Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

138/2007 Hlíðarendi

Ár 2008, fimmtudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2007, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 20. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi á lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. október 2007, er bárust nefndinni 17. sama mánaðar, kæra A, Álftamýri 28, Reykjavík og K, Háaleitisbraut 139, Reykjavík, samþykkt borgarráðs frá 20. september 2007 um breytingu á deiliskipulagi á lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda er fól m.a. í sér heimild til aukins byggingarmagns og breyttrar aðkomu að skipulagssvæðinu.

Skilja verður málsskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu skipulagsákvörðun.  Að baki kærunum búa svipuð sjónarmið og þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi að kærumálin verði sameinuð.  Verður því fjallað um kærurnar í einu máli, sem er nr. 138/2007.
 
Málsatvik og rök:  Hinn 26. apríl 2007 samþykkti borgarráð Reykjavíkur að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda.  Gerði tillagan ráð fyrir að skipulagssvæðið yrði m.a. stækkað til vesturs um tæpan hektara og byggingarmagn aukið um 35.000 m².  Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum máls þessa.  Borgarráð samþykkti tillöguna hinn 20. september 2007 og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. febrúar 2008.

Kærendur skírskota m.a. til þess að umrætt skipulag hafi veruleg áhrif á stækkunarmöguleika Reykjavíkurflugvallar og að lokun SV-NA brautar vallarins sé mjög óskynsamleg, en í sterkum suðvestan útsynningi sé þetta eina nothæfa brautin á vellinum.  Jafnframt muni mikil þétting byggðar valda aukinni mengun, fleiri umferðarhnútum og fjölga slysum.  Mótmælt sé að skipulags- og byggingarsvið hafi aðeins vísað til þess að athugasemdir hafi borist frá tveimur aðilum en ekki níu eins og verið hafi.  Þá hafi ekki verið tekið nógu mikið tillit til framlagðra athugasemda og leiðbeiningum skipulagsyfirvalda hafi verið áfátt.

Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um að staðfest verði fyrrgreind breyting á deiliskipulagi.  Meðferð málsins hafi verið lögum samkvæmt og hvorki hafi verið brotinn andmælaréttur né leiðbeiningum verið áfátt.  Því sé vísað á bug að veittar hafi verið villandi upplýsingar um fjölda þeirra sem gert hafi athugasemdir við breytt deiliskipulag.  Hið rétta sé að níu aðilar hafi gert athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur en tveir við fyrrgreinda tillögu að deiliskipulagi.

Niðurstaða:  Deiliskipulagstillögur og tillögur um breytingar á deiliskipulagi skulu auglýstar til kynningar og geta þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta komið að ábendingum og athugasemdum við auglýsta tillögu samkvæmt 25. gr. og 1. mgr. 26. gr., sbr. 18. gr., skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.   Geta aðilar í þeim tilvikum eftir atvikum byggt athugasemdir sínar á almennum hagsmunum íbúa svæðis eða sveitarfélags.   Aðild að stjórnsýslukæru hefur hins vegar að stjórnsýslurétti verið talin bundin við þá aðila sem teljast eiga einstaklega og verulega hagsmuni tengda tiltekinni stjórnvaldsákvörðun.  Hefur og verið áréttað í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga að kæruaðild sé háð því að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.

Kærendur máls þessa eru tveir einstaklingar, búsettir í talsverðri fjarlægð frá svæði því sem hin kærða ákvörðun varðar.  Hafa þeir í kærum sínum vísað til sjónarmiða er fremur lúta að almannahagsmunum en einkahagsmunum og hefur hvorugur þeirra sýnt fram á að fyrirhugaðar framkvæmdir raski neinum einstaklingsbundnum rétti.  Verða þeir því ekki taldir eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_______________________________         _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Aðalheiður Jóhannsdóttir