Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/2010 Hólmsheiði

Ár 2011, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson hdl., staðgengill forstöðumanns, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2010, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá frá 25. mars 2010 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2010, er barst nefndinni 6. sama mánaðar, kærir Guðbjarni Eggertsson hdl., f.h. Þ ehf., eiganda landsspildu á Hólmsheiði, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 25. mars 2010 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi um afmörkun á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með tveimur bréfum, dags. 4. maí 2010, er úrskurðarnefndinni bárust hinn 7. og 17. maí sama ár, kæra fimm landeigendur í Almannadal og við Langavatn fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun og krefjast ógildingar hennar.  Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi, verða þau kærumál, sem eru nr. 27/2010 og 30/2010, sameinuð máli þessu.

Málsástæður og rök:  Að undangenginni breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur var tillaga að deiliskipulagi auglýst að nýju en samhljóða skipulag hafði verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála hinn 24. júlí 2008.  Fól skipulagstillagan í sér afmörkun svæðis fyrir losun ómengaðs jarðvegs á Hólmsheiði í Reykjavík.  Athugasemdir báust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum í máli þessu.  Borgarráð staðfesti deiliskipulagstillöguna hinn 25. mars 2010 og öðlaðist hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl sama ár.

Á því er m.a. byggt af hálfu kærenda að hið kærða deiliskipulag fari á svig við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulag Reykjavíkur.  Þá sé ljóst að lög og reglugerðir hafi verið brotnar hvað varði skipulag, frágang og skýrleika skipulagsáætlana og samráð við hagsmunaaðila.  Um sé að ræða svæði sem ætlað hafi verið til útivistar en hafi nú verið breytt í losunarstað fyrir jarðveg.  Á svæðinu, sem sé við vatnsból Reykjavíkur, hafi verið losaður mengaður jarðvegur.  Jafnframt fylgi heimilaðri starfsemi fok jarðvegs og rusls yfir lönd kærenda auk ónæðis vegna umferðar og vinnuvéla.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur verið upplýst að á fundi skipulagsstjóra 24. september 2010 hafi verið lögð fram tillaga að deiliskipulagi fyrir jarðvegsfyllingu á Hólmsheiði þar sem heimiluð yrði losun á ómenguðum jarðvegi á umræddu svæði til ársins 2020.  Hafi borgarráð samþykkt tillöguna hinn 21. október 2010, að lokinni kynningu hennar, og hafi deiliskipulagið öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. desember sama ár.  Með gildistöku skipulagsins hafi eldra deiliskipulag svæðisins, sem um sé deilt í máli þessu, fallið úr gildi.  Beri af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið tók gildi nýtt deiliskipulag sem heimilar jarðvegslosun á Hólmsheiði hinn 14. desember 2010.  Í bókun skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 13. október 2010, þar sem fallist var á tillögu að greindu skipulagi kemur fram að við samþykkt tillögunnar sé gert ráð fyrir að eldra deiliskipulag á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi 7. apríl 2010, og deiliskipulag fyrir miðlunargeyma á Hólmsheiði, sem tekið hafi gildi „30. febrúar 2008“, falli úr gildi.  Borgarráð staðfesti skipulagstillöguna 4. nóvember 2010.  Hefur greindri deiliskipulagsákvörðun verið skotið til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu og er hluti kærenda í máli þessu aðilar að því málskoti.

Samkvæmt framansögðu hefur hið kærða deiliskipulag í máli þessu fallið úr gildi við gildistöku hins nýja deiliskipulags fyrir Hólmsheiði og hefur það því ekki lengur réttarverkan að lögum.  Af þeim sökum hafa kærendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson