Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2024 Rofabær

Árið 2024, miðvikudaginn 10. apríl, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 22/2024, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 um að hafna umsókn um byggingarleyfi frá 17. maí s.á. vegna svalahandriðs og klæðningar á suðurhlið hússins að Rofabæ 43-47.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir Húsfélag Rofabæjar 43-47, Reykjavík, þá afgreiðslu skipulagsfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 að hafna umsókn þess um byggingarleyfi frá 17. maí s.á. vegna svalahandriðs og klæðningar á suðurhlið hússins. Gerð er krafa um að byggingarleyfisumsóknin verði samþykkt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. mars 2024.

Málsatvik og rök: Húsfélag Rofabæjar 43-47 hefur í hyggju að fara í viðhald og liggur fyrir ástandsskýrsla frá árinu 2016 þar sem lagðar eru til framkvæmdir og endurbætur á húsinu. Á aðalfundi húsfélagsins 27. mars 2023 var samþykkt að taka tilboði í framkvæmdir sem fælu m.a. í sér að allar svalir á suðurhlið þess yrðu brotnar niður og byggðar upp á nýtt og að sett yrðu létt handrið úr áli og gleri. Hinn 17. maí 2023 var sótt um byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum og hefur afgreiðslu umsóknarinnar ítrekað verið frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa, síðast 5. september 2023. Telur kærandi að skipulagsfulltrúi hafi með umsögn sinni 13. júlí 2023 í raun hafnað erindinu og hafa átt sér stað viðræður á milli kæranda og borgaryfirvalda um þessa afstöðu skipulagsfulltrúa. Eru viðræðurnar enn yfirstandandi og fyrirhugaður fundur 11. apríl 2024. Hefur því verið lýst yfir af hálfu borgaryfirvalda að vonast sé til að í kjölfarið fáist niðurstaða í málið.

Af hálfu kæranda er byggt á því að með höfnun á áformum hans sé brotið gegn jafnræðisreglu. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið byggt á hverfisskipulagi Árbæjarhverfis frá árinu 2019 en fordæmi séu fyrir að breytingar hafi verið samþykkt á húsum í hverfinu eftir að skipulagið hafi tekið gildi. Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða afgreiðsla feli ekki í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og sé því ekki kæranleg til nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar sem fólst í gerð umsagnar í tilefni af umsókn kæranda um byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það byggingarfulltrúi sem veitir byggingarleyfi og skal umsókn um byggingarleyfi send hlutaðeigandi byggingarfulltrúa. Leiki vafi á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins skal byggingarfulltrúi skv. 2. mgr. 10. gr. sömu laga leita umsagnar skipulagsfulltrúa.

Í máli þessu hefur byggingarfulltrúi frestað afgreiðslu máls á afgreiðslufundum með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa en umsögn hans er liður í undirbúningi ákvörðunar byggingarfulltrúa en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber stjórnvaldi að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Í 4. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Fyrir liggur að yfirstandandi eru viðræður á milli borgaryfirvalda og kæranda en leiðbeint skal um að telji kærandi afgreiðslu málsins dragast óhæfilega er honum unnt að kæra þann drátt til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.