Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2019 Grindavík gjaldskrá

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 27. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 76/2019, kæra á gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og á gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Efstahrauni 27, Grindavík, gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019. Er þess krafist að gjaldskrárnar verði felldar úr gildi og að samdar verði nýjar gjaldskrár sem standist 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 29. nóvember 2019.

Málsatvik og rök: Kærandi er eigandi þriggja fasteigna í Grindavíkurbæ. Álagningarseðlar fasteignagjalda hjá sveitarfélaginu vegna fasteigna kæranda fyrir árið 2019 eru dagsettir 8. febrúar s.á. og var kæranda með þeim seðlum gert að greiða m.a. holræsagjald og vatnsgjald. Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 30. apríl s.á. var samþykkt ný gjaldskrá um vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019 og ný gjaldskrá nr. 469/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Tóku þær gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí s.á. Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 26. nóvember 2019 var samþykkt gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ og tók hún gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 1. janúar 2020, en við gildistökuna féll gjaldskrá nr. 469/2019 úr gildi. Hinn 5. febrúar s.á. voru fasteignagjöld ársins 2020 lögð á fasteignir kæranda, þ. á m. holræsagjald og vatnsgjald.

Kærandi bendir á að skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga skuli reikningar ekki nema hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar. Á tæplega níu ára tímabili hafi 195.000.000 kr. tekjur verið færðar úr sjóðum vatns- og fráveitu til bæjarsjóðs. Tekjurnar hafi ekki lækkað skuldastöðu veitnanna og því séu reiknaðir himinháir vextir á neikvæðan höfuðstól sem ætti fyrir löngu að vera orðinn jákvæður. Ekki verði unað við ólöglega gjaldtöku sveitarfélagsins.

Af hálfu Grindavíkurbæjar er farið fram á frávísun málsins þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni. Ef ekki verði fallist á frávísun sé farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað. Kæran byggist á misskilningi um bókhald og reikningsskil sveitarfélaga, sem og rangtúlkun á ársreikningum vatns- og fráveitu sveitarfélagsins. Veiturnar séu reknar í samræmi við gildandi lög og reglur, þ.e. lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, reglugerð nr. 982/2010 um fráveitu sveitarfélaga,  lög nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga og reglugerð nr. 401/2005 um vatnsveitur sveitarfélaga. Tekjur veitnanna þurfi að standa undir öllum útgjöldum hennar. Sveitarfélagið hafi aldrei tekið arð af rekstri þeirra og sé fjármagnskostnaður eingöngu vegna lánsfjár. Árleg endurskoðun endurskoðenda bæjarins vegna starfsemi veitnanna hafi undantekningarlaust verið án athugasemda. Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að gjaldskrár séu fjarri því að vera of háar og þyrftu í raun að vera hærri en þær séu, a.m.k. miðað við það þensluástand sem hafi verið undanfarið.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðra ákvarðana til endurskoðunar en tekur ekki nýjar ákvarðanir í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að samdar verði nýjar gjaldskrár. Þá sækir gjaldskrá vatnsveitu Grindavíkurbæjar nr. 468/2019 stoð sína í 10. gr. laga nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga en almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í þeim lögum. Ágreiningi vegna þeirrar gjaldskrár verður því ekki vísað til úrskurðarnefndarinnar.

Gjaldskrár sem slíkar teljast ekki vera stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er hvorki að finna í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 né öðrum lagabálkum. Þá mæla fyrrnefnd lög um uppbyggingu og rekstur fráveitna ekki fyrir um að heimilt sé að kæra gjaldskrár sem settar eru á grundvelli þeirra laga. Einstaklingar og lögaðilar hafa ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu gjaldskráa fyrr en álagning á grundvelli þeirra fer fram. Slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegar mælt er svo fyrir um í lögum. Á það t.a.m. við um hina kærðu gjaldskrá nr. 469/2019 um fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ sem sett er með stoð í 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna, en fram kemur í 22. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Líkt og greinir í málavöxtum tók gjaldskrá nr. 469/2019 ekki gildi fyrr en 21. maí s.á. en þá hafði álagning fasteignagjalda vegna ársins 2019 þegar átt sér stað. Gjaldskráin féll síðan úr gildi 1. janúar 2020 við gildistöku gjaldskrár nr. 1117/2019. Álagning á grundvelli hinnar kærðu gjaldskrár fór því aldrei fram og liggur því ekki fyrir álagning á grundvelli hennar sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hinar kærðu gjaldskrár til endurskoðunar, sbr. fyrrnefnda 1. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

117/2018 PCC Bakka umframgjald

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi PCC Bakka Silicon hf. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir PCC Bakki Silicon hf., Bakkavegi 2, Húsavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi kæranda fyrir rekstri kísilverksmiðju. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara er þess krafist að gjaldið verði lækkað.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 23. og 26. október 2018.

Málavextir: Kærandi sótti um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar í september 2014 og fóru fram óformleg samskipti þeirra í milli í kjölfarið. Í bréfi, dags. 24. september 2015, var umsókninni veitt formleg viðtaka auk þess sem kærandi var upplýstur um að vinna stofnunarinnar við gerð starfsleyfa gæti reynst mun meiri en gert væri ráð fyrir í föstu leyfisgjaldi samkvæmt gjaldskrá fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi til handa kæranda 8. nóvember 2017 og var það birt 13. s.m. á heimasíðu stofnunarinnar. Með tölvuskeyti 15. s.m. var kæranda tilkynnt um viðbótarkostnað vegna vinnslu starfsleyfisins og tímaskýrsla send með. Loks var kæranda sent bréf, dags. 23. s.m., þar sem gerð var grein fyrir viðbótarkostnaði við vinnu starfsleyfisins að fjárhæð kr. 7.616.400 og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við innheimtuna. Reikningur var gefinn út sama dag og sendur með bréfinu. Kærandi sendi bréf til Umhverfisstofnunar, dags. 29. nóvember 2017, þar sem innheimtu og fjárhæð viðbótargjaldsins var mótmælt. Umhverfisstofnun sendi kæranda bréf, dags. 21. ágúst 2018, þar sem fram kom að reikningur hefði verið gefinn út fyrir mistök samhliða því að bréf hefði verið sent með upplýsingum um umframkostnaðinn. Innheimta hefði þegar verið stöðvuð eftir ábendingu kæranda. Var forsendum fyrir nefndum umframkostnaði lýst nánar og jafnframt tekið fram að 56 tímar af þeim viðbótartímum sem gjald hefði verið innheimt fyrir hefðu verið unnir í tíð eldri gjaldskrár, þegar tímagjald hafi verið kr. 11.900 í stað kr. 13.200. Var upphæð viðbótargjaldsins lækkuð um kr. 72.800 og varð því heildarupphæð þess kr. 7.543.600. Kom fram að annar reikningur yrði gefinn út á næstu dögum og er sá reikningur frá 5. september 2018.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir innheimtu viðbótargjalds og fjárhæð þess. Innheimta Umhverfisstofnunar á fastagjaldi vegna starfsleyfisumsókna og viðbótargjaldi byggi á fyrrgreindri gjaldskrá nr. 535/2015, sem sett hafi verið með stoð í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar sé mælt fyrir um að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða taki að sér. Þurfi því innheimta stofnunarinnar eðli málsins samkvæmt að eiga sér stoð í fyrirmælum gjaldskrárinnar. Byggt sé á því að ekki sé stoð fyrir innheimtu umrædds viðbótargjalds í gjaldskrá stofnunarinnar, eins og hér hátti til. Í c-lið 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar segi að þegar ljóst sé að útgáfa leyfis hafi í för með sér umframvinnu skuli umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Reikningur vegna frekari vinnu skuli gefinn út áður en starfsleyfi sé gefið út. Sams konar ákvæði hafi verið að finna í 4. gr. áðurgildandi gjaldskrár stofnunarinnar nr. 1281/2013.

Kæranda hafi hvorki verið gerð grein fyrir að útgáfa leyfis hefði í för með sér umframvinnu né fyrir umfangi þeirrar vinnu fyrr en eftir útgáfu starfsleyfis. Það sé bæði í andstöðu við skýrt orðalag gjaldskrárinnar þar sem gert sé ráð fyrir því að umsækjanda sé fyrir fram gert viðvart um umfang umframvinnu og eftir atvikum það sem fram hafi komið í bréfi Umhverfisstofnunar frá 24. september 2015, þ.e. að kæranda yrði sérstaklega tilkynnt ef til umframvinnu kæmi. Þar sem farið hafi verið gegn framangreindum fyrirmælum, sem sett hafi verið til að tryggja hagsmuni umsækjenda, geti innheimta umrædds viðbótargjalds ekki staðist.

Viðbótargjaldið nemi verulegri fjárhæð og sé umframvinna, eins og skilgreind sé, meira en 90% af heildarreikningi. Ekki hafi verið gerð grein fyrir umfangi þessarar vinnu fyrir fram eða umsækjanda gert viðvart um hana á annan hátt en með almennri tilkynningu sem send hafi verið við byrjun vinnu vegna umsóknarinnar. Þessi málsmeðferð standist ekki þær kröfur sem gerðar séu til stjórnvalds sem leyfisveitanda, enda beinlínis ráðgert að fyrir fram sé gerð grein fyrir umframvinnu í samræmi við sjónarmið um fyrirsjáanleika og réttaröryggi.

Markmiðið sé bersýnilega að umsækjandi hafi að minnsta kosti hugmynd um umfang vinnu og kostnað sem af henni hljótist áður en út í hana sé farið. Slíkt sé sérstaklega mikilvægt þegar viðbótargjaldtaka sé af þeirri stærðargráðu sem hér um ræði. Þá sé áréttað að meginreglan sé sú að borgarar verði ekki látnir bera kostnað af einstökum kostnaðarliðum við rekstur opinberra stofnana án lagaheimildar. Mælt sé fyrir um að Umhverfisstofnun þurfi að setja sér gjaldskrá sem innheimta byggist á. Stofnuninni sé því skylt að haga innheimtu til samræmis við fyrirmæli hennar, þar með skýr fyrirmæli c-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar um innheimtu viðbótargjalds, en því hafi ekki verið fylgt.

Hvað sem öðru líði sé byggt á því að skráður tímafjöldi vegna vinnu við útgáfu starfsleyfisins fari langt fram úr því sem eðlilegt geti talist, t.a.m. hafi verið varið um 297 klst. í vinnu við gerð tillögu.

Kærandi hafi óskað eftir upplýsingum hjá Umhverfisstofnun um skráðan tímafjölda við gerð starfsleyfa í sambærilegum málum. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 21. ágúst 2018, komi fram að skráður tímafjöldi í nýlegum starfsleyfum fyrir starfsleyfi í 1. flokki sé á bilinu 107-271 tími. Í rökstuðningi Umhverfisstofnunar fyrir skráðum tímafjölda komi t.a.m. fram að breytingar hafi verið gerðar á lögum nr. 7/1998 um mitt árið 2017, sem geri það að verkum að vinnsla starfsleyfisins hafi orðið tímafrekari en ella. Í engu sé gerð grein fyrir því hvernig lagabreyting hafi haft áhrif á útgáfu starfsleyfisins. Vísist einnig til bréfs, dags. 23. nóvember 2017.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segi að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða stofnunin taki að sér. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður. Skuli birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Í staðfestri gjaldskrá stofnunarinnar sé kveðið á um tímagjald í 1. gr. og gjald fyrir vinnslu starfsleyfa í 4. gr. Í c-lið 2. mgr. 4. gr. segi að fyrir frekari vinnu við gerð starfsleyfistillagna, vinnslu og afgreiðslu innsendra athugasemda og fyrir kynningu, þ.m.t. borgarafund um kynningu á starfsleyfistillögu, skuli greiða tímagjald samkvæmt 1. gr., ferðakostnað samkvæmt 2. gr. og annan útlagðan kostnað. Sjá megi á yfirliti tímaskráningar að vinnan við starfsleyfistillöguna hafi verið sundurliðuð í samræmi við framangreindar kröfur, m.a. gerð tillögu, yfirferð gagna, auglýsingu og kynningu. Þó nokkur vinna geti fallið til við afgreiðslu og lokavinnslu starfsleyfa, einkum fyrir umfangsmeiri starfsemi, eins og þá sem hér um ræði. Sé talið ljóst að tímaskráningar hafi verið í samræmi við ákvæði gjaldskrárinnar og 53. gr. laga nr. 7/1998.

Umhverfisstofnun hafi alltaf litið svo á að tilgangur ákvæðis gjaldskrár um að gefa skuli út reikning áður en starfsleyfi sé gefið út sé að tryggja að umsækjandi standi skil á gjaldinu og ekki séu veittar heimildir til losunar mengunarefna án þess að greiða þann kostnað sem leiði af vinnslu slíks leyfis. Reynslan sýni hins vegar að hverfandi hætta sé á að reikningur vegna vinnslu starfsleyfis innheimtist ekki og því ekki talin þörf á að láta rekstraraðila bíða eftir lokaniðurstöðu varðandi gjaldtöku áður en leyfið sé gefið út. Kærandi hafi lagt áherslu á útgáfu starfsleyfisins og hafi stofnunin litið svo á að kærandi hefði meiri hagsmuni af því að fá leyfið gefið út en að kostnaður væri gerður upp, enda hefði vinnsla starfsleyfisins tekið langan tíma. Hafi ekki verið talið tækt að láta kæranda bíða nokkrar vikur eftir útgáfu reiknings, enda gert ráð fyrir að umsækjandi hafi andmælarétt vegna áformaðrar innheimtu.

Tekið sé undir að sú regla að gerð sé grein fyrir umframkostnaði og umsækjanda sé gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaða innheimtu sé sett til að tryggja hagsmuni rekstraraðila. Áréttað sé að kæranda hafi verið gefinn sanngjarn og rúmur tími til að gera athugasemdir við fyrirhugaða innheimtu. Innheimtu reikningsins hafi verið frestað á ný vegna framkominnar kæru.

Hafa beri í huga að Umhverfisstofnun hefði sent reikning vegna umræddrar vinnu jafnvel þótt kærandi hefði óskað eftir því á lokastigi málsins að fá ekki útgefið starfsleyfi eða ef útgáfu starfsleyfis hefði verið synjað. Það sé í samræmi við greiðslureglu umhverfisréttarins, sem sé forsenda ákvæða um gjöld fyrir vinnslu starfsleyfis fyrir starfsemi sem geti haft í för með sér mengun. Um sé að ræða þjónustugjald, sbr. áðurnefnt ákvæði 53. gr. laga nr. 7/1998, en grundvöllurinn að baki þjónustugjöldum sé að greiddur sé raunkostnaður fyrir veitta þjónustu. Geri stofnunin því athugasemd við það sem fram komi í kæru að borgarar verði ekki látnir bera kostnað af einstökum kostnaðarliðum án lagaheimildar. Skýr heimild sé fyrir gjaldtöku vegna viðbótarkostnaðar vegna vinnslu starfsleyfis í gjaldskrá, staðfestri af ráðherra, sem byggi á heimild í 53. gr. laga nr. 7/1998. Engar röksemdir hafi komið fram um að ákvæði c-liðar í 2. mgr. 4. gr. í gjaldskránni hafi ekki lagastoð.

Þrátt fyrir bréf stofnunarinnar, dags. 24. september 2015, hafi engin fyrirspurn borist frá kæranda um áfallinn kostnað á vinnslutíma starfsleyfisins. Hefði kæranda mátt vera ljóst að í margvíslegum samskiptum hans og verkfræðistofu af hans hálfu við Umhverfisstofnun væri falin talsverð vinna af hálfu stofnunarinnar. Í tölvupósti stofnunarinnar, dags. 30. júní 2015, hafi t.d. verið kallað eftir viðbótargögnum, settar fram spurningar og bent á að vöktunaráætlun væri í rýni. Jafnframt hafi verið óskað eftir minnisblaði um lykt.

Umsókn um starfsleyfi til handa kæranda hafi borist Umhverfisstofnun í september 2014. Upphafleg drög að starfsleyfistillögu hafi verið send honum 2. nóvember 2015. Viðbrögð kæranda við þeirri tillögu hafi borist 20. mars 2016 og ýmis samskipti hafi átt sér stað við hann í kjölfarið. Eins og kæranda hafi verið gerð grein fyrir geti það leitt til viðbótarkostnaðar sé gert hlé á vinnslu máls þar sem ákveðinn tími fari í upprifjun þegar öðrum málum hafi verið sinnt í millitíðinni. Viðbrögð stofnunarinnar við athugasemdunum hafi verið send 24. maí 2016.

Í tímaskýrslu vegna vinnslu starfsleyfis kæranda séu teknir saman tímar sérfræðinga í starfsleyfisgerð, sérfræðings í loftgæðum, sérfræðings í fráveitum, lögfræðings, teymisstjóra og sviðsstjóra. Starfsemi kísilversins sé umfangsmikil og feli í sér losun bæði í loft og vatn og samvinna við sérfræðinga í þeim efnum því nauðsynleg. Fá starfsleyfi hafi verið gefin út á Íslandi fyrir sambærilega starfsemi. Um mitt árið 2017 hafi verið gerðar breytingar á lögum nr. 7/1998. Laga hafi þurft kröfur í starfsleyfi kæranda að breyttum kröfum í lögunum sem hafi m.a. falið í sér breytta skilgreiningu á bestu aðgengilegu tækni, breyttar kröfur um starfsleyfisskilyrði, þ.m.t. um vægi BAT-niðurstaðna, og breytt ákvæði um eftirlit. Áhrif nefndra breytinga megi sjá í starfsleyfinu, m.a. í ákvæði 3.1, þar sem einnig komi fram að nýjar BAT-niðurstöður hafi verið birtar á vinnslutíma starfsleyfisins. Af þessu leiði einnig að ekki hafi gilt sömu kröfur við útgáfu umrædds starfsleyfis og hafi gilt þegar síðustu starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju hafi verið gefin út.

Við gerð starfsleyfisins hafi farið fram ítarleg skoðun á ákvæðum um þungmálma og á líkönum sem fjalli um dreifingu og mælingar, m.a. vegna óska kæranda um hærri heimild til losunar á blýi en Umhverfisstofnun hafi lagt upp með. Upplýsingar frá kærendum um gjallmyndun hafi jafnframt breyst. Vandamálið hafi reynst stafa af mismunandi skilgreiningum. Mikilvægt hafi verið að fara ítarlega yfir álitamálið með tilliti til forsendna mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt hafi verið farið yfir áætlanir um mælingar og umhverfisvöktun við gerð starfsleyfisins, sbr. tölvuskeyti frá 23. maí 2017, þar sem fram hafi komið að í kjölfar fjögurra vinnufunda hafi starfsleyfistillaga verið uppfærð. Líti stofnunin svo á að með nefndu skeyti hafi jafnframt verið gerð grein fyrir umframvinnu við starfsleyfisgerð.

Vegna ófyrirséðra neikvæðra áhrifa reksturs kísilvers við Helguvík á loftgæði í íbúabyggð hafi við vinnslu starfsleyfis kæranda verið lögð sérstök áhersla á samanburð á tækni kísilvera með starfsleyfi á Íslandi til að skoða hvort sambærileg hætta væri á lyktarmengun og orðið hefði vart við í Helguvík. Hafi því verið óskað eftir aðstoð sérfræðinga í eftirlitsteymi stofnunarinnar við starfsleyfisgerðina. Hafi framangreindir þættir haft áhrif á umfang vinnu við gerð tillögu. Athugasemdir sem fram hafi komið á kynningartíma hafi kallað á sérstaka athugun m.a. hjá Skipulagsstofnun og hafi úrvinnsla athugasemda verið nokkuð tímafrek, sbr. skráningu á verkþáttinn úrvinnsla athugasemda og undirbúningur afgreiðslu. Vegna umfangs og eðlis starfseminnar hafi verið lögð áhersla á að vinna ítarlegt starfsleyfi með það að markmiði að stjórn mengunarvarna og eftirlit yrði sem allra best.

Niðurstaða: Kærandi lagði fram umsókn um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar í september 2014. Stofnunin sendi bréf til kæranda, dags. 24. september 2015, með titlinum „Tilkynning um móttöku umsóknar um starfsleyfi og upplýsingar um kostnað vegna vinnslu starfsleyfis.“ Í bréfinu kemur fram að starfsemin sem sótt sé um leyfi fyrir falli undir 1. eftirlitsflokk, sbr. 5. tölul. í fylgiskjali 1 og tölul. 2.5 í I. viðauka í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Kostnaður vegna móttöku, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu sé skv. 4. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar, kr. 636.000. Í niðurlagi bréfsins er vakin athygli á því að vinna stofnunarinnar við gerð starfsleyfa geti farið fram úr þeim forsendum sem notaðar séu til að reikna út kostnað í gjaldskránni. Því geti komið til þess að síðar verði innheimtur aukakostnaður samkvæmt verkbókhaldi stofnunarinnar. Ef til þess komi verði kærandi upplýstur um það og honum gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun um innheimtu verði tekin. Reikningur verði sendur út síðar.

Samkvæmt framlögðum gögnum úr verkbókhaldi Umhverfisstofnunar vegna vinnu við starfsleyfið fór fram vinna við það frá því í febrúar 2015 og þar til leyfið var gefið út 8. nóvember 2017, með einhverjum hléum. Samkvæmt bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 23. nóvember 2017, er gert ráð fyrir 40 klst. vinnu við starfsleyfi samkvæmt föstu gjaldi, en ljóst er að vinna við starfsleyfi kæranda fór langt fram úr því. Samkvæmt framangreindu bréfi nam vinnan 617 klukkustundum og ákvað stofnunin að innheimta fyrir 577 klukkustunda vinnu, kr. 13.200 fyrir hverja klst., eða alls kr. 7.616.400. Síðar var ákveðið að lækka innheimtan kostnað vegna umfram vinnu um kr. 72.800, vegna eldri gjaldskrár og varð hann því kr. 7.543.600. Var þetta tilkynnt með bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 21. ágúst 2018 og var fyrri reikningurinn afturkallaður. Seinni reikningurinn er frá 5. september 2018.

Heimild til gjaldtöku Umhverfisstofnunar fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér er í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt ákvæðinu setur ráðherra, að fengnum tillögum stofnunarinnar, gjaldskrá fyrir þjónustuna. Skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt framangreindu eiga reglur er gilda um þjónustugjöld við um nefnda gjaldtöku.

Auglýsing um gjaldskrá fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar nr. 535/2015 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2015. Samkvæmt 1. gr. hennar er gjald fyrir útselda vinnu sérfræðings kr. 11.900 á hverja klukkustund fyrir verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 4. gr. auglýsingarinnar er fastagjald fyrir móttöku umsóknar, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu kr. 636.000 fyrir 1. eftirlitsflokk. Samkvæmt b-lið 2. mgr. skal greiða tímagjald samkvæmt 1. gr., ferðakostnað samkvæmt 2. gr. og annan útlagðan kostnað fyrir frekari vinnu við gerð starfsleyfistillagna, vinnslu og afgreiðslu innsendra athugasemda og fyrir kynningu, þ.m.t. borgarafund um kynningu á starfsleyfistillögu. Með auglýsingu nr. 178/2016, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 25. febrúar 2016, var framangreindri gjaldskrá breytt, m.a. þannig að tímagjald fyrir vinnu sérfræðings varð kr. 13.200 og fast gjald fyrir starfsleyfi fyrir 1. eftirlitsflokk varð kr. 705.000. Eins og fram hefur komið var í seinni útgefnum reikningi hluti vinnu Umhverfisstofnunar reiknaður samkvæmt eldri gjaldskránni en eftir gildistöku auglýsingar nr. 178/2016 var innheimt samkvæmt henni.

Eins og að framan greinir hefur Umhverfisstofnun lagt fram gögn úr verkbókhaldi stofnunarinnar vegna vinnu við umrætt starfsleyfi og jafnframt gefið skýringar á því í hverju vinnan hafi falist og hvers vegna hún hafi orðið jafn mikil og raunin varð. Miðað við umfang starfseminnar sem um ræðir og þann tíma sem vinnsla leyfisins hefur tekið þykir ekki um óeðlilega marga tíma að ræða. Þegar hefur verið fjallað um ákvæði í gjaldskrá Umhverfisstofnunar um tímagjald fyrir sérfræðivinnu og starfsleyfisgerð. Ekki leikur vafi á að um lögmæta gjaldskrá er að ræða, sem var samin og birt í samræmi við 53. gr. laga nr. 7/1998. Var því með reikningi Umhverfisstofnunar verið að innheimta lögmætan kostnað fyrir unna vinnu í samræmi við heimild 53. gr.

Í niðurlagi b-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar segir að þegar ljóst sé að útgáfa leyfis hafi í för með sér umframvinnu skuli umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Reikningur vegna frekari vinnu skuli gefinn út áður en starfsleyfi sé gefið út. Eins og fram hefur komið fór Umhverfisstofnun ekki eftir nefndum fyrirmælum við innheimtu umframgjaldanna. Kærandi var látinn vita fyrir fram að ef viðbótarvinna færi fram yrði innheimt fyrir hana samkvæmt gjaldskrá, en fékk ekki vitneskju um framgang vinnunnar við starfsleyfið á því tímabili sem hún fór fram. Gat kærandi því ekki gert sér grein fyrir þeim kostnaði sem skapaðist. Þegar kæranda var loks tilkynnt um umframkostnað með bréfi, dags. 23. nóvember 2017, eftir að starfsleyfi hafði verið gefið út, var útgefinn reikningur sendur með bréfinu, þrátt fyrir að í því kæmi fram að kæranda væri gefinn kostur á að tjá sig um innheimtuna og skyldi afstaða hans berast stofnuninni fyrir 30. s.m. Framangreint verklag var ekki í samræmi við fyrirmæli b-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar og var með þessu komið í veg fyrir að kærandi gæti neytt andmælaréttar síns áður en reikningur væri gefinn út og settur í innheimtu. Var um annmarka að ræða á ákvörðun stofnunarinnar hvað þetta varðaði.

Umhverfisstofnun hefur skýrt umrætt ferli sem svo að um mistök hafi verið að ræða og að umræddur reikningur hafi strax verið tekinn úr innheimtu, en nýr reikningur var ekki gefinn út fyrr en í september ári síðar, eftir að tilkynning um það hafði borist kæranda frá Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 21. ágúst 2018. Verður að telja að með afturköllun ákvörðunar sinnar og þeim tíma sem leið frá því að reikningurinn var tekinn úr innheimtu og ný ákvörðun var tekin hafi Umhverfisstofnun bætt út þeim annmarka sem var á innheimtunni og veitt kæranda nægan frest til að gera athugasemdir við þá upphæð sem ákveðin var vegna umframvinnunnar. Er því ekki um galla að ræða sem valdið getur ógildingu ákvörðunarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi PCC Bakka Silicon hf.

2/2009 Úrskurður vegna kæru Gunnars Bernhards gegn Fljótsdalshéraði vegna rotþróargjalds á frístundarhús í Hjallaskógi.

Með

Mál nr. 2/2009.

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní  kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Suðurlandsbraut 6 í Reykjavík.  Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2009 Gunnar Bernhard, Langholtsvegi 78, Reykjavík, hér eftir nefndur kærandi, gegn Fljótsdalshéraði, Lynghálsi 12, 700 Egilsstaðir, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 28. janúar 2009, kærði Gunnar Bernhardúnbogason HH, (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Fljótsdalshéraðs, (hér eftir nefnd kærði) frá 9. september 2008 þar sem því var hafnað að lækka eða falla frá rotþróargjaldi sem lagt var á frístundarhús í Hjallaskógi.

Er gerð sú krafa af hálfu kæranda að hreinsun á rotþró fari fram á fjögurra til sex ára fresti en ekki á tveggja ára fresti og að gjaldtaka fyrir hreinsunina verði lækkuð.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

1. Stjórnsýslukæra dags. 28.01.2009 ásamt fylgiskjölum.

2. Athugasemdir kærða dags. 16.04.2009.

3.  Athugasemdir kæranda dags. 2. júní 2009.

4.  Bókun frá fundi fasteigna- og þjónustunefndar Fljótsdalshéraðs dags. 12.04. 2006 og 21.11.2007.

Gagnaöflun telst lokið og er málið tekið til úrskurðar.

II.    Málsmeðferð

Framangreind kæra barst úrskurðarnefnd 28. janúar 2009. Kæruheimild er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

III. Málsatvik

Með bréfi dags. 14. mars 2003 og aftur 10. janúar 2006 fór kærandi fram á lækkun á gjaldtöku fyrir hreinsun á rotþróm þar sem kærandi taldi hana ekki réttmæta.

Kærði svaraði erindi kæranda með bréfi dags. 12. apríl 2006. Í svari til kæranda kemur m.a. fram sú ákvörðun að ekki sé hægt að fallast á kröfu um lækkun eða niðurfellingu þjónustugjalda þar sem staðfestar samþykktir liggja fyrir um gjaldtökuna.

Með stjórnsýslukæru dags. 28.01.2009 kærði kærandi framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Kærða var með bréfi dags. 27.03.2009 gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau 16.04.2009.

Kæranda var gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum kærða með bréfi dags. 20.05.2009 og bárust athugasemdir þann 02.06.2009.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi er landeigandi í Hjallaskógi á Egilsstöðum og á þar frístundarhús. Kærandi segir að landeigendur í Hjallaskógi hafi ávallt séð sjálfir um frárennslismál, sorphirðu og þess háttar enda sé landeigendum afar kært að halda umhverfi Hjallaskógar hreinu. Kærandi segir að landeigendur í Hjallaskógi hreinsi rotþrær og endurnýi þær eftir þörfum og hafi þeir gert það frá 1980.  Kærandi telur því gjaldtöku Fljótdalshéraðs fyrir hreinsun á rotþróm vera „ósanngjarna og tilhæfulausa“.

Kærandi byggir kröfu sína á því að þar sem landeigendur annist sjálfir þessa vinnu sé ekki rétt að krefjast greiðslu fyrir þjónustu sem ekki var innt af hendi. Þá séu öll frístundarhúsin í Hjallaskógi sumarhús en ekki heilsárshús. Því sé ekki rétt að innheimta rotþróargjald fyrir hreinsun á rotþróm annað hvert ár eins og um heilsárshús sé að ræða. Kærandi kveður mörg húsanna aðeins notuð 30 daga á ári og sum jafnvel minna. Þá sé lokað fyrir vatn í byrjun september ár hvert og fram í miðjan apríl vegna frosthættu. Þá séu húsin í Hjallaskógi ekki leigð út. Kærandi telur því óásættanlegt að Fljótdalshérað innheimti kr. 9.059 ár hvert fyrir hreinsun á rotþró sem fari fram annað hvert ár og telur að rotþró frístundarhúsanna þurfi aðeins að hreinsa fjórða til sjötta hvert ár vegna lítillar notkunar. Kærandi telur því ásættanlegt rotþróargjald sé kr. 3.020, þar sem  hreinsun fari fyrst og fremst eftir notkun.

Kærandi byggir ennfremur á því að kærði geti fylgst með notkun frístundarhúsanna í  Hjallaskógi þar sem þau séu aðeins í notkun yfir sumarmánuðina. Þá sé kærandi með rafmagnsmæli frá RARIK þar sem lesa má dvalartíma hans í frístundarhúsi sínu. Að lokum fellst kærandi á að greiða kr. 24.898 gegn því að hreinsun fari fram fjórða hvert ár.

V. Málsástæður og rök kærða

Kærði, Fljótsdalshérað, byggir á því að álagning rotþróunargjalda byggi á samþykktri gjaldskrá fyrir hreinsun rotþróa á Fljótdalshéraði, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda undir númerinu 301/2005. Fyrirkomulag tæmingar byggi á samþykkt Fljóstdalshéraðs um hreinsun, losun og frágang rotþróa á Fljótsdalshéraði nr. 260/2005, sem gerð var eftir umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands og staðfest af umhverfisráðuneytinu.

Kærði byggir á því að eigendum rotþróa sé skylt að hlýta ákvörðun sveitarstjórna m.a að greiður aðgangur sé að rotþró sbr. 2. mgr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005. Álagning rotþróargjaldsins sé í samræmi við skyldur sveitarfélagsins í málaflokkum og miðast hún við að leggja gjald á þá sem þjónustuna nota og er í raun skylt að nota.

Kærði telur að hreinsun á rotþróm annað hvert ár sé í samræmi við þá skyldu sem á hann er lagt í 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru þar sem segir að sveitarfélög eigi að koma á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm. Kærði bendir jafnframt á að það sé skylda á frístundahúsaeigendum að láta losa hjá sér seyru í samræmi við lög og reglur.

Kærði telur að sveitarfélög hafi heimild skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að kveða á um meðhöndlun úrgangs úr rotþróm við sumarhús. Kærði bendir á að þessi atriði byggi á því mati sem löggjafar og reglugerðarhandhafar hafa talið vera nauðsynlegt að fari fram m.t.t. heilbrigðissjónarmiða og almannahagsmuna.

Kærði telur að ákvörðun og fyrirkomulag tæmingar byggi á skýrum lagaheimildum og sé innan sjálfsstjórnunarréttiar sveitarfélaganna og telur að slíkt eigi ekki að vera endurskoðað af úrskurðarnefnd.

Kærði bendir á að frístundarhús séu mismikið í notkun og því óframkvæmanlegt að með tilliti til öryggis, jafnræðis og kostnaðar að miða gjaldtöku við mismunandi afnot. Kærði byggir á því að hvergi komi fram í stjórnsýslukæru kæranda að álagning og gjöld vegna hreinsunar rotþróa séu í ósamræmi við meginreglur um þjónustugjöld. Kærði geti lagt fram yfirlit yfir kostnað hreinsunar á rotþróm, sé þess óskað. Kærði bendir á að Fljótsdalshérað sé stærsta sveitarfélag landsins auk þess sem það sé dreifbýlt og dýr tækjabúnaður sé notaður við losun á seyru.

Kærði telur að álagningin sé í samræmi við gjaldskrá sveitarfélagsins sem byggi á samþykkt um hreinsun og losun og fágang rotþróa á Fljótsdalshéraði og lagaheimildum sem hún hvílir á. Kærði bendir á að hann hafi ávallt svarað fyrirspurnum kæranda varðandi álagningu rotþróargjalda Fljótsdalshéraðs, þar hafi kærði skýrt fyrir kæranda  heimildir sveitarfélagsins til gjaldtökunnar.

Kærði telur að lokum að heimildir til gjaldtöku vegna seyrulosunar vera í samræmi við sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga og í samræmi við ákvæði laga.

VI.  Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar 

Ágreiningur í máli þessu snýst um álagningu rotþróargjalds og hvort kærða beri að lækka eða falla frá gjaldtöku sinni fyrir hreinsun rotþróa.

Í 3. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kemur fram að hollustuhættir og mengunarvarnir taki í lögunum til hollustuverndar, mengunarvarnaeftirlits, vöktunar, tengdra rannsókna og fræðslu um þessi mál.  Hollustuvernd tekur til eftirlits með matvælum, fegrunar- og snyrtiefnum, eiturefnum og hættulegum efnum, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum, m.a. með tilliti til manneldismála.

Mengunarvarnaeftirlittekur til eftirlits með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

Með mengun er átt við það þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Heilbrigðiseftirlit tekur til hollustuhátta og mengunarvarna.

Reglugerð nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og samkvæmt 9. gr. laga nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar með síðari breytingum. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 799/1999 kemur fram að markmið hennar sé að setja reglur um notkun seyru og koma í veg fyrir skaðleg áhrif hennar á umhverfið og heilsu almennings. Í 3. gr. kemur fram að eftirlitsaðilar séu viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins. Þá kemur fram í 14. gr. að sveitarstjórnum sé skylt að koma upp kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm.

Í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuvernd og mengunarvarnir kemur skýrt fram að sveitarfélög megi setja sér samþykktir og gera þar ítarlegri kröfur en fram koma í reglugerðum. Á grundvelli þess setti kærði samþykkt Fljótsdalshéraðs nr. 260/2005 um hreinsun, losun og frágang rotþróa við Fljótsdalshérað þann 22. febrúar 2005 í samræmi við nefnda 25. gr. sem staðfest var af ráðherra. Í 1. gr. samþykktar nr. 260/2005 kemur fram að hreinsun rotþróa sveitarfélagsins skuli fara eftir þeirri samþykkt. Í 2. gr. samþykktarinnar segir að Fljótsdalshérað annist alla meðhöndlun seyru í sveitarfélaginu þ.e. seyrulosun úr rotþróm og hreinsun. Í 4. gr. kemur svo fram að hreinsun skuli fara fram annað hvert ár.

Gjaldskrá nr. 301/2005 fyrir hreinsun rotþróa á Fljótsdalshéraði er byggð á samþykkt um hreinsun, losun og frágang rotþróa á Fljótsdalshéraði nr. 260/2005 og 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, með síðari breytingum. Gjaldskrá þessi var samþykkt af umhverfis- og náttúruverndarnefnd Fljótsdalshéraðs þann 16. febrúar 2005, og staðfest af bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs þann 2. mars 2005. Í 2. gr. gjaldskrárinnar kemur skýrt fram hvert þjónustugjald sé fyrir hreinsun á rotþró og er þá farið eftir fermetrastærð viðkomandi eigna. Í 3. gr. gjaldskrárinnar er skýrt ákvæði um gjalddaga rotþróargjalds.

Kærandi telur að fella eigi niður eða lækka árleg rotþróargjöld út frá sanngirnissjónarmiðum, þar sem kærandi dveljist aðeins nokkra mánuði á ári í frístundarhúsi sínu í Hjallaskógi m.a. þar sem húsið sé ekki heilsárshús og hreinsun annað hvert ár sé því óþörf. Kærði telur ekki fært að fylgjast með dvöl kærða eða annarra í frístundarhúsum í Hjallaskógi. Slíkt  hefði í för með sér aukna vinnu og kostnað fyrir kærða. Kærði bendir á að kostaður af þessum málaflokk megi skýra með því að um sé að ræða stærsta sveitarfélag landsins auk þess að það sé mjög dreifbýlt og tækjabúnaður sem notaður sé við seyrulosun sé dýr. Þá séu þeir sem annist seyrulosun starfsleyfisskyldir og eyðing og urðun seyru kostnaðarsöm.

Árlegt þjónustugjald fyrir hreinsun á rotþró sem hér er deilt um á sér stoð í gjaldskrá nr. 301/2005 sem sett er á grunni samþykktar nr. 260/2005 og 25. gr. l. 7/1998. Innheimta kærða á umdeildu þjónustugjaldi á sér því skýra laga- og reglugerðarheimild og því er innheimta þess ekki ólögmæt og ekkert hefur komið fram í málatilbúnaði kæranda að gjaldtakan sé ómálefnaleg eða í andstöðu við þær reglur sem gilda um þjónustugjöld. Þvert á móti er um skyldu að ræða sem laga- og reglugerðarhandhafar hafa lagt á kærða sem kæranda og öðrum frístundarhúsaeigendum er skylt að fara eftir.

Kærði hefur vald til þess að kveða á um inntak skyldu sinnar í skjóli sjálfstjórnarréttar síns sem hann hefur ákveðið að fari fram annað hvert ár sbr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005 en sú samþykkt hefur lagastoð sbr. 25. gr. l. 7/1998. Kærða ber ekki skylda samkvæmt nefndum reglugerðar- og lagaákvæðum að fylgjast með dvöl frístundarhúsa í Hjallaskógi, heldur þvert á móti ber eigendum frístundarhúsa Hjallaskógar skylda til að fara eftir aðgerðum sveitastjórnar Fljótdalshéraðs sbr. 5. mgr. 4. gr. samþykktar nr. 260/2005. Því verður ekki fallist á kröfur kæranda þess efnis að kærði skuli hreinsa rotþrær á öðrum tíma en samþykkt nr. 260/2005 kveður á um.

Með vísan til þess, sem að framan greinir er það niðurstaða nefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun Fljótsdalshrepps frá 9. september 2008 þar sem kröfu kæranda var hafnað um að lækka eða fella niður rotþróargjald.

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun Fljótsdalshrepps frá 9. september 2008 er staðfest.

Steinunn Guðbjartsdóttir

Gunnar Eydal                             Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 6/26/09

2/2006 Úrskurður vegna kæru Impregilo SpA gegn Heilbrigðisnefnd og Heilbrigðiseftirliti Austurlands.

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2006    föstudaginn   30.  júní, kom nefnd skv. 31.gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík.    Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2006  Impregilo SpA, Ísland útibú, Laugarási Egilsstöðum, hér eftir nefnt kærandi   gegn Heilbrigðisnefnd og Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Búðareyri 7, 730 Fjarðarbyggð, hér eftir nefnt kærði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður :

I.

Stjórnsýslukæra Þórarins V. Þórarinssonar hdl. f.h. Impregilo SpA er dagsett 11. janúar 2006 en barst úrskurðarnefnd 18. janúar. Kærandi kveður kærðu vera bæði Heilbrigðisnefnd Austurlands og Heilbrigðiseftirlit Austurlands. Í kæru er fjallað um aðgerðir hins síðargreinda og hann því nefndur kærði í úrskurði.  Kærð eru þau ákvæði í gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 19/2004 frá 4. janúar 2004 og breyting á henni nr. 1083/2005 sem kveða á um að tímagjald við gjaldskylt eftirlit sé 30% hærra, “fyrir tímabundna starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum” en gjald “fyrir hefðbundna starfsemi.”.  Þess er krafist að sérstakur gjaldskrárliður fyrir “ tímabundna starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum” í hinni kærðu gjaldskrá verði felldur úr gildi frá þeim tíma sem þetta sérstaka ákvæði fyrst kom inn í gjaldskrána þann 1. janúar 2004.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að endurgreiða kæranda Að lokum er þess krafist að kærðu greiði kæranda in solidum hæfilegan kostnað af því að hafa uppi kæru þessa.

Afrit kæru var sent kærða í byrjun febrúar. Óskað var eftir fresti vegna leyfis framkvæmdastjóra og var síðar  afrit ásamt gögnum sent kærða 4. mars.  Greinargerð kærða barst 21. mars og var send kæranda með bréfi dags. 29. mars.  Athugasemdir lögmanns kæranda við greinargerð kærða eru dagsettar 24. apríl s.l.

Gögn meðfylgjandi kæru eru :

1)       Afrit af gjaldskrá nr. 183 dags. 24. janúar 2002.

2)       Afrit af auglýsingu nr. 409 dags. 21. maí 2003,  um breytingu á gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 182/2002

3)       Afrit af gjaldskrá nr. 19 dags. 4. janúar 2004 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands.

II.

Málavöxtum lýsir lögmaður kæranda svo að kærandi stundi umfangsmiklar verkframkvæmdir við byggingu Kárahnjúkavirkjunar skv. verksamningum sem hann hafi gert við Landsvirkjun. Á hans vegum hafi starfað milli 1100 og 1200 manns að byggingu meginstíflu virkjunarinnar og gerð aðveituganga.  Við þessa framkvæmd hafi kærði, haft umfangsmikið eftirlit með öllu því sem lúti að heilbrigðiseftirliti í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998. Komi starfsmenn kærða mjög oft í eftirlitsferðir á starfsstöðvar kæranda og sé honum gerður reikningur fyrir allar vinnustundir starfsmanna kærða HAUST við það eftirlit svo og útlagðan kostnað fyrir akstur o.þ.h.  Hefði kærandi gengið út frá því að um þessi samskipti færi samkvæmt sömu reglum og gilti um önnur fyrirtæki, þannig að hvorki væri ástæða né svigrúm til að ræða um gjaldskrá eða greiðslur fyrir þjónustu kærða (HAUST) þótt umfang þjónustunnar væri tvímælalaust slíkt að í venjulegum viðskiptasamböndum hefði verið tilefni til magnafsláttar.  Það hafi því komið kæranda í opna skjöldu þegar honum hafi verið bent á að kærði (HAUST) hafi í upphafi árs 2004, tekið upp sérstakan gjaldflokk fyrir þá starfsemi sem hann stundi og að hann hafi innheimt tímagjald fyrir veitta þjónustu sem verið hafi 30% hærra en almennt hafi verið krafist af þeim sem atvinnurekstur stundi og sé skylt að þiggja eftirlit frá stofnuninni. Telji kærandi augljóst að honum og öðrum atvinnurekendum sem starfi að byggingu virkjana og stóriðjuframkvæmda, svo vitnað sé til skilgreiningar gjaldskrár kærða, sé mismunað herfilega og að krafa um hærra tímagjald á hendur þeim fyrir veitta þjónustu en öðrum atvinnurekendum sé án allrar lagaheimildar og fari í raun freklega í bága við ýmis lagaákvæði svo sem reifað verði.

Málsástæður og lagarök.  Þjónusta sú sem kærði veiti kæranda sé innt af hendi í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998.  Kærandi hafi ekkert um það að segja hvert umfang þjónustu sé heldur sé það alfarið á valdi kærða  að ákveða tíðni eftirlitsferða og úttekta.  Hafi kærði þannig sjálfdæmi um umfang viðskipta.  Heimild til gjaldtöku fyrir þessa þjónustu sé lögbundin í 2. mgr. 12. gr. tilvitnaðra laga.  Þar komi fram að sveitarfélögum sé heimilt að gefa út gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi.  Þessi heimild til gjaldtöku sé þó takmörkuð þar sem í 2. málslið 2. mgr. segi að upphæð gjaldsins skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggir á og megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður.  Telji kærandi augljóst að nýtt ákvæði í gjaldskrá kærða 4. janúar 2004 þar sem ákveðið sé að tímagjald fyrir vinnu í þágu tímabundinnar starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum skuli vera kr. 8.580,- á sama tíma og vinna fyrir hefðbundna starfsemi skuli greidd með kr. 6.600 á tímann.  Álagið á fyrrgreinda flokkinn sé 30%.

Kærandi telji augljóst að engin rekstrar- eða málefnalegur grundvöllur sé fyrir þessari mismunun í gjaldskrá, sem hafi valdið því að kærandi hafi verið krafinn um verulegar fjárhæðir umfram það sem væri ef starfsemi hans tengdist ekki virkjunarframkvæmdum.  Það séu sömu starfsmenn kærða sem sinni eftirliti með þessari starfsemi kæranda og því sem nefnt sé hefðbundin starfsemi.  Verði því munur ekki réttlættur með dýrari mannskap eða sérfræðingum sem komi að starfsemi kæranda.  Þá bendir lögmaður kæranda á að sú aðgreining sem fram komi í gjaldskrá feli í sér brýnt brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga þ.e. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 37/1993.  Þar komi beinlínis fram að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Lögmaður kæranda kveður að stór hluti af verkefnum kæranda sé gerð jarðgangna.  Fleiri geri göng á Austurlandi s.s. fyrir vegagerð og engar forsendur séu fyrir því að hafa mismunandi tímagjald við framkvæmd eftirlits með þessu tveim gerðum verkefna.  Enginn grundvöllur sé fyrir slíkum mismuni, nema sýnt sé fram á að verulegur munur sé vegna þátttöku sérhæfðra og dýrari starfsmanna í öðru verkefninu en ekki hinu.  Bendir lögmaður og á að hugsanlega hefði verið að fjarlægð frá byggð réttlætti hærri gjaldtöku vegna eftirlits en þau rök eigi eðlilega ekki við þegar borið sé saman tímagjald þar sem innheimt sé fyrir hverja greidda vinnustund.  Óhagræði af fjarlægð frá byggð komi þá beinlínis fram með hærri heildarreikningi eftirlitsaðila, svarandi til áhrifa fjarlægðar á fjölda greiddra tíma við hverja eftirlitsferð. Þá bendir lögmaður kæranda og á að hugtök sem nýtt séu til aðgreiningar í hinni kærðu gjaldskrá séu svo ónákvæm að það eitt út af fyrir sig ætti að leiða til ógildingar hins sérstaka og kærða gjaldskrárliðar.  Engin lagaleg skilgreining liggi fyrir á því hvað sé “stóriðja”, hvað þá hvað sé “tímabundin starfsemi” henni tengd.  Lögmaður kæranda bendir á að öllu virtu telji kærandi það hafið yfir vafa að kærandi hafi frá 4. janúar 2004 mismunað honum með ólögmætum hætti með því að krefja hann um hærra tímagjald vegna þjónustu starfsmanna kærða en þorra atvinnurekenda á svæðinu sé gert að greiða fyrir hliðstæða þjónustu á þann veg að í bága fari við tilvitnað ákvæði 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 12. gr. laga nr. 7/1998.  Á því byggist krafa kæranda.  Eins og fyrr greinir var greinargerð kærða send lögmanni kæranda og eru athugasemdir hans dags. 24. apríl 2006.  Kveður lögmaður kæranda að í hinum umfangsmiklu greinargerðum kærða sé leitast við að réttlæta mismunun á tímagjöldum kærða gagnvart kæranda og ótilteknum fjölda annarra fyrirtækja með eftirfarandi meginröksemdum:

1)          Að sveitarfélög hafi fullt frelsi til að ákveða mismunandi niðurgreiðslur á raunkostnaði við eftirlit og því fullt frelsi til að mismuna fyrirtækjum eftir pólitískum áherslum hverju sinni.

2)          Að ekki njóti við svonefndra “íbúaframlaga” sveitarfélaganna vegna eftirlits með tímabundinni starfsemi á hálendinu.

3)          Að gjaldskrá kærða hafi verið sett með lögformlegum hætti og að hvorki hafi borist athugasemdir frá umsagnaraðila né kæranda.

4)          Að útreikningur og innheimta eftirlitsgjalda sé í samræmi við gjaldskrá.

5)          Að eftirlitsgjöld séu ekki umfram raunverulegan kostnað.

Lögmaður kæranda kveðst hafa athugasemdir við allt framantalið og telji ekkert í greinargerðum kærða réttlæta þá grófu mismunun sem felist í hinni kærðu gjaldskrá.  Sveitarfélög séu bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga 11. gr. og sé með öllu óheimilt að láta sambærilega starfsemi greiða mismunandi þjónustugjöld að geðþótta hverju sinni.  Breyti umfangsmikil tilskrif kærða engu um það.

Rök kærða fyrir innheimtu hærra tímagjalds af “tímabundinni starfsemi tengdri stóriðju” virðist hafa komið fram í greinargerð kærða með gjaldskrártillögum haustið 2003 sem urðu að gjaldskrá sem birt var 4. janúar 2004.  Þetta sé rakið á bls. 5 í greinargerð kærða og séu rökin í þrem liðum :

a)        að framlag sveitarsjóða til reksturs kærða og sambærilegra stofnana nemi um 30% af kostnaði.  Þessu fylgi hugleiðingar sem sýnast eigi að færa að því rök að þessi kostnaðarþátttaka sveitarsjóða sé háð því að heilbrigðiseftirlitið létti störfum af byggingarfulltrúum.

b)        Að hagræði sé af því að láta kærða innheimta gjöld af tímabundinni starfsemi, en því fylgi kostnaður sem kærði þurfi að fá bættan.

c)        Að allmikil vinna felist í almennu eftirliti á athafnasvæðum, s.s. með fráveitum sorpi og umgengni, sem tengist framkvæmdunum almennt, þá segi :” Ekki er sanngjarnt að láta fyrirtæki í byggð eða almenning bera kostnað af þessu eftirliti heldur að dreifa kostnaðinum á þá aðila sem á svæðunum vinna”.

Niðurstaða tillöguflytjanda sé því næst orðuð þannig :  “Ekki þykir ósanngjarnt  að hver af punktunum hér að ofan kosti um 10% af hefðbundnu eftirlitsgjaldi. “

Kveður lögmaður kæranda að kærandi telji að ofangreindur grundvöllur að innheimtu sérstaks 30% hærra tímagjalds af starfsemi hans en almennt gildi fari freklega í bága við lög og hafi ekkert gildi sem efnislegur rökstuðningur af eftirgreindum ástæðum :

Ekkert liggi fyrir um það hvorki í lögum né samþykktum sveitarfélaga að framlög þeirra til kærða, svonefnd íbúaframlög undanskilji starfsemi í einhverjum nánar tilteknum hlutum sveitarfélaganna eða bindi framlagið við nánar tiltekna starfsemi.  Hugleiðingar um samhengi byggingarleyfa og heilbrigðiseftirlits eigi sér hvergi stoð annars staðar en í hugarheimi þess sem ritað hefur tilvitnaðar röksemdir fyrir tillögu að gjaldskrárhækkun kærða.  Þá sé einnig til þess að líta að á vegum kæranda séu hundruð manna með lögheimili í vinnubúðum hans á virkjunarsvæðinu og greiði þessir menn hundruð milljóna í útsvar til hlutaðeigandi sveitarfélaga á framkvæmdatímanum.  Þegar af þeirri ástæðu sé fjarstæða að líta á byggðirnar á svæðinu öðrum augum en aðra þéttbýliskjarna á starfssvæði kæranda eða að meðhöndla starfsemi þar með öðrum hætti en hliðstæða starfsemi í öðrum byggðakjörnum á Austurlandi.  Þessi liður fái ekki staðist skoðun.  Sama gildi raunar um b-liðinn.  Það að sveitarfélögum kunni að þykja hagræði af því að láta kærða annast innheimtu gjalda geti aldrei orðið lögmætur grundvöllur þess að hækka umrætt gjald.

Þá telur lögmaður kæranda að síðasti liðurinn sýnist byggja á þeim misskilningi að heilbrigðiseftirliti sé heimilt að hluta sveitarfélögin niður í landfræðilegar einingar og innheimta sérstakt eftirlitsgjald af þeim sem starfi á slíkum afmörkuðum svæðum.  Ekki verði séð á hvaða lögmætu sjónarmiðum slík ályktun sé grunduð.  Verði raunar almennt að ætla að kærða beri að annast slíkt almennt eftirlit á öllu starfssvæðinu.  Verði að ætla að það sé gert, enda kjarninn í starfsskyldum kærða.  Sé fjarstæða að mati lögmanns kæranda að unnt sé að innheimta sérstakt gjald af þeim sem starfi á einhverjum nánar afmörkuðum hlutum starfssvæðis en öðrum ekki.  Um þá ályktun að “ekki þyki ósanngjarnt að hver af punktunum hér að ofan kosti 10%” á ekki að þurfa að hafa mörg orð, svo augljóst sem það er, að enginn lögmætur grunnur er lagður að þeirri ályktun að kostnaður pr. vinnustund við starfsemi á virkjunarsvæðinu sé hærri en annars staðar á starfssvæði kærða.

Lögmaður kæranda vekur athygli á því að fram komin gögn frá kærða staðfesti að óljóst sé hvaða starfsemi falli undir þennan hækkaða gjaldskrárlið.  Virðist mega draga þá ályktun af greinargerð kæranda að í reynd hafi aðeins verið innheimt hið umdeilda “stóriðjutengda” tímagjald af starfsemi á virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka.  Þannig hafi verið innheimt lægra gjald af eftirliti með tímabundnum vinnubúðum og mötuneytum Bechtel í Reyðarfirði og sams komar starfsemi ÍSTAK hf. við gerð jarðgangna milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, meðan innheimt var hærra gjaldið af hliðstæðri starfsemi kæranda.   Telur lögmaður kæranda að fullt tilefni væri fyrir nefndina að ganga eftir því hjá kærða hvaða fyrirtæki hafi verið látin greiða skv. hinni hærri gjaldskrá og hvaða hliðstæð starfsemi hafi verið á starfssvæðinu sem hafi verið látin greiða skv. hinni lægri.

Lögmaður kæranda bendir á að kærði sýnist á einum stað í greinargerð sinni freista þess að færa að því töluleg rök að raunverulegur kostnaður á unna stund sé a.m.k. 30% hærri en svarar hinu almenna tímagjaldi útseldrar vinnu.  Þessari fullyrðingu er mótmælt, enda ekkert í lögum eða reglugerðum sem styður að sveitarfélögum sé ætlað að innheimta eftirlitsgjöld fyrir öllum kostnaði við starfsemi heilbrigðiseftirlits.  Þá er sérstök athygli vakin á því að kærði reynir hvergi í löngum greinargerðum sínum að færa fyrir því rök, hver raunkostnaður er á vinnustund þeirra starfsmanna hans sem hann selur út skv. gjaldskrá eða skýra hvernig það má vera að sá kostnaður sé mismunandi eftir því hvaða gjaldandi á í hlut.  Þögn kærða um þennan mikilvæga grundvöll kostnaðargreiningar feli í sér staðfestingu á þeim málsástæðum kæranda að mismunum í tímagjaldi eigi sér ekki efnislegan grundvöll heldur feli í sér mismunun milli fyrirtækja.

Lögmaður kæranda vekur athygli á að í umfjöllun kærða felist staðfesting á málsástæðu kæranda að hann hafi innheimt gjald fyrir allar vinnustundir vegna eftirlits með starfsemi kæranda.  Röksemdir um að umfang sé meira, skýrslugerðir flóknari o.fl. standist því ekki sem grunnur að ákvörðun um hærra tímagjald þar sem kærandi hefur sýnilega orðið að greiða allan tíma sem kærði hefur varið til eftirlits, ferða og skýrsluskrifa sbr. upplýsingar hans sjálfs.  Lögmaður kæranda mótmælir sem þýðingalausu að kærði hafi upplýst kæranda um gjaldtökuna og jafnan bent honum á möguleika á að andmæla ákvörðunum og reikningum, en engin slík andmæli hafi komið fram.  Þessi rök eru kærða haldlaus því hafi hann sem stjórnvald gefið út gjaldskrá sem ekki stóðst grundvallarreglur laga um jafnræði og efnislegan grundvöll þá verður sú gjaldskrá ekki gild við það eitt að kærandi varaði sig ekki á því strax að hann væri slíkum órétti beittur.  Lögmaður kæranda bendir á að kæranda sé fullkomlega ljóst að gjaldskrá kærða sé sett með formlega réttum hætti, um hana hafi verið fjallað af réttum aðilum og hún hafi verið birt eins og lög áskilja.  Þótt gætt hafi verið að formhlið málsins við setningu gjaldskrár breytir það engu um þá staðreynd að efnislega fær sú grófa mismunun, sem felst í sérákvæði gjaldskrárinnar um starfsemi kæranda og fáeinna annarra fyrirtækja ekki staðist.  Kærandi byggi ekki á að eitthvað hafi skort á um form ákvörðunarinnar heldur fari hið efnislega innihald í bága við lög.  Með vísan til þessa áréttar lögmaður kæranda kröfur sínar um það að ákvæði 2. gr. gjaldskrár fyrir heilbrigðis- og mengunareftirlit á Austurlandi, upphaflega frá 4. janúar 2004 um sérstakt tímagjald “fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum” verði úrskurðað ógilt og að kærða verði gert að endurgreiða kæranda oftekin gjöld skv. því frá því að gjaldskrárákvæðið tók fyrst gildi.

III.

Svo sem fyrr kemur fram er greinargerð kærða, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, dags. 17. mars s.l.  Meðfylgjandi greinargerðinni er greinargerð frá lögmanni kærða.  Fyrst verður fjallað um greinargerð framkvæmdastjóra kærða.

Fylgiskjöl með þeirri greinargerð eru :

1)      Afrit af tilkynningu til fyrirtækja og stofnana á Austurlandi frá því í febrúar 2000.

2)      Afrit af leiðbeinandi reglum umhverfisráðherra um uppbyggingu gjaldskráa fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit.

3)      Afrit bréfs kærða frá 12. mars, 2003 vegna  málaflokka.

4)      Afrit bréfs kærða til fyrirtækja og stofnana sem kærði vinnur starfsleyfi fyrir frá því í janúar 2006.

Í upphafi greinargerðar lýsir framkvæmdastjóri kærða  markmiði kærða um þjónustu og gjaldtöku fyrir hana. Framkvæmdastjóri  lýsir því og yfir að kærði sé ekki rekið með hagnaði en stefnt sé að því að gjaldtaka standi undir rekstrarkostnaði.  Bæði gjaldskrár og fjárhagsáætlanir séu samdar af heilbrigðisnefnd.  Getur framkvæmdastjóri kærða þess að skv. bráðabigðauppgjöri fyrir árið 2005 sé rekstrarafgangur kærða um kr. sexhundruðþúsund.  Sé því augljóst að heildargjaldtaka vegna starfsemi kærða sé ekki umfram raunkostnað.  Þá víkur framkvæmdastjóri kærða að gerð gjaldskráa sem kærðar eru.  Vísað er til þess að við gerð gjaldskrár fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 183/2002 hafi verið auk upphæðar gjalds gefin upp áætluð tíðni eftirlits í fyrirtækjaflokkum og þar miðað við eftirlit fjórða hvert ár, annað hvert ár og árlegt.  Þessi gjaldskrá hafi verið samþykkt af sveitarstjórnum á Austurlandi.  Breyting á gjaldskránni hafi verið vegna tímabundinnar starfsemi í tengslum við virkjanaframkvæmdir á Kárahnjúkasvæðinu.  Hafi þótt nauðsynlegt að tryggja með orðalagi í gjaldskránni að gjaldtaka væri heimil ef eðli starfsemi væri starfsleyfisskylt þótt um tímabundna starfsemi væri að ræða.  Í rökstuðningi kærða til sveitarstjórna og Hollustuháttaráðs kemur fram að sögn kærða að í ljós hafi komið að ekki sé unnt með núverandi flokkun í viðauka A með gjaldskrá kærða að innheimta sanngjarnt gjald af starfseminni.  Ekki sé viðunandi eða heimilt að láta aðra starfsemi standa undir kostnaði við þetta eftirlit og sé því nauðsynlegt að lagfæra gjaldskrána. Kostnaður sé meiri vegna meiri aksturskostnaðar, meiri undirbúnings vegna fundarhalda og bréfaskrifta, þörf fyrir tíðara eftirlit vegna örra mannaskipta,  og þá sé ennfremur um að ræða lengri notkunartíma vinnubúða en almennt gerist, malarnámur séu á víð og dreif og að hluta til notaðar af mismunandi aðilum.  Framkvæmdastjóri kærða gerir grein fyrir því að í gjaldskrá sé gert ráð fyrir gjaldtöku vegna starfsleyfisvinnslu fyrir endurnýjun starfsleyfa, vinnslu nýrra starfsleyfa og annarra starfsleyfa og leyfa sem ekki séu í eftirlitsáætlun t.d. tóbakssöluleyfis.  Ekki sé skýrt að unnt verði að nota þessi ákvæði í þeim tilvikum sem upp muni koma í tengslum við stórframkvæmdir, þar sem um tímabundna starfsemi sé að ræða svo sem vinnubúðir, vatnsveitur o.fl.,  Jafnvel gætu komið fram starfsleyfisumsóknir um líkamsræktarstöðvar, kvikmyndahús o.fl. á svæðinu.  Því sé nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um að kærða sé heimilt að taka gjald sem standi undir þeim kostnaði sem sannanlega sé vegna vinnslu starfsleyfa. Þá getur kærði um að kostnaður vegna eftirlits með starfsemi tengdum stórframkvæmdum verði innheimtur af kærða en fari ekki til innheimtu hjá sveitarfélagi.  Vegna vinnsluhraða og örra mannaskipta verði um að ræða ríkari eftirlitsþarfir í samanburði við hefðbundna starfsemi. Ekki sé því svigrúm til að fella eftirlitsgjöld inn í fjárhagsáætlanir kærða og viðkomandi sveitarfélaga en vinnsla þeirra fari nú fram á tímabilinu frá ágúst til desember.  Sé áætluð tíðni eftirlits tilkynnt rekstraraðila bréflega sem og áætlaður kostnaður.

Framkvæmdastjóri kærða bendir á að seint á árinu 2003 hafi verið orðið ljóst að umsvif við virkjanaframkvæmdir hafi orðið mun umfangsmeiri en fyrirsjáanlegt hafði verið og þá hafi ennfremur verið farið að kalla til funda vegna undirbúnings framkvæmda á álverslóð.  Hafi hraði framkvæmda verið meiri en nokkurn hafði órað fyrir og dæmi um að starfsmannabúðir risu, væru rifnar, seldar og reistar á öðrum stað innan fjögurra mánaða.  Framkvæmdastjóri kærða bendir á að starfsmenn og heilbrigðisnefnd hafi lagt sig fram um að ná góðu samstarfi við verktaka og að upplýsa um hlutverk og eðli starfa kærða.  Hafi upplýsingar verið sendar til verktaka um leið og þeirra hafi orðið vart.  Kveður framkvæmdastjóri kærða að meginbreytingar sem óskað hafi verið eftir í nýrri gjaldskrá fyrir árið 2004 og varði gjöld fyrir tímabundna starfsemi séu að  á virkjanasvæði gildi sérlög sem feli í sér að starfsemi byggingarnefndar nái eingöngu til skipulagsmála.  Allmikil viðbótarvinna falli á kærða vegna fundahalda og kynninga með verktökum og að ganga eftir og yfirfara teikningar, koma ábendingum á framfæri og sinna eftirfylgni.  Þetta sé viðbótarvinna fyrir kærða.  Ennfremur sé mikil vinna fólgin í almennu eftirliti á athafnasvæðum, þ.e. eftirliti með fráveitum, sorpi og umgengni, sem ekki tengist einum verktaka frekar en öðrum, heldur framkvæmdum almennt.  Ekki sé sanngjarnt að láta fyrirtæki í byggð eða almenning bera kostnað af þessu eftirliti. Þá þyki liprara að innheimta gjalda sé á könnu kærða. Ekki þyki ósanngjarnt að hvert af þessum atriðum séu metið á 10% af hefðbundu eftirlitsgjaldi.  Hollustuháttaráð hafi gefið umsögn um tillöguna og þar komi fram að ráðið telji að gjaldskráin sé að mati þess í samræmi við ákvæði 12. gr. l. nr. 7/1998 og ennfremur að rekja megi tillögu um hækkun v. starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum til þess að á virkjunarsvæði gildi sérlög sem feli í sér að starfsemi bygginganefnda nái eingöngu til skipulagsmála og því falli allmikil viðbótarvinna á kærða.

Um breytingu á gjaldskrá nr. 19/2004 kemur fram hjá framkvæmdastjóra kærða að almennar hækkanir verðlags og launa hafi haft í för með sér að kærði hafi þurft að hækka gjaldskrá sem í gildi hafði verið árin 2004 og 2005 til að geta sett saman rekstrar- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2006, án taps.  Á fundi heilbrigðisnefndar í september 2005 hafi verið fjallað um drög að endurskoðaðri gjaldskrá ásamt drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2006.  Komi þar fram í bókun að staðan um mitt ár 2005 virðist nokkuð góð miðað við áætlun.  Tillaga um fjárhagsáætlun hafi verið  lögð fram miðað við mismikla hækkun á gjaldskrá.  Framkvæmdastjóra kærða hafi verið falið að fara yfir áætlun á ný og endurskoða hana með það að markmiði að hækkun um 10% dekki fjárþörf ársins 2006.

Framkvæmdastjóri kærða kveður að allar gjaldskrár kærða og breytingar hafi verið auglýstar eins og vera ber.   Þá kveður framkvæmdastjóri kærða að við úgáfu starfsleyfa sendi kærði starfsleyfishöfum ætið upplýsingar um flokkun starfseminnar í samræmi við gildandi gjaldskrá, áætlaða tíðni eftirlitsheimsókna og upphæð gjalds.  Aðilum sé boðið að gera athugasemdir.

Þá svarar framkvæmdastjóri kærða framkomnum atriðum í bréfi kæranda.

A. Umfang þjónustu.  Vísar framkvæmdastjóri kærða því á bug að kærði hafi það alfarið á valdi sínu að ákveða tíðni eftirlitsferða og úttekta og að fyrirtæki hafi ekkert um umgangið að segja.  Vísar kærði til reglugerða nr. 941/2002, 786/1999, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og fleira um starfsemi sína.

B. Gerð jarðgangna. Jarðgangnagerð sé ekki sérstaklega á könnu kærða, nema hvað varðar eftirlit með starfsmannabúðum, mötuneytum o. fl.

C. Innheimt fyrir hverja vinnustund.  Kveður framkvæmdastjóri kærða að reglubundið eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi sé gjaldtekið í samræmi við gjaldskrá.  Tími í undirbúning, viðveru og úrvinnslu sé sá sami á virkjanasvæði og fyrir hefðbundna starfsemi.  Einungis akstur sé frábrugðinn.  Á sama hátt og fyrir hefðbundna atvinnustarfsemi sé ekki tekið sérstakt gjald fyrir vinnu við umsagnir um teikningar, leiðbeiningagjöf vegna starfsreglna, fundi með verktökum og starfsleyfishöfum o.fl. heldur sé tími sem í þesa vinnu fari innifalinn í 30% hærra gjaldi en fyrir hefðbundna starfsemi sé greitt með íbúaframlögum sveitarfélaga.  Á sama hátt og fyrir hefðbundna starfsemi sé vinna kærða sem ekki tengist starfsleyfisskyldri starfsemi, vinna vegna eftirfylgniferða í kjölfar brota á starfsleyfum eða reglugerðum, vinna vegna rökstuddra kvartana sem kalli á bréfaskriftir eða aðgerðir o.þ.h. gjaldtekin skv. tímagjaldi.  Sama gildi um vinnu við sýnatökur sem ekki séu inni í eftirlits og sýnatökuáætlun, t.d. sýnatökur af neysluvatni ef gæði í reglubundnu sýni reynast ekki standast ákvæði neysluvatnsreglugerðar.  Um þetta vísar framkvæmdastjóri kærða til heimildar í 5. gr. gjaldskrár kærða.

D.  Um ónákvæmni hugtaka “stóriðja” og “tímabundið”. Um þetta vísar framkvæmdastjóri kærða til gjaldskrár þar sem rætt sé um tímagjald fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum.  Vísar framkvæmdastjóri og til rökstuðnings kærða fyrir 30% hærra gjaldi við eftirlitsstarfsemi tengdri stóriðju og virkjunum, en þar komi fram að á virkjanasvæði gildi sérlög sem feli í sér að starfsemi bygginganefnda nái eingöngu til skipulagsmála.  Þannig ætti að mati framkvæmdastjóra ekki að fara milli mála hvaða svæði átt sé við í tilfelli kæranda sem vinni alfarið innan skilgreinds virkjanasvæðis þar sem sérlög gildi.

Í lokin dregur framkvæmdastjóri kærða saman svörin :

1.  Kærði hafi í hvívetna farið að lögmætum leiðum við setningu og auglýsingu gjaldskráa.

2.  Kærði hafni því að gjaldskrár uppbygging þeirra og hvað í gjaldinu felist hafi ekki verið kynnt kæranda eða öðrum starfsleyfishöfum rækilega og þeim gefinn kostur á að koma að andmælum, bæði hvað varði flokkun starfsemi og tíðni eftirlits sem ráði upphæð eftirlitsgjalds.

3.  Rök fyrir 30% hærra tímagjaldi vegna tímabundinnar starfsemi í tengslum við stóriðju og virkjanir hafi verið færð fram til réttra aðila.  Þar til bærir umsagnaraðilar hafi ekki gert athugasemdir og þannig samþykkt gjaldskrárdrögin.

Í greinargerð lögmanns kærða koma fram lagasjónarmið varðandi gjaldskrár kærða.  Um heimildir til gjaldtöku vísar lögmaður til 3. mgr. 12. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Þannig hafi kærði sett gjaldskrá um heilbrigðiseftirlit á starfssvæði sínu og hafi að öllu leyti verið staðið rétt að setningu gjaldskráa.  Vísar lögmaður og til þess grundvallarsjónarmiðs sem gildi um innheimtu þjónustugjalda að ekki megi innheimta hærri gjöld en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.  Heilbrigðiseftirlit sé hluti af starfsemi sveitarfélaga og verði við skoðun á starfsemi þeirra að horfa til grundvallarreglna sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  í 4. mgr. 7. gr. laganna komi fram meginregla um fjárstjórnarvald sveitarfélaga.  Kveður lögmaðurinn að í samræmi við heimild til töku þjónustugjalda skv. l. nr. 7/1998 og ákvæðum laga um fjárstjórnarvald sveitarfélaga sé það valkvætt fyrir sveitarfélög að hvaða leiti þau greiði niður heilbrigðiseftirlit með almennum skatttekjum og að hvaða leiti þau innheimti þjónustugjöld fyrir einstaka þætti heilbrigðiseftirlits.  Ákvörðun um slíkt sé í raun pólitísk og byggi jafnframt á grundvallarreglum um sjálfstjórnarvald sveitarfélaga sbr. 78. gr. stjórnarskrár.  Í samræmi við sjálfstjórnarvald sveitarfélaga hafi kærði verulegt forræði á því hvernig gjaldskrá sé byggð upp s.s. varðandi flokkun eftirlitsskyldrar starfsemi, uppbyggingu greiðslna o.fl.  Kærði hafi þessar heimildir en hafi jafnframt nýtt sér að byggja upp gjaldskrána í samræmi við leiðbeinandi reglur umhverfisráðuneytis enda ótvíræðir kostir því samfara að uppbygging gjaldskrár sé samræmd milli eftirlitssvæða.  Kærða sé rekið sem byggðasamlag sveitarfélaga á Austurlandi.  Hafi það verið rekið þannig að hluti tekna komi af þjónustugjöldum og hluti með beinum fjárframlögum aðildarsveitarfélaga af almennum skatttekjum þeirra í hlutfalli við íbúafjölda hvers sveitarfélags.  Skipting eftir íbúafjölda byggi væntanlega m.a. á þeim líkindum að eftirlitsskyld starfsemi nýtist íbúum aðildarsveitarfélaga með nokkuð jöfnum hætti og því sé eðlilegt að öll aðildarsveitarfélög leggi almennt skattfé fram við rekstur kærða eftir þeim hlutföllum. Hlutfall þess hvernig kostnaður af einstökum eftirlitsþáttum sé greiddur með þjónustugjöldum og hins vegar almennum skatttekjum sé mismunandi.  Með vísan til sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga og afleidds fjárstjórnarvalds sé sú skipan fyllilega lögmæt.  Hlutfall geti t.d. ráðist af möguleikum á innheimtu þjónustugjalds af einstökum tegundum starfsemi, áhrifa starfsemi á íbúa og pólitískum vilja til niðurgreiðslu á raunkostnaði við eftirlit s.s. með hliðsjón af því hvernig hin eftirlitsskylda starfsemi nýtist íbúum sveitarfélaga.  Vísar lögmaður kærða til þess að eins og fram komi í greinargerð kærða hafi eftirlitið staðið frammi fyrir umfangsmikilli aukningu á heilbrigðiseftirliti vegna tímabundinna stórframkvæmda á Austurlandi.  Hafi sú starfsemi lotið öðrum lögmálum varðandi áhrif á einstök sveitarfélög og þar með íbúa þeirra, enda í raun bundin við þrjú sveitarfélög á starfssvæði kærða.  Með hliðsjón af heimildum skv. sjálfsstjórnarrétti og fjárstjórnarvaldi sveitarfélaga hafi verið ákveðið að haga gjaldskrá kærða þannig að viðkomandi starfsemi greiddi því sem næst raunkostnaði við eftirlitsstarfsemina, þó án þess að innheimt yrðu hærri þjónustugjöld vegna viðkomandi eftirlitsþátta, en kostnaður af eftirliti væri.  Sú skipan sé fyllilega lögmæt.

