Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

118/2014 Seljadalsnáma

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. nóvember 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Ásgeir Þór Árnason hrl., f.h. G, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kröfu kærenda um að stöðva yfirvofandi framkvæmdir var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 12. desember 2014.

Fleiri kærendur stóðu að kærunni er hún barst til nefndarinnar, en þeir drógu til baka kæru sína undir rekstri málsins fyrir nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 28. nóvember og 22. desember 2014.

Málavextir: Hinn 14. október 2014 var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar umsókn, dags. 3. s.m., um efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, Mosfellsbæ. Sótt var um leyfi fyrir áframhaldandi efnistöku, sem hófst árið 1985 á grundvelli samnings til 30 ára milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar, en samningstíminn var til 9. október 2015. Var í umsókninni gert ráð fyrir efnistöku allt að 60.000 m3 og vinnslutíma frá 14. október til 15. nóvember 2014 og frá 1. apríl til 9. október 2015. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafði farið fram og fyrir lá endanleg matsskýrsla, sem og álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum frá 1. október 2014, en til þess var vísað í framkvæmdaleyfisumsókninni. Umsóknin var samþykkt á greindum fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar með eftirfarandi bókun: „Skipulagsnefnd samþykkir veitingu framkvæmdaleyfis m.a. með skilyrðum um óháðan úttektar- og eftirlitsaðilum auk annarra atriða sem fram koma í framkvæmdalýsingunni.“ Var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt á fundi bæjarstjórnar 22. október 2014 og framkvæmdaleyfið gefið út af skipulagsfulltrúa 23. s.m. Útgáfa leyfisins var tilkynnt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og fjölmiðlum 31. s.m.

Hinn 5. nóvember 2014 lagði leyfishafi fram beiðni til skipulagsfulltrúa um breytingu á vinnslutíma á þann hátt að hann yrði til 24. desember 2014 og frá 16. mars til 9. október 2015 með hléi frá 1. júlí til 7. ágúst 2015. Var greind breyting grenndarkynnt hagsmunaraðilum með bréfi, dags. 14. nóvember 2014, og þeim gefinn frestur til 21. s.m. til að gera athugasemdir vegna breytingarinnar. Skipulagsfulltrúi gaf umsögn um málið 25. s.m. og lagði til að fallist yrði á ósk um breyttan vinnslutíma þar sem það gæti dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Hinn 27. s.m. var samþykkt á fundi bæjarráðs að taka undir tillögu skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla bæjarráðs samþykkt af bæjarstjórn á fundi hennar 3. desember s.á.

Málsrök kæranda: Kærendur skírskota til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi muni skerða einkaréttindi og friðhelgi heimila þeirra og frístundahúsa með stórkostlegum hætti. Grjót-námið og tilheyrandi þungaflutningar muni einnig leiða til verulegrar verðrýrnunar á eignum þeirra. Umfang fyrirhugaðra framkvæmda sé ekki í samræmi við gildandi skipulagsáætlun fyrir Mosfellsbæ heldur sé það miklu meira en búast mátti við. Í gildandi Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 sé fjallað um efnisnámur. Þar komi fram að úr Seljadalsnámu sé tekið árlega 10-11.000 m3 af efni. Í kjölfar samþykktar á aðalskipulagi hafi Mosfellsbær bannað frekari efnisvinnslu í námunni þar sem framkvæmdaraðili hafi ekki haft framkvæmdaleyfi skv. 14. gr. og 15. gr. skipulagslaga, sbr. ákvæði IV. kafla til bráðabirgða í lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. 1. gr. laga nr. 104/2006.

Hafi kærendur sent athugasemdir til Skipulagsstofnunar sem hafi beinst að þremur þáttum. Í fyrsta lagi að ástand Hafravatnsvegar væri með þeim hætti að ómögulegt væri að leyfa þungaflutninga með grjót eftir honum. Í öðru lagi að loftgæði yrðu ófullnægjandi á rekstrar-tíma námunnar og að hljóðvist yrði ófullnægjandi. Hafi Mosfellsbæ ekki verið heimilt að gefa út hið umþrætta framkvæmdaleyfi til að starfrækja Seljadalsnámu vegna framangreindra atriða sem hafi áhrif á kærendur. Að auki hafi verið óheimilt að veita leyfi fyrir námi á 60.000 m3 af efni á einu ári þegar gert hafi verið ráð fyrir sex sinnum minni efnistöku í aðalskipulagi. Engu máli skipti hvort Seljadalsnáma hafi verið nýtt á árum áður. Veiti ákvæði til bráðabirgða með lögum um náttúruvernd nr. 44/1999, sbr. 1. gr. laga nr. 104/2006, eigendum eða umráðamönnum eldri náma ekki aukin rétt til veitingar framkvæmdaleyfis umfram þær kröfur sem séu gerðar til nýrra náma. Sömu sjónarmið um veitingu framkvæmdaleyfis til námuvinnslu eigi því við um Seljadalsnámu og séu uppi þegar um nýja námu sé að ræða, þó að teknu tilliti til þess að náman sé sýnd á aðalskipulagsuppdrætti. Hafi Mosfellsbæ því borið að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem sé lýst í IV. kafla náttúruverndarlaga, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og 13. gr. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki sé að sjá að Umhverfisstofnun eða náttúruverndarnefnd hafi gefið umsögn sína um svo stórfellt jarðefnanám líkt og hér um ræði, skv. 2. mgr. 47. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 8. gr. laga nr. 140/2001. Þá sé ekki að sjá í framkvæmdaleyfinu að greint sé frá stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi eða gerð þess efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu líkt og áskilið sé í 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Loks sé ekki að sjá að sveitarstjórn hafi tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar líkt og áskilið sé í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins sé haldin svo verulegum ágöllum að óhjákvæmilegt sé að fella það úr gildi. Skorti mjög á að nægjanlega hafi verið gengið úr skugga um að mengun af völdum hávaða og svifryks sé innan marka sem kærendur verði að þola. Eigi kærendur rétt til þess að búa við heilnæm lífsskilyrði og í ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Bent sé á að fyrirhugað sé að sexfalda það efnismagn sem taka eigi úr námunni og því megi gera ráð fyrir að bæði hávaða og svifryksmengun muni sexfaldast. Hefði verið nauðsynlegt að Mosfellsbær léti fara fram sérstaka rannsókn á áhrifum þessa í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðir sem hafa verið settar með stoð í þeim lögum, s.s. nr. 724/2008 um hávaða, nr. 1000/2005 um kortlagningu hávaða og nr. 817/2002 um mörk fyrir fallryk úr andrúmslofti. Fullnægjandi rannsókn á málinu hafi ekki verið gerð, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þau skilyrði séu ófullnægjandi, sem hafi verið sett í framkvæmdarleyfið af hálfu Mosfells-bæjar, að leitast skuli við að lágmarka rykmengun og annað ónæði af akstri með því að halda niðri hraða flutningabíla og vökva Hafravatnsveg þegar nauðsyn krefji á framkvæmdartíma. Sé ljóst að skilyrðin séu ómarkviss. Að auki sé lítið hald í því að banna efnisvinnslu og flutninga á laugardögum og sunnudögum á tímabilinu 1. júlí – 15. ágúst 2015 enda dvelji flestir kærendur á staðnum alla daga vikunnar, jafnt að sumri sem vetri. Gerð sé krafa um að skýrari skilyrði verði sett með áskilnaði um að sveitarfélagið geti sjálft gripið inn í framkvæmd þeirra á kostnað leyfishafa ef út af sé brugðið.

Loks bendi kærendur á að sem íbúar og eigendur fasteigna við Hafravatnsveg og í nágrenni Seljadalsnámu hafi þeir verulega hagsmuni af því að framkvæmdaleyfið verði fellt úr gildi. Eigi þeir því einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni umfram aðra.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geti þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi, sbr. 52. gr. skiplagslaga nr. 123/2010. Kærendur eigi ekki slíkra hagsmuna að gæta, hvorki einstaklega né verulegra. Til þess að kærendur eigi lögvarða hagsmuni í málinu beri þeim að sýna fram á með ótvíræðum hætti að þeir eigi slíka hagsmuna að gæta. Framkvæmd sú sem heimiluð hafi verið með hinu umþrætta framkvæmdarleyfi sé byggð á samningi um efnistöku í Seljadal í landi Mosfellsbæjar, dags. 9. október 1985, og hafi efnistaka átt sér stað á nefndu svæði allt frá því að samningur þessi hafi verið gerður. Feli framkvæmdin því aðeins í sér áframhaldandi heimild til efnistöku sem átt hafi sér stað um langt skeið og verði af þeim sökum ekki séð að hin kærða ákvörðun gangi gegn einstaklingsbundnum og lögvörðum hagsmunum kærenda. Þá sé ekki hægt að takmarka umferð á Hafravatnsvegi auk þess sem ástand hans sé á ábyrgð Vegagerðarinnar en ekki sveitarfélagsins. Beri af þeim sökum að vísa kærunni frá.

Vísað sé til þess að hið kærða framkvæmdaleyfi hafi fengið meðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og hafi verið gefin út sérstök skýrsla þar að lútandi. Hafi þar verið komist að þeirri niðurstöðu að heildaráhrif framkvæmdarinnar væru óveruleg. Að auki hafi legið fyrir jákvætt álit Skipulagsstofnunar á hinum umþrættu framkvæmdum og þær séu jafnframt í samræmi við gildandi Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030. Hafi því legið fyrir ítarlegt mat á umhverfisáhrifum þar sem leitað hafi verið afstöðu og sjónarmiða hlutaðeigandi aðila. Í umsókn leyfishafa hafi að auki verið skýrlega greint frá fyrirhuguðum framkvæmdum. Hafi allt framagreint leitt til þess að tekin hafi verið ákvörðun um að gefa út framkvæmdaleyfi hinn 23. október 2014, en þó með ítarlegum skilyrðum.

Í aðalskipulagi sé aðeins að finna tölur um umfang efnistöku í fortíð en ekki sé sett takmörkun á efnistöku í framtíð. Hafi verið sótt um framkvæmdarleyfið samkvæmt ákvæði IV. til bráðabirgða í náttúruverndarlögum, sbr. einnig 2. mgr. 47. gr. sömu laga. Liggi fyrir að aðalskipulagið hafi hlotið umsögn lögbundinna aðila og komi þar fram áætlun um efnistöku og frágang á efnistökusvæðinu. Sé umfjöllun kærenda um að ekki hafi verið fylgt 2. mgr. 47. gr. laga um náttúruvernd eða sjónarmiða IV. kafla því röng. Að auki sé því mótmælt að ekki sé skýrlega greint frá stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi eða gerð þess efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu í samræmi við 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Hafi verið fjallað um allt framangreint í framkvæmdaleyfinu og í þeim gögnum sem leyfisveitingin hafi verið byggð á. Séu forsendur leyfisins því skýrar og í samræmi við fyrrgreint ákvæði laganna. Þá sé því mótmælt að ekki hafi verið gætt rannsóknarreglunni við meðferð málsins. Í greindri skýrslu um mat á umhverfisáhrifum sé vikið bæði að loftgæðum og hljóðvist á framkvæmdatíma. Í báðum tilvikum hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að áhrif framkvæmdanna séu bæði tímabundin og óveruleg. Hafi rannsóknin því verið fullnægjandi og í raun ítarlegri en sé gert ráð fyrir í lögum.

Hafi mögulegt ónæði og röskun sem kærendur geti orðið fyrir verið lágmarkað eins og hægt sé. Að auki sé rétt að líta til eðli framkvæmdanna, en hið kærða leyfi gildi aðeins til 9. október 2015 og renni samningurinn þá út. Sé það hugsanlegt að kærendur þurfi að sætta sig við aukna umferð og svifryksmengun um nokkurra mánaða skeið. Fráleitt sé að hin tímabundna umferð sem stafi frá framkvæmdarleyfishafa muni hafa í för með sér varanlega skerðingu á einkaréttindum og friðhelgi kærenda eða rýri verðmæti eigna þeirra. Sé um hóflega og eðlilega nýtingu að ræða.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ekkert fjárhagslegt tjón verði hjá kærendum þótt efnistakan fari fram í hinn fyrirfram afmarkaða og stutta gildistíma leyfisins og sé fullyrðingum um verðmætarýrnun vísað á bug. Hafi framkvæmdaleyfið verið veitt hinn 23. október 2014 að loknu umhverfismati, en mati á umhverfisáhrifum hafi lokið með áliti Skipulagsstofnunar frá 1. október 2014. Taki framkvæmdaleyfið til allt að 60.000 m3 af efni og sé tímabundið, eða til 9. október 2015.

Sú efnistaka sem hafi átt sér stað á svæðinu eigi sér jarðfræðilegar skýringar. Í námunni sé að finna berg með fágætri hörku sem ekki sé vitað til að sé annars staðar að finna í nýtanlegri nálægð við Reykjavík. Það séu því rík efnisrök að baki námuvinnslunni sem vert sé að hafa í huga þegar málið sé skoðað í heild. Kærendur hafi þegar átt kost á, og hafi nýtt sér, að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í aðdraganda málsins í umhverfismatsferlinu. Hafi verið ákveðið á sínum tíma að leiða málið í þann farveg að fá umhverfismat vegna framkvæmdarinnar, þó ljóst sé að það hafi verið umfram skyldu. Hafi Mosfellsbær óskað eftir því að umhverfisáhrif efnistökunnar yrðu metin áður en framkvæmdaleyfisumsókn yrði tekin fyrir og hafi verið orðið við þeirri beiðni að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar fyrir málsmeðferðinni. Hafi því mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar verið unnið sam-kvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og reglugerð um mat á umhverfis-áhrifum nr. 1123/2005. Umhverfismatið hafi leitt í ljós að framkvæmdin sé tímabundin, möguleg umhverfisáhrif séu afturkræf, að frátöldum áhrifum á ásýnd lands sem þegar séu komið fram. Jafnframt hafi verið sett ströng skilyrði um tilhögun vinnslu og efnisflutninga til að draga úr því tímabundna ónæði sem gæti hlotist af efnisflutningum. Að auki hljóti efnistaka að vetri til að valda minni ama en á öðrum árstíma þar sem hugsanleg rykmengun sé almennt miklu minni af veðurfarslegum ástæðum, sem og minni útivera íbúa.

Sé efnistakan í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og innan marka þess, bæði hvað varði afmörkun og umfang. Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2011-2030 hafi ekki sett hámark á efnistöku í Seljadal né öðrum námum. Engin mörk séu sett á magn efnistöku. Framkvæmdin sé því í fullu samræmi við skipulagsáætlanir Mosfellsbæjar. Umfang efnistökunnar teljist minniháttar sem og sá tímarammi sem hafi verið skammtaður til vinnslunnar. Hafi vinnslu- og frágangsáætlun námunnar verið sett fram í fullu samræmi við IV. kafla náttúruverndarlaga og hafi Umhverfisstofnun í tvígang gefið umsögn í tilefni af mati á umhverfisáhrifum. Benda megi á að í skilyrðum framkvæmdaleyfisins séu m.a. atriði sem hafi komið fram í umsögnum stofnunarinnar. Sé leyfið í fullu samræmi við áherslur og umsagnir stofnunarinnar.

Í matsskýrslu hafi verið fjallað um áhrif af völdum hávaða og rykmengunar og hafi verið tekið tillit til upplýsinga um umferð, gerð tækja, vinnutíma o.fl. Sýni niðurstöður matsskýrslunnar að hávaði af völdum efnistökunnar verði innan marka sem sett séu í reglugerð nr. 724/2008. Talið sé að lítil sem engin rykmengun stafi af námuvinnslunni sjálfri þar sem efni sé ekki malað þar. Uppspretta svifryks sé því aðeins við þungaflutninga og ef mótvægisaðgerðum sé beitt, líkt og tekið sé fram í matsskýrslu, eigi að vera hægt að draga verulega úr rykmengun og halda henni innan marka reglugerða. Liggi fyrir bæði umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis og Umhverfisstofnun, sem og álit Skipulagsstofnunar, um þennan þátt. Áhersla sé lögð á mótvægisaðgerðir vegna þessara þátta sem séu hluti af skilyrðum framkvæmdarleyfisins.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, Mosfellsbæ. Var heimild veitt fyrir allt að 60.000 m³ tímabundinni efnistöku. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar fór fram og er álit Skipulagsstofnunar þar um frá 1. október 2014.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Kærendur ýmist eiga eða eru íbúar fasteigna sem standa flestar við Hafravatns- og Nesjavallaveg og fer meginþungi umferðar vörubifreiða vegna hinnar umdeildu efnistöku um þá vegi. Blasir því við að kærendur eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og skiptir ekki máli í því sambandi að efnistaka úr námunni hafi átt sér stað áður.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru allar framkvæmdir sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess framkvæmdaleyfisskyldar. Nánari skilyrði fyrir ákvarðanatöku sveitarstjórnar eru tíunduð í nefndri 13. gr. sem og 14. gr. sömu laga hvað varðar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum.
 
Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir og er henni heimilt að binda framkvæmd skilyrðum í samræmi við þær áætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Í bókun bæjar-stjórnar, þegar hin kærða ákvörðun var tekin, kemur fram að framkvæmdalýsing hafi fylgt umsókn um framkvæmdaleyfi. Í lýsingunni er m.a. fjallað um skipulagsáætlanir og gerð grein fyrir því að gengið verði út frá því að leyfið muni byggja á gildandi aðalskipulagi. Í greinargerð með Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 er í kafla 4.9 fjallað sérstaklega um efnistöku úr Seljadalsnámu. Er þar greint frá forsögu efnistöku í Seljadal, samningi þeim er að baki efnistökunni standi og því að um 325.000 m³ efnis hafi verið teknir þaðan til ársins 2012, eða um 12.000 m³ á ári. Einnig er greint frá áframhaldandi efnistöku, að undangengnu mati á umhverfisáhrifum, og að efnistökusvæðið muni stækka út fyrir þau mörk sem fyrir séu. Að auki er tekið fram að stefna sveitarfélagsins við nýtingu auðlinda sé að spilla ekki umhverfinu að óþörfu og farið sé eftir ýtrustu kröfum um mengunarvarnir samkvæmt lögum hverju sinni. Við nýtingu jarðefna skuli leggja áherslu á að gengið sé frá námum á vandaðan hátt. Hin umdeilda framkvæmd fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum og í framkvæmdalýsingu er gerð ítarleg grein fyrir frágangi við verklok. Þá kemur fram í lýsingunni að efnistakan verði innan þess svæðis sem þegar sé afmarkað sem efnistökusvæði í aðalskipulagi. Verður að telja með hliðsjón af framangreindu að skilyrði 4. mgr. 13. gr. hafi verið uppfyllt og hin kærða ákvörðun hafi verið í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélagsins, enda er ljóst af orðalagi aðalskipulagsins að þar sé einungis verið að lýsa þeirri nýtingu sem verið hafði en ekki verið að takmarka efnistöku til framtíðar við neitt ákveðið viðmið umfram samning þann sem um hana gildir. Nýtti sveitarfélagið sér aukinheldur þá heimild sama lagaákvæðis að binda framkvæmdina skilyrðum til samræmis við gildandi skipulagsáætlanir, sbr. t.d. skilyrði í framkvæmdaleyfi er varðar rykmengun. Loks bar ekki nauðsyn til fyrir sveitarstjórnina að afla umsagnar Umhverfisstofnunar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga, enda lá fyrir við ákvarðanatökuna samþykkt aðalskipulag sem stofnunin hafði gefið umsögn sína um.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar þar um liggur fyrir. Í samræmi við 2. mgr. 14. gr. skal sveitarstjórn við umfjöllun um framkvæmdaleyfisumsókn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fram-kvæmdarinnar. Í bókun bæjarstjórnar við töku hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að efnistakan hafi sætt mati á umhverfisáhrifum og að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir. Var það álit stofnunarinnar að neikvæð áhrif vegna framkvæmdanna yrðu að mestu tímabundin og ekki veruleg, sem og að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Einnig var áréttað að umsögnum og athugasemdum hefði verið svarað á fullnægjandi hátt. Við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hjá sveitarfélaginu lágu því fyrir greinargóð gögn. Var framangreindum skilyrðum 2. mgr. 14. gr. um málsmeðferð fullnægt með hliðsjón af því sem rakið er. Þá nýtti sveitarstjórn sér heimild 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga til að binda leyfið skilyrðum sem fram komu í áliti Skipulagsstofnunar. Veiting framkvæmdaleyfisins var síðan tilkynnt með auglýsingu í fjölmiðlum og Lögbirtingablaði í samræmi við 4. mgr. 14. gr. Loks var breyting á vinnslutíma síðar grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að tjá sig áður en hún var samþykkt af bæjarráði.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að bæði efnisleg og formleg málsmeðferð hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga.

Grenndaráhrif sem fylgt geta hinum umræddum framkvæmdum felast einkum í aukinni umferð þungaflutningabíla og hávaða og rykmengun sem henni fylgir. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að um er að ræða tímabundna framkvæmd. Auk þess voru framangreind áhrif ítarlega könnuð við mat á umhverfisáhrifum og þau talin innan þeirra marka sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum. Var og komið til móts við athugasemdir íbúa í nágrenni við framkvæmdasvæðið með því að setja í framkvæmdaleyfið skilyrði með það að markmiði að minnka greind neikvæð umhverfisáhrif á meðan á framkvæmdum stendur. Loks verður ekki annað séð en að sveitarfélagið hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda lágu fyrir því ítarleg gögn eins og áður er lýst sem lutu m.a. að áhrifum framkvæmdarinnar á loftgæði og hávaða.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun ekki haldin neinum þeim annmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 22. október 2014 um að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í grjótnámu í Seljadal, að hámarki 60.000 m3.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

113/2013 Hamragil

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 113/2013, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar sveitarfélagsins Ölfuss frá 28. nóvember 2013 á umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni á Hengilsvæðinu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2013, er barst nefndinni 23. s.m., kæra formaður og varaformaður aðalstjórnar sem og framkvæmdastjóri Íþróttafélags Reykjavíkur, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Ölfuss frá 29. nóvember 2013 að synja umsókn félagsins um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu þess á Hengilsvæðinu. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Ölfusi 7. janúar 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 19. nóvember 2013 var umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss. Í umsókninni var tekið fram að óskað væri eftir endurnýjun námuleyfis til efnistöku og var þess jafnframt óskað að mið væri tekið af umsókninni við gerð næsta aðalskipulags. Fundargerð nefndarinnar ber með sér að farið var með umsóknina sem fyrirspurn og var svohljóðandi bókað: „Afgreiðsla. Lagt fram. Kynna skal erindið fyrir Orkuveitur Reykjavíkur.“ Var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt í bæjarstjórn 28. s.m. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar var kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins. Segir jafnframt í bréfinu að erindi um opnun námu sé hafnað og að sú ákvörðun sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi kært greinda afgreiðslu til nefndarinnar svo sem áður er lýst.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að forsendur sveitarfélagsins fyrir synjun erindis kæranda standist ekki. Fullyrðing sveitarfélagsins um að náman sé nær fjarsvæði vatnsverndar sveitarfélagsins sé einfaldlega röng. Röksemdir um að umferð þungaflutningstækja sé ekki æskileg geti ekki staðist þar sem vegstæði að námunni sé á opnum vegi. Kærandi hafi verið eigandi að landsvæðinu frá árinu 1932 og hafi efnistaka farið fram þar frá því upp úr 1970. Ekki hafi verið leitað umsagnar kæranda sem landeiganda við þá ákvörðun að hafa ekki námu á aðalskipulaginu. Hafi sveitarfélagið þannig reynt að takmarka ráðstöfunarrétt kæranda en slíkt verði ekki gert án þess að bætur komi fyrir.

Skipulagsyfirvöld Ölfuss  skírskota til þess að erindi kæranda hafi verið hafnað þar sem ekki sé gert ráð fyrir námunni í Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022. Sé það stefna sveitarfélagsins að vera með fáar en stórar námur. Samkvæmt náttúruverndarlögum þurfi allar námur leyfi og hafi lokafrestur þar um verið til 1. júlí 2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni. Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er öll efnistaka á landi háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í 52. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum samþykkti bæjarstjórn Ölfuss þá afgreiðslu umsóknar kæranda að hún væri lögð fram og kynnt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í því felst ekki nein sú ákvörðun sem bundið getur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Breytir synjunarbréf skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar engu þar um, enda er ákvörðunarvaldið á hendi sveitarstjórnar, sbr. áðurnefnda 13. gr. skipulagslaga. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

45/2006 Ingólfsfjall

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2006, kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita Fossvélum ehf. framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 9. júní 2006, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Landvernd ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni barst hinn 14. júní 2006 bréf Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, dags. 10. júní 2006, þar sem sama ákvörðun er kærð, með sömu eða svipuðum rökum og með sömu kröfum og fram koma í kæru Landverndar.  Þykja skilyrði vera fyrir hendi til að sameina framangreindar kærur og verður því fjallað um þær sem eitt kærumál. 

Auk þess að krefjast ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar kröfðust kærendur einnig úrskurðar til bráðbirgða um að efnistaka úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs yrði stöðvuð án tafar þar til mál þetta hefði verið til lykta leitt.  Tók nefndin afstöðu til þeirrar kröfu með úrskurði hinn 22. júní 2006 og lagði nokkrar skorður við áframhaldandi framkvæmdum samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi meðan málið væri til með meðferðar, svo sem nánar greinir í nefndum úrskurði.

Málsatvik:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur fyllingarefni verið unnið um áratuga skeið úr Þórustaðanámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Á árinu 2004 hóf rekstraraðili námunnar að vinna efni uppi á fjallinu og var því rutt niður í námu þá sem fyrir var neðan fjallsins.  Skipulagsstofnun taldi þessa efnistöku á fjallinu tilkynningarskylda samkvæmt 6. grein laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 10. desember 2004. 

Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 31. mars 2005, tilkynntu Fossvélar ehf. um fyrirhugaða efnistöku uppi á fjallinu.  Kom fram í bréfinu að framkvæmdinni yrði skipt í áfanga og væri gert ráð fyrir að í fyrsta áfanga yrði um 45.000 m³ efnistöku að ræða á 10.000 m² (1,0 ha) svæði og að dýpt efnisvinnslunnar í þeim áfanga yrði á bilinu 5 til 10 metrar.  Í öðrum áfanga væri gert ráð fyrir töku efnis er næmi 1.000.000 – 2.000.000 m³ á um 25.000 m² (2,5 ha) svæði og mætti gera ráð fyrir að dýpt efnistökusvæðis í þeim áfanga yrði á bilinu 40 – 80 m.  Komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að ekki væri skylt að meta umhverfisáhrif efnisvinnslu í 1. áfanga en að meta þyrfti umhverfisáhrif 2. áfanga fyrirhugaðrar efnisvinnslu.

Að fenginni þessari niðurstöðu lét rekstraraðili námunnar vinna mat á umhverfisáhrifum 2. áfanga fyrirhugaðrar efnistöku á fjallinu.  Var matsferlið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br.  Lá matsskýrsla fyrir hinn 13. mars 2006 og var hún send Skipulagsstofnun hinn 14. mars 2006 með ósk um lögbundið álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. 

Í matsskýrslu kemur fram að valkostur I, sem sé valkostur framkvæmdaraðila, feli í sér efnistöku á allt að 2.000.000 m³ af efni á um 35.000 m² svæði uppi á suðurbrún Ingólfsfjalls, að hluta til á sama svæði og byrjað hafi verið að taka efni á árinu 2004, en að stærstum hluta norðan og austan þess svæðis.  Vinnslutilhögun verði með þeim hætti að svæðinu verði skipt í tvö vinnslusvæði, um 10.000 m² svæði sem þegar hafi verið tekið efni af og um 25.000 m² óraskað svæði.  Námuvinnslunni verði skipt í tvo áfanga.  Í fyrri áfanga verði vinnsla á u.þ.b. 1.200.000 m³ efnis niður um 40 m og í þeim síðari verði haldið áfram niður á 80 m dýpi og teknir um 800.000 m³.  Gert sé ráð fyrir að framkvæmdatími verði 10-15 ár.

Fram kemur að efni verði losað með ripper og ýtutönn og ýtt fram af brún Ingólfsfjalls niður tvær svokallaðar rásir, E1 sem sé vestar og E2 austar.  Við það falli efnið niður á afgreiðslusvæði í núverandi námu.  Vestari rásin hafi verið notuð við efnisvinnslu ofan af Ingólfsfjalli fram að þessu.  Áður en hægt verði að ýta efni niður eystri rásina þurfi að sprengja klappir inn við bergstálið ofarlega í fjallinu.  Fram kemur að unnið verði til skiptis á hvoru vinnslusvæði fyrir sig eftir þörfum og efni afgreitt á meðan, neðan þeirrar rásar sem ekki verði í notkun.  Umfang hvors vinnslusvæðis einskorðist við geira með u.þ.b. 120 m radíus frá hvorri rás. Það sé sú hámarksfjarlægð sem fýsilegt sé að flytja til efni með þessari vinnslutilhögun, m.t.t. til hagkvæmni og efnisverðs miðað við núverandi stöðu á samkeppnismarkaði.

Lögbundið álit Skipulagsstofnunar um matið lá fyrir hinn 21. apríl 2006.  Er í álitinu gerð grein fyrir hinni matsskyldu framkvæmd, matsferlinu og helstu þáttum þess, umsögnum, athugasemdum og öðru því er málið varðar.  Í 4. kafla álitsins, sem er niðurstaða Skipulagsstofnunar, segir svo:
 
„Í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.b. hefur Skipulagsstofnun farið yfir matsskýrslu framkvæmdaraðila sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga.  Matsskýrsla framkvæmdaraðila byggði á auglýstri frummatsskýrslu, umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu og afstöðu framkvæmdaraðila til þeirra.

Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla framkvæmdaraðila hafi í meginatriðum uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum eftir því sem við á hvað varðar þau atriði sem getið er um í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005. Einnig telur stofnunin að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og umsögnum sem bárust á kynningartíma frummatsskýrslu og þeim svarað á fullnægjandi hátt. Skipulagsstofnun gerir ekki athugasemdir við þá aðferðarfræði í matsskýrslu sem notuð er við mat á áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á sjónræna þætti og landslag.

Fyrir liggur að sjónræn áhrif og áhrif á landslag beggja kosta, 1 og 2 verða sambærileg, eins og vinnslufyrirkomulag er kynnt í matsskýrslu nema að vestari rásin verður ekki notuð samkvæmt valkosti 2. Að mati framkvæmdaraðila er valkostur 2 ekki raunhæfur, m.a. þurfi að vinna utan eðlilegs vinnutíma þar sem einungis verður um efnistilfærslu niður eina rás að ræða og eitt afgreiðsluplan en slíkt fyrirkomulag telur framkvæmdaraðili í raun óásættanlegt við áframhaldandi rekstur námunnar.

Skipulagsstofnun telur að það mat framkvæmdaraðila í kafla 6.3 í matsskýrslu að heildaráhrif fyrirhugaðar framkvæmdar verði jákvæð sé í ósamræmi við umfjöllun í sama kafla um einkenni  og vægi áhrifa á einstaka umhverfisþætti.  Þar kemur fram það mat að sjónræn áhrif og áhrif landslag verði mikil, neikvæð, varanleg og óafturkræf. Einnig kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd hafi mikil, jákvæð áhrif á efnahag og samfélag og töluvert jákvæð áhrif á umferð. Skipulagsstofnun tekur undir ofangreint mat framkvæmdaraðila hvaða varðar sjónræn áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar og áhrif hennar á landslag. Um verður að ræða ásýndarbreytingar á Ingólfsfjalli vegna óafturkræfar skerðingar klettabrúnar fjallsins á um 400 m löngum kafla og lækkun hennar um 80 m auk röskunar og breytinga á yfirbragði klettabeltisins vegna tilfærslu efnis niður tvær rásir. Þessi áhrif munu auka enn á og magna enn frekar upp neikvæð sjónræn áhrif núverandi efnistökustaðar. Þá þarf að hafa í huga að sjónræn áhrif fyrirhugaðrar efnistöku munu ná til fjölda fólks, þar sem svæðið er í næsta nágrenni við þéttbýlisstaðinn Selfoss og fjölfarinn þjóðveg. Auk þess sem er um að ræða fjall sem er jarðmyndun að þeirri gerð að talið er forgangsmál, samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun, að vernda.

Skipulagsstofnun telur að áhrif á aðra umhverfisþætti verði tímabundin enda er hér um tímabundna framkvæmd að ræða til næstu 10-15 ára. Stofnunin telur líklegt að áhrif á umferð og umferðaröryggi verði jákvæð þar sem efnisflutningabifreiðir þurfa að fara sem stutta leið með efni frá námu til notenda. Varðandi efnahag og samfélag þá telur stofnunin líklegt að kostnaður aukist eftir því sem efnistökusvæði er lengra frá markaðssvæði efnisins.  Að því leyti liggur fyrir að fyrirhuguð efnistaka mun hafa jákvæð áhrif á næstu árum fyrir þá aðila í samfélaginu sem þurfa á efni að halda. Skipulagsstofnun bendir hins vegar á að sjónræn áhrif fyrirhugaðrar efnistöku flokkast einnig undir áhrif á samfélag.

Skipulagsstofnun telur að við mat á heildaráhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar, þurfi að vega saman annars vegar það mat að sjónræn áhrif og áhrif landslag verði mikil, neikvæð, varanleg og óafturkræf. Hins vegar verður um tímabundin jákvæð áhrif að ræða vegna styttri aksturs efnisflutningabifreiða og tímabundin jákvæð áhrif framkvæmdarinnar vegna mannvirkjaframkvæmda  í nágrenni efnistökusvæðis. Að mati Skipulagsstofnunar vega hin verulega neikvæðu, óafurkræfu og varanlegu sjónrænu áhrif þyngra.

Eitt af markmiðum laga um mat á umhverfisáhrifum er að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Framkvæmdaraðili telur að aðrir raunhæfir kostir á efnisvinnslu umfram valkost 1 séu ekki raunhæfir.  Skipulagsstofnun telur að þær aðgerðir til mótvægis sem framkvæmdaraðili hefur kynnt í matsskýrslu um lögun efnistökusvæðisins uppi á Ingólfsfjalli að aðliggjandi landformum megni ekki að draga úr sjónrænum áhrifum efnistökunnar.

Í Aðalskipulagi Ölfuss 2002 – 2014 sem staðfest var 4. janúar 2005 og breytt 2. desember 2005 er gerð grein fyrir Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli. Þar kemur fram að efnistaka úr efri hluta námunnar sé óheimil þar til málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum sé lokið og framkvæmdaleyfi liggi fyrir. Vegna sérstöðu námunnar muni sveitarfélagið beita sér fyrir því að unnið verði deiliskipulag fyrir efnistökusvæðið.

Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð efnistaka úr Ingólfsfjalli eins og hún er kynnt í matsskýrslu, sé ekki ásættanleg vegna verulega neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra sjónrænna áhrifa og áhrifa á landslag sem hún mun óhjákvæmilega hafa í för með sér. Veiting framkvæmdaleyfis bryti því í bága við niðurstöðu stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.“

Á fundi sínum hinn 11. maí 2006 tók bæjarstjórn Ölfuss ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi í samræmi við umsókn Fossvéla ehf., þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar.  Færði bæjarstjórn fram rök fyrir þeirri ákvörðun sem rakin eru í eftirfarandi bókun:

„Samþykkt er að fela byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Ölfuss að gefa út framkvæmdaleyfi til Fossvéla ehf. til efnistöku úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs í Ölfusi í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.

Bæjarstjórn hefur kynnt sér matsskýrslu um framkvæmdina og kannað hvort framkvæmdin sé sú sama og þar er lýst.

Samþykkt er að ekki verði farið að áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum með eftirfarandi rökstuðningi;

Í fyrsta lagi er í umsókn Fossvéla ehf. um framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs í Ölfusi óskað eftir leyfi til efnistöku í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.
Bent er á að samkvæmt niðurstöðu í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir að sjónræn áhrif og áhrif á landslag beggja valkosta, þ.e. I og II verða sambærileg, eins og vinnslufyrirkomulagið er kynnt í matsskýrslu, nema að vestari rásin verður ekki notuð samkvæmt valkosti II.
Í öðru lagi er bent á að Náttúruverndarsamtök Suðurlands ályktuðu á stjórnarfundi samtakanna þann 22. febrúar sl. að samtökin legðust ekki gegn fyrirhugaðri námavinnslu í Ingólfsfjalli.
Í þriðja lagi leggur Sveitarfélagið Ölfus ríka áherslu á að efnisflutningarbifreiðir fari sem stysta leið frá námu til notenda með tilliti til áhrifa á umferð og umferðaröryggi. Það er mat bæjarstjórnar að núverandi vegakerfi á Suðurlandi beri ekki þá auknu umferð sem fyrirsjáanlega verður þurfi efnistökubifreiðar að fara lengri leiðir frá námu til notenda.
Þá verður einnig að taka tillit til aukinna neikvæðra áhrifa á umhverfið, þurfi efnistökubifreiðar að lengja akstursleið sína, í formi aukinnar brennslu á eldsneyti, sliti á dekkjum, bremsuborðum o.fl.
Í fjórða lagi er bent á að valkostur I miðar við að áætluð efnisvinnsla verði í heildina um 2.000.000 m³. Miðað við núverandi eftirspurn úr námunni er gert ráð fyrir að vinnslan vari í 10-15 ár. Þrátt fyrir að framkvæmdinni sé að þessu leyti afmarkaður ákveðinn rammi, þá felst ekki í þeirri afmörkun að frekari efnistaka úr fjallinu verði ekki heimiluð síðar.
Í ljósi þessa verður ekki á þessu stigi komist að þeirri niðurstöðu að þau miklu efnahagslegu áhrif sem gætir af því að hafa námuna á þeim stað sem hún er nú á séu skammtímaáhrif.
Í fimmta lagi er það mat Sveitarfélagsins Ölfuss að rétt sé að taka ríkt tillit til þeirra jákvæðu efnahagslegu og samfélagsleguáhrifa að hafa námuna á þeim stað sem hún er nú á. Eina náman, utan námu í Ingólfsfjalli sem annað getur efnisþörf fyrir byggð á Suðurlandi er í Lambafelli. Sá kostnaðarauki sem flutningur námavinnslu myndi hafa í för með sér er umtalsverður.
Í sjötta lagi er bent á að þörfin fyrir efnistöku mun að öllum líkindum aukast á svæðinu. Verði námunni í Ingólfsfjalli lokað er fyrirsjáanlegt að opnaðar verði aðrar námur á Suðurlandi.
Í sjöunda lagi er að mati Sveitarfélagsins Ölfuss of mikið gert úr þeim sjónrænu áhrifum efnistökunnar. Bent er á að um er að ræða mjög huglæg áhrif og vandséð er hvernig hægt er að meta þau áhrif þyngra en þau jákvæðu efnahagslegu og samfélagslegu áhrif sem efnistaka í námunni hefur í för með sér.
Bent er á að hin sjónrænu áhrif gætir aðeins á takmörkuðu svæði þar sem landslag ber nú þegar merki efnistöku.
Í áttunda lagi er bent á að Skipulagsstofnun telur að ekki séu líkur á að fyrirhuguð efnistaka hafi neikvæð áhrif á neysluvatn, né heldur á gróður. Þá telur Skipulagsstofnun líklegt m.t.t. framlagðra gagna að áhrif fyrirhugaðra framkvæmdar á fugla verði ekki veruleg.
Fyrirhugað námuvinnslusvæði er í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 sem staðfest var af umhverfisráðherra 4. janúar 2005.

Framkvæmdaleyfið skal gefið út til 15 ára, þá skal þar gerð grein fyrir stærð efnistöku, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt er að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði allt í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.“

Kærendur voru ósammála rökum bæjarstjórnar og ákvörðun hennar um útgáfu framkvæmdaleyfisins og skutu þeir málinu því til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Með úrskurði til bráðabirgða hinn 22. júní 2006 ákvað úrskurðarnefndin að takmarka heimildir leyfishafa til framkvæmda meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og hefur því ekki komið til umtalsverðrar röskunar á brún Ingólfsfjalls á námusvæðinu umfram það sem orðið var þegar málinu var skotið til nefndarinnar.

Málsrök kærenda:  Kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands eru nær samhljóða og er í þeim byggt á sömu eða sambærilegum lagarökum og málsástæðum.   

Kærendur halda því fram að útgáfa hins umdeilda framkvæmdaleyfis sé í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en markmið þeirra laga séu m.a:  „Að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.“

Þá telja kærendur að útgáfan leyfisins uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br., en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar.  Í skýringum með frumvarpi til þeirra laga segi m.a:  „Lagt er til að leyfisveitandi skuli kynna sér skýrslu framkvæmdaraðila og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Leyfisveitendum ber þannig að fjalla um álit Skipulagsstofnunar og taka afstöðu til þess og kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila sem því liggur til grundvallar. Sé leyfi veitt þar sem tekið er á einhverjum eða öllum þáttum með öðrum hætti en fram kemur í álitinu þarf leyfisveitandi þannig að geta fært rök fyrir niðurstöðu sinni.“

Þegar lög mæli fyrir um að rök séu sett fram hljóti það að vera vilji löggjafans að röksemdafærslan standist skoðun og að framsett rök séu í það minnsta jafn veigamikil og rökin sem þeim sé ætlað að hrekja.  Það sé mat kærenda að svo sé ekki í þessu tilfelli.

Þá sé útgáfa leyfisins í andstöðu við markmið laga nr. 44/1999 um náttúruvernd en markmið þeirra séu:  „… að stuðla að samskiptum manns og umhverfis þannig að hvorki spillist líf eða land né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.  Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.  Lögin eiga að auðvelda umgengni og kynni þjóðarinnar af náttúru landsins og menningarminjum og stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar.“

Ljóst sé að framkvæmdin muni spilla landi.  Ingólfsfjall beri nafn fyrsta landnámsmannsins og í þjóðsögum Jóns Árnasonar sé Ingólfur sagður hvíla í Ingólfshaugi á fjallinu.  Skírskotun í sögulegan menningararf þjóðarinnar blasi því við.

Samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi sé talið forgangsmál að vernda jarðmyndanir sem séu sjaldgæfar eða óvenjulegar á heimsmælikvarða, þ.á.m. móbergsmyndanir, en Ingólfsfjall sé móbergsstapi og eigi því að njóta þeirrar verndar sem stefnumörkun stjórnvalda kveði á um.

Að lokum sé bent á að samkvæmt 2. mgr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd sé óheimilt að gefa út framkvæmdaleyfi nema að fenginni umsögn Umhverfisstofnunnar og viðkomandi náttúruverndarnefndar, hafi framangreindir aðilar ekki veitt umsögn um aðalskipulag.   Ekki komi fram í rökstuðningi sveitarfélagsins að umsögn þessara aðila liggi fyrir og því virðist útgáfa leyfisins brjóta í bága við ofangreint ákvæði.

Kærendur telja að í röksemdafærslu sveitarfélagsins sé að finna órökstuddar fullyrðingar, rangfærslur og rökvillur.  Telji þeir því að röksemdafærsla sveitarfélagsins uppfylli ekki þær kröfur sem gera þurfi til röksemdafærslu af hálfu stjórnvalda í málum sem þessum.  Rekja kærendur hvern einstakan lið í rökum bæjarstjórnar í þeirri röð sem þeir koma fyrir í bókun bæjarstjórnar frá 11. maí 2006.  Er umfjöllun kærenda um hvern lið all ítarleg og eru þau sjónarmið er þar koma fram öll höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins en aðeins verður hér gerð grein fyrir samandregnum niðurstöðum kærenda um hvern lið fyrir sig sem eru eftirfarandi:

Um lið 1.  Kærendur telja að í fyrsta lið í röksemdafærslu sveitarfélagsins séu ekki sett fram nein rök fyrir framkvæmdinni.  Einungis sé um að ræða yfirlýsingu sveitarstjórnar þar sem fram komi að hún sé sammála áður framkomnum gögnum í málinu.  Úrskurðarnefndinni beri því að vísa þessum fyrsta lið röksemdafærslunnar á bug.

Um lið 2.  Úrskurðarnefndinni beri að hafna rökum af því tagi sem finna megi í öðrum lið þar sem þau geti almennt ekki talist gild og í þessu tilfelli sé heldur ekki rétt farið með staðreyndir.

Um lið 3.  Kærendur telja að með námu á öðrum stað í námunda við þéttbýlið sé hægt að koma í veg fyrir sum þau neikvæðu áhrif sem sveitarstjórn bendi á í þriðja lið röksemdafærslu sinnar.  Önnur neikvæð áhrif sem sveitarstjórnin bendi þar á, einkum þau er varði mengun og umhverfismál, séu að mati kærenda léttvæg samanborið við rök þeirra og Skipulagsstofnunar um sömu mál.

Um lið 4.  Í þessum lið sé rökvilla.  Röksemd Skipulagsstofnunar um að efnahagsleg áhrif þeirrar efnistöku sem hér sé um fjallað séu aðeins skammtímaáhrif standi því óhögguð.  Með vísan í rökvillu og ónógar upplýsingar um meintan efnahagslegan ávinning telji kærendur fjórða lið í röksemdafærslu Ölfuss ekki standast skoðun.

Um lið 5.  Í þessum fimmta lið í rökstuðningi Ölfuss komi fram að hér sé á ferðinni „…mat Sveitarfélagsins Ölfuss…“ og beri úrskurðarnefndinni eðli málsins samkvæmt að líta á þennan lið sem mat en ekki rök í hefðbundinni merkingu þess orðs.  Þá sé umrætt mat sveitarfélagsins á meintum jákvæðum efnahags- og samfélagslegum áhrifum ekki rökstutt með neinum hætti.

Um lið 6.  Bent hafi verið á að kanna þurfi möguleika á efnistöku á svæðinu.  Slík könnun myndi líklega leiða til þess að opnaðar yrðu aðrar námur á Suðurlandi.  Það þurfi út af fyrir sig ekki að vera með öllu vont enda ólíklegt að opnuð yrði náma með ámóta miklum umhverfisáhrifum og fylgi efnistökunni í Ingólfsfjalli.  Efnistaka úr sjó kynni t.a.m. að vera ákjósanlegur kostur sem ástæða væri til að kanna.

Um lið 7.  Í þessum sjöunda lið röksemdafærslunnar komi fram að hér sé á ferðinni „mat Sveitarfélagsins Ölfuss“ og beri úrskurðarnefndinni að skoða þessa framsetningu sem mat sveitarfélagsins en ekki rök.

Um lið 8.  Bent hafi verið á veigamikil rök gegn framkvæmdinni.  Fáar framkvæmdir séu þess eðlis að þær hafi neikvæð áhrif á alla þætti umhverfisins.  Hér séu tíndir til nokkrir umhverfisþættir sem líkur séu á að framkvæmdin muni ekki hafa neikvæð áhrif á.  Slíkt sé hægt að gera með allar framkvæmdir.  Það séu hinsvegar ekki rök í sjálfu sér.

Kærendur telja loks að þeir ríku náttúruverndarhagsmunir sem hér séu í húfi og greint sé frá í afar vel rökstuddu álit Skipulagsstofnunar hljóti að vega þyngra en léttvæg röksemdafærsla Sveitarfélagsins Ölfuss þar sem meintur efnahagslegur ávinningur virðist vera þúfan sem velt hafi hlassinu.

Engar tölulegar upplýsingar eða forsendur útreikninga á meintum efnahagslegum ávinningi liggi fyrir í röksemdafærslu sveitarfélagsins.  Í röksemdafærslu þess sé að finna órökstuddar fullyrðingar, rangfærslur og rökvillur.  Það sé því mat kærenda að röksemdafærsla sveitarfélagsins uppfylli ekki þær kröfur sem gera þurfi til röksemdafærslu af hálfu stjórnvalda í málum sem þessum.

Bent sé á að meintur efnahagslegur ávinningur muni aðeins vara um stutt skeið en náttúruspjöllin séu hinsvegar umfangsmikil og óafturkræf og muni blasa við komandi kynslóðum um ókomin ár.  Þá bendi rökstuðningur Sveitarfélagsins Ölfuss, sbr. 4. lið, til þess að efnistöku verði haldið áfram þegar þessum áfanga ljúki eftir 10-15 ár.  Það sé því viðbúið að áhrifin til lengri tíma litið verði enn meiri en fram komi í mati á umhverfisáhrifum og áliti Skipulagsstofnunnar ef framkvæmdaleyfið fái að halda gildi sínu.

Málsrök bæjarstjórnar Ölfuss:  Af hálfu bæjarstjórnar Ölfuss er áréttað að viðkomandi framkvæmdaleyfi hafi verið var gefið út skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að fengnu áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.  Rökstudd afstaða hafi verið tekin til álits Skipulagsstofnunar eins og 5. mgr. 27. gr. laganna mæli fyrir um.

Í framkomnum kærum sé ekki einu orði vikið að því að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt við töku hinnar kærðu ákvörðunar, enda hafi svo verið og hafi málsmeðferð og afgreiðsla sveitarstjórnar á málinu að öllu leyti verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, náttúruverndarlög nr. 44/1999 og stjórnsýslulög nr. 37/1997.  Allra lögbundinna álita hafi verið leitað.

Um útgáfu framkvæmdaleyfa sé að finna fyrirmæli í 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt því ákvæði sé útgáfa slíkra leyfa í höndum sveitarstjórnar.  Af  4. mgr. þess ákvæðis megi ráða að aðeins sé heimilt að gefa út framkvæmdaleyfi ef framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir.  Þá sé óheimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir.

Í 5. mgr. 27. gr. segi: „Við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin er sú sem lýst er í matsskýrslu. Þá skal sveitarstjórn taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.“

Af framangreindu ákvæði megi ráða að skylt sé að leita álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Í stjórnsýslurétti sé þessi þáttur í meðferð stjórnsýslumáls nefndur álitsumleitan.  Í fræðilegri umfjöllun sé gerður greinarmunur á annars vegar lögbundinni álitsumleitan og hins vegar frjálsri álitsumleitan.  Með lögbundinni álitsumleitan sé átt við þau tilvik þar sem mælt sé fyrir um í lögum að afla skuli umsagnar við undirbúning ákvörðunar.  Frjáls álitsumleitan nefnist þær umsagnir sem stjórnvald afli án þess að til þess standi lagaskylda.

Í ljósi þess að skylt sé lögum samkvæmt að leita álits Skipulagsstofnunar teljist framangreind álitsumleitan lögbundin.  Í framkvæmd hafi hins vegar verið talið að enda þótt stjórnvaldi sé að lögum skylt að leita sérstakrar umsagnar utanaðkomandi aðila áður en það taki ákvörðun í máli sé umsögnin ekki bindandi fyrir stjórnvaldið við ákvörðun málsins, nema að svo sé fyrir mælt í lögum.  Slík fyrirmæli sé ekki að finna í lögum nr. 73/1997.

Í ljósi þessa sé álit Skipulagsstofnunar ekki bindandi fyrir sveitarstjórnir við ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis.

Hins vegar sé lögð sú skylda á sveitarstjórnir við útgáfu framkvæmdaleyfa að kynna sér matsskýrslu um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sama og lýst sé í matsskýrslu.  Þá þurfi að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sem og um hvort hún sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Þetta hafi verið gert.  Sveitarfélagið Ölfus hafi tekið upplýsta ákvörðun um útgáfu leyfisins á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem legið hafi fyrir um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.

Þá sé einnig vísað til 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, en þar segi að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði.  Sé það því mat sveitarfélagsins að það eigi rétt á að fara eftir þeim rökum sem það telji betri kost heldur en komi fram í áliti Skipulagsstofnunar.

Af hálfu bæjarstjórnar Ölfuss er enn fremur bent á að í kærunum sé einungis farið fram á að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála endurskoði þann rökstuðning sem búi að baki ákvörðun sveitarfélagsins þar sem kærendur séu ekki sammála honum.  Tekið sé fram að úrskurðarnefndina skorti valdheimild til að endurskoða frjálst mat sveitarfélagsins hvað ákvörðun þess varði.

Líkt og fundargerð beri með sér sé það mat sveitarfélagsins að önnur rök séu veigameiri fyrir því að heimila áframhaldandi efnistöku á Ingólfsfjalli en sú huglæga sjónræna röskun sem öll áhersla sé lögð á í ofangreindum kærum.  Þau rök séu m.a. minni áhrif á umferð og umferðaröryggi og minni mengun vegna umferðar ef efnistöku sé haldið áfram á þessum stað.

Enn fremur sé það ljóst að gífurlegur kostnaðarauki fylgi því að þurfa að sækja efni alla leið að Lambafelli sem sé eina náman, utan námu í Ingólfsfjalli, sem annað geti efnisþörf fyrir byggð á Suðurlandi.  Því sé mikilvægt að líta til þeirra jákvæðu efnahagslegu og samfélagslegu áhrifa sem fylgi áframhaldandi efnistöku á þessu svæði.

Þá sé það stefna sveitarfélagsins, líkt og fram komi í gildandi aðalskipulagi, að hafa færri og stærri námur og það að loka svo stórri námu myndi þýða opnun fleiri minni náma með tilheyrandi röskun á landi.

Þá sé á það bent að mikil uppbygging sé á því svæði sem náman þjóni.  Til dæmis sé nú unnið að húsbyggingum í þremur nýjum hverfum á Selfossi og brátt hefjist vinna í því fjórða.  Einnig sé unnið í nýju hverfi í Hveragerði og muni vinna brátt hefjast í fleiri hverfum þar.  Þá sé einnig mikil uppbygging í Þorlákshöfn, á Eyrabakka og Stokkseyri.  Því sé ljóst að lokun námunnar nú muni hafa víðtækar afleiðingar í för með sér.  Þannig muni efnahagslegum hagsmunum verktaka á svæðinu verða ógnað, þar sem þeir muni ekki geta staðið við þegar gerða verksamninga, en fyrir liggi að efnistaka úr öðrum námum á svæðinu muni hafa í för með sér umtalsverðan kostnaðarauka.

Ljóst sé að Sveitarfélagið Ölfus hafi tekið upplýsta og lögmæta ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis.  Rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir ákvörðuninni hafi verið ítarlegur og uppfyllt öll ákvæði laga.  Þessi rökstuðningur sæti ekki endurskoðun að efni til, líkt og gerð sé krafa um.

Loks skuli upplýst að gerður hafi verið einkaréttarlegur samningur milli framkvæmdaraðila og Sveitarfélagsins Ölfuss þar sem framkvæmdaraðili skuldbindi sig til þess að grípa til ákveðinna mótvægisaðgerða um frágang og uppbyggingu svæðisins.

Með hliðsjón af öllu framansögðu beri að hafna kröfum kærenda í málinu.

Málsrök landeigenda og framkvæmdaleyfishafa:  Af hálfu framkvæmdaleyfishafans, Fossvéla ehf., og Helga Eggertssonar og Helgu R. Pálsdóttur, eigenda að 92% eignarhlut í óskiptu landi í Ingólfsfjalli, þar sem efnisvinnsla samkvæmt hinu umdeilda leyfi er fyrirhuguð, er kröfu kærenda um ógildingu leyfisins mótmælt.

Benda þau á að efnisvinnsla í landi Kjarrs í Ingólfsfjalli, sem framkvæmdaleyfið taki til, sé í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðherra 4. janúar 2005.  Í greinargerð aðalskipulagsins komi fram það markmið sveitarfélagsins að séð verði fyrir nægu framboði efnistökusvæða fyrir ýmiss konar byggingarstarfsemi og almennt sé gert ráð fyrir sem fæstum en tiltölulega stórum efnistökusvæðum.

Sveitarfélagið Ölfus hafi haft samráð við Umhverfisstofnun varðandi efnistöku og afmörkun efnistökusvæða og hafi umsögn stofnunarinnar frá 24. júní 2003 legið fyrir við gerð aðalskipulagsins, sbr. 33. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.  Ekki þurfti því að leita sérstaklega umsagnar hennar við útgáfu framkvæmdaleyfisins, sbr. 2. mgr. 47. gr. laganna.

Samkvæmt 2. tl. b-liðar 75. gr. samþykktar nr. 727/2004 um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Ölfuss starfi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd einnig eftir 11. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Á fundi nefndarinnar þann 11. maí 2006 hafi hún tekið fyrir umsókn Fossvéla ehf. um efnistöku í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli.  Hafi nefndin lagt til að ekki yrði farið eftir áliti Skipulagsstofnunar með rökstuðningi sem hafi fylgt bókuninni.  Bæjarstjórn Ölfuss hafi samþykkt fundargerð nefndarinnar á fundi síðar þann sama dag og falið byggingarfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi til Fossvéla ehf. til efnistöku úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs í Ölfusi í samræmi við svokallaðan valkost I í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistökunnar frá 13. mars 2006.  Röksemdir sveitarstjórnar fyrir því að fara ekki eftir áliti Skipulagsstofnunar hafi síðan verið ítarlega sundurgreindar og skýrðar frekar.

Samkvæmt framangreindu liggi fyrir að málsmeðferð og afgreiðsla sveitarstjórnar á útgáfu framkvæmdaleyfisins hafi að öllu leyti verið í samræmi við 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 2. mgr. 47. gr. laga nr. 44/1999.  Þau lögbundnu álit, sem fyrir sé mælt í náttúruverndarlögum, hafi legið fyrir við afgreiðslu leyfisins.

Þá hafi meðferð og afgreiðsla málsins af hálfu sveitarstjórnar verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Framkvæmdaleyfið sé einnig í samræmi við skipulagsáætlanir, sem og markmið sveitarfélagsins, sem lýst sé í greinargerð með aðalskipulagi.  Athugasemdir kærenda lúti fyrst og fremst að efnisatriðum ákvörðunar bæjarstjórnar og séu kærendur ósammála rökum sveitarfélagsins.  Úrskurðarnefndin hafi hins vegar ekki heimildir til að endurskoða hið frjálsa mat og ákvörðunarvald sveitarfélagsins að þessu leyti. 

Leyfishafinn og landeigendur hafi mikla hagsmuni af áframhaldandi efnisvinnslu.  Vinnslan snerti þó ekki einungis hagsmuni þeirra.  Það sé staðreynd að efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur af áframhaldandi efnisvinnslu sé gríðarlega mikill.  Stöðvun vinnslunnar hefði í för með sér mikil neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.  Slík aðgerð myndi því ekki einungis hafa áhrif á starfsemi leyfishafans heldur einnig alla áframhaldandi uppbyggingu byggðar á Suðurlandi.  Eina náman, utan námunnar í Ingólfsfjalli, sem annað geti efnisþörf fyrir byggð á Suðurlandi, sé í Lambafelli.  Kostnaður við að sækja efni þangað sé hins vegar svo mikill að ekki sé verjandi að sækja þangað efni.  Ekki sé um aðra námukosti að ræða fyrir byggðir á Suðurlandi.  Gríðarlegt tjón yrði því ef fallist yrði á kröfu kærenda.

Leyfishafi og landeigendur benda á að af hálfu kærenda hafi verið vísað til sjónrænna áhrifa af efnistökunni, sem séu mjög huglæg áhrif.  Vandséð sé hvernig hægt sé að meta sjónræn áhrif þyngra en það samfélagslega hagræði sem fylgi því að hafa efnistökustað nálægt notkunarstað þegar litið sé til alls þess umróts sem átt hafi sér stað á svæðinu síðustu áratugina.
 
Hafa verði einnig í huga að núverandi efnisvinnsla sé á takmörkuðu svæði þar sem landslag beri nú þegar merki efnistöku.  Ekki sé um að ræða röskun á jarðmyndun sem njóti verndar samkvæmt lögum.  Þá sé svæðið ekki á náttúruminjaskrá og ekki hafi verið lögð til verndun þess í náttúruverndaráætlunum.  Það hafi því ekki sérstakt verndargildi sem taka þurfi tillit til samkvæmt lögum.  Sú breyting sem fyrirhuguð vinnsla hafi í för með sér frá fyrri ummerkjum sé því ekki þess eðlis að um veruleg áhrif sé að ræða og teljist því ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Hagsmunir kærenda séu ekki eins ríkir að þessu leyti og breyti þá engu sjónarmið sem sett séu fram í kærum til nefndarinnar.  Vakin sé sérstök athygli á því að í kærunum sé ekki sé að finna nauðsynlega útlistun á hagsmunum kærenda hvað þetta varði.

Leyfishafi og landeigendur taka loks fram að þann 25. maí 1982 hafi verið undirritaður samningur milli landeigenda og Fossvéla hf. um rétt til námuvinnslu úr Þórustaðanámu og sé sá samningur enn í gildi auk þess sem aðilar hafi, þann 11. maí 2006, gert samkomulag við Sveitarfélagið Ölfus um efnisvinnsluna.  Ljóst sé að skerðing á efnisvinnslu, að hluta eða öllu leyti, samkvæmt þegar útgefnu framkvæmdaleyfi myndi svipta landeigendur ákveðnum og mikilvægum ráðstöfunar- og nýtingarheimildum yfir eign sinni, sem skilað hafi þeim umtalsverðum arði síðastliðin ár og fyrirséð sé að muni gera í framtíðinni að öllu óbreyttu. Slík skerðing stæðist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og færi einnig gegn lögvörðum atvinnuréttindum Fossvéla ehf.

Hagnýting jarðefna sem og námuréttindi séu þáttur í eignarétti landeigenda, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá sé einnig kveðið skýrt á um í 3. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu.  Almenna reglan sé sú að nýting auðlinda úr jörðu sé háð leyfi iðnaðarráðherra, hvort sem það sé til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða utan þeirra, sbr. 6. gr. laganna.  Regla þessi eigi þó ekki við um öll jarðefni, en landeiganda sé heimilt samkvæmt 8. gr. að nýta á eignarlandi sínu grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mó, mold og surtarbrand.  Sé það óbreytt regla frá fyrri lögum um námuréttindi.  Greint lagaákvæði árétti einfaldlega stjórnarskrárvarin eignar- og atvinnuréttindi landeigenda og framkvæmdaraðila.  Ekkert sem fram komi í kærunum geti falið í sér heimild til skerðingar á þessum réttindum.  Slíkt standist ekki eignarréttar- og atvinnuréttarákvæði stjórnarskrárinnar. 

Hér liggi fyrir lögmæt ákvörðun stjórnvalds um veitingu framkvæmdaleyfis, sem sé í samræmi við skipulagsáætlanir, lögbundin álit hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins, ákvörðunin hafi verið ítarlega og skilmerkilega rökstudd og hafi auk þess uppfyllt öll þau ákvæði laga sem við eigi í málum sem þessum.

Samkvæmt framangreindu beri að hafna kröfum kærenda.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari röksemdir fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki þykir ástæða til að rekja.  Hefur úrskurðarnefndin haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á námusvæðinu í Þórustaðanámu og á fyrirhuguðu efnistökusvæði hinn 8. september 2006.  Mættir voru allir nefndarmenn auk fulltrúa landeigenda, framkvæmdaleyfishafa og Sveitarfélagsins Ölfuss.  Fulltrúi Landverndar, sem er annar kærenda í máli þessu, var einnig viðstaddur. 

Niðurstaða:  Með lögum nr. 74/2005 voru gerðar umtalsverðar breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.  Var með þessum breytingum m.a. horfið frá því fyrirkomulagi sem áður var bundið í 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum að Skipulagsstofnun skyldi kveða upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum og taka í honum ákvörðun um hvort fallist væri á viðkomandi framkvæmd, með eða án skilyrða, eða hvort lagst væri gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa.  Voru þess í stað sett ákvæði í 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 um að Skipulagsstofnun skuli gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Er áskilið í ákvæðinu að í áliti Skipulagsstofnunar skuli gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggi til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skuli í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við kynningu á frummatsskýrslu.

Samhliða þessum breytingum var leitt í lög að við útgáfu leyfis til matsskyldra framkvæmda skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.  Sé um að ræða matsskylda framkvæmd sem háð er framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hvílir þessi skylda á sveitarstjórn sem leyfisveitanda.  Er ákvörðun sveitarstjórnar um leyfi til slíkrar matsskyldrar framkvæmdar kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samkvæmt 15. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, sbr. lög nr. 74/2005. 

Tóku framangreindar lagabreytingar gildi hinn 1. október 2005 og eiga þær við í máli þessu.

Allt frá því lög nr. 63/1993 tóku gildi hefur hér á landi verið skylt að meta umhverfisáhrif framkvæmda sem taldar eru geta haft umtalsverð áhrif á umhverfið.  Hefur löggjöfin miðað að því að ekki væri ráðist í slíkar framkvæmdir án þess að fyrir lægju nauðsynlegar forsendur til þess að unnt væri að taka upplýsta ákvörðun um leyfi til framkvæmda.  Í raun hefur stjórnsýsluframkvæmdin verið sú að heyrt hefur til undantekningar að lagst væri gegn framkvæmd í heild en nokkuð hefur verið um að einstökum framkvæmdakostum hafi verið hafnað og algengt hefur verið að skilyrði hafi verið sett fyrir framkvæmdum.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Sveitarfélagsins Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita Fossvélum ehf. framkvæmdaleyfi til efnistöku í Ingólfsfjalli samkvæmt valkosti I í matsskýrslu frá 13. mars 2006.  Var sú ákvörðun í andstöðu við álit Skipulagsstofnunar sem taldi að fyrirhuguð efnistaka, eins og hún væri kynnt í matsskýrslu, væri ekki ásættanleg vegna verulega neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra sjónrænna áhrifa og áhrifa á landslag, sem hún myndi óhjákvæmilega hafa í för með sér. 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, svo sem greininni var breytt með lögum nr. 74/2005, skal afla framkvæmdaleyfis vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.  Í 2. mgr. sömu greinar segir að öll efnistaka á landi og af eða úr hafsbotni innan netlaga sé háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.  Framkvæmdaleyfi vegna efnistöku skuli gefið út til tiltekins tíma þar sem gerð sé grein fyrir stærð efnistökusvæðis, vinnsludýpi, magni og gerð efnis sem heimilt sé að nýta samkvæmt leyfinu, vinnslutíma og frágangi á efnistökusvæði.

Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sá sem óski framkvæmdaleyfis skuli senda skriflega umsókn til sveitarstjórnar ásamt nauðsynlegum gögnum sem nánar skuli kveða á um í reglugerð.

Þá segir í 4. mgr. að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.  Óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir framkvæmd samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. 

Í 5. mgr. er svo mælt fyrir um að við umfjöllun um umsókn um framkvæmdaleyfi vegna matsskyldrar framkvæmdar skuli sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu.  Þá skuli sveitarstjórn taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Í framangreindum ákvæðum 27. greinar skipulags- og byggingarlaga eru í meginatriðum talin þau lagaskilyrði sem sveitarstjórn þarf að gæta þegar tekin er afstaða til umsóknar um leyfi til framkvæmdar sem háð er mati á umhverfisáhrifum.  Verður fyrst að þessum skilyrðum vikið en síðar hugað að öðrum lagaatriðum sem kærendur telja að komið geti til álita við úrlausn málsins.

Fyrir liggur að Fossvélar ehf. sóttu skriflega um leyfi til framkvæmda í samræmi við valkost I í matsskýrslu um framkvæmdina frá 13. mars 2006.  Þessa matsskýrslu hafði Skipulagsstofnun metið fullnægjandi og kemur sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hjá úrskurðarnefndinni.  Þá liggur og fyrir að í Aðaskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2002 – 2014 er gert ráð fyrir umræddri efnistöku og að lögboðinna umsagna hafði verið leitað um aðalskipulagstillöguna, m.a. umsagnar Umhverfisstofnunar.  Umdeilt leyfi er tímabundið og er umfang efnistökunnar afmarkað í matsskýrslu og í leyfinu sjálfu, auk þess sem áskilið er í aðalskipulagi að deiliskipulag skuli unnið fyrir svæðið þar sem m.a. verði gerð grein fyrir frágangi þess að vinnslu lokinni.  Verður samkvæmt framansögðu að telja að fullnægt hafi verið skilyrðum 1.-4. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga við afgreiðslu málsins.

Samkvæmt 5. mgr. nefndrar 27. gr. skal sveitarstjórn kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og kanna hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu.  Verður ekki annað ráðið en að þessu skilyrði hafi verið fullnægt með viðunandi hætti.  Þá segir í sömu málsgrein að sveitarstjórn skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. 

Álit Skipulagsstofnunar er lögbundið álit.  Það er ekki bindandi fyrir sveitarstjórn en áskilið er að hún taki rökstudda afstöðu til álitsins við afgreiðslu umsóknar um framkvæmdaleyfi.  Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 m.s.br. skal vera um að ræða rökstutt álit á því hvort matsskýrslan uppfylli skilyrði laga um mat á umhverfisáhrifum og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Í áliti Skipulagsstofnunar skal og gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem borist hafi við kynningu á frummatsskýrslu.

Samkvæmt því sem nú var rakið þarf álit Skipulagsstofnunar að fullnægja lágmarksskilyrðum um rökstuðning og efnisinnihald.  Er það forsenda þess að sveitarstjórn geti tekið ákvörðun um umsókn um framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga að álitið fullnægi lagaskilyrðum.  Verður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála að taka afstöðu til þess hvort álit Skipulagsstofnunar fullnægi lagaskilyrðum enda er það liður í því að meta hvort hin kærða ákvörðun hafi verið reist á lögmætum grundvelli.

Álit Skipulagsstofnunar er að dómi úrskurðarnefndarinnar haldið nokkrum ágöllum.  Þarf nefndin að taka afstöðu til þess hvort þessir ágallar séu þess eðlis að líklegt sé að þeir hafi haft áhrif á niðurstöðu sveitarstjórnar í málinu, og þá um leið hvort hafna verði álitinu sem ófullnægjandi.  Verður einkum stuðst við niðurstöðu álitsins í 4. kafla við mat á gildi þess.

Nánast í upphafi niðurstöðukaflans segir svo:  „Skipulagsstofnun telur að matsskýrsla framkvæmdaraðila hafi í meginatriðum uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum eftir því sem við á hvað varðar þau atriði sem getið er um í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.“  Telur úrskurðarnefndin að í þessu orðalagi sé gerður ótilgreindur fyrirvari um að matsskýrsla framkvæmdaraðila kunni í einhverjum efnum að vera ófullnægjandi.  Hvorki orðalag 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 né 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 þykja gefa tilefni til slíks fyrirvara.  Jafnframt þykir hér skorta á að fullnægt sé kröfu um rökstuðning.

Niðurstaða álits Skipulagsstofnunar er alfarið byggð á því að fyrirhuguð framkvæmd sé ekki ásættanleg vegna verulega neikvæðra, varanlegra og óafturkræfra sjónrænna áhrifa og áhrifa á landslag sem hún muni óhjákvæmilega hafa í för með sér.  Í umfjöllun í álitinu um þessi áhrif segir m.a. svo:  „Um verður að ræða ásýndarbreytingar á Ingólfsfjalli vegna óafturkræfrar skerðingar klettabrúnar fjallsins á um 400 m löngum kafla og lækkun hennar um 80 m auk röskunar og breytinga á yfirbragði klettabeltisins vegna tilfærslu efnis niður tvær rásir.“  Úrskurðarnefndin telur þessa lýsingu villandi.  Í matsskýrslu kemur fram að land hækki til suðvesturs uppi á fjallinu og að landhalli sé um 6º.  Má af þessu ráða að ný klettabrún að baki vinnslusvæðinu verði um 12 metrum hærri en núverandi fjallsbrún miðað við 120 m vinnsludýpt.

Þá segir nokkru síðar í niðurstöðukafla álitsins:  „Auk þess sem er um að ræða fjall sem er jarðmyndun að þeirri gerð að talið er forgangsmál, samkvæmt stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun, að vernda.“  Við þessa staðhæfingu verður að gera þá athugasemd að þar til bær stjórnvöld virðast hafa tekið þá ákvörðun að framfylgja ekki tilvitnaðri stefnumörkun í því tilviki sem hér um ræðir, enda er ekki vitað til þess að tillögur hafi komið fram um verndun umrædds svæðis í umfjöllun þeirra stjórnvalda sem gefið hafa umsagnir