Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2020 Langeyri

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 30. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 17. apríl 2020 um að samþykkja deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf., eigandi hluta af landi Langeyrar, þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 17. apríl 2020 að samþykkja deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Súðavíkurhreppi 15. október 2020.

Málavextir: Í nóvember 2014 skrifuðu forsvarsmenn Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. undir viljayfirlýsingu um áhuga á að fjárfesta í námu- og afurðavinnslu á kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi, nánar tiltekið í Súðavík. Tillaga að matsáætlun vegna fyrirhugaðs kalk­þörunganáms var send til Skipulagsstofnunar í ágúst 2015 skv. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 2.01 í 1. viðauka laganna. Kom fram að félagið áformaði að hefja vinnslu á kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi og að framkvæmdin fæli í sér efnisnám af hafsbotni sem næmi allt að 120.000 m3 á ári. Efnið yrði unnið frekar í verksmiðju sem líklega yrði staðsett í Súðavík en áform og útfærsla verksmiðju lægju ekki fyrir. Féllst stofnunin 16. október 2015 á tillögu framkvæmdaraðila með athugasemdum, m.a. að í frummatsskýrslu yrði gerð grein fyrir tengdum framkvæmdum, þ.e. löndun og vinnslu í landi, og lagt mat á umhverfisáhrif þeirra framkvæmda að því leyti sem þau væru talin geta haft samlegðaráhrif með efnistökunni.

Í ágúst 2017 lagði framkvæmdaraðili fram frummatsskýrslu um efnisnám úr kalkþörungaseti í Ísafjarðardjúpi. Um staðsetningu verksmiðju kom fram að vegna aðgengis að starfsliði væri heppilegast að hún væri ekki fjarri þéttbýli, auk þess sem hafnaraðstæður þyrftu að vera góðar. Könnuð hafi verið staðsetning verksmiðju á eða við þéttbýlisstaðina Bolungarvík og Ísafjörð, en ekki náðst samkomulag við heimamenn. Því blasi ekki aðrir valkostir við en Súðavík. Hinn 10. janúar 2020 lagði félagið fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Í skýrslunni kom fram að vinnsla á setinu færi fram í verksmiðju sem líklega yrði reist í Súðavík, á svokölluðu Langeyrarsvæði. Álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 6. apríl 2020, að fengnum umsögnum sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps, Hafrannsókna­stofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar. Í álitinu kom fram varðandi valkosti að í matsskýrslu væri eingöngu gerð grein fyrir einum staðarvalkosti fyrir verksmiðju en aðrir kostir útilokaðir. Framkvæmdaraðili hefði hins vegar lagt fram valkosti við tilhögun framkvæmdarinnar varðandi þann þátt sem líklegur væri til að valda mestum umhverfis­áhrifum, þ.e. efnistökuna. Í niðurstöðukafla álitsins kom fram að Skipulagsstofnun teldi mats­skýrsluna uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að þeim hafi verið lýst á fullnægjandi hátt.

Að ósk sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps skilaði Vegagerðin í júní 2018 minnisblaði um kostnaðar- og framkvæmdaáætlun fyrir landfyllingu og stálþilskant vegna kalkþörunga­verksmiðju. Í minnisblaðinu voru gerðar þrjár tillögur að staðsetningu og legu lóðar og bryggju inn af Langeyri. Á fundi sveitarstjórnar 21. s.m. var samþykkt að fá Vegagerðina til að stilla upp samskonar greiningu fyrir staðsetningu innar í firðinum. Í ágúst s.á. lá umbeðið minnisblað fyrir með nýrri tillögu um að verksmiðjan yrði staðsett um 800 m innar í firðinum. Hinn 14. september s.á. var á fundi sveitarstjórnar bókað að samkvæmt valkosta­greiningu og kostnaðarmati Vegagerðarinnar, samantekt byggingarfulltrúa og samantekt oddvita væri valkostur 3 hagkvæmastur, bæði tíma- og kostnaðarlega séð. Samþykkti sveitarstjórn því þann valkost sem mögulega staðsetningu verksmiðjunnar í aðal- og deiliskipulagi.

Lýsing nýs deiliskipulags inn af Langeyri vegna fyrirhugaðrar kalkþörunga­­verksmiðju var auglýst í febrúar 2019 auk þess sem hún var send umsagnaraðilum til kynningar. Á fundi skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar 7. maí 2019 var samþykkt að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagstillagan var auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu, Morgunblaðinu og á heimasíðu Súðavíkurhrepps 16. október 2019. Frestur til að skila athugasemdum var til 27. nóvember s.á. Kærandi kom að athugasemdum við deiliskipulagstillöguna. Voru athugasemdir kæranda teknar fyrir og þeim svarað á fundi skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar 6. janúar 2020. Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefndar 15. apríl s.á. Var hún samþykkt og staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 17. s.m. Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 2018-2030 tók gildi 18. júní s.á. með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda en í aðalskipulaginu er gert ráð fyrir kalkþörungaverksmiðju og höfn á landfyllingu inn af Langeyri. Að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar á deili­skipulaginu tók það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 18. ágúst 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé þinglýstur eigandi syðsta hluta Langeyrar og séu á lóð hans margskonar eignir og starfsemi, þ. á m. íbúðir, gistiheimili, verksmiðjubygging og vörugeymslur. Hafi kærandi gjarnan leigt starfsmönnum sínum íbúðarhúsnæði á Langeyri. Árið 2004 hafi dótturfélag kæranda selt hluta af eignarlandi félagsins á Langeyri til Súðavíkurhrepps og hafi forsenda þeirrar sölu verið sú að svæðið yrði skipulagt undir léttan iðnað.

Í mati framkvæmdaraðila á umhverfisáhrifum hafi aðeins verið fjallað um eina staðsetningu fyrir fyrirhugaða verksmiðju og því hafi enginn samanburður ólíkra staðsetningarvalkosta verið gerður. Ekki hafi verið gerð tilraun til að fjalla um annað staðarval í Álftafirði, s.s. í landi Hlíðar, eins og gert hafi verið við vinnu nýs aðalskipulags sveitarfélagsins. Í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 13. júní 2018 hafi verið lagðir fram þrír valkostir fyrir staðsetningu við Langeyri. Þar komi fram að engar botnrannsóknir hafi verið gerðar vegna fyrirhugaðrar lóðar og að mikilvægt sé að gera tilheyrandi jarðtæknirannsóknir á efninu á hafsbotni áður en hönnun hefjist. Kæranda sé ekki kunnugt um að framkvæmdar hafi verið nauðsynlegar botnrannsóknir eins og Vegagerðin hafi mælt með og því liggi ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað einstakra valkosta. Í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 3. ágúst s.á. hafi verið gerð gróf kostnaðaráætlun vegna staðsetningar í landi Hlíðar en sama gildi þar að ekki hafi verið gerðar jarðtæknirannsóknir til að undirbyggja kostnaðaráætlunina. Um það bil 70 milljóna króna munur hafi verið á kostnaði við tillögu 3 inn af Langeyri og tillögu 4 í Hlíð. Ljóst sé að nákvæmari forsendur geti breytt þeirri niðurstöðu, s.s. vegna kostnaðar við landfyllingu og viðlegukant. Ekkert tillit hafi verið tekið til mismunandi umhverfisáhrifa fyrrgreindra valkosta heldur hafi ákvörðun sveitarfélagsins einvörðungu verið byggð á því að velja ódýrasta valkostinn. Hafi það verið staðfest á samráðsfundi forsvarsmanna kæranda og sveitarfélagsins 2. maí 2019 þar sem sveitarfélagið hafi tekið fram að „verkfræðiþátturinn hafi verið það sem hafi valdið því hvaða staður var valinn fyrir starfsemina.“ Bent sé á að almennar lýsingar á valkostum og röksemdir sem lúti að kostnaði tiltekinna valkosta teljist ekki til málefnalegra sjónarmiða sem réttlætt geti útilokun þeirra frá umhverfismati.

Valkostamati framkvæmdaraðila sé verulega ábótavant. Telja hefði átt upp fleiri en eina staðsetningu og gera valkostamat á ólíkum stöðum í mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun sveitarfélagsins byggi fyrst og fremst á því að velja ódýrasta og fljótvirkasta valkostinn fyrir hreppinn, en ekkert tillit hafi verið tekið til mögulegra umhverfisáhrifa sem geti verið mismunandi eftir kostunum. Ætluð umhverfisáhrif eigi í öllum tilvikum að vera ráðandi þáttur varðandi staðarval og valkostagreiningu. Ekkert raunverulegt kostnaðarmat hafi farið fram umfram mat Vegagerðarinnar. Valin hafi verið sú staðsetning inn af Langeyri sem hafi mest áhrif á kæranda, aðra atvinnustarfsemi svo og íbúa Súðavíkur og Langeyrar, sem jafnframt takmarki uppbyggingu íbúðarbyggðar á svæðinu til framtíðar. Ekki hafi komið fram hvort látið hafi reyna á að semja við landeiganda Hlíðar og jafnvel fara í uppkaup. Að mati kæranda virðist sá valkostur einungis hafa verið lagður fram til málamynda án frekari skoðunar, hugsanlega í viðleitni til að uppfylla reglur. Þá hafi aðrir valkostir en Langeyri og Hlíð í Álftafirði ekki verið kannaðir. Niðurstaða umhverfismats í deiliskipulaginu hafi verið að áhrif fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju væru neikvæð á eignir og atvinnustarfsemi kæranda og íbúa í leiguhúsnæði hans. Ódýrasta leiðin hafi verið valin og því sé minni kostnaður sóttur í vasa annarra sem hagsmuna hafi að gæta á svæðinu auk þess sem verðmæti eigna rýrni og ekki verði hægt að nýta þær með sama hætti og verið hafi í áratugi.

Í Aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 2018-2030 sé að finna tvo valkosti fyrir kalkþörungaverksmiðju, þ.e. valkost A við Langeyri og valkost B við Hlíð. Í raun sé aðeins valkostur A skoðaður á fullnægjandi hátt en í honum séu þrjár útfærslur. Þær séu því sem næst á sama stað og hafi því nánast sömu umhverfisáhrif. Út frá þeim forsendum sé aðeins fjallað um einn valkost. Valkosti B hafi verið bætt við á seinni stigum en sá hafi ekki verið kannaður til hlítar. Í aðalskipulaginu segi um umhverfisáhrif valkostanna: „Áhrif verksmiðju skv. valkosti A verða ásættanleg en í heildina verða áhrif verksmiðjunnar á þéttbýlið minni ef hún verður staðsett innar í firðinum (valkostur B). Staðsetning verksmiðju innar mun þó hafa verulega neikvæð áhrif á jörðina Hlíð þar sem fyrirhuguð sé sumarhúsabyggð skv. deiliskipulagi en forsendur fyrir deiliskipulaginu bresta verði valkostur B fyrir valinu. Meiri óvissa fylgir landfyllingu innar eins og fram kemur í minnisblaði Vegagerðarinnar frá 3. ágúst 2018. Sveitarstjórn tók ákvörðun um að velja kost A, þ.e. að heimila landfyllingu og byggingu kalkþörungaverksmiðju innan Langeyrar.“ Athygli veki að valkostur B hafi fengið litla sem enga umfjöllun af hálfu sveitarstjórnar. Með einföldum samanburði valkosta sjáist greinilega að valkostur A hafi mun neikvæðari umhverfisáhrif m.t.t félagslegra og hagrænna þátta, náttúrufarslegra þátta og þátta er varði innviði og aðgengi. Þrátt fyrir það hafi ekki verið unnið með hann og reynt að semja við landeigendur af þeirri ástæðu einni að framkvæmdin yrði kostnaðarsamari og tæki lengri tíma í uppbyggingu. Augljóslega komi aðrir valkostir í Álftafirði til greina. Til dæmis megi nefna Dvergastein innar í firðinum. Landið þar sé ekki í eigu sveitarfélagsins en þar hafi verið rekin hvalstöð með hafnaraðstöðu fyrir rúmum hundrað árum. Umhverfisáhrifin myndu vera mun minni vegna uppbyggingar þar en að Langeyri og Hlíð vegna aukinnar fjarlægðar frá þéttbýlinu Súðavík.

Óumdeilt sé að framkvæmdin muni hafa veruleg áhrif á íbúa en í aðalskipulagi komi m.a. fram: „Verksmiðjan mun einnig hafa neikvæða áhrif á umhverfi og íbúa, sbr. fyrrnefnda matsskýrslu. Búast má við foki á fínefnum og hávaðamengun en einnig breytingu á ásýnd svæðisins. Verksmiðja af þessari stærðargráðu mun einnig þregnja að annarri landnotkun og þróunarmöguleikum í þéttbýlinu.“ Lítið sé minnst á íbúðir á Langeyri sem kærandi leigi út en aðalskipulagið vísi til íbúða fjær eða í þéttbýlinu Súðavík. Ljóst megi þó vera að fyrirhuguð verksmiðja muni hafa verulega neikvæð áhrif á íbúa í leiguhúsnæði kæranda. Einnig muni framkvæmdin hafa veruleg neikvæð áhrif á atvinnusvæði kæranda á Langeyri og í sjónum við Langeyri. Kærandi hafi notað land og húsnæði í tengslum við fiskeldi dótturfélags síns og hyggi á framtíðaruppbygginu á svæðinu tengdu fiskeldi og annarri starfsemi félagsins og dótturfélagsins, en það sé handhafi starfs- og rekstrarleyfis til sjókvíaeldis innan og utan við Langeyri. Þrengt sé að starfsemi kæranda sem jafnframt takmarki verulega möguleika á frekari uppbyggingu á svæðinu. Einnig sé niðurstaða umhverfismats deiliskipulags sú að hávaði frá fyrirhugaðri verksmiðju muni ekki hafa áhrif á íbúa Súðavíkur umfram það sem eðlilegt geti talist. Bent sé á að íbúðir í eigu kæranda séu mun nær fyrirhugaðri verksmiðju en þéttbýlið í Súðavík. Sveitarfélagið horfi fram hjá því að það sé íbúðabyggð á Langeyri. Þá hafi íbúar á Bíldudal gert athugasemdir við sambærilega verksmiðju sem þar sé staðsett vegna tíðra bilana með miklum hávaða.

Forsvarsmenn kæranda séu jákvæðir fyrir uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði. Uppbygging þurfi hins vegar að vera í sátt við íbúa og aðrar atvinnugreinar í sveitarfélaginu. Málið snúist um að fullnægjandi valkostamat verði gert en samanburður og mat á raunhæfum valkostum og umhverfisáhrifum þeirra sé hryggjarstykkið í mati á umhverfisáhrifum. Valkostamat hafi verið mikið í umræðunni í tengslum við laxeldi í sjókvíum, þ.e.a.s. að ekki hafi verið gerð nægilega góð grein fyrir öllum valkostum, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 3, 4, 5 og 6/2018. Framkvæmdaraðili hafi komið með viljayfirlýsingu til sveitarfélagsins árið 2014 þar sem lögð hafi verið til staðsetning á kalkþörungaverksmiðju í Súðavík. Fram hafi komið í málflutningi forsvarsmanna framkvæmdaraðila að það væri á „forræði sveitarstjórnar að ákveða ef færa á verksmiðju innar.“ Það hefði átt að vera í verkahring framkvæmdaraðila að telja upp fleiri en einn stað fyrir verksmiðju. Sveitarfélagið geti eingöngu gefið heimild til afnota á sínu landi og aðlagað aðal- og deiliskipulag að þörfum framkvæmdaraðila.

Það sé á forræði framkvæmdaraðila að ákveða þá framkvæmdarkosti sem metnir séu á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Forræði framkvæmdaraðila sé þó takmarkað að ákveðnu marki því byggja verði á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum við val á framkvæmdakostum. Það sé þýðingarmikið að skylda til valkostamats samkvæmt lögum nr. 106/2000 sé bundin við raunhæfa framkvæmdakosti eða þá möguleika sem til greina komi, eins og það sé orðað í 8. og 9. gr. laganna. Valkostamat með samanburði ólíkra staðsetninga hafi því verið með öllu ófullnægjandi í mati á umhverfisáhrifum fram­kvæmdarinnar.

Valkostamat í aðalskipulagi sveitarfélagsins og hinu kærða deiliskipulagi sé ófullnægjandi. Í umhverfismati áætlana þurfi stjórnvald að taka tilhlýðilegt tillit til allra athugasemda er berist frá almenningi og umsagnaraðilum. Þetta hafi verið talið þýða m.a. að stjórnvald verði að taka athugasemdir til raunverulegrar og málefnalegrar skoðunar. Það megi ekki vera einungis til málamynda. Þessi regla sé lögfest í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Ráða verði af dómaframkvæmd að það hafi þýðingu hvort athugasemdir við valkostamat komi fram snemma í undirbúningsferlinu og sér í lagi hvernig brugðist sé við þeim af hálfu framkvæmdaraðila. Kærandi hafi komið með athugasemdir varðandi staðsetningu allt frá árinu 2017 þegar gerð hafi verið athugasemd við frummatsskýrslu framkvæmdaraðila. Jafnframt hafi kærandi komið með athugasemdir við gerð aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags. Þrátt fyrir endurteknar athugasemdir kæranda hafi ekkert tillit verið tekið til þeirra. Fyrirliggjandi dómaframkvæmd leiði einnig í ljós að gallað valkostamat geti haft þær afleiðingar að ákvarðanir sem óbeint tengist mati á umhverfisáhrifum sæti ógildingu. Staðarval fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju í Álftafirði hafi stuðst fyrst og fremst við kostnað strax frá upphafi málsmeðferðar við aðal- og deiliskipulagsgerð.

Ekki hafi verið fylgt meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins og í því sambandi sé sérstaklega vísað til 10. gr. laganna þar sem fram komi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægilega rannsakað áður en ákvörðun sé tekin í því. Þá sé einnig vísað til meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga.

Málsrök Súðavíkurhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er gerður fyrirvari við hagsmuni dóttur­fyrirtækis kæranda sem reki fiskeldi í Álftafirði. Fyrirtækið sé ekki aðili að þessari kæru og sé rekið á annarri kennitölu. Starfsemi kæranda á Langeyri sé ekki umfangsmikil. Hann leigi út einbýlishús til tveggja einstaklinga auk þess sem eitt hús sé nýtt undir verbúð. Veki það athygli vegna þess að í deiliskipulagi hafi í langan tíma verið gert ráð atvinnustarfsemi á Langeyri en ekki íbúðabyggð, auk þess sem sveitarfélagið hafi hvorki gefið umsögn um gistiheimili né sé því kunnugt um slíkan rekstur. Fullyrðingar kæranda um að léttur iðnaður hafi verið forsenda sölu á hluta eignarlands félagsins á Langeyri standist ekki skoðun, enda hafi ýmis starfsemi á vegum kæranda og forvera verið á svæðinu sem ekki flokkist sem léttur iðnaður. Legið hafi fyrir að kærandi myndi ekki selja fasteignir eða lóðir sínar undir starfsemi Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. Það hafi þrengt verulega að kostum fyrir uppbyggingu við Langeyri eða Súðavíkurhöfn og leitt til þeirrar ákvörðunar að verksmiðjan yrði ekki reist innan þorpsmarka Súðavíkur. Sala á hluta eignarlands félagsins á Langeyri geti ekki bundið hendur sveitarfélagsins í skipulagsmálum.

Í aðdraganda þess að hefja vinnslu kalkþörunga í Ísafjarðardjúpi hafi farið fram athuganir á staðsetningu verksmiðju. Ekki hafi verið talið heppilegt að reisa verksmiðju í Bolungarvík eða á Ísafirði. Framkvæmdaraðili hafi talið heppilegt að vera með starfsemi í Álftafirði en hafnar­aðstæður þar séu góðar af náttúrunnar hendi. Gríðarleg undirbúningsvinna hafi farið í verkefnið og telji upphæðir í þeim undirbúningi þungt fyrir rekstur sveitarfélagsins, en það velti 350 milljónum króna árlega. Allar tafir verkefnisins séu dýrar fyrir sveitarfélagið. Mikilvægt sé að halda verkáætlun enda sé stálþil viðlegukants á fjárlögum og Samgönguáætlun 2019-2022. Áætlunin geri ráð fyrir að framlög dreifist á fjögur ár og að mest af framlögum komi inn á árin 2021 og 2022. Allar fullyrðingar kæranda um ástæður staðarvals og tengingu við ódýrasta kostinn verði að skoða sem fremur barnalega framsetningu sjónarmiða. Burtséð frá öðrum atriðum við skoðun valkosta beri sveitarfélaginu að velja þann kost sem sé hagkvæmastur.

Ljóst hafi verið frá upphafi verkefnisins að útbúa þyrfti lóð og athafnasvæði og byggja nýja höfn. Nærtækasti kosturinn hafi því verið innan Langeyrar. Þar hafi áður verið höfn og sé staðsetningin innan skilgreinds yfirráðasvæðis Súðavíkurhafnar samkvæmt hafnarreglugerð fyrir Súðavík nr. 788/2005. Á öllum stigum undirbúningsvinnu hafi þótt heppilegast að athafna- og iðnaðarsvæði væri í samfellu inn af Langeyri í stað þess að slíta í sundur skipulagssvæðið. Súðavík sé ekki stórt og nærtækt að iðnaðar- og hafnarsvæði sé í einhverjum tengslum við byggð með þjónustu við það í huga. Þannig sé raski líka haldið í lágmarki og ekki verið að taka land undir slíka starfsemi sem skipulagt hafi verið í annað, s.s. frístundabyggð, landbúnað og skógrækt. Í landi Hlíðar sé deiliskipulögð frístundabyggð og skógrækt og í landi Dvergasteins sé jafnframt skógrækt. Staðsetningar landfyllingar og verksmiðju á annarri hvorri jörðinni myndi hafa í för með sér árekstra við skipulag, bæði deiliskipulag í landi Hlíðar og Aðalskipulag Súðavíkurhrepps 2018-2030. Sá kostur hafi verið valinn sem hefði minnst rask í för með sér og mesta hagkvæmni auk þess sem sá kostur sé talinn uppfylla flest þau skilyrði varðandi fjarlægð við íbúðabyggð, viðmið mengunar og hávaða sem taka beri með í slíkt staðarval. Einnig hafi verið um að ræða land í eigu sveitarfélagsins.

Eftir valkostagreiningu og með minnisblöðum Vegagerðarinnar hafi verið upplýst að gríðar­legur kostnaðarmunur kynni að vera á því hvar höfn og landfyllingu yrði fyrir komið. Ódýrasti og um leið nærtækasti kosturinn hafi á verðlagi 2018 verið um 464 milljónir króna. Dýrasti kosturinn, aðeins innar í landi Hlíðar, hafi verið metinn á um 614 milljónir króna, en þá séu ekki talin með uppkaup eða fjárhæð eignarnámsbóta auk alls þess ófyrirséða kostnaðar sem kunni að leiða af því ferli. Eignarnám sé ekki góður kostur og ekki gefið að unnt yrði að uppfylla skilyrði 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 425/2008. Þrátt fyrir að kærandi geri lítið úr því vægi sem kostnaður hafi í staðarvali þá hafi sú staðreynd óneitanlega mikil áhrif á það hvort samvinna um uppbyggingu kalkþörungaverksmiðju geti orðið arðbær fyrir sveitarfélagið eða ekki. Kostnaður og framkvæmdahraði hafi ekki verið það eina sem sveitarfélagið hafi litið til við undirbúning framkvæmdarinnar og staðarval. Þeim kosti að hafa landfyllingu og viðlegukant á utanverðri Langeyri hafi verið hafnað vegna nálægðar við íbúðabyggð og starfsemi kæranda, sbr. minnisblað Vegagerðarinnar frá 13. júní 2018. Vísun kæranda til valkostamats í fiskeldi verði ekki jafnað til þeirrar málsmeðferðar þegar sveitarfélag fylgi aðalskipulagi og deiliskipuleggi eigið land.

Vegagerðin hafi greint framkvæmdina m.t.t. kostnaðar og framkvæmdahraða og annarrar hagkvæmni. Botnrannsóknir hafi verið framkvæmdar og sé siltmagn á fyrirhuguðum botni undir landfyllingu hagstæðara en áður hafi verið talið. Lagst hafi verið gegn öðrum valkostum, einkum vegna þeirrar óvissu sem hafi verið fyrir hendi varðandi dýpi. Staðarvalið hafi tekið mið af nálægð íbúðabyggðar, væntanlegri mengun vegna hávaða og ryks og ásýndar og áhrifa á önnur skipulagssvæði og aðlægra jarða. Hljóðkort hafi verið unnið fyrir svæðið og tekið tillit til þeirra ábendinga sem hafi legið fyrir hjá heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Hvað varði vísun kæranda til hljóðmælinga og mengunar vegna ryks frá kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal þá séu þær mælingar að jafnaði innan marka vegna slíkrar verksmiðju, en hávaðamælingar hafi farið yfir viðunandi mörk með öðrum atvinnurekstri á svæðinu. Taka verði með í reikninginn að verksmiðjan og athafnasvæði hennar sé staðsett í miðju þorpinu á Bíldudal. Gert sé ráð fyrir því að við hönnun og uppsetningu verksmiðju inn af Langeyri, sem staðsett sé fjarri íbúðabyggð samkvæmt skipulagi, verði hljóðmön sett upp auk þess sem búnaður nýrrar verksmiðju verði ekki sá sami og á Bíldudal.

Ekki sé rétt að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem kærandi hafa komið á framfæri vegna deiliskipulagsins. Skipulags-, byggingar-, umhverfis- og samgöngunefnd hafi rætt athugasemdir kæranda tvisvar auk þess sem sveitarstjórn hafi lesið yfir og staðfest fundargerðir nefndarinnar. Að öllu virtu hafi athugasemdirnar ekki þótt þess eðlis að breyta þyrfti niðurstöðu nefndarinnar eða sveitarstjórnarinnar, enda hafi skipulagið einkum tekið mið af því sem legið hafi fyrir við alla forvinnu og staðfest hafi verið í Aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 2018-2030.

Hagsmunir kæranda vegna hins kærða deiliskipulags séu ekki slíkir að réttlæti ógildingu deiliskipulagsins, enda sé ekki um að ræða breytingu á þeim lóðum sem kærandi eigi. Ekki hafi enn reynt á það hvort sú uppbygging sem fyrirhuguð sé hafi neikvæð áhrif á eignir kæranda enda sé alls óvíst hvort þau áhrif verði neikvæð. Verði kærandi fyrir slíkum áhrifum ætti hann að hafa tök á að sækja skaðabætur úr hendi Súðavíkurhrepps eða framkvæmdaraðila eftir atvikum. Ljóst sé að hagsmunir sveitarfélagsins séu mun meiri en hagsmunir kæranda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að deiliskipulag Hlíðar sé frá 2014 en gerð hafi verið breyting á skipulaginu 2016. Einhver skógrækt muni vera komin af stað á jörðinni en ekki sé enn byrjað að reisa frístundabyggð. Landeigandi Hlíðar standi frammi fyrir því að ef kalkþörungaverksmiðja og höfn verði byggð inn af Langeyri verði án efa erfiðara að selja lóðir undir frístundabyggð. Varðandi mögulegt eignarnám virðist sem ekki hafi verið látið á það reyna hvort núverandi eigandi Hlíðar væri reiðubúinn að selja jörðina. Þá hafi sveitarfélagið ekki rætt formlega við kæranda um mögulega kaup á landi og/eða fasteignum.

Það sé rétt að ekki sé gert ráð fyrir nýrri íbúðabyggð á Langeyri samkvæmt gildandi deili­skipulagi. Hins vegar verði ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að nú þegar sé íbúðarhúsnæði á Langeyri og hafi svo verið um langan tíma. Deiliskipulagið geri ekki ráð fyrir breytingu á nýtingu þeirra mannvirkja sem fyrir séu á svæðinu.

Vegagerðin hafi lagt áherslu á botnrannsóknir og sé nú búið að gera slíka rannsókn á svæði sem falli undir tillögu 3 hjá Vegagerðinni. Sambærileg rannsókn hafi hins vegar ekki verið gerð fyrir tillögu 4 í landi Hlíðar.

Enn berist athugasemdir og kvartanir vegna starfsemi kalkþörungaverksmiðjunnar á Bíldudal. Í reglulegu eftirliti 3. júlí 2020 hafi komið fram að mælingar á ryki hafi ekki farið fram samkvæmt starfsleyfi en mæla eigi tvisvar á ári. Í eftirlitsskýrslu hafi einnig komið fram að kvörtun hafi borist vegna ryks frá tveimur skorsteinum. Hinn 20. ágúst s.á. hafi farið fram fyrirvaralaust eftirlit hjá Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. á Bíldudal. Fram hafi komið að ryk hafi verið sýnilegt í útblæstri frá vothreinsivirki verksmiðjunnar. Ef ryk sé sýnilegt í reyk megi áætla að styrkur sé í kringum 100 mg/Nm3 en starfsleyfismörk séu 20 mg/Nm3. Ekki sé rétt sem komi fram í greinargerð sveitarfélagsins að verksmiðjan á Bíldudal sé í miðri íbúðabyggð. Verksmiðjan sé niður við höfn í allnokkurri fjarlægð frá íbúðabyggð.

——

Íslenska kalkþörungafélaginu ehf. var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna málsins en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði. Kærandi er eigandi hluta af landi Langeyrar, sem liggur við deiliskipulagssvæðið, en á eignarlóð hans standa nokkur mannvirki, m.a. húsnæði sem hann nýtir sem íbúðarhúsnæði og verbúð. Í ljósi þeirrar starfsemi sem hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir verður að líta svo á að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Svo sem rakið er í málavöxtum á hið kærða deiliskipulag sér nokkurn aðdraganda, en 2014 lá fyrir viljayfirlýsing Íslenska kalkþörungafélagsins ehf. um áhuga á að fjárfesta í námu- og afurðavinnslu á kalkþörungum úr Ísafjarðardjúpi. Mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs kalkþörunganáms fór fram og lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í apríl 2020. Þar kom fram varðandi valkosti að í matsskýrslu væri eingöngu gerð grein fyrir einum staðarvalkosti fyrir verksmiðju. Framkvæmdaraðili hefði hins vegar lagt fram valkosti við tilhögun framkvæmdarinnar varðandi þann þátt sem líklegur væri til að valda mestum umhverfisáhrifum, þ.e. efnistökuna. Var matsskýrslan talin uppfylla skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Í máli þessu gerir kærandi nefnt valkostamat við mat á umhverfisáhrifum að helsta umtalsefni. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun hennar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Sambærileg ákvæði er ekki að finna vegna skipulagsgerðar og sækir hið kærða deiliskipulag ekki stoð sína í fyrirliggjandi mat á umhverfisáhrifum, þótt það lúti að sömu framkvæmd og skipulagið tekur til. Einskorðast athugun nefndarinnar því við lögmæti deiliskipulagsins á grundvelli þeirrar kæruheimildar sem til staðar er í máli þessu og finna má í 52. gr. skipulagslaga. Kveður lagagreinin á um að stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, en þó ekki þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að nefndum lögum að staðfesta, en þar undir falla ákvarðanir um aðalskipulag, sbr. 3. mgr. 32. gr. laganna.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er vald til að skipuleggja land innan marka sveitar-félags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum.

Hið umdeilda skipulag tekur til svæðis innan iðnaðar- og hafnarsvæðis samkvæmt skilgreindri landnotkun í Aðalskipulagi Súðavíkurhrepps 2018-2030. Samkvæmt skilgreiningunni skal á iðnaðarsvæðum gera ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem sé talin geta haft mengun í för með sér, sbr. f-lið í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en á hafnarsvæðum skal m.a gera ráð fyrir mannvirkjum og tækjum til móttöku skipa og báta, sbr. o-lið sömu greinar. Meðal markmiða aðalskipulagsins vegna hafnarsvæða er að gera nýja höfn sem m.a. þjóni kalkþörungaverksmiðju á Langeyri. Með hinu kærða deiliskipulagi er heimilað að gera landfyllingu með viðlegukanti og hafnaraðstöðu og reisa kalkþörungaverksmiðju inn af Langeyri. Hið kærða deiliskipulag byggir því á stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er uppfyllt skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Deiliskipulagið var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og átti kærandi kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna þess, sem hann og gerði. Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók athugasemdirnar til umfjöllunar á fundi sínum 6. janúar 2020 og tók afstöðu til þeirra skv. 3. mgr. nefndrar 41. gr. Vísaði nefndin m.a. til þess að staðsetning verksmiðjunnar í landi Hlíðar hafi verið talin óheppileg vegna mikils halla á sjávarbotni. Vegna meiri bratta séu meiri líkur á broti þegar fylling hefjist. Talið væri heppilegast að tengja athafnasvæðið á Langeyri við nýtt hafnar- og iðnaðarsvæði. Gert væri ráð fyrir að hámark losunar ryks í starfsleyfi yrði sambærilegt og hjá kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal eða 20 mg/Nm3. Mælingar í janúar og október 2019 sýndu að hægt væri að vera vel innan þessara marka. Íbúðarbyggð sé ekki skipulögð á Langeyri samkvæmt aðalskipulagi og mótvægisaðgerðir eins og trjáplöntun og jarðvegsmön muni milda áhrif á ásýnd. Var umsögn nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar 17. apríl 2020. Verður því ekki fallist á með kæranda að ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda hans þótt ekki hafi verið fallist á þær, enda felur skylda til samráðs það ekki í sér að svo skuli gert. Með erindi, dags. 21. s.m., var Skipulagsstofnun send deiliskipulagstillagan til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 17. júlí s.á., tilkynnti stofnunin að hún gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, sem var og gert 18. ágúst s.á. Að framangreindu virtu liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulagsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og með umhverfismati áætlunar, ef við á. Í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana var unnin umhverfisskýrsla vegna hins kærða deiliskipulags. Kærandi hefur vísað til þess að samanburður valkosta hafi verið ófullnægjandi og hefur m.a. nefnt í því sambandi að ekki hafi verið tillit tekið til mismunandi umhverfisáhrifa valkosta og ákvörðunin hafi einvörðungu byggst á því að velja ódýrasta kostinn. Ekki hafi verið látið reyna á hvort hægt yrði að semja við landeiganda Hlíðar auk þess sem aðrir valkostir en Langeyri og Hlíð í Álftafirði hafi ekki verið kannaðir. Jafnframt hafi sveitarfélagið brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga. Tekið er fram í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 að umhverfisskýrsla skuli hafa að geyma þær upplýsingar sem sanngjarnt sé að krefjast að teknu tilliti til þeirrar þekkingar sem er til staðar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu hennar í stigskiptri áætlanagerð. Samkvæmt f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. skal í umhverfisskýrslu m.a. koma fram skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar.

Í umhverfisskýrslu hins kærða deiliskipulags er að finna á mat því hvort þeir valkostir sem settir séu fram til að ná markmiðum áætlunarinnar muni hafa jákvæð, engin, óveruleg eða neikvæð áhrif á tiltekna umhverfisþætti. Kemur þar fram að Vegagerðin hafi gert kostnaðar- og framkvæmdaáætlun fyrir þrjár mismunandi útfærslur fyrir kalkþörungaverksmiðju á landfyllingu inn af Langeyri. Síðar hafi samskonar áætlun verið gerð fyrir fjórðu útfærsluna í landi Hlíðar. Rakið er að sveitarstjórn hafi samþykkt samhljóða útfærslu 3, en sá valkostur hafi af Vegagerðinni verið talinn taka styttri framkvæmdartíma og vera hagkvæmastur. Nokkrir staðsetningarkostir hafi verið skoðaðir eins og fram komi í frummatsskýrslu framkvæmdaraðila frá árinu 2017 og byggi val á staðsetningu m.a. á aðgengi og góðri hafnaraðstöðu. Staðsetning við Bolungarvík og Ísafjörð hafi verið könnuð, en ekki náðst samkomulag við heimamenn. Í umhverfisskýrslu skipulagsins er því valkostur 3 borinn saman við núllkost, þ.e. óbreytta landnotkun á svæðinu. Þeir umhverfisþættir sem koma nánar tiltekið til skoðunar við matið eru náttúrufarslegir þættir, efnahagur, atvinnulíf og þjónusta, heilsa og öryggi, byggð og efnisleg verðmæti, náttúru- og menningarminjar og landslag. Niðurstaða matsins er í meginatriðum sú að kalkþörungaverksmiðjan muni hafa víðtæk áhrif, bæði til hins betra og verra en neikvæð áhrif hennar séu ívið meiri. Verksmiðjan feli í sér mikilvægt skref í uppbyggingu atvinnulífs, nýsköpunar og þjónustu auk þess sem hún muni hafa jákvæð hagræn áhrif. Neikvæð áhrif verði á byggð og efnisleg verðmæti, m.a. þar sem skipulagssvæðið skerði möguleika fyrir skipulagningu nýrra svæða fyrir íbúðarbyggð og gæði útivistar og tómstundarsvæðis í nágrenni hennar rýrni. Breytt ásýnd og mengun, þ.m.t. loft- og ljósmengun, mun hafa þónokkur áhrif á íbúa fjarðarins. Hins vegar sé núllkostur ekki talinn valda breytingum á núverandi ástandi ef frá eru taldar mögulegar tafir á uppbyggingu rafveitu- og vegakerfis sem og annarra samgöngumannvirkja.

Úrskurðanefndin leggur áherslu á að svo sem rakið er í almennum athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 105/2006 er nokkur munur á umhverfismati áætlana og mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. lög nr. 106/2000, en það síðarnefnda er ekki til umfjöllunar hér eins og áður er fram komið. Er tekið fram í greindum athugasemdum að munurinn eigi við um nákvæmni matsins, málsmeðferð og afgreiðslu þess. Annars vegar komi það til af því að um sé að ræða almennar ákvarðanir um meginstefnu og hins vegar sértækar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir. Enn fremur að þar sem stefnumörkun á áætlanastigi sé yfirleitt almenns eðlis, samanborið við það sem eigi við um einstakar framkvæmdir sem háðar séu mati á umhverfisáhrifum, verði að ganga út frá því að umhverfismat áætlana sé tiltölulega gróft mat, oft án þess að sérstakar rannsóknir á umhverfi og umhverfisáhrifum fari fram. Að mati úrskurðarnefndarinnar fullnægir umhverfisskýrsla deiliskipulagsins sem áður er lýst áskilnaði 6. gr. laga nr. 105/2006 um efnisinnihald, m.a. að teknu tilliti til efnis og nákvæmni skipulagsins, sem og stöðu þess í stigskiptri áætlanagerð, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Á þessu stigi málsmeðferðar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar verður að telja að raunhæfir valkostir hafi verið skoðaðir og mat lagt á áhrif þeirra og verður ekki fallist á með kæranda að valkostamati skýrslunnar hafi verið ábótavant með hliðsjón af markmiði skipulagsins og landfræðilegs umfangs þess, sbr. f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr.

Fyrir liggur að framkvæmdir í landi Hlíðar þóttu ekki koma til greina við gerð deiliskipulagsins þar sem landið er á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð samkvæmt aðalskipulagi sveitar­félagsins. Þá er í umhverfisskýrslu skipulagsins gerð grein fyrir áhrifum hljóðmengunar af völdum fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju. Kemur þar fram að samkvæmt hljóðkorti muni hljóðvist á nærliggjandi svæðum vera innan marka reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Að því virtu verður ekki fallist á með kæranda að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og verður að öðru leyti heldur ekki séð að rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Ber jafnframt að hafa í huga að við afgreiðslu málsins lá fyrir að framkvæmdin hafði farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Þrátt fyrir að kærandi nýti húsnæði á eignarlóð sinni á Langeyri, m.a. undir íbúðir, verður ekki hjá því litið að lóðin er á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi en ekki íbúðarsvæði. Verða því hagsmunir kæranda ekki taldir hafa verið fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga. Rétt þykir þó að benda á að geti kærandi sýnt fram á tjón vegna hins kærða deiliskipulags á hann eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur dómstóla.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 17. apríl 2020 um að samþykkja deiliskipulag hafnar- og iðnaðarsvæðis inn af Langeyri í Álftafirði.

3/2020 Hvíldartími eldissvæða Arnarlax

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 1. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2020, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 um að breyting á hvíldartíma eldissvæða í Arnarfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. janúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra 3 landeigendur í Ketildölum, Arnarfirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 þess efnis að „stytting á hvíldartíma á eldissvæðum Arnarlax um 50-63%“ skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 20. febrúar 2020.

Málavextir: Arnarlax ehf. leggur stund á sjókvíaeldi og hefur framleiðsla fyrirtækisins á laxi í Arnarfirði sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í starfsleyfi fyrirtækisins frá 15. febrúar 2016 fyrir 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í firðinum kemur fram að um kynslóðaskipt eldi í sjókvíum á þremur sjókvíaeldissvæðum sé að ræða. Eldið sé að jafnaði á tveimur sjókvíaeldissvæðum í senn en eitt svæði hvílt milli eldislota að lágmarki í sex til átta mánuði. Hinn 21. mars 2019 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Arnarlaxi um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma eldissvæða fyrirtækisins í Arnarfirði til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. tl. 1.11 og 13.02 í 1. viðauka laganna. Í meðfylgjandi greinargerð framkvæmdaraðila kom fram að ástæða fyrirhugaðrar breytingar á lágmarkshvíldartíma eldissvæða væri sú að fyrirtækið vildi geta nýtt sér þann möguleika að setja út nýja kynslóð fiska á tveggja ára fresti væru umhverfisaðstæður hagstæðar. Þannig mætti nýta betur þau eldissvæði þar sem góð eldisskilyrði væru fyrir hendi. Hvíldartími yrði að lágmarki 90 dagar en ef niðurstöður vöktunar eldissvæðis þegar lífmassi væri í hámarki gæfu vísbendingu um að umhverfisástand væri ekki gott yrði svæðið hvílt lengur. Í nefndri greinargerð framkvæmdaraðila komu einnig fram þær mótvægisaðgerðir sem hann hyggðist grípa til ef niðurstöður vöktunar samkvæmt vöktunaráætlun fyrirtækisins fyrir tímabilið 2018-2023 yrðu óásættanlegar.

Skipulagsstofnun leitaði umsagna Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Matvæla-stofnunar við meðferð málsins og bárust þær í apríl og júlí 2019.

Umhverfisstofnun áréttar í umsögn sinni, dags. 15. apríl 2019, að 90 daga hvíldarskilyrði séu til varnar fiskisjúkdómum og laxalús svo hægt sé að verjast því að sjúkdómavaldar berist á milli kynslóða. Falli það undir starfssvið Matvælastofnunar en önnur sjónarmið búi að baki hvíldartíma í starfsleyfum Umhverfisstofnunar. Í þeim geti verið nauðsynlegt að gera kröfu um lengri hvíldartíma sé talin þörf á því vegna mengunar starfseminnar þar sem gæti áhrifa, m.a. á botndýralíf undir kvíum. Stofnunin telji forsendu þess að hvíldartími verði styttur þá að lögð sé fram nákvæm áætlun um mat á svæðunum þar sem fram komi hvernig rekstraraðili eigi að bregðast við ef þurfi að hvíla svæði lengur. Mikil óvissa sé á umhverfisáhrifum styttingar á hvíldartíma og heildaráhrif eldisins séu enn ekki fram komin. Vænlegasti kosturinn sé að fá upplýsingar um áhrif eldisins með þeim hvíldartíma sem lagt hafi verið upp með í upphafi. Að fenginni þeirri reynslu sé fyrst hægt að meta hvort forsendur séu fyrir því að stytta hvíldartímann miðað við upplýsingar um ástand fjarðarins í raun. Breytingin á hvíldartíma sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og því háð mati á umhverfisáhrifum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 11. júlí 2019, er ekki tekin afstaða til þess hvort nauðsyn sé á mati á umhverfisáhrifum en stofnunin bendir á að með styttingu hvíldartíma sé líklegt að fram komi áhrif vegna uppsöfnunar lífrænna leifa á botni kvíasvæða. Vöktun framkvæmdaraðila og Hafrannsóknastofnunar bendi til þess að mismunandi eldissvæði þoli lífrænt álag misvel. Þá sé mögulegt að laxa- og fiskilúsarálag muni aukast með styttingu hvíldartíma.

Í umsögn Matvælastofnunar, dags. 12. apríl 2019, er tekið fram að hvíldartími í starfsleyfi Umhverfisstofnunar eigi við um hvíld vegna umhverfisaðstæðna. Matvælastofnun telji 90 daga hvíld nægja vegna sjúkdómavarna en óvíst sé hvort slík hvíld dugi þegar hugað sé að umhverfis-þáttum. Nauðsynlegt sé að framkvæmdaraðili geri viðbragðsáætlun sem taki til viðbragða ef tiltekið eldissvæði, sem útsetning eigi að fara fram á, hafi ekki náð ásættanlegu ástandi að lokinni hvíld. Miklu máli skipti að niðurstöður úr sýnatökum að lokinni hvíld eldissvæða liggi fyrir áður en útsetning seiða sé heimiluð af stofnuninni. Að öðru leyti taki hún ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í kjölfar framangreindra umsagna kom framkvæmdaraðili að athugasemdum og kynnti uppfærða viðbragðsáætlun í tengslum við vöktun á ástandi eldissvæða og hvernig útsetningu seiða yrði háttað á grundvelli niðurstaðna vöktunar. Tók áætlunin frekari breytingum á meðan á málsmeðferð stóð hjá Skipulagsstofnun eftir samráð við Umhverfisstofnun. Afstaða Umhverfisstofnunar til endanlegrar viðbragðsáætlunar kemur fram í tölvubréfi 21. nóvember 2019 og var á þá leið að stofnunin teldi framkvæmdaraðila hafa gert nægjanlega grein fyrir því með hvaða hætti brugðist yrði við neikvæðum áhrifum af völdum breytinga á hvíldartíma.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 er reifað í hverju fyrirhuguð breyting felist. Er tekið fram að framkvæmdaraðili stundi sjókvíaeldi á þremur sjókvíaeldissvæðum í Arnarfirði. Á svæði A séu eldissvæðin Haganes og Steinanes, á svæði B séu eldissvæðin Tjaldaneseyrar og Hlaðsbót og á svæði C séu eldissvæðin Hringsdalur og Kirkjuból. Eldi fari að jafnaði fram á tveimur sjókvíaeldissvæðum í senn og felist fyrirhuguð breyting í því að lágmarkshvíldartími sjókvíaeldissvæða verði styttur úr sex til átta mánuðum í 90 daga. Fjallað er um umhverfisáhrif breytingarinnar á ástand sjávar og botndýralíf sem og laxfiska. Í niðurstöðu sinni tekur stofnunin fram að ákvörðun hennar snúi eingöngu að því hvort stytting hvíldartíma sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér umfram þau áhrif sem vænta megi af óbreyttri framkvæmd. Kemst Skipulagsstofnun að því á grundvelli fyrirliggjandi gagna að svo sé ekki með vísan til viðmiða 1.-3. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé ranglega rökstudd og veigamiklir þættir séu ekki hafðir til hliðsjónar við ákvörðunina. Mat Skipulagsstofnunar sé það að einu áhrif styttri hvíldartíma séu annars vegar aukið álag á botndýralíf og ástand sjávar og hins vegar aukin hætta á fiskisjúkdómum og sníkjudýrum í villtum laxastofnum. Sé það mat stofnunarinnar að framangreind áhrif séu óveruleg og afturkræf. Einnig byggi niðurstaðan á því að treyst sé á eftirlit framkvæmdaraðila og opinberra eftirlitsstofnana ásamt viðbragðsáætlun rekstraraðila ef fram komi neikvæð áhrif framkvæmdarinnar. Gallar séu í rökstuðningi Skipulagsstofnunar og sé framkvæmdaraðila og eftirlitsstofnunum engan veginn treystandi til að sinna eftirliti starfseminnar eða bregðast ásættanlega við frávikum.

Umrædd starfsemi framkvæmdaraðila flokkist sem mengandi starfsemi. Mjög takmörkuð þekking liggi fyrir um mengun frá íslensku laxeldi og langtímaáhrifum þess á lífríki þröskuldsfjarða, svo sem Arnarfjarðar. Skipulagsstofnun bendi á að ummerki lífrænna mengunar gæti enn einu ári eftir að eldistíma við Tjaldaneseyrar hafi lokið og í Patreksfirði hafi þurft að færa til eldisstæði vegna botnmengunar. Ekki sé enn komin reynsla af áhrifum styttri hvíldartíma á botnmengun.

Samkvæmt straummælingum í Arnarfirði gæti lítilla strauma við kvíasvæði við Hringsdal eða einungis 25-50% af straumþunga annarra kvíasvæða. Því til viðbótar séu til staðar gagnvirkir straumar sem hindri fráflutning úrgangs. Í frummatsskýrslu vegna eldisins frá mars 2014 segi „við Tjaldaneseyrar var heildarfærslan (framskreiður vektor) til vest-suðvesturs um 0,04 og 0,03 m/s á 5 og 10 m dýpi á tímabilinu frá lokum nóvember 2013 og fram í byrjun janúar 2014. Við Hringsdal var mælt frá byrjun janúar og fram í seinni hluta febrúar 2014. Yfir heildartímabilið mældist framskreiður vektor ˂0,01 m/s með stefnu í vestur af norðri (NNV) á 5 m dýpi en um 0,01 m/s í stefnu nálægt suðaustri á 10 m dýpi. Á þessum mælistað verður því meiri snúningur á straumi og heildarfærslan yfir tímabilið verður því minni. Frá þessum þremur eldissvæðum er því mesta færsla í stefnu út úr firði frá Haganesi og Tjaldaneseyrum en í meira jafnvægi inn og út við Hringsdal.“ Mengunaráhætta vegna uppsöfnunar lífræns úrgangs sé því meiri við Hringsdal en við önnur kvíasvæði og af þeim sökum óásættanlegt að auka mengunarhættu frekar með styttri hvíldartíma.

Ljóst sé að forsendur sem tilgreindar hafi verið í greindri matsskýrslu frá mars 2014 um fiskidauða séu rangar. Þar segi „þeir fiskar sem drepast verða veiddir með svokölluðum dauðfiskaháf og gert er ráð fyrir að kvíar verði vaktaðar frá þrisvar sinnum í viku til daglega. Við framleiðslu á 7.000 tonnum má gera ráð fyrir að afföll vegna dauða fiska verði um 100 tonn. Við framleiðslu á 10.000 tonnum má gera ráð fyrir að afföll vegna dauða fiska verði 160 tonn.“ Reynslan hafi sýnt að þessi gildi séu nær 15-20% af lífmassa og því gætu afföll verið allt að 2.000 tonn. Mest afföll verði oft í kjölfar slæmra veðurskilyrða og þá hafi oftar en ekki gerst að losun dauðs fisks hafi ekki verið gerleg í nokkra daga vegna veðurs. Í þeim tilfellum hafi niðurbrot fisksins hafist sem hafi skilað sér í grútarslæðu á firðinum og nærliggjandi ströndum.

Eftirlit með mengun sé að mestu leyti í höndum framkvæmdaraðila eða verktaka á þeirra vegum. Í ljósi vanefnda á eftirliti og skráningu ásamt brotum á starfsleyfi er varði hvíldartíma og hámarkslífmassa sé engan veginn hægt að treysta framkvæmdaraðila fyrir auknum kröfum um eigið eftirlit og viðbragðsáætlun. Sem dæmi um ofangreint megi nefna að samkvæmt árlegum eftirlitsskýrslum Umhverfisstofnunar með eldisstöðvum framkvæmdaraðila í Arnarfirði hafi á árunum 2018 og 2019 verið frávik til staðar sem sneru að mengunarmálum. Þannig hafi á árinu 2018 ekki enn verið til staðar útreikningur/sundurliðun á losun fosfórs og köfnunarefnis eldissvæða, sem séu mælikvarðar lífrænnar mengunar. Því sé ekki hægt að meta hvort að losunarmörk hafi verið virk. Í síðustu eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar, dags. 28. nóvember 2019, komi fram að enn hafi ekki verið búið að laga verkferla þannig að hægt væri að reikna út losun fosfórs og köfnunarefnis miðað við tonn framleiðslu og því enn ekki hægt að sannreyna hvort að losunarmörk væru virt.

Fleiri frávik séu tilgreind í eftirlitsskýrslu. Meðal annars komi fram að samkvæmt Grænu bókhaldi hafi engin lyf verið notuð í stöðinni á árinu 2017, en bæði Matvælastofnun og framkvæmdaraðili hafi staðfest að notuð hafi verið svæfingarlyf og lúsalyf (skordýraeitur) á þessu tímabili. Leyfilegur hámarkslífmassi í stöðinni sé 10.000 tonn. Í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar, dags. 15. október 2018, komi fram að „skv. gögnum frá rekstraraðila var lífmassi í stöðinni 10.075 tonn þann 10. des. 2018 þrátt fyrir að slátrað hafi verið um rúmum eitt þúsund tonnum fiskjar í nóvember og það sem af var desember.“ Að framangreindu virtu megi sjá að framkvæmdaraðili hafi brotið ákvæði starfsleyfis sem snúi að hámarkslífmassa sem sé einn af helstu mengunarþáttum starfseminnar. Þessu til viðbótar megi gera ráð fyrir að fiskidauði hafi að lágmarki verið 15-20%, sem auki enn umframmagnið. Síðastliðin tvö ár hafi Umhverfisstofnun bent á að vöktunaráætlun þurfi að uppfæra. Samkvæmt eftirlitsskýrslum stofnunarinnar, dags. 15. október 2018 og 28. nóvember 2019, vanti einnig viðbragðsáætlun/áhættumat vegna bráðamengunar. Metnaður framkvæmdaraðila til að uppfylla kröfur um vöktun og viðbragðsáætlun virðist því takmarkaður.

Skipulagsstofnun telji ólíklegt að stytting hvíldartíma „valdi verulega óafturkræfum umhverfisáhrifum“. Í því sambandi sé áhugavert að rifja upp tillögur framkvæmdaraðila í frummatsskýrslu frá mars 2014 vegna aukningar eldismagns í 10.000 tonn sem hafi verið grundvöllur mats á umhverfisáhrifum samþykktu af Skipulagsstofnun. Í skýrslunni segi um sjúkdómavarnir, vöktun og eftirlit að „eins og fram kemur í kafla 5.10 mun Arnalax vinna í nánu samstarfi við dýralækni fiskisjúkdóma um skipulag smitvarna. Einnig með því að hafa nægilega fjarlægð á milli eldissvæða, samræmda útsetningu seiða í firðinum, kynslóðaskipt eldi og að eldissvæði séu hvíld reglulega er dregið úr hættu á fiskisjúkdómum.“

Að tillögu matsskýrslunnar hafi verið ákveðið í starfs- og rekstrarleyfi að lágmarkshvíldartími skyldi vera sex til átta mánuðir og að lágmarksfjarlægð milli eldissvæða skyldi vera 5 km, sbr. reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna og reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi. Fljótlega hafi komið í ljós að fjarlægð milli eldissvæða hafi verið undir 4 km og í júní 2018 hafi framkvæmdaraðili brotið ákvæði um hvíldartíma með útsetningu seiða eftir þrjá mánuði.

Hvað varði rökstuðning Skipulagsstofnunar fyrir takmörkuðum áhrifum styttri hvíldartíma á villta laxastofna sé talað um að helsta áhætta liggi í álagi á gönguseiði laxafiska. Stofnunin minnist hins vegar ekkert á sérstaka áhættu lúsamengunar fyrir villta sjóbirtingsstofna sem gangi í litlar ár í Ketildölum og Arnarfirði. Óumdeilt sé að lúsamengun hafi verulega neikvæðar afleiðingar á sjóbirtingsstofna, enda lifi sjóbirtingsseiði og fullvaxta fiskur í grunnsævi/innfjörðum og oftar en ekki í mikilli nálægð við eldiskvíar. Sýnt hafi verið fram á hnignun/hrun sjóbirtingsstofna í nálægð við laxeldi í Noregi, Skotlandi og Írlandi. Þrátt fyrir að ekki sé um að ræða stóra stofna í umræddum ám, þ.e. Bakkadalsá, Fífustaðadalsá og Selá, þá hafi þeir verið nýttir af landeigendum og eigi sér tilverurétt samkvæmt 1. og 2. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 með síðari breytingum og samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem leggi áherslu á að vernda lífríki á öllum skipulagsstigum þess, þar með talið þær erfðaauðlindir sem lífríkið búi yfir. Nú þegar hafi sést merki um lúsasár á sjóbirtingi og mat heimamanna sé að stofnarnir eigi undir högg að sækja.

Í umfjöllun Skipulagsstofnunar sé ekki minnst á áhættu styttri hvíldartíma fyrir villt fuglalíf og æðavarp. Margoft hafi verið bent á að í nokkur hundruð metra fjarlægð frá kvíastæði í Hringsdal sé eitt stærsta æðavarp á Vestfjörðum, um 1.200 hreiður, sem sé afkomugrundvöllur eins kærenda sem sé einn af síðustu bændunum í Ketildölum. Ljóst sé að stytting hvíldartíma muni bæði fela í sér áhættu á aukinni botnmengun með ófyrirséðum afleiðingum á fæðuframboð æðarfugls og annarra sjófugla. Enn verra sé að styttri hvíldartími muni minnka líkur á að eldissvæðið hreinsi sig af laxalús og því aukist líkur á enn meiri notkun lúsalyfja. Umrædd lyf sé í grunninn skordýraeitur sem leysi upp skel rækju- og krabbadýra. Engar rannsóknir séu til staðar sem sýni möguleg áhrif síendurtekinna lúsaeitrana á æðavarp, en ætla megi að það hafi verulega neikvæð áhrif, þar sem ein aðalfæða æðarfugls og æðarunga sé marfló. Í Noregi hafi rannsóknir sýnt fram á neikvæð áhrif lúsaeitrunar á nálæga rækjustofna. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar komi fram áhyggjur af að notkun lúsaeiturs kunni að hafa skaðleg áhrif á annað líf í Arnarfirði, svo sem rækju- og krabbategundir. Komi til neikvæðra áhrifa á æðarvarp gætu þau áhrif verið óafturkræf og/eða valdið verulegu fjárhagstjóni.

Aðgerðir eftirlitsaðila hafi verið afar veikburða og ekki sé hægt að treysta ábyrgð þeirra og viðbrögðum við aukið mengunarstig. Sem dæmi megi nefna að í júní 2018 hafi framkvæmdaraðili sett út seiði við Hringsdal eftir þriggja mánaða hvíldartíma og þar með brotið í bága við skilyrði starfsleyfis um sex til átta mánaða lágmarks hvíldartíma. Hinn 16. júlí s.á. hafi Umhverfisstofnun sent framkvæmdaraðila bréf þar sem félaginu hafi verið tilkynnt um áform um áminningu vegna brotsins. Hinn 31. s.m. hafi framkvæmdaraðili sent Umhverfisráðuneytinu undanþágubeiðni vegna umrædds brots á hvíldartíma. Engar lagalegar forsendur eða heimildir hafi verið fyrir veitingu slíkrar undanþágu, en engu að síður hafi Umhverfisstofnun notað þetta sem afsökun fyrir aðgerðaleysi þar til 24. maí 2019 þegar Umhverfisráðuneytið hafi hafnað undanþágubeiðninni. Áður, eða 11. september 2018, hafi stofnunin lýst yfir að hún myndi leggjast gegn undanþágubeiðninni. Hinn 7. maí 2019 hafi Umhverfisstofnun sent framkvæmdaraðila aðra tilkynningu um áform um áminningu. Hinn 19. júní s.á. hafi stofnunin samþykkt úrbótaáætlun framkvæmdaraðila en þar segi að samþykktur hafi verið þriggja mánaða hvíldartími gegn því að eldissvæðið verði hvílt í að lágmarki átta mánuði í kjölfarið á núverandi eldislotu og mengunarmælingar verði framkvæmdar.

Framkvæmdaraðili hafi verið með viðvarandi frávik og brot á ákvæðum um upplýsingagjöf um mengun og aðgerðir þar að lútandi. Þannig hafi ekki verið til staðar tilskildar upplýsingar um losun fosfórs og köfnunarefnis og því hafi ekki verið hægt að ákvarða hvort starfsemin uppfyllti starfsskilyrði. Þrátt fyrir þetta veigamikla brot hafi engum viðurlögum verið beitt til að knýja fram betra verklag. Umhverfisstofnun bendi á í eftirlitsskýrslu 2018 að ljóst sé að framkvæmdaraðili hafi brotið ákvæði starfsleyfis um hámarkslífmassa, en engum viðurlögum hafi veri beitt við þessu alvarlega broti. Matvælastofnun hafi eftirlit með notkun lúsaeiturs í laxeldi. Á árunum 2017 og 2018 hafi stofnunin birt á heimasíðu sinni fréttatilkynningu um umrædda notkun. Á árinu 2019 hafi hún hætt að birta upplýsingar og séu þær nú eingöngu aðgengilegar í fundagerðum fisksjúkdómanefndar. Upplýsingagjöf Matvælastofnunar til hagsmunaaðila og almennings sé því verulega ábótavant og oft og tíðum virðist stofnunin sinna frekar hagsmunum eldisfyrirtækja en almennings.

Í frummatsskýrslu frá mars 2014 sé fjallað um ásýnd, þ.e. sjónræna mengun frá starfseminni. Þar megi finna eftirfarandi lýsingu „fyrirhugað eldissvæði kennt við Hringsdal er staðsett á móts við Hólstanga undan strönd Ketildala. Frá kumlstæði í átt að fyrirhuguðu eldissvæði við Hringsdal eru 2,5 km. Gera má ráð fyrir að sjá megi móta fyrir eldiskvíum frá kumlstæði, sjá Mynd 8.32, en kvíarnar verða vel sýnilegar frá Ketildalavegi á móts við Hól þar sem þær verða í um 500 m fjarlægð frá landi, sjá Mynd 8.34. Kvíar muni hins vegar ekki rísa hátt yfir yfirborði sjávar.“ Að mati kærenda sé raunveruleikinn annar í dag. Meðan á eldistíma vari sé til staðar við kvíasvæðið stór yfirbyggður fóðurprammi sem sé flóðlýstur að næturlagi. Hann sjáist í margra kílómetra fjarlægð jafnt að degi sem nóttu, auk þess sem hljóðmengun vegna ljósavéla sé veruleg og berist til nærliggjandi byggða, Hringsdals og Grænuhlíðar, í stilltu veðri. Ljósmengun sé alger forsendubrestur miðað við lýsingu í frummatsskýrslu og eyðileggi ásýnd og kyrrð fjarðarins að næturlagi. Það sé því óásættanlegt að þessa ótilgreindu og ósamþykktu mengun eigi að auka enn frekar með styttri hvíldartíma.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmd háð mati á umhverfisáhrifum þegar hún geti haft í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt henni sé um að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Af þessari skilgreiningu verði ráðið að það þurfi mikið til að koma svo að framkvæmd skuli háð umhverfismati. Líta þurfi til þess hvort og þá til hvaða mótvægisaðgerða framkvæmdaraðili grípi þegar áhrif framkvæmdar á umhverfið séu metin.

Með framangreinda skilgreiningu að leiðarljósi og að virtum gögnum málsins, sem legið hafi að baki matsskylduákvörðuninni, sem og áliti Skipulagsstofnunar frá 2. september 2015 um aukna framleiðslu framkvæmdaraðila, á laxi um 7.000 tonn, fái stofnunin ekki séð að aukin mengunaráhætta, sem kunni að vera fyrir hendi, geti leitt til þess að breyting á hvíldartíma eldissvæða Arnarlax í Arnarfirði skuli undirgangast mati á umhverfisáhrifum. Að öðru leyti vísi stofnunin til umfjöllunar í ákvörðun sinni. Eins og þar komi fram hafi stofnunin tekið mið af vöktun, mótvægisaðgerðum og viðbragðsáætlun framkvæmdaraðila þegar hún hafi komist að niðurstöðu sinni. Lögð sé áhersla á að viðbragðáætlunin hafi tekið breytingum á meðan málsmeðferð Skipulagsstofnunar stóð yfir. Í þeirri áætlun sé tilgreint hvernig brugðist verði við ef eldissvæði, sem útsetning eigi að fara fram á, hafi ekki náð ásættanlegu ástandi að lokinni hvíld.

Í kærunni sé því haldið fram að forsendur sem tilgreindar hafi verið í frummatsskýrslu um fiskidauða séu alrangar. Kærendur hafi ekki bent á áreiðanleg gögn sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að forsendur um fiskdauða væru alrangar. Stofnuninni hafi verið vel kunnugt um að slæm veðurskilyrði gætu leitt til meiri dauða en áætlaður hefði verið. Áætlaður fiskidauði og mögulegur fiskidauði við slæmar aðstæður hafi haft takmarkað vægi við ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu framkvæmdarinnar þar sem ákvörðunin sneri að mögulegri styttingu hvíldartíma eldissvæða.

Við mat á því hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum beri Skipulagsstofnun að líta til viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000. Mögulegar vanefndir á eftirliti og skráningu ásamt brotum á starfsleyfi er varði hvíldartíma og hámarkslífsmassa séu atriði sem falli undir starfssvið starfs- og rekstrarleyfisveitenda. Þeir hafi ákveðin úrræði til að bregðast við ef þessi atriði séu ekki í lagi, t.d. með því að afturkalla leyfi. Stofnunin taki fram í hinni kærðu ákvörðun að áhrif af breyttum hvíldartíma kunni mögulega að felast í aukinni hættu á því að fisksjúkdómar og sníkjudýr nái fótfestu í eldiskvíum með mögulegum áhrifum á villta laxfiska „í nágrenni fiskeldis“. Undir tilvitnað orðalag falli m.a. ár í Ketildölum og Arnarfirði. Sjóbirtingur teljist vera laxfiskur en möguleg áhrif á laxfiska í nágrenni eldissvæða hafi, ásamt mögulegum áhrifum á ástand sjávar og botndýralíf, verið meginumfjöllunarefni ákvörðunar stofnunarinnar. Í áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum 7.000 tonna framleiðsluaukningu framkvæmdaraðila frá 2. september 2015 sé vikið að laxalús og sjóbleikju og sjóbirtingi. Þar komi m.a. fram sú afstaða að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis felist í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskstofna. Þetta varði fyrst og fremst sjóbirting og sjóbleikju sem dvelji í sjó í Arnarfirði hluta úr ári. Lesa verði hina kærðu ákvörðun með hliðsjón af umræddu áliti stofnunarinnar. Norskar rannsóknir hafi leitt í ljós að sjóbleikja og sjóbirtingur drepist í meira mæli en lax af völdum laxalúsar. Jafnframt sé mikilvægt að við leyfisveitingar verði horft til þess að laxa- og fiskilús hafi komið upp í eldi Arnarlax í Arnarfirði og gripið hafi verið til lyfjanotkunar þrjú ár í röð vegna þess.

Ekki séu færð sérstök rök fyrir því að stytting hvíldartíma hafi í för með sér ófyrirséðar afleiðingar á fæðuframboð æðarfugls og annarra sjófugla. Almennt séu áhrif sjókvíaeldis á botn nokkuð staðbundin og að auki megi almennt segja að fæðuframboð fugla aukist vegna fiskeldis. Bæði sæki fiskur að eldiskvíum í ætisleit sem geti svo orðið bráð fugla og svo myndist ásætur á eldisbúnaði sem sé fæða æðarfugla. Það sé rétt að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki berum orðum minnst á áhættu styttri hvíldartíma fyrir villt fuglalíf og æðarvarp. Hins vegar sé vikið að fuglalífi og æðarvarpi í mati á umhverfisáhrifum 7.000 tonna framleiðsluaukningar Arnalax í Arnarfirði sem hafi lokið með áliti Skipulagsstofnunar í september 2015. Hafi stofnunin ekki talið tilefni til að víkja berum orðum að þessum atriðum í hinni kærðu ákvörðun en hafi haft þau í huga áður en hún hafi verið tekin.

Eftirlitsaðili á sviði fiskeldis sé Matvælastofnun en ekki Skipulagsstofnun. Jafnframt gegni Umhverfisstofnun ákveðnu hlutverki vegna útgáfu starfsleyfis. Skipulagsstofnun hafi hins vegar eftirlit með framkvæmd laga nr. 106/2000, sbr. 2. mgr. 4. gr. þeirra.

Í áliti Skipulagsstofnunar frá september 2015 um mat á umhverfisáhrifum 7.000 tonna aukningar á framleiðslu Arnalax sé þeirri afstöðu lýst að sjónræn áhrif verði helst í námunda við eldissvæði hverju sinni, en takmörkuð á verulegum hluta Arnarfjarðar. Sjónræn áhrif verði því nokkuð neikvæð. Í frummatsskýrslu og matsskýrslu sé ekki vikið að fóðurpramma sem sé flóðlýstur að næturlagi og mögulegri hljóðmengun vegna ljósavéla. Í greinargerð/tilkynningu Arnalax vegna matsskylduákvörðunar sé ekki heldur vikið að umræddum fóðurpramma og hugsanlegri hljóðmengun sem leiði af honum. Ef það hefði verið gert telji Skipulagsstofnun samt sem áður, að virtu því hvernig skilgreiningin á umtalsverðum umhverfisáhrifum í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 sé úr garði gerð, að það hefði ekki leitt til þess að hin tilkynnta framkvæmd hefði verið háð mati á umhverfisáhrifum, enda verði ekki séð að um veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu verði að ræða. Ákvörðunin hafi einungis snúið að styttingu hvíldartíma við tilteknar aðstæður. Umfang eldis í firðinum verði eftir sem áður það sama.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að þetta kærumál sé ekki vettvangur til að leita eftir endurupptöku á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum laxeldis Arnarlax í Arnarfirði. Rökstuðningur í kæru snúi að stórum hluta að almennum umhverfisáhrifum fiskeldis í Arnarfirði en ekki að eiginlegum áhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. breytingu á hvíldatíma eldissvæða í Arnarfirði. Álitaefnið snúist hins vegar eingöngu um hvort fyrirhuguð breyting á hvíldartíma á eldissvæðum sé matsskyld framkvæmd. Að hvíldartíma undanskildum verði framkvæmdin í Arnarfirði áfram í fullu samræmi við það sem kynnt hafi verið á sínum tíma í mati á umhverfisáhrifum, þar með talið hvað varði umfang og framleiðslumagn eldisins.

Áhersla sé lögð á að leiðrétta þá mynd sem dregin sé upp í kæru um að hin kærða ákvörðun feli í sér skilyrðislausa heimild til 90 daga hvíldartíma. Í reynd sé gert ráð fyrir hvíldartíma í a.m.k. 90 daga en Matvælastofnun og Umhverfisstofnun geti þó krafist lengri hvíldartíma ef niðurstaða vöktunar kalli á viðbrögð. Fyrirhuguð breyting á hvíldartíma sé í fullu samræmi við 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Þar segi að þegar eldi og slátrun hverrar kynslóðar ljúki skuli sjókvíaeldi vera í hvíld í a.m.k. 90 daga. Þá geti Matvælastofnun samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar gert kröfu um aukna og/eða samræmda hvíld stöðva eða svæða hjá samliggjandi sjókvíaeldisstöðvum og ákveðið að stærri svæði verði hvíld í lengri tíma ef þörf sé á slíku.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum jafngildi því ekki að framkvæmd sé talin laus við umhverfisáhrif. Ákvörðunarferlið sem hér um ræði sé grundvallað á 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 1.11 og 13.02 í 1. viðauka laganna. Við ákvörðun um matsskyldu beri stjórnvaldi að fara að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Í því sambandi megi sérstaklega benda á hina lögfestu meðalhófsreglu sem birtist í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í tengslum við þau sjónarmið sem birtist í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 15. apríl 2019, þar sem vikið sé að varúðarreglunni í 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, verði að líta til þess að við beitingu reglunnar séu stjórnvöldum skylt að taka mið af framangreindri meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og ekki ganga lengra en nauðsyn beri til. Með hliðsjón af þeim skilyrðum sem nú gildi um hvíldartímann, svo sem með vöktunaráætlun og heimildum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar til inngripa, verði að telja að niðurstaða Skipulagsstofnunar samræmist fyllilega framangreindri varúðarreglu.

Framkvæmdaraðili sinni umhverfisvöktun í samræmi við vöktunaráætlun sem gerð sé í samráði við Umhverfisstofnun, sem sé útgefandi starfsleyfis. Slík umhverfisvöktun varpi ljósi á ástand sjávar og botndýralíf. Bendi niðurstöður vöktunar fyrirtækisins á eldissvæðum til uppsöfnunar óæskilegra efna við og undir sjókvíum verði brugðist við í samræmi við framlagða aðgerðaráætlun sem kynnt hafi verið í tengslum við fyrirspurn um matsskyldu vegna breytingar á hvíldartíma. Breyting á hvíldartíma á eldissvæðum feli ekki í sér aukningu á framleiðslu eða lífmassa. Því muni álag vegna lífrænna efna sem falli til við eldið ekki aukast.

Félagið hafi lagt stund á fiskeldi við Hringsdal frá árinu 2016. Í staðarúttekt sem gerð hafi verið árið 2016 komi fram að meginstraumur liggi í norðvestur og meðalstraumur sé 9 cm/s sem sé mjög góður straumstyrkur fyrir sjókvíaeldi. Vöktunarskýrslur vegna eldis í Hringsdal hafi leitt í ljós að umhverfisaðstæður á svæðinu henti vel til fiskeldis en svæðið hafi fengið bestu einkunn, þ.e. ástand mjög gott, í öllum botnrannsóknum sem gerðar hafi verið eftir að eldi hafi hafist á svæðinu. Reynslan síðan 2016 sé því sú að umhverfisaðstæður á eldissvæðinu við Hringsdal séu mjög heppilegar með tilliti til eldisstarfsemi. Rétt sé að geta þess að fyrirtæki það, sem gert hafi tilvitnaða staðarúttekt og vöktunarskýrslur, veiti vottaða þjónustu og vinni sýnatöku og rannsóknir eftir stöðlum. Þá sé umhverfisvöktun fyrirtækisins t.d. hagað þannig að sýnatöku úrvinnsla og skýrslugerð uppfylli kröfur sem gerðar séu til umhverfisvottunar hjá Aquaculture Stewardship Council (ASC-staðlinum).

Allur dauðfiskur sé tekinn upp úr kvíunum. Í nær öllum tilfellum sé það gert daglega og í samræmi við ákvæði 3.11, sbr. 3.9, í starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Fyrir komi að ekki sé hægt að komast út í kvíarnar vegna veðurs en það sé þó í algjörum undantekningartilvikum. Það sé því ekki rétt sem kærendur haldi fram að mikið magn af dauðum fiski sitji lengi í netpokanum og brotni þar niður sem orsaki einhverskonar mengun. Þrátt fyrir aukin afföll upp á síðkastið hafi leyfisveitandi fyllilega náð að tæma dauðfiskháfa og hafi ekki orðið vart við mengun í nágrenni sjókvía. Hafnað sé því alfarið fullyrðingu kærenda um grútarslæðu í firðinum eða á nærliggjandi ströndum. Að því er varði fullyrðingar kærenda um skort á eftirliti árétti leyfisveitandi að fyrirtækið hafi sent uppfærða viðbragðsáætlun, vöktunaráætlun fyrir eldið í Arnarfirði ef þörf sé aðgerða vegna uppsöfnunar óæskilegra efna undir og við sjókvíar, og áhættumat vegna bráðamengunar til Umhverfisstofnunar og áætlunin bíði nú samþykkis stofnunarinnar.

Umfjöllun um fjarlægðarmörk eigi ekki erindi í kæru sem lúti að ákvörðun um breyttan hvíldartíma. Þó sé rétt að benda á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nú þegar fjallað um fjarlægð milli eldissvæða í Arnarfirði, sbr. úrskurð hennar frá 29. október 2015 í máli nr. 73/2012 vegna kæru á ákvörðun Fiskistofu um útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis til handa framkvæmdaraðila.

Áhrif á fuglalíf hafi verið metin í fyrirliggjandi matsskýrslu frá 2015. Þar segi að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum feli í sér að áhrif á fugla á athafnasvæði kvíanna og þar í kring verði „afturkræf“ og „óveruleg“ eða „nokkuð jákvæð“. Sé litið á áhrifasvæðið Arnarfjörð í heild þá hafi áhrif á fuglalíf verið talin vera „óveruleg“. Umhverfisstofnun hafi fylgst með ástandi æðarfugls í nágrenni eldisstöðvanna og þyki ekkert benda til þess að starfsemi framkvæmdar-aðila hafi nokkur áhrif á afkomu æðarvarps. Honum sé ekki kunnugt um að starfsemi félagsins hafi truflað æðarfugla eða æðarvarp.

Kærendur staðhæfi ranglega að Umhverfisstofnun hafi með skilyrtu samþykki á úrbótaáætlun leyfisveitanda samhliða samþykkt þriggja mánaða hvíldartíma. Forsaga málsins sé sú að framkvæmdaraðila hafi verið tilkynnt um áform um áminningu vegna fráviks frá starfsleyfi er varðaði ónógan hvíldartíma svæða í sjókvíum. Í kjölfarið hafi hann lagt fram sérstaka úrbótaáætlun þar sem m.a. sé gert ráð fyrir því að upplýsingagjöf til Umhverfisstofnunar um útsetningu seiða yrði bætt, þjálfun starfsmanna yrði aukin og að ráðist yrði í samningu verklagsreglna og gátlista til að nota við útsetningu seiða þar sem yrði tekið tillit til hvíldartíma o.s.frv. Með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 19. júní 2019, hafi úrbótaáætlun verið samþykkt með skilyrðum. Með öðrum orðum hafi Umhverfisstofnun aldrei áminnt fyrir frávik frá ákvæðum starfsleyfisins um hvíldartíma heldur hafi verið ákveðið að grípa ekki til formlegrar áminningar með hliðsjón af framlagðri úrbótaáætlun. Ekkert bendi til annars en að í þessu tilviki hafi Umhverfisstofnun gripið til viðeigandi aðgerða með tilliti til aðstæðna, valdheimilda stofnunarinnar og í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.

Breyttur hvíldartími muni ekki koma til með að hafa áhrif á ætlaða hljóð- eða sjónmengun framkvæmdarinnar og því eigi slíkar röksemdir ekkert erindi í kærumálið.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur hafna því að vöktun geti talist mótvægisaðgerð í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, enda sé með slíkri vöktun hvorki komið í veg fyrir, dregið úr né bætt fyrir neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar heldur sé eingöngu aflað upplýsinga um þau. Þá geti „mögulegar mótvægisaðgerðir“ sem lýst sé í hinni kærðu ákvörðun á þann veg að um sé að ræða „mögulegar úrlausnir eins og hvort hvíla beri svæði lengur, minnka eigi lífmassa/lífþyngd á viðkomandi svæði, hvort sýnatökur þurfi að verða tíðari eða fara þurfi í aðrar aðgerðir“, ekki talist fullnægjandi til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdar án þess að fyrir liggi í hverju þessar aðgerðir muni felast.

Ástæða þess að hin kærða ákvörðun sé ekki grundvölluð á rökstuddu mati á fullnægjandi áformum um mótvægisaðgerðir sé sú að umhverfisáhrif þeirrar ráðstöfunar sem ákvörðunin lúti að séu óþekkt. Skýrlega sé tekið fram í umsögn Hafrannsóknastofnunar að mikil óvissa sé fyrir hendi um umhverfisáhrif ráðstöfunar sem þessarar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á hvíldartíma eldissvæða í Arnarfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Að mati kærenda ber nauðsyn til að slíkt mat fari fram þar sem stytting á þeim tíma sem hvíla ber eldissvæði auki hættu á mengun. Fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Almennt verður þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa málum frá vegna þess nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir hagsmuni kærenda að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Kærendur eru landeigendur í Ketildölum, Arnarfirði og skírskota þeir jafnframt til réttar síns yfir veiðiám á svæðinu. Vegna nándar við þau eldissvæði sem um ræðir er ekki hægt að útiloka að kærendur geti átt lögvarða hagsmuni af því að metin verði umhverfisáhrif breytingar á hvíldartíma svæðanna. Verður kærendum því játuð kæruaðild að máli þessu.

Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir um það hvenær framkvæmd skuli háð slíku mati. Tilteknir eru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og eru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið er svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B og C skulu háðar slíku mati þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita er til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita er í ferskvatn fellur undir flokk B, sbr. tl. 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Einnig falla undir flokk B allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir í flokki B sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. tl. 13.02 í nefndum viðauka. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar að auka eldi á laxi í sjókvíum í Arnarfirði úr 3.000 tonnum í 10.000 tonn hefur farið fram og lá álit Skipulagsstofnunar þar um fyrir 2. september 2015. Í samræmi við nefnda 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma eldissvæða, sbr. greinda tl. 1.11 og 13.02 í 1. viðauka laganna.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka. Undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða sem skipta mismiklu máli vegna þeirrar framkvæmdar sem til skoðunar er hverju sinni. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið getur skipt máli að mat á umhverfisáhrifum hinnar upprunalegu framkvæmdar hafi farið fram, auk þess sem miða verður við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er, eftir atvikum að meðtöldum mótvægisaðgerðum.

Líkt og áður er komið fram hefur eldi framkvæmdaraðila í Arnarfirði sætt mati á umhverfisáhrifum og takmarkast sú framkvæmd sem hér um ræðir við heimild til styttingar hvíldartíma á eldissvæðum þannig að lágmarkshvíldartími verði 90 dagar í stað sex til átta mánaða, eins og kveðið er á um í gildandi starfsleyfi framkvæmdaraðila. Tók umfjöllun Skipulagsstofnunar mið af því og var í hinni kærðu ákvörðun einkum fjallað um umhverfisáhrif breytts hvíldartíma á ástand sjávar og botndýralíf, svo og á laxfiska.

Svo sem lýst er í málavöxtum leitaði Skipulagsstofnun umsagna Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Matvælastofnunar við meðferð málsins og gafst framkvæmdaraðila tækifæri til andsvara. Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun tóku ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum en gerðu báðar sjúkdómavarnir að umtalsefni. Matvælastofnun taldi 90 daga hvíld nægja vegna sjúkdómavarna, en Hafrannsóknastofnun benti á að laxa- og fiskilúsarálag myndi mögulega aukast með styttingu hvíldartíma. Í frekari gögnum frá Matvælastofnun kom fram að hún teldi miðað við staðsetningar eldissvæða ekki hættu á neikvæðum áhrifum á þeim tíma þegar mest hætta væri, þ.e. þegar seiði gengju í sjó að vori, enda drægi verulega úr áhrifum með aukinni fjarlægð kvía frá útgöngustöðum seiða. Taldi Skipulagsstofnun, með hliðsjón af umsögn Matvælastofnunar og þar sem hægt væri að grípa til ráðstafana eins og að auka hvíld aftur eða draga úr umfangi eldis til að draga úr áhrifum þess á lífríki, ekki líklegt að fyrirhuguð breyting á eldinu kæmi til með hafa umtalsverð umhverfisáhrif á laxfiska. Með hliðsjón af endurtekinni notkun lyfja og mögulegra skaðlegra áhrifa þeirra taldi Skipulagsstofnun þó rétt að leyfisveitendur tryggðu að í leyfum væri skýrt kveðið á um heimildir til að bregðast við vegna mögulegra afleiðinga þess ef laxa- og fiskilús ásamt lyfjameðhöndlun yrði viðvarandi í eldi í Arnarfirði.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að hún teldi mat á umhverfisáhrifum þurfa að fara fram vegna breytingarinnar. Mikil óvissa væri á umhverfisáhrifum styttingar á hvíldartíma og heildaráhrif eldisins væru enn ekki fram komin. Við frekari málsmeðferð lagði framkvæmdaraðili fram viðbragðsáætlun. Kom þar m.a. fram að möguleg viðbrögð félagsins ef niðurstöður úr botnasýnatöku eftir hvíld væru óásættanlegar væru að minnka lífmassa á eldissvæði, auka hvíldartíma, færa kvíar til innan eldissvæðis eða setja ekki út seiði á viðkomandi eldissvæði og eftir atvikum nota önnur eldissvæði innan sama sjókvíaeldissvæðis. Umhverfisstofnun kom að spurningum og athugasemdum við áætlunina sem var svarað af hálfu framkvæmdaraðila og var áætlunin uppfærð. Lagði stofnunin áherslu á að hvíld myndi miðast við raunástand eldissvæðis í hvert sinn og var það mat hennar að með uppfærðri áætlun hefði framkvæmdaraðili gert nægjanlega grein fyrir því með hvaða hætti brugðist yrði við ef hvíldartíma yrði breytt. Með sama hætti kom fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að hún teldi almennt mikilvægt að hvíld eldissvæða yrði stýrt af raunástandi botndýralífs, líkt og framkvæmdaraðili áformaði. Með hliðsjón af boðaðri verktilhögun, vöktun og viðbragðsáætlun taldi stofnunin ólíklegt að heimild til að stytta hvíldartíma myndi leiða til neikvæðari áhrifa á ástand sjávar en væru vegna núverandi starfsemi í firðinum, enda myndi ástand eldissvæða stýra útsetningu seiða.

Var það lokaniðurstaða Skipulagsstofnunar að þeir þættir sem féllu undir eðli framkvæmd-arinnar, staðsetningu og eiginleika hennar kölluðu ekki á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum. Í rökstuðningi stofnunarinnar var tiltekið að fyrirhuguð breyting á fyrirkomulagi hvíldartíma fæli hvorki í sér breytingu á stærð og umfangi framkvæmdar né nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Breytingin kynni að fela í sér aukið álag á tilteknum svæðum en minna á öðrum. Áhrif af breyttum hvíldartíma kynnu fyrst og fremst að felast í auknu álagi á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum, sem og mögulega aukinni hættu á að fisksjúkdómar og sníkjudýr næðu fótfestu í eldiskvíum með mögulegum áhrifum á villta laxfiska í nágrenni fiskeldis. Með hliðsjón af vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum framkvæmdaraðila ef tilefni væri til, þá væri breyttur hvíldartími ekki líklegur til að valda verulegum óafturkræfum umhverfisáhrifum. Tók stofnunin og fram að í starfsleyfi væru skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skuli háttað í aðdraganda útsetningar seiða, sem og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo heimilt sé að setja seiði út í eldissvæði. Vísaði stofnunin til þess að lúsalyf hefðu verið notuð í þrjú ár í röð í eldi í Arnarfirði en lúsalyf kunni að hafa neikvæð áhrif á lífríki í nágrenni sjókvía. Það væri í höndum opinberra aðila að heimila slíka notkun en þeir gætu jafnframt gripið til annarra ráðstafana ef tilefni væri til. Ólíklegt mætti telja að lyfjanotkun yrði viðvarandi til lengri tíma vaknaði grunur um að hún hefði slæm áhrif á lífríki Arnarfjarðar.

Ljóst er að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar, heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Sé talið líklegt að þau verði umtalsverð skal mat fara fram á þeim áhrifum eingöngu en ekki heildarframkvæmdarinnar. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum vegna hennar kann hins vegar að gefa vísbendingu um hvaða þætti breytingin geti haft áhrif á og þá hverjar áherslur ættu að vera í tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu, málsmeðferð Skipulagsstofnunar og matsskylduákvörðun. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt, og tók Skipulagsstofnun tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga við það mat. Stofnunin aflaði umsagna sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fékk fram frekari sjónarmið umsagnaraðila og lagði að lokum sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Tók stofnunin mið af vöktun, mótvægisaðgerðum og viðbragðsáætlun framkvæmdaraðila vegna starfseminnar sem tók frekari breytingum á meðan á málsmeðferð stofnunarinnar stóð. Rannsókn málsins var því fullnægjandi og færði Skipulagsstofnun viðhlítandi rök að þeirri niðurstöðu sinni að breyting á hvíldartíma eldissvæða væri ekki líkleg til að valda svo umtalsverðum umhverfisáhrifum að mat á þeim þyrfti að fara fram.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem meðferð málsins var ekki áfátt að öðru leyti, verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 um að breyting á hvíldartíma eldissvæða í Arnarfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

133/2019 Torfur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 7. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 21. nóvember 2019 um að samþykkja deiliskipulag vegna svínabús að Torfum, Eyjafjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2019, er móttekið var hjá nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðanna Grundar I, Grundar IIa og Finnastaða, Eyjafjarðarsveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar að samþykkja deiliskipulag fyrir svínabú í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Farið var fram á það að málið yrði munnlega flutt fyrir úrskurðarnefndinni skv. 2. mgr. 30. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. apríl 2020.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðar­sveit 24. janúar 2020.

Málavextir: Mál þetta hefur áður komið til kasta úrskurðarnefndarinnar. Jörðin Torfur er í ábúð og er staðsett sunnan við kirkjujörðina Grund í Eyjafjarðarsveit. Tilgreint fyrirtæki festi kaup á 18,8 ha spildu úr landi Torfa og hefur haft uppi áform um að byggja þar svínabú. Skipulags- og matslýsing vegna vinnu við deiliskipulag fyrir búið var samþykkt til kynningar á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 1. október 2018 og auglýst á tímabilinu 2.-16. s.m. Í kjölfarið yfirfór Skipulagsstofnun lýsingu deiliskipulagstillögunnar samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana nr. 105/2006, sbr. bréf stofnunarinnar þar um, dags. 24. s.m. Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók umsagnir og athugasemdir vegna þessa fyrir á fundi sínum 5. nóvember 2018 og vísaði þeim áfram til áframhaldandi vinnu við deiliskipulag.

Á fundi sínum 29. nóvember 2018 samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarveitar tillögu skipulags­nefndar um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa. Í tillögunni fólst að byggt yrði upp svínabú fyrir 2.400 grísi (30 kg og stærri) og 400 gyltur. Afmörkuð yrði 5,45 ha lóð fyrir fyrirhugaðar byggingar, sem yrðu 2.600 m² eldishús, 3.100 m² gylltu- og fráfærugrísahús, 300 m² starfsmanna- og gestahús, allt að átta síló­, samtals 80 m² að grunnflatarmáli, og 1-2 haugtankar, samtals um 6.000 m³. Tillagan var kynnt á tímabilinu 27. desember 2018 til 14. febrúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Á 302. fundi skipulagsnefndar 14. mars 2019 var fjallað um innkomnar athugasemdir og m.a. bókað að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar væru í afgreiðslu nefndarinnar á tilteknum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. var málið tekið fyrir og bókað að fundargerð 302. fundar skipulagsnefndar væri tekin til afgreiðslu eins og einstakir liðir bæru með sér. Undir lið 1.1 var fjallað um umsókn um uppbyggingu svínahúss í landi Torfa og tekið fram að sveitarstjórn teldi skipulagsnefnd hafa svarað málefnalega öllum liðum þeirrar athugasemdar sem beint hefði verið að sveitarstjórn. Þá var eftirfarandi bókað: „Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu þeirra erinda sem bárust á auglýsingartímabili deiliskipulagstillögu svínabús á Torfum. Athugasemdafrestur var til 14. febrúar 2019.“ Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 49/2019, uppkveðnum 14. nóvember 2019, var komist að þeirri niðurstöðu að afgreiðsla sveitarstjórnar uppfyllti ekki þau lágmarks­­skilyrði sem gera yrði til skýrleika ákvarðana hennar, í skjóli þess valds sem sveitar­stjórn væri falið samkvæmt skipulagslögum og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011. Var umrædd afgreiðsla því ekki talin fela í sér ákvörðun sem batt enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og var þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni er laut að deiliskipulagstillögunni.

Samhliða meðferð deiliskipulagsins var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem framkvæmd í flokki B samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 12. mars 2019. Var þar tekið fram að fyrirhuguð framkvæmd vegna svínabús að Torfum væri tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. og lið 1.10 í 1. viðauka í lögum nr. 106/2000. Væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laganna, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðunin var birt á vef Skipulagsstofnunar 13. mars 2019 og einnig auglýst í Fréttablaðinu 14. s.m. Kom þar fram að samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 mætti kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og væri kærufrestur til 15. apríl 2019. Kærandi kærði umrædda ákvörðun Skipulagsstofnunar, en kæran barst ekki fyrr en rúmlega tveimur mánuðum eftir að kærufrestur var liðinn, eða 24. júní 2019. Í áðurgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar var lagt til grundvallar að ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu sættu opinberri birtingu í skilningi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Var því kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar einnig vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 49/2019 tók sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar, á fundi sínum 21. nóvember 2019, aftur fyrir fundargerð 302. fundar skipulagsnefndar sem haldinn var 14. mars s.á. Bókaði sveitarstjórn m.a. að „fenginni tillögu skipulagsnefndar, sem liggur fyrir fundinum um afgreiðslu málsins, samþykkir sveitarstjórn deiliskipulag fyrir svínahús í landi Torfna, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar eru í afgreiðslu nefndarinnar á athugasemdum 3 c), 3 e), 6 c), 7 f) og 8 a)“.

Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins var birt í B-deild Stjórnartíðinda 25. nóvember 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þótt úrskurðarnefndin hafi vísað frá fyrri kæru kærenda varðandi matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar vegna útrunnins kærufrests sé sú matsskylduákvörðun engu að síður lögbundinn réttargrundvöllur deiliskipulagsákvörðunar sveitarstjórnar. Úrskurðarnefndinni beri því skylda til að kanna lögmæti matsskyldu­ákvörðunarinnar við mat á lögmæti deiliskipulagsins. Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016 beindi umboðsmaður þeim leiðbeiningum til úrskurðarnefndarinnar að endurupptaka mál þar sem nefndin hefði ekki gefið gaum að lögmæti deiliskipulagsákvörðunar sem hefði legið til grundvallar byggingarleyfi. Hafi umboðsmaður talið það engu skipta að kærufrestur deiliskipulagsins hafi verið útrunninn þegar kæran barst.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 hafi verið röng að formi. Um brot hafi verið að ræða á þátttökurétti almennings samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðar­nefnd umhverfis- og auðlindamála við töku ákvörðunar um matsskyldu hjá Skipulagsstofnun. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að Skipulags­stofnun eigi ekki einungis að leita álits leyfisveitanda og framkvæmdaraðila heldur einnig annarra eftir eðli máls hverju sinni. Eðli og umfang hins fyrirhugaða deiliskipulags sé slíkt að Skipulagsstofnun hafi verið skylt skv. nefndri 3. mgr. 6. gr. að hafa samband við næstu nágranna búsins áður en ákvörðun væri tekin um matsskyldu. Sé ljóst að kærendur hafi haft verulega og sérstæða hagsmuni af því að fá að tjá sig um matsskylduákvörðun stofnunar­innar áður en sú ákvörðun væri tekin.

Kærendur telji jafnframt að sú ákvörðun hafi verið röng að efni til. Að mati kærenda hafi verið um matsskyldu að ræða og hefði mat á umhverfis­áhrifum átt að fara fram. Í 1. mgr. 5. gr laga nr. 106/2000 sé tilgreint að framkvæmdir í flokki A samkvæmt 1. viðauka laganna skuli ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Í 1. mgr. 6. gr. laganna sé hins vegar tilgreint að framkvæmdir sem falli undir flokk B og C í 1. viðauka skuli háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Kærendur telji að um matsskylda framkvæmd í A-flokki hafi verið að ræða. Jafnframt telji kærendur að um matsskylda framkvæmd hafi verið að ræða ef B-flokkun eigi við. Það sé grundvallarröksemd að um leið og heildaráhrif framkvæmdar í B-flokki 1. viðauka verði jafnmikil eða meiri en grunnviðmið A-flokks framkvæmda hljóti slíkar B-flokks framkvæmdir nær undantekningar­laust einnig að vera matsskyldar samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Við málsmeðferð deiliskipulagsins hafi Eyjafjarðarsveit borist mikill fjöldi umsagna bæði frá stjórnvöldum og almenningi. Í athugasemdunum hafi nánast undantekningarlaust komið fram sömu eða sambærilegar athugasemdir á þá leið að svínabúið fæli í sér umhverfisraskanir sem hefðu neikvæð áhrif á nánasta umhverfi. Í athugasemdunum hafi nágrannar sérstaklega lýst áhyggjum yfir mengun vegna úrgangs og lyktar sem kynni að dreifast yfir svæðið. Auk þess hafi fjölmargir lýst yfir áhyggjum yfir framtíðarnýtingu fasteigna á svæðinu, enda gæti svo stórt svínabú haft varanleg neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu og frístunda­byggðar. Athugasemdir nágranna og almennings hafi hins vegar haft afar takmörkuð áhrif. Athugasemdirnar hafi verið afgreiddar af hálfu sveitarfélagsins sem smávægilegar eða minniháttar. Þá hafi áhrif deiliskipulagsins ekki verið talin verulega neikvæð heldur fremur hlutlaus og að jákvæð áhrif framkvæmdanna kynnu að vega þyngra en neikvæð áhrif.

Nær öll rannsókn málsins og eftirfarandi niðurstöður hafi byggst á huglægu mati eða ágiskunum stjórnvaldsins. Kærendur hafi óskað eftir gögnum málsins frá sveitarfélaginu og hvergi í þeim gögnum hafi verið að finna skýrslur eða mat sérfræðinga á aðstæðum eða forsendum sem hafi legið til grundvallar við gerð umhverfisskýrslu deiliskipulagsins, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Sem dæmi megi nefna umsögn Umhverfisstofnunar til Skipulagsstofnunar þar sem mögulegri lyktarmengun hafi verið lýst, en engin frekari rannsókn eða formlegt mat virðist hafa átt sér stað. Kærendur efist um að úrgangur úr rúmlega 4.200 svínum nemi einungis 9.000 m³ á ári. Þetta þyrfti að rannsaka og sannreyna en engar slíka aðgerðir virðist hafa verið framkvæmdar í deiliskipulagsferlinu.

Ekki sé hægt að bera hefðbundinn landbúnað saman við stórtæka verksmiðjuframleiðslu kjöts. Fremur mætti fella slíka framleiðslu undir þungaiðnað. Áhrif framkvæmdanna verði veruleg. Ljóst sé að þau muni koma til með að valda kærendum tjóni í formi verðlækkunar á landareignum og kunni skaðabætur vegna þess að verða sóttar á öðrum vettvangi. Gera verði miklar kröfur til rannsókna af hálfu stjórnvaldsins við undirbúning deiliskipulags, t.d. með því að kalla eftir mati sérfræðinga og fagaðila á viðkomandi sviðum. Það virðist ekki hafa verið gert miðað við þau gögn sem kærendur hafi fengið frá sveitarfélaginu.

Kærendur telji andmælarétt þeirra ekki hafa verið virtan vegna skorts á samstarfi sveitar­félagsins við Skipulagsstofnun þegar mat á matsskyldu framkvæmdanna hafi átt sér stað. Skýrar leiðbeiningar hefðu átt að berast til allra þeirra nágranna sem gert hefðu athugasemdir við skipulagsgerð um að málið væri til úrvinnslu hjá Skipulagsstofnun vegna matsskyldu­ákvörðunar. Hefði átt að gefa frest til athugasemda, ásamt því að leiðbeina um að kærufrestur væri til staðar vegna þeirrar ákvörðunar. Þetta hafi ekki verið gert og telji kærendur það brjóta gegn IV. kafla stjórnsýslulaga. Við mat á framangreindu sé óhjákvæmilegt að líta til 14. gr. skipulagslaga um tengsl ákvarðana Skipulagsstofnunar um matsskyldu og deiliskipulags sveitarfélags í tilvikum matsskyldra framkvæmda.

Ekkert raunverulegt valkostamat hafi farið fram á hinu kærða deili­skipulagi. Um það vísist í fyrsta lagi til þess að ekkert valkostamat hafi verið til staðar í upphaflegri auglýstri deiliskipulagstillögu frá 19. september 2018. Þá hafi ekki heldur verið að finna umhverfismat í upphaflegri auglýstri deiliskipulagstillögu. Á síðari stigum skipulags­ferlisins hafi komið inn valkostamat og umhverfismat. Kærendur hafni því að um raunverulegt valkostamat hafi verið að ræða heldur hafi sú tillaga fremur verið til málamynda. Allt valkosta­mat ferlisins sé bundið við það vandamál að koma svínabúinu fyrir í Eyjafjarðarsveit með hliðsjón af 500 m radíus reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Svo virðist sem svæði deiliskipulagsins og nærliggjandi sveita séu orðin svo þéttbyggð að engir aðrir raunhæfir kostir hafi verið taldir fyrir hendi til stað­setningar svínabúsins.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 575/2016 vegna Suðurnesjalínu 2 megi sjá mikilvægi þess að gerð sé grein fyrir raunhæfum valkostum í tillögum og matsskýrslum í deiliskipulags- og mats­ferlinu. Þá telji kærendur einnig rétt að benda á úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 131/2012, „Ásar minkabú“.

Að lokum skori kærendur á úrskurðarnefndina að rannsaka mögulegt vanhæfi sveitarstjórnar­manna og  skipulagsnefndar vegna funda og ákvarðana sem teknar hafi verið vegna hins kærða skipulags. Oddviti sveitarstjórnar Eyjafjarðasveitar sé bróðir eiganda framkvæmdaraðila þótt af fundargerðum sveitarstjórnar verði ráðið að hann hafi vikið af fundum þegar málefni svínabúsins hafi verið tekin fyrir. Annar sveitarstjórnarfulltrúi hafi setið alla fundi sveitarstjórnar og skipulagsnefndar sem varði svínabúið frá 24. september 2018 til 11. febrúar 2019, en þá hafi hann vikið af fundi undir fundarlið sem varði svínabúið. Á næsta sveitarstjórnarfundi hinn 14. febrúar 2019 hafi sami fulltrúi lýst sig vanhæfan undir fundarlið sem varði svínabúið og áfram vegna þess á næstu fundum. Að lokum hafi formaður skipulagsnefndar setið fundi hennar sem varðað hafi svínabúið frá 24. september 2018 til 11. febrúar 2019, en þá vikið af fundi undir dagskrárlið svínabúsins. Eftir það hafi hann vikið af fundum.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Sveitarfélagið krefst þess að kærunni verði vísað frá eða að kröfum kærenda verði hafnað.

Hinn 22. ágúst 2019 hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 70/2019 að vísa bæri kæru kærenda frá vegna framkvæmdaleyfis framkvæmdaraðila á þeim grundvelli að íbúðarhús þeirra væru staðsett langt utan fjarlægðarmarka. Ekki verði betur séð en að sömu rök eigi við varðandi þessa kæru. Íbúðarhús kærenda séu í um eins kílómeters fjarlægð frá spildunni að Torfum þar sem hið fyrirhugaða svínabú eigi að rísa. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína sé áskilið að svínabú með meira en 2000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 600 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum en mörkin séu 500 m á skipulögðum landbúnaðarsvæðum. Í ljósi þessarar fjarlægðar verði að telja að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni af kærunni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í þessu sambandi sé einnig rétt að hafa í huga að landsvæði það sem um ræði sé skipulagt landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar, sem staðfest hafi verið af Skipulagsstofnun 8. mars 2019. Það verði ekki séð að tilkoma svínabúsins skerði möguleika kærenda á að nýta jarðir sínar. Einnig muni rekstraraðili búsins þurfa leyfi frá Umhverfisstofnun og verða bundinn af reglum um bestu aðgengilegu tækni (BAT).

Líkt og í kæru kærenda frá 24. júní 2019 sé í þessari kæru fjallað í löngu máli um ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdin þurfi ekki að sæta mati á umhverfisáhrifum og færð séu ýmiskonar rök fyrir því að sú ákvörðun sé röng. Kæru kærenda vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar hafi verið vísað frá úrskurðarnefndinni með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019 þar sem kærufrestur hafi verið útrunninn. Því sé ljóst að ákvörðunin sé endanleg og verði henni ekki breytt. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar feli í sér bindandi réttaráhrif varðandi ákvörðun Skipulagsstofnunar og hún verði ekki kærð öðru sinni, líkt og kærendur virðist leita eftir. Rétt sé að hafa í huga að sveitarfélagið hafi engar heimildir til að endurmeta ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu og ekki verði séð að það sé hlutverk Eyjafjarðarsveitar að hafa skoðun á ákvörðun Skipulagsstofnunar. Í deiliskipulagsferli geti sveitarfélag ekki gert annað en lagt til grundvallar ákvörðun Skipulagsstofnunar um mats­skyldu. Það myndu alltaf teljast ómálefnaleg sjónarmið af hálfu sveitarfélags að synja um samþykkt deiliskipulags á þeim forsendum að því líkaði ekki ákvörðun Skipulagsstofnunar. Ekki sé með nokkru móti hægt að sjá að unnt sé að ógilda deiliskipulagið á þeim grundvelli að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé áfátt eða ábótavant, enda sé hún endanleg og verði ekki breytt. Eyjafjarðarsveit hafi ekki átt annarra kosta völ en að leggja hana til grundvallar í deiliskipulags­ferlinu.

Í kæru setji kærendur fram órökstudda fullyrðingu um að hið fyrirhugaða svínabú hafi í för með sér meiri röskun á umhverfisaðstæðum en sumar, raunar ótilgreindar, framkvæmdir sem falli í A-flokk. Niðurstaða málsins verði ekki grundvölluð á almennum fullyrðingum sem þessum gegn áliti bæði Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin skuli ekki sæta mati á umhverfisáhrifum og skýrri afstöðu þessara aðila um að slíkt mat sé ekki til þess fallið að varpa fram nýjum upplýsingum um umrædda framkvæmd.

Meðferð deiliskipulagsins og atvika sem því tengist hafi verið til fyrirmyndar í málinu öllu. Á öllum stigum málsins hafi sveitarfélagið gætt að því að málsmeðferð væri í samræmi við lög, fjallað ítarlega um málið og ráðið því til lykta með ýtrustu eftirfylgni við lög og reglur sem um það giltu. Sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn skyldi ekki hafa tekið nægjanlega skýra ákvörðun um samþykkt deiliskipulagsins á sínum tíma hafi komið á óvart. Nú hafi hins vegar verið bætt úr því með samþykkt sveitarstjórnar 21. nóvember 2019, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m.

Athugasemdir kærenda um varanleg neikvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu og frístunda­byggðar á svæðinu séu ekki tæk sjónarmið. Áhrifasvæðið sé landbúnaðarland, þar með talið það land sem sé í eigu kærenda, en kærendur stundi sjálfir umfangsmikinn landbúnað. Land­notkun á svæðinu hafi ekki verið breytt við heildarendurskoðun aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar og engar óskir hafi komið um það frá kærendum eða öðrum. Mótmælt sé staðlausum fullyrðingum um að athugasemdir í skipulagsferlinu hafi verið afgreiddar af sveitarfélaginu sem „smávægilegar eða minni háttar“. Séu þetta ómaklegar aðdróttanir í garð starfsfólks og kjörinna fulltrúa Eyjafjarðarsveitar um huglægt mat eða ágiskanir stjórnvalds. Fyrirliggjandi gögn séu ítarleg, þar með taldar ítarlegar umsagnir sérfróðs­ stjórnvalds um umhverfisáhrif af fram­kvæmdinni. Óvenjulega ítarleg vinna hafi átt sér stað af hálfu stjórnvaldsins í málinu.

Sú breyting sem hafi verið samþykkt með deiliskipulaginu hafi falið í sér verulega breytingu á landnýtingu. Farið hafi verið ítarlega eftir þeim reglum sem um það gildi á öllum stigum. Rangt sé hins vegar að fyrirhuguð áform um svínabú skuli fella undir þungaiðnað. Slík fullyrðing kærenda sé gildishlaðin og ekki studd lögmætum sjónarmiðum. Áformað svínabú sé landbúnaðarstarfsemi á landi sem í aðal­skipulagi sé skilgreint sem landbúnaðarland. Nýleg reglugerð nr. 550/2018, um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnareftirlit, muni gilda um starfsemi svínabúsins. Þá muni rekstrar­aðili lúta eftirliti Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar.

Augljóst sé að ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, sem og deiliskipulag, sé undanfari veitingar starfsleyfis, sbr. ákv. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018. Þar segi að ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu skuli liggja fyrir og að ný atvinnustarfsemi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag. Sé þetta breytt laga- og regluumhverfi frá því sem áður hafi verið þegar örðugra hafi verið að sjá fyrir hver áhrif yrðu af áformum um uppbyggingu svínabúa.

Fullyrðingum um að samþykkt skipulagsins og framkvæmd muni valda kærendum sem land­eigendum tjóni sé mótmælt sem órökstuddum og ósönnuðum. Landsvæði kærenda sé land­búnaðar­land og skipulagt sem slíkt. Fyrirhuguð landnýting sé skynsamleg og eðlileg fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð sé. Óvíða sé orðið hægt að finna svæði, jafnvel á landbúnaðar­svæðum, þar sem hægt sé að setja niður starfsemi sem þessa og uppfylla um leið reglur um fjarlægðar­mörk, svo sem gert sé í tilviki umsækjenda. Hér þurfi því, um heimild landeigenda og umsækjenda til að ráðstafa landbúnaðarlandi sínu undir atvinnustarfsemi sem fyrirhuguð sé, að líta til þess að þau áform njóti verndar eignarréttar- og atvinnufrelsisákvæða 72. og 75. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944 og verði því ekki skert nema skýr og afdráttarlaus lagaheimild standi til þess. Í nýstaðfestu og endurskoðuðu aðalskipulagi fyrir Eyjafjarðarsveit sé umþrætt landsvæði skipulagt sem landbúnaðarland, eins og áður greini. Framkvæmdin sé í samræmi við áherslur í aðalskipulagi. Engar forsendur séu til annars en að líta svo á að hið kærða skipulag sé að fullu og öllu í samræmi við lög og reglur.

Kærendur vísi í dóm Hæstaréttar Íslands frá 26. apríl 2012 í máli nr. 523/2011 til stuðnings því að þeir eigi fyrirsjáanlega rétt á skaðabótum vegna framkvæmdarinnar. Þessum skilningi sé mótmælt enda séu aðstæður ekki þær sömu og hafi reglur breyst frá því sá dómur hafi fallið. Tekið hafi gildi mjög ítarlegar reglur um landbúnaðarstarfsemi og um starfsemi svínabúa varðandi meðferð úrgangs og starfsemi þeirra að öðru leyti, svokallaðar BAT-reglur, sem framkvæmdar­aðili verði bundinn af.

Andmælaréttur kærenda hafi verið virtur, en fyrir liggi að þeir hafi á fyrri stigum málsins komið að sjónarmiðum sínum og haft jöfn tækifæri á við aðra um það. Af fram kominni kæru kærenda verði ekki séð að í henni sé að finna upplýsingar eða ábendingar um atvik sem séu til þess fallin að varpa nýju ljósi á málið eða breyta þeim sjónarmiðum sem afgreiðsla sveitarfélagsins hafi grundvallast á. Gildi þar rannsóknarreglan um að mál skuli rannsakað að því marki sem nauðsynlegt sé til að taka megi efnislega rétta ákvörðun í máli.

Rangt sé að ekkert valkostamat hafi farið fram sem byggjandi sé á. Ítarleg valkostagreining hafi farið fram við vinnslu og meðferð málsins. Í deiliskipulagstillögunni sé að finna kafla 5.7. og 5.8. þar sem bornir séu saman valkostir. Annars vegar við Melgerðismela og hins vegar núllkost. Það sé ósanngjarnt og ómaklegt af hálfu kærenda að halda því fram að valkostamat á Melgerðis­melum hafi verið sett fram til málamynda. Raunveruleg greining og vinna hafi farið fram um það mat og megi vísa til fundargerða skipulagsnefndar. Þannig hafi við meðferð deili­skipulagstillögunnar verið gerð grein fyrir valkostagreiningu og raunverulegt mat lagt á kosti þess að reisa svínabúið á Melgerðismelum. Afstaða nefndarinnar hafi verið í samræmi við áherslur í aðalskipulagi, sem þá hafi verið í vinnslu, um að landbúnaðarstarfsemi skuli vera á land­búnaðarlandi, en Melgerðismelar séu útivistarsvæði, þar sem meðal annars fari fram starfsemi hestamannafélaga og svifflugfélags, auk trjáræktar. Gerð hafi verið nokkuð skilmerkileg grein fyrir valkostamati í greinargerð deiliskipulags, sem auglýst hafi verið á milli jóla og nýárs 2018, og almenningi þannig gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri.

Málatilbúnaður kærenda um að við valkostamat hafi borið að leita fanga í öðrum sveitarfélögum hvíli ekki á lögmætum grunni. Ekkert liggi fyrir um að umsækjandi hafi haft raunhæfa mögu­leika á að sækja um land í eigu annarra í öðrum sveitarfélögum og ekki verði séð að lagaheimildir séu til staðar til að unnt sé að leggja þá skyldu á hann. Þessar hugleiðingar kærenda séu því fráleitar. Sveitarfélagið sé á hinn bóginn eigandi Melgerðismela og með ráðstöfunarrétt á því landi og því hafi verið raunhæfur valkostur að kanna samanburð við þá framkvæmd að reisa svínabú á því landi. Tilvísun til máls um Suðurnesjalínu hafi ekki fordæmisgildi í máli þessu, enda um að ræða framkvæmd sem hafi verið háð reglum um mat á umhverfisáhrifum.

Í kæru sé fjallað um úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 131/2012 sem varði minkabú að Ásum. Hvað varði það mál sé nauðsynlegt að hafa í huga þær lagabreytingar sem átt hafi sér stað síðan úrskurðurinn var kveðinn upp. Lög nr. 138/2014 hafi breytt lögum um mat á umhverfis­áhrifum og framkvæmd sem hér sé þrætt um hafi verið gerð tilkynningarskyld, sbr. 6. gr. laganna. Lögin mæli fyrir um ítarlega málsmeðferð Skipulagsstofnunar varðandi ákvarðanatöku um nauðsyn matsskyldu. Þessum reglum hafi verið fylgt í málinu. Einnig hafi farið fram ígrundað mat á raunhæfum valkostum varðandi staðsetningu búsins. Í umhverfisskýrslu framkvæmdar­aðila sé einnig að finna ítarlegt mat á valkostum, annars vegar Melgerðismelum og hins vegar Torfum. Staðsetningin að Torfum hafi þótt best henta með hliðsjón af fjarlægð frá manna­bústöðum, vindáttum, aðgengi að vatni o.s.frv. Þá hafi verið innleiddar í íslenskan rétt ítarlegur reglur um bestu aðgengilegu tækni hverju sinni (BAT). Það verði því ekki séð að úrskurður varðandi minkabúið að Ásum geti talist hafa fordæmisgildi í málinu eða feli í sér rök fyrir kröfum kærenda.

Kærendur vísi ekki til þess að hæfisreglur hafi verið brotnar heldur virðist fremur vera um að ræða tilraun til að gera málsmeðferðina tortryggilega. Oddviti sveitarstjórnar hafi ekki komið að afgreiðslu málsins á neinu stigi, en hann sé bróðir fyrirsvarsmanns framkvæmdaraðila. Umræddur sveitarstjórnarfulltrúi og annar landeigenda að Torfum séu systkinabörn og skyld að öðrum lið til hliðar. Landeigendur að Torfum hafi gert samning við framkvæmdaraðila um spilduna að Torfum þar sem búið skuli rísa. Nefndur landeigandi sé því ekki aðili að framkvæmdinni eða málinu sem sé til meðferðar og komi ekki að rekstri eða ákvarðanatöku í félaginu sem að henni standi. Um ættartengsl segi í 2. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga að nefndarmaður sé vanhæfur ef hann er skyldur málsaðila að öðrum lið til hliðar. Hins vegar gildi í þessu tilviki 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem kveðið sé á um að þeir sem skyldir séu í beinan legg, eða einum legg til hliðar, séu vanhæfir til að taka þátt í afgreiðslu máls. Skyldleiki sveitarstjórnarfulltrúans og landeigandans sé því minni en svo að vanhæfi valdi. Misskilnings virðist hafa gætt þegar fulltrúinn hafi sjálfur kosið að víkja af fundi, en skipulagsnefnd og sveitarstjórn hafi eftir sem áður verið ályktunarhæf og bær til að fjalla um og taka ákvarðanir um málið.

Þá hafi formaður skipulagsnefndar vikið af fundi þegar hann hafi sest í stjórn félags sem félag það sem að framkvæmdunum standi hafi átt í viðskiptalegum tengslum við vegna verkefnisins. Fyrir vikið hafi verið eðlilegt að formaðurinn viki af fundum meðan sú stjórnarseta varði og viðskiptahagsmunir. Hann hafi nú hætt störfum í stjórn þessa félags.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá. Íbúðarhús kærenda séu staðsett langt utan fjarlægðarmarka, eða í um 950 til 1000 m fjarlægð, frá hinu fyrirhugaða svínabúi, en áskilið sé að svínabú með meira en 2000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 600 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Jafnframt skerði tilkoma svínabúsins ekki nýtingar­möguleika kærenda á jörðum sínum, enda sé þar skipulagt landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar.

Verði kærunni ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Í fyrri málum hafi verið færð ítarleg rök fyrir því að röksemdir og málatilbúnaður kærenda eigi ekki við rök að styðjast og honum beri að hafna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur hafna því eindregið að þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu. Á jörðum beggja kærenda haldi fjölskyldur lögheimili og þær horfi fram á að risavaxið svínabú hefji starfsemi í nánd við heimili þeirra. Þá hafi kærendur verulega fjárhagslega hagsmuni af úrlausn málsins. Í málinu gangi umræddur 500 til 600 m radíus frá hinu fyrirhugaða svínabúi að mestu leyti inn á aðrar jarðir, þ. á m. jarðir kærenda að miklu leyti. Það sé einföld staðreynd þessa máls að verði af byggingu hins fyrirhugaða svínabús muni staðsetning þeirrar byggingar skerða verulega nýtingarrétt kærenda á jörðum sínum, jafnvel að svo miklu leyti að jafna mætti við de facto eignarnám. Hljóti það að teljast til algjörra undantekninga að skipulag vegna framkvæmda einkaaðila hafi svo mikil áhrif á nágrannaeignir. Gera verði ýtrustu kröfur til framkvæmdaraðila slíkra framkvæmda að velja eða finna landsvæði undir slíkar framkvæmdir þar sem slíkur radíus nái ekki inn á landsvæði annarra jarðeigenda og takmarki með því verulega nýtingarrétt þeirra á eigin jörðum. Um framangreint séu röksemdir kærenda um fyrri fordæmi úrskurðarnefndarinnar ítrekuð. Ljóst sé að framkvæmdaraðili hefði hæglega getað fundið ótal landsvæði, lóðir eða jarðir í ná­grenni Eyjafjarðasveitar þar sem hann hefði getað byggt umrætt svínabú án þess að trufla eða íþyngja nágrönnum með lyktarmengun og skertum nýtingarrétti landa þeirra. Það standist því engin skilyrði um meðalhóf eða jafnræði að svo íþyngjandi staðsetning sé valin að óþörfu.

Frá upphafi máls þessa hafi sveitarfélagið haldið því fram að varla eða ekki sé til pláss í sveitarfélaginu fyrir staðsetningu á svínabúi aðra en þá sem valin hafi verið. Kærendur vísi til samskipta sinna við landfræðinga og aðra sérfróða aðila þar sem fram komi að það landsvæði í sveitarfélaginu sem sé um 0-100 m yfir sjávarmáli sé byggt nokkuð þétt en að byggð ofar sé mun strjálbýlli. Nokkur reynsla sé í Eyjafjarðarsveit af rekstri búskapar í meira en 100 m hæð yfir sjávarmáli. Annað svínabú sem framkvæmdaraðili málsins reki sé t.d. staðsett 100 til 150 m yfir sjávarmáli og sé búskapur stundaður í búum í sveitarfélaginu sem séu staðsett um 300 m yfir sjávarmáli. Óski kærendur þess sérstaklega að rannsakað verði hvernig staðið hafi verið að vali á valkostum og mögulegri staðsetningu hins fyrirhugaðs svínabús. Sérstaklega hvort sveitarfélagið hafi bundið valkostamat og mögulegar staðsetningar við lægstu byggðir, sem séu þéttast byggðar, og hvort að strjálbýlli byggðir í meiri hæð yfir sjávarmáli hafi verið undanskildar frá matsmeðferðinni.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar um að samþykkja deiliskipulag vegna svínabús að Torfum. Kærendur búa í nokkurri fjarlægð frá byggingarreitum svínabúsins, en íbúðarhúsið á Finnastöðum er í tæplega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitum svínabúsins til norðvesturs, og íbúðarhúsin að Grund I og IIa eru í rúmlega eins kílómetra fjarlægð frá byggingarreitunum til norðausturs. Styttri fjarlægð er hins vegar frá landamerkjum jarða kærenda að lóð svínabúsins. Í ljósi eðlis þeirrar starfsemi sem hið kærða deiliskipulag gerir ráð fyrir er ekki unnt að útiloka að hún geti snert hagsmuni kærenda, t.a.m. vegna lyktarmengunar, en því var ekki að heilsa í kærumáli úrskurðarnefndarinnar milli sömu aðila nr. 70/2019, sem laut að framkvæmdaleyfi fyrir vegtengingu að lóð svínabúsins og borun eftir neysluvatni. Eiga kærendur því lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og uppfylla þar með skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til kæruaðildar. Verður kæru þeirra því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni, svo sem krafist hefur verið af hálfu sveitarfélagsins og leyfishafa.

Svo sem rakið er í málavöxtum var með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 49/2019, sem kveðinn var upp 14. nóvember 2019, komist að þeirri niðurstöðu að þar sem kærufrestur væri liðinn bæri að vísa frá kæru kærenda á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabús á Torfum skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Kærendur fóru fram á frekari rökstuðning vegna þeirrar niðurstöðu og var svarað með bréfum, dags. 29. nóvember og 20. desember 2019, þar sem m.a. var bent á að úrskurður nefndarinnar væri rökstuddur í samræmi við fyrirmæli 31. gr., sbr. 22. gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að úrskurðurinn væri fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi, sbr. 6. gr. laga nr. 130/2011. Í máli þessu gera kærendur nefnda matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar að töluverðu umtalsefni, en sú ákvörðun kemur ekki til endurskoðunar hér með vísan til nefndrar 6. gr. laga nr. 130/2011, enda hefur fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar ekki verið hnekkt. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun hennar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Sambærileg ákvæði er ekki að finna vegna skipulagsgerðar og sækir hið kærða deiliskipulag ekki stoð sína í fyrirliggjandi matsskylduákvörðun, þótt hún lúti að sömu framkvæmd og skipulagið tekur til. Atvik eru því ósambærileg þeim sem fjallað var um í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016, en þau lutu að því hvort deiliskipulag sem grundvöllur byggingarleyfis hefði verði birt með fullnægjandi hætti og því talist gilt.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðalskipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, en meðal þeirra markmiða er að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, svo fremi það mat byggi á lögmætum sjónarmiðum.

Samkvæmt Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 22. mars 2019, er skipulagssvæði hins kærða deiliskipulags 15 ha spilda á skilgreindu landbúnaðarsvæði, en á landbúnaðarsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir byggingum og starfsemi sem tengist búrekstri á jörðinni, sbr. q-lið í grein 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Meðal meginmarkmiða aðalskipulagsins er að Eyjafjarðarsveit verði áfram öflugt landbúnaðarhérað og þess verði gætt að standa vörð um fjölbreyttan landbúnað sem meginatvinnuveg sveitarfélagsins. Með hinu kærða deiliskipulagi er heimilað að reisa tvö eldisgrísa- , gyltu- og fráfærugrísahús, samtals 5.700 m² að stærð, auk tilheyrandi fóðursílós, hauggeymslu og starfsmannahúss. Hið kærða deiliskipulag byggir því á stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er uppfyllt skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Deiliskipulagið var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna þess, sem þeir og gerðu. Skipulagsnefnd sveitarfélagsins tók athugasemdirnar til umfjöllunar á fundi sínum 14. mars 2019 og tók afstöðu til þeirra skv. 3. mgr. nefndrar 41. gr. Var m.a. bent á að um landbúnaðarsvæði væri að ræða og myndi fyrirhugað svínabú ekki koma í veg fyrir byggingu landbúnaðarmannvirkja á áhrifasvæði þess. Hvað varðaði lyktarmengun var bent á að um starfsleyfisskylda starfsemi væri að ræða, sem um giltu skilmálar um notkun bestu aðgengilegu tækni (BAT) skv. reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Í sömu reglugerð væri kveðið á um viðmiðunarmörk fyrir losun tiltekinna efna í andrúmsloftið. Teldi skipulagsnefnd og að gildandi regluverk tryggði fullnægjandi frágang hauggeymsla. Á fundi sveitarstjórnar 28. mars 2019 var málið tekið fyrir og var eftirfarandi m.a. bókað: „Sveitarstjórn samþykkir tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu þeirra erinda sem bárust á auglýsingartímabili deiliskipulagstillögu svínabús á Torfum.“ Athugasemdir kærenda voru því ekki virtar að vettugi þótt ekki hefði verið fallist á þær allar, enda felur skylda til samráðs það ekki í sér að svo skuli gert. Með erindi, dags. 10. apríl s.á., var Skipulagsstofnun send deili­skipulagstillagan til lögboðinnar yfirferðar. Með bréfi, dags. 3. maí s.á., tilkynnti Skipulags­stofnun að hún gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, sem var og gert.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var komist að þeirri niðurstöðu með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 49/2019 að ekki hefði komið fram með skýrum hætti í bókun sveitarstjórnar frá 28. mars 2019 hvort deiliskipulagstillagan væri samþykkt heldur eingöngu að samþykktar væru tillögur skipulagsnefndar um afgreiðslu á þeim athugasemdum sem borist hefðu. Því hefði umrædd afgreiðsla ekki falið í sér ákvörðun sem bundið hefði enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Sveitarstjórn brást við þessari niðurstöðu með því að samþykkja deiliskipulagið á fundi sínum 21. nóvember 2019 með vísan til 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Þá var samþykkt að auglýsa gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og fór birting slíkrar auglýsingar fram 25. nóvember 2019.

Með vísan til þess sem að framan greinir liggur ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulagsins hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Oddviti sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar vék af fundum þegar umrædd deiliskipulagstillaga var til meðferðar og afgreiðslu og það gerði formaður skipulagsnefndar einnig frá þeim tíma sem hann varð vanhæfur vegna þátilkominnar stjórnarsetu. Þá liggur fyrir að sveitarstjórnarfulltrúi sá er vék sæti þegar meðferð deiliskipulagstillögunnar var á veg komin og landeigandi að Torfum eru systkinabörn. Sá skyldleiki veldur þó ekki vanhæfi, enda fellur hann undir undantekningu 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnalaga nr. 138/2011 um að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki í þeim tilvikum, auk þess sem nefndur landeigandi er ekki aðili málsins. Hæfisreglur voru því ekki heldur brotnar við meðferð málsins.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og með umhverfismati áætlunar, ef við á. Var og unnin umhverfis­skýrsla í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Kærendur hafa vísað til þess að samanburði valkosta hafi verið áfátt og m.a. nefnt í því sambandi möguleika á uppbyggingu svínabúsins ofar í landi eða í öðrum sveitarfélögum. Tekið er fram í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 105/2006 að umhverfisskýrsla skuli hafa að geyma þær upplýsingar sem sanngjarnt sé að krefjast að teknu tilliti til þeirrar þekkingar sem er til staðar, þekktra matsaðferða, efnis og nákvæmni áætlunarinnar og stöðu áætlunarinnar í stigskiptri áætlanagerð. Samkvæmt f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. skal í umhverfisskýrslu m.a. koma fram skilgreining, lýsing og mat á líklegum verulegum umhverfisáhrifum af framkvæmd áætlunarinnar og raunhæfra valkosta við áætlunina, að teknu tilliti til markmiða með gerð áætlunarinnar og landfræðilegs umfangs hennar. Í h-lið ákvæðisins segir jafnframt að í skýrslunni skuli m.a. vera yfirlit yfir ástæður þess að kostirnir, sem um er að ræða, voru valdir.

Svo sem fram hefur komið hefur Eyjafjarðarsveit markað sér þá stefnu í aðalskipulagi að sveitarfélagið verði áfram öflugt landbúnaðarhérað. Hafi önnur landnotkun ekki verið skilgreind er sú stefna mótuð að landnotkun neðan 300 m.y.s. sé landbúnaðarsvæði, þó þannig að á þeim jörðum þar sem landbúnaður er að fullu aflagður eru þau svæði sem áður voru landbúnaðarsvæði nú skilgreind sem óbyggð svæði. Ofan 300 m.y.s. eru svæði skilgreind sem óbyggð svæði þótt svæði þar séu nýtt fyrir landbúnað sem heimahagar og afréttir fyrir búfé. Landbúnaðarsvæðið er frekar þéttbýlt en á því er að finna hátt í 200 lögbýli samkvæmt upplýsingum úr lögbýlaskrá fyrir árið 2019. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er mælt fyrir um fjarlægðir, m.a. frá svínabúum. Á skilgreindu landbúnaðarsvæði skulu vera 500 m frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi að lágmarki. Ljóst má vera miðað við greind fjarlægðarmörk og staðhætti í Eyjafjarðarsveit að svínabúi verður ekki komið fyrir hvar sem er. Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins eru borin saman áhrif af byggingu svínabúsins samkvæmt deiliskipulagi við líklega umhverfisþróun án framfylgdar deili­skipulagsins, þ.e. núllkost. Þá er sá valkostur að byggja svínabúið á Melgerðismelum metinn til samanburðar, en sú staðsetning var til skoðunar hjá framkvæmdaraðila. Þá er fjallað um hvernig deiliskipulagið falli að meginmarkmiðum gildandi aðalskipulags. Þeir umhverfisþættir sem koma nánar tiltekið til skoðunar við áhrifamatið eru landslag og sjónræn áhrif, samfélagsleg og hagræn áhrif, gróður og lífríki, heilsa og öryggi, frárennslismál og úrgangsmál. Niðurstaða umhverfis­skýrslunnar er m.a. sú að áhrif uppbyggingar á Melgerðismelum yrði hin sama og uppbygging í landi Torfa fyrir utan möguleg neikvæð samfélagsleg áhrif að Melgerðismelum þar sem núverandi hestaíþróttasvæði þyrfti að flytjast að hluta til af svæðinu. Ef ekki kæmi til framfylgdar deiliskipulagsins er talið að áhrif á alla umhverfisþætti yrðu óveruleg fyrir utan möguleg neikvæð samfélagsleg og hagræn áhrif auk neikvæðra áhrifa á gróður, lífríki og úrgang.

Þótt deiliskipulagsáætlunin einskorðist við ákveðna framkvæmd er umhverfismati áætlana ekki ætlað að vera svo nákvæmt að það geti komið í stað mats á umhverfisáhrifum framkvæmda, en slíks mats er ekki krafist vegna þeirrar framkvæmdar sem hér er deilt um. Að mati úrskurðar­nefndarinnar fullnægir umhverfisskýrsla deiliskipulagsins sem áður er lýst áskilnaði 6. gr. laga nr. 105/2006 um efnisinnihald, m.a. að teknu tilliti til efnis og nákvæmni skipulagsins, sem og stöðu þess í stigskiptri áætlanagerð, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Raunhæfir valkostir voru skoðaðir og mat lagt á áhrif þeirra og verður ekki fallist á með kærendum að þörf hafi verið á að rannsaka eða skilgreina frekar valkosti að teknu tilliti til markmiða með gerð skipulagsins og landfræðilegs umfangs þess, sbr. f-lið 2. mgr. nefndrar 6. gr. Þá verður ekki látið valda ógildingu hins kærða deiliskipulags að í umhverfisskýrslu hafi ekki með skýrum hætti verið að finna yfirlit yfir ástæður þess að sá kostur að reisa svínabú að Torfum var valinn, sbr. h-lið nefnds ákvæðis, enda verður af skýrslunni ráðið að sú staðsetning svínabús hafi þótt henta m.a. með vísan til fjarlægðar frá mannabústöðum og hagstæðra vindátta, sem muni draga úr lyktarmengun.

Eins og rakið er hér að framan vísa kærendur til þess að rannsókn Eyjafjarðarsveitar við málsmeðferð deiliskipulagsins hafi verið ábótavant. Meðal annars hafi hvorki farið fram rannsókn á mögulegri lyktarmengun né á því hversu mikið af úrgangi falli til af búinu á ári. Í þessu sambandi verður ekki fram hjá því litið að samhliða deiliskipulagsgerð fór fram málsmeðferð vegna mögulegrar matsskyldu framkvæmdarinnar. Var fyrirhuguð framkvæmd ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og var hún því ekki talin háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. ákvörðun Skipulagsstofnunar þar um frá 12. mars 2019. Í þeirri ákvörðun er fjallað um úrgang og lykt og í umhverfisskýrslu með deiliskipulaginu er fjallað um heilsu og öryggi, þ.m.t. lyktarmengun, og um úrgang. Í greinargerð hins kærða deiliskipulags kemur fram að hagstæðar vindáttir muni draga úr áhrifum lyktarmengunar og eins og áður er rakið var athugasemdum um lyktarmengun svarað og bent á að skilmálar um notkun bestu aðgengilegu tækni (BAT) myndu gilda um starfsemina. Þá er því skilmerkilega lýst hvernig úrgangsmálum á búinu verði háttað, magni sem til muni falla, flutningi úrgangs í þar til gerða haugtanka og að samningar verði gerðir við bændur varðandi afhendingu og móttöku á úrgangi. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og gögnum málsins er ekkert fram komið sem bendir til annars en að málið hafi verið nægjanlega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga áður en deiliskipulagið var samþykkt.

Staðsetning svínabúsins fer ekki í bága við 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015, sem eins og áður segir kveður á um að á skilgreindu landbúnaðarsvæði skuli lágmarksfjarlægð frá eldishúsi að næsta íbúðarhúsi vera 500 m. Vegna reglna um lágmarksfjarlægðir í reglugerðinni er þó ljóst að áhrifa vegna svínabúsins mun gæta á landi kærenda þar sem uppbygging til framtíðar kann að verða takmörkunum háð vegna reglnanna. Er áhrifasvæðið sýnt miðað við 600 m radíus á mynd 2 í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi. Til þess er þó að líta að um skilgreint landbúnaðarsvæði er að ræða og að ræktun svína er heimil á slíku svæði, en fjölbreyttur landbúnaður sem meginatvinnuvegur í öflugu landbúnaðarhéraði er meðal stefnumiða aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar. Með hliðsjón af því að aðrir kostir voru kannaðir og rannsókn málsins var ekki ábótavant þykir ekki hafa verið gengið lengra en góðu hófi gegnir við beitingu skipulagsvalds sveitarstjórnar til að ná nefndum markmiðum. Verður atvikum að þessu leyti ekki jafnað saman við atvik í kærumáli nr. 131/2012 sem kærendur hafa vísað til. Verða hagsmunir kærenda ekki heldur taldir hafa verið fyrir borð bornir í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga, en eðli máls samkvæmt getur aðila greint á um uppbygginu lyktarsterks landbúnaðar í svo miklu nábýli sem hér um ræðir þótt á landbúnaðarsvæði sé. Með hliðsjón af aðstæðum þykir þó rétt­ að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna hins kærða deiliskipulags eiga þeir eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 21. nóvember 2019 um að samþykkja deiliskipulag vegna svínabús að Torfum, Eyjafjarðarsveit.

15/2019 Jarðgerð í Gufunesi

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 um að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Stararima 25, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar s.á. að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 20. mars 2019 og 5. mars 2020.

Málavextir: Hinn 24. nóvember 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Íslenska gámafélaginu ehf. um fyrirhugaða jarðgerð í Gufunesi, Reykjavík, til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 11.15 og 13.02 í 1. viðauka laganna. Laut fyrirspurn framkvæmdaraðila að því hvort fram þyrfti að fara mat á umhverfisáhrifum jarðgerðar hans á lífrænum eldhúsúrgangi. Úrgangurinn væri notaður til moltuvinnslu en sú vinnsla framkvæmdaraðila hefði verið smá í sniðum eða um 500 tonn á ári. Gert væri ráð fyrir að hún gæti orðið um 2.500 tonn á ári. Vegna aukins umfangs hefði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur farið fram á að sótt yrði um sérstakt starfsleyfi til moltu-gerðarinnar. Matvælastofnun Íslands hefði verið tilkynnt um framleiðsluna og væru öll tilskilin leyfi stofnunarinnar í gildi. Fram kom að starfsemi félagsins í Gufunesi væri á skipulögðu iðnaðarsvæði samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, en þar sem hún væri víkjandi á gildistíma þess væri gert ráð fyrir að starfsemin yrði flutt af svæðinu í árslok 2022.  Öll vinnsla í tengslum við jarðgerðina, þ.m.t. kurlun timburs, myndi fara fram á staðnum. Með aðferðinni sem framkvæmdaraðili notaði væri komið í veg fyrir myndun metans.

Skipulagsstofnun leitaði umsagnar Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar við meðferð málsins.

Í umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2018, er komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin þurfi að gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Ítrekað hafi borist kvartanir vegna lyktarmengunar frá framleiðslunni og magnið sem fyrirhugað sé að vinna sé meira en fimmfalt meira en framkvæmdaraðili hafi unnið á svæðinu undanfarin ár. Vísað var til minnisblaðs Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. nóvember 2017, um lyktarónæði frá starfseminni í Gufunesi og tekið fram að líklegt þætti að lyktarmengun myndi aukast. Einnig gætu aukin umsvif aukið hávaða á svæðinu, m.a. vegna kurlunar timburs og annarrar starfsemi tengdri vinnslunni. Vinnsla lífræns úrgangs laði að fugla og meindýr og óljóst sé hvort það að hylja hauginn með timburkurli nái að halda dýralífi frá, t.d. á meðan múgunum sé snúið. Nýlegt deiliskipulag fyrir hluta af Gufunesi liggi fyrir. Uppbygging sé framundan á svæðinu, m.a. með fjölgun íbúða, en ekki sé vitað hvenær hún hefjist. Ekki fáist séð að aukin umsvif með lífrænan úrgang á svæðinu, umfram það sem nú sé, fari saman við þá uppbyggingu.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12. desember 2017, kom fram að undanfarin tvö ár hafi ítrekað borist kvartanir vegna lyktarmengunar frá athafnasvæðinu í Gufunesi frá íbúum nálægrar íbúðarbyggðar. Auk framkvæmdaraðila séu tveir aðrir aðilar með starfsemi á svæðinu og staðfest hafi verið lyktarmengun frá henni allri á einhverjum tímapunkti. Ekki sé gerð nægilega góð grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna lyktarmengunar í tilkynningu framkvæmdaraðila. Talað sé um að leitast skuli við að snúa múgum þegar vindur standi af landi, en eftirlitið telji að gera verði þá kröfu að þeim sé snúið eingöngu þegar vindur standi þannig. Krefjast ætti notkunar á lyktareyðandi ensímum til að draga úr lyktarmengun. Eftirlitið telji að framkvæmdin þurfi að gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Horfa þurfi til svæðisins í heild sinni, en þar séu þrjú fyrirtæki sem valdi lyktarmengun.

Umhverfisstofnun taldi í umsögn sinni, dags. 8. janúar 2018, ekki líklegt að umrædd framkvæmd myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér en benti á að helstu umhverfisáhrif framleiðslu af þessu tagi væru lyktar- og örverumengun. Næsta íbúðarbyggð væri í um 800 m fjarlægð frá moltugerðinni en nýleg dæmi úr Hafnarfirði sýndu að lyktarmengunar frá moltugerð gæti gætt í meira en 800 m fjarlægð. Stofnunin teldi brýnt með tilliti til nálægrar íbúðarbyggðar að sett yrðu skilyrði í starfsleyfi um vinnubrögð við moltugerðina til að draga úr lyktarmengun og að fylgst yrði með örverum í moltunni með sýnatöku. Með góðu verklagi og mótvægisaðgerðum ætti að vera unnt að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar. Moltugerð framkvæmdaraðila væri í samræmi við landsáætlun um meðhöndlun úrgangs fyrir tímabilið 2013-2024 og myndi stuðla að minni losun gróðurhúsa-lofttegunda og auka frjósemi jarðvegs.

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur að koma að athugasemdum vegna umsagnanna, sem hann og gerði með bréfi, dags. 31. maí 2018. Var þar m.a. gerð nánari grein fyrir mótvægisaðgerðum vegna mengunar auk þess sem fjallað var um umfang framkvæmdarinnar. Kom þar fram að þegar jarðgerð hefði byrjað fyrir um 10 árum hefði vinnslan verið um 500 tonn á ári en umfang hennar hefði aukist jafnt og þétt. Árið 2015 hefði magn lífræns eldhúsúrgangs verið 1.500 tonn, árið 2016 hefði það verið 1.260 tonn og árið 2017 verið 1.480 tonn. Ekki væri því um fimmföldun að ræða á því magni úrgangs sem jarðgerður yrði.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 var reifað í hverju fyrirhuguð framkvæmd fælist og tekið fram að framkvæmdaraðili væri með gilt starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til meðhöndlunar úrgangs, m.a. jarðgerðar, og gilti það starfsleyfi til 8. júní 2022. Vísaði Skipulagsstofnun til eðlis framkvæmdarinnar og staðsetningar auk eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og komst að þeirri niðurstöðu að miðað við þau viðmið sem þar væru greind og fyrirliggjandi gögn væri jarðgerð í Gufunesi ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst búa í Rimahverfi í Grafarvogi og hafi hann og fjölskylda hans ítrekað orðið vör við ólykt sem leggi frá starfsemi framkvæmdaraðila í Gufunesi. Á sumardögum geti lyktin orðið svo megn að ekki sé hægt að hafast við utandyra. Ástandið sé verst í logni og þegar vind leggi af hafi. Þetta ástand ríki ekki eingöngu á dagvinnutíma heldur allan sólarhringinn. Jarðgerð undir berum himni eigi enga samleið með íbúðarbyggð. Hún eigi  að fara fram í lokuðum húsakosti þar sem loft og gufur séu síaðar í burtu áður en þær fari út í andrúmsloftið. Minnstu kröfur sem gera eigi til jarðgerðar séu að hún sé niðurgrafin þannig að vindurinn grípi þessar gufur ekki við minnsta vind og beri áfram. Kærandi telji það lögvarinn rétt sinn að geta notið almennra loftgæða við heimili sitt þannig að hann geti notið útiveru líkt og aðrir borgarbúar. Ólykt teljist vera mengun.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila komi fram að lítill hópur hafi kvartað vegna ólyktar, en það sé ekki marktækt þar sem stór hluti íbúa viti ekki hvert eigi að snúa sér til að kvarta. Einnig sé hverfið sem næst sé framkvæmdinni einbýlishúsahverfi. Fyrst hafi farið að bera á ólykt árið 2016 en um sumarið 2017 hafi kærandi byrjað að kvarta yfir menguninni.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvalds-ákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar séu greind. Sé það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eigi einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Kærandi telji það vera lögvarinn rétt sinn og fjölskyldu sinnar að njóta almennra loftgæða í kringum heimili sitt. Almennt varði sjónarmið um loftgæði almannahagsmuni. Samkvæmt upplýsingum séu rúmlega 800 m á milli heimilis kæranda og Gufunessvæðisins þar sem hin fyrirhugaða framkvæmd framkvæmdaraðila eigi að vera. Velti stofnunin fyrir sér hvort kærandi geti átt slíkra grenndarhagsmuna að gæta að hann geti kært ákvörðunina, þ.e. geti átt hina einstaklegu lögvörðu hagsmuni umfram aðra í Rimahverfinu og öðrum nálægum hverfum í Grafarvogi sökum grenndaráhrifa.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum séu framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B í viðauka við lögin háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geti haft í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis og staðsetningar. Skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laganna. Þar segi að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Eins og skilgreiningin sé úr garði gerð sé ljóst að mikið þurfi til að koma svo að framkvæmd sé talin matsskyld. Ekki sé nægilegt að áhrifin geti verið veruleg og óafturkræf eða að um veruleg spjöll sé að ræða heldur þurfi skilyrðið um að ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum að vera uppfyllt.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila sé að finna lýsingu á mótvægisaðgerðum sem hann hyggist grípa til. Þar komi fram að til að lágmarka hugsanleg lyktaróþægindi íbúa hafi sú vinnuregla verið innleidd að leitast skuli við að snúa múgum þegar vindur standi af landi. Framkvæmdaraðili hafi lýst því yfir að hann hyggist beita ýmsum mótvægisaðgerðum, t.d. að setja upp úðunarkerfi fyrir múgana til þess að hægt verði að úða lyktareyðandi ensímum yfir þá. Skipulagsstofnun hafi haft fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila í huga þegar hún hafi tekið hina kærðu ákvörðun. Einnig bendi stofnunin á að í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 8. janúar 2018, komi fram að með góðu verklagi og mótvægisaðgerðum ætti að vera unnt að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 12. desember 2017, og Reykjavíkurborgar, dags. 5. janúar 2018, sé þeirri afstöðu lýst að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun bendi á að stofnunin sé ekki bundin af umsögnum umsagnaraðila um matsskyldu, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 12. febrúar 2019 í máli nr. 111/2017, heldur sé öflun umsagna liður í rannsókn máls. Framkvæmdaraðili hafi fallist á þá kröfu að múgum verði einungis snúið þegar vindur standi af landi og í hinni kærðu ákvörðun sé tekið mið af því.

Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins segi að horfa þurfi til svæðisins í heild sinni, ekki síst í ljósi fyrirhugaðra breytinga á skipulagi og notkun svæðisins. Í hinni kærðu ákvörðun sé tekið tillit til annarrar starfsemi í Gufunesi. Skipulagsstofnun telji að þótt þrjú fyrirtæki séu á sama svæði og lykt leggi frá starfsemi þeirra leiði það ekki til þess að hin fyrirhugaða framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, enda gangi stofnunin út frá þeirri forsendu að mótvægisaðgerðum verði framfylgt. Umsögn heilbrigðiseftirlitsins taki ekki nægilega tillit til þess að framkvæmdaraðili hyggist grípa til mótvægisaðgerða sem dragi úr áhrifunum verði þeim framfylgt.

Í umsögnum heilbrigðiseftirlitsins og Reykjavíkurborgar sé vikið að því að undanfarin ár hafi ítrekað borist kvartanir frá íbúum nálægrar íbúðarbyggðar vegna lyktarmengunar frá athafna-svæðinu í Gufunesi. Í hinni kærðu ákvörðun sé vikið að þeim fjölda fólks sem lyktarmengun frá hinni fyrirhuguðu framleiðsluaukningu og starfsemi hinna tveggja aðilanna á svæðinu kunni að hafa áhrif á og sé þá tekið mið af upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu. Eins og komi fram í hinni kærðu ákvörðun muni hin fyrirhugaða framleiðsluaukning hafa bein og nokkuð neikvæð umhverfisáhrif í nálægri íbúðarbyggð en fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að um verulega viðbót við lykt á svæðinu verði að ræða.

Samkvæmt breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé gert ráð fyrir að starfsemi framkvæmdaraðila sé víkjandi á svæðinu. Í maí 2016 hafi Reykjavíkurborg undirritað samning við hann um að starfsemin flytji úr Gufunesi. Núgildandi starfsleyfi gildi til ársins 2022 og samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdaraðila sé áætlað að starfsemin flytji í áföngum og verði farin úr Gufunesi í síðasta lagi árið 2022.

—–

Framkvæmdaraðila var tilkynnt um framkomna kæru og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar, en hann nýtti sér það ekki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að aukin jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Að mati kæranda ber nauðsyn til að slíkt mat fari fram vegna ólyktar sem leggi frá starfsemi framkvæmdaraðila að nálægðri íbúðarbyggð. Fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Kærandi er búsettur í um 800 m fjarlægð frá svæðinu þar sem hin kærða starfsemi fer fram og er ekki hægt að útiloka að hann geti orðið var við mengun, þ.m.t. lyktarmengun, vegna starfseminnar. Á kærandi því að mati nefndarinnar þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem krafist er samkvæmt greindu lagaákvæði.

Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir um hvenær framkvæmd skuli háð slíku mati. Tilteknir eru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og eru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið er svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B og C skulu háðar slíku mati þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð eru meira en 500 tonn af úrgangi á ári fellur undir flokk B, sbr. tl. 11.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Í samræmi við nefnda 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, sbr. tl. 11.15 og 13.02 í 1. viðauka laganna.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka, svo sem þeir voru orðaðir við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða sem eðli máls samkvæmt skipta mismiklu máli vegna þeirrar framkvæmdar sem til skoðunar er hverju sinni. Framkvæmd sú sem hér um ræðir felur í sér aukna jarðgerð lífræns úrgangs, en hún hefur áður farið fram á grundvelli gildandi starfsleyfis framkvæmdaraðila til meðhöndlunar úrgangs. Aukningin hefur átt sér stað smátt og smátt og er nú gert ráð fyrir því að allt að 2.500 tonn verði jarðgerð á ári.

Svo sem lýst er í málavöxtum leitaði Skipulagsstofnun umsagna Reykjavíkurborgar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Umhverfisstofnunar við meðferð málsins og gafst framkvæmdaraðila tækifæri til andsvara. Umhverfisstofnun taldi ekki líklegt að framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif en umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur, sem og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, töldu að mat á umhverfisáhrifum þyrfti að fara fram vegna hennar. Var í þeim umsögnum einkum vísað til lyktarmengunar og eðlis starfseminnar sem ekki færi vel með nálægri íbúðarbyggð og frekari uppbyggingu hennar. Í athugasemdum framkvæmdaraðila vegna framkominna umsagna komu fram frekari lýsingar á þeim mótvægis-aðgerðum sem hann hefði þá þegar gripið til eða hygðist grípa til. Kom þar m.a. fram að múgum væri eingöngu snúið þegar vindátt legði frá íbúðarbyggð og að fjárfest hefði verið í lyktareyðandi ensímum sem úðað væri yfir múgana í stillu til að koma í veg fyrir lyktarmengun þegar þeim væri snúið.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að þeir þættir sem féllu undir eðli framkvæmdarinnar, staðsetningu eða eiginleika hennar, kölluðu ekki á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum.

Þannig rekur Skipulagsstofnun í ákvörðun sinni að taka skuli mið af eðli framkvæmdar, sammögnunaráhrifum með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Fjallar stofnunin um umfang framkvæmdarinnar og einnig er rakið að á svæðinu séu tvö önnur fyrirtæki þar sem annars vegar fari fram móttaka og meðferð úrgangsefna, allt að 150.000 tonn á ári, og hins vegar framleiðsla tæplega 6.000 tonna af mold og moltu, þar sem mold úr húsgrunnum sé látin standa og brjóta sig. Telur Skipulagsstofnun að með hliðsjón af annarri starfsemi í Gufunesi og sammögnunaráhrifum vegna lyktar með þeirri starfsemi séu aukin umsvif framkvæmdaraðila á svæðinu ekki líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif, að því gefnu að mótvægisaðgerðum verði fylgt. Þá sýni áhættumat að ekki sé líklegt að lyktarmengun aukist við aukna framleiðslu moltu hjá framkvæmdaraðila. Tekur stofnunin og fram að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur geti sett framleiðslunni skilyrði í starfsleyfi til að lágmarka hættu á lyktarónæði og tiltekur m.a. sem nauðsynleg skilyrði þau er áður er rakið að fram hafi komið í athugasemdum framkvæmdaraðila í tilefni af umsögnum vegna matsskyldu.

Einnig er rakið að taka skuli mið af staðsetningu framkvæmdar, svo sem landnotkun sem fyrir sé eða sem sé fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun, sbr. 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Vísar Skipulagstofnun til þess að framkvæmdarsvæðið sé á skipulögðu iðnaðarsvæði en samkvæmt breytingu í ágúst 2018 á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 væri gert ráð fyrir að starfsemi framkvæmdaraðila sé víkjandi á svæðinu. Í maí 2016 hafi Reykjavíkurborg undirritað samning við framkvæmdaraðila um að starfsemin flytji úr Gufunesi. Núgildandi starfsleyfi gildi til ársins 2022 og samkvæmt upplýsingum frá félaginu sé áætlað að starfsemin flytji í áföngum og verði farin úr Gufunesi í síðasta lagi það ár. Loks var um þetta atriði tekið fram að til að lágmarka hættu á ónæði vegna hávaða þyrfti að haga starfseminni þannig að hvorki væri unnið snemma á morgnana né seint á kvöldin.

Þegar kemur að eiginleikum hugsanlegra áhrifa benti Skipulagsstofnun á að huga bæri að umfangi umhverfisáhrifa með tilliti til þess svæðis og fjölda fólks sem ætla mætti að yrði fyrir áhrifum, líkum á áhrifum, tímalengd, tíðni og óafturkræfi áhrifa, sbr. 3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Telur Skipulagsstofnun að fyrirhuguð aukning jarðgerðar feli í sér aukna lyktar-mengun á takmörkuðum tímabilum í núverandi og fyrirhugaðri íbúðarbyggð í nágrenninu. Lyktarmengun kunni að hafa áhrif á lítinn fjölda fólks því samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi á tímabilinu frá 1. júní 2017 til 12. september 2018 borist 88 tilkynningar frá 25 nágrönnum, m.a. vegna starfsemi framkvæmdaraðila. Þar af séu 56 kvartanir frá fimm aðilum. Fyrirhuguð framleiðsluaukning muni hafa bein og nokkuð neikvæð umhverfisáhrif í nálægri íbúðarbyggð, en fyrirliggjandi gögn bendi ekki til þess að um verulega viðbót við lykt á þessu svæði verði að ræða. Skipulagsstofnun telji þó að með mótvægis-aðgerðum eigi að vera unnt að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð áhrif framleiðslunnar m.t.t. lyktarónæðis og sé ástæða til að ætla að fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir skili tilskildum árangri. Þær þurfi þó að rata inn í starfsleyfi sem skilyrði.

Löggjafinn hefur ákveðið að metið verði hverju sinni hvort endurnýting úrgangs þar sem meðhöndluð séu meira en 500 tonn á ári sé líkleg til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram. Að áliti úrskurðarnefndarinnar er ákvörðun Skipulagsstofnunar studd haldbærum rökum um að svo hátti ekki til um fyrirhugaða jarðgerð, þótt hún sé töluvert yfir því tölulega viðmiði sem tiltekið er í tl. 11.15 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Við undirbúning ákvörðunar sinnar lagði Skipulagsstofnunin viðhlítandi mat á þá þætti sem máli skiptu og vörðuðu það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt. Við það mat var og tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga. Stofnunin var ekki bundin af þeim umsögnum sem aflað var sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og lagði sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfis-áhrifum að rannsökuðu máli. Aflaði stofnunin í því skyni m.a. áhættumats framkvæmdaraðila vegna starfseminnar og úrbótaáætlunar sem unnin var af honum í kjölfar athugasemda Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Var vísað til hvoru tveggja í hinni kærðu ákvörðun. Rannsókn málsins var því fullnægjandi og meðferð málsins ekki áfátt að öðru leyti.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 24. janúar 2019 um að fyrirhuguð jarðgerð Íslenska gámafélagsins í Gufunesi, Reykjavík, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

49/2018 Þingvallavegur

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 7. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 um að endurbætur á Þingvallavegi, milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 að endurbætur á Þingvallavegi, milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að umrædd framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var þess krafist að fram­kvæmdir við endurbætur Þingvallavegar yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðar­nefndin hefði málið til meðferðar, en því var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 25. apríl 2018.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 23. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 3. nóvember 2017 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá framkvæmdar­aðila, Vegagerðinni, um fyrirhugaðar endurbætur á Þingvallavegi, samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. lið 10.09 í 1. viðauka laganna, til ákvörðunar um matsskyldu.

Í gögnum framkvæmdaraðila kom m.a. fram að um væri að ræða endurbætur á 9 km löngum vegkafla milli þjónustumiðstöðvar Þingvalla og syðri vegamóta við Vallarveg. Framkvæmda­svæðið lægi um Þingvallahraun og Þingvallaskóg, sem væri annars vegar nútímahraun og hins vegar birkiskógur. Svæðið væri að öllu leyti innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Á undir­búningsstigi framkvæmdarinnar hefðu verið skoðaðir þrír valkostir. Kostur A fæli í sér breikkun vegarins úr 6,5 m í 8,0 m með 1:3 fláa samkvæmt vegtegund C₈. Valkostur B gerði ráð fyrir 9,0 m breiðum vegi samkvæmt vegtegund C₉. Þriðji kosturinn fælist í því að byggja upp burðarþol vegarins miðað við núverandi breidd vegstæðis, þ.e. núllkostur. Lagði Vega­gerðin til kost A og taldi að með þeim kosti hefði verið tekið fullt tillit til umhverfisáhrifa og sjónarmiða um umferðaröryggi.

Einnig var tekið fram að ákveðið hefði verið að fylgja núverandi veglínu Þingvallavegar, þótt hún uppfyllti ekki forsendur sem fram kæmu í veghönnunarreglum Vegagerðarinnar, til að draga sem kostur væri úr raski á umhverfið. Endurnýja þyrfti burðarlag vegarins, breikka hann og hækka, þannig að hann gæti sinnt þeirri umferð sem um hann færi og þeirri auknu umferð sem spáð væri. Í stað þess að breikka veginn beggja vegna hans yrði eftir föngum reynt að fylgja öðrum vegkantinum til að varðveita vegfláa og jaðarsvæði vegarins þeim megin. Auk þess yrðu breytingar á útskotum og bílastæðum á vegkaflanum, en þeim væri ætlað að auka umferðaröryggi. Ekki lægju fyrir nákvæmar tölur um umfang rasks, en út frá þeim forsendum sem lagt væri upp með mætti áætla að rask á hvern lengdarmetra yrði 3,5 m² fyrir kost A og 4,5 m² fyrir kost B. Beint rask af völdum framkvæmda kynni því að vera á um 3,2 ha svæði vegna kosts A og á 4,1 ha svæði vegna kosts B. Enn fremur hefðu nánar tilgreindir umhverfisþættir verið skoðaðir og yrðu helstu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar á vistgerðir, fornleifar, jarðminjar, landslag og ásýnd. Væri niðurstaðan sú að með hönnun, mótvægisaðgerðum og ákveðnu verklagi væri hægt að draga sem kostur væri úr neikvæðum áhrifum á umhverfið á þann hátt að þau teldust ekki umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Bláskógabyggðar, Ferðamálastofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Skógræktarinnar, Umhverfisstofnunar og Þingvallanefndar um það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Þeir umsagnaraðilar sem tóku beina afstöðu til umræddrar fyrir­spurnar töldu að ekki væri þörf á því að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum en komu að ýmsum ábendingum og athugasemdum. Álit Minjastofnunar var á sömu lund, þó að því gefnu að gengið yrði að nánar tilgreindum kröfum hennar. Umsagnir ásamt athugasemdum voru sendar framkvæmdaraðila, sem brást við þeim með bréfum, dags. 23. og 27. nóvember 2017, 8. desember s.á. og 16. febrúar 2018. Þá veitti þjóðgarðsvörður umsögn í tilefni af umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þingvallanefnd veitti ekki umsögn en á fundi nefndar­innar 14. mars 2018 voru fyrirhugaðar endurbætur á Þingvallavegi samþykktar.

Hinn 16. febrúar 2018 lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar fyrir, miðað við áðurnefndan kost A, þ.e. breikkun vegarins úr 6,5 m í 8,0 m. Í niðurstöðu sinni tók stofnunin m.a. fram að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrðu rask á vistgerðum, jarðminjum og menningarminjum. Framkvæmdin myndi fela í sér rask á birki­skógi og raska eldhrauni, en hvort tveggja nyti sérstakrar verndar. Jafnframt yrðu áhrif á menningarminjar nokkuð neikvæð, en líkur væru á því að framkvæmdin raskaði fornleifum á a.m.k. fjórum stöðum. Taldi Skipulagsstofnun að boðaðar mótvægisaðgerðir ættu að draga úr nei­kvæðum áhrifum á birkiskóg og að hafa þyrfti í huga að rask á eldhrauni myndi eiga sér stað á svæði sem þegar væri raskað að hluta vegna fyrri vegaframkvæmda. Þá væri einungis fyrir­hugað að breikka veginn öðrum megin og yrði að einhverju marki hægt að hlífa svæðum með verndar- og ásýndargildi við raski með því að breikka veginn á þeim vegkanti sem hefði minna verndargildi. Einnig var tiltekið að til að draga úr hættu á mengunaróhöppum myndi framkvæmdaraðili móta sérstakar verklagsreglur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að á grundvelli gagna málsins og að teknu tilliti til viðmiða í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum væru fyrirhugaðar endurbætur á Þingvallavegi ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skyldi framkvæmdin því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var áréttað að fyrirhugaðar fram­kvæmdir væru á svæði sem væri einstaklega mikilvægt og viðkvæmt og því væri nauðsynlegt að framkvæmdaraðili viðhefði boðað verklag og að samráð yrði haft við hlutaðeigandi stofnanir við nánari útfærslu framkvæmdarinnar og verklagsreglna.

Hinn 11. maí 2018 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að allt að 30.000 m³ efnistaka úr námu í Svartagili til að nýta til framangreindra endurbóta skyldi ekki háð mati á umhverfis­áhrifum. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 14. júní s.á. var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi vegna endurbóta á kafla Þingvallavegar og efnistöku í þágu sömu framkvæmdar. Hafa greindar ákvarðanir ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að um friðlýstan helgistað sé að ræða og að fá svæði á landinu, ef nokkur, njóti jafn öflugrar lagaverndar og fyrirhugað framkvæmdasvæði. Þegar af þeirri ástæðu beri að vanda undirbúning framkvæmdarinnar eins vel og kostur sé. Leita eigi allra leiða til að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif hennar og byggja ákvarðanatöku um veg­hönnun og útfærslu á bestu mögulegu upplýsingum og víðtæku samráði við almenning. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar myndi tryggja eða a.m.k. gefa kost á slíku samráði. Sé ekki útilokað að velt yrði upp lausnum sem hefðu minni umhverfisáhrif í för með sér.

Framkvæmdin hafi óumdeild neikvæð umhverfisáhrif. Í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að áhrif framkvæmdarinnar á jarðmyndanir verði talsvert neikvæð og áhrif á upprunalegan birkiskóg nokkuð neikvæð. Njóti bæði þessi vistkerfi sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndar­lögum. Geti nýrækt birkiskógar annars staðar ekki talist mótvægisaðgerð fyrir rask á uppruna­legum birkiskógi. Spurt sé hvenær umhverfisáhrif framkvæmda verði umtalsverð og hvort alvarleiki þeirra sé ekki beintengdur verndarstöðu viðkomandi svæðis.

Forsendur framkvæmdaraðila varðandi valkosti séu ógagnsæjar. Fyrirhuguð framkvæmd sé dæmigert viðbragð við ástandi, frekar en úthugsuð langtímaaðgerð. Muni hún að öllum líkindum auka umferð um þjóðgarðinn þannig að innan 20 ára stefni í að endurbættur vegur samkvæmt staðli C₈ anni ekki umferðinni. Núllkostur sé afgreiddur með frekar einföldum hætti en aðeins sé horft til núverandi umferðarþunga frekar en að horfa fram í tímann og til möguleikans á að draga úr umferð ökutækja. Engin langtímasýn sé lögð fram um það hvernig draga megi úr umferð um þjóðgarðinn með því að styrkja aðrar umferðaræðar frá uppsveitum Suðurlands til höfuðborgarsvæðisins. Hafi núverandi umferðarálag lengi verið langt yfir mörkum og geti 1-2 ár til viðbótar varla skipt sköpum.

Málið sé vanreifað. Engin greining virðist liggja fyrir á þeim hópum sem noti veginn, en þarfir þessara hópa séu væntanlega mjög ólíkar. Engin rök séu færð fram fyrir nauðsyn alls fjögurra bílastæða við veginn, með plássi fyrir 50-60 bíla, þar af eins stórs bílastæðis fyrir 25-30 bíla og a.m.k. tvær rútur. Þá sé spurt hvaða greining liggi að baki þeirri fullyrðingu framkvæmdaraðila að vel hannað vegrið hafi neikvæðari áhrif á landslag og ásýnd en hækkun vegarins. Virðist sem Vegagerðin/Þingvallanefnd hafi ekki leitað sér sérfræðiráðgjafar erlendis um hvernig standa skuli að vegagerð á svo mikilvægu verndarsvæði sem Þingvellir séu. Til dæmis hafi Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna hartnær 150 ára reynslu af veghönnun í þjóð­görðum.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi ekki valdheimild til að úrskurða um að umrædd framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum. Við mat stofnunarinnar á því hvort tiltekin framkvæmd skuli háð slíku mati eður ei beri að horfa til viðmiða í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að auki líti stofnunin til þess hvernig umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laganna. Verði ekki séð miðað við þá skilgreiningu að umrædd framkvæmd geti haft í för með sér „veruleg óafturkræf áhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í því sambandi horfi Skipulagsstofnun til lýsingar á framkvæmdinni, tilhögun hennar og þeirra mótvægisaðgerða sem ætlað sé að grípa til. Ekki sé tekið undir það að nýrækt birkiskógar annars staðar geti ekki talist mótvægisaðgerð fyrir rask á upprunalegum birkiskógi, en jafnframt sé bent á að í umsögn Skógræktarinnar segi að dæmi um mótvægisaðgerð sé að rækta upp birkiskóg á skóglausu landi í stað þess sem eyðist við framkvæmdirnar. Vegna athugasemda við valkostagreiningu sé ekki tilefni til að bregðast við þeim, enda sé um að ræða ákvörðun um matsskyldu. Við undirbúning og meðferð slíkrar ákvörðunar séu valkostir ekki skoðaðir heldur sé slíkt gert þegar mat á umhverfisáhrifum fari fram.

Málsrök framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Bent sé á að vegurinn hafi verið lagður árið 1974. Umferðaröryggi hans sé orðið mjög ábótavant og slysahætta mikil. Afar lélegt ástand slitlags og burðarlaga liggi undir skemmdum og breidd vegarins og hönnunarlína uppfylli ekki þær kröfur sem umferð um hann gefi tilefni til. Nánast óvinnandi sé að sinna viðhaldi vegarins vegna ástands hans auk þess sem það sé afar kostnaðarsamt. Tilgangur fyrirhugaðra framkvæmda sé að auka umferðaröryggi vegarins og gera hann í stakk búinn til að bera þá umferð sem um hann fari. Hafi umferð um hann aukist um 250% frá árinu 2010, eða úr 430 bílum á sólarhring í 1.500 bíla. Um sé að ræða nauðsynlegar endurbætur og brýnt sé að grípa til aðgerða strax og koma í veg fyrir frekari slys. Um löngu tímabæra aðgerð sé að ræða sem ekki sé unnt að fresta frekar en orðið sé.

Því sé alfarið hafnað að málið sé vanreifað. Undirbúningur verksins hafi staðið yfir í rúm þrjú ár og hafi framkvæmdaraðili haft samráð við ýmsa aðila á þeim tíma, m.a. á vegum þjóð­garðsins á Þingvöllum. Fyrirspurn framkvæmdaraðila um matsskyldu hafi verið birt á heima­síðu Vegagerðarinnar. Almenningi hafi gefist kostur á að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Hafi allar umsagnir er borist hafi Skipulagsstofnun verið jákvæðar í garð framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðili hafi þegar brugðist við öllum athugasemdum, ábendingum og tillögum er fram hafi komið frá umsagnaraðilum og muni taka tillit til þeirra.

Við hönnun endurbótanna sé núverandi veglínu fylgt, en vegurinn verði breikkaður á víxl eftir því hvorum vegkanti verði ákveðið að fylgja, m.t.t. þess að vernda þann kantinn sem hafi meira gildi út frá umhverfisþáttum. Verklag við endurheimt staðargróðurs sé þróað í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og hafi umsagnaraðilar, þ. á m. Umhverfisstofnun, lýst sérstakri ánægju með það.

Lögð sé áhersla á að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar sé sérstaklega tekið fram að ljóst sé að framkvæmdin muni hafa tímabundin neikvæð áhrif á landslag og ásýnd vegna rasks á gróðri og hrauni. Með tilliti til fyrirhugaðrar endurheimtar á staðargróðri megi hins vegar gera ráð fyrir því að áhrifin muni dvína með tímanum og að framkvæmdin falli inn í landslagið. Til lengri tíma megi því gera ráð fyrir að áhrifin verði minni háttar.

Lausn sú sem orðið hafi fyrir valinu sé vel ígrunduð og hafi verið legið yfir henni í töluverðan tíma í nánu samráði við þjóðgarðinn og Landbúnaðarháskóla Íslands. Sú niðurstaða að velja vegtegund C₈ sé málamiðlun milli annars vegar óska er komið hafi fram af hálfu þjóðgarðsins um að takmarka rask og umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og hins vegar vegna vegtækni­legra sjónarmiða og umferðaröryggis. Vegna þessa hafi verið ákveðið að leyfilegur hámarks­hraði verði aðeins 50 km/klst á umræddum kafla. Miðað við umferðarspá Vegagerðarinnar muni endurbæturnar, og þar með burðargeta vegarins, anna umferð um þjóðgarðinn til næstu 25-30 ára.

Ekki sé fallist á að svonefndur núllkostur hafi verið afgreiddur á einfaldan hátt. Uppfylli umræddur kostur hvorki veghönnunarreglur né nái því markmiði verkefnisins að auka umferðaröryggi. Stór hluti umferðar í gegnum þjóðgarðinn sé vegna áhugaverðrar náttúru- og menningarminja innan garðsins, en minni hluti vegna innri samgangna á svæðinu. Ekki sé talið raunhæft að beita aðgerðum til að draga úr umferð, enda myndi það ekki breyta þeirri staðreynd að ráðast þurfi í endurbætur vegna slæms ástand vegarins.

Því sé hvergi haldið fram af hálfu framkvæmdaraðila að vegrið valdi neikvæðari umhverfis­áhrifum en hækkun vegar. Æskilegt sé að hækka veginn, en hækkunin sé fyrst og fremst til að tryggja náttúrulega snjóhreinsun og stuðla að betri afvötnun og þar með endingu vegarins. Sé vegur ekki hækkaður þurfi að gera vegrásir meðfram vegi, sem gæti aukið rask. Meginreglan sé sú að sett skuli upp vegrið þar sem breidd öryggissvæðis vegar náist ekki. Feli vegrið þannig í sér ákveðna hættu og ætti því aðeins að setja þau upp þar sem hættulegra sé að aka út af en að aka á vegrið. Ávallt beri því að skoða aðra kosti áður en sett sé upp vegrið. Sé flái vegar ekki lagfærður þurfi að setja upp vegrið til að koma til móts við öryggiskröfur. Líklega hefði það í för með sér að á vegköflum yrði að fleyga klapparholt við hlið vegar. Lækkun vegar hefði í för með sér mikla snjósöfnun, sem leiði til erfiðari og dýrari reksturs og lakara umferðaröryggis. Sjónlengdir myndu skerðast, sem aftur leiddi til minna umferðar­öryggis. Liggi núverandi vegur mjög lágt í landinu og reynslan sýni að hann nái illa að af­vatna sig á köflum, sem valdi því að ástand hans og burðargeta verði óásættanleg.

Styrking vegakerfis í uppsveitum Suðurlands um Hellisheiði og Þrengsli til höfuðborgar­svæðisins breyti engu um aðdráttarafl Þingvallaþjóðgarðs og sé ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á svonefnda „gegnumstreymisumferð“ um þjóðgarðinn. Unnið sé að framtíðar­umferðar­skipulagi í samvinnu við þjóðgarðinn. Feli það m.a. í sér að styrkja Þingvallaveg þannig að hann beri umferð um svæðið. Að endurbótum loknum sé gert ráð fyrir að loka fyrir gegnum­akstur á Vallarvegi, en umferð um hann fari mun nær hinum helga þingstað og Þingvallavatni. Verði umferð einungis færð frá þessum svæðum með því að styrkja núverandi Þingvallaveg.

Hafi framkvæmdaraðili litið til þarfa ólíkra vegfarenda við hönnun endurbótanna. Feli breikkun vegarins í sér að hægt verði að hjóla og ganga á vegöxl endurbætts vegar og skipu­lögð séu bílastæði í nágrenni gönguleiða um svæðið. Fjölmörgum útskotum við veginn verði lokað og mikil áhersla lögð á að halda umferðarhraða í 50 km/klst. Allt þetta sé til þess fallið að auka umferðaröryggi um svæðið, mæta ólíkum þörfum vegfarenda og stuðla áfram að því að hægt verði að upplifa sérstöðu svæðisins. Núverandi útskot séu algerlega ófullnægjandi og mörg þeirra staðsett á slæmum stöðum m.t.t. umferðaröryggis. Við endurbætur vegarins sé lögð áhersla á að fækka þessum hættulegu bílastæðum verulega og staðsetja frekar færri og stærri stæði á vel völdum svæðum. Við ákvörðun um stærð og staðsetningu þeirra hafi verið stuðst við ábendingar og óskir þjóðgarðsins, sem verði eigandi og rekstraraðili bílastæðanna. Ákveðið hafi verið að halda bílastæðafjölda í hógværari kantinum til að lágmarka rask á landi, en hægt sé að fjölga þeim síðar. Sé bílastæðafjöldi takmarkaður sé hætta á því að í þess stað verði lagt í vegköntum og á öðrum stöðum þar sem hætta geti skapast. Í dag sé hægt að leggja allt að 115 bílum í útskotum og því sé um að ræða fækkun bílastæða en ekki fjölgun, eins og ráða megi af kæru.

Vegagerðin hafi um árabil kynnt sér vegagerð á þjóðgarðssvæðum víða um heim og við hönnun endurbóta vegarins hafi m.a. verið tekið tillit til reynslu frá þessum svæðum. Við hönnun og áætlanagerð vegna endurheimtar gróðurs hafi að mestu leyti verið byggt á reynslu Norðmanna við svipaðar aðstæður, en slíkt verklag sé nýjung hér á landi. Þá hafi hönnunar­reglur og þversnið vega í bandarískum þjóðgörðum verið skoðuð sérstaklega þegar hönnunar­forsendur Þingvallavegar hafi verið ákveðnar. Samsvari kostur B í matsskyldufyrirspurninni „þjóðgarðaþversniði“ frá Bandaríkjunum. Ákveðið hafi verið að velja kost A með það að markmiði að takmarka umhverfisáhrif án þess að gengið væri á umferðaröryggi með því að halda hámarkshraða áfram í 50 km/klst. Hafi Vegamálastjóri veitt undanþágu frá veg­hönnunarreglum fyrir þeirri útfærslu.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 17. apríl 2019.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 að endurbætur á 9 km löngum vegkafla á Þingvallavegi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem fram­kvæmdin sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Þingvallavegur mun hafa verið lagður árið 1974 og hafa framkvæmdir við hann áður sætt meðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Hinn 22. apríl 1998, í gildistíð eldri laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993, féllst skipulagsstjóri ríkisins á úrbætur á 11,8 km löngum kafla á Þingvallavegi, frá afleggjara við Steingrímsstöð að þjóðgarðsmörkum við Gjábakkaveg. Var það mat skipulagstjóra að framkvæmdin, sem m.a. fól í sér endurbyggingu Þingvallavegar á 10,2 km kafla og lagningu nýs 1,6 km vegbúts, hefði ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir eða samfélag ef nánar tilgreindum ábendingum, sem og skil­yrðum úrskurðarins, yrði fylgt. Þá komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu 4. júní 2014 að lagfæringar á vegamótum Þingvallavegar og Haksvegar, m.a. með því að sá fyrrnefndi skyldi breikkaður á um 300 m kafla með því að koma fyrir aðreinum, skyldu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Nýir tveggja akreina vegir styttri en 10 km í þéttbýli og nýir vegir utan þéttbýlis á verndar­svæðum, sem og endurbygging þeirra, falla í flokk B í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, sbr. tölul. 10.09, en skv. 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna um­fangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrir­hugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Við ákvörðun um matsskyldu skal fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en áður skal leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.

Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 barst Skipulagsstofnun tilkynning Vegagerðar­innar um endurbætur á um 9 km löngum vegkafla á Þingvallavegi á milli þjónustumiðstöðvar Þingvalla og syðri vegamóta við Vallarveg. Tilkynningunni fylgdi greinargerð þar sem m.a. var fjallað um tilgang og forsendur framkvæmdarinnar og staðhætti. Hafði til­kynningin einnig að geyma lýsingu á framkvæmdinni og hönnunar­forsendur. Reifuð voru umhverfisáhrif hennar og var framkvæmdin talin líkleg til að hafa neikvæð áhrif á vistgerðir, fornminjar, jarðminjar, landslag og ásýnd, auk þess sem hætta væri á neikvæðum áhrifum á vatnafar. Framkvæmdin væri líkleg til að hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Mat Vegagerðin það svo að óhjákvæmilegt væri að raska birkikjarri og eldhrauni í nágrenni vegarins. Með mótvægisaðgerðum og nánar tilgreindum áherslum gætu umhverfisáhrif framkvæmdarinnar hins vegar ekki talist umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000. Til­kynningunni fylgdi einnig greinargerð frá árinu 2017 um fornleifaskráningu í Þingvalla­þjóðgarði vegna mats á umhverfisáhrifum breikkunar vegarins sem og minnisblað Náttúrufræði­stofnunar Íslands frá 2017 þar sem gerð var grein fyrir gróðurfarsúttekt vegna nefndrar breikkunar. Fullnægjandi gögn fylgdu því tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulags­stofnunar skv. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og áðurnefnda 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Í gögnum framkvæmdaraðila kom fram að skoðaðir hefðu verið þrír framkvæmdakostir við endurbætur vegarins. Hefði kostur A verið valinn, en með þeim kosti hefði verið tekið fullt tillit til umhverfisáhrifa og sjónarmiða um umferðaröryggi. Laut ákvörðun Skipulagsstofnunar að því að meta hvort framkvæmdin, samkvæmt kosti A, gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með hliðsjón af einu eða fleiri viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000, sbr. 6. gr. laganna og 12. gr. reglugerðar nr. 660/2015. Ekki er hins vegar gerð sú krafa að lögum að Skipulagsstofnun taki á þessu stigi afstöðu til annarra valkosta sem lagðir eru fram í tilkynningu framkvæmdaraðila.

Samkvæmt ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000 ræðst matsskylda, eins og fyrr greinir, af því hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar sinnar, en í p-lið 3. gr. nefndra laga eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Mælt er fyrir um í 3. mgr. nefndrar 6. gr. að Skipulagsstofnun skuli fara eftir viðmiðum 2. viðauka við lögin við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar. Í viðaukanum eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið er svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Það að framkvæmd falli undir einhvern liðanna leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu, en kann eftir atvikum að gefa tilefni til að kanna sérstaklega samspil allra þeirra liða sem upp eru taldir í 2. viðauka. Umfangslítil framkvæmd getur t.d. haft mikil áhrif á umhverfið á stað þar sem umhverfisþættir eru viðkvæmir fyrir breytingum.

Það svæði sem hér um ræðir, þjóðgarðurinn á Þingvöllum, nýtur fjölþættrar verndar að lögum, m.a. vegna náttúrufars og menningarsögu þjóðarinnar. Verður að líta á svæðið sem viðkvæmt í skilningi 2. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000, en samkvæmt honum skal líta til staðsetningar framkvæmdar, þ.e. hve viðkvæm þau svæði séu sem líklegt sé að framkvæmdin hafi áhrif á. Ber í þessu skyni t.a.m. að líta til verndarsvæða, m.a. svæða sem falla undir ákvæði 61. gr. laga um náttúruvernd, nálægðar við fornminjar, hverfisverndarsvæða samkvæmt ákvæðum í skipulagsáætlunum og svæða sem njóta verndar samkvæmt sérlögum, svo sem Þingvalla. Þá skal líta til álagsþols náttúrunnar, með tilliti til t.d. sérstæðra jarðmyndana, náttúruverndarsvæða, þ.m.t. svæða á náttúruminja­skrá, upprunalegs gróðurlendis og svæða sem hafa sögulegt, menningarlegt og fornleifa­fræðilegt gildi. Er og rakið með greinargóðum hætti í niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd sé innan svæðis sem bundið sé ýmsum verndarákvæðum. Land þjóðgarðsins á Þingvöllum skuli vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur sé hinu upprunalega náttúrufari, sbr. lög nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þjóðgarðurinn sé á Heimsminjaskrá UNESCO, Þingvellir og Þingvallavatn séu á náttúruminjaskrá, vatnasvið Þingvallavatns sé verndað með lögum nr. 85/2005 og svæðið njóti hverfisverndar í aðalskipulagi Bláskógabyggðar. Þá liggi vegurinn um eldhraun og fari í gegnum birkiskóg, sem bæði njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Tekur stofnunin fram að fyrirhugaðar framkvæmdir séu á svæði sem sé einstaklega mikilvægt og viðkvæmt. Því sé nauðsynlegt að framkvæmdaraðili viðhafi boðað verklag og að samráð verði haft við hlutaðeigandi stofnanir við nánari útfærslu framkvæmdarinnar.

Í 1. tl. nefnds 2. viðauka laga nr. 106/2000 er vikið að því að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til t.d. stærðar og umfangs, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum og nýtingar náttúruauðlinda. Samkvæmt tilkynningu framkvæmdaraðila felast endurbæturnar í endurnýjun burðarlags, breikkun og hækkun vegarins, auk þess sem um 50 útskot, sem hvert rúmar einn til tvo bíla, verða lögð af en þess í stað útbúin bílastæði á fjórum stöðum fyrir samtals 50-60 bíla. Framkvæmdirnar ná til um 9 km langs vegkafla á Þingvallavegi og er það niðurstaða Skipulagsstofnunar hvað þennan þátt varðar að um nokkuð langan vegkafla sé að ræða, en þar sem einungis sé fyrirhugað að breikka veginn um 1,5 m telji stofnunin að ekki sé hægt að líta á fyrirhugaða framkvæmd sem umfangsmikla. Verður og á það fallist, enda er við endurbæturnar fylgt núverandi vegstæði og breikkun vegarins verður þeim megin vegar hverju sinni sem hefur minni áhrif á umhverfið. Auk þess leiðir hækkun vegarins þar sem hann liggur lágt í landi til betri afvötnunar og afrennslis frá veginum og þar með til minna rasks af völdum vegrása, sem þjóna sama tilgangi. Þá verða bílastæði þau sem koma í stað útskota, sem ætlað er að leggja af, ekki heldur mikil að umfangi. Það stærsta þeirra er þó 2.300 m², en lögun þess og staðsetning, sem ákveðin var í samráði við Þingvallanefnd, veldur því að það sker sig ekki úr umhverfinu með þeim hætti að áhrif þess verði veruleg. Þá er tekið fram í tilkynningu framkvæmdaraðila að gengið verði frá aflögðum útskotum með því að „leggja gróðurþekju yfir þau“ og að svæði þar sem þörf sé á endurheimt gróðurs sé minna en það gróðurlendi sem fari undir rask og verði því umframefni af gróðurtorfum fyrir hendi.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna ýmissa aðila, en enginn þeirra taldi að framkvæmdin skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt lá fyrir að samskipti höfðu átt sér stað af hálfu þjóðgarðsins við framkvæmdaraðila á undirbúningstíma framkvæmdar­innar. Að fengnum umsögnum taldi Skipulagsstofnun að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda yrðu rask á vistgerðum, jarðminjum og menningarminjum. Áhrif á vatnafar yrðu óveruleg og framkvæmdin myndi hafa tímabundin neikvæð áhrif á landslag og ásýnd vegna rasks á gróðri og hrauni. Tiltók stofnunin hvaða tilhögun yrði viðhöfð við framkvæmdina til að draga úr hættu á mengun og forðast rask á minjum. Enn fremur var tekið fram hvaða mótvægisaðgerðir yrðu viðhafðar vegna rasks á birkiskógi og að vegna þeirra aðgerða yrðu áhrif á landslag og ásýnd minni háttar til lengri tíma. Tók stofnunin og fram varðandi röskun á eldhrauni að áhrifin yrðu óafturkræf, en að svæðið væri þegar raskað að hluta vegna fyrri vegaframkvæmda og að tilhögun framkvæmdarinnar væri með þeim hætti að hlífa mætti að einhverju marki svæðum með verndar- og ásýndargildi með því að breikka veginn þeim megin sem teldist hafa minna verndargildi. Skírskotar þessi umfjöllun stofnunarinnar til atriða varðandi eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar.

Skipulagsstofnun hefur ákveðið forræði um til hverra hún leitar eftir umsögnum, enda skal það gert eftir eðli máls hverju sinni, svo sem segir í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Í því felst þó að leita skal umsagna í því skyni að upplýsa mál eftir því sem þörf krefst. Í því sambandi er rétt að benda á að umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands¸ sem stundar undirstöðu­rannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins, sbr. 4. gr. laga nr. 60/1992 um stofnunina, var ekki leitað. Þó lá fyrir að fyrirhuguð framkvæmd raskaði eldhrauni og birkiskógi, sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, og að í nágrenni vegstæðisins væri þekktur skráningarstaður friðaðrar plöntutegundar. Upplýsingar um gróðurfar komu raunar úr minnisblaði Náttúrufræðistofnunar, en því fer fjarri að með því hafi komið fram formlegt álit stofnunarinnar hvað möguleg áhrif framkvæmdar­innar á gróður varðaði. Þá var heldur ekki til hennar leitað hvað varðaði áhrif á jarðminjar. Í ljósi niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að meðal helstu neikvæðra áhrifa yrðu rask á vistgerðum og jarð­minjum, þótt mat á því hvort brýna nauðsyn beri til slíks rasks komi fyrst og fremst til skoðunar áður en leyfi er veitt til framkvæmda, var tilefni til þess að umsagnar Náttúrufræði­stofnunar yrði leitað. Er henni enda ætlað ákveðið hlutverk hvað þessa umhverfisþætti varðar samkvæmt náttúruverndarlögum, auk þess sem hún gegnir því lögbundna hlutverki sem áður er lýst. Það er þó til þess að líta að framkvæmd sú sem um er deilt er ekki mikil að umfangi og dregið er úr áhrifum hennar með þeim hætti sem áður er að vikið. Helstu óafturkræfu áhrif framkvæmdarinnar verða á jarðminjar, en þau verða þó ekki veruleg að teknu tilliti til þess að eldra vegstæði verður fylgt og að svæðinu hefur þegar verið raskað við fyrri vegagerð. Verða áhrif framkvæmdar­innar að því leyti því ekki heldur talin veruleg. Að því virtu raskar það ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki hafi verið leitað umsagnar Náttúrufræðistofnunar.

Að virtum gögnum málsins og staðháttum, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, tók Skipulagsstofnun viðhlítandi tillit til þeirra viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 sem við áttu, að teknu tilliti til kynntrar tilhögunar framkvæmdarinnar og mótvægisaðgerða, við þá ákvörðun sína að framkvæmdin skyldi ekki háð matsskyldu. Er enda ekki um að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif vegna framkvæmdarinnar eða veruleg spjöll á umhverfinu, sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum í skilningi p-liðar 3. gr. sömu laga. Verður því ekki séð þótt um viðkvæmt svæði sé að ræða að af framkvæmdinni geti stafað umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar hennar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Verður og ekki annað ráðið en að fyrir Skipulagsstofnun hafi legið nauðsynlegar upplýsingar um framkvæmdina og forsendur hennar sem stofnunin gat reist ákvörðun sína á.

Loks skal á það bent að gerð er grein fyrir markmiðum laga nr. 106/2000 í 1. gr. þeirra og er eitt þeirra að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulags­stofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir, sbr. d-lið. Gera lögin þannig fyrst og fremst ráð fyrir því að samráð við almenning fari fram við málsmeðferð matsskyldra framkvæmda áður en leyfi er veitt fyrir þeim. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir slíku samráði við matsskylduákvörðun, enda fer samráð þá fram á síðari stigum samkvæmt lögunum verði niðurstaðan sú að um matsskylda framkvæmd sé að ræða. Eins og áður hefur verið rakið veltur sú niðurstaða á því hvort framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, en samráð umfram lagaskyldu, þótt æskilegt kunni að vera, er að lögum ekki þáttur í þeirri ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum er ógildingu geta valdið og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2018 um að endurbætur á Þingvallavegi, milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð, skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

11/2018 Kalkþörungaset í Miðfirði

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. janúar 2018, er barst nefndinni 22. s.m., kæra Veiðifélag Miðfirðinga og Kvísl ehf., eigandi Króksstaða og hluta Miðfjarðarár, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 að nýting kalkþörungasets í Miðfirði, 1.200 m³ á ári í 30 ár, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um frestun réttaráhrifa en þó er tekið fram að ekki sé krafist úrskurðar um hana að svo stöddu. Vegna framsetningar kröfunnar þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 26. febrúar 2018.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur. Hinn 14. maí 2015 sótti Icecal ehf. um leyfi til Orkustofnunar fyrir hagnýtingu á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan ákveðins svæðis í Miðfirði. Óskað var eftir nýtingarleyfi til 30 ára, eða frá 2015 til 2045. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins skal við veitingu leyfa samkvæmt lögunum gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við tilvitnaða málsgrein leitaði Orkustofnun umsagna Umhverfisstofnunar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Húnaþings vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Vestfjarða og Samgöngustofu áður en leyfið var veitt. Í bréfi sínu til umsækjanda, dags. 20. nóvember 2015., benti Orkustofnun á að tilkynna þyrfti um fyrirhugaða framkvæmd til Skipulagstofnunar og var það gert 4. desember s.á. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu 9. s.m. að umrædd framkvæmd væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 30. maí 2016 veitti Orkustofnun umsækjanda leyfi til töku kalkþörungasets af hafsbotni í vestanverðum Miðfirði við Húnaflóa.

Í janúar 2016 bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kærur vegna fyrrnefndrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar og kvað nefndin upp úrskurð 3. október 2017 í kærumálum nr. 3/2016 og 8/2016 þar sem ákvörðunin var felld úr gildi. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að ekki verði ráðið af hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi hennar að mat Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum hafi farið fram með fullnægjandi hætti samkvæmt viðmiðum 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, tilkynnti Icecal að nýju um fyrirhugaða framkvæmd til Skipulagsstofnunar. Fram kom í tilkynningunni að hinn 30. maí 2016 hefði félagið fengið leyfi frá Orkustofnun til hagnýtingar á 1.200 m3 af kalkþörungaseti á ári í 30 ár innan tilgreinds svæðis í Miðfirði. Við leyfisumsóknina hafi verið stuðst við setlagarannsóknir tilgreindrar jarðfræðistofu frá árinu 2004, auk rannsókna á kalkþörungum í Húnaflóa frá árinu 1980. Við val á svæði hafi verið horft til niðurstaðna setmælinga m.t.t. magns lífræns og ólífræns sets. Sótt hafi verið um leyfi til efnisnáms á svæði þar sem kalkþörungaset sé talið í sem mestu magni. Fyrirhugað sé að nýta skip útbúið með krana og gálga eða dælubúnað sem nýtist við efnistökuna. Þar sem umfang nýtingar sé almennt lítið sé lögð á það áhersla að nýting verði eins vistvæn og kostur sé og taki mið af lögun kalkþörungasetsins. Gert sé ráð fyrir að set verði flutt í kerjum, sekkjum eða einhverju sambærilegu og notast sé við hefðbundnar aðferðir, eins og við löndun á matvælum úr sjó, s.s. fiski. Skipulagt efnisnám muni fara fram á afmörkuðu efnistökusvæði með þeim hætti að rask á botnlífi verði sem minnst. Sama gildi um rask sem áhrif hafi á fiskistofna á svæðinu þar sem grugg frá efnistöku sé almennt lítið í samanburði við umfangsmeiri efnistöku annars staðar.

Skipulagsstofnun tók nýja ákvörðun í málinu 14. desember 2017. Þar kom fram að stofnunin hefði ekki talið tilefni til að óska sérstaklega eftir umsögnum, en þess í stað stuðst við umsagnir frá árinu 2015 sem Orkustofnun hefði óskað eftir vegna leyfisumsóknar framkvæmdaraðila. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að í umsögn Umhverfisstofnunar hafi komið fram sú skoðun stofnunarinnar að þau stærðarviðmið sem ætlað sé að gefa vísbendingar um líkleg áhrif efnistöku ættu að öllum líkindum ekki við þegar um efnistöku á seti væri að ræða, sér í lagi þegar verið væri að vinna efni sem væri jafn viðkvæmt og kalkþörungaset. Skipulagsstofnun taki undir það sjónarmið að gerð efnis sem taka eigi sé ekki síður mikilvægur þáttur þegar horft sé til líklegra áhrifa af efnistöku. Tekið hafi verið á þessu vandamáli við samþykkt laga nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000. Við lagabreytinguna hafi efnistaka sem áður hafi verið undir stærðarviðmiðum laganna orðið tilkynningarskyld. Ekki liggi fyrir hversu mikið sé af lifandi kalkþörungum innan fyrirhugaðs efnistökusvæðis. Að mati Skipulagsstofnunar felist neikvæð áhrif framkvæmdar fyrst og fremst í röskun lifandi kalkþörunga sem séu afar viðkvæmir og séu mikilvægt búsvæði fyrir sjávardýr og gróður. Vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og áhrifin því langvarandi og vart afturkræf nema ef litið sé til mjög langs tíma. Stofnunin taki þó ekki undir þá umsögn Hafrannsóknastofnunar að nýtingin sé ekki sjálfbær þar sem um afar hóflega nýtingu á auðlindinni sé að ræða. Í ljósi þess telji Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdarinnar á kalkþörunga verði nokkuð neikvæð en staðbundin. Mikilvægt sé að við efnisnám verði notast við aðferðir sem takmarki gruggmyndun og þess gætt að áhrifa gæti ekki út fyrir fyrirhugað efnistökusvæði. Stofnunin telji eðlilegt að í nýtingarleyfi verði sett skilyrði um fyrirkomulag efnistöku, rannsóknir á lífríki, vöktun og hvernig bregðast skuli við niðurstöðum rannsókna og vöktunar. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna sé það niðurstaða stofnunarinnar að umrædd framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að Skipulagsstofnun hafi ekki aflað nýrra umsagna hinna ýmsu stofnana og Húnaþings vestra áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun sína 14. desember 2017. Í stað þess hafi hún látið umsagnir til Orkustofnunar frá miðju ári 2015 duga, en þær umsagnir hafi verið gefnar löngu fyrir ógildingarúrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hinn 3. október 2017. Umsagnirnar hafi því verið úreltar þegar hin kærða ákvörðun var tekin auk þess sem þær hafi verið veittar annarri óviðkomandi stofnun. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun hvorki getið um né fjallað um athugasemdir og mótmæli kærenda sem komi fram í málum nr. 3/2016 og 8/2016. Kærendur mótmæli túlkun Skipulagsstofnunar á 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en stofnunin misskilji víðtækt ákvæði greinarinnar þannig að hún eigi einungis við um ákvarðanir á grundvelli náttúruverndarlaganna.

Orkustofnun hafi gefið út leyfi til töku kalkþörungasetsins 30. maí 2016, en það leyfi hafi orðið markleysa eftir að fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi verið ógilt af úrskurðarnefndinni 3. október 2017, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Veruleg óvissa sé um áhrif framkvæmdarinnar. Fram komi í umsögn Umhverfisstofnunar að stærðarviðmið efnistöku í 1. viðauka laga nr. 106/2000, sem ætlað sé að gefa vísbendingar um líkleg áhrif efnistöku á landi, eigi að öllum líkindum ekki við þegar um sé að ræða efnistöku á hafsbotni, sérstaklega þegar efni sé dælt upp af hafsbotni úr seti sem sé jafn viðkvæmt og kalkþörungar. Þá megi líta til umsagnar Hafrannsóknastofnunar þar sem komi fram að vegna óvenju hægs vaxtar kalkþörunga muni það væntanlega taka hundruð ára fyrir þá og lífríkið að jafna sig. Þess vegna sé ekki um að ræða sjálfbæra nýtingu. Einnig segi í umsögn Fiskistofu að ástæða kunni að vera til að skoða á landsvísu hvort kalkþörunganám kunni að hafa neikvæð áhrif á afkomu laxfiska og annarra lífvera sem nýti sér búsvæði á grunnsævi. Í Miðfirði sé ein mikilvægasta laxveiðiá landsins. Fiskistofa bendi á að það svæði og það magn sem sótt sé um leyfi til að nýta, sé ekki fjarri þeim mörkum sem sett hafi verið til viðmiðunar um framkvæmdir sem skuli vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt komi fram hjá framkvæmdaraðila að sótt verði um frekara efnisnám á leyfistímanum, ef ástæða reynist til. Því telji Fiskistofa eðlilegt að umhverfisáhrif verði metin.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé enn verulega ábótavant og langt frá því að bera með sér að stofnunin hafi rannsakað málið sérstaklega með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti, með tilliti til allra þeirra atriða sem máli skipta, áður en hún hafi tekið ákvörðun sína. Ekki dugi að fullyrða um það heldur verði ákvörðunin að bera með sér að málið hafi verið rannsakað.

Sem dæmi um lítt rökstuddar og óviðunandi staðhæfingar Skipulagsstofnunar sé vísað til orðalags stofnunarinnar varðandi umfang framkvæmda, þ.e. „[g]era má ráð fyrir“ að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið. Kærandi spyrji hvers vegna megi gera ráð fyrir að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið, hvernig efnistökusvæðið takmarkist eða hvernig það sé tryggt að ekkert rask verði utan hins formlega 25.000 m2 efnistökusvæðis. Ráðagerð stofnunarinnar sé ekki rökstudd og engin trygging sé fyrir því að ekki verði umhverfisáhrif af framkvæmdinni utan hins formlega efnistökusvæðis. Þvert á móti sé ástæða til að óttast veruleg umhverfisáhrif utan framkvæmdasvæðisins, bæði bein og óbein, m.a. á lífríki Miðfjarðarár og vatnasvæði árinnar og Miðfjarðarins í heild. Fleiri dæmi megi finna en um stærð og fjölbreytileika áhrifa segi í ákvörðun Skipulagsstofnunar að helstu neikvæðu áhrifin séu vegna rasks á kalkþörungaseti og þeirrar eyðileggingar á búsvæðum sem því fylgi og sé svo viðhaft orðalagið „[g]era má ráð fyrir“ að umfang áhrifa ráðist af umfangi rasks. Þá segi um líkur á áhrifum „má ganga út frá“ því að framkvæmd muni raska búsvæðum og hafa áhrif á sjávargróður og dýr á framkvæmdasvæði svo og „[t]elja má“ að litlar líkur verði á öðrum áhrifum.

Um tímalengd, tíðni og óafturkræfi áhrifa segi að fyrir liggi að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og það taki því lífríkið langan tíma að jafna sig eftir rask. Sé vísað í umsögn Hafrannsóknastofnunar um að efnisnám kalkþörungasets sé ekki sjálfbær nýting á náttúruauðlind. Í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar gildi það sama. Hún endurspegli ekki sjálfstæða rannsókn eða rökstudda og þar sé aðeins ein lagatilvísun.

Enginn viti hvaða áhrif fyrirhuguð námuvinnsla geti haft á laxa- og bleikjugöngur í Miðfjarðará eða á lífríki vatnasvæðis árinnar og fjarðarins. Miðfjarðará sé ein mesta laxveiðiá landsins og geti verið í stórhættu ef af námuvinnslunni verði með tilheyrandi uppróti og kalkþörungaskoli í firðinum. Sérstaklega hljóti sú hætta að eiga við á göngutíma seiða til sjávar og á tíma göngu lax og silungs í ána. Áður en til greina komi að heimila framkvæmdina sé brýnt að framkvæma margvíslegar rannsóknir á náttúru svæðisins og láta fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sem ætla megi að geti stefnt í stórhættu lífríki umhverfisins í nágrenni námuvinnslunnar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun telur að þótt umsagnir í málinu séu frá árinu 2015 þá séu þær ekki úreltar. Þrátt fyrir að þær hafi verið veittar Orkustofnun þá hafi verið hægt að byggja á þeim, enda hafi leyfisumsókn lotið að sömu framkvæmd og hin kærða ákvörðun lúti að. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í úrskurði sínum frá 3. október 2017 ekki gert athugasemd við það að Skipulagsstofnun hafi ekki leitað umsagna leyfisveitanda samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Kærendur nefni að í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 sé hvorki getið né fjallað um athugasemdir og mótmæli kærenda varðandi fyrri ákvörðun stofnunarinnar. Stofnunin fái ekki séð að henni sé skylt að lögum að víkja að athugasemdum og mótmælum í umræddum kærum varðandi fyrri ákvörðun stofnunarinnar, enda hafi úrskurðarnefndin fellt hana úr gildi. Aftur á móti hafi stofnuninni borið að taka mið af þeim sjónarmiðum og lagarökum sem komu fram í úrskurði nefndarinnar sem hún og gerði áður en hún tók hina kærðu ákvörðun. Af samanburði á umræddum kærum og því sem fram komi í úrskurði nefndarinnar verði ráðið að úrskurðarnefndin hafi ekki tekið undir öll sjónarmið og rök sem fram hafi komið í kærunum.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun misskilji 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Gerð hafi verið breyting á ákvæðinu með lögum nr. 109/2015. Eftir þá breytingu gildi ákvæðið einungis um ákvarðanir teknar á grundvelli náttúruverndarlaga. Ákvæðið gildi því ekki um ákvarðanir Skipulagsstofnunar sem teknar séu á grundvelli laga nr. 106/2000.

Í kærunni sé því haldið fram að veruleg óvissa sé um áhrif framkvæmdarinnar. Í því sambandi sé vitnað til umsagna Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Í umsögn Umhverfisstofnunar sé þeirri afstöðu lýst að stærðarviðmið, sem ætlað sé að gefa vísbendingu um líkleg áhrif efnistöku á landi, eigi að öllum líkindum ekki við þegar um efnistöku á hafsbotni sé að ræða, sérstaklega þegar efni sé dælt upp af hafsbotni úr seti sem sé jafn viðkvæmt og kalkþörungar. Skipulagsstofnun bendi á að gerð efnis sem taka eigi sé ekki síður mikilvægur þáttur þegar horft sé til líklegra áhrifa efnistöku. Tekið hafi verið á þessu vandamáli við samþykkt laga nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000. Við lagabreytinguna hafi efnistaka, sem áður hafi verið undir stærðarviðmiðunum, orðið tilkynningarskyld. Þá sé í tölulið 2.04 ekki aðeins talað um efnistöku á landi heldur einnig úr hafsbotni.

Eins og fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnunar þá felist neikvæð áhrif framkvæmdarinnar fyrst og fremst í röskun lifandi kalkþörunga sem séu afar viðkvæmir fyrir raski og séu mikilvægt búsvæði fyrir sjávardýr og gróður. Vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og áhrifin því langvarandi og vart afturkræf nema til mjög langs tíma sé litið. Skipulagsstofnun taki þó ekki undir með Hafrannsóknastofnun að nýtingin sé ekki sjálfbær vegna þess að um sé að ræða afar hóflega nýtingu á auðlindinni. Í ljósi þess sem hér sé rakið telji Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdarinnar á kalkþörunga verði nokkuð neikvæð og staðbundin en ekki veruleg, eins og skilgreining á umtalsverðum umhverfisáhrifum áskilji, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Þess skuli getið að í umsögn Umhverfisstofnunar komi fram sú afstaða að um hóflega nýtingu sé að ræða.

Kærendur vísi til ummæla Fiskistofu í umsögn sinni en horfi vísvitandi fram hjá því að í umsögninni sé vikið að því að þar sem fyrirhuguð efnistaka sé fremur lítil að umfangi og til langs tíma, efnistökusvæðið sé afmarkað og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðará, sé ekki líklegt að hún hafi mikil áhrif á afkomu laxfiska á svæðinu. Vegna þeirra orða Fiskistofu að það svæði og það magn sem sótt sé um leyfi til að nýta sé ekki fjarri þeim mörkum sem sett hafi verið til viðmiðunar um framkvæmdir sem skuli vera háðar mati á umhverfisáhrifum bendi Skipulagsstofnun á að það atriði geti ekki leitt til þess að framkvæmdin eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum heldur þurfi að meta hvort framkvæmdin skuli matsskyld á grundvelli þeirra viðmiða sem fram komi í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þá veki stofnunin athygli á því að mörkin í tölulið 2.01 séu há, enda um matsskylda framkvæmd að ræða í A-flokki. Því sé nokkuð langt seilst að tala um að stærð efnistökusvæðisins sé ekki fjarri mörkunum. Einnig geri stofnunin athugasemd við það orðalag Fiskistofu að henni þyki „eðlilegt“ að metin verði umhverfisáhrif framkvæmdarinnar áður en efnistaka hefjist. Skipulagsstofnun bendi á að ákvörðun um matsskyldu skuli byggjast á lagarökum og lagasjónarmiðum en ekki sjónarmiðum um hvað sé eðlilegt.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki rannsakað málið. Fram komi í niðurlagi hinnar kærðu ákvörðunar að í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hafi stofnunin farið yfir þau gögn sem lögð hafi verið fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu og fyrirliggjandi umsagnir. Þá hafi stofnunin aflað nánar tilgreindrar greinar frá 1980 sem fjalli um kalkþörunga í Húnaflóa og hugsanlega nýtingu þeirra. Vitnað hafi verið til greinarinnar og fjallað um rannsóknirnar í ákvörðuninni. Eins og málið hafi legið fyrir stofnuninni út frá þessum gögnum og að gættum viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 hafi stofnunin ekki talið tilefni til að afla frekari upplýsinga, enda hafi legið fyrir hendi allar þær upplýsingar sem máli hafi skipt eða verið nauðsynlegar.

Þá hafni Skipulagsstofnun því að ákvörðunin sé ekki rökstudd. Þegar ákvörðunin sé borin saman við fyrri ákvörðunina, sem úrskurðarnefndin hafi gert athugasemd við, sé ljóst að rökstuðningnum í fyrri ákvörðuninni hafi verið ábótavant. Í hinni kærðu ákvörðun sé tekin afstaða til þess sem komi fram í umsögnum Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknastofnunar auk þess sem tekin sé afstaða til þess hvort og hvaða þýðingu það hafi að áhrif verði á kalkþörungaset sem sé á lista OSPAR samningsins um viðkvæm búsvæði sem séu í hættu eða á undanhaldi, en úrskurðarnefndin hafi í úrskurði sínum kallað eftir þessum atriðum. Gerðar hafi verið breytingar á gátlistanum í samræmi við úrskurð nefndarinnar að því leyti að bætt hafi verið við þeim atriðum sem vantaði og koma fram í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Einnig sé í reitunum „Já/Nei/Útskýring“ að finna mun ítarlegri umfjöllun heldur en í fyrri ákvörðuninni. Þar sé gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hafi þýðingu í málinu. Rökstuðningurinn fullnægi því kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur vísi til staðhæfinga í hinni kærðu ákvörðun sem þeir telji lítt rökstudda, t.d. um að „telja [megi] að litlar líkur verði á öðrum áhrifum, eins og t.d. áhrifum á laxfiska í Miðfjarðará.“ Skipulagsstofnun bendi á að þau ummæli verði að skoða í samhengi við það sem komi fram á öðrum stað í ákvörðuninni, þ.e. tilvísun í umsögn Fiskistofu þess efnis að ólíklegt sé að efnistaka hafi áhrif á laxfiska á svæðinu. Með það í huga fái Skipulagsstofnun ekki séð að hin tilvitnuðu orð feli í sér lítt rökstudda staðhæfingu. Þá víki kærendur að þeim orðum Skipulagsstofnunar að fyrir liggi að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og það taki því lífríkið langan tíma að jafna sig eftir rask. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar komi fram að stofnunin telji efnisnám kalkþörungasets ekki sjálfbæra nýtingu á náttúruauðlind. Skipulagsstofnun bendi á að í niðurstöðukafla ákvörðunar hennar komi fram að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og áhrifin því langvarandi og vart afturkræf nema á mjög löngum tíma. Einnig vísi kærendur til þeirra ummæla í ákvörðuninni að gera megi ráð fyrir að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið. Skipulagsstofnun bendi á að gögn málsins gefi ekki til kynna að umhverfisáhrifin nái út fyrir framkvæmdasvæðið. Því hafi stofnunin ekki haft forsendur til að leggja annað til grundvallar. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til stofnunarinnar sé gerð grein fyrir efnistökusvæðinu og með tilkynningunni fylgi kort/hnit af efnistökusvæðinu. Þannig hafi legið fyrir upplýsingar um afmörkun svæðisins áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun í málinu.

Kærendur nefni að niðurstaða ákvörðunar Skipulagsstofnunar beri ekki vitni um sjálfstæða rannsókn og rökstudda niðurstöðu, en þar sé aðeins ein lagatilvísun. Stofnunin bendi á að það verði að meta ákvörðunina í heild sinni. Þegar það sé gert, en ekki bara einblínt á niðurstöðukaflann, komi í ljós að ákvörðunin beri merki þess að vera rökstudd og að undirbúningur hennar hafi fullnægt kröfum rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili telur ljóst að efnisleg rök fyrir möguleikum á áfalli fyrir hagsmunaaðila á svæðinu, verði af fyrirhugaðri efnistöku í Miðfirði, séu án rökstuðnings eða tilvitnana í rannsóknir eða til fyrri atburða vegna sambærilegra framkvæmda. Ljóst sé að rask af dragnótaveiðum hafi verið í firðinum áratugum saman, ásamt veiði með plógum og rækjutrolli, án þess að það hafi haft áhrif á göngu laxa í Miðfjarðará. Í samanburði sé efnistakan af völdum framkvæmdaraðila fjær og líklega minni, en auk þess liggi fyrir álit þess efnis að efnistakan muni að öllum líkindum ekki hafa nein áhrif.

——-

Bæði kærendur og Skipulagsstofnun vísa jafnframt til þeirra málsraka sem fram komu í kærumálum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 3/2016 og 8/2016 og rakin eru í úrskurði nefndarinnar frá 3. október 2017. Verður ekki fjallað nánar um þau sjónarmið hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Að mati kærenda ber nauðsyn til að slíkt mat fari fram vegna mögulegra áhrifa framkvæmdarinnar á lífríki Miðfjarðarár og nánasta umhverfi hennar.

Efnistaka úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m2 svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m3 fellur undir flokk C í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tölul. 2.04 viðaukans. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki C, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 5. mgr. lagagreinarinnar. Segir þar nánar að ákvörðun skuli taka innan tveggja vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist, við ákvörðunina skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og að Skipulagsstofnun sé heimilt að leita álits leyfisveitanda og annarra aðila eftir eðli máls hverju sinni. Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, svo sem frá er greint í málavaxtalýsingu. Í tilkynningunni kemur fram að framkvæmdaraðili hafi fengið leyfi frá Orkustofnun til hagnýtingar á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári í 30 ár innan tiltekins svæðis í Miðfirði.

Samkvæmt þeim ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000 sem áður er lýst ræðst matsskylda af því hvort framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í p-lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „[v]eruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Í 5. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum 2. viðauka laganna, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið eru svo talin upp önnur atriði sem líta ber til. Hefur Skipulagsstofnun útbúið eyðublað og sniðmát ákvörðunar um framkvæmd í flokki C. Þá er fyrirliggjandi gátlisti þar sem spurt er hvort framkvæmdin hafi áhrif á þætti sem taldir eru í 32 liðum sem flokkaðir eru í þrennt, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka, þ.e. eftir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Er hin kærða ákvörðun að formi svo sem að framan er lýst.

Hvað varðar eðli framkvæmdar fjallar Skipulagsstofnun fyrst og fremst um hvort framkvæmdin sé umfangsmikil. Þar er rakið að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér töku á allt að 36.000 m3 á þrjátíu árum og að fyrirhugað efnistökusvæði sé 24.150 m2 að stærð. Vísað er til þess að niðurstöður könnunar frá árinu 1980 á kalki í sjávarseti í vestanverðum Húnaflóa gefi til kynna að útbreiðsla kalkþörungasets á svæðinu sé töluverð. Við könnunina hafi fundist kalkþörungaset víða á grunnsævi í innsta hluta Húnaflóa en setið hafi þó verið sérstaklega áberandi með vestanverðum Miðfirði og í Hrútafirði.

Að því er varðar staðsetningu framkvæmdar þá vísar Skipulagsstofnun til þess að í umsögn Fiskistofu komi fram að ólíklegt sé að efnistakan hafi áhrif á laxfiska á svæðinu, efnissvæðið sé afmarkað, umfangslítið og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðarár. Tekur Skipulagsstofnun undir þau ummæli og telur ekki líklegt að efnisnámið og gruggmyndun því samfara hafi neikvæð áhrif á laxfiska á svæðinu. Um getu náttúruauðlinda á svæðinu til endurnýjunar segir Skipulagsstofnun að vaxtarhraði kalkþörunga sé afar hægur og framkvæmdin hafi því áhrif á magn náttúruauðlinda. Þá vísar stofnunin til þess að kalkþörungaset sé á lista samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR samningsins), sem Ísland hefur fullgilt, um viðkvæm búsvæði sem séu í hættu eða á undanhaldi. Hafsvæðum OSPAR samningsins sé skipt í fimm undirsvæði og sé hafsvæði við Ísland á svæði I. Ástand búsvæða kalkþörunga sé ólíkt á milli undirsvæða og hafi aðildarríkin verið hvött til að grípa til verndaraðgerða á svæði III en ekki á öðrum svæðum. Að því er varðar áhrif framkvæmdanna á gróður og búsvæði dýra segir að framkvæmdin muni raska gróðri og búsvæðum sjávardýra á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði, en með hliðsjón af umsögn Fiskistofu megi gera ráð fyrir að áhrifin verði staðbundin og hafi ekki áhrif á afkomu laxfiska í nærliggjandi ám.

Þegar kemur að eiginleikum hugsanlegra áhrifa telur Skipulagsstofnun að gera megi ráð fyrir að umhverfisáhrif framkvæmda takmarkist við efnistökusvæðið. Helstu neikvæðu áhrifin séu vegna rasks á kalkþörungaseti og þeirrar eyðileggingar á búsvæðum sem því fylgi. Gera megi ráð fyrir að umfang áhrifa ráðist af því raski sem verði, en með hliðsjón af stærð efnistökusvæðis megi ætla að magn og fjölbreytileiki áhrifa verði takmarkaður. Ganga megi út frá því að framkvæmd muni raska búsvæðum og hafa áhrif á sjávargróður og dýr á framkvæmdasvæði, en litlar líkur verði á öðrum áhrifum. Þá liggi fyrir að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og það taki því lífríkið langan tíma að jafna sig eftir rask.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Það leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu að einhver þeirra atriða eigi við um fyrirhugaða framkvæmd. Þótt eitt af viðmiðunum um matsskyldu sé eðli framkvæmdar, m.a. með tilliti til stærðar og umfangs hennar, þá veldur umfang efnistökunnar eitt og sér ekki matsskyldu, enda hefur löggjafinn ákveðið að metið verði hverju sinni hvort efnistaka af þeirri stærð sem hér um ræðir sé líkleg til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Kærandi telur skorta á rökstuðning í ákvörðun Skipulagsstofnunar, m.a. að því er varðar þá afstöðu hennar að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið, auk þess sem rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Rökstuðningur Skipulagsstofnunar um að neikvæð áhrif framkvæmdarinnar séu staðbundin tekur m.a. mið af umsögn Fiskistofu þar sem kemur fram að þar sem fyrirhuguð efnistaka sé fremur lítil að umfangi og til langs tíma, efnistökusvæðið afmarkað og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðarár, sé ekki líklegt að hún hafi mikil áhrif á afkomu laxfiska á svæðinu. Einnig segir í umsögn Umhverfisstofnunn að um hóflega nýtingu sé að ræða þar sem lögð verði áhersla á að valda sem minnstum skaða utan hins eiginlega efnistökusvæðis. Hefur og ekkert fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar muni ná út fyrir fyrirhugað efnistökusvæði. Fyrir stofnuninni lágu umsagnir fagstofnana og leyfisveitanda sem aflað var við leyfisveitingu vegna sömu framkvæmdar og höfðu aðstæður ekki breyst frá þeim tíma. Verður því ekki séð að ástæða hafi verið fyrir Skipulagsstofnun að afla sérstaklega nýrra umsagna til að málið teldist nægjanlega upplýst, líkt og kærendur halda fram. Skal áréttað í því sambandi að ekki hvílir skylda á stofnuninni að afla álita vegna framkvæmda í flokki C í 1. viðauka laga nr. 106/2000, að því gefnu að málið sé nægjanlega upplýst án þess að svo sé gert, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því síður er stofnunin bundin af umsögnum sem aflað er við leyfisveitingu og lýsa eftir atvikum afstöðu umsagnaraðila til matsskyldu þótt þær upplýsingar, sem og aðrar, geti stuðlað að rannsókn málsins. Verður talið að Skipulagsstofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni og rökstutt ákvörðun sína að því marki sem nauðsyn bar til. Þá bendir ekkert til þess að mat Skipulagsstofnunar hafi að öðru leyti verið ómálefnalegt eða stutt ónógum gögnum.

Að virtum aðstæðum öllum er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við undirbúning ákvörðunar sinnar lagt viðhlítandi mat á þá þætti sem máli skiptu og vörðuðu það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni og við það mat tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000. Miðað við allar aðstæður var ekki sérstök þörf á að reifa varúðarsjónarmið við undirbúninginn og gat varúðarregla 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd ekki heldur komið til skoðunar, enda tekur ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan einungis til ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Er og rétt að taka fram að þar sem niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að framkvæmdin væri ekki matsskyld þá var eðli máls samkvæmt ekki nauðsyn á mati á umhverfisáhrifum eða sérstökum rannsóknum því tengdu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

10, 11 og 15/2016 Hvammsvirkjun

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015 um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Veiðifélag Þjórsár, ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015 um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Er þess krafist að felldur verði úr gildi sá hluti ákvörðunarinnar að ekki þurfi að endurskoða þann hluta matsskýrslunnar er varðar áhrif á vatnalíf.

Með bréfi, dags. 21. janúar 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir Jón Árni Vignisson, Skálmholti, Flóahreppi, framangreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015. Er þess krafist að felldur verði úr gildi sá hluti ákvörðunarinnar að ekki þurfi að endurskoða þá hluta matsskýrslunnar er varða áhrif á vatnalíf og vatnafar.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands framangreinda ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015. Er þess krafist að felldur verði úr gildi sá hluti ákvörðunarinnar að ekki þurfi að endurskoða þá hluta matsskýrslunnar er varða áhrif á vatnalíf og vatnafar.

Þar sem sama ákvörðun er kærð í öllum málunum og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða tvö síðargreindu kærumálin, sem eru nr. 11/2016 og nr. 15/2016, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 11. mars 2016.

Málavextir: Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð 19. ágúst 2003 um mat á umhverfisáhrifum allt að 150 MW virkjunar Þjórsár við Núp, auk breytingar á Búrfellslínu 1. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að fallist var á fyrirhugaða virkjun Þjórsár við Núp í einu þrepi með byggingu Núpsvirkjunar og í tveimur þrepum með byggingu Hvammsvirkjunar og Holtavirkjunar, ásamt breytingu á Búrfellslínu 1 með nánar tilgreindum skilyrðum. Meðal annars voru gerð eftirfarandi skilyrði varðandi lífríki í Þjórsá: „Áður en til framkvæmda kemur þarf framkvæmdaraðili að standa fyrir þeim viðbótarrannsóknum um grunnástand lífríkis í Þjórsá sem lagðar eru til í sérfræðiskýrslu Veiðimálastofnunar um lífríki Þjórsár og raktar eru í kafla 4.3.3 í úrskurði Skipulagsstofnunar. Í ljósi niðurstaðna þessara rannsókna þarf framkvæmdaraðili að útfæra nánar og grípa til þeirra mótvægisaðgerða sem lagðar eru til í fyrrnefndri sérfræðiskýrslu Veiðimálastofnunar. Að loknum framkvæmdum þarf framkvæmdaraðili að fara að þeim tillögum að vöktun sem fram koma í sérfræðiskýrslunni og raktar eru í kafla 4.3.3 í úrskurðinum. Vöktun þarf að standa yfir í a.m.k. 10 ár frá því að starfsemi virkjananna hefst. Viðbótarrannsóknir, mótvægisaðgerðir og vöktun þarf að vinna í samráði við og bera undir veiðimálastjóra.“

Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhverfisráðherra, sem kvað upp úrskurð 27. apríl 2004. Þar var úrskurður stofnunarinnar staðfestur með nánar tilgreindum skilyrðum. Á árunum 2004-2007 fór af stað vinna við rannsóknir og undirbúning vegna 2. áfanga rammaáætlunar. Tólf manna verkefnastjórn var skipuð í september 2007 og var henni falið að ljúka gerð rammaáætlunar. Verkefnisstjórnin lauk störfum í byrjun júlí 2011. Þingsályktun nr. 13/141 var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013. Í meðförum umhverfis- og auðlindaráðherra var niðurstöðu og tillögum breytt þar sem virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár, þ.m.t. Hvammsvirkjun, voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk. Kom m.a. fram í rökstuðningi ráðherra að áhrif virkjananna á laxfiska í Þjórsá væru talin óljós og þörfnuðust frekari rannsókna. Varúðarsjónarmið lægju að baki þeirri tillögu að flytja virkjunarkostina í biðflokk.

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar lagði til við umhverfis- og auðlindaráðherra 21. mars 2014 að Hvammsvirkjun yrði flutt úr biðflokki áætlunarinnar í orkunýtingarflokk. Í greinargerð verkefnisstjórnar kom m.a. fram að sú tillaga og niðurstaða væri fengin að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga og með hliðsjón af mati faghóps um laxfiska í Þjórsá. Hafi það verið niðurstaða faghópsins að óvissa varðandi áhrif Hvammsvirkjunar á laxfiska hefði minnkað nægjanlega til þess að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk. Að teknu tilliti til þessa lagði verkefnisstjórn til að Hvammsvirkjun yrði flutt úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Á Alþingi 2014-2015 lagði umhverfis- og auðlindaráðherra fram tillögu um breytingu á þingsályktun nr. 13/141 í samræmi við niðurstöður verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar og var sú breyting samþykkt að flytja Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk.

Í júlí 2015 tilkynnti framkvæmdaraðili Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem og Rangárþingi ytra, að fyrirhugað væri að sækja um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skal viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda er veitt, ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Með bréfi umræddra sveitarfélaga til Skipulagsstofnunar, dags. 13. júlí 2015, var þess óskað að Skipulagsstofnun tæki ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun álits Rangárþings ytra, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Landgræðslu ríkisins, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands, Vegagerðarinnar og Veiðimálastofnunar. Málið var einnig kynnt almenningi og bárust athugasemdir sem ásamt umsögnun voru sendar framkvæmdaraðila. Brást hann við þeim með bréfi, dags. 22. október 2015. Einnig lágu fyrir Skipulagsstofnun önnur gögn frá framkvæmdaraðila, þ. á m. skýrsla, dags. 2. júlí 2015, sem fól í sér rýni verkfræðistofu á mati á umhverfisáhrifum 93 MW Hvammsvirkjunar.

Ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, er frá 16. desember 2015. Segir m.a. í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar: „[E]r það niðurstaða Skipulagsstofnunar að endurskoða skuli að hluta matsskýrslu um Hvammsvirkjun. Nánar tiltekið skal endurskoða þá hluta umhverfismats virkjunarinnar sem varða áhrif á landslag og ásýnd lands og áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Að öðru leyti eru að mati Skipulagsstofnunar ekki forsendur til að krefjast endurskoðunar á matsskýrslu um Hvammsvirkjun samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000.“

Kærendur kæra þann hluta niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem snýr að því að ekki séu forsendur til að endurtaka mat á umhverfisáhrifum hvað varðar áhrif á vatnalíf og áhrif á vatnafar.

Í niðurstöðu stofnunarinnar hvað varðar vatnalíf er tekið fram að það sé skilyrði ákvörðunar um að endurskoða skuli mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar skv. 12. gr. laga nr. 106/2000 að forsendur hafi breyst verulega frá því mat hafi farið fram. Geti það m.a. átt við ef breytingar á náttúrufari, landnotkun, löggjöf eða tækniþróun hafi falið í sér verulega breyttar forsendur. Þegar Skipulagsstofnun hafi úrskurðað um mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar á árinu 2003 hafi legið fyrir að ákveðin óvissa væri um áhrif á vatnalíf, en að áhrifin væru líkleg til að verða mikil. Til að draga úr óvissu og neikvæðum áhrifum hafi verið sett skilyrði í úrskurðinum um frekari rannsóknir, mótvægisaðgerðir og vöktun. Unnið hafi verið að framfylgd þessa skilyrðis frá matinu og hafi þær rannsóknir og tillögur að mótvægisaðgerðum undirgengist ítarlega rýni í ferli rammaáætlunar, þar sem ákveðið hafi verið að færa virkjunina í nýtingarflokk. Sú ákvörðun hafi byggst á þeirri niðurstöðu faghóps verkefnisstjórnar rammaáætlunar að óvissa varðandi áhrif Hvammsvirkjunar á laxfiska hefði minnkað nægjanlega til að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk.

Skipulagsstofnun telji ekki hægt að líta svo á að um sé að ræða verulega breyttar forsendur varðandi mat á áhrifum framkvæmdarinnar á vatnalíf og séu ekki forsendur fyrir stofnunina til að krefjast endurskoðunar á mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar varðandi þann þátt. Þær breytingar sem orðið hafi á náttúrufari, þ.e. aukin laxagengd ofan Búðafoss, hafi verið fyrirséðar þegar matið hafi farið fram. Varúðarreglan hafi verið innleidd í lög með nýrri náttúruverndarlöggjöf en þó þurfi að hafa í huga að varúðarsjónarmiða sé getið í inngangsorðum EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Þannig hafi átt að leggja varúðarsjónarmið til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum þegar áhrif Hvammsvirkjunar hafi verið metin. Stofnunin telji að undangengið mat á umhverfisáhrifum og rammaáætlunarferli feli í sér fullnægjandi málsmeðferð í því tilliti og ekki hafi komið fram nýjar málsmeðferðar- og/eða efniskröfur í nýjum náttúruverndarlögum sem feli í sér breyttar forsendur, sbr. einnig niðurstöðu faghóps rammaáætlunar. Þá sé að mati stofnunarinnar ekki um að ræða aðra þætti sem feli í sér verulega breyttar forsendur hvað varði mat á áhrifum virkjunarinnar á vatnalíf. Eftir sem áður liggi fyrir að áfram sé til staðar ákveðin óvissa um virkni mótvægisaðgerða og þar með áhrif framkvæmdarinnar á vatnalíf. Því sé sérstaklega brýnt að vel sé staðið að vöktun og eftir atvikum viðbragðsaðgerðum og þurfi þess að gæta í leyfisveitingum til framkvæmdanna og eftirliti með þeim.

Hvað varðar vatnafar tiltók Skipulagsstofnun að fjallað hefði verið um áhrif Hvammsvirkjunar á grunnvatn í mati á umhverfisáhrifum. Nýjar upplýsingar bendi til þess að samband Þjórsár og grunnvatns sé mjög lítið. Jafnframt hafi verið gerð grein fyrir því að Búðarhálsvirkjun muni ekki hafa áhrif á vatnafar við Hvammsvirkjun. Telji stofnunin að forsendur mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar varðandi vatnafar hafi ekki breyst verulega, sbr. 12. gr. laga nr. 106/2000, og séu því ekki forsendur til að krefjast endurskoðunar matsskýrslu hvað þennan þátt varði.

Málsrök kærenda: Kærendur telja forsendur hafa breyst verulega frá því að matsskýrslan og álit Skipulagsstofnunar á henni hafi legið fyrir árið 2003. Komið hafi fram í úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2003 að ákveðin óvissa væri um áhrif á vatnalíf Þjórsár af völdum virkjana, þótt ljóst væri að áhrifin væru líkleg til þess að verða mikil. Virðist sem Skipulagsstofnun byggi á því að þeirri óvissu hafi nú verið eytt, m.a. með vísan til þess að faghópur verkefnisstjórnar rammaáætlunar hafi talið réttlætanlegt að færa Hvammsvirkjun í orkunýtingarflokk. Í greinargerð verkefnisstjórnarinnar komi fram að sú afstaða sé fengin að teknu tilliti til fyrirliggjandi upplýsinga og með hliðsjón af mati faghóps um laxfiska í Þjórsá. Sé þar m.a. vísað í skýrslu sérfræðihóps um laxfiska í Þjórsá og nýlegar upplýsingar frá framkvæmdaraðila sem faghópurinn hafi farið yfir.

Alvarlegar athugasemdir séu gerðar við framangreinda afstöðu Skipulagsstofnunar og telji kærendur ljóst að ekki hafi verið greitt úr þeirri óvissu sem ríki um áhrif virkjunarinnar á vatnalíf Þjórsár. Bent sé á að til að mótvægisaðgerðir geti komið að tilætluðum notum sé þekking á líffræði fiskistofna svæðisins ásamt samspili þeirra við umhverfið nauðsynleg. Vísað sé í því samhengi til þess að umsnúningur hafi orðið á lífríki árinnar frá því að umhverfismatið hafi farið fram. Fiskgengd hafi stóraukist og hrygningarstöðvar og búsvæði vaxið. Seiðasleppingum hafi verið hætt og hafi áin verið sjálfbær síðastliðin 10 ár, eða eftir að svæðin ofan Búða hafi orðið virk á ný og landnám fiska hafi verið komið vel af stað. Veiði í Þjórsá hafi aukist jafnt og þétt, bæði í net og á stöng. Fiskgengd um teljara í fiskistiganum við Búða hafi verið 100 fiskar árið 2001. Árið 2013 hafi verið taldir 1.923 fiskar og árið 2014 hafi þeir verið 2.474.

Ástæðan fyrir aukinni fiskgengd séu hagstæð hrygningar- og uppvaxtarskilyrði ofan við fossinn Búða. Þeim svæðum verði fórnað með Hvammsvirkjun en fyrirhugað lón virkjunarinnar muni raska um 68% af þeim búsvæðum. Áhrifin muni ekki eingöngu verða á laxa heldur einnig á stofna urriða og bleikju, staðbundinna og sjógenginna fiska. Með tilkomu stórra lóna og vatnslítilla farvega á milli þeirra, þar sem muni renna 10-15 m³/sek í stað 360-400 m³/sek, muni lítið verða um vænlega hrygningarstaði. Ekki sé við því að búast að hrogn og seiði muni eiga miklar lífslíkur við slíkar aðstæður.

