Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2022 Álalind

Árið 2022, þriðjudaginn 20. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Aðalheiður Jóhanns­dóttir prófessor tók þátt í fundinum gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2022, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. og 26. maí 2021 um að gefa út lokaúttektarvottorð vegna hússins á lóð Ála­lindar 14 annars vegar og bílageymslu Álalindar 14-16 hins vegar.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. apríl 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir húsfélag Álalindar 14 og lóðar- og bílageymslufélag Álalindar 14–16 þær ákvarðanir byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 6. og 26. maí 2021 að gefa út lokaúttektarvottorð vegna hússins á lóð Álalindar 14 annars vegar og bílageymslu Álalindar 14–16 hins vegar. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. maí 2022.

Málavextir: Frá árinu 2019 hafa kærendur átt í töluverðum samskiptum við byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar vegna hússins á lóð Álalindar 14 og bílageymslu Álalindar 14–16 í tengslum við ófullnægjandi frágang og aðra ágalla sem þeir telja vera á mannvirkjunum. Hinn 6. maí 2021 gaf byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar út lokaúttektarvottorð vegna hússins að Álalind 14 og 26. s.m. gaf hann út lokaúttektarvottorð vegna bílageymslu Álalindar 14–16. Eru það hinar kærðu ákvarðanir í máli þessu.

Með bréfi, dags. 10. júní 2021, sendu kærendur bréf til byggingarfulltrúa og óskuðu eftir því að lokaúttektarvottorðin yrðu dregin til baka og var það erindi ítrekað 14. júlí s.á. Mun erindinu ekki hafa verið svarað af byggingarfulltrúa og af því tilefni óskuðu kærendur eftir því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun beitti sér fyrir því að byggingarfulltrúi svaraði erindi þeirra. Með tölvupósti starfsmanns stofnunarinnar 7. september s.á. kom fram að óskað hefði verið eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa vegna málsins. Einnig var bent á að skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væru stjórnvaldsákvarðanir sem teknar væru á grund­velli laganna kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og færi um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Með bréfi, dags. 29. s.m., taldi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að gögn málsins gæfu ekki tilefni til íhlutunar af hálfu stofnunarinnar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Þá var kærendum bent á að hægt væri að óska eftir því að byggingarfulltrúi skoðaði málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. sömu laga og tæki byggingarfulltrúi ákvörðun á grundvelli þess lagaákvæðis gæti sú ákvörðun eftir atvikum verið kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Með bréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 14. október 2021, var óskað eftir að byggingar­fulltrúi skoðaði málið á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki. Var í bréfinu vísað til þess að samkvæmt umboðsmanni Alþingis væri útgáfa vottorðs um lokaúttekt stjórnvaldsákvörðun auk þess sem bent var á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í máli nr. 54/2019 fallist á kröfu húsfélags um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu lokaúttektarvottorðs.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þótt hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki beinst að þeim þá komi kærendur fram fyrir hönd eigenda vegna sameiginlegra mála. Lokaúttektarvottorðin varði verulega hagsmuni eigenda og eigi kærendur að því leytinu aðilar málsins. Þá sé bent á að byggingarfulltrúa hafi vanrækt að upplýsa kærendur um rétt til að óska eftir rökstuðningi hinna kærðu ákvarðana og um kæruheimild, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verulegir annmarkar hafi verið á málsmeðferð byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar sem hafi skert mögu­leika kærenda á að gæta hagsmuna félagsmeðlima sinna. Ákvarðanirnar hafi byggst á ófull­nægjandi og röngum upplýsingum frá byggingarstjóra og þess félags sem hafi byggt mann­virkið, en það félag beri ábyrgð sem eigandi fyrir lokaúttekt, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Við útgáfu vottorðanna hafi verið fyrir hendi aðstæður sem séu til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni byggingarfulltrúa, sbr. 5. og 6. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Kópavogsbæ: Sveitarfélagið bendir á að í bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til kærenda, dags. 29. september 2021, hafi stofnunin talið að málið væri í réttum farvegi og því væri ekki tilefni til íhlutunar af hennar hálfu. Í sama bréfi hafi kærendum verið leiðbeint um kæruleiðir. Kæra í máli þessu hafi borist sjö mánuðum síðar og sé því of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Beri því að vísa málinu frá. Verði ekki fallist á frávísun málsins sé bent á að það hafi verið mat byggingar­fulltrúa að mannvirkið uppfyllti ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglugerð nr. 112/2012 við lokaúttekt og að það samræmdist hönnunargögnum að undanskilinni einni athugasemd vegna bílageymslu. Ef íbúar hafi athugasemdir við ástand fast­eignarinnar eða frágang þá beri þeim að beina þeim að þáverandi eiganda og seljanda hússins og viðkomandi byggingarstjóra. Þá sé því hafnað að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur til að gefa út hið kærða lokaúttektarvottorð.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar í bréfi þess, dags. 29. september 2021, hafi lotið að kærurétti eftir að byggingarfulltrúi tæki ákvörðun á grundvelli 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki, en í bréfinu hafi ekki verið minnst á lokaúttektarvottorð. Byggingarfulltrúi hafi haft mörg tækifæri til að vekja athygli kærenda á rétti til að kæra útgáfu vottorðs um lokaúttekt en það hafi hann ekki gert. Þar með hafi hann brugðist leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er mælt fyrir um að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Svo sem fram kemur í málavöxtum gaf byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar út vottorð um lokaúttekt 6. maí 2021 vegna hússins að Ála­lind 14, auk þess sem að hann gaf út vottorð um lokaúttekt 26. s.m. vegna bílageymslu Álalindar 14–16. Af gögnum málsins má ráða að kærendum var kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir ekki síðar en 14. maí s.á. annars vegar og 10. júní s.á. hins vegar. Verður að miða við að kærufrestir hafi byrjað að líða við þau tímamörk og voru kærufrestir því löngu liðnir þegar kæra barst úrskurðarnefndinni 5. apríl 2022.

 Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl.1. mgr. 28. gr. eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Tiltekið er í athugasemdum við 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslu­lögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar málsins séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé um slíkt að ræða sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Á það við í máli þessu þar sem hagsmunir kærenda og byggingaraðila fara ekki saman. Þá er tekið fram í athugasemdum við 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kæru­frestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst.

Af fyrirliggjandi samskiptum milli kærenda og byggingarfulltrúa er ekki að sjá að kærendum hafi verið leiðbeint um rétt þeirra til að kæra ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs til úrskurðarnefndarinnar og um kærufrest. Sinnti sveitarfélagið því ekki leiðbeiningarskyldu sinni í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 20. gr. sömu laga. Aftur á móti verður að líta til þess að í september 2021 upplýsti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kærendur í tvígang um kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var í fyrra skiptið upplýst um að stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki væru kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar en í síðari skiptið að ákvörðun byggingarfulltrúa sem tekin væri á grundvelli 56. gr. sömu laga væri kæranleg til nefndarinnar. Þá sendu kærendur byggingar­fulltrúa bréf í október 2021 þar sem þeir bentu byggingarfulltrúa á að útgáfa vottorðs um loka­úttekt væri stjórnvaldsákvörðun og vísuðu til kærumáls hjá úrskurðarnefndinni þar sem slíkt vottorð hefði hlotið efnismeðferð nefndarinnar. Var þeim þá í lófa lagið að gera reka að því skjóta málinu til nefndarinnar og verður því ekki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki séð að veigamiklar ástæður séu fyrir því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.