Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

15/1998 Grjótháls

Ár 1998, fimmtudaginn 9. júlí  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/1998, kæra lóðarhafa að Grjóthálsi 5 og 7-11 vegna byggingarleyfis fyrir veltiskilti á lóð Skeljungs hf. við Vesturlandsveg/ Grjótháls í Reykjavík.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 18. maí, 22. maí og 26. maí 1998 kæra Össur hf., Grjóthálsi 5, Ölgerðin Egill Skallagrímsson hf., Grjóthálsi 7-11 og Grjótháls ehf. vegna lóðarinnar að Grjóthálsi 5 byggingarleyfi fyrir veltiskilti sem byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum hinn 25. september 1997 og staðfest var af borgarstjórn hinn 2. október 1997. Kærendur, sem fyrst fengu vitneskju um útgáfu hins kærða leyfis í lok apríl og byrjun maí 1998, krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi.  Um kæruheimild er  vísað til 4. mgr. 39. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997 sbr. einnig 8. gr. sömu laga. 

Málavextir:  Með umsókn dagsettri 17. september 1997 sótti Skeljungur hf. um leyfi til að reisa veltiskilti á austurenda lóðar félagsins við Vesturlandsveg en lóð þessi liggur milli Vesturlandsvegar og Grjótháls andspænis lóðum kærenda. Samkvæmt uppdrætti, sem fylgdi umsókninni, er um að ræða 8,4 metra hátt burðarvirki og á því þrír skiltisfletir, sem hver um sig er 6,4 metrar á breidd og 4,2 metrar á hæð.  Umsókn þessi var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og í byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 25. september 1997 og staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 2. október 1997.  Engar framkvæmdir hafa enn verið hafnar við uppsetningu fyrirhugaðs skiltis og er svo að skilja að kærendur hafi frétt af áformum um uppsetningu þess af einhverri tilviljun í lok apríl og byrjun maí 1998. Liggur fyrir að þeim var ekki gerð grein fyrir útgáfu byggingarleyfis fyrir skiltinu þegar hún átti sér stað.  Eftir að kærendur fengu fregnir af áformum um uppsetningu skiltisins leituðu þeir upplýsinga um heimildir fyrir uppsetningu slíks skiltis og var þeim gerð grein fyrir útgáfu áðurgreinds byggingarleyfis með bréfum byggingarfulltrúa dags. 24. apríl og 4. og 19. maí 1998.  Með bréfum dags. 29. maí 1998 leitaði úrskurðarnefndin umsagna Skipulagsstofnunar og byggingarnefndar Reykjavíkur um málið og kynnti Skeljungi hf. kæruefnið og gaf félaginu kost á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu.  Var óskað eftir svörum þessara aðila eigi síðar en hinn 16. júní 1998.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að umrætt skilti muni skyggja verulega á húseignir þeirra og að þegar þeim var veitt byggingarleyfi til bygginga á lóðum sínum hafi ekkert komið fram um að búast mætti við mannvirki af þessu tagi á þessum stað.  Af hálfu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar hf. er þar að auki á það bent að hönnun húss þeirra hafi sérstaklega tekið mið af þeirri starfsemi, sem fram fari í húsinu.  Hafi byggingarnefnd auðvitað verið kunnugt um hönnun og útlit bygginga fyrirtækisins þegar afstaða var tekin til hins umdeilda byggingarleyfis.  Af hálfu Össurar hf. og Grjótháls ehf. er tekið fram, að samkvæmt gildandi skipulagi hafi ekki verið gert ráð fyrir byggingum framan við húseignina að Grjóthálsi 5.  Hafi þetta meðal annars ráðið miklu um staðarval er Össur hf. flutti starfsemi sína á þennan stað.  Kærendur telja að grenndarkynning hefði átt að fara fram áður en umsókn Skeljungs hf. um byggingarleyfi fyrir skiltinu gat komið til afgreiðslu.  Það að grenndarkynning fór ekki fram eigi að leiða til þess að fella beri hið umdeilda byggingarleyfi úr gildi.

Málsrök byggingarnefndar Reykjavíkur og byggingarleyfishafa:  Ekki hefur verið lögð fram greinargerð af hálfu Skeljungs hf. í málinu.  Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur hefur verið lögð fram umsögn um kæruefnið með bréfi dags. 25. júní 1998.  Þar kemur fram að ekki hafi verið venja að viðhafa grenndarkynningu vegna umsókna um skilti.  Er vísað í umsögninni til ákvæða 2. mgr. 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og því haldið fram að samkvæmt ákvæði þessu sé það á valdi byggingarnefndar að meta hvenær umsókn sé þannig háttað að kynna beri fyrir nágrönnum og þá því aðeins að um sé að ræða breytingar á húsum.  Tekið er fram, að ekki sé fyrir hendi samþykkt deiliskipulag fyrir viðkomandi svæði en samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé lóð Skeljungs á svæði fyrir verslunar- og þjónustumiðstöðvar en lóðir kærenda á svæði merktu iðnaðarsvæði.  Við meðhöndlun málsins hafi verið stuðst við samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 30. 6. 1996.  Þá hafi verið litið til þess að um sé að ræða tiltölulega stóra lóð og mikið rými í kring á svæði fyrir iðnað, verslun og þjónustu.  Eigi fyrri ákvörðun því að standa óbreytt.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Í umsögn Skipulagsstofnunar um kæruefnið er vísað til 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi voru þegar hið umdeilda byggingarleyfi var veitt.  Þá er einnig vísað til ákvæða 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992.  Er það álit stofnunarinnar að á grundvelli þessara ákvæða hefði byggingarfulltrúanum í Reykjavík borið að hlutast til um að fram færi grenndarkynning samkvæmt tilvitnuðu reglugerðarákvæði áður en hið umdeilda byggingarleyfi var veitt.  Þar sem slík grenndarkynning hafi ekki farið fram beri að fallast á kröfur kærenda um að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi.

Niðurstaða:  Við úrlausn máls þessa ber að fara að efnisreglum byggingarlaga nr. 54/1978 þar sem hið umdeilda byggingarleyfi var gefið út í gildistíð þeirra laga.  Um er að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd sbr. 1. mgr. 9. gr. þeirra laga og var málsmeðferð byggingarnefndar við það miðuð.  Mannvirki það sem hið umdeilda leyfi tekur til er verulegt að umfangi, 8,4 metra hátt frá jörðu og á því þrír skiltisfletir 6,4 metrar á breidd og 4,2 metrar á hæð.  Er flatarmál hvers skiltisflatar 26,88 fermetrar og samanlagt yfirborð skiltaflatanna þriggja því 80,64 fermetrar.  Flötum þessum er komið fyrir efst á burðarfæti skiltisins og vísa til þriggja átta.  Umlykja fletirnir rými sem er um það bil 74,5 rúmmetrar.  Úrskurðarnefndin telur að enda þótt ekki sé um húsbyggingu að ræða verði mannvirki af þessu tagi  að teljast nýbygging í skilningi ákvæðis 2. mgr. greinar 3.1.1. í byggingarreglugerð nr. 177/1992 og hafi byggingarnefnd því borið að gefa þeim nágrönnum, sem hún teldi hagsmuna eiga að gæta, rétt á að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd með tilskyldum hætti.  Verður ekki fallist á þá þröngu túlkun, sem fram kemur í umsögn byggingarnefndar, að reglur 2. mgr. greinar 3.1.1 í reglugerð nr. 177/1992 eigi einungis við um hús, enda leiðir af eðli máls að annars konar byggingar geta raskað grenndarhagsmunum í jafn ríkum mæli og húsbygging.  Þessi skilningur á sér einnig stoð í ákvæði 1. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 þar sem gerð mannvirkja, sem hafa áhrif á útlit umhverfisins, er háð sömu skilyrðum um leyfi og bygging, niðurrif og breyting húsa.  Telur úrskurðarnefndin að í ákvæðinu komi fram sá vilji löggjafans að umsóknir um heimildir til gerðar mannvirkja, sem áhrif hafa á útlit umhverfis síns, skuli sæta sömu takmörkunum og málsmeðferð og umsóknir um byggingu, niðurrif eða breytingu húsa.  Ákvæði byggingarreglugerðarinnar verði að skýra í samræmi við þennan vilja löggjafans enda hefði ekki verið stjórnskipulega heimilt að skerða með ákvæði í reglugerð þá réttarvernd og það réttaröryggi sem ákvæðum byggingarlaga um byggingarleyfi er ætlað að tryggja.
 
Eins og afstöðu fasteigna kærenda til fyrirhugaðs skiltis er háttað og vegna nálægðar þess og umfangs telur úskurðarnefndin þá eiga hagsmuna að gæta og er það því niðurstaða nefndarinnar að byggingarnefnd hafi borið skylda til að gefa þeim kost á að tjá sig um hinar fyrirhuguðu framkvæmdir eins og áskilið er í 2. mgr. greinar 3.1.1 í byggingarreglugerð nr. 177/1992 áður en leyfi fyrir framkvæmdunum var veitt.

Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur í máli þessu segir að stuðst hafi verið við samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 30. júní 1996, sem staðfest  var af borgarráði hinn 6. ágúst 1996.  Er samþykkt þessi meðal gagna málsins.  Þrátt fyrir það að stuðst hafi verið við samþykkt þessa við afgreiðslu málsins er svo að sjá að nokkuð hafi verið vikið  frá skilmálum hennar.

Á uppdrætti arkitekts af skiltinu dags. 2. september 1997, teikningu nr. A-001, sem árituð er af byggingarfulltrúa 23. september 1997, segir að heildarflatarmál skilta á lóðinni sé 42,89 fermetrar og að flatarmál skilta eftir tilkomu veltiskiltisins sé þar með 5,4 fermetrar á hverja 1000 fermetra lóðar.  Þessar staðhæfingar eru augljóslega rangar því eins og að framan er rakið eru skiltisfletir veltiskiltisins samtals 80,64 fermetrar.  Eru þá ótaldir fletir annarra skilta á lóðinni.  Í reynd er heildarflatarmál skilta á lóðinni eftir tilkomu veltiskiltisins um 96 fermetrar, sem svarar til rúmlega 12 fermetra á hverja 1000 fermetra lóðar, en lóðin er 7942 fermetrar.  Í grein 6.5 í ofangreindri samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur segir um skilti í miðhverfum og á verslunar- og þjónustulóðum að samanlögð stærð skilta skuli ekki fara yfir 8,0 fermetra fyrir hverja 1000 fermetra lóðar.  Er hið umdeilda byggingarleyfi ekki í samræmi við þessa skilmála, sem borgaryfirvöld hafa þó sjálf sett. Þá er svo að sjá að leyfi fyrir veltiskiltinu gangi einnig gegn ákvæðum samþykktarinnar í grein 6.9 um fjarlægð auglýsingaskilta á stöndum frá stofn- og tengibrautum og frá gatnamótum.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að afgreiða umsókn Skeljungs hf. um leyfi fyrir umræddu veltiskilti fyrr en að undangenginni grenndarkynningu.  Auk þess fari leyfið gegn samþykktum borgarinnar um skilti og hafi efnislegum skilyrðum því ekki verið fullnægt við útgáfu þess.  Beri því að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi útgefið af byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 25. september 1997, staðfest af borgarstjórn 2. október 1997, þar sem Skeljungi hf. er heimilað að reisa veltiskilti á lóð félagsins við Vesturlandsveg/Grjótháls í Reykjavík, er fellt úr gildi.