Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2012 Langamýri

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 5. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 um að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir S, f.h. íbúa að Löngumýri 2-12 og 16, þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 6. mars 2012 að veita byggingarleyfi til breytinga á innra skipulagi hússins að Löngumýri 14. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 14. mars 2012 var þeirri kröfu hafnað. 

Málsatvik og rök:  Hinn 3. janúar 2012 samþykkti byggingarfulltrúinn í Garðabæ umsókn eiganda hússins að Löngumýri 14 um leyfi til breytinga á innra skipulagi þess.  Útgáfa byggingarleyfisins var staðfest með samþykkt bæjarráðs hinn 6. mars 2012 og loks á fundi bæjarstjórnar hinn 15. s.m. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að ekkert gilt deiliskipulag sé til af svæðinu og því hafi borið að grenndarkynna framkvæmdirnar.  Með hinu kærða leyfi sé í raun verið að heimila fjölgun íbúða í umræddu húsi sem telja verði óheimilt að óbreyttu skipulagi. 

Af hálfu Garðabæjar er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi vegna framkvæmda við Löngumýri 14 verði úrskurðað lögmætt.  Í umsókn um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna hafi komið fram að verið væri að sækja um leyfi til að breyta innra skipulagi í viðkomandi eign og hafi sérstaklega verið tekið fram í umsókninni að ekki hafið verið að sækja um skiptingu eignarinnar.  Samkvæmt uppdráttum sé augljóst að verið sé að gera innanhússbreytingar á viðkomandi húsi og að alls ekki sé verið að sækja um leyfi til að breyta ytra byrði eða útliti þess á nokkurn hátt.  Í umsókninni hafi verið sótt um leyfi fyrir færslu lagna á jarðhæð í þvottahúsi og þá sýni uppdrættir nýtt hurðarop á jarðhæð, færslu raflagna á 1. og 2. hæð, færslu vatnslagna á 1. hæð vegna stækkunar á baðherbergi, færslu vatnslagna á 2. hæð, aðallega vegna nýs eldhúss, og breytingar á burðarvirki á 2. hæð þar sem burðarveggur sé fjarlægður við gerð nýs hurðarops fyrir baðherbergi.  Eiganda húsnæðisins sé frjálst að ákveða með hvaða hætti hann hagi innra skipulagi fasteignar sinnar að uppfylltum ákvæðum byggingarreglugerðar um kröfur til íbúðarhúsnæðis.  Kærendur geti varla talist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.  Hið kærða leyfi snúi eingöngu að breytingum innanhúss.  Þær séu ósýnilegar kærendum og geti því ekki á nokkurn hátt raskað hagsmunum þeirra. 

Af hálfu bæjaryfirvalda sé einnig á það bent að samkvæmt skipulagsuppdráttum frá 1975 og 1980 sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð í Hofstaðamýri.  Í samþykktu deiliskipulagi frá árinu 1981 sé þeirri byggð nánar lýst og verði að telja að deiliskipulagið ásamt uppdráttum fullnægi í einu og öllu þeim kröfum sem á sínum tíma hafi verið gerðar til skipulagsuppdrátta skv. 11. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.  Við mat á gildi deiliskipulags og uppdrátta verði því að horfa til framkvæmdar í skipulagsmálum.  Óyggjandi sé að ávallt hafi verið gengið út frá því af hálfu húsbyggjenda, og einnig bæjaryfirvalda og annarra skipulagsyfirvalda, að um útgáfu byggingarleyfa vegna framkvæmda við húsbyggingar í Hofstaðamýri færi samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið fyrir svæðið á árinu 1981 og þeim breytingum sem gerðar hafi verið á því síðar.  Í þessu sambandi megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 17. apríl 2008, í máli nr. 444/2007, en þar komi fram það sjónarmið að þegar skipulag sem sannanlega hafi verið samþykkt í sveitarstjórn hafi verið lagt til grundvallar í áratugi verði að telja að það sé í fullu gildi þrátt fyrir minni háttar ágalla að formi til, nema hægt sé að sanna hið gagnstæða.  Deiliskipulag fyrir Hofstaðamýri frá árinu 1981 sé því gildandi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og fari hið kærða byggingarleyfi ekki í bága við það. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að kærunni verði vísað frá.  Ekki felist í hinni kærðu ákvörðun skipting fasteignar eins og kærendur haldi fram.  Leyfið varði breytingar á innra fyrirkomulagi, sem í engu snerti hagsmuni nágranna. 

————————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í máli þessu og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Gögn í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ hinn 27. mars 2012 og markar sú dagsetning upphaf lögbundins þriggja mánaða frests til uppkvaðningar úrskurðar. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingar á innra skipulagi hússins nr. 14 við Löngumýri í Garðabæ.  Er um að ræða breytingar á herbergjaskipan og lögnum í húsinu.  Engar breytingar eru gerðar á ytra byrði hússins og ekki er í leyfinu veitt heimild til fjölgunar íbúða. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstakingbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur aðeins í sér leyfi til breytinga innanhúss og verður ekki talin raska grenndarhagsmunum kærenda eða öðrum lögvörðum hagsmunum þeirra sem veiti þeim kæruaðild í máli þessu.  Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar í málinu og stafar hann af önnum hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

47/2012 Úlfarsfell

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2012, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2011 um að veita framkvæmdaleyfi til lagningar rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp suðausturhlíð Úlfarsfells. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Urðarbrunni 14, Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 30. nóvember 2011 um að veita framkvæmdaleyfi til lagningar rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp suðausturhlíð Úlfarsfells, að tækjaskýli á toppi fellsins.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik:  Forsaga þessa máls er sú að á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 27. maí 2011 var lagt fram erindi Fjarskipta ehf. varðandi framkvæmdaleyfi vegna uppsetningar á fjarskiptabúnaði á Úlfarsfelli og var málinu vísað til skipulagsráðs.  Á fundi ráðsins hinn 29. júní s.á. var umsókninni vísað til umsagnar hjá Mosfellsbæ, Skipulagsstofnun, Geislavörnum ríkisins og Póst- og fjarskiptastofnun.  Í kjölfarið var sótt um umrætt framkvæmdaleyfi.  Í greinargerð með umsókninni kom fram að um væri að ræða ríflega 30m hátt stálmastur og 15m² tækjaskýli.  Yrði rafmagnsheimtaug lögð í jörðu að tækjaskýlinu og ljósleiðari plægður niður með henni.  Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 18. ágúst 2011, að stofnunin teldi að vinna þyrfti deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæðið og gerði að auki aðrar athugasemdir.  Framangreind umsókn um framkvæmdaleyfi kom ekki til afgreiðslu í skipulagsráði. 

Ný umsókn, dags. 14. nóvember 2011, þar sem sótt var um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu rafmagnsheimtaugar og ljósleiðara í jörðu upp á koll Úlfarsfells var lögð fyrir og samþykkt á fundi skipulagsráðs hinn 30. s.m. 

Á grundvelli þessarar samþykktar gaf skipulagsstjóri út framkvæmdaleyfi fyrir lögnunum hinn 1. desember 2011.  Samþykktin var bundin því skilyrði að verkið yrði unnið í samráði við framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar og að frágangur að verki loknu yrði með fullnægjandi hætti að mati þess.  Leyfið var jafnframt háð því skilyrði að leyfishafi færði eða fjarlægði lagnirnar á eigin kostnað kæmi til þess að slíkt yrði nauðsynlegt vegna framtíðarskipulags svæðisins eða ef hætt yrði notkun þeirra. 

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst ógildingar á umræddri samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 30. nóvember 2011.  Vísar hann til þess að kærð framkvæmd snerti hagsmuni hans sem íbúa í Reykjavík, húseiganda og íbúa í suðurhlíðum Úlfarsfells, útivistarsvæðis Reykvíkinga.  Kærandi búi í nálægð við Úlfarsfell og noti svæðið til útiveru og íþróttaiðkunar. 

Byggt sé á því að umrædd framkvæmd sé ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 og að vinna hefði þurft deiliskipulag vegna umræddra strengja.  Þá hafi rannsóknarreglu ekki verið gætt sem skyldi.  Hvorki hafi verið óskað eftir meðmælum Skipulagsstofnunar með framkvæmdinni né hafi þau verið veitt og því uppfylli leyfið ekki skilyrði laga.  Ljósleiðari muni liggja um opið svæði til sérstakra nota við rætur Úlfarsfells og um óbyggt svæði í efri hluta eystri hnjúks þess.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til Reykjavíkurborgar, dags. 18. ágúst 2011, séu tilvitnanir í skilmála greinargerðar aðalskipulags Reykjavíkur fyrir slík svæði.  Á fyrra svæðinu sé gert ráð fyrir mannvirkjagerð tengdri útivistarnotkun en á því síðara sé ekki gert ráð fyrir mannvirkjagerð heldur sé svæðið ætlað til útivistar.  Af þeim sökum rúmist umræddir strengir ekki innan skipulagsins.  Þá takmarki strengirnir hönnun og staðsetningu síðari tíma mannvirkja er tengist útivist, ef einhver verði, vegna helgunarsvæðis strengjanna.  Strengjunum sé jafnframt ætlað að tengjast fjarskiptamastri og húsi undir fjarskiptabúnað og standi þeir því ekki einir og sér heldur sé endabúnaður, sem sé fjarskiptmannvirki í formi mastra og tækjaskúrs, forsenda framkvæmdarinnar.  Umrætt fjarskiptamastur og hús fyrir slíkan búnað samræmist ekki landnotkun um óbyggð svæði. 

Þótt raftaug og ljósleiðari yrði tengd við núverandi hús og mastur á Úlfarsfelli, og framkvæmdaleyfi vegna rafstrengja og ljósleiðara rökstutt með hliðsjón af því, þá standist stöðuleyfi, sem Reykjavíkurborg hafi fyrst gefið úr árið 2009 fyrir þau mannvirki, ekki skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem þá hafi verið í gildi, né síðari lög um mannvirki nr. 160/2010 eða byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Því þurfi að fjarlægja þau mannvirki. 

Um þá athugasemd borgaryfirvalda að draga megi í efa að kærandi eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni í málinu tekur kærandi fram að borgaryfirvöld rökstyðji ekki þá staðhæfingu sína að fyrirhugað mastur á toppi Úlfarsfells hafi ekki áhrif á lögvarða hagsmuni hans, en það muni verða í um tveggja km fjarlægð frá heimili hans.  Gönguleiðir séu og um fellið og útivistarsvæði í hlíðum þess, sem kærandi nýti sér og hafi allar framkvæmdir sem skerði þessi gæði áhrif á hagsmuni hans.  Þá séu það og hagsmunir hans að uppbygging Úlfarsfellssvæðisins verði eins og að hafi verið stefnt en fyrirhuguð mannvirki á toppi fellsins hafi neikvæð áhrif á þá uppbyggingu.  Þá hafi kærandi kært án ástæðulauss dráttar eftir að honum hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun og sé kæra hans því fram komin innan kærufrests, eða sé a.m.k. tæk eftir ákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Komist nefndin hins vegar að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu þá telji hann að nefndinni beri samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að taka til úrlausnar þau atriði er varði lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.  Úrlausnarefnið takmarkist þannig ekki við þær málsástæður sem kærandi setji fram heldur nái það einnig til byggingarleyfis fyrir húsi og möstrum á Úlfarsfelli, stöðuleyfis fyrir núverandi fjarskiptamannvirki á fjallinu og feli í sér kröfu um að fjarlægja ljósleiðara og rafstreng og tengdar framkvæmdir í samræmi við skipulagslög, hvað sem líði skilyrðum sem tilgreind séu í bréfi Reykjavíkurborgar frá 23. maí 2012. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að málinu verði vísað frá, en að öðrum kosti að ógildingakröfu kæranda verði hafnað.  Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar sé byggð á því að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Í þessu máli liggi fyrir að kærandi búi í tveggja kílómetra fjarlægð frá fyrirhuguðu mastri á tindi Úlfarsfells.  Af þeim sökum eigi hann ekki lögvarða hagsmuni í málinu. 

