Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

75/2006 Bergstaðastr.

Með

Ár 2006, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 75/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2006 um að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. september 2006, er barst nefndinni 2. október s.á., kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. ÞG verktaka ehf., eiganda fasteignanna að Spítalastíg 20 og baklóðar að Spítalastíg 6 og S, eiganda Spítalastígs 6 og hluta fasteignarinnar að Spítalastíg 4, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2006 að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurðar til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Framkvæmdir á greindri lóð voru stöðvaðar af hálfu byggingarfulltrúans í Reykjavík í kjölfar kærumáls þessa og var því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.

Málsatvik og rök:  Með kæru, dags. 7. mars 2006, skutu kærendur deiliskipulagsákvörðun borgarráðs frá 24. nóvember 2005, er tekur til umrædds svæðis, til úrskurðarnefndarinnar.  Í því máli gera kærendur kröfu um ógildingu skipulagsins.

Benda kærendur á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í fyrrgreindu skipulagi.  Þar sem ekki liggi fyrir niðurstaða í kærumálinu vegna skipulagsins leiki vafi á um gildi þess og sé því krafist ógildingar hins kærða byggingarleyfis.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. desember 2006, tilkynnti byggingarfulltrúinn í Reykjavík að hið kærða byggingarleyfi hefði verið afturkallað á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fyrir lægi að hið kærða leyfi væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun hefur verið afturkölluð.  Hefur ákvörðunin því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Verður máli þessu af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

        ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

76/2006 Aðalskipulag Ak.

Með

Ár 2006, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2006, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 12. september 2006 á tillögu að Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005-2018.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 12. október 2006, kærir Eyvindur G. Gunnarsson hrl., fyrir hönd Ötuls ehf., Viðjulundi 2, Akureyri, samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar á tillögu að Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005-2018.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með hinni kærðu ákvörðun mun m.a. landnotkun lóðar kæranda að Viðjulundi 2, Akureyri, hafa verið breytt úr athafnasvæði í íbúðabyggð en kærandi hafði mótmælt þeirri breytingu við kynningu tillögunnar.  Telur kærandi að málsmeðferð hinnar kærðu tillögu hafi verið ábótavant og gangi hún gegn hagsmunum hans.  Bendir kærandi jafnframt á að fyrir úrskurðarnefndinni liggi kæra hans frá árinu 2005 vegna synjunar bæjaryfirvalda á umsókn um uppbyggingu lóðarinnar að Viðjulundi 2.

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

   ___________________________         
                Hjalti Steinþórsson                          

 

      ____________________________               _____________________________
                    Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

51/2005 Bergstaðastr.

Með

Ár 2006, mánudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2005, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. júní 2005 um að hafna umsókn um hækkun þaks, byggingu kvista og svala og að taka í notkun rishæð í húsinu nr. 33b við Bergstaðastræti í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2005, er barst nefndinni sama dag, kæra L og  T, eigendur Bergstaðastrætis 33b, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 1. júní 2005 að hafna umsókn kærenda um hækkun þaks, byggingu kvista og svala og að taka í notkun rishæð í greindri fasteign kærenda.  Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök:  Að lokinni grenndarkynningu var umsókn kærenda um breytingar og hækkun hússins að Bergstaðastræti 33b tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur hinn 1. júní 2005.  Var umsókninni synjað með vísan til þess að nágrannar hefðu andmælt erindinu en samþykki þeirra væri skilyrði fyrir samþykkt umsóknar vegna fjarlægðar milli húsa.

Kærendur skutu þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og boðuðu í kærunni gögn og rökstuðning fyrir máli sínu.  Var afturköllun kærunnar boðuð ef málið yrði endurupptekið og fengi löglega meðferð.  Borgaryfirvöld hafa upplýst að kærendur hafi fengið málið tekið fyrir á ný hjá byggingarfulltrúa hinn 25. október 2005, sem hafi  samþykkt umsóknina, og hafi sú afgreiðsla verið staðfest í borgarráði hinn 27.október s.á..

Niðurstaða:   Fyrir liggur að kærendur hafa fengið leyfi hjá borgaryfirvöldum fyrir umbeðnum breytingum á húsinu að Bergstaðastræti 33b í Reykjavík sem synjað hafði verið um með hinni kærðu ákvörðun.  Hin kærða ákvörðun hefur því ekki lengur þýðingu að lögum og eiga kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar.

Með vísan til framanritaðs og þar sem kærumál þetta hefur ekki verið afturkallað verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

        ___________________________          
 Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

 

61/2004 Miðvangur

Með

Ár 2006, mánudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 61/2004, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Austur- Héraðs frá 23. september 2004 um að heimila breytt innra skipulag og breytta notkun kjallara fasteignarinnar að Miðvangi 1-3, Egilsstöðum, ásamt því að fjarlægja stiga milli kjallara og fyrstu hæðar hússins, loka stigagati með steinsteypu og bæta við gluggum á norðurhlið.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. október 2004, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Ragnheiður M. Ólafsdóttir hdl., f.h. Í ehf. og H, eigenda að eignarhlutum í fasteigninni að Miðvangi 1-3, Egilsstöðum, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Austur-Héraðs frá 23. september 2004 að heimila breytt innra skipulag og breytta notkun kjallara fasteignarinnar að Miðvangi 1-3 ásamt því að fjarlægja stiga milli kjallara og fyrstu hæðar hússins, loka stigagati með steinsteypu og bæta við gluggum á norðurhlið.  Ákvörðunin var staðfest í umhverfisráði sveitarfélagsins hinn 28. september 2004. 

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Var jafnframt gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en í ljósi þess að framkvæmdum var lokið í kjölfar þess að kæra barst þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu. 

Málavextir:  Með eignaskiptayfirlýsingu, dags. 26. febrúar 1997, var fasteigninni að Miðvangi 1-3 skipt upp í níu eignarhluta.  Í yfirlýsingunni segir m.a. að í kjallara hússins sé verslun með kvöð um umgengi milli útidyra í norðvestur horni og stiga upp á fyrstu hæð og skuli gangvegur fullnægja skilyrðum byggingaryfirvalda á hverjum tíma.  Með kaupsamningi, dags. 15. júní 2004, varð byggingarleyfishafi eigandi að kjallara Miðvangs 1-3.  Samkvæmt greindri eignaskiptayfirlýsingu var hlutfallstala hins selda séreignarhluta 33,93% í húsi og lóð en 15,8% í svonefndum Perlusal, sem mun vera rými það sem greindur stigi lá að á fyrstu hæð hússins. 

Hinn 22. september 2004 var haldinn fundur í húseigendafélagi Miðvangs 1-3 þar sem fyrir lá að ræða fyrirhugaðar breytingar á notkun kjallara hússins í prentsmiðju og lágu fyrir fundinum teikningar að fyrirhuguðum breytingum.  Samkvæmt fundargerð voru 44,67% eigenda mótfallnir því að gera breytingar á eignarskiptayfirlýsingu en eigendur að 32,77% eignarhlutum móttfallnir prentsmiðjurekstri í húsinu.  Aðrir eigendur voru ekki sagðir setja sig upp á móti breytingunum svo framanlega sem þær hefðu ekki í för með sér óásættanlega röskun í húsinu. 

Byggingarfulltrúi Austur-Héraðs samþykkti hið kærða byggingarleyfi „að uppfylltum skilyrðum laga og reglugerða“ á afgreiðslufundi hinn 23. september 2004 og var sú afgreiðsla staðfest á fundi umhverfisráðs hinn 28. september sama ár. 

Eftir að kæra í máli þessu barst, eða hinn 18. nóvember 2004, óskaði byggingarleyfishafi eftir því við byggingarfulltrúa að heimild í umræddu byggingarleyfi fyrir gluggum yrði felld niður og féllst byggingarfulltrúi á það á afgreiðslufundi hinn 3. desember 2004. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að óheimilt hafi verið að gefa út umdeilt byggingarleyfi þar sem samþykki allra eigenda fasteignarinnar að Miðvangi 1-3 skorti, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þeir hafi verið mótfallnir umsóttum breytingum en þeir fari með 44,67% atkvæða í húsfélaginu að Miðvangi 1-3 í skjóli eignarhluta sinna. 

Samkvæmt 16. og 18. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þurfi samþykki allra eigenda til þeirra breytinga er greint byggingarleyfi heimili.  Í eignaskiptayfirlýsingu komi skýrt fram að í kjallara hússins sé verslunar- og skrifstofuhúsnæði og kvöð sé um umgengi milli útidyra í norðvestur horni og stiga upp á fyrstu hæð.  Þá sé áskilið í 19. gr. laganna að samþykki allra eigenda þurfi fyrir verulegum breytingum á sameign en brottnám sameiginlegs stiga og lokun stigagats sé slík breyting. 

Athugasemdir af hálfu bæjaryfirvalda eða byggingarleyfishafa vegna kærumáls þessa hafa ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi var staðfest á fundi umhverfisráðs Austur-Héraðs hinn 28. september 2004 og var fundargerð ráðsins lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 6. október sama ár.  Fundargerð þess fundar ber með sér að fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 23. september 2004 var ekki staðfest af bæjarstjórn. 

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna.  Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af umhverfisráðherra, sem fer með yfirstjórn skipulags- og byggingarmála skv. lögunum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. 

Ekki liggur fyrir, þrátt fyrir eftirgrennslan, að staðfest og birt samþykkt skv. nefndri 4. mgr. 40 gr. skipulags- og byggingarlaga hafi verið í gildi er hin kærða ákvörðun var tekin og er því, að mati úrskurðarnefndarinnar, ekki fyrir hendi viðhlítandi heimild til þess að víkja frá fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfum. 

Af framangreindum ástæðum hefur hið kærða byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna staðfestingu samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfisins. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                           Ásgeir Magnússon

49/2006 Aðalskipulag

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2006, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Leirár- og Melahrepps frá 25. maí  2006 á tillögu að Aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps 2002-2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2006, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir Björn Jónsson hrl., fyrir hönd Á og Ö, eigenda jarðarinnar Leirár í Borgarfirði,  samþykkt sveitarstjórnar Leirár- og Melahrepps frá 25. maí 2006 á tillögu að Aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps 2002-2014.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 25. maí 2006 mun sveitarstjórn Leirár- og Melahrepps, nú Hvalfjarðarsveitar, hafa samþykkt tillögu að aðalskipulagi hreppsins fyrir 2002-2014.  Á kynningartíma tillögunnar gerðu kærendur athugasemdir við að sá hluti Leirárdals er tæki til lands þeirra yrði gert að fjarsvæði og 100 metra breitt svæði austanvert við Leirá yrði gert að grannsvæði vatnsbóla.  Þá var  farið fram á að nánar tilgreint svæði yrði gert að frístundabyggð.  Var óskum kærenda hafnað af hálfu sveitarstjórnar og framkomnar athugasemdir leiddu ekki til breytinga á umræddri aðalskipulagstillögu.  Telja kærendur aðalskipulagið þrengja með ólögmætum og bótaskyldum hætti nýtingarmöguleika á landareign þeirra og væri samþykkt þess jafnframt brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Vísaði sveitarstjórn til þess að ekki lægi fyrir ósk allra sameigenda að landi fyrir heimild til frístundabyggðar og ákvörðun um grannsvæði væri til varnar vatnslindum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild aðalskipulagstillaga hefur ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í nefndu lagaákvæði er einnig kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________         
            Hjalti Steinþórsson                          

 

 

_______________________________     ____________________________ 
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

31/2006 Höfðavegur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 31/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Húsavíkurbæjar, er bæjarstjórn staðfesti hinn 21. febrúar 2006, um að auglýsa til sölu lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík ásamt byggingarrétti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. apríl 2006, er  barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, framsendi félagsmálaráðuneytið kæru K, Höfðavegi 16, Húsavík, dags. 11. apríl 2006, vegna þeirrar samþykktar skipulags- og byggingarnefndar bæjarins að auglýsa til sölu lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík, ásamt byggingarrétti.  Bæjarstjórn Húsavíkur staðfesti hinn 21. febrúar 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 9. febrúar 2006 samþykkti bæjarráð Húsavíkur að taka tilboði í lóðina að Höfðavegi 15, Húsavík.  Mun kærandi hafa sent skipulags- og byggingarnefnd athugasemdir vegna sölunnar og bent á ákvæði í þinglýstum lóðasamningum vegna lóðanna að Höfðavegi 11-19 frá árinu 1970 þess efnis að ekki yrði leyft að byggja á greindum lóðum þar sem skipulag gerði þar ráð fyrir grænu svæði.  Var erindi kæranda tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 14. febrúar 2006 þar sem kæranda var þakkað erindið en á það bent að í fyrirliggjandi breytingu á gildandi aðalskipulagi væri gert ráð fyrir íbúðarbyggð á umræddum lóðum.  Var ákveðið að fela byggingarfulltrúa að sjá um að ljúka deiliskipulagsvinnu, sem væri á lokastigi, á grundvelli gildandi aðalskipulags.  Var þessi fundargerð afgreidd á fundi bæjarstjórnar Húsavíkur hinn 21. febrúar 2006.

Bendir kærandi á að íbúar við Höfðaveg hafi átt að geta treyst því að ekki risi byggð á umræddum lóðum í samræmi við fyrrgreinda lóðasamninga, sem m.a. taki til lóðarinnar að Höfðavegi 15, og sé óásættanlegt að bæjaryfirvöld virði að vettugi þinglýsta samninga með því að leyfa nýbyggingu á nefndri lóð.  Hin kærða ákvörðun sé fráleit í ljósi þess að umrædd gata sé ein af elstu götum Húsavíkurbæjar og ekki hafi verið reist hús við hana í marga áratugi.  Gatan sé þröng og bílastæðamál við austari hluta hennar í ólestri sem unnt væri að bæta úr ef menn héldu sig við fyrri hugmyndir og hættu við fyrirhugaðar nýbyggingar.  Verði byggt á fyrrgreindri lóð minnki verðgildi eignar kæranda verulega.  Telur kærandi að ástæða fyrir hinni þinglýstu kvöð um víkjandi byggð á umræddum lóðum hafi verið sú að um sé að ræða hættulegt byggingarsvæði vegna staðhátta.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð ákvörðun bæjaryfirvalda á Húsavík um að auglýsa til úthlutunar byggingarlóð að Höfðavegi 15 þar í bæ.  Má ráða af málatilbúnaði kæranda að baki kærunni búi andstaða gegn því að byggt verði á umræddri lóð þrátt fyrir þinglýsta kvöð um víkjandi byggð.

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar en heimilt er að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir í þegar byggðum hverfum ef ekki er til að dreifa deiliskipulagi.  Húsbyggingar verða ekki hafnar nema að undangenginni veitingu byggingarleyfis sem samræmist gildandi skipulagi, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna.  Þar af leiðandi getur ákvörðun um lóðarúthlutun ekki ein og sér falið í sér heimildir til byggingarframkvæmda á tiltekinni lóð.  Í máli þessu er hvorki til úrlausnar lögmæti  skipulags né byggingarleyfis er felur í sér byggingarheimildir á lóðinni að Höfðavegi 15 á Húsavík.  

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum.  Í þeim er ekki að finna reglur er varða lóðaúthlutanir og hefur úrskurðarnefndin ekki vald til að úrskurða um meðferð eða afgreiðslu þeirra.  Því verður ágreiningur um slíkt efni ekki borinn undir nefndina og er kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________        _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

        

 

10/2005 Langholtsvegur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2005, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. desember 2004 á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Langholtsvegi 113 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. janúar 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir H persónulega og fyrir hönd húsfélagsins að Langholtsvegi 109-111, Reykjavík, samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 22. desember 2004 á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Langholtsvegi 113 í Reykjavík.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik:  Hinn 22. október 2004 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Langholtsvegi 113.  Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum.  Málið var í kynningu frá 27. október til 24. nóvember 2004.  Nokkrar athugasemdir bárust, þ.á m. frá kærendum.  Að lokinni grenndarkynningu var málinu vísað til skipulags- og byggingarnefndar, sem samþykkti umrædda deiliskipulagsbreytingu á fundi sínum 22. desember 2004.
 
Byggja kærendur ógildingarkröfu sína á því að deiliskipulagsuppdráttur sá sem kynntur hafi verið sé með rangri og villandi merkingu auk þess sem á honum séu gamlar upplýsingar, rangfærslur í sneiðingum og viðeigandi sneiðingar vanti.  Þá hafi á skort að tekin hafi verið afstaða til athugasemda kærenda sem settar hafi verið fram við grenndarkynningu.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Sé sú krafa studd þeim rökum að hin kærða ákvörðun hafi aldrei öðlast gildi og séu því ekki forsendur til þess að hún verði felld úr gildi af úrskurðarnefndinni.  Vekja beri athygli á að þrátt fyrir að skipulags- og byggingarnefnd hafi samþykkt umdeilda deiliskipulagsbreytingu hafi hún ekki öðlast gildi þar sem breytingin hafi ekki verið send Skipulagsstofnun til skoðunar auk þess sem gildistökuauglýsing hafi ekki birst í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga. Beri því að líta á fyrrgreinda samþykkt skipulags- og byggingarnefndar sem markleysu að lögum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umþrætt deiliskipulagsbreyting, er skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti hinn 22. desember 2004, öðlaðist ekki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda í samræmi við lokamálsgrein 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hin kærða ákvörðun fól því ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, og styðst sú ályktun enn fremur við 2. mgr. 27. gr. laganna, sem kveður á um að upphaf kærufrests sé við opinbera birtingu ákvörðunar, þar sem slík birting er lögmælt.  Að þessu virtu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda er skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________         _______________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

24/2006 Hagasmári

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 2. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 24/2006, kæra vegna meðferðar á athugasemdum í tilefni auglýsingar um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogi

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. mars 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, framsendi félagsmálaráðherra kæru K og Þ Eyktarsmára 4, Kópavogi vegna meðferðar á athugasemdum í tilefni auglýsingar um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. október 2005 var skipulagsstjóra Kópavogs falið að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í samræmi við 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Tillagan var auglýst frá 24. október til 21. nóvember 2005 með athugasemdafresti til mánudagsins 5. desember 2005.  Athugasemdir bárust.  Á fundi skipulagsnefndar 6. desember 2005 var tillagan lögð fram ásamt athugasemdum og var afgreiðslu málsins frestað.  Var skipulagsstjóra falið að semja drög að umsögn nefndarinnar vegna innsendra athugasemda.  Hinn 7. febrúar 2006 samþykkti nefndin umsögn skipulagsfulltrúa og breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar.  Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest í bæjarstjórn hinn 14. febrúar 2006.        

Kærendur vísa til þess að þeir hafi hinn 4. desember 2005 sent athugasemdir vegna tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára á tölvupóstfang Kópavogsbæjar kopavogur(hjá)kopavogur.is undir fyrirsögninni „Póstur“.  Við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn hafi komið í ljós að athugasemd þeirra hafi ekki verið meðal athugasemda sem fjallað hafi verið um í skipulagsnefnd bæjarins þegar umrædd deiliskipulagstillaga hafi verið þar til afgreiðslu.  Telji kærendur óeðlilegt að rafrænn póstur, sem sé sendur til sveitarfélagins þar sem skýrlega komi fram hvert efnið sé og við blasi hver viðtakandinn eigi að vera, skuli ekki rata í réttar hendur innan kerfisins.  Afleiðing þessa sé sú að athugasemd þeirra og ef til vill fleiri hafi aldrei verið tekin til umfjöllunar eins og vera beri.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð meðferð bæjaryfirvalda á athugasemdum kærenda í tilefni auglýsingar um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar nr. 1 við Hagasmára í Kópavogi.  Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, eins og henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005, segir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveði upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.  Í 5. mgr. sömu lagagreinar segir ennfremur að kæru til úrskurðarnefndarinnar sæti stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga.  Í framangreindum lagaákvæðum felst að úrskurðarnefndin fjallar einvörðungu um lokaákvarðanir á lægra stjórnsýslustigi en ekki einstakar ákvarðanir sem teknar eru við meðferð máls og varða gerð og undirbúning ákvörðunar sem undir lögin falla.  Atvik þau sem kærð eru í málinu vörðuðu undirbúning skipulagsákvörðunar en bundu ekki endi á meðferð málsins og koma þau ekki til umfjöllunar af hálfu úrskurðarnefndarinnar nema í tengslum við kæru endanlegrar ákvörðunar í málinu.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

______________________________ 
 Hjalti Steinþórsson

 

    _____________________________                 ____________________________
                           Ásgeir Magnússon                                      Þorsteinn Þorsteinsson               

 

54/2006 Fjallalind

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 2. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari. 

Fyrir var tekið mál nr. 54/2006, kæra á samþykkt skipulagsnefndar og bæjarráðs Kópavogs á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 64 við Fjallalind í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júní 2006, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir M, Fjallalind 62, Kópavogi samþykkt skipulagsnefndar frá 6. júní 2006 og bæjarráðs Kópavogs frá 8. sama mánaðar á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 64 við Fjallalind í Kópavogi.  Var samþykktin staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. júní 2006. 

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Í athugasemdum við kæruna, sem úrskurðarnefndinni bárust hinn 22. ágúst 2006 frá skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogsbæjar, kemur fram að hin kærða skipulagsákvörðun hafi verið staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. júní 2006, eftir að afstaða hafi verið tekin til framkominna athugasemda.  Málið hafi hvorki verið sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu né auglýsing um gildistöku verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Sé af þessum sökum krafist frávísunar málsins.    

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er sveitarstjórn heimilt að falla frá auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi sé um að ræða óverulega breytingu.  Tillagan skal þá grenndarkynnt hagmunaaðilum og að því loknu skal hún send Skipulagsstofnun ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Jafnframt verður að skilja ákvæði 3. mgr. sömu greinar á þann veg að birta skuli auglýsingu um breytt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda, óháð því hvernig undirbúningi ákvörðunarinnar hafi verið háttað. 

Eins og að framan er rakið hefur umrædd skipulagsákvörðun ekki verði send Skipulagsstofnun til meðferðar og ekki hefur birst auglýsing um hana í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er gildistökuskilyrði og markar jafnframt upphaf kærufrests, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum.  Er lögboðinni meðferð málsins þannig enn ólokið og voru því ekki skilyrði til þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar, sbr. ákvæði 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Verður máli þessu því vísað frá.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                 ____________________________
       Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson               

30/2005 Sléttuvegur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 17. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2005, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. febrúar 2005 á tillögu að breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur er fól í sér að hluta svæðis fyrir þjónustustofnanir vestan Háaleitisbrautar, milli Sléttuvegar og Bústaðavegar, var breytt í íbúðasvæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 11. apríl 2005, kærir Eiríkur Elís Þorláksson hdl., fyrir hönd húsfélagsins að Sléttuvegi 17-19, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. febrúar 2005 á tillögu að breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur er fól í sér að hluta svæðis fyrir þjónustustofnanir vestan Háaleitisbrautar, milli Sléttuvegar og Bústaðavegar, var breytt í íbúðasvæði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 2. febrúar 2005 tók borgarráð Reykjavíkur fyrir hina kærðu aðalskipulagsbreytingu en við kynningu hennar komu fram athugasemdir, m.a. frá kæranda. Var tillagan samþykkt óbreytt.  Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna hinn 2. mars 2005 og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. sama mánaðar.

Kærendur skutu nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að með ákvörðuninni, sem heimilaði nánast tvöföldun á nýtingarhlutfalli umdeilds svæðis, væri gengið á hagsmuni félagsmanna kæranda.  Þá hafi málsmeðferð verið svo ábótavant að ógildingu varði, enda hafi verið farið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, almennum meginreglum við skipulagsákvarðanir og meginreglum stjórnsýsluréttarins.

Kærandi hefur gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki þykir ástæða til að rekja frekar eins og hér stendur á. 

Niðurstaða:  Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni. 

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar sem hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur nefndina vald til þess að taka ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.  Hefur úrskurðarnefndin komist að þessar niðurstöðu í fyrri úrskurðum um sama álitaefni og hefur þessi túlkun nú beina stoð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 ___________________________ 
                       Hjalti Steinþórsson                          

 

_______________________                ____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson