Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

124 og 128/2019 Elliðaárdalur norðan Stekkjarbakka

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2019, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. desember 2019, kæra 14 eigendur fasteigna við Fremristekk, Hólastekk, Urðarstekk og Skriðu­stekk í Reykjavík þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunar­svæði Þ73. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2019, er barst nefndinni 17. s.m., kæra tveir eigendur fasteignar við Fremristekk í Reykjavík sömu ákvörðun borgarstjórnar og krefjast ógildingar hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 128/2019, sameinað kærumáli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. janúar 2020.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2016 var lögð fram lýsing á deiliskipulagsbreytingu Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73, og hún samþykkt til kynningar og umsagnar með vísan til 1. mgr., sbr. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var ákvörðunin samþykkt á fundi borgarráðs 22. desember s.á. Að lokinni kynningu á lýsingu deiliskipulagsins var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. febrúar 2017. Voru umsagnir þeirra sem gerðu athugasemdir við lýsinguna á kynningartíma lagðar fram og málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Var málið síðan ítrekað tekið fyrir á fundum umhverfis- og skipulagsráðs og skipulags- og samgönguráðs frá 8. febrúar 2017 til 19. september 2018. Hinn 19. desember s.á. var á fundi skipulags- og samgönguráðs samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi borgarstjórnar 15. janúar 2019. Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl s.á og athugasemdir sem bárust á kynningartíma tillögunnar lagðar fram. Á fundi ráðsins 26. júní s.á. var tillagan lögð fram nýju og samþykkt með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. s.m. um þær athugasemdir sem borist höfðu. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 4. júlí 2019.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 30. október 2019 var lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 11. september s.á., þar sem gerð var athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda vegna tilgreindra atriða. Var einnig lögð fram og samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. september s.á., þar sem lagt var til að auglýst tillaga yrði samþykkt með breytingum og lagfærðum uppdráttum til samræmis við athuga­semdir Skipulagsstofnunar. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 7. nóvember s.á. og á fundi borgarstjórnar 19. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 25. nóvember 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við þá stefnu aðalskipulags varðandi þróunarsvæði Þ73 að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað og miðist við 1-2 hæðir. Ekki sé hægt að bera saman 9 m háar byggingar við hús sem séu 1-2 hæðir. Það orðalag deiliskipulagsins að hæðir mælist jafnaði frá botnplötu á aðkomu­hæð komi hvergi fram í aðalskipulagi. Fyrirhugaðar gróðurhvelfingar verði 4.500 m2 og hæð bygginga frá gólfi verði 20 m, en það geti ekki talist takmarkað. Mannvirkin verði heldur ekki í samræmi við aðalskipulag vegna ljósmengunar. Þá sé verslunar- og veitingarekstur að sama skapi ekki í samræmi við aðalskipulagið.

Hæð mannvirkjanna komi til með að byrgja fyrir útsýni kærenda til norðurs og muni það, ásamt ljósmengun, valda þeim fjárhagslegum skaða með tilliti til áhrifa á söluverðmæti fasteigna þeirra. Kærendur verði allir með mannvirkið í beinni sjónlínu frá sínum heimilum. Ljósmengunin muni hafa veruleg áhrif á rétt íbúa til að njóta útsýnis, ljósaskipta og skamm­degis. Fram komi í blaðaumfjöllun að gróðurhvelfingarnar muni líta út eins og ljóshnettir í landslaginu. Á það sé bent að áætluð fjarlægð frá lóðarmörkum fasteignar eins kærenda að lóð gróðurhvelfinganna séu tæpir 100 m. Mannvirkin komi til með að hafa aukna umferð í för með sér um Stekkjarbakka, sem sé einungis tveggja akreina stofnbraut, en kærendur fari þar mörgum sinnum á dag. Í blaðaviðtali hafi forsvarsmaður félags þess sem hyggist byggja hvelfingarnar sagst gera ráð fyrir 300.000-400.000 gestum á ári.

Loks sé vísað til þess að borgarfulltrúi hafi í blaðaviðtali upplýst að Garðheimar eigi að fá úthlutaða lóð nr. 1 á svæðinu undir starfsemi sína. Samkvæmt deiliskipulaginu sé ekki gert ráð fyrir neinum byggingum á lóð nr. 1. Sá formgalli varði ógildi deiliskipulagsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé gerð vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á þróunarsvæðinu í sam­ræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Í skilmálum deiliskipulagsins séu settar takmarkanir á mögulegri starfsemi, uppbyggingu, útliti fasteigna og meðferð á meng­andi ofanvatni og efnum en með því sé verið að vernda grænt yfirbragð Elliðaárdals, sem og vatnasvið Elliðaáa. Fyrirhuguð starfsemi teljist til grænnar starfsemi með sjálfbærni að leiðarljósi og sem slík sé hún í samræmi við markmið aðalskipulags. Mikilvægt sé að hafa í huga að með því að skilgreina landsvæði sem þróunarsvæði þá sé fyrirhugað að fara í enduruppbyggingu án þess að taka endanlega afstöðu til þess í hvaða mynd hún eigi að vera.

Í aðalskipulaginu sé kveðið á um að hæð mögulegra bygginga á svæðinu miðist við 1-2 hæðir, en um viðmið sé að ræða og feli það ekki í sér endanlega afmörkun á fjölda hæða. Glöggt komi fram á skýringaruppdráttum að verulegur landhalli sé á svæðinu sem leiði til þess að sá hluti hússins sem verði ofan aðkomuhæðar mildist verulega þar sem bæði Stekkjarbakki og byggðin fyrir ofan liggi hærra í landi. Að því leyti sé eðlilegt að kveða á um hámarkshæð byggingar frá aðkomuhæð, enda verði ekki séð að nokkur áhrif verði af þeim hluta byggingarinnar sem grafa megi niður. Raunveruleg sjónræn áhrif verði minni en ætla megi jafnvel þótt byggingin verði 9 m á hæð mælt frá aðkomuhæð vegna fyrrgreinds landhalla. Af sniðmyndum megi ráða að byggingarnar muni valda óverulegum áhrifum á nærliggjandi byggð. Bent sé á að við vinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi byggingarnar verið lækkaðar frá því sem fyrirhugað hafi verið auk þess sem byggingarreit hafi verið hnikað til suðurs, en markmiðið með þeim breytingum hafi verið að draga úr áhrifum bygginganna. Útsýni sé ekki lögverndaður réttur íbúa í borg og megi íbúar vænta þess að uppbygging og þróun byggðar kunni að skerða útsýni frá því sem áður hafi verið.

Sérstakar og ítarlegar skorður séu í skilmálum deiliskipulagsins varðandi ljósmagn, en með því sé tryggt að lýsingin valdi sem minnstum „lífeðlisfræðilegum og vistlegum vandamálum“ fyrir umhverfi og fólk. Rannsókn á núverandi ljósmengun á svæðinu hafi sýnt að ólíklegt sé að mengunin muni aukast við fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu. Í athugasemdum Skipulags­stofnunar við deiliskipulagstillöguna hafi verið talið að breyta þyrfti vísun til ÍST staðals og setja skilmála um mörk heimilaðs ljósmagns á svæðinu. Jafnframt hafi stofnunin talið að gera þyrfti viðbragðsáætlun ef ljósmagn reyndist vera meira en heimilað væri samkvæmt skil­málum skipulagsins. Vegna þeirra athugasemda hafi verið gerðar breytingar á tillögunni. Ljósmagn verði ekki meira en almennt megi vænta innan borgarmarka.

Hvað varði aukna umferð sé bent á að rekstraraðili á svæðinu fyrirhugi að nota „skutlur“ til að aka gestum til og frá svæðinu. Slíkt fyrirkomulag eigi að leiða til þess að umferðaraukning verði ekki veruleg. Þá séu engar heimildir til uppbyggingar á lóð nr. 1 á svæðinu og þyrfti að gera breytingu á deiliskipulaginu til að byggja mætti þar. Einnig sé bent á að skipulagslög nr. 123/2010 hafi að geyma lagalegt úrræði fyrir þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni við samþykkt deiliskipulagstillögu, sbr. 52. gr. laganna.

Athugasemdir Spors í sandinn ehf: Af hálfu félagsins er vísað til þess að það hafi beinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu nefndarinnar um kærumálin, en því hafi verið gefið vilyrði fyrir úthlutun lóðar nr. 3 á svæðinu Þ73 til byggingar gróðurhvelfinga. Þeir einir geti átt aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þetta skilyrði hafi verið skýrt þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Ekkert komi fram í kærunum sem styðji að kærendur eigi verulega og einstaklega hagsmuni umfram aðra af hinni kærðu ákvörðun. Kærendur eigi það sameiginlegt að vera eigendur fasteigna í svokölluðu Stekkjarhverfi í Reykjavík. Frá fasteignum kærenda og að næstu mörkum svæðis Þ73 séu á bilinu u.þ.b. 100 m til nokkra hundraða metra. Á milli fasteigna kærenda og svæðis Þ73 liggi mikil umferðargata sem um fari u.þ.b. 20.000 bifreiðar á degi hverjum. Hljóðvistarkort sýni að hávaði frá umferð til nærliggjandi byggðar í Stekkjum sé um 62 dB. Syðst á svæði Þ73, á milli Stekkjahverfis og skipulagðra byggingarreita, sé hár trjágróður sem að mestu sé hærri en byggingar sem þar eigi að rísa samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. Álitaefni um samræmi deiliskipulags við aðalskipulag skjóti engum stoðum undir lögvarða hagsmuni kærenda af úrlausn málsins. Kærendur eigi ekki fasteignir á deiliskipulagssvæðinu. Auk þess hafi þeir ekki getað haft lögmætar væntingar til þess að aldrei yrðu reistar byggingar á svæði Þ73 sem hefðu áhrif á útsýni þeirra til norðurs, að eingöngu yrðu reistar óupplýstar byggingar eða byggingar sem hefðu engin áhrif á umferð um Stekkjarbakka. Sjálfstæður réttur kærenda til kæruaðildar geti ekki risið fyrr en og ef til þess komi að veitt verði byggingarleyfi fyrir gróðurhvelfingunum. Kærendur geti ekki haft hagsmuni af því að fá fellt úr gildi deiliskipulag vegna óljósra og rangra hugmynda þeirra um áhrif fyrirhugaðra mannvirkja sem enn hafi ekki verið fullhönnuð eða fjármögnuð. Þá geti vangaveltur kærenda um mögulega úthlutun lóðar nr. 1 á svæðinu fyrir starfsemi Garðheima enga aðild veitt að málinu. Ekkert liggi fyrir um slíka úthlutun og komi til hennar þurfi til þess deiliskipulagsbreytingu.

Verði málinu ekki vísað frá telji leyfishafi að hafna beri kröfum kærenda. Deiliskipulagið gangi ekki gegn því orðalagi gildandi aðalskipulags að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað með hliðsjón af stærð hinnar skipulögðu lóðar. Aðalskipulagið kveði ekki á um afgerandi hæðarviðmið. Ekki sé fjallað um frá hvaða hæðarpunkti mishæðótts landslagsins skuli miða við að byggingar megi vera 1-2 hæðir, hversu há í metrum hver hæð skuli teljast eða hvert þakform megi vera. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmda­leyfis, sbr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist m.a. skv. b-lið gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að í deiliskipulagi, ekki aðalskipulagi, skuli setja skilmála um stærð bygginga og hæðarfjölda ofan og neðan jarðar. Af hinum samþykkta deiliskipulags­uppdrætti megi sjá að skipulagið uppfylli allar kröfur sem til þess séu gerðar hvað varði tilgreiningu á hæð bygginga og hafi niðurgrafni hluti gróðurhvelfinganna að sjálfsögðu engin sjónræn áhrif. Ljósmengun á svæði Þ73 sé í dag töluverð og ólíklegt að hún aukist mikið með tilkomu fyrirhugaðra bygginga. Myrkramæling hafi verið framkvæmd og núverandi ástand svæðis Þ73 myndi flokkast sem slæm umhverfislýsing borgar og sé ljósmengunin á svæðinu yfir meðaltali ljósmengunar í Reykjavík. Skilmálar deiliskipulagsins tryggi að ljósmengun frá starfseminni verði innan marka samkvæmt staðli ÍST EN 12464-2:2007 um utanhússlýsingu og hönnunarleiðbeiningum ILE (The Institution of Lighting Engineers: Guidance notes for the reduction of obstructive light). Aðalskipulagið heimili starfsemi sem tengist „grænni starfsemi“ og fari fyrirhuguð starfsemi ekki í bága við það, en hún muni fela í sér aðgang að gróðurvin með plöntum frá heitari löndum í miðjarðarhafsloftslagi, að stórum hluta án kostnaðar fyrir gesti en að nokkrum hluta gegn endurgjaldi, auk þess að selja gestum veitingar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í greinargerð borgaryfirvalda sé ekkert fjallað um byggingarmagnið sem fyrirhugað sé að byggja á lóðinni, en það byggingar­magn sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Sérstök ákvæði í skilmálum deiliskipulagsins um ljósmengun hafi enga þýðingu þar sem engar mælingar liggi fyrir sem réttlætt geti byggingu gróðurhvelfinganna á þessum stað. Þær myrkramælingar sem borgaryfirvöld vísi til hafi ekki verið birtar. Röksemd borgaryfirvalda um að skutlur eigi að leysa vanda sem fylgi umferðarþunga sé haldlaus á meðan rekstraraðili hafi það alfarið í hendi sér að framkvæma með þeim hætti.

Kærendur krefjist þess að athugasemdir Spors í sandinn ehf. verði ekki hluti af máli þessu þar sem félagið sé ekki aðili kærumálsins. Kærunum sé beint að Reykjavíkurborg en ekki félaginu og geti lóðarvilyrði borgaryfirvalda ekki gert það að aðila málsins, enda hafi það ekki lýst afdráttarlausum vilja til að nýta sér lóðina. Kærendur geri engar athugasemdir við fyrirætlanir félagsins en mótmæli harðlega fyrirætlunum borgaryfirvalda. Í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri nefndinni að gefa Garðyrkjufélagi Íslands sama tækifæri til að koma að athugasemdum. Aðalskipulagið kveði skýrt á um að umfang hverrar byggingar fyrir sig skuli vera takmarkað og sé því til lítils að reikna út hlutfall fyrirhugaðra bygginga á svæðinu miðað við svæðið í heild sinni. Félagið víki sér undan að fjalla um fyrirhugaðan verslunar- og veitingarekstur, en verði mannvirkið að veruleika verði um að ræða stærstu mathöll landsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæðis Þ73. Felur breytingin m.a. í sér að skilgreina byggingar­lóð fyrir gróðurhvelfingar á vegum félagsins Spor í sandinn ehf. samkvæmt fyrirliggjandi lóðarvilyrði og snúa málsrök kærenda nær einvörðungu að þeirri breytingu skipulagsins. Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem félagið hefur að gæta vegna hinnar kærðu ákvörðunar, sem og þeirri rannsóknarskyldu sem hvílir á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, var félaginu gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kæranna.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinni kærðu deiliskipulags­breytingu verður að líta til þess að hús þeirra standa bæði ofar í landi og að lágmarki í tæplega 100 m fjarlægð frá þeim gróðurhvelfingum og öðrum mannvirkjum sem áætlað er að byggja. Skilur nokkur trjágróður svo og þung umferðargata með tilheyrandi götulýsingu á milli húsa kærenda og umrædds deiliskipulagssvæðis. Þau mannvirki sem deiliskipulagið heimilar að byggja munu þó verða í sjónlínu frá flestum húsum kærenda. Ekki verður séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda húsin í talsverðri fjarlægð frá skipulagssvæðinu. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif vegna aukinnar umferðar verði teljandi með hliðsjón af þeirri umferð sem fyrir er. Þrátt fyrir að ásýnd þess landsvæðis þar sem fyrirhugað er að reisa upplýstar gróðurhvelfingarnar og aðrar byggingar muni breytast verður ekki talið, að virtum fyrrnefndum staðháttum, að grenndaráhrif útsýnisbreytinganna séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kærenda á þann veg að þeir eigi þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi þeim kæruaðild. Þar sem kærendur hafa ekki þeirra verulegu hagsmuna að gæta sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, og aðrar þær ástæður liggja ekki fyrir sem leitt geta til hennar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

97/2019 Bjarg, Skútustaðahreppur

Með

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. júní 2019 um að hafna erindi um að lóðin Hraunvegur 6, Skútustaðahreppi, verði undanskilin leigusamningi, dags. 20. febrúar 1969.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, Mývatnssveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. júní 2019 að hafna erindi kærenda um að lóðin Hraunvegur 6, Skútustaðahreppi, verði undanskilin leigu­samningi, dags. 20. febrúar 1969. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 9. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 1992 gerði móðir kærenda, fyrrverandi eigandi lögbýlisins Bjargs, samkomulag við Skútustaðahrepp um veitingu stöðuleyfis fyrir rekstri matsölustaðar „á lóð sunnan lóðar K.Þ. við þjóðveg 87“. Um er að ræða lóðina Hraunveg 6, en í kæru er vísað til hennar sem „braggalóðar“. Í 3. gr. samningsins er tiltekið að lóðin sé ekki „undanskilin í landleigusamningi Skútustaðahrepps og eigenda Reykjahlíðar frá 1967, en aðilar eru sammála um að ganga formlega frá eignarhaldi og nýtingarrétti lögbýlisins Bjargs á þessari lóð að fengnu formlegu samþykki annarra eigenda Reykjahlíðar“. Samþykki landeigenda fyrir því að Hraunvegur 6 yrði séreign Bjargs var veitt með samkomulagi, dags. 12. maí 1994. Kærendur telja að Skútustaðahreppur hafi ekki staðið við þann hluta samkomulagsins frá 1992 er varði nýtingarrétt hinnar svokölluðu braggalóðar. Hinn 26. mars 2019 fóru kærendur fram á það við Skútustaðahrepp að staðið yrði við samkomulagið um að skilja braggalóðina undan leigu­samningnum frá 1969. Því erindi var hafnað með ákvörðun sveitarstjórnar frá 26. júní 2019 og er það sú ákvörðun sem kærð er.

Kærendur vísa til hinnar óskrifuðu meginreglu um skuldbindingargildi samninga. Samkomulag kærenda við Skútustaðahrepp frá 1992 sé í eðli sínu samningur og aðilum þess beri því að virða efni hans á grundvelli meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga. Báðir aðilar hafi gefið ótvíræð loforð og tekið á sig gagnkvæma efndaskyldu. Skútustaðahreppur hafi skuldbindið sig til að veita lögbýlinu Bjargi nýtingarrétt á braggalóðinni. Skuldbindingu þessa geti Skútustaða­hreppur ekki vanefnt nema að hann sýni fram á að ógildingarreglur samningaréttar eigi við eða að riftunarskilyrði séu fyrir hendi. Ákvæði 3. gr. samkomulagsins frá 1992 verði ekki skilin á annan veg en að forsvarsmaður Skútustaðahrepps hafi skuldbundið hreppinn til þess að veita eigendum lögbýlisins Bjargs eignarhald á og nýtingarrétt yfir lóð þeirri sem deilt sé um.

Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæruefni málsins falli ekki undir kæruheimildir laga á sviði umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Ákvarðanatakan sem kæran vísi til feli í sér viðbrögð við einkaréttarlegum ágreiningi sem gögn málsins beri með sér að sveitarfélagið hafi tekið afstöðu til og hafnað sjónarmiðum kærenda. Draga megi í efa að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða en í öllu falli hvíli hún ekki á löggjöf sem heimili kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar lögum samkvæmt.

Álitaefni það sem hér er til meðferðar varðar ágreining um réttindi sem leidd eru af samningum einkaréttarlegs eðlis milli Skútustaðahrepps og kærenda. Er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr slíkum ágreiningi og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

42/2019 Strandavegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2019, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðar­kaupstaðar frá 13. maí 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2019, er barst nefndinni 7. s.m., kærir eigandi, Hánefsstöðum, Seyðisfirði, þá ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 13. maí 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum innanhúss og breyttri notkun hússins að Strandarvegi 13, Seyðisfirði. Er gerð krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seyðisfjarðarkaupstað 11. september 2019.

Málsatvik og rök: Sjálfseignarstofnunin LungaA-skólinn er eigandi hússins að Strandarvegi 13. Samkvæmt gögnum málsins var húsnæðið áður í eigu Síldarvinnslunnar hf., en félagið færði skólanum það að gjöf árið 2018. Árið 2019 sótti skólinn um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæðinu innanhúss ásamt breytingu á notkun þess í geymslur og vinnustofur fyrir skólann. Með umsókninni fylgdu reyndarteikningar, dags. 30. apríl 2019, ásamt öðrum gögnum. Byggingarleyfis­umsóknin var tekin fyrir á fundi umhverfisnefndar 13. maí 2019 og var hún samþykkt með þeim rökum að notkunin kallaði ekki á aukna viðveru fólks miðað við fyrri notkun hússins. Var byggingarfulltrúa falið að gefa út leyfi þegar öll tilskilin gögn lægju fyrir.

Kærandi telur verulegan vafa leika á lögmæti samþykktar umhverfisnefndar bæjarins. Breytingar á notkun hússins sem skólahúsnæðis í stað geymsluhúsnæðis samræmist ekki landnotkun svæðisins samkvæmt aðalskipulagi en þar sé hafnarsvæði. Breytingin sé auk þess hvorki í samræmi við lög né reglugerð um varnir gegn ofanflóðum og teikningar að breytingum á húsinu í skólahúsnæði uppfylli ekki kröfur laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingar­reglugerðar nr. 112/2012.

Kærandi telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu en hann sé kjörinn bæjarfulltrúi sveitarfélagsins, sbr. 2. mgr. 24. gr. og 25. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sem fjalli um almennar skyldur sveitarstjórnarmanna og sjálfstæði þeirra í starfi. Óhjákvæmilegt sé að fá úr málinu skorið með hliðsjón af þeim stórfelldu almanna- og öryggishagsmunum sem séu undir í málinu, sbr. hættumat vegna ofanflóða fyrir Seyðisfjarðar­kaupstað.

Bæjaryfirvöld benda á að umrætt húsnæði sé skilgreint sem vinnustofur og geymslur en ekki sem skólahúsnæði og að viðvera í húsinu yrði ekki meiri en áður hafi verið. Fjöldi fólks starfi á svæðinu í kring, sem einnig sé skilgreint sem C-svæði hættumats snjóflóða og aurskriða. Mikilvægara sé að efla viðbragðsáætlanir frekar en að hefta nýtingu á húsnæðinu sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls, umfram aðra, og að þeir hagsmunir séu verulegir.

Málsrök kæranda lúta fyrst og fremst að almannahagsmunum en ekki liggur fyrir með hvaða hætti umdeild ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar snertir persónulega lögvarða hagsmuni hans. Kærandi á ekki heimili í nágrenni við þá fasteign sem hin breytta notkun tekur til og getur því ekki átt kæruaðild á grundvelli grenndarhagsmuna. Sú staðreynd að kærandi er starfandi sveitarstjórnarmaður veitir honum ekki að lögum aðild að kærumáli þessu án þess að hann uppfylli áðurnefnt skilyrði um lögvarða hagsmuni.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi uppfyllir ekki skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

10/2019 Kerhraun

Með

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. desember 2018 um að hafna breytingu á skráningu húss að Ker­hrauni C103/104 úr sumarhúsi í íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Kerhrauns C103/104 þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 19. desember 2018 að hafna breytingu á skráningu hússins að Kerhrauni C103/104 úr sumarhúsi í íbúðarhús. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ólögmæt og að úrskurðað verði að skráningu sumarhússins að Kerhrauni C103/104 verði breytt í íbúðarhús.

Gögn málsins bárust frá Grímsnes- og Grafningshreppi 19. febrúar 2019.

Málavextir: Kærandi sendi Grímsnes- og Grafningshreppi erindi, dags. 3. desember 2018, þar sem óskað var eftir því að breytt yrði skráningu á sumarhúsi hans á lóðinni Kerhrauni C103/104 í íbúðarhús. Sveitarstjórn tók erindið fyrir á fundi 19. s.m. og hafnaði því með vísan til þess að umrædd lóð væri í skipulagðri frístundabyggð. Kæranda var tilkynnt um synjunina með bréfi, dags. 20. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps hinn 2. október 2013 hafi sambærilegt erindi og hér um ræði verið samþykkt, þar sem Snæfoks­stöðum 99 hafi verið breytt úr sumarbústað í einbýlishús. Ráða megi af fundargerð sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps við þá afgreiðslu að hún telji það óverulega breytingu að breyta sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála, enda skuli allir vera jafnir fyrir lögum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarstjórnin bendir á að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun. Kærufrestur í máli þessu hafi því verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Þá hafi erindi kæranda til sveitarstjórnar falið í sér fyrirspurn um a.m.k. óverulega breytingu á aðalskipulagi. Lóð kæranda sé í skipulagðri frístundabyggð og því hefði þurft að breyta aðalskipulagi til þess að unnt væri að fallast á breytta skráningu. Málefni varðandi aðalskipulag eigi ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar og beri því að vísa kærunni frá skv. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 29. og 38. gr. þeirra laga sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð aðal- og deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja aðalskipulag sem og deiliskipulag, sbr. 20. gr. og 40.-42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 36. og 43. gr. þeirra, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 439/2012. Af þessu leiði að sá sem óski eftir aðal- og/eða deili­skipulagsbreytingu eigi ekki heimtingu á að sú breyting fáist samþykkt. Lóðarhafar hafi þannig ekki einhliða rétt til skipulagsbreytingar óháð afstöðu þeirra sem hagsmuna eigi að gæta.

Að baki synjun á erindi kæranda séu bæði skipulagsrök og málefnaleg sjónarmið. Lóð kæranda sé staðsett í mjög stóru hverfi fyrir skipulagða frístundabyggð. Skipulagssvæðið sé í heild um 107 ha og telji 130 frístundalóðir á svæðum A, B og C. Sveitarstjórn hafi ekki heimilað breytta landnotkun stakrar lóðar við slíkar aðstæður. Varðandi lóðir nr. 99 og 100 að Snæfoks­stöðum (Rauðhólahverfi) þá séu aðstæður þar allt aðrar en í tilviki frístundabyggðarinnar við Kerhraun. Samþykkt hafi verið að breyta notkun þessara tveggja lóða úr frístundabyggð í landbúnaðarsvæði til samræmis við aðliggjandi svæði þar sem mjög stutt sé í aðalveg og gott að þjónusta lóðirnar með tilliti til fastrar búsetu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi tekur fram að honum hafi ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en 26. janúar 2019, en kæran hafi verið lögð fram innan mánaðar frá þeim tíma. Því beri ekki að vísa kærunni frá. Þá sé ljóst að hin kærða ákvörðun sé ekki á hendi Skipulags­stofnunar og ráðherra og því eigi 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga ekki við.

Rétt sé að sveitarstjórnir taki endanlega ákvörðun um aðal- og deiliskipulagsbreytingar en slík ákvörðun verði ekki byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum, sbr. tilvitnaðan Hæstaréttardóm. Ekki sé málefnalegt að líta til þess hversu nálægt landbúnaðarsvæðum lóðir liggi eða til þess hversu langt sé í aðalveg. Ef engin lög eða reglugerðir styðji þessi sjónarmið verði að telja þau ómálefnaleg. Að lokum skuli á það bent að lóð kæranda liggi einnig að landbúnaðarsvæði.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kærða ákvörðun. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina með tölvupósti, 20. desember 2018. Kærandi kveðst hafa verið erlendis frá 11. desember 2018 til 15. janúar 2019 og ekki hafa skoðað tölvupóst fyrr en að hann hafi komið heim til Íslands. Kærandi átti þess kost allt að einu að kynna sér efni tölvupóstsins sem honum hafði verið sendur 20. desember 2018 og var kærufrestur því liðinn þegar kæra í máli þessu barst úrskurðar­nefndinni. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal þó ekki vísa kæru frá af þeim sökum ef afsakanlegt verði talið að hún hafi borist að liðnum kærufresti. Áskilið er í 1. og 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga að í skriflegri tilkynningu til aðila um ákvörðun skuli leiðbeina um kæruheimild, kærufresti og hvert beina skuli kæru. Kæranda voru ekki veittar slíkar leiðbeiningar og verður máli þessu því ekki vísað frá með hliðsjón af tilvitnuðu ákvæði stjórnsýslulaga.

Með erindi kæranda, dags. 3. desember 2018, óskaði hann eftir „að fá að breyta skráningu á húsi [s]ínu í íbúðarhús enda uppfyllir húsið ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhús“. Líta verður svo á að í erindi hans hafi falist umsókn um byggingarleyfi enda er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga er sveitarstjórn heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Í 6. mgr. 7. gr. kemur og fram að samþykkt sem sé sett samkvæmt þessari grein skuli lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skuli hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkja­stofnun. Umsókn um byggingarleyfi skal beint til byggingarfulltrúa skv. 10. gr. laganna og skal hann tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr.

Í gildi er samþykkt um stjórn og fundarsköp Grímsnes- og Grafningshrepps nr. 757/2013. Samkvæmt 1. mgr. 3. tölul. B-liðar 40. gr. samþykktarinnar skipa Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverja­hreppur sameiginlega sex manna skipulagsnefnd uppsveita skv. sérstökum samningi þar að lútandi. Í 2. mgr. sama ákvæðis kemur fram að nefndin fari með skipulagsmál skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarmál skv. 7. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 1. mgr. 4. tölul. B-liðar 40. gr. samþykktarinnar segir að sömu sveitarfélög og að framan greinir fari með stjórn embættis skipulagsfulltrúa uppsveita bs. samkvæmt sérstökum samningi. Þá kemur fram í 2. mgr. þess ákvæðis að framsals- og valdheimildir til skipulagsnefndar uppsveita bs. og skipulags- og byggingarfulltrúa byggðasamlagsins fari eftir ákvæðum samnings og samþykkta fyrir skipu­lagsfulltrúa uppsveita bs.

Samkvæmt 2. mgr. 92. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 skal samvinna sveitarfélaga ávallt grundvallast á samningi viðeigandi sveitarfélaga sem ekki öðlast gildi fyrr en hann hefur fengið staðfestingu viðkomandi sveitarstjórna. Samkvæmt 1. mgr. 93. gr. sömu laga skulu samningar um samvinnu sveitarfélaga sem framselja vald til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga einnig fá staðfestingu ráðuneytis. Í 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að í B-deild Stjórnartíðinda skuli birta reglugerðir, samþykktir og auglýsingar sem staðfestar eru af ráðherra. Framangreind ákvæði sveitarstjórnarlaga gilda almennt um starfsemi byggðasamlaga en byggðasamlög byggja á samningi milli sveitarfélaga, sbr. m.a. 3. mgr. 94. gr. laganna.

Samþykkt fyrir byggðasamlagið Skipulags- og byggingarfulltrúi uppsveita bs., dags. 9. júní 2016, fjallar nánar um hlutverk byggingarfulltrúa byggðasamlagsins. Hvergi í samþykktinni er kveðið á um að samþykki sveitarstjórna aðildarsveitarfélaganna þurfi fyrir veitingu byggingarleyfis né að sveitarstjórn komi að þeim málum yfir höfuð. Ekki verður séð að framangreindur samningur hafi verið birtur í B-deild Stjórnartíðinda. Þá eru hvorki samþykktir þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að byggðasamlagi uppsveita né byggðasamlagsins á lista Mannvirkjastofnunar yfir samþykktir sveitarfélaga sem gerðar hafa verið á grundvelli 7. gr. mannvirkjalaga. Að lokum liggur fyrir að hvorki skipulagsnefnd né skipulagsfulltrúi byggðasamlagsins hefur tekið erindi kæranda fyrir. Þar sem ekki er til staðar samþykkt sem uppfyllir kröfur 7. gr. mannvirkjalaga er það byggingarfulltrúi sem tekur ákvörðun um byggingarleyfisumsóknir.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Byggingarfulltrúi, sem lögum samkvæmt er bær til að taka ákvörðun um breytta notkun mannvirkis skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga hefur ekki tekið ákvörðun í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður slík ákvörðun ekki borin undir úrskurðar­nefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kæranda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

40/2019 Suðurgata

Með

Árið 2020, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 40/2019, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. maí 2019, um að krefjast lagfæringar á skólplögn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júní 2019, er barst nefndinni 5. s.m. kærir húsfélagið Suðurgötu 15 Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. maí 2019, að fara fram á að skólplögn yrði lagfærð eins fljótt og auðið væri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 28. júní 2019.

Málavextir: Hinn 18. september 2018 hafði íbúi Tjarnargötu 10c samband við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og kvartaði yfir því að leki eða smit væri komið að pottröri sem virtist liggja frá húsum við Suðurgötu. Í kjölfar skoðunar sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur húsfélagi Suðurgötu 13 bréf 25. s.m. þar sem tekið var fram að lögn sú sem um ræddi lægi frá Suðurgötu 13 í gegnum sameiginlegan bakgarð og svo í gegnum Tjarnargötu 10c. Húseigendur væru ábyrgir fyrir lagfæringum og viðhaldi á þeim frárennslislögnum sem lægju frá eignum þeirra. Farið var fram á að skólplögnin yrði lagfærð þá þegar og tekið fram að viðgerð skyldi lokið eigi síðar en 10. október s.á. Húsfélaginu var síðar veittur aukinn frestur. Í framhaldi af því var lögnin mynduð og samkvæmt skoðunarmanni, sem myndaði 20 m af 27 m af lögninni, var hún sigin. Staðfesti hann jafnframt að lögnin tilheyrði einnig Suðurgötu 15.

Í samhljóða bréfum heilbrigðiseftirlitsins, dags. 12. október 2018, til húsfélaganna Suðurgötu 13 annars vegar og Suðurgötu 15 hins vegar, var tekið fram að samkvæmt upplýsingum þess væri Suðurgata 15 einnig tengd við lögnina og væri farið fram á að skólplögnin yrði lagfærð þá þegar. Skila þyrfti inn úrbótaáætlun eigi síðar en 26. október s.á.. Húsfélögunum var síðar veittur viðbótarfrestur til þeirra skila. Með bréfum heilbrigðiseftirlitsins til húsfélaganna, dags. 8. maí 2019, var áréttað að húseigendur væru ábyrgir fyrir lagfæringum og viðhaldi á þeim frárennslislögnum sem lægju frá eignum þeirra. Heilbrigðiseftirlitið færi því fram á að umrædd skólplögn yrði lagfærð eins fljótt og auðið væri. Skila þyrfti inn úrbótaáætlun til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eigi síðar en 1. júní s.á. Einnig var tekið fram í bréfinu að teldu húsfélögin að Tjarnargata 10c tengdist þessari lögn væri sjálfsagt að fulltrúar eftirlitsins kæmu ásamt Veitum og lituðu í salerni með ferilefni til að skera úr um það.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að einungis hafi verið vísað til orða íbúa Suðurgötu 13 um að frárennslislögnin tengdist Suðurgötu 15 án þess að slíkt hafi verið kannað frekar. Þá hafi ekki verið farið í sjálfstæða rannsókn á því hvort Tjarnargata 10c tengdist umræddri lögn heldur hafi það verið lagt í hendur húsfélaga að Suðurgötu 13 og 15 að óska eftir því, en slík vinnubrögð séu verulega ámælisverð út frá meginreglum stjórnsýsluréttar. Telja verði að rannsóknarskylda hvíli á stjórnvaldi að rannsaka slík atriði áður en ákvörðun sé tekin. Að auki virðist umrædd ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur hafa byggst á myndbandi þrátt fyrir að það hafi komið skýrt fram að einungis 20 af 27 m hafi verið skoðaðir og því hafi ekki verið myndað alla leið í heimaæð. Slíkt fari einnig í bága við rannsóknarskyldu stjórnvalda sem beri að rannsaka mál til hlítar áður en ákvörðun sé tekin.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að gengið hafi verið eins langt og kostur hafi verið í að leiðbeina húseigendum vegna málsins. Kærandi hafi hvorki nýtt sér þann andmælarétt sem gefinn hafi verið í bréfi því sem sent hafi verið til hans né óskað eftir frekari útskýringum. Samkvæmt skoðunarmyndbandi sem húsfélögin hafi sent til heilbrigðiseftirlitsins 16. október 2018 hafi komið fram hjá skoðunarmanni að bæði húsin tengdust þessari lögn. Það sé samkvæmt lögum og reglugerðum á ábyrgð eiganda lagna að halda þeim við og þar með einnig að kanna hvort þær hafi orðið fyrir skemmdum. Einungis hafi verið farið fram á að þær skemmdir sem hefðu sést í skoðunarmyndbandinu yrðu lagfærðar auk þess sem áréttað hafi verið að eigendur þyrftu að rannsaka frekar þann hluta lagnarinnar sem ekki hefði verið myndaður. Þar sem ekki hafi verið ljóst hvort Tjarnargata 10c væri tengd lögninni hafi heilbrigðiseftirlitið boðist til að koma og lita með ferilefnum í fráveitu.

Niðurstaða: Í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er fjallað um valdsvið og þvingunarúrræði samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 60. gr., líkt og hún var þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt nánar tilgreindum þvingunarúrræðum t.a.m. veitt áminningu, sbr. 1. tl., eða veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta, sbr. 2. tl. Í 1. mgr. 61. gr. segir að þegar aðili sinni ekki fyrirmælum innan tiltekins frests geti heilbrigðisnefnd ákveðið honum dagsektir þar til úr sé bætt. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 61. gr. að jafnframt sé heilbrigðisnefnd heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd séu vanrækt og skuli kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi heilbrigðiseftirliti en innheimtast síðar á hlutaðeigandi. Stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerðra settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 65. gr. laganna.

Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvörðun sem ekki bindi enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Tilefni máls þessa er bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda, dags. 8. maí 2019, þar sem farið er fram á að skólplögn frá Suðurgötu 13 og 15 verði lagfærð eins fljótt og auðið sé og að skila þurfi inn úrbótaáætlun til eftirlitsins eigi síðar en 1. júní 2019. Ekki verður talið að bréfið feli í sér lokaákvörðun sem skotið verði til úrskurðarnefndarinnar heldur aðeins áskorun um að kærandi vinni ákveðið verk án þess að vísað sé til þess að gripið verði til frekari úrræði samkvæmt nefndum XVII. kafla laga nr. 7/1998. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

119/2019 Týsgata við Lokastíg

Með

Árið 2020, föstudaginn 31. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 119/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 um að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra Hótel Óðinsvé ehf., Þórsgötu 1, og Gamma ehf., eigandi Týsgötu 8, þá ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 30. október 2019 að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreint sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að þau bílastæði sem um ræði verði almenn bílastæði á gjaldsvæði 2.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Hinn 30. október 2019 var á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur lagt fram bréf skrifstofu og samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 24. október 2019, þar sem lagt var til að stæði í Týsgötu vestan Lokastígs verði skilgreind sem stæði til vöruafgreiðslu og að þar verði ekki heimil lagning ökutækja. Var tillagan samþykkt með fyrirvara um samþykki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sbr. 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Kærendur vísa til 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 138/2011 varðandi kæruheimild. Þeir séu hagsmunagæsluaðilar við Týsgötu, Þórsgötu og Lokastíg. Um langt árabil hafi vöruafgreiðsla fyrir hótelið og veitingastaði þess verið um bakhurð í bílastæðaporti við Lokastíg í samræmi við óskir Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Séu húsnæði kærenda í raun einu húsnæðin við Óðinstorg og nálægar götur sem þurfi á reglulegum vöruafgreiðslum að halda. Hafi fyrirkomulagið við að afhenda varning gengið vel og ekki verið nokkrum til ama. Með fyrirhuguðum breytingum verði ekkert bílastæði fyrir framan hótelið sem sé algjörlega ótækt. Þau örfáu bílastæði sem séu eftir séu nú einvörðungu ætluð til vöruafgreiðslu í stað þess að gestir hótelsins og veitingastaðarins, sem og aðrir sem sæki þjónustu í hverfið, geti nýtt sér bílastæðin. Þau verði meira og minna ónotuð þrátt fyrir þann mikla hörgul sem sé á bílastæðum í hverfinu. Hagsmunir eiganda Týsgötu 8 fari saman við hagsmuni hótelsins að þessu leyti þar sem íbúðir félagsins við Týsgötu 8 séu nýttar til skammtímagistingar. Þá sé fyrirhuguð framkvæmd ekki í samræmi við skipulag. Í athugasemdum kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar árétta þeir að lögvarðir hagsmunir þeirra séu fyrir hendi og að nefndinni beri að taka málið til efnislegrar meðferðar. Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð sé. Umrædd stæði séu almenn bílastæði á borgarlandi sem kærendur og viðskiptavinir þeirra hafi ekkert tilkall til eða forgang í. Samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 hafi sveitarstjórn fulla heimild til að gera tillögur að varanlegum sérákvæðum um notkun vega, þar á meðal um stöðvun eða lagningu ökutækja.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Verður þó ekki séð að fyrir liggi nein ákvörðun samkvæmt þeim lögum heldur var hin kærða ákvörðun tekin á grundvelli 2. mgr. 81. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 er mælir fyrir um að lögreglustjóri geti, að fengnum tillögum sveitarstjórna, kveðið á um önnur varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem stöðvun og lagningu ökutækja, sbr. a-lið ákvæðisins. Almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í nefndum umferðarlögum. Þá verða tillögur sveitarstjórna ekki bornar undir úrskurðarnefndina þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

1/2020 Gjaldskrá á fráveitu

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2020, kæra á gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir íbúi, Grindavík, gjaldskrá nr. 1117/2019  fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Er þess krafist að gjaldskráin verði felld úr gildi og að samin verði ný gjaldskrá sem standist 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 27. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 26. nóvember 2019 var samþykkt gjaldskrá nr. 1117/2019 fyrir fráveitu og hreinsun rotþróa í Grindavíkurbæ. Birtist gjaldskráin í B-deild Stjórnartíðinda 16. desember s.á. og tók gildi 1. janúar 2020.

Kærandi bendir á að skv. 6. gr. reglugerðar nr. 1212/2015 um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga skuli reikningar ekki nema hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar. Gjaldtaka Grindavíkurbæjar vegna fráveitu innihaldi ólöglega eignayfirfærslu upp á 188.000.000 kr., þ.e. sölugjörning á þegar gjaldfærðum, greiddum og eldri fráveituframkvæmdum afskrifuðum að fullu. Séu gjaldendur fráveitugjalda látnir greiða þessar framkvæmdir aftur ásamt afskrifuðum vöxtum.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að yfirflutningur fráveituframkvæmda árið 2002 hafi verið í samræmi við 8. gr. auglýsingar nr. 790/2001 um reikningsskil sveitarfélaga og í fullri samvinnu við endurskoðendur bæjarins. Hann hafi á engan hátt verið óheimill eins og kærandi haldi fram. Farið sé fram á frávísun málsins.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að samin verði ný gjaldskrá.

Sem fyrr greinir tók hin kærða gjaldskrá gildi 1. janúar 2020 en samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur álagning gjalda á grundvelli hennar ekki átt sér stað. Gjaldskráin er sett með stoð í 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Fram kemur í 22. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sú kæruheimild laganna tekur m.a. til álagningu gjalda sem innheimt eru á grundvelli gjaldskráa settra samkvæmt lögunum og í slíku kærumáli getur eftir atvikum komið til skoðunar hvort fjárhæð þjónustugjalds sem innheimt er á grundvelli gjaldskrár er innan þess ramma sem slíkum gjöldum er settur. Hins vegar eru gjaldskrár sem slíkar ekki stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Hefur kærandi því ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu hinnar kærðu gjaldskrár fyrr en álagning á grundvelli hennar fer fram, en slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem gjaldskráin verður ekki kærð á grundvelli 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna og almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er ekki að finna, t.d. í stjórnsýslulögum nr. 37/1993, brestur úrskurðarnefndina vald til að taka gjaldskrána til endurskoðunar, sbr. fyrrnefnda 1. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

60, 61 og 63/2019 Vesturlandsvegur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2019, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. júní 2019, um að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Akraneskaupstaður ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. júní 2019 um að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með tveimur bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2019, er bárust nefndinni 15. og 16. s.m., kæra annars vegar Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Dalabyggð, Helgafellssveit og Borgarbyggð og hins vegar Grundarfjarðarbær, sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar og krefjast ógildingar hennar. Krefst Grundarfjarðarbær þess einnig að Skipulagsstofnun verði gert að taka málið aftur til meðferðar. Verða nefnd kærumál, sem eru nr. 61/2019 og 63/2019, sameinuð kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 16. ágúst 2019.

Málavextir: Vegagerðin áformar að breikka um 9 km kafla Vesturlandsvegar um Kjalarnes milli Varmhóla og vegamóta við Hvalfjarðarveg. Felur framkvæmdin í sér breikkun vegarins í 2+1 veg ásamt hliðarvegum, hringtorgum og göngu-, hjóla- og reiðstígum.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2019, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að lokinni málsmeðferð stofnunarinnar komst hún að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni, dags. 11. júní 2019, að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ranga þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því háð mati á umhverfisáhrifum. Sé það mat kærenda að breikkun Vesturlandsvegar í 2+1 veg sé ekki framkvæmd sem kunni að hafa í för með sér veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki sé unnt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Hafi stofnunin ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni eða séð til þess að umfang framkvæmdar væri upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin um matsskyldu.

Kærendur telji sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sveitarfélögin séu í næsta nágrenni við hina fyrirhuguðu framkvæmd, en Vesturlandsvegur sé afar mikilvæg tenging íbúa þeirra við höfuðborgarsvæðið og umferðaröryggi vegarins skipti miklu máli. Það sé lögbundið verkefni sveitarfélaga að vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, sbr. 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Umferðaröryggi íbúa sveitarfélaga sé eitt þeirra velferðarmála. Kærendur hafi því verulega og sérstaka hagsmuni af því að fá úrlausn kærumálsins í því skyni að sinna lögbundnu hlutverki sínu og vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa sinna, en hin kærða ákvörðun muni fresta fyrirhuguðum framkvæmdum við veginn.

Ljóst sé að fyrirhuguð breikkun Vesturlandsvegar muni auka umferðaröryggi íbúa kærenda svo um muni. Eðli máls samkvæmt stundi hluti íbúa sveitarfélaganna vinnu á höfuðborgarsvæðinu og aki því umræddan vegkafla daglega, auk þess sem íbúar sæki afþreyingu til höfuðborgarsvæðisins reglulega. Sveitarfélögin og íbúar þeirra hafi því lögvarinna hagsmuna að gæta þegar komi að því að framkvæmdinni sé hraðað, en sveitarfélögunum sé umhugað um að ekki verði fleiri slys á umræddri leið. Þá sé rétt að nefna að breikkun Vesturlandsvegar sé forgangsmál samkvæmt sameiginlegri samgönguáætlun sveitarfélaga á Vesturlandi. Hin kærða ákvörðun, verði hún látin standa, muni seinka framkvæmdunum um umtalsverðan tíma.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að hún taki ekki afstöðu til þess hvort kærendur hafi aðild að málinu skv. lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Um efni málsins sé bent á að í 1. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, séu vegaframkvæmdir tilgreindar í tl. 10.07 – 10.10. Í tl. 13.01-13.03 sé síðan að finna ákvæði sem eigi almennt við um breytingar á framkvæmdum eða viðbætur við framkvæmdir sem falli undir einhvern af töluliðunum í 1.-12. kafla viðaukans. Undir tl. 13.01 falli breytingar og viðbætur við framkvæmdir í flokki A þar sem breytingin eða viðbótin sjálf fari yfir þau viðmið sem flokkur A setji. Undir tl. 13.02 falli breytingar og viðbætur við framkvæmdir í flokki A og B, aðrar en þær sem falli undir tl. 13.01.

Vegagerðin hafi tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar með vísan til tl. 13.02, án þess að tilgreina undir hvaða tölulið í 10. kafla 1. viðauka hún félli, en allar framkvæmdir sem séu tilkynningarskyldur samkvæmt 13. kafla viðaukans, tilheyri einhverjum þeirra framkvæmdaflokka sem fram komi í 1.-12. kafla hans. Hafi Skipulagsstofnun talið að framkvæmdin væri tilkynningarskyld samkvæmt tl. 13.02 og því hafi verið tekið við erindi Vegargerðarinnar samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt nefndri lagagrein skuli stofnunin fara eftir þeim viðmiðum sem fram komi í 2. viðauka laganna, þegar tekin sé ákvörðum um hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Áhrif á hljóðvist og skortur á upplýsingum um mótvægisaðgerðir vegna hávaða hafi ekki eitt og sér leitt til þeirrar niðurstöðu að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum heldur sé það meðal þeirra atriða sem leitt hafi til þess að Skipulagsstofnun hafi talið að framkvæmdin skyldi háð slíku mati, sbr. viðmiðin í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Ljóst sé að umferðarrýmd vegarins aukist, sem og umferðarhraði fram hjá þéttbýlasta svæðinu á Kjalarnesi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Vegagerðinni liggi fyrir að hávaðinn verði yfir viðmiðunarmörkum skv. reglugerð um hávaða nr. 724/2008 og hafi ekki verið lagðar fram upplýsingar um gerð og útfærslu hljóðvarna og virkni þeirra, sem sé meðal þess sem fjalla skuli um við mat á umhverfisáhrifum, sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000. Þá séu mengun og ónæði meðal þeirra atriða sem horfa skuli til við ákvörðun um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. tl. v. í 2. viðauka laganna. Samkvæmt 2. tl. 2. viðauka nefndra laga skuli við ákvörðun samkvæmt 6. gr. þeirra einnig horfa til staðsetningar framkvæmdar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér að teknu tilliti til niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að framkvæmdir vegna breikkunar Vesturlandsvegar um Kjalarnes skuli háðar mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal þeirra eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Eru kærendur í máli þessu sveitarfélög en ekki samtök í skilningi framangreinds ákvæðis. Þá njóta sveitarfélögin ekki lögfestrar kæruheimildar, en stjórnvöld hafa almennt ekki kærurétt í stjórnsýslunni.

Verður því að líta svo að sveitarfélög þau sem um ræðir verði að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins til að geta átt að því kæruaðild. Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum verður og við það að miða að þau verði að eiga sérstaka einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Um lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa hafa kærendur vísað til 2. mgr. nefndrar lagagreinar, en þar segir að sveitarfélög skuli vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa eftir því sem fært þyki á hverjum tíma. Ekki verður borið á móti því að mikilvægir hagsmunir felast í því að tryggja umferðaröryggi borgaranna. Þar er þó um almannahagsmuni að ræða, en ekki einstaklingsbundna hagsmuni þeirra sveitarfélaga sem að kærumáli þessu standa. Verða þau því hvorki talin aðilar að hinni kærðu ákvörðun í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né eiga þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni tengda henni sem gerðir eru að skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærendur eiga ekki aðild að kærumáli þessu og verður því af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

94/2019 Ásholt

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 9. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2019, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 24. maí 2019 um að afturkalla fyrri ákvörðun og hafna erindi um að breyta notkun frístundahússins Ásholts í Hjaltadal í íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. september 2019, er barst nefndinni 20. s.m., kæra lóðarhafar lóðar þeirrar er Ásholt í Hjaltadal stendur á, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 24. maí 2019 að afturkalla fyrri ákvörðun og hafna erindi um að breyta notkun frístundahússins Ásholts í íbúðarhús. Skilja verður kröfur kærenda sem svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Skagafirði 23. október 2019.

Málavextir: Kærendur sendu skipulags- og byggingarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar bréf, dags. 1. maí 2019, þar sem óskað var eftir því að notkun frístundahússins Ásholts í Hjaltadal yrði breytt og yrði það eftirleiðis skráð sem íbúðarhús. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 17. maí 2019 var erindið samþykkt og húsið talið uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar til að notkun þess yrði breytt. Í kjölfar framangreinds fundar barst skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins tölvupóstur þar sem honum var tjáð að samkvæmt kaupsamningi um lóð þá er húsið Ásholt stendur á væri ekki heimilt að breyta notkun þess án samráðs við lóðareiganda. Skipulags- og byggingarnefnd Skagafjarðar tók málið aftur fyrir 24. maí 2019 og bókaði að „[í] ljósi nýrra upplýsinga sem nú liggja fyrir afturkallar skipulags- og byggingarnefnd fyrri ákvörðun og hafnar erindinu frá ofangreindum fundi 17. maí sl.“ Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar 29. s.m. voru fundargerðir framangreindra funda teknar fyrir. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar frá 17. maí en bókaði „[v]akin er athygli á því að á 349. fundi skipulags- og byggingarnefndar þann 24. maí sl. var samþykki um breytta notkun á frístundahúsi Ásholts afturkallað og erindinu hafnað í ljósi nýrra upplýsinga sem komu fram í lóðarleigusamningi.“ Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar frá 24. maí. Kærendum var tilkynnt um framangreinda afgreiðslu með bréfi, dags. 4. júní 2019, þar sem fram kom að ástæða þess að skipulags- og byggingarnefnd hefði endurskoðað afgreiðslu sína frá 17. maí s.á. og hafnað erindinu væri athugasemd þinglýsts landeiganda. Með bréfi, dags. 25. júlí s.á., óskuðu kærendur eftir rökstuðningi á breyttri ákvörðun. Einnig bentu kærendur á að þeir teldu sig eiga rétt á að koma andmælum að í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993 og góða stjórnsýsluhætti. Skipulags- og byggingarnefnd fól skipulags- og byggingarfulltrúa að svara erindinu á fundi sínum 1. ágúst 2019 og var sú afgreiðsla staðfest á sveitarstjórnarfundi 21. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins svaraði erindinu með bréfi, dags. 27. s.m. Í svarbréfinu kom fram að þegar umsókn kærenda hefði upphaflega verið tekin fyrir hefði einungis legið fyrir lóðarleigusamningur vegna leigu á lóðinni sem sumarhúsið stæði á og hefði umsóknin verið samþykkt á þeim grundvelli. Eftir að athugasemdir bárust frá leigusala lóðarinnar hafi komið í ljós að kaupsamningur um lóðina hafi aðeins heimilað byggingu smáhýsis eða sumarbústaðar. Í niðurlagi bréfsins kom fram að heimilt væri að kæra framangreinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðunina.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í eignayfirlýsingu, dags. 10. október 2010, komi fram að frístundahúsið Ásholt standi á tiltekinni lóð. Ekkert í eignayfirlýsingu þessari feli í sér skilyrði um að einungis sé heimilt að byggja smáhýsi og/eða sumarbústað. Í lóðarleigusamningi, dags. 10. október 2010, segi „[l]eigusali selur leigutaka á leigu byggingarlóð, og til annarra afnota.“ Kærendur hafi ætlað að nýta sér þennan möguleika, þ.e. að skrá byggingu á lóðinni sem húsnæði til varanlegrar búsetu. Ákvörðun Sveitarfélagsins Skagafjarðar um að fella niður samþykkt umsóknarinnar sé mjög fjárhagslega íþyngjandi bæði vegna útgjalda og skerðingu verðmætis bústaðarins.

Málsrök Sveitarfélagsins Skagafjarðar: Af hálfu Sveitarfélagsins Skagafjarðar er farið fram á frávísun málsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 59. gr. laga nr. 140/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar. Í 7. gr. sömu laga sé mælt fyrir um heimild til þess að í sveitarfélagi starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar.

Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar nr. 961/2013 sé kveðið á um hlutverk skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins. Í 1. málsl. gr. 4.1. segi að nefndin annist störf þau sem nefndinni séu falin samkvæmt 7. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 3. málsl. sömu greinar samþykktarinnar segi að auk þessara verkefna og verkefna er lúti að hafnarmálum þá geti sveitarstjórn falið nefndinni ýmis verkefni með erindisbréfum. Eftir breytingu sem gerð hafi verið á samþykkt nr. 961/2013 með samþykkt nr. 906/2015 sé mælt fyrir um útgáfu byggingarleyfis í tölul. 4.1. í B-lið 47. gr. Þar sé kveðið á um að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi í samræmi við 9. gr. mannvirkjalaga. Sé þar jafnframt kveðið á um að í ákveðnum tilvikum skuli hann vísa máli til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sem fjalli þá um byggingaráform í samræmi við 11. gr. mannvirkjalaga. Meðal þess sem fram komi í framangreindri 9. gr. mannvirkjalaga sé að óheimilt sé að breyta notkun mannvirkis án samþykkis byggingarfulltrúa. Telja verði að afgreiðsla nefndarinnar sé ekki fullnaðarafgreiðsla byggingarleyfis enda komi ekki fram í framangreindum ákvæðum samþykktanna að afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar í slíkum tilvikum sé fullnaðarafgreiðsla. Verði því að telja að ályktanir nefndarinnar á umræddum fundum hafi verið tillaga til sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Verði ekki á það fallist breyti það engu um það að í málinu liggi ekki fyrir formlega útgefið skriflegt byggingarleyfi undirritað af byggingarfulltrúa. Slíkt sé skilyrði fyrir því að fyrir liggi endanleg stjórnvaldsákvörðun, enda sé slík útgáfa falin byggingarfulltrúa skv. lögum, þ.e. skv. 5. tölul. 3. gr. mannvirkjalaga. Gera megi ráð fyrir að fyrir slíka útgáfu hefði farið frekari vinna, eftir atvikum grenndarkynning, að undangenginni könnun á því hvort hennar væri þörf, ákvörðun um gjaldtöku vegna útgáfu byggingarleyfis o.s.frv.

Þegar fundur hafi verið haldinn í sveitarstjórn 29. maí 2019 hafði ekki verið haldinn sveitarstjórnarfundur frá 24. apríl s.á. Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 17. maí hafði því ekki hlotið staðfestingu sveitarstjórnar þegar nefndin afturkallaði þá afgreiðslu sem ella hefði legið fyrir sveitarstjórn að staðfesta á fundinum 29. maí 2019. Liggi því ekki fyrir í málinu stjórnvaldsákvörðun önnur en endanleg ákvörðun sveitarstjórnar frá 29. maí. Sú ákvörðun sé ekki kærð í máli þessu. Því beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi byggingarfulltrúa. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi veiti byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Í því ákvæði er kveðið á um að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. er sveitarstjórn heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Í 6. mgr. 7. gr. kemur og fram að samþykkt sem sé sett samkvæmt þessari grein skuli lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skuli hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Þá skal umsókn um byggingarleyfi beint til byggingarfulltrúa skv. 10. gr. laganna og skal byggingarfulltrúi tilkynna skriflega um samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. Samkvæmt framansögðu er það byggingarfulltrúi sem afgreiðir byggingarleyfisumsóknir nema kveðið sé á um að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn samþykki afgreiðsluna samkvæmt sérstakri samþykkt.

Þegar hin kærða ákvörðun var tekin var í gildi samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar nr. 961/2013, sem nú er fallin úr gildi. Þar var fjallað um skipulags- og byggingarnefnd í tölul. 4.1. í B-lið 47. gr. Þeirri grein var breytt með samþykkt nr. 906/2015. Eftir breytingu greinarinnar var þar kveðið á um að byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi í samræmi við 9. gr. mannvirkjalaga. Telji byggingarfulltrúi að erindi sé bersýnilega í ósamræmi við skipulagsáætlanir, skipulagsskilmála og/eða byggingarreglugerð eða óvissu ríkja um hvort uppfyllt séu ákvæði laga, reglugerða og samþykkta, skal hann vísa málinu til afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar sem fjallar þá um byggingaráformin í samræmi við 11. gr. mannvirkjalaga. Afgreiðsla byggingarleyfismála heyrir því undir  byggingarfulltrúa, svo sem að samþykkja umsókn, hafna henni eða vísa máli til skipulags- og byggingarnefndar.

Fyrir liggur að einu afskipti skipulags- og byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar í máli þessu voru að svara bréfi kærenda með rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Þá er samþykkt Sveitarfélagsins Skagafjarðar ekki á lista Mannvirkjastofnunar yfir samþykktir sveitarfélaga sem gerðar hafa verið á grundvelli 7. gr. mannvirkjalaga.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þrátt fyrir að mál þetta hafi verið tekið fyrir á þremur fundum skipulags- og byggingarnefndar og tveimur fundum sveitarstjórnar hefur byggingarfulltrúi, sem lögum samkvæmt er bær til að taka ákvörðun um breytta notkun mannvirkis skv. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga, ekki tekið ákvörðun í því.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kærenda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir rétt að vekja athygli á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þar kemur fram að heimilt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

71/2019 Skógarsel

Með

Árið 2019, mánudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2019, kæra vegna einkaafnotaréttar á hluta lóðar framan við íbúðir á neðstu hæð við Skógarsel 41-43.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, óskar íbúi og eigandi, Skógarseli 41, Reykjavík, þess að úrskurðar­nefndin kveði á um að fimm metra einkaafnotaréttarflötur fylgi íbúðum neðstu hæða Skógar­sels 41-43 í samræmi við skilmála deiliskipulags Alaskareits, Skógarsels, og að rétt sé að mörk umræddra flata verði sýnd á aðalteikningum arkitekta.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. nóvember 2019.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag Alaskareits, Skógarsels, sem samþykkt var 12. júlí 2002 og tók gildi 7. janúar 2003. Í skilmálum deiliskipulagsins fyrir fjölbýlishúsin á lóðunum við Skógarsel 41-43 er m.a. tekið fram að íbúðir á neðstu hæðum hafi einkaafnotarétt á lóð sem nemi fimm metrum til suðurs frá húsvegg.

Kærandi tekur fram að láðst hafi að merkja einkaafnotaréttarfleti sem áskildir séu í deili­skipulagsskilmálum á aðalteikningar sem samþykktar hafi verið í byggingarnefnd í júlí 2003. Arkitektar hafi unnið reyndarteikningar árið 2008 sem hafi sýnt einkaafnotafletina og voru þær teikningar samþykktar í byggingarnefnd í mars 2008 og júní 2009. Við stöðuúttekt byggingar­fulltrúa vegna lokaúttektar á húsnæðinu í mars 2014 hafi verið taldir annmarkar á eignaskipta­yfirlýsingu og byggingarnefndarteikningum. Í framhaldi af því hafi arkitektar unnið reyndar­teikningar á ný þar sem umræddir fimm metra einkaafnotafletir hafi verið sýndir. Þær teikningar hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa í maí 2015 með athugasemd um að lokaúttekt væri áskilin, en í framhaldi af því hafi verið gerð ný eignaskiptayfirlýsing. Ekki hafi verið unnt að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingu frá 2015 þar sem eigendur tveggja íbúða af þrjátíu í fjölbýlishússinu hafi ekki viljað samþykkja að fimm metra einkaafnotafletir yrðu sýndir á reyndarteikningum sem fylgdu yfirlýsingunni, þrátt fyrir ákvæði deiliskipulagsskilmála. Brýnt sé að fá úr deilu­málinu skorið þar sem ekki hafi verið unnt að framkvæma lokaúttekt á byggingunni sökum þess að ekki liggi fyrir leiðrétt eignaskiptayfirlýsing, með tilheyrandi reyndarteikningum, sem hefur fengist þinglýst.

Borgaryfirvöld benda á að ekki verði séð að um sé að ræða neina kæranlega stjórnvalds­ákvörðun í málinu skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Svo virðist sem kærandi sé að óska eftir staðfestingu nefndarinnar á deiliskipulagsskilmálum vegna einkaréttarlegs ágreinings um eignaskiptayfirlýsingu og beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórn­valds. Það er því hlutverk úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til lögmætis kæranlegra ákvarðana tiltekinna stjórnvalda, en það fellur utan valdsviðs nefndarinnar að taka stjórnvalds­ákvarðanir um rétt eða skyldu borgaranna sem einstökum stjórnvöldum er falið í lögum. Í máli þessu liggur hvorki fyrir erindi kæranda til borgaryfirvalda né ákvörðun þeirra vegna umræddra sér­afnotaflata sem borin verður undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.