Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

3/2024 Bergþórugata

Árið 2024, miðvikudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykja­víkurborgar frá 7. desember 2023 um að hafna kröfu um að skilti við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 verði fjarlægt sem og merking um bílastæði við enda stígsins.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi fasteignar að Bergþórugötu 33, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 7. desember 2023 að hafna kröfu um að skilti og merking fyrir bílastæði við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 verði fjarlægð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði skýr umferðarréttur um stíginn er liggi upp við hús kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. febrúar 2024.

Málavextir: Í bréfi til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 12. október 2023, fór kærandi fram á það fyrir hönd íbúa að Bergþórugötu 33 að skilti sem hafði verið reist við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 er liggur upp við gangstétt ­­Bergþórugötu yrði fjarlægt sem og merking um bílastæði sem hafði verið máluð við enda stígsins. ­Í bréfinu kom fram að eigendur lóðar Bergþórugötu 33 hafi frá því húsið var reist árið 1929 haft umferðarrétt um stíginn sem sé þinglýstur samkvæmt lóðarleigusamningi frá 1. janúar 1930 en samningurinn hafi verið endurnýjaður árið 2006 til 75 ára.

Umhverfis- og skipulagssvið hafnaði kröfu kæranda með bréfi, dags. 7. desember 2023, á þeim grundvelli að umræddur stígur væri skilgreindur í deiliskipulagi sem „grænt svæði“ og því einungis ætlaður fyrir umferð gangandi og hjólandi vegfarenda.

 Málsrök kæranda: Bent er á að lóðarhafar við Bergþórugötu 33 hafi, frá því húsið var reist árið 1929, haft umferðarrétt um stíg sem liggi milli húsa nr. 31 og 33 við Bergþórugötu. Umferðarrétturinn sé þinglýstur réttur íbúðareigenda við Bergþórugötu 33 samkvæmt lóðar­leigu­samningi sem gilt hafi frá 1. janúar 1930 og hafi verið endurnýjaður árið 2006 til 75 ára, eða til ársins 2081. Samkvæmt samningnum hafi eigendur lóðarinnar Bergþórugötu 33 einir rétt til umferðar um stíginn. Stígur sem liggi samsíða Bergþórugötu, milli hennar og Njálsgötu hafi verið kallaður Öskustígur á deiliskipulagi alla tíð og sé fjallað um hann sérstaklega í deiliskipulagi sem hafi verið samþykkt árið 2013. Um stíginn, sem kærandi eigi umferðarrétt um, segi í sama skipulagi: „Svæðið milli húsa nr. 31 og 33 við Bergþóru­götu verði í deiliskipulaginu skilgreint sem „grænt svæði“. Það verður eftir sem áður gert ráð fyrir aðkomu að inngöngum húsanna sitt hvoru megin.“ Grundvallarmunur sé í deili­skipulagi á þessum tveimur stígum auk þess sem þinglýstur umferðarréttur kæranda og annarra á Bergþórugötu 33 sé þannig ótvíræður umfram umferðarrétt annarra sem fari gangandi stíginn á milli húsanna.

Gangandi umferð hafi alla tíð átt sér stað milli húsanna við Bergþórugötu 31 og 33 og aldrei hafi verið girt fyrir slíka umferð. Sá réttur hafi hins vegar ekki verið þinglýstur umferðarréttur líkt og í tilviki kæranda og annarra eigenda lóðarinnar við Bergþórugötu 33 um rétt til umferðar ökutækis sem hafi verið lagt við húsið alla tíð. Eignarrétturinn sé ótvíræður samkvæmt þinglýstum samningi sem og hefðarrétti. Svokallaður umferðarréttur hafi í dóma­framkvæmd ævinlega lotið að umferð ökutækja en ekki gangandi vegfarenda. Fjöldi dóma og úrskurða sýni það. Margsinnis hafi verið tekið fram í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að deiliskipulag geti ekki hróflað við eða ráðstafað eignar­réttindum manna. Slíkur réttur verði ekki afnuminn án þess að almenningsþörf krefji og fullt verð komi fyrir, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að þinglýstur umferðarréttur kæranda feli í sér rétt til umferðar yfir lóð í eigu annars aðila. Umferðarrétturinn feli ekki sjálfkrafa í sér réttindi til þess að aka bifreiðum yfir lóð annars enda sé orðið umferð ekki einungis bundið umferð ökutækja.

Kærandi telji að umferðarréttur heimili bein afnot af stígnum í formi einkaréttinda til lagningu bíla íbúa Bergþórugötu 33. Þessu sé hafnað enda hafi stígurinn aldrei verið skipulagður sem bíla­stæði. Orðalag deiliskipulags sé nokkuð skýrt varðandi það hvað felist í þinglýstum umferðar­rétti íbúa Bergþórugötu 33, þ.e. að gert sé ráð fyrir aðkomu að inngöngum húsanna sitt hvoru megin. Borgin hafi skuldbundið sig til þess að loka ekki fyrir aðgengi og aðkomu íbúa Bergþórugötu 33 um hið „græna svæði“.

Það sé mat borgarinnar að rétt sé að banna umferð vélknúinna ökutækja um stíginn enda sé bannað að stöðva og leggja ökutækjum á stígnum, sem nú hafi verið skilgreindur í deili­skipulagi sem grænt svæði. Að sama skapi kveði deiliskipulag svæðisins á um að ekki sé gert ráð fyrir bílastæðum innan lóða og því ættu vélknúin ökutæki ekki erindi inn á stíginn.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Óumdeilt sé að kærandi njóti umferðarréttar að fasteign sinni frá Bergþórugötu á grundvelli þinglýsts lóðarleigusamnings og sé sá umferðarréttur efnis­lega sá sami og eldri lóðarleigusamningur frá 1930 hafi kveðið á um. Kærandi og fyrri eigendur fasteignar­innar hafi nýtt umferðarréttinn með vélknúnu ökutæki í áratugi. Af athugasemdum Reykjavíkurborgar að dæma virðist sem borgin hafi tekið undir sjónarmið kæranda um að umferðarrétturinn hafi verið nýttur bæði til umferðar og til að leggja öku­tækjum. Sé nýting kæranda og forvera hennar því óumdeild. Það virðist því sem Reykjavíkur­borg hafi nýlega talið rétt að banna umferð vélknúinna ökutækja um stíginn. Þá hafi borgin gengið lengra og tiltaki að bannað sé að stöðva og leggja ökutækjum á stígnum sem hafi verið skil­greindur sem „grænt svæði“.

 Niðurstaða: Mál þetta snýst um þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafna kröfu kæranda um að fjarlægja skilti sem reist hafði verið við enda göngustígs milli Bergþórugötu 31 og 33 er liggur upp við gangstétt Bergþórugötu ásamt merkingu bílastæðis við enda stígsins. Telur kærandi umrætt skilti og merking bílastæðis ganga gegn umferðarrétti hennar um stíginn.

­­­Bergþórugata telst til svonefndra sveitarfélagsvega og er Reykjavíkurborg veghaldari götunnar og ber sem slíkur ábyrgð á veginum og umferðaröryggi við hann, sbr. 9. gr. og 1. mgr. 13. gr. vega­laga nr. 80/2007. Þá kemur fram í 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 að veghaldari skuli sjá um að umferðarmerki verði sett á eða við veg þar sem sérreglur gildi um umferð eða þörf sé á þeim til stjórnunar eða leiðbeiningar. Þá er tekið fram í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að lögin taki ekki til vega eða annarra samgöngu­mannvirkja, að undanskildum umferðar- og göngubrúm í þéttbýli. Í greinargerð með frumvarpi til nefndra laga segir að rétt þyki að þau mannvirki sem 2. mgr. 2. gr. laganna taki til falli ekki undir lögin þar sem mann­virkin og eftirlit með þeim falli undir aðra löggjöf, svo sem vegalög.

Samkvæmt 8. tl. 3. gr. vegalaga er hugtakið vegur skilgreint sem: „Akbraut, sem er sá hluti vegar sem er fyrst og fremst ætlaður fyrir umferð ökutækja, öll önnur mannvirki og veg­­svæði sem að staðaldri eru nauðsynleg til þess að vegur sé varanlegur, unnt sé að halda honum við og hafa af honum sem fyllst not.“ Tekur hugtakið vegur því til umferðarskilta, ljósa­staura og annars eðlilegs og nauðsynlegs búnaðar sem stuðlar að auknu umferðaröryggi og tryggri notkun vega. Taka ákvæði vegalaga og umferðarlaga samkvæmt framansögðu til upp­setningar umdeilds skiltis og merkingu bílastæðis. Verða ákvarðanir samkvæmt nefndum lögum ekki bornar undir úrskurðarnefndina.

Bergþórugata 33 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Njálsgötureits, staðgreinireitur 1.190.3., sem tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember 2013. Í greinargerð deili­skipulagsins kemur fram að svæði milli húsa nr. 31 og 33 við Bergþórugötu verði í deili­skipulaginu skilgreint sem „grænt svæði“. Þar verði eftir sem áður gert ráð fyrir aðkomu að inn­göngum húsanna sitt hvoru megin. Þá kemur fram í greinargerðinni að ekki sé gert ráð fyrir bíla­stæðum innan lóða. Á deiliskipulagsuppdrætti er merkt kvöð um gönguleið/aðgengi á um­ræddum stíg.

Í lóðarleigusamningi fyrir Bergþórugötu 33, sem þinglýst var 16. nóvember 2006, kemur fram að lóðin hafi rétt til umferðar um 3 m breiðan bakstíg á milli lóðanna við Bergþórugötu og Njálsgötu og um 6,3 m breiðan stíg frá Bergþórugötu og að þeim stíg. Er ekki fjallað nánar um inntak umferðarréttarins í samningnum. Ágreiningur er uppi í máli þessu um inntak umferðar­réttar kæranda samkvæmt samningnum, en slíkur ágreiningur verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni heldur eftir atvikum dómstólum.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.