Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2022 Fornuströnd

Árið 2022, þriðjudaginn 12. júlí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Mál nr. 68/2022, kæra á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 3. júlí 2022 kæra eigendur Látrastrandar 9 og Fornustrandar 10, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 5. apríl 2022, var sótt um leyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 5. maí s.á. Erindinu var frestað á þeim fundi og skipulagsfulltrúa var falið að óska eftir áliti skipulagshönnuðar. Umsóknin var tekin fyrir að nýju í skipulags- og umferðarnefnd 21. júní s.á. og var þá samþykkt. Fundargerð þess fundar var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi 22. júní 2022.

Kærendur benda á að fyrirhuguð nýbygging verði utan byggingarreits, að hæð ofan á bílskúr muni verða mun hærri en tíðkist í hverfinu, að þakgarðar séu ekki leyfilegir og byggingarmagn sé meira en heimilað byggingarmagn samkvæmt deiliskipulagi. Hverfið sé fullbyggt hverfi og kærendur telji sig ekki þurfa að þola útsýnisskerðingu, aukið skuggavarp og mikla innsýn.

Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að byggingarleyfi fyrir hinni kærðu framkvæmd hafi ekki verið gefið út og að byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar 21. júní 2022.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa hin umdeildu byggingaráform ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa.

Hið kærða samþykki skipulags- og umferðarráðs á umdeildum byggingaráformum felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur en hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Fornustrandar 8. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í máli þessu sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 59. gr. laga um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.