Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2022 Hafnarvík – Heppa

Árið 2022, föstudaginn 2. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 74/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hafnarvík – Heppa.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamál, er barst nefndinni 17. júlí 2022, kærir eigandi, Miðtúni 20, Höfn í Hornafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 19. maí 2022 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hafnarvík – Heppa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 17. ágúst 2022.

Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Sveitarfélagsins Hornafjarðar 3. mars 2022 var lögð fram tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Hafnarvík – Heppu vegna lóðanna Krosseyrarvegi 5-7 og Heppuvegi 2a. Samþykkti nefndin að grenndarkynna tillöguna skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var hún kynnt 15. mars 2022 með athugasemdafresti til 17. apríl s.á. Að lokinni grenndarkynningu var tillagan tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 11. maí s.á. Í fundargerð kom fram að borist hefði ein athugasemd og ein ábending um villu í texta. Taldi nefndin að fullnægjandi grenndarkynning hefði farið fram og var starfsmanni falið að svara umsagnaraðilum í samræmi við umræður á fundinum. Þá var lagt til að bæjarstjórn samþykkti breytinguna. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 19. s.m. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní 2022.

Kærandi gerir verulegar athugasemdir við stjórnsýslu sveitarfélagsins vegna málsins. Með breytingunni sé fallið frá meginmarkmiði deiliskipulagsins um „varðveislu húsanna sem enn standa í elsta byggðakjarna Hafnar“. Þvert á móti sé stuðlað að niðurrifi og geti breytingin ekki talist óveruleg. Kærandi sé íbúi í sveitarfélaginu og telji sig hafa ríka hagsmuni þegar komi að stjórnsýslu sveitarfélagsins og ráðstöfun og meðferð eigna þess. Það sé hagsmunamál allra íbúa á Höfn og allra sem áhuga hafa á umhverfi og byggðasögu að mál af þessu tagi hljóti vandaða umfjöllun.

Af hálfu sveitarfélagsins er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Jafnframt sé gerð krafa um frávísun málsins þar sem eins mánaða kærufrestur hafi verið runninn út þegar kæra hafi borist nefndinni, sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga. Samkvæmt gögnum málsins hafi kæra borist 17. júlí 2022 en kærð deiliskipulagsbreyting hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 10. júní s.á. Þá bendir sveitarfélagið að um tímabundna skipulagsbreytingu sé að ræða vegna aðstæðna auk þess sem breytingin sé í samræmi við meginmarkmið deiliskipulags Hafnarvíkur – Heppu.

 Í athugasemdum kæranda við umsögn sveitarfélagsins ítrekar kærandi að hann hafi ríka hagsmuni að gæta sem íbúi í sveitarfélaginu og vísar hvað það varðar til markmiðsákvæða 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Almennt sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um ákvörðun. Hinn 16. júní 2022 hafi hann fengið upplýsingar um að skipulagsbreytingin hefði tekið gildi í B-deild Stjórnartíðinda 10. s.m. Það hafi komið honum á óvart að ákvörðun hefði verið birt fyrst og síðan hefðu verið send svör til þeirra sem gert hefðu athugasemdir. Veita eigi kæranda svigrúm þar sem hann sé ekki löglærður.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einstaklingar einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi býr ekki í grennd við þær lóðir sem hin kærða deiliskipulagsbreyting lýtur að. Verður hann af þeim sökum ekki talinn hafa lögvarða hagsmuni á þeim grundvelli að grenndarhagsmunir hans skerðist og hefur hann heldur ekki rökstudd kæruaðild sína á þeim grunni. Byggir kærandi lögvarða hagsmuni sína á því að hann hafi ríka hagsmuni að gæta sem íbúi í sveitarfélaginu með tilliti til ráðstöfunar og meðferðar eigna þess, auk þess sem það sé hagsmunamál allra íbúa á Höfn sem áhuga hafi á umhverfi og byggðasögu að slík mál hljóti vandaða umfjöllun. Þau málsrök lúta að gæslu hagsmuna sem telja verður almenna.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði kæruaðildar samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 í máli þessu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.