Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2005 Laufbrekka

Ár 2007, fimmtudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 75/2005, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 31. ágúst 2005 um deiliskipulag Laufbrekku á Kjalarnesi.    

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. október 2005, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir Ólafur Kristinsson hdl., f.h. S ehf., samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 31. ágúst 2005 um deiliskipulag Laufbrekku á Kjalarnesi.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. september 2005 að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málsatvik:  Með bréfi landbúnaðarráðherra, dags. 10. desember 2004, var veitt leyfi til að stofna lögbýli til ferðaþjónustu á einum hektara lands úr jörðinni Norðurkoti, Kjalarnesi, nú nefnt Laufbrekka.  

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 4. mars 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Laufbrekku á Kjalarnesi sem vísað var til umsagnar hverfisarkitekts.  Á fundi skipulagsráðs hinn 6. apríl 2005 var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og var málinu vísað til borgarráðs sem samþykkti bókun skipulagsráðs á fundi hinn 14. apríl 2005.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 10. júní 2005 voru lagðar fram athugasemdir er borist höfðu, m.a. frá kæranda, og var málinu vísað til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu.  Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 31. ágúst 2005 og var tillaga að deiliskipulagi samþykkt með vísan til umsagnarinnar.  Staðfesti borgarráð fyrrgreinda samþykkt á fundi hinn 8. september 2005 og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. sama mánaðar.  
 
Hin kærða ákvörðun fól m.a. í sér heimild til byggja upp aðstöðu fyrir tamningar á svæðinu auk minniháttar aðstöðu fyrir ferðaþjónustu. 

Hefur kærandi kært áðurnefnda samþykkt skipulagsráðs eins og að framan greinir. 

Röksemdir kæranda:  Kærandi kveðst vera landeigandi við Norðurkot en honum hafi verið ókunnugt um að búið væri að samþykkja spilduna sem sérstaka jörð án þess að það hafi verið kynnt sérstaklega.

Að mati kæranda hefði ítarlegri kynning átt að fara fram á deiliskipulaginu og telji kærandi að auglýsing í blöðum stangist á við ákvæði 10. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gr. 3.2 reglugerðar nr. 400/1998 þar sem um verulega hagsmuni hans sé að ræða.

Byggt sé á því að verið sé að skerða réttindi, hagsmuni og möguleika kæranda á að nýta sér land sitt við malarnám og fleira í þágu atvinnustarfsemi hans verði nýting Laufbrekku á þann hátt sem skipulagið heimili.  Ekki verði séð hvernig slíkur ferðamannaiðnaður fari saman við þá atvinnustarfsemi sem kærandi hafi með höndum og verði að telja mjög líklegt að hagsmunir aðila á þessu svæði muni skarast.  Megi leiða líkum að því að með breytingu þeirri sem hér liggi fyrir sé í raun og veru smátt og smátt verið að bola kæranda burt af svæðinu þar sem ekki verði séð að ferðamenn eða dýr muni una sér við hlið malarnáms. 

Þá sé verið að brjóta gegn ákvæði 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem verið sé að taka íþyngjandi ákvörðun sem skerða muni atvinnumöguleika kæranda á svæðinu, sbr. einnig ákvæði gr. 2.9.1 fyrrgreindrar reglugerðar þar sem um verulega hagsmunaárekstra geti orðið að ræða verði skipulagið samþykkt svo óbreytt. 

Telur kærandi að skipulagið gangi í berhögg við ákvæði 2. mgr. gr. 3.1.1 tilvitnaðrar reglugerðar en þar segi að við forsendur og stefnumörkun skipulagsáætlunar skuli stefnt að því að ná samræmi við aðrar áætlunargerðir, svo sem skipulagsáætlanir aðliggjandi svæða.  Sé að mati kæranda hróplegt ósamræmi í því að hafa aðstöðu fyrir ferðaþjónustu aðliggjandi landi þar sem malarnám fari fram. 

Að lokum bendir kærandi á að ekki hafi fengist upplýst um stærð umræddrar spildu né hvort hún sé innan lóðarmarka sem kærandi hafi nýtingarrétt á samkvæmt þinglýstum gögnum.  Hafi ekki verið upplýst með óyggjandi hætti að spildan liggi ekki innan marka þess svæðis sem kærandi hafi afnotarétt af enda telji hann að vafi leiki á því.  Telur kærandi að með því hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga og óskar eftir því, með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga, að fá úr því skorið. 

Röksemdir Reykjavíkurborgar:  Þess er krafist að ákvörðun skipulagsráðs verði staðfest og kröfum kæranda um ógildingu hennar hafnað.

Telur Reykjavíkurborg að meðferð málsins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Tillagan hafi verið auglýst samkvæmt 25. gr. laganna og kæranda hafi gefist rúmur tími til að koma að athugasemdum sínum sem hann hafi og gert. 

Þá sé því einnig haldið fram að fyrirhuguð notkun umrædds svæðis samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé í samræmi við ákvæði aðalskipulags Reykjavíkur og leyfi landbúnaðarráðuneytisins.  Ekki sé fallist á að fyrirhuguð notkun hafi í för með sér neina skerðingu á nýtingarmöguleikum né hagsmunum aðlægra landspilda.  Verði að telja að kærandi hafi ekki gert neina tilraun til að sýna fram á eða sanna í hverju meint hagsmunaskerðing hans felist. 

Þá sé ekki fallist á að brotið hafi verið gegn ákvæðum 2. mgr. 3.1.1 reglugerðar nr. 400/1998, enda sé fyrirhuguð notkun svæðisins í samræmi við ákvæði aðalskipulags Reykjavíkur og með leyfi landbúnaðarráðuneytisins.

Stærð spildunnar sé 10.000 fermetrar samkvæmt hinu samþykkta deiliskipulagi. Telji kærandi að spildan sé innan lóðarmarka sem hann telji til réttinda yfir verði hann að sýna fram á að svo sé en einungis hafi verið vísað til ótiltekinna þinglýstra skjala en engum þeirra framvísað í málinu.

Menn geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti áhrif á nánasta umhverfi þeirra.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra verið skertir með slíkum breytingum.  Kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á hvaða hagsmunir hans séu skertir.  Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á hvaða réttindi hann kunni að eiga gagnvart þinglýstum eiganda spildunnar.  Telji Reykjavíkurborg að hagsmunir lóðarhafa af því að geta nýtt lóð sína á þann hátt sem samræmist landnotkun svæðisins séu mun meiri en einhver ótiltekin grenndaráhrif á starfsemi kæranda.

Að lokum er áréttað að Reykjavíkurborg sé kunnugt um að lóðarspildan sem hafi verið deiliskipulögð sé í eigu tiltekins aðila og afmörkuð í þinglýsingarbókum.  Reykjavíkurborg sé hins vegar ekki kunnugt um á hvaða grunni starfsemi kæranda byggi né heldur á hvaða eignaréttarheimildum hann byggi starfsemi sína. 

Niðurstaða:  Spilda sú er hið umdeilda deiliskipulag tekur til er sérgreind lóð úr landi jarðarinnar Norðurkots, einn hektari að stærð, nefnd Laufbrekka og hefur lögbýlisrétt.  Er landið nánast allt gróinn melur og töluverður landhalli er til vesturs.  Á landinu var fyrir íbúðarhús á einni hæð auk bílskúrs.  Ekki verður séð að nein áhöld séu um afmörkun spildunnar eða legu.

Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvernig réttindum kæranda í landi Norðurkots var háttað er tillaga að umræddu deiliskipulagi var auglýst, en af hans hálfu er ýmist vísað til þess að hann eigi beinan eignarrétt eða rétt til efnistöku úr landi Norðurkots.  Hefur kærandi ekki lagt fram önnur gögn um meint réttindi sín en ljósrit af blaði úr veðmálabókum um leiguréttindi Vinnuvéla ehf. að lóð til malarnáms úr landi Esjubergs sem ekki verður séð að hafi þýðingu við úrlausn máls þessa.  Þá hafa gögn, sem úrskurðarnefndin hefur aflað af sjálfsdáðum um þinglesnar heimildir um land Norðurkots, ekki tekið af tvímæli um réttindi kæranda.  Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að réttur hans til malarnáms á svæðinu hafi verið skertur með deiliskipulagi þeirrar spildu sem um er deilt í málinu, enda var fyrir á spildunni íbúðarhús sem ætla verður að sett hefði starfsemi kæranda svipaðar skorður og skepnuhald og ferðaþjónusta sú sem skipulagið heimilar. 

Kærandi vísar til þess að ekki hafi verið gætt viðeigandi ákvæða stjórnsýslulaga og skipulagsreglugerðar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og beri að ógilda hana af þeim sökum.  Má fallast á að nokkuð hafi skort á um samráð við hagsmunaaðila við undirbúning skipulagstillögunnar en þegar til þess er litið að kærandi gerði athugasemdir við tillöguna og kom sjónarmiðum sínum að áður en meðferð málsins lauk hjá skipulagsyfirvöldum verður ekki fallist á að þessi annmarki eigi að leiða til ógildingar.

Telja verður að undirbúningur og meðferð hinnar kærðu samþykktar hafi að öðru leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og að skipulagstillagan hafi verið í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Þá þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum öðrum annmörkum er leiða ættu til ógildingar hennar og verður kröfu hans í málinu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 31. ágúst 2005 um deiliskipulag Laufbrekku, Kjalarnesi, er hafnað.

 

         ___________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

 

 

_________________________         ___________________________
   Ásgeir Magnússon                                Þorsteinn Þorsteinsson