Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

56/2024 Leiðhamrar

Með

Árið 2024, föstudaginn 31. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 56/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 um að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Leiðhömrum 54, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóðamörkum Leiðhamra 52 og 54. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. maí 2024.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2024 barst byggingarfulltrúanum í Reykjavík ábending um að framkvæmdir væru hafnar á lóðinni Leiðhamrar 54 án tilskilins leyfis. Hinn 15. s.m. sendi embættið bréf til kæranda þar sem fram kom að hafnar væru framkvæmdir við byggingu skúrs á lóðarmörkum án leyfis aðliggjandi lóðarhafa, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfinu var tilkynnt um að allar byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð. Yrði þeim tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins sem gæti falist í aðstoð lögreglu, sbr. 4. mgr. 55. gr. laganna. Loks var leiðbeint um heimild til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Hinn 23. s.m. fóru starfsmenn embættisins á vettvang og tóku myndir af framkvæmdunum.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hann sé alls ekki að reisa smáhýsi sem þarfnist byggingarleyfis eða samþykki nágranna í skilningi gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Hið rétta sé að hann hafi sett upp skjólvegg fyrir heitan pott og útisturtu og hafi það verið gert að mestu fyrir nokkrum árum síðan og það eftir að hann hafi fengið leyfi eiganda nærliggjandi lóðar til að reisa 1,8 m hátt grindverk á lóðamörkum. Skjólveggirnir nái ekki yfir hið samþykkta grindverk og sé því ekki þörf á byggingarleyfi. Úrskurðað hafi verið um hæð grindverksins í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 98/2022. Auk þess sé bent á að aðstæður hafi ekki verið rannsakar nægjanlega áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu, en slíkt sé brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæranda hafi ekki gefist færi á því að andmæla ákvörðuninni áður en hún hafi verið tekin, sem feli í sér brot á 13. og 14. gr. sömu laga. Einnig feli ákvörðunin í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hafi verið tekið til skoðunar hvort beita hefði mátt vægari úrræðum.

Reykjavíkurborg fari fram á að kröfum kæranda verði vísað frá þar sem um málsmeðferðarákvörðun sé að ræða en ekki stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Byggingarfulltrúi hafi stöðvar framkvæmdirnar svo unnt væri að rannsaka og taka afstöðu til þess hvort og þá að hve miklu leyti væri um að ræða byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Enn hafi ekki verið tekin lokaákvörðun í málinu þar sem vafi leiki á því hvort framkvæmdirnar séu byggingarleyfisskyldar. Hafi því sú ákvörðun verið tekin að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitamál með vísan til 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2024 að stöðva framkvæmdir við „byggingu skúrs“ á lóð Leiðhamra 54 við mörk þeirra lóðar og lóðar nr. 52.

Samkvæmt 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að stöðva byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 9. gr. laganna ef ekki liggur fyrir tilskilið leyfi. Ákvörðun um stöðvun framkvæmda á grundvelli þeirra heimildar er bráðabirgðaákvörðun sem taka skal tafarlaust leiki grunur á því að framkvæmd sé án tilskilins leyfis. Í framhaldi hefur byggingarfulltrúi undirbúning endanlegrar ákvörðunar, sem eftir atvikum getur falist í að aflétta stöðvun eða beina tilmælum til framkvæmdaraðila um að bæta úr því sem áfátt er eða fjarlægja byggingarhluta.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúi er enn með til athugunar hvort hinar umræddu framkvæmdir teljist byggingarleyfisskyldar og hefur hann af því tilefni óskað eftir áliti úrskurðarnefndarinnar þar um á grundvelli 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010. Er það mál til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og hefur það hlotið málsnúmerið 58/2024, en tekið skal fram að samkvæmt 2. málsl. ákvæðisins skal niðurstaða nefndarinnar liggja fyrir innan eins mánaðar frá móttöku erindisins. Með hliðsjón af framangreindu verður því að líta svo á að ákvörðun byggingarfulltrúa um að stöðva framkvæmdir sé bráðabirgðaákvörðun sem ekki sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður af þeim sökum að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2024 Austurvegur

Með

Árið 2024, mánudaginn 22. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, fyrir:

Mál nr. 19/2024, kæra á málsmeðferð Sveitarfélagsins Árborgar við gerð og undirbúning deiliskipulags fyrir skipulagssvæðið Austurvegur-Vallholt á Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húsnæðis og lóðarinnar að Austurvegi 42 „málsmeðferð og afgreiðslu sveitarfélagsins Árborgar á stækkun bakhúss Austurvegar 42, Selfossi, til vesturs og þá yfir bílastæðasvæði sem ekkert er notað.“ Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að málsmeðferð sveitarfélagsins hvað greinda afgreiðslu varðar verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 22. mars 2024.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. september 2021 voru kynnt drög að tillögu að deiliskipulagi fyrir skipulagssvæðið Austurvegur-Vallholt, er m.a. tók til stækkunar byggingarreits við hús kæranda, Austurveg 42. Í janúar 2022 var tillagan kynnt fyrir fasteignaeigendum á svæðinu og bárust athugasemdir við tillöguna sem nefndin fól skipulagsfulltrúa að bregðast við. Kynntar voru breytingar á tillögunni á fundi nefndarinnar 12. október 2022. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26 s.m. var fyrirliggjandi tillaga samþykkt og mælst til þess að hún yrði auglýst í samræmi við 41. gr. skipulagslaga og send hagsmunaaðilum á svæðinu. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 2. nóvember s.á. Málið var til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar 22. febrúar 2023 og á fundi nefndarinnar 22. mars s.á. voru svör við athugasemdum samþykkt. Við það tilefni var fært til bókar að í ljósi vægis athugasemda væri ekki grundvöllur fyrir stækkun á byggingarreit til vesturs á lóðinni nr. 42 við Austurveg og deiliskipulagstillögunni yrði breytt til samræmis við það. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 22. mars 2023 á fundi 13. apríl s.á. og var kæranda tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar með bréfi, dags. 25. s.m.

Kærandi hefur óskað eftir skýringum hjá bæjaryfirvöldum um hvað felist í hugtakinu „vægi“ sem vísað hafi verið til í fundargerð skipulagsnefndar. Með tölvupósti skipulagsfulltrúa til kæranda frá 7. júlí 2023 var hann upplýstur um að það væri mat skipulagsnefndar að breikkun hússins nr. 42 við Austurveg myndi þrengja verulega að lóðarmörkum til vesturs og afar þröngt yrði að koma bílaumferð þar í gegn. Þá var um leið brugðist við athugasemdum kæranda um að ráðgjafarstofa landslagsarkitekta sem undirbúið hafi skipulagið hafi verið vanhæf, en ekkert benti til þess að tiltekinn starfsmaður hennar hefði aðstoðað við eða skrifað andmælabréf vegna tillögunnar. Frá þessum tíma hefur kærandi verið í reglulegum samskiptum við skipulagsfulltrúa Árborgar og ítrekað þar sjónarmið sín og beiðni um að málið komi að nýju til umfjöllunar hjá skipulagsnefnd sveitarfélagsins eða verði vísað til bæjarráðs.

Málsrök kæranda: Kærandi hafnar sjónarmiðum skipulagsnefndar, en bílastæði þau sem hafnað sé að byggja á séu svo til aldrei notuð og því geti ekki verið mikil bílaumferð fyrir vestan húsið á Austurvegi 42. Aðalþrengingin sé við vesturhlið framhússins þar sem það sé um 4.5 m fjarlægð í lóðamörkin á um 8 m kafla. Ef bakhúsið yrði breikkað um 6.5–7.0 m til vesturs og þá yfir bílastæðin yrði fjarlægðin frá nýbyggingu út í lóðamörk um 6.0 – 7.0 m, sem myndi eftir sem áður leyfa tvær akstursgreinar. Flöskuhálsinn yrði áfram um 4.5 m breiður kafli við framhúsið sem nýbyggingin myndi ekki hafa nein áhrif á.

Í kæru er staðhæft að líklegt sé að einn starfsmaður ráðgjafarstofu þeirrar sem unnið hafi að gerð deiliskipulagsins hafi skrifað andmæli gegn stækkun hússins að Austurvegi 42. Andmælin, sem greinilega séu skrifuð af fagaðila, hafi verið óundirrituð, en nöfn hjóna sem séu tengdaforeldrar téðs manns hafi verið prentuð undir bréfið. Hljóti ráðgjafarstofan að vera vanhæf til að koma að gerð deiliskipulagsins hafi starfmaður þess skrifað og sent inn andmælin. Meta þurfi lögmæti þess að athugasemdirnar hafi verið teknar til greina og samþykktar. Jafnframt þurfi að endurskoða synjun skipulagsnefndar en rök hennar standist enga skoðun. Einnig sé spurt hvort hægt sé að fá það staðfest hver hafi sent inn andmælin og hvort það sé lögmætt að neita að leggja erindi er varði niðurstöðu skipulagsnefndar fyrir hana.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er talið að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir því að ágreiningi verði skotið til úrskurðarnefndarinnar, þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin sem leiði mál til lykta. Sé greint deiliskipulag enn til vinnslu hjá skipulagsfulltrúa eins og gögn málsins beri með sér og beri því að vísa málinu frá nefndinni. Til vara sé þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Bókun skipulagsnefndar á fundi 22. mars 2023 hafi varðað tillögur nefndarinnar um áframhaldandi vinnu við skipulagið. Ekki hafi enn verið tekin formleg ákvörðun um endanlega útfærslu byggingarreita. Öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við meðferð málsins. Hugsanlegar nýjar athugasemdir kæranda verði teknar til skoðunar og afgreiddar með formlegum hætti þegar deiliskipulagstillagan verði auglýst á ný.

Þá hafi ekkert komið fram sem bendi til þess að starfsmenn þeirrar ráðgjafarstofu sem unnið hafi að gerð deiliskipulagsins séu vanhæfir. Skipulagsfulltrúi hafi kannað málið og enginn rökstuddur grunur sé um að svo sé, en aðili sá er kærandi vísi til sé ekki lengur starfsmaður fyrirtækisins. Athugasemdum viðkomandi aðila hafi verið skilað inn með tölvupósti og sé það viðtekið verklag í deiliskipulagsmálum hjá sveitarfélaginu. Ekki séu gerðar kröfur um að athugasemdir er fram komi við gerð deiliskipulags séu undirritaðar til að þær teljist gildar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Höfnun skipulagsnefndar á stækkun hússins að Austurveg 42 hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. apríl 2023. Með því hafi skipulagsnefnd fyrir hönd sveitarfélagsins tekið ákveðna stjórnvaldsákvörðun. Þá sé það annmarki við gerð deiliskipulagsins að ekki komi fram allar upplýsingar á auglýstri tillögu sem væntanlega gætu skipt sköpum fyrir ákvörðun skipulagsnefndar um væntanlega nýbyggingu. Athugasemdir kæranda varðandi afgreiðslu nefndarinnar á stækkun hússins hafi aldrei verið lagðar fyrir hana. Ekkert komi fram í greinargerð sveitarfélagsins sem afsaki eða réttlæti slíka málsmeðferð. Þá hafi ekkert komið fram um að skipulagsnefnd hafi afturkallað greinda ákvörðun. Ekki sé um nýjar athugasemdir að ræða heldur útskýringar sem leggja þurfi fyrir skipulagsnefnd þar sem útskýrt sé hvers vegna niðurstaða nefndarinnar varðandi höfnunina hafi byggt á röngum og ófullnægjandi upplýsingum.

 Þá bendi kærandi á að samkvæmt vefsíðu ráðgjafarstofunnar er komið hafi að gerð umrædds deiliskipulags starfi umræddur einstaklingur enn hjá henni.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður þó ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt upplýsingum frá Sveitarfélaginu Árborg var hin kærða synjun skipulagsnefndar sveitarfélagsins um stækkun byggingarreits hússins að Austurvegi 42 þáttur í undirbúningi deiliskipulags, sem er enn til vinnslu. Verður að líta svo á að með þessu hafi afgreiðslan verið liður í málsmeðferð en ekki falið í sér ákvörðun um rétt eða skyldu sem borin verði undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Ákvörðun um samþykkt deiliskipulags tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu auglýsingu um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Verður ákvörðuninni þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá deiliskipulagið og öll málsmeðferð þess lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

22/2024 Rofabær

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 10. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 22/2024, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 um að hafna umsókn um byggingarleyfi frá 17. maí s.á. vegna svalahandriðs og klæðningar á suðurhlið hússins að Rofabæ 43-47.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir Húsfélag Rofabæjar 43-47, Reykjavík, þá afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 að hafna umsókn þess um byggingarleyfi frá 17. maí s.á. vegna svalahandriðs og klæðningar á suðurhlið hússins. Gerð er krafa um að byggingarleyfisumsóknin verði samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. mars 2024.

Málsatvik og rök: Húsfélag Rofabæjar 43-47 hefur í hyggju að fara í viðhald og liggur fyrir ástandsskýrsla frá árinu 2016 þar sem lagðar eru til framkvæmdir og endurbætur á húsinu. Á aðalfundi húsfélagsins 27. mars 2023 var samþykkt að taka tilboði í framkvæmdir sem fælu m.a. í sér að allar svalir á suðurhlið þess yrðu brotnar niður og byggðar upp á nýtt og að sett yrðu létt handrið úr áli og gleri. Hinn 17. maí 2023 var sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og hefur afgreiðslu umsóknarinnar ítrekað verið frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa, síðast 5. september 2023. Telur kærandi að skipulagsfulltrúi hafi með umsögn sinni 13. júlí 2023 í raun hafnað erindinu og hafa átt sér stað viðræður á milli kæranda og borgaryfirvalda um þessa afstöðu skipulagsfulltrúa. Eru viðræðurnar enn yfirstandandi og fyrirhugaður fundur 11. apríl 2024. Hefur því verið lýst yfir af hálfu borgaryfirvalda að vonast sé til að í kjölfarið fáist niðurstaða í málið.

Af hálfu kæranda er byggt á því að með höfnun á áformum hans sé brotið gegn jafnræðisreglu. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið byggt á hverfisskipulagi Árbæjarhverfis frá árinu 2019 en fordæmi séu fyrir að breytingar hafi verið samþykkt á húsum í hverfinu eftir að skipulagið hafi tekið gildi. Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða afgreiðsla feli ekki í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og sé því ekki kæranleg til nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sem fólst í gerð umsagnar í tilefni af umsókn kæranda um byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það byggingarfulltrúi sem veitir byggingarleyfi og skal umsókn um byggingarleyfi send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa. Leiki vafi á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins skal byggingarfulltrúi skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga leita umsagnar skipulagsfulltrúa.

Í máli þessu hefur byggingarfulltrúi frestað afgreiðslu máls á afgreiðslufundum með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa en umsögn hans er liður í undirbúningi ákvörðunar byggingarfulltrúa en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Fyrir liggur að yfirstandandi eru viðræður á milli borgaryfirvalda og kæranda en leiðbeint skal um að telji kærandi afgreiðslu málsins dragast óhæfilega er honum unnt að kæra þann drátt til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

43/2024 Laufásvegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 9. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 43/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 3. apríl 2024 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. apríl 2024, kærir eigandi, Laufásvegi 22, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 3. apríl 2024 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar 13. desember 2023 var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg. Í tillögunni fólst breytt notkun á húsnæði því sem áður hýsti sendiráð Bandaríkjanna við Laufásveg 21–23 ásamt breyttri notkun á skrifstofum baklóðar Laufásvegar 19 í íbúðarhúsnæði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Var samþykkt að auglýsa tillöguna í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga, og var sú afgreiðsla samþykkt af borgarráði á fundi þess 21. desember 2023. Tillagan var auglýst 11. janúar 2024 með athugasemdafresti til 22. febrúar s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. apríl 2024. Samþykkti ráðið tillöguna og var málinu vísað til borgarráðs.

Kærandi bendir á að í kynningarbréfi, auglýsingu og sjálfri deiliskipulagstillögunni komi fram að markmið deiliskipulagsins hafi verið að heimila breytingu úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Nokkrum klukkustundum áður en frestur til athugasemda við deiliskipulagstillöguna hafi runnið út hafi borgaryfirvöld staðfest að ekki stæði til að innrétta íbúðarhúsnæði heldur koma fyrir umfangsmiklu búsetuúrræði. Íbúasamtök í íbúaráði Miðborgar og Hlíða hafi ekki treyst sér til að hafa skoðun á tillögunni vegna skorts á upplýsingum. Því miður sé óhjákvæmilegt að fara fram á að úrskurðarnefndin felli deiliskipulagið úr gildi svo hægt sé að kynna málið með réttum gögnum og forsendum.

Niðurstaða: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar var samþykkt tillaga að deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 19 og 21–23 við Laufásveg og málinu vísað til borgarráðs. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsáætlun hefur ekki verið tekin fyrir af borgarráði og birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

24/2024 Hringbraut

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 4. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

 Fyrir var tekið mál nr. 21/2024, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­kaupstaðar frá 26. janúar 2024 varðandi mörk lóða nr. 9 og 11 við Hringbraut.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hringbraut 11, Hafnarfirði, afgreiðslu byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 26. janúar s.á. varðandi mörk lóðarinnar gagnvart lóð nr. 9 við sömu götu. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 8. mars 2024.

Málsatvik og rök: Lóðir nr. 9 og 11 við Hringbraut í Hafnarfirði eru leigulóðir. Samkvæmt fasteignaskrá eru stærðir lóðanna 437,5 m2 og 432 m2. Á lóðunum eru hús sem reist voru á árunum 1949-1951 og eru tvær íbúðir í hvoru þeirra. Á lóð nr. 9 er einnig bílskúr sem reistur var árið 1966. Með bréfi, dags. 26. janúar 2024, var eigendum húsa á lóðum þessum tilkynnt að byggingarfulltrúi bæjarins hefði látið mæla mörk þeirra og að bílskúr á lóð nr. 9 væri 22 cm fyrir innan mörk lóðar nr. 11. Þá var tekið fram að byggingarfulltrúi myndi senda „útsetningar­mann“ sem myndi merkja lóðamörkin og að fyrri „útsetning“ teldist ekki rétt. Með bréfinu fylgdi skýringarmynd. Er í málinu deilt um gildi þessa bréfs og skýringarmyndar.

Kærandi telur byggingarfulltrúa ekki geta upp á sitt eindæmi breytt mörkum lóða. Um sé að ræða lóðamörk samkvæmt gildu deiliskipulagi frá árinu 2008. Óumdeilt sé að bílskúr á lóð nr. 9 gangi 47 cm inn á lóð nr. 11 við sömu götu, þ.e. lóð kæranda.

Af hálfu Hafnarfjarðarkaupstaðar er bent á að engri stjórnvaldsákvörðun sé til að dreifa. Aldrei hafi verið gefið út formlegt mæliblað af þeim lóðum sem um ræði. Í umsögn bæjarins til úrskurðarnefndarinnar er rakið að ágreiningur hafi verið um mörk þessara lóða. Engu gildu mæliblaði sé til að dreifa, en mæliblaðið sem kærandi vísi til sé tillaga að lóðamörkum. Tekið sé fram að gild mæliblöð séu staðfest með undirskrift skipulagsfulltrúa. Bréf byggingar­fulltrúa, dags. 26. janúar 2024, hafi verið sent eigendum til upplýsingar.

Við meðferð þessa máls bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir frá eigendum efri hæðar húss á lóð nr. 9 við Hringbraut í Hafnarfirði um að ákvörðun byggingarfulltrúa væri ólögmæt en bílskúr, sem sé í þeirra eigu, sé alfarið innan lóðar þeirra.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.

Skipulag lands innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórna skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ber sveitarstjórn skv. 38. gr. sömu laga ábyrgð á gerð deili­skipulags. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laganna er deiliskipulag skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags og eru með því m.a. teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun og byggingarreiti. Mæli- og hæðarblöð eru skilgreind í 28. mgr. gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem hönnunargögn sem unnin séu í kjölfar deiliskipulags og lýsa með nákvæmum hætti stærðum lóða, hæðarkótum lands og bygginga, staðsetningu lagna, kvöðum og öðru er þurfa þyki. Þá er tekið fram að einnig séu þau nefnd lóðablöð.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Öldugötu, Öldutúns, Ölduslóðar og Hringbrautar frá árinu 2008 og eru mörk lóða á skipulagssvæðinu sýnd á skipulagsuppdrætti, þ. á m. mörk lóða nr. 9 og 11 við Hringbraut. Af hálfu bæjaryfirvalda hefur komið fram fyrir úrskurðarnefndinni að ekki hafi verið gerð mæliblöð vegna greindra lóða og að skýringarmynd sem fylgdi bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. janúar 2024, sé einungis tillaga að lóðamörkum.

Með þessu liggur ekki fyrir ákvörðun stjórnvalds, sem borin verður undir nefndina til úrskurðar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta leitt. Verður því þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

11/2024 Gauksstaðir

Með

Árið 2024, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Suðurnesjabæjar frá 23. janúar 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna endurbyggingar matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 26. janúar 2024, kærir eigandi, Gauksstaðavegi 6, Suðurnesjabæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Suðurnesjabæjar frá 4. janúar 2024 að samþykkja byggingaráform vegna endurbyggingar matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum, Suðurnesjabæ. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Suðurnesjabæ 30. janúar 2024.

Málavextir: Á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs Suðurnesjabæjar 20. júlí 2023 var tekin fyrir fyrirspurn vegna endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Fjallaði fyrirspurnin um breytingu á geymslu í íbúð og færslu matshlutans á nýjan stað innan lóðarinnar. Erindinu var synjað þar sem ekki var talið að um lítilsháttar breytingu væri að ræða, en þá var gert ráð fyrir að hæð byggingarinnar yrði tæpir sex metrar. Á fundi ráðsins 20. september s.á. var fyrirspurnin tekin fyrir að nýju á grundvelli nýrra gagna, en þá hafði fyrirhuguð hæð byggingarinnar verið lækkuð um rúmlega einn metra. Var erindið samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með bréfi, dags. 25. september 2023, var erindið grenndarkynnt og bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Var frekari íbúðauppbyggingu við Gauksstaðaveg mótmælt þar sem vegurinn myndi ekki bera aukna umferð með tilheyrandi ónæði fyrir nágranna.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi framkvæmda- og skipulagsráðs 25. október 2023 vegna framkominna athugasemda. Bókað var að einhver umferðaraukning yrði til og frá Gauksstöðum, en að ekki væri hægt að slá því föstu að umferðarþungi yrði umfram það sem eðlilegt gæti talist. Taldi ráðið að athugasemdirnar gæfu ekki tilefni til synjunar á fyrirspurninni, erindið samræmdist aðalskipulagi og væri því samþykkt. Þeirri ákvörðun var skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 29. desember 2023 í máli nr. 134/2023, var kærumálinu vísað frá nefndinni þar sem ákvörðun framkvæmda- og skipulagsráðs var talin liður í málsmeðferð, en ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var af hálfu nefndarinnar leiðbeint um að ef byggingarfulltrúi myndi ljúka málinu með því að samþykkja umdeild byggingaráform væri sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með bréfi, dags. 4. janúar 2024, til eiganda Gauksstaða tilkynnti byggingarfulltrúi Suðurnesjabæjar um framangreinda afgreiðslu framkvæmda- og skipulagsráðs frá 25. október 2023 og tók fram að í henni fælist samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Byggingarfulltrúi áritaði aðaluppdrætti byggingaráformanna til samþykktar hinn 23. janúar 2024.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í grenndarkynningu hafi tvær athugasemdir verið sendar inn þar sem fjölgun íbúða við Gauksstaði hafi verið mótmælt vegna aukinnar umferðar og ónæðis á öllum tímum sólarhringsins sem fylgi heimagistingu og íbúðum til útleigu í tengslum við ferðaþjónustu. Umferðaraukningin og ónæðið sem muni fylgja byggingunni sé mun meira en eðlilegt geti talist á viðkomandi svæði sem sé utan þéttbýliskjarna Suðurnesjabæjar. Gauksstaðavegur sé einbreiður, malbikaður og gamall sveitavegur þar sem finna megi sex hús. Í verkefnalýsingu vegna breytinga á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Garðs 2013–2030, dags. 15. september 2022, er varði breytingu í landi Gauksstaða, komi fram að áætluð starfsemi geti dregið til sín um 5–7.000 ferðamenn árlega. Ljóst sé að um umtalsverða umferðaraukningu sé að ræða um fáfarinn veg sem muni valda töluverðu ónæði fyrir íbúa, en ekki liggi annar vegur að Gauksstöðum. Þá sé gerð athugasemd við að framkvæmdir hafi hafist án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.

Málsrök Suðurnesjabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að ef synja beri erindi sem berist sveitarfélaginu þurfi óyggjandi heimildir að liggja til grundvallar slíkri ákvörðun auk þess sem ávallt skuli gæta meðalhófs. Í kæru sé ekki greint frá tölulegum staðreyndum eða öðrum haldbærum rökum sem hægt væri að styðjast við til að meta hvort um óeðlilega aukningu umferðar verði að ræða vegna fyrirhugaðrar endurbyggingar á matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum. Ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið og því hafi verið stuðst við gildandi aðalskipulag, en þar sé umrædd lóð á skilgreindu svæði fyrir íbúðarhúsabyggð, ÍB-16. Alls séu skráðar fimm íbúðir eða lóðir á Gauksstaðavegi sem allar séu skráðar sem einbýlishús. Gauksstaðir séu við norðurenda Gauksstaðavegar í botnlanga. Þar séu skráðir fjórir matshlutar. Matshluti 01 sé skráður sem íbúðarhús á tveimur hæðum með tveimur íbúðum og matshluti 02 sé skráður sem bílgeymsla. Heimild sé fyrir því að breyta matshluta 02 í íbúð og standi þær framkvæmdir nú yfir. Matshluti 03 sé skráður sem geymsla og sé nú fyrirhugað að endurbyggja hann sem íbúð. Þá sé matshluti 04 skráður sem parhús, þ.e. tvær íbúðir. Samtals séu því fimm íbúðir á Gauksstöðum, en þær séu sex ef matshluti 03 sé talinn með. Á umræddu svæði, þ.e. á Gauksstöðum og við Gaukstaðaveg, sé því í raun um að ræða fjölgun íbúða úr 11 í 12. Með hliðsjón af þeirri fjölgun íbúða hafi skipulagsyfirvöld metið það svo að ekki væri hægt að fallast á þau sjónarmið kæranda að umferðamagn og ónæði verði meira en eðlilegt geti talist í þéttbýli. Ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út enda hafi ekki öllum nauðsynlegum gögnum verið skilað inn, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Farið hafi verið á fyrirhugaðan byggingarstað og ekki hafi verið hægt að merkja neinar framkvæmdir í tengslum við matshluta 03. Hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á rökum og sanngirnissjónarmiðum og við töku hennar hafi skipulagslögum nr. 123/2010 og mannvirkjalögum verið fylgt í einu og öllu.

Málsrök eiganda lóðarinnar Gauksstaða: Vísað er til þess að samkvæmt Aðalskipulagi Suðurnesjabæjar 2022–2034 séu Gauksstaðir innan þéttbýliskjarna Suðurnesjabæjar. Við Gauksstaðaveg séu nú skráðar 10 íbúðir og muni þeim fjölga um eina með þeirri íbúð sem um sé deilt í máli þessu. Séu þá ótaldar óskráðar íbúðir í fasteign kæranda. Í ljósi þess að kærandi hafi árið 2005 farið í samskonar framkvæmdir á sinni eign sé sérstakt að hann mótmæli byggingaráformunum. Bendi allt til þess að bílskúr kæranda sem hann hafi endurbyggt sé í dag nýttur sem íbúð. Sú verkefnalýsing sem kærandi vísi til sé ótengd máli þessu og snúi að annarri eign með annað fastanúmer. Ljóst sé að ekki sé hægt að koma 5–7.000 ferðamönnum á ári fyrir í þeirri tæplega 92 m2 íbúð sem um sé deilt í máli þessu. Eigandi lóðarinnar hafi haft samband við verkfræðistofu varðandi umferðargreiningu á Gauksstaðavegi vegna endurbyggingar hússins og hafi sérfræðingar hennar talið enga þörf á slíkri greiningu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykki byggingaráforma fyrir endurbyggingu  matshluta 03 á lóðinni Gauksstöðum, en um er að ræða 91,6 m2 einbýlishús á einni hæð. Með bréfi byggingarfulltrúa Suðurnesjabæjar, dags. 4. janúar 2024, var eiganda lóðarinnar tilkynnt að framkvæmda- og skipulagsráð hefði samþykkt byggingaráformin 25. október 2023 í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrir liggur að hinn 23. janúar 2024 áritaði byggingarfulltrúi aðaluppdrætti fyrirhugaðs mannvirkis til samþykktar og verður því litið svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Verður að túlka þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem við mat á því hvort lögvarðir hagsmunir séu fyrir hendi beri að líta til þess hvort hlutaðeigandi eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Kærandi er eigandi fasteignarinnar að Gauksstaðavegi 6, en hús hans er í u.þ.b. 130 m fjarlægð frá þeim stað þar sem fyrirhugað endurbygging er áætluð. Verður ekki séð að mannvirkið snerti grenndarhagsmuni kæranda. Aftur á móti hefur kærandi fært fram þau sjónarmið að umferðaraukning og ónæði sem fylgi byggingunni verði meiri en eðlilegt geti talist á viðkomandi svæði. Á það verður ekki fallist enda er umrætt svæði innan þéttbýlismarka samkvæmt Aðalskipulagi Suðurnesjabæjar 2022–2034 auk þess sem Gauksstaðavegur telst sveitarfélagsvegur skv. 9. gr. vegalaga nr. 80/2007 og því ætlaður almenningi til frjálsrar umferðar. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir einhverri aukningu á umferð verður þó að telja þau áhrif óveruleg enda einungis um að ræða fjölgun um eina íbúð.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

148/2023 Andakílsárvirkjun

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 13. mars, tók Arnór Snæbjörnsson formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 148/2023, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar frá 1. desember 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við inntakslón Andakílsárvirkjunar og viðhalds á lóninu.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. desember 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Efri-Hreppi, Skorradalshreppi, þá afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar frá 1. desember 2023 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við inntaks­lón Andakílsárvirkjunar og viðhalds á lóninu. Er þess krafist að hún verði felld úr gildi. Einnig krefjast kærendur málskostnaðar úr hendi Borgarbyggðar og Orku Náttúrunnar vegna málsins. Þá er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 10. janúar 2024.

Málavextir: Andakílsárvirkjun í Andakílsá í Borgarfirði hóf rekstur árið 1947. Með umsókn, dags. 7. september 2023, sótti framkvæmdaraðili, Orka Náttúrunnar ohf., um framkvæmdaleyfi til Borgarbyggðar vegna fyrirhugaðra endurbóta við inntakslón virkjunarinnar og viðhalds á lóninu. Fram kom að markmiðið væri að „tryggja framtíð virkjunarinnar með rekstur, öryggi og umhverfi í huga“. Inntakslónið lægi í Borgarbyggð og Skorradalshreppi og væru áætlanir byggðar á fyrirliggjandi opinberum gögnum sem væru meðal annars aðgengileg á vefsíðum sveitarfélaganna og skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar. Þar sem framkvæmdin færi fram í tveimur sveitarfélögum lægi vel við að sveitarfélögin stæðu sameiginlega að grenndarkynningu ef þörf væri á. Fram kom að umsóknin væri send til Borgarbyggðar og næði til þess hluta framkvæmda sem væri innan marka sveitarfélagsins en önnur umsókn yrði send til Skorradalshrepps þegar öll gögn lægju fyrir.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar 1. desember 2023. Þar var samþykkt að heimila skipulagsfulltrúa að veita framkvæmdaleyfi fyrir þeim liðum framkvæmdarinnar sem féllu að öllu leyti innan sveitarfélagsmarka Borgarbyggðar. Einnig var skipulagsfulltrúa heimilað að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir öðrum þáttum framkvæmdarinnar þegar Skorradalshreppur hefði samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem heyrðu undir Skorradalshrepp. Framkvæmdin skyldi grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að sveitarfélagamörk séu staðsett með röngum hætti í umsókn um framkvæmdaleyfi, en þar sé rangt farið með legu markanna og þau sögð töluvert inni í landi Efri-Hrepps, sem sé í Skorradalshreppi. Þar sem lýsing á sveitarfélagamörkum í framkvæmdaleyfisumsókn sé röng sé veiting framkvæmdaleyfis með vísan til umsóknarinnar einnig röng.

Með umsókninni hafi fylgt skjal með fyrirsögninni „Yfirlýsing um heimild til afnota af landi“ en þar sé stærð og mörkum fimm nánar tilgreindra lóða í eigu Orkuveitu Reykjavíkur ekki lýst á fullnægjandi hátt og ekki tryggt að yfirlýsingin nái yfir framkvæmdasvæðið eins og það sé skilgreint í umsókninni. Ekki hafi verið aflað leyfis frá kærendum sem eigendum lands sem hluti fyrirhugaðra framkvæmda nái yfir. Slíkt leyfi sé forsenda fyrir veitingu framkvæmdaleyfis, sbr. t.d. gagnályktun frá 3. mgr. 46. gr. og 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá taki 7. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu af öll tvímæli þegar um orkuvinnslu sé að ræða.

Ekki sé um deiliskipulagt svæði að ræða og því hafi borið að gefa kærendum kost á að gæta hagsmuna sinna við grenndarkynningu, sbr. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Í ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar virðist gert ráð fyrir að grenndarkynning fari fram eftir að framkvæmda­leyfi sé samþykkt. Þá fáist ekki séð að veiðifélögum, sem eigi hagsmuna að gæta, hafi verið gefinn kostur á að gæta réttar síns. Einnig samrýmist ekki lögskýringarsjónarmiðum að tekin sé ákvörðun áður en afstaða annarra mögulegra leyfis­veitenda eða hagsmunaaðila liggi fyrir, sjá t.d. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 74/2023, uppkveðnum 26. október 2023. Óumdeilt sé að formlegt virkjunarleyfi sé ekki til staðar vegna Andakílsárvirkjunar en framkvæmdin tengist rekstri hennar.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfu kærenda verði hafnað þar sem ekki séu neinir ágallar á hinni kærðu ákvörðun og öll skilyrði séu uppfyllt við veitingu framkvæmdaleyfis.

Meðal gagna sem legið hefðu fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lýsing á fram­kvæmdinni ásamt teikningum sem sýni áhrifasvæði framkvæmdarinnar, auk yfirlýsinga og/eða samþykki landeigenda á framkvæmdasvæðinu. Hluti af landi Syðstu-Fossa í Borgarbyggð sé innan framkvæmdasvæðisins og fyrir liggi samningur við landeiganda um afnot af landi, vinnu landeiganda á framkvæmdatíma við vegagerð, móttöku á efni úr inntakslóni og landmótun. Jafnframt liggi fyrir yfirlýsing Orkuveitu Reykjavíkur vegna fimm lóða sem ýmist liggi að eða séu innan framkvæmdasvæðisins sem sé innan sveitarfélagamarka Borgarbyggðar.

Fullyrðing kærenda um að jörðin Efri-Hreppur eigi land að Andakílsá og að farvegur árinnar marki sveitarfélagamörk Borgarbyggðar og Skorradalshrepps sé villandi þótt hún sé efnislega ekki röng. Jörðin eigi hins vegar ekki land að framkvæmdasvæðinu innan sveitarfélagamarka Borgarbyggðar eins og framkvæmdasvæðið sé skilgreint á teikningu með umsókn um framkvæmdaleyfi. Með hliðsjón af þinglýstum heimildum og skráningu í fasteignaskrá sýni fylgigögn með umsókn um framkvæmdaleyfi með fullnægjandi hætti að fyrir liggi samþykki landeigenda aðliggjandi jarða að framkvæmdasvæðinu innan sveitarfélagamarka Borgarbyggðar.

Ekki beri að ógilda hina kærðu ákvörðun vegna þess að kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna við grenndarkynningu. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé sveitarfélagi heimilt að falla frá grenndarkynningu sé gerð grein fyrir framkvæmd og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Sá hluti fyrirhugaðrar framkvæmdar sem sé innan Borgarbyggðar sé á skilgreindu athafna- og/eða efnistökusvæði samkvæmt Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010–2022. Í greinargerð aðalskipulagsins sé að finna sérstaka heimild fyrir efnistöku úr lóni Andakílsárvirkjunar til þess „að stuðla að eðlilegum rekstri virkjunarinnar“. Hin kærða ákvörðun varði m.a. efnistöku úr lóninu innan sveitarfélagsins til þess að tryggja öryggi og rekstur virkjunarinnar. Aðrir hlutar hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar innan sveitar­félagamarka Borgarbyggðar, s.s. vegagerð og tippsvæði, séu fjarri jörð kærenda. Sveitarfélagið hafi ekki talið þörf á grenndarkynningu, enda fyrirliggjandi samþykki eigenda allra aðliggjandi jarða að þeim hluta framkvæmdasvæðisins sem sé innan marka Borgarbyggðar. Hins vegar sé áréttað að sérstaklega sé tekið fram í hinni kærðu ákvörðun að skilyrði fyrir útgáfu á fram­kvæmdaleyfi sé að grenndarkynning fari fram.

 Athugasemdir leyfishafi: Leyfishafi tekur undir sjónarmið og málsástæður Borgarbyggðar varðandi undir­búning hinnar kærðu leyfisveitingar. Í framkvæmda­leyfisumsókn hafi verið lögð til grundvallar skráð gildandi sveitarfélagamörk. Þá séu reifuð ýmis sjónarmið í kæru sem séu óviðkomandi máli þessu, þ. á m. varðandi virkjunarleyfi Andakílsárvirkjunar. Ekki liggi fyrir endanleg ákvörðun í málinu og hafi fyrirvarar sem settir hafi verið í hinni kærðu ákvörðun, ekki verið uppfylltir. Því sé ekki um að ræða ákvörðun sem bindi enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að hagsmunir þeirra af skýrum mörkum jarða, lóða og þar með sveitarfélaga séu margþættir á því svæði sem framkvæmdin nái til. Kærendur eigi jarðhitaréttindi sem kunni að leynast innan marka þeirrar spildu sem framseld hafi verið til Andakílsárvirkjunar árið 1954, þ.e. alveg að sveitarfélagamörkum. Þá eigi kærendur veiðirétt sem markist af þessum mörkum.

Brýnt sé að fá úrlausn um mörk lóðanna en það verði ekki gert í máli þessu. Á meðan mörkin séu óljós eða umdeild og  ekki þinglýst verði framkvæmdaleyfi ekki veitt á grundvelli einhliða lýsingar framkvæmdaraðila á þeim, sérstaklega ekki þegar sú lýsing gangi í berhögg við formlega afstöðu Skorradalshrepps og landeigenda.

Í greinargerð Borgarbyggðar sé byggt á því að grenndarkynning sé óþörf. Málið snúist ekki um það hvort átt hafi að grenndarkynna, heldur hvort heimilt hafi verið að taka endanlega ákvörðun áður en ákvörðunin um grenndarkynningu hafi verið framkvæmd. Kærendur hafi átt ríka hagsmuni af því að fá grenndarkynningu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við inntakslón Andakílsár­virkjunar. Er því m.a. haldið fram í málinu að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt útgáfu framkvæmdaleyfis áður en grenndarkynning hafi farið fram.

Í 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn að undangenginni grenndar­kynningu veitt framkvæmdaleyfi sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðal­skipulag varðandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Um grenndarkynningu fari skv. 44. gr. laganna með þeim undantekningum sem þar séu tilgreindar. Þá segir einnig að heimilt sé að falla frá grenndarkynningu ef gerð sé grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar 1. desember 2023 var umsókn um framkvæmdaleyfi lögð fram ásamt hnitsettri afstöðumynd, hönnunargögnum, teiknisetti og framkvæmdalýsingu og málið afgreitt með svofelldri bókun: „Skipulags- og byggingarnefnd […] samþykkir að heimila skipulagsfulltrúa að veita framkvæmdaleyfi fyrir þeim liðum fram­kvæmdarinnar sem falla að öllu leyti innan sveitarfélagsmarka Borgarbyggðar. Borgarbyggð heimilar einnig skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir öðrum þáttum fram­­kvæmdarinnar þegar Skorradalshreppur hefur samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir þeim framkvæmdum sem heyra undir Skorradalshrepp. Borgarbyggð óskar eftir samráði og sam­starfi við Skorradalshrepp vegna kynningar á þeim hluta framkvæmdanna er varðar bæði sveitarfélögin. Framkvæmdin skal grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leitað umsagna í gegnum skipulagsgátt. Til grundvallar útgáfu framkvæmdaleyfis verða þau gögn sem fylgja umsókninni sem og þau gögn sem fylgdu matskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar. Borgarbyggð áskilur sér rétt til þess að óska frekari gagna við vinnu við útgáfu framkvæmdaleyfis ef sú staða kemur upp. Samþykkt samhljóða.“

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Af orðalagi hinnar kærðu ákvörðunar er ljóst að skipulags- og byggingarnefnd setti framkvæmdinni það skilyrði að hún skyldi „grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010“. Þrátt fyrir að sveitarfélagið hafi staðhæft fyrir úrskurðarnefndinni að ekki hafi verið þörf á grenndarkynningu verður ekki hjá því litið að hin kærða afgreiðsla var háð slíkum fyrirvara. Verður þegar af þeirri ástæðu að líta svo á að hún feli eigi í sér stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur hafi hún verið liður í málsmeðferð stjórnsýslumáls. Verður því að vísa kæru í máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Í tilefni af athugasemdum kærenda um aðra leyfisveitingu og þörf á frekari rannsókn máls telur úrskurðarnefndin rétt að benda á fyrirmæli um samþykki og útgáfu framkvæmdaleyfa í reglu­gerð nr. 772/2012. Þar kemur fram í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um. Þegar lög gera með þessum hætti ráð fyrir því að ákvörðun stjórnvalds sé háð því að fyrir liggi ákvörðun annars stjórnvalds leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rík skylda fyrir fyrrnefnda stjórnvaldið að afla með forsvaranlegum hætti nægilegra upplýsinga um hvort ákvörðun hins síðarnefnda stjórnvalds liggi fyrir og þá hvers efnis hún er. Er sú bending gerð að hugað verði að þessu við nánari málsmeðferð.

