Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/1998 Laugaból

Ár 1998, fimmtudaginn 25. júní  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12 /1998

Kæra Ó, Laugabóli II, Mosfellsbæ vegna ákvörðunar byggingarnefndar og sveitarstjórnar Mosfellsbæjar um frestun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 3. maí 1998, er barst nefndinni hinn 8. maí 1998, kærir Ó þá ákvörðun byggingarnefndar Mosfellsbæjar að fresta afgreiðslu umsóknar hans um leyfi til byggingar hesthúss að Laugabóli II, Mosfellsbæ.

Málavextir:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum leitaði kærandi hinn 15. október 1997 til umboðsmanns Alþingis með kvörtun um að umsókn hans um byggingarleyfi frá því í nóvember 1996 hefði ekki verið svarað af hálfu Mosfellsbæjar.  Við eftirgrennslan umboðsmanns Alþingis um málið kom í ljós, að erindi kæranda hafði verið vísað til skipulagsnefndar og að á fundi hennar í byrjun desember 1996 hafði því verið frestað og ákveðið að óska eftir því að kannaður yrði vilji íbúa í Mosfellsdal fyrir því að hafinn yrði undirbúningur að gerð deiliskipulags.  Jafnframt kom í ljós að bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ teldu ekki rétt að veita leyfi til neinna nýbygginga á svæðinu fyrr en deiliskipulag hefði verið samþykkt.  Var það niðurstaða umboðsmanns Alþingis að ljóst væri að sú ákvörðun hefði verið tekin af hálfu Mosfellsbæjar, að afgreiða ekki umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrr en deiliskipulag fyrir Mosfellsdal hefði verið samþykkt. Umboðsmaður Alþingis gerði kæranda ítarlega grein fyrir þessari niðurstöðu sinni með bréfi dags. 26. mars 1998.  Bendir hann kæranda á það í bréfinu að í 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kveðið á um það, að telji einhver rétti sínum hallað með samþykkt byggingarnefndar eða sveitarstjórnar, sé honum heimilt að skjóta málinu til úrskurðarnefndar skv. 8. grein laganna innan mánaðar frá því að honum varð kunnugt um afgreiðslu sveitarstjórnar.  Er kæranda bent á að vísa máli sínu til úrskurðarnefndarinnar, enda geti umboðsmaður Alþingis ekki fjallað um kvörtun um málefni, sem skjóta megi til æðra stjórnvalds, fyrr en hið æðra stjórnvald hafi fellt úrskurð sinn í málinu.

Niðurstaða:  Bréf umboðsmanns Alþingis til kæranda ber ekki annað með sér en að það hafi verið sent í almennum pósti. Það er dagsett fimmtudaginn  23. mars 1998 og verður að ætla að það hafi borist kæranda fyrir lok mars.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni í hendur hinn 8. maí 1998.  Kærufrestur samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem kæranda hafði verið gerð grein fyrir í bréfi umboðsmanns Alþingis, var þá liðinn og þykir ekki skipta máli þótt kærubréfið sé dagsett 3. maí 1998, enda var það á ábyrgð kæranda að sjá til þess að það bærist úrskurðarnefndinni með tryggilegum hætti.  Samkvæmt framansögðu og með vísun til  28. greinar stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber að vísa máli þessu frá.

Úrskurðarorð: 

Kæru Ó, Laugabóli II, Mosfellsbæ dags. 3. maí 1998, þar sem kærð er ákvörðun byggingarnefndar og sveitarstjórnar Mosfellsbæjar um frestun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi, er vísað frá úrskurðarnefnd.