Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2009 Vogar

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2009, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 11. maí 2005 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Heiðardal, Miðdal, Lyngdal og Leirdal í Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:      

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2009, er barst nefndinni hinn 13. sama mánaðar, kærir Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl., f.h. R, Fagradal 12, Vogum, þá ákvörðun hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 11. maí 2005 að samþykkja deiliskipulag fyrir Heiðardal, Miðdal, Lyngdal og Leirdal.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða deiliskipulagsákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Í febrúar 2005 var auglýst tillaga að breytingu að deiliskipulagi í Vatnsleysustrandarhreppi er tók til Heiðardals, Miðdals, Lyngdals og Leirdals.  Var tillagan til kynningar frá 23. febrúar til 23. mars 2005 og barst athugasemd vegna hennar, en þó ekki frá kæranda máls þessa.  Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti tillöguna hinn 8. apríl 2005 og hreppsnefnd 12. sama mánaðar.  Var fundargerð skipulags- og byggingarnefndar tekin fyrir að nýju í hreppsnefnd 11. maí 2005 og eftirfarandi m.a. bókað:  „Fundargerðin er samþykkt.  Varðandi 2. mál fundargerðarinnar um nýtt deiliskipulag við Heiðardal, Miðdal, Lyngdal og Leirdal, þá samþykkir hreppsnefnd skipulagið eins og fram kemur í samþykkt Skipulags- og byggingarnefndar“.  Birtist auglýsing um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. maí 2005.

Hefur kærandi nú skotið hinni umdeildu deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Kærandi byggir á því að málmeðferð hafi ekki verið lögum samkvæmt.  Um verulega breytingu hafi verið að ræða og hafi borið að kynna tillöguna í ítarlegri grenndarkynningu.  Hafi breytingar sem gerðar hafi verið m.a. á hæðarpunktum verið með þeim hætti að erfitt hafi verið að gera sér grein fyrir áhrifum þeirra fyrr en þær hafi komið til framkvæmda og því sérlega mikilvægt að kynna tillöguna sérstaklega.  Hafi kærandi þannig enga grein gert sér fyrir áhrifum breytinganna fyrr en vinna hófst við lóðir á svæðinu.  Þá hefði verið eðlilegt að leita eftir sérstöku samþykki kæranda, sér í lagi vegna þess að breytingarnar hafi bein og veruleg áhrif á notkun fasteignar kæranda og verðgildi hennar.  Þegar kæranda hafi orðið ljóst hver áhrifin yrðu hafi hún haft samband við sveitarfélagið til að reyna að fá úrlausn sinna mála.  Enn fremur hafi kærandi óskað eftir því að samkomulagi yrði náð um bótagreiðslur vegna tjóns kæranda, en sveitarfélagið hafi ekki brugðist við þeim óskum hingað til og vísar kærandi til 33. gr. laga nr. 73/1997.  

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsákvörðun var samþykkt í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hinn 11. maí 2005 og tók skipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. maí 2005.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er einn mánuður samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast sá frestur við birtingu ákvörðunar.  Rann kærufrestur vegna hinnar umdeildu ákvörðunar því út 21. júní 2005, að teknu tilliti til útreiknings frests samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. janúar 2009 eða rúmum þremur og hálfu ári eftir lok kærufrests og ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_____________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________            ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir 

 

 

 

106/2008 Fjárborg

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 10. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 106/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember 2008 þess efnis að ekki verði samþykkt að gengið verði frá hesthúsinu í þeirri mynd sem það sé.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. nóvember 2008, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir L, Munaðarhóli 18, Snæfellsbæ, lóðarhafi Fjárborgar 10 á Hellissandi, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember 2008 þess efnis að ekki verði samþykkt að gengið verði frá hesthúsinu í þeirri mynd sem það sé.

Verður að skilja erindi kæranda svo að gerð sé krafa um að ofangreint verði fellt úr gildi.  

Málavextir:  Í júní árið 2006 var kæranda máls þessa úthlutað lóð í Hraunskarði fyrir tómstundabúskap og var byggingarleyfi samþykkt 27. júní 2006.  Samkvæmt upplýsingum kæranda lét hann það ár slétta lóð og grafa fyrir grunni hússins.  Ári síðar var grunnur steyptur og húsið reist árið 2008. 

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. ágúst 2008, voru framkvæmdir við bygginguna stöðvaðar og m.a. vísað til þess að húsið væri hvorki í samræmi við deiliskipulag né samþykktar teikningar.  Var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. sama mánaðar eftirfarandi fært til bókar:  „Bréf dags. 21.08.2008 hefur verið sent lóðarhafa að Fjárborg 10 og framkvæmdir stöðvaðar.  Lóðarhafi hefur hafið byggingu við Fjárborg 10 á Hellissandi og er sú bygging ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag né samþykktar teikningar.  Lóðarhafa hefur verið gefinn kostur á að gefa skýrslu á þessari framkvæmd og skila inn teikningum eins og byggingin er í dag.  Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkir stöðvun framkvæmda meðan byggingin er ekki í samræmi við teikningar.  Einnig að skrifa byggingarstjóra verksins bréf og óska skýringa á stöðu verksins.  Nefndin felur byggingarfulltrúa einnig að undirbúa frekari aðgerðir.“  Var samþykkt þessi staðfest á fundi bæjarráðs hinn 28. ágúst 2008. 

Í gildi er Aðalskipulag Snæfellsbæjar 1995-2015.  Með breytingu þess hinn 24. október 2008 var svæði því er hér um ræðir breytt úr opnu óbyggðu svæði í opið svæði til sérstakra nota, þ.e. tómstundabúskap.  Í bréfi Skipulagsstofnunar til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. október sama ár, var vísað til erindis Snæfellsbæjar þar sem óskað hafði verið meðmæla stofnunarinnar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga til veitingar leyfis til byggingar 200 m² hesthúss á svæðinu, með hæstu leyfilegu þakhæð 5,0 m yfir gólfi.  Gerði stofnunin ekki athugasemd við að leyfi yrði veitt en benti á að vinna þyrfti deiliskipulag fyrir svæðið yrði af frekari uppbyggingu.  Með hliðsjón af þessu var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 30. október 2008 endurútgefið byggingarleyfið frá 27. júní 2006. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 19. nóvember s.á. lagði tæknideild bæjarins fram fyrirspurn til nefndarinnar þess efnis hvort kærandi myndi geta fengið leyfi fyrir hesthúsinu eins og það var þá.  Var eftirfarandi bókað:  „Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkir ekki að gengið verði frá húsinu í þeirri mynd sem það er í dag.  Byggingarnefnd fer fram á það að skilað verði inn teikningum í samræmi við byggt hús án turns og hann verði fjarlægður.“  Var bókun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 20. nóvember 2008. 

Hefur kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar fyrrgreinda samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember s.á. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að þegar húsið, sem hafi verið þrjú ár í byggingu, hafi verið orðið fokhelt hafi framkvæmdir verið stöðvaðar af byggingaryfirvöldum með þeim rökum að húsið væri ekki í samræmi við teikningar sem unnar hefðu verið af Bændasamtökunum árið 2001, en samtökin kannist ekkert við það. 

Hafi kærandi komist að því að byggingaryfirvöldum hafi ekki verið heimilt að veita leyfi til byggingarinnar þar sem deiliskipulag hafi ekki verið fyrir hendi.  Þeim hafi verið bent á að sækja um undanþágu fyrir húsi kæranda úr því það hafi verið komið upp og hafi sú undanþága fengist þar sem gert hafi verið ráð fyrir fimm metra háu, 200 m² húsi.  Verið sé að byggja annað hús sem ekki sé á deiliskipulagi og ekki með teikningar en sá húsbyggjandi fái að halda áfram.  Þá sé því ranglega haldið fram af byggingaryfirvöldum að húsið sé 5,32 metrar á hæð en hið rétta sé að það sé fimm metrar. 

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er vísað til þess að við vinnslu á deiliskipulagi svæðisins árið 1999 hafi verið ákveðið að fá teikningu frá Bændasamtökum Íslands sem nýtast myndi öllum lóðum á svæðinu og hafi kærandi fengið þess háttar teikningu.  Svo líði og bíði, ekkert gerist og engar framkvæmdir eigi sér stað.  Engum gögnum sé skilað inn til byggingarfulltrúa og ekki sé haft samband við hann um fyrirhugaða byggingu.  Það sé ekki fyrr en byggingarfulltrúi komi úr sumarfríi í byrjun ágúst 2008 að honum sé tilkynnt um framkvæmdir við hesthúsabygginguna.  Hafi kæranda verið tilkynnt að byggingarleyfi sem hann hafi fengið á árinu 2006 hafi aldrei tekið gildi þar sem aldrei hafi verið skilað inn tilskildum gögnum. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar frá 27. ágúst 2008 um staðfestingu á ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss á lóðinni nr. 10 við Fjárborg á Hellissandi og bókun nefndarinnar frá 19. nóvember s.á. þar sem hafnað var breytingum á hinu umdeilda hesthúsi. 

Fyrir liggur að á fundi umhverfis- og byggingarnefndar hinn 27. júní 2006 var kæranda máls þessa úthlutað fyrrgreindri hesthúsalóð og leyfi til byggingar hesthúss samþykkt.   Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að hús það sem nú er risið á umræddri lóð sé bæði stærra og hærra en samþykktar teikningar heimila og stöðvaði byggingarfulltrúi byggingu þess eins og fyrr er vikið að. 

Um heimild byggingarfulltrúa til að stöðva framkvæmdir við byggingu húss, sem ekki hefur fengist leyfi fyrir eða byggt er á annan hátt en leyfi stendur til, er mælt fyrir um í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Er þar um að ræða bráðabirgðaákvörðun sem tekin er tafarlaust en skal þó staðfest í byggingarnefnd svo fljótt sem við verður komið.  Í kjölfar slíkrar ákvörðunar þarf að taka afstöðu til afdrifa byggingarframkvæmdanna, eftir atvikum með veitingu byggingarleyfis eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða ákvörðun um að bygging eða byggingarhluti verði fjarlægður, sbr. 2. og 4. mgr. 56. gr. laganna.  Unnt er að bera þær ákvarðanir undir úrskurðarnefndina      

Bókun umhverfis- og skipulagsnefndar frá 19. nóvember 2008 fól í sér svar við fyrirspurn til nefndarinnar þess efnis hvort kærandi myndi geta fengið leyfi fyrir hesthúsinu í samræmi við raunstærðir þess, en ekki liggur fyrir að byggingarleyfisumsókn þar að lútandi hafi verið lögð fram.

Að framangreindu virtu felur hin kærða ákvörðun um stöðvun framkvæmda og bókun umhverfis- og skipulagsnefndar, í tilefni af fyrirspurn varðandi umdeilt hesthús, ekki í sér lokaákvörðun um efni máls og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________           _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

143/2007 Helluhraun

Með

Ár 2009, föstudaginn 20. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 143/2007, kæra eiganda hússins að Helluhrauni 16, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 23. ágúst 2007 um leyfi til sölu gistingar að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. október 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir J, f.h. eiganda hússins að Helluhrauni 16, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi, synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 23. ágúst 2007 um leyfi til sölu gistingar að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og rök:  Með umsókn til sýslumannsins á Húsavík, dags. 25. júlí 2006, óskaði kærandi máls þessa eftir leyfi til sölu gistingar á einkaheimilum að Helluhrauni 15 og 16 í Reykjahlíð.  Með leiðréttu bréfi embættis sýslumanns, dags. 20. september 2006, var óskað umsagnar sveitarstjórnar um umsóknina.  Á fundi sveitarstjórnar 12. október 2006 var samþykkt beiðni kæranda er laut að Helluhrauni 15 en varðandi Helluhraun 16 var samþykkt að fela sveitarstjóra að láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Bárust þrjár athugasemdir fyrir tilskilinn tíma og ein degi síðar.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 23. ágúst 2007 var eftirfarandi samþykkt:  „Sveitarstjórn getur tekið undir með íbúum Helluhrauns að aukinn gistirekstur í götunni þýði aukna umferð og ónæði.  Þá tekur sveitarstjórn undir með íbúum götunnar að gistirekstur að Helluhrauni 16 getur að óbreyttu teppt aðgengi að Heilsugæslustöðinni.  Sveitarstjórn hafnaði með þremur atkvæðum gegn tveimur að verða við óskum Eldár ehf. um leyfi til reksturs gistingar að Helluhrauni 16.“  Með bréfi, dags. 27. september 2007, var framangreind bókun tilkynnt embætti sýslumanns. 

Hefur kærandi kært framangreinda samþykkt svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að bókun meirihluta sveitarstjórnar sé ekki studd haldbærum rökum ásamt því að vera að öllum líkindum brot á jafnræðisreglu. 

Af hálfu sveitarfélagsins er tekið undir athugasemdir þær er bárust við kynningu á erindi sýslumanns. 

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að kærandi lagði fram umsókn hjá sýslumannsembættinu á Húsavík, m.a. um leyfi til sölu gistingar í þremur herbergjum í húsinu að Helluhrauni 16 í Reykjahlíð, og óskaði embættið eftir umsögn sveitarstjórnar.  Kaus sveitarstjórn að grenndarkynna erindið með vísan til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, án þess þó að beiðni um byggingarleyfi eða skipulagsbreytingu lægi fyrir sveitarstjórn.  Var afgreiðsla sveitarstjórnar á umsagnarbeiðni sýslumanns aðeins liður í málsmeðferð á fyrrgreindri umsókn um leyfi til sölu gistingar.  Hin kærða afstaða sveitarstjórnar var því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður hún af þeim sökum ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar.  Máli þessu er því vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                         Aðalheiður Jóhannsdóttir

81/2007 Lyngborgir

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.   

Fyrir var tekið mál nr. 81/2007, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.     

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir B, Heiðarbæ 6 í Reykjavík, eigandi lóðar og húss nr. 48 í Oddsholti í landi Minni-Borgar í Grímsnesi, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 26. október 2006 um deiliskipulag frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.     

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 var  samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007.  Engar athugasemdir bárust. 

Auglýsing um gildistöku hins kærða deiliskipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júlí 2007. 

Framangreindri samþykkt sveitarstjórnar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er bent á að samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi liggi aðalvegur um svæðið um fjóra metra frá mörkum lóðar kæranda og um 20 m frá húsi hans.  Um sé að ræða malarveg með tilheyrandi ryki og grjótkasti.  Í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 sé talað um 50-100 m fjarlægð vegar frá byggð.  Mikil hætta sé samfara því að hafa veginn svo nærri. 

Hið kærða deiliskipulag hafi í engu verið kynnt kæranda, sem sé afar slæmt, en í 17 ár hafi hann verið íbúi í Oddsholti. 

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps:  Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar Lyngborgar í landi Minni-Borgar hafi verið auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 og hafi engar athugasemdir borist.  Í auglýsingunni hafi m.a. komið fram að hver sá sem ekki myndi gera athugasemd við tillöguna innan tilskilins frests teldist hafa samþykkt hana.   

Niðurstaða:  Í máli þessu liggur fyrir að samþykkt var á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu 19. október 2006 að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Minni-Borgar í Grímsnesi.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 26. sama mánaðar.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 14. desember 2006 til 25. janúar 2007 án þess að athugasemdir bærust.  Var tekið fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests, teldist vera samþykkur henni.

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Því er haldið fram af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki komið á framfæri við sveitarstjórn  athugasemdum sínum þegar tillaga að hinu kærða deiliskipulagi var auglýst. 

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en kærandi máls þessa hafi fyrst með kæru til úrskurðarnefndarinnar komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum vegna auglýsingar á tillögu að deiliskipulagi teljist vera samþykkir henni.  Úrskurðarnefndin er bundin af þessum lagaákvæðum og verða þau því lögð til grundvallar í málinu.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, hafi síðar getað haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar, án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Verður kærandi því ekki talinn eiga kæruaðild í málinu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.  
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________               _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson 

 

 

 

 

 

80/2007 Laugavegur

Með

Ár 2008, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 80/2007, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2006 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3 er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. ágúst 2007, er barst nefndinni hinn 7. sama mánaðar, kærir H, til heimilis að Laugavegi 5 í Reykjavík, samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkur frá 20. desember 2007 um breytt deiliskipulag staðgreinireits 1.171.3, þ.e. svæðis er tekur til hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík.  Fundargerð skipulagsráðs var lögð fram til kynningar á fundi borgarráðs hinn 21. desember 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á árinu 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3.  Var þar heimilað að fjarlægja húsin á lóðunum nr. 4 og 6 við Laugaveg og reisa í þeirra stað þriggja hæða hús með risi og kjallara.  Á syðri hluta lóðarinnar að Laugavegi 6 var þó aðeins heimilað að byggja einnar hæðar hús með kjallara.  Hinn 31. ágúst 2006 tók gildi breyting á deiliskipulagi umrædds reits.  Fól hún í sér sameiningu lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A í eina lóð og að reisa mætti fjögurra hæða byggingu við Laugaveg en byggingarmagn við Skólavörðustíg yrði óbreytt. 

Á fundi skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var lögð fram tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðanna að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A.  Í tillögunni fólst m.a. að húsin að Laugavegi  4 og 6 og Skólavörðustíg 1A yrðu tengd saman og þar byggt hótel með móttöku á fyrstu hæð sem tengd yrði veitingastað.  Þá var gert ráð fyrir að hæð hússins við Laugaveg yrði óbreytt, eða 12,5 metrar, hæð þakskeggs þess fylgdi þakskeggshæð hússins að Laugavegi 8 og að heimiluð yrði stækkun hússins um 171 fermetra.  Samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu.  Var tillagan kynnt nágrönnum og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda.  Skipulagsráð samþykkti síðan skipulagstillöguna hinn 20. desember 2006 á grundvelli 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð og með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa.  Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. júlí 2007.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið ábótavant, m.a. hafi kæranda ekki verið kynnt tillagan, öll gögn hafi ekki legið frammi og skort hafi upplýsingar um skuggavarp.  Fjölgun veitingastaða á svæðinu fari í bága við þróunaráætlun miðborgar og muni hin fyrirhugaða bygging hafa veruleg áhrif á eign kæranda, m.a. vegna þess hve há hún komi til með að vera.   

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að hámarksnýtingarhlutfall umræddrar lóðar hækki úr 3,96 í 4,20 en hæð húss og skuggavarp taki ekki breytingum frá gildandi deiliskipulagi reitsins.  Unnin hafi verið ítarleg greinargerð um skuggavarp sem sýni með ótvíræðum hætti að frekar sé dregið úr skuggavarpi en gera hafi mátti ráð fyrir samkvæmt elda skipulagi.  Grenndarkynning hafi ekki náð til kæranda þar sem umdeild breyting hafi ekki verið talin hafa grenndaráhrif á fasteignir handan götunnar.  Kærandi hafi engu að síður komið að athugasemdum sínum á kynningartíma tillögunnar og þeim verið svarað af skipulagsyfirvöldum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að eftir að hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi hefur skipulagi umrædds reits verið breytt.  Hinn 2. október 2008 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.3 vegna lóðanna við Laugaveg 4 og 6, þar sem m.a. er gert ráð fyrir verndun þeirra húsa er nú standa á þeim lóðum.  Var auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. nóvember 2008.

Samkvæmt framangreindu hefur deiliskipulagi svæðis þess er hin kærða ákvörðun tekur til verið breytt í svo veigamiklum atriðum að ekki verður séð að kærandi eigi lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hennar, en slíkir hagsmunir eru skilyrði kæruaðildar samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

___________________________ 
Hjalti Steinþórsson

 

 

____________________________       ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

47/2008 Bárustígur

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 47/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. júlí 2008, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Oddgeir Einarsson hdl., f.h. B, Bárustíg 7, Vestmannaeyjum, samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 28. september 2005 um að banna bifreiðastöður við Bárustíg 7, Vestmannaeyjum.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja hinn 28. september 2005 var lögð fram svohljóðandi tillaga svonefnds umferðarhóps:  „1.  Bárustígur verði gerður að vistgötu frá Vestmannabraut að Vesturvegi (í framhaldi af Hilmisgötu) þannig að ákvæðum í gr. 1.14 í deiliskipulagi miðbæjarins verði framfylgt.  2.  Bannað verði að leggja bílum við gangstéttar frá Bárustíg 9 að Strandvegi.“  Var tillagan samþykkt og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs falið að hafa samráð við viðeigandi aðila varðandi framgang málsins.  Lýtur ógildingarkrafa kæranda að 2. tl. bókunarinnar. 

Kærandi kveðst hafa verið eigandi hússins að Bárustíg 7 frá árinu 1991 og rekið þar bakarí um árabil.  Bílastæði framan við húsið séu verslunarrekstrinum mikilvæg og hafi þau verið forsenda fyrir kaupum á fasteigninni á sínum tíma.  Umdeild ákvörðun um bann við bifreiðastöðum hafi komið til framkvæmda í júlí 2006 og hafi komið kæranda í opna skjöldu enda hafi honum ekki verið tilkynnt um ákvörðunina.  Af hálfu kæranda hafi ítrekað verið gerðar athugasemdir við bifreiðastöðubannið, farið fram á endurskoðun ákvörðunarinnar og kallað eftir rökstuðningi að baki banninu en án árangurs.  Hafi kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar því ekki byrjað að líða. 

Ógildingarkrafa kæranda sé byggð á því að umrædd ákvörðun sé ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi enda eigi ákvarðanir um stöðvun og lagningu ökutækja undir lögreglustjóra skv. a lið 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Verði talið að ákvörðunin hafi verið tekin af þar til bæru stjórnvaldi sé um deiliskipulagsákvörðun að ræða sem fari eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. um auglýsingu, kynningu og yfirferð Skipulagsstofnunar á deiliskipulagstillögu.  Við hina kærðu ákvörðun hafi þessara lagaákvæða ekki verið gætt og málsmeðferðin því brotið gegn reglum stjórnsýslulaga um rannsókn máls, andmælarétt, tilkynningaskyldu stjórnvalds og rökstuðning fyrir ákvörðun.  Um sé að ræða ákvörðun sem sé verulega íþyngjandi gangvart kæranda og snerti atvinnuhagsmuni hans. 

Af hálfu Vestmannaeyjabæjar er byggt á því að hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga eða stjórnsýslulaga sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Hvort heimilt sé eða ekki að stöðva eða leggja ökutækjum við gangstéttar sé háð ákvörðun viðkomandi lögreglustjóra en sveitarstjórn eigi aðeins tillögurétt í því efni, sbr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.  Umdeild tillaga sveitarstjórnar Vestmannaeyja hafi verið send lögreglustjóra sem hafi í kjölfar þess tekið ákvörðun um að banna að leggja bifreiðum við Bárustíg.  Hafi sú ákvörðun komið fram í auglýsingu sýslumanns um umferð í Vestmannaeyjum sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006. 

