Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2019 Bjarg, Skútustaðahreppur

Árið 2020, föstudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. júní 2019 um að hafna erindi um að lóðin Hraunvegur 6, Skútustaðahreppi, verði undanskilin leigusamningi, dags. 20. febrúar 1969.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, Mývatnssveit, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. júní 2019 að hafna erindi kærenda um að lóðin Hraunvegur 6, Skútustaðahreppi, verði undanskilin leigu­samningi, dags. 20. febrúar 1969. Er krafist ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 9. janúar 2020.

Málsatvik og rök: Hinn 13. maí 1992 gerði móðir kærenda, fyrrverandi eigandi lögbýlisins Bjargs, samkomulag við Skútustaðahrepp um veitingu stöðuleyfis fyrir rekstri matsölustaðar „á lóð sunnan lóðar K.Þ. við þjóðveg 87“. Um er að ræða lóðina Hraunveg 6, en í kæru er vísað til hennar sem „braggalóðar“. Í 3. gr. samningsins er tiltekið að lóðin sé ekki „undanskilin í landleigusamningi Skútustaðahrepps og eigenda Reykjahlíðar frá 1967, en aðilar eru sammála um að ganga formlega frá eignarhaldi og nýtingarrétti lögbýlisins Bjargs á þessari lóð að fengnu formlegu samþykki annarra eigenda Reykjahlíðar“. Samþykki landeigenda fyrir því að Hraunvegur 6 yrði séreign Bjargs var veitt með samkomulagi, dags. 12. maí 1994. Kærendur telja að Skútustaðahreppur hafi ekki staðið við þann hluta samkomulagsins frá 1992 er varði nýtingarrétt hinnar svokölluðu braggalóðar. Hinn 26. mars 2019 fóru kærendur fram á það við Skútustaðahrepp að staðið yrði við samkomulagið um að skilja braggalóðina undan leigu­samningnum frá 1969. Því erindi var hafnað með ákvörðun sveitarstjórnar frá 26. júní 2019 og er það sú ákvörðun sem kærð er.

Kærendur vísa til hinnar óskrifuðu meginreglu um skuldbindingargildi samninga. Samkomulag kærenda við Skútustaðahrepp frá 1992 sé í eðli sínu samningur og aðilum þess beri því að virða efni hans á grundvelli meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga. Báðir aðilar hafi gefið ótvíræð loforð og tekið á sig gagnkvæma efndaskyldu. Skútustaðahreppur hafi skuldbindið sig til að veita lögbýlinu Bjargi nýtingarrétt á braggalóðinni. Skuldbindingu þessa geti Skútustaða­hreppur ekki vanefnt nema að hann sýni fram á að ógildingarreglur samningaréttar eigi við eða að riftunarskilyrði séu fyrir hendi. Ákvæði 3. gr. samkomulagsins frá 1992 verði ekki skilin á annan veg en að forsvarsmaður Skútustaðahrepps hafi skuldbundið hreppinn til þess að veita eigendum lögbýlisins Bjargs eignarhald á og nýtingarrétt yfir lóð þeirri sem deilt sé um.

Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæruefni málsins falli ekki undir kæruheimildir laga á sviði umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Ákvarðanatakan sem kæran vísi til feli í sér viðbrögð við einkaréttarlegum ágreiningi sem gögn málsins beri með sér að sveitarfélagið hafi tekið afstöðu til og hafnað sjónarmiðum kærenda. Draga megi í efa að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða en í öllu falli hvíli hún ekki á löggjöf sem heimili kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar lögum samkvæmt.

Álitaefni það sem hér er til meðferðar varðar ágreining um réttindi sem leidd eru af samningum einkaréttarlegs eðlis milli Skútustaðahrepps og kærenda. Er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr slíkum ágreiningi og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.