Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

1/2023 Gufunesvegur

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 14. mars 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 1/2023, kæra vegna „vanefnda Reykjavíkurborgar“ varðandi aðkomu og aðgengi að húsum á lóð Gufunesvegar 34.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 2. janúar 2023, kærir Loftkastalinn ehf., lóðarhafi Gufunesvegar 34, „[vanefndir] Reykjavíkurborgar“ varðandi aðkomu og aðgengi að húsum á lóð Gufunesvegar 34. Gerir kærandi þá kröfu að úrskurðarnefndin leggi fyrir borgaryfirvöld að framkvæma nánar tilgreindar aðgerðir í tengslum við aðkomu og aðgengis að húsum á lóð Gufunesvegar 34.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. janúar 2023.

Málavextir: Í janúar 2018 keypti kærandi af Reykjavíkurborg þrjár húseignir, ásamt lóðarréttindum og byggingarrétti, í Gufunesi. Við kaupin var um eina lóð að ræða en með deiliskipulagi, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 1. mars 2019, var lóðinni skipt í tvennt. Hinn 29. september s.á. var gefið út framkvæmdaleyfi vegna gatnagerðar og lagningar veitukerfa í Gufunesi, áfanga 1. Skaut kærandi þeirri samþykkt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem hann taldi m.a. að hæð götu við lóð hans gengi gegn skipulagi svæðisins. Var kröfu hans um ógildingu leyfisins hafnað af nefndinni með úrskurði uppkveðnum 1. desember 2020 í máli nr. 79/2020. Fór kærandi í tvígang fram á endurupptöku málsins en þeim beiðnum var báðum synjað. Vegna síðari endurupptökubeiðni kæranda skilaði Reykjavíkurborg umsögn, dags. 2. mars 2022, þar sem m.a. kom fram að verið væri að skoða frekari lausnir í samráði við kæranda.

Kærandi og Reykjavíkurborgar funduðu saman hinn 1. september 2022 um breytta hæðarlegu gatna í kringum Gufunesveg 34 og við Þengilsbás. Í kjölfarið voru drög að hæðarblaði útbúin og þau send til kæranda. Hinn 30. s.m. gerði kærandi athugasemdir við drögin og fór fram á að annað hvort yrði athugasemdunum svarað með útskýringum og rökstuðningi eða að boðnar yrðu ásættanlegri úrlausnir við hverri og einni athugasemd. Starfsmaður skrifstofu framkvæmda og viðhalds Reykjavíkurborgar svaraði athugasemdunum 18. nóvember s.á. Í tölvupósti til borgarritara 8. desember 2022 lýsti kæranda yfir vonbrigðum með svörum Reykjavíkurborgar við athugasemdum hans. Kom og fram að kærandi væri fús til að gera lokatilraun til að leita sátta í málinu og færi í því ljósi fram á einhver jákvæð viðbrögð frá borgaryfirvöldum fyrir 15. desember s.á., en að öðrum kosti myndi hann leita annarra leiða við að ná fram rétti sínum.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi í fjögur ár reynt að fá til baka þá eign sem keypt hafi verið árið 2018. Það sé hreinn ásetningu hjá Reykjavíkurborg að „leiðrétta ekki aðkomur og lóð um hús þar sem þau standa að hluta utan lóðar.“ Gerð sé krafa um að borgaryfirvöld skrásetji og merki inn í skipulag í samræmi við fullyrðingar í svarbréfi borgarinnar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. mars 2022, en þar hafi verið fullyrt að ekkert skert aðgengi væri að neinu húsnæði á svæðinu. Merktar verði innkeyrslur að malbikuðum bílastæðum sem hafi verið við húsin frá 1984 og snúi út að Gufunesvegi. Þinglýstur verði umferðarréttur um göngugötu að innkeyrsluhurð og leyfi til að afferma og fylla á í göngugötu. Umferðarréttur og aðkoma haldist óskert að húsum þar sem innkeyrsluhurð, gönguhurð og gluggar séu á lóðamörkum Gufunesvegar 34 og Þengilsbási 1. Ekki hafi verið gefinn upp hæðarkóti á Þengilsbás 1 í fjögur ár frá skipulagi þrátt fyrir að gefa skuli upp hæð 1. hæðar samkvæmt skipulagsreglugerð.

Þá sé þess krafist að staðið verði við ummæli í svarbréfi Reykjavíkurborgar um hönnun gangstétta í tengslum við fráveitukerfi. Borgaryfirvöld bendi oft á að um þróunarsvæði sé að ræða en það gefi ekki afslátt á því að fara að lögum og reglugerðum. Borginni beri að fara að reglum um bil milli bygginga, en kærandi muni ekki breyta veggjum á núverandi húsum í eldvarnarveggi og göngugata sé of þröng samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þá sé þess krafist að Reykjavíkurborg stækki lóð svo að hús standi innan lóðar, að vatnsinntök fyrir Gufunesveg 36 eða Þengilsbás 3, sem lögð séu inn á lóð Þengilsbás 1, verði fjarlægð og að merkt verði aðkoma að bílakjallara á sama stað.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði vísað frá. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Ekki sé neinni kæranlegri ákvörðun til að dreifa í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en svo virðist sem kærandi sé að fara fram á að úrskurðað verði um skyldu Reykjavíkurborgar til tiltekinna athafna eða aðgerða. Um slíka skyldu sé úrskurðarnefndin ekki bær til að kveða á um.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur sig hafa kæruheimild í máli þessu þar sem Reykjavíkurborg hafi látið líta svo út í fjögur ár að verið sé að lagfæra gögn svo þau standist eignarrétt og lóðarétt kæranda, en gögn málsins sýni fram á allt annan veruleika. Borgaryfirvöld hafi þóst vera að vinna að lausn málsins en kæranda hafi verið það ljóst 16. desember 2022 að sú stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að tryggja ekki að aðkomur og innkeyrslur myndu verða í samræmi við eignarrétt og lóðarrétt kæranda. Vísað sé til c-liðar 1. gr., 53. og 55. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.2.1, 5.3.2.2. og 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

Eins og greinir í málavöxtum er tilefni kæru þessa máls ágreiningur milli kæranda og Reykjavíkurborgar um hæðarlegu gatna í kringum Gufunesveg 34. Til að koma til móts við kröfur kæranda um breytta hæðarlegu lögðu borgaryfirvöld fram drög að hæðarblaði, en kærandi féllst á ekki þau drög. Lýsti hann yfir vilja til að ná sáttum í málinu og fór af því tilefni fram á að „einhver jákvæð viðbrögð“ kæmu frá borginni fyrir 15. desember s.á., en það er sá dagur sem kærandi tilgreinir sem dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar. Er og ljóst að umræddur ágreiningur er einkaréttarlegs eðlis sem framangreind kæruheimild tekur ekki til. Verður ekki séð af framangreindri atburðarás eða gögnum málsins að öðru leyti að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

147/2022 Heiðarbrún

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 14. mars 2023, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 147/2022, kæra á stjórnsýslulegri meðferð Grímsness- og Grafningshrepps við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðanna Heiðarbrúnar 2–10 og Tjarnholtsmýri 1–15 á jörðinni Bjarnastöðum 1.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 21, desember 2022, er barst nefndinni 23. s.m., kæra eigandi lóðanna Tjarnholtsmýri 5 og Heiðarbrúnar 6 og 8 og eigandi lóðarinnar Heiðarbrúnar 4, stjórnsýslulega meðferð Grímsness- og Grafningshrepps við breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðanna Heiðarbrúnar 2–10 og Tjarnholtsmýri 1–15 á jörðinni Bjarnastöðum 1. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 27. janúar 2023.

Málsatvik og rök: Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008–2020 var jörðin Bjarnastaðir 1 á skilgreindu svæði fyrir frístundabyggð. Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs Uppsveit bs. 12. ágúst 2020 var tekin fyrir umsókn um breytingu á aðalskipulagi, en breytingin fól það í sér að lóðirnar Heiðarbrún 2–10 yrðu skilgreindar sem landbúnaðarsvæði. Mæltist skipulagsnefndin til þess að umsóknin yrði samþykkt og að málsmeðferð yrði í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti sveitarstjórn afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum 21. ágúst 2020. Í október sama ár tók sveitarstjórn fyrir tillögu um breytt aðalskipulag og deiliskipulag vegna lóðarinnar Heiðarbrúnar 10, en í breytingunni fólst að landnotkun myndi breytast úr frístundasvæði í landbúnaðarsvæði. Gerðu kærendur í kjölfarið athugasemdir við að breytingin tæki einungis til einnar lóðar en ekki alls svæðisins eins og upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. Á fundi sveitarstjórnar 3. febrúar 2021 var tillagan tekin fyrir að nýju og samþykkt að vísa henni til heildarendurskoðunar aðalskipulags sem stóð þá yfir. Hinn 13. desember 2022 staðfesti Skipulagsstofnun Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 og tók það gildi 29. s.m. við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Í nýju aðalskipulagi er umrætt svæði merkt sem L3, landbúnaðarsvæði.

Kærendur telja að málsmeðferð sveitarfélagsins uppfylli ekki form- og efnisreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnsýsluréttarins. Málsmeðferðin hafi verið ómálefnaleg vegna náinni vintengsla fyrrverandi sveitarstjóra og lóðareiganda Heiðarbrúnar 10. Reynt hafi verið að breyta aðalskipulagi fyrir þann eiganda einan en aðrir lóðareigendur, þ. á m. kærendur, hafi fengið neitun á umsókn þeirra án rökstuðnings. Kærendur hafi keypt lóðir sínar í trausti þess að aðalskipulag og deiliskipulag myndi halda og að hámark væri á byggingarmagni á lóðum. Með fyrirliggjandi breytingum sé búið að færa einum lóðareiganda aukið byggingarmagn og samþykkja breytta landnotkun, en það geti kærendur ekki sætt sig við. Áðurgildandi skipulag hafi heimilað léttan landbúnað en ekki stórbúskap. Samþykkt hafi verið tiltekin flokkun, L3, sem heimili rúmar byggingarheimildir, landbúnað og minni háttar atvinnustarfsemi, sem jafnvel sé ótengd landbúnaði. Kærendur hefðu aldrei keypt lóðir sínar ef fyrir hefði legið að hægt hefði verið að breyta landnotkun svæðisins á þann hátt sem gert hafi verið. Engin rök séu fyrir umræddum breytingum nema þau að verið sé að hygla einum lóðareiganda. Breytingarnar hefðu aldrei átt að ná fram að ganga nema með samþykki allra lóðareigenda Heiðarbrúnar 2–10. Sé þess krafist að hinar ólögmætu samþykktir á aðalskipulagi verði felldar úr gildi, en í því felist að skilgreining á flokkuninni L3 fyrir landbúnaðarsvæði falli niður.

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er gerð krafa um frávísun málsins en til vara að kröfum kærenda verði hafnað, enda hafi málsmeðferð sveitarfélagsins að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Heildarendurskoðun aðalskipulags Grímsnes- og Grafningshrepps, sem sé lokið og hafi tekið gildi í samræmi við fyrirmæli skipulagslaga, sé ekki kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. laganna. Engar aðrar ákvarðanir er varði skipulagsmál á svæðinu hafi tekið gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru samkvæmt þeim lögum.

 Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Eins og fram kemur í málavöxtum var Aðalskipulag Grímsnes- og Grafningshrepps 2020–2032 staðfest af Skipulagsstofnun 13. desember 2022 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka hið kærða aðalskipulag til endurskoðunar samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga. Þá hefur hvorki nýtt deiliskipulag verið samþykkt fyrir svæðið né breyting verið gerð á gildandi deiliskipulagi Bjarnastaða við Heiðarbrún frá árinu 2005, en fallið var frá deiliskipulagstillögu vegna lóðarinnar Heiðarbrúnar 10. Með hliðsjón af því og gögnum málsins að öðru leyti verður ekki séð að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

17/2023 Stóri Grámelur

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 23. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 17/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 15. júní 2022 að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 29. janúar 2023, kæra eigendur landareignarinnar Hagavíkur C, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 15. júní 2022 að samþykkja nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi hvað varðar þann hluta hverfisverndar HV6 sem nær inn í land Hagavíkur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 17. febrúar 2023.

Málsatvik og rök: Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 16. febrúar 2022 að auglýsa tillögu að nýju aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2020-2032. Á kynningartíma gerðu kærendur athugasemdir við hverfisvernd á Stóra-Grámel í landi Hagavíkur C. Sveitarstjórn féllst ekki á athugasemdir kærenda. Aðalskipulagið var samþykkt af sveitarstjórn 15. júní 2022, staðfest af Skipulagsstofnun 13. desember s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.

Af hálfu kærenda er bent á að aðalskipulagið hafi ekki verið staðfest af ráðherra og eigi því undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Engin þörf sé á hverfisvernd á svæðinu þar sem engin ógn stafi af svæðinu og engar framkvæmdir ráðgerðar. Þá séu lagaákvæði um hverfisvernd svo almenn og óljós að ekki ætti að vera hægt að leggja á skyldur eða kvaðir á grundvelli þeirra. Að lokum hafi rökstuðningur ákvarðana verið rýr og svör frá sveitarfélaginu borist seint.

Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er farið fram á frávísun málsins með vísan til 52. gr. laga nr. 123/2010.

Niðurstaða: Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 verða ákvarðanir sem ber undir Skipulagsstofnun og ráðherra til staðfestingar ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag.

Kærendur hafa bent á að ráðherra hafi ekki staðfest aðalskipulagið og eigi málið því undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður að skilja 52. gr. laga nr. 123/2010 sem svo að ákvarðanir sem annaðhvort eru staðfestar af Skipulagsstofnun eða af ráðherra verði ekki bornar undir nefndina, enda eru engar ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 123/2010 sem bæði Skipulagsstofnun og ráðherra þurfa að staðfesta.

Samkvæmt framangreindu brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

25/2023 Sóltún

Með

Árið 2023, föstudaginn 24. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 25/2023, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 20 febrúar 2023, kæra Íbúasamtök Laugardals, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hinn 24. nóvember 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Samkvæmt breytingartillögunni var lóðinni skipt í tvennt, nr. 2 og nr. 4. Breytingar vegna lóðar nr. 2 fólust meðal annars í að tvær álmur voru lengdar til að bæta við hjúkrunarrýmum, fimmtu hæðinni var bætt við að hluta og kjallari stækkaður. Á lóð nr. 4 var meðal annars formi byggingarreits breytt, notkun breytt úr hjúkrunarheimili í íbúðir og hæðar heimild aukin úr 4 hæðum í 5, með 6. hæð að hluta.

Kærendur vísa til þess að samþykkt viðbygging við Sóltún 2 muni skerða aðgengi og dagsbirtu í almenningsgarði sem afmarkist af byggingum við Sóltún og Miðtún. Athugasemdir íbúa og ítrekuð erindi frá íbúasamtökunum hafi ekki verið tekin til greina við skipulagsvinnuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bíður deiliskipulagið afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu.

 

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

14/2023 Presthús

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 14. febrúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Fyrir var tekið mál nr. 14/2023, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 6. desember 2022, um að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Presthús, Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Brautaholts 1, Kjalarnesi, þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 6. desember 2023 að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Presthús, Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og til vara að sá hluti deiliskipulagsins sem heimili umferð að Presthúsum um veg í landi Brautarholts 1, án samþykkis eiganda, verði felldur úr gildi.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hinn 24. nóvember 2022 deiliskipulag fyrir jörðina Presthús. Var málinu vísað til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar sem staðfesti niðurstöðu borgarráðs á fundi sínum 6. desember 2022. Í hinu kærða deiliskipulagi fólust áform um íbúðarhús, dvalar- og vinnuaðstöðu fyrir listamenn o.fl. Lýst var aðkomuvegi, gönguleiðum, byggingarreitur var staðsettur og skilmálar settir fyrir uppbyggingu svæðisins.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir að aðkoma að Presthúsum verði um veg sem liggi í gegnum eignarjörð hans Brautarholt 1. Samþykki landeiganda sé forsenda þess að heimilt sé að nýta veginn sem aðkomuveg, en það liggi ekki fyrir.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bíður deiliskipulagið afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

144/2022 Sóltún

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 31. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 144/2022, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022, um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits vegna lóðarinnar nr. 2-4 við Sóltún.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2023, er barst nefndinni 21. s.m., kæra tilteknir íbúar Mánatúns 4, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 24. nóvember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti borgarráð Reykjavíkur hinn 24. nóvember 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ármannsreits, með síðari breytingum, vegna lóðar nr. 2-4 við Sóltún. Samkvæmt breytingartillögunni var lóðinni skipt í tvennt, nr. 2 og nr. 4. Breytingar vegna lóðar nr. 2 fólust meðal annars í að tvær álmur voru lengdar til að bæta við hjúkrunarrýmum, fimmtu hæðinni var bætt við að hluta og kjallari stækkaður. Á lóð nr. 4 var meðal annars formi byggingarreits breytt, notkun breytt úr hjúkrunarheimili í íbúðir og hæðar heimild aukin úr 4 hæðum í 5, með 6. hæð að hluta.

Kærendur vísa til þess að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda sem gerðar hafi verið á auglýsingatíma skipulagsins. Borgarráð hafi samþykkt hækkun fyrirhugaðrar byggingar úr fjórum hæðum í sex þrátt fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 98/2008 frá 18. nóvember 2010. Enginn leikvöllur eða grænt andrými verði á svæðinu sem afmarkist af Snorrabraut, Laugavegi og Kringlumýrarbraut og sé það ekki í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2040. Skipulagsfulltrúi hafi viðkennt að misræmi hefði verið í framsetningu deiliskipulagstillögunnar og að breytingar yrðu gerðar til að lagfæra það. Óboðlegt væri að skipulagsfulltrúi breyti teikningum án þess að borgarar, sem hefðu rýnt fyrri gögn, fengju að hafa umsögn um breytingarnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg bíður deiliskipulagið afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Þá skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

148/2022 Suðurgata

Með

Árið 2023, föstudaginn 27. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 148/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 7. desem­ber 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 27. desember 2022, kæra eigendur Suðurgötu 45, Hafnarfirði, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 7. desember 2022 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Suðurgötu 44. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar umræddrar ákvörðunar. Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 24. janúar 2023.

Málsatvik og rök: Að undangenginni auglýsingu samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar hinn 7. desember 2022 tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Suðurgötu 44. Er þar gert ráð fyrir að núverandi hús á lóðinni verði rifið, í stað þess byggð þrjú hús á einni til þremur hæðum með 15 íbúðum og að nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,91.

 Kærendur vísa til þess að á Suðurgötu sé viðkvæmt samspil þjónustu og íbúðarbyggðar. Gatan sé þröng gata með fáum bílastæðum. Samkvæmt deiliskipulagi frá árinu 2018 sé gert ráð fyrir að núverandi byggingar verði gerðar upp og bílastæði á lóðinni haldist óbreytt.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að meðferð þess hafi verið samkvæmt lögum og reglum áður en endanleg ákvörðun var tekin.

 Niðurstaða: Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar hefur ekki enn verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga 123/2010, en kærufrestur ákvarðana sem sæta opinberri birtingu telst frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Hefur deiliskipulagsbreytingin ekki öðlast gildi og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er vísað frá úrskurðarnefndinni.

85/2022 Andakílsárvirkjun

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 25. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 85/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2022 um að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. júlí 2022, er barst nefndinni 1. ágúst s.á., kærir landeigandi að Fitjum í Skorradal, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2022  að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað þar til virkjunarleyfi Andakílsárvirkjunar hefði verið gefið út, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 11. ágúst 2022.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 8. ágúst og 6. september 2022.

Málavextir: Andakílsárvirkjun í Borgarfirði og Skorradalshreppi hóf rekstur árið 1947. Heildarframleiðslugeta virkjunarinnar er 8 MW. Hinn 20. desember 2021 barst Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu tilkynning framkvæmdaraðila um framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar skv. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 2.02 og 13.02 í 1. viðauka við lögin. Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kom fram að tími væri kominn á viðhald og endurbætur mannvirkja við Andakílsárlón sem og viðhald á lóninu sjálfu. Ekki hefði verið sinnt viðhaldi á lónrýmd nægilega vel og setmagnið í lóninu væri því orðið mikið.

Samkvæmt greinargerð framkvæmdaraðila felst fyrirhuguð framkvæmd í byggingu varnarstíflu sunnarlega í lóni virkjunar til að mögulegt verði að tæma nyrðri hluta lónsins af vatni. Varnarstíflan myndi leiða rennsli að yfirfalli virkjunar. Að auki felst í framkvæmdinni viðhald og endurnýjun stíflumannvirkja. Núverandi jarðvegsstífla yrði fjarlægð og ný stífla byggð í staðinn sem þyrfti að vera um 2,5 m hærri en sú sem fyrir er eða steypt stífla. Ráðast á í nokkrar viðgerðir á steyptu inntaksstíflunni og styrkingu hennar. Þá felst í framkvæmdinni mokstur á uppsöfnuðu seti úr lóni virkjunar sem og flutningur og haugsetning á seti og efni sem mokað yrði úr lóninu. Gert er ráð fyrir að efnistaka úr lóninu verði á bilinu 50.000-115.000 m3 af seti á yfir 2,5 ha svæði. Að lokum felst í framkvæmdinni niðurrif á varnarstíflu að viðhaldi og mokstri loknum. Áður en það yrði gert þyrfti að draga úr rennsli um lónið.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Borgarbyggðar, Skorradalshrepps, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar. Þá sendi Veiðifélag Skorradalsvatns inn umsögn að eigin frumkvæði. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 1. júlí 2022. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að grundvöllur ákvörðunar um matsskyldu byggi á ófullnægjandi gögnum sem gefi Skipulagsstofnun ekki réttar forsendur til að byggja ákvörðun sína á. Virkjunarleyfi skorti með þeim heimildum og hömlum sem fylgi slíku leyfi. Mat á einstaka framkvæmdaþáttum virkjunaraðila sé ómarktækt án þeirrar heildarmyndar sem felist í útgefnu virkjunarleyfi. Horfa þurfi betur á eðli og staðsetningu tilkynntra framkvæmda, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Einkum beri að horfa til samlegðaráhrifa og álagsþols náttúrunnar vegna nýtingar framkvæmdaraðila á náttúruauðlindum í Skorradal við ákvörðun um matsskyldu á tilteknum framkvæmdum hans.

Skipulagsstofnun telji að áhrif á landslag verði „minniháttar“ vegna nýrra stíflumannvirkja. Ekki liggi fyrir afstaða vegna annarra áhrifa. Í virkjunarleyfi lægi fyrir hver efnisgerð stíflna sé og hvort hækka megi stíflu og hve mikið, eða þá alls ekki. Stífluhæð geti haft bein áhrif á landbrot og lífríki almennt. Hæðin sé mikilvæg fyrir sveiflugetu mannvirkisins á vatnsyfirborði og þar með á orkuframleiðslugetu orkuversins. Augljóslega þurfi að meta áhrif 2,5 m hækkunar stíflumannvirkja á fleiri þætti en landslag.

Framkvæmdaraðili gefi í skyn að efnismagn, sem mokað yrði upp úr lóninu og komið fyrir sem næst framkvæmdasvæðinu með landmótun, verði allt að 115.000 m3 í fyrsta skrefi. Þennan þátt þurfi að skoða í mati á umhverfisáhrifum svo hægt sé að áætla heildarefnismagn yfir tiltekinn árafjölda og fyrirkomulag landslagsmótunar yfir lengri tíma. Þá séu fullyrðingar um að breytingar á vatnsborði Skorradalsvatns og Andakílsár verði innan þeirra heimilda sem framkvæmdaraðili hafi til að starfrækja virkjunina alfarið byggðar á greinargerð hans sjálfs. Skipulagsstofnun hafi ekki tekið mið af ítarlegum og gagnlegum umsögnum sem hafi borist, m.a. frá Skorradalshreppi þar sem sýnt sé fram á að viðhlítandi heimildir séu ekki fyrir hendi.

Eitt af mikilvægum markmiðum laga nr. 111/2021 sé að gefa almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til umsagna um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sbr. c-lið 1. gr. laganna. Á meðan virkjunarleyfi sé ekki til vegna Andakílsárvirkjunar verði að gera þá kröfu að allar framkvæmdir vegna hennar fari í mat á umhverfisáhrifum.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að það sé ekki hlutverk hennar að taka afstöðu til lögmætis heimilda til reksturs virkjunarinnar heldur hvort fyrirhugaðar framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar feli ekki í sér heimildir til framkvæmda eða nýtingar og komi það í hlut leyfisveitanda að taka afstöðu til þess hvort lagalegur grundvöllur sé fyrir veitingu leyfa. Skipulagsstofnun hafi leitað umsagnar Orkustofnunar um málið auk þess sem óskað hafi verið sérstaklega eftir upplýsingum um fyrirliggjandi leyfi til reksturs virkjunarinnar. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun sé stofnuninni  m.a. falið að fylgjast með framkvæmd opinberra leyfa sem gefin séu út til rannsóknar og nýtingar jarðrænna auðlinda og reksturs orkuvera og annarra meiri háttar orkumannvirkja. Þá hafi Orkustofnun það hlutverk að veita virkjunarleyfi og hafa eftirlit með að fyrirtæki starfi eftir skilyrðum laga, reglugerðum og öðrum heimildum, sbr. raforkulög nr. 65/2003. Í hinni kærðu ákvörðun sé að finna ítarlega umfjöllun sem lúti að eðli og staðsetningu framkvæmdar. Þar segi m.a. að taka skuli mið af samlegð með öðrum framkvæmdum og einnig að líta beri til álagsþols náttúrunnar.

Skipulagsstofnun leggi áherslu á að úrlausnarefnið sé hvort umrædd framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. orðalag 1. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana og framkvæmda. Við mat á því þurfi að skoða gögn málsins með heildstæðum hætti og leggja mat á innbyrðis vægi þeirra. Ákvörðunin taki ekki til breytingar á tilhögun reksturs virkjunarinnar. Samkvæmt framkvæmdaraðila sé framkvæmdum við stíflumannvirki ætlað að bæta öryggi þeirra. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að hækkun á stíflunni sé minniháttar. Áhrifin á þennan umhverfisþátt séu að mestu tímabundin á meðan framkvæmdum standi og á meðan gróður sé að ná sér á strik eftir haugsetningu. Þá taki stofnunin eðli málsins samkvæmt mið af hækkuninni sem forsendu og leggi hana til grundvallar þegar hún meti hvort framkvæmdin geti verið umtalsverð með tilliti til lífríkis og vatnafars og annarra umhverfisþátta.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að breytingar á vatnsborði Skorradalsvatns og Andakílsár verði innan þeirra heimilda sem framkvæmdaraðili hafi til að starfsrækja virkjunina. Skipulagsstofnun horfi til þess sem fram komi í svari framkvæmdaraðila til stofnunarinnar, dags. 22. júní 2022, vegna umsagnar Skorradalshrepps frá 17. maí s.á. Í svarinu sé m.a. vikið að miðlunarleyfi sem virkjunin hafi fengið á sínum tíma og hámarksvatnshæð samkvæmt leyfinu sem og vatnshæðarmörkum sem framkvæmdaraðili hafi sett sér til að minnka álag á náttúru og umhverfi. Skipulagsstofnun hafi skoðað umsagnir í málinu vel, m.a. umrædda umsögn Skorradalshrepps. Ákvörðun stofnunarinnar hvíli á þeirri forsendu að breytingar á vatnsborði Andakílsár verði innan þeirra heimilda sem framkvæmdaraðili hafi. Ákvörðunin breyti engu um heimildir framkvæmdaraðila til að starfrækja virkjunina. Verði niðurstaða leyfisveitanda sú að framkvæmdaraðili hafi ekki viðhlítandi heimildir komi til skoðunar hvort tilkynna þurfi fyrirhugaðar framkvæmdir til Skipulagsstofnunar að nýju.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili upplýsir að sérstöku virkjunarleyfi sé ekki til að dreifa vegna Andakílsárvirkjunar, enda hafi virkjunin verið byggð og starfsemi hafin áður en áskilnaður um slíkt leyfi hafi verið lögfestur. Fyrirhuguð framkvæmd snúi að viðhaldi virkjunarinnar og því beri við mat á því hvort að fram skuli fara mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021 einungis að horfa til þeirrar framkvæmdar. Hvort virkjunarleyfi liggi fyrir eða ekki eigi því ekki að hafa áhrif við mat á því hvort umhverfisáhrif teljist umtalsverð. Yfirfallið við lónið ráði því hve hátt vatnsborð lónsins geti náð og yfirfallið verði áfram í sömu hæð og áður. Vatnshæð lónsins muni ekki aukast við hækkun stíflumannvirkjanna. Endurgerð jarðvegsstíflu í inntakslóni Andakílsárvirkjunar muni því ekki hafa áhrif á rekstrarhæð lónsins og sveiflun muni ekki breytast við endurbætur og hugsanlega hækkun á stíflunni.

Fram kemur af hálfu framkvæmdaaðila að rannsóknir séu enn í gangi um hversu mikið og hvar sé best að fjarlægja set í lóninu og hvernig beri að ganga frá lónsbotninum á sem bestan máta. Því  sé nákvæmur rúmmetrafjöldi sets sem verði fjarlægður ekki ljós, en áætlað sé að fjarlægðir verði allt að 115.000 m3. Samkvæmt bergmálsmælingum sem gerðar hafi verið árið 2020 sé áætlað að heildar setmagnið í lóninu sé allt að 170.000 m3. Aðeins verði fjarlægt það setmagn sem þurfi til þess að endurheimta rýmd lónsins, sem hafi minnkað mjög undanfarna áratugi vegna uppsöfnunar sets, og til þess að tryggja að aurburður berist ekki inn í vélar virkjunarinnar. Ekki sé fyrirhugað að ráðast í álíka framkvæmdir á næstu áratugum eftir að þessu ljúki. Landmótun og val svæða muni fara fram í samstarfi við landeigendur í kringum lónið. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu eðlilegar, nauðsynlegar og tímabærar viðhaldsaðgerðir til þess að tryggja áframhaldandi rekstur Andakílsárvirkjunar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að fyrirhugaðar framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum. Verður fyrst tekin afstaða til aðildar kæranda að málinu.

Það er skilyrði aðildar í málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta tengda viðkomandi ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nema lög mæli á annan veg. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún sé eigandi jarðarinnar Fitja í Skorradal að hálfu. Jörðin eigi veiðirétt í Skorradalsvatni. Friðlýst svæði sé innan jarðarinnar við ósa Fitjaár. Sem landeigandi sé kærandi aðili að veiðifélagi Skorradalsvatns. Í landi Fitja sé auk þess stórt leiguland frístundabyggðar sem liggi að Skorradalsvatni og hafi allar breytingar til hækkunar eða lækkunar á yfirborði vatnsins áhrif á leigutaka.

Bærinn að Fitjum liggur suðaustan við Skorradalsvatn og er langur vegur þaðan að inntakslóni Andakílsárvirkjunar. Jörðin Fitjar er í umtalsverðri fjarlægð frá framkvæmdarsvæðinu og því er sjónrænum áhrifum eða öðrum grenndaráhrifum því ekki til að dreifa gagnvart kæranda. Til þess er þá helst að líta að aðgerðir sem hafa áhrif á vatnsstöðu Skorradalsvatns geta haft áhrif á lífríki vatnsins, þ.m.t. skilyrði til fiskveiði. Verður þá að athuga, sem greint er frá af hálfu framkvæmdaaðila, að rennslisstýringu frá Skorradalsvatni verði á framkvæmdatíma haldið innan þeirra heimilda sem virkjunin hafi nú þegar til vatnsmiðlunar. Við það er miðað að hvorki verði breytingar á vatnshæðarsveiflu í Skorradalsvatni né á svonefndu keyrslulíkani í tengslum við framkvæmdina. Í hinni kærðu ákvörðun er af hálfu Skipulagsstofnunar ályktað, á þessum grundvelli, að áhrif á vatn og lífríki í Skorradalsvatni og Andakílsá ofan virkjunar séu líkleg til að vera sambærileg því sem gera hafi mátt ráð fyrir við rekstur virkjunarinnar. Verður með vísan til þessa að telja að kærandi eigi ekki slíka lögvarða hagsmuni af hinni kærðu ákvörðun umfram aðra, að henni verði játuð aðild að málinu.

Af hálfu kæranda hefur verið gagnrýnt að ekki sé fyrir hendi virkjunarleyfi fyrir Andakílsárvirkjun. Nefndin tekur ekki afstöðu til þessa nema með því að benda á athugasemdir Skipulagsstofnunar sem raktar eru hér að framan. Málsmeðferð ákvörðunar um matsskyldu lýtur að því fyrst og fremst að upplýsa um hvort umtalsverð umhverfisáhrif hljótist af fyrirhugaðri framkvæmd, eins og henni er lýst, en ekki því hvort framkvæmdaraðili hafi fullnægjandi heimildir að opinberum rétti eða einkarétti, til þeirra framkvæmda sem hann hyggst ráðast í. Þá er ljóst að komi til útgáfu leyfis til umræddrar framkvæmdar mun reyna m.a. á hvort henni sé rétt lýst í umsókn.

Máli þessu er vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 1. júlí 2022 um að framkvæmdir í og við lón Andakílsárvirkjunar í Borgarbyggð og Skorradalshreppi skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum er vísað frá úrskurðarnefndinni.

2/2023 Gjaldtaka vegna umsóknar um byggingarlóð

Með

Árið 2023, föstudaginn 20. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Þátt tóku Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2023, kæra á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss frá 2. febrúar 2022 um innheimtu afgreiðslugjalds vegna umsóknar um úthlutun lóðar í Þorlákshöfn.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. janúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Gást ehf. þá ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss að taka byggingar-leyfisgjald fyrir umsóknir um byggingarlóðir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða gjaldið auk kostnaðar og vaxta.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá innviðaráðuneytinu 3. janúar 2023.

Málavextir: Kæra vegna gjaldtöku Sveitarfélagsins Ölfuss á umsóknir um byggingarlóðir barst innviðaráðuneytinu 2. febrúar 2022. Meðferð málsins dróst hjá ráðuneytinu, en þegar málið kom þar til nánari athugunar var það framsent 3. janúar 2023 hvað snertir gjaldtöku þessa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með vísan til 59. gr. mannvirkjalaga og 52. gr. skipulagslaga.

Hinn 18. nóvember 2021 auglýsti Sveitarfélagið Ölfus til umsóknar lóðir við Vesturberg í Þorlákshöfn með fresti til 2. desember s.á. og skyldi úthlutun fara fram 9. s.m. Greint var frá því að tekið yrði gjald fyrir hverja umsókn, en hvorki var tiltekin fjárhæð þess né vísað í gjaldskrá. Úthlutun lóða dróst nokkuð en þeim var loks úthlutað á fundi afgreiðslunefndar byggingarfulltrúa 27. desember 2021. Kærandi fékk ekki úthlutaðri lóð, en um miðjan janúar 2022 sendi sveitarfélagið innheimtukröfu til allra umsækjanda um lóðirnar sem auglýstar voru 18. nóvember 2021 að fjárhæð 7.471 kr., merkt „byggingaleyfisgjald“. Var gjalddagi settur 30. desember 2021 og eindagi 31. janúar 2022. Var kærandi meðal þeirra sem krafinn var um gjaldið.

 Málsrök kæranda: Í kæru eru gerðar athugasemdir við hvernig staðið var að úthlutun lóða við Vesturberg í Þorlákshöfn. Kemur úthlutun lóðanna ekki til umfjöllunar í máli þessu en það varðar einungis álagningu hins svonefnda byggingarleyfisgjalds sem tekið var fyrir vinnu við yfirferð umsókna um lóðaúthlutanir. Kærandi bendir á að engin skýring hafi fylgt kröfu um greiðslu þess, en hann hafi að auki ekkert svarbréf fengið við umsókn sinni um lóð. Þá bendir hann á að ef sveitarfélagið innheimti sama gjald fyrir allar þær 1.118 umsóknirnar sem bárust við lóðaúthlutina muni tekjur af gjaldinu nema um 8,4 m. kr. sem hann telji meiri en nemi kostnaði sveitarfélagsins við meðferð umsókna um lóðirnar.

 Málsrök sveitarfélags: Sveitarfélagið vísar til þess að í auglýsingu um úthlutun lóða í Þorlákshöfn hafi verið tekið fram að gjald yrði tekið fyrir hverja umsókn. Fjölmargar umsóknir hafi borist um lóðirnar og hafi kærandi verið í þeim hópi sem ekki fengu úthlutað lóð. Var honum sent bréf 30. desember 2021 og tilkynnt að umsókn hans um úthlutun lóðar hafi verið synjað um leið og hann hafi verið upplýstur um að lagt yrði á hann afgreiðslugjald að fjárhæð 7.471. kr. Um kerfisvillu hafi verið að ræða þegar gjaldið hafi verið nefnt byggingarleyfisgjald í heimabanka kæranda, en um hafi verið að ræða gjald vegna vinnu við yfirferð umsókna um úthlutun lóða. Hafi þetta verið leiðrétt.

Umrædd gjaldtaka byggi á gjaldskrá nr. 366/2019 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Sveitarfélaginu Ölfusi sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 23. apríl 2019. Gjaldskráin sé sett með stoð í IX. kafla laga um mannvirki nr. 160/2010 og 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í grein 5.4.14 í gjaldskránni sé kveðið á um afgreiðslugjald nefndar að fjárhæð kr. 6.664. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga samkvæmt 8. gr. gjaldskrárinnar hafi fjárhæð gjaldsins við innheimtu af kæranda verið kr. 7.471. eins og framlögð kvittun kæranda sýni. Þá segi í grein 13.1 í reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Ölfusi frá 14. febrúar 2019, sem í gildi voru þegar umræddar lóðir voru auglýstar til úthlutunar, að gjöld tengd lóðarveitingu skuli greidd samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins og að heimilt sé að krefjast staðgreiðslu á gjöldum við útdrátt. Hafi sú krafa komið fram í fyrrnefndri auglýsingu um úthlutun lóða. Nýjar úthlutunarreglur hafi tekið gildi 2. desember 2021 og séu þar samskonar ákvæði í grein 13.1.

Gjaldið sé hóflegt afgreiðslugjald, u.þ.b. 30% af tímagjaldi fyrir vinnu samkvæmt gjaldskránni, sbr. grein 1.2. Eins og fram hafi komið í kæru hafi borist mikill fjöldi umsókna um þær lóðir sem um ræði og hafi starfsfólk sveitarfélagsins þurft að fara gaumgæfilega yfir hverja og eina umsókn til að kanna hvort þær uppfylltu skilyrði úthlutunarreglna sveitarfélagsins. Gjaldið nemi þannig ekki hærri fjárhæð en sem nemi kostnaði við að veita þjónustu vegna hverrar umsóknar. Að mati sveitarfélagsins sé öllum skilyrðum og reglum um þjónustugjöld því fullnægt að því er umrætt gjald varði.

Þá færir sveitafélagið fram þau sjónarmið að úthlutun lóða í eigu sveitarfélagsins sé ekki meðal lögbundinna hlutverka sveitarfélaga og hafi Hæstiréttur staðfest að slík úthlutun teljist í senn vera stjórnvaldsákvörðun og gerningur á sviði einkaréttar þar sem ráðstafað sé heimildum eiganda fasteignar, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 151/2010. Að mati sveitarfélagsins verði að hafa þetta eðli lóðaúthlutana í huga við mat á því svigrúmi sem það hafi til að innheimta afgreiðslugjald vegna umsókna um úthlutun. Með vísan til þessa telur sveitarfélagið að hin kærða ákvörðun, um innheimtu afgreiðslugjalds samkvæmt gjaldskrá vegna umsókna um lóðaúthlutun, hafi verið lögmæt og að hafna beri kröfu kæranda um að fella hana niður.

 Niðurstaða: Í málinu er deilt um lögmæti afgreiðslugjalds Sveitarfélagsins Ölfuss vegna umsóknar um úthlutun lóðar í Þorlákshöfn. Kærandi krefst þess að umrædd gjaldtaka verði felld úr gildi gagnvart sér og að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða gjaldið ásamt kostnaði og vöxtum.

 Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði, sbr. 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í máli. Verður því lögmæti hinnar umræddu gjaldtöku tekið til skoðunar, en það er ekki hlutverk nefndarinnar að taka ákvörðun um endurgreiðslu gjaldsins.

Að meginstefnu til er fjár vegna lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga aflað með skattheimtu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafa sveitarfélög þó einnig m.a. tekjur af leyfisgjöldum eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, sbr. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Með 51. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er sveitarstjórnum heimilað að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingafulltrúa. Þá er í sveitarstjórn heimilt skv. 1. mgr. 20. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að innheimta framkvæmdaleyfisgjald fyrir framkvæmdir sem afla þarf framkvæmdaleyfis fyrir, svo og fyrir eftirlit með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum. Gjaldið má ekki nema hærri upphæð en nemur kostnaði við undirbúning og útgáfu leyfisins og eftirlits, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar þjónustu. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sveitarstjórn skuli setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. og 2. mgr. og birta hana í B-deild Stjórnartíðinda.

Gjaldskrá nr. 366/2019 fyrir byggingarleyfis- og þjónustugjöld í Sveitarfélaginu Ölfusi var birt í B-deild Stjórnartíðinda 23. apríl 2019. Í 5. gr. hennar er kveðið á um álagningu afgreiðslugjalds við móttöku umsóknar um byggingarleyfi, framkvæmdaleyfi og skipulagsbreytingar. Það gjald sem um er deilt í máli þessu varðar kostnað vegna stjórnsýslu lóðaúthlutunar. Verður um heimild fyrir álagningu þess ekki vísað til téðrar gjaldskrár, en um úthlutun lóða af hálfu sveitarfélaga er hvorki fjallað í lögum nr. 160/2010 né lögum nr. 123/2010.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið vísað til greinar 13.1. í reglum um úthlutun lóða í Sveitarfélaginu Ölfusi frá 14. febrúar 2019, þar sem mælt er fyrir um að gjöld tengd „lóðarveitingu“ skuli greidd samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins. Heimilt sé að krefjast staðgreiðslu á gjöldum við útdrátt, hafi sú krafa komið fram í auglýsingu um úthlutun lóðar. Þá hefur af hálfu sveitarfélagsins verið bent á að við mat á svigrúmi sveitarfélags við töku afgreiðslugjalds sem þessa verði að athuga að úthlutun lóðar teljist í senn vera stjórnvalds-ákvörðun og gerningur á sviði einkaréttar þar sem ráðstafað sé heimildum eiganda fasteignar.

Í úrskurði þessum hefur umfjöllun úrskurðarnefndarinnar einvörðungu byggst á valdheimildum samkvæmt lögum nr. 160/2010 og 123/2010. Um þýðingu þessara annarra sjónarmiða fyrir hinni kærðu álagningu kann kærandi að geta leitað álits innviðaráðuneytisins, skv. XI. kafla sveitarstjórnarlaga. Í ljósi þessa mun nefndin endursenda málið til þess ráðuneytis til þóknanlegrar meðferðar sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er málinu vísað frá nefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Vísað er frá nefndinni kæru á ákvörðun Sveitarfélagsins Ölfuss frá 2. febrúar 2022, um innheimtu afgreiðslugjalds vegna umsóknar um úthlutun lóðar í Þorlákshöfn.

83/2022 Laxá í Kjós

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 17. janúar, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 83/2022, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. júní 2022, um að áminna Veiðifélag Kjósarhrepps vegna fráviks sem skráð var við eftirlit í fiskeldisstöð þess.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Veiðifélag Kjósarhrepps þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. júní s.á. að áminna veiðifélagið vegna fráviks sem skráð var við eftirlit í fiskeldisstöð þess 1. september 2021. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 26. ágúst 2022.

Málavextir: Fyrsta vettvangsheimsókn Umhverfisstofnunar í fiskeldisstöð Veiðifélags Kjósarhrepps í Brynjudal fór fram 1. september 2021. Í eftirlitinu var skráð frávik frá 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem starfræktur var rekstur fiskeldis án starfsleyfis. Í bréfi stofnunarinnar til veiðifélagsins, dags. 27. s.m., var óskað eftir tímasettri áætlun um úrbætur vegna fráviksins í samræmi við 58. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit og að áætlunin bærist stofnuninni eigi síðar en 19. október s.á. Með tölvupósti til Umhverfisstofnunar 19. október s.á. upplýsti veiðifélagið að til stæði að sækja um rekstrarleyfi og óskaði eftir fresti til 31. desember s.á. til að skila umbeðnum gögnum. Var fallist á beiðni um frest með bréfi, dags. 22. s.m., en jafnframt tekið fram að yrði frávikum ekki lokið eða ef áætlun um úrbætur gengi ekki eftir myndi stofnunin halda áfram með eftirfylgni þaðan sem frá var horfið.

Veiðifélagið sótti um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar 3. janúar 2022 og var umsókn um starfsleyfi framsend Umhverfisstofnun 4. s.m. Með tölvupósti frá 1. febrúar s.á. var veiðifélagið upplýst um að gögn vantaði í umsóknina en því var svarað með tölvupósti 6. apríl s.á þar sem fram kom að erfiðlega gengi að senda umbeðin gögn vegna smæðar stöðvarinnar. Með tölvupósti 12. s.m. óskaði Umhverfisstofnun eftir því að veiðifélagið fyllti út nánar tilteknar áætlanir og skilaði til stofnunarinnar. Var erindið ítrekað með tölvupósti 5. maí s.á. og óskað eftir upplýsingum um hvenær umræddum gögnum yrði skilað. Fengi stofnunin ekki viðbrögð við póstinum innan tveggja vikna yrði beiting þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 7/1998 tekin til skoðunar. Með bréfi, dags. 10. júní s.á., var veiðifélaginu gefinn frestur til 24. s.m. til að skila inn tímasettri áætlun um úrbætur eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Jafnframt var tilkynnt um áform stofnunarinnar um að áminna veiðifélagið á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 7/1998. Var jafnframt upplýst um heimildir til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt kröfum stofnunarinnar, meðal annars með því að leggja á dagsektir eða stöðva starfsemi. Með bréfi, dags. 29. s.m., var veiðifélaginu veitt áminning á grundvelli 2. tl. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 7/1998 auk þess sem gefinn var frestur til 8. ágúst s.á. til að skila inn tímasettri áætlun um úrbætur eða koma sjónarmiðum á framfæri sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umbeðnum gögnum var skilað inn 7. ágúst s.á. og 17. s.m. var staðfest að umsókn um starfsleyfi væri fullnægjandi og að eftirfylgnimáli vegna þvingunarúrræða væri lokið. Veiðifélag Kjósarhrepps fékk útgefið starfsleyfi frá Umhverfisstofnun 8. desember s.á.

Málsrök kæranda: Í kæru greinir að Veiðifélag Kjósarhrepps hafi staðið fyrir seiðaeldi í uppeldisaðstöðu í Brynjudal í Kjós, sem sé takmörkuð í sniðum og fari fram í 40 m2 húsnæði með tíu eldiskerum. Árlega séu þar ræktuð um 10.000 laxaseiði. Frárennsli frá stöðinni renni niður um 100 m langan skurð sem þjóni stöðinni sem settjörn og þaðan út í Brynjudalsá. Veiðifélagið hafi haft leyfi frá heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis fyrir framleiðslu á allt að 25.000 árs gömlum seiðum sem gefið hafi verið út 4. nóvember 2004. Við eftirlit Umhverfisstofnunar í fiskeldisstöð veiðifélagsins 1. september 2021 hafi engar athugasemdir verið gerðar við rekstur stöðvarinnar aðrar en að stöðin væri rekin án starfsleyfis.

Umhverfisstofnun hafi innheimt gjald að upphæð kr. 246.000 vegna kostnaðar við móttöku starfsleyfisumsóknar, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu. Í framhaldi hafi veiðifélaginu borist tölvupóstur frá stofnuninni 1. febrúar s.á. þar sem því hafi verið haldið fram að fjölmörg atriði skorti í umsóknina sem þyrfti að senda inn, þ.e. senda þyrfti inn áætlun vegna rekstrarstöðvunar, varanlegrar og tímabundinnar, áætlun vegna meðhöndlunar úrgangs, neyðaráætlun, áhrif losunar á umhverfið, yfirlit yfir losun frá eldinu, fóðurnotkun og annað. Formaður veiðifélagsins hafi svarað með tölvupósti 6. apríl s.á. þar sem bent var á að veiðifélagið ætti erfitt með að leggja fram umbeðnar upplýsingar.

Á Umhverfisstofnun hvíli rík leiðbeiningarskylda sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 7. gr. segi að stjórnvald skuli veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þeirra. Umhverfisstofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart veiðifélaginu vegna umsóknar þess um starfsleyfi og því beri að ógilda áminningu stofnunarinnar. Að áliti kæranda hafi verið litið framhjá þeim upplýsingum sem lágu fyrir hjá stofnuninni eftir úttektina 1. september 2021 þar sem engar athugasemdir hafi verið gerðar við rekstur eða ástand eldisstöðvarinnar aðrar en þær að starfsleyfi skorti. Ekki hafi verið teknar gildar þær upplýsingar um reksturinn sem komu fram í tölvupósti til stofnunarinnar 6. apríl 2022 og hafi verið farið fram á að fyllt væri út sérútbúið eyðublað sem greinilega væri ætlað mun stærri rekstraraðilum og umfangsmeiri starfsemi. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar veiðifélagsins til stofnunarinnar um að eyðublöð sem þessi ættu ekki við um þá starfsemi sem rekin væri af veiðifélaginu þá hafi stofnunin haldið að sér höndunum með útgáfu starfsleyfis án frekari leiðbeininga eða tillagna.

Kröfur Umhverfisstofnunar um útfyllingu eyðublaðanna ætti sér ekki lagastoð og telja yrði að veiðifélagið hefði þegar lagt fram allar þær upplýsingar um rekstur eldisstöðvarinnar og þannig tryggt að allar nauðsynlegar upplýsingar hafi þegar komi fram um starfsemina sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

 Málsrök Umhverfisstofnunar: Bent er á að Veiðifélag Kjósarhrepps starfi í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, lög nr. 58/2006 um fiskrækt, reglugerðir sem settar hafi verið samkvæmt þeim lögum sem og samþykktum félagsins sjálfs. Félagið stundi fiskrækt eftir því sem þörf krefji, til þess að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra. Veiðifélög sem taki fisk og kleki út til að viðhalda stofni í ánum eða auka við hann þurfi starfsleyfi Umhverfisstofnunar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og rekstrarleyfi Matvælastofnunar samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Við meðferð umsóknar um starfsleyfi hafi leiðbeiningarskyldu verið sinnt á fullnægjandi hátt að áliti Umhverfisstofnunar. Þegar rekstraraðilar fiskeldis sæki um starfsleyfi í þjónustugátt Matvælastofnunar séu veittar ítarlegar leiðbeiningar um umsóknarferlið. Þá séu ítarlegar leiðbeiningar á þeim eyðublöðum sem rekstraraðila var bent á að fylla út um hvaða upplýsingum þurfi að skila og hvernig. Þá hafi stofnunin sent kæranda ýmsa tölvupósta með leiðbeiningum auk þess sem honum hafi verið leiðbeint í símtölum um þau gögn sem ætti að skila og hvar ætti að skila umsókninni.

Samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Afgreiðsla leyfisumsóknar samkvæmt lögum nr. 7/1998 geti reynst umfangsmikil. Mikilvægt sé að afla nauðsynlegra gagna til að taka efnislega rétta ákvörðun áður en unnt sé að gefa út starfsleyfi. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 eigi rekstraraðilar að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina komi fram í umsókn um starfsleyfi. Það sé svo Umhverfisstofnunar að meta hvort þær upplýsingar séu fullnægjandi. Þetta komi einnig fram í 6. mgr. reglugerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit. Í greininni sé þó ekki að finna tæmandi talningu á því hvaða upplýsingar geti þurft til.

Í tilviki kæranda hafi stofnunin talið að ekki hefðu verið lögð fram nægjanleg gögn og upplýsingar til þess að vinna starfsleyfið. Ýmsar ástæður séu fyrir því að stofnunin fari fram á að rekstraraðilar skili upplýsingum á ákveðnu formi. Starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi byggist á fjölmörgum gögnum og oft flóknum upplýsingum og telji stofnunin að sá háttur sem hafður sé á auðveldi yfirsýn yfir þau gögn sem til þurfi og tryggi að allar upplýsingar berist stofnuninni sem nauðsynlegar séu. Þetta einfaldi málið fyrir stofnunina sem og umsóknaraðila. Núverandi fyrirkomulag sé útfærsla á leiðbeiningarskyldu stofnunarinnar þannig að rekstraraðili geti nálgast allar upplýsingar um eftir hverju sé óskað á einum stað. Þetta sé til þess fallið að tryggja að allar upplýsingar séu lagðar fram og lágmarki frekari beiðnir til rekstraraðila um gögn og upplýsingar.

Í 58. gr. reglugerðar nr. 550/2018 komi fram að eftirlitsaðili skuli hafa eftirlit með atvinnurekstri, sbr. I., VII., IX. og X. viðauka til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir viðkomandi starfsemi. Komi fram frávik skuli eftirlitsaðili krefja rekstraraðila um úrbætur sem eftirlitsaðilinn telji nauðsynlegar og fullnægjandi. Kærandi hafi stundað starfsleyfisskylda starfsemi án starfsleyfis. Að mati stofnunarinnar sé það alvarlegt frávik sem beri að taka föstum tökum. Kærandi hafi ekki brugðist við þegar óskað var upplýsinga sem nauðsynlegar hafi verið til þess að bæta úr frávikinu og hafi stofnunin því talið rétt að bregðast við sem fyrst og beita þeim úrræðum sem hún hefur skv. lögum nr. 7/1998.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 29. júní s.á. að áminna Veiðifélag Kjósarhrepps vegna fráviks sem skráð var við eftirlit í fiskeldisstöð þess 1. september 2021, þar sem veiðifélagið stundaði starfsleyfisskylda starfsemi án starfsleyfis.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Fyrir liggur að með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 17. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um starfsleyfi væri fullnægjandi og var honum sent málslokabréf vegna eftirfylgnimálsins 18. s.m. Þá fékk kærandi útgefið starfsleyfi frá Umhverfisstofnun 8. desember s.á.

Í 60. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er Umhverfisstofnun veitt heimild til að veita aðila áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstofunar samkvæmt lögunum. Ef aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests í kjölfar áminningar hefur stofnunin heimild til að ákveða dagsektir sbr. 61. gr. laganna og stöðvunar starfsemi til bráðabirgða sbr. 63. gr. Hefur áminningin ekki ítaráhrif eða frekari réttarverkan eftir að fyrirmælum og úrbótum hefur verið sinnt.

Samkvæmt framangreindu hefur máli því er varðaði frávik í starfsemi kæranda og áminning Umhverfisstofnunar sneri að, verið lokið með útgáfu starfsleyfis til handa kæranda. Að teknu tilliti til framangreinds verður ekki séð að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kröfu sína þar sem hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.