Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2012 Naustabrekka

Árið 2012, fimmtudaginn 21. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 17/2012, kæra á álagningu umhverfisgjalds árið 2012 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 6. mars 2012, kærir G, Strandgötu 15, Patreksfirði, álagningu á umhverfisgjaldi 2012 Vesturbyggðar fyrir Naustabrekku á Rauðasandi, samkvæmt álagningarseðli, dags. 27. janúar 2012.  Úrskurðarnefndinni bárust málsgögn frá sveitarfélaginu hinn 4. apríl 2012. 

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að krafist sé að hin kærða álagning umhverfisgjalds verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Kæranda, sem er eigandi sumarhúss á eyðibýlinu Naustabrekku, landnúmer 139908, var gert að greiða umhverfisgjald að upphæð 23.000 krónur samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda 2012.  Póststimpill álagningarseðilsins er 30. janúar 2012.  Með tölvupósti hinn 21. febrúar s.á. fór kærandi fram á við bæjarstjóra Vesturbyggðar að álagt umhverfisgjald yrði fellt niður áður en kæra yrði send til úrskurðarnefndarinnar.  Með bréfi, dags. 27. s.m., var kröfu kæranda hafnað.  Kærandi kærði álagninguna til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan er getið, og vísar til þess að þar sem ekki sé vegsamband við sumarhúsið sé ekki hægt að þjónusta það með sorphirðu.  Stofnunum og sveitarfélögum sé óheimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sem ekki sé innt af hendi. 

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að álagning umhverfisgjalda vegna ársins 2012 sé byggð á gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 122/2012.  Í A-lið 2. gr. gjaldskrárinnar sé kveðið á um álagningu og innheimtu árlegs umhverfisgjalds á orlofshús að upphæð 23.000 krónur.  Fasteignin Naustabrekka sé skráð í bækur Þjóðskrár Íslands sem sumarhús.  Sorp sé ekki sótt til sumarhúsa á sama hátt og innan skipulegrar íbúðarhúsabyggðar.  Umhverfisgjaldi á orlofshús sé ætlað að standa undir kostnaði við eyðingu sorps en ekki við að sækja það.  Gjaldendum sé gert að koma sorpi frá orlofshúsum sínum á þar til gerðar sorpmóttökustöðvar eða í sorpgáma sem staðsettir séu á nokkrum stöðum í sveitarfélaginu.  Tekjur við söfnun og meðhöndlun sorps í Vesturbyggð á árunum 2009-2011 hafi verið 76.874.329 krónur og gjöld 101.557.111 krónur.  Kostnaður sé allmiklu hærri en tekjur eða sem nemi tæpum 25 milljónum króna á einungis þremur árum.  Gjaldskráin hafi því verið talsvert of lág á þessum árum til að standa undir kostnaði við söfnun og meðhöndlun sorps í sveitarfélaginu.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti álagningar umhverfisgjalds vegna orlofshúss kæranda í Vesturbyggð. 

Sveitarfélögum er heimilt að innheimta gjald fyrir veitta þjónustu við meðhöndlun og eyðingu sorps og úrgangs með stoð í sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 3. ml. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.  Sveitarfélög geta sett gjaldskrár á grundvelli samþykktanna sem birta skal í B-deild Stjórnartíðinda skv. 5. mgr. 25. gr. laga 7/1998.  Í gildi er samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Vesturbyggð nr. 214/2004 og á grundvelli þeirrar samþykktar hefur verið sett gjaldskrá umhverfisgjalda í Vesturbyggð nr. 122/2012, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 9. febrúar 2012.  Í 1. gr. gjaldskrárinnar kemur fram að innheimt gjöld skuli standa straum af kostnaði við hirðu, endurvinnslu og eyðingu sorps.  Álagningarseðill fasteignagjalda kæranda árið 2012, sem felur m.a. í sér umdeilt gjald, er dagsettur 27. janúar 2012, með fyrsta gjaldaga 1. febrúar s.á. 

Í 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að fyrirmælum, er felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis og birta skal í Stjórnartíðindum, megi ekki beita fyrr en birting hafi farið fram nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum.  Þar er og ákvæði um að birt fyrirmæli bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína. 

Fyrir liggur samkvæmt framangreindu að hin kærða álagning fór fram áður en gjaldskráin sem stuðst var við hafði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, eins og fyrir er mælt í 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998.  Ber af þeim sökum að fella hina kærðu álagningu úr gildi með hliðsjón af fortakslausu orðalagi 8. gr. laga nr. 15/2005. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi álagning umhverfisgjalds ársins 2012 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð samkvæmt álagningarseðli, dags. 27. janúar 2012. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson