Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2022 Álalind

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhanns­dóttir prófessor tók þátt í fundinum gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2022, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. og 26. maí 2021 um að gefa út lokaúttektarvottorð vegna hússins á lóð Ála­lindar 14 annars vegar og bílageymslu Álalindar 14-16 hins vegar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. apríl 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Álalindar 14 og lóðar- og bílageymslufélag Álalindar 14–16 þær ákvarðanir byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. og 26. maí 2021 að gefa út lokaúttektarvottorð vegna hússins á lóð Álalindar 14 annars vegar og bílageymslu Álalindar 14–16 hins vegar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. maí 2022.

Málavextir: Frá árinu 2019 hafa kærendur átt í töluverðum samskiptum við byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar vegna hússins á lóð Álalindar 14 og bílageymslu Álalindar 14–16 í tengslum við ófullnægjandi frágang og aðra ágalla sem þeir telja vera á mannvirkjunum. Hinn 6. maí 2021 gaf byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar út lokaúttektarvottorð vegna hússins að Álalind 14 og 26. s.m. gaf hann út lokaúttektarvottorð vegna bílageymslu Álalindar 14–16. Eru það hinar kærðu ákvarðanir í máli þessu.

Með bréfi, dags. 10. júní 2021, sendu kærendur bréf til byggingarfulltrúa og óskuðu eftir því að lokaúttektarvottorðin yrðu dregin til baka og var það erindi ítrekað 14. júlí s.á. Mun erindinu ekki hafa verið svarað af byggingarfulltrúa og af því tilefni óskuðu kærendur eftir því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun beitti sér fyrir því að byggingarfulltrúi svaraði erindi þeirra. Með tölvupósti starfsmanns stofnunarinnar 7. september s.á. kom fram að óskað hefði verið eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa vegna málsins. Einnig var bent á að skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á grund­velli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og færi um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Með bréfi, dags. 29. s.m., taldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að gögn málsins gæfu ekki tilefni til íhlutunar af hálfu stofnunarinnar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Þá var kærendum bent á að hægt væri að óska eftir því að byggingarfulltrúi skoðaði málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. sömu laga og tæki byggingarfulltrúi ákvörðun á grundvelli þess lagaákvæðis gæti sú ákvörðun eftir atvikum verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með bréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 14. október 2021, var óskað eftir að byggingar­fulltrúi skoðaði málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki. Var í bréfinu vísað til þess að samkvæmt umboðsmanni Alþingis væri útgáfa vottorðs um lokaúttekt stjórnvaldsákvörðun auk þess sem bent var á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í máli nr. 54/2019 fallist á kröfu húsfélags um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu lokaúttektarvottorðs.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þótt hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki beinst að þeim þá komi kærendur fram fyrir hönd eigenda vegna sameiginlegra mála. Lokaúttektarvottorðin varði verulega hagsmuni eigenda og eigi kærendur að því leytinu aðilar málsins. Þá sé bent á að byggingarfulltrúa hafi vanrækt að upplýsa kærendur um rétt til að óska eftir rökstuðningi hinna kærðu ákvarðana og um kæruheimild, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar sem hafi skert mögu­leika kærenda á að gæta hagsmuna félagsmeðlima sinna. Ákvarðanirnar hafi byggst á ófull­nægjandi og röngum upplýsingum frá byggingarstjóra og þess félags sem hafi byggt mann­virkið, en það félag beri ábyrgð sem eigandi fyrir lokaúttekt, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Við útgáfu vottorðanna hafi verið fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni byggingarfulltrúa, sbr. 5. og 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Kópavogsbæ: Sveitarfélagið bendir á að í bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til kærenda, dags. 29. september 2021, hafi stofnunin talið að málið væri í réttum farvegi og því væri ekki tilefni til íhlutunar af hennar hálfu. Í sama bréfi hafi kærendum verið leiðbeint um kæruleiðir. Kæra í máli þessu hafi borist sjö mánuðum síðar og sé því of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé bent á að það hafi verið mat byggingar­fulltrúa að mannvirkið uppfyllti ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglugerð nr. 112/2012 við lokaúttekt og að það samræmdist hönnunargögnum að undanskilinni einni athugasemd vegna bílageymslu. Ef íbúar hafi athugasemdir við ástand fast­eignarinnar eða frágang þá beri þeim að beina þeim að þáverandi eiganda og seljanda hússins og viðkomandi byggingarstjóra. Þá sé því hafnað að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur til að gefa út hið kærða lokaúttektarvottorð.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar í bréfi þess, dags. 29. september 2021, hafi lotið að kærurétti eftir að byggingarfulltrúi tæki ákvörðun á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki, en í bréfinu hafi ekki verið minnst á lokaúttektarvottorð. Byggingarfulltrúi hafi haft mörg tækifæri til að vekja athygli kærenda á rétti til að kæra útgáfu vottorðs um lokaúttekt en það hafi hann ekki gert. Þar með hafi hann brugðist leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem fram kemur í málavöxtum gaf byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar út vottorð um lokaúttekt 6. maí 2021 vegna hússins að Ála­lind 14, auk þess sem að hann gaf út vottorð um lokaúttekt 26. s.m. vegna bílageymslu Álalindar 14–16. Af gögnum málsins má ráða að kærendum var kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir ekki síðar en 14. maí s.á. annars vegar og 10. júní s.á. hins vegar. Verður að miða við að kærufrestir hafi byrjað að líða við þau tímamörk og voru kærufrestir því löngu liðnir þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 5. apríl 2022.

 Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl.1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Tiltekið er í athugasemdum við 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslu­lögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar málsins séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé um slíkt að ræða sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Á það við í máli þessu þar sem hagsmunir kærenda og byggingaraðila fara ekki saman. Þá er tekið fram í athugasemdum við 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kæru­frestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst.

Af fyrirliggjandi samskiptum milli kærenda og byggingarfulltrúa er ekki að sjá að kærendum hafi verið leiðbeint um rétt þeirra til að kæra ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest. Sinnti sveitarfélagið því ekki leiðbeiningarskyldu sinni í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 20. gr. sömu laga. Aftur á móti verður að líta til þess að í september 2021 upplýsti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kærendur í tvígang um kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var í fyrra skiptið upplýst um að stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki væru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar en í síðari skiptið að ákvörðun byggingarfulltrúa sem tekin væri á grundvelli 56. gr. sömu laga væri kæranleg til nefndarinnar. Þá sendu kærendur byggingar­fulltrúa bréf í október 2021 þar sem þeir bentu byggingarfulltrúa á að útgáfa vottorðs um loka­úttekt væri stjórnvaldsákvörðun og vísuðu til kærumáls hjá úrskurðarnefndinni þar sem slíkt vottorð hefði hlotið efnismeðferð nefndarinnar. Var þeim þá í lófa lagið að gera reka að því skjóta málinu til nefndarinnar og verður því ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki séð að veigamiklar ástæður séu fyrir því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

66/2022 Breikkun Reykjanesbrautar

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 66/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 um að samþykkja að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir tvö­földun Reykjanes­brautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála, dags. 30. Júní 2022, er barst nefnd­inni sama dag, kærir einn eigenda Óttarsstaða, Hafnar­firði, þá ákvörðun bæjar­stjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 9. mars 2022 að samþykkja að veitt verði fram­kvæmda­leyfi fyrir tvöföldun Reykja­nesbrautar frá Krýsu­víkurvegi að Hvassahrauni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að fram­kvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki til­efni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 6. júlí 2022.

Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfis­áhrifum vegna breikkunar Reykja­nesbrautar frá Krýsuvíkurvegi að Hvassahrauni í Hafnarfirði lá fyrir 21. desember 2021. Með umsókn til Hafnar­fjarðar­kaup­staðar hinn 18. febrúar 2022 sótti Vegagerðin um fram­kvæmda­­leyfi fyrir tvöföldun á um 5,6 km kafla Reykja­nesbrautar sem nær frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina brautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur ásamt tengdum framkvæmdum. Umsóknin var lögð fram og samþykkt á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022. Skipulags­fulltrúa var falið að gefa út framkvæmda­leyfi og málinu vísað til staðfestingar í bæjarstjórn. Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar 9. mars 2022 var afgreiðsla skipulags- og byggingarráðs sam­þykkt. Skipulags­fulltrúi gaf út leyfi vegna framkvæmd­anna 24. maí s.á. og var auglýsing þar um birt í Frétta­blaðinu og Lögbirtingablaðinu 1. júní 2022.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulags­laga nr. 123/2010. Í 52. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 14. septem­ber 2022 gerðist að bæjarstjórn Hafnar­fjarðar­kaupstaðar, samþykkti afgreiðslu skipu­­lags- og byggingarráðs frá 8. s.m. þar sem lögð var fram tillaga um að fella niður fram­kvæmda­­­leyfi Vega­gerðarinnar vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar sem samþykkt hafði verið á fundi skipulags- og byggingarráðs 1. mars 2022, og staðfest í bæjarstjórn 9. s.m. Fram kemur að ástæða þessa hafi verið sú að greinargerð skv. 14. gr. skipulags­laga hefði ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins.

Með þessu er ekki lengur í máli þessu til að dreifa gildri stjórn­valds­ákvörðun sveitarstjórnar sem skjóta má til úrskurðarnefndar­innar. Verður málinu því vísað frá nefndinni. Er um leið ekki tilefni til að reifa sjónarmið kæranda eða þeirra stjórnvalda sem að málinu koma.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

74/2022 Hafnarvík – Heppa

Með

Árið 2022, föstudaginn 2. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 74/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hafnarvík – Heppa.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál, er barst nefndinni 17. júlí 2022, kærir eigandi, Miðtúni 20, Höfn í Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hafnarvík – Heppa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 17. ágúst 2022.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Hornafjarðar 3. mars 2022 var lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Hafnarvík – Heppu vegna lóðanna Krosseyrarvegi 5-7 og Heppuvegi 2a. Samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var hún kynnt 15. mars 2022 með athugasemdafresti til 17. apríl s.á. Að lokinni grenndarkynningu var tillagan tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 11. maí s.á. Í fundargerð kom fram að borist hefði ein athugasemd og ein ábending um villu í texta. Taldi nefndin að fullnægjandi grenndarkynning hefði farið fram og var starfsmanni falið að svara umsagnaraðilum í samræmi við umræður á fundinum. Þá var lagt til að bæjarstjórn samþykkti breytinguna. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 19. s.m. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2022.

Kærandi gerir verulegar athugasemdir við stjórnsýslu sveitarfélagsins vegna málsins. Með breytingunni sé fallið frá meginmarkmiði deiliskipulagsins um „varðveislu húsanna sem enn standa í elsta byggðakjarna Hafnar“. Þvert á móti sé stuðlað að niðurrifi og geti breytingin ekki talist óveruleg. Kærandi sé íbúi í sveitarfélaginu og telji sig hafa ríka hagsmuni þegar komi að stjórnsýslu sveitarfélagsins og ráðstöfun og meðferð eigna þess. Það sé hagsmunamál allra íbúa á Höfn og allra sem áhuga hafa á umhverfi og byggðasögu að mál af þessu tagi hljóti vandaða umfjöllun.

Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Jafnframt sé gerð krafa um frávísun málsins þar sem eins mánaða kærufrestur hafi verið runninn út þegar kæra hafi borist nefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga. Samkvæmt gögnum málsins hafi kæra borist 17. júlí 2022 en kærð deiliskipulagsbreyting hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á. Þá bendir sveitarfélagið að um tímabundna skipulagsbreytingu sé að ræða vegna aðstæðna auk þess sem breytingin sé í samræmi við meginmarkmið deiliskipulags Hafnarvíkur – Heppu.

 Í athugasemdum kæranda við umsögn sveitarfélagsins ítrekar kærandi að hann hafi ríka hagsmuni að gæta sem íbúi í sveitarfélaginu og vísar hvað það varðar til markmiðsákvæða 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Almennt sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um ákvörðun. Hinn 16. júní 2022 hafi hann fengið upplýsingar um að skipulagsbreytingin hefði tekið gildi í B-deild Stjórnartíðinda 10. s.m. Það hafi komið honum á óvart að ákvörðun hefði verið birt fyrst og síðan hefðu verið send svör til þeirra sem gert hefðu athugasemdir. Veita eigi kæranda svigrúm þar sem hann sé ekki löglærður.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einstaklingar einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi býr ekki í grennd við þær lóðir sem hin kærða deiliskipulagsbreyting lýtur að. Verður hann af þeim sökum ekki talinn hafa lögvarða hagsmuni á þeim grundvelli að grenndarhagsmunir hans skerðist og hefur hann heldur ekki rökstudd kæruaðild sína á þeim grunni. Byggir kærandi lögvarða hagsmuni sína á því að hann hafi ríka hagsmuni að gæta sem íbúi í sveitarfélaginu með tilliti til ráðstöfunar og meðferðar eigna þess, auk þess sem það sé hagsmunamál allra íbúa á Höfn sem áhuga hafi á umhverfi og byggðasögu að slík mál hljóti vandaða umfjöllun. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

77/2022 Geirsgata

Með

Árið 2022, föstudaginn 5. ágúst, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 77/2022, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 28. júní 2022 að veita tímabundið starfsleyfi til reksturs á krá með lágmarksmatargerð að Geirsgötu 2-4.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Geirsgötu 2-4, eigendur 18 íbúða að Kolagötu 1 (áður Geirsgötu 2) og eigendur 19 íbúða að Kolagötu 3 (áður Geirsgötu 4), Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 28. júní 2022 að veita tímabundið starfsleyfi til reksturs á krá með lágmarksmatargerð að Geirsgötu 2-4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 28. júlí 2022.

Málsástæður og rök: Leyfishafi sótti um bráðabirgðarekstrarleyfi hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu 9. nóvember 2021 fyrir veitingastað í flokki II, veitingahús fyrir 140 gesti að Geirsgötu 2-4. Sýslumaður gaf út bráðabirgðarekstrarleyfi með gildistímann 15. desember 2021 til 15. janúar 2022. Kom þar fram að veitingatími væri til kl. 23 virka daga og til kl. 01 aðfaranætur frídaga. Hámarksfjöldi gesta væri 30. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf síðan út tímabundið starfsleyfi til að stafrækja veitingastað að Geirsgötu 2-4 með gildistímann 25. mars 2022 til 25. júní s.á. Leyfishafi sótti að nýju um starfsleyfi fyrir veitingastaðnum 16. maí s.á. Heilbrigðiseftirlitið upplýsti leyfishafa í framhaldinu um að fyrirhugað væri að takmarka opnunartíma veitingastaðarins vegna ónæðis sem af honum hlytist. Tekið var fram að leyfishafi hefði ekki skilað inn fullnægjandi gögnum um hljóðvist staðarins og að mælingar leyfishafa hafi sýnt fram á að hávaði á staðnum hafi ítrekað farið yfir leyfileg mörk skv. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Bent var á að framangreind brot yrðu höfð til hliðsjónar við afgreiðslu umsóknar um áframhaldandi starfsleyfi fyrir veitingastaðinn. Leyfishafi lagði fram hljóðvistarskýrslu 20. júní 2022 sem sýndi fram á að hljóðeinangrun væri ófullnægjandi. Jafnframt var lögð fram úrbótaáætlun þar sem gert var ráð fyrir að úrbótum yrði lokið í júlí s.á. Leyfishafi var upplýstur um að starfsleyfi til 12 ára yrði ekki gefið út fyrr en úrbótum á hljóðvist væri lokið. Leyfishafi sendi inn umsókn um tímabundið starfsleyfi til eins mánaðar hinn 12. júní 2022 á meðan unnið væri að úrbótum. Heilbrigðiseftirlitið sendi leyfishafa bréf dags. 27. s.m. þar sem fram kom að tímabundið starfsleyfi yrði gefið út til eins mánaðar eða til 28. júlí s.á. Jafnframt kom fram að opununartími veitingastaðarins yrði takmarkaður við kl. 23 alla daga og að gestir yrðu að hafa yfirgefið staðinn kl. 23 og að frekari frestir yrðu ekki veittir. Tímabundið starfsleyfi var gefið út 28. júní s.á. og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Af hálfu kærenda er bent á að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi verið óheimilt að veita hið tímabundna starfsleyfi vegna krárinnar að Geirsgötu 2-4. Vegna reynslu af rekstri staðarins sl. mánuði liggi fyrir að leyfishafi hafi ítrekað brotið gegn starfsleyfisskilyrðum hins eldra tímabundna starfsleyfis auk þess sem hann hafi enn ekki skilað inn fullnægjandi gögnum varðandi hljóðvist í rýminu sem sýni fram á að reksturinn valdi ekki og muni ekki valda hávaða og ónæði. Reksturinn uppfylli ekki reglur um hljóðvist, hávaða og ónæði, sem lög geri að skilyrði svo heimilt sé að veita rekstrarleyfi. Um sé að ræða rekstur veitingahúss í flokki III (skemmtistaður) sem óheimilt sé að stafrækja á því svæði sem um ræði skv. aðalskipulagi Reykjavíkur. Þá brjóti reksturinn gegn þinglýstri kvöð, sérstakri húsfélagssamþykkt, sem hvíli á eigninni. Umdeildur rekstur sé og hafi verið íþyngjandi fyrir kærendur sökum hávaða, lyktarmengunar og ónæðis og sé til þess fallinn að hafa áhrif á verðmæti fasteigna þeirra. Ákvörðun um veitingu áframhaldandi leyfis, jafnvel þó um bráðabirgðaleyfi sé að ræða, sé stjórnvaldsákvörðun sem verði að uppfylla þær lögbundnu kröfur sem lög og reglur geri til slíkra ákvarðana, þar sem ákvörðunin hafi áhrif á stjórnarskrárvarin eignarréttindi íbúðareigenda. Verði því að horfa vandlega til meginreglna stjórnsýsluréttarins um meðalhóf, lögmæti og jafnræði þegar ákvörðun sé tekin, enda séu gerðar ríkari kröfur til stjórnvalda í tilvikum þar sem mögulega sé brotið gegn stjórnarskrárvörðum hagsmunum.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að ákveðið hafi verið að veita tímabundið starfsleyfi á meðan rekstraraðilar veitingarstaðarins ynnu að nauðsynlegum úrbótum á hljóðvist samkvæmt úrbótaáætlun. Með hliðsjón af kvörtunum um ónæði og hávaða frá staðnum hafi einnig verið tekin ákvörðun um að takmarka opnunartíma við kl. 23 alla daga. Með þessum ákvörðunum hafi verið gætt bæði jafnræðis og meðalhófs. Rekstraraðili hafi skilað gögnum um hljóðvist, m.a. eigin hljóðmælingum. Þessi gögn hafi sýnt að hljóðvist hafi verið ófullnægjandi og að tilefni væri til úrbóta. Almennar miðborgarheimildir gildi á lóðinni sem um ræði og þar megi heimila allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, að skemmtistöðum undanskildum og opnunartími megi lengst vera til kl. 03:00 um helgar. Þá séu útiveitingar heimilar til kl. 23:00. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefi út starfsleyfi skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 93/1995 um matvæli. Veitingastaðir séu á lista í viðauka IV við lög nr. 7/1998 og þeir séu matvælafyrirtæki skv. 16. tl. 4. gr. laga nr. 93/1995. Starfsleyfi sé gefið út uppfylli viðkomandi starfsemi þau skilyrði sem sett séu í lögum og í reglugerðum. Leyfi sé ótímabundið sé það einungis gefið út skv. lögum nr. 93/1995 en tímabundið ef starfsemi falli undir bæði lög nr. 93/1995 og lög nr. 7/1998 eða einungis þau síðarnefndu. Kærendur hafi hverfandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Hið kærða leyfi hafi runnið úr gildi 28. júlí 2022. Ekki hafi verið tekin afstaða til útgáfu nýs starfsleyfis. Sé framkomin kæra tilraun til að hafa áhrif á afgreiðslu nýrrar starfsleyfisumsóknar sé vert að benda á að skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir sem eiga lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri ákvörðun skotið henni til úrskurðarnefndarinnar. Í máli þessu er starfsleyfi kært sem rann út 28. júlí 2022 og hefur leyfið því ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá umdeildri ákvörðun hnekkt svo sem krafist er í máli þessu. Verður kærumáli þessu því vísað frá þar sem á skortir að skilyrði nefndrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 fyrir kæruaðild er ekki lengur fyrir hendi.

Rétt þykir að taka fram að ef nýtt starfsleyfi verður veitt er eftir atvikum hægt að kæra ákvörðun um veitingu þess til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

57/2022 Vesturgata

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 2. ágúst, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Kristín Benediktsdóttir dósent og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 3. september 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu. Jafnframt er kærð útgáfa byggingar­leyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2022, er bárust nefndinni 9. s.m., kæra eigendur, Vesturgötu 65; eigendur, Vesturgötu 65a; eigendur, Vesturgötu 69; eigendur, Vesturgötu 73; eigendur, Seljavegi 10, öll í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs frá 3. september 2020 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Selja­vegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu.

Einnig er kærð útgáfa byggingarleyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn Félagsbústaða hf. um greint leyfi. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Kærendur gera jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til með­ferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. júní 2022.

Málavextir: Lóðin Vesturgata 67 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag milli Seljavegar og Ánanausta, staðgreinireitur 1.133.1, sem samþykkt var í borgarráði 24. janúar 1984 og tók gildi 18. apríl s.á. Með skipulaginu var gert ráð fyrir að reist yrði tveggja og hálfs hæðar íbúðarhús á lóðinni. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 15. apríl 2020 var lögð fram umsókn Félags­bústaða hf. um breytingu á deiliskipulaginu vegna umræddrar lóðar. Í breytingunni fólst m.a. stækkun lóðarinnar og að á henni yrði heimilt að reisa fjögurra hæða hús með sex íbúðum ásamt sameiginlegum rýmum á jarðhæð. Byggingarmagn færi úr 349 í 606 m². Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 30. s.m. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningartíma, m.a. frá hluta af kærendum þessa máls, og á fundi skipulags- og samgönguráðs 26. ágúst 2020 var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá sama degi. Samþykkti borgarráð þá afgreiðslu 3. september s.á. og var auglýsing um gildistöku breytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2020.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. október 2020 var samþykkt að stækka umrædda lóð um 94 m² þannig að hún yrði 309 m². Umsókn um leyfi fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi með sex íbúðum auk starfsmannarýmis „sem [yrði] „léttur“ búsetukjarni í notkunarflokki 5“ var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. nóvember s.á. Var afgreiðslu málsins frestað með vísan til athugasemda, en málinu var einnig frestað á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 10. og 24. s.m. og 1. og 8. desember 2020. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 15. desember s.á. Var umsóknin samþykkt og hún talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hinn 27. janúar 2022 gaf byggingarfulltrúi út leyfi fyrir byggingu hússins og munu framkvæmdir hafa byrjað í upphafi marsmánaðar.

Hinn 31. mars 2022 sendi einn af kærendum þessa máls tölvupóst til Reykjavíkurborgar og vakti athygli á því að útlit fyrirhugaðrar byggingar að Vesturgötu 67 virtist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags auk þess sem óskað var athugasemda og upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi. Fyrirspurnin var ítrekuð 29. apríl s.á. og í svarpósti byggingarfulltrúa frá 3. maí s.á. kom fram að samþykkt byggingarinnar væri í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar. Jafnframt var upplýst að samþykktin væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að íbúar að Vesturgötu 65, 65a og 69 hafi gert marg­víslegar athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna Vesturgötu 67, m.a. um þakhæð, skuggavarp, útsýnisskerðingu, útlit götuhliðar sem og áhrif á götumynd. Í svari skipulags- og byggingarsviðs við þeim athugasemdum hafi m.a. komið fram að götuhlið hússins skyldi taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur væri, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Í svari við ábendingum um skuggavarp á nærliggjandi hús og útsýnisskerðingu hafi komið fram að tillagan sýndi aðeins byggingarreit og að bæði skuggavarp og útsýnisskerðing væri háð útfærslu á þak­formi. Ekki alls fyrir löngu hafi íbúar í nágrenninu orðið þess áskynja að á Vesturgötu 67 væri fyrirhugað að reisa byggingu sem tæki ekki tillit til ofangreindra skilmála. Öll aðliggjandi hús og öll hús í nærliggjandi götum séu með mænisþaki, en á Vesturgötu 67 eigi að reisa hús sem sé kassalaga með flötu þaki. Það passi alls ekki inn í götumyndina.

Send hafi verið fyrirspurn til Reykjavíkurborgar um hvað stæði til og beðið um gögn og skýringar. Ófullnægjandi svar hafi borist um fjórum vikum síðar og því hafi fyrirspurnin verið ítrekuð. Hinn 27. maí 2022 hafi borist svohljóðandi svar frá byggingarfulltrúa: „Í viðhengi er samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar að Vesturgötu 67 og tillaga að húsi sem fylgdi með umsókn um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar. Samþykkt byggingarleyfi er í samræmi við þessi gögn. Álitamál getur verið hvað fer vel í götumynd hverju sinni og er ekki talin ástæða til að ræða það frekar hér.“ Umrædd tillaga að húsi við Vesturgötu 67 sé hvað varði gluggagerð, form og útlit götuhliðar engan veginn í samræmi við það sem búið hafi verið að fullvissa íbúa í nærliggjandi húsum um. Þau atriði séu heldur ekki í samræmi við gögn frá borgaryfirvöldum eða auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Þá sé gerð sérstök athugasemd við síðustu setninguna í fyrrnefndu svari byggingarfulltrúa en með fullyrðingu hans séu orð gerð merkingarlaus. Einnig hafi kvöð um að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé enga þýðingu.

Íbúar í nágrenni við Vesturgötu 67 hafi enga ástæðu haft til að ætla annað en að framlagðar teikningar yrðu í samræmi við það sem búið hafi verið að ákveða í skipulagsferlinu. Annað hafi komið á daginn og hafi málið verið endanlega upplýst af hálfu borgarinnar 27. maí 2022. Líti kærendur svo á að kærufrestur teljist frá þeim degi. Jafnframt hafi byggingarfulltrúi bent á í nýlegu svari að samþykkt nýbyggingarinnar væri kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og verði það ekki túlkað öðruvísi en svo að borgin sé samþykk því að nefndin taki málið til meðferðar.

Kærendur að Seljavegi 10 benda á að vegna hinnar umdeildu byggingar muni þau missa útsýni yfir sjóinn, um Akurey og upp á Akranes. Þá sé nú þegar grimmileg barátta um bílastæði í hverfinu og nú skuli enn kreppt að. Hafi þeim aldrei verið kynnt fyrirhugaðar framkvæmdir af borgaryfirvöldum en afar stutt sé á milli lóðar þeirra og Vesturgötu 67.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði vísað frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kröfum verði hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lúti að. Sé um að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur vera frá birtingu ákvörðunar. Þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðar­nefndinni hafi verið liðnir meira en 18 mánuðir frá upphafi kærufrests deiliskipulags­breytingarinnar og frestur til að kæra þá ákvörðun löngu liðinn. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 1. mgr. 28. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en einnig sé vísað til 27. gr. laganna í þessu sambandi. Þá sé skv. 28. gr. sömu laga óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.

Ekki sé fallist á að samþykktir uppdrættir séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, enda um huglægt mat kærenda að ræða. Þvert á móti taki götuhliðar tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Þar sem samþykkt byggingar­leyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag beri að hafna kröfu um ógildingu leyfisins enda ekkert komið fram sem valdið geti ógildingu þess.

 Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn vegna beggja hinna kærðu ákvarðana. Þá hafi skipulagsfulltrúi svarað athugasemdum íbúa við kynningu á breyttu deiliskipulagi skilmerkilega.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun borgarráðs frá 3. september 2020 að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu. Einnig er deilt um útgáfu byggingarleyfis, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklega lögvarða hags­muni tengda ákvörðun sem kærð er. Við mat á því hvort kærendur hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumáls verður að líta til þess að stjórnsýslukæra er úrræði til að tryggja réttaröryggi borgaranna, en það er meðal markmiða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. athugasemdir í frumvarpi því sem varð að þeim lögum. Almennt ber því að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi þeim sem stendur að baki kærumálinu. Í máli þessu eru kærendur m.a. eigendur íbúða að Vesturgötu 65, 65a, 69 og 73 en fyrirhuguð bygging að Vesturgötu 65 mun, ásamt Vesturgötu 71 og 75, verða hluti af húsasamstæðu greindra fasteigna. Verður að telja að sú aðstaða og grennd, eins og hér háttar, geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni greindra kærenda. Verður þeim því játuð kæruaðild að máli þessu. Að sama skapi verður kærendum að Seljavegi 10 játuð aðild vegna áhrifa byggingarinnar á útsýni frá lóð þeirra.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga, sem gilda um málsmeðferð Reykjavíkurborgar þegar lögum nr. 130/2011 sleppir, er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

 Ákvörðun borgarráðs um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. október 2020. Kærufrestur var því löngu liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 9. júní 2022. Að því virtu og með vísan til sjónarmiða 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður þeim þætti málsins er lýtur að hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Sem fyrr greinir telst upphaf hins eins mánaðar kærufrests 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, vegna annarra ákvarðana en þeirra sem sæta opinberri birtingu, vera frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Framkvæmdir við Vestur­götu 67 munu hafa byrjað í upphafi marsmánaðar 2022 og verður því að líta svo á að stuttu eftir það tíma­mark hafi kærendum öllum mátt vera kunnugt um að leyfi hefði verið veitt fyrir byggingu á umræddri lóð. Var því eins mánaðar kærufrestur vegna hins kærða byggingarleyfis liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 9. júní 2022.

Líkt og áður greinir skal skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum við 28. gr. í frum­varpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar málsins séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé um slíkt að ræða sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kæru­fresti í algjörum undantekningartilvikum. Þá er tekið fram í athugasemdum við 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðar­nefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra, áður en ágreiningur um þær verði ljós, skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki en eðli málsins samkvæmt hefur byggingar­leyfishafi allajafna ríkra hagsmuna að gæta í kærumálum sem varða leyfi hans.

Svo sem greinir í málavöxtum sendi einn af kærendum þessa máls hinn 31. mars 2022 tölvupóst til Reykjavíkurborgar og vakti athygli á því að útlit fyrirhugaðrar byggingar að Vesturgötu 67 virtist ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags auk þess sem óskað var athugasemda og upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi. Fyrirspurnin var ítrekuð 29. apríl s.á. og í svarpósti byggingarfulltrúa frá 3. maí 2022 kom m.a. fram að samþykktin væri í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar. Jafnframt var upplýst að samþykkt byggingarinnar væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og aðsetur og netfang nefndarinnar tilgreint. Með tölvupóstum fyrrnefnds kæranda til byggingarfulltrúa 18. og 25. maí 2022 var enn farið fram á frekari skýringar á því hvers vegna samþykkt hefði verið leyfi fyrir byggingu sem væri í engu samræmi við það sem búið hefði verið að kynna og samþykkja varðandi útlit hennar. Svaraði byggingar­fulltrúi erindinu 27. maí 2022 og áréttaði að samþykkt byggingarleyfi væri í samræmi við deili­skipulag. Með svarinu fylgdi í viðhengi samþykkt breyting á deiliskipulagi lóðarinnar og tillaga að húsi sem fylgdi með umsókn um breytingu skipulagsins.

Á Reykjavíkurborg hvílir rík leiðbeiningarskylda samkvæmt stjórnsýslulögum gagnvart þeim sem ákvörðun um byggingarleyfi beinist að sem og nágrönnum og öðrum sem hafa hagsmuna að gæta og leita til stjórnvaldsins vegna þess. Samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga skal leiðbeina þeim sem eiga beina aðild að málum um kæruheimild og kærufresti. Þegar því ákvæði sleppir ber að leiðbeina öðrum um sömu atriði á grundvelli 7. gr. laganna þegar slíkt á við. Við mat á því hvort skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga, um að taka kæru til meðferðar að liðnum kærufresti, séu uppfyllt verður að líta til þess að Reykjavíkurborg sinnti ekki leiðbeiningar­skyldu sinni í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga þegar áðurgreindur tölvupóstur frá 31. mars 2022 var móttekinn. Í ljósi þess að óskað var upplýsinga um hvaða úrræði væru fyrir hendi og að framkvæmdir stóðu þá yfir bar borgar­yfirvöldum að bregðast skjótt við og leiðbeina um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar vegna hins kærða byggingarleyfis og um kærufrest. Fyrir liggur að svar barst frá byggingarfulltrúa meira en fjórum vikum síðar eða 3. maí 2022. Þrátt fyrir að þar hafi verið að finna leiðbeiningar um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar var aftur á móti ekki upplýst um kærufrest skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sem er töluvert styttri en almennur kærufrestur samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra laga. Í ljósi þess að borgaryfirvöld brugðust seint við að leiðbeina um kæruheimild og upplýstu ekki um kærufrest verður að telja afsakanlegt í skilningi 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni. Að framangreindu virtu verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulags­áætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ágreiningsefni þessa máls lýtur að því hvort greind lagaskilyrði séu uppfyllt, en kærendur telja að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki skilmálum deiliskipulags milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu um að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur er, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Benda þeir á að öll aðliggjandi hús og hús í hverfinu séu með mænisþaki en á Vesturgötu 67 verði reist hús með flötu þaki. Telja kærendur húsið ekki samræmast götumynd.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi lóðar Vesturgötu 67 er gert ráð fyrir að á lóðinni verði heimilt að reisa fjögurra hæða hús. Segir að hámarksvegghæð miðist við vegghæð bakhliðar Vesturgötu 65a ofan á steyptan kant, en þak megi fara upp í sömu hæð og þak Vesturgötu 65a ef húsið að Vesturgötu 67 hafi mænisþak. Á skipulagsuppdrættinum er með myndrænum hætti sýnt hvernig þak Vesturgötu 67 muni líta út miðað við mænisþak annars vegar og flatt þak hins vegar. Er því ljóst að umrætt deiliskipulag gerir ráð fyrir að þak fyrirhugaðrar byggingar geti verið flatt. Hins vegar segir einnig í skipulagsskilmálum lóðarinnar að götuhlið hússins skuli taka tillit til aðliggjandi húsa eins og kostur sé, t.d. varðandi efnisval, gluggagerðir og/eða hæð og form. Samkvæmt samþykktum byggingaráformun mun hin umþrætta bygging hafa flatt þak og óreglubundna gluggasetningu. Af gögnum þeim sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. útlitsmynd og tölvuteiknuð mynd af Vesturgötu séð frá gatnamótum Ánanausta frá arkitektastofu þeirri sem kom að undirbúningi deiliskipulagsbreytingarinnar, verður að telja að götuhlið Vesturgötu 67 muni stinga verulega í stúf við aðliggjandi hús sem öll eru með mænisþaki og reglubundna gluggasetningu. Verður því ekki séð að við hönnun götuhliðar hússins hafi verið tekið tillit til aðliggjandi húsa eins og kveðið er á um í skilmálum skipulagsins með skýrum hætti, en hvorki Reykjavíkurborg né leyfishafi hafa fært fram rök fyrir því hvort og þá með hvaða hætti það hafi verið gert. Enda þótt játa verði stjórnvöldum svigrúm til mats við útgáfu byggingarleyfis þegar fyrir liggja matskenndir skipulagsskilmálar hvílir sú skylda á þeim að taka afstöðu til þeirra atriða sem þar koma fram og geta sýnt fram á að svo hafi verið gert. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hið kærða byggingarleyfi sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs frá 3. september 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi milli Seljavegar og Ánanausta vegna lóðarinnar nr. 67 við Vesturgötu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Fellt er úr gildi byggingarleyfi Vesturgötu 67, dags. 27. janúar 2022, fyrir steinsteyptu fjögurra hæða húsi á sömu lóð með sex íbúðum auk starfsmannarýmis, sbr. ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. desember 2020 um að samþykkja umsókn um greint leyfi.

 

68/2022 Fornuströnd

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 12. júlí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Mál nr. 68/2022, kæra á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 3. júlí 2022 kæra eigendur Látrastrandar 9 og Fornustrandar 10, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 5. apríl 2022, var sótt um leyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 5. maí s.á. Erindinu var frestað á þeim fundi og skipulagsfulltrúa var falið að óska eftir áliti skipulagshönnuðar. Umsóknin var tekin fyrir að nýju í skipulags- og umferðarnefnd 21. júní s.á. og var þá samþykkt. Fundargerð þess fundar var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi 22. júní 2022.

Kærendur benda á að fyrirhuguð nýbygging verði utan byggingarreits, að hæð ofan á bílskúr muni verða mun hærri en tíðkist í hverfinu, að þakgarðar séu ekki leyfilegir og byggingarmagn sé meira en heimilað byggingarmagn samkvæmt deiliskipulagi. Hverfið sé fullbyggt hverfi og kærendur telji sig ekki þurfa að þola útsýnisskerðingu, aukið skuggavarp og mikla innsýn.

Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að byggingarleyfi fyrir hinni kærðu framkvæmd hafi ekki verið gefið út og að byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar 21. júní 2022.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa hin umdeildu byggingaráform ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa.

Hið kærða samþykki skipulags- og umferðarráðs á umdeildum byggingaráformum felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur en hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Fornustrandar 8. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í máli þessu sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 59. gr. laga um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

50/2022 Hamarstígur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 29. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 50/2022, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. maí 2022, kæra eigendur Hamarstígs 24 Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 21. júní 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 13. janúar 2021 var á þar til gerðu eyðublaði lögð fram fyrirspurn til skipulagssviðs/ráðs Akureyrarbæjar um leyfi til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 26 við Hamarstíg og breyta þaki á húsi lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 27. s.m. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar fyrir lægi samþykki eigenda nágrannalóða vegna nálægðar bilgeymslunnar við lóðarmörk. Byggingaráformin voru þó ekki grenndarkynnt fyrr en ári síðar eða með bréfi sviðsstjóra þjónustu- og skipulagssviðs, dags. 28. febrúar 2022. Var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 1. apríl s.á. en hann var síðar framlengdur til 7. s.m. vegna uppfærslu á uppdrætti. Kærendur gerðu athugasemdir við grenndarkynninguna og á fundi skipulagsráðs 20. apríl 2022 var málið tekið fyrir að nýju þar sem þær athugasemdir voru lagðar fram ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við þeim. Samþykkti skipulagsráð „fyrirliggjandi umsókn um byggingaráform“ og tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við framkomnar athugasemdir. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi sent Akureyrarbæ ítarlegar athugasemdir við grenndarkynningu málsins og m.a. bent á að byggingaráformin fælu í sér verulegt skuggavarp og almennt ónæði í rúmlega 70 ára gömlu og rótgrónu hverfi. Eina svar bæjaryfirvalda hafi verið að líkur á skuggavarpi væru taldar hverfandi. Ekki hafi verið farið yfir aðrar athugasemdir og þær aldrei teknar fyrir. Hæðarmunur lóða Hamarstígs 26 og 24 sé 130 cm og með byggingaráformunum sé ráðgert að þriðja hæðin bætist við húsið á lóð Hamarstígs 26. Kærendur muni því horfa yfir þriggja hæða hús til vestur sem að viðbættum hæðarmismun lóðanna yrði um 10 m. Ákvörðunin hafi veruleg áhrif á hagsmuni kærenda vegna færri sólarstunda að vetri og vori þegar sól sé lágt á lofti. Einnig hljótist af þessu verulegt ónæði þar sem hin viðbætta hæð muni vera að stórum hluta úr geri og með hurð út á svalir. Um yrði að ræða þriggja hæða hús í mjög lágreistu og fallegu hverfi.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að líkur á neikvæðum áhrifum vegna aukins skuggavarps séu hverfandi. Húsið á lóð Hamarstígs 26 sé í um 30 m fjarlægð frá húsinu á lóð Hamarstíg 24 og um 14 m frá lóðarmörkum sem teljist vera nokkuð mikið í þéttbýli. Vegna þeirrar fjarlægðar og þeirrar staðreyndar að á báðum lóðunum sé þéttur gróður og tré, sem séu töluvert hærri en fyrirhugaðar byggingar, hafi ekki verið talin þörf á að gera sérstakar skuggavarpsrannsóknir. Þá sé vegna fjarlægðar milli húsanna ekki talið að breytingin feli í sér ónæði fyrir kærendur umfram það sem geti talist eðlilegt í þéttbýli. Til að minnka áhrif af hinum fyrirhugaða bílskúr verði hann hafður í 3 m fjarlægð frá lóðarmökum og innst á lóðinni. Fyrirhuguð byggingaráform séu í góðu samræmi við útlit og gerð húsa í næsta nágrenni og falli vel að þeirri byggð sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Hamarstígs 26 til bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa umdeild byggingaráform á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hið kærða samþykki skipulagsráðs á umdeildum byggingaráformum að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Hamarstígs 26. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

52/2022 Hrísateigur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 52/2022, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Hrísateigs 15 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. maí 2022, er barst nefnd­inni sama dag, kærir einn eigenda Hrísateigs 15, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á umsókn hans um samþykkt byggingar­áforma að Hrísateig 15. Er þess krafist að afgreiðslu umsóknarinnar verði lokið.

Málsatvik og rök: Hinn 20. september 2021 sóttu eigendur Hrísateigs 15 um leyfi til breytinga á húsinu sem fólust í áformum um að stækka stofur allra íbúða til suðurs, lengja svalir á 1. og 2. hæð, einangra húsið að utan og klæða það með bárujárni. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslu­­fundum byggingarfulltrúa 28. september og 12. október s.á. þar sem henni var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa Umsóknin var enn á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 15. desember s.á. þar sem afgreiðslu hennar var frestað með vísan til umsagnar skipulags­full­trúa frá 10. desember 2021. Í umsögninni kom m.a. fram að um væri að ræða mikla breytingu þar sem hutföll og ásýnd hússins breytist mikið og að umsókn kæranda væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Byggingarleyfisumsókninni var síðan synjað á afgreiðslufundi byggingar­­fulltrúa 7. júní 2022 með vísan til greindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi bendir á að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingar­leyfis sé á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010.

Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr álitaefninu.

Niðurstaða: Í­­­ máli þessu hefur kærandi krafist þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík ljúki afgreiðslu um­sóknar hans um byggingarleyfi „án frekari frestunar og tafa.“ Fyrir liggur að umsókninni var synjað á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 7. júní 2022.

Í 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimild til að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er kæruheimild þessi undan­tekning frá almennu ákvæði 2. mgr. 26. gr. laganna um að einungis þær ákvarðanir sem binda endi á mál verði bornar undir kærustjórnvald. Verður að telja að tilgangur kæruheimildarinnar sé að gera málsaðila kleift að knýja fram málalyktir í máli sínu, sem er til meðferðar hjá stjórn­valdi, dragist afgreiðsla þess óhæfilega. Þar sem fyrir liggur að kröfu kæranda um að afgreiðslu umsóknar hans verði lokið hefur verið fullnægt á hann ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að knýja fram afgreiðslu málsins og fá úr því skorið hvort dráttur sá sem varð á afgreiðslu málsins hafi verið óhæfilegur eða hvort málefnalegar ástæður hafi búið að baki þeim drætti. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að framangreind ákvörðun byggingarfulltrúa er kæranleg til úrskurðar­nefndar­innar og sætir þá málsmeðferð erindis kæranda í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kæru­frestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

35/2022 Hlaðbrekka

Með

Árið 2022, mánudaginn 13. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 35/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars 2022, um að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2022, er barst nefndinni 23. apríl s.á., kæra eigendur Fögrubrekku 18 og 20 þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars s.á. að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að byggingarleyfi verði fellt úr gildi ef það hafi verið gefið út áður en úrskurður nefndarinnar liggi fyrir í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 23. maí 2022.

Málsatvik og rök: Með erindi, dags. 2. febrúar 2021 óskuðu lóðarhafar Hlaðbrekku 17 eftir leyfi til viðbyggingar og breytinga á innra skipulagi húss sem stendur á lóðinni. Að lokinni grenndarkynningu umsóknarinnar var erindinu hafnað á fundi skipulagsráðs 5. júlí 2021 og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi 15. s.m. Lóðarhafar fóru fram á endurupptöku málsins með bréfi dags. 10. nóvember s.á. og á fundi bæjarráðs 18. s.m. var samþykkt að vísa málinu til skipulagsráðs til nýrrar meðferðar. Á fundi skipulagsráðs 14. mars 2022 var erindi lóðarhafa samþykkt og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsráðs 22. s.m..

Kærendur benda á að við endurupptöku málsins hafi verið lögð fram gögn sem séu röng og tekið hafi verið tillit til röksemda sem ekki væru í samræmi við þau viðmið sem hafa skuli til hliðsjónar við slíkt mat. Alvarlegir misbrestir hafi verið á afgreiðslu málsins, nýtingarhlutfall lóðar sé mun meira en gefið hafi verið upp í umsókn auk þess sem hæð í framlagðri umsókn sé vel rúmum meter hærri en sú lína sem dregin sé milli aðliggjandi húsa og því í andstöðu við þau viðmið sem Kópavogsbær hafi sett. Umbeðnar breytingar á húsinu muni hafa áhrif á útsýni kærenda auk þess að breyta ásýnd götunnar þar sem gatan sé einsleit með húsum byggðum á svipuðum tíma með sambærilega hönnun.

Bæjaryfirvöld benda á að byggingarfulltrúi hafi enn ekki samþykkt byggingaráform fyrir greindri viðbyggingu. Samþykki skipulagsráðs og staðfesting bæjarstjórnar feli ekki í sér endanlega afgreiðslu á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en það sé hlutverk byggingar­fulltrúa sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða þar sem endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Þá hafi orðið eigendaskipti á húsinu og ekki liggi fyrir hvort nýir eigendur ætli að halda málinu áfram í samræmi við þær teikningar sem hafi verið grenndarkynntar. Samþykkt skipulagsráðs hafi byggt á þeim forsendum að það væri í samræmi við rammahluta gildandi aðalskipulags og að grenndaráhrif væru óveruleg. Þá væri að finna fordæmi í næsta nágrenni hvað varðaði þakform og dvalarsvæði.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja fyrir sitt leyti viðbyggingu og breytingu á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki er það hlutverk byggingarfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er slíku leyfi, eftir atvikum að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfis á ódeiliskipulögðu svæði og afgreiðslu skipulagsyfirvalda eins og á við í máli þessu. Byggingarfulltrúi hefur ekki samþykkt eða gefið út slíkt leyfi fyrir viðbyggingu eða breytingum á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Þrátt fyrir að ákvörðun bæjarstjórnar feli í sér afstöðu til beiðni um byggingarleyfi verður sú afstaða ekki talin binda enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda um að ræða lið í málsmeðferða byggingarleyfsumsóknar.

 Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

48/2022 Flókagata

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 24. maí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 48/2022, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl 2022 á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Ljóshólar ehf. afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. apríl s.á. á fyrirspurn um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Hinn 1. apríl 2022 sendi lögmaður kæranda á þar til gerðu eyðublaði fyrirspurn til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4, eignarhluta 01 0001. Erindinu fylgdi bréf og önnur gögn. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. s.m. þar sem bókað var að spurt hafi verið um leyfi til að skrá áður gerða íbúð í kjallara sem sér fasteign á grundvelli fordæmis á samþykktu erindi frá 1998 og skoðunarskýrslu vegna brunavirðis frá 1938 í húsi á lóð nr. 4 við Flókagötu. Er erindinu svarað „neikvætt“ og vísað til umsagnar á athugasemda­blaði.

Kærandi bendir á að Flókagata 4-6 sé fjöleignarhús sem skiptist í fimm eignarhluta. Flókagata 6 skiptist í þrjár íbúðir og þrjá eignarhluta, ein íbúð á hvorri hæð og ein í kjallara. Flókagata 4 skiptist einnig í þrjár íbúðir, ein á hvorri hæð og ein í kjallara, en einungis tvo eignarhluta þar sem íbúð í kjallara og íbúð á 1. hæð séu undir sama fasteignanúmeri. Í báðum húsum hafi verið íbúðir í kjallara frá upphafi en íbúðin í kjallara Flókagötu 6 hafi verið samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 24. febrúar 1998 á þeim grundvelli að það samræmdist reglum um áður gerðar íbúðir. Þegar aflað hafi verið upplýsinga vegna gerðar eignaskiptayfirlýsingar fyrir Flókagötu 4 hafi starfsmaður byggingarfulltrúa upplýst um að íbúðin í kjallara hússins yrði að vera samþykkt af byggingarfulltrúa, annars yrði hún skráð sem geymslur. Af því tilefni hafi fyrirspurn verið lögð fyrir byggingarfulltrúa um samþykki fyrir áðurgerðri íbúð í kjallara. Þótt einungis hafi verið um afgreiðslu á fyrirspurn að ræða þá liggi ljóst fyrir að um endanlega ákvörðun hafi verið að ræða sem kæmi í veg fyrir að kærandi gæti lokið við gerð eignaskiptayfirlýsingar.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á fyrirspurn kæranda, dags. 1. apríl 2022, um samþykki fyrir áður gerðri íbúð í kjallara að Flókagötu 4 í Reykjavík. Erindi kæranda var sett fram sem fyrirspurn þótt orðalagið benti til þess að sótt væri eftir samþykki. Afgreiðsla byggingarfulltrúa ber þess einnig merki að um afgreiðslu á fyrirspurn sé að ræða þar sem erindið og svör við því er bókað undir „ýmis mál“ í fundargerð frá afgreiðslufundi 12. apríl 2022 og það afgreitt „neikvætt“ en erindinu ekki hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Neikvæð afgreiðsla byggingarfulltrúa á fyrirspurn kæranda fól því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.