Vegna athugasemda um legu fasteigna sem fjallað er um í málsrökum skal tekið fram að eignar­réttarlegur ágreiningur heyrir ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla. Þá er ekki fyrir hendi heimild í lögum fyrir úrskurðarnefndina til að ákvarða greiðslu máls­kostnaðar til handa aðilum máls og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

3/2024 Bergþórugata

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykja­víkurborgar frá 7. desember 2023 um að hafna kröfu um að skilti við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 verði fjarlægt sem og merking um bílastæði við enda stígsins.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi fasteignar að Bergþórugötu 33, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 7. desember 2023 að hafna kröfu um að skilti og merking fyrir bílastæði við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 verði fjarlægð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði skýr umferðarréttur um stíginn er liggi upp við hús kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. febrúar 2024.

Málavextir: Í bréfi til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 12. október 2023, fór kærandi fram á það fyrir hönd íbúa að Bergþórugötu 33 að skilti sem hafði verið reist við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 er liggur upp við gangstétt ­­Bergþórugötu yrði fjarlægt sem og merking um bílastæði sem hafði verið máluð við enda stígsins. ­Í bréfinu kom fram að eigendur lóðar Bergþórugötu 33 hafi frá því húsið var reist árið 1929 haft umferðarrétt um stíginn sem sé þinglýstur samkvæmt lóðarleigusamningi frá 1. janúar 1930 en samningurinn hafi verið endurnýjaður árið 2006 til 75 ára.

Umhverfis- og skipulagssvið hafnaði kröfu kæranda með bréfi, dags. 7. desember 2023, á þeim grundvelli að umræddur stígur væri skilgreindur í deiliskipulagi sem „grænt svæði“ og því einungis ætlaður fyrir umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.

 Málsrök kæranda: Bent er á að lóðarhafar við Bergþórugötu 33 hafi, frá því húsið var reist árið 1929, haft umferðarrétt um stíg sem liggi milli húsa nr. 31 og 33 við Bergþórugötu. Umferðarrétturinn sé þinglýstur réttur íbúðareigenda við Bergþórugötu 33 samkvæmt lóðar­leigu­samningi sem gilt hafi frá 1. janúar 1930 og hafi verið endurnýjaður árið 2006 til 75 ára, eða til ársins 2081. Samkvæmt samningnum hafi eigendur lóðarinnar Bergþórugötu 33 einir rétt til umferðar um stíginn. Stígur sem liggi samsíða Bergþórugötu, milli hennar og Njálsgötu hafi verið kallaður Öskustígur á deiliskipulagi alla tíð og sé fjallað um hann sérstaklega í deiliskipulagi sem hafi verið samþykkt árið 2013. Um stíginn, sem kærandi eigi umferðarrétt um, segi í sama skipulagi: „Svæðið milli húsa nr. 31 og 33 við Bergþóru­götu verði í deiliskipulaginu skilgreint sem „grænt svæði“. Það verður eftir sem áður gert ráð fyrir aðkomu að inngöngum húsanna sitt hvoru megin.“ Grundvallarmunur sé í deili­skipulagi á þessum tveimur stígum auk þess sem þinglýstur umferðarréttur kæranda og annarra á Bergþórugötu 33 sé þannig ótvíræður umfram umferðarrétt annarra sem fari gangandi stíginn á milli húsanna.

Gangandi umferð hafi alla tíð átt sér stað milli húsanna við Bergþórugötu 31 og 33 og aldrei hafi verið girt fyrir slíka umferð. Sá réttur hafi hins vegar ekki verið þinglýstur umferðarréttur líkt og í tilviki kæranda og annarra eigenda lóðarinnar við Bergþórugötu 33 um rétt til umferðar ökutækis sem hafi verið lagt við húsið alla tíð. Eignarrétturinn sé ótvíræður samkvæmt þinglýstum samningi sem og hefðarrétti. Svokallaður umferðarréttur hafi í dóma­framkvæmd ævinlega lotið að umferð ökutækja en ekki gangandi vegfarenda. Fjöldi dóma og úrskurða sýni það. Margsinnis hafi verið tekið fram í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að deiliskipulag geti ekki hróflað við eða ráðstafað eignar­réttindum manna. Slíkur réttur verði ekki afnuminn án þess að almenningsþörf krefji og fullt verð komi fyrir, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að þinglýstur umferðarréttur kæranda feli í sér rétt til umferðar yfir lóð í eigu annars aðila. Umferðarrétturinn feli ekki sjálfkrafa í sér réttindi til þess að aka bifreiðum yfir lóð annars enda sé orðið umferð ekki einungis bundið umferð ökutækja.

Kærandi telji að umferðarréttur heimili bein afnot af stígnum í formi einkaréttinda til lagningu bíla íbúa Bergþórugötu 33. Þessu sé hafnað enda hafi stígurinn aldrei verið skipulagður sem bíla­stæði. Orðalag deiliskipulags sé nokkuð skýrt varðandi það hvað felist í þinglýstum umferðar­rétti íbúa Bergþórugötu 33, þ.e. að gert sé ráð fyrir aðkomu að inngöngum húsanna sitt hvoru megin. Borgin hafi skuldbundið sig til þess að loka ekki fyrir aðgengi og aðkomu íbúa Bergþórugötu 33 um hið „græna svæði“.

Það sé mat borgarinnar að rétt sé að banna umferð vélknúinna ökutækja um stíginn enda sé bannað að stöðva og leggja ökutækjum á stígnum, sem nú hafi verið skilgreindur í deili­skipulagi sem grænt svæði. Að sama skapi kveði deiliskipulag svæðisins á um að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum innan lóða og því ættu vélknúin ökutæki ekki erindi inn á stíginn.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Óumdeilt sé að kærandi njóti umferðarréttar að fasteign sinni frá Bergþórugötu á grundvelli þinglýsts lóðarleigusamnings og sé sá umferðarréttur efnis­lega sá sami og eldri lóðarleigusamningur frá 1930 hafi kveðið á um. Kærandi og fyrri eigendur fasteignar­innar hafi nýtt umferðarréttinn með vélknúnu ökutæki í áratugi. Af athugasemdum Reykjavíkurborgar að dæma virðist sem borgin hafi tekið undir sjónarmið kæranda um að umferðarrétturinn hafi verið nýttur bæði til umferðar og til að leggja öku­tækjum. Sé nýting kæranda og forvera hennar því óumdeild. Það virðist því sem Reykjavíkur­borg hafi nýlega talið rétt að banna umferð vélknúinna ökutækja um stíginn. Þá hafi borgin gengið lengra og tiltaki að bannað sé að stöðva og leggja ökutækjum á stígnum sem hafi verið skil­greindur sem „grænt svæði“.

 Niðurstaða: Mál þetta snýst um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafna kröfu kæranda um að fjarlægja skilti sem reist hafði verið við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 er liggur upp við gangstétt Bergþórugötu ásamt merkingu bílastæðis við enda stígsins. Telur kærandi umrætt skilti og merking bílastæðis ganga gegn umferðarrétti hennar um stíginn.

­­­Bergþórugata telst til svonefndra sveitarfélagsvega og er Reykjavíkurborg veghaldari götunnar og ber sem slíkur ábyrgð á veginum og umferðaröryggi við hann, sbr. 9. gr. og 1. mgr. 13. gr. vega­laga nr. 80/2007. Þá kemur fram í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 að veghaldari skuli sjá um að umferðarmerki verði sett á eða við veg þar sem sérreglur gildi um umferð eða þörf sé á þeim til stjórnunar eða leiðbeiningar. Þá er tekið fram í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að lögin taki ekki til vega eða annarra samgöngu­mannvirkja, að undanskildum umferðar- og göngubrúm í þéttbýli. Í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga segir að rétt þyki að þau mannvirki sem 2. mgr. 2. gr. laganna taki til falli ekki undir lögin þar sem mann­virkin og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög.

Samkvæmt 8. tl. 3. gr. vegalaga er hugtakið vegur skilgreint sem: „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og veg­­svæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“ Tekur hugtakið vegur því til umferðarskilta, ljósa­staura og annars eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar sem stuðlar að auknu umferðaröryggi og tryggri notkun vega. Taka ákvæði vegalaga og umferðarlaga samkvæmt framansögðu til upp­setningar umdeilds skiltis og merkingu bílastæðis. Verða ákvarðanir samkvæmt nefndum lögum ekki bornar undir úrskurðarnefndina.

Bergþórugata 33 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.3., sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember 2013. Í greinargerð deili­skipulagsins kemur fram að svæði milli húsa nr. 31 og 33 við Bergþórugötu verði í deili­skipulaginu skilgreint sem „grænt svæði“. Þar verði eftir sem áður gert ráð fyrir aðkomu að inn­göngum húsanna sitt hvoru megin. Þá kemur fram í greinargerðinni að ekki sé gert ráð fyrir bíla­stæðum innan lóða. Á deiliskipulagsuppdrætti er merkt kvöð um gönguleið/aðgengi á um­ræddum stíg.

Í lóðarleigusamningi fyrir Bergþórugötu 33, sem þinglýst var 16. nóvember 2006, kemur fram að lóðin hafi rétt til umferðar um 3 m breiðan bakstíg á milli lóðanna við Bergþórugötu og Njálsgötu og um 6,3 m breiðan stíg frá Bergþórugötu og að þeim stíg. Er ekki fjallað nánar um inntak umferðarréttarins í samningnum. Ágreiningur er uppi í máli þessu um inntak umferðar­réttar kæranda samkvæmt samningnum, en slíkur ágreiningur verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum dómstólum.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

103/2023 Laugarás

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 15. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2023, kæra á afgreiðslu sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 15. maí 2023 á umhverfismati vegna breytingar á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027 fyrir þéttbýlið Laugarás.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 17. ágúst 2023, kærir eigandi fasteignar að Langholti 1, Bláskógabyggð, „afgreiðsl[u] sveitarfélagsins Bláskógabyggðar á umhverfismati og málsmeðferð umhverfismatsins, sem unnið var samhliða áætlanagerð um breytingu á aðalskipulagi (ASK) fyrir þéttbýlið í Laugarási og lá fyrir áður en áætlunin var samþykkt af sveitarstjórn.“ Er þess krafist að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 14. september 2023.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 15. maí 2023 var að lokinni kynningu, auglýsingu og yfirferð Skipulagsstofnunar, samþykkt tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Bláskóga­byggðar 2015–2027 vegna þéttbýlisins í Laugarási. Skipulagsstofnun staðfesti breytinguna 4. júlí s.á. og birtist auglýsing um samþykkt sveitarstjórnar í B-deild Stjórnartíðinda 18. s.m. Í greinargerð með breytingunni er m.a. tekið fram að við Höfðaveg austan Langholts sé bætt inn varúðarsvæði, VA4, en þar hafi um tíma verið urðað sorp og sláturúrgangur. Meðal þess sem segir í skilmálum um svæðið er að óheimilt sé að hrófla við því án samráðs við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og óheimilt að nýta það. Gert sé ráð fyrir að reiðleið liggi yfir varúðarsvæðið og verði hún nánar útfærð í deiliskipulagi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur afmarkaða málsmeðferð og afgreiðslu umhverfismats áætlana kæran­lega til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eigi kærandi lögvarinna hagsmuna að gæta með tilliti til grenndaráhrifa. Þá hafi hann réttmæta hagsmuni af málinu á grundvelli réttinda fólks til að njóta friðhelgi einkalífs og heimilis eins og ákvæði 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hafi verið túlkað af Mannréttinda­dómstól Evrópu. Kærandi eigi mikið undir því að sveitarfélagið standi með forsvaranlegum hætti að umhverfismati enda séu lífsgæði og eignir hans í húfi.

Umhverfismat samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana hafi verið sameinað greinargerð aðalskipulagsins með heimild í 9. gr. sömu laga. Endanleg afgreiðsla umhverfismatsins hafi hins vegar verið á grunni skipulagslaga, sbr. samþykkt sveitarstjórnar á greinargerð aðalskipulagsins. Samþykkt greinargerð aðalskipulags samkvæmt skipulagslögum skiptist í tvo hluta, þ.e. annars vegar tillögu að aðalskipulagi, sem sé staðfest af Skipulagsstofnun og ráðherra, og hins vegar lýsingu aðstæðna og forsendna ásamt umhverfismati sem ekki sé staðfest af stofnuninni og ráðherra.

Kveðið sé á um sérstöðu umhverfismats skipulagsáætlana í lögum nr. 111/2021, þ.m.t. að umhverfismat „get[i]“ verið hluti af greinargerð með skipulagsáætlun skv. 14. gr. laganna. Kynna skuli almenningi tillögu að skipulagsáætlun „ásamt“ umhverfismatsskýrslu skv. 15. gr. sömu laga. Þá skuli við afgreiðslu skipulagsáætlunar gera samantekt um „hvernig umhverfissjónar­mið hafa verið felld inn í áætlunina með hliðsjón af umhverfismatsskýrslu“ skv. 16. gr. laganna. Loks njóti umhverfismatið einnig sérstöðu samkvæmt ákvæðum skipulags­laga, en fram komi í 2. mgr. 6. gr. laganna að sveitarstjórnir fari með yfirstjórn skipulagsmála „þ.m.t. umhverfis­mat skipulagsáætlana.“ Umhverfismatsskýrsla falli utan staðfestingar Skipu­lagsstofnunar og ráð­herra á aðalskipulagi því umhverfismat ásamt lýsingu aðstæðna og forsendna í skipulags­greinar­­gerð „telst ekki hluti samþykktrar og staðfestrar stefnu“, sbr. gr. 4.5.1. í skipulags­reglu­gerð nr. 90/2013. Endanleg afgreiðsla umhverfismats sé því kæranleg til úrskurðar­nefndar­innar.

Túlka beri kæruheimildina með hliðsjón af markmiðsákvæðum skipulagslaga, en einnig sé vísað til Árósasamningsins sem miði að því að tryggja almenningi ákveðin réttindi. Jafnframt beri að líta til þess að sveitarfélagið hafi hagað vinnu sinni svo að einvörðungu sé fjallað um varúðar­­svæði VA4 í umhverfismati aðalskipulagsins, en ekki í umhverfismati deili­skipulagsins.

Umhverfismatið og málsmeðferð þess uppfylli hvorki ákvæði skipulagslaga né laga nr. 111/2021. Leiði ágallarnir til þess að brotið sé gegn markmiðum beggja laganna og rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Á sveitarstjórn hvíli sú skylda við gerð aðalskipulags að gera grein fyrir umhverfisáhrifum þess, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina komi, sbr. 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga, eftir því sem mælt sé fyrir um í gr. 4.4.1. í skipulags­reglugerð. Í skipulagsferlinu hafi komið fram alvarlegar ábendingar og upplýsingar frá opin­berum stofnunum um margvísleg grenndaráhrif á þéttbýlið Laugarás, þ.m.t. mengunar­hættu, slysa­hættu og hættu fyrir heilsu og öryggi almennings.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, ellegar að kröfu kæranda verði hafnað. Öllum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt við breytingu á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027 fyrir Laugarás og við framkvæmd og afgreiðslu umhverfismats sem hafi verið hluti af aðalskipulaginu. Það sé ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða hluta aðalskipulagsáætlana, sbr. 52. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Umhverfismatið sé hluti málsmeðferðar við töku ákvörðunar um sam­þykkt aðalskipulags sem sé ekki kæranleg ákvörðun til nefndarinnar.

 Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 tekur aðalskipulag gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Verða ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Í máli þessu er kærð málsmeðferð og afgreiðsla sveitarstjórnar á umhverfismati er unnið var í tengslum við breytingu á Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015–2027.

Í 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga er tekið fram að við gerð skipulagsáætlana skuli gera grein fyrir umhverfisáhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar, m.a. með samanburði þeirra valkosta sem til greina komi og umhverfismati áætlunarinnar. Í gr. 4.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er nánari umfjöllun um umhverfismat við gerð aðalskipulags.

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal sá sem ber ábyrgð á áætlanagerð sem fellur undir lögin bera ábyrgð á umhverfismati áætlunarinnar og kostnaði af gerð þess. Hann skal vinna umhverfismatsskýrslu þar sem gerð er grein fyrir umhverfismati áætlunarinnar og annast kynningu og samráð í því skyni. Umhverfismat áætlunarinnar skal vinna samhliða áætlanagerðinni og liggja fyrir áður en áætlunin er samþykkt af viðkomandi stjórnvaldi eða lögð fyrir Alþingi. Sá sem ber ábyrgð á umhverfismati áætlunar skal við afgreiðslu hennar hafa hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og athugasemdum sem borist hafa við tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu, sbr. 1. mgr. 16. gr. sömu laga. Þá er í 2. mgr. ákvæðisins kveðið á um að við afgreiðslu áætlunar skuli gerð samantekt um hvernig umhverfis­sjónarmið hafi verið felld inn í áætlunina með hliðsjón af umhverfismatsskýrslu og samráði um tillögu að áætlun og umhverfismatsskýrslu.

Greinargerð með umræddri breytingu á aðalskipulagi Bláskógabyggðar hefur að geyma umfjöllun um téðar breytingar á aðalskipulaginu, forsendur og málsmeðferð. Að auki er í greinargerðinni umhverfis­matsskýrsla þar sem tekið er fram að líkleg áhrif af stefnu aðalskipulags­­breytingarinnar séu metin samkvæmt lögum nr. 111/2021. Líkt og að framan greinir verður samþykkt á aðalskipulagi eða breyting á því ekki borin undir úrskurðarnefndina. Hvað varðar lögmæti umhverfismats áætlunar skortir nefndina lagaheimild til endurskoðunar þess. Af þeim sökum verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

113/2023 Hafnargata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 13. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 113/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 um að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Eignakaup ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. október 2023.

Málavextir: Hafnargata 23 er á ódeiliskipulögðu svæði. Í nóvember 2022 sendi kærandi erindi til bæjaryfirvalda Reykjanesbæjar og óskaði umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu verslunarrýmis á jarðhæð húss að Hafnargötu 23 í íbúð og verslun. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. desember s.á. var erindinu synjað og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi 6. s.m. Hinn 18. desember 2022 ítrekaði kærandi fyrra erindi sitt og sótti „formlega“ um fyrirhugaðar breytingar og eftir atvikum endurupptöku erindisins liti sveitarfélagið svo á að fyrri ákvörðun þess hafi verið stjórnvaldsákvörðun. Erindið var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 3. febrúar 2023 og því hafnað, einkum með vísan til ákvæða aðalskipulags sem þá hafði ekki tekið gildi. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. s.m. Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og var ákvörðun bæjarstjórnar felld úr gildi með úrskurði í máli nr. 34/2023, uppkveðnum 6. júlí 2023.

Kærandi sendi byggingarfulltrúa bréf, dags. 8. ágúst 2023, en þar vísaði hann til umsóknar „dags. 17.11.2022 um byggingarleyfi fyrir breytingu á verslunarrými […] við Hafnargötu 23 Reykjanesbæ að hluta til í íbúð“ og krafðist þess að erindið yrði tekið til afgreiðslu að nýju. Byggingarfulltrúi vísað erindinu til umhverfis- og skipulagsráðs og á fundi ráðsins 1. september 2023 var umsókn kæranda tekin fyrir og hafnað. Vísaði ráðið m.a. til þess að til þess að halda verslun og þjónustu sem „lífvænlegum möguleika“ í götunni væri mikilvægt að skoða skipulag heildstætt og unnið væri að deiliskipulagi fyrir Hafnargötu. Breytingar innan einstakra lóða yrðu ekki teknar til greina á meðan á þeirri vinnu stæði. Á fundi bæjarstjórnar 5. s.m. var eftirfarandi bókað um málið: „Níunda mál fundargerðarinnar Hafnargata 23 […] samþykkt 11-0 án umræðu.“ Var kæranda tilkynnt um niðurstöðu málsins með bréfi, dags. 7. september 2023.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sé svo áfátt að það eigi að leiða til ógildingar hennar. Þá hafi málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði, andmælarétt, rannsókn máls og meðalhóf.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi ekki verið afgreidd í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 34/2023, heldur hafi henni verið hafnað með rökum sem ekki hefðu áður komið fram. Hin nýju rök lúti að því að þróun verslunar við Hafnargötu varði almannahagsmuni og því sé eðlilegt að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið þar sem tekið sé á slíkum þáttum. Í því sambandi hafi verið vísað til gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 en þar komi fram að áður en umsókn um byggingar- eða framkvæmdaleyfi sé grenndarkynnt skuli skipulagsnefnd leggja mat á hvort framkvæmdin falli að tilgreindum skilyrðum eða hvort önnur atriði, svo sem hvort framkvæmdin varði almannahagsmuni, kalli á aðra málsmeðferð.

Sá skilningur að ákvörðun um landnotkun og þróun verslunar á miðbæjarsvæðum varði almannahagsmuni og því þurfi að ákvæði um það að koma fram í deiliskipulagi sé ekki í samræmi við lög. Ákvarðanir eða stefnumörkun um landnotkun séu fyrst og fremst viðfangsefni aðalskipulags, sbr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Heimilt hefði verið að samþykkja umsókn kæranda án þess að gera þyrfti deiliskipulag og vísa megi til breytinga sem gerðar hafi verið á Hafnargötu 16 og 34 en þar hafi verið heimilaðar breytingar á rými fyrir verslun og þjónustu á 1. hæð í íbúð en ekki hafi verið deiliskipulag í gildi fyrir þá reiti.

Samþykki á umsókn kæranda hefði verið í samræmi við markmið bæjaryfirvalda enda hafi verið gert ráð fyrir í umsókninni að verslun yrði áfram í þeim hluta rýmisins sem snúi að Hafnargötu. Í þágildandi aðalskipulagi hafi verið kveðið á um að lögð væri áhersla á styrkja stoðir smá- og fagverslana á svæðinu en jafnframt tekið fram að ekki væri gert ráð fyrir stórum og rýmisfrekum verslunum á svæðinu. Bæjaryfirvöld hafi hins vegar ekki vísað til síðastnefndu skilmálanna.

Í tilkynningu til kæranda um hina kærðu ákvörðun, dags. 7. september 2023, komi fram að kæranda sé heimilt að tjá sig um málið innan 14 daga. Það sé ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda felist í andmælarétti að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun sé tekin í því.

Málið hafi ekki verið afgreitt í bæjarstjórn í samræmi við 2. mgr. gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð og því fari fjarri að bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs enda hafi engin umræða átt sér stað um málið í bæjarstjórn.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. Málið hafi verið lengi til skoðunar hjá bæjaryfirvöldum og fjallað um það frá mörgum hliðum en byggt hafi verið á sömu sjónarmiðunum frá upphafi málsins.

Ekki sé hægt að fallast á sjónarmið kæranda um að samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2015–2030 hafi verið heimild fyrir íbúðum á jarðhæð innan miðsvæðis M2 og því mætti án sérstakrar skoðunar breyta hvaða rými sem væri í íbúð. Í greinargerð aðalskipulagsins hafi einnig komið fram að styrkja skyldi stöðu smá- og fagverslana og veitingastaða. Þessi sjónarmið stangist á og þurfi hvert tilfelli að fá lögmæta umfjöllun, málsmeðferð og afgreiðslu. Það sé í höndum skipulagsyfirvalda hverju sinni að ráða fram úr málum sem þessum þar sem uppi séu öndverð sjónarmið um framtíðaruppbyggingu eða þróun íbúða- og verslunarrýma.

Í máli þessu sé um að ræða skipulagsskylda breytingu og marka þurfi málinu skýran farveg samkvæmt skipulagslögum. Lóðin að Hafnargötu 23 sé hluti af heildstæðri einingu en umsókn kæranda hafi varðað „breytingu innan einnar lóðar innan einingarinnar.“ Ljóst sé að ferill málsins þurfi að taka mið af 41. gr. skipulagslaga. Í bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá fundi 1. september 2023 komi fram að vinna við gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði sé hafin og ótækt að afgreiða umsókn samkvæmt 44. gr. skipulagslaga þar sem aðeins sé um að ræða „breytingu á landnotkun innan einnar lóðar af stærri heild.“ Ekki sé fallist á að fordæmi sem nefnd séu í kæru séu sambærileg máli þessu.

Við deiliskipulagsgerð sé byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit. Því fari fjarri að öllum þessum atriðum séu gerð nægjanleg skil í aðalskipulagi enda ekki til þess ætlast til þess að það sé gert.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 5. september 2023 um að hafna umsókn um leyfi til að breyta verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð.

Umsókn kæranda laut að byggingarleyfisskyldum framkvæmdum, en samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða leyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til erindis kæranda frá 17. nóvember 2022 varðandi ósk um umsögn umhverfis- og skipulagsráðs um fyrirhugaða breytingu á verslunarrými við Hafnargötu 23 í Reykjanesbæ að hluta til í íbúð. Hafnaði umhverfis- og skipulagsráð erindi kæranda og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi 7. febrúar 2023. Var sú afgreiðsla felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 34/2023, uppkveðnum 6. júlí 2023. Í kjölfar úrskurðarins sendi kærandi bréf til byggingarfulltrúa, dags. 8. ágúst 2023, og vísaði hann til erindis síns frá 17. nóvember 2022 sem umsóknar um byggingarleyfi fyrir umræddum breytingum. Vísaði byggingarfulltrúi málinu til umhverfis- og skipulagsráðs á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem synjaði umsókninni á fundi 1. september 2023. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðsluna 5. s.m. og var kæranda tilkynnt um hana 7. s.m.

Byggingarfulltrúi hefur ekki komið að málinu eftir að framangreindar afgreiðslur lágu fyrir en endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Þá eru ekki sett ákvæði í samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp um heimild umhverfis- og skipulagsráðs til fullnaðarafgreiðslu mála. Hin kærða synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.