Fyrirliggjandi bréf kæranda frá árinu 2006 beri það með sér að honum hafi þá þegar verið ljóst efni umræddrar samþykktar eða bókunar umhverfis- og skipulagsráðs.  Ekki sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning fresti því að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar byrji að líða en í 21. gr. stjórnsýslulaga sé kveðið á um að beiðni um rökstuðning skuli koma fram í síðasta lagi 14 dögum eftir að ákvörðun hafi verið birt viðkomandi.  Engin formleg beiðni um rökstuðning hafi borist frá kæranda þrátt fyrir vitneskju hans um málið á árinu 2006 og verði að telja kærufrest í málinu löngu liðinn. 

Niðurstaða:  Hin kærða bókun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 25. september 2005 fól í sér samþykkt á tillögu til lögreglustjóra um umferðarmál við Bárustíg sem unnin var af starfshópi um umferðarmál á vegum sveitarfélagsins.  Hið umdeilda bann við stöðu bifreiða við Bárustíg sem þar var lagt til var síðan ákveðið af lögreglustjóra.  Var sú ákvörðun birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. apríl 2006 í auglýsingu nr. 337/2006 um umferð í Vestmannaeyjum. 

Samkvæmt 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 fer lögreglustjóri með ákvörðunarvald um þau málefni sem hér um ræðir að fengnum tillögum viðkomandi sveitarstjórnar.  Ákvarðanir lögreglustjóra um umferðarmál samkvæmt téðu ákvæði eru ekki teknar á grundvelli skipulags- og byggingarlaga.  Verða þær því ekki bornar undir úrskurðarnefndina, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, enda hefur nefndinni ekki verið falið úrskurðarvald um þær ákvarðanir í öðrum lögum. 

Hin kærða samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs var lögboðinn undanfari ákvörðunar lögreglustjóra en fól ekki í sér lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður sú samþykkt af þeim sökum ekki kærð ein og sér til úrskurðarnefndarinnar.  Þegar af þeirri ástæðu verður máli þessu vísað frá nefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________    _______________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

136/2007 Leynir

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 136/2007, kæra á ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. október 2007, er barst nefndinni næsta dag, kæra S og M, eigendur lóðar nr. 189497 í landi Leynis í Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu frá 31. janúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir byggingu sumarhúss á lóð nr. 196827 í landi Leynis í Bláskógabyggð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 7. febrúar 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 31. janúar 2006 samþykkti byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu að veita leyfi fyrir byggingu 99,2 m² sumarhúss að Köldukinn 2 í landi Leynis í Bláskógabyggð,  en sú lóð liggur að lóð kærenda.  Mun sumarhús samkvæmt hinu umdeilda leyfi hafa vera risið um mitt ár 2007.       

Byggja kærendur kröfu sína á því að umrætt hús samræmist ekki gildandi deiliskipulagi svæðisins og fari í bága við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Hafi byggingarleyfi fyrir húsinu verið veitt án þeirra vitundar.  Enn sem komið sé dvelji kærendur afar lítið á lóð sinni enda séu þeir aðeins búnir að byggja lítið afdrep til að geta haft aðstöðu þegar að því komi að byggja þar hús.  Þar af leiðandi hafi þeir ekki vitað af byggingunni fyrr en nýlega enda hafi engin grenndarkynning farið fram áður en húsið hafi verið reist.  Telji þeir að hæð og staðsetning hússins skaði hagsmuni þeirra þar sem útsýni af efri hæð þess sé yfir alla lóð kærenda.  Leiði þetta til þess að lóð þeirra falli í verði. 

Af hálfu Bláskógabyggðar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni enda sé hún of seint fram komin auk þess sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar 7. febrúar 2006. 

Ljóst sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að kærendum hafi verið kunnugt um veitingu leyfisins og hina kærðu ákvörðun eigi síðar en þann 25. júlí 2007, en þá hafi annar kærenda sent fyrirspurn til byggingarfulltrúa í tölvupósti og vísað til þess að hús væri risið á lóðinni.  Jafnframt hafi sama kæranda borist bréf frá Skipulagsstofnun þann 8. ágúst 2007 þar sem leiðbeint hafi verið um kæruheimild og kærufrest.  Kæra hafi verið móttekin hjá úrskurðarnefndinni 11. október 2007 og hafi því kærufrestur verið liðinn þegar kærendur hafi skotið málinu til nefndarinnar.  Vitneskja kærenda um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi hafi raunar verið til staðar mun fyrr en greindar dagsetningar í skjölum málsins gefi til kynna.  Hefðu kærendur þá þegar átt að skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar. 

Sveitarfélagið byggi einnig á því að kærendur eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Staðsetning sumarhúsa á skipulögðum lóðum sæti ekki grenndarkynningu.  Umrætt sumarhús sé staðsett innan byggingarreits og standi vel gagnvart lóð kærenda.  Stallur sé í landinu á milli lóða og hafi fjölmörg tré verið gróðursett þar og muni því ekki sjást mikið á milli lóða eftir nokkur ár.  Þá geti fallegt sumarhús, eins og hér um ræði, ekki haft neikvæð áhrif á verðmat lóðar kærenda. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 31. janúar 2006 og staðfest í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 7. næsta mánaðar. 

Eins og áður greinir eru kærendur eigendur lóðar nr. 189497 sem er við hlið lóðar nr. 196827 þar sem hið umdeilda hús var reist.  Að virtum gögnum máls þessa liggur fyrir að gerð var athugasemd af hálfu kærenda við umrætt hús í júlí 2007, samanber áðurgreindan tölvupóst annars þeirra til byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu hinn 25. júlí 2007, en þar kemur m.a. fram að umrætt hús sé risið og sé sjö metra hátt. 

Þá var með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 8. ágúst s.á., upplýst um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar, en bréfið var ritað í tilefni af kröfu kærenda um að umrætt sumarhús yrði lækkað til samræmis við samþykktir gildandi deiliskipulags. 

Með vísan til framangreinds verður við það að miða að kærendum hafi verið kunnugt um byggingu umdeilds sumarhúss í lok júlí 2007 og um kæruheimild og kærufrest eigi síðar en er þeim barst svarbréf Skipulagsstofnunar 8. ágúst s.á.  Hefði þeim því borið að skjóta ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2007 eða um mánuði eftir að kærufrestur var liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

138/2007 Hlíðarendi

Með

Ár 2008, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2007, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 20. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi á lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. október 2007, er bárust nefndinni 17. sama mánaðar, kæra A, Álftamýri 28, Reykjavík og K, Háaleitisbraut 139, Reykjavík, samþykkt borgarráðs frá 20. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi á lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda er fól m.a. í sér heimild til aukins byggingarmagns og breyttrar aðkomu að skipulagssvæðinu.

Skilja verður málsskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu skipulagsákvörðun.  Að baki kærunum búa svipuð sjónarmið og þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð.  Verður því fjallað um kærurnar í einu máli, sem er nr. 138/2007.
 
Málsatvik og rök:  Hinn 26. apríl 2007 samþykkti borgarráð Reykjavíkur að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda.  Gerði tillagan ráð fyrir að skipulagssvæðið yrði m.a. stækkað til vesturs um tæpan hektara og byggingarmagn aukið um 35.000 m².  Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum máls þessa.  Borgarráð samþykkti tillöguna hinn 20. september 2007 og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. febrúar 2008.

Kærendur skírskota m.a. til þess að umrætt skipulag hafi veruleg áhrif á stækkunarmöguleika Reykjavíkurflugvallar og að lokun SV-NA brautar vallarins sé mjög óskynsamleg, en í sterkum suðvestan útsynningi sé þetta eina nothæfa brautin á vellinum.  Jafnframt muni mikil þétting byggðar valda aukinni mengun, fleiri umferðarhnútum og fjölga slysum.  Mótmælt sé að skipulags- og byggingarsvið hafi aðeins vísað til þess að athugasemdir hafi borist frá tveimur aðilum en ekki níu eins og verið hafi.  Þá hafi ekki verið tekið nógu mikið tillit til framlagðra athugasemda og leiðbeiningum skipulagsyfirvalda hafi verið áfátt.

Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um að staðfest verði fyrrgreind breyting á deiliskipulagi.  Meðferð málsins hafi verið lögum samkvæmt og hvorki hafi verið brotinn andmælaréttur né leiðbeiningum verið áfátt.  Því sé vísað á bug að veittar hafi verið villandi upplýsingar um fjölda þeirra sem gert hafi athugasemdir við breytt deiliskipulag.  Hið rétta sé að níu aðilar hafi gert athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur en tveir við fyrrgreinda tillögu að deiliskipulagi.

Niðurstaða:  Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.   Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags.   Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttað í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.

Kærendur máls þessa eru tveir einstaklingar, búsettir í talsverðri fjarlægð frá svæði því sem hin kærða ákvörðun varðar.  Hafa þeir í kærum sínum vísað til sjónarmiða er fremur lúta að almannahagsmunum en einkahagsmunum og hefur hvorugur þeirra sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti.  Verða þeir því ekki taldir eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Aðalheiður Jóhannsdóttir     

 

75/2007 Krókeyrarnöf

Með

Ár 2008, þriðjudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 75/2007, kæra á synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 2. maí 2007 á erindi varðandi leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með STO Fibercement útveggjum á lóðinni nr. 18 við Krókeyrarnöf, Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. júlí 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir V, lóðarhafi lóðar nr. 18 við Krókeyrarnöf, Akureyri, synjun skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 2. maí 2007 á erindi kæranda um leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með STO Fibercement útveggjum á lóðinni nr. 18 við Krókeyrarnöf.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. 

Málavextir:  Í júní 2006 fékk kærandi úthlutað byggingarlóð að Krókeyrarnöf 18 í Naustahverfi.  Með bréfi, dags. 26. febrúar 2007, óskaði kærandi eftir leyfi til að byggja kanadískt timbureiningahús með Novabrik hleðslusteinsklæðingu.  Var erindinu hafnað á fundi skipulagsnefndar hinn 28. febrúar 2007 þar sem nefndin vildi halda sig við þá meginstefnu sem gefin væri í gildandi deiliskipulagi svæðisins. 

Kærandi lagði fram nýtt erindi, dags. 13. mars 2007, sem tekið var fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 2. maí 2007, og fór á ný fram á heimild til að fá að byggja kanadískt timbureiningahús en nú með STO Fibercement útveggjum.  Meðfylgjandi var umsögn frá Kanon arkitektum.  Skipulagsnefnd hafnaði umsókninni með eftirfarandi bókun:  „Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem það samræmist ekki skipulags- og byggingarskilmálum hvað varðar byggingarefni en þar segir í sameiginlegum ákvæðum að byggingar skulu vera steinsteyptar.“  Var kæranda kynnt afgreiðsla málsins með bréfi, dags. 3. maí 2007, og bent á að heimilt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála innan 3ja mánaða frá birtingu hennar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að ákvæði það er skipulagsnefnd vísi til sé óljóst og bendir á að húsbyggjendur megi t.d. byggja úr blönduðum byggingarefnum, s.s. steinsteypta veggi klædda með timbri eða öðrum efnum að utan sem innan.  Brjóti skipulagsnefnd Akureyrarbæjar stjórnsýslulög með því að leyfa blönduð byggingarefni en hafna samt burðarvirki úr timbri með ytra byrði steinsteyptrar kápu.  Útlit hússins brjóti samkvæmt umsögn frá Kanon arkitektum ekki gegn ákvæðum í deiliskipulagi umrædds svæðis, enda klætt með steinsteyptri kápu.  Hafi kærandi orðið fyrir stórfelldu og ófyrirséðu fjárhagstjóni vegna óeðlilegrar túlkunar nefndarinnar á ákvæðum skipulagsins og áskilji sér rétt til að sækja bætur vegna þess. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í sameiginlegum ákvæðum um hönnun mannvirkja á bls. 2 í greinargerð deiliskipulags svæðisins segi að byggingarnefndarteikningar skuli vera í samræmi við byggingarreglugerð og skilmála.  Þá segi að allar húsagerðir skuli vera samræmdar í efni.  Samkvæmt sérákvæðum skuli byggingar vera steinsteyptar, þó leyfilegt sé að nota önnur efni í útveggjaklæðningu að hluta, með steinsteyptum flötum.  Hafi umsóknir kæranda því ekki uppfyllt þær kröfur sem settar séu í skipulagsskilmálum. 

Því sé hafnað að ákvæði skilmálanna séu óljós.  Þar sem segi að „…leyfilegt sé að nota önnur efni í útveggjaklæðningu að hluta, með steinsteyptum flötum“, sé átt við þá byggingarhefð sem nú tíðkist að hafa hluta af steinsteyptum veggjum viðarklædda.  

Telji Akureyrarbær að umdeild ákvörðun, sem rót eigi að rekja til skýrra markmiða og sérákvæða um byggingarefni í greinargerð skipulagsins, lögmæta með vísan til 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur í málinu að erindi kæranda, sem hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar laut að, var sett fram í tölvubréfi frá 13. mars 2007.  Var erindinu beint til skipulagsnefndar og fól í sér ósk um að nota STO Fibercement sem byggingarefni á útveggi áformaðs húss að Krókeyrarnöf 18.  Í erindinu var sérstaklega tekið fram að ekki væri óskað breytinga á byggingarskilmálum.  Engar byggingarnefndarteikningar fylgdu erindinu og hafnaði skipulagsnefnd því, eins og að framan er rakið, með þeim rökum að umbeðin útfærsla samræmdist ekki gildandi skipulagi. 

Kærandi sendi skipulagsnefnd síðan erindi hinn 8. maí 2007 með útlitsteikningum þar sem m.a. útveggjum, þaki og gluggum hafði verið breytt.  Lýsti kærandi þar þeirri skoðun sinni að fyrirhugað timburhús með áðurgreindri klæðingu samræmdist gildandi skilmálum og óskaði eftir staðfestingu skipulagsnefndar á þeirri skoðun sinni.  Mun skipulagsnefnd ekki hafa fallist á þá málaleitan.  Þá hefur verið upplýst í málinu að kærandi hafi hinn 10. október 2007 sótt um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu einbýlishúsi á umræddri lóð og var umsóknin samþykkt hinn 1. nóvember 2007.  Mun húsið nú vera risið. 

Umrætt erindi kæranda frá 13. mars 2007 fól ekki í sér byggingarleyfisumsókn og samkvæmt orðalagi erindisins sjálfs var þar ekki farið fram á breytingu á skilmálum gildandi skipulags.  Verður því að skýra erindið svo að þar hafi kærandi leitað álits skipulagsnefndar um hvort áformað timburhús með steypuklæðningu félli að skilmálum gildandi deiliskipulags umrædds svæðis.  Með hinni kærðu afgreiðslu hafnaði skipulagsnefnd því að svo væri. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar nema á annan veg sé mælt í lögum.  Afgreiðsla fyrirspurna eða álitsumleitana fela eðli máls samkvæmt aðeins í sér skoðun eða álit viðkomandi stjórnvalds en teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir þar sem ákvörðun er tekin um réttindi og/eða skyldur aðila í skjóli stjórnsýsluvalds. 

Af framangreindum ástæðum verður hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrar ekki borin undir úrskurðarnefndina og er máli þessu af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                    ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                      Þorsteinn Þorsteinsson

 

22/2007 Garðavegur

Með

Ár 2008, mánudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 22/2007, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 26. júlí 2006 um synjun á beiðni um leyfi til ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. mars 2007, er barst  nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir Guðmundur Siemsen hdl., f.h. Olíudreifingar ehf., þá samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyjabæjar frá 26. júlí 2006 að synja beiðni um leyfi til að ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.   

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:    Í bréfi kæranda, dags. 20. júlí 2006, til byggingarfulltrúa sagði m.a. eftirfarandi:  „Olíudreifing ehf. og áður Olíufélagið hf. hefur haft svartolíugeymi á lóð sinni við Garðaveg til fjölda ára.  Geymir þessi hefur verið undir svartolíu fyrir verksmiðju Vinnslustöðvarinnar og aðra svartolíuafgreiðslu félaganna í Vestmannaeyjum.  Til að uppfylla reglugerð um mengunarvarnir þarf að ganga frá lekavaraþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við ofangreindan geymi.  Meðfylgjandi er teikning … þar sem fram kemur fyrirkomulag og búnaður sem fyrirhugað er koma upp við geyminn til að uppfylla mengunarvarnarreglur … Hér með er óskað eftir samþykki viðkomandi nefnda bæjarins fyrir framkvæmd þessari.“

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 26. júlí 2006 var erindi kæranda hafnað með eftirfarandi bókun: 

„Framkvæmdaleyfi
Garðavegur 13
 Árni Ingimundarson f.h. Olíudreifingar ehf. sækir um leyfi fyrir eftirfarandi framkvæmdum á lóð Olíudreifingar Garðavegi 13 skv. meðfylgjandi teikningum.
• Lekavarnarþró
• Áfyllingaraðstöðu
• Fráveitu við svartolíugeymi.
Afgr. ráðs
Ráðið hafnar umsókn og bendir á að samkvæmt ákvæðum í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014 er framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-6 (Eiði).  Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“

Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 27. júlí 2006, var tilkynnt um fyrrgreinda bókun.  Þar sagði ennfremur:  „Afgreiðsla þessi er háð samþykki bæjarstjórnar, og verður tilkynnt yður tafarlaust ef hún breytist.“ 

Með bréfi til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst 2006, mótmælti kærandi ofangreindri afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.  Sama dag var afgreiðsla ráðsins samþykkt á fundi bæjarstjórnar. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2006, krafðist kærandi þess að úrskurðað yrði um það hvort framkvæmdir á lóð nr. 13 við Garðaveg í Vestmannaeyjum væru háðar framkvæmdaleyfi en hann taldi svo ekki vera.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 20. september 2006 var bréf kæranda til bæjarstjórnar, dags. 24. ágúst s.á., lagt fram.  Var eftirfarandi m.a. fært til bókar:  „Ráðið vísar til bókunar dags. 06.07.2006 (sic) sem tekin var með vísan í Aðalskipulag Vestmannaeyja 2002-2014.“

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2007 gerði Vestmannaeyjabær grein fyrir sjónarmiðum sínum til kærunnar.  Þar kom fram að afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs frá 26. júlí 2006 hafi verið staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 24. ágúst 2006.

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Af hálfu lögmanns kæranda er vísað til þess að hinn 27. júlí 2006 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi sent kæranda tilkynningu um afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs þar sem greint hafi verið frá því að ráðið hafi hafnað umsókn kæranda.  Í bréfinu hafi verið vísað til þess að samkvæmt ákvæðum Aðalskipulags Vestmannaeyja 2002-2014 væri framtíðaruppbygging olíubirgðastöðva á svæði IS-5 (Eiði).  Þá hafi verið einnig vísað til ákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Hafi kærandi talið að umhverfis- og skipulagsráð hafi meðhöndlað umsókn hans sem umsókn um framkvæmdaleyfi skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Af greinargerð Vestmannaeyjabæjar í tilefni af erindi kæranda varðandi úrlausn um framkvæmdarleyfi í hinu fyrra kærumáli megi ráða að bæjarstjórn hafi synjað um útgáfu byggingarleyfis, skv. 43. gr. laganna, með vísan til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda samræmdust ekki gildandi aðalskipulagi. 

Þrátt fyrir að bæjarstjórn hafi tekið stjórnvaldsákvörðun er snerti umtalsverða hagsmuni kæranda hafi ákvörðun bæjarins ekki verið birt honum í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafi kæranda ekki enn verið birt ákvörðun bæjarstjórnar og hafi honum fyrst orðið kunnug um hana við lestur greinargerðarinnar.

Hin ámælisverða vanræksla bæjaryfirvalda um að gæta að meginreglu stjórnsýsluréttarins um birtingu stjórnvaldsákvarðana leiði til þess að kæranda hafi hvorki verið veitt færi á að fá ákvörðunina rökstudda né hafi honum verið leiðbeint um kæruheimild og kærufresti.

Af vanrækslu bæjaryfirvalda á birtingu ákvörðunarinnar og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga leiði jafnframt, að upphaf kærufrests samkvæmt 2. mgr. 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, beri að miða við 6. mars 2007, þegar greinargerð bæjarins hafi borist frá úrskurðarnefndinni, enda hafi kæranda þá fyrst verið ákvörðunin kunnug. 

Þá sé einnig vísað til þess að tilkynning byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 21. september 2006, þar sem greint hafi verið frá afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs vegna mótmæla kæranda á afgreiðslu hins kærða erindis hafi ekki falið í sér tilkynningu um ákvörðun bæjarstjórnar.  Auk þess sem hún hafi verið efnislega samhljóða fyrri tilkynningu ráðsins og með sama fyrirvara um að afgreiðslan væri háð samþykki bæjarstjórnar.  Af henni hafi því ekki verið ráðið að bæjarstjórn hefði þegar tekið ákvörðun í málinu. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um, eða mátti vera kunnugt um, ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar. 

Eins og áður greinir óskaði kærandi máls þessa eftir heimild bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum til að ganga frá lekavarnarþró, áfyllingaraðstöðu og fráveitu við svartolíugeymi á lóðinni nr. 13 við Garðaveg.  Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði erindinu á fundi hinn 26. júlí 2006 og var synjunin staðfest á fundi bæjarstjórnar  hinn 24. ágúst s.á.  Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 27. júlí 2006, var tilkynnt um afgreiðslu ráðsins.  Í bréfinu sagði ennfremur:  „Afgreiðsla þessi er háð samþykki bæjarstjórnar, og verður yður tilkynnt tafarlaust ef hún breytist.“  Afgreiðslu þessari mótmælti kærandi við bæjarstjórn.  Voru mótmælin tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs þar sem fyrri afgreiðsla ráðsins var ítrekuð og hún tilkynnt kæranda með sama fyrirvara og hin fyrri, þ.e. að hún væri háð samþykki bæjarstjórnar og um það yrði tilkynnt tafarlaust ef hún yrði ekki samþykkt. 

Í ljósi framanritaðs verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun löngu áður en kæra barst úrskurðarnefndinni.  Er ekkert í gögnum málsins sem gaf kæranda tilefni til að ætla annað en að bæjarstjórn hefði staðfest afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs, enda sérstaklega tilgreint að honum yrði tilkynnt ef svo yrði ekki, samanber áðurnefnt bréf byggingarfulltrúa, dags. 27. júlí 2006. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 14. mars 2007 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, enda þykir atvikum ekki þannig háttað, eins og hér stendur á, að efni séu til að beita undantekningarheimild 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. gr. laganna.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson