Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/1998 Dimmuhvarf

Ár 1998, fimmtudaginn 25. júní  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/1998

Kæra G og L, Dimmuhvarfi 4, Kópavogi vegna byggingarframkvæmda að Dimmuhvarfi 2, Kópavogi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 8. júní 1998 kæra G og L, Dimmuhvarfi 4, Kópavogi framkvæmdir við húsbyggingu á lóðinni nr. 2 við Dimmuhvarf.  Krefjast kærendur þess að framkvæmdir verði stöðvaðar þar til grenndarkynning hafi farið fram samkvæmt gildandi lögum og venjum og þau fengið tækifæri til að láta álit sitt í ljós á fyrirhuguðum framkvæmdum eins og þær liggi endanlega fyrir til ákvarðanatöku.

Málavextir:  Hinn 9. maí 1997 var lagt fyrir byggingarnefnd Kópavogs erindi félagmálaráðuneytisins varðandi byggingu heimilis fyrir einhverfa á lóð nr. 2 við Dimmuhvarf í landi Vatnsenda.  Erindinu var vísað til skipulagsnefndar.  Var málið tekið fyrir á fundi í skipulagsnefnd og starfsmönnum bæjarskipulags falið að kynna erindið. Eitthvað mun hafa verið fjallað um þetta mál á aðalfundi íbúasamtaka Vatnsenda hinn 26. maí 1997 en ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort þess hafi verið getið í fundarboði. Þá var málið að sögn byggingarfulltrúa kynnt á fundi með stjórn íbúasamtakanna. Hinn 18. júní 1997 var lóðarhöfum aðliggjandi lóða gerð grein fyrir fyrirhugaðri byggingu og starfsemi að Dimmuhvarfi 2 og þeim gefinn kostur á að tjá sig um málið fyrir 1. júlí 1997.  Einhverjar ábendingar komu fram í kjölfar þessa bréfs og mun hafa verið tekið tillit til þeirra að einhverju leyti, meðal annars hvað varðar lóðarmörk. Bæjarráð Kópavogs staðfesti samþykkt skipulagsnefndar bæjarins um breytta útfærslu deiliskipulags varðandi lóðina nr. 2. við Dimmuhvarf á fundi hinn 11. júlí 1997 og var fundargerð bæjarráðs um málefnið staðfest í bæjarstjórn hinn 19. ágúst 1997.  Byggingarnefndarteikningar að fyrirhuguðu húsi að Dimmuhvarfi 2 munu hafa verið samþykktar í október 1997 en framkvæmdir hófust fyrst undir lok maí 1998.  Mótmæltu kærendur þeim þá þegar og vísuðu málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi dags. 8. þessa mánaðar.

Málsrök aðila:  Kærendur telja hinar kærðu framkvæmdir fara í bága við gildandi deiliskipulag.  Þá hafi ekki farið fram grenndarkynning, sem fullnægi lagaskilyrðum, en kynning málsins í bréfi dags. 18. júní 1997 hafi hvorki verið með hefðbundnu sniði né nægum fyrirvara.   Halda kærendur því fram að þeim hafi verið tjáð af starfsmönnum Kópavogsbæjar að síðar færi fram hefðbundin grenndarkynning.

Af hálfu byggingaryfirvalda Kópavogsbæjar er því haldið fram að erindið hafi verið kynnt á fullnægjandi hátt og í ljósi þess að erindið hafi verið samþykkt í skipulagsnefnd og bæjarráði hafi byggingarnefnd ákveðið að ekki væri þörf á að senda málið í frekari kynningu.  Afstaða félagsmálaráðuneytisins sem byggingarleyfishafa hefur ekki borist nefndinni en því hefur verið gerð grein fyrir kærumáli þessu.

Umsagnir:  Hér að framan er getið helstu atriða, sem fram koma í umsögn Kópavogsbæjar um málið.  Fyrir liggur og umsögn Skipulagsstofnunar þar sem lýst er meðferð málsins og fyrirliggjandi skipulagi.  Tekið er fram að ekki hafi farið fram grenndarkynning skv. 2. mgr. 26. gr. sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga en slík grenndarkynning hefði verið nauðsynleg til að unnt væri að falla frá auglýsingu vegna breytingar á deiliskipulagi.  Þar sem hin kærða framkvæmd sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga telji  stofnunin að stöðva beri hina kærðu framkvæmd og fella byggingarleyfið úr gildi.
 
Niðurstaða:  Gildandi deiliskipulag fyrir svæðið þar sem hinar umdeildu framkvæmdir eiga sér nú stað var samþykkt af Skipulagsstjóra ríkisins hinn 31. maí 1994.  Samkvæmt því skipulagi eru  tvær byggingarlóðir sýndar þar sem nú er lóðin Dimmuhvarf 2. Hafa þessar lóðir verið sameinaðar og  gildandi deiliskipulagi þannig breytt án þess séð verði að gætt hafi verið ákvæða skipulags- og byggingarlaga um breytingar á deiliskipulagi, hvort sem litið er til eldri eða núgildandi laga. Framkvæmdir þær, sem kæran tekur til, stríða því gegn ákvæði  2. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem í gildi voru þegar ákörðun um fyrirhugaða byggingu að Dimmuhvarfi 2 var tekin.  Þá eru umræddar framkvæmdir einnig í andstöðu við ákvæði  2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga  nr. 73/1997, sem tekið höfðu gildi þegar leyfi til að hefja framkvæmdirnar var veitt hinn 28. maí 1998.  Kynning sú, sem bæjaryfirvöld í Kópavogi stóðu fyrir í maí og júní 1997, þar sem áform um bygginguna voru kynnt, fullnægði ekki lagaskilyrðum um grenndarkynningu og hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins. Byggingarframkvæmdir þær, sem hafnar eru að Dimmuhvarfi 2, Kópavogi, eru samkvæmt framansögðu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og því andstæðar lögum. Ber því að stöðva þær meðan svo er ástatt.

 
Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við bygginu að Dimmuhvarfi 2 skulu stöðvaðar.  Með vísun til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 er lagt fyrir bæjarstjórn Kópavogs að framfylgja úrskurði þessum þegar í stað.