Þá sé á því byggt að meðferð framkvæmdaleyfisumsóknarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010.  Bent sé á að umsóknir um framkvæmdir við Úlfarsfell hafi verið tvær og einungis sú síðari hafi verið samþykkt.  Þá hafi fyrirhugaður fjarskiptabúnaður á tindi fjallsins minnkað mikið að umfangi frá fyrri umsókn.  Við vinnslu síðari umsóknarinnar hjá Reykjavíkurborg hafi niðurstaðan orðið sú að ákvæði 1. tl. til bráðabirgða í skipulagslögum ætti ekki við.  Framkvæmdin sé ekki í ósamræmi við meginstefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024.  Þar sé ekki tekin afstaða til lagningar minni háttar jarðstrengja af því tagi sem hér sé fjallað um og gefin hafi verið út framkvæmdaleyfi fyrir stærri strengjum eða lögnum án þess að þær hafi verið sýndar í aðalskipulagi.  Í kafla um veitur sé fyrst og fremst fjallað um framkvæmdir við stærri stofn- og dreifilagnir.  Ekki sé talið nauðsynlegt að vinna deiliskipulag vegna minni háttar jarðstrengja og ekki hafi verið gerð krafa um deiliskipulagsgerð vegna stofnlagna í gildandi aðalskipulagi.  Umrætt framkvæmdaleyfi byggist því á 13. gr. skipulagslaga.  Framkvæmdin sem deilt sé um sé í samræmi við aðalskipulag varðandi alla ofangreinda þætti, auk þess sem hún sé það langt frá byggð að ákvæði um grenndarkynningu hafi ekki átt við. 

Auk framangreinds komi til álita hvort þessi framkvæmd, þ.e. lagning strengjanna upp fjallið, sé yfirleitt framkvæmdaleyfisskyld.  Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga sé einungis skylt að afla framkvæmdaleyfis vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess.  Ásýnd Úlfarsfells muni lítið sem ekkert breytast. 

Um gildi stöðuleyfis fyrir núverandi fjarskiptamannvirki á tindi Úlfarsfells séu allir tímafrestir varðandi kæru löngu liðnir, auk þess sem kærandi eigi enga lögvarða kröfu á hendur Reykjavíkurborg til að þau mannvirki verði fjarlægð.  Þá bresti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að auki vald til að kveða á um slíkt niðurrif. 

——————————-

Framkvæmdaleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu, sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn þess. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu rafstrengs og ljósleiðara upp suðausturhlíð Úlfarsfells.  Ekki felst hins vegar í hinni kærðu ákvörðun nein heimild til mannvirkjagerðar uppi á fellinu, hvorki við tækjaskýli og möstur né til uppsetningar búnaðar. 

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.  Er það í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins að aðild í kærumálum innan stjórnsýslunnar eigi þeir einir sem eigi einstaklingsbundinna og lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi kærða ákvörðun, sbr. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Framkvæmd sú sem heimiluð er með hinu kærða leyfi felur aðeins í sér lagningu strengja í jörðu á svæði sem fyrir er raskað með vegslóðum og troðningum og verður ekki séð að með henni hafi verið gengið gegn einstaklingsbundnum og lögvörðum hagsmunum kæranda, þrátt fyrir að hann búi í nálægð við framkvæmdasvæðið.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

36/2009 Klausturvegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a, Kirkjubæjarklaustri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, mótt. 22. maí 2009, kærir S, sem eigandi risíbúðar að Klausturvegi 3, Kirkjubæjarklaustri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a.  Sveitarstjórn staðfesti ákvörðunina hinn 9. febrúar sama ár. 

Með ódagsettu bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, sem móttekið var hinn 6. júlí 2009, er ennfremur kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 29. júní 2009, sem sveitarstjórn staðfesti 2. júlí s.á., um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi fyrrgreinds eignarhluta í húsinu að Klausturvegi 3-3a.  Þar sem sami aðili stendur að báðum kærumálunum sem snúast um byggingarleyfi fyrir breytingum á sama eignarhluta í nefndu fjöleignahúsi verður seinna kærumálið, sem er nr. 48/2009, sameinað máli þessu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 2. febrúar 2009 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi og nýtingu séreignarhluta á fyrstu hæð Klausturvegar 3-3a, auk efri hæðar Klausturvegar 3a, í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Sú afgreiðsla var staðfest í sveitarstjórn 9. s.m.  Vegna deilna kæranda og byggingarleyfishafa um eignarhald og umráð á stiga frá annarri hæð í risíbúð kæranda var veiting byggingarleyfisins afturkölluð og nýtt leyfi veitt 29. júní s.á. og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn eins og að framan greinir. 

Byggir kærandi á því að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi verið gengið á rétt hans til áðurnefnds stiga.  Hafi aðgangur hans að nefndri risíbúð verið hindraður auk þess sem hann hafi ekki samþykkt þá breyttu notkun sem hinar kærðu ákvarðanir heimiluðu.  Byggingarleyfishafi skírskotar hins vegar til þess að hann hafi keypt eignarhluta á 2. hæð að Klausturvegi 3-3a og hafi umræddur stigi verið í séreignarhluta hans.  Skaftárhreppur telur að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi engin afstaða verið tekin til staðsetningar umdeilds stiga eða umráðaréttar yfir honum. 

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna umdeilds byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda að eignarhluta í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Fyrir liggur að hið kærða byggingarleyfi, sem skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps samþykkti hinn 2. febrúar 2009, var afturkallað með samþykkt nefndarinnar hinn 29. júní s.á., þegar veitt var nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum.  Einnig liggur fyrir afrit af afsali kæranda til byggingarleyfishafa fyrir eignarhluta hans í umræddu húsi dags. 2. júní 2010 og þinglýst 4. s.m.  Frá þeim tíma hefur kærandi ekki hagsmuna að gæta vegna breytinga á nýtingu eða innra fyrirkomulagi eignarhluta í nefndri fasteign eða íhlutunarrétt í þeim efnum samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994. 

Með hliðsjón af greindum atvikum hefur kærandi nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinna kærðu ákvarðana og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

82/2010 Hraðastaðavegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 82/2010, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg í Mosfellsdal. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2010, er barst nefndinni 22. s.m., kærir M, Hraðastaðavegi 3, Mosfellsdal, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg.  Gerir kærandi þá kröfu að afgreiðsla nefndarinnar verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. desember 2010 var tekin fyrir umsókn kæranda, dags. 2. nóvember s.á., um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg og var hún afgreidd með svohljóðandi hætti:  „Skipulags- og byggingarnefnd er neikvæð fyrir erindinu þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir samræmast ekki gildandi aðal- og deiliskipulagi svæðisins.“  Þá kom fram að afgreiðsla nefndarinnar væri gerð með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og að kæranda yrði gert viðvart yrði afgreiðsla erindisins á annan veg í bæjarstjórn.  Jafnframt var vísað til þess að unnt væri að kæra ofangreinda samþykkt til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Kærandi vísar m.a. til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni að Hraðastaðavegi 3a séu hvorki í andstöðu við aðalskipulag né deiliskipulag svæðisins sem geri ráð fyrir landbúnaðarbyggingu á lóðinni.  Auk þess sé að finna fjölda fordæma í nágrenninu. 

Af hálfu bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi ekki verið lokaákvörðun í málinu.  Bent sé á að umsóknargögnum, sem lögð hafi verið inn hjá embætti byggingarfulltrúa, hafi í ýmsu verið ábótavant með tilliti til gildandi deiliskipulags og hafi kæranda verið gerð grein fyrir því.  Jafnframt sé vísað til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. janúar 2011, þar sem veittur hafi verið frestur til að bæta úr og undirstriki það að stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tekin í málinu. 

Niðurstaða:  Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs skipulagsfulltrúans í Mosfellsbæ, dags. 7. desember 2010, þar sem gerð var grein fyrir afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg, Mosfellsdal.  Samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar greinda afgreiðslu á fundi hinn 15. desember s.á.  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. mars 2011 samþykkt umsókn kæranda, dags. 4. mars s.á., um byggingu fjölnotahús á umræddri lóð.  Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 16. mars s.á.

Miðað við framanritað verður að fallast á að hin kærða ákvörðun hafi ekki bundið endi á meðferð málsins og hafi því ekki verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga 37/1993.  Þá liggur fyrir að umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss hefur nú verið samþykkt af hálfu bæjaryfirvalda og verður því að telja að kærandi eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti fyrrgreindrar afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 7. desember 2010.  Leiðir þetta hvort tveggja til frávísunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

85/2010 Boðaslóð

Með

Ár 2011, föstudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 85/2010, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 9. desember 2010 um að veita stöðuleyfi fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2010, er barst nefndinni 27. sama mánaðar, kærir R, Boðaslóð 5, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 9. desember 2010 að veita stöðuleyfi fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hins kærða leyfis. 

Málsatvik og rök:  Síðla árs 2010 var komið fyrir gámi á lóðinni að Boðaslóð 7 í Vestmannaeyjabæ.  Af því tilefni hafði kærandi samband við byggingaryfirvöld bæjarins með ósk um að gámurinn yrði fjarlægður.  Hinn 22. nóvember sama ár sendi skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til eiganda Boðaslóðar 7 þar sem bent var á að gámur utan gámasvæða væri háður stöðuleyfi og var farið fram á að hann yrði fjarlægður innan 14 daga.  Í kjölfarið var sótt um leyfi fyrir stöðu gámsins og veitti umhverfis- og skipulagsráð stöðuleyfi fyrir honum til 1. mars 2011 með því skilyrði að gámurinn yrði færður fimm metra frá lóðarmörkum Boðaslóðar 5.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 12. desember 2010. 

Kærandi telur meðferð hinnar kærðu ákvörðunar óviðunandi gagnvart íbúum að Boðaslóð 5.  Aldrei hafi verið leitað samþykkis íbúanna fyrir staðsetningu gámsins, en hann sé fáránlega staðsettur inni í miðju hverfi.  Ekki hafi verið veitt leyfi fyrir honum fyrr en eftir að kærandi hafi gert athugasemdir við stöðu gámsins og taki leyfi því til tveggja mánaða aftur í tímann.  Færsla gámsins um fimm metra frá lóðamörkum skipti engu, því hann sé til sömu óprýði í hverfinu og áður og skerði enn útsýni úr stofuglugga kæranda. 

Bæjaryfirvöld benda á að veiting hins kærða stöðuleyfis hafi verið lögum samkvæmt, en heimild fyrir veitingu slíks leyfis sé í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Gámurinn hafi verið staðsettur á umræddri lóð í tengslum við fyrirhugaða byggingu bílgeymslu á lóðinni og hafi þótt rétt að veita umsækjanda leyfisins svigrúm til 1. mars 2011 til þess að skila inn gögnum vegna byggingaráformanna.  Leyfið sé til stutts tíma og hafi ekki veruleg grenndaráhrif. 

Niðurstaða:  Hið kærða stöðuleyfi var tímabundið og rann út hinn 1. mars 2011 og samkvæmt upplýsingum byggingaryfirvalda mun umdeildur gámur þegar hafa verið fjarlægður af lóðinni Boðaslóð 7. 

Samkvæmt framansögðu hefur hið kærða stöðuleyfi runnið sitt skeið á enda og hefur það því ekki lengur réttarverkan að lögum.  Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá fram úrskurð um ógildingu leyfisins.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

26/2010 Hólmsheiði

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá frá 25. mars 2010 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2010, er barst nefndinni 6. sama mánaðar, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ ehf., eiganda landsspildu á Hólmsheiði, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2010 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með tveimur bréfum, dags. 4. maí 2010, er úrskurðarnefndinni bárust hinn 7. og 17. maí sama ár, kæra fimm landeigendur í Almannadal og við Langavatn fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun og krefjast ógildingar hennar.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi, verða þau kærumál, sem eru nr. 27/2010 og 30/2010, sameinuð máli þessu.

Málsástæður og rök:  Að undangenginni breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur var tillaga að deiliskipulagi auglýst að nýju en samhljóða skipulag hafði verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 24. júlí 2008.  Fól skipulagstillagan í sér afmörkun svæðis fyrir losun ómengaðs jarðvegs á Hólmsheiði í Reykjavík.  Athugasemdir báust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum í máli þessu.  Borgarráð staðfesti deiliskipulagstillöguna hinn 25. mars 2010 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl sama ár.

Á því er m.a. byggt af hálfu kærenda að hið kærða deiliskipulag fari á svig við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Reykjavíkur.  Þá sé ljóst að lög og reglugerðir hafi verið brotnar hvað varði skipulag, frágang og skýrleika skipulagsáætlana og samráð við hagsmunaaðila.  Um sé að ræða svæði sem ætlað hafi verið til útivistar en hafi nú verið breytt í losunarstað fyrir jarðveg.  Á svæðinu, sem sé við vatnsból Reykjavíkur, hafi verið losaður mengaður jarðvegur.  Jafnframt fylgi heimilaðri starfsemi fok jarðvegs og rusls yfir lönd kærenda auk ónæðis vegna umferðar og vinnuvéla.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur verið upplýst að á fundi skipulagsstjóra 24. september 2010 hafi verið lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir jarðvegsfyllingu á Hólmsheiði þar sem heimiluð yrði losun á ómenguðum jarðvegi á umræddu svæði til ársins 2020.  Hafi borgarráð samþykkt tillöguna hinn 21. október 2010, að lokinni kynningu hennar, og hafi deiliskipulagið öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. desember sama ár.  Með gildistöku skipulagsins hafi eldra deiliskipulag svæðisins, sem um sé deilt í máli þessu, fallið úr gildi.  Beri af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið tók gildi nýtt deiliskipulag sem heimilar jarðvegslosun á Hólmsheiði hinn 14. desember 2010.  Í bókun skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 13. október 2010, þar sem fallist var á tillögu að greindu skipulagi kemur fram að við samþykkt tillögunnar sé gert ráð fyrir að eldra deiliskipulag á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi 7. apríl 2010, og deiliskipulag fyrir miðlunargeyma á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi „30. febrúar 2008“, falli úr gildi.  Borgarráð staðfesti skipulagstillöguna 4. nóvember 2010.  Hefur greindri deiliskipulagsákvörðun verið skotið til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu og er hluti kærenda í máli þessu aðilar að því málskoti.

Samkvæmt framansögðu hefur hið kærða deiliskipulag í máli þessu fallið úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags fyrir Hólmsheiði og hefur það því ekki lengur réttarverkan að lögum.  Af þeim sökum hafa kærendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

79/2010 Bergstaðastræti

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 79/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 um að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2010, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. D, eiganda eignarhluta í fasteigninni að Bergstaðastræti 15, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. desember 2010 að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu 2. hæðar nýbyggingar við húsið að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir við heimilaða byggingu yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og kvað úrskurðarnefndin upp bráðabirgða-úrskurð hinn 24. janúar 2011 þar sem framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi voru stöðvaðar. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. febrúar 2010 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun byggingarleyfis sem samþykkt hafði verið 19. ágúst 2008 fyrir fjögurra hæða viðbyggingu með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og þremur íbúðum á annarri til fjórðu hæð á lóðinni nr. 13 við Bergstaðastræti.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 25. febrúar 2010.  Byggingarleyfi sem heimilaði að hefja framkvæmdir var gefið út hinn 30. ágúst 2010. 

Kærandi, ásamt öðrum, kærði ákvörðun um veitingu fyrrgreinds byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum 6. október 2010 felldi hana úr gildi, þar sem notkun annarrar til fjórðu hæðar heimilaðrar byggingar samræmdist ekki landnotkun gildandi aðalskipulags fyrir umrædda lóð. 

Í kjölfarið var veitt sérstakt byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð hússins og leituðu borgaryfirvöld jafnframt til Skipulagsstofnunar með erindi um að á grundvelli 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda leiðrétting á landnotkun umrædds svæðis, þar sem landnotkun hefði fyrir mistök borið lit athafna-svæðis í stað íbúðarsvæðis á aðalskipulagsuppdrætti.  Féllst Skipulagsstofnun á erindið fyrir sitt leyti og var málinu síðan vísað til umhverfisráðuneytisins sem annaðist staðfestingu og auglýsingu aðalskipulags samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997. 

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf út byggingarleyfi samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga hinn 8. desember 2010, er takmarkaðist við uppsteypu annarrar hæðar nýbyggingar sem verið er að reisa að Bergstaðastræti 13, en veiting leyfisins var afgreidd á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. desember sama ár.  Sú afgreiðsla var lögð fram á fundi skipulagsráðs 15. desember og staðfest í borgarráði 16. desember 2010.  Hefur veitingu þessa byggingarleyfis verið skotið til úrskurðar-nefndarinnar eins og að framan greinir. 

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni tilkynnti umhverfisráðuneytið Reykjavíkurborg í bréfi, dags. 17. janúar 2011, að ráðuneytið gæti ekki fallist á erindi borgarinnar um leiðréttingu á landnotkun umrædds svæðis á gildandi aðalskipulags-uppdrætti samkvæmt 23. gr. stjórnsýslulaga.  Byggðist sú niðurstaða á því að stjórnsýslulög ættu ekki við um skipulagsáætlanir, sbr. 1. gr. laganna, þar sem þær teldust vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli. 

Hinn 26. janúar 2011 samþykkti borgarráð tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem fól í sér að landnotkun umrædds götureits var breytt úr athafnasvæði í íbúðarsvæði.  Skipulagsstofnun staðfesti þá breytingu 17. febrúar 2011 og var auglýsing þar um birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. febrúar s.á. 

Byggingarfulltrúi samþykkti síðan hinn 22. febrúar 2011 að endurnýja byggingarleyfið fyrir fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, sem úrskurðarnefndin ógilti hinn 6. október 2010.  Borgarráð staðfesti veitingu byggingarleyfisins 24. febrúar sama ár og skaut kærandi þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 23. febrúar 2011. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að byggingarleyfi fyrir umdeildri fjögurra hæða viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 hafi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála verið fellt úr gildi þar sem leyfið hafi farið í bága við gildandi landnotkun svæðisins.  Kærandi hafi í kjölfarið krafist þess af borgaryfirvöldum að hin ólögmæta bygging yrði fjarlægð og lóðinni komið í fyrra horf í samræmi við þágildandi 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Borgaryfirvöld hafi hins vegar hinn 7. október 2010 veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu fyrstu hæðar viðbyggingarinnar.  Byggingarfulltrúi hafi nú veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir uppsteypu annarrar hæðar sem ætluð sé til íbúðar þrátt fyrir óbreytta landnotkun á svæðinu frá því að fyrrgreindur úrskurður gekk. 

Borgaryfirvöld benda á að í ljósi aðstæðna hafi verið heimilt og eðlilegt að veita hið umþrætta byggingarleyfi.  Fyrir liggi að umrædd bygging og það sem þegar hafi verið byggt sé hvorki í andstöðu við deiliskipulag né aðalskipulag.  Aðeins fyrirhuguð notkun hluta byggingarinnar til íbúðar komi þar til álita, en ekki sé búið að taka nýbygginguna í notkun.  Landnotkun á reitnum sé íbúðarsvæði og hafi svo alltaf verið.  Nú sé unnið að leiðréttingu mistaka við prentun aðalskipulagsuppdráttar.   Það sé vandséð hvaða hagsmuna kærandi eigi að gæta í máli þessu þar sem öllum efnislegum málatilbúnaði hans hafi verið hafnað í fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar um umrædda byggingu. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að í málinu athugasemdum sínum og sjónarmiðum en greinargerð af hans hálfu hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið veitti byggingarfulltúinn í Reykjavík nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildri viðbyggingu að Bergstaðastræti 13 í Reykjavík hinn 22. febrúar 2011.  Tekur það byggingarleyfi m.a. til byggingar annarrar hæðar viðbyggingarinnar sem hið kærða byggingarleyfi í máli þessu tekur til. 

Verður að líta svo á að með ákvörðuninni um veitingu hins nýja byggingarleyfis hafi hin kærða ákvörðun í máli þessu fallið úr gildi og hafi hún ekki lengur réttarverkun að lögum.  Samkvæmt því hefur kærandi, sem þegar hefur kært hina nýju ákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Bergstaðastræti 13, ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

20/2009 Sléttuvegur

Með

Ár 2011, föstudaginn 4. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 20/2009, kæra á samþykktum skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 6. s.m., kærir A, lóðarhafi Lautarvegar 2, Reykjavík, samþykktir skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. ágúst 2008 og 17. desember s.á. um breytt deiliskipulag neðan Sléttuvegar vegna lóðar C við Sléttuveg. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu samþykktir verði felldar úr gildi.  Þá er og gerð krafa um að framkvæmdir sem hafnar séu verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2007 samþykkti borgarráð deiliskipulag neðan Sléttuvegar í Fossvogi þar sem m.a. var gert ráð fyrir að á lóð C myndi rísa 70 íbúða fjölbýlishús fyrir námsmenn.  Hinn 27. ágúst 2008 samþykkti skipulagsráð breytingu á deiliskipulagi þessu er heimilaði að íbúðum í fjölbýlishúsinu yrði fjölgað um fimm eða úr 70 í 75.  Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2008.  Á fundi skipulagsráðs 17. desember s.á. var síðan samþykkt að íbúðir í húsinu yrðu 80.  Birtist auglýsing um gildistöku þeirrar samþykktar í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2009. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að málsmeðferð hinna kærðu samþykkta hafi verið andstæð ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem tillögur um breytt deiliskipulag hafi hvorki verið auglýstar né grenndarkynntar.  Með samþykktunum sé gengið gegn grenndarhagsmunum hans en skipulagsreiturinn neðan Sléttuvegar myndi eina heild og séu íbúðafjöldi, íbúafjöldi og umferð veigamiklir þættir í skipulagsgerðinni.  Í upphaflegu deiliskipulagi svæðisins hafi verið gert ráð fyrir sameiginlegu grænu svæði og leiksvæði er liggi að lóð kæranda og með auknum íbúðafjölda verði væntanlega fleiri um notkun svæðanna. 

Reykjavíkurborg hefur ekki skilað sérstakri greinargerð í málinu en af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að borgaryfirvöld hafi ekki talið þörf á að grenndarkynna umdeildar deiliskipulagsbreytingar þar sem þær fælu aðeins í sér fjölgun íbúða í húsinu sem ekki hefðu áhrif á hagsmuni nágranna. 

Niðurstaða:  Hinar kærðu ákvarðanir heimila fjölgun íbúða í fjölbýlishúsi með leiguíbúðum fyrir námsmenn úr 70 í 80 á lóð C við Sléttuveg.  Ekki var gerð breyting á ytra byrði hússins eða grunnfleti þess heldur var fjölguninni náð fram með breytingu á innri hönnun þess.  Umrætt fjölbýlishús stendur norðan við lóð kæranda, í nokkurri fjarlægð, og er aðkoma bíla að fjölbýlishúsinu og lóð kæranda ekki um sömu götu.  Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að á milli fasteignanna verði göngustígur, leikvöllur, fjölbýlishús með tuttugu íbúðum og útivistarsvæði. 

Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, sbr. 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Verður ekki séð, með hliðsjón af áðurgreindum staðháttum, að umdeild fjölgun íbúða snerti einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild varðandi hinar umdeildu ákvarðanir.  Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni vegna aðildarskorts. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Ómar Stefánsson

______________________________     ______________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

76/2010 Gámasvæði

Með

Ár 2011, þriðjudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2010, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. nóvember 2010 um heimild til staðsetningar grenndargáma á Akureyri.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með símbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2010, er barst nefndinni samdægurs, kærir J, Ránargötu 30 á Akureyri, þá ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 15. nóvember 2010 að heimila staðsetningu grenndargáma á fjórum stöðum í bænum. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gild. 

Málavextir og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Akureyrarbæjar 15. nóvember 2010 var eftirfarandi fært til bókar:  „Gámasvæði vegna sorpflokkunar. Leyfi fyrir staðsetningu … Erindi dags. 08.11.2010 frá Bergi Þorra Benjamínssyni f.h. framkvæmdadeildar þar sem hann óskar eftir leyfi til að setja niður gáma til sorpflokkunar á eftirtöldum stöðum á Akureyri.  Samþykki lóðarhafa og leigjenda um staðsetningarnar liggja fyrir.
Á verslunarlóðum:
1) Hrísalundur 5, Samkaup.
2) Byggðavegur 98, Strax.
Á svæði Akureyrarbæjar:
3) Kjarnagata sunnan við Bónus (heimild til staðar í deiliskipulagi).
4) Hólmatún austan leikskóla (heimild til staðar í deiliskipulagi).
Skipulagsnefnd heimilar staðsetningar grenndargáma samkvæmt meðfylgjandi tillögu framkvæmdadeildar til sorpflokkunar á ofangreindum stöðum til eins árs á grundvelli gr. 71.2 í byggingarreglugerð.“

Af hálfu kæranda er bent á að með hinni kærðu samþykkt fari skipulagsnefnd á svig við heimild í gr. 71.2 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 um bráðabirgðaleyfi til að setja niður grenndargáma.  Framkvæmd sem þessi sé ótvírætt deiliskipulagsskyld og með samþykktinni sé sveitarfélagið að hliðra sér hjá því að vinna deiliskipulag og þar með sé fest í sessi starfsemi í hverfum bæjarins sem íbúum hafi aldrei verið veitt færi á að tjá sig um.  Með þessu sé gróflega gengið á rétt íbúa.

Af hálfu Akureyrarbæjar er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu samþykktar mótmælt og vísað til þess að í grenndargámunum verði ekki lífrænt sorp og því sé ekki hætta á lyktarmengun frá þeim nema að mjög takmörkuðu leyti.

Ákveðið hafi verið að veita bráðabirgðastöðuleyfi þar sem um tilraunaverkefni sé að ræða en reynslan muni skera úr um hvort staðsetningarnar séu hentugar.  Að því fengnu verði gámastæði fest í deiliskipulagi viðkomandi svæða.  Með vísan til þessa sé því mótmælt að skipulagsnefnd sé með hinni kærðu samþykkt að hliðra sér hjá deiliskipulagsgerð.  

Niðurstaða:  Samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins er það skilyrði aðildar að kærumáli fyrir æðra stjórnvaldi að kærandi eigi verulegra og einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta í málinu.  Var þessi regla áréttuð hvað varðar málskot til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 74/2005.  Kærandi hefur ekki tilgreint með hvaða hætti hin umdeilda samþykkt varði einstaklega hagmuni hans heldur byggir hann málatilbúnað sinn alfarið á því áliti sínu að framkvæmdin sé deiliskipulagsskyld og að íbúum hafi aldrei verið veitt færi á að tjá sig um hana.  Þegar litið er þess að væntanleg staðsetning grenndargámanna er fjarri heimili kæranda verður ekki séð að hann eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í málinu sem eru skilyrði aðildar að kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Hefur kærandi ekki heldur bent á að hann eigi neina slíka hagsmuni af öðrum ástæðum og verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni vegna aðildarskorts. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

39/2008 MR reitur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 30. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 39/2008, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. apríl 2008 um deiliskipulag reits Menntaskólans í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. júní 2008, er barst nefndinni 12. sama mánaðar, kærir Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir hdl., f.h. K, þáverandi eiganda Þingholtsstrætis 14 í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. apríl 2008 að samþykkja deiliskipulag fyrir reit Menntaskólans í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. janúar 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi reits 1.180.0, Menntaskólareits.  Var málinu frestað og lagt fyrir skipulagshönnuð að leggja fram umsagnir Húsafriðunarnefndar ríkisins og Borgarminjavarðar vegna hússins að Bókhlöðustíg 7.  Skipulagsráð samþykkti síðan á fundi sínum hinn 29. júní 2005 að auglýsa skipulagstillöguna en þá lá fyrir umsögn Húsafriðunarnefndar ríkisins, dags. 31. janúar s.á.  Að lokinni auglýsingu tillögunnar samþykkti ráðið tillöguna hinn 31. ágúst 2005 með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð Reykjavíkur, en engar athugasemdir höfðu borist á kynningartíma hennar. 

Málið var á ný tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. janúar 2008 og lagður fram nýr skipulagsuppdráttur og greinargerð með breytingum frá fyrri tillögu, dags. 3. janúar 2008.  Skipulagsfulltrúi vísaði málinu til skipulagsráðs.  Samþykkti ráðið á fundi sínum 9. janúar 2008 að auglýsa tillöguna að nýju og vísaði málinu til borgarráðs.  Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 2. apríl 2008 þar sem lögð var fram umsögn Húsafriðunarnefndar ríkisins, dags. 1. desember 2005.  Athugasemdir við tillöguna höfðu borist frá nágranna að Þingholtsstræti 12.  Skipulagsráð samþykkti hina auglýstu skipulagstillögu, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 2. apríl 2008.  Borgarráð samþykkti tillöguna á fundi sínum hinn 3. apríl 2008.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist svo í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2008. 

Af hálfu kæranda er á því byggt að þétting byggðar á svæðinu og hin mikla uppbygging sem felist í hinni kærðu ákvörðun eigi sér ekki stoð í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og ekki sé tekið nægilegt mið af íbúðarbyggð þeirri sem fyrir sé.  Því sé mótmælt að ákvörðunin sé aðeins lítillega breytt frá tillögunni sem lögð hafi verið fram á árinu 2005, eins og borgaryfirvöld haldi fram.  Vikið sé frá lágmarkskröfum um fjölda bílastæða án þess að sýnt sé fram á að bílastæðaþörfinni verði mætt með öðrum hætti.  Leita hefði þurft eftir samráði við Borgarminjavörð og Húsafriðunarnefnd vegna hinnar breyttu skipulagstillögu, en ekki verði séð að það hafi verið gert.  Ekkert tillit sé tekið til hæðar á lóð kæranda við staðsetningu íþróttahúss menntaskólans svo nærri lóðamörkum á bak við hús hans.  Jarðhæð Þingholtsstrætis 14 verði eins og í gryfju miðað við íþróttahúsið, sem virki eins og langur fangelsisveggur bak við hús kæranda.  Birtuskilyrði muni skerðast verulega og skuggavarp verði mikið.  Loks hafi ekki verið hugað að því hvort unnt sé að koma fyrir byggingum neðanjarðar á reitnum í ljósi þess að í nágrenninu standi gömul hús og óvíst um hvort fasteign kæranda verði ekki fyrir tjóni við slíkt jarðrask. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Sé sú krafa á því byggð að kærandi í máli þessu eigi enga lögvarða hagsmuni lengur af því að fá skorið úr um gildi hins kærða deiliskipulags.  Í ljós hafi komið að hann sé ekki lengur eigandi Þingholtsstrætis 14, en málatilbúnaður kæranda hafi einkum lotið að því að hið kærða deiliskipulag raski hagsmunum hans sem eiganda þeirrar fasteignar.  Þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fyrirliggjandi upplýsingar úr veðmálabókum beri með sér að Íslandsbanki hafi eignast Þingholtsstræti 14 á nauðungarsölu hinn 12. apríl 2010 og hafi síðan selt núverandi eiganda fasteignina tveimur dögum síðar. 

Kærandi gerir þá athugasemd við framkomna frávísunarkröfu að hann eigi töluverðra hagsmuna að gæta við úrlausn máls þessa.  Hann hafi selt fasteign sína en þeim kaupum hafi verið rift vegna hins kærða skipulags, sem aldrei hafi verið kynnt kæranda á sínum tíma, og í kjölfarið hafi hann tapað eign sinni.  Kærandi hafi beðið úrskurðar í máli þessu og ítrekað hringt og sent tölvupóst til úrskurðarnefndarinnar með fyrirspurnum um framvindu málsins og hvort verið væri að bíða eftir fyrningu þess.  Hann hafi fengið þau svör að málið fyrntist ekki í meðförum nefndarinnar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er aðild að kærumálum, sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, bundin við þá sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni hinni kærðu ákvörðun.  Er það í samræmi við meginreglur íslensks stjórnarfarsréttar að kæruaðild í kærumálum innan stjórnsýslunnar eigi þeir einir sem eiga einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi kærða ákvörðun. 

Samkvæmt fyrirliggjandi veðbandayfirliti fyrir fasteignina að Þingholtsstræti 14 í Reykjavík fór hún úr eigu kæranda við útgáfu nauðungarsöluafsals til Íslandsbanka hf. hinn 12. apríl 2010.  Eignin var síðan seld þriðja aðila með kaupsamningi, dags. 16. apríl sama ár.  Snertir hin kærða deiliskipulagsákvörðun því ekki lengur lögvarin réttindi kæranda sem fasteignareiganda á umræddu svæði, en ákvörðun um mögulegan rétt til skaðabóta vegna gildistöku skipulagsins á ekki undir úrskurðarnefndina. 

Með hliðsjón af framangreindu á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun, en umbeðin málsgögn bárust ekki úrskurðarnefndinni frá borgaryfirvöldum fyrr en 7. september 2010. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson