúsið að Skútustöðum.  Hafði húsið verið auglýst til sölu með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 14. febrúar 1998 og var þess m.a. óskað í auglýsingunni að í tilboðum kæmu  fram hugmyndir um  notkun hússins í framtíðinni.  Bárust þrjú tilboð í húsið og var eitt þeirra frá Mývatni ehf., sem kærandinn K er stjórnarmaður í, auk þess sem hann er framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrir félagið.  Í tilboði félagsins er tekið fram að meginhugmyndin með kaupum á húsnæðinu sé að færa út starfsemi félagsins í ferðaþjónustu, uppbyggingu hótelrýmis ásamt sýningar- og ráðstefnuaðstöðu. 

Eftir að gengið hafði verið frá sölu skólahússins hófst kaupandi handa við framkvæmdir við endurbætur á eigninni, en hann hyggst reka í henni veitinga- og gistihús.  Sótti hann um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið og var byggingarleyfisumsókn hans samþykkt í byggingarnefnd hreppsins hinn 16. apríl 1998.  Samþykkt byggingarnefndar var staðfest af sveitarstjórn hinn 30. apríl 1998 og var byggingarleyfi gefið út sama dag. 

Þar sem kærendur töldu nýbygginguna og hina breyttu notkun hússins fara í bága við skipulag og skipulagslög  kærðu þeir umræddar stjórnvaldsathafnir til úrskurðarnefndarinnar eins og að ofan greinir.

Með rökstuddum úrskurði, uppkveðnum hinn 12. júní 1998, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um að framkvæmdir við viðbyggingu og breytingar á húsinu yrðu stöðvaðar.  Við meðferð þess þáttar málsins tók Dr. Sigurður Erlingsson prófessor sæti í nefndinni sem varamaður Þorsteins Þorsteinssonar vegna fjarveru Þorsteins. Þorsteinn tók sæti í nefndinni eftir uppkvaðningu téðs úrskurðar og hefur tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um málið frá þeim tíma.

Málsástæður og lagarök kærenda:  Kærendur telja í fyrsta lagi, að ekkert löglegt staðfest skipulag sé í gildi fyrir svæði það sem skólahúsið stendur á.  Skipulag, sem umhverfisráðherra hafi staðfest fyrir Skútustaðahrepp  hinn 31. desember 1997, verði að teljast ólögmætt þar eð það hafi ekki verið réttilega kynnt.  Hafi slíkar breytingar verið gerðar á þeirri skipulagstillögu, sem upphaflega var kynnt, að auglýsa hefði þurft þær sérstaklega.  Þá telja kærendur að umræddar breytingar hafi ekki verið Skipulagsstofnun og ráðherra ljósar við afgreiðslu þeirra á málinu.  Auk þess telja kærendur að breytingarnar hafi ekki haft lagastoð. Ekki hafi verið aflað meðmæla Skipulagsstofnunar, sbr. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997, svo sem þurft hefði við þessar aðstæður. Þá sé ekki vitað til þess að framkvæmdir hafi hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins sbr. 3. gr. laga nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Í öðru lagi telja kærendur að jafvel þótt gilt skipulag væri fyrir hendi séu slíkir annmarkar á allri meðferð málsins að ekki verði séð að gild leyfi séu fyrir breyttri notkun hússins eða viðbyggingu við það.  Ekki hafi verið sótt um leyfi til að breyta notkun hússins.  Þá hafi ekki verði gætt ákvæða laga nr. 73/1997 um að afla meðmæla Skipulagsstofnunar eða viðhafa grenndarkynningu svo sem þurft hefði í umræddu tilviki.  Loks hafi framkvæmdir verið hafnar áður en leyfi sveitarstjórnar hafi verið gefið út.

Málsrök byggingarnefndar, sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og byggingarleyfishafa:  Af hálfu sveitarstjórnar er á því byggt að aðalskipulag Skútustaðahrepps, sem staðfest var af ráðherra hinn 31. desember 1997, hafi fullt gildi.  Framkvæmdir þær, sem kæran tekur til séu, í fullu samræmi við umrætt skipulag svo og fyrirhuguð notkun hússins.  Öllum, sem hlut eiga að málinu, hafi mátt vera ljóst að í umræddu húsi væri áformuð breytt notkun frá því sem áður var enda hafi verið auglýst eftir tillögum að notkun hússins þegar það var auglýst til sölu.  Hafi allir tilboðsgjafar haft uppi áform um að nýta húsið í tengslum við ferðaþjónustu og hafi húsið verið selt núverandi eiganda til slíkra nota.  Þessi áform hafi ekki átt að koma kærendum á óvart enda hafi það verið alkunna í hreppnum að Mývatn ehf. hefði hug á að eignast húsið til þess að færa út starfsemi sína í ferðaþjónustu. Þá er á því byggt af hálfu sveitarstjórnar að ekki hafi þurft sérstakt leyfi Náttúruverndar ríkisins í málinu þar eð stofnunin hafi fallist á skipulagsáætlun þá sem eftir sé farið.  Þá sé ekki um að ræða breytta notkun hússins frá því sem gert sé ráð fyrir í gildandi  skipulagi  auk þess sem gistiþjónusta hafi verið rekin í húsinu um áratugi án þess að við það hafi verið gerðar athugasemdir fyrr en nú.    Loks er á því byggt að ekki hafi verið þörf á að gera deiliskipulag af svæðinu þar sem um sé að ræða framkvæmdir á skýrt afmarkaðri lóð til ákveðinna nota. Byggingarleyfishafi hefur munnlega tjáð sig um málið við úrskurðarnefndina og tekur undir sjónarmið byggingarnefndar og sveitarstjórnar í málinu.

Umsögn Skipulagsstofnunar:
Í umsögn Skipulagsstofnunar í málinu dags. 3. júní 1998 kemur fram það álit, að enda þótt eðlilegra hefði verið að kynna sérstaklega breytingu þá sem varð á tillögu að aðalskipulagi Skútustaðahrepps varðandi landnotkun umhverfis skólahúsið að Skútustöðum, frá auglýsingu að endanlegri tillögu, sé ekki um slíka annmarka að ræða að leiða eigi til ógildingar á staðfestingu og gildi aðalskipulagsins.  Í húsinu hafi verið rekin ferðamannaþjónusta á sumrin og breytingin því í raun frekar aðlögun að raunverulegri landnotkun  en tillaga um breytta landnotkun. Hins vegar er það skoðun Skipulagsstofnunar að leita hefði þurft meðmæla Skipulagsstofnunar eða láta fara fram grenndarkynningu til þess að fullnægt væri skilyrðum laga um heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag.

Niðurstaða:  Ekki verður fallist á að þeir annmarkar hafi verið á gerð og undirbúningi aðalskipulags Skútustaðahrepps að varði ógildingu.  Verður því lagt til grundvallar að í gildi sé aðalskipulag það sem staðfest var af umhverfisráðherra hinn 31. desember 1997.  Eru hinar umdeildu framkvæmdir í samræmi við það. Hefur skipulag þetta hlotið staðfestingu Náttúruverndar ríkisins og var því ekki þörf sérstaks leyfis til hinna umdeildu framkvæmda sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. 

Það verður ekki talið varða ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis, þótt í umsókn um það sé ekki með formlegum hætti sótt um leyfi til að breyta notkun húss. Var gerð grein fyrir þeim áformum, sem umsækjandi hafði um starfsemi í húsinu, undir liðnum „aðrar upplýsingar“ í umsókninni auk þess sem þau áform voru þekkt forsenda umsækjandans við kaup hans á húsinu.

Þá kemur til skoðunar hvort sveitarstjórn hafi borið að leita meðmæla Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 eða láta fara fram grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna sbr. 2. mgr. 23. greinar.  Að því er fyrra atriðið varðar þá telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið þörf á að leita meðmæla Skipulagsstofnunar með umræddum framkvæmdum þar sem fyrir hendi var nýlega staðfest aðalskipulag og samrýmdust áform handhafa hins umdeilda byggingarleyfis um notkun skólahússins að Skútustöðum forsendum skipulagsins um landnotkun.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps, sem jafnframt gegnir störfum skipulagsnefndar í hreppnum, taldi ekki þörf á að hlutast til um grenndarkynningu þegar leyfi fyrir hinni umdeildu viðbyggingu og breyttri notkun hússins var veitt.  Var það mat sveitarstjórnar að þar sem um langt skeið hefði verið rekið gistiheimili í skólahúsinu að sumri til þá væri ekki um að ræða slíka breytingu að leita þyrfti álits nágranna.  Að því er viðbygginguna varðar hefur verið bent á það af hálfu sveitarstjórnar að hún er ekki í sjónlínu frá byggðinni sunnan þjóðvegarins auk þess sem þjóðvegurinn skilur þá byggð frá því svæði, sem skólahúsið er staðsett á. 

Fallast verður á að ekki hafi verið ástæða til þess að gangast fyrir grenndarkynningu í umræddu tilviki.  Ekkert hús í byggðinni sunnan þjóðvegarins, þar sem hann liggur um land Skútustaða, er innan 150 metra fjarlægðar frá byggingu þeirri, sem kæruefnið lýtur að.  Viðbygging sú sem leyfð var við húsið er að norðanverðu við austurálmu gamla skólahússins og í innhorni þess, en húsið er vinkilbygging.  Viðbyggingin er því í hvarfi  séð úr suðurátt og hefur því ekki í för með sér útlitsbreytingu á skólahúsinu séð frá þjóðveginum eða þjónustusvæði því, sem fyrir er að Skútustöðum sunnan vegarins. Verður ekki fallist á það að kærendur séu nágrannar, sem eigi hagsmuna að gæta, í skilningi 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Kemur þar bæði til fjarlægð eigna þeirra frá hinni umdeildu byggingu og afstaða fasteigna þeirra til viðbyggingarinnar sem að framan er lýst.  Það að einn kærenda hefur haft með höndum ferðaþjónustu að Skútustöðum þykir ekki skipta máli við úrlausn máls þessa, enda þykja atvinnuhagsmunir eða samkeppnissjónarmið ekki hafa átt að leiða til þess að grenndarkynningar væri þörf eins og atvikum er háttað í málinu.  Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt að hlutast til um grenndarkynningu áður en hið umdeilda byggingarleyfi var veitt og hafi henni því verið útgáfa þess heimil.  Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfum kærenda í máli þessu um ógildingu byggingarleyfis og um að breytt notkun umrædds húss verði bönnuð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu stjórnvaldsákvarðana og um að breytt notkun skólahússins að Skútustöðum verði bönnuð.