Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2008 Bárustígur

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Oddgeir Einarsson hdl., f.h. B, Bárustíg 7, Vestmannaeyjum, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja hinn 28. september 2005 var lögð fram svohljóðandi tillaga svonefnds umferðarhóps:  „1.  Bárustígur verði gerður að vistgötu frá Vestmannabraut að Vesturvegi (í framhaldi af Hilmisgötu) þannig að ákvæðum í gr. 1.14 í deiliskipulagi miðbæjarins verði framfylgt.  2.  Bannað verði að leggja bílum við gangstéttar frá Bárustíg 9 að Strandvegi.“  Var tillagan samþykkt og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að hafa samráð við viðeigandi aðila varðandi framgang málsins.  Lýtur ógildingarkrafa kæranda að 2. tl. bókunarinnar. 

Kærandi kveðst hafa verið eigandi hússins að Bárustíg 7 frá árinu 1991 og rekið þar bakarí um árabil.  Bílastæði framan við húsið séu verslunarrekstrinum mikilvæg og hafi þau verið forsenda fyrir kaupum á fasteigninni á sínum tíma.  Umdeild ákvörðun um bann við bifreiðastöðum hafi komið til framkvæmda í júlí 2006 og hafi komið kæranda í opna skjöldu enda hafi honum ekki verið tilkynnt um ákvörðunina.  Af hálfu kæranda hafi ítrekað verið gerðar athugasemdir við bifreiðastöðubannið, farið fram á endurskoðun ákvörðunarinnar og kallað eftir rökstuðningi að baki banninu en án árangurs.  Hafi kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar því ekki byrjað að líða. 

Ógildingarkrafa kæranda sé byggð á því að umrædd ákvörðun sé ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi enda eigi ákvarðanir um stöðvun og lagningu ökutækja undir lögreglustjóra skv. a lið 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Verði talið að ákvörðunin hafi verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi sé um deiliskipulagsákvörðun að ræða sem fari eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. um auglýsingu, kynningu og yfirferð Skipulagsstofnunar á deiliskipulagstillögu.  Við hina kærðu ákvörðun hafi þessara lagaákvæða ekki verið gætt og málsmeðferðin því brotið gegn reglum stjórnsýslulaga um rannsókn máls, andmælarétt, tilkynningaskyldu stjórnvalds og rökstuðning fyrir ákvörðun.  Um sé að ræða ákvörðun sem sé verulega íþyngjandi gangvart kæranda og snerti atvinnuhagsmuni hans. 

Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er byggt á því að hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Hvort heimilt sé eða ekki að stöðva eða leggja ökutækjum við gangstéttar sé háð ákvörðun viðkomandi lögreglustjóra en sveitarstjórn eigi aðeins tillögurétt í því efni, sbr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Umdeild tillaga sveitarstjórnar Vestmannaeyja hafi verið send lögreglustjóra sem hafi í kjölfar þess tekið ákvörðun um að banna að leggja bifreiðum við Bárustíg.  Hafi sú ákvörðun komið fram í auglýsingu sýslumanns um umferð í Vestmannaeyjum sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006. 

Fyrirliggjandi bréf kæranda frá árinu 2006 beri það með sér að honum hafi þá þegar verið ljóst efni umræddrar samþykktar eða bókunar umhverfis- og skipulagsráðs.  Ekki sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning fresti því að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar byrji að líða en í 21. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning skuli koma fram í síðasta lagi 14 dögum eftir að ákvörðun hafi verið birt viðkomandi.  Engin formleg beiðni um rökstuðning hafi borist frá kæranda þrátt fyrir vitneskju hans um málið á árinu 2006 og verði að telja kærufrest í málinu löngu liðinn. 

Niðurstaða:  Hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 25. september 2005 fól í sér samþykkt á tillögu til lögreglustjóra um umferðarmál við Bárustíg sem unnin var af starfshópi um umferðarmál á vegum sveitarfélagsins.  Hið umdeilda bann við stöðu bifreiða við Bárustíg sem þar var lagt til var síðan ákveðið af lögreglustjóra.  Var sú ákvörðun birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006 í auglýsingu nr. 337/2006 um umferð í Vestmannaeyjum. 

Samkvæmt 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fer lögreglustjóri með ákvörðunarvald um þau málefni sem hér um ræðir að fengnum tillögum viðkomandi sveitarstjórnar.  Ákvarðanir lögreglustjóra um umferðarmál samkvæmt téðu ákvæði eru ekki teknar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.  Verða þær því ekki bornar undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hefur nefndinni ekki verið falið úrskurðarvald um þær ákvarðanir í öðrum lögum. 

Hin kærða samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs var lögboðinn undanfari ákvörðunar lögreglustjóra en fól ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður sú samþykkt af þeim sökum ekki kærð ein og sér til úrskurðarnefndarinnar.  Þegar af þeirri ástæðu verður máli þessu vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________    _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson