Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83 og 147/2021 Sjókvíaeldi í Berufirði

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 24. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 83/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. apríl 2021 um að breyta starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir sjókvíaeldi í Berufirði að því er varðar aukningu á hámarkslífmassa frjós lax.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. apríl 2021 að breyta starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir sjókvíaeldi í Berufirði að því er varðar aukningu á hámarkslífmassa frjós lax. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. september 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 12. ágúst s.á. að breyta fyrrgreindu starfsleyfi að því er varðar eldissvæði og hvíldartíma. Gera kærendur kröfu um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 147/2021, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir varða sama eldi og eru samofnar. Þá þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 19. júlí 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 9.800 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Berufirði. Kom fram í skýrslunni að útsetningaráætlun myndi taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og að samkvæmt matinu myndu 6.000 þeirra tonna sem áætlað væri að ala í Berufirði verða frjór lax og 3.800 tonn geldlax. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 14. júní s.á. Umhverfisstofnun veitti framkvæmdaraðila starfsleyfi 19. mars 2019 fyrir 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, og 21. s.m. veitti Matvælastofnun framkvæmdaraðila rekstrarleyfi vegna sama eldis. Voru þær leyfisveitingar kærðar til úrskurðarnefndarinnar og með úrskurðum í málum nr. 28/2019 og 30/2019, uppkveðnum 19. desember 2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væru þeir form- eða efnisannmarkar á undirbúningi eða meðferð hinna kærðu leyfisákvarðana að ógildingu varðaði og var kröfu kærenda þar um því hafnað.

Hinn 8. janúar 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 28. apríl 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar og með úrskurði í máli nr. 81/2021, kveðnum upp 18. október 2021, var kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar hafnað með vísan til þess að enga þá annmarka væri að finna á henni sem leiða ættu til ógildingar.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að breytingu á starfsleyfi leyfishafa 2. febrúar 2021 með athugasemdafresti til og með 3. mars s.á. Í breytingartillögunni fólst að heimilaður hámarkslífmassi frjós lax færi úr 6.000 tonnum í 7.500 tonn. Hinn 29. apríl s.á. breytti stofnunin umræddu starfsleyfi í samræmi við auglýsta tillögu og var sú breyting auglýst á vef hennar 6. maí s.á. Umhverfisstofnun auglýsti aðra tillögu að breytingu á umræddu starfsleyfi 31. maí 2021 með athugasemdafresti til og með 29. júní s.á. Fól hún í sér færslu eldissvæða og breytingu á útsetningaráætlun. Í samræmi við auglýsta tillögu gerði stofnunin breytingu á starfsleyfinu 12. ágúst s.á. og var sú breyting auglýst á vef hennar 19. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir uppfylli skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sú aukning á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 7.500 tonn, sem kveðið sé á um í hinni kærðu ákvörðun frá 29. apríl 2021, hafi ekki sætt málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í áliti Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 komi skýrlega fram að lagt væri til grundvallar að framleiðsla á frjóum laxi í Berufirði yrði ekki umfram 6.000 tonn. Umhverfisáhrif breytingarinnar hafi því ekki sætt mati á umhverfisáhrifum. Þá hafi áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar ekki sætt málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og séu af þeim sökum ekki lögmætur grundvöllur starfsleyfis eða breytinga á því. Að lokum sé byggt á því að matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021, um breytta staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun, sé haldin annmörkum.

Hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 12. ágúst 2021 um breytingu á starfsleyfi leyfishafa sé hvorki í samræmi við né rúmist innan matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar, óháð annmörkum á þeirri ákvörðun. Í tilkynningu leyfishafa vegna fyrirhugaðra breytinga á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun hafi sagt að engin breyting yrði á hvíldartíma eldissvæða en yrði ástand umhverfis gott eða ásættanlegt þá gæti hvíldartími samt orðið styttri eða allt að 90 dagar. Í matsskylduákvörðuninni hafi komið fram að hvíldartími yrði almennt 9-12 mánuðir en einnig að leyfishafi gerði ráð fyrir að hann gæti orðið styttri, að lágmarki 90 dagar. Hafi stofnunin tekið fram að vöktun þyrfti að leiða í ljós árangur þeirrar hvíldar, en hérlendis væru dæmi um það að botn bæri einkenni raskaðs ástands eftir níu mánaða hvíld. Fram komi í ákvörðuninni að mikilvægt sé að í starfsleyfi verði kveðið á um við hvaða umhverfisaðstæður heimilt yrði að setja út seiði. Hið kærða starfsleyfi hafi hins vegar ekki að geyma viðmið í samræmi við þann áskilnað matsskylduákvörðunarinnar og sé ljóst að engar frekari rannsóknir eða mælingar liggi til grundvallar heimilaðri styttingu lágmarkshvíldartíma. Efni hinnar kærðu ákvörðunar sé að þessu leyti ekki í samræmi við fyrirliggjandi ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu og þær forsendur sem sú ákvörðun hafi verið reist á.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er farið fram á frávísun kærumáls nr. 83/2021 þar sem kærufrestur sé liðinn. Ákvörðun stofnunarinnar sé kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan eins mánaðar frá birtingu ákvörðunarinnar skv. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hin kærða ákvörðun hafi verið birt 6. maí 2021 á vefsíðu stofnunarinnar og því hafi kærufrestur runnið út 4. júní s.á.

Mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir en þar hafi leyfishafi gert grein fyrir 9.800 tonna eldi á frjóum laxi. Upphaflegt starfsleyfi hafi eingöngu heimilað að vera með hluta þess magns í eldi vegna þágildandi áhættumats Hafrannsóknastofnunar. Með umræddri breytingu sé verið að bregðast við breyttu áhættumati, en í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar komi fram að útgefið leyfi þurfi að taka mið af því áhættumati sem í gildi sé á hverjum tíma. Í þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana sé ekkert fjallað um það að áhættumat erfðablöndunar eða burðarþolsmat falli undir lögin. Umhverfisstofnun líti svo á að ekki sé um að ræða framkvæmdaáætlanir í skilningi laganna líkt og samgöngu- og landgræðsluáætlun stjórnvalda, enda feli hin fyrrnefndu möt í sér rannsókn á aðstæðum á svæðinu en ekki eiginlega stefnu eða áætlun um skipulag í skilningi laga nr. 105/2006. Hafna beri kröfum kærenda þar sem engar forsendur séu fyrir ógildingu, enda ekki um að ræða annmarka sem séu svo verulegir að ógilda beri ákvarðanirnar.

Hið umrædda starfsleyfi sé í samræmi við matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Skilyrði vöktunar séu uppfyllt og komi fram í vöktunaráætlun sem auglýst hafi verið með tillögu að starfsleyfinu 31. maí 2021. Umhverfisstofnun líti svo á að það sé ákjósanlegra að tiltaka þessi skilyrði í vöktunaráætlun þar sem það sé auðveldara að bæta og auka kröfur í þeim, ef þörf krefji, en að breyta starfsleyfum. Kveðið sé á um vöktunaráætlun í gr. 5.1 í starfsleyfinu. Einnig sé bent á að skýrt komi fram í gr. 3.2 í leyfinu að þrátt fyrir að hvíla beri eldissvæði í a.m.k. 90 daga á milli eldislota geti stofnunin einhliða frestað útsetningu eftir 90 daga hvíldartíma bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á sjókvíaeldissvæði. Matið byggi á niðurstöðum umhverfis- og vöktunarmælingum samkvæmt vöktunaráætlun. Við mat á hvíldartíma sé því horft til niðurstaðna þeirra umhverfisgilda sem samtímavöktun byggi á. Hvíld eldissvæða fari því eftir raunástandi hvers svæðis. Hægt sé að bregðast við ef vöktun sýni neikvæða þróun m.t.t. lífræns álags með því að hvíla svæði lengur en þann lágmarkstíma sem settur sé í starfsleyfi. Einnig sé bent á að tilkynna þurfi hvenær seiði verði sett út í kvíar með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og þá þurfi einnig að liggja fyrir upplýsingar um vöktun eldissvæðanna. Loks geti stofnunin farið fram á tíðari mælingar eða efnagreiningar en starfsleyfið geri ráð fyrir ef stofnunin telji ástæðu til, sbr. gr. 2.9 í starfsleyfinu.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að þegar rætt sé um eldi á frjóum laxfiski þá sé talað um lax, enda sé lax alltaf frjór nema það eigi sér stað inngrip í þroskaferil hans. Sé verið að ræða um eldi á ófrjóum laxi þá sé undantekningarlaust rætt um ófrjóan lax. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé eldi á 9.800 tonnum af frjóum fiski í Berufirði, en gerður sé fyrirvari um að framkvæmdin sé alltaf í samræmi við gildandi áhættumat á hverjum tíma. Matsskýrslan sé mjög skýr hvað þetta varði. Stefna framkvæmdaraðila hafi, allt frá því áhættumat erfðablöndunar hafi fyrst verið kynnt 14. júlí 2017, verið sú að fylgja matinu og sé það nú lagaskylda. Kærendur rugli saman annars vegar magni frjós fisks samkvæmt útsetningaráætlun, sem endurspegli ávallt áhættumat og taki breytingum, og svo tilgreindu magni fisks í eldi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Magn samkvæmt útsetningaráætlun geti því bæði hækkað og lækkað út frá gildandi áhættumati og leyfum, en alinn frjór fiskur fari þó aldrei yfir 20.800 tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði.

Eldi á frjóum fiski og ófrjóum sé ekki frábrugðið hvort öðru nema að því er taki til hættu á erfðablöndun við villta stofna. Ef fjallað hefði verið um eldi og áhrif eldis á ófrjóum fiski á villta stofna í matsskýrslunni hefði þá umfjöllun verið að finna í kafla 6.5.3. um umhverfisáhrif. Sá kafli matsskýrslunnar geri það hins vegar ekki. Um eldi á ófrjóum fiski sé fjallað í valkostagreiningu og eðli málsins samkvæmt lúti því meginefni skýrslunnar að eldi á frjóum fiski.

Leyfishafi taki undir sjónarmið um að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat teljist ekki vera áætlanir sem háðar séu umhverfismati áætlana samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að krafa þeirra og aðild sé reist á því að áætlanir, sem liggi til grundvallar hinum kærðu leyfum og þar sé vísað til, hafi ekki sætt lögboðinni málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Að þessu leyti séu kærurnar reistar á ætluðu broti gegn þátttökurétti almennings og breyti engu um það þótt fyrir liggi matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar á grundvelli þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kærendur ítreki að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat séu áætlanir sem tvímælalaust séu háðar umhverfismati áætlana samkvæmt lögum nr. 105/2006, sbr. nú lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skortur á slíku umhverfismati áætlana feli um leið í sér skort á fullnægjandi undirbúningi þeirra leyfa sem síðar séu veitt á framangreindum lagagrundvelli. Sá annmarki leiði til þeirrar niðurstöðu til að fella verði slík leyfi úr gildi.

Ábending Umhverfisstofnunar um áskilnað samkvæmt gr. 3.2 í hinu kærða starfsleyfi, þess efnis að þrátt fyrir að hvíld eldissvæða í a.m.k. 90 daga milli eldislota geti stofnunin einhliða frestað útsetningu eftir 90 daga hvíldartíma, geti ekki leitt til þess að efni starfsleyfisins rúmist innan matsskylduákvörðunarinnar. Það sama eigi við um gr. 2.9 í starfsleyfinu um að stofnunin geti farið fram á tíðari mælingar eða efnagreiningar en starfsleyfið geri ráð fyrir.

Viðbótarathugasemdir leyfishafa: Leyfishafi hafnar því að starfsleyfið sé í ósamræmi við eða rúmist ekki innan matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar, en hafa beri í huga að samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi þá eigi Umhverfisstofnun alltaf síðasta orðið um hve langur hvíldartími sé hverju sinni. Leyfishafar fái ekki að setja út fisk nema mælt ástand sé með þeim hætti að það sé óhætt, þótt lögboðinn hvíldartími sé þó alltaf að lágmarki 90 dagar.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir Umhverfisstofnunar frá 29. apríl 2021 og 12. ágúst s.á. um að breyta starfsleyfi leyfishafa fyrir sjókvíaeldi í Berufirði, annars vegar hvað varðar hámarkslífmassa frjós lax og hins vegar að því er varðar eldissvæði og hvíldartíma. Voru hinar kærðu ákvarðanir teknar á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 65. gr. laganna er að finna kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru er vísað til laga um úrskurðarnefndina.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök teljast þó eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, varðandi þær ákvarðanir, athafnir og athafnaleysi sem fjallað er um í stafliðum nefndrar 3. mgr. 4. gr. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. þágildandi b-lið ákvæðisins, og athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. þágildandi d-lið.

Vísa kærendur einkum til þátttökuréttar almennings um kæruaðild sína og telja að þar sem áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar hafi ekki sætt lögboðinni málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana hafi verið brotið gegn nefndum þátttökurétti. Samkvæmt fyrrnefndum og áðurgildandi d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kæra varðar athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og þær athafnir eða athafnaleysi sem talin eru upp í þágildandi 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Verður kæruaðild í máli þessu  því ekki reist á því að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar hafi ekki sætt umhverfismati áætlana, enda hefði slíkt mat farið fram á grundvelli laga nr. 105/2006 en ekki laga nr. 106/2000 sem áðurgreind kæruheimild vegna þátttökuréttar almennings er bundin við.

Umhverfisstofnun veitti leyfishafa starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi í Berufirði hinn 19. mars 2019 að undangenginni málsmeðferð þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fékk sú leyfisveiting og málsmeðferð efnislega umfjöllun í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 28/2019 þar sem kröfu um ógildingu leyfisins var hafnað. Áttu tveir kærenda aðild að því máli. Hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. apríl 2021 um breytingu á því leyfi felur það í sér að hámarkslífmassi frjós lax fer úr 6.000 tonnum í 7.500 tonn. Telja kærendur m.a. að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 14. júní 2018 hafi einungis tekið mið af 6.000 tonna ársframleiðslu á laxi og því hafi hin kærða breyting, sem heimili 7.500 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi, ekki sætt málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Í matsskýrslu leyfishafa vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði var greint frá því að útsetningaráætlun myndi taka breytingum til samræmis við áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum hverju sinni, en að framleiðslumagn frjós fisks færi aldrei yfir 20.800 tonn í báðum fjörðum. Í nefndu áliti Skipulagsstofnunar var að sama skapi vísað til þess að gert yrði ráð fyrir því að hlutfall frjós fisks myndi fylgja áhættumati Hafrannsóknastofnunar hverju sinni en færi þó ekki yfir 20.800 tonn í báðum fjörðum. Er því ljóst að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar tók mið af eldi á 20.8000 tonnum af frjóum laxi. Sú breyting er felst í hinni umþrættu ákvörðun hefur því sætt mati á umhverfisáhrifum og rétt eins og ráð var gert fyrir fylgir hún nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og rúmast þar innan, sbr. auglýsingu nr. 562/2020 um staðfestingu á áhættumati erfðablöndunar frá 3. júní 2020, þar sem fram kemur að hámarkslífmassi af frjóum laxi í Berufirði sé 7.500 tonn. Þar sem fyrir liggur að mat fór fram í öndverðu á umhverfisáhrifum þess að ala frjóan lax í meira mæli en breytt starfsleyfi heimilar er ljóst að ekki var um að ræða athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Uppfylla kærendur því ekki heldur skilyrði kæruaðildar skv. d-lið 3. mg. 4. gr. laga nr. 130/2011 á þeim grundvelli.

Samkvæmt þágildandi b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðunum um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þegar frumvarp til laga nr. 130/2011 var til umfjöllunar á Alþingi var orðalagi nefnds b-liðar breytt, án þess þó að um efnisbreytingu væri að ræða. Um nefndan staflið segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem séu matsskyldar skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Þessi liður nái til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósasamningsins.

Hin kærða ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 12. ágúst 2021, er fól í sér breytingu á staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma, var tekin að undangenginni matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar um að breyting á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Svo sem greinir í málavöxtum var matsskylduákvörðunin kærð til úrskurðarnefndarinnar en með úrskurði í máli nr. 81/2021 var kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað með vísan til þess að enga þá annmarka væri að finna á ákvörðuninni sem leiða ætti til ógildingar. Fyrir breytingu þá sem nú er kærð var í gr. 1.2 í starfsleyfi leyfishafa tiltekið að eldið væri að jafnaði á tveimur eldissvæðum í senn, tveir árgangar væru aldir í 18-24 mánuði og að loknu því tímabili væru eldissvæðin hvíld í 9-12 mánuði milli eldislota. Enn fremur að tilkynna þyrfti Umhverfisstofnun hvenær seiði yrðu sett út, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara, og bendi „niðurstöður umhverfisvöktunar til þess að uppsöfnun næringarefna eigi sér stað eða að aðrar óhagstæðar aðstæður í umhverfinu eða náttúrunni að mati Umhverfisstofnunar, sbr. vöktunaráætlun skv. gr. 5.1, getur stofnunin einhliða frestað því að sett yrðu út seiði í viðkomandi fjörð.“ Í breyttu starfsleyfi segir nú í gr. 1.2 að eldið sé að jafnaði á tveimur eldissvæðum í senn og að loknu því tímabili séu eldissvæðin hvíld, sbr. gr. 3.2. Í þeirri grein starfsleyfisins segir að hvert eldissvæði skuli hvíla í a.m.k. 90 daga á milli eldislota en þrátt fyrir það geti Umhverfisstofnun einhliða frestað útsetningu bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á sjókvía­eldissvæði/eldissvæði að mati stofnunarinnar. Matið byggi á niðurstöðum umhverfis- og vöktunarmælinga samkvæmt vöktunaráætlun. Enn fremur að tilkynna þurfi Umhverfisstofnun hvenær seiði verði sett út í kvíar, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Þá þurfa einnig að liggja fyrir upplýsingar um vöktun eldissvæðanna. Er áréttað í gr. 4.1 að bendi „niðurstöður umhverfisvöktunar til þess að uppsöfnun næringarefna eigi sér stað eða að aðrar óhagstæðar aðstæður í umhverfinu eða náttúrunni að mati Umhverfisstofnunar, sbr. gr. 5.1, getur stofnunin einhliða frestað því að sett verði út seiði í viðkomandi fjörð.“ Í tilvitnaðri gr. 5.1 er fjallað um vöktunaráætlun og liggur slík áætlun fyrir samþykkt af Umhverfisstofnun. Kemur þar fram að „[í] samþykktu umhverfismati kemur fram að hvíldartími eldis á svæðum sé 9-12 mánuðir. Í nýrri eldisáætlun verður engin breyting á þessu og er hvíldartími sami og í samþykktu umhverfismati.“ Þá er reifað að útsetning seiða verði að miðast við að ástand umhverfisins sé ásættanlegt og verði það gott eða ásættanlegt geti hvíldartími orðið styttri eða allt að 90 dagar heimili aðstæður það. Hvíldarramminn í útsetningaráætluninni sé vel rúmur og veiti svigrúm varðandi hvíld og sé rétt að miða ákvarðanir um útsetningu seiða við niðurstöður mæligilda hverju sinni.

Af samanburði eldra starfsleyfis og því breytta er ljóst að nálgun þeirra er ekki sú sama hvað varðar hvíldartíma eldissvæða, en hvíldartími ræðst af útsetningu seiða sem fram kemur í útsetningaráætlun. Í stað þess að lágmarkstími sé í starfsleyfinu tilgreindur 9-12 mánuðir er hann nú tilgreindur 90 dagar í starfsleyfinu, en í vöktunaráætlun segir að hvíldartími verði 9-12 mánuðir. Um þetta segir í matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar að áformað sé að hvíla eldissvæði í 9-12 mánuði á milli kynslóða en gert sé ráð fyrir að hvíldartími geti verið styttri eða að lágmarki 90 dagar. Að mati stofnunarinnar þurfi vöktun að leiða í ljós árangur þeirrar hvíldar og sé mikilvægt að í starfsleyfi verði skýrt kveðið á um við hvaða umhverfisaðstæður sé heimilt að setja út seiði. Verður að telja það koma nægilega skýrt fram með hliðsjón af þeim skilyrðum sem áður er fjallað um og fram koma í gr. 3.2 í starfsleyfinu um hvíldartíma og fyrirliggjandi vöktunaráætlun, sbr. og gr. 5.1 í umræddu leyfi. Verður því ekki fallist á með kærendum að skilyrði starfsleyfisins um hvíldartíma eldissvæða séu ekki í samræmi við matsskylduákvörðunina.

Í máli þessu er þannig ekki um að ræða ákvörðun sem veitir leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum heldur ákvörðun um breytingu á leyfi í kjölfar matsskylduákvörðunar. Sú ákvörðun laut að breytingu á tiltekinni framkvæmd sem háð var mati á umhverfisáhrifum í öndverðu og leyfi var veitt fyrir sem sætti lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar, eins og áður hefur komið fram. Er hvorki hægt að líta fram hjá þessum atvikum málsins né orðalagi þágildandi b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en eins og ákvæðið er úr garði gert og að virtum lögskýringargögnum þeim sem áður er vísað til verður að telja að girt sé fyrir að kærendur njóti kæruaðildar samkvæmt því ákvæði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni, enda er engan lagagrundvöll að finna fyrir kæruaðild kærenda í lögum nr. 130/2011 eins og atvikum máls þessa er háttað.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

82 og 148/2021 Sjókvíaeldi í Berufirði

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 24. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 82/2021, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 um að breyta rekstrarleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir sjókvíaeldi í Berufirði að því er varðar aukningu á hámarkslífmassa frjós lax.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Náttúruverndarsamtök Íslands og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn (IWF) þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 að breyta rekstrarleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir sjókvíaeldi í Berufirði að því er varðar aukningu á hámarkslífmassa frjós lax. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. september 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. ágúst s.á. að breyta rekstrarleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. fyrir sjókvíaeldi í Berufirði að því er varðar eldissvæði og útsetningaráætlun. Gera kærendur kröfu um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Verður það kærumál, sem er nr. 148/2021, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir varða sama eldi og eru samofnar. Þá þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 7. júlí og 20. október 2021.

Málavextir: Hinn 19. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Í matsskýrslunni var gert ráð fyrir að ala 9.800 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Berufirði. Kom fram í skýrslunni að útsetningaráætlun myndi taka mið af nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og að samkvæmt matinu myndu 6.000 þeirra tonna sem áætlað væri að ala í Berufirði verða frjór lax og 3.800 tonn geldlax. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir 14. júní s.á. Umhverfisstofnun veitti framkvæmdaraðila starfsleyfi 19. mars 2019 fyrir 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi, og 21. s.m. veitti Matvælastofnun framkvæmdaraðila rekstrarleyfi vegna sama eldis. Voru þær leyfisveitingar kærðar til úrskurðarnefndarinnar og með úrskurðum í málum nr. 28/2019 og 30/2019, uppkveðnum 19. desember 2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væru þeir form- eða efnisannmarkar á undirbúningi eða meðferð hinna kærðu leyfisákvarðana að ógildingu varðaði og var kröfu kærenda þar um því hafnað.

Hinn 8. janúar 2021 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun í Berufirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 28. apríl 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar og með úrskurði í máli nr. 81/2021, kveðnum upp 18. október 2021, var kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunarinnar hafnað með vísan til þess að enga þá annmarka væri að finna á henni sem leiða ættu til ógildingar.

Matvælastofnun auglýsti tillögu að breytingu á rekstrarleyfi leyfishafa 2. febrúar 2021 með athugasemdafresti til 2. mars s.á. Í breytingartillögunni fólst að heimilaður hámarkslífmassi frjós lax færi úr 6.000 tonnum í 7.500 tonn. Hinn 5. maí s.á. breytti stofnunin umræddu rekstrarleyfi í samræmi við auglýsta tillögu. Matvælastofnun auglýsti aðra tillögu að breytingu á umræddu rekstrarleyfi 31. maí 2021 með athugasemdafresti til 28. júní s.á. Fól hún í sér færslu eldissvæða og breytingu á útsetningaráætlun. Í samræmi við auglýsta tillögu gerði stofnunin breytingu á rekstrarleyfinu 19. ágúst s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir uppfylli skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sú aukning á eldi á frjóum laxi úr 6.000 tonnum í 7.500 tonn, sem kveðið sé á um í hinni kærðu ákvörðun frá 5. maí 2021, hafi ekki sætt málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í áliti Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 komi skýrlega fram að lagt væri til grundvallar að framleiðsla á frjóum laxi í Berufirði yrði ekki umfram 6.000 tonn. Umhverfisáhrif breytingarinnar hafi því ekki sætt mati á umhverfisáhrifum. Þá hafi áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar ekki sætt málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana og séu af þeim sökum ekki lögmætur grundvöllur rekstrarleyfis eða breytinga á því. Að lokum sé byggt á því að matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 28. apríl 2021, um breytta staðsetningu eldissvæða og útsetningaráætlun, sé haldin annmörkum.

Málsrök Matvælastofnunar: Af hálfu Matvælastofnunar er gerð krafa um frávísun kærumálsins þar sem kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Um skilyrði kæruaðildar fari samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni lúti kæra að tilteknum ákvörðunum Skipulagsstofnunar, m.a. um matsskyldu framkvæmda, sem og ef stjórnvald veiti leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Leyfishafi hafi óskað eftir breytingu á rekstrarleyfi vegna breytinga á áhættumati. Framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum og því beri að vísa kærunni frá. Slík niðurstaða sé í samræmi við úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 20/2018 og 89/2020.

Fyrir liggi að framkvæmd leyfishafa hafi sætt málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í matsskýrslu leyfishafa frá 19. mars 2018 vegna framkvæmdarinnar hafi verið fjallað um fyrirhugaða framleiðsluaukningu á laxi í sjókvíum og áhrif eldisins á umhverfið, þ.m.t. að útsetninga- og framleiðsluáætlanir myndu taka mið af breytingum á áhættumati Hafrannsóknastofnunar hverju sinni. Í áliti Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2018 segi um áhættumatið að áhætta af notkun frjós lax verði endurmetin með reglubundnum hætti. Í álitinu sé ítrekað vísað til þess að leggja beri niðurstöður áhættumats erfðablöndunar til grundvallar ákvörðunar um rekstrarleyfi. Þá taki stofnunin sérstaklega fram að leyfishafi muni fylgja matinu varðandi magn frjós lax í eldi. Með hliðsjón af því hafi legið fyrir við útgáfu rekstrarleyfis 21. mars 2019 að tekið hafi verið tillit til eldis á 9.800 tonnum af laxi í Berufirði, þ.m.t. frjóum laxi. Sú breyting sem gerð hafi verið á rekstrarleyfinu 5. maí 2021 samræmist matsskýrslu leyfishafa þar sem samanlagt eldi í Berufirði og Fáskrúðsfirði fari ekki yfir 20.800 tonn.

Áhættumat erfðablöndunar sé vísindaleg nálgun á mati á því magni frjórra eldislaxa sem strjúki úr eldi í sjó og vænta megi að komi í ár þar sem villta laxastofna sé að finna og metið sé að erfðablöndun eldislax við villta nytjastofna, að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, verði það mikil að arfgerð villtra stofna breytist og valdi versnandi hæfni stofngerða þeirra. Það sé því ekki skjal sem sé ætlað að marka stefnu hins opinbera í fiskeldi, hvar það ætti að fara fram og með hvaða hætti. Sú túlkun væri enda ótæk þar sem ótal aðrir þættir skipti máli við slíka stefnumótun. Það sé því ekki framkvæmdaáætlun í skilningi þágildandi laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, heldur faglegt mat á aðstæðum hverju sinni. Þá sé bent á að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fallist ekki á að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat séu skipulags- eða framkvæmdaáætlanir sem marki stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að þegar rætt sé um eldi á frjóum laxfiski þá sé talað um lax, enda sé lax alltaf frjór nema það eigi sér stað inngrip í þroskaferil hans. Sé verið að ræða um eldi á ófrjóum laxi þá sé undantekningarlaust rætt um ófrjóan lax. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2018 sé eldi á 9.800 tonnum af frjóum fiski í Berufirði, en gerður sé fyrirvari um að framkvæmdin sé alltaf í samræmi við gildandi áhættumat á hverjum tíma. Matsskýrslan sé mjög skýr hvað þetta varði. Stefna framkvæmdaraðila hafi, allt frá því áhættumat erfðablöndunar hafi fyrst verið kynnt 14. júlí 2017, verið sú að fylgja matinu og sé það nú lagaskylda. Kærendur rugli saman annars vegar magni frjós fisks samkvæmt útsetningaráætlun, sem endurspegli ávallt áhættumat og taki breytingum, og svo tilgreindu magni fisks í eldi samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Magn samkvæmt útsetningaráætlun geti því bæði hækkað og lækkað út frá gildandi áhættumati og leyfum, en alinn frjór fiskur fari þó aldrei yfir 20.800 tonn í Berufirði og Fáskrúðsfirði.

Eldi á frjóum fiski og ófrjóum sé ekki frábrugðið hvort öðru nema að því er taki til hættu á erfðablöndun við villta stofna. Ef fjallað hefði verið um eldi og áhrif eldis á ófrjóum fiski á villta stofna í matsskýrslunni hefði þá umfjöllun verið að finna í kafla 6.5.3. um umhverfisáhrif. Sá kafli matsskýrslunnar geri það hins vegar ekki. Um eldi á ófrjóum fiski sé fjallað í valkostagreiningu og eðli málsins samkvæmt lúti því meginefni skýrslunnar að eldi á frjóum fiski.

Leyfishafi taki undir sjónarmið um að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat teljist ekki vera áætlanir sem háðar séu umhverfismati áætlana samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að krafa þeirra og aðild sé reist á því að áætlanir, sem liggi til grundvallar hinum kærðu leyfum og þar sé vísað til, hafi ekki sætt lögboðinni málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Að þessu leyti séu kærurnar reistar á ætluðu broti gegn þátttökurétti almennings og breyti engu um það þótt fyrir liggi matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar á grundvelli þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Af þessum sökum séu úrskurðir nefndarinnar í málum nr. 20/2018 og 89/2020 ekki fordæmisgefandi í þessum málum. Kærendur ítreki að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat séu áætlanir sem tvímælalaust séu háðar umhverfismati áætlana samkvæmt lögum nr. 105/2006, sbr. nú lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Skortur á slíku umhverfismati áætlana feli um leið í sér skort á fullnægjandi undirbúningi þeirra leyfa sem síðar séu veitt á framangreindum lagagrundvelli. Sá annmarki leiði til þeirrar niðurstöðu til að fella verði slík leyfi úr gildi.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvarðanir Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 og 19. ágúst s.á. um að breyta rekstrarleyfi leyfishafa fyrir sjókvíaeldi í Berufirði, annars vegar hvað varðar hámarkslífmassa frjós lax og hins vegar að því er varðar eldissvæði og útsetningaráætlun. Voru hinar kærðu ákvarðanir teknar á grundvelli laga nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. og samnefnda reglugerð nr. 540/2020. Í 2. mgr. 4. gr. laganna er að finna kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru er vísað til laga um úrskurðarnefndina.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þá teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, varðandi þær ákvarðanir, athafnir og athafnaleysi sem fjallað er um í stafliðum nefndrar 3. mgr. 4. gr. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. þágildandi b-lið ákvæðisins, og athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. þágildandi d-lið.

Vísa kærendur einkum til þátttökuréttar almennings um kæruaðild sína og telja að þar sem áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar hafi ekki sætt lögboðinni málsmeðferð samkvæmt þágildandi lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana hafi verið brotið gegn nefndum þátttökurétti. Samkvæmt fyrrnefndum og áðurgildandi d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar kæra varðar athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og þær athafnir eða athafnaleysi sem talin eru upp í þágildandi 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Verður kæruaðild í máli þessu því ekki reist á því að áhættumat erfðablöndunar og burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar hafi ekki sætt umhverfismati áætlana, enda hefði slíkt mat farið fram á grundvelli laga nr. 105/2006 en ekki laga nr. 106/2000 sem áðurgreind kæruheimild vegna þátttökuréttar almennings er bundin við.

Matvælastofnun veitti leyfishafa rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi í Berufirði hinn 21. mars 2019 að undangenginni málsmeðferð þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fékk sú leyfisveiting og málsmeðferð efnislega umfjöllun í úrskurði nefndarinnar í kærumáli nr. 30/2019 þar sem kröfu um ógildingu leyfisins var hafnað. Áttu tveir kærenda aðild að því máli. Hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar frá 5. maí 2021 um breytingu á því leyfi felur það í sér að hámarkslífmassi frjós lax fer úr 6.000 tonnum í 7.500 tonn. Telja kærendur m.a. að álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 14. júní 2018 hafi einungis tekið mið af 6.000 tonna ársframleiðslu á laxi og því hafi hin kærða breyting, sem heimili 7.500 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi, ekki sætt málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Í matsskýrslu leyfishafa vegna eldis á allt að 20.800 tonnum af laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði var greint frá því að útsetningaráætlun myndi taka breytingum til samræmis við áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum hverju sinni, en að framleiðslumagn frjós fisks færi aldrei yfir 20.800 tonn í báðum fjörðum. Í nefndu áliti Skipulagsstofnunar var að sama skapi vísað til þess að gert yrði ráð fyrir því að hlutfall frjós fisks myndi fylgja áhættumati Hafrannsóknastofnunar hverju sinni en færi þó ekki yfir 20.800 tonn í báðum fjörðum. Er því ljóst að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar tók mið af eldi á 20.800 tonnum af frjóum laxi. Sú breyting er felst í hinni umþrættu ákvörðun hefur því sætt mati á umhverfisáhrifum og rétt eins og ráð var gert fyrir fylgir hún nýju áhættumati Hafrannsóknastofnunar og rúmast þar innan, sbr. auglýsingu nr. 562/2020 um staðfestingu á áhættumati erfðablöndunar frá 3. júní 2020, þar sem fram kemur að hámarkslífmassi af frjóum laxi í Berufirði sé 7.500 tonn. Þar sem fyrir liggur að mat fór fram í öndverðu á umhverfisáhrifum þess að ala frjóan lax í þeim mæli er breytt rekstrarleyfi heimilar er ljóst að ekki var um að ræða athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Uppfylla kærendur því ekki heldur skilyrði kæruaðildar skv. d-lið 3. mg. 4. gr. laga nr. 130/2011 á þeim grundvelli.

Samkvæmt þágildandi b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðunum um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þegar frumvarp til laga nr. 130/2011 var til umfjöllunar á Alþingi var orðalagi nefnds b-liðar breytt, án þess þó að um efnisbreytingu væri að ræða. Um nefndan staflið segir í athugasemdum með frumvarpi til laganna að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Það sé því eðlilegt að kæruaðild vegna ákvarðana sem tilgreindar séu í a- og b-lið haldist í hendur. Undir b-lið falli leyfi vegna framkvæmda sem séu matsskyldar skv. III. kafla laga um mat á umhverfisáhrifum. Þessi liður nái til þeirra ákvarðana sem vísað sé til í a- og b-lið 1. tölul. 6. gr. Árósasamningsins.

Hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar frá 19. ágúst 2021 fól í sér breytingu á rekstrarleyfi hvað varðaði eldissvæði og útsetningaráætlun. Var hún tekin að undangenginni matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að breytingin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Svo sem greinir í málavöxtum var matsskylduákvörðunin kærð til úrskurðarnefndarinnar en með úrskurði í máli nr. 81/2021 var kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað með vísan til þess að enga þá annmarka væri að finna á ákvörðuninni sem leiða ætti til ógildingar. Í máli þessu er þannig ekki um að ræða ákvörðun sem veitir leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum heldur ákvörðun um breytingu á leyfi í kjölfar matsskylduákvörðunar. Sú ákvörðun laut að breytingu á tiltekinni framkvæmd sem háð var mati á umhverfisáhrifum í öndverðu og leyfi var veitt fyrir sem sætti lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar, eins og áður hefur komið fram. Er hvorki hægt að líta fram hjá þessum atvikum málsins né orðalagi þágildandi b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en eins og ákvæðið er úr garði gert og að virtum lögskýringargögnum þeim sem áður er vísað til verður að telja að girt sé fyrir að kærendur njóti kæruaðildar samkvæmt því ákvæði.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni, enda er engan lagagrundvöll að finna fyrir kæruaðild kærenda í lögum nr. 130/2011 eins og atvikum máls þessa er háttað.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

149/2021 Sambyggð

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ölfuss frá 9. september 2021 um að stálvirki fjölbýlishúss á lóð nr. 18 við Sambyggð uppfylli ekki skil­yrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. september 2021, kærir Pró hús ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúa Ölfuss frá 9. september 2021 að stálvirki fjölbýlishúss á lóð nr. 18 við Sambyggð uppfylli ekki skilyrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 21. október 2021.

Málavextir: Á árinu 2019 mun kærandi hafa byrjað á framkvæmdum vegna byggingar fjölbýlis­húss á lóð nr. 18 við Sambyggð í Ölfusi. Hinn 16. júní 2021 sendi forsvarsmaður kæranda tölvupóst á byggingarfulltrúa sveitarfélagsins og óskaði eftir öryggisúttekt á húsinu. Í svari byggingarfulltrúa kom fram að til að hægt væri að framkvæma öryggisúttekt þyrfti að uppfæra byggingar- og matsstig hússins. Það yrði ekki gert fyrr en skilyrðum staðalsins ÍST 51:2001 um byggingarstig húsa væri fullnægt. Hinn 8. júlí s.á. fór fram öryggisúttekt og að beiðni byggingarfulltrúa útbjó verkfræðistofa minnisblað um þau atriði sem þyrftu frekari athugunar við eða uppfylltu ekki kröfur. Byggingarfulltrúi fundaði með fulltrúum kæranda 9. september 2021 vegna málsins. Hinn 15. s.m. sendi forsvarsmaður kæranda tölvu­póst til byggingarfulltrúa og óskaði staðfestingar á tilgreindum atriðum sem munu hafa komið fram á fundinum. Meðal annars óskaði hann staðfestingar á því að gera þyrfti úrbætur sam­kvæmt minnisblaði verkfræðistofunnar til að húsið gæti farið á byggingarstig 5. Jafnframt óskaði hann stað­festingar á því að stálvirki uppfyllti ekki skilyrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í svari byggingarfulltrúa var stafest að svo væri.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að eftir að húsið á lóðinni Sambyggð 18 hafi orðið fokhelt hafi byggingarfulltrúi beðið um fleiri teikningar. Í byrjun júní 2021 hefðu íbúðir í húsinu verið afhentar en þó ekki til búsetu. Á þeim tíma hefði kærandi óskað eftir öryggis- og lokaúttekt hjá byggingar­fulltrúa en við því hefði ekki verið orðið heldur hefði hann óskað eftir teikningum og deilum. Þá hefði byggingarfulltrúi upplýst að hann treysti ekki burðarvirki hússins og ætlaði að fá „sérstaka skoðunarstöð“ til að yfirfara það. Á endanum hefði byggingarfulltrúi óskað eftir öryggisúttekt en látið byggingarstjóra vita að hlutlaus aðili yrði með í úttektinni. Brunavarnir Árnessýslu hefði gert úttekt án athugasemda en fyrrnefnd verkfræðistofa hefði skilað 12 athugasemdum. Byggingarfulltrúi hefði síðan óskað eftir skýrslu um byggingar­framkvæmdarinnar og að arkitekt skilaði inn fleiri teikningum og deilum, en án þess að tilgreina það nánar. Þá hefði byggingarfulltrúi fundað með forsvars­mönnum kæranda 9. september 2021 en á þeim fundi hefði komið fram ný hlið á málinu þar sem byggingarfulltrúi teldi burðarstál ekki uppfylla skilyrði um tæringarflokk 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Því sé lögð fram kæra á hendur byggingarfulltrúa fyrir valdníðslu, einelti og brot á reglugerðum. Einnig sé um brot á meðalhófsreglu að ræða. Þá sé bent á að unnið sé að lag­færingu á þeim 12 athugasemdum sem verkfræðistofan hafi gert við öryggisúttekt.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í kærunni séu gerðar athugasemdir við málsmeðferð vegna umfjöllun um fjöleignarhúsið að Sambyggð 18. Ekki sé þó fyllilega ljóst hvað kærandi geri kröfu um eða að hverjum kæran snúi. Af efni hennar og fyrirliggjandi gögnum verði helst ráðið að kæran beinist að svörum byggingarfulltrúa þess efnis að ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að færa húsið að Sambyggð 18 á hærra byggingarstig. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriði á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum. Kæruheimild til nefndarinnar sé m.a. að finna í lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar séu á þeim lagagrundvelli. Í svörum byggingarfulltrúa að skilyrði séu ekki uppfyllt til að færa umrætt hús á hærra byggingarstig felist ekki stjórnvalds­ákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 59. gr. laga nr. 160/2010. Af þeim sökum sé engin kæruheimild fyrir hendi og því beri að vísa kærunni frá.

Að öðru leyti byggi sveitarfélagið á því að málsmeðferð byggingarfulltrúa hafi verið í samræmi við lög og reglugerðir. Um byggingarstig mannvirkja sé stuðst við íslenskan staðal, ÍST 51:2001. Þar sé að finna nákvæma útlistun á þeim atriðum sem uppfylla þurfi til að fá mann­virki skráð á hvert byggingarstig. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi byggingarfulltrúi veitt kæranda ítarlegar leiðbeiningar um þau atriði sem hann þurfi að uppfylla til að hægt væri að færa fjöleignarhúsið að Sambyggð 18 af byggingarstigi 4. Ástæða þess að það hafi ekki verið gert sé sú að kærandi hefði ekki uppfyllt viðkomandi skilyrði. Byggingarfulltrúi hafi lagt sig fram við að veita ítarlegar leiðbeiningar en kærandi, sem byggingaraðili, beri ábyrgð á því að upp­fylla tilgreind skilyrði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þá verða aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu gerir kærandi athugasemdir við störf byggingarfulltrúa Ölfuss vegna byggingar fjölbýlishúss á lóðinni Sambyggð 18. Vísar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun sé frá 9. september 2021 en á þeim degi áttu forsvarsmenn kæranda fund með byggingar­fulltrúa. Á fundinum kom m.a. fram sú afstaða byggingarfulltrúa um að stálvirki hússins uppfyllti ekki skilyrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og væri því úrbóta þörf. Ekki verður talið að sú afstaða feli í sér stjórnvaldsákvörðun tekna á grundvelli laga nr. 160/2010. Þá verður heldur ekki séð að fyrir liggi í málinu önnur ákvörðun sem bindur enda á mál og sem er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslu­laga. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

93/2021 Selvogsgata

Með

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunarúrræða og um ógildingu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vegna Selvogsgötu 16a í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júní 2021, er barst nefnd­inni sama dag, kærir eigendur, Holtsgötu 13, Hafnarfirði, þá ákvörðun bygg­ingar­full­­­trúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafi verið á Selvogsgötu 16a og ógildingu teikninga sem sam­þykktar hafi verið á af­greiðslu­­fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 23. september 2015. Skilja verður málskot kær­anda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 og ákvörð­­unar um að synja um beitingu þvingunarúrræða frá 22. júní 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 5. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Árið 2015 sóttu fyrri eigendur Selvogsgötu 16a, Hafnarfirði, um byggingarleyfi til þess að gera tvö­­falda svaladyr með útgengi í garð í stað eldra gluggaops á bakhlið hússins. Á upp­drætti er fylgdi umsókn um byggingarleyfi voru jafnframt færðar inn áður gerðar breytingar á húsinu án þess að þær væru sérstaklega tilgreindar, en í þeim fólst að á bílskúr í horni lóðarinnar, við lóðamörk Selvogsgötu 16b­ og Holtsgötu 13, höfðu verið gerðar þaksvalir, handrið og stigi. Uppdrættirnir voru samþykktir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 23. september 2015. Að sögn fyrri eiga­nda höfðu framangreindar breytingar þegar verið tilkomnar við kaup hans á húsinu árið 2014. Þá er í gögnum málsins vísað til þess að nágranni hefði greint frá því að þegar hann keypti sína eign fyrir 15 ár­um hefðu svalirnar þegar verið til staðar.

Með bréfi til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 22. júní 2021, fór kærandi fram á að teikningar frá árinu 2015 vegna Selvogsgötu 16a yrðu ógiltar og að beitt yrði þvingunar­úrræðum skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 vegna framangreindra fram­kvæmda. Byggingar­full­­­trúi sveitarfélagsins svaraði kæranda sama dag með þeim hætti að ákvörðunin stæði, teikning­­a­r­nar hefðu verið samþykktar í september árið 2015 og að framkvæmdir hefðu þegar farið fram.

 Kærandi telur teikningar af þeim breytingum sem varði þaksvalir hvorki vera í samræmi við lög né byggingarreglugerð. Þá hafi nágrannar ekki veitt samþykki sitt fyrir þeim. Af svölunum sé fallhætta, þær varpi skugga á næstu lóðir og valdi ónæði. Hand­rið sé 85 cm á hæð en það sé ekki á stiganum líkt og skylt sé.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að hinar umdeildu breytingar hefðu verið til komnar þegar samþykkt var að breyta gluggaopi í dyraop árið 2015. Ekki séu til teikningar af þessari breytingu en oft og tíðum sé áður gerðri framkvæmd bætt inn á teikningar. Þá er vísað til þess að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar liðinn.

 Af hálfu eiganda Selvogsgötu 16a er bent á að kærandi hafi keypt eign sína árið 2020 og hafi honum því verið kunnugt um hinar umdeildu þaksvalir og stiga en engar athugasemdir gert fyrr en árið 2021.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðar­nefnd­ar­innar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fyrir liggur að á þeim tíma er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni voru tæp sex ár liðin frá því að byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar veitti samþykki fyrir hinni kærðu framkvæmd, sem mun þó vera eldri. Var kærufrestur því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni 22. júní 2021.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir töku máls til efnismeðferðar að liðnum kærufresti þykja ekki uppfyllt í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því hlutverki felst m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að sé byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða byggt á annan hátt en leyfi stendur til geti byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkisins. Sama gildi ef ekki sé að öðru leyti fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 55. gr. laganna að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Þá er í 56. gr. laganna fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert sé heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hafi að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis er háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 160/2010 að eðlilegt sé að hvert tilvik sé metið, m.a. með tilliti til meðalhófs. Fyrrgreind ákvæði 55. og 56. gr. laganna gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef byggingarleyfisskyld framkvæmd gengur gegn almanna­hagsmunum, þ. á m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum, og eiga einstaklingar því ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu nefndra þvingunarúrræða vegna einkaréttarlegra hagsmuna sinna. Við mat stjórnvaldsins þarf þó sem endranær að fylgja megin­ reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið.

Í hinni kærðu ákvörðun um að aðhafast ekki vegna umdeildra framkvæmda var vísað til þess að teikningarnar hefðu verið sam­þykktar árið 2015 og þess að framkvæmdum væri lokið. Þá upplýsti sveitarfélagið hinn 12. október 2021 um að þvingunarúrræðum væri ekki beitt nema þegar um ólöglegar framkvæmdir væri að ræða og að í umræddu tilviki hefði verið veitt byggingarleyfi fyrir þeim. Með hliðsjón af því og þar sem ekki liggur fyrir að almanna­hagsmunum hafi verið raskað með hinum umdeildu framkvæmdum liggja ekki fyrir þær ástæður sem leitt geta til þess að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa að synja um beitingu þvingunarúrræða verði hnekkt.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 23. september 2015 um samþykkt byggingarleyfis vegna Selvogsgötu 16a er vísað frá úrskurðar­nefnd­inni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafa verið á Selvogsgötu 16a.

72 og 100/2021 Lyngás

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 2. apríl 2020 um veitingu framkvæmdaleyfis fyrir gatnagerð í götunni Eskiási, á málsmeðferð við breytingar á deiliskipulagi Ása og Grunda og á drætti á afgreiðslu erindis kærenda frá 10. janúar 2021.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2021, er barst nefndinni 1. júní s.á., kæra Lyngás 13 ehf., eigandi fasteignar á lóð með sama heiti, og Akralind ehf., eigandi Lyngáss 15, Garðabæ, framkvæmdir við gatnagerð og gerð veitumannvirkja í götunni Eskiási samkvæmt framkvæmda­leyfi sem sam­þykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar 2. apríl 2020. Þá er kærð málsmeðferð sveitar­félagsins við breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda. Auk þess er kærður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu erindis kærenda frá 10. janúar 2021.­ Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar umræddrar deiliskipulags­breytingar og hins kærða framkvæmdaleyfis, að fram­kvæmdir sam­kvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráða­birgða og jafnframt að sveitarfélaginu verði gert að svara erindi kærenda frá 10. janúar 2021.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2021, er barst nefndinni 28. s.m., kæra sömu kærendur þá ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar frá 27. maí s.á. að vísa erindi þeirra frá 10. janúar og ítrekun þess 6. apríl s.á. til úrvinnslu við mótun tillögu um rammahluta aðalskipulags fyrir Lyngássvæði og Hafnarfjarðar­veg. Verður það kærumál, sem er nr. 100/2021, sameinað máli þessu þar sem um samofin mál er að ræða sem sömu aðilar standa að, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 5. júlí 2021.

Málavextir: Auglýsing vegna samþykktar bæjarstjórnar Garðabæjar á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda, að því er varðar Lyngás og Stórás, var birt í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2019. Þar kom m.a. fram að breytingin tæki til svæðis sem afmarkaðist af Lyngási til norðurs, Ásabraut til vesturs og suðurs og Stórási til austurs og að gert væri ráð fyrir nýrri götu sem myndi bera heitið Eskiás. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 2. apríl 2020 var samþykkt að veita leyfi til framkvæmda fyrir gatnagerð ásamt lagningu veitumannvirkja í Eskiás og tiltekið að fram­kvæmdin væri í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag svæðisins. Var leyfið síðan gefið út daginn eftir.

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 18. febrúar 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyt­ingu á deiliskipulagi Ása og Grunda skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Fól breytingartillagan í sér að hæðir húsa við Eskiás 2, 4 og 6 yrðu lækkaðar um eina hæð og heimilað að fjölga íbúðum í öðrum húsum sem næmi fækkun íbúða vegna lækkunarinnar. Hámarkshæðir annarra húsa yrðu óbreyttar en byggingarreitir lóða nr. 8 og 10 breyttust þannig að þar yrðu lokaðir innigarðar. Heildarfjöldi íbúða yrði óbreyttur, eða 276 íbúðir. Tillagan var auglýst í Lögbirtinga­blað­inu og Fréttablaðinu 10. mars s.á. með athuga­semda­fresti til 21. apríl s.á. og bárust athuga­semdir frá kærendum.

Erindi kærenda frá 10. janúar 2021, sem fól í sér fyrirspurn um hugmyndir þeirra að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda vegna lóðanna Lyngáss 13 og 15, var lagt fram á fundi skipulags­nefndar 14. janúar s.á. og vísað til skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði bæjarins. Í erindinu kom m.a. fram vilji kærenda til að bæta við hæðum, minnka íbúðir og fjölga þeim í fyrir­huguðum húsum á lóðum þeirra. Kærendur ítrekuðu erindi sitt 6. apríl s.á. Var það tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 27. maí s.á. og þá vísað til úr­vinnslu við mótun tillögu að ramma­hluta aðal­skipulags fyrir Lyngássvæði og Hafnarfjarðar­veg.

Málsrök kærenda: Kærendur telja málsmeðferð sveitarfélagsins á erindi þeirra um deili­­skipulags­­breytingu brjóta í bága við ákvæði stjórn­­sýslu­­­­laga nr. 37/1993. Garðabær hafi hvorki svarað erindinu sem tekið hafi verið fyrir á skipulagsnefndarfundi 14. janúar 2021 né gætt að málshraðareglu stjórnsýslu­réttarins, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Ekki hafi verið gætt að rann­sóknar­reglunni, sbr. 10. gr. sömu laga, og sveitar­­félagið hafi ekki kynnt sér gildandi deili­skipu­lag nægilega vel. Ekki hafi verið gætt samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. ákvæði 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Eigendur aðliggjandi lóða við Lyngás, sitt hvoru megin við lóðir kærenda nr. 7, 9, 11 og 17, hafi ekki þurft að sæta viðlíka kvöðum og kærendur, en þær fólust í því að byggingar­reitir á samliggjandi lóðum þeirra væru tengdir saman, en áður hafi reitirnir verið aðskildir. Þá hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórn­sýslu­­laga. Kærendum hafi ekkert orðið ágengt hvað hagsmuni sína varði gagnvart sveitar­félaginu en fyrir liggi að ítrekað hafi verið sam­þykktar deili­skipulags­breytingar er stafi frá öðrum einka­aðila sem hafi þar hagsmuna að gæta.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi verið unnin af sveitar­félaginu í kjölfar þess að erindi kærenda frá 10. janúar 2021 hafi borist sveitarfélaginu. Sé henni ætlað að aðlaga eldra deili­skipulag yfirstandandi óleyfisframkvæmdum, sniðganga áðurnefnt erindi kærenda og setja kvaðir á nýtingu þeirra á lóðum sínum. Kærendur krefjast þess að framkvæmdum verði hagað í samræmi við gildandi deiliskipulag. Synja hefði átt um útgáfu framkvæmdaleyfis þar sem áformin samræmist ekki skipulagsáætlunum, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi sveitar­félaginu borið að hafa eftirlit með því að framkvæmdir væru í sam­ræmi við fram­kvæmda­leyfi, sbr. 1. mgr. 16. gr. skipulagslaga.

Ákvörðun skipulagsnefndar Garðabæjar um að vísa erindi kærenda frá 10. janúar 2021 til úr­vinnslu tengdri rammahluta aðalskipulags sé röng og rakalaus enda sé sveitarfélagið með því móti að hengja afgreiðslu erindis kærenda á óljósan hátt við framtíðaráform sveitarfélagsins varðandi önnur svæði en lóðir þeirra tilheyri en þær heyri undir deiliskipulagið frá 14. október 2019.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að endanleg ákvörðun bæjar­stjórnar um tillögu að breytingu á skipulagi Ása og Grunda, sem auglýst var til kynningar 10. mars 2021, liggi ekki fyrir og því geti ekki talist vera fyrir hendi kæranleg ákvörðun hvað varði þá deiliskipulagsbreytingu.

Á svæðinu standi yfir tvenns konar framkvæmdir. Undanfarið hafi verið unnið að fram­kvæmdum við gatnagerð í Eskiási á grundvelli framkvæmdaleyfis sem samþykkt hafi verið á fundi bæjar­stjórnar 2. apríl 2020. Þeim framkvæmdum sé að mestu lokið og kærufrestur vegna framkvæmdaleyfisins löngu liðinn. Einnig sé hafin bygging fjölbýlishúss að Eskiási 1. Byggingar­­áform hafi verið sam­þykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar 25. maí 2021 og byggingarleyfi gefið út af byggingar­fulltrúa 16. júní s.á. Ekki verði ráðið af kæru að verið sé að kæra það byggingarleyfi.

Lóðir kærenda séu á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2016-2030 sé skilgreint sem þróunarsvæði. Í undirbúningi sé að hefja vinnu við mótun tillagna að rammahluta aðal­skipulags fyrir svæðið sem unnið verði m.a. með hliðsjón af legu Borgarlínu. Eðlilegt sé að tillögur um breytingar á deiliskipulagi er varði lóðir kærenda verði teknar til skoðunar samhliða því sem mótaðar verði tillögur fyrir allt svæðið við Lyngás og Skeiðarás.

—–

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu deilt um lögmæti gatnaframkvæmda á umræddu svæði sem kennt er við götuna Eskiás og um breytingar á deiliskipulagi Ása og Grunda. Þá er kærður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu erindis kærenda til Garðabæjar frá 10. janúar og ítrekun þess frá 6. apríl 2021 er fól í sér fyrirspurn um tillögu kærenda að breyt­ingu á deiliskipulagi vegna lóðanna Lyngáss 13 og 15.

­­­­Fyrir liggur að á þeim tíma er kæra vegna deiliskipulagsbreytingarinnar barst úrskurðar­nefndinni hinn 1. júní 2021 hafði bæjarstjórn Garðabæjar ekki samþykkt breytinguna, en fyrir liggur að hún var sam­þykkt í bæjarstjórn hinn 2. september s.á. Auglýsing um gildistöku skipulags­breytingarinnar­ hefur hins vegar ekki enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga, en kærufrestur ákvarðana sem sæta opinberri birtingu telst frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Hefur deiliskipulagsbreytingin því ekki öðlast gildi og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórn­sýslu­­laga nr. 37/1993.

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð ásamt gerð veitumannvirkja í götunni Eskiási hinn 2. apríl 2020. Samkvæmt verksamningi á milli verk­kaupa, þ. á m. Garðabæjar, og verktaka hófust framkvæmdir 14. maí s.á. og bar að ljúka þeim í september s.á. Hefur sveitarfélagið upplýst að framkvæmdum sé nú að mestu lokið og að í september 2020 hafi verkið verið vel á veg komið. Í erindi kærenda til Garðabæjar frá 10. janúar 2021 er vikið að umræddum framkvæmdum. Samkvæmt framansögðu mátti kærendum vera ljóst þegar í september 2020 að leyfi hefði verið veitt fyrir framkvæmdum á svæðinu og í síðasta lagi við ritun fyrrnefnds erindis kærenda. Þegar kæra vegna framkvæmdaleyfisins barst úrskurðarnefndinni hinn 1. júní 2021 var því liðinn eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórn­sýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjár­hags­leg­um toga. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnis­meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórn­sýslu­lögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undan­tekningartilvikum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður talið að hin kærða ákvörðun raski veigamiklum hagsmunum kærenda, verður krafa um ógildingu framkvæmda­leyfisins ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undan­tekningarákvæða 28. gr. stjórnsýslu­laga þar sem ekki þykja liggja fyrir þær ástæður sem geri það afsakanlegt að kæra vegna fram­kvæmda­leyfisins barst svo seint sem raun ber vitni.

­­­­Í erindi kærenda til skipulagssviðs Garðabæjar frá 10. janúar 2021 fólst fyrirspurn varðandi tillögu þeirra að breytingu á deili­skipu­lagi vegna lóða þeirra Lyngáss 13 og 15 ­og var þar m.a. nánar tiltekið að „nánari gögn varðandi breytingu á deiliskipulagi, verði unnin og lögð inn til sveitar­félagsins í formlegt ferli, þegar niðurstaða á vettvangi sveitarfélagsins er varði fyrirspurn þessa liggi fyrir.“ Kærendur halda því fram að þrátt fyrir að erindið hafi verið tekið fyrir á fundi skipulags­­nefndar í janúar s.á. hafi ekki borist svar frá sveitarfélaginu. Þá hafi erindið verið ítrekað 6. apríl s.á. og ekki hafi heldur borist svar vegna þess. Samkvæmt gögnum málsins hefur erindi kærenda frá 10. janúar 2021, sem ítrekað var 6. apríl s.á., verið svarað af sveitarfélaginu með bréfum, dags. 15. janúar og 31. maí 2021. Í fyrra svari bæjarins kom fram að fyrir­spurninni væri vísað til skoðunar hjá tækni- og umhverfissviði. Í því síðara kom fram að erindi lóðarhafa væri vísað til úrvinnslu við mótun tillögu að rammahluta aðalskipulags fyrir Lyngás­svæði og Hafnarfjarðarveg, sem væri í undirbúningi, og myndi kalla á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ása og Grunda. Var því brugðist við fyrirspurn kærenda með tilteknum hætti en þau viðbrögð geta eðli máls samkvæmt ekki verið undanfari eða falið í sér stjórn­valdsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og þ.a.l. er ekki unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu fyrirspurnarinnar til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórn­sýslulaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi, sem sætt getur lög­mætis­­athugun úrskurðar­­nefndarinnar. Verður kröfum kærenda af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.­

78/2021 Starfsleyfi Álfsnes

Með

Árið 2021, föstudaginn 24. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2021, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að gefa út starfsleyfi til Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis til reksturs skotvalla í Álfsnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2021, er barst   nefndinni sama dag, kærir Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis þá ákvörðun Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 að gefa út starfsleyfi til félagsins til reksturs skotvalla í Álfsnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Reykjavíkurborg verði gert að veita nýtt starfsleyfi með rýmri opnunartíma svæðisins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 9. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 8. febrúar 2021 sendi Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis umsókn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um endurnýjun starfsleyfis fyrir starfsemi félagsins á skotvelli þess í Álfsnesi ásamt greinargerð, dags. 5. s.m. Hinn 15. s.m. sendi heilbrigðis­eftirlitið beiðni til skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir, um umsögn um það hvort starfsemin í Álfsnesi væri í samræmi við skipulag. Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. febrúar 2021, barst heilbrigðis­eftirlitinu 3. mars s.á. Í henni kemur fram að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir svæðið en samkvæmt aðalskipulagi sé það skilgreint sem hafnar- og iðnaðarsvæði. Í ljósi þeirrar óánægju sem íbúar í nágrenni hafi látið í ljós og þeirra ábendinga sem borist hafi vegna hávaða telji skipulags­fulltrúi nauðsynlegt að setja strangari skilyrði um starfsemina, s.s. um opnunartíma og notkun á blýhöglum, samhliða því að kanna til hlítar nýjar staðsetningar fyrir starfsemina á höfuðborgar­svæðinu. Að lokinni kynningu starfsleyfisumsóknarinnar samþykkti heilbrigðis­eftirlitið að gefa út starfsleyfi til tveggja ára, eða til 4. maí 2023. Tilkynning um útgáfu þess ásamt greinar­gerð um útgáfuna, afriti af starfsleyfi og starfsleyfisskilyrðum var birt á vefsvæði heilbrigðis­eftirlitsins 21. maí 2021.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að mikil þörf sé fyrir svæði eins og hér um ræði. Mikilvægt sé að til séu svæði þar sem veiðimenn geti æft skotfimi til að tryggja að þeir verði færar skyttur. Mikil afturför væri ef veiðimenn hrektust aftur í yfirgefnar námur eða önnur opin svæði í nágrenni borgarinnar til að æfa sig. Þá sé það öryggismál að slík æfingasvæði séu opin. Umrætt svæði henti sérstaklega vel til skotæfinga og fyrir liggi að samkvæmt skipulagi sé ekkert íbúðarsvæði nálægt umræddu skotsvæði. Í umsókn sinni hafi kærandi sótt um óbreyttan opnunartíma enda hafi félagið talið að ekkert hefði breyst frá því núverandi starfsleyfisreglur hefðu verið samþykktar til 12 ára. Óbreyttur opnunartími sé grunnforsenda fyrir rekstri svæðisins.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi heilbrigðisnefnd það hlutverk að veita starfsleyfi fyrir starfsleyfisskylda starfsemi, sbr. viðauka IV við lögin, og setja starfseminni ramma í starfsleyfisskilyrðum um hvað geti talist ásættanleg umhverfisáhrif út frá m.a. starfseminni og staðsetningu. Skipulagsyfirvöld móti skipulag og landnotkun í skipulagi, sem ákvarði með því á hvaða svæðum tiltekin starfsemi sé heimil. Meti heilbrigðiseftirlitið í umsóknarferli hvort tiltekin starfsemi sé í samræmi við skipulag og beri að leita umsagnar, eftir atvikum skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa, um það hvort starfsemin sé í samræmi við skipulag, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnir. Ekki sé heimilt að gefa út starfsleyfi nema fyrir liggi jákvæð umsögn skipulagsfulltrúa og/eða byggingarfulltrúa. Helstu umhverfisáhrif umræddrar starfsemi séu hávaði og ónæði frá starfseminni fyrir nágranna og útivistarfólk, en auk þess hafi notkun á blýhöglum í för með sér mengunarhættu í umhverfinu. Það sé hlutverk heilbrigðiseftirlitsins að setja starfseminni mörk í starfsleyfi til að lágmarka þessi umhverfisáhrif.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021 um að veita starfsleyfi til kæranda til reksturs skotvalla í Álfsnesi með þrengri skilyrðum en í fyrra starfsleyfi. Gerir kærandi þá kröfu að heilbrigðiseftirlitinu verði gert að gefa út nýtt starfsleyfi með rýmri opnunartíma skotæfingasvæðis félagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun eða breytir efni ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin kvað upp fyrr í dag úrskurð í kærumáli nr. 92/2021, þar sem ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. maí 2021, um að gefa út starfsleyfi til handa kæranda máls þessa til reksturs skotvalla í Álfsnesi, var felld úr gildi. Liggur því nú fyrir að hin kærða ákvörðun í máli þessu hefur ekki lengur réttarverkan að lögum og hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af efnisúrlausn málsins. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

132/2021 Sænska húsið

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 21. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 132/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 19. mars 2021 um flutning eða nýbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni að Smáratúni 1, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 7. ágúst 2021, kærir eigandi Smáratúns 5, ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 19. mars 2021 um flutning eða nýbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni að Smáratúni 1, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árborg 8. september 2021.

Málavextir: Tillaga að áformuðum breytingum á lóðinni Smáratúni 1 var kynnt nágrönnum 2.-31. desember 2020, en lóðin hafði verið auð um langt skeið. Í tillögunni var m.a. fjallað um afmörkun á byggingarreit, nýtingarhlutfall, hámarksfjölda hæða auk þess sem aðkoma að lóðinni var skilgreind. Að lokinni kynningunni, sem vísað var til sem grenndarkynningu, fjallaði skipulagsnefnd um tillöguna 13. janúar 2021 og bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi dags. 20. s.m. Afgreiðslu málsins var frestað á þeim fundi bæjarstjórnar. Skipulagsnefnd tók málið aftur fyrir á fundi 10. mars s.á. þar sem staðfest var að umbeðin gögn hafi borist nefndinni og að breytingar hafi verið gerðar á tillögunni í kjölfar athugasemda sem borist hefðu. Bæjarstjórn tók málið aftur fyrir 19. s.m. og samþykkti tillöguna.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að gengið sé þvert á vilja flestra íbúa sem fengið hafi að taka þátt í grenndarkynningu. Fleiri hefðu viljað taka þátt og vilji þeirra sé svipaður og hinna sem þátt hefðu tekið. Húsið passi ekki inn í götumyndina og standi þvert á önnur hús í götunni. Oft hafi verið sótt um eða spurst fyrir um þessa lóð en hún hafi ekki fengist til úthlutunar hingað til.

Málsrök Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að sú ákvörðun sem kæran lúti að veiti ein og sér ekki leyfi til framkvæmda, enda þurfi lóðarhafi að sækja um og fá útgefið byggingarleyfi. Slíkt leyfi hafi ekki verið afgreitt. Að því sögðu telji sveitarfélagið að engin kæranleg stjórnvalds­ákvörðun sé til staðar í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2020 geti sveitarstjórn veitt byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felist grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir séu geta átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem hafi tjáð sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar. Um afgreiðslu byggingarleyfis fari síðan nánar tiltekið eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Það sé mat sveitarfélagsins að fyrirhuguð framkvæmd, sem felist í flutningi eða endurbyggingu „sænska hússins“ á lóðinni Smáratúni 1, samræmist fyllilega aðalskipulagi, skilgreindri landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Umrædd lóð sé á skilgreindu miðsvæði samkvæmt aðalskipulagi og jafnvel þó svo að lóðin tilheyri Smáratúni þá standi hún einnig við Kirkjuveg, þar sem bæði sé atvinnu- og þjónustustarfsemi. Að mati bæjarstjórnar sé því skilyrði til þess að heimila framkvæmdina án deiliskipulagstillögu.

Þegar fyrri grenndarkenning hafi farið fram dagana 2.-31. desember 2020 hafi ekki legið fyrir hvort flytja ætti „sænska húsið“ á lóðina að Smáratúni 1 eða endurbyggja húsið á lóðinni. Ætla megi að slík áform muni liggja fyrir þegar umsókn félagsins um byggingarleyfi verði tekin til meðferðar. Sveitarfélagið muni framkvæma aðra grenndarkynningu í tengslum við umsókn um byggingarleyfi í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Sveitarfélagið hyggist þá taka tillit til athugasemda kæranda að því er varði víðtækari grenndarkynningu og kynna framkvæmdina fyrir honum, sem og öðrum þeim sem kunni að eiga hagsmuna að gæta. Sveitarfélagið taki ekki afstöðu til annarra athugasemda kæranda að svo stöddu máli en árétti að hann geti komið þeim á framfæri þegar byggingarleyfisumsókn verði grenndarkynnt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um flutning eða endurbyggingu „sænska hússins“ að Smáratúni 1. Byggingarleyfi hefur hins vegar ekki verið samþykkt eða gefið út, né heldur hefur umsókn um slíkt leyfi verið lögð fram. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal svokölluð grenndarkynning fara fram við tilteknar aðstæður þegar breyta á deiliskipulagi eða þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir. Hvorki stendur til að breyta deiliskipulagi, enda er ekkert slíkt til staðar á svæðinu, né hefur verið sótt um byggingar- eða framkvæmdaleyfi. Sú kynning sem fram fór og lýst er í málavöxtum var því ekki eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga. Hefur ekki verið tekið nein stjórnvaldsákvörðun í málinu heldur virðist sem tilteknar hugmyndir hafi verið kynntar í aðdraganda mögulegrar leyfisveitingar.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni, en fari leyfisveiting fram síðar í kjölfar grenndarkynningar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

121/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 121/2021, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 9. júlí 2021 á fyrirspurn um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 14. júlí 2021 kærir eigandi Bergstaðastrætis 81, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 9. júlí s.á. á fyrirspurn um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. ágúst 2021.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 29. janúar 2021 var lögð fram fyrirspurn kæranda, dags. 21. s.m., þar sem falast var eftir áliti skipulagsfulltrúa á hugmynd um að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og lögð fram að nýju ásamt umsögn skipu­lags­fulltrúa, dags. 1. febrúar s.á. Í umsögninni kom fram að ekki væri fallist á erindið þar sem það samræmdist ekki markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Erindið var tekið fyrir af skipulagsfulltrúa 5. febrúar s.á. þar sem tekið var neikvætt í það, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi sendi skipulags- og samgönguráði málskot dags. 12. febrúar 2021, sem tók erindið fyrir á fundi 31. mars s.á. Ekki var fallist á erindið. Í kjölfarið lagði kærandi fram breytta fyrirspurn, dags. 2. júní s.á. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. s.m. og var því vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 9. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dagsettri sama dag. Neikvætt var tekið í erindið, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Er það sú afgreiðsla sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að tilvísun umsagnaraðila til Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 skjóti skökku við. Skipulagsfulltrúi nefni að í aðalskipulaginu sé almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum, sérstaklega í miðborginni. Kærandi bendi á að samkvæmt skipulaginu sé Bergstaðastræti 81 á svæði 1 samkvæmt bíla- og hjólastæðastefnu. Á svæði 1 skuli eitt stæði fylgja hverri íbúð við endurnýjun byggðar og við nýbyggingar. Í húsinu séu tvær íbúðir og því ættu tvö stæði að fylgja lóðinni. Þá komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa annars vegar að stefna aðalskipulags sé að fækka bílastæðum í miðborginni, en hins vegar að neikvætt sé að almennum bílastæðum á borgarlandi myndi fækka um eitt stæði. Þá hljómi rök skipulagsfulltrúa um að framkvæmdin sé ekki æskileg eins og persónuleg skoðun en ekki skipulagslegar forsendur. Að lokum hafi sömu hverfisverndarákvæði og nú gildi um garðveggi og girðingar verið í gildi þegar aðrir bílskúrar á svæðinu hafi verið reistir. Með hliðsjón af jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé farið fram á að afstaða skipulagsfulltrúa verði endurskoðuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem hin kærða afgreiðsla feli ekki í sér lokaákvörðun sem bindi enda á meðferð máls og sé hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar á erindi kæranda, dags. 2. júní 2021, um byggingu bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti í Reykjavík. Erindið var lagt fram sem fyrirspurn til skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar og óskaði kærandi eftir afstöðu skipulagsfulltrúa um fyrirhugaða byggingu bílgeymslu. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Um gerð mannvirkja, þ. á m. bílgeymsla, fer að lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Eftir atvikum þarf til að koma byggingarleyfi veitt af byggingarfulltrúa í samræmi við kröfur 1. mgr. 9. gr. laganna. Ganga þarf úr skugga um að framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og var umsagnar skipulagsfulltrúa leitað. Erindi kæranda hefur hins vegar ekki komið til afgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samkvæmt áðurgreindum lögum fer með vald til að veita eða synja umsókn um byggingarleyfi. Verður því litið svo á sem umsögn skipulagsfulltrúa um fyrirspurn kæranda hafi verið liður í undirbúningi mögulegrar stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. sömu laga. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

25/2021 Efsti Dalur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi Efsta-Dals 2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. mars 2021, er barst nefndinni 5. s.m., kærir A, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 4. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi í landi jarðarinnar Efsta-Dals 2 í Laugardal, sem fól í sér stofnun lóðar þar sem vélaskemma stendur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 14. apríl 2021.

Málavextir: Með kaupsamningi, dags. 19. apríl 1991, seldi þáverandi eigandi jarðarinnar Efsta-Dals 2 hluta jarðarinnar til sonar síns.­ Ber hinn seldi jarðarpartur heitið Efsti-Dalur 2, land­númer 167631, fnr. 2205918. Að fyrri eiganda látnum var bú hans tekið til opinberra skipta og samkvæmt fyrirliggjandi skiptayfirlýsingu lauk skiptum í dánarbúinu 17. janúar 2019. Þar kemur fram að í hlut sonarins sem áður hafði keypt fyrrnefndan jarðarpart hafi m.a. komið véla- og verkfæra­geymsla.­

Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 11. desember 2020 var samþykkt að grenndarkynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi Efsta-Dals umsókn um stofnun lóðar samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var um að ræða lóð undir fyrrnefnda véla- og verkfæra­geymslu sem fyrir var á svæðinu. Tillagan var grenndarkynnt fyrir eigendum aðliggjandi jarða, þ. á m. kæranda með bréfi, dags. 17. desember 2020. Athugasemd barst frá kæranda á kynningartíma tillögunnar um að umrædd véla- og verkærageymsla tilheyrði jörðinni Efsta-Dal 3, sem væri í eigu dánarbús föður kæranda. Sveitarfélagið svaraði þeirri athugasemd kæranda með tölvupósti 25. janúar 2021, þar sem skírskotað var til þess að samkvæmt skipta­yfirlýsingu hefði eignarhald þriggja fasteigna, þ. á m. véla- og verkfærageymslunnar, færst á hendur eiganda Efsta-Dals 2 við skipti dánarbúsins. ­­Á fundi sveitarstjórnar 4. febrúar 2021 var hin kærða deili­skipulagsbreyting samþykkt og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. mars s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að véla- og verkfærageymslan sem um ræði sé án sérstakra lóðaréttinda og kveðið hafi verið á um það í kaupsamningi frá 1991 um hluta jarðarinnar Efsta-Dals 2 að seljandi, faðir kæranda, hefði umferðarrétt um hlaðið í kringum skemmuna enda hún í hans eigu. Samkvæmt skiptayfirlýsingu sé kaupandi fyrrnefnds jarðar­parts Efsta-Dals 2 á árinu 1991 nú eigandi véla­skemmunnar, en hann, kærandi og tvö systkini þeirra séu hins vegar sameigendur jarðarinnar Efsta-Dals 3. Jörðin Efsti-Dalur 3 og véla­skemman séu skráð með landnúmerið 199008 og séu hluti af einni og sömu fasteign. Kærandi sé á meðal eigenda fasteignarinnar og telji ekki unnt að gera breytingar á deiliskipulagi gegn vilja hans.

Málsrök Bláskógarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð athugasemd við lýsingu kæranda á málavöxtum og telur sveitarfélagið málatilbúnað hans á misskilningi byggðan. Skemman standi í reynd innan Efsta-Dals 2 en hafi tilheyrt Efsta-Dal 3 þar til eigandi Efsta-Dals 2 hafi keypt hana við dánarbússkipti foreldra þeirra í samræmi við kaupréttarákvæði áður­nefnds kaupsamnings. Vegna kaupanna hafi þurft að stofna lóð vegna skemmunnar og því orðið að breyta deiliskipulagi. Skipulagsskilmálar fyrir svæðið hafi haldist óbreyttir og breytingin hafi ekki áhrif á núgildandi skipulag að öðru leyti en því að stofnuð sé lóð fyrir vélaskemmu sem standi á landi Efsta-Dals 2, landnúmer 167631, en fyrir deiliskipulagsbreytinguna hafi skemman verið skráð á Efsta-Dal 3, landnúmer 199008, fnr. 2274314.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem fól í sér stofnun lóðar þar sem fyrrgreind véla- og verkfæraskemma stendur, en af fyrirliggjandi uppdráttum og landeignaskrá Þjóðskrár af svæðinu má ráða að skemman standi innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Byggir kærandi málatilbúnað sinn á því að nefnd skemma tilheyri jörðinni Efsta-Dal 3 og sé skráð sem slík í fasteignaskrá, en sú jörð sé eign dánarbús sem kærandi eigi aðild að sem eitt barna arfláta. Ekki hafi verið aflað samþykkis kæranda sem eins erfingja dánar­búsins fyrir stofnun umræddrar lóðar við samþykkt hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklings­bundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kæru­málinu. Verður því að meta í hverju tilviki hagsmuni og tengsl kæranda við úrlausn málsins til að komast að niðurstöðu um hvort þeir eigi verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta.

Eins og fram er komið fól hin kærða deiliskipulagsbreyting einungis í sér stofnun lóðar innan marka jarðarinnar Efsta-Dals 2. Mun lóðin hafa verið stofnuð að beiðni eiganda jarðarinnar. Hefur sú breyting engin grenndaráhrif gagnvart mögulegum eignum kæranda sem til hans féllu við skipti dánarbús þess sem fyrr var getið. Þá getur skipulag eða breyting á skipulagi ekki falið í sér ráðstöfun á eða afstöðu til beinna eða óbeinna eignarréttinda.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki séð að hin kærða ákvörðun geti raskað lög­­vörðum hagsmunum kæranda með þeim hætti að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

104/2021 Suðurgata

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 104/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 9. júní 2021 um að aðhafast ekki í máli kæranda vegna kjallaraíbúðar á Suðurgötu 13.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Suðurgötu 13, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 9. júní 2021 að aðhafast ekki frekar í máli hennar vegna íbúðar í kjallara hússins að Suðurgötu 13. Er þess krafist að byggingarfulltrúa verði gert að taka út íbúðina og senda beiðni um breytingu á skráningu eignarinnar til Þjóðskrár. Einnig gerð krafa um að eigendum íbúðarinnar verði gert að fjarlægja vegg sem settur var upp til þess að tengja saman rými í kjallara hússins. Að lokum er farið fram á að eigendum íbúðarinnar verði gert að fjarlægja geymslu sem sett var upp í þurrkherbergi sameignar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. ágúst 2021.

Málavextir: Í kjallara hússins að Suðurgötu 13 er íbúð sem ekki er að finna í upprunalegum teikningum hússins, en var síðar skráður sem íbúð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Hluti sameignar allra íbúa hússins liggur í gegnum íbúðina. Fyrir liggur eignaskiptayfirlýsing, sem þinglýst var 1981, þar sem fjallað er um íbúð í kjallara hússins og henni lýst nánar. Byggingarleyfi fyrir breyttri notkun kjallarans mun ekki hafa verið gefið út.

Kærandi hefur átt í samskiptum við borgaryfirvöld vegna íbúðarinnar allt frá hausti 2019. Var kæranda tilkynnt með tölvupósti 27. maí 2020 að eigendum íbúðarinnar hafi verið sent bréf vegna málsins og veittur frestur til að gefa skýringar vegna hennar. Á næstu mánuðum hafði kærandi margsinnis samband við borgaryfirvöld og bárust honum nokkrar tilkynningar á þeim tíma um að eigendum íbúðarinnar hefði verið veittur frekari frestur til að þess að sækja um byggingarleyfi. Kæranda var tilkynnt 6. október 2020 að eigendum íbúðarinnar hefði verið sent bréf og þeim gefið færi á að sækja um byggingarleyfi. Ef umsókn bærist ekki innan tilskilins frests myndi embættið taka ákvörðun um hvort beita ætti þvingunarúrræðum. Samskipti kæranda og borgaryfirvalda héldu áfram með svipuðu sniði uns  kæranda var tilkynnt 25. mars 2021 að hönnuður eigenda íbúðarinnar hafi verið í viðræðum við arkitekta embættisins varðandi umsókn um byggingarleyfi og beðið væri eftir gögnum frá þeim. Þá var kæranda tilkynnt 30. maí s.á. að þrátt fyrir ítrekanir og ítrekaða veitta fresti hefði enn engin umsókn um byggingarleyfi borist embættinu frá eigendum íbúðarinnar. Fundað yrði með lögfræðingi og kærandi látinn vita í kjölfarið um næstu skref.

Hinn 9. júní 2021 barst kæranda tölvupóstur frá embætti byggingarfulltrúa. Fram kom að sökum þess að um ágreining milli eigenda um notkun sameiginlega rýma í húsinu væri að ræða myndi embætti byggingarfulltrúa ekki aðhafast frekar í málinu, og var athygli kæranda vakin á úrræðum sem íbúar fjöleignarhúsa hafa skv. III kafla fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Er þetta hin kærða ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekki sé eingöngu um að ræða ágreining milli eigenda um notkun sameiginlegra rýma í húsinu að Suðurgötu 13, heldur snúist málið að mestu leyti um ólögmæta íbúð í kjallara hússins sem hafi ekki tilskilin leyfi. Ákvörðun embættisins um að vísa málinu frá á þeim grundvelli að um slíkan ágreining væri að ræða eigi ekki við rök að styðjast.

Að mati kæranda uppfylli kjallaraíbúðin ekki skilyrði gr. 6.7.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar sé kveðið á um að íbúð skuli hafa að lágmarki eitt íbúðarherergi sem er a.m.k. 18 m2 að stærð, eldhús og baðherbergi. Þar segi einnig að slík rými innan íbúðar skuli tengd innbyrðis og ekki skuli þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Ekki liggi fyrir hvort umrædd íbúð uppfylli skilyrði varðandi öryggi og brunavarnir, enda hafi hún aldrei verið tekin út af byggingarfulltrúa. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna. Þá sé það hlutverk byggingarfulltrúa að annast eftirlit með mannvirkjagerð sem falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Samkvæmt nefndri 1. mgr. 9. gr. sé óheimilt að breyta notkun, útliti eða formi mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa.

Vísað sé til ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Bendi skráning íbúðarinnar til þess að hún hafi verið skráð sem slík af vangá hjá Fasteignamati Ríkisins sem hafi engar forsendur haft eða leyfi til þess að samþykkja íbúðir án þess að þær hafi verið samþykktar af byggingarfulltrúa, sbr. 4. mgr. 17. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að senda beiðni um breytingu á skráningu fasteigna til Þjóðskrár og því ætti erindi kæranda vissulega heima þar. Mjög brýnt sé fyrir alla eigendur hússins að eignin sé tekin út af byggingarfulltrúa svo unnt sé að breyta skráningu íbúðarinnar og gera nýja eignaskiptayfirlýsingu þar sem núverandi eignaskiptayfirlýsing sé röng og byggi ekki á réttum útreikningum og hlutfallstölum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að málið sé enn til skoðunar hjá skilmálaeftirliti Reykjavíkurborgar. Erindið, sem sent var kæranda 9. júní 2021, hafi varðað ágreining milli eigenda um notkun sameiginlegra rýma í húsinu. Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaatriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé ekki að leggja fyrir byggingarfulltrúa athafnir, heldur úrskurða um lögmæti ákvarðana embættisins.

Til vara gera borgaryfirvöld kröfu um að ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekki verði staðfest. Samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 séu minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi og falli léttur veggur innanhúss undir þá undanþágu.

Borgaryfirvöld bendi á að embætti byggingarfulltrúa hafi ekki aðkomu að ágreiningi eigenda um eignarhald eða eignaskipti. Embætti byggingarfulltrúa skorti heimild til að aðhafast varðandi ágreining um notkun þurrkherbergis sameignar í fjöleignarhúsi. Slíkt sé alfarið á forræði húsfélagsins sem gæti nýtt sér úrræði 55. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Athugasemdir íbúðareiganda: Eigandi kjallaraíbúðarinnar bendir á að hann hafi ekki farið í neinar framkvæmdir á íbúðinni frá því hún hafi verið keypt. Þá hafi fyrri eigandi ekki farið í stórar framkvæmdir á íbúðinni fyrir utan almennt viðhald á baðherbergi og innréttingum. Hvorki veggur né geymsla hafi verið sett upp eins og kærandi héldi fram. Lítil geymsla sem fylgi íbúðinni sé þar sem aðrar geymslur íbúa væru.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítrekar fyrri málsrök sín og gerir jafnframt athugasemd við það sem fram kemur í greinargerð Reykjavíkurborgar um að málið sé enn til skoðunar hjá embættinu. Átti kærandi sig ekki á því hvort máli hans sé lokið eða ekki. Kærandi bendi á að Reykjavíkurborg hafi ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sé kveðið á um í 2. mgr. að stjórnvaldi beri að framsenda erindi á réttan stað berist erindi sem ekki sem snerti starfssvið þess. Kærandi haldi því ekki fram að núverandi eigandi hafi ráðist í umræddar breytingar, en ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum breytingum á sínum tíma og séu þær því ólögmætar. Upprunalegar teikningar geri ekki ráð fyrir umræddum vegg og auka geymslu í þurrkherbergi sameignar og því hafi þær breytingar vissulega farið fram seinna.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir efni ákvörðunar. Þá brestur úrskurðarnefndinni heimild til þess að leggja tilteknar athafnir fyrir byggingaryfirvöld og borgara. Verður því ekki tekin afstaða til krafna kæranda um að byggingarfulltrúa verði gert að taka út kjallaraíbúðina og senda beiðni um breytingu á skráningu eignarinnar til Þjóðskrár og að eigendum íbúðarinnar verði gert að fjarlægja vegg  og geymslu sem sett hafi verið upp í sameign.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hefur kærandi verið í samskiptum við borgaryfirvöld frá því um haustið 2019 vegna íbúðar í kjallara hússins að Suðurgötu 13. Hin kærða ákvörðun um að aðhafast ekki frekar í máli kæranda laut að ágreiningi eigenda hússins um notkun rýma í sameign. Ákvörðunin tók hins vegar ekki til þess hluta málsins sem snýr að byggingaleyfi vegna breyttrar notkunar kjallarans og mögulegri beitingu þvingunarúrræða vegna þess. Sá þáttur málsins er að sögn borgaryfirvalda enn í vinnslu og styðja gögn málsins það. Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Um tvö ár eru liðin frá því að kærandi leitaði til borgaryfirvalda vegna kjallaraíbúðar í húsinu á Suðurgötu 13 og um 11 mánuðir frá því að honum var tilkynnt að eigendum íbúðarinnar hefði verið sent bréf og þeim gefið færi á að sækja um byggingarleyfi, ella mætti búast við að embætti byggingarfulltrúa myndi taka ákvörðun um hvort beita ætti þvingunarúrræðum. Er því ljóst að afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð á langinn. Með hliðsjón af því að málið hefur nú verið afgreitt að hluta og þeim upplýsingum borgaryfirvalda að meðferð þess standi enn yfir þykir þó ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið að svo stöddu. Enda hefur málið að þessu leyti ekki verið til lykta leitt í skilningi 2. mgr. 26. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að þegar niðurstaða byggingarfulltrúa liggur fyrir um hvort þvingunarúrræðum verði beitt er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, auk þess sem unnt að kæra frekari drátt á meðferð málsins til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.