Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2007 Kirkjuferjuhjáleiga

Ár 2008, fimmtudaginn 6. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2007, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 21. desember 2006 um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Reynir Karlsson hrl., f.h. eigenda jarðanna Grænhóls, Strýtu og Auðsholtshjáleigu í Ölfusi, samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 21. desember 2006 um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu. 

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hafa jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda við urðun sorps á svæðinu þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Ljóst er að í mörg ár hefur urðun sorps átt sér stað á svæðinu og þótti því ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þá kröfu kærenda að framkvæmdir yrðu stöðvaðar. 

Málavextir:  Deilumál þetta á sér langan aðdraganda og áður hafa ákvarðanir bæjarstjórnar Ölfuss varðandi sorpstöðina verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar.  Sorpstöð Suðurlands er í eigu 13 sveitarfélaga í Árnes- og Rangárvallasýslum og fer starfsemi stöðvarinnar fram í landi Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi, en í september 1992 var undirritaður leigusamningur milli landbúnaðarráðherra og sorpstöðvarinnar um leigu á 20 hekturum af landi jarðarinnar fyrir starfsemi sorpstöðvarinnar og gilti hann til ársloka 2017.  Aðal- og deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt á árinu 1994.  Var upphaflegt starfsleyfi stöðvarinnar gefið út sama ár sem og leyfi fyrir framkvæmdum.  Starfsleyfi stöðvarinnar var endurnýjað á árinu 1998 og er núgildandi starfsleyfi frá árinu 2002.  Í gildi er Aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 og samkvæmt því er svæði það er um ræðir skilgreint sem sorpförgunarsvæði. 

Á árinu 2001 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Ölfuss sorpstöðinni bréf þess efnis að urðun sorps á svæðinu væri í andstöðu við samþykkt deiliskipulag hvað hæð urðunarreina varðaði og krafðist þess að farið yrði eftir deiliskipulaginu, ella yrði beitt ákvæðum 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Mótmælti sorpstöðin framangreindu og vísaði til þess að í samþykktu deiliskipulagi kæmi hvergi fram leyfileg hámarkshæð urðunarreina.  Með bréfi Skipulagsstofnunar á árinu 2002 til sveitarfélagsins var greint frá því áliti stofnunarinnar að sniðmynd sem fylgt hefði skipulaginu á sínum tíma væri hluti af samþykktu deiliskipulagi svæðisins en á sniðmynd þessari voru m.a. tilgreindar hæðir urðunarreina. 

Eftir þetta áttu sér stað samskipti milli sorpstöðvarinnar og bæjarstjórnar er lutu að hæð urðunarreina á svæðinu.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarfélagsins, dags. 15. mars 2004, sagði m.a. eftirfarandi:  „Í deiliskipulagi fyrir sorpstöðina er fjallað um hæð urðunarreina en svo virðist sem hæð þeirra sé nokkru hærri en miðað var við í upphafi samkvæmt umræddu deiliskipulagi.  Skipulagsstofnun telur ljóst með tilliti til starfsemi sorpstöðvarinnar þá sé óframkvæmanlegt að lækka hæð urðunarreina til samræmis við gildandi deiliskipulag.  Má líta svo á að um sé að ræða ómöguleika, þar sem umrót sorphaugs leiðir til verulegs umhverfistjóns og mengunar.  Með þetta að leiðarljósi og þann ágreining sem um starfsemi stöðvarinnar hefur ríkt leggur Skipulagsstofnun til að gert verði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina.“ 

Í bréfi Umhverfisstofnunar til sorpstöðvarinnar, dags. 31. mars 2004, sagði m.a. eftirfarandi:  „Almenn ákvæði í starfsleyfi sorpstöðvarinnar gera það óheimilt að hróflað sé við úrgangi sem búið er að urða á urðunarsvæðinu.  Við rotnun lífrænna efna myndast meðal annars hauggas, sem aðallega samanstendur af metan og kolsýru. … Með ofangreint í huga telur Umhverfisstofnun að rekstraraðili geti ekki tryggt við lækkun urðunarreina að úrgangur valdi hvergi ónæði eða óþrifnaði … Umhverfisstofnun telur því ljóst að lækkun urðunarreina muni brjóta í bága við ákvæði starfsleyfis.“ 

Komu kærendur á framfæri mótmælum sínum vegna framangreinds og vísuðu m.a. til ákvæða 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til lögmanns kærenda, dags. 29. apríl 2004, sagði m.a. eftirfarandi:  „…er ljóst að um ómöguleika er að ræða við lækkun umræddra urðunarreina.  Þótt Umhverfisstofnun hafi í bréfi sínu fjallað um samhengi starfsleyfis og lækkun urðunarreina og það umhverfisslys sem af slíku leiðir þá fjallar erindi stofnunarinnar með skýrum hætti um efnislegar afleiðingar lækkunar urðunarreina og það umhverfisslys sem af slíku leiðir.  Niðurstaða Umhverfisstofnunar er að lækkun urðunarreina brjóti ákvæði starfsleyfis, sem m.a. er byggt upp af gildandi lögum og reglum umhverfisréttar.  Þar af leiðandi eru þær forsendur sem þér nefnið í bréfi yðar til Skipulagsstofnunar með vísan til 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 ekki fyrir hendi.“  Þá sagði m.a. eftirfarandi í bréfi Skipulagsstofnunar til lögmanns kærenda, dags. 29. október 2004,:  „Ljóst er að sveitarfélaginu ber að stöðva þær framkvæmdir sem fram fara og brjóta í bága við gildandi skipulag svæðisins.[…] Skipulagsstofnun telur hins vegar að eingöngu sé unnt að framfylgja 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga í þessu tilfelli, þ.e. að lækka urðunarreinar til samræmis við gildandi skipulag, ef fyrir liggur að mengunarvarnaryfirvöld telji slíkt ekki hafa í för með sér óásættanlega mengun og hættu.  Einnig minnir stofnunin á að slík framkvæmd væri ekki í samræmi við gildandi starfsleyfi sorpurðunarsvæðisins.  Einnig virðist stofnuninni ljóst að taka þarf til endurskoðunar skipulag svæðisins, s.s. hvað gera eigi ráð fyrir háum urðunarreinum til framtíðar.  Stofnunin telur hins vegar að til að sátt náist um málið, þurfi sveitarfélagið að endurskoða deiliskipulag svæðisins í samráði við hagsmunaaðila og leggja fram deiliskipulagstillögu til opinberrar kynningar sem fyrst.“ 

Hinn 3. nóvember 2004 var gert samkomulag milli Sorpstöðvar Suðurlands annars vegar og Sveitarfélagsins Ölfuss hins vegar um tilhögun sorpurðunar að Kirkjuferjuhjáleigu.  Í 4. gr. samkomulagsins sagði að aðilar þess væru sammála um að láta vinna, í samræmi við tilmæli Skipulagsstofnunar ríkisins er fram hafi komið í bréfi, dags. 15. mars 2004, nýtt deiliskipulag að urðunarsvæði í Kirkjuferjuhjáleigu.  Þá sagði í 5. gr. að urðunarrein nr. 7 yrði lækkuð til eðlilegs samræmis við þá hæð urðunarreina sem skilgreind yrði í nýju deiliskipulagi.  Bráðabirgðalækkun reinarinnar skyldi vera lokið fyrir 1. desember 2004 og endanlegum frágangi innan þriggja mánaða frá því að nýtt deiliskipulag tæki gildi.  Komu kærendur á framfæri mótmælum sínum vegna samkomulags þessa. 

Á fundi bæjarstjórnar hinn 23. júní 2005 var m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Tillaga að breytingu á deiliskipulagi á urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands.  Lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi á sorpurðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands í Kirkjuferjuhjáleigu dags. 13. apríl 2005 unnin af Landformi ehf.  Samþykkt samhljóða að heimila auglýsingu á tillögunni.“ 

Þá var á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar 12. júlí 2005 m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Bæjarstjórn hefur samþykkt að breytt deiliskipulag fyrir urðunarstað að Kirkjuferjuhjáleigu fari í auglýsingu.  Kallað hefur verið eftir að deiliskipulagsgögn frá Landformi berist skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd til að setja í auglýsingu.  Afgreiðsla:  Málið rætt.“ 

Hinn 22. júlí 2005 birtist auglýsing í Lögbirtingablaðinu þar sem sagði m.a. eftirfarandi:  „Auglýsing sbr. 1. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga og 2. mgr. 6.2.3 í skipulagsreglugerð.  Bæjarstjórn Ölfuss auglýsir hér með tillögu að breytingu á deiliskipulagi Sorpstöðar Suðurlands við Kirkjuferjuhjáleigu, Ölfusi, samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Deiliskipulagið og greinargerð hefur verið afgreitt á lögboðinn hátt í skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Sveitarfélagins Ölfuss.[…]  Við afgreiðslu þessa breytta skipulags fellur eldra skipulag úr gildi sem afgreitt var í sveitarstjórn Ölfuss í mars 1993 og staðfest af skipulagsstjórn ríkisins 28. apríl 1994.“  Komu m.a. kærendur á framfæri athugasemdum sínum vegna tillögunnar.  Á fundi bæjarráðs hinn 6. október 2005 voru teknar fyrir athugasemdir er borist höfðu og þeim svarað ásamt því að tillagan var samþykkt.  Á fundi bæjarstjórnar 27. sama mánaðar var fundargerð bæjarráðs samþykkt. 

Hinn 8. nóvember 2005 voru athugasemdir þær er bárust vegna tillögunnar kynntar í skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd og svör við þeim samþykkt.  Var um að ræða sömu svör og bæjarráð hafði áður veitt vegna sömu tillögu.  Var fundargerð þessi samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 25. nóvember 2005. 

Á fundi bæjarstjórnar 5. október 2006 var eftirfarandi fært til bókar:  „Deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Kirkjuferjuhjáleigu.  Lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands að Kirkjuferjuhjáleigu Ölfusi unnin af Landformi ehf.  Tillagan var samþykkt á fundi skipulags- byggingar- og umhverfisnefnd Ölfuss þann 8. nóvember 2005 og er um lítilsháttar orðalagsbreytingar að ræða.  Samþykkt samhljóða.“ 

Með bréfi Skipulagsstofnunar til bæjarstjóra, dags. 19. október 2006, var greint frá því mati stofnunarinnar að ekki hafi verið teknar til greina athugasemdir hennar varðandi deiliskipulagið.  Í bréfi lögmanns sveitarfélagsins til Skipulagsstofnunar, dags. 9. nóvember 2006, var greint frá fyrirhuguðum viðbrögðum vegna þessa og með bréfi stofnunarinnar til lögmannsins, dags. 16. nóvember 2006, var á þau fallist. 

Á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar hinn 19. desember 2006 var fært til bókar að deiliskipulagstillaga fyrir Sorpstöð Suðurlands hefði verið lagfærð til samræmis við athugasemdir sem Skipulagsstofnun hefði gert við staðfestingu á deiliskipulaginu og sé það þannig afgreitt til auglýsingar í Stjórnartíðindum.  Þá voru og samþykkt endurskoðuð svör nefndarinnar við athugasemdum er bárust á auglýsingartíma tillögunnar.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 28. desember 2006.  Bréf til þeirra er athugasemdir gerðu var dagsett 10. janúar 2007 og var auglýsing um gildistöku skipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. febrúar 2007. 

Skutu kærendur áðurgreindri ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur kveða mál þetta eiga sér langan aðdraganda en þau séu eigendur og/eða ábúendur jarða skammt frá urðunarsvæði Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi. 

Kærendur hafi fljótlega eftir að framkvæmdir hafi hafist tekið eftir því að á sorpurðunarsvæðinu væri ekki allt með felldu.  Bæði hafi virst sem magn sorps væri meira en gert hafi verið ráð fyrir í upphafi auk þess sem hæð urðunarreina væri ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Þá hafi frágangi á sorpi verið ábótavant. 

Í starfsleyfi stöðvarinnar frá 2002 sé gert ráð fyrir „…urðun úrgangsefna, allt að 30.000 tonnum á ári“ en í eldri starfsleyfum, sem gefin hafi verið út af Hollustuvernd ríkisins á árunum 1994 og 1998, hafi ekki verið tiltekið ákveðið magn úrgangsefna sem heimilt væri að urða.  Í þágildandi deiliskipulagi, sem nú hafi verið fellt úr gildi með nýju deiliskipulagi, hafi verið gert ráð fyrir að urðunarreinar gætu orðið allt að fimm metrum yfir landkóta.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 21. mars 2002, hafi verið staðfestur sá skilningur að líta bæri á sniðmynd sem hluta af þágildandi deiliskipulagi þar sem vísað væri til hennar á deiliskipulagsuppdrætti og hún hafi verið fylgigagn með aðal- og deiliskipulagstillögum á sínum tíma. 

Kærendur hafi um árabil krafist þess af sveitarstjórn að gengið væri eftir því að framkvæmd urðunar færi eftir eldra deiliskipulagi.  Skemmst sé frá því að segja að því hafi lítt verið sinnt af sveitarstjórn og sé hæð urðunarreina mun meiri en gert hafi verið ráð fyrir í eldra deiliskipulagi. 

Árið 2004 hafi málið tekið nýja stefnu þegar bæjarstjórn hafi vísað til þess að Umhverfisstofnun teldi óframkvæmanlegt að færa urðunarreinar í þá hæð sem gert hefði verið ráð fyrir í þágildandi deiliskipulagi og að Skipulagsstofnun hefði lagt til að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að urðunarreinar yrðu hækkaðar frá því sem gert hefði verið ráð fyrir.  Síðan þá hafi kærendur ítrekað komið á framfæri mótmælum sínum við þar til bær yfirvöld vegna áætlana um breytt deiliskipulag svæðisins sem í engu hafi verið sinnt. 

Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2005 hafi bæjarstjórn auglýst tillögu að breyttu deiliskipulagi sorpstöðvarinnar.  Þar hafi verið gert ráð fyrir að urðunarreinar gætu farið a.m.k. í 20 metra hæð.  Með bréfi, dags. 29. ágúst 2005, hafi kærendur mótmælt tillögunni og gert kröfu um að farið væri eftir þágildandi deiliskipulagi sem hafi gert ráð fyrir fimm metra jarðlagi yfir landkóta á hverjum stað.  Hafi þau ítrekað þau sjónarmið sín sem áður hafi komið fram að með tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins væri sveitarfélagið að freista þess að „…gera ólögmætt ástand lögmætt“, en slíkt væri ótvírætt brot á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þá hafi sveitarfélagið ekki nýtt sér þau úrræði sem fram komi í VI. kafla laga nr. 73/1997 til þess að koma í veg fyrir hina ólögmætu háttsemi sorpstöðvarinnar.  Þá hafi þau bent á að þau teldu óhjákvæmilegt að fram færi umhverfismat vegna breytinga á deiliskipulaginu þar sem breytingar væru það miklar að jafna mætti til nýs sorpurðunarsvæðis vegna verulega aukins sorps á svæðinu, a.m.k. á hvern fermetra lands.  Hafi þau minnt á að sorphaugarnir væru nálægt Ölfusárósi þar sem væri uppgöngustaður lax og silungs í þekktar laxveiðiár auk þess sem kærendur stundi þar hrossarækt.  Hafi þau einnig bent á að mikill sóðaskapur og lyktarmengun fylgdi sorphaugunum auk þess sem þeir skyggðu á fjallasýn kærenda.  Hafi þau einnig vakið athygli á að ekki væri annað að sjá en að bæjarstjórn hefði ákveðið að vinna eftir hinu nýja skipulagi, sbr. samkomulag hennar og sorpstöðvarinnar frá 3. nóvember 2004.  Skemmst sé frá því að segja að öllum athugasemdum kærenda hafi verið hafnað með bréfi, dags. 12. október 2005. 

Kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrskurði nefndarinnar þar sem þau séu eigendur og eða ábúendur nærliggjandi jarða í sömu sveit, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  G ehf. sé eigandi Grænhóls og Strýtu en þau G og K séu ábúendur þar.  K eigi jörðina Auðsholtshjáleigu með foreldrum sínum, þeim E og Þ, og systkinum sínum, þeim H og Þ. 

Þá sé bent á að ekkert framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út vegna framkvæmda samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi en slíkt sé ótvírætt brot á 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hafi sveitarstjórn borið því við að ekki þyrfti framkvæmdaleyfi þar sem framkvæmdir hafi hafist fyrir gildistöku laganna og að enginn áskilnaður hafi verið í eldri lögum um framkvæmdaleyfi.  Þá hafi sveitarstjórn haldið því fram að framkvæmdirnar ættu sér stoð í eldra skipulagi og væru því ekki háðar framkvæmdaleyfi.  Kærendur telji hins vegar að um sé að ræða meiriháttar framkvæmdir sem hafi veruleg áhrif á umhverfið og muni breyta ásýnd þess.  Öllum hljóti að vera ljóst að hækkun urðunarreina um fleiri metra frá eldra deiliskipulagi hljóti að teljast meiriháttar breyting á umhverfinu.  Það að framkvæmdir hafi verið hafnar fyrir gildistíð núgildandi laga geti ekki veitt afslátt frá þeim kröfum sem 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga setji mönnum ef verulegt rask verði á umhverfinu með nýju deiliskipulagi frá því sem verið hafi samkvæmt eldra deiliskipulagi.  Ef skilningur sveitarstjórnar réði þýddi það að hægt væri að gerbreyta ásýnd landsins þar sem upphaflegar framkvæmdir á svæðinu hefðu hafist fyrir gildistöku laganna, burtséð frá því hvaða framkvæmdir yrðu síðar þótt þær væru verulegar.  Það sé augljóslega ekki tilgangurinn með fyrrgreindu lagaákvæði, heldur hitt að tryggja að framkvæmdaleyfi verði fengið frá hlutaðeigandi yfirvöldum áður en óafturkræf spjöll verði unnin á landinu. 

Kröfu sína styðji kærendur við 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 8. gr. sömu laga.  Óheimilt hafi verið að gera nýtt deiliskipulag fyrir sorphaugana við þessar aðstæður „…fyrr en hin ólöglega bygging eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt“, eins og það sé orðað í ákvæðinu.  Þessa hafi ekki verið gætt, heldur hafi urðun farið fram án hlés langt umfram leyfilega hámarkshæð samkvæmt eldra deiliskipulagi og haldi nú áfram samkvæmt hinu nýja.  Þetta sé ótvírætt brot á 4. mgr. 56. gr. fyrrgreindra laga.  Því sé ekkert annað að gera en að fella samþykktina úr gildi. 

Málsrök Sveitarfélagins Ölfuss:  Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að mál þetta eigi sér langan aðdraganda en við mælingu á hæð urðunarreina á urðunarstað Sorpstöðvar Suðurlands í júlí 2001 hafi komið upp ágreiningur milli stöðvarinnar og sveitarfélagsins um hæð urðunarreina á svæðinu.  Í framhaldi af því hafi bæjarstjórn ákveðið að hefja undirbúning aðgerða í samræmi við skipulags- og byggingarlög er miðað hafi að því að urðun sorps í framangreindum urðunarreinum yrði hætt og þess gætt að hæð nýrra urðunarreina bryti ekki í bága við deiliskipulag. og hæð þeirra lækkuð til samræmis við þágildandi deiliskipulag.  Þá hafi einnig verið skorað á sorpstöðina að hætta þegar í stað urðun sorps í framangreindum urðunarreinum þannig að hæð þeirra bryti ekki í bága við deiliskipulag svæðisins.  Ágreiningur hafi hins vegar verið á milli sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar um túlkun á gildandi deiliskipulagi.  Samkomulag hafi náðst með sveitarfélaginu og sorpstöðinni um að urðun, er færi yfir tiltekin hæðarmörk, yrði tafarlaust hætt meðan fundin yrði lausn á málinu. 

Leitað hafi verið bæði til Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar varðandi úrlausn málsins.  Á grundvelli afstöðu þessara stofnana um þann ómöguleika sem fyrir hendi hafi verið um lækkun umræddra urðunarreina hafi sorpstöðin, í samráði við sveitarfélagið, farið að tilmælum Skipulagsstofnunar og gert breytingar á deiliskipulagi svæðisins.  Áður hafi verið gert samkomulag milli sorpstöðvarinnar og sveitarstjórnar um þessa ráðstöfun, eða hinn 3. nóvember 2004.  Hafi þá ágreiningur sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar um deiliskipulagið verið lagður til hliðar. 

Sveitarfélagið krefjist frávísunar málsins og byggi þá kröfu á því að kærendur eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kærendur hafi í engu rökstutt hvaða lögvörðu hagsmuni þeir telji sig hafa vegna breytinga á deiliskipulagi svæðisins.  Í kæru sé einungis tiltekið að kærendur séu eigendur eða ábúendur „…nærliggjandi jarða í sömu sveit“.  Tekið sé fram að hluti kærenda sé búsettur í Reykjavík, þ.e. Eyvindur og Þóra, auk þess sem einn kærenda, Hreggviður, búi í Svíþjóð.  Samkvæmt skráningu Fasteignamats ríkisins sé G ehf. eigandi Grænhóls og Strýtu en K, Þ, E og H eigendur Auðsholtshjáleigu.  Óútskýrð sé þá aðild G persónulega, Þ  og Þ. 

Talsverð vegalengd sé frá eignum kærenda og hins deiliskipulagða svæðis.  Fasteignin Grænhóll sé í meira en tveggja km fjarlægð og Auðsholtshjáleiga í rúmlega eins og hálfs km fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði.  Sama gildi um Strýtu.  Kærendur geti vissulega haft sértæka hagsmuni af tilteknum þáttum skipulagsins en þeir geti ekki haft beina, einstaklega og lögvarða hagsmuni af því að fá fellt úr gildi hið breytta deiliskipulag.  Hagsmunir þeirra af umræddu deiliskipulagi geti ekki talist meiri en annarra íbúa sveitarfélagsins eða þá Suðurlands alls, sbr. Hrd. mál nr. 171/2004. 

Þá hafi deiliskipulagið ekki í för með sér skerðingu á útsýni eða verulegar breytingar á umhverfi kærenda þegar miðað sé við staðsetningu húsa þeirra, afstöðu og fjarlægð þeirra frá hinu deiliskipulagða svæði, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2006.  Þá verði að hafa í huga að með breytingu á deiliskipulaginu sé urðunarsvæðið minnkað frá því sem gilt hafi samkvæmt hinu eldra skipulagi auk þess sem breytingin hafi ekki í för með sér hækkun á landhæð urðunar. 

Bent sé á að þegar kærendur hafi sett fram kæru sína til úrskurðarnefndarinnar hinn 7. mars 2007 hafi verið rekið dómsmál vegna sama kæruefnis og fleiri atriða fyrir Héraðsdómi Suðurlands.  Úrskurður í því máli hafi ekki verið kveðinn upp fyrr en 4. apríl 2007.  Þar sem mál verði ekki rekið samhliða fyrir úrskurðarnefndinni og dómstólum hafi borið að vísa því frá nefndinni. 

Verði ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins um frávísun sé á það bent að við samþykkt og auglýsingu hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið farið í einu og öllu eftir málsmeðferðarreglum, bæði skipulags- og byggingarlaga sem og stjórnsýslulaga.  Þannig hafi tillagan verið auglýst, aðilum gefinn kostur á að koma að athugasemdum, þeim svarað og hið samþykkta skipulag sent Skipulagsstofnun.  Fullt tillit hafi verið tekið til athugasemda Skipulagsstofnunar og deiliskipulaginu breytt í samræmi við þær. 

Hafnað sé með öllu þeirri málsástæðu kærenda að óheimilt hafi verið að gera breytingar samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi vegna ákvæða 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Við skoðum ákvæðisins sé ljóst að þvingunarúrræði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir samkvæmt IV. kafla laganna en ekki framkvæmdir sem falli undir III. kafla þeirra, eins og þær framkvæmdir sem hér um ræði, þ.e. framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi. 

Hvað varði þá málsástæðu kærenda að framkvæmdaleyfi hafi ekki verið gefið út vegna framkvæmda samkvæmt hinu nýja skipulagi, og sé slíkt ótvírætt brot á 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga, sé bent á að framkvæmdir við sorpurðun á umræddu svæði hafi hafist löngu fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga.  Ákvæði 27. gr. hafi verið nýmæli í lögum við gildistöku þeirra.  Því séu framkvæmdir við sorpurðun á umræddu svæði ekki framkvæmdaleyfisskyldar. 

Verði ekki fallist á að 56. gr. skipulags- og byggingarlaga eigi ekki við í málinu sé bent á að í 4. mgr. þeirrar greinar segi:  „Óheimilt er að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“ 

Þannig segi í ákvæðinu að aðeins sé óheimilt að breyta skipulagi ef framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag og hið ólöglega jarðrask hafi ekki verið afmáð eða starfsemi hætt.  Í framangreindu ákvæði sé aðeins gerður áskilnaður um að ýmist skuli „…jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.“  Þannig sé í ákvæðinu ekki gerður áskilnaður um að jarðrask skuli afmáð í öllum tilvikum, heldur látið nægja að tiltaka að í ákveðnum tilvikum sé nægjanlegt að starfsemi skuli hætt.  Líkt og að framan greini hafi hinni umdeildu urðun verið hætt og leiði það til þess að 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi ekki getað staðið því í vegi að gert yrði nýtt deiliskipulag fyrir svæðið. 

Í ljósi þess að framangreint ákvæði 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga sé undantekningarregla verði að beita þröngri lögskýringu við túlkun ákvæðisins og verði það því aldrei túlkað á þann veg að allri starfsemi á svæðinu skuli hætt.  Telja verði nægjanlegt að aðeins þeirri starfsemi sem talin hafi verið í ósamræmi við skipulag hafi verið hætt, líkt og gert hafi verið. 

Sveitarfélagið hafni ennfremur röksemdum kærenda byggðum á 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga með vísan til þess að ákveðinn ómöguleiki sé fyrir hendi.  Líkt og að framan sé rakið hafi Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 31. mars 2004, gefið það álit sitt að lækkun þeirra urðunarreina sem taldar hafi verið brjóta í bága við gildandi deiliskipulag gæti stofnað heilsufari almennings í hættu og/eða valdið röskun lífríkis á svæðinu og nágrenni þess.  Þá hafi Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 15. mars 2004, látið í ljós það álit sitt, að teknu tilliti til eðlis starfsemi sorpstöðvarinnar, að óframkvæmanlegt væri að lækka urðunarreinar til samræmis við þær kröfur sem settar hafi verið fram.  Hafi Skipulagsstofnun litið svo á að um væri að ræða ómöguleika þar sem umrót sorphaugs leiddi til verulegs umhverfistjóns og mengunar.  Í þessu ljósi hafi Skipulags¬stofnun lagt til að gert yrði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina. 

Sveitarfélagið bendi á að hagsmunir þess og Sorpstöðvar Suðurlands, sem og alls samfélagsins á Suðurlandi, séu mun meiri af áframhaldandi starfsemi stöðvarinnar heldur en óljósir hagsmunir kærenda af stöðvun. 

Að endingu bendi sveitarfélagið á að kærendur vísi ítrekað í afgreiðslu Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar á erindum þeirra til framangreindra stofnana.  Rétt sé að taka fram að sveitarfélagið svari ekki fyrir gjörðir framangreindra stofnana.  Þau atriði sem lúti að afgreiðslu þeirra á erindum kærenda eigi að mati sveitarfélagsins ekki að falla undir úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og því máli þessu óviðkomandi.  Af þeim sökum sé í greinargerð að engu vikið að þessum röksemdum kærenda. 

Málsrök Sorpstöðvar Suðurlands:  Af hálfu Sorpstöðvar Suðurlands er bent á að með bréfi, dags. 28. maí 1993, hafi sveitarstjóri Ölfushrepps (nú Sveitarfélagið Ölfus) óskað eftir heimild frá skipulagsstjórn ríkisins til að auglýsa aðal- og deiliskipulag vegna svæðis fyrir sorpurðun í landi Kirkjuferjuhjáleigu í samræmi við 17. og 18. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964.  Samkvæmt upplýsingum frá Skipulagsstofnun hafi umræddu erindi fylgt gögn, m.a. þversnið af urðunarstað í mkv. 1:100 (sic), svonefnt snið A-A.  Einnig hafi fylgt með skipulaginu greinargerð þar sem fram hafi komið að innan lóðarmarka komi jarðvegsgarður um 1,5 m á hæð og ræktað svæði, ýmist 25 eða 50 m breitt, sem ætlað sé undir trjágróður og gras, en ekki hafi verið umfjöllun um hæð urðunarreina. 

Með auglýsingu nr. 192/1994 hafi verið staðfest skipulag fyrir sorpurðun á þessu svæði með heimild í þágildandi skipulagslögum nr. 19/1964.  Hafi skipulagið átt að vera í gildi til ársins 2013.  Hollustuvernd ríkisins hafi gefið út starfsleyfi fyrir sorpstöð á þessum stað 29. apríl 1994 og með bréfi, dags. 30. sama mánaðar, hafi sveitarfélagið veitt leyfi fyrir framkvæmdum á svæðinu fyrir sitt leyti með vísun til staðfests aðal- og deiliskipulags. 

Starfsleyfi stöðvarinnar hafi verið endurnýjað 30. júní 1998 og í tengslum við endurnýjun þess hafi umhverfisráðuneytið kveðið upp úrskurð 31. ágúst 1998, um að starfsleyfi Hollustuverndar ríkisins skyldi óbreytt standa að undanskildum tveimur ákvæðum varðandi aðstöðu til að skoða blandaðan framleiðsluúrgang og eftirlit með losun gass.  Í forsendum úrskurðarins hafi sagt orðrétt, þar sem fjallað hafi verið um athugasemd sem fram hafi komið um að hæð urðunarreina væri ekki í samræmi við skipulag svæðisins:  „Liður 3.  Ráðuneytið bendir á að athugasemdir hafa verið gerðar varðandi frágang og hæð urðunarreina.  Í deiliskipulagi er ekki fjallað um þennan þátt og ráðuneytið sér ekki ástæðu til að takmarka hæð reina.“ 

Nýtt starfsleyfi hafi verið gefið út af Hollustuvernd ríkisins (nú Umhverfisstofnun) hinn 4. desember 2002 með gildistíma í sex ár.  Leyfið sé í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs. 

Samskipti hafi átt sér stað milli sorpstöðvarinnar og sveitarfélagsins um skipulag svæðisins.  Með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 31. mars 2004, hafi niðurstaðan verið sú að lækkun urðunarreina myndi brjóta í bága við ákvæði starfsleyfis.  Skipulagsstofnun hafi lagt til að unnið yrði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina með bréfi, dags. 15. mars 2004. 

Samkomulag hafi verið gert milli sorpstöðvarinnar og sveitarfélagsins hinn 3. nóvember 2004 um gerð nýs deiliskipulags fyrir sorpurðunarsvæðið í samræmi við tillögu Skipulagsstofnunar.  Deiliskipulagið hafi verið afgreitt, eftir lagfæringar á gögnum, á fundi bæjarstjórnar 28. desember 2006 og samkvæmt því sé svæði til urðunar nú um 11,6 ha að stærð en hafi áður verið 19 ha.  Við samþykkt breytingarinnar hafi fallið úr gildi áður samþykkt deiliskipulag fyrir sama svæði frá 28. apríl 1994. 

Af hálfu sorpstöðvarinnar sé tekið undir kröfu sveitarstjórnar um frávísun málsins og vísað til sömu raka þar að lútandi. 

Verði ekki fallist á frávísun sé þess krafist að kröfu kærenda verði hafnað.  Bent sé á að sveitarfélagið hafi veitt sorpstöðinni framkvæmdaleyfi í skilningi 27. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 30. apríl 1994.  Þar hafi verið tekið fram að sækja þyrfti sérstaklega um leyfi til húsbygginga.  Hafi því aldrei verið veitt byggingarleyfi vegna urðunarreinanna en það skipti verulegu máli að gera greinarmun á þessu þegar komi að beitingu þvingunarúrræða skipulags- og byggingarlaga. 

Sorpstöðin hafi fengið framkvæmdaleyfi 30. apríl 1994 en um slík leyfi sé nú fjallað í III. kafla skipulags- og byggingarlaga, einkum 27. gr.  Í IV. kafla laganna séu ákvæði um byggingarleyfi, sbr. 36. gr.  Samkvæmt 3. mgr. 36. gr. skuli mannvirki, sem séu undanþegin byggingarleyfi, t.d. þær framkvæmdir sem veitt sé framkvæmdaleyfi fyrir skv. 27. gr., byggð í samræmi við III. kafla laganna.  Í VI. kafla séu ákvæði um þvingunarúrræði úttektar- og eftirlitsaðila, ábyrgð aðila og viðurlög við brotum á lögunum og reglugerðum sem settar séu samkvæmt þeim. 

Þegar ákvæði 56. gr. laga nr. 73/1997 séu skoðuð sé ljóst að þvingunarúrræði 2., 3. og 4. mgr. 56. gr. eigi fyrst og fremst við um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. IV. kafla laganna en ekki framkvæmdir sem falli undir III. kafla þeirra, eins og þær framkvæmdir sem hér um ræði, þ.e. framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi.  Þá hafi framkvæmdir á svæðinu, hvað sem öðru líði, verið í samræmi við skipulagið frá 1993, sem nú sé fallið úr gildi, og því ekkert tilefni til beitingar úrræðis 4. mgr. 56. gr.  Einnig liggi fyrir álit Umhverfisstofnunar um að hugmyndir kærenda og vangaveltur séu einfaldlega óframkvæmanlegar.  Fari svo ólíklega að talið verði að fyrri urðun hafi verið andstæð þágildandi skipulagi liggi fyrir, hvort heldur sem er, að þeirri starfsemi hafi verið hætt. 

Vegna umfjöllunar kærenda um framkvæmdaleyfi sé áréttað að sorpstöðin hafi fengið framkvæmdaleyfi 30. apríl 1994, sbr. bréf byggingarfulltrúa Ölfushrepps til Sorpstöðvarinnar. 

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að samkvæmt eldra deiliskipulagi frá 1993 hafi hæð urðunarreina verið takmörkuð við „5 metra hæð yfir landkóta“.  Þetta sé rangt. 

Fyrir liggi að hvorki í greinargerð sem fylgt hafi hinu eldra deiliskipulagi svæðisins, né á deiliskipulagsuppdrættinum sjálfum frá 1993 hafi verið að finna sérstaka umfjöllun um hæð urðunarreina eða takmarkanir þar að lútandi.  Sniðmynd A-A, sem unnin hafi verið af Verkfræðistofu Suðurlands, hafi ekki verið ætlað að setja sérstakar takmarkanir þar að lútandi heldur einungis sett fram til viðmiðunar, enda hafi umfjöllun um hæð urðunarreina ekki verið  tekin upp í greinargerðinni eða deiliskipulagsuppdrættinum, sem hefði þurft að gera ef ætlunin hefði verið að binda hendur stjórnvalda og notendur eigna á svæðinu við þetta atriði. 

Minnt sé á að deiliskipulag sé stjórnvaldsákvörðun sem birta skuli, annars vegar með skriflegri greinargerð og hins vegar á uppdrætti, sbr. 23. gr. laga nr. 73/1997 og 11. gr. þágildandi skipulagslaga nr. 19/1964, og eldri skipulagsreglugerð nr. 318/1985.  Þess þurfi að gæta að samræmi sé í efni þessa tveggja skjala.  Í greindu ákvæði laga nr. 73/1997 sé tiltekið hvaða atriði skuli koma fram í greinargerðinni en sambærileg ákvæði hafi verið í eldri lögum.  Eins og tekið sé fram í lagaákvæðinu „…atriði sem skylt er að hlíta samkvæmt skipulaginu“ þurfi þau atriði sem skipulag eigi að vera bindandi um fyrir stjórnvöld, eigendur og notendur fasteigna að koma fram í greinargerð og uppdrætti að því marki sem efni skipulags sé lýst þar.  Það hafi ekki verið gert í þessu tilviki varðandi hæð urðunarreina eða einstakar framkvæmdir bundnar ákveðnum skilyrðum varðandi tíma. 

Framangreint sé líka í samræmi við úrskurð umhverfisráðuneytisins frá 31. ágúst 1998, en eins og fyrr greini hafi ráðuneytið ekki talið ástæðu til að takmarka hæð reina í starfsleyfi til stöðvarinnar þar sem í deiliskipulagi svæðisins væri ekki fjallað um þennan þátt.  Þrátt fyrir að ráðuneytið hafi verið að fjalla um útgáfu starfsleyfis til handa sorpstöðinni hafi skipulag svæðisins engu að síður komið til skoðunar vegna athugasemda sem þá hafi komið fram við hæð urðunarreina.  Minnt sé á að umhverfisráðuneytið fari með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála skv. 3. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 19/1964 og 3. gr. laga nr. 54/1978, sbr. 14. og 15. gr. laga nr. 47/1990, þar sem tekið sé fram að umhverfisráðuneytið fari með stjórn þessara mála.  Það hafi því þegar verið kveðinn upp úrskurður um þetta atriði af hálfu æðsta stjórnvalds skipulags- og byggingarmála.  Þeim úrskurði hafi aldrei verið hnekkt.  Það skipti hins vegar engu máli í dag, enda nýtt deiliskipulag tekið gildi. 

Þá hafi komið fram hjá höfundi deiliskipulagsins frá 1993 að sniðmyndin hafi einungis átt að vera leiðbeinandi og hafi ekki átt að fela í sér skilyrði eða ná yfir allt svæðið.  Það hafi einungis verið sett fram til skýringar þar sem ekki hafi verið unnt, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, að láta það hafa víðtækara gildi.  Það liggi því fyrir að sniðmynd A-A hafi ekki getað talist vera hluti af bindandi ákvæðum deiliskipulags á svæðinu þar sem ekki hafi verið fjallað um það með skýrum hætti í skipulagsskilmálum, hvorki í greinargerð né á deiliskipulagsuppdrætti, heldur eingöngu minnst á það sem snið á urðunarsvæði samkvæmt sniðmerkingu á korti.  Sniðið hafi því ekki getað falið í sér slíkar takmarkanir á hæð urðunarreina sem afstaða kærenda virðist byggja á. 

Þá sé ljóst að enda þótt litið yrði svo á að sniðmyndin væri hluti af deiliskipulaginu frá 1993 væri ekki unnt að heimfæra sniðmynd A-A á allt urðunarsvæðið þar sem sniðinu hafi verið markaður einn ákveðinn staður og hann einkenndur (staðsettur) á grunnkorti.  Sniðmynd A-A hafi því einungis gilt fyrir þann eina stað.  Það verði að teljast harla óvenjulegt ef styðjast ætti við einungis eitt kennisnið í svo umfangsmiklu máli.  Gildi hins vegar sniðmynd A-A fyrir þann hluta af svæðinu þar sem það hafi verið tekið, og ef það ætti að gilda fyrir heildarsvæðið, væri fyllingarhæð um 18,2 m á öllu svæðinu samkvæmt því.  Þegar fyllingarhæðir í sniðmyndinni hafi verið heimfærðar upp á mældar yfirborðshæðir urðunarreina, áður en nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi, hafi fyllingarhæðir verið í lagi. 

Starfsemi sorpstöðvarinnar lúti opinberu eftirliti sem taki mið af starfsleyfi stöðvarinnar.  Hinn 4. desember 2002 hafi Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi til sex ára fyrir urðunarstað stöðvarinnar og hafi því endurnýjað eldra starfsleyfi frá 22. september 1998.  Einn kærenda, K, hafi kært útgáfu starfsleyfisins en með úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 26. júní 2003 hafi kröfum hennar verið hafnað og ákvörðun Umhverfisstofnunar staðfest óbreytt. 

Starfsemi og staðsetning urðunarsvæðisins í Kirkjuferjuhjáleigu hafi verið samþykkt á sínum tíma af hálfu þeirra sérfróðu aðila sem að málinu hafi komið og hafi sorpstöðin ætíð reynt að haga starfsemi sinni í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu í starfsleyfi stöðvarinnar, sem og opinberum fyrirmælum.  Starfsemin brjóti ekki bága við gildandi aðal- og deiliskipulag og hafi stöðin auk þess öll tilskilin leyfi.  Athugasemdum varðandi starfsemi og rekstur stöðvarinnar hafi auk þess verið hafnað af hálfu stjórnvalda.  Að mati sorpstöðvarinnar séu umkvörtunaratriði kærenda ekki á rökum reist. 

Andsvör kærenda við greinargerðum Sveitarfélagsins Ölfuss og Sorpstöð Suðurlands:  Kærendur telja fráleitt að halda því fram að þau eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun enda séu þau eigendur aðliggjandi jarða.  Kærendur hafi þurft að sæta því að sorphaugarnir byrgi fjallasýn þeirra, þaðan sé lyktarmengun, sjónmengun auk þess sem rusl fjúki á jarðir þeirra.  Þá fylgi sorphaugunum fjöldi vargfugla sem hætta sé á að smiti búfénað kærenda, hætta sé á mengun grunnvatns, Ölfusár og lands og þar sé enn urðað riðufé, sbr. fundargerð sorpstöðvarinnar frá 5. desember 2007. 

Vegna fullyrðinga þess efnis að Auðsholtshjáleiga sé í 1,5 km fjarlægð frá hinu deiliskipulagða svæði, sé rétt að taka fram, að aðeins séu 300-400 m á milli sorpstöðvarinnar og lands Auðsholtshjáleigu.  Kort sem sorpstöðin og sveitarfélagið hafi lagt fram tilgreini augljóslega ekki fjarlægð milli landamerkja lands sorpstöðvarinnar og landa kærenda.  Fullyrða megi að verð fyrir jarðir kærenda hafi fallið vegna nálægðar við stöðina.  Það sé því fjarstæða að þau hafi engra lögmætra hagsmuna að gæta vegna breytinga á deiliskipulaginu sem hafi í för með sér hærri urðunarreinar og meira sorpmagn. 

Ekki verði heldur fallist á að vísa beri máli þessu frá úrskurðarnefndinni vegna dómsmáls þess er höfðað hafi verið vegna sorpstöðvarinnar enda hafi því máli verið vísað frá dómi.

Kærendur mótmæla þeirri túlkun sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar að ákvæði 56. gr. laga nr. 73/1997 eigi fyrst og fremst við um framkvæmdir samkvæmt IV. kafla laganna en ekki framkvæmdir sem falli undir III. kafla laganna.  Vísi kærendur m.a. til þess að í 1. mgr. 56. gr. laganna sé vísað til 27. gr. laganna þar sem fjallað sé um framkvæmdir sem háðar séu framkvæmdaleyfi.  Þá sé 4. mgr. 56. gr. alls ekki einskorðuð við byggingaleyfisskyldar framkvæmdir, sbr. orðalag greinarinnar. 

Þá telji kærendur fráleita þá málsástæðu að ekki sé tilefni til beitingar úrræðis samkvæmt 4. mgr. 56. gr. þar sem framkvæmdum samkvæmt eldra skipulagi hafi verið hætt.  Það sem máli skipti sé að ennþá sé verið að urða sorp í andstöðu við gamla deiliskipulagið, í „ólögmætar hæðir“.  Með nýju skipulagi reyni sveitarfélagið að gera það ólögmæta ástand lögmætt sem sé í andstöðu við ákvæði 4. mgr. 56. gr. laganna.  Starfsemi hafi alls ekki verið hætt. 

Sveitarfélagið og sorpstöðin geri mikið úr því að ekki sé hægt að lækka urðunarreinar og vísa þar til úrskurðar Umhverfisstofnunar og tillögu Skipulagsstofnunar um nýtt deiliskipulag vegna þessa.  Sé látið að því liggja að nauðsyn hafi verið að breyta skipulaginu vegna þessa sem sé fráleitt.  Auðvitað hafi verið hægt, jafnvel eftir að athugasemdir hafi komið fram, að urða sorp í hæðir samkvæmt gamla skipulaginu.  Jafnvel þótt rétt væri að ekki væri hægt að lækka urðunarreinar hafi engin ástæða verið til að halda áfram að urða í hæstu hæðir.  Sé þetta sérstaklega ámælisvert ef um óafturkræfar framkvæmdir sé að ræða eins og haldið sé fram í málatilbúnaði sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar.  Enn sé því gengið á rétt kærenda.

Mótmælt sé þeirri málsástæðu að hagsmunir sorpstöðvarinnar og sveitarfélagsins séu ríkari en „óljósir“ hagsmunir kærenda eins og það sé orðað í greinargerðunum.  Lögin séu skýr.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 18. september 2008. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu í Ölfusi en með samþykktinni féll úr gildi eldra deiliskipulag svæðisins. 

Af hálfu sveitarfélagsins og sorpstöðvarinnar er krafist frávísunar máls þessa og því haldið fram að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Á þetta verður ekki fallist.  Meðal kærenda eru eigendur jarðarinnar Strýtu sem liggur að Kirkjuferjuhjáleigu ásamt því að aðrir kærendur eru eigendur aðliggjandi jarða.  Miðað við aðstæður á umræddu svæði verður að fallast á að grenndaráhrif frá starfsemi sorpstöðvarinnar aukast nokkuð vegna þeirra breytinga sem hið kærða deiliskipulag felur í sér og er kærendum því játuð kæruaðild að máli þessu. 

Þá er því haldið fram að vísa beri málinu frá sökum þess að rekið hafi verið dómsmál fyrir Héraðsdómi Suðurlands vegna sama sakarefnis á sama tíma og kærendur settu fram sína kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Dómsmálinu var hins vegar vísað frá áður en úrskurðarnefndin tók málið til meðferðar og hefur engin efnisleg afstaða verið tekin til málsins af hálfu dómstóla.  Verður því ekki fallist á frávísun málsins af þeirri ástæðu.

Eins og að framan er rakið var upphaflegt deiliskipulag fyrir sorpurðunarsvæðið staðfest á árinu 1993.  Af málsgögnum verður ráðið að nokkur ágreiningur hafi staðið um rekstur sorpstöðvarinnar, er laut að framkvæmd við urðun sorps í sérstakar urðunarreinar, sbr. bréf skipulags- og byggingarfulltrúa til sorpstöðvarinnar, dags. 20. nóvember 2001.  Sagði þar m.a. að hæð urðunarreina á svæðinu bryti í bága við deiliskipulag svæðisins og þess krafist að framkvæmt yrði eftir staðfestu deiliskipulagi ella yrði beitt ákvæðum 1. mgr. 57. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í kjölfar þessa samþykkti bæjarráð að beita sorpstöðina dagsektum á grundvelli laganna.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar en kæran dregin til baka með bréfi, dags. 29. ágúst 2003. 

Hin kærða ákvörðun um nýtt deiliskipulag sorpurðunarsvæðisins virðist grundvallast á tillögu Skipulagsstofnunar frá 15. mars 2004 þess efnis að unnið verði nýtt deiliskipulag svæðisins.  Segir m.a. í nefndu bréfi að Skipulagsstofnun telji ljóst með tilliti til starfsemi sorpstöðvarinnar að óframkvæmanlegt sé að lækka hæð urðunarreina til samræmis við gildandi deiliskipulag.  Megi líta svo á að um sé að ræða ómöguleika þar sem umrót sorphaugs leiði til verulegs umhverfistjóns og mengunar.  Leggi Skipulagsstofnun til að gert verði nýtt deiliskipulag fyrir sorpstöðina.  Er framangreint ítrekað í síðari bréfum stofnunarinnar varðandi sama efni.  Þá kemur og fram í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 31. mars 2004, að samkvæmt ákvæðum í starfsleyfi stöðvarinnar sé óheimilt að hrófla við úrgangi sem þegar hafi verið urðaður. 

Samkvæmt framansögðu töldu bæði bæjarstjórn og Skipulagsstofnun að framkvæmdir við urðun sorps á sorpurðunarsvæði stöðvarinnar væru í andstöðu við eldra deiliskipulag svæðisins.  Verður ekki annað ráðið en að sú hafi verið raunin, enda höfðu ekki verið virt ákvæði skipulagsins um hámarkshæð urðunarreina, en á deiliskipulagsuppdrætti svæðisins er vísað í snið A-A, þar sem gerð er grein fyrir leyfilegri hæð reinanna en líta verður svo á að umrædd sneiðmynd hafi verið hluti eldra deiliskipulags.  Verður ekki heldur fallist á að úrskurðarnefndin sé bundin af sjónarmiðum sem fram koma í úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 31. ágúst 1998 um starfsleyfi sorpstöðvarinnar enda var þar ekki kveðið á um gildi umrædds deiliskipulags.

Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga er óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.  Verður að telja að ákvæðið taki til allra skipulagsskyldra og leyfisskyldra framkvæmda.  Var bæjarstjórn því óheimilt að samþykkja hina kærðu ákvörðun nema að því undangengnu að framkvæmdir þær sem farið höfðu í bága við eldra skipulag yrðu fjarlægðar, jarðrask afmáð og starfsemi hætt, enda verður ekki fallist á að meintur ómöguleiki eða skilmálar í starfsleyfi hafi geta réttlætt það að ákvæðinu væri vikið til hliðar.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Samþykkt bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 21. desember 2006, um deiliskipulag sorpurðunarsvæðis Sorpstöðvar Suðurlands í landi Kirkjuferjuhjáleigu, er felld úr gildi. 

 

_________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________           _______________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson