Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

139/2018 Leirutangi

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 24. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 139/2018, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 26. október 2018 á umsókn um byggingarleyfi vegna Leirutanga 10.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. desember 2018, er barst nefndinni 5. s.m., kæra eigendur einbýlishúsanna nr. 2, 4, 6, 8, 12, 14, og 16 við Leirutanga í Mosfellsbæ „…ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 26. október 2018 um byggingarleyfi til eiganda hússins nr. 10 við Leirutanga…“ Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Umsókn eiganda hússins nr. 10 við Leirutanga um leyfi til að hækka þak á húsinu til samræmis við aðliggjandi hús og innrétta þar íbúðarrými var grenndarkynnt í tvígang fyrir kærendum sem eru eigendur fasteigna við sömu götu. Umsóknin var grenndarkynnt 12. mars 2018 og að nýju 25. júní s.á. Með bréfi, dags. 25. júlí 2018, mótmæltu kærendur því að veitt yrði byggingarleyfi fyrir þeirri framkvæmd við Leirutanga 10 sem grenndarkynningin laut að.

Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 26. október 2018 var m.a. bókað að samþykkt væri að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hefðu borist. Var vísað til minnisblaðs lögmanns sveitarfélagsins, dags. 24. s.m., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefna skyldi að útgáfu byggingarleyfis til handa umsækjanda.

Kærendur halda því fram að ákvörðun skipulagsnefndar bæjarins sé röng og ekki í samræmi við lög og reglur. Þá gera kærendur athugasemdir við málsmeðferð bæjarins, en ekki hafi verið tekið tillit til ítarlegra og rökstuddra athugasemda þeirra og sjónarmiða.

Kærendur hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar.

Með tölvupósti 18. janúar 2019 fór úrskurðarnefndin þess á leit við byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar að hann upplýsti hvort byggingaráform hefðu verið samþykkt, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Svar byggingarfulltrúa barst samdægurs og var þess efnis að byggingaráform hefðu ekki verið samþykkt. Umsókn um byggingarleyfi, ásamt hönnunargögnum, lægi fyrir og væri til yfirferðar hjá byggingarfulltrúa.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Samkvæmt því sem að framan greinir var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 26. október 2018 ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá liggur ákvörðun byggingarfulltrúa ekki fyrir í málinu, eins og áður greinir. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að samþykki byggingarfulltrúi byggingaráformin er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku þá í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

101/2017 Faxabraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 13. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2017, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss um að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8, Ölfusi, undir heyrúllur. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Faxabrautar 6, Ölfusi, þá ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss að heimila nýtingu lóðarinnar að Faxabraut 8 undir heyrúllur. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun um þá ráðstöfun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 4. október 2017.

Málavextir: Lóðin að Faxabraut 8 er staðsett á hesthúsasvæði í Þorlákshöfn og er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss. Bæjaryfirvöld heimiluðu Hestamannafélaginu Háfeta að nýta lóðina undir heyrúllur og geymslu á kerrum. Hinn 15. ágúst 2017 sendi kærandi Skipulagsstofnun bréf með ábendingu um að ráðstöfun sveitarfélagsins á lóðinni væri í ósamræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst telja að bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss þverbrjóti reglur um byggingarsamþykktir með því að heimila að settar séu heyrúllur á lóðina Faxabraut 8, sem sé hesthúsalóð í hesthúsahverfinu samkvæmt byggingarsamþykktum. Fer kærandi fram á að þetta verði leiðrétt og að bæjarstjórninni verði gert að fara eftir samþykktu skipulagi og úthluta annarri lóð undir heyrúllurnar í samræmi við byggingarsamþykktir og skipulag sveitarfélagsins.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: 
Af hálfu sveitarfélagsins er bent á unnið hafi verið deiliskipulag fyrir hesthúsahverfið í samvinnu við Hestmannafélagið Háfeta. Ekki sé á döfinni að gera nýtt rúllustæði, líkt og deiliskipulag geri ráð fyrir, á meðan hægt sé að nota önnur svæði. Þess sé gætt að heyrúllur séu ekki nær næstu húsum heldur en Brunavarnir Árnessýslu heimili, eða í 10 m fjarlægð. Þeir aðilar sem hafi fengið úthlutað lóðunum nr. 8 og 10 við Faxabraut hafi skilað þeim aftur til sveitarfélagsins. Sveitarfélagið hafi heimilað hestamannafélaginu að nýta lóðirnar undir heyrúllur og geymslu á kerrum, enda verði það gert snyrtilega og fylgt reglum hestamannafélagsins um umgengni.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda endi á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin að Faxabraut 8 er í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss og fyrir liggur að sveitarfélagið hefur heimilað Hestamannafélaginu Háfeta að geyma þar heyrúllur og kerrur. Samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins hafði kærandi átt í samskiptum annars vegar við Brunavarnir Árnessýslu, vegna nálægðar heyrúlla við hesthús hans, og hins vegar við fyrrverandi bæjarstjóra sveitarfélagsins, um að ráðstöfunin væri ekki í samræmi við deiliskipulag, en ekki liggur fyrir hvenær þau samskipti áttu sér stað. Verður ekki litið svo á að í nefndum samskiptum hafi falist beiðni um beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 56. laga um mannvirki, þegar haft er í huga að slík úrræði geta verið íþyngjandi gagnvart þriðja aðila og haft lögfylgjur í för með sér. Verður af þeim sökum að liggja ótvírætt fyrir að skýr krafa hafi verið gerð um beitingu úrræðanna. Gögn málsins bera hvorki með sér að slík krafa hafi legið fyrir né að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun af þar til bæru stjórnvaldi, sem feli í sér afstöðu til beitingar þvingunarúrræða á grundvelli laga um mannvirki. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

43/2018 Rannsóknarleyfi Hvalárvirkjun

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 43/2018, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 um að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir einn eigenda jarðarinnar Seljaness á Ströndum, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 10. apríl 2018.

Málavextir: Hinn 31. janúar 2015 sótti VesturVerk ehf. um leyfi til Orkustofnunar til rannsóknar á svæðum í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði. Í umsókninni kom fram að markmiðið væri að rannsaka hagkvæmni þess að nýta rennsli Hvalár og Rjúkanda í einu þrepi úr Hvalárvatni og allt að því niður að sjávarmáli við Ófeigsfjörð í Árneshreppi. Leyfi var veitt 30. mars s.á. í samræmi við III. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, með vísan til 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Kom fram að gildistími leyfisins væri frá 31. mars 2015 til 31. mars 2017.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2017, óskaði leyfishafi eftir framlengingu greinds rannsóknarleyfis til tveggja ára. Í bréfinu kom fram að öllum fyrirhuguðum rannsóknum væri lokið nema kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Þær rannsóknir hafi leyfishafi ekki talið forsvaranlegar vegna kostnaðar fyrr en afstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu virkjunar lægi fyrir, sem og ákvörðun Landsnets og Orkustofnunar um afhendingarstað raforku í Ísafjarðardjúpi. Einnig var tekið fram að til þess að koma jarðbor til rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði þyrfti m.a. að lagfæra vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Með bréfi, dags. 31. janúar 2017, féllst Orkustofnun á að framlengja rannsóknarleyfið frá 31. mars 2017 til 31. mars 2019.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að vegur sem notaður verði til að flytja vinnuvélar og búnað á rannsóknarsvæði liggi með strandlengjunni í Ingólfsfirði, fyrir Seljanes innan við 100 m frá sumarhúsi á jörð kæranda og rúmum 200 m frá íbúðarhúsum. Frá Seljanesi sé útsýni til Hvaláróss og yfir á Ófeigsfjarðarheiði. Eigi kærandi því mikilla hagsmuna að gæta af leyfi því sem honum hafi nýlega orðið ljóst að Orkustofnun hafi veitt til mikils rasks upp frá Hvalárósum og um Ófeigsfjarðaheiði alla. Vegna hinna heimiluðu rannsókna þurfi að flytja tæki og búnað og líklega vinnubúðir á staðinn og til baka. Við það bætist og efnisflutningar tengdir þessum rannsóknarframkvæmdum. Verði farið um land kæranda í því skyni. Kæranda hafi ekki verið kunnugt um að rannsóknarleyfi hafi verið veitt fyrr en hann hafi fengið vitneskju um að á heimasíðu leyfishafa í mars 2018 hefði birst sú frétt að kæru Landverndar vegna sama leyfis hefði verið vísað frá úrskurðarnefndinni.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun tekur fram að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsíðu stofnunarinnar í desember 2015 og í lok janúar 2017, auk þess sem umrætt leyfi hafi verið í opinberri umræðu í fleiri misseri. Kæranda hafi því mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrir margt löngu. Kæra málshefjanda sé dagsett 12. mars 2018 og móttekin hjá úrskurðarnefndinni þann sama dag. Kærufrestur sé því liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er tekið fram að skv. 1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, þ.e. kæruaðild sé byggð á svokallaðri „hagsmunareglu“. Tíðum kunni þó að vera vandasamt að ákvarða hvorum megin hryggjar álitaefni um aðild falli. Þegar um sé að ræða grenndarrétt hafi almennt verið litið til þess hvort hagnýtingarmöguleikar kæranda á eign hans skerðist með einhverri breytingu sem leiði af hinni kærðu ákvörðun. Því fjær sem kærandinn búi frá þeim stað þar sem einhver mannvirkjagerð sé fyrirhuguð, því minni líkur séu á að viðkomandi verði talinn eiga einstaklingsbundna og lögvarða hagsmuni sem veiti honum kæruaðild á grundvelli grenndarréttar.

Þær rannsóknir sem leyfi hafi verið veitt fyrir kalli á lítilsháttar aðstöðusköpun og hafi því í deiliskipulagstillögum verið gert ráð fyrir reit fyrir vinnubúðir. Vinnubúðirnar muni verða í ca. 4 km fjarlægð í beinni loftlínu frá Seljanesi. Þar í milli sé að finna aðra byggð þannig að hvorki sé um ósnortið land né víðerni að ræða. Þótt kærandi geti hugsanlega séð til granna sinna í vinnubúðunum í norðri frá hlaðinu í Seljanesi og telji það skerða útsýni sitt þá takmarki það í engu nýtingarmöguleika Seljanesjarðarinnar og varði í engu hina kærðu ákvörðun, sem snúist eingöngu um tímabundna framlengingu rannsóknarheimildar.

Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar verði ekki á landi kæranda og snerti hvorki vatnasvið jarðarinnar Seljaness né Dranga og skerði í engu hagnýtingarmöguleika eigenda þessara jarða. Þá sé og rétt að geta þess til skýringar að beinn og óbeinn eignarhluti kæranda í nefndum jörðum virðist samkvæmt skráðum heimildum vera innan við 10% í hvorri jörð fyrir sig og að sameigendur hans, sem fari þá með meira en 90% hagsmuni í hvorri jörð fyrir sig, hafi ekki mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Til að komast frá Ingólfsfirði í Ófeigsfjörð sé farið m.a. yfir land Seljaness. Þar sé hins vegar farið eftir þjóðvegi F649, Ófeigsfjarðarvegi, sem liggi þannig samkvæmt þjóðvegaskrá Vegagerðarinnar: „Af Strandavegi hjá Melum í Árneshreppi, um Eyri í Ingólfsfirði, fyrir Ingólfsfjörð, um Seljanes, að Hvalá í Ófeigsfirði“. Vegagerðin sé veghaldari á þessum vegi í skilningi vegalaga nr. 80/2007 og hafi þannig forræði yfir vegi og vegsvæði og annist vegagerð, þjónustu og viðhald vega. Samkvæmt 46. gr. vegalaga sé öllum frjáls för um slíka vegi, nema sérstakar takmarkanir séu settar á umferð, oftast þá vegna veðurs eða náttúruatburða. Eigendur þeirra jarða sem vegir liggi um geti hins vegar ekki ráðið hverjir fari um þá.

Niðurstaða: Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var við hina kærðu framlengingu rannsóknarleyfis einungis ólokið rannsóknum sem lutu að kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Til þess að koma jarðbor til þessara rannsókna á Ófeigsfjarðarheiði lá fyrir að lagfæra þyrfti vegi í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Rannsóknir þær sem um ræðir eru ekki fyrirhugaðar í landi kæranda, en um land það sem hann á að hluta liggur vegur að rannsóknarsvæðinu. Heldur kærandi því fram að hann verði fyrir ónæði við flutning vinnuvéla og búnaðar um veginn. Við mat á því hvort kærandi eigi hagsmuna að gæta vegna þessa verður að líta til þess að nefndur vegur, F649, er landsvegur samkvæmt Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025. Telst hann því til þjóðvega, sbr. d-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna eru þjóðvegir þeir vegir sem ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaskrá. Vegagerðin er veghaldari þjóðvega skv. 13. gr. vegalaga og er landeiganda skylt að láta af hendi land sem þarf til þjóðvegagerðar og hvers kyns veghalds, sbr. 37. gr. laganna. Rannsóknarleyfið var gefið út snemma árs 2015 og það framlengt með hinni kærðu ákvörðun í janúar 2017. Samkvæmt útgefnum umferðartölum Vegagerðarinnar var árdagsumferð um veginn, þ.e. sá fjöldi bifreiða sem að jafnaði fara þar um á hverjum degi, á bilinu sex til átta frá árinu 2010 til 2017. Vetrardagsumferð hefur haldist óbreytt á þessu tímabili en sumardagsumferð aukist nokkuð, en hún var 12-14 bílar árin 2010-2015 og 17 árin 2016-2017. Á sama tímabili hefur orðið mikil aukning ferðamanna á landinu. Þrátt fyrir að um fáfarinn veg sé að ræða og um hann verði flutt tæki og búnaður til þeirra rannsókna sem enn er ólokið er það álit úrskurðarnefndarinnar að öllu virtu að það tímabundna ónæði sem af því hljótist snerti ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kæranda í þeim mæli að hann geti átt aðild að kæru vegna hins umdeilda rannsóknarleyfis.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kæruaðild kæranda hvorki byggð á eignarréttarlegum grunni né grenndarhagsmunum og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Mál 2/2003 Austurkot á Vatnsleysuströnd

Með

Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.

Ár 2003 föstudaginn 25. júlí, kom nefnd skv. 31. gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu Gunnars Eydal í Ráðhúsi Reykjavíkur.  Mætt voru Gunnar Eydal, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Lára G. Hansdóttir.

Fyrir var tekið mál nr 2/2003 kæra Stefáns Árnasonar, Austurkoti, Vatnsleysuströnd gegn Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður.

I.

Stjórnsýslukæra kæranda, barst nefndinni með bréfi umhverfisráðuneytis dags. 27. mars, 2003.  Kærunni fylgdu afrit bréfa lögmanns kæranda til kærða dags. 10. júlí, 2002, 30. júlí 2002 og 15. ágúst 2002 svo og afrit af bréfum kærða til lögmannsins dags. 24. júlí, 2002 og 27. ágúst 2002.  Með bréfi dags. 11. júní s.l. var óskað eftir greinargerð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, sem barst með bréfi lögmanns þeirra dags. 27. júní, s.l.

II.

Í ódagsettu erindi kæranda, sem litið er á sem stjórnsýslukæru, er óskað úrskurðar vegna töku tveggja bifreiða í eigu kæranda af landi hans Austurkoti á Vantsleysuströnd.  Samkvæmt upplýsingum í bréfum lögmanns voru bifreiðar kæranda af gerðinni Scania 141 og Nissan Doublecap fjarlægðar hinn 29. júní, 2002.  Í bréfum lögmannsins til kærða kemur fram að kærendur telji að um ágang hafi verið að ræða og er gerð sú krafa að bifreiðunum verði skilað.

III.

Í greinargerð kærða, dags. 27. júní, 2003, er aðallega gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd sem of seint fram kominni kæru.  Er á því byggt að ódagsett erindi kærða hafi verið sent frá umhverfisráðuneyti með bréfi dags. 27. mars s.l. eða hálfu ári eftir að kærufrestur hafi runnið út.  Þá gerir lögmaður kærða grein fyrir málinu efnislega að öðru leyti og rekur aðgerðir kærða og bréfaskriftir við lögmann kæranda.

IV.

Svo sem fram er komið barst kæra úrskurðarnefnd með bréfi umhverfisráðuneytis dags. 27. mars s.l.  Í 27. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að kæru skuli bera fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli fyrir á annan hátt.  Svo er ekki í máli þessu.  Stjórnsýslukæra kæranda er því of seint komin fram og verður því málinu vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð :

Með vísan til framkominna málavaxta og með tilvísan til 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er máli þessu vísað frá nefndinni.

Lára G. Hansdóttir

 Gunnar Eydal                         Guðrún Helga Brynleifsdóttir

Date: 9/9/03

1/2000 Sólheimar, Gríms – og Grafningshreppi

Með

Nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998.

Ár 2000 þriðjudaginn 27. júní kom nefnd skv. 31 gr. l. nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar Lágmúla 7, Reykjavík.  Mættir voru Sigurmar K. Albertsson hrl., Gunnar Eydal, skrifstofustjóri og Óðinn Elísson hdl.

 Fyrir var tekið mál nr. 1/2000 kæra Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima, Sólheimum, Grímsnes- og Grafningshreppi, vegna álagninar Grímsnes- og Grafningshrepps á sorphirðugjöldum fyrir árið 1997.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

Úrskurður:

I.

Aðdragandi máls þessa er að þann 11. febrúar árið 2000 barst nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 erindi frá Sjálfseignarstofnuninni Sólheimum og Styrktarsjóði Sólheima, Grímsnesi og tekið fram að framangreindir aðilar „vilji með erindi þessu vísa til úrskurðar nefndarinnar ákvörðun Grímsneshrepps (nú Grímsnes- og Grafningshrepps) um álagningu sorphirðugjalds fyrir árið 1997“

Með bréfi nefndarinnar til Grímsnes- og Grafningshrepps dags. 24.2.2000 var hreppnum gefinn kostur á andsvörum og bárust þau nefndini með bréfi dags. 27.3.2000.  Svör hreppsins voru send til Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima sem gerði athugasemdir við andsvör hreppsins með bréfi dags. 18. apríl 2000.

Ekki þótti ástæða til að kalla eftir frekari andsvörum frá Grímsnes- og Grafningshreppi og var erindi Sólheima og Styrktarsjóðsins tekið til úrskurðar.

Uppkvaðning úrskurðar hefur hins vegar dregist vegna mikilla anna nefndarmanna.

II.

Í erindi Sólheima og Stryktarsjóðsins frá 11. febrúar 2000 segir: „Sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps hefur ítrekað skuldfært Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima vegna sorphirðugjalda fyrir árið 1997 með því að draga sorphirðugjöld fyrir umrætt ár frá óskildum fjárveitingum ríkisins og sveitarfélagsins til Sólheima.“

Síðan er rakið að þann 15. maí 1997 hafi borist innheimtuseðlar frá Landsbanka Íslands vegna fasteignagjalda 1997 og í innheimtufjárhæð hafi fylgt gjald vegna sorphirðu og hafi það verið í fyrsta sinn sem slíkt gjald var til innheimtu.  Fasteignagjöld hafi verið greidd skilvíslega en greiðslu vegna sorphirðu hafi verið hafnað.  Þá hafi verið spurst fyrir með bréfi dags. 12. júní 1997 um hvenær gjaldskrá vegna sorphirðu hafi verið staðfest af umhverfisráðuneyti og sú

fyrirspurn ítrekuð með bréfi dagsettu 14. nóvember 1997 og aftur 20. júní 1998, en svör loks borist þann 20. júlí 1998.

Þá segir í erindinu: „Sólheimar og Styrktarsjóður Sólheima líta svo á að gjaldtaka sem þessi geti ekki verið afturvirk og sveitarstjórn hafi því verið óheimilt að leggja sérstakt sorphirðugjald á fasteignir Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima með fasteignagjöldum fyrir árið 1997.  Hafa ber í huga að hér var um nýja og áður óþekkta gjaldtöku að ræða að hálfu sveitarfélagsins, sem samkvæmt eðlilegum stjórnsýsluháttum og venjum ber að tilkynna gjaldendum með eðlilegum fyrirvara.“

Í niðurlagi erindisins er síðan beðist velvirðingar á því hve seint erindið er á ferðinni en vísað til þess að sorphirðugjaldið fyrir árið 1997 hafi verið dregið frá styrk vegna fráveitukerfis þann 29. desember 1999.  Erindinu fylgdu afrit þeirra bréfa sem gengið hafa á milli aðila þessa máls.

III.

Í svari Grímsnes- og Grafningshrepps frá 27. mars 2000 er aðdragandi álagningar sorphirðugjalds fyrir 1997 rakinn og honum lýst svo: „Á fundi Grímsneshrepps, þann 10. desember 1996, voru sorpgjöld fyrir árið 1997 samþykkt  (sjá fskj. nr. 1).  Í bréfi hreppsins til Umhverfisráðuneytisins dags. 7. mars 1997 er óskað eftir staðfestingu á áður samþykktri gjaldskrá (sjá fskj. nr. 2).  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 4. júní 1997 kemur fram að það geti ekki samþykkt gjaldskrána þar sem að ekki liggi fyrir nægileg rök fyrir upphæð gjalda í þeirri gjaldskrá sem lögð hefur verið fram.  Einnig telur ráðuneytið að frekari útfærslu vanti hvernig gjald vegna akstur og að upphæð vegna þess verði að koma fram í erindinu (sjá fskj. nr. 3).  Skv. bréfi Grímsneshrepps dags. 16. september 1997 er lögð endurbætt gjaldskrá (sjá fskj. nr. 4) skv. óskum ráðuneytisins (sjá fskj. nr. 3).  Rétt er að benda á að þau gjöld sem um er rætt hefur ekkert verið breytt frá samþykki fundar hreppsnefndar dags. 10. desember 1996 til bréfs dags. 16. september 1997.  Skv. bréfi ráðuneytisins dags. 29. september 1997 er gjaldskráin staðfest (sjá fskj. 5) og send samdægurs til Stjórnartíðinda til auglýsingar í B-deild (sjá fskj. nr. 6).

Eins og fram kemur í bréfi dags. 4. júní 1997 (sjá fskj. nr. 3) hefur þetta verið þrautarganga að fá gjaldskrána samþykkta enda var um að ræða álagningu sorpgjalda í fyrsta sinn hjá hreppnum.  Formgallar og ákveðnar kröfur ráðuneytisins gerðu það að verkum að gjaldskráin fékkst ekki samþykkt fyrr.  Í þessu bréfi verður ekki rætt um þá skýringu hversvegna farið var að leggja á sorphirðugjöld sérstaklega.

Skv. bréfi Grímsnes og Grafningshrepps dags. 29. desember 1999 (sjá fskj. nr. 7) var gerð leiðrétting á þessum gjöldum.  Fram til þessa hafa erindi ávallt borist í nafni Sólheima en ekki gerður greinarmunur á m.a. Styrktarsjóð Sólheima eða Sjálfseignarstofnun Sólheima.  Þess vegna er eðlilegt að Grímsneshreppur (hér áður) og Grímsnes og Grafningshreppur (í dag) hafi ávallt svarað erindum til Sólheima, eins og um eina stofnunin sé að ræða.“

Þau gögn sem fylgdu svari hreppsins eru m.a. endurrit hreppsnefndarfundar þann 10. desember 1996 þar sem samþykkt er tillaga um sorphirðugjald.  Bréf umhverfis-ráðuneytis frá 4. júlí 1997 þar sem ráðuneytið tilkynnir um endursendingu (synjun innsk. nefndar) gjaldskrárinnar.  Bréf hreppsins 16. september 1997 þar sem fram kemur að þann 9. sama mánaðar hafi hreppsnefnd samþykkt gjaldskrá vegna sorphirðu og loks bréf ráðuneytisins þar sem gjaldskráin er samþykkt þann 29. september 1997 og mun gjaldskráin síðan hafa verið birt í því hefti Stjórnartíðinda sem kom út 10. október 1997.

IV.

Í 18 gr. l. 81/1988 (nú 25 gr. l. 7/1998) segir að sveitarfélög geti sett sér sínar eigin heilbrigðissamþykktir og m.a. má setja í slíkar samþykktir ákvæði um gjaldtöku vegna leyfa, leigu eða veittrar þjónustu.  Skv. 3 mgr. 18 gr. l. 81/1988 skal upphæð gjalda ákveðin í sérstakri gjaldskrá, sem ráðherra staðfestir og í 4 mgr. segir efnislega að sveitarstjórnir skuli senda slíkar gjaldskrár til ráðherra í formi samþykktar.

Synji ráðherra staðfestingu endursendir hann samþykktina með leiðbeiningum um hvað þurfi til staðfestingar henni.

Um sumarið 1997 þegar Grímsnes- og Grafningshreppur krefur Sólheima og Styrktarsjóð Sólheima um sorphirðugjald vegna ársins 1997 hafði ráðherra synjað um staðfestingu gjaldskrárinnar og hún því ekki í því formi sem lög krefjast.  Hvort síðar tilkomin staðfesting ráðherra á gjaldskrá fyrir sorphirðu í Grímsneshreppi þann 29. september 1997 réttlæti álagningu og innheimtu sorphirðugjalds fyrir það ár er álitamál, sem nefnd skv. 31 gr. l. 7/1998 mun ekki taka afstöðu til.  Hér stendur svo á að skv. 27 gr. l. 37/1997 er kærufrestur þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnavaldsákvörðun og skv. 28 gr. s.l. skal kærum ekki sinnt, ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Því verður að vísa frá kæru Sjálfseignarstofnunar Sólheima og Styrktarsjóðs Sólheima.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kæru Sjálfseignarstofnunarinnar Sólheima og Stryktarsjóðs Sólheima

 Sigurmar K. Albertsson hrl.

Gunnar Eydal, skrifstofustjóri                           Óðinn Elísson hdl.

Date: 6/27/00

105/2016 Legsteinasafn

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 6. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2016 kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2016, er barst nefndinni 3. s.m., kærði landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. Var þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 23. september 2016 var kröfu kæranda um ógildingu á fyrrnefndri ákvörðun byggingarfulltrúa hafnað en vísað frá kröfu hvað deiliskipulagið varðaði.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til aðila málsins, dags. 6. mars 2018, var tilkynnt að nefndin hefði í ljósi álits setts umboðsmanns Alþingis frá 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016 fallist á beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Kom kærandi að kröfum sínum til nefndarinnar með bréfi, dags. 13. mars 2018, mótteknu sama dag. Sem fyrr var gerð krafa um að felld yrði úr gildi samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúa um leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil. Að auki var þess krafist að byggingarleyfi, útgefið í ágúst 2015 vegna svokallaðs pakkhúss yrði ógilt. Þá var gerð krafa um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 15. mars 2018. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 14. mars, 13. apríl, 9. og 16. nóvember 2018. Jafnframt lágu fyrir nefndinni gögn er móttekin voru 24. og 26. ágúst 2016 og 12. september s.á. Þá móttók nefndin gögn vegna endurupptökubeiðna.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu en á árinu 2014 hófst vinna við gerð nýs deiliskipulags fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 8. október 2014 var samþykkt að auglýsa lýsingu á „deiliskipulagi lóðar í landi Húsafells 1“. Var lýsingin auglýst með þeim hætti í Lögbirtingablaðinu og á heimasíðu sveitarfélagsins en að auki mun hún hafa legið frammi til kynningar í ráðhúsi sveitarfélagsins frá 21. nóvember – 1. desember 2014. Í umræddum tilkynningum kom fram að markmið deiliskipulagsins væri að byggja upp sýningarskála, menningarhús og þjónustuhús vegna menningartengdrar starfsemi í Húsafelli. Í lýsingunni var og tekið fram að deiliskipulagssvæðið væri á 9.107 m² lóð í eigu Páls Guðmundssonar í landi Húsafells 1 og markmiði deiliskipulagsins nánar lýst.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar 15. desember 2014  þar sem samþykkt var „tillag[a] að deiliskipulagi Húsafell 1 – lóðar A til auglýsingar“. Tilkynning var birt á vef sveitarfélagsins 17. desember s.á. og samsvarandi tilkynning mun hafa birst í Skessuhorni um svipað leyti með yfirskriftinni „Tillaga að nýju deiliskipulagi – Húsafell 2“.  Í greindum tilkynningum kom fram að samþykkt hefði verið að auglýsa nýtt deiliskipulag lóðar í landi Húsafells 1 og jafnframt var vikið að markmiðum skipulagsins. Tekið var fram að gögn væru aðgengileg á heimasíðu og í ráðhúsi sveitarfélagsins frá 17. desember 2014 og að athugasemdum bæri að skila fyrir 29. janúar 2015. Við meðferð skipulagsáætlunarinnar leitaði sveitarfélagið umsagna, m.a. Umhverfisstofnunar.

Skipulagstillagan var samþykkt á fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2015 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. Yfirskrift hennar var „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425“. Jafnframt sagði eftirfarandi: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti 12. febrúar 2015 nýtt deiliskipulag við Húsafell 2. Deiliskipulagið tekur til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss sem meðal annars geta hýst steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að byggja upp legsteinasafn fyrir Húsafells legsteina frá 19. öld. Þjónustuhúsið getur auk þess hýst aðra menningartengda starfsemi á Húsafelli.“ Í greinargerð deiliskipulagsins var hið sama tekið fram en um skipulagssvæðið sagði þar eftirfarandi: „Skipulagssvæðið er á bæjarhlaði Húsafells 1, skammt vestan við Bæjargil við rætur Reyðarfells. Á skipulagssvæðinu er heimreið að gamla bænum, bílastæði, vinnusvæði umhverfis landbúnaðarbyggingar, fjárhús, súrheysturn, gömul tún og túngarður. Skammt utan við skipulagssvæðið er gistiheimilið Gamli bær og Húsafellskirkja.“

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst 2015 var samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli. Hinn 12. janúar 2016 samþykkti byggingarfulltrúi síðan leyfi til byggingar húss fyrir legsteinasafn við Bæjargil. Skaut kærandi síðar greindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem og samþykkt sveitarstjórnar um deiliskipulag Húsafells 2. Fór hann fram á ógildingu beggja ákvarðananna. Skírskotaði kærandi m.a. til þess að auglýst hefði verið röng tilgreining hinnar skipulögðu lóðar. Hinn 23. september 2016 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í málinu. Var þeim hluta kærunnar er laut að ógildingu deiliskipulagsins vísað frá nefndinni þar sem kæran hefði hvað það varðaði borist að liðnum kærufresti. Sætti byggingarleyfið hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar og hafnaði hún kröfu um ógildingu þess.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, fór kærandi fram á endurupptöku málsins en því var synjað með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. október s.á. Kvartaði kærandi yfir þeirri afgreiðslu til umboðsmanns Alþingis og lá álit setts umboðsmanns fyrir 23. október 2017 í máli nr. 9116/2016. Taldi settur umboðsmaður að úrskurðarnefndinni hefði borið að taka rökstudda afstöðu til þess hvort deiliskipulag það sem hefði verið grundvöllur byggingarleyfis fyrir legsteinasafn hefði verið gilt, þar með talið hvort það hefði verið birt með fullnægjandi hætti. Væri rökstuðningur nefndarinnar ekki í samræmi við 22. gr., sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ekki yrði séð hvort nefndin hefði að þessu leyti rannsakað málið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og reist niðurstöðu sína á réttum lagagrundvelli. Beindi settur umboðsmaður því til nefndarinnar að taka mál kæranda til meðferðar að nýju kæmi fram beiðni frá honum þess efnis og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.
Með tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar 24. október 2017 var óskað eftir endurupptöku kærumálsins með vísan til álits setts umboðsmanns Alþingis. Leitaði úrskurðarnefndin sjónarmiða aðila um framkomna beiðni og tók erindið svo fyrir á fundi nefndarinnar 28. febrúar 2018. Með hliðsjón af fyrrnefndu áliti setts umboðsmanns var það ákvörðun nefndarinnar að málið skyldi endurupptekið og úrskurður kveðinn upp í því að nýju. Var aðilum málsins tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 6. mars s.á., og þeim gefinn kostur á að tjá sig um atriði málsins, einkum þau er fram kæmu í nefndu áliti. Með bréfi, dags. 13. mars 2018, bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir kæranda sem og kröfur hans fyrir nefndinni, svo sem áður er rakið. Verður nú kveðinn upp efnisúrskurður í máli þessu að nýju.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann sé eigandi Húsafells 1 og reki þar gistiheimilið Gamla bæ. Bæjargil, landnúmer 221570, sé landspilda í landi Húsafells og liggi að Húsafelli 1, sunnan við Húsafellskirkju. Húsafell 2, landnúmer 178425, liggi norðan við Húsafell 1 og Húsafellskirkju. Leyfishafi sé bæði eigandi Bæjargils og Húsafells 2. Vegna legu og nálægðar Húsafells 1 við Bæjargil og þær byggingar sem fyrirhugað sé að reistar verði á grundvelli hins kærða deiliskipulags hafi kærandi lögvarða hagsmuni af máli þessu. Muni deiliskipulagið hafa áhrif á landnotkun og þéttleika byggðar á hinu deiliskipulagða svæði og á útsýni kæranda. Einnig muni fyrirhuguð starfsemi hafa í för með sér aukna umferð um land hans en aðkoma að Bæjargili sé um sameiginlegan veg frá Húsafellsvegi að Húsafellskirkju, gistiheimili og núverandi byggingum á lóð að Húsafelli 1. Aðkoma að safninu og vegghleðslur muni ná inn á land Gamla bæjar. Hafi kærandi ekki sýnt af sér neitt tómlæti í máli þessu heldur hafi hann þvert á móti sýnt skjót og ákveðin viðbrögð á öllum stigum málsins.

Með hliðsjón af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016 beri úrskurðarnefndinni að taka afstöðu til lögmætis hins kærða deiliskipulags. Það sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum. Skort hafi á kynningu og samráð við meðferð deiliskipulagstillögunnar. Í þessu sambandi sé m.a. vísað til 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og  4. mgr. 12. gr. sömu laga sem og til 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi ekki verið gætt að þeirri fortakslausri reglu 3. mgr. gr. 5.2.1. skipulagsreglugerðar að hafa samráð við eiganda þess lands er liggi að lóðamörkum. Samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins sé Gamli bærinn á Húsafelli 1 titlaður umsagnaraðili, en í skipulagsferlinu hafi kæranda hvorki verið tilkynnt um gerð deiliskipulagsins né haft samráð við hann.

Í 1. mgr. gr. 5.5.1. skipulagsreglugerðar komi fram að í titli skipulagsáætlunar skuli koma fram að um deiliskipulag sé að ræða og skuli titilinn vera lýsandi fyrir framkvæmdasvæði og staðsetningu innan sveitarfélags. Fram hafi komið í yfirskrift deiliskipulagsins og auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda að um væri að ræða Húsafell 2. Af deiliskipulagsuppdrætti megi þó sjá að deiliskipulagið taki til lóðarinnar Bæjargils en uppdrátturinn hafi ekki verið birtur með auglýsingunni. Vegna framangreinds annmarka hafi kærandi ekki kynnt sér að eigin frumkvæði efni skipulagstillögunnar á vinnslutíma hennar, enda hafi hann talið að tillagan varðaði Húsafell 2 en ekki Bæjargil, sbr. til hliðsjónar 12. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Stríði fyrrgreind málsmeðferð einnig gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins, og andmælareglu 13. gr. sömu laga, sbr. óskráða andmælareglu stjórnsýsluréttarins.

Umrætt deiliskipulag sé í andstöðu við gildandi Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 sem sé brot á 7. mgr. 12. gr. og 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Í aðalskipulagi komi fram að jörðin Húsafell sé á skilgreindu svæði fyrir verslun og þjónustu (reit S4) og að þar sé gert ráð fyrir verslun-, gisti- og veitingarekstri. Ekki sé gert ráð fyrir menningartengdri starfsemi á jörðinni og einvörðungu uppbyggingu mannvirkja sem þjóni svæðinu sem útivistarsvæði. Njóti jörðin hverfisverndar samkvæmt aðalskipulaginu. Sé tekið fram í skilmálum þess að þar skuli halda öllu raski í lágmarki og að við uppbyggingu skuli taka sérstakt tillit til vistkerfa sem falli undir 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999, nú lög nr. 60/2013. Þá segi að uppbygging mannvirkja sem þjóni svæðinu sem útivistarsvæði sé heimil að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. Ekki hafi verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt eða ákvarðanir teknar um að veita byggingarleyfi, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Fram komi í greinargerð deiliskipulagsins að það samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í aðalskipulaginu. Á hinn bóginn sé „það í samræmi við þá starfsemi sem þar er og hefur verið stunduð um árabil á skipulagssvæðinu“. Samkvæmt skipulagslögum skuli deiliskipulag fylgja stefnu aðalskipulags og hefði þurft að gera breytingar á aðalskipulaginu samhliða gerð deiliskipulagsins, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Ýmsir aðrir annmarkar séu hinu kærða deiliskipulagi, nafn Bæjargils sé hvorki skráð í greinargerð skipulagsáætlunarinnar né á uppdrætti, ósamræmi sé á milli hnita og uppdráttar og ekki sé fjallað um þinglýsta kvöð sem hvíli á leyfishafa. Þá hafi hvorki verið skilyrði til að samþykkja umrædd byggingaráform né útgáfu hinna kærðu byggingarleyfa, en ekki verði séð að við þær afgreiðslur hafi legið fyrir öll þau gögn sem lög um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012 áskilji.

Málsrök sveitarfélagsins:
Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli þess að lögvarðir hagsmunir kæranda séu ekki fyrir hendi. Til vara er gerð krafa um að ógildingu verði hafnað.

Endurupptaka máls hljóti eðli málsins samkvæmt að snúast um málið á upphaflegum forsendum þess. Í málatilbúnaði kæranda nú sé ekki vísað til neins af þeim hagsmunum sem hafi verið grundvöllurinn að upphaflegri kæru og áframhaldandi málarekstri kæranda fyrir nefndinni og umboðsmanni Alþingi. Eigi því ekki að líta til þeirra athugasemda kæranda sem nú komi fram heldur miða við forsendur upphaflega málsins að teknu tilliti til þess sem fram komi í áliti umboðsmanns Alþingis. Byggingarleyfi vegna umrædds pakkhúss hafi ekki verið hluti af upprunalegri kæru og geti því ekki komið til álita við úrlausn málsins fyrir nefndinni nú.

Þá beri að horfa til þess að ekki séu lengur fyrir hendi þeir hagsmunir sem upphaflega hafi verið vísað til, þ.e. varðandi bílastæði og staðsetningu legsteinasafnsins. Þinglýstri kvöð um skipulags- og bílastæðamál hafi verið aflýst og verði því ekki neinn réttur á henni byggður. Lagðar hafi verið fram nýjar mælingar af hálfu byggingarleyfishafa á staðsetningu legsteinasafnsins sem sýni með skýrum hætti að því hafi verið ranglega haldið fram að hús þess væri ekki innan byggingarreits eins og hann sé skilgreindur í deiliskipulagi. Verði úrskurðarnefndin að líta til þess að framangreind atvik hafi skýrst eða breyst verulega frá upphaflegri úrlausn málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eigi í ljósi þessa að vísa kærunni frá nefndinni á þeim grundvelli að kærandi eigi ekki, eða hafi jafnvel aldrei átt, þá lögvörðu hagsmuni af afgreiðslu málsins sem hann upphaflega hafi byggt málflutning sinn á og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geri kröfu um.

Ekki verði séð að landnotkun á hinu deiliskipulagða svæði muni með nokkrum hætti hafa áhrif á hagsmuni kæranda en hún verði sú sama og verið hafi. Umrædd lóð sé  9.100 m²  og á henni séu mannvirki sem samanlagt séu 300 m². Fyrirhugað byggingarmagn nýrra bygginga samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé að hámarki 390 m². Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði því 0,075. Með hliðsjón af þessu sé fráleitt að kærandi geti átt svo ríka hagsmuni vegna þéttingar byggðar í dreifbýli að þeir komi í veg fyrir að byggingarleyfishafi geti nýtt 7,5% lóðar sinnar undir mannvirki.
Hús þau sem fyrirhugað sé að reisa eða sem þegar séu risin hafi óveruleg áhrif á útsýni kæranda. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti sé legsteinasafnið u.þ.b. 35 m frá gistiheimili kæranda og nánast aðeins gafl þess verði sjáanlegur úr tveimur herbergjum gistiheimilisins. Áfram verði rúmt um gistiheimilið til allra átta. Eina útsýnið sem tapist sé upp í fjallshlíðina fyrir ofan húsin sem varla hafi verulega þýðingu við mat á verðmæti hússins að Húsafelli 1 eða nýtingarmöguleika þess. Jörðin Húsafell 1 sé 43.500 m² og því muni ný mannvirki að Bæjargili engin áhrif hafa á útsýni af langstærstum hluta jarðarinnar. Séu hagsmunir kæranda vegna þessa atriðis engir eða í besta falli svo óverulegir að þeir geti ekki talist lögvarðir.

Verði ekki með nokkru móti séð með hvaða hætti starfsemi að Bæjargili muni hafa í för með sér aukna umferð um land kæranda þar sem ekki þurfi að fara um land hans til að komast að fyrirhuguðum og núverandi mannvirkjum að Bæjargili. Þannig sé sá sameiginlegi vegur sem vísað sé til í athugasemdum kæranda að hluta til á landi austan við hið deiliskipulagða svæði, auk þess sem hann liggi jafnframt um land Bæjargils að nokkru leyti. Þá sé planið sjálft allt á landi Bæjargils að undanskilinni mjórri landræmu framan við gistiheimilið þar sem bílastæði kæranda séu. Fari akstur inn á skipulagða svæðið því ekki að neinu leyti um land kæranda. Því sé andmælt að ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram séu lagðar til grundvallar varðandi mat á þessu atriði.

Kærandi hafi alls ekki sýnt skjót viðbrögð í máli þessu. Framkvæmdir þær sem gert hafi verið ráð fyrir í deiliskipulagi hafi byrjað á árinu 2015, en fyrir liggi úttektarvottorð byggingarfulltrúa frá því í nóvember s.á. vegna framkvæmda við grunn undir svokallað pakkhús. Hafi kæranda verið send drög að deiliskipulagsuppdrætti um svipað leyti, en óumdeilanlegt sé að framkvæmdir við pakkhúsið hafi ekki getað farið fram án þess að kærandi hafi verið meðvitaður um þær.

Í titli auglýstrar lýsingar hafi verið vísað til landareignar kæranda og í því ljósi hafi kærandi haft fulla ástæðu til að kynna sér efni hennar. Í auglýsingu tillögu að nýju deiliskipulagi að Húsafelli 2 hafi komið fram í texta að um væri að ræða lóð í landi Húsafells 1 sem hafi gefið kæranda enn ríkari ástæðu til að kynna sér stöðu mála varðandi þá deiliskipulagsvinnu sem staðið hafi yfir á þeim tíma. Þrátt fyrir áðurnefndar auglýsingar og tilvísanir í þeim til Húsafells 1, hafi kærandi ekki séð ástæðu til að kynna sér stöðu mála eða aðhafast neitt í málinu þegar framkvæmdir við grunn undir fyrrnefnt pakkhús hafi hafist í aðeins 50 m fjarlægð frá gistiheimilinu. Landamörk jarðanna Húsafells 1 og 2 liggi saman á löngum kafla og í raun á miklu lengri kafla en landamerki Bæjargils og Húsafells 1. Sé því fráleitt að halda því fram að þar sem hið kærða deiliskipulag hafi verið auglýst undir nafni Húsafells 2, landnr. 178425, hafi það ekki gefið kæranda fulla ástæðu til að kynna sér efni hins kærða deiliskipulags fyrr en einu og hálfu ári eftir að það hafi verið staðfest í Stjórnartíðindum. Það að hið kærða deiliskipulag hafi verið ranglega auglýst undir nafninu Húsafell 2 í Stjórnartíðindum hafi því í raun engin áhrif haft á hagsmuni kæranda. Hann hefði strax átt að kynna sér skipulagsmál á aðliggjandi landi hefði hann haft á þeim einhverjar skoðanir. Ástæða þess að ekki virðist hafa verið leitað umsagnar kæranda sé ekki kunn.

Hafi kærandi sýnt af sér nægilegt tómlæti með því að koma ekki að kæru til nefndarinnar fyrr en í ágúst 2016 þar sem hann hafi mátt vita um stöðu mála að Bæjargili, eða í öllu falli haft fulla ástæðu til að kynna sér hana, miklu fyrr eða þegar framkvæmdir hófust. Í því ljósi hafi kærandi aukinheldur öðlast sérstaklega ríka ástæðu til þess þegar hann hafi fengið í hendur deiliskipulagsuppdrátt frá talsmanni byggingarleyfishafa síðla árs 2015. Í ljósi framangreinds skuli miða upphaf kærufrests, bæði vegna deiliskipulagsins sem og vegna byggingarleyfisins við 13. nóvember 2015, en þann dag hafi framkvæmdir sannanlega verið hafnar við pakkhúsið. Vegna þessa verði að líta svo á að kæra sé of seint fram komin vegna tómlætis kæranda.

Byggingarleyfishafi hafi hafið framkvæmdir með eðlilegar væntingar til gildis umrædds deiliskipulags og byggingarleyfis, útgefnu af þar til bæru yfirvaldi. Þær hafi staðið í um það bil ár án athugasemda kæranda þegar kæra hafi verið send nefndinni. Hafi byggingarleyfishafi því mátt vera í góðri trú um að öll tilskilin leyfi og formsatriði væru til staðar. Kunni framkvæmdir að verða unnar fyrir gíg verði kæran tekin til greina, rúmum þremur árum eftir gildistöku deiliskipulagsins og rúmu einu og hálfu ári eftir að úrskurður nefndarinnar um frávísun og synjun um endurupptöku málsins hafi legið fyrir. Samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina skuli úrskurðir hennar vera fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og hafi byggingarleyfishafi því eðlilega vænst þess að niðurstaða nefndarinnar væri endanleg.

Neikvæð áhrif hinna kærðu ákvarðana á eignarréttindi kæranda séu óveruleg eða jafnvel engin. Séu hagsmunir kæranda af ógildingu engir eða í það minnsta mjög óverulegir samanborið við geysimikla hagsmuni byggingarleyfishafa af því að geta nýtt lóð sína með þeim hófsama, ábyrga og tillitssama hætti sem raun beri vitni og hið kærða deiliskipulag geri ráð fyrir.

Málsmeðferðarreglum skipulagslaga sé ætlað að vernda beina, verulega og lögmæta hagsmuni þeirra sem skipulagáætlanir kunni að hafa bein áhrif á en slíkir hagsmunir séu ekki til staðar hér. Í ljósi þess telji sveitarfélagið ekki óeðlilegt að úrskurðarnefndin líti til þess við meðferð málsins að þó svo að leitað hefði verið umsagnar kæranda í þessu tilviki séu yfirgnæfandi líkur á því að sú umsögn hefði hvorki haft þau áhrif að deiliskipulagið hefði ekki verið samþykkt af sveitarfélaginu né komið í veg fyrir útgáfu byggingarleyfis vegna legsteinasafnsins þar sem  fyrirhuguð uppbygging að Bæjargili sé hófleg, skynsamleg og eðlilegt framhald á starfsemi sem hafi verið á svæðinu um nokkra hríð.

Ljóst sé að mistök hafi átt sér stað í málsmeðferð sveitarfélagsins hvað hið kærða deiliskipulag varði. Ekki skuli þó ógilda hinar kærðu ákvarðanir á þeim grundvelli einum að málsmeðferð vegna hinna kærðu ákvarðana kunni að hafa verið ófullnægjandi þegar kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að ógilding myndi þjóna verulegum lögvörðum hagsmunum hans. Þannig hafi mögulegur annmarki á málsmeðferð í raun ekki haft nein áhrif á efni þeirra ákvarðana sem sveitarfélagið hafi tekið í málinu. Ekki sé orsakasamband á milli þess að kærandi hafi ekki komið athugasemdum sínum á framfæri á meðan á málsmeðferðinni stóð og þess að sveitarstjórn hafi ákveðið að staðfesta hið kærða deiliskipulag. Sama eigi við um hið kærða byggingaleyfi.

Ekki sé hægt að fullyrða að nánar tilgreind gögn hafi ekki verið afhent sveitarfélaginu þegar sótt hafi verið um byggingarleyfi beggja húsanna eða útiloka að þau hafi ekki verið skráð og gengið frá þeim eins og verklagsreglur embættisins hafi gert ráð fyrir. Fari kærandi vísvitandi með rangt mál fyrir nefndinni varðandi staðsetningu og aukna umferð um land kæranda.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi tekur undir sjónarmið sveitarfélagsins í máli þessu. Sérstaklega sé tekið undir þær athugasemdir þar sem mótmælt sé nýjum málatilbúnaði kæranda, einkum þær er varði byggingarleyfi pakkhússins. Ótækt sé að kærandi geti aukið við kröfugerð sína  með þessum hætti og sé það til þess fallið að ógna réttaröryggi. Leyfishafi hafi í gegnum allt ferlið unnið samviskusamlega og verið í góðri trú um að hann væri að vinna verkið í samræmi við gildandi lög og reglur. Hafi öllum nauðsynlegum gögnum verið skilað inn til byggingaryfirvalda.
Athugasemdir kæranda við umsögn Borgarbyggðar: Kærandi bendir á að í athugasemdum sveitarfélagsins sé beinlínis viðurkennt að ekki hafi verið leitað umsagnar hans við gerð hins umþrætta deiliskipulags. Þar með hafi verið viðurkennt að brotið hafi verið gegn andmælareglu 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Leyfishafi hafi ekki framkvæmt í góðri trú. Mælingum sem sveitarfélagið hafi sent til úrskurðarnefndarinnar varðandi staðsetningu sé mótmælt.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags og byggingarleyfis vegna framkvæmda á landi aðliggjandi fasteignar kæranda þar sem hann rekur lítið gistiheimili og hefur yfir að ráða fimm bílastæðum. Er því svo lýst í hinu kærða deiliskipulagi að skipulagssvæðið sé á bæjarhlaði Húsafells 1 og enn fremur tekið fram að skammt utan við skipulagssvæðið sé gistiheimili kæranda. Framkvæmdir þær sem um ræðir eru að mestu á landbúnaðarlandi þar sem byggð verður upp menningartengd starfsemi. Er gert ráð fyrir 16 bílastæðum vegna hennar. Verður að telja kæranda hafa grenndarhagsmuni af þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er í dreifbýlinu og þeirri umferðaraukningu sem henni kann að fylgja.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 18. ágúst 2015 samþykkt umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil. Liggur fyrir úttektarvottorð byggingarfulltrúa frá því í nóvember s.á. vegna framkvæmda við grunn hússins. Hinn 3. ágúst 2016 barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra vegna deiliskipulags Húsafells 2 og samþykktar byggingaráforma fyrir húsi undir legsteinasafn, en ekki var kærð fyrrgreind ákvörðun um flutning pakkhúss. Hún hefur nú verið kærð með bréfi kæranda, dags. 13. mars 2018, en af hálfu sveitarfélagsins hefur því verið mótmælt að krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar komist að í málinu. Auk þess telur sveitarfélagið að líta beri fram hjá málsástæðum kæranda öðrum en þeim sem þegar hafi verið fram komnar af hans hálfu þegar fyrri úrskurður hafi verið kveðinn upp.

Svo sem fram hefur komið var mál þetta endurupptekið 28. febrúar 2018 í kjölfar álits setts umboðsmanns Alþingis. Við endurupptöku máls heldur meðferð þess áfram þar sem frá var horfið. Eðli máls samkvæmt eru þá undir þær ákvarðanir sem kærðar voru í öndverðu, en aðrar ekki. Skírlega kom fram í kæru að kært væri deiliskipulag og byggingarleyfi vegna legsteinasafns, en krafa um ógildingu byggingarleyfis vegna svokallaðs pakkhúss kom ekki fram fyrr en í bréfi kæranda 13. mars 2018. Verður að líta á það sem nýtt kæruefni. Er í því sambandi rétt að benda á að í viðbótarathugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. september 2016, þar sem svarað er athugasemdum leyfishafa frá 28. ágúst s.á., kemur fram að kærandi hefði haft vitneskju um nefnda framkvæmd. Hann hefði orðið var við jarðrask vegna þessa en óljóst hafi verið hvað þar ætti að framkvæma og það ekki verið kæranda til ama. Hins vegar hafi hann beint því til byggingarfulltrúa að þar væri um óleyfisframkvæmd að ræða. Hefði kæranda verið í lófa lagið að gera reka að því að kæra þá þegar leyfi vegna sömu framkvæmdar til úrskurðarnefndarinnar, en það gerði hann ekki. Kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis frá 18. ágúst 2015 vegna pakkhússins verður því vísað frá sem of seint fram kominni, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi vegna legsteinasafns sæta hins vegar lögmætisathugun nefndarinnar að nýju og skal í því sambandi áréttað að málsforræðisreglan á ekki við um meðferð kærumála í stjórnsýslunni og getur úrskurðarnefndin tekið sjálfstætt til skoðunar öll þau atriði sem áhrif geta haft á gildi kærðrar ákvörðunar óháð því hvort þær málsástæður hafa komið fram áður eða ekki, enda skal nefndin sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og kemur jafnframt fram í 2. mgr. að hafi slík auglýsing ekki verið birt innan árs frá því að athugasemdafresti lauk teljist deiliskipulagið ógilt. Í gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er að finna efnislega samhljóða ákvæði en í 2. mgr. ákvæðisins er auk þess tekið fram að í auglýsingu í Stjórnartíðindum skuli koma fram um hvaða deiliskipulag sé að ræða, meginefni þess og hvenær sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagið. Um réttaráhrif birtingar er fjallað í 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Í 1. mgr. nefndrar 8. gr. er tiltekið að fyrirmælum, er m.a. felast í auglýsingum, megi eigi beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum hafi farið fram og skuli birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag, sbr. 2. mgr. 8. gr. Réttaröryggissjónarmið búa að baki reglum um birtingu laga og fyrirmæla og hvenær þeim verði beitt. Eru þau sjónarmið m.a. reifuð í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 15/2005 og þar vísað til frekari umfjöllunar í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 64/1943 um birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Er svo tekið fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 15/2005 að ef undanskildir séu tveir tilgreindir dómar Hæstaréttar frá sjötta áratug 20. aldar hafi það verið staðföst/samfelld afstaða íslenskra dómstóla að óbirtum reglum í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum verði ekki beitt og gildi þá einu hvort um þær var kunnugt.

Í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 var birt auglýsing um „Nýtt deiliskipulag við Húsafell 2, landnúmer 178425.“ Í auglýsingunni var enn fremur tekið fram: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti 12. febrúar 2015 nýtt deiliskipulag við Húsafell 2. Deiliskipulagið tekur til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss sem meðal annars geta hýst steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli. Einnig er gert ráð fyrir að hægt verði að byggja upp legsteinasafn fyrir Húsafells legsteina frá 19. öld. Þjónustuhúsið getur auk þess hýst aðra menningartengda starfsemi á Húsafelli.“ Í auglýsingunni var réttilega greint frá því hvenær deiliskipulagið var samþykkt af sveitarstjórn og meginefni þess reifað í samræmi við nefnt ákvæði 2. mgr. gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Húsafell 2, landnúmer 178425, íbúðarhúsalóð sem er 6.726,3 m² að stærð. Er listamaður sá sem vísað er til í deiliskipulagsauglýsingunni eigandi Húsafells 2 og er hann jafnframt til húsa þar. Listamaðurinn er einnig eigandi Bæjargils, 9.104,0 m² lóðar með landnúmerinu 221570, þar sem eru vinnustofur, fjós og geymsla. Er það sú lóð þar sem fyrirhugað er að reisa mannvirki þau sem vísað er til í deiliskipulagsauglýsingunni og eru þau sýnd á deiliskipulagsuppdrætti sem ekki var birtur með auglýsingunni. Var því ranglega tilgreint í deiliskipulagsauglýsingunni hvaða landsvæði deiliskipulagið tæki til og skorti því á að í henni væri tilgreint með skýrum hætti um hvaða deiliskipulag væri að ræða, sbr. tilvitnað reglugerðarákvæði. Þá var ekki fjarstæðukennt að telja auglýsinguna rétta í ljósi eignarhalds á Húsafelli 2 og stærðar landsins, enda ekki óvarlegt að telja þau mannvirki sem tilgreind voru í deiliskipulagsauglýsingunni geta rúmast þar. Þótt umdeilt deiliskipulag varði fyrst og fremst hagsmuni aðila í næsta nágrenni, einkum leyfishafa og kæranda, verður ekki fram hjá því litið að með opinberri birtingu er skipulaginu beint að ótilteknum hópi og er því ætlað að binda almenning allan, sbr. þau lög og reglur sem áður eru rakin. Þótt leiða megi líkur að því með hliðsjón af málsatvikum að kæranda, sem kunnugur er staðháttum, hafi mátt vera ljóst í hvað stefndi þá verður, að teknu tilliti til þeirra réttaröryggissjónarmiða sem áður hafa verið reifuð, ekki hjá því komist að álykta sem svo að hið kærða deiliskipulag hafi ekki tekið gildi með lögformlega réttri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. mgr. gr. 5.7.3. í skipulagsreglugerð, sbr. og 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Að fenginni þeirri niðurstöðu liggur ljóst fyrir að vegna fyrirmæla 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga, sem áður hafa verið rakin, telst skipulagið ógilt. Þar sem ekki liggur fyrir í málinu gild skipulagsákvörðun er réttarverkan hefur að lögum verður kröfu kæranda um ógildingu hennar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í málinu er einnig deilt um gildi byggingarleyfis fyrir legsteinasafni sem veitt var 12. janúar 2016 á grundvelli umdeilds deiliskipulags. Þess skal gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi og er það jafnframt skilyrði fyrir útgáfu þess að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en eins og fram hefur komið er ekki í gildi deiliskipulag á svæðinu. Undanþágu hvað varðar ódeiliskipulögð svæði er að finna í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þar er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, geti sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar en þá að undangenginni grenndarkynningu. Í greinargerð hins umdeilda deiliskipulags er tekið fram að fyrirhugað deiliskipulag samræmist ekki þeirri stefnu sem sett sé fram í aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022, en hins vegar sé það í samræmi við þá starfsemi sem þar sé og hafi verið stunduð um árabil á deiliskipulagssvæðinu. Hvort sem hið kærða byggingarleyfi hefði átt sér stoð í aðalskipulagi eða ekki liggur fyrir að sú málsmeðferð sem fyrir er mælt í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga fór ekki fram. Á hið kærða byggingarleyfi sér því hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né fór málsmeðferð þess að undantekningarákvæðum skipulagslaga um grenndarkynningu. Verður byggingarleyfið þegar af þeim sökum fellt úr gildi.

Frekari gagnaöflun í máli þessu var að meginstefnu lokið í apríl 2018 en frekari dráttur hefur orðið á uppkvaðningu úrskurðar þessa sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

134/2018 Breiðdalshreppur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 22. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 134/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 um að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2018, er barst nefndinni 20. s.m., kærir eigandi, Brekkuborg, Breiðdalsvík, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 30. júlí 2018 að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Er þess krafist að í aðalskipulaginu verði lausaganga sauðfjár bönnuð.

Málsatvik og rök: Hinn 30. júlí 2018 samþykkti sveitarstjórn Fjarðabyggðar tillögu að Aðalskipulagi Breiðdalshrepps 2018-2030. Staðfesti Skipulagsstofnun aðalskipulagið 24. október s.á. og birtist auglýsing um gildistöku þess í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á.

Kærandi vísar til þess að í aðalskipulaginu sé lausaganga sauðfjár áfram heimiluð. Ísland sé aðili að bæði Kýótó-bókuninni og Parísarsáttmálanum og hafi því skuldbundið sig til að draga verulega úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þá sé það stefna sveitarstjórnar samkvæmt aðalskipulaginu að atvinnustarfsemi taki mið af umhverfisvænum sjónarmiðum. Ljóst sé að það þurfi mikið og samhent átak til áætlanir um kolefnisbindingu og úrdrætti á losun nái fram að ganga. Með banni við lausagöngu sauðfjár muni sveitarfélagið stíga ákveðið skref í átt að kolefnisjöfnun búgreinarinnar ásamt því að styðja vel við sín eigin markmið sem fram komi í aðalskipulaginu.

Atvik málsins lágu ljós fyrir og var því ekki leitað eftir gögnum eða sjónarmiðum sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra beri að nefndum lögum að staðfesta sæti ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hið kærða aðalskipulag staðfest af Skipulagsstofnun 24. október 2018 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. nóvember s.á. Samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

57/2018 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2018, föstudaginn 16. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 57/2018, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. apríl 2018, er barst nefndinni 20. s.m., framsendir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru eiganda Dröngum í Árneshreppi, dags. 13. mars 2018, að því er varðar þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. janúar 2018 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi Hvalárvirkjunar. Tillagan var lagfærð og samþykkti hreppsnefndin deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði 30. september 2018. Verður að líta svo á að sú ákvörðun sé kærð í máli þessu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. október 2018, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir landeigendur að Seljanesi og við Ingólfsfjörð sömu ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verður síðara kærumálið, sem er nr. 129/2018, sameinað kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi 30. apríl og 16. nóvember 2018.

Málsatvik og rök:
Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 15. ágúst 2017 var samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillögu ásamt umhverfisskýrslu fyrir Hvalárvirkjun. Var tillagan auglýst frá 1. september til 16. október 2017 og var athugasemdafrestur gefinn til sama tíma. Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 30. janúar 2018 var samþykkt með breytingum tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvalárvirkjun og tekin afstaða til þeirra athugasemda sem borist höfðu á athugasemdatíma. Tillagan mun hafa sætt lagfæringum og á fundi hreppsnefndarinnar 30. september 2018 var deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun ásamt umhverfisskýrslu samþykkt. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda 18. október s.á.

Kærendur byggja á því að hið kærða deiliskipulag og afgreiðsla þess sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess af hálfu hreppsnefndar Árneshrepps sé ógild eða ógildanleg.

Af hálfu Árneshrepps er bent á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. október 2018 eða einu ári og tveimur dögum eftir að athugasemdafresti við deiliskipulagstillöguna hafi lokið. Þótt dráttur á auglýsingu skipulags um tvo daga fram yfir ársfrest 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 virðist lítilsháttar formgalli þá verði að telja að í greininni felist afdráttarlaus afstaða löggjafans um að þessi ágalli leiði til ógildis deiliskipulags. Af hálfu Árneshrepps hafi því verið tekin ákvörðun um að endurtaka málsmeðferð um deiliskipulagstillöguna, sbr. ákvörðun hreppsnefndar, dags. 1. nóvember 2018. Líti hreppurinn ekki svo á að deiliskipulagið sé gilt og geti því ekki verið til staðar lögvarðir hagsmunir af því að kæra skipulagsákvörðunina. Geri Árneshreppur því þá kröfu að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september 2018 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun við Ófeigsfjörð.

Í 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti til deiliskipulagsins lauk telst deiliskipulags ógilt og fer þá um það í samræmi við 41. gr. Athugasemdafresti vegna hins kærða deiliskipulags lauk 16. október 2017 og birtist auglýsing um samþykkt þess í B-deild Stjórnartíðina 18. október 2018, eða rúmu ári eftir að athugasemdafresti lauk. Er ljóst með vísan til þess sem rakið hefur verið að hin kærða ákvörðun var ógild þegar auglýsing um hana var birt í B-deild Stjórnartíðinda og öðlaðist deiliskipulagið ekki gildi við birtinguna. Liggur því ekki fyrir í málinu gild ákvörðun er réttarverkan hefur að lögum og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, enda hafa kærendur hafa ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

37/2017 Heysholt

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Heysholt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 21. mars 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra eigandi Heimalands, eigandi Lækjarbotnum, eigandi Flagbjarnarholti, eigandi Svörtulofta 1 og eigandi Svörtulofta 2, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 12. október 2016 að samþykkja deiliskipulagsbreytingu fyrir Heysholt. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 24. ágúst 2018.

Málsatvik og rök:
Bújörðin Heysholt í Rangárþyngi ytra er 52,5 ha að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Með breytingu síðla árs 2011 á Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 var um 18 ha svæði úr jörðinni breytt í svæði fyrir frístundabyggð og um 7 ha svæði breytt í svæði fyrir verslun- og þjónustu, sem tengjast myndi ferðaþjónustu. Hinn 7. júní 2013 tók gildi deiliskipulag fyrir land Heysholts með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagssvæðið er syðst í landi Heysholts og er hverfisvernd á mýri norðan við svæðið. Svæðið er u.þ.b. 25 ha að stærð og tók deiliskipulagið til frístundabyggðar með 24 lóðum og 48 byggingum og verslun og þjónustu á tveimur lóðum með tveimur byggingum þar sem önnur þeirra lóða átti að vera til framtíðarþarfa svæðisins. Vestast á deiliskipulagssvæðinu var gert ráð fyrir svæði til mögulegrar stækkunar frístundarbyggðarinnar til framtíðar.

Á árinu 2016 var af hálfu landeiganda Heysholts lögð til breyting á deiliskipulaginu. Í stað einnar lóðar undir þyrpingu frístundahúsa og lóðar undir þjónustuhús var ætlunin að sameina þær lóðir í eina þar sem gert væri ráð fyrir hótelbyggingu. Tillaga að deiliskipulagsbreytingu þess efnis var auglýst í Lögbirtingablaðinu 3. ágúst 2016 og í svæðisblaðinu Búkollu 4.-10. s.m. með athugasemdafresti til 15. september s.á. Mun auglýsing einnig hafa verið birt í Morgunblaðinu. Deiliskipulagsbreytingin var samþykkt í sveitarstjórn Rangárþings ytra 12. október 2016 og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember s.á. Í febrúar 2017 sendi hópur landeigenda, þ. á m. kærendur, bréf til sveitarstjórnar þar sem deiliskipulagsbreytingunni var mótmælt, en þeir höfðu ekki sent athugasemdir við tillöguna á kynningartíma. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar 6. mars s.á. voru framkomnar athugasemdir til umræðu og var bókað að breyting hefði verið gerð á aðalskipulagi Rangárþings ytra í nóvember 2011, þar sem skilgreiningu á landnotkun á umræddu svæði hefði verið breytt í verslun og þjónustu. Skipulagsnefnd áréttaði að allra krafna um kynningu tillögunnar hefði verið gætt í auglýsingarferli hennar og að nefndin hefði ekki talið ástæðu til frekari kynninga en lögbundnar væru. Afstaða skipulagsnefndar var staðfest af sveitarstjórn á fundi hennar 8. s.m. Var landeigendum svarað af skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings ytra 14. mars 2017 og vísaði hann til framangreindrar afgreiðslu skipulagsnefndar og sveitarstjórnar. Í svari fulltrúans sagði einnig orðrétt „[a]ð gefnu tilefni vil ég benda á að kannað verði hvort hægt sé að kæra samþykkt sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála“.

Kærendur byggja á því að deiliskipulagsbreytingin hafi ekki verið auglýst með áberandi hætti og því hafi deiliskipulagið komið þeim í opna skjöldu. Hvorki hafi verið sent út dreifibréf né haldinn íbúafundur þótt ljóst væri að um umfangsmiklar framkvæmdir væri að ræða í miðju sveitahéraði. Nágrönnum hafi ekki verið kynnt efni hennar, líkt og kveðið sé á um að eigi að gera í gr. 5.2.1 og 5.2.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Að auki hafi hvorki sveitarfélagið né leyfishafi brugðist við athugasemdum sem borist hefðu frá Umhverfisstofnun varðandi framkvæmdina.

Af hálfu Rangárþings ytra er tekið fram að gætt hafi verið að öllum kröfum um kynningu tillögunnar í auglýsingarferli hennar og að ekki hafi verið talin þörf á frekari kynningum umfram það sem kveðið sé á um í skipulagslögum nr. 123/2010. Að öðru leyti taki sveitarfélagið undir sjónarmið leyfishafa.

Af hálfu leyfishafa er vísað til þess að skv. 38. og 43. gr. skipulagslaga beri sveitarstjórn ábyrgð á gerð og afgreiðslu deiliskipulags og deiliskipulagsbreytingum. Því svari sveitarstjórn Rangárþings ytra fyrir deiliskipulag Heysholts en ekki leyfishafi. Að auki bendi leyfishafi á að kæra hafi borist úrskurðarnefndinni þegar meira en mánuður var liðinn frá því að deiliskipulagsbreytingin sætti opinberri birtingu í B-deild Stjórnartíðinda og því hafi kærufrestur verið liðinn þegar kæra barst, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða:
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var tillaga að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu auglýst í fjölmiðlum í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og síðan birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. desember 2016. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 28. s.m., en frá þeim degi mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun. Þrátt fyrir það aðhöfðust kærendur ekki í málinu fyrr en með bréfi til sveitarstjórnar, dags. 27. febrúar 2017, og var þá þegar um mánuður liðinn frá lokum kærufrests. Var þeim þá bent á að kanna möguleika á kæru til úrskurðarnefndarinnar og kærðu þeir til hennar stuttu síðar. Það verður þó ekki fram hjá því litið að kæra í málinu barst hins vegar ekki úrskurðarnefndinni fyrr en um tveimur mánuðum eftir að kærufresti lauk, eða 27. mars 2017. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna verulegra tafa við gagnaöflun, sem og vegna mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

103/2018 Austurkór

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 15. nóvember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2018, kæra vegna framkvæmda Kópavogsbæjar við boltavöll og stígagerð við Austurkór, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júlí 2018, er barst nefndinni 30. s.m., kærir eigandi, Austurkór 90, Kópavogi, framkvæmdir Kópavogsbæjar við gerð boltavallar, göngustígs og aðkomuleiðar að fráveitukerfi við Austurkór. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að umræddar framkvæmdir verði úrskurðaðar ólögmætar og að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að færa slóða að fráveitulögnum í fyrra horf og endurskoða hæðarlegu boltavallarins. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 13. ágúst 2018.

Málavextir: Með tölvupósti 11. apríl 2018 til Kópavogsbæjar vakti kærandi athygli á að hafnar væru framkvæmdir við boltavöll neðan við húsin í Austurkór 88-92 og óskaði hann eftir upplýsingum um hvort völlurinn væri rétt staðsettur miðað við gildandi deiliskipulag. Var honum svarað af garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar að boltavöllurinn væri ekki rétt staðsettur þar sem fyrir mistök hefði völlurinn verið staðsettur samkvæmt eldra skipulagi, þ.e. nær lóðunum við Austurkór 88-92 en núgildandi skipulag gerði ráð fyrir. Staðsetning vallarins væri komin í endurskoðun og yrði framkvæmdin í samræmi við gildandi skipulag. Með dreifibréfi Kópavogsbæjar, dags. 12. apríl 2018, var íbúum við Austurkór 76-104 tilkynnt að framkvæmdir væru að hefjast við boltavöll norðan lóðanna Austurkórs 88-90 samkvæmt deiliskipulagi hverfisins. Samhliða yrði unnið að gerð göngustígs vestan lóðanna Austurkórs 76-86. Jafnframt yrði unnið að því að bæta aðgengi að fráveitulögnum norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Með tölvupósti til Kópavogsbæjar 21. apríl 2018 óskaði kærandi eftir upplýsingum varðandi stíginn sem verið væri að útbúa, þ.e. hvort gert væri ráð fyrir honum í samþykktu skipulagi. Í svarpósti garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar 2. maí s.á. vísaði hann í fyrrgreint dreifibréf þar sem fram kæmi að unnið væri að bættu aðgengi að fráveitulögnum. Janframt var vísað í meðfylgjandi loftmynd af svæðinu þar sem sjá mætti lagnirnar og brunnana.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að framkvæmdirnar séu ólögmætar. Lega og hæð boltavallarins sé hvorki í samræmi við deiliskipulag Rjúpnahæðar – Vesturhluta né aðalskipulag Kópavogsbæjar. Þá sé stígana hvorki að finna á skipulagsuppdráttum né um þá fjallað í greinargerð gildandi skipulags. Umræddur sparkvöllur muni hafa í för með sér skert útsýni úr íbúð kæranda og valda honum ónæði.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er byggt á því að vísa eigi málinu frá þar sem kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að kærufresti liðnum. Kærufrestur eigi að miðast við sendingu dreifibréfs, dags. 12. apríl 2018, þar sem íbúum hafi verið tilkynnt að hinar umdeildu framkvæmdir væru að hefjast, en kæranda hafi verið kunnugt um framkvæmdirnar frá þeim tíma. Framkvæmdir við boltavöllinn og göngustíginn séu að fullu í samræmi við gildandi skipulag, en slóði varðandi aðgengi að fráveitulögnum þurfi ekki að koma fram á deiliskipulagi. Þá telji sveitarfélagið að ekki hafi þurft að gefa út framkvæmdarleyfi fyrir framkvæmdunum, sem væru á vegum bæjarins.

Vettvangsskoðun: Úrskurðanefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 20. september 2018 að viðstöddum kæranda og fulltrúa bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Ekki liggur fyrir í máli þessu með hvaða hætti staðið var að ákvörðun um hinar umdeildu framkvæmdir en ekki er við að styðjast bókanir eða fundargerðir Kópavogsbæjar í því efni. Kæranda varð fyrst kunnugt um framkvæmdirnar er vinna hófst og var hann í kjölfar þess í samskiptum við bæjaryfirvöld vegna málsins. Í tilkynningu um framkvæmdirnar til íbúa, dags. 12. apríl 2018, og í tölvupósti garðyrkjustjóra bæjarins 2. maí s.á. var kæranda ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest í tilefni af ágreiningi um framkvæmdirnar í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálið því tekið til meðferðar á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem afsakanlegt verður talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að lagt verði fyrir Kópavogsbæ að færa slóða að fráveitulögnum í fyrra horf og að endurskoða hæðarlegu boltavallarins.

Í apríl 2018 hófu bæjaryfirvöld framkvæmdir við boltavöll, göngustíg og bætta aðkomu að fráveitulögnum í næsta nágrenni við íbúð kæranda. Ekki var þó gefið út sérstakt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 heldur var á því byggt að nægilegt væri að framkvæmdirnar ættu stoð í samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið.

Í gildandi deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð – Vesturhluta er gert ráð fyrir boltavelli norðan lóðanna Austurkórs 88-92. Deiliskipulagið var upphaflega samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 13. mars 2007 og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. maí s.á. Með deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs 24. maí 2011 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á. var gerð breyting á deiliskipulaginu. Var boltavöllurinn þar færður fjær lóðunum við Austurkór 88-92 og að hluta til út fyrir mörk þess svæðis sem skipulagið nær til. Aðrar upplýsingar um boltavöllinn en um staðsetningu hans er ekki að finna í skipulagi. Á deiliskipulagsuppdrætti er göngustígur vestan lóðanna Austurkórs 76-86, en ekki er þar gert ráð fyrir lagnastíg eða öðrum stíg norðan lóðanna Austurkórs 88-104. Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum og skoðun á vettvangi er umræddur boltavöllur minni en gert var ráð fyrir í deiliskipulagi. Hann mun vera 15,5×33 m að stærð og liggja allur innan þess svæðis sem gildandi deiliskipulag tekur til. Áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust var á svæðinu slóði að fráveitulögnum og hefur hann nú verið breikkaður og hækkaður og tengist nú áðurnefndum göngustíg, sem gert er ráð fyrir á deiliskipulagsuppdrætti og myndar aðkomuleið að boltavellinum.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, s.s. breytingar lands með jarðvegi. Jafnframt skulu slíkar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Við mat á því hvort framkvæmd telst meiri háttar skal hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Eru stígar og breytingar lands með jarðvegi, svo sem efnislosun og landmótun, meðal þeirra framkvæmda sem geta verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdir sem teljast óverulegar eru ekki háðar framkvæmdaleyfi en geta þó verið skipulagsskyldar, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt framansögðu fer það eftir aðstæðum, eðli, umfangi og áhrifum framkvæmdar á ásýnd lands og umhverfi hvort hún verði talin framkvæmdaleyfisskyld, þurfi að eiga stoð í skipulagi eða eftir atvikum þurfi ekki slíka stoð. Við það mat er rétt að hafa hliðsjón af ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um framsetningu skipulagsáætlana og hvaða framkvæmda skuli þar getið.

Boltavöllurinn er staðsettur í gróinni og brattri hlíð í næsta nágrenni við fjölbýlishús við Austurkór. Er 15,5 m breidd vallarins milli hæðarlína 105 og 108 m.y.s. Var hann byggður upp með jarðvegsfyllingu í hlíðinni til að ná honum sléttum og án hliðarhalla. Vegna þess mikla landhalla sem er á svæðinu hefur þurft verulegt magn jarðefnis í þá fyllingu og því um verulega landmótun að ræða. Þá er ljóst að boltavellinum fylgir umferð gangandi fólks um svæðið og allnokkur áhrif á næsta umhverfi, svo sem með tilliti til hljóðvistar vegna boltaleikja á vellinum. Í ljósi þessa verður að líta svo á að framkvæmdin við boltavöllinn hafi slík áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess svo verulega að telja verður að framkvæmdin hafi verið framkvæmdaleyfisskyld.

Ekki verður hins vegar talið að framkvæmdir við göngustíg á svæðinu séu háðar slíku leyfi en hann á stoð í gildandi deiliskipulagsuppdrætti og fylgir jarðvegsyfirborði. Lagfæring og uppbygging lagnastígsins eða slóðans sem fyrir var þykir það óveruleg framkvæmd og þess eðlis að ekki hafi verið nauðsyn á að gera grein fyrir honum í skipulagi.

Óheimilt er að hefja framkvæmdaleyfisskyldar framkvæmdir nema fyrir liggi samþykki sveitarfélagsins um útgáfu framkvæmdaleyfis og að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Eru sveitarfélög ekki undanþegin reglum um framkvæmdaleyfi vegna eigin framkvæmda.

Þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun um framkvæmdaleyfi í málinu er ekki til staðar stjórnvaldsákvörðun sem sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður af þeim sökum ekki komist hjá því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að ef framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið fengið fyrir henni er eftir atvikum unnt að leita atbeina skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmda, sbr. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi og 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga. Væri ákvörðun skipulagsfulltrúa þar að lútandi þá kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.