Þrátt fyrir að ljóst sé að fiskgengd hafi aukist sé lítið vitað um stofnstærðir laxa, sjóbirtings og bleikju í Þjórsá. Fyrsta skrefið hafi verið stigið árið 2013 til þess að áætla stærð laxastofnsins. Það hafi verið gert með talningu í einni af hliðarám Þjórsár, Kálfá. Varðandi sjóbirting og bleikju hafi ekkert mat farið fram á stofnstærð. Ómögulegt sé að draga ályktanir af veiðitölum vegna mismunandi sóknar á milli ára og vegna ónákvæmni við skráningu. Ekki hafi verið minnst á mótvægisaðgerðir af hendi framkvæmdaraðila vegna sjóbirtings. Möguleg áhrif á þá tegund séu því hvergi nærri þekkt.

Síðan mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi hönnun mannvirkja Hvammsvirkjunar breyst mikið. Til að mynda hafi átt sér stað tilfærsla stíflugarða og flóðgáttar, flóðvara hafi verið komið fyrir á vesturbakka árinnar og haugsetningarsvæði færð til. Sé þetta að hluta til gert vegna upplýsinga sem hafi komið fram árið 2012 við endurskoðun Veðurstofu Íslands á vatnamælingum í Þjórsá. Hafi komið í ljós að flóð, sem talin voru hafa 1000 ára tíðni við hönnun virkjana í neðri hluta árinnar, séu samkvæmt nýju mati líkleg með 60 ára millibili. Nýtt mat á 1000 ára flóðatíðni við Þjórsártún hafi hækkað mikið, þ.e. farið úr 2.350 m³/sek í 4.150 m³/sek, sem jafngildi 77% aukningu frá því sem gert hafi verið ráð fyrir við undirbúning virkjana.

Nauðsynlegt sé að fyrir liggi fullnægjandi upplýsingar um eftirtalin atriði áður en ráðist verði í framkvæmd Hvammsvirkjunar: Stærðir stofna laxfiska í ánni, sjógöngufiska og staðbundinna, gönguhegðun þessara stofna, ástand og framtíðarhorfur þeirra svæða sem hafi opnast fyrir fiski með tilkomu fiskvegar við Búða, mögulega hámarksfiskgengd í Þjórsá að teknu tilliti til fullnuminna svæða ofan Búða, áhrif botnfalls í lónum á seiði og fæðu þeirra, áhrif dælingar botnfalls úr lónum á fiskistofnana, áhrif hinna gríðarlegu rennslisbreytinga í farvegum á milli lóna, hvernig fiski verði tryggð gönguleið í vatnslitlum farvegum, hvernig tryggt verði að lágmarksrennsli fari ekki niður fyrir þau mörk sem sannanlega séu fullnægjandi, virkni seiðaveitna og áhrif á lífslíkur fiska sem fari um vélar virkjana.

Vísað sé til erindis prófessors í líffræði og forstöðumanns Fiskvegamiðstöðvarinnar í Oregonfylki í Bandaríkjunum, sem hann hélt í Háskóla Íslands á árinu 2011. Í erindinu hafi komið fram að stíflur og virkjanir í ám valdi mikilli röskun á vatnafari, sem skaði lífríkið með afdrifaríkum afleiðingum. Samkvæmt prófessornum séu aðstæður í Þjórsá sambærilegar við aðstæður í Columbiaánni, þegar langstærstur hluti fiskistofna í ánni hafi drepist þegar virkjað hafi verið í henni. Í erindinu hafi komið fram að til lengri tíma hafi laxastigar lítil sem engin áhrif til að stemma stigu við hnignun laxastofna.

Í skýrslu fyrrgreinds faghóps um laxfiska í Þjórsá hafi sérstaklega verið tekið fram að mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila þyrftu að vera mun ítarlegri og að rökstyðja þyrfti hverja aðgerð sérstaklega í greinargerð með tilvísun í viðeigandi rannsóknargögn og heimildir. Ekki hafi verið brugðist við þessari athugasemd.

Hugmyndir framkvæmdaraðila séu ófullnægjandi ef miðað sé við skilyrði sem Skipulagsstofnun hafi gert í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum árið 2003. Verði framkvæmdaraðila ekki gert að hlíta upphaflega úrskurðinum verði breytingar á náttúrufari, landnotkun og áhrif framkvæmdarinnar á annan veg en ætla hafi mátt í upphafi, þegar úrskurðurinn hafi verið felldur. Framkvæmdaraðili hyggist koma sér hjá að tryggja að rennsli verði stýrt um farvegi og að komist verði hjá snöggum rennslisbreytingum, en í rýniskýrslu frá 2015 segi að ekki verði hægt að tryggja stöðugt rennsli. Landeigendur geti vænst þess að með jöfnu rennsli um árfarvegi geti orðið til vænlegt svæði til stangveiði og því sé áðurnefnt atriði afar mikilvægt fyrir veiðiréttarhafa í Þjórsá. Varðandi skilyrði um að lagfæra farvegi segi í rýniskýrslu frá 2015 að líkan af árbotni og mat á áhrifum skerts rennslis sé nú í vinnslu fyrir árkaflann á milli Hvammsstíflu og Ölmóðseyjar. Þessar rannsóknir muni gefa betri upplýsingar um hvaða mótvægisaðgerðir komi til greina til að skerðing búsvæða verði sem minnst og hvernig tryggja megi best fiskgengd um farvegina. Þar sem vinna framkvæmdaraðila sé ekki komin lengra en svo að líkan sé í vinnslu sé ástæða til að efast um getu fyrirtækisins til að leysa þennan hluta verkefnisins.

Verðmæti veiðihlunninda hafi ekki verið metin. Sett sé fram hugmynd að verði fyrir fisk í kílóatali á bls. 35 í matsskýrslu framkvæmdaraðila. Verðmæti hlunninda hafi hinsvegar aukist verulega á þeim árum sem liðin séu frá því að mat á umhverfisáhrifum hafi verið gert. Verðmætaaukning sé vegna meiri veiði og vegna breyttra aðstæðna í markaðsmálum, þar sem villtur lax sé mun verðmætari en eldislax. Sú breyting hafi orðið á landnotkun að jarðir við Þjórsá, sem áður hafi verið taldar góðar til reksturs hefðbundins búskapar og verðlagðar sem slíkar, séu nú metnar út frá mögulegum arði af veiði í Þjórsá. Hefðbundinn búskapur komi þar á eftir. Sú breyting hafi orðið á náttúrufari að vegna aukinnar fiskgengdar sé orðið mögulegt að veiða lax á stöng í Þjórsá og tali veiðitölur sínu máli þar um.

Breyttar lagalegar forsendur eigi að leiða til þess að endurupptaka eigi matsskýrslu vegna Hvammsvirkjunar í heild sinni. Frá því að hinu upphaflega matsferli virkjunarinnar hafi lokið hafi lagaumhverfi náttúruverndar á Íslandi tekið stórtækum breytingum. Lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 hafi verið breytt í grundvallaratriðum á árinu 2005 og samþykkt hafi verið ný lög um náttúruvernd nr. 60/2013. Árið 2007 hafi Alþingi samþykkt þingsályktunartillögu um að innleiða svokallaða vatnatilskipun Evrópusambandsins, tilskipun 2000/60/EB. Vatnatilskipunin hafi síðan verið innleidd með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Í lögunum nái skilgreining á vatni yfir ár, stöðuvötn, árósa, sjávarlón, strandsjó, grunnvatn og jökla. Meginmarkmið vatnatilskipunarinnar sé að vernda vatn og vatnasvæði, sem og vistkerfi í vötnum og vistkerfi sem tengist vötnum.

Lögskylt sé að gera ítrustu kröfur um aðgengi almennings að upplýsingum um umhverfisáhrif framkvæmda sem kunni að hafa veruleg áhrif á umhverfið. Í ljósi þess að meira en 12 ár hafi liðið síðan mat á umhverfisáhrifum hafi verið framkvæmt á Núpsvirkjun/Hvammsvirkjun beri að meta hag almennings sem ríkari en hagsmuni framkvæmdaraðila.

Andmælt sé þeim skilningi Skipulagsstofnunar að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök hafi haft sama rétt og tækifæri til að kynna sér áformaða framkvæmd um Hvammsvirkjun 2001-2003 eins og eigi við samkvæmt núgildandi löggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Á því tímaskeiði sem um ræði hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum 1) Kárahnjúkavirkjunar, 2) Norðlingaölduveitu og framkvæmdum og 3) áformum um kísilnám í nyrðri enda Mývatns. Tiltölulega fáir hefðu gert athugasemdir við matsskýrslur framkvæmdaraðila um virkjanir í neðri Þjórsá árið 2003, enda hefðu samtök almennings haft næg verkefni að fást við, auk þess sem afstaða stjórnvalda til frjálsra félagasamtaka hafi á þeim tíma verið afar fjandsamleg. Einungis einn aðili hafi kært úrskurð Skipulagsstofnunar. Vera megi að formlega séð hafi réttur náttúruverndarsamtaka verið hinn sami og núgildandi lög kveði á um en tækifæri þeirra til að andæfa eða gera athugasemdir við virkjunaráform í neðri Þjórsá séu nær engin í samanburði við þá yfirburði sem bæði framkvæmdaraðili og stjórnvöld hafi haft á þeim tíma, bæði hvað varði mannafla og fjármagn.

Framkvæmdaraðili hafi uppi áform um tvær aðrar virkjanir í neðri Þjórsá, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Gera verði sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum virkjananna þriggja í samræmi við 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ætla verði af gögnum um 2. áfanga rammaáætlunar að virkjanir í neðri Þjórsá séu háðar hver annarri, þ.m.t. áhrif á landslag og ásýnd, ferðamennsku og útivist, en þessir þættir telji Skipulagsstofnun nauðsynlegt að verði metnir á ný í samræmi við 12. gr. laga nr. 106/2000.

Með vísan til alls framangreinds þyki kærendum ljóst að uppfyllt sé það skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að forsendur hafi breyst verulega hvað vatnalíf Þjórsár varði frá því að matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar á henni hafi legið fyrir. Sé ákvörðun Skipulagsstofnunar því að þessu leyti efnislega röng.

Málsrök Skipulagsstofnunar:
Af hálfu Skipulagsstofnunar er því hafnað að stofnunin hafi byggt á því í niðurstöðu sinni að óvissu um áhrif virkjunar á vatnalíf hafi verið eytt. Eins og umfjöllunin í ákvörðun stofnunarinnar beri með sér hafi dregið úr óvissu um áhrif á vatnalíf. Í úrskurðinum frá 2003 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ákveðin óvissa væri um áhrif á vatnalíf, en að áhrifin væru líkleg til að verða mikil. Hafi verið sett skilyrði um frekari rannsóknir, mótvægisaðgerðir og vöktun. Á þeim tíma sem liðinn sé frá því að matið hafi farið fram hafi verið unnið að framfylgd skilyrðisins. Því hafi Skipulagsstofnun talið nauðsynlegt að kynna sér þá vinnu sem farið hefði fram á vegum verkefnisstjórnar rammaáætlunar, í kjölfar tillögu að breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða, sem m.a. hefði snúið að Hvammsvirkjun. Hefði m.a. verið unnin sérfræðiskýrsla að beiðni verkefnastjórnar og hafi höfundum hennar verið ætlað að leggja mat á fyrirliggjandi rannsóknir á stofnum laxfiska á vatnasviði Þjórsár í tengslum við fyrirhugaðar fyrirbyggjandi aðgerðir og mótvægisaðgerðir. Þá hafi verið skipaður sérstakur faghópur um vatnalíf Þjórsár og hafi hann m.a. byggt vinnu sína á fyrrnefndri sérfræðiskýrslu.

Eins og fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015 hafi hluti af skilyrðum sem stofnunin hafi sett fram í úrskurði vegna virkjunarinnar árið 2003 falist í því að standa fyrir viðbótarrannsóknum á lífríki Þjórsár og á nánari útfærslu mótvægisaðgerða. Þetta hafi verið gert til að bregðast við óvissu um áhrif framkvæmdarinnar og draga úr neikvæðum áhrifum á vatnalíf. Í rýniskýrslu framkvæmdaraðila, sem fyrirtækið hafi lagt fram í kjölfar beiðni um ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu, hafi verið fjallað um þær rannsóknir á vatnalífi og mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaraðili hafi ráðist í til samræmis við skilyrði sem sett hafi verið fram í úrskurðinum.

Skipulagsstofnun hafi því m.a. kynnt sér efni sérfræðiskýrslunnar, þar sem skýrsluhöfundar hafi rýnt þau gögn og rannsóknir sem framkvæmdaraðili hefði unnið á grundvelli skilyrða í úrskurði stofnunarinnar árið 2003. Stofnuninni hafi verið ljóst að niðurstaða skýrsluhöfunda, um að Hvammsvirkjun myndi hafa minnst áhrif á göngufiska af virkjununum þremur í neðri hluta Þjórsár, hafi m.a. byggst á þeirri nálgun að líta á svæðið á áhrifasvæði Hvammsvirkjunar sem síður náttúrulegt en svæðin neðar í ánni. Þessi niðurstaða skýrsluhöfunda og grundvöllur hennar hafi verið forsenda fyrir mati faghópsins og höfð til hliðsjónar þeirri ákvörðun verkefnisstjórnar að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk. Sú ákvörðun hafi engin áhrif haft á ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurupptöku matsskýrslunnar.

Í greinargerð verkefnisstjórnar rammaáætlunar, dags. 21. mars 2014, segi eftirfarandi: „Faghópurinn taldi að nokkuð skýrt mat lægi fyrir á áhrifum hvers virkjunarkosts um sig á laxfiska með gönguhegðun í Þjórsá og komst að þeirri niðurstöðu að óvissa varðandi áhrif Hvammsvirkjunar á laxfiska hefði minnkað nægjanlega til að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk á nýjan leik.“

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar sé að finna texta sem hafi m.a. byggt á umræddri greinargerð. Stofnunin sé hinsvegar meðvituð um að hvorki sé um að ræða beina tilvitnun úr skýrslu sérfræðinganna né úr mati faghópsins, þrátt fyrir að verkefnastjórn hefði dregið þessa ályktun út frá niðurstöðum faghópsins. Hins vegar sé ljóst að þeir sérfræðingar sem verkefnastjórn hafi fengið til að rýna rannsóknir um lífríki og mótvægisaðgerðir hafi farið yfir þær rannsóknir og sé ekkert í niðurstöðu þeirra sem gefi tilefni til að líta svo á að forsendur hafi breyst verulega frá því að mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hafi farið fram. Niðurstaða höfunda sérfræðiskýrslunnar hafi auk annars verið sú að ljóst væri að vatnsaflsvirkjanir og stíflur breyttu vistkerfi laxfiska. Fyrirliggjandi rannsóknir um gönguhegðun laxins og uppeldisstöðvar seiða gæfu fullnægjandi upplýsingar um að á heildina litið yrðu áhrif vatnsaflsvirkjana í neðri hluta Þjórsár umtalsverð og áhrif þeirra á stofninn óafturkræf og neikvæð, ef ekki kæmu til mótvægisaðgerðir.

Í sérfræðiskýrslunni sé fjallað um boðaðar mótvægisaðgerðir og þar komi fram að framkvæmdaraðili hafi lagt sig fram um að vinna að hönnun og gerð fiskstiga við Urriðafossvirkjun og Hvammsvirkjun og fiskstigi sem gerður hafi verið við Búða árið 1991 hafi reynst til bóta. Þá sé fjallað um seiðafleytur og að framkvæmdaraðili hafi unnið að þróun seiðafleytu fyrir Urriðafoss byggða á líkönum og prófunum. Einnig sé fjallað um mikilvægi góðrar þekkingar á hegðun laxfiska til að hámarka virkni slíkra veitna, en ávallt verði til staðar ákveðin óvissa um raunverulega hegðun ungra laxfiska. Skýrsluhöfundar hafi mælst til þess að gert yrði ráð fyrir samskonar seiðafleytum í Hvammsvirkjun og Holtavirkjun og ráðgerð sé við Urriðafoss.

Þá fjalli skýrsluhöfundar um minnisblað framkvæmdaraðila sem greini frá því að nota eigi Kaplanhverfla í fyrirhugaðar virkjanir, sem séu sagðir draga úr dauða laxaseiða sem fari um slíka hverfla, og leggi þeir til að framkvæmdaraðili bæti þeim við í fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir. Í rýniskýrslu framkvæmdaraðila komi fram að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á útfærslu hönnunar og mótvægisaðgerða, en nú sé gert ráð fyrir seiðafleytu til að tryggja göngur til sjávar og Kaplanhverflum í virkjun. Að því leyti sé fyrirhuguð framkvæmd til samræmis við framangreindar ábendingar höfunda sérfræðiskýrslunnar. Að auki hafi verið unnið að frekari útfærslu fiskstigans.

Ljóst sé að við gerð sérfræðiskýrslunnar hafi verið farið yfir rannsóknir á lífríki, umhverfisáhrifum og mótvægisaðgerðum sem fyrir liggi. Hvað varði mótvægisaðgerðirnar þá komi fram að ákveðin reynsla liggi fyrir um virkni fiskstiga í ánni við Búða, prófanir hafi verið gerðar á seiðafleytum og önnur gerð hverfla í virkjanirnar séu sagðir gefa betri raun en þeir sem áður hafi verið fyrirhugaðir. Í rýniskýrslu framkvæmdaraðila komi fram að nú séu framangreindar mótvægisaðgerðir fyrirhugaðar við Hvammsvirkjun líkt og skýrsluhöfundar leggi til í skýrslu sinni. Að auki geri framkvæmdaraðili ráð fyrir að fylgst verði vel með virkni mótvægisaðgerða og gerð viðbragðaáætlunar, sem taki á því til hvaða aðgerða skuli gripið ef fyrirséð sé að mótvægisaðgerðir virki ekki sem skyldi, sem sé í samræmi við það sem faghópurinn hafi lagt til.

Skipulagsstofnun telji, í ljósi framangreindrar umfjöllunar, að dregið hafi úr óvissu um virkni mótvægisaðgerða frá því að úrskurður stofnunarinnar hafi legið fyrir árið 2003, þótt enn sé til staðar ákveðin óvissa um virkni aðgerðanna, eins og fjallað sé um í ákvörðun stofnunarinnar. Einnig komi fram í ákvörðuninni að breytingar á náttúrufari, þ.e. aukin fiskgengd ofan Búða, hafi verið fyrirséðar þegar matið hafi farið fram.

Hluti af rannsóknum sem unnar hafi verið á lífríki Þjórsár frá árinu 2003 hafi gefið upplýsingar um sjóbirting. Meðal annars komi fram í svörum framkvæmdaraðila við umsögnum og athugasemdum vegna beiðni um endurskoðun matsskýrslu að upplýsingar liggi fyrir um göngutíma sjóbirtingsseiða, sem sé svipaður og laxaseiða. Þar komi einnig fram að stærð sjóbirtingsstofnsins sé um 10% af stærð laxastofnsins.

Varðandi breytingar á lagaumhverfi fái Skipulagsstofnun ekki séð að þær breytingar sem gerðar hafi verið á lögum nr. 106/2000 geti haft áhrif á mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar, sem gert hafi verið á sínum tíma. Þá fái stofnunin ekki séð að þær breytingar sem felist í nýjum náttúruverndarlögum nr. 60/2013, þ. á m. markmiðsákvæði 2. og 3. gr. laganna, sem lúti að vistkerfum og tegundum lífvera sem og verndun vatnsfarvegs, geti verið grundvöllur fyrir þeirri ályktun að forsendur hafi breyst verulega með tilliti til áhrifa virkjunarinnar á vatnalíf. Það sama gildi um Árósarsamninginn, lög nr. 61/2006, lög nr. 59/2006 og lög nr. 48/2011. Í 1. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála komi fram að markmið laganna sé að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Að mati Skipulagsstofnunar geti þetta ákvæði og önnur ákvæði laganna ekki haft þau áhrif að forsendur mats á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar hafi breyst verulega.

Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök hafi haft, þegar mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar hafi farið fram 2001-2003, sama rétt og tækifæri til að kynna sér áformaða framkvæmd og matið á umhverfisáhrifum, auk þess að koma á framfæri athugasemdum eins og eigi við samkvæmt núgildandi löggjöf um mat á umhverfisáhrifum. Þessi afstaða stofnunarinnar sé byggð á yfirferð á viðkomandi lögum. Stofnunin hafi ekki svigrúm að lögum til að horfa framhjá þessu, þótt það kunni að vera rétt að mikið hafi verið að gera hjá þessum samtökum við að nýta rétt sinn til að gera athugasemdir við aðrar stórar framkvæmdir hérlendis á sama tíma.

Varðandi meinta nauðsyn þess að framkvæmt verði sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum á hinum þremur fyrirhuguðu virkjunum í neðri Þjórsá bendi Skipulagsstofnun á að hin kærða ákvörðun snúist ekki um sameiginlegt mat.

Ákvörðun stofnunarinnar frá 16. desember 2015 sé skýr. Í henni felist að endurskoða beri þá hluta mats á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar sem varði áhrif á landslag og ásýnd lands og ferðaþjónustu og útivist. Í þessu felist að úrskurðurinn frá 2003 sé aðeins tekinn upp að því er varði áhrif framkvæmdarinnar á fyrrgreinda þætti. Umfjöllun og niðurstaða um aðra þætti úrskurðarins sé óbreytt, t.d. um áhrif framkvæmdarinnar á vatnalíf og vatnafar. Með þetta í huga sé ekki rétt að með ákvörðun sinni frá 16. desember 2015 sé stofnunin að falla frá hluta þeirra krafna sem fram hafi verið settar með úrskurðinum árið 2003.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili gerir þá kröfu að kæru í máli nr. 11/2016 verði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts. Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Í kæru séu ekki færð fram fullnægjandi rök fyrir aðild kæranda. Hann sé einstaklingur en jörðin Skálmholt sé í eigu lögaðila. Sé kæran ekki lögð fram í nafni rétts eiganda jarðarinnar. Jörðinni Skálmholti fylgi ekki veiðiréttur í Þjórsá, þar sem jörðin liggi ekki að ánni.

Að öðru leyti krefst framkvæmdaraðili þess að kröfum kærenda verði hafnað að öllu leyti. Kærendur hafi ekki sýnt fram á að þeir form- eða efnisannmarkar séu á ákvörðun Skipulagsstofnunar, sem leiða ættu til ógildingar ákvörðunar. Kærendur hafi jafnframt ekki sýnt fram á að forsendur hafi breyst verulega varðandi vatnalíf eða vatnafar Þjórsár frá því að matsskýrsla hafi legið fyrir á árinu 2003.

Varðandi þá fullyrðingu að verulegar breytingar hafi orðið á forsendum matsskýrslu hvað varði lífríki þá komi m.a. fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að í úrskurði stofnunarinnar frá árinu 2003 sé niðurstaðan sú að virkjun Þjórsár við Núp, í einu eða tveimur þrepum, myndi valda miklum breytingum á umhverfisaðstæðum í Þjórsá, m.a. myndu búsvæði laxfiska til hrygningar og seiðauppeldis minnka og breytast. Í úrskurðinum hafi stofnunin jafnframt bent á að nokkur óvissa væri um áhrif á lífríki Þjórsár og hvaða árangri mótvægisaðgerðir myndu skila. Til að bregðast við þeirri óvissu og draga úr neikvæðum áhrifum á vatnalíf hafi verið sett skilyrði um frekari rannsóknir, mótvægisaðgerðir og vöktun. Í úrskurði umhverfisráðherra árið 2004 hafi úrskurður Skipulagsstofnunar verið staðfestur óbreyttur hvað varðaði niðurstöðu um áhrif á vatnalíf. Jafnframt hafi komið fram í hinni kærðu ákvörðun að í rýniskýrslu framkvæmdaraðila hafi komið fram upplýsingar um mótvægisaðgerðir og vatnalíf  Þjórsár, sem ekki hafi legið fyrir við mat á umhverfisáhrifum árið 2003. Um sé að ræða niðurstöður frekari rannsókna á lífríki Þjórsár, ásamt nánari tilhögun mótvægisaðgerða, auk vöktunar- og viðbragðsáætlunar.

Ekki verði séð að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum beri að taka til skoðunar áhrif af mögulega aukinni veiði á jarðaverð. Varðandi sjónarmið um mögulega breytingu á nýtingu bújarða verði ekki séð að slík áhrif hafi orðið þar sem ár hafi verið virkjaðar, sbr. t.d. Blöndu. Því sé sérstaklega mótmælt að framkvæmdaraðili hyggist komast undan því að grípa til mótvægisaðgerða. Hann muni, í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar og ráðherra, fylgja eftir og fara að öllum þeim kröfum um mótvægisaðgerðir og rannsóknir sem áskilnaður sé um. Á þeim tíma sem liðinn sé frá því að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram hafi verið unnið að framfylgd framangreindra skilyrða Skipulagsstofnunar. Þær rannsóknir og tillögur að mótvægisaðgerðum hafi sætt ítarlegri rýni í ferli rammaáætlunar, þar sem ákveðið hafi verið að færa Hvammsvirkjun í nýtingarflokk. Sú ákvörðun hafi byggst á þeirri niðurstöðu faghóps verkefnisstjórnar rammaáætlunar að óvissa varðandi áhrif Hvammsvirkjunar á laxfiska hefði minnkað nægjanlega til að réttlætanlegt væri að færa virkjunina í nýtingarflokk.

Í hinni kærðu ákvörðun sé sérstaklega vísað til umsagna fagaðila. Þar segi m.a. að Fiskistofa vísi til umfangsmikilla rannsókna á vegum Veiðimálastofnunar á áhrifasvæði virkjunarinnar undanfarin ár og þeirra mótvægisaðgerða sem hafi verið útfærðar. Rannsóknir Veiðimálastofnunar hafi bætt verulega þekkingu á vatnakerfinu og breytingar á framkvæmdaráformum séu til þess fallnar að draga úr neikvæðum áhrifum af virkjuninni. Enginn þeirra fagaðila sem leitað hafi verið umsagnar hjá hafi talið að forsendur hefðu breyst á þann veg að endurtaka þyrfti mat á umhverfisáhrifum varðandi vatnalíf.

Varðandi lagabreytingar gæti helst verið um að ræða breytingar á náttúruverndarlöggjöf, þar sem varúðarreglan sé innleidd í lög. Þó verði að hafa í huga að varúðarsjónarmiða sé getið í inngangsorðum EES-samningsins, þar sem segi að samningsaðilar hafi einsett sér að sjá til þess að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi, einkum á grundvelli meginreglunnar um sjálfbæra þróun og þeirrar meginreglu að grípa skuli til varúðarráðstafana og fyrirbyggjandi aðgerða. Þannig hafi átt að leggja varúðarsjónarmið til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum þegar upphaflegt mat hafi farið fram.

Komið hafi fram í úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2003 að stofnunin teldi að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á vatnafar yrðu óveruleg. Samkvæmt rýniskýrslu framkvæmdaraðila hafi grunnvatn verið rannsakað í sex grunnvatnsholum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði frá árinu 2008 og í einni frá árinu 2001. Mælingar sýni að samband Þjórsár og grunnvatnsins sé mjög lítið og áin hafi þétt vel jarðlög meðfram farveginum. Ekki sé um að ræða neinar breytingar á grunnástandi með tilliti til vatnafars á framkvæmdasvæði Hvammsvirkjunar frá því að mati á umhverfisáhrifum hafi lokið.

Við málsmeðferð Skipulagsstofnunar vegna ákvörðunar um endurskoðun matsskýrslu hafi komið fram athugasemdir vegna áhrifa á vatnafar. Hafi því verið haldið fram að hækkun grunnvatns við lón virkjunar sé lítt þekkt. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að gögn sýni að hækkun grunnvatns við Hagalón og uppdælt efni úr lóninu hafi verið meðal þeirra atriða sem skoðuð hafi verið við mat á umhverfisáhrifum 2001-2003. Grunnvatns- og vatnsborðsmælingar við neðri hluta Þjórsár árin 2001-2003 hafi bent til þess að samband Þjórsár og grunnvatnsins sé mjög lítið.

Í athugasemdum hafi einnig verið bent á að í ljósi þess að ný virkjun, Búðarhálsvirkjun, sé komin ofar á sama vatnasvið síðan mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram sé ekki hægt að gera ráð fyrir sömu aðstæðum á svæðinu og hafi verið þá. Í umsögnum framkvæmdaraðila við nefndar athugasemdir hafi komið fram að inntakslón Búðarhálsvirkjunar væri lítið og með takmarkaða miðlunargetu. Einu áhrif þess á flóð væru þau að það dempi flóð frá Köldukvísl, en fyrir tilkomu Búðarhálslóns hafi Sultartangalón dempað þau flóð. Búðarhálsvirkjun hefði því hvorki áhrif á magn né framgang flóða neðan Sultartanga og því engin áhrif á Hvammsvirkjun.

Farið hafi fram mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög nr. 106/2000 og allir athugasemdafrestir hafi verið virtir í hvívetna. Hafi athugasemdir borist frá almenningi, hagsmunasamtökum og stofnunum og þeim verið svarað. Það geti ekki talist ástæða fyrir endurskoðun mats á umhverfisáhrifum að einstaka aðilar telji sig ekki hafa nýtt rétt sinn til athugasemda á sínum tíma. Fáar ef nokkrar virkjanir hér á landi hafi fengið eins mikla og almenna kynningu og Hvammsvirkjun og ekki hafi skort á upplýsingagjöf þegar eftir hafi verið leitað.

Virkjanirnar þrjár í neðri Þjórsá hafi alltaf verið kynntar sem þrjár sjálfstæðar framkvæmdir af hálfu framkvæmdaraðila. Hvergi komi fram í úrskurði Skipulagsstofnunar frá 2003 eða úrskurði ráðherra frá 2004 að framkvæmdirnar séu háðar hver annarri. Samkvæmt lögum nr. 106/2000 sé það á hendi Skipulagsstofnunar að taka ákvörðun um að fram fari sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Þar sem það hafi ekki verið gert á sínum tíma geti kærandi ekki borið fram slíka kröfu á þessu stigi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015 að ekki beri að endurskoða þá þætti matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, er lúta að áhrifum virkjunarinnar á vatnafar og vatnalíf. Umrædd matsskýrsla er frá apríl 2003 og fjallar um virkjun Þjórsár við Núp í einu eða tveimur þrepum, auk breytingar á Búrfellslínu 1.

Framkvæmdaraðili heldur því fram að kærandi í máli nr. 11/2016 uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þar segir að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Óumdeilt er að kærandi er ábúandi á jörðinni Skálmholti en þinglýstur eigandi hennar er lögaðili sem kærandi er skráður forráðamaður fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði fylgir eignarlandi hverju veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar fylgir ábúð á jörð veiðiréttur sem jörðinni tilheyrir, nema á annan veg semjist á milli jarðeiganda og ábúanda. Samkvæmt 2. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Þjórsár, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 13. nóvember 1972, er jörðin Skálmholt ein þeirra jarða sem teljast til veiðifélagsins. Félagsmenn veiðifélags eru allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu, sbr. 2. mgr. 37. gr. nefndra laga nr. 61/2006. Framkvæmdaraðili hefur ekki stutt með fullnægjandi gögnum þá fullyrðingu sína að kærandi eigi ekki veiðirétt í Þjórsá, en það sem að framan er rakið styður hið gagnstæða. Hefur og formaður veiðifélagsins staðfest að kærandi sé persónulega skráður veiðiréttarhafi í Þjórsá. Efni hinnar umdeildu ákvörðunar varðar mat á umhverfisáhrifum virkjunarframkvæmda í Þjórsá, m.a. að því er varðar vatnalíf. Þykir því verða að leggja til grundvallar að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Um mat á umhverfisáhrifum gilda lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í 1. gr. laganna er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar, sbr. a-lið. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, sbr. b-lið. Og loks að stuðla að samvinnu hagsmunaaðila eða þeirra sem láta sig málið varða, sbr. c-lið, sem og að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmda og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og gefa almenningi kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir, sbr. d-lið ákvæðisins.

Fjallað er um endurskoðun matsskýrslu í 12. gr. laga nr. 106/2000. Kemur þar fram í 1. mgr. að ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðunar stofnunarinnar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Samkvæmt 2. mgr. getur stofnunin ákveðið að slík endurskoðun fari fram „ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina“.

Skýra verður ákvæði 12. gr. laga nr. 106/2000 þannig að markmiðum laganna verði sem best náð með þessari endurskoðunarheimild. Henni verður þó ekki beitt nema uppfyllt sé skilyrði 2. mgr. 12. gr. um að forsendur hafi breyst og það verulega. Leiðir sérhver forsendubreyting þannig ekki til þess að skilyrði séu til að ákveða að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdar heldur verður að vera um verulega breytingu að ræða. Ekki eru tæmandi taldar þær forsendur sem til greina koma, en nokkrar eru nefndar í dæmaskyni. Er og tekið fram í athugasemdum með ákvæði því sem varð að 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að eitt dæmi um verulega breyttar forsendur sé að tækniþróun hafi breytt möguleikum til að minnka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. Forsendubreyting getur því hvort sem er leitt til þess að umhverfisáhrif verði minni eða meiri, jákvæðari eða neikvæðari. Aðrar breytingar á forsendum sem geta komið til greina eru t.d. aukin þekking, enda getur skortur á grunnþekkingu við mat á umhverfisáhrifum ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að frekara mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram komi fram vísbendingar um að þess þurfi. Annað væri í andstöðu við grunnhugsunina að baki varúðarreglunni. Eftir sem áður yrði að vera um verulega breytingu að ræða, sbr. 2. mgr. 12. gr.

Lagaumhverfi
Ýmsar breytingar hafa orðið á lögum auk þess sem Ísland hefur gengist undir nýjar alþjóðlegar skuldbindingar frá því að mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar fór fram. Lögum nr. 106/2000 hefur verið breytt margsinnis frá þeim tíma og ný náttúruverndarlög hafa leyst eldri lög þess efnis af hólmi.

Viðamestu breytingarnar voru gerðar á lögum nr. 106/2000, með lögum nr. 74/2005. Samkvæmt almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpinu sem varð að lögum nr. 74/2005 lúta veigamestu breytingarnar að hlutverki Skipulagsstofnunar annars vegar og leyfisveitanda og framkvæmdaraðila hins vegar. Varðandi fyrra atriðið þá var horfið frá því að Skipulagsstofnun hefði það hlutverk að fallast á eða leggjast gegn tiltekinni framkvæmd vegna væntanlegra umhverfisáhrifa en þess í stað varð hlutverk stofnunarinnar að gefa álit á mati á umhverfisáhrifum. Varðandi það síðara var hlutverk viðkomandi leyfisveitanda og framkvæmdaraðila skýrt. Þannig ber leyfisveitanda m.a. að kynna sér viðkomandi framkvæmd og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Þá takmarkaðist málskotsréttur til æðra stjórnvalds vegna matsskyldra framkvæmda við framkvæmda- og byggingarleyfi og við þá aðila sem ættu lögvarinna hagsmuna að gæta, umhverfisverndarsamtök og hagsmunasamtök eftir nánari reglum. Með lögum nr. 74/2005 var nýjum b-lið bætt við 1. gr. laga nr. 106/2000. Sömuleiðis kom inn í lögin ný 12. gr. um endurskoðun matsskýrslu og aukið var við heimild 2. mgr. 5. gr. laganna til að ákveða að umhverfisáhrif matsskyldra framvæmda skyldu metin sameiginlega, þannig að framkvæmdir þyrftu ekki að vera á sama svæði, heldur gæti slík ákvörðun komið til væru framkvæmdir háðar hver annarri. Fyrir breytingarnar kom fram í 4. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 að Skipulagsstofnun væri heimilt að setja skilyrði um að framkvæmdaraðili gengist fyrir frekari rannsóknum á tilteknum atriðum fyrir og eftir hina fyrirhuguðu framkvæmd í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar á umhverfið og til að ganga úr skugga um hvaða afleiðingar framkvæmdin hefði í för með sér. Setti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum fimm nánar tilgreind skilyrði fyrir framkvæmdinni og með úrskurði umhverfisráðherra var einu þeirra breytt og tveimur bætt við. Var þannig leitast við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar í samræmi við þau markmið sem nú koma fram í b-lið 1. gr. laga nr. 106/2000.

Samningur efnahagsnefndar Evrópu um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, Árósasamningurinn,  hefur verið fullgiltur hérlendis og með lögum nr. 131/2011 var ýmsum lögum breytt vegna þessa. Þær efnislegu breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 106/2000 vegna samningsins lutu að kæruleið sem eftirleiðis skyldi vera til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í stað ráðherra, sbr. og lög nr. 130/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 131/2011 er fjallað nánar um Árósasamninginn og þær breytingar sem gerðar voru vegna fullgildingar hans. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu kemur fram um eðli og efni samningsins að hann hvíli á þremur stoðum. Um aðra stoð samningsins segir að ákvæði 6.-8. gr. hans taki til réttar almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar undirbúnar séu ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum. Er í umfjöllun um þær m.a. vísað til skýrslu nefndar umhverfisráðherra frá árinu 2006 og tiltekið að það hafi verið mat hennar að ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og reglugerða sem settar hefðu verið samkvæmt þeim, tryggðu með fullnægjandi hætti þátttökuréttindi almennings skv. 6. gr. Árósasamningsins. Þannig hafa markmið laga nr. 106/2000 hvað varðar samráð og rétt almennings til athugasemda verið efnislega óbreytt frá setningu laganna, þrátt fyrir tilkomu samningsins.

Lög nr. 60/2013 um náttúruvernd voru samþykkt á Alþingi á vormánuðum 2013. Gildistöku laganna var frestað í tvígang og tóku þau loks gildi 15. nóvember 2015 með breytingum tilkomnum með lögum nr. 109/2015. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2013 eru raktar helstu breytingar sem frumvarpið fól í sér frá því sem var í fyrri lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd. Var tekið fram að sett væru ítarlegri markmiðsákvæði, settar væru fram nokkrar meginreglur sem leggja bæri til grundvallar við framkvæmd laganna í heild, m.a. væru útfærðar nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar, t.d. varúðarreglan og greiðslureglan. Ítarlegar væri mælt fyrir um undirbúning ákvarðana og réttaráhrif þeirra og væri lögð áhersla á vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku. Gert væri ráð fyrir auknu samráði við hagsmunaaðila og almenning við gerð áætlana. Ákvæði um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda væru ítarlegri en í gildandi lögum, m.a. að því er varðaði réttaráhrif slíkra ákvarðana. Með lögum nr. 109/2015 var útfærslu varúðarreglunnar m.a. breytt. Við setningu nýrra laga var þannig lögð áhersla á að um ítarlegri ákvæði væri að ræða um margt og útfærslu meginreglna umhverfisréttar, en þær meginreglur hafa verið til staðar um árabil, sbr. t.a.m. eftirfarandi ummæli umhverfisnefndar í nefndaráliti hennar frá 8. maí 2000 um frumvarp það sem varð að lögum nr. 106/2000: „Nefndin vill minna á að í tilskipun Evrópusambandsins 97/11 er byggt á þeim meginreglum sem mótast hafa á síðustu árum og áratugum jafnt á alþjóðavettvangi og í framkvæmd ríkja, þ.e. varúðarreglunni, mengunarbótareglunni, reglunni um verndarsjónarmið og reglunni um að mengun sé upprætt við upptök. Þessar meginreglur koma ekki fram í sjálfu frumvarpinu þar sem efni reglnanna og orðalag þeirra er um margt óljóst og enn í mótun. Nefndin leggur hins vegar áherslu á að fjallað er um meginreglur þessar í 73. gr. EES-samningsins og ber því að hafa þær í huga við framkvæmd laganna.“

Að teknu tilliti til alls þess sem rakið hefur verið verður réttarþróun sú sem átt hefur sér stað frá uppkvaðningu ráðherra á úrskurði um mat á umhverfisáhrifum á árinu 2004 ekki talin varða mál þetta efnislega með þeim hætti að teljist svo veruleg breyting á forsendum að endurskoða þurfi matsskýrslu Hvammsvirkjunar í heild eða að hluta. Þykja önnur nýtilkomin lög, s.s. lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, ekki heldur eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu.

Sameiginlegt mat
Meðal þess sem kærendur tefla fram er að mat verði að fara fram sameiginlega á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar í samræmi við 5. gr. laga nr. 106/2000. Af gögnum um 2. áfanga rammaáætlunar verði ráðið að virkjanirnar séu háðar hverri annarri. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu féllst Skipulagsstofnun, í úrskurði sínum 19. ágúst 2003, á virkjun í einu þrepi með byggingu Núpsvirkjunar og í tveimur þrepum með byggingu Hvammsvirkjunar og Holtavirkjunar. Mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar og Holtavirkjunar fór því fram sameiginlega. Þá tók Skipulagsstofnun afstöðu til þess hvort matið skyldi sameiginlegt mati á umhverfisáhrifum Urriðafossvirkjunar í  ákvörðun sinni frá 27. september 2001 um tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun. Segir þar nánar: „Samkvæmt 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er umhverfisráðherra heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila, að ákveða að umhverfisáhrif framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á sama svæði verði metin sameiginlega. Skipulagsstofnun telur að þó bæði Núpsvirkjun og Urriðafossvirkjun séu í Þjórsá þá séu þær sjálfstæðar framkvæmdir. Skipulagsstofnun leggur hins vegar áherslu á að matsskýrslur verði lagðar fram samtímis.“ Var það og gert og í matsskýrslu framkvæmdaraðila gerð grein fyrir tengslum framkvæmdanna við Urriðafossvirkjun. Úrskurðir Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum nefndra virkjana lágu einnig fyrir samtímis. Er með hliðsjón af framangreindu ljóst að forsendur þær sem um er rætt lágu ljósar fyrir þegar mat á umhverfisáhrifum fór fram og var um þær fjallað í því ferli. Var og lagaheimild til staðar til að láta fara fram sameiginlegt mat, eins og áður er rakið, en hún var ekki nýtt. Skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 er því ekki uppfyllt að þessu leyti.

Áhrif Hvammsvirkjunar á vatnafar og vatnalíf

Kærendur vísa að öðru leyti til þess að forsendur mats á áhrifum Hvammsvirkjunar á vatnafar og vatnalíf hafi breyst svo verulega að endurtaka þurfi matið hvað það varðar.

Ljóst er að gerð stífla og virkjana í árfarvegum breyta vatnafari með tilheyrandi áhrifum á vatnalíf. Lá það og fyrir þegar mat á umhverfisáhrifum fór fram. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila um virkjun Þjórsár við Núp allt að 150 MW og breytingu á Búrfellslínu 1 frá apríl 2003 kemur nánar fram með hvaða hætti virkja eigi fallið í Þjórsá frá Yrjaskeri niður að Árnessporði. Annar valkosturinn sem fjallað var um er virkjun samtals 50-52 m falls í tveimur þrepum í Hvammsvirkjun, 32-34 m fall, og Holtavirkjun, 18 m fall. Inntakslón Hvammsvirkjunar, Hagalón, yrði með yfirborð í 116 m y.s. Var því lýst að frá inntaksmannvirki við lónið myndi liggja um 400 m löng þrýstipípa að stöðvarhúsi, sem staðsett yrði vestan undir norðurtagli Skarðsfjalls í Landsveit. Frárennsli virkjunarinnar félli fyrst um 1,3 km löng jarðgöng suður með Skarðsfjalli og síðan um 1,5 km langan opinn frárennslisskurð til Þjórsár við Ölmóðsey. Jafnframt yrði farvegur Þjórsár sunnan Ölmóðseyjar dýpkaður. Enn fremur að Hagalón yrði um 4,7 km² að flatarmáli og rúmtak þess 17,6 Gl. Uppsett afl Hvammsvirkjunar yrði allt að 95 MW. Gerð var grein fyrir breytingum á fyrirhugaðri framkvæmd í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar, m.a. því að Hagalón yrði 4,0 km² að flatarmáli og rúmtak þess 13,2 Gl. Í rýniskýrslu, sem unnin var af hálfu framkvæmdaraðila um 93 MW Hvammsvirkjun, eru teknar saman breytingar á framkvæmdinni með eftirfarandi hætti: „Yfirborðsflatarmál lóns hefur dregist saman um 15% og rúmmálið hefur minnkað um 25%. Munar þar mestu um færslu á þjóðvegi neðan og austan við bæinn Haga. Dregið hefur einnig úr umfangi haugsvæða þar sem nýjar rannsóknir sýna að búast megi við minni aurburði inn í lónið en gert var ráð fyrir. Malar- og sandnáma í og við Hagaey hefur stækkað lítillega og bætt hefur verið við malar- og sandnámu á svæði sem hverfur undir Hagalón. Dregið hefur úr sýnileika stöðvarhúss, en það mun rísa um 5 m yfir núverandi land í stað 18 m. Óverulegar breytingar eru á stíflumannvirkjum og útliti þeirra sem og á frárennslisskurði, en þversniðsflatarmál frárennslisganga verður stærra. Bæst hafa við mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum framkvæmdar á vatnalífríki, en byggð verður sérstök seiðafleyta auk þess sem að hverflar verða af sk. „fish friendly“ gerð.“ Eftir sem áður yrði vatnsborð Hagalóns 116 m y.s. Í stað eins Francishverfils mun nú fyrirhugað að koma fyrir tveimur Kaplanhverflum og eru það þeir hverflar sem vísað er til. Hvorug gerð hverflana er ný af nálinni og því vart um tækniþróun að ræða heldur fyrst og fremst val framkvæmdaraðila um útfærslu sem nær markmiði framkvæmdarinnar með minni neikvæðum umhverfisáhrifum. Einhverjar þær breytingar á hönnun sem gerðar hafa verið eru til komnar vegna nýs mats á stærð flóða en flóð með 1000 ára endurkomutíma eru nú metin töluvert stærri en áður. Er það vissulega breytt forsenda en fallist verður á það mat Skipulagsstofnunar að hún sé ekki veruleg í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000, enda verður ekki séð að fyrirhuguð framkvæmd muni breyta neinu varðandi áhrif slíkra flóða á vatnalíf Þjórsár. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að neinar þær breytingar aðrar hafi orðið á fyrirhugaðri framkvæmd að þær geti talist verulega breyttar forsendur í skilningi framangreinds ákvæðis. Er enda óraunhæft að gera ráð fyrir því að svo stór framkvæmd taki ekki einhverjum breytingum í tímans rás.

Í matsskýrslu framkvæmdaraðila frá apríl 2003 er fjallað um vatnafar og þá einkum um áhrif framkvæmdarinnar á grunnvatn. Í úrskurði sínum rakti Skipulagsstofnun að samkvæmt gögnum framkvæmdaraðila myndi aðrennsli grunnvatns aukast í nágrenni við Hagalón, sem geti leitt til hækkunar grunnvatnsborðs og aukins rennslis í lindum. Einnig að grunnvatnsborð myndi lækka á allstóru svæði meðfram frárennslisskurði. Áhrifa myndi ekki gæta á yfirborði en hugsanlega muni vatnsborð lækka í heitavatnsholu við Hvamm. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á vatnsból, heit og köld, yrðu óveruleg. Í hinni kærðu ákvörðun tiltók Skipulagsstofnun að nýjar upplýsingar bentu til þess að samband Þjórsár og grunnvatns væri mjög lítið og jafnframt hefði verið gerð grein fyrir því að Búðarhálsvirkjun myndi ekki hafa áhrif á vatnafar við Hvammsvirkjun. Hefðu forsendur mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar varðandi áhrif á vatnafar ekki breyst verulega og væru því ekki efni til endurskoðunar matsskýrslu að þessu leyti. Að áliti úrskurðarnefndarinnar bendir ekkert í málinu til þess að niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi verið röng um þennan þátt matsins.

Athugasemdir kærenda um vatnafar lúta hins vegar fremur að áhrifum breytinga á vatnafari á vatnalíf en grunnvatn. Er svo að skilja að vísað sé til rennslisbreytinga í ánni. Er rétt að taka fram í þessu sambandi að í matsskýrslu framkvæmdaraðila var tiltekið að af hans hálfu væru í rekstri fimm vatnsorkuver á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár, þ.e. Búrfellsvirkjun, Sultartangavirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Sigölduvirkjun og Vatnsfellsvirkjun, og væri undirbúningsvinna hafin við sjöttu virkjunina, Búðarhálsvirkjun. Væru allar ofangreindar framkvæmdir á hálendinu nema Búrfellsvirkjun sem virkjaði fallið af hálendisbrúninni niður á láglendi. Búrfellsvirkjun var gangsett á árinu 1972 og Búðarhálsvirkjun í mars 2014. Allt frá árinu 1972 hafa þessar virkjanir haft áhrif á rennsli Þjórsár, en virkjanirnar eru ofar í ánni en þar sem Hvammsvirkjun er fyrirhuguð. Búðarhálsvirkjun var þannig fyrirséð og lágu þessar forsendur því allar fyrir þegar mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar fór fram.

Svo sem áður er að vikið er aðalkæruefni þessa máls lögmæti ákvörðunar Skipulagsstofnunar að því er varðar vatnalíf. Með úrskurði sínum frá árinu 2003 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, hvort sem hún yrði í einu eða tveimur þrepum, yrðu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum ekki umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000. Þó var tiltekið að nokkur óvissa væri um það hver raunveruleg áhrif yrðu á lífríki Þjórsár af völdum framkvæmda og eins hvaða árangri einstakar mótvægisaðgerðir myndu skila. Jafnframt að stofnunin teldi að draga mætti úr líkum á verulegum neikvæðum áhrifum á lífríki Þjórsár með mótvægisaðgerðum og viðbótar- og vöktunarrannsóknum, þannig að áhrif á lífríki Þjórsár yrðu ásættanleg. Niðurstaða umhverfisráðherra í úrskurði kveðnum upp 27. apríl 2004 var á sömu lund. Bætt var við frekari skilyrðum fyrir framkvæmdinni en skilyrði um mótvægisaðgerðir, rannsóknir og vöktun á vatnalífi var óbreytt.

Unnið hefur verið eftir skilyrði Skipulagsstofnunar hvað vatnalíf varðar frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram og liggja fyrir niðurstöður rannsókna þar um. Rammaáætlun kemur fram í þingsályktun og er unnin á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Svo sem nánar er lýst í málavöxtum hefur Hvammsvirkjun í mismunandi áföngum rammaáætlunar verið færð úr flokki orkunýtingar í biðflokk og svo aftur í orkunýtingarflokk. Hafa tilfærslur þessar ráðist af mati stjórnvalda á því hvort að áhrif virkjunarinnar á laxfiska séu svo óljós að frekari rannsókna þurfi við eður ei. Var virkjunin færð í orkunýtingarflokk með þeim rökum að óvissa um áhrif hennar á laxfiska hefði minnkað nægilega til að það væri réttlætanlegt. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 48/2011 er það markmið þeirra að tryggja að nýting landsvæða þar sem virkjunarkosti er að finna byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þetta markmið er ólíkt markmiðum laga nr. 106/2000, sem áður hefur verið lýst. Rannsóknir hafa hins vegar verið framkvæmdar og unnið úr niðurstöðum þeirra á grundvelli laganna beggja og verður að telja eðlilegt að þær rannsóknir og niðurstöður séu nýttar á vettvangi ákvörðunartöku samkvæmt þeim. Það leysir stjórnvöld hins vegar ekki undan þeirri ábyrgð að komast að sjálfstæðri niðurstöðu samkvæmt þeim lögum sem þau starfa eftir. Skipulagsstofnun bar því að komast að sjálfstæðri niðurstöðu um hvort skilyrði 12. gr. laga nr. 106/2000 væru uppfyllt til að mælt yrði fyrir um endurskoðun matsskýrslu Hvammsvirkjunar hvað varðaði vatnalíf. Við þá ákvörðun gat hún litið til allra þeirra gagna sem tiltæk voru, m.a. þeirra sem aflað var við vinnslu rammaáætlunar, í þeim tilgangi að upplýsa málið með fullnægjandi hætti í samræmi við rannsóknarreglu 10. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í hinni kærðu ákvörðun rekur Skipulagsstofnun í niðurstöðu sinni um vatnalíf m.a. niðurstöður faghóps við endurskoðun rammaáætlunar. Var tiltekið að rannsóknir og tillögur að mótvægisaðgerðum í framhaldi af mati á umhverfisáhrifum hefðu undirgengist ítarlega rýni í ferli rammaáætlunar þar sem Hvammsvirkjun hefði verið færð í nýtingarflokk og að sú ákvörðun byggði á þeirri niðurstöðu faghópsins að óvissa varðandi áhrif virkjunarinnar á laxfiska hefði minnkað. Síðan tiltekur stofnunin að eftir sem áður sé til staðar ákveðin óvissa um virkni mótvægisaðgerða og þar með áhrif framkvæmdanna á vatnalíf. Sé því sérstaklega brýnt að vel sé staðið að vöktun og eftir atvikum viðbragðsaðgerðum. Verður ekki annað séð af ákvörðuninni en að Skipulagsstofnun hafi rannsakað málið með því að skoða þau gögn sem fram höfðu komið, svosem við meðferð rammaáætlunar, en síðan komist að sjálfstæðri niðurstöðu í málinu með viðeigandi hætti. Var það niðurstaða hennar að forsendur hefðu ekki breyst verulega og að óvissa væri enn til staðar, en ekki að óvissunni hefði verið eytt. Voru, að mati úrskurðarnefndarinnar, forsendur að þessu leyti því ekki breyttar verulega í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Verður og ekki séð að gagnrýni sem fram kom við gerð rammaáætlunar um að mótvægisaðgerðir framkvæmdaraðila þyrftu að vera ítarlegri hafi gefið tilefni til athugasemda af hálfu Skipulagsstofnunar, enda lá fyrir henni það eitt að taka ákvörðun um hvort forsendur hefðu breyst svo verulega að tilefni væri til að kveða á um að endurskoða bæri matsskýrslu framkvæmdaraðila.

Fiskgengd hefur aukist til muna í Þjórsá á liðnum árum. Mun sú aukning að mestu rakin til fiskvegar sem gerður var við Búðafoss snemma á tíunda áratug síðustu aldar. Er því lýst í matsskýrslu að fossinn sé talinn ófiskgengur en eftir að fiskvegurinn hafi verið byggður hafi lax verið að nema land á svæðinu ofan fossins, þar sem fyrir hafi verið staðbundnir stofnar urriða og bleikju. Eftir að laxastiginn hafi verið byggður hafi talsvert verið sleppt af seiðum í ána í þeim tilgangi að koma upp sjálfbærum laxastofni ofar í ánni. Í úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2003 kemur fram að fyrir liggi að virkjun Þjórsár við Núp, í einu eða tveimur þrepum, muni valda miklum breytingum á umhverfisaðstæðum í Þjórsá. Rennsli á samtals um 11 km kafla muni minnka með virkjun í tveimur þrepum. Stofnunin telji því ljóst að allar aðstæður í Þjórsá fyrir lífríki muni gerbreytast við framkvæmdirnar. Búsvæði laxfiska til hrygningar og seiðauppeldis myndu þannig minnka og breytast mikið á stóru svæði í ánni. Í rýniskýrslu framkvæmdaraðila frá árinu 2015 kemur fram að „án nokkurra mótvægisaðgerða myndi Hvammsvirkjun loka á um 30% af heildarbúsvæðum laxfiska, þar af um 2% vegna skerts rennslis neðan stíflu, um 5% fari undir Hagalón og um 23% ofan lóns“. Ekki sé gerður greinarmunur á þeim svæðum þar sem útbreiðsla göngufiska sé náttúrleg og þeim svæðum þar sem útbreiðslan sé vegna atbeina mannsins, þ.e. ofan fossins Búða, enda hafi nú verið fiskgengt þangað í 24 ár og eðlilegt sé að líta á núverandi fiskgengd sem grunnástand m.t.t. fyrirhugaðrar virkjunar. Í niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar um vatnalíf rekur Skipulagsstofnun m.a. umsagnir Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Umhverfisstofnunar og sveitarfélaganna Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps, sem allar voru á þá lund að ekki bæri nauðsyn til að endurtaka mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar á vatnalíf. Einnig eru raktar þær athugasemdir sem fram komu við meðferð málsins og svör framkvæmdaraðila við þeim. Tiltekur Skipulagsstofnun svo að breytingar hafi orðið á lífríki Þjórsár frá því að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram og að þær muni fyrirsjáanlega halda áfram. Vísar stofnunin enn fremur til þess að þessar breytingar, þ.e. aukin laxagengd ofan Búða, hafi verið fyrirséðar þegar matið fór fram. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að ekki væri um verulega breyttar forsendur að ræða.

Svo mikil breyting og hér um ræðir á fiskgengd eða náttúrufari getur vissulega talist veruleg forsendubreyting í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 og er hægt að taka undir að ekki skipti öllu máli með hvaða hætti sú breyting hafi orðið. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að töluverðar breytingar höfðu orðið á rennsli Þjórsár með tilheyrandi áhrifum á vatnalíf áður en mat á umhverfisáhrifum fór fram og að fyrir lá við matið að frekari breytingar væru fyrirsjáanlegar, t.a.m. vegna landnáms laxfiska fyrir ofan Búða. Með hliðsjón af þessu er ekki hægt að fallast á að forsendur hafi breyst verulega þrátt fyrir að breyting sú sem orðið hefur á  náttúrufari geti talist veruleg. Þá athugist að samkvæmt lögum nr. 106/2000 ber leyfisveitanda skylda til að taka upplýsta ákvörðun um leyfisveitingu á grundvelli mats á umhverfisáhrifum. Svo sem rakið hefur verið hefur vatnalíf Þjórsár verið ítarlega rannsakað á liðnum árum. Að því virtu verður að líta svo á að endurtekið mat á áhrifum framkvæmdarinnar á vatnalíf sé vart til þess fallið að ná því markmiði að upplýsa leyfisveitendur enn frekar um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Hafa kærendur einnig bent á að lítið sé vitað um stofnstærðir laxa, bleikju og sjóbirtings í Þjórsá. Einkum séu möguleg áhrif á sjóbirting hvergi nærri þekkt af völdum Hvammsvirkjunar og kom athugasemd þess efnis einnig fram við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Í matsskýrslu framkvæmdaraðila er tiltekið að á áhrifasvæði virkjunarinnar lifi ferskvatnstegundirnar lax, urriði, bleikja og hornsíli og séu lax og urriði þar ríkjandi tegundir. Fjallað er sérstaklega um laxfiska, þ.e. lax, bleikju og urriða. Í svörum framkvæmdaraðila við athugasemdum er tekið fram að stærð sjóbirtingsstofnsins í ánni sé ekki þekkt, en ef marka megi veiðiskýrslur og gögn úr fiskteljara sé hrygningarstofn hans talsvert minni en laxastofnsins og megi ætla að hann sé um 10% af stærð hans. Ekki er vikið að þessu atriði sérstaklega í niðurstöðum Skipulagsstofnunar en fjallað er um laxfiska í heild sinni og m.a. rakin þau svör framkvæmdaraðila að árið 2012 hafi rannsóknir hafist til að meta árlega stofnstærð laxfiska í Þjórsá. Að áliti úrskurðarnefndarinnar getur þetta atriði ekki talist verulega breytt forsenda í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000.

Að lokum er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að skilyrði ákvæðisins sé ekki heldur uppfyllt hvað varðar breytingu á virðingu eigna sem liggja að Þjórsá, enda tekur mat á umhverfisáhrifum ekki á slíkum atriðum.

—–

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið er enga þá form- eða efnisannmarka að finna á hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar að leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015 um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

125/2014 Bjarnarflagsvirkjun

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 5. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2014, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 um að endurskoða skuli matsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun, 90 MW jarðvarmavirkjun í Skútustaðahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Landsvirkjun, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 að endurskoða skuli matsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun, 90 MW jarðvarmavirkjun í Skútustaðahreppi. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi í heild sinni en til vara að hún verði felld úr gildi að hluta varðandi þá þætti sem ekki uppfylli skilyrði 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum um að forsendur hafi breyst verulega frá mati á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 12. febrúar 2015.

Málavextir: Í Bjarnarflagi, Skútustaðahreppi, er 3 MW jarðgufustöð til raforkuframleiðslu sem tekin var í notkun árið 1969. Hinn 17. desember 2003 lagði Landsvirkjun fram skýrslu um mat á umhverfisáhrifum til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda við 90 MW virkjun í Bjarnarflagi ásamt 132 kV Bjarnarflagslínu 1.

Í meginatriðum skyldi framkvæmdin felast í borun alls 17 nýrra vinnsluhola til gufuöflunar, uppsetningu skiljustöðva, lagningu safnæða, aðveituæða og fráveitu fyrir affallsvatn. Reist yrði stöðvarhús fyrir rafstöð og tengd mannvirki. Þá yrði lögð um 10 km háspennulína að Kröflustöð. Lagðir voru fram tveir möguleikar á staðsetningu virkjunarinnar. Kostur A gerði ráð fyrir að hún yrði sunnan þjóðvegar, meðfram vesturhlíð Námafjalls. Ef sá kostur yrði fyrir valinu yrði reist gestamóttaka í tengslum við virkjunina. Samkvæmt kosti B yrðu helstu mannvirki norðan við þjóðveg, á svipuðum stað og virkjun sú sem fyrir væri. Fyrirhugað væri að reisa virkjunina í tveimur til þremur áföngum. Borholur í fyrsta áfanga yrðu boraðar sunnan þjóðvegar og framhaldið myndi ráðast af árangri. Skiljuvatn frá borholum á svæðinu hefði verið losað á yfirborðið og við það hefðu myndast tvö affallslón, Bjarnarflagslón, norðan þjóðvegar, og baðlón við Jarðbaðshóla sunnan við veginn vestan við Námafjall. Samkvæmt matsskýrslunni yrði það áfram gert en til tals hafi komið að dæla affallsvatni aftur niður, með grunnlosun í 200-400 m djúpar holur og djúplosun á 1.200-2.000 m dýpi. Djúplosun affallsvatns væri þó ekki fyrirhuguð vegna kostnaðar, tímafrekra rannsókna og óvissu um árangur.

Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá 26. febrúar 2004 féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina með ákveðnum skilyrðum. Þá taldi stofnunin að gera þyrfti ráð fyrir djúplosun á affallsvatni og að undirbúningur niðurdælingar hæfist um leið og rekstur virkjunar.

Ekki hefur verið sótt um framkvæmdaleyfi vegna greindra framkvæmda, en haustið 2004 hófst starfsemi Jarðbaðanna við Mývatn við fyrrnefnt baðlón. Árin 2006-2008 voru boraðar þrjár holur fyrir væntanlega gufuaflsstöð.

Með bréfi, dags. 30. október 2013, óskaði Landsvirkjun eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort þörf væri á endurskoðun áðurnefndrar umhverfisskýrslu á grundvelli 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fylgdi beiðninni rýniskýrsla þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væru þær breytingar á grunnástandi eða lagaramma sem kölluðu á endurskoðun matsskýrslunnar í heild sinni.

Í rýniskýrslunni kemur m.a. fram að samkvæmt upplýsingum kæranda sé ekki um að ræða breytingu á fyrirkomulagi virkjunarinnar nema hvað varði áfangaskiptingu, en nú séu áform um að byggja fyrst 45 MW virkjun og ekki verði tekin ákvörðun um viðbótaruppbyggingu fyrr en reynsla af þeim áfanga liggi fyrir. Fyrirtækið öðlist þannig betri þekkingu á svæðinu og áhrifum af rekstrinum, sem minnka ætti óvissu varðandi umhverfisáhrif af fullbyggðri virkjun og auka möguleika til viðbragða. Hvað varði loftgæði þá sé hagkvæmast að leysa brennisteinsvetnið upp og dæla því aftur niður í jarðhitageyminn. Ef iðnaðarferlar verði valdir til hreinsunar á brennisteinsvetni úr útblæstri megi líta á það sem breytingu á framkvæmdinni. Sú aðferð sem valin verði til hreinsunar kunni að vera tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu. Landsvirkjun hafi snúið áformum um að losa allt affallsvatn í Bjarnarflagslón yfir í að allt affallsvatn verði losað í niðurrennslisholur með grunnlosun, svo það blandist ekki grunnvatni sem berist til Mývatns, en djúplosun á síðari stigum ef nauðsyn krefji. Þetta sé í samræmi við nýtt deiliskipulag fyrir virkjunarsvæði og áherslur Skipulagsstofnunar og Umhverfisstofnunar. Umfjöllun um jarðskjálfta vegna djúplosunar hafi ekki verið ítarleg í matinu frá 2003 og það gæti talist tæknilega nægjanleg ástæða til að endurtaka þann hluta matsins.

Skipulagsstofnun fór fram á að Skútustaðahreppur, sem leyfisveitandi, óskaði eftir endurskoðun matsins, sem sveitarfélagið og gerði með bréfi, dags. 18. febrúar 2014. Í bréfi Landsvirkjunar sama dag kemur m.a. fram að fyrirhuguð framkvæmd miði við valkost A, en gestamóttaka verði byggð á lóð Jarðbaðanna. Áætlað sé að nota nýja gerð hljóðdeyfis, sem verði niðurgrafinn að hálfu og minnki þar með ásýnd hans ásamt því að fyrstu niðurstöður tilrauna gefi væntingar um að það leiði til betri hljóðdempunar. Tilhögun Bjarnarflagslínu 1 sé breytt og sé hún nú í höndum Landsnets. Vegna nýrrar reglugerðar frá árinu 2010 um mörk brennisteinsvetnis í andrúmslofti hafi verið settir upp mælar sem sýni að styrkur efnisins fari upp yfir leyfileg mörk við ákveðnar veðuraðstæður, þ.e. þar sem hitaskil myndist nálægt yfirborði, og komi í veg fyrir að lofttegundir frá jarðvegi stigi upp. Horft hafi verið til þeirra lausnar að losa brennisteinsvetni í gegnum kæliturna. Því til viðbótar sé verið að útfæra flutning brennisteinsvetnis upp á Námafjall, hreinsun á efninu og svo blöndun í affallsvatn í tengslum við niðurdælingu.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun álits Skútustaðhrepps, Byggðastofnunar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn, Minjastofnunar Íslands, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og Veðurstofu Íslands. Jafnframt var auglýst opinberlega eftir athugasemdum. Umsagnir bárust frá framangreindum aðilum, að undanskilinni Byggðastofnun, og að auki bárust athugasemdir frá fjórum öðrum aðilum. Landsvirkjun var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna umsagna og athugasemda, auk þess sem Skipulagsstofnun óskaði frekari gagna. 

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 7. nóvember 2014, er tiltekið það mat stofnunarinnar að forsendur sem byggt hafi verið á við mat á umhverfisáhrifum hafi breyst verulega í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hafi af rekstri annarra jarðvarmavirkjana síðastliðin ár. Reynslan hafi sýnt að bygging og rekstur jarðvarmavirkjana hafi haft í för með sér áhrif sem ekki hafi verið fyrirséð og misvel hafi gengið að bregðast við þeim. Einnig hafi orðið breytingar á reglum um loftgæði og lögum um verndun Mývatns og Laxár í Þingeyjarsýslu og hafi verið unnin verndaráætlun á grundvelli laganna. Þá hafi orðið breytingar á öðrum forsendum, t.a.m. hafi ferðamannastraumur á áhrifasvæði virkjunarinnar stóraukist á síðustu árum. Virkjunin sé fyrirhuguð á og í nánd við svæði sem um gildi sérstök verndarákvæði. Um Mývatns- og Laxársvæðið gildi sérstök lög um náttúruvernd nr. 97/2004 og Mývatnssvæðið sé einnig skráð sem eitt af Ramsarsvæðum á Íslandi, en það séu svæði sem njóti verndar vegna alþjóðlegs gildis fyrir fuglalíf. Staðsetningin geri það að verkum að sérstaka aðgæslu þurfi að hafa við undirbúning stórra framkvæmda. Stofnunin telji því að við mat á því hvort verulegar breyttar forsendur kalli á endurskoðun matsskýrslu þurfi að horfa til reglna alþjóðlegs umhverfisréttar um varúðarnálgun og lágmarka óvissu um áhrif sem skapast geti af rekstri 90 MW Bjarnarflagsvirkjunar. Kemst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að endurskoða skuli að hluta matsskýrslu um 90 MW Bjarnarflagsvirkjun. Skuli endurskoðunin snúa að áhrifum á hljóðvist, loftgæði, gróður, landslag, ásýnd og ferðamennsku auk áhrifa á grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni og jarðhitakerfi og orkuforða.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur nánar fram um áhrif á loftgæði að stofnunin telji óvissu um magn og dreifingu á brennisteinsvetni (H2S) frá virkjuninni auk samlegðar frá allt að 210 MW virkjun í Kröflu. Þá virðist hreinsun efnisins vera óhjákvæmileg vegna ákvæða reglugerðar nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, en lausn á því liggi ekki fyrir. Aukin reynsla og þekking af rekstri jarðvarmavirkjana hafi beint sjónum að áhrifum þeirra á styrk efnisins og skaðsemi þess fyrir heilsu fólks og annarra lífvera, svo sem viðkvæms gróðurs. Þá hafi landnotkun nærri framkvæmdasvæðinu breyst frá því mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Í ljósi þessa þurfi að endurskoða áhrif brennisteinsvetnis í útblæstri á loftgæði.

Hvað hljóðvist varðar er tekið fram að með gerð ítarlegri hljóðvistargreiningar megi betur meta áhrif virkjunar í hefðbundnum rekstri á hljóðvist. Þrátt fyrir að ekki hafi orðið breytingar á reglugerðarviðmiðum um hávaða telji stofnunin að vegna þeirrar miklu fjölgunar ferðamanna sem heimsæki Mývatnssveit og nærsvæði virkjunarinnar, auk áforma um uppbyggingu ferðaþjónustu, verði að líta svo á að um breyttar forsendur sé að ræða og því þurfi að endurskoða matsskýrslu varðandi áhrif á hljóðvist.

Vegna áhrifa á grunn- og yfirborðsvatn er í ákvörðuninni bent á að ekki hafi farið fram tilraunir með grunnlosun á 200-400 metra dýpi eða djúplosun á því affallsvatni sem falli nú til (um 50 kg/s). Í rýniskýrslu komi fram að prófanir bendi til þess að eftir ákveðna meðhöndlun henti affallsvatnið vel til niðurdælingar og lítil hætta sé á útfellingum sem stíflað geti niðurdælingarholur. Skipulagsstofnun telji mikilvægt að horfa til reynslu af rekstri jarðvarmavirkjana á öðrum háhitasvæðum þar sem ýmsir erfiðleikar hafi komið upp við niðurdælingu. Þannig sé nú t.d. gert ráð fyrir möguleika á afrennsli til sjávar í Svartsengi. Lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár hafi tekið gildi eftir að mat á umhverfisáhrifum hafi legið fyrir. Í verndaráætlun 2011-2016 fyrir Mývatn og Laxá komi fram að vegna vinnslu háhita úr jörðu þurfi að hafa í huga að kísilrennsli til Mývatns raskist ekki vegna kælingar eða þynningar jarðhitavatnsins sem í það renni. Óvissa sé um áhrif 90 MW virkjunarinnar á niðurdrátt grunnvatns, með mögulegum breytingum á eðli og efni grunnvatnsstraumsins til Mývatns og á vistkerfi þess. Þá þurfi að greina hugsanleg samlegðaráhrif með Kröfluvirkjun. Á grundvelli framangreinds þurfi að endurskoða matsskýrsluna með tilliti til áhrifa á grunn- og yfirborðsvatn og tengsl við vistkerfi Mývatns.

Þegar kemur að áhrifum á jarðhitakerfi og orkuforða telur Skipulagsstofnun að leggja þurfi mat á sjálfbærni vinnslu 90 MWₑ virkjunar í ljósi endurkvarðaðs reiknilíkans fyrir jarðhitakerfið í Námafjalli og með hliðsjón af nýrri skilgreiningu um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita. Í úrskurði stofnunarinnar frá 2004 hafi verið talið að fyrirhuguð virkjun kæmi ekki til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á jarðhitakerfið, en ekki hafi verið tekið afstaða til þess hvort að vinnslan yrði sjálfbær. Í sérfræðiskýrslu Íslenskra Orkurannsókna (ÍSOR) frá 2013 komi fram að líta megi á 45 MW vinnslu sem sjálfbæra, en að niðurstöður um sjálfbærni 90 MW vinnslu séu ekki afgerandi. Þar af leiðandi þurfi að fara fram endurskoðun með tilliti til áhrifa 90 MW virkjunar á jarðhitaauðlindina, þótt ljóst sé að slíkt mat verði alltaf háð ákveðinni óvissu.

Stofnunin tekur fram að í úrskurði hennar frá árinu 2004 sé ekki fjallað sérstaklega um hættu á jarðskjálftavirkni sökum niðurrennslis. Af framlögðum gögnum að dæma tengist hætta á skjálftavirkni fyrst og fremst djúplosun á affallsvatni, en ekki sé fjallað um hana í gögnum mats á umhverfisáhrifum. Í rýniskýrslu sé gerð grein fyrir skjálftavirkni og þar komi fram að aðstæður og þekking hafi breyst hvað varði jarðskjálftavirkni vegna niðurrennslis. Telji Skipulagsstofnun að því þurfi að endurskoða matsskýrslu með tilliti til hættu fyrir menn og samfélag af skjálftavirkni vegna niðurrennslis affallsvatns.

Um ásýnd, ferðamennsku, landslag og jarðmyndanir telur Skipulagsstofnun mikilvægt að hafa í huga að Bjarnarflagsvirkjun hafi ákveðna sérstöðu umfram aðrar jarðvarmavirkjanir, en hún sé staðsett á svæði þar sem sé rótgróinn ferðamannastaður og hafi verið vinsæll áningarstaður fyrir tíma virkjunarinnar og uppbyggingar aðstöðu við Jarðbaðshóla. Stofnunin telji að í því mati sem lagt hafi verið á fyrirsjánleg áhrif virkjunarinnar á ferðamennsku hafi ekki verið séð fyrir það veigamikla hlutverk sem svæðið gegni í dag með tilliti til ferðamennsku og útivistar. Ferðaþjónusta á svæðinu sé mikilvæg atvinnustarfsemi sem skapi í dag fjölda starfa. Í verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxársvæðið komi fram að svæðið sé eitt af helstu ferðamannasvæðum á Íslandi. Stór hluti af upplifun fólks af Mývatnssvæðinu sé útsýni til vatnsins og fjallahringsins. Mannvirki geti haft truflandi áhrif á útsýni og haft í för með sér neikvæða upplifun af svæðinu. Því þurfi jafnframt að endurskoða matsskýrslu með tilliti til áhrifa á ásýnd, jarðmyndanir, landslag og ferðamennsku.

Í niðurstöðu stofnunarinnar um áhrif á gróður segir að í matsskýrslu komi fram að jarðhitagróðurinn í Jarðbaðshólum, vestan við svæði A, sé sérstæður með hátt verndargildi en með tilliti til áhrifa framkvæmdanna á gróður komi kostur A einna best út. Í mati á áhrifum virkjunarinnar á gróður hafi verið tekið mið af beinu raski við framkvæmdina en ekki gert ráð fyrir því að áhrif á gróður gæti náð út fyrir beint framkvæmdasvæði eða kæmi fram við rekstur virkjunarinnar. Frá því að umrætt mat hafi farið fram hafi reynsla af rekstri jarðvarmavirkjana og langtímaáhrifum þeirra á gróður aukist. Hafi komið í ljós nokkuð miklar gróðurskemmdir, þá aðallega mosaskemmdir, vegna efna svo sem brennisteinsvetnis í útblæstri frá borholum. Langtímarannsóknir hafi leitt í ljós gróðurskemmdir í allt að fjögurra km fjarlægð frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Þurfi því að endurskoða matsskýrslu með tilliti til áhrifa á gróður.

Í ákvörðuninni kemst Skipulagsstofnun jafnframt að þeirri niðurstöðu að ekki þurfi að endurskoða áhrif á menningarminjar og bein áhrif framkvæmdarinnar á fugla eða lífríki hverasvæða, enda hafi engar breytingar orðið á forsendum fyrri ákvörðunar. Þó þurfi að hafa í huga að mat á mögulegum afleiddum áhrifum sem breytingar á yfirborðs- og grunnvatni geti haft í för með sér á vistkerfi Mývatns geti falið í sér ákveðið mat á dýralífi.

Loks var í ákvörðun Skipulagsstofnunar tiltekið að kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála væri til 14. desember 2014 og barst kæra í máli þessu 12. þess mánaðar, svo sem áður segir.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að Skipulagsstofnun hafi við töku hinnar kærðu ákvörðunar ekki lagt til grundvallar þær forsendur sem tilgreindar séu í 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og hafi stofnunin í mörgum tilfellum byggt á allt öðrum forsendum. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að orðið hafi verulegar breytingar á fyrrgreindum forsendum. Jafnframt hafi stofnunin virt að vettugi umsagnir helstu fagstofnana eins og Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar, sem hafi talið að alls ekki hafi orðið verulegar breytingar á greindum forsendum. Loks hafi ekki verið tekið tillit til breyttra framkvæmdaáforma, sem felist í 45 MW í stað 90 MW virkjunar, er valda muni minni röskun á umhverfi svæðisins.

Með reglugerð nr. 715/2014, sem hafi tekið gildi 14. júlí 2014, hafi verið gerðar breytingar á reglugerð nr. 514/2010 um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, en með henni hafi verið dregið úr þörf á mótvægisaðgerðum. Ákvæði um að ekki megi fara yfir heilsuverndarmörk hafi verið breytt í að heimilt sé að fara yfir mörk þrisvar á ári. Þá hafi verið fellt brott ákvæði um að tilkynna skuli þegar brennisteinsvetni hafi mælst yfir ákveðin mörk samfellt í þrjár klukkustundir. Boraðar hafi verið þrjár holur eftir úrskurðinn 2004 og bendi gögn til þess að losun verði minni en talið hafi verið fyrir tíu árum. Við mat á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II hafi verið lagt mat á hugsanleg samlegðaráhrif Kröfluvirkjunar og Bjarnarflagsvirkjunar varðandi styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti og áhrif þess að hreinsa efnið úr útblæstri jarðvarmavirkjana. Fram komi í matsskýrslu Kröfluvirkjunar II að í ljósi niðurstaðna geri kærandi ráð fyrir að grípa til viðeigandi ráðstafana í tengslum við fyrirhugaða 90 MW Bjarnarflagsvirkjun. Hafi verið gerð ný dreifingarspá fyrir efnið frá 45 MW virkjun við Bjarnarflag og 60 MW virkjun í Kröflu. Kærandi hafi lagt fram gögn um áætlað magn brennisteinsvetnis frá 90 MW virkjun í Bjarnarflagi byggt á mælingum síðastliðinna tíu ára og lagt mat á dreifingu frá Bjarnarflagsvirkjun, auk samlegðaráhrifa með Kröfluvirkjun, núverandi vinnslu og mögulegri stækkun. Sé það mat Umhverfisstofnunar, sem fari lögum samkvæmt með eftirlit með þessum málaflokki, að umrædd gögn séu fullnægjandi og að nýtt mat muni ekki bæta þá þekkingu sem nú sé til staðar. Ný reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti feli í sér breytingar á forsendum með því að setja viðmið um leyfilegan styrk efnisins. Lagt hafi verið mat á samlegðaráhrif jarðvarmavirkjana á Norðausturlandi vegna útblásturs brennisteinsvetnis miðað við nefnda reglugerð. Niðurstöður sýni að mótvægisaðgerða sé þörf við Bjarnarflagsvirkjun til að uppfylla viðmið reglugerðarinnar. Umhverfisstofnun telji að sú forsendubreyting kalli ekki á endurskoðun matsskýrslu og vísi til útgáfu starfsleyfis varðandi útfærslu mótvægisaðgerða. Árið 2004 hafi verið þéttbýli í Reykjahlíð og áform uppi um uppbyggingu jarðbaða nálægt virkjanasvæði, sem nýtti affallsvatn frá virkjun í Bjarnarflagi. Rekstur Kísiliðjunnar hafi lagst af en svæðið sé enn skilgreint sem iðnaðarsvæði í Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 2011-2023. Því sé ekki um verulegar breytingar á forsendum að ræða varðandi landnotkun og áhrif á loftgæði. Þá hafi Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra talið að ekki væri ástæða til að endurskoða matsskýrslu þar sem forsendur fyrir fengnum niðurstöðum hafi ekki breyst.

Umhverfisstofnun hafi í umsögn sinni ekki talið ástæðu til að endurskoða mat á umhverfisáhrifum vegna hljóðvistar þar sem kærandi hafi, að því er virðist, yfir að ráða aðferðum til að dempa hávaða frá borholum þannig að hljóðvist verði í samræmi við reglugerð nr. 724/2008. Reglugerðarviðmið um hávaða hafi ekki breyst og tekið hefði verið tillit til þess við mat á umhverfisáhrifum að ferðamönnum myndi líklega fjölga í Mývatnssveit. Bjarnarflagsvirkjun sé starfsleyfisskyld samkvæmt lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem geti haft í för með sér mengun, þar með talið mengun vegna hávaða.

Mývatns- og Laxársvæðið hafi verið fyrsta svæðið sem skráð hafi verið samkvæmt Ramsarsamningnum hér á landi árið 1977 og staðfest 1978. Því sé ekki um að ræða forsendubrest varðandi gildi hans frá árinu 2004. Ný lög um verndun Mývatns og Laxár nr. 97/2004 hafi tekið gildi 1. október 2004 og fellt úr gildi lög nr. 36/1974. Breytingarnar feli ekki í sér verulega forsendubreytingu vegna mats á umhverfisáhrifum. Um sé að ræða breytingu á gildissviði laganna, þannig að ekki njóti lengur allur Skútustaðahreppur verndar laganna. Auk þess hafi í matsskýrslu verið tekið tillit til umræddrar lagabreytingar en hún hafi þá verið fyrirhuguð. Kærandi hafi um langt skeið staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum á grunnvatnsstraumum til Mývatns og fylgst reglulega með hitastigi og efnasamsetningu írennslis til að vakta hvort virkjun í Bjarnarflagi, sem nú sé í rekstri, og virkjun við Kröflu hafi áhrif á vatnasviði Mývatns. Umhverfisstofnun taki fram í umsögn sinni að haldbetri upplýsingar um áhrif á grunnvatn muni fyrst liggja fyrir þegar reynsla fáist af 45 MW virkjun.

Kærandi bendi á að niðurstaða Skipulagsstofnunar um niðurrennsli og skjálftavirkni gangi í berhögg við umsögn Orkustofnunar. Þar segi m.a: „Það er niðurstaða Orkustofnunar að förgun affallsvökva með grunnlosun niður fyrir 200 m og yfirborðslosun einvörðungu í neyð við stórfellda bilun og prófanir á djúplosun frá upphafi reksturs samræmist úrskurði Skipulagsstofnunar frá árinu 2003 og þarfnast ekki endurskoðunar enda ljóst að komist yrði að sömu niðurstöðu út frá þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir.“ Þá komi fram í greindri umsögn að nýjar upplýsingar um skjálftaástand á svæðinu og reynsla af djúplosun annars staðar gefi ekki tilefni til að endurmeta umhverfisáhrif af prófunum á djúplosun. Enn fremur hafi Orkustofnun talið að komist yrði að sömu niðurstöðu og úrskurðarorð Skipulagsstofnunar kvæði á um, þ.e.a.s. mikilvægi skjálftamælinga. Loks komi fram í umsögninni að við hugsanlega leyfisveitingu muni Orkustofnun taka á þessum þætti málsins þannig að úrskurðarorðum verði fullnægt. Um prófanir á djúplosun verði að ræða en ekki skilyrði fyrir rekstri virkjunarinnar, enda verði grunnlosun beitt.

Kærandi tekur fram að hann hafi vaktað skjálftavirkni á Mývatnssvæðinu um árabil og hafi verið ákveðið að fjölga þar skjálftamælum. Þrjár stöðvar hafi verið staðsettar við Námafjallssvæðið. Ekki sé hægt að segja til um áhrif djúplosunar á skjálftavirkni áður en hún hefjist, en kærandi hafi nokkra reynslu af djúplosun í Kröflu. Í fyrrnefndri umsögn Orkustofnunar sé bent á að stofnunin hafi nú þróað verklagsreglur sem almennt muni gilda um djúplosun jarðhitavökva í jarðhitakerfi. Þá taki Orkustofnun í umsögn sinni undir að aðstæður í Bjarnarflagi séu frábrugðnar aðstæðum á Hellisheiði, en spennulosun hafi átt sér stað á svæðinu við Kröfluelda og ekki sé mikil spennusöfnun á svæðinu. Líkt og fram komi í umsögn Orkustofnunar sé ekki unnt að vísa til reynslu af niðurdælingu á Hellisheiði þar sem allt aðrar jarðfræðilegar forsendur liggi þar að baki. Aðstæður í Bjarnarflagi geti ekki talist til verulegra breytinga á forsendum í ljósi þess að fyrir liggi upplýsingar um árangur í Kröflu þar sem jarðfræðilegar aðstæður séu mun líkari aðstæðum í Bjarnarflagi. Fylgst sé vel með áhrifum djúplosunar í Kröflu á skjálftavirkni. Byggt á þeirri reynslu sé ekki að vænta verulegra breytinga á skjálftavirkni vegna djúplosunar í Bjarnarflagi.

Kæranda sé kunnugt um þau áhrif sem komið hafi fram við jarðvarmavirkjanir á Suðurlandi, einkum á mosagróður, og hafi látið vakta gróður á svæðum kringum Þeistareyki og Kröflu síðan árið 2012. Við Bjarnarflag sé mun minni gróður en á áðurnefndum svæðum og hafi sambærileg vöktun ekki hafist þar fyrr en á árinu 2014. Hins vegar hafi fundarstaðir sjaldgæfra plantna við Bjarnarflag verið vaktaðir reglulega síðan árið 2012. Með þeirri tilhögum muni verða unnt að greina hvort og þá hver áhrif virkjunar verði á gróður. Engar breytingar hafi orðið á viðmiðum sem notuð séu við mat á umhverfisáhrifum og ekki séu vísbendingar um verulegar breytingar á gróðurfari. Niðurstaða Skipulagsstofnunar hvað varði áhrif á gróður gangi í berhögg við umsögn og álit fagstofnana, t.a.m. Umhverfisstofnunar.

Í umsögn Orkustofnunar komi fram að við veitingu virkjunar- og nýtingarleyfa ákvarði stofnunin skilyrði fyrir rekstri virkjunarinnar með tilliti til auðlindanýtingar. Endanlegt mat liggi fyrir hjá stofnuninni, sem hafi á að skipa sérfræðingum í þessum málefnum. Breyting á skilgreiningu um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita hafi hér engin áhrif. Jafnframt hafi kærandi þegar látið endurmeta sjálfbærni vinnslu í samræmi við nýju skilgreininguna frá árinu 2013, en Skipulagsstofnun kalli eftir slíku mati í ákvörðun sinni. Stefna kæranda hafi verið að byggja upp jarðhitavirkjanir með varfærnum hætti og í samræmi við það yrði reynsla af rekstri 45 MW raforkuvers, sem metin sé sjálfbær vinnsla, höfð til hliðsjónar áður en tekin yrði ákvörðun um frekari nýtingu. Það heyri til undantekninga að hægt sé að leggja fram svo mikil gögn til að meta sjálfbærni vinnslu, sem raunin sé í tilfelli Bjarnarflagsvirkjunar, þar sem hún hafi verið svo lengi í rekstri.

Grunnurinn að breytingum varðandi útivist og ferðaþjónustu á svæðinu næst virkjuninni byggist m.a. á tilkomu Jarðbaðanna við Mývatn og nýtingu affallsvatns frá virkjun. Við hönnun hafi verið tekið tillit til aukinnar umferðar ferðamanna í nágrenni fyrirhugaðrar virkjunar. Í mati á umhverfisáhrifum hafi því verið spáð að fjöldi ferðamanna myndi aukast. Engar breytingar hafi orðið á lagaramma eða viðmiðum sem lögð hafi verið til grundvallar matinu frá árinu 2003. Með Evrópska landslagssáttmálanum hafi stjórnvöld lýst yfir vilja sínum til að stuðla að landslagsvernd, en með undirritun hans hafi ekki verið innleidd skilyrði eða skilmálar sem feli í sér breytingar eða forsendur umhverfismatsins. Enn á ný fari niðurstaða Skipulagsstofnunar í berhögg við álit og umsagnir fagstofnana og sé bent á umsögn Umhverfisstofnunar í því sambandi.

Hin kærða ákvörðun sé verulega íþyngjandi og feli í sér að kærandi þurfi að fara í mjög kostnaðarsama og umfangsmikla endurskoðun mats á umhverfisáhrifum þótt forsendur hafi ekki breyst verulega. Það sé skilyrði í stjórnsýslurétti að íþyngjandi ákvarðanir eigi sér skýra lagastoð og að gætt sé meðalhófs við töku þeirra. Hin kærða ákvörðun brjóti því í bága við lögmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé það ótvírætt brot á andmælarétti að kynna ekki fyrir kæranda slíka íþyngjandi ákvörðun áður en hún hafi verið endanlega tekin. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu hafi fyrst legið fyrir rúmu ári eftir að lögð hafi verið fram upphafleg beiðni um að tekin yrði ákvörðun um hvort þörf væri á slíkri endurskoðun. Í því felist verulegur annmarki á málsmeðferð og brot á 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Fljótlegra hefði verið að setja af stað nýtt matsferli. Sú ákvörðun Skipulagsstofnunar að synja beiðni kæranda um að taka málið fyrir áður en tíu ár hafi verið liðin frá úrskurði um matsskýrslu eigi sér ekki lagastoð. Það sama eigi við um það skilyrði að leyfisveitandi verði að leggja fram beiðni um endurskoðun, einkum í ljósi þess að matsskýrslan falli undir gildissvið eldri laga, sem kveði á um að Skipulagsstofnun skuli þar eiga frumkvæði.

Alþjóðlegur umhverfisréttur hafi ekki tekið verulegum breytingum og sú varúðarregla sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun sé frá árinu 1992 og hafi því verið í gildi við upphaflega matsskýrslu. Jafnframt sé það meginregla að ekki sé heimilt að beita varúðarreglunni í þessum tilgangi. Þá sé varúðarreglan skilgreind í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, sem ekki hafi tekið gildi.

Þetta sé fyrsta málið sem tekið sé til umfjöllunar þar sem óskað sé ákvörðunar um endurskoðun og óttist kærandi að hin kærða ákvörðun geti orðið fordæmi fyrir aðrar ákvarðanir um endurskoðun sambærilegra matsskýrslna.

Með beiðni um endurskoðun hafi fylgt rýniskýrsla verkfræðistofu þar sem, að beiðni kæranda, hafi verið lagt mat á þá umhverfisþætti sem að breyst hefðu frá árinu 2003 og á það hvort þær breytingar gæfu tilefni til endurskoðunar. Kærandi hafi vakið athygli á því að hugsanlega hefðu forsendur breyst hvað varði umfjöllun um jarðskjálfta vegna niðurdælingar affallsvökva, en slík umfjöllun hafi ekki verið ýtarleg í greindu mati. Í fyrrnefndri rýniskýrslu komi hins vegar fram að þó svo að þetta atriði geti talist tæknilega nægjanleg ástæða til að endurskoða umhverfisáhrif þess tiltekna þáttar þá séu líkur á neikvæðum umhverfisáhrifum litlar miðað við fyrirliggjandi gögn. Rýniskýrslan hafi verið unnin af óháðum úttektaraðila, sem ekki hafi komið að umræddu mati á umhverfisáhrifum árið 2003-2004. Í ljósi þessa hafi kærandi ákveðið að óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar áður en tíu ár hafi verið liðin frá úrskurði. Niðurstaða fagaðila hafi verið sú að ekki væri talin þörf á endurskoðun þessara þátta þar sem forsendur hefðu ekki breyst verulega. Í öðrum tilfellum sé hins vegar ljóst að engar forsendur séu fyrir endurskoðun.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Stofnunin skírskotar til þess að málsmeðferð vegna beiðni leyfisveitanda um endurskoðun matsskýrslu hafi farið fram á grundvelli 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þá hafi verið höfð hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennum málsmeðferðarreglum um matsskyldar framkvæmdir í IV. kafla laga nr. 106/2000, sbr. t.d. 2.-5. mgr. 10. gr. Þau efnisatriði sem tilgreind séu í 2. mgr. 12. gr. sömu laga feli ekki í sér tæmandi talningu á forsendum sem leitt geti til þess að tekin sé ákvörðun um endurskoðun, sbr. orðalag málsgreinarinnar, „svo sem“. Löggjafinn líti svo á að stofnunin geti byggt á öðrum atriðum en þeim sem komi fram með beinum hætti í nefndu ákvæði ef þau feli í sér að forsendur hafi breyst verulega. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar greinar sé ljóst að ákvörðunarvaldið um það hvort endurskoða skuli matsskýrslu sé hjá Skipulagsstofnun en ekki hjá umsagnaraðilum. Álits umsagnaraðila sé almennt aflað sem hluta af rannsókn máls og séu umsagnir þeirra stjórnvalda sem leitað hafi verið til ekki bindandi fyrir stofnunina að lögum. Þótt í nýjum gögnum kæranda komi fram að í fyrstu sé stefnt að 45 MW virkjun, þá geri hann ráð fyrir að síðan verði farið í síðari áföngum í 90 MW. Í matsskýrslu frá 2003 komi fram að fyrirhugað hafi verið að reisa 90 MW virkjun í tveimur til þremur áföngum. Sú tilhögun framkvæmda sem nú sé stefnt að feli ekki í sér breytt framkvæmdaáform með tilliti til mögulegrar heildarstærðar virkjunarinnar.

Frá því að mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar hafi farið fram hafi komið fram áform um nýja 150 MW Kröfluvirkjun II sem geti, auk 60 MW Kröfluvirkjunar, haft samlegðaráhrif á loftgæði með Bjarnarflagsvirkjun. Mat á umhverfisáhrifum felist m.a. í því að gera grein fyrir sammögnuðum áhrifum, sbr. l-lið 3. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005. Til frekari skýringar sé vísað í úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 10. júní 2013 þar sem fram komi að viðmið 3. viðauka um sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum sé ekki bundið við aðrar mats- eða tilkynningarskyldar framkvæmdir heldur beri að vega saman umhverfisáhrif allra þekktra framkvæmda. Í nýrri dreifingarspá frá árinu 2013, sem gerð sé grein fyrir í rýniskýrslu, sé ekki tekið fullnægjandi tillit til þekktra framkvæmda á svæðinu. Þegar metin séu sammögnunaráhrif brennisteinsvetnis með tilliti til loftgæða verði að taka tillit til þekktra áforma á svæðinu þrátt fyrir að óvissa sé um hvort og hvenær full starfsemi hefjist. Fyrirhuguð framleiðsluaukning við Kröflu feli í sér breyttar forsendur frá því metin hafi verið umhverfisáhrif Bjarnarflagsvirkjunar. Frá því að matið hafi farið fram á árunum 2003-2004 hafi verið sett reglugerð nr. 514/2010, um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti, sem feli í sér breyttar forsendur. Þær breytingar sem gerðar hafi verið á reglugerðinni 2014 hafi ekki áhrif á niðurstöðu stofnunarinnar um loftgæði. Í nýju aðalskipulagi Skútustaðahrepps séu skýr áform um að í Reykjahlíð verði gert ráð fyrir fjölgun íbúa og miðstöð ferðaþjónustu. Þá hafi orðið miklar breytingar í nágrenni fyrirhugaðrar virkjunar, þar sem rekstri Kísiliðjunnar hafi verið hætt og byggður upp fjölsóttur ferðamannastaður í Jarðböðunum.

Matsskýrslan frá 2003 geri ekki ráð fyrir þeim mikla fjölda ferðamanna sem raunin sé að heimsæki Jarðböðin. Í 12. gr. laga nr. 106/2000 segi að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu ef forsendur hafi breyst verulega, svo sem vegna breytinga á landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þeirra breytinga sem orðið hafi á landnotkun og áformum sveitarstjórnar um áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu. Á þeirri forsendu sé það niðurstaða stofnunarinnar að þörf sé á að endurtaka mat á áhrifum virkjunarinnar á hljóðvist.

Þegar matsskýrslan hafi verið unnin hafði verið lagt fram frumvarp á vorþingi sama ár til laga um verndun Mývatns og Laxár, sem hafi ekki hlotið afgreiðslu. Þegar matsskýrslan hafi verið samin hafi frumvarp til laga um verndun Mývatns og Laxár ekki verið lagt fram að nýju eða afgreitt sem lög. Sambærilegt ákvæði sem kveði með skýrum hætti á um mikilvægi grunnvatnsgæða og sé í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 97/2004, hafi ekki verið í eldri lögum nr. 36/1974. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er orðið hafi að fyrrnefndri 4. gr. komi fram að ákvæðið sé nýmæli. Verndaráætlun 2011-2016 fyrir Mývatn og Laxá hafi verið gerð á grundvelli 6. gr. laga nr. 97/2004, en sú grein sé einnig nýmæli. Megintilgangur slíkrar áætlunar samkvæmt núgildandi lögum sé að marka skýra stefnu á sviði náttúru- og umhverfisverndar á svæðinu með þátttöku allra hagsmunaaðila, koma í veg fyrir að náttúruvernd á svæðinu verði brotakennd og tryggja þannig samhengi í öllum verndar- og friðunaraðgerðum. Í 12. gr. laga nr. 106/2000 segi að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu ef forsendur hafi breyst verulega, svo sem vegna breytinga á löggjöf um umhverfismál. Eins og að framan sé rakið hafi orðið breytingar á löggjöf um umhverfismál sem skipti máli varðandi mat á áhrifum virkjunar á grunnvatn. Þá skorti á skýringar og rökstuðning fyrir ályktun Umhverfisstofnunar um að ólíklegt sé að endurskoðun á mati á áhrifum framkvæmdarinnar á grunnvatn myndi leiða nýjar upplýsingar í ljós.

Lög nr. 106/2000 hafi að geyma form- og efnisreglur sem ætlað sé að tryggja að ákveðnar framkvæmdir fari í gegnum tiltekið upplýsinga- og rannsóknarferli, þannig að fyrir liggi nægjanlegar upplýsingar fyrir leyfisveitendur framkvæmda til að ákveða hvort leyfi verði veitt, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 4. mars 2009 í máli nr. 5081/2007. Því sé ekki hægt að útiloka fyrirfram að endurskoðun muni leiða nýjar upplýsingar í ljós sem mikilvægar séu fyrir ákvörðun um leyfisveitingar. Frá því að hin kærða ákvörðun hafi legið fyrir hafi einnig orðið vandræði með niðurdælingarholu kæranda á Þeistareykjum, þar sem vatn og gufa hafi gosið upp úr holunni. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að kæla holuna með því að dæla köldu vatni í hana í hálfan mánuð hafi sú tilhögun ekki skilað árangri og hafi þurft að loka henni. Þó svo að tæknilegir örðuleikar séu ekki taldir upp í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 beri að líta á þá reynslu sem orðið hafi af niðurdælingu við jarðhitavirkjanir undanfarin ár sem breytingar frá þeim forsendum sem hafi legið til grundvallar mati frá 2003.

Þótt það kunni að vera rétt að aðstæður á Hellisheiði séu ólíkar aðstæðum við Bjarnarflag og Kröflu þá geti upplýsingar frá öðrum stöðum á landinu en Bjarnarflagi gefið vísbendingu um mögulega jarðskjálftavirkni vegna niðurrennslis affallsvatns. Samkvæmt frétt af vef kæranda frá 16. september 2013 telji hann að vegna nálægðar Bjarnarflagsvirkjunar við Mývatn og íbúabyggð sé mikilvægt að meta betur umhverfisáhrif vegna mögulegra smáskjálfta samfara djúplosun á jarðhitavökva, en sá þáttur hafi verið vanreifaður í fyrra mati. Í umsögn Orkustofnunar komi m.a. fram að í ljósi nýrra upplýsinga um skjálftaástand á svæðinu, sem og reynslu af djúplosun, sé ekki tilefni til að meta umhverfisáhrif af prófunum á slíkri losun. Þær upplýsingar sem vísað sé til virðist vera frá árinu 2007 eða eldri og því sé ekki um nýjar upplýsingar að ræða.

Ný þekking á umhverfismálum, svo sem áhrif virkjana á gróður, geti valdið því að forsendur teljist breyttar frá mati á umhverfisáhrifum án þess að það sé tiltekið í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Vöktunartilhögun, eins og kærandi lýsi, hafi sem slík ekki áhrif á ákvörðun um hvort endurskoða skuli mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar, heldur byggi ákvörðun á því hvort forsendur matsins teljist verulega breyttar. Mati á umhverfisáhrifum sé ætlað að spá fyrir um áhrif framkvæmda áður en leyfi séu veitt, en vöktun eftir að til framkvæmda hafi komið sé eingöngu til að staðreyna hver áhrifin verði.

Samkvæmt d-lið 3. tl. 18. gr. reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum nr. 1123/2005 skuli í frummatsskýrslu m.a. greina frá niðurstöðum mats á líklegum umhverfisáhrifum framkvæmdar og áhrifum starfsemi sem henni fylgi vegna nýtingar náttúruauðlinda. Þrátt fyrir að endanleg ákvörðun um skilyrði við leyfisveitingu liggi hjá Orkustofnun takmarki það ekki mat á umhverfisáhrifum, sem í tilfelli jarðvarmavirkjana felist m.a. í að meta áhrif á þá mikilvægu náttúruauðlind sem felist í orkuforða jarðhitakerfa. Ákvörðun Orkustofnunar um veitingu virkjunar- og nýtingarleyfis og ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu byggist á ólíkum lagagrundvelli og sama markmið liggi ekki að baki þeim.

Í umsögn Umhverfisstofnunar hafi ekki verið tekið tillit til þess að það hafi orðið mikil aukning á ferðamönnum til landsins frá því að mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hafi farið fram. Ljóst sé að forsendur séu verulega breyttar varðandi mat á áhrifum virkjunarinnar á ásýnd, ferðamennsku, landslag og jarðmyndanir. Aukning á ferðamannastraumi til landsins, og þær áskoranir sem því fylgi varðandi landnýtingu og mögulega árekstra við aðra landnýtingu, sé langt umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir á þeim tíma þegar matsskýrslan hafi verið gerð.

Sú niðurstaða að endurskoða þurfi að hluta matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar sé í samræmi við b-lið 1. gr. laga nr. 106/2000 þar sem fram komi að markmið laganna sé að draga eins og kostur sé úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Þá gangi niðurstaðan ekki lengra en nauðsyn beri til. Í fyrrgreindum lögum sé ekki að finna ákvæði sem mæli fyrir um að stofnuninni beri að kynna kæranda drög að ákvörðunum og gefa honum kost á að tjá sig um þau áður en ákvörðun sé endanlega tekin. Ekki verði séð að sá dráttur sem orðið hafi á afgreiðslu málsins hafi haft efnisleg áhrif á niðurstöðu í því og valdi hann því ekki ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Því sé hafnað að stofnunin hafi synjað beiðni um að taka málið fyrir áður en tíu ár hafi verið liðin. Stofnunin hafi getað tekið málið til meðferðar þótt tíu ár hafi ekki verið liðin á grundvelli 12. gr. áðurnefndra laga þegar umbeðin gögn hefðu borist, sem m.a. hafi falið í sér staðfestingu á ósk leyfisveitanda um ákvörðun um endurskoðun. Hins vegar hafi stofnunin ekki getað tekið efnislega ákvörðun um endurskoðun fyrr en tíu ár hafi verið liðin.

Stofnunin hafi byggt málsmeðferð sína á 12. gr. laga nr. 106/2000, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 74/2005, enda hafi það ákvæði verið við lýði þegar erindið hafi borist stofnuninni. Hafi það ekki þýðingu þótt í núgildandi ákvæði sé vikið að áliti stofnunarinnar en ekki úrskurði. Í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið byggt á þeirri forsendu að verulegar breytingar hafi orðið á alþjóðlegum skuldbindingum. Það sérstaka svæði sem virkjunin liggi á og við geri það að verkum að sérstaka aðgæslu þurfi að hafa við undirbúning stórra framkvæmda. Við þær aðstæður þurfi að hafa í huga reglur umhverfisréttar um varúðarnálgun. Auk 15. meginreglu Ríó-yfirlýsingarinnar komi varúðarreglan fram í inngangsorðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni og í aðfaraorðum EES-samningsins. Þá hafi reglan verið útfærð í 2. mgr. 2. gr. OSPAR-samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins. Reglan komi fyrst og fremst til skoðunar þegar óvissa sé til staðar eða þekkingarskortur um afleiðingar ákvarðana sem áhrif kunni að hafa á náttúruna. Í hinni kærðu ákvörðun felist ekki stefnumörkun sem eigi að gilda um önnur mál sem lúti að endurskoðun matsskýrslu. Stofnuninni beri að meta aðstæður og atvik í hverju máli fyrir sig. Þá sé hún ekki bundin af því sem komi fram í rýniskýrslu einkaaðila og beri skylda til að meta með sjálfstæðum hætti öll gögn og allar upplýsingar sem lagðar séu fram í máli.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 að endurskoða skuli þá þætti matsskýrslu um 90 MW Bjarnarflagsvirkjun frá desember 2003, er lúta að áhrifum virkjunarinnar á hljóðvist, loftgæði, gróður, landslag, ásýnd og ferðamennsku, grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni, sem og jarðhitakerfi og orkuforða.

Í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, eins og hún hljóðaði á þeim tíma er slíkt mat á áhrifum Bjarnarflagsvirkjunar fór fram og úrskurður Skipulagsstofnunar var kveðinn upp, sagði að hæfust framkvæmdir ekki innan tíu ára frá úrskurði stofnunarinnar skyldi hún ákvarða hvort mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar færi fram að nýju samkvæmt lögunum. Með breytingalögum nr. 74/2005 var áðurnefndum lögum breytt, m.a. hvað varðar nefnt ákvæði. Einnig var ákvæði II til bráðabirgða breytt og er nú kveðið á um það í 2. mgr. þess að í þeim tilvikum þegar matsferli framkvæmdar, sem undir lögin falli, hafi verið lokið samkvæmt eldri lögum, en ekki hafi verið veitt öll leyfi vegna hennar, skuli við leyfisveitingu fara samkvæmt þeim lögum. Ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu er ekki hluti af leyfisveitingu þótt hún geti verið hluti af undirbúningi hennar. Verður því við það að miða að lagaskil hafi orðið með þeim hætti að með málið hafi átt að fara samkvæmt lögum nr. 106/2000, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 74/2005.

Nú er fjallað um endurskoðun matsskýrslu í 12. gr. laga nr. 106/2000. Kemur þar fram í 1. mgr. að ef framkvæmdir hefjast ekki innan tíu ára frá því að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir skuli viðkomandi leyfisveitandi óska ákvörðun stofnunarinnar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu kæranda áður en leyfi til framkvæmda er veitt. Samkvæmt 2. mgr. getur stofnunin ákveðið að slík endurskoðun fari fram „ef forsendur hafa breyst verulega frá því að álitið lá fyrir, svo sem vegna breytinga á náttúrufari eða landnotkun á áhrifasvæði framkvæmdarinnar, breytinga á löggjöf um umhverfismál, breytinga á alþjóðlegum skuldbindingum eða vegna tækniþróunar varðandi framkvæmdina“. 

Í inngangi ákvörðunar sinnar rekur Skipulagsstofnun efni tilvitnaðrar 12. gr. og tekur fram að þetta sé í fyrsta sinn sem fram fari málsmeðferð á grundvelli þessarar lagagreinar. Tekur stofnunin jafnframt fram að af þeim sökum hafi málsmeðferð orðið tímafrekari en vænta megi framvegis, enda hafi umfjöllun um málið falið í sér ákvarðanir um útfærslu málsmeðferðar. Um málsmeðferð er enn fremur tekið fram að í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi stofnunin leitað nánar tilgreindra umsagna og að þær ásamt athugasemdum hafi verið sendar kæranda, sem brugðist hafi við þeim. Auk þess hafi Skipulagsstofnun óskað frekari gagna frá kæranda, sem borist hefðu haustið 2014, en hin kærða ákvörðun lá fyrir 7. nóvember s.á.

Við undirbúning og töku ákvörðunar hvílir á Skipulagsstofnun, líkt og á stjórnvöldum almennt, sú almenna skylda að gæta að ákvæðum stjórnsýslulaga, sem og meginreglum stjórnsýsluréttar, þar sem ákvæðum laga sleppir. Af fyrrgreindri lýsingu stofnunarinnar, sem studd er gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni, má ráða að í meginatriðum hafi meðferð málsins tekið mið af nefndum lögum og reglum. Stofnunin leitaði umsagna í samræmi við rannsóknarregluna, veitti kæranda tækifæri til andmæla vegna þeirrar gagnaöflunar og gaf honum kost á að koma að frekari gögnum og skýringum. Enn fremur gerði stofnunin grein fyrir því að málsmeðferð sú sem fram hefði farið hefði að einhverju leyti verið á kostnað málshraða.

Lagagrundvöllur ákvörðunar Skipulagsstofnunar liggur fyrir í 12. gr. laga nr. 106/2000, sem áður er lýst, og var vísað til lagagreinarinnar í hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 30. október 2013, óskaði kærandi eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um þörf á endurskoðun matsskýrslu sinnar á grundvelli nefndrar lagagreinar og með bréfi, dags. 20. desember s.á., óskaði Skipulagsstofnun eftir því að kærandi hlutaðist til um að einn eða fleiri leyfisveitandi óskaði eftir slíkri ákvörðun stofnunarinnar í samræmi við lagaákvæðið. Jafnframt kom fram að þegar umbeðin gögn hefðu borist stofnuninni myndi hún hefja málsmeðferð á grundvelli lagagreinarinnar, en að ákvörðun myndi fyrst geta legið fyrir þegar tíu ár væru liðin frá úrskurði stofnunarinnar. Beiðni Skútustaðahrepps barst með bréfi, dags. 18. febrúar 2014, og niðurstaða í málinu lá fyrir 7. nóvember s.á. Að áliti úrskurðarnefndarinnar átti hin kærða ákvörðun sér því stoð í lögum og var Skipulagsstofnun rétt að hlutast til um að réttur aðili óskaði eftir að tekin yrði ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu kæranda. Verður og ekki séð að óhóflegar tafir hafi orðið á meðferð málsins. Mál sem þessi eru viðamikil og fylgir þeim jafnan töluvert magn gagna. Tekur það því sinn tíma að afla umsagna og veita andmælarétt. Þá hvíldi ekki sérstök skylda á Skipulagsstofnun að kynna kæranda fyrirhugað efni ákvörðunar sinnar, enda hafði hann komið að sínum sjónarmiðum og gögnum.

Hvað rannsókn málsins varðar hefur kærandi m.a. mótmælt því að skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 hafi verið til staðar, enda hafi forsendur ekki breyst að neinu marki. Máli sínu til stuðnings bendir hann á að niðurstaða Skipulagsstofnunar um ákveðin atriði hafi gengið í berhögg við umsagnir tiltekinna umsagnaraðila, s.s. Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að Skipulagsstofnun er ekki bundin af umsögnum sem aflað er sem hluta af rannsókn máls heldur leggur stofnunin sjálfstætt mat á það hvort endurskoða skuli matsskýrslu kæranda, sbr. 12. gr. laganna. Í því felst að hún leggur jafnframt mat á efnislegt innhald og vægi þeirra umsagna sem leitað er eftir.

Í bréfi kæranda til Skipulagsstofnunar, dags. 18. febrúar 2014, voru dregin fram atriði sem lutu að breyttum áformum um framkvæmd frá því sem tilgreint var í matsskýrslu. Sagði þar m.a: „Megin breytingar á fyrirhugaðri framkvæmd snúa að áfangaskiptri uppbyggingu þar sem ekki verður ráðist í 2. áfanga fyrr en fyrir liggur reynsla af rekstri 1. áfanga. Landsvirkjun hefur ákveðið að byggja virkjun upp í tveimur aðskildum 45 MW áföngum. Miðað er við að uppbygging verði með varfærnum hætti þar sem nokkurra ára reynsla af rekstri fyrri áfanga virkjunar verði nýtt til að meta hugsanleg áhrif á umhverfið og jarðhitakerfið áður en ákvörðun um uppbyggingu seinni áfanga er tekin.“ Í matsskýrslu kæranda segir í kafla 1 um framkvæmdaáform að ráðgert sé að reisa 90 MW jarðvarmavirkjun, Bjarnarflagsvirkjun, og sé fyrirhugað að reisa hana í tveimur til þremur áföngum. Ákvörðun um hvern áfanga ráðist einkum af þörfum markaðarins. Af þessu orðalagi verður ekki annað ráðið en að áform kæranda séu enn þau að reisa 90 MW virkjun þó að í stað þess að uppbygging fari fram í tveimur til þremur áföngum eftir þörfum markaðarins verði hún í tveimur aðskildum áföngum, að teknu tilliti til umhverfisáhrifa.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum laganna og eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Að teknu tilliti til þess að til stóð að taka ákvörðun um endurskoðun á matsskýrslu 90 MW virkjunar og að framkvæmdaáform höfðu ekki breyst hvað það atriði varðaði verður að telja að Skipulagsstofnun hafi almennt séð verið rétt að leggja til grundvallar við meðferð málsins að um 90 MW virkjun yrði að ræða, enda hefði greindum tilgangi laga nr. 106/2000 vart verið náð öðrum kosti.

Í matsskýrslu vegna Bjarnarflagsvirkjunar og Bjarnarflagslínu 1 frá 2003 var tilgreint að þeir umhverfisþættir sem yrðu fyrir áhrifum vegna mannvirkjagerðar á framkvæmdatíma væru gróður, hljóðvist, fornleifar og samfélag. Umfjöllun um umhverfisáhrif á rekstrartíma tæki til jarðhita og orkuforða, dýralífs, vatnafars, lofts, hljóðvistar, ásýndar og samfélags, þ. á m. útivistar og ferðamála. Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 26. febrúar 2004 tók til áhrifa á jarðhitakerfi og orkuforða, grunn- og yfirborðsvatn, landslag og jarðmyndanir, gróður, fugla, smádýr og lífríki hvera, sem og menningarminjar. Úrskurðurinn tók einnig til áhrifa á menn og samfélag og þar undir var fjallað um sjónræn áhrif, útivist og ferðamennsku, um hljóðmengun, sem og um loftmengun. Þá var fjallað um hættur og náttúruvá í úrskurðinum.

Svo sem áður greinir laut ákvörðun Skipulagsstofnunar að því að endurskoða skyldi matsskýrslu kæranda að því er varðaði sjö nánar tilgreinda þætti, þ.e. áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á loftgæði, jarðhitakerfi og orkuforða, grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni, gróður, hljóðvist, sem og á landslag, ásýnd og ferðamennsku. Verður nú fjallað um niðurstöðu stofnunarinnar varðandi hvern þessara þátta, m.a. að teknu tilliti til þeirra laga og reglna sem áður hefur verið fjallað um.

Áhrif á loftgæði
Í úrskurði sínum árið 2004 taldi Skipulagsstofnun að aukin losun koldíoxíðs (CO2), metans (CH4) og brennisteinsvetnis (H2S) væri ekki líkleg til að hafa veruleg áhrif á loftgæði á svæðinu en búast mætti við að brennisteinslykt myndi finnast á stærra svæði en áður.

Í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II, allt að 150 MW jarðhitavirkjun í Skútustaðahreppi, fjallar Skipulagsstofnun í niðurstöðu sinni um áhrif á loftgæði. Segir þar: „Fyrir liggur að styrkur brennisteinsvetnis fer yfir heilsuverndarmörk reglugerðar í þéttbýlinu í Reykjahlíð, verði ekki ráðist í hreinsun útblásturs úr fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun sem er sú virkjun sem yrði staðsett næst þéttbýlinu. Um er að ræða dæmi um sammögnuð eða samlegðaráhrif vegna útblásturs brennisteinsvetnis frá Kröfluvirkjun II og núverandi Kröfluvirkjun, ásamt útblæstri frá Bjarnarflagsvirkjun og Þeistareykjavirkjun.“ Einnig telji stofnunin „að setja verði það sem skilyrði, við leyfisveitingar að tryggt verði að fyrirhugaður hreinsibúnaður útblásturs frá Bjarnarflagsvirkjun verði til staðar“ og loks að ljóst sé „að Landsvirkjun þarf að tryggja að styrkur H2S í þéttbýlinu verði ávallt innan heilsuverndarmarka“.

Í ákvörðun sinni um endurskoðun þessa þáttar vísar stofnunin til aukinnar þekkingar á áhrifum brennisteinsvetnis, til reglugerðar nr. 514/2010 um styrk þess í andrúmslofti og til þess að vandkvæði hafi verið á að mæta kröfum reglugerðarinnar til jarðvarmavirkjana. Unnið sé að þróun tæknilegra lausna. Í rýniskýrslu sé ályktað að án mótvægisaðgerða muni kröfum reglugerðarinnar ekki verða fullnægt fyrir 45 MW virkjun í Bjarnarflagi og telji Skipulagsstofnun erfitt að fullyrða út frá gögnum málsins, og að fengnum frekari athugasemdum kæranda, að útblástur brennisteinsvetnis verði mun minni en áður hafi verið gert ráð fyrir. Landnotkun nærri framkvæmdasvæðinu hafi breyst, rekstri Kísiliðjunnar hafi verið hætt, byggð hafi verið upp fjölsótt aðstaða Jarðbaðanna og fjöldi ferðamanna á svæðinu margfaldast. Þetta séu breyttar forsendur frá fyrra mati 2003-2004.

Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt því sem áður hefur verið rakið var samlegð áhrifa Bjarnarflagsvirkjunar með Kröfluvirkjunum þegar könnuð í mati á umhverfisáhrifum Kröfluvirkjunar II. Þá hefur þjónusta Jarðbaðanna verið byggð upp samkvæmt deiliskipulagi, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 31. mars 2003, og því vart um breytta landnotkun að ræða hvað það varðar. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að kærandi hyggst byggja 90 MW virkjun, sem nú gilda um ákvæði reglugerðar sem ekki var til staðar við mat á umhverfisáhrifum. Af gögnum málsins verður ráðið að mótvægisaðgerðir þurfi við rekstur virkjunarinnar til að umhverfismörkum reglugerðarinnar verið fullnægt, en þær mótvægisaðgerðir voru ekki að fullu ljósar við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Niðurstaða stofnunarinnar var að endurskoða þyrfti matsskýrslu virkjunarinnar varðandi áhrif brennisteinsvetnis í útblæstri á loftgæði. Í ljósi þeirrar skyldu leyfisveitanda að taka upplýsta ákvörðun um leyfisveitingu á grundvelli mats á umhverfisáhrifum verður að telja að mat Skipulagsstofnunar, þess efnis að um verulega breyttar forsendur væri að ræða frá úrskurði sínum 2004 hvað varðaði mat á áhrifum framkvæmdarinnar á loftgæði, hafi verið málefnalegt og til þess fallið að ná því markmiði að upplýsa leyfisveitendur um umhverfisáhrif framkvæmdar. Verður því fallist á niðurstöðu Skipulagsstofnunar hvað þennan þátt varðar. Það yrði svo Umhverfisstofnunar að setja skilyrði við veitingu starfsleyfis til að draga úr þeim umhverfisáhrifum, en eins og áður segir ríkti ákveðin óvissa um það hvernig best væri að því staðið.

Áhrif á jarðhitakerfi og orkuforða
Í því mati á umhverfisáhrifum sem fram fór vegna Bjarnarflagsvirkjunar var m.a. fjallað um áhrif virkjunarinnar á jarðhitakerfi og orkuforða og taldi Skipulagsstofnun í ljósi framlagðra gagna að fyrirhuguð 90 MW virkjun kæmi ekki til með að hafa veruleg og óafturkræf áhrif á jarðhitakerfið í Bjarnarflagi, en einnig að mikilvægt væri að vinnslan yrði ekki ágeng. Taldi stofnunin að fyrir lægi veruleg þekking á afkastagetu svæðisins en hins vegar ríkti nokkur óvissa um áhrif svo umfangsmikillar vinnslu á jarðhitakerfið vegna skorts á þekkingu og reynslu á langtímarekstri stórra jarðhitavirkjana. Væri því að erfitt að leggja mat á hver yrðu raunveruleg áhrif á nýtingu jarðhitakerfisins og um leið jarðhitans sem auðlindar.

Rýniskýrsla kæranda tók ekki til þessa atriðis og óskaði Skipulagsstofnun eftir nánari upplýsingum um þennan þátt. Í svari kæranda var greint frá því að frá úrskurði stofnunarinnar hafi hann borað þrjár nýjar holur og stundað rannsóknir sem enn hafi aukið þekkingu á jarðhitakerfinu í Námafjalli. Þá hafi ÍSOR unnið tvær skýrslur um endurgerð reiknilíkans af jarðhitakerfinu. Útdrættir skýrslnanna voru teknir upp í bréfið og var vísað til þess í niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar með tilliti til áhrifa á jarðhitaauðlindina. Var sú forsenda Skipulagsstofnunar fyrir þeirri niðurstöðu tilgreind að í sérfræðiskýrslu ÍSOR frá árinu 2013 kæmi fram að hermireikningar gæfu til kynna að niðurstöður um sjálfbærni 90 MW vinnslu væru ekki afgerandi. Vísaði stofnunin til úrskurðar síns um mikilvægi þess að vinnslan yrði ekki ágeng og til þess að horfa þyrfti til nýrrar skilgreiningar um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita. Tók stofnunin jafnframt fram að ljóst væri að mat á áhrifum virkjunarinnar á jarðhitaauðlindina yrði alltaf háð ákveðinni óvissu.

Úrskurðarnefndin telur einsýnt af því sem rakið hefur verið að ákveðin óvissa hafi ríkt um áhrif Bjarnarflagsvirkjunar á jarðhitakerfi og orkuforða þegar mat á umhverfisáhrifum hennar fór fram. Einnig að óvissa hafi enn verið til staðar við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Stendur þá eftir hvort að fyrir hendi voru verulega breyttar forsendur í skilningi 12. gr. laga nr. 106/2000 sem réttlættu það mat Skipulagsstofnunar að endurskoða þyrfti matsskýrslu með tilliti til þessara áhrifa. Það að óvissa sé enn til staðar leiðir eitt og sér ekki til þeirrar niðurstöðu að áliti úrskurðarnefndarinnar. Þá er vandséð að breytt skilgreining um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita hafi falið í sér verulega breyttar forsendur frá því sem áður var. Í því sambandi er rétt að benda á að í álitsgerð faghóps um sjálfbæra nýtingu jarðhita, sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun um breytta skilgreiningu, er tekið fram að sérfræðingahópur á vegum Orkustofnunar hafi árið 2001 lagt til skilgreiningu á hugtakinu sjálfbær vinnsla jarðhita á einu jarðhitasvæði. Jafnframt að faghópurinn hafi ákveðið að styðjast við þá skilgreiningu, með þeirri breytingu þó að lagt sé til að í stað þess að miða við 100-300 ár, eins og sérfræðingahópurinn hafi lagt til árið 2001, þá sé miðað við að lágmarki 100 ár vegna þeirrar miklu óvissu sem á allan hátt fylgi langtímaspám. Að teknu tilliti til framangreinds var tilefni til nánari athugunar af hálfu Skipulagsstofnunar um þetta atriði, t.a.m. með því að leita umsagnar Orkustofnunar um þær upplýsingar sem kærandi lagði fram, en Orkustofnun, rétt eins og ÍSOR, býr yfir viðamikilli sérfræðiþekkingu um sjálfbæra vinnslu og nýtingu jarðhita. Verður að telja að án frekari rannsóknar hafi ekki verið fyrir hendi lagaskilyrði fyrir þeirri ákvörðun Skipulagsstofnunar að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar með tilliti til áhrifa á jarðhitaauðlindina. 

Áhrif á grunn- og yfirborðsvatn
Í matsskýrslu kæranda frá 2003 er tekið fram að til að losna við skiljuvatn frá Bjarnarflagsvirkjun hafi verið litið til þriggja kosta, yfirborðs-, grunn- og djúplosunar. Er fjallað um þá kosti og komist að þeirri niðurstöðu að þar sem reynsla af yfirborðslosun sé góð og ekkert bendi til að hún hafi óæskileg áhrif á umhverfið sé gert ráð fyrir að nota hana áfram. Ef aðstæður skapist sem krefjist niðurdælingar yrði fyrsti kostur að notast við grunnlosun, en djúplosun væri talin sísti kosturinn vegna mikils kostnaðar og óvissu um árangur.

Í úrskurði Skipulagsstofnunar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki yrðu veruleg og óafturkræf áhrif á grunnvatn við losun affallsvatns á yfirborði. Eigi að síður taldi stofnunin mikilvægt að gera ráð fyrir djúplosun og hefja undirbúning hennar um leið og rekstur virkjunarinnar, en einnig kæmi til greina að losa affallsvatn með grunnlosun yrði þess talin þörf.

Í rýniskýrslu kæranda er greint frá því að samkvæmt samþykktu deiliskipulagi virkjunarinnar frá 2011 séu gerðar kröfur um að farga affallsvatni með grunnlosun og/eða djúplosun, en á yfirborði aðeins í neyðartilfellum. Reikni kærandi með grunnlosun til að byrja með og á síðari stigum verði farið í djúplosun affallsvatnsins niður í jarðhitakerfið ef með þurfi.

Við mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar var þannig fyrst og fremst gert ráð fyrir losun affallsvatns á yfirborði frá virkjuninni, en ekki niðurdælingu nema þær aðstæður kæmu upp. Umfjöllun um niðurdælingu í matinu og möguleg áhrif hennar var því takmörkuð. Umsagnaraðilar, sem og kærandi sjálfur, lögðu á það áherslu við Skipulagsstofnun að vatnsrennsli til Mývatns myndi ekki raskast. Umsagnaraðilum bar þó ekki saman um hvort mat þyrfti að fara fram að nýju eða ekki. Veðurstofa Íslands benti á frekari rannsóknir sem fram gætu farið, Rannsóknarstöðin við Mývatn taldi að endurskoða bæri matsskýrsluna en Umhverfisstofnun taldi ólíklegt að slík endurskoðun myndi leiða til nýrra upplýsinga um vatnsrennsli til Mývatns og áhrif 45 MW virkjunar á vatnið, en taldi vera óvissu um áhrif 90 MW virkjunar. Benti kærandi á að ýmsum spurningum yrði ekki svarað af árangri niðurdælingar fyrr en reynsla væri fengin af 45 MW virkjun og væri það einnig skilningur Umhverfisstofnunar.

Mývatn og Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu hafa verið vernduð með lögum frá árinu 1974. Ný lög sama efnis, nr. 97/2004, voru samþykkt af Alþingi í maí 2004 og tóku þau gildi 1. október s.á., en mati á umhverfisáhrifum var lokið með úrskurði Skipulagsstofnunar í febrúar það ár. Í nýrri lögunum var lögfest nýmæli í 4. gr. þeirra sem kveður á um verndun vatnasviðs Mývatns og Laxár, en Bjarnarflag er þar innan. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 97/2004 er tekið fram um nýmæli þetta að vatnasvið Mývatns og Laxár sé geysistórt og ljóst að rask innan þess geti haft bein áhrif á lífríki vatnsins og árinnar. Þá er áréttað í athugasemdum með nefndu ákvæði að það eigi að koma í veg fyrir að spjöll verði unnin innan vatnasviðs Mývatns og Laxár og sé þar sérstaklega litið til rennslis grunnvatns, en grunnvatnsrennsli sé afar þýðingarmikill þáttur í vatnabúskap Mývatns.

Af hálfu kæranda hefur verið bent á að við gerð matsskýrslu hafi verið litið til nýrri laga, sem fyrirhuguð höfðu verið um nokkuð skeið. Það verður þó ekki hjá því litið að lögin tóku fyrst gildi eftir að mat á umhverfisáhrifum hafði farið fram auk þess sem ljóst er að tilhögun framkvæmdarinnar var nokkuð breytt við töku hinnar kærðu ákvörðunar frá því sem áður var. Er sú tilhögun bundin í skipulag. Má leiða að því líkur að neikvæð umhverfisáhrif minnki frekar en hitt við þá breytingu, en forsendur eru engu að síður breyttar. Er enda tiltekið sérstaklega í athugasemdum með ákvæði því sem varð að 2. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 að eitt dæmi um verulega breyttar forsendur sé að tækniþróun hafi breytt möguleikum til að minnka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. Að framangreindu virtu voru skilyrði nefnds lagaákvæðis uppfyllt og kröfu kæranda um ógildingu vegna þessa þáttar því hafnað.

Niðurrennsli og skjálftavirkni
Svo sem áður er greint frá eru nú gerðar þær kröfur samkvæmt skipulagi að affallsvatni verði fargað með grunnlosun og/eða djúplosun, en í undantekningartilvikum á yfirborði. Í mati á umhverfisáhrifum var hins vegar gert ráð fyrir yfirborðslosun affallsvatns að meginstefnu til samhliða rannsóknum á áhrifum djúplosunar. Í matsskýrslu er greint frá því að djúplosun krefjist ítarlegra rannsókna til að forðast dýrkeypt mistök, en ekki er vikið að möguleika á skjálftavirkni. Var ekki heldur fjallað um þann möguleika í úrskurði Skipulagsstofnunar eða sett skilyrði fyrir framkvæmdinni hvað það varðaði.

Leyfisveitendur taka ákvörðun um leyfisveitingu á grundvelli mats á umhverfisáhrifum sem þjónar þeim tilgangi að upplýst sé hver áhrif leyfðrar framkvæmdar séu, sbr. markmið 1. gr. laga nr. 106/2000, sem áður eru rakin. Orkustofnun er leyfisveitandi jarðvarmavirkjana á landsvísu og hefur stofnunin þróað verklagsreglur sem gilda um djúplosun jarðhitavökva í jarðhitakerfi. Einnig koma til framkvæmdaleyfi sveitarfélaga. Þar sem áhrif skjálftavirkni eru að mestu staðbundin þurfa sveitarstjórnir því að gera sér grein fyrir þeim áhrifum. Markmið laganna er einnig að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar og getur Skipulagsstofnun í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum sett fyrir henni frekari skilyrði eða mælt fyrir um aðrar og frekari mótvægisaðgerðir en fram koma í matsskýrslu, sbr. 2. mgr. 11. gr. nefndra laga.

Almennt séð getur skortur á grunnþekkingu ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að mat á umhverfisáhrifum fari ekki fram, enda væri það í andstöðu við grunnhugsunina að baki varúðarreglunni. Að sama skapi verður að telja að aukin þekking, rétt eins og tækniþróun, geti talist breytt forsenda. Á liðnum árum hefur þekking aukist mjög um tengsl niðurdælinga jarðvarmavirkjana og jarðskjálftavirkni. Þá liggur fyrir að tilhögun framkvæmdar er í nokkru breytt í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í skipulagi. Að teknu tilliti til framangreinds og atvika þessa máls verður að telja forsendur breyttar í svo verulegum mæli að Skipulagsstofnun hafi verið rétt að mæla fyrir um endurskoðun matsskýrslu kæranda með tilliti til hættu fyrir menn og samfélag af skjálftavirkni vegna niðurrennslis affallsvatns, enda yrði tilgangi laga nr. 106/2000 vart náð ella. Verður kröfu kæranda um ógildingu vegna þessa þáttar því hafnað. 

Áhrif á gróður
Af gögnum málsins er ljóst að mat á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar tók eingöngu til áhrifa á gróður á framkvæmdatíma við virkjunina, en ekki á rekstrartíma hennar. Var enda ekki talið að um slík áhrif yrði að ræða. Síðan matið fór fram hafa hins vegar komið fram gróðurskemmdir í kringum aðrar jarðvarmavirkjanir á landinu af völdum efna í útblæstri. Var því byggt á ónógri vísindalegri þekkingu við matið. Svo sem áður er vikið að er úrskurðarnefndin þeirrar skoðunar að þekkingaraukning geti talist verulega breytt forsenda skv. 12. gr. laga nr. 106/2000. Miðað við atvik málsins var Skipulagsstofnun þegar af þeirri ástæðu rétt að mæla fyrir um endurskoðun matsins að þessu leyti og verður ógildingarkröfu kæranda hafnað hvað þennan þátt varðar.

Áhrif á hljóðvist
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi orðið breytingar á reglugerðarviðmiðum um hávaða. Hins vegar telji Skipulagsstofnun að líta verði á þá miklu fjölgun ferðamanna sem heimsæki Mývatnssveit og nærsvæði virkjunarinnar, svo sem Jarðböðin og Námaskarð, og áforma um áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu í sveitarfélaginu sem breyttar forsendur. Þurfi því að endurskoða matsskýrslu kæranda varðandi áhrif á hljóðvist.

Stofnunin tiltekur að Jarðböðin hafi byrjað starfsemi í júní 2004 og að áhrif á viðskiptavini og starfsfólk þeirra hafi ekki verið viðfangsefni þegar mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram. Hafi tilkoma baðanna haft í för með sér mikla aukningu ferðamanna á svæði sem ekki hafi verið fjölsótt áður. Í þessu sambandi er rétt að benda á það sem áður hefur fram komið, þ.e. að þjónusta Jarðbaðanna var byggð upp samkvæmt deiliskipulagi sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 31. mars 2003. Lágu þau áform fyrir þegar mat á umhverfisáhrifum fór fram þó að fjöldi ferðamanna sé vissulega meiri en gert var ráð fyrir á þeim árum. Landnotkun hefur því ekki breyst, viðmið um hávaða eru þau sömu og ekki er fyrirséð að meiri hávaði muni berast frá framkvæmdum eða rekstri virkjunarinnar þó að fleiri verði e.t.v. fyrir áhrifum hans. Var því ekki grundvöllur fyrir þeirri ályktun Skipulagsstofnunar að um breyttar forsendur væri að ræða að þessu leyti. Þá leiðir ekki sérhver breyting á forsendu til þess að mat verði að endurtaka heldur þarf slík breyting að teljast veruleg. Að þessu virtu verður fallist á ógildingarkröfu kæranda vegna þessa þáttar.

Ásýnd, ferðamennska, landslag og jarðmyndanir
Í niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 2004 er m.a. fjallað um landslag og jarðmyndanir í einum kafla og í öðrum um sjónræn áhrif, útivist og ferðamennsku. Byggist umfjöllunin á matsskýrslu kæranda. Í hinni kærðu ákvörðun er fjallað sameiginlega um ásýnd, ferðamennsku, landslag og jarðmyndanir og komist að þeirri niðurstöðu að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar með tilliti til áhrifa á þessi atriði. Skipulagsstofnun leggur þar áherslu á þá fjölgun ferðamanna sem hefur átt sér stað, upplifun þeirra af svæðinu, þ. á m. ásýnd þess og landslagi, einkum jarðmyndunum. Er niðurstaða stofnunarinnar þannig byggð á samspili þessara þátta og mælt fyrir um endurskoðun matsskýrslu hvað þá alla varðar.

Í niðurstöðu úrskurðar Skipulagsstofnunar var tekið fram að framkvæmdasvæðið bæri þegar ýmis merki rasks og mannvirkja, s.s. vegna mannvirkja Kísiliðjunnar og núverandi Bjarnarflagsvirkjunar, og því væri ásýnd þess ekki ósnortin. Engu að síður taldi Skipulagsstofnun að ekki yrði komist hjá því að töluverðar ásýndarbreytingar yrðu á svæðinu til viðbótar þeim sem orðnar væru og myndu þær hafa áhrif á upplifun ferðafólks sem leið ætti um svæðið. Af orðalagi þessu er ljóst að tilvist Kísiliðjunnar hafði ekki úrslitaáhrif um mat stofnunarinnar varðandi ásýnd svæðisins og að tillit var tekið til ferðamennsku þar.

Þess sér ekki stað í gögnum málsins að framkvæmdin Bjarnarflagsvirkjun hafi breyst þannig að hún hafi önnur áhrif á ásýnd, landslag eða jarðmyndanir á svæðinu frá því að mat á umhverfisáhrifum fór fram. Aðstæður eru sambærilegar að öðru leyti en því að rekstri Kísiliðjunnar hefur verið hætt og ferðamönnum hefur fjölgað. Þannig var ekki til að dreifa verulega breyttum forsendum hvað varðaði ásýnd, landslag og jarðmyndanir og því ekki stoð fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurskoða skyldi mat á áhrifum á þá þætti. Ber því að fallast á með kæranda að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé haldin ógildingarannmarka vegna þessara þátta.

Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að óumdeilt er að fjölgun ferðamanna hefur verið miklum mun meiri en fyrirséð var. Að áliti úrskurðarnefndarinnar getur breyting á slíkum ytri aðstæðum talist verulega breytt forsenda í skilningi 12. gr. laga nr. 106/2000. Er þar enda ekki talið með tæmandi hætti hvaða forsendur geti komið til álita sem verulega breyttar. Verður að álykta að um slíka forsendu sé að ræða hér að teknu tilliti til margnefndra markmiða 1. gr. laganna. Með tilliti til þessa verður hafnað ógildingarkröfu kæranda vegna þess þáttar er lýtur að ferðamennsku.

——-

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun haldin ógildingarannmörkum hvað varðar nokkra þætti hennar. Þykir það þó ekki eiga að leiða til ógildingar hennar í heild sinni heldur verður hún, að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, eingöngu felld úr gildi að þeim hluta er annmarkarnir taka til. Er því felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að endurskoða þurfi matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar að því er varðar áhrif á jarðhitakerfi og orkuforða, hljóðvist, ásýnd, landslag og jarðmyndanir. Að öðru leyti stendur hin kærða ákvörðun óröskuð.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 7. nóvember 2014 um að endurskoða skuli matsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun, 90 MW jarðvarmavirkjun í Skútustaðahreppi, að því er varðar áhrif á jarðhitakerfi og orkuforða, hljóðvist, ásýnd, landslag og jarðmyndanir.

Hafnað er kröfum kæranda um ógildingu sömu ákvörðunar varðandi loftgæði, grunn- og yfirborðsvatn, niðurrennsli og skjálftavirkni, gróður og ferðamennsku.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

______________________________              _____________________________
Þorsteinn Sæmundsson                                        Þorsteinn Þorsteinsson