Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

10/2010 Stóra Knarrarnes

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2010, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2010, er barst nefndinni 3. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru P, Stóra Knarrarnesi, Vogum, dags. 10. febrúar 2010, þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir bæjarstjórn að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu. 

Málsatvik og rök:  Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Voga hinn 12. janúar 2009 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til byggingar einbýlishúss á spildu úr landi Stóra Knarrarness II.  Var umsókninni hafnað með þeim rökum að ekki lægi fyrir deiliskipulag að svæðinu og að gera þyrfti deiliskipulag í samræmi við aðalskipulag og lög nr. 73/1997 áður en hægt yrði að veita leyfið.  Með tölvupósti, dags. 16. janúar s.á., fór kærandi m.a. fram á að mál hans yrði tekið upp að nýju og á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 10. febrúar s.á. var fyrri afgreiðsla málsins ítrekuð.  Enn óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 8. mars 2009, að umsókn hans yrði á ný tekin fyrir og að fram færi grenndarkynning vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Umsókn hans var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 17. s.m, og fyrri afgreiðsla nefndarinnar ítrekuð.  Jafnframt var á það bent að ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 um grenndarkynningu, ætti ekki við um umsókn kæranda þar sem ekki væri um að ræða þegar byggt hverfi.

Hinn 21. apríl 2009 var á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar tekin fyrir tillaga kæranda að deiliskipulagi spildu úr landi Stóra Knarrarness II og því beint til landeigenda að óska formlega eftir samstarfi við sveitarfélagið um gerð tillögunnar.  Var og samþykkt að auglýsa tillöguna að teknu tilliti til ákveðinna atriða sem nánar voru tilgreind í bókun.  Í kjölfar þessa fór kærandi fram á með bréfi, dags. 28. apríl 2009, að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst og á fundi bæjarstjórnar hinn 30. s.m. var samþykkt að hefja samstarf við landeiganda um gerð og auglýsingu deiliskipulags að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.á m. að samþykkt yrði tillaga að nýju Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 og að deiliskipulagstillagan yrði auglýst samtímis á grundvelli hennar.  Nokkrum mánuðum síðar, eða hinn 15. október 2009, var málið tekið fyrir á fundi bæjarráðs, en þá lá þar fyrir bréf frá kæranda, dags. 1. s.m., þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu málsins.   Bæjarráð lagði síðan til á fundi sínum hinn 5. nóvember s.á. að tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis yrði auglýst.  Að lokinni auglýsingu samþykkti bæjarstjórn skipulagstillöguna hinn 23. mars 2010.

Kærandi bendir á að hægt hefði verið að gefa út byggingarleyfi á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 í ársbyrjun 2009.  Meðferð málsins hafi tekið 14 mánuði og sjái ekki þar fyrir endann á henni.  Telji kærandi að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, s.s. andmælarétti, upplýsingaskyldu, jafnræðisreglu, rannsóknarreglu, málshraða og leiðbeiningarskyldu.  Hafi seinagangur  við meðferð málsins einnig haft í för með sér verulega aukinn kostnað fyrir kæranda.  Þá sé sveitarfélagið ekki að vinna með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.   

Af hálfu Sveitarfélagsins Voga er vísað til þess að kærandi hafi sótt um leyfi fyrir byggingu íbúðarhúss á svæði sem skilgreint hafi verið sem frístundasvæði í þágildandi aðalskipulagi.  Í ljósi þess hafi verið nauðsynlegt að breyta landnotkun á viðkomandi reit í aðalskipulagi svo hægt væri að gera deiliskipulag að reitnum og veita byggingarleyfi í kjölfarið.  Hafi breyting þess efnis verið gerð í nýju Aðalskipulagi  Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, sem hafi verið í vinnslu hjá sveitarfélaginu þegar erindi kæranda hafi borist.  Hafi tillaga að nýju aðalskipulagi endanlega verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 26. nóvember 2009 og staðfest af umhverfisráðherra 23. febrúar 2010.  Í ljósi þessa sé því hafnað að afgreiðsla byggingarleyfis til handa kæranda hafi dregist úr hófi en alltaf hafi staðið til að veita umsótt leyfi í framhaldi af gildistöku auglýstra skipulagsáætlana.  Vandséð sé að kærandi hafi hagsmuna að gæta í máli þessu eins og atvikum sé háttað og sé því farið fram á að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Er í máli þessu kærður dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á spildu úr landi Stóra Knarrarness II í Vogum.  Þegar umsókn kæranda kom fyrst fram í desember 2008 var í gildi fyrir umrætt svæði Aðalskipulag Vatnsleysustrandarhrepps 1994-2014 og var þar ekki gert ráð fyrir að byggja mætti íbúðarhús á svæðinu, en það var skilgreint sem frístundasvæði.  Hefði af þessum sökum hvorki verið unnt að veita byggingarleyfi á umræddum stað fyrir íbúðarhúsi að undangenginni grenndarkynningu né með heimild Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæða þágildandi skipulags- og byggingarlaga, enda hefði það leyfi farið í bága við gildandi aðalskipulag.

Fyrir liggur að eftir að kæra barst í máli þessu tók gildi nýtt Aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga 2008-2028, eftir staðfestingu ráðherra hinn 23. febrúar 2010.  Var þar m.a. breytt landnotkun fyrir umræddan reit þannig að þar væri unnt að reisa íbúðarhús og á grundvelli þess var samþykkt deiliskipulag íbúðarlóðar í landi Stóra Knarrarness II, sbr. auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 7. maí 2010.  Þá hefur verið upplýst að 16. júní 2010 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á umræddu landi.  Hefur það ekki lengur þýðingu að lögum að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar kæranda um byggingarleyfi sem honum hefur þegar verið veitt og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. Þá var þess einnig vænst að mál þetta yrði afturkallað eftir að umrætt byggingarleyfi hafði verið veitt, en til þess hefur ekki komið.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

26/2012 Láland

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2012, kæra vegna framkvæmda fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Ó, Lálandi 14, Reykjavík, framkvæmdir fyrir framan lóðina nr. 14 við Láland. 

Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að umdeildar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar.  Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málsatvik og rök:  Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. júní 2009 var samþykkt tillaga að nýju deiliskipulagi Fossvogsdals sem tók til legu á göngu- og hjólreiðastígum sem tengja saman Öskjuhlíð og Elliðaárdal.  Í skilmálum deiliskipu¬lagsins segir m.a. að meðfram göngustígnum sé gert ráð fyrir áningarstöðum annars vegar minni, þar sem verði bekkir og hins vegar stærri sem verði hannaðir m.t.t. aðstæðna á hverjum stað.  Staðsetning áningarstaðanna og afmörkun sé til skýringar og því ekki bindandi fyrir endanlega útfærslu.  Á skipulagsuppdrætti er sýndur áningarstaður af stærri gerð fyrir framan lóð kæranda að Lálandi 14.  Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.

Snemma á árinu 2012 virðist hafa verið ráðist í framkvæmdir við frágang áningarstaðar fyrir framan lóð kæranda.  Þar liggja tveir stígar, nokkurn veginn samsíða, og eru um það bil 5-6 metrar á milli þeirra þar sem umræddur áningarstaður er.  Hellulagt svæði er við stíg þann sem er nær lóð kæranda, en nokkur tæki eru á svæðinu milli stíganna, nokkru fjær lóðinni en hellulagða svæðið.

Kærandi vísar til þess að þegar hann hafi grennslast fyrir um umfang framkvæmda í Fossvogi hafi skýringarmynd að mannvirkjum sem staðsett hafi verið við enda fyrirhugaðs hjólreiðastígs ekki gefið til kynna að umfang þeirra yrði í raun það sem síðar hafi komið í ljós.  Á fundi með verkefnastjóra og deildarstjóra hjá Reykjavíkurborg hafi fyrst komið fram skýring á því hversu umfangsmikil framkvæmdin yrði.  Þá hafi framkvæmdum verið harðlega mótmælt með ítarlegum rökstuðningi.  Í kjölfarið hafi verkefnastjóri óskað eftir því að mótmæli og rök yrðu send í tölvupósti til formlegrar meðhöndlunar.  Hinn 23. mars 2012 hafi komið svar frá verkefnastjóra þar sem niðurstaða fundar með skipulagsyfirvöldum hafi verið sú að framkvæmd við áningarstað og hönnun samræmdist deiliskipulagi að öllu leyti. 

Kærandi telji að með framkvæmdunum sé augljóslega verið að rýra verðmæti eignarinnar að Lálandi 14 og valda honum verulegu tjóni.  Því sé kærð uppbygging á líkamsræktaraðstöðu með margvíslegum líkamsræktartækjum fyrir framan lóðina að Lálandi 14 þar sem einungis hafi verið gert ráð fyrir áningarstöð í samþykktu deiliskipulagi.  Einnig sé kært hversu nálægt áningarstöðin sé lóð kæranda, um 3 metrar, og valdi þannig eignartjóni.  Hvergi séu fordæmi fyrir áningarstöð svo nálægt einkalóð í Fossvogi. 

Reykjavíkurborg bendir á að ákveðið hafi verið að koma upp nokkrum æfingatækjum á umræddum áningarstað eins og víðar sé að finna á hliðstæðum áningarstöðum.  Það sé hins vegar ofmælt að um líkamsræktaraðstöðu sé að ræða.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda verði kunnugt eða hafi mátt vera kunnugt um ákvörðun þá sem hann hyggist kæra.  Umrætt deiliskipulag hafi verið auglýst í ágúst 2009 og sé kærufrestur því löngu liðinn nú tæpum þremur árum síðar.  Að auki megi geta þess að ekkert byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir líkamsræktartækjum á umræddri áningarstöð enda, séu þau ekki byggingarleyfisskyld.  Í raun liggi því engin kæranleg ákvörðun fyrir í málinu og sé þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið vísa borgaryfirvöld til deiliskipulags fyrir Fossvogsdal, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2009.  Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er frá birtingu umræddrar auglýsingar og er hann löngu liðinn.  Kemur umrætt skipulag því ekki til endurskoðunar í málinu.
  
Ekki verður annað séð en að umdeildar framkvæmdir séu í samræmi við tilvitnað deiliskipulag.  Það liggur hins vegar fyrir að ekki hefur verið veitt leyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 og halda borgaryfirvöld því fram að ekki sé um leyfisskyldar framkvæmdir að ræða.  Því liggur ekki fyrir kæranleg ákvörðun í málinu og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Engin afstaða er hins vegar tekin í úrskurði þessum til þess hvort um leyfisskylda framkvæmd sé að ræða.  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                    Hildigunnur Haraldsdóttir

3/2012 Draupnisgata

Með

Árið 2012, miðvikudaginn 23. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt. 

Fyrir var tekið mál nr. 3/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi kæranda varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2012, sem barst nefndinni sama dag, kærir Í ehf. afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 9. nóvember 2011 á erindi þess varðandi breytta notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Með bréfi, dags. 27. október 2011, óskaði kærandi, sem rekur þjónustu við meðhöndlun og úrvinnslu úrgangs, eftir áliti skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri.  Mun tilefni erindisins hafa verið umsókn kæranda til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra um starfsleyfi fyrir rekstri hans í fyrrgreindu húsnæði.  Í húsnæðinu mun hafa verið fyrirhugað að umhlaða sorpi og endurvinnsluhráefnum í gáma til flutnings.  Skipulagsnefnd tók erindið fyrir á fundi hinn 9. nóvember 2011 og afgreiddi það með svofelldri bókun:  „Vísað er til 41. gr. 5. tl. A stafliðar með vísun í 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Í greininni kemur fram að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi eru háðar samþykki allra eigenda hússins, ef þær hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum. Skipulagsnefnd telur að breytingar sem þessar á hagnýtingu séreignarinnar séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Skipulagsnefnd hafnar því erindinu þar sem einungis 8 eigendur séreignarhluta af 19 hafa samþykkt breytingu.“ 

Kærandi krafðist rökstuðnings fyrir bókun skipulagsnefndar í bréfi, dags. 24. nóvember 2011, og var því erindi svarað með bréfi bæjarlögmanns, dags. 14. desember s.á.  Skaut kærandi málinu síðan til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Kærandi vísar til þess að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt, en um matskennda og íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða.  Umrætt húsnæði hafi verið nýtt fyrir verktakastarfsemi og bifvélaverkstæði og veki því furðu að krafist sé samþykkis allra meðeigenda fyrir nýtingu séreignarhlutans undir sambærilega verktakastarfsemi.  Fyrir liggi að lyktarmengun verði í lágmarki og eigi staðhæfingar bæjarlögmanns í aðra átt ekki við rök að styðjast. 

Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð krafa um að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Er á það bent að umdeild afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér álit en ekki ákvörðun og hafi snúist um túlkun laga um fjöleignarhús, en úrskurðarnefndin skeri ekki úr um ágreining er varði þau lög.  Hvað efnishlið málsins varði hafi skipulagsnefnd byggt álit sitt á túlkun fjöleignarhúsalaga og að fyrirhuguð hagnýting kæranda á húsnæðinu að Draupnisgötu 7n gæti haft í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur séreignarhluta í húsinu en áður og þyrfti því að liggja fyrir samþykki allra eigenda fjöleignarhússins fyrir hinni breyttu notkun svo bæjaryfirvöldum væri heimilt að samþykkja hana. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrarbæjar á erindi kæranda sem fól í sér beiðni um álit nefndarinnar á fyrirhugaðri breyttri notkun húsnæðis að Draupnisgötu 7n á Akureyri. 

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem hér á við sættu kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og var sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds.  Breytt notkun fasteignar er háð byggingarleyfi sem byggingarfulltrúi tekur ákvörðun um, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Af framangreindum ástæðum felur hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar ekki í sér ákvörðun sem bindur enda á mál og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Hildigunnur Haraldsdóttir 

93/2011 Oddeyrartangi

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 10. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 93/2011, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 28. september 2011 á erindi varðandi rýmkun á starfsleyfi fyrir sorphirðu, sorpflutningi, gámaleigu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 við Oddeyrartanga á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. nóvember 2011, er barst úrskurðarnefndinni 14. s.m., kærir Íslenska gámafélagið ehf., Gufunesi, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsnefndar Akureyrarbæjar frá 28. september 2011 á erindi varðandi rýmkun á starfsleyfi fyrir sorphirðu, sorpflutningi, gámaleigu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 við Oddeyrartanga á Akureyri.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 4. mars 2009 veitti Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra kæranda í máli þessu starfsleyfi til 12 ára fyrir starfsemi á sviði sorphirðu og gámaþjónustu í húsi nr. 6 að Oddeyrartanga.  Það starfsleyfi var endurnýjað til 12 ára hinn 20. október 2010 og tók þá jafnframt til móttöku á flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi.  Með bréfi til heilbrigðiseftirlitsins, dags. 10. ágúst 2011, óskaði kærandi síðan eftir rýmkun á starfsleyfinu með því að heimiluð yrði móttaka og umhleðsla á almennu heimilissorpi til flutnings á förgunarstað.  Af sama tilefni hafði kærandi hinn 5. september s.á. samband með tölvupósti við skipulagsyfirvöld Akureyrarbæjar, þar sem gerð var grein fyrir starfsemi kæranda og fyrirliggjandi umsókn um rýmkun leyfisins.  Lýsti kærandi þar von sinni um að skipulagsyfirvöld sæju enga annmarka á starfsemi fyrirtækisins á svæðinu. 

Hinn 28. september 2011 var gerð svofelld bókun á fundi skipulagsnefndar: 

11.  Oddeyrartangi 149144 – umsókn um breytingu á notkun – 2011090064
Erindi dagsett 10. ágúst 2011 frá Birgi Kristjánssyni f.h. Íslenska Gámafélagsins ehf. þar sem óskað er eftir leyfi til móttöku og umhleðslu á almennu heimilissorpi til flutnings á förgunarstað í húsnæðinu að Oddeyrartanga, húsi nr. 6. 
Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra gaf út starfsleyfi fyrir m.a. móttöku á flokkuðum endurvinnanlegum úrgangi þ. 11. nóvember 2010. 
Fyrir liggur neikvæð umsögn stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands bs. dagsett 12. september 2011 fyrir starfseminni þar sem m.a. er bent á að starfsemin brjóti í bága við skilmála deiliskipulags hafnarsvæðisins.
Í gildandi deiliskipulagi er umrætt svæði skilgreint undir matvælaiðnað (M) þar sem m.a. er gert ráð fyrir sláturhúsi, kjötiðnaðarstöð og stórum fiskvinnslufyrirtækjum.
Skipulagsnefnd hafnar erindinu þar sem starfsemin fellur ekki að gildandi deiliskipulagi svæðisins. Ennfremur er óskað eftir því við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra að útgefið starfsleyfi Íslenska Gámafélagsins ehf., dagsett 11. nóvember 2010 verði fellt úr gildi af sömu ástæðum. 

Var kæranda tilkynnt um bókunina í bréfi, dags. 29. september 2011.  

Með bréfi, dags. 10. október 2011, fór kærandi fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun skipulagsnefndar í fyrrgreindri bókun að óska eftir niðurfellingu starfsleyfis hans og var því erindi svarað með bréfi nefndarinnar, dags. 18. s.m.  Kom þar m.a. fram að umrædd starfsemi færi í bága við gildandi deiliskipulag og ekki hefði verið aflað tilskilins byggingarleyfis hennar vegna.  Hefði umrædd ósk um niðurfellingu starfsleyfis því verið sett fram en bæjaryfirvöldum hefði áður verið ókunnugt um umrædda starfsemi kæranda. 

Kærandi vísar til þess að hann hafi haft leyfi lögum samkvæmt fyrir starfsemi sinni á Oddeyrartanga allt frá árinu 2009 og hljóti bæjaryfirvöldum að hafa verið um hana kunnugt.  Í rökstuðningi skipulagsnefndar fyrir hinni kærðu afgreiðslu sé ekki að finna nein lagarök og með henni hafi nefndin farið langt út fyrir lögbundið hlutverk sitt og heimildir skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Umrædd ósk skipulagsnefndar til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra eigi sér enga stoð í lögum og fari því gegn lögmætisreglu íslenskrar stjórnskipunar og meðalhófsreglu þar sem allt of langt sé gengið með íþyngjandi hætti gegn hagsmunum kæranda. 

Af hálfu skipulagsyfirvalda Akureyrar er á það bent að bæjaryfirvöldum hafi ekki verið kunnugt um starfsemi kæranda fyrr en við umsókn hans um útvíkkun leyfisins haustið 2011.  Við útgáfu upphaflegs starfsleyfis hafi þess ekki verið gætt af leyfisveitanda að starfsemin væri í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Á fundi sínum hinn 28. september 2011 hafi skipulagsnefnd hafnað útvíkkun starfsleyfisins af þeim sökum, en umrætt húsnæði kæranda sé í deiliskipulagi á skilgreindu svæði undir matvælaiðnað.  Af framangreindum ástæðum hafi þeim tilmælum jafnframt verið beint til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra að útgefið starfsleyfi kæranda yrði fellt úr gildi.  Hverjum sem er sé heimilt að hafa uppi tilmæli til stjórnvalda um endurskoðun ákvarðana sem kunni að fara gegn lögum eða öðrum settum fyrirmælum.  Starfsleyfið brjóti gegn gildandi deiliskipulagi og hafi kærandi ekki sótt um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun þeirrar fasteignar sem hýsi umdeilda starfsemi.

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 m.s.br. veita heilbrigðisnefndir, eða eftir atvikum Umhverfisstofnun, starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem lögin taka til.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum heyrir afgreiðsla á umsókn kæranda, sem mál þetta er sprottið af, undir Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra.  Hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar Akureyrar, sem fram kemur í bókun nefndarinnar frá 28. september 2011, getur því ekki falið í sér annað en afstöðu eða álit nefndarinnar varðandi umsókn kæranda um breytt starfsleyfi og tilmæli til leyfisveitanda að lögum um að fella úr gildi þegar útgefið starfsleyfi. 

Samkvæmt 1. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sætir stjórnvaldsákvörðun stjórnsýslu sveitarfélaga samkvæmt nefndum lögum kæru til úrskurðarnefndarinnar enda bindi hún enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í hinni kærðu bókun skipulagsnefndar Akureyrar er, eins og fyrr er rakið, ekki að finna slíka ákvörðun og ber því með vísan til greindra lagaákvæða að vísa máli þessu frá nefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

84/2011 Þingholtsstræti

Með

Ár 2011, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 84/2011, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. mars 2011 um að veita leyfi til að byggja við húsið á lóðinni nr. 2-4 við Þingholtsstræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. nóvember 2011, er barst nefndinni 8. s.m., kærir G, f.h. K og V, eigenda eignarhluta að Þingholtsstræti 6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. mars 2011 að veita leyfi fyrir viðbyggingu við húsið á lóðinni nr. 2-4 við Þingholtsstræti. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg verði gert að fjalla efnislega um málið.  Kærendur hafa jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök:  Hinn 12. október 2010 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík umsókn um leyfi til að rífa bakhús við Skólastræti 1 og reisa þriggja hæða viðbyggingu með kjallara við Þingholtsstræti 2-4.  Kemur fram í umsókninni að í viðbyggingunni verði hótelíbúðir og verði hún reist vestan við Þingholtsstræti 2-4, milli þess húss og Skólastrætis 1.  Var afgreiðslu málsins frestað og var erindið til umfjöllunar á nokkrum fundum skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa á tímabilinu frá 15. október 2010 fram til 15. mars 2011 er það var tekið til endanlegrar ákvörðunar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa.  Var umsóknin samþykkt og m.a. tekið fram í bókun að frágangur á lóðamörkum yrði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 24. mars 2011.  

Kærendur byggja á því að samkvæmt deiliskipulagi megi nýbyggingin að hámarki vera kjallari og þrjár hæðir en af samþykktum teikningum megi ráða að hún verði kjallari og fjórar hæðir.  Af efstu hæð verði útgengt á þak hússins en slíkt fyrirkomulag auðveldi aðgengi af svölum og þaki yfir á svalir á húsi kærenda.  Grenndarkynning hafi ekki farið fram og hafi kærendum, sem hafi ríkra hagsmuna að gæta í málinu, ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið og skila inn athugasemdum.  Þá hafi húsbyggjandi ekki haft samráð við kærendur um framkvæmdina eins og honum hafi borið að gera samkvæmt bókun sveitarfélagsins.  Fyrirætlanir húsbyggjanda um aðgengi og afnot hótelgesta af þaki og þaksvölum hússins sé í fullkominni andstöðu við afstöðu kærenda til málsins og þvert á hagsmuni þeirra.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kærenda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra sé allt of seint fram komin.  Kærufrestur skv. 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út 6. júlí 2011 og 29. júlí hafi framkvæmdir verið hafnar á lóðinni enda hafi úttekt á botnplötu farið fram þann dag.  Hafi fjölmargar úttektir verið gerðar á byggingunni síðan. Telja verði að kærendum hafi fyrir löngu mátt vera kunnugt um framkvæmdirnar.  Takmarkað byggingarleyfi vegna jarðvinnu og undirbúningsaðstöðu á lóðinni hafi verið gefið út 12. apríl síðastliðinn og hafi kærendum þá einnig mátt vera ljóst að framkvæmdir væru hafnar eða um það bil að hefjast.  Hafi þeir þá getað kynnt sér samþykktir byggingarfulltrúa, en kæra sé dagsett 3. nóvember 2011 eða um sjö mánuðum eftir að framkvæmdir hófust á lóðinni. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu sé á því byggt að úrskurðarnefndin hafi þegar tekið afstöðu til þess að byggingarleyfið frá 15. mars 2011 sé í samræmi við deiliskipulag sbr. úrskurð frá 30. júní 2011. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er tekið undir sjónarmið og röksemdir Reykjavíkurborgar í málinu.  Hafi hann gert sitt ítrasta frá upphafi til að hafa gott samráð við eigendur húsa er liggi að hinni umþrættu byggingu.  Byggingarleyfið brjóti hvorki í bága við skipulags- og byggingarlög né heldur reglugerðir sem settar hafi verið með stoð í þeim. 

Í andsvörum kærenda er því hafnað sem röngu og rakalausu að kæra sé of seint fram komin.  Kærendur hafi ítrekað reynt að afla upplýsinga hjá sveitarfélaginu um framkvæmdir við húsið, m.a. með tölvupósti til sveitarfélagins, dags. 23. ágúst 2011.  Hafi sveitarfélagið engu svarað um framkvæmdina.  Af þeirri ástæðu hafi kærendur þurft að hefja sjálfstæða gagnaöflun og leita álits sérfróðra aðila á einstökum þáttum máls til að glöggva sig til fulls á málavöxtum.  Kærendum hafi á þeim tímapunkti hvorki verið kunnugt um fyrirætlanir húsbyggjanda né mátt vera um þær kunnugt.  Hafi húsbyggjandi ekki kynnt fyrirætlanir sínar fyrir kærendum né haft nokkuð samráð við þá eins og gert hafi verið að skilyrði við útgáfu byggingarleyfis.  Fundur hafi verið haldinn með byggingaryfirvöldum 3. október sl. en kærendur hafi þá verið búnir að óska eftir fundi með sveitarfélaginu um málið í hartnær sex vikur.  Á fundinum hafi komið fram í máli starfsmanna sveitarfélagsins að fyrirhuguð fjórða hæð hússins væri í andstöðu við gildandi deiliskipulag og því lægi beint við að leggja fram kæru á grundvelli þeirrar óleyfisframkvæmdar.  Auk þess hafi komið fram í máli starfsmanna að fyrirhugaður frágangur á lóðamörkum væri ekki fullnægjandi, sbr. samþykkta deiliskipulagsuppdrætti varðandi aðgengi á svalir nærliggjandi húsa.  Hafi kærendur óskað eftir því í tölvupósti að skilningur þeirra yrði staðfestur en ekkert svar hafi borist.  Óásættanlegur dráttur á svörum og útskýringum af hálfu sveitarfélagsins, þegar eftir því hafi verið leitað af hálfu kærenda, ásamt röngum og villandi upplýsingum í tölvupósti, sé í senn bagalegt fyrir aðila máls og utan áhrifasviðs kærenda.  Ljóst sé að kærendur hafi lagt fram kæru sína innan tilskilins frest. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. 

Fram kemur í gögnum málsins að kærendur áttu í viðræðum við byggingaryfirvöld eftir að byggingarframkvæmdir hófust og leituðu skýringa á því hvernig umræddri byggingu yrði háttað.  Verður helst af málsgögnum ráðið að kærendur telji að þeim hafi ekki mátt vera ljóst fyrr en eftir fund með byggingaryfirvöldum hinn 3. október 2011 hvað nákvæmlega fælist í hinni kærðu ákvörðun frá 15. mars s.á.  Staðhæfa kærendur að á fyrrgreindum fundi hafi þeir verið hvattir til að kæra. 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum gerðu kærendur athugasemdir þegar á árinu 2008 við tillögu að breytingu á deiliskipulagi varðandi uppbyggingu að Þingholtsstræti 2-4 og lutu þær m.a. að umbúnaði svala á fyrirhugaðri nýbyggingu.  Þá liggur fyrir að kærendur hafa haft byggingaráform á umræddri lóð til skoðunar eins og m.a. kemur fram í tölvubréfi umboðsmanns þeirra til skipulagsyfirvalda dags. 23. ágúst 2011.  Var kærendum allt frá þeim tíma í lófa lagið að afla sér afrita af samþykktum aðaluppdráttum að hinni umdeildu byggingu og hefðu þeir með þeim hætti getað kynnt sér efni hinnar kærðu ákvörðunar, hvað sem leið svörum borgaryfirvalda við fyrirspurnum þeirra.  Verður því að telja að kærendum hafi mátt vera kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar þegar í lok ágúst 2011 og hafi þá borið að kynna sér kærurétt sinn og gera reka að því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar.  Var kærufrestur því liðinn er kæran barst úrskurðanefndinni hinn 8. nóvember 2011.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Ekki verður séð að neinar slíkar ástæður séu fyrir hendi í máli þessu og ber því að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                    Þorsteinn Þorsteinsson

49/2011 Leirutangi

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2011, kæra vegna kröfu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 24. júní 2011 um úrbætur á frágangi og viðhaldi húss, lóðar og bílastæða að Leirutanga 29 í Mosfellsbæ. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. júní 2011, er barst nefndinni 1. júlí s.á., framsendi umhverfisráðuneytið til úrskurðarnefndarinnar erindi G, Krosshömrum 29, Reykjavík, þar sem hann kærir kröfu byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar, dags. 24. júní 2011, um úrbætur, m.a. varðandi frágang bílastæða, lóðar og húss að Leirutanga 29 í Mosfellsbæ. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi að fasteigninni að Leirutanga 29, Mosfellsbæ.  Hinn 24. júní 2011 ritaði byggingarfulltrúi Mosfellsbæjar bréf til kæranda í framhaldi af skoðun hans á ástandi og frágangi húss og lóðar að Leirutanga 29.  Kom þar fram að úrbóta væri þörf varðandi frágang og viðhald hússins, frágang bílastæða á lóð og að nauðsynlegt væri að fjarlægja trjágróður eða minnka verulega umfang hans.  Var til þess vísað í bréfinu að í gr. 61.5-61.7 og 68. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 væri kveðið á um byggingareftirlit sem og skyldur húseigenda varðandi gróður á lóðum og frágang húsa og lóða.  Í grein 2.8 í gildandi skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leirutanga frá 19. maí 1981 hafi verið mælt fyrir um að frágangi húss, lóðar og bílastæða skyldi vera lokið eigi síðar en fjórum árum eftir veitingu byggingarleyfis.  Í 11. gr. gildandi lóðarleigusamnings fyrir Leirutanga 29, undirrituðum af kæranda, séu ákvæði sem kveði á um að frágangi húss og lóðar skuli vera lokið.  Var kæranda gefinn frestur til 15. ágúst 2011 til að lagfæra frágang bílastæða, lóðar og húss og  fjarlægja eða minnka umfang trjágróðurs á lóðinni.  Yrði kröfum um úrbætur ekki sinnt mætti kærandi, að þeim tíma liðnum, búast við að gripið yrði til aðgerða til að knýja fram úrbætur í samræmi við 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. 

Kærandi mótmælti framangreindum kröfum byggingarfulltrúa með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dags. 28. júní 2011, sem framsent var samdægurs til úrskurðarnefndarinnar.  Kemur þar fram að kærandi telji sig ofsóttan af nágrönnum sínum sem og af byggingarfulltrúa, m.a. með hótunum um háar dagsektir.  Þá sé rökstuðningur byggingarfulltrúans byggður á reglum sem lögfestar hafi verið löngu eftir gróðursetningu trjánna sem um ræði, en þau hafi verið gróðursett í kringum 1980 án nokkurra athugasemda byggingarfulltrúa eða nágranna á þeim tíma. 

Af hálfu Mosfellsbæjar er farið fram á að kröfum kæranda er varði skrif byggingarfulltrúa eftir vettvangsskoðun hans verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki hafi verið um stjórnvaldsákvörðun að ræða í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 líkt og 59. gr. mannvirkjalaga kveði á um.  Til vara gerir Mosfellsbær þá kröfu að skrif byggingarfulltrúa verði talin réttmæt sem hluti af eðlilegu eftirliti hans með málaflokknum enda hafi skrifin fyrst og fremst miðað að því að gefa kæranda kost á að bregðast við og neyta andmælaréttar síns, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, áður en hugsanlega yrði tekin stjórnvaldsákvörðun af hálfu sveitarstjórnar, sbr. 56. gr. mannvirkjalaga.  Í bréfinu hafi hins vegar láðst að inna kæranda formlega eftir andmælum sínum. 

Heimildir byggingarfulltrúa til að skrifa kæranda bréf, líkt og hann hafi gert með bréfi sínu, dags. 24. júní 2011, byggi á almennum heimildum hans sem eftirlitsmanns með gildandi reglum og lögum í þeim málaflokki sem honum sé ætlað að hafa umsjón með.  Geti umrædd skrif ekki talist formleg stjórnvaldsákvörðun um réttindi og skyldur kæranda heldur einungis ábendingar um atriði sem talin séu vera á skjön við þær skyldur sem kærandi hafi tekið á sig með vísan til gildandi lóðarleigusamnings, skipulagsskilmála, byggingarreglugerðar og 56. gr. mannvirkjalaga.  Til að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða verði að fara með hina kærðu ákvörðun samkvæmt 56. gr. mannvirkjalaga, sbr. 210. gr. byggingarreglugerðar, þ.e. stjórnvaldsákvörðun verði að vera tekin af sveitarstjórn Mosfellsbæjar. 

Niðurstaða:  Í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 segir að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé.  Í 2. mgr. 56. gr. sömu laga er mælt fyrir um að Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa sé heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 krónum til að knýja menn til þeirra verka sem þau skuli hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum.  Er þar ekki gerður áskilnaður um samþykki sveitarstjórnar líkt og gert var í tíð eldri laga. 

Samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga eru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.  Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt.  Í máli þessu var um að ræða áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur innan tiltekins frests og mælt fyrir um að yrði úrbótum ekki lokið að þeim tíma liðnum mætti kærandi búast við að gripið yrði til aðgerða til að knýja þær fram skv. 56. gr. mannvirkjalaga.  Var því aðeins um að ræða tilkynningu byggingarfulltrúa um að hann kynni að beita dagsektum að ákveðnum tíma liðnum en ekki ákvörðun um álagningu slíkra sekta eða upphæð þeirra.  Verður þessi tilkynning byggingarfulltrúa ekki talin fela í sér lokaákvörðun í málinu og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

36/2009 Klausturvegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 30. nóvember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 36/2009, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a, Kirkjubæjarklaustri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, mótt. 22. maí 2009, kærir S, sem eigandi risíbúðar að Klausturvegi 3, Kirkjubæjarklaustri, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 2. febrúar 2009 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi í hluta húsnæðis að Klausturvegi 3-3a.  Sveitarstjórn staðfesti ákvörðunina hinn 9. febrúar sama ár. 

Með ódagsettu bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, sem móttekið var hinn 6. júlí 2009, er ennfremur kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps frá 29. júní 2009, sem sveitarstjórn staðfesti 2. júlí s.á., um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breyttri notkun og innra fyrirkomulagi fyrrgreinds eignarhluta í húsinu að Klausturvegi 3-3a.  Þar sem sami aðili stendur að báðum kærumálunum sem snúast um byggingarleyfi fyrir breytingum á sama eignarhluta í nefndu fjöleignahúsi verður seinna kærumálið, sem er nr. 48/2009, sameinað máli þessu.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Hinn 2. febrúar 2009 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi og nýtingu séreignarhluta á fyrstu hæð Klausturvegar 3-3a, auk efri hæðar Klausturvegar 3a, í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Sú afgreiðsla var staðfest í sveitarstjórn 9. s.m.  Vegna deilna kæranda og byggingarleyfishafa um eignarhald og umráð á stiga frá annarri hæð í risíbúð kæranda var veiting byggingarleyfisins afturkölluð og nýtt leyfi veitt 29. júní s.á. og var sú ákvörðun staðfest af sveitarstjórn eins og að framan greinir. 

Byggir kærandi á því að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi verið gengið á rétt hans til áðurnefnds stiga.  Hafi aðgangur hans að nefndri risíbúð verið hindraður auk þess sem hann hafi ekki samþykkt þá breyttu notkun sem hinar kærðu ákvarðanir heimiluðu.  Byggingarleyfishafi skírskotar hins vegar til þess að hann hafi keypt eignarhluta á 2. hæð að Klausturvegi 3-3a og hafi umræddur stigi verið í séreignarhluta hans.  Skaftárhreppur telur að með hinum kærðu byggingarleyfum hafi engin afstaða verið tekin til staðsetningar umdeilds stiga eða umráðaréttar yfir honum. 

Niðurstaða:  Kærandi byggir málskot sitt vegna umdeilds byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu hans sem eiganda að eignarhluta í fjöleignarhúsinu að Klausturvegi 3-5.  Fyrir liggur að hið kærða byggingarleyfi, sem skipulags- og byggingarnefnd Skaftárhrepps samþykkti hinn 2. febrúar 2009, var afturkallað með samþykkt nefndarinnar hinn 29. júní s.á., þegar veitt var nýtt byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum.  Einnig liggur fyrir afrit af afsali kæranda til byggingarleyfishafa fyrir eignarhluta hans í umræddu húsi dags. 2. júní 2010 og þinglýst 4. s.m.  Frá þeim tíma hefur kærandi ekki hagsmuna að gæta vegna breytinga á nýtingu eða innra fyrirkomulagi eignarhluta í nefndri fasteign eða íhlutunarrétt í þeim efnum samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994. 

Með hliðsjón af greindum atvikum hefur kærandi nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinna kærðu ákvarðana og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

73/2011 Friðarstaðir

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2011, kæra vegna dráttar á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði og á afgreiðslu skipulagsuppdráttar að nefndri jörð.  Þá er kærð auglýsing um gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði, í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009, sem staðfest hafði verið í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 18. júní 2002.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. september 2011, er barst nefndinni 27. s.m., framsendi innanríkisráðuneytið stjórnsýslukæru D, Friðarstöðum í Hveragerði, dags. 5. september 2011, þar sem kærður er dráttur á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða og á afgreiðslu skipulagsuppdráttar að nefndri jörð.  Þá er kærð auglýsing um gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði, í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009, sem staðfest hafði verið í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar 18. júní 2002.

Gerir kærandi þá kröfu að lagt verði fyrir sveitastjórn að taka fyrrgreint erindi til efnislegrar afgreiðslu og að úrskurðarnefndin felli nefnt deiliskipulag úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Forsaga máls þessa er sú að hinn 3. nóvember 2008 sótti kærandi um byggingarleyfi til að breyta gróðurhúsi í landi umrædds býlis í hesthús fyrir allt að 24 hesta.  Skipulags- og byggingarnefnd bæjarins samþykkti hinn 2. desember s.á. að grenndarkynna umsóknina og bárust athugasemdir frá nágrönnum er lutu að því að hesthúsið yrði staðsett allt of nálægt íbúðarbyggð. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. janúar 2009.  Urðu lyktir þess þær að nefndin hafnaði staðsetningu umrædds hesthúss samkvæmt fyrirliggjandi afstöðumynd með vísan til framkominna athugasemda.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 15. s.m.  Kærandi skaut þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum hinn 24. júní 2011. 

Greindur úrskurður og byggingarleyfisumsókn kæranda var til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. júlí 2011 þar sem ákveðið var að leggja til við bæjarstjórn að taka deiliskipulag Friðarstaða til endurskoðunar í samráði við ábúendur jarðarinnar.  Bæjarráð samþykkti þá afgreiðslu í umboði bæjarstjórnar á fundi 21. júlí s.á. 

Kærandi bendir á að í stað þess að afgreiða fyrirliggjandi umsókn hans um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða eftir nefndan úrskurð sé málinu drepið á dreif með tilvísan til áforma um nýtt deiliskipulag fyrir jörð hans.  Fyrir liggi uppdráttur kæranda frá árinu 2009 sem feli í sér tillögu að breytingum á skipulagi jarðarinnar.  Sá uppdráttur hafi verið til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2010 án þess að fá efnislega afgreiðslu og málið hafi ekki heldur fengið umfjöllun eftir að áðurgreindur úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi fallið.  Gildandi deiliskipulag fyrir Friðarstaði frá árinu 2002 hafi ekki öðlast gildi fyrr en með auglýsingu þar um í apríl 2009 en þá hafi deiliskipulagið ekki verið í samræmi við aðalskipulag vegna breytinga sem gerðar hefðu verið á aðalskipulaginu á árinu 2006.  Af þeim sökum beri að ógilda deiliskipulagið.  Þá gerir kærandi athugasemdir við stjórnsýslu- og samskiptahætti byggingarfulltrúa við meðferð byggingarleyfisumsóknar hans.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er vísað til þess að umdeild byggingarleyfisumsókn kæranda hafi verið tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd í kjölfar fyrrnefnds úrskurðar úrskurðarnefndarinnar, eða hinn 5. júlí 2011, og hafi bæjarráð samþykkt tillögu um endurskoðun deiliskipulags fyrir Friðarstaði 21. s.m.  Skipulags- og byggingarnefnd hafi síðan hinn 7. september 2011 lagt til við bæjarstjórn að synja umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu hesthúss með vísan til afgreiðslu á fundi nefndarinnar 5. júlí s.á. og hafi bæjarstjórn samþykkt þá synjun 8. september 2011.  Málsmeðferð tillögu, sem hafi falið í sér hugmyndir kæranda að skipulagi Friðarstaða, hafi verið frestað, m.a. þar sem beðið hafi verið úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um áðurnefnda byggingarleyfisumsókn.  Þegar úrskurðurinn hafi legið fyrir hafi verið ákveðið að vinna að endurskoðun á deiliskipulagi Friðarstaða og sé sú vinna þegar hafin.  Sé þar m.a. höfð hliðsjón af hugmyndum kæranda.  Núgildandi deiliskipulag Friðarstaða frá árinu 2002 hafi á sínum tíma verið sett til þess að koma til móts við óskir kæranda um nýtt íbúðarhús og endurnýjun gróðurhúsa.  Fyrir mistök hafi gildistaka skipulagsins ekki verið auglýst fyrr en 17. apríl 2009.  Með fyrrnefndri endurskoðun skipulagsins verði eldra deiliskipulag fellt úr gildi eins og kærandi krefjist nú.  Önnur atriði í kæru máls þessa snúist um tölvupóstsamskipti byggingarfulltrúa og starfsmanns verkfræðistofu sem unnið hafi fyrir kæranda og feli þau ekki í sér stjórnvaldsákvarðanir. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Á þessi heimild við um þau kæruatriði í máli þessu sem lúta að meðferð á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir hesthúsi í landi Friðarstaða í Hveragerði frá 3. nóvember 2008 og meðferð tillögu hans að nýju deiliskipulagi fyrir nefnt lögbýli, sem tekin var fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Hveragerðisbæjar 11. maí 2010.

Umsókn kæranda um fyrrgreint byggingarleyfi var hafnað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. janúar 2009 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 15. s.m.  Úrskurðarnefndin felldi þá ákvörðun úr gildi með úrskurði uppkveðnum 24. júní 2011.  Í kjölfar þess var umsóknin tekin til umfjöllunar og liggur nú fyrir að henni var hafnað á fundi bæjarstjórnar 8. september s.á.  Verður því ekki tekin afstaða til dráttar á afgreiðslu þeirrar umsóknar í máli þessu. 

Umfjöllun um tillögu kæranda að skipulagi Friðarstaða var frestað á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2010 en þá var beðið úrskurðar í kærumálinu vegna synjunar á fyrrnefndri umsókn kæranda um byggingarleyfi.  Eftir að niðurstaða málsins lá fyrir var hinn 5. júlí 2011 tekin ákvörðun um að endurskoða deiliskipulag Friðarstaða og mun vinna við þá endurskoðun þegar vera hafin.  Í ljósi málsatvika, og þess að undirbúningur og meðferð skipulagstillagna getur tekið nokkurn tíma, verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi verið orðinn á afgreiðslu umræddrar tillögu þegar kæra barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Upphaf kærufrests miðast við lögmælta opinbera birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá skv. 1. mgr. 28. gr. laganna nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Hin kærða ákvörðun um að auglýsa gildistöku deiliskipulags fyrir Friðarstaði í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. apríl 2009 var tekin rúmum tveimur árum og fjórum mánuðum áður en kæra barst í máli þessu og leiðir af tilvitnuðum ákvæðum að málið verður ekki tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni. 

Einn liður máls þessa snýst um málsmeðferð byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar við undirbúning afgreiðslu fyrrgreindrar byggingarleyfisumsóknar kæranda.  Er þar um að ræða tölvupóstssamskipti byggingarfulltrúa við starfsmann verkfræðistofu, sem vann í þágu kæranda í tengslum við umrædda umsókn.  Verður ekki talið að í þeim felist stjórnvaldsákvarðanir sem bera megi undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað í heild sinni frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

64/2011 Fluggarðar

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 19. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2011, kæra á ákvörðun um afmörkun lóðar og útreikning hlutdeildar eigenda fasteigna í lóðarleiguréttindum við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli sem tilkynnt var í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 12. janúar 2010. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. ágúst 2011, er barst nefndinni 26. s.m., kærir Jón Magnússon hrl., f.h. Byggá-BIRK, hagsmunasamtaka eigenda einkabygginga á Reykjavíkurflugvelli, Fluggörðum 21, Reykjavík, ákvörðun um afmörkun lóðar og útreikning hlutdeildar eigenda fasteigna í lóðarleiguréttindum við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli sem tilkynnt var í bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 12. janúar 2010. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt og að hverju húsi á heildarlóðinni verði afmarkaður sérstakur lóðarreitur. 

Málsatvik og rök:  Hinn 12. janúar 2010 sendi byggingarfulltrúinn í Reykjavík fulltrúa kæranda bréf vegna lóðar Fluggarða við Njarðargötu með landnr. 106745.  Í bréfinu var frá því greint að komið hefði í ljós að nefnd lóð Fluggarða, sem væri 45.370 m², væri án fasteignamats og því hefðu ekki verið greidd tilskilin gjöld fyrir afnot af lóðinni í borgarsjóð.  Var og tilkynnt að embættið hefði reiknað út hlutdeild hvers af 59 fasteignareigendum í lóðarafnotum með tilteknum hætti og að sá útreikningur hefði verið sendur Fasteignaskrá Íslands.  Í kjölfarið var ákvarðað fasteignamat fyrir umræddar eignir á grundvelli útreikningsins. 

Kærandi mótmælti útreikningi fasteignamatsins og bar málið undir Fasteignamat ríkisins með bréfi, dags. 23. júlí 2010.  Þjóðskrá Íslands, sem tekið hafði við hlutverki fyrrgreindrar stofnunar, svaraði erindinu með bréfi, dags. 31. desember 2010.  Þar kom m.a. fram að stofnunin teldi sig ekki hafa forsendur til að leggja mat á málsmeðferð Reykjavíkurborgar og ákvörðun um stærðarútreikning umræddra lóðarhluta.  Var kæranda bent á að bera það álitaefni undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Þjóðskrá endurmat hins vegar lóðarmat fasteignanna til lækkunar með hliðsjón af takmörkunum á notkun lóðanna samkvæmt gildandi skipulagsreglum Reykjavíkurflugvallar.

Til stuðnings kröfum sínum bendir kærandi á að enginn lóðarleigusamningur sé fyrir hendi um svæði það sem einkaflugskýli félagsmanna kæranda standi á.  Svæðið sé að stórum hluta notað undir almenna starfsemi flugvallarins en afnot fasteignareigenda séu mjög takmörkuð.  Þeir hafi því í raun aðeins sérafnot af grunnfleti mannvirkja sinna.  Verði samkvæmt þessu að telja umdeildan útreikning og álagningu fasteignagjalda ranga.  Það fari í bága við 27. og 28. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna að draga línu utan um heildarlóð og deila í með fermetrafjölda húsnæðis án tillits til notkunar eða verðmætis þess.  Leggja verði sérstakt mat á hverja fasteign á svæðinu með hliðsjón af nýtingarrétti hennar af lóð. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um útreikninga á hlutdeild hvers fasteignareiganda í lóðarréttindum við Fluggarða með bréfi, dags. 12. janúar 2010.  Kæra útreikningsins sé móttekin af úrskurðarnefndinni 26. ágúst 2011, eða rúmlega einu og hálfu ári eftir tilkynningu hinnar kærðu afgreiðslu.  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi.  Frestur til að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Þá skuli í öllu falli bera fram stjórnsýslukæru innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Í 28. gr. sömu laga sé svo allur vafi tekinn af um að vísa beri kæru þessari frá, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin. 

Auk þess liggi ekki fyrir í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun skv. 6. mgr. 52. gr. skipulagslaga, sbr. og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Í málinu hafi einungis verið tilkynnt um útreikning á hlutdeild í lóð, eins og skylt sé samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001.  Þá segi í 3. mgr. ákvæðisins að byggingarfulltrúar, eða aðrir sem sveitarstjórn hafi falið upplýsingagjöf, séu ábyrgir fyrir að upplýsingarnar séu efnislega réttar.  Við niðurdeilingu fermetra heildarlóðarinnar við Fluggarða á hverja fasteign hafi byggingarfulltrúi verið að fullnægja þessari lagaskyldu.  Hér sé því hvorki um skipulagsmál að ræða né byggingarmál sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. og 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæta stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema að afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. 

Hinn kærði útreikningur byggingarfulltrúans í Reykjavík á lóðarhlutdeild fasteigna við Fluggarða á Reykjavíkurflugvelli, sem lagður var til grundvallar við ákvörðun fasteignamats umræddra eigna, var tilkynntur eigendum með bréfi embættisins, dags. 12. janúar 2010.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 26. ágúst 2011 eða um einu og hálfu ári eftir dagsetningu tilkynningarinnar og var kærufrestur samkvæmt framangreindum lagaákvæðum þá löngu liðinn.  Verður kærumáli þessu þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

82/2010 Hraðastaðavegur

Með

Ár 2011, miðvikudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 82/2010, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg í Mosfellsdal. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2010, er barst nefndinni 22. s.m., kærir M, Hraðastaðavegi 3, Mosfellsdal, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar frá 7. desember 2010 á umsókn um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg.  Gerir kærandi þá kröfu að afgreiðsla nefndarinnar verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 7. desember 2010 var tekin fyrir umsókn kæranda, dags. 2. nóvember s.á., um leyfi til byggingar fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg og var hún afgreidd með svohljóðandi hætti:  „Skipulags- og byggingarnefnd er neikvæð fyrir erindinu þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir samræmast ekki gildandi aðal- og deiliskipulagi svæðisins.“  Þá kom fram að afgreiðsla nefndarinnar væri gerð með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og að kæranda yrði gert viðvart yrði afgreiðsla erindisins á annan veg í bæjarstjórn.  Jafnframt var vísað til þess að unnt væri að kæra ofangreinda samþykkt til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Kærandi vísar m.a. til þess að fyrirhugaðar framkvæmdir á lóðinni að Hraðastaðavegi 3a séu hvorki í andstöðu við aðalskipulag né deiliskipulag svæðisins sem geri ráð fyrir landbúnaðarbyggingu á lóðinni.  Auk þess sé að finna fjölda fordæma í nágrenninu. 

Af hálfu bæjaryfirvalda Mosfellsbæjar er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi ekki verið lokaákvörðun í málinu.  Bent sé á að umsóknargögnum, sem lögð hafi verið inn hjá embætti byggingarfulltrúa, hafi í ýmsu verið ábótavant með tilliti til gildandi deiliskipulags og hafi kæranda verið gerð grein fyrir því.  Jafnframt sé vísað til bréfs byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 20. janúar 2011, þar sem veittur hafi verið frestur til að bæta úr og undirstriki það að stjórnvaldsákvörðun hafi ekki verið tekin í málinu. 

Niðurstaða:  Kæra í máli þessu er reist á efni bréfs skipulagsfulltrúans í Mosfellsbæ, dags. 7. desember 2010, þar sem gerð var grein fyrir afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss á lóðinni nr. 3a við Hraðastaðaveg, Mosfellsdal.  Samþykkti bæjarstjórn Mosfellsbæjar greinda afgreiðslu á fundi hinn 15. desember s.á.  Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. mars 2011 samþykkt umsókn kæranda, dags. 4. mars s.á., um byggingu fjölnotahús á umræddri lóð.  Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 16. mars s.á.

Miðað við framanritað verður að fallast á að hin kærða ákvörðun hafi ekki bundið endi á meðferð málsins og hafi því ekki verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga 37/1993.  Þá liggur fyrir að umsókn kæranda um byggingu fjölnotahúss hefur nú verið samþykkt af hálfu bæjaryfirvalda og verður því að telja að kærandi eigi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti fyrrgreindrar afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 7. desember 2010.  Leiðir þetta hvort tveggja til frávísunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_______________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson