Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

149/2021 Sambyggð

Árið 2021, fimmtudaginn 18. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Ölfuss frá 9. september 2021 um að stálvirki fjölbýlishúss á lóð nr. 18 við Sambyggð uppfylli ekki skil­yrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 21. september 2021, kærir Pró hús ehf., þá ákvörðun byggingarfulltrúa Ölfuss frá 9. september 2021 að stálvirki fjölbýlishúss á lóð nr. 18 við Sambyggð uppfylli ekki skilyrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Ölfusi 21. október 2021.

Málavextir: Á árinu 2019 mun kærandi hafa byrjað á framkvæmdum vegna byggingar fjölbýlis­húss á lóð nr. 18 við Sambyggð í Ölfusi. Hinn 16. júní 2021 sendi forsvarsmaður kæranda tölvupóst á byggingarfulltrúa sveitarfélagsins og óskaði eftir öryggisúttekt á húsinu. Í svari byggingarfulltrúa kom fram að til að hægt væri að framkvæma öryggisúttekt þyrfti að uppfæra byggingar- og matsstig hússins. Það yrði ekki gert fyrr en skilyrðum staðalsins ÍST 51:2001 um byggingarstig húsa væri fullnægt. Hinn 8. júlí s.á. fór fram öryggisúttekt og að beiðni byggingarfulltrúa útbjó verkfræðistofa minnisblað um þau atriði sem þyrftu frekari athugunar við eða uppfylltu ekki kröfur. Byggingarfulltrúi fundaði með fulltrúum kæranda 9. september 2021 vegna málsins. Hinn 15. s.m. sendi forsvarsmaður kæranda tölvu­póst til byggingarfulltrúa og óskaði staðfestingar á tilgreindum atriðum sem munu hafa komið fram á fundinum. Meðal annars óskaði hann staðfestingar á því að gera þyrfti úrbætur sam­kvæmt minnisblaði verkfræðistofunnar til að húsið gæti farið á byggingarstig 5. Jafnframt óskaði hann stað­festingar á því að stálvirki uppfyllti ekki skilyrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í svari byggingarfulltrúa var stafest að svo væri.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að eftir að húsið á lóðinni Sambyggð 18 hafi orðið fokhelt hafi byggingarfulltrúi beðið um fleiri teikningar. Í byrjun júní 2021 hefðu íbúðir í húsinu verið afhentar en þó ekki til búsetu. Á þeim tíma hefði kærandi óskað eftir öryggis- og lokaúttekt hjá byggingar­fulltrúa en við því hefði ekki verið orðið heldur hefði hann óskað eftir teikningum og deilum. Þá hefði byggingarfulltrúi upplýst að hann treysti ekki burðarvirki hússins og ætlaði að fá „sérstaka skoðunarstöð“ til að yfirfara það. Á endanum hefði byggingarfulltrúi óskað eftir öryggisúttekt en látið byggingarstjóra vita að hlutlaus aðili yrði með í úttektinni. Brunavarnir Árnessýslu hefði gert úttekt án athugasemda en fyrrnefnd verkfræðistofa hefði skilað 12 athugasemdum. Byggingarfulltrúi hefði síðan óskað eftir skýrslu um byggingar­framkvæmdarinnar og að arkitekt skilaði inn fleiri teikningum og deilum, en án þess að tilgreina það nánar. Þá hefði byggingarfulltrúi fundað með forsvars­mönnum kæranda 9. september 2021 en á þeim fundi hefði komið fram ný hlið á málinu þar sem byggingarfulltrúi teldi burðarstál ekki uppfylla skilyrði um tæringarflokk 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Því sé lögð fram kæra á hendur byggingarfulltrúa fyrir valdníðslu, einelti og brot á reglugerðum. Einnig sé um brot á meðalhófsreglu að ræða. Þá sé bent á að unnið sé að lag­færingu á þeim 12 athugasemdum sem verkfræðistofan hafi gert við öryggisúttekt.

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í kærunni séu gerðar athugasemdir við málsmeðferð vegna umfjöllun um fjöleignarhúsið að Sambyggð 18. Ekki sé þó fyllilega ljóst hvað kærandi geri kröfu um eða að hverjum kæran snúi. Af efni hennar og fyrirliggjandi gögnum verði helst ráðið að kæran beinist að svörum byggingarfulltrúa þess efnis að ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að færa húsið að Sambyggð 18 á hærra byggingarstig. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriði á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum. Kæruheimild til nefndarinnar sé m.a. að finna í lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar séu á þeim lagagrundvelli. Í svörum byggingarfulltrúa að skilyrði séu ekki uppfyllt til að færa umrætt hús á hærra byggingarstig felist ekki stjórnvalds­ákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 59. gr. laga nr. 160/2010. Af þeim sökum sé engin kæruheimild fyrir hendi og því beri að vísa kærunni frá.

Að öðru leyti byggi sveitarfélagið á því að málsmeðferð byggingarfulltrúa hafi verið í samræmi við lög og reglugerðir. Um byggingarstig mannvirkja sé stuðst við íslenskan staðal, ÍST 51:2001. Þar sé að finna nákvæma útlistun á þeim atriðum sem uppfylla þurfi til að fá mann­virki skráð á hvert byggingarstig. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi byggingarfulltrúi veitt kæranda ítarlegar leiðbeiningar um þau atriði sem hann þurfi að uppfylla til að hægt væri að færa fjöleignarhúsið að Sambyggð 18 af byggingarstigi 4. Ástæða þess að það hafi ekki verið gert sé sú að kærandi hefði ekki uppfyllt viðkomandi skilyrði. Byggingarfulltrúi hafi lagt sig fram við að veita ítarlegar leiðbeiningar en kærandi, sem byggingaraðili, beri ábyrgð á því að upp­fylla tilgreind skilyrði.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þá verða aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í máli þessu gerir kærandi athugasemdir við störf byggingarfulltrúa Ölfuss vegna byggingar fjölbýlishúss á lóðinni Sambyggð 18. Vísar kærandi til þess að hin kærða ákvörðun sé frá 9. september 2021 en á þeim degi áttu forsvarsmenn kæranda fund með byggingar­fulltrúa. Á fundinum kom m.a. fram sú afstaða byggingarfulltrúa um að stálvirki hússins uppfyllti ekki skilyrði samkvæmt tæringarflokki 4 í gr. 8.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og væri því úrbóta þörf. Ekki verður talið að sú afstaða feli í sér stjórnvaldsákvörðun tekna á grundvelli laga nr. 160/2010. Þá verður heldur ekki séð að fyrir liggi í málinu önnur ákvörðun sem bindur enda á mál og sem er kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslu­laga. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.