Lögmaður kærða víkur þá að málsástæðum kæranda.

Um þá ástæðu að kærði hafi sjálfdæmi um umfang sé það rangt og vísast til laga og reglugerða þar að lútandi auk þess sem lögmaður tekur fram að kærði verði að taka mið af meðalhófsreglum varðandi tíðni og umfang eftirlits. Lögmaður kærða vísar til þess að kæra sé engum rökum studd varðandi óeðlilega eftirlitsstarfsemi á vegum kærða.  Vísar lögmaður til þess að við rekstur opinberrar starfsemi hafi reglur um töku þjónustugjalda það í för með sér að ekki sé heimilt að innheimta hærri gjöld en sem nemi raunkostnaði.

Lögmaður kærða bendir á að í kæru sé vísað til reglna um að þjónustugjald sem innheimt sé af eftirliti megi ekki vera hærra en kostnaður af eftirliti með viðkomandi starfsemi.  Kærandi byggi hins vegar ekki á því að umræddar reglur séu brotnar.  Lögmaður kveður upplýst að innheimta þjónustugjalda af þeim eftirlitsþætti sem kæra snerti, sé ekki umfram kostnað af þeirri eftirlitsstarfsemi.  Grundvallarskilyrði um innheimtu þjónustugjalds sé því uppfyllt.

Lögmaður kærða bendir á að kærandi telji gjaldskrá kærða fela í sér brot á jafnræðisreglu.  Kveður lögmaður að kjarni í þeirri málsástæðu virðist vera að enginn rekstarlegur og málefnalegur mismunur sé á því eftirliti sem falli undir liðinn tímabundin starfsemi í tengslum við stóriðju og hefðbundna starfsemi.  Sé og byggt á því að flokkun eftirlitsskyldrar starfsemi sé óljós og sambærileg eftirlitsstarfsemi geti fallið undir mismunandi eftirlitsflokka.  Þessu sé mótmælt.  Lögmaður vísar til umfjöllunar um sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga og bendir á að heimildir til að byggja upp gjaldskrá séu vissulega takmarkaðar af jafnræðisreglum, þannig að málefnaleg sjónarmið þurfi að liggja að baki gjaldskrárflokkum fyrir mismunandi eftirlitsstarfsemi.  Kveður lögmaður að lagareglur um fjárstjórnarvald feli í sér málefnalegar ástæður til þess að greiða misjafnlega niður einstaka flokka eftirlitsstarfsemi, enda sé sú grundvallarregla virt að innheimt þjónustugjöld af einni tegund eftirlitsstarfsemi verði ekki umfram kostnað við eftirlitið.  Séu þær grundvallarreglur virtar.  Bendir lögmaður á að í greinargerð kærða sé ítarlega fjallað um uppbyggingu gjaldskráa kærða.  Þar komi fram hvernig eftirlitskostnaður með ákveðinni starfsemi sé metinn út frá meðaltíma við eftirlit.  Við upphaf framkvæmda hafi kærði orðið þess var að kostnaður við eftirlit með tímabundinni stóriðjustarfsemi hafi verið mun hærri en numið hafi innheimtum þjónustugjöldum. Hafi því sú staða verið fyrirsjáanleg að tekjur af annarri starfsemi þ.e. þjónustugjöld og framlög sveitarfélaga af almennu skattfé færu í að greiða niður eftirlitið.  Kveður lögmaður kærða að í því sambandi beri að hafa í huga að við svo mikla aukningu eftirlitsstarfsemi deilist fastur kostnaður kærða út á fleiri eftirlitstilvik, þannig að kostnaður af öllu eftirliti lækki.  Við þessar aðstæður hafi verið nauðsynlegt að endurskoða gjaldskrá kærða, svo ekki kæmi til þeirrar ólögmætu stöðu að þjónustugjöld á einstökum eftirlitsþáttum rynnu í að greiða niður eftirlit vegna tímabundinnar starfsemi vegna stóriðjuframkvæmda.  Bendir lögmaður á að gjaldskrár heilbrigðiseftirlits feli í sér gjaldtöku fyrir ákveðna eftirlitsstarfsemi.  Því sé það mismunandi tegund og eðli eftirlitsstarfseminnar sem feli í sér málefnalegar heimildir til að innheimta mismunandi eftirlitsgjöld.  Eðli eftirlitsstarfsemi á virkjanasvæði og öðru stóriðjusvæði sé frábrugðið eðli eftirlitsstarfsemi á öðrum svæðum, jafnvel þó viðkomandi starfsemi gæti verið sambærileg.  Málefnaleg flokkun gjaldskrár kærða þurfi hins vegar að byggjast á eðli eftirlitsstarfseminnar og kostnaði við hana, en ekki einungis tegund starfsemi.  Munur á eftirliti á stóriðjutengdri starfsemi byggir á því að eftirlitsstarfsemi heilbrigðiseftirlits nái til verkefna sem séu annars staðar aðliggjandi starfssviði byggingarfulltrúa sveitarfélaga.  Á stóriðjusvæðum nái hlutverk bygginganefndar fyrst og fremst til skipulagsmála þ.e. hlutverk byggingarfulltrúa sé bundið við það.  Afmörkun á því hvort starfsemi falli undir gjaldflokk gjaldskrár kærða um tímabundna starfsemi vegna stóriðju byggi því á landfræðilegri afmörkun á skilgreindum stóriðju- og /eða virkjanasvæðum.  Sé því afmörkun skýr, einföld og ótvíræð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða.  Útskýrir svo lögmaður mismun á eðli og umfangi heilbrigðiseftirlits á þessum svæðum og öðrum, en kærði gerði grein fyrir því í greinargerð sinni. Kveður lögmaður kærða að í samræmi við þessa umfjöllun sé ljóst að skipting gjaldskrárflokka í gjaldskrá kærða sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum vegna mismunandi eftirlitsstarfsemi kærða á þeim svæðum sem framkvæmdaleyfi hafa verið gefin út og á öðrum svæðum. Byggi gjaldskrá kærða á því að sami fjöldi tímaeininga sé lagður til grundvallar við innheimtu þjónustugjalda af hverri tegund starfsemi á almennu starfssvæði kærða og þar sem fram fari tímabundin starfsemi vegna stóriðju á svæðum sem falla undir framkvæmdaleyfi.  Kostnaður bak við hverja tímaeiningu þjónustugjalds sé hins vegar hærri þar sem raunverulega liggi fleiri vinnustundir bak við hvern tíma auk annars sérstaks kostnaðar sem bundinn sé við eftirlit á svæðum þar sem fram fari tímabundin starfsemi vegna stóriðju.  Gjaldskrá kærða lúti að gjaldtöku fyrir ákveðna tegund heilbrigðiseftirlits en sé ekki bundin við útselda tíma einstakra starfsmanna.  Uppbygging gjaldskrár m.v. tímagjald sé því til skýringar og til að auka gegnsæi gjaldskrár, en sé ekki með neinu móti lögbundin leið sem takmarki heimildir til að innheimta þjónustugjöld fyrir raunkostnað þjónustu. Sé því framsetning í gjaldskrá fyllilega lögmæt enda sé grundvallarreglum um þjónustugjöld fylgt um að innheimta ekki hærri gjöld en raunkostnaður er af viðkomandi þjónustu. Enn bendi lögmaður kærða á að eðli eftirlitsstarfsemi og kostnaður við hana ráði heimildum til að innheimta mismunandi þjónustugjöld.   Eðli eftirlitsstarfsemi á svæðum sem tengd eru framkvæmdaleyfum fyrir stóriðjutengda starfsemi sé annað en á öðrum svæðum.  Því séu gjaldskrárákvæði kærða  fyllilega í samræmi við reglur um þjónustugjöld og jafnræðisreglur.

Ítrekar lögmaður kærða að lokum að tilhögun á innheimtu gjalda kærða sé fyllilega í samræmi við reglur um innheimtu þjónustugjalda

IV.

Ágreiningur máls þessa snýst um sérstakan  gjaldskrárlið í gjaldskrá kærða fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum.  Tímagjald við gjaldskylt eftirlit er 30% hærra fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum heldur en gjald fyrir hefðbundna starfsemi.  Krefst lögmaður kæranda ógildingar á umræddu ákvæði og endurgreiðslu á þeim gjöldum sem hann hefur greitt á grundvelli þessa ákvæðis.  Í gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit Austurlands nr. 183/2002 kemur fram að tímagjald sé kr. 5.600,-.  Í hliðstæðri gjaldskrá nr. 19/2004 kemur fram að tímagjald fyrir hefðbundna starfsemi sé kr. 6.000,- en komið er þar inn nýtt tímagjald kr. 7.800,- fyrir tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum. Kærða er heimilt að setja mismunandi gjald eftir atvinnugreinum sbr.     Í gjaldtöku verður að gæta að jafnræðisreglum stjórnsýslulaga.  Með gjaldskrá nr. 19/2004 og beitingu hennar með hærra tímagjaldi fyrir tímabundna starfsemi tengdri stóriðju og virkjunum er brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.  Er því fallist á það með kærða að gjaldskráin brjóti gegn jafnræðisreglu í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki er á valdsviði nefndarinnar að ógilda ákvæði í gjaldskrá.  Ekki er heldur á valdsviði nefndarinnar að úrskurða um endurgreiðslu til kæranda á gjöldum þeim sem tekin hafa verið skv. gjaldskrá nr. 19/2004.

ÚRSKURÐARORÐ:

Fallist er á með kæranda að ákvæði í gjaldskrá um hærra gjald fyrir “tímabundna starfsemi tengda stóriðju og virkjunum” brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, enda sé gert ráð fyrir að ferðatími starfsmanna sé innheimtur skv. tímagjaldi.  Vísað er frá kröfum kæranda um ógildingu ákvæðisins, svo og kröfu um endurgreiðslu og ákvörðun kostnaðar vegna vinnu við að hafa kæruna uppi.

Lára G. Hansdóttir

Gunnar Eydal                                     Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 8/11/06

4/2000 Reykjanesbær gjaldtaka

Með

Nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998

Lágmúla 7, 108 Reykjavík

Ár 2001 1. mars kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík. Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal hrl. og Óðinn Elísson hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2000, kæra Sigurjóns Kjartanssonar, Bjarnarvöllum 3, Keflavík, vegna gjaldtöku Reykjanesbæjar vegna fráveituframkvæmda í Reykjanesbæ.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður.

I.

Forsaga málsins er að nefndinni barst bréf dags. 30. nóvember 2000 frá umhverfis-ráðuneyti en þangað hafði kærandi upphaflega sent erindi sitt. Nefndin bar sjónarmið kæranda undir Reykjanesbæ og bárust svör bæjarins með bréfi dags. 16. janúar 2001. Bréfinu fylgdu gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ, samþykkt af umhverfisráðuneyti þann 10. mars 1997, yfirlit bæjarverkfræðings yfir framgang útboða vegna framkvæmda og yfirlit fjármálastjóra Reykjanesbæjar yfir innheimtu gjalda árin 1997 – 2000. Framangreind gögn voru borin undir kæranda sem gerði athugasemdir vegna þeirra með bréfi dagsettu 1. febrúar 2001. Ástæða þótti að gefa Reykjanesbæ kost á andsvörum og bárust þau nefndinni með bréfi dags. 12. mars 2001.

II.

Í bréfi kæranda dags. 29. nóvember 2000 segir m.a.: ,,Undanfarin ár hefur Reykjanesbær innheimt gjald sem ýmist er kallað ,,GJALD VEGNA FRÁVEITUFRAMKVÆMDA“ eða GJALD VEGNA HREINSUNAR Á FRÁVEITUVATNI“. Og er þetta gjald 6000 kr. á ári á hvert fasteignanúmer.

Í Reykjanesbæ á sér ekki stað nein hreinsun á fráveituvatni og engar eru fráveituframkvæmdirnar. Ég held að þessi gjaldtaka sé ekki lögleg.

Reykjanesbær á ekki að geta rukkað íbúana um annað en lögboðna skatta og greiðslur fyrir veitta þjónustu. Þetta gjald fellur undir hvorugt. Gjaldið miðast ekki við verðmæti eignar eða tekjur manna og leggst því á fólk með öðrum hætti en ef holræsagjald eða útsvar hefði verið notað til framkvæmdanna. Ef þessar framkvæmdir eru lögboðnar þá ber að greiða þær af útsvari. Það getur ekki gengið að bæjarfélög innheimti skatta og bæti síðan aukagjöldum ofan á þá til að fjármagna framkvæmdir eins og þessa eða skóla, áhaldahús, íþróttahús o.s.frv. til hvers eru þá skattarnir?“

Í andsvari kæranda við sjónarmiðum Reykjanesbæjar segir m.a.: ,,Í bréfi til mín dags. 22. janúar 2001 biðjið þér um viðhorf mitt til gagna sem með því fylgdu. Mitt viðhorf er það að hér sé um skattheimtu að ræða en ekki þjónustugjald. Og þar sem engin lög heimila þessa skattheimtu þá sé hún ólögleg. Skatta má ekki leggja á nema lög

kveði svo um. Reglugerðir og heimildir ráðuneyta duga ekki til.

Skattar fara t.d. í að byggja skóla, sorpeyðingarstöðvar og sjúkrahús, síðan eru innheimt þjónustugjöld fyrir þjónustuna. Þess eru að ég held hvergi dæmi að byggingin sjálf flokkist undir þjónustu. Heldur aðeins sú starfsemi sem þar fer fram. Þjónustugjöld mega ekki vera hærri en kostnaðurinn við þjónustuna. Skattar eru ekki bundnir af þessu ákvæði og því geta t.d. fasteignagjöld (sem eru skattar með stoð í lögum) verið töluvert hærri en kostnaður þeirrar þjónustu sem veitt er. Þegar skolphreinsunarstöðin fer að starfa er Reykjanesbæ stætt á því að innheimta þjónustugjöld en ekki fyrr.“

Síðan vitnar kærandi til l. nr. 53/1998 um framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum og vísar til 12. og 25. gr. l. nr. 7/1998.

Í niðurlagi andsvarsins segir síðan: ,,Hvergi gat ég fundið lagastoð fyrir þessari gjaldtöku. Ég tel því að umhverfisráðuneytinu beri að afturkalla staðfestingu á gjaldskrá dags. 10. mars 1997. Og að Reykjanesbæ beri að endurgreiða alla upphæðina með vöxtum.“

III.

Í bréfi Reykjanesbæjar frá 16. janúar 2001 segir m.a.: ,,Innheimta á gjaldi vegna fráveituframkvæmda byggir á ,,Gjaldskrá vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ“ sem samþykkt var í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 4. febrúar 1997 og staðfest af umhverfisráðuneytinu þann 10. mars 1997. Gjaldið rennur í sérstakan sjóð skv. 2. gr. gjaldskrárinnar og er ekki notað til annarra hluta en fráveituframkvæmda. Gert er ráð fyrir að gjaldið falli niður þegar framkvæmd lýkur.

Þá fylgir yfirlit yfir meðferð fjármuna til framkvæmda frá bæjarverkfræðingi Reykjanesbæjar, þar kemur fram að framkvæmdir eru í fullum gangi. Nú hefur verið framkvæmt eða samið um fyrir kr. 272.000.000,-

Heildarkostnaðaráætlun er kr. 1.150.000.000,-

Innheimt hefur verið samtals á árunum 1997-2000 kr. 100.000.720,- sbr. bréf fjármálastjóra Reykjanesbæjar.“

Í fylgigögnum staðfestir bæjarverkfræðingur Reykjanesbæjar annars vegar kostnaðaráætlun og hins vegar staðfestir fjármálastjóri Reykjanesbæjar þegar innheimt gjöld og sundurgreinir fjárhæðir eftir árlegri innheimtu vegna áranna

1997–2000. Í lokasvari Reykjanesbæjar segir: ,,Eins og fram kom í bréfi voru og gögnum sem dagsett er 16. janúar 2001, er gjaldið til greiðslu á stofnkostnaði fráveitumannvirkja. Þegar stofnkostnaður er að fullu greiddur fellur gjaldið niður. Frá þeim tíma, þegar rekstur hefst er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði greiddur af álögðu holræsagjaldi.

Allur undirbúningur og meðferð málsins var samkvæmt samþykkt frá heilbrigðis-nefnd Suðurnesja og einnig umhverfisráðuneytinu, farið var eftir ráðgjöf lögmanna í hvívetna. Reykjanesbær telur sig hafa uppfyllt allar þær lagaskyldur sem fyrir voru lagðar af hálfu yfirstjórnar málaflokksins.“

IV.

Í gögnum málsins kemur fram að þau gjöld sem um er deilt voru fyrst lögð á árið 1997 og síðan árlega og samtala innheimtra gjalda 1997–2000 kr. 100.000.720.- og ljóst að ætlunin er að innheimta gjöld til framkvæmdaáætlunar, sem nemur ríflega einum milljarði króna, enn um sinn. Því telur nefnd skv. 7. gr. l. nr. 7/1998 þrátt fyrir ákvæði 27 gr. og 28 gr. l. 37/1993 ekki efni til að vísa máli þessu frá að eigin frumkvæði, en krafa hefur ekki komið fram um slíkt.

V.

Í 7. gr. l. nr. 45/1998 segir m.a.: ,,Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim er falin að lögum.“ Síðan segir: ,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.“

Í 9. gr. s.l. segir m.a.: ,, Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.“

Í 2. gr. l. nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga segir: ,,Auk tekna skv. 1. gr. (þ.e. fasteignaskatta, framlaga úr jöfnunarsjóði og útsvars) hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl. allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um.“

Í 25. gr. l. nr. 7/1998 segir ennfremur að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki er fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur sem fram koma í þeim og er heimilt m.a. að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og sorps svo og gjaldtökuleyfi, leigu eða veitta þjónustu. Sveitarfélögum er heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda en þau gjöld mega ekki vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu.

18. gr. l. nr. 81/1988 sem gilti um hluta þessa tímabils sem mál þetta snýst um er eins að mestu leyti en þó var skylt skv. því ákvæði að leyta samþykktar ráðherra á gjaldskrá og var það gert en sú samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem var grundvöllur gjaldskrár vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ var staðfest af umhverfisráðherra þann 10. mars 1997.

Ekki er um það deilt að eitt af verkefnum hvers sveitarfélags er að annast skólp- og fráveitur sbr. t.d. X kafla l. nr. 15/1923 og l. nr. 53/1995. Í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 sem sett er með stoð í l. nr. 81/1988 (nú l. nr. 7/1998) er einnig að finna ýmis ákvæði sem leggja ríkar skyldur á sveitarfélög um meðferð skólps og annars úrgangs og m.a. með tilliti til krafna skv. reglugerðinni mun Reykjanesbær hafa ákveðið að endurnýja fráveitur bæjarins eða eins og segir í 2 gr. þeirrar gjaldskrár sem staðfest var 10. mars 1997: ,,Gjaldið rennur í sjóð til að standa straum af kostnaði við hönnun og byggingu útrása og dælu- og hreinsistöðva í Reykjanesbæ.“

Skv. framanrituðum lagatilvitnunum er það álit nefndar skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 að Reykjanesbær hafi lagaheimildir til að haga gjaldtöku eins og gert er í samræmi við staðfesta gjaldskrá frá 10. mars 1997 og engin þau atriði hafi komið fram sem benda til að ekki hafi verið gætt réttra sjónarmiða og aðferða við setningu gjaldskrárinnar.

Úrskurðarorð.

Hafnað er kröfum kæranda, Sigurjóns Kjartanssonar, um afturköllun gjaldskrár frá 10. mars 1997 vegna hreinsunar fráveituvatns í Reykjanesbæ og kröfum um endurgreiðslu þegar greiddra gjalda.

Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal hrl.                 Óðinn Elísson hdl.

Date: 3/1/01

23/2012 Brákarbraut

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um álagningu sorpgjalds vegna fasteignarinnar nr. 11 við Brákarbraut í Borgarnesi fyrir árið 2012. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. mars 2012, er barst nefndinni 27. s.m., kærir I, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að hækka álagt sorpgjald vegna fasteigar hans nr. 11 við Brákarbraut fyrir árið 2012.  Verður að skilja kröfugerð kæranda svo að kærð sé álagning sorpgjalds 2012 og að gerð sé krafa um að hún verði felld úr gildi. 

Kærandi krefst þess einnig að viðurkennt verði að eðlilegra hefði verið að lækka gjöld vegna uppsafnaðs hagnaðar af innheimtu sorpgjalds áranna á undan eða að endurgreiða oftekin gjöld.  Jafnframt verði viðurkennt að ljóst hafi mátt vera af reikningsskilum áranna 2009-2011 að sveitarfélagið hafi oftekið sorpgjöld stórlega árin á undan og að svo verði einnig árið 2012.  Þá verði viðurkennt að endurkröfu megi gera á sveitarfélagið vegna oftekins sorpgjalds og að lög heimili ekki að stofnkostnaður vegna sorphirðu sé fjármagnaður með sorpgjaldi.  Loks krefst kærandi þess að sveitarfélaginu verði eftirleiðis gert að vanda betur til áætlanagerðar, reikningshalds, innheimtu og upplýsingagjafar til íbúa um tekjur og gjöld vegna sorphirðu ár hvert. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í málinu frá Borgarbyggð hinn 27. apríl 2012. 

Málavextir:  Með auglýsingu, sem birt var m.a. í héraðsblaðinu Skessuhorni hinn 24. janúar 2012, tilkynnti sveitarstjórn Borgarbyggðar að lokið væri álagningu fasteignagjalda í sveitarfélaginu árið 2012 og að álagningarseðlar hefðu verið sendir til gjaldenda.  Þá sagði að ef gjaldendur teldu álagninguna ekki rétta væri hægt að fara fram á endurálagningu með rökstuddum hætti en skrifleg beiðni þar um skyldi berast skrifstofu Borgarbyggðar eigi síðar en mánuði eftir álagningu.  Hvorki var í auglýsingunni getið kæruheimildar samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 né lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, en álagningin tók bæði til fasteignaskatts og sorpgjalds.  Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2012, dags. 24. janúar s.á., var kæranda gert að greiða 31.000 krónur í sorpgjald vegna fasteignarinnar að Brákarbraut 11.  Kærði hann álagningu gjaldsins til sveitarfélagsins með bréfi, dags. 22. febrúar 2012, og krafðist þess að álagt sorpgjald yrði í samræmi við rökstuddan kostnað við sorphirðu og sorpeyðingu.  Þá krafðist hann gagna um kostnað þennan og gerði athugasemd við að ekki væri getið um kæruheimild á álagningarseðlinum.  Kröfu kæranda var hafnað með bréfi, dags. 27. febrúar 2012, og honum bent á að sú ákvörðun væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með eins mánaðar kærufresti.  Í bréfinu kom jafnframt fram að í auglýsingu um álagninguna, sem bæði hefði birst á heimasíðu Borgarbyggðar og í fjölmiðlum, væri gjaldendum bent á leið til að fara fram á endurálagningu ef þeir teldu álagninguna ekki rétta.  Því væri ekki ástæða til að geta þess einnig á álagningarseðli. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að í 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 segi m.a. að heimilt sé að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar.  Gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.  Í 7. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð nr. 295/2007 segi að gjöld í hverjum flokki skuli vera sem næst meðal raunkostnaði við þá þjónustu sem veitt sé, en þó aldrei hærri en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu, umsýslu og eftirlit með einstökum þáttum.  Ekkert mæli gegn því að þjónustugjöld séu lægri kjósi stjórnvöld að greiða hluta kostnaðar af öðrum tekjum.  Þá geri lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995 ráð fyrir að séu þjónustugjöld oftekin megi þolandi krefjast endurgreiðslu.  Þá heimili lögin ekki að stofnkostnaður vegna sorphirðu sé reiknaður inn í þjónustugjald vegna hennar. 

Fram komi í rökstuðningi Borgarbyggðar að sé raunkostnaður við sorphirðu hærri en álögð gjöld séu gjaldendur ekki krafðir um mismun þess vegna.  Í því felist að sveitarfélagið telji ekki heimilt að innheimta sorpgjald aftur í tímann þótt fyrir liggi að það hafi ekki staðið undir raunkostnaði.  Í téðum rökstuðningi sé einnig dregið í efa að bókhald sveitarfélagsins sé nægjanlega nákvæmlega fært til að gefa rétta mynd af kostnaði vegna sorphirðu.  Efasemdir um bókhald sveitarfélagsins séu athyglisverðar og þarfnist nánari skoðunar.  Meint ónákvæmni hljóti að teljast ámælisverð enda nemi hún tugum prósenta af tekjum, eins og hagnaður af sorpgjaldi sum árin beri með sér. 

Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að sveitarfélagið hafi oftekið verulega sorpgjald undanfarin ár og að óbreyttu haldi sú þróun áfram.  Á árinu 2010 hafi hreinn hagnaður af innheimtu sorpgjalds numið 29 prósentum af tekjum og árið 2011 tæpum 17 prósentum.  Ef meðalhagnaður áranna 2006-2011 sé skoðaður sem hlutfall meðaltekna á sama tíma reynist hagnaðurinn um 6,5 prósent og 9,8 prósent sé tap vegna áranna 2006-2008 gert upp á núlli. 

Að reikna hagnað af þjónustugjaldi eigi sér ekki lagastoð og órökstudd ákvörðun um hækkun gjalds til viðbótar miklum uppsöfnuðum hagnaði sé lagalega og siðferðislega röng og ábyrgu stjórnvaldi ekki sæmandi.  Ekki hafi verið lögmætar ástæður að baki ákvörðun um að hækka gjaldskrá sorpgjalds sveitarfélagsins vegna ársins 2012. 

Málsrök Borgarbyggðar:  Af hálfu Borgarbyggðar er þess krafist að aðalkröfu kæranda verði hafnað en öðrum kröfum hans vísað frá.  Í niðurlagi kærunnar séu settar fram mjög óljósar kröfur sem beinist ekki að einni ákveðinni ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.  Þá beinist þær einnig að því hvernig sveitarfélagið skuli haga stjórnsýslu sinni í framtíðinni, en ekki sé hlutverk nefndarinnar að taka ákvörðun um það nema að því leyti sem hún snúi að ákvörðun sem sé kæranleg til nefndarinnar.  Af þessum ástæðum aðallega verði að vísa þessum óljósu kröfum kæranda frá nefndinni. 

Í gildi sé samþykkt nr. 295/2007 um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð, sem sett sé samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.  Samkvæmt 7. gr. samþykktarinnar sé sveitarstjórn heimilt að innheimta gjald fyrir meðhöndlun úrgangs og sorphirðugjald samkvæmt gjaldskrá.  Haga megi gjaldskrárflokkum eftir þjónustustigi.  Þá segi í 7. gr. að gjöld í hverjum flokki skuli ,,… vera sem næst meðal raunkostnaði við þá þjónustu sem veitt er, en þó aldrei hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu, umsýslu og eftirliti með einstökum þáttum“.

Á fyrrgreindri samþykkt byggi gjaldskrá Borgarbyggðar fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Borgarbyggð fyrir árið 2012.  Samkvæmt henni sé sorpgjald árið 2012 31.000 krónur á hvert heimili í þéttbýli. 

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 skuli rekstraraðili förgunarstaðar innheimta gjald fyrir förgun úrgangs.  Skuli gjaldið nægja fyrir öllum kostnaði við förgun úrgangsins, þ.m.t. við uppsetningu og rekstur viðkomandi förgunarstaðar.  Þá skuli gjaldið einnig duga að svo miklu leyti sem unnt sé fyrir kostnaði sem fylgi því að setja fjárhagslega tryggingu fyrir áætluðum kostnaði við lokun förgunarstaðar og nauðsynlegu eftirliti í kjölfar lokunar í 30 ár, sbr. 43. gr. laganna.  Því sé ljóst að sorphirðugjald skuli ekki aðeins standa undir kostnaði við sorphirðuna sem slíka heldur einnig undir ýmsum kostnaði sem fylgi förgun sorps, þ.m.t. stofnkostnaði förgunarstaðar og eftirliti með honum í allt að 30 ár eftir lokun hans.  Þá skuli sorphirðugjald einnig standa undir kostnaði við stjórnsýslu vegna sorphirðu og tengdrar starfsemi. 

Eins og fyrr greini skuli álögð gjöld, samkvæmt samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Borgarbyggð, vera sem næst meðal raunkostnaði við þá þjónustu sem veitt sé.  Eins og fram komi í bréfi Borgarbyggðar til kæranda, dags. 27. febrúar 2012, hafi rekstrartap verið á sorphirðu í sveitarfélaginu árin 2006-2008 samtals að fjárhæð rúmlega 10 milljónir króna, en á árunum 2009-2011 hafi rekstrarhagnaður hins vegar numið tæplega 30 milljónum.  Þannig hafi árlegur hagnaður verið að meðaltali rúmlega 3,4 milljónir króna á þessu sex ára tímabili.   Á þessum árum hafi sorphirðan, sem rekin sé sem B-hluta fyrirtæki, verið að greiða af skuldabréfi sem sorphirðan hafi tekið árið 2002.  Afborganir hafi verið 2-3 milljónir króna á ári og hafi þær numið rúmlega 3 milljónum króna árin 2010 og 2011.  Síðasta greiðsla þessa skuldabréfs sé á árinu 2012.  Inni í rekstrarkostnaði hvers árs sé hins vegar hvorki stjórnsýslukostnaður, nema að litlu leyti, né eftirlitskostnaður, þ.m.t. eftir lokun förgunarstaða, sbr. framanritað.  Borgarbyggð hafi aðeins fært um 1 milljón króna á ári vegna kostnaðar við umsýslu fyrir sorphirðuna.  Megi fullyrða að þar sé mjög varlega reiknað þannig að bókhald sveitarfélagsins endurspegli í raun ekki nægjanlega vel umsýslukostnað sveitarfélagsins vegna sorphirðunnar.  Endurskoðendur sveitarfélagsins hafi bent á að rétt væri að færa þennan kostnað með skýrari hætti og verði það gert á árinu 2012. 

Það skuli tekið fram að rekstrarniðurstaða ársins 2011 hafi orðið talsvert betri en áætlanir hafi gert ráð fyrir.  Samkvæmt áætlunum hafi verið búist við að niðurstaðan yrði nálægt núlli en í raun hafi hagnaður orðið um 10 milljónir króna.  Það hafi hins vegar ekki legið fyrir þegar gjaldskrá fyrir sorphirðu árið 2012 hafi verið samþykkt í sveitarstjórn Borgarbyggðar.  Um síðustu áramót hafi staðan verið sú að sorphirðan hafi átt inni hjá aðalsjóði rúmar 15 milljónir króna, sem að stærstum hluta skýrist af afkomu ársins 2011.  Í raun megi segja að þetta sé ekki há fjárhæð miðað við rekstrarkostnað sorphirðunnar á liðnum árum.  Þessi inneign verði fljót að fara komi eitthvað óvænt upp á.  Eigið fé sorphirðunnar í lok árs 2011 hafi verið rúmar 14 milljónir króna sem vart geti talist mikið.  Fjárhagsáætlun ársins 2012 geri ráð fyrir að rekstrarafgangur verði 4,8 milljónir en á móti komi að sorphirðan sé með skuldabréf að eftirstöðvum um 3,7 milljónir sem greiðist upp á árinu 2012.  Að teknu tilliti til þessa standi eftir um 1 milljón króna, sem sé innan við 2% af veltu sorphirðunnar.  Þessar staðreyndir hljóti að skipta töluverðu máli þegar horft sé á heildarmyndina hvað sorphirðugjöldin varði. 

Þess megi geta að í vetur hafi verið lagt fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Verði það frumvarp að lögum óbreytt muni það þýða stóraukinn kostnað sveitarfélaga við meðhöndlun sorps, auk stofnkostnaðar vegna hertra krafna um söfnun sorps. 

Þau ár sem tap sé á sorphirðu séu gjaldendur ekki krafðir um það en sé hagnaður einhver ár gangi það upp í hugsanlegt tap önnur ár.  Þá sé ljóst að það sé ekki hægt að áætla með nákvæmum hætti ýmsan kostnað við sorphirðu, svo sem stjórnsýslu- og eftirlitskostnað.  Því megi alltaf gera ráð fyrir einhverjum frávikum frá áætlun til raunkostnaðar.  Við ákvörðun sorphirðugjalda verði því ekki aðeins að líta til niðurstöðu næsta árs á undan heldur lengra tímabils, þ.e. til nokkurra ára.  Þannig sé því heimilt að nota hagnað eins árs til að greiða tap annars árs eða ára.  Samkvæmt rekstraráætlun fyrir árið 2012 sé gert ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 4,8 milljónir króna og gangi sú áætlun eftir sé mjög líklegt að sveitarstjórn Borgarbyggðar taki tillit til stöðu sorphirðunnar við álagningu gjalda fyrir árið 2013. 

Loks sé því sérstaklega mótmælt að ekki sé heimilt að gera ráð fyrir stofnkostnaði þegar sorphirðugjald sé ákveðið, sbr. sérstaklega 11. gr. laga nr. 55/2003. 

Niðurstaða:  Í auglýsingu um hina umdeildu álagningu, er birtist hinn 24. janúar 2012, var tekið fram að ef gjaldendur teldu álagninguna ekki rétta væri hægt að fara fram á endurálagningu með rökstuddum hætti innan mánaðar frá álagningunni.  Neytti kærandi þessa endurskoðunarréttar innan tilskilins frests og kærði síðan til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá því að honum barst synjun Borgarbyggðar á endurskoðun álagningarinnar.  Þótt umrætt málskot til sveitarstjórnar eigi sér ekki lagastoð leiðir það til þess að afsakanlegt verður að telja að kæra í máli þessu barst að liðnum kærufresti og er þá einnig til þess að líta að kæranda var ekki gerð grein fyrir kæruheimildum og kærufrestum við birtingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Verður málið því tekið til efnismeðferðar með stoð í 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í málinu er deilt um álagningu sorpgjalds vegna fasteignarinnar að Brákarbraut 11.  Borgarbyggð hefur sett samþykkt nr. 295/2007 um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu með stoð í 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.  Í 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er kveðið á um að sveitarfélög geti sett gjaldskrár á grundvelli slíkra samþykkta og skulu þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda.  Með stoð í þessari lagaheimild hefur Borgarbyggð sett gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í sveitarfélaginu með auglýsingu nr. 1337/2011, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 17. janúar 2012. 

Samkvæmt 5. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir mega gjöld aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. 

Í 11. gr. laga um meðhöndlun úrgangs er kveðið á um gjald fyrir meðhöndlun úrgangs.  Þar segir í 3. mgr. að innheimt gjald skuli aldrei vera hærra en sem nemi þeim kostnaði sem falli til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna.  Í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga segir um ákvæðið að ljóst sé að heildartekjur sveitarfélags á grundvelli framangreinds gjalds megi ekki vera hærri en nemi heildarkostnaði þess við meðhöndlun úrgangsins. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafa tekjur Borgarbyggðar verið talsvert hærri en nemur kostnaði vegna sorphirðu undanfarin þrjú ár og benda áætlanir sveitarfélagsins til að svo verði einnig árið 2012.  Verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á það af hálfu sveitarfélagins að álagt sorpgjald fyrir árið 2012 sé ekki hærra en nemi þeim kostnaði sem falla muni til í sveitarfélaginu á árinu í skilningi 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.  Samkvæmt því fer álagning sorpgjalda Borgarbyggðar fyrir árið 2012 í bága við framangreind lagaákvæði.  Ber því að fallast á kröfu kæranda um að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á fasteign hans að Brákarbraut 11 að fjárhæð 31.000 krónur samkvæmt álagningarseðli, dags. 24. janúar 2012.

Aðrar kröfur kæranda lúta ekki að ákvörðun eða álitaefnum er sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar og koma þær því ekki til álita við úrlausn málsins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning sorpgjalds vegna fasteignar kæranda að Brákarbraut 11 að fjárhæð 31.000 krónur samkvæmt álagningarseðli, dags. 24. janúar 2012.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

28/2012 Túnsberg

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2012, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 29. nóvember 2011 um að hafna umsókn kæranda um niðurfellingu sorpgjalds fyrir árið 2011 vegna eldra íbúðarhúss, fastanúmer 216-0435 að Túnsbergi í Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2012, er barst nefndinni 12. s.m., framsendi innanríkisráðuneytið þann þátt stjórnsýslukæru S, Grund, Akureyri, dags. 20. mars s.á., er laut að synjun Svalbarðsstrandarhrepps á umsókn hans um niðurfellingu álagðs sorpgjalds fyrir árið 2011 vegna eldra íbúðarhúss að Túnsbergi.  Gerir kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn í máli þessu frá Svalbarðsstrandarhreppi hinn 29. maí 2012 og viðbótargögn hinn 30. ágúst s.á. 

Málsatvik:  Kærandi mun vera eigandi fasteigna að Túnsbergi í Svalbarðsstrandarhreppi.  Var honum gert að greiða sorpgjald samkvæmt álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2011 vegna svonefnds eldra húss að Túnsbergi.

Með bréfi til sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, dags. 7. nóvember 2011, fór kærandi fram á niðurfellingu fasteignaskatta vegna jarðarinnar Túnsbergs fyrir árin 2008-2012 auk niðurfellingar álagðs sorpgjalds af eldra íbúðarhúsi, sem á jörðinni stendur, vegna ársins 2011 og áfram.  Erindið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar hinn 29. s.m. og því synjað.  Var kæranda tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 27. desember s.á.  Kærandi skaut þeirri ákvörðun til innanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 20. mars 2012, og framsendi ráðuneytið þann þátt kærunnar er laut að sorpgjaldinu til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi bendir á að ekki sé búið að staðaldri í eldra íbúðarhúsinu að Túnsbergi og komi þaðan afskaplega lítið sorp.  Sé sorpinu skilað í sorpgám á Svalbarðseyri og nýti kærandi sér því ekki þá þjónustu sveitarfélagsins að hirða sorp frá húsinu. Það hafi hann ekki gert sl. 14 ár.  

Málsrök Svalbarðsstrandahrepps:  Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps tekur fram að ekki verði séð að gjaldskrá sveitarfélagsins gefi heimild til lækkunar eða niðurfellingar á sorpgjaldi þegar svo hátti til sem í tilviki kæranda.  Sorpgjaldið sé lagt á hverja íbúðareiningu samkvæmt skráningu í fasteignaskrá en sé ekki miðað við magn sorps frá hverju húsi eða hvernig nýtingu húsnæðis sé háttað.  Samningur sveitarfélagsins við verktaka um sorphirðuna sé miðaður við fjölda íbúða og inna þurfi verktakagreiðslur af hendi án tillits til þess hvort þjónustan sé nýtt eða ekki.  Á umræddri jörð séu tvö íbúðarhús og sorpgjald lagt á í samræmi við það.  Losun kæranda á heimilissorpi í gáma valdi sveitarfélaginu auknum kostnaði og fari gegn gildandi reglum um flokkun þess.  Hafi kærandi notið afsláttar af gjaldinu árið 2011 í samræmi við heimild gjaldskrárinnar um afslátt af gjaldi til elli- og örorkulífeyrisþega. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarfélögum heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, en undir meðhöndlun fellur m.a. söfnun úrgangs skv. 3. gr. sömu laga.  Í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis segir að sveitarfélögum sé heimilt að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafi á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila.  Einnig er sveitarfélögum veitt heimild til að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.  Skal sveitarfélag láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda skv. 4. mgr. 11. gr. sömu laga. 

Fyrir liggur gjaldskrá nr. 67/2011 um sorphirðu og förgun úrgangs í Svalbarðsstrandarhreppi, er birt var í B- deild Stjórnartíðinda 28. janúar 2011 og gilti fyrir það ár.  Samkvæmt gjaldskránni skal lagt sorpgjald á hverja íbúð en skv. 3. gr. gjaldskrárinnar er heimilt að veita 50% afslátt til elli- og örorkulífeyrisþega vegna íbúða.  Fyrir liggur að kæranda hefur verið boðinn þessi afsláttur en ekki er heimild í gjaldskrá til að veita afslátt af sorpgjaldi, eða fella það niður, á öðrum grundvelli en að framan greinir.  Var sveitarstjórn því rétt að synja kæranda um niðurfellingu álagðs sorpgjalds og verður kröfu hans um ógildingu þeirrar ákvörðunar því hafnað. 

Uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Svalbarðsstrandarhrepps frá 19. nóvember 2011 um að synja beiðni um niðurfellingu álagðs sorpgjalds vegna ársins 2011 á eldra íbúðarhús að Túnsbergi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

17/2012 Naustabrekka

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 21. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2012, kæra á álagningu umhverfisgjalds árið 2012 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 6. mars 2012, kærir G, Strandgötu 15, Patreksfirði, álagningu á umhverfisgjaldi 2012 Vesturbyggðar fyrir Naustabrekku á Rauðasandi, samkvæmt álagningarseðli, dags. 27. janúar 2012.  Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá sveitarfélaginu hinn 4. apríl 2012. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé að hin kærða álagning umhverfisgjalds verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kæranda, sem er eigandi sumarhúss á eyðibýlinu Naustabrekku, landnúmer 139908, var gert að greiða umhverfisgjald að upphæð 23.000 krónur samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda 2012.  Póststimpill álagningarseðilsins er 30. janúar 2012.  Með tölvupósti hinn 21. febrúar s.á. fór kærandi fram á við bæjarstjóra Vesturbyggðar að álagt umhverfisgjald yrði fellt niður áður en kæra yrði send til úrskurðarnefndarinnar.  Með bréfi, dags. 27. s.m., var kröfu kæranda hafnað.  Kærandi kærði álagninguna til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan er getið, og vísar til þess að þar sem ekki sé vegsamband við sumarhúsið sé ekki hægt að þjónusta það með sorphirðu.  Stofnunum og sveitarfélögum sé óheimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sem ekki sé innt af hendi. 

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að álagning umhverfisgjalda vegna ársins 2012 sé byggð á gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 122/2012.  Í A-lið 2. gr. gjaldskrárinnar sé kveðið á um álagningu og innheimtu árlegs umhverfisgjalds á orlofshús að upphæð 23.000 krónur.  Fasteignin Naustabrekka sé skráð í bækur Þjóðskrár Íslands sem sumarhús.  Sorp sé ekki sótt til sumarhúsa á sama hátt og innan skipulegrar íbúðarhúsabyggðar.  Umhverfisgjaldi á orlofshús sé ætlað að standa undir kostnaði við eyðingu sorps en ekki við að sækja það.  Gjaldendum sé gert að koma sorpi frá orlofshúsum sínum á þar til gerðar sorpmóttökustöðvar eða í sorpgáma sem staðsettir séu á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu.  Tekjur við söfnun og meðhöndlun sorps í Vesturbyggð á árunum 2009-2011 hafi verið 76.874.329 krónur og gjöld 101.557.111 krónur.  Kostnaður sé allmiklu hærri en tekjur eða sem nemi tæpum 25 milljónum króna á einungis þremur árum.  Gjaldskráin hafi því verið talsvert of lág á þessum árum til að standa undir kostnaði við söfnun og meðhöndlun sorps í sveitarfélaginu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar umhverfisgjalds vegna orlofshúss kæranda í Vesturbyggð. 

Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu við meðhöndlun og eyðingu sorps og úrgangs með stoð í sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Sveitarfélög geta sett gjaldskrár á grundvelli samþykktanna sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda skv. 5. mgr. 25. gr. laga 7/1998.  Í gildi er samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð nr. 214/2004 og á grundvelli þeirrar samþykktar hefur verið sett gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 122/2012, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 9. febrúar 2012.  Í 1. gr. gjaldskrárinnar kemur fram að innheimt gjöld skuli standa straum af kostnaði við hirðu, endurvinnslu og eyðingu sorps.  Álagningarseðill fasteignagjalda kæranda árið 2012, sem felur m.a. í sér umdeilt gjald, er dagsettur 27. janúar 2012, með fyrsta gjaldaga 1. febrúar s.á. 

Í 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að fyrirmælum, er felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis og birta skal í Stjórnartíðindum, megi ekki beita fyrr en birting hafi farið fram nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum.  Þar er og ákvæði um að birt fyrirmæli bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. 

Fyrir liggur samkvæmt framangreindu að hin kærða álagning fór fram áður en gjaldskráin sem stuðst var við hafði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, eins og fyrir er mælt í 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998.  Ber af þeim sökum að fella hina kærðu álagningu úr gildi með hliðsjón af fortakslausu orðalagi 8. gr. laga nr. 15/2005. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning umhverfisgjalds ársins 2012 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð samkvæmt álagningarseðli, dags. 27. janúar 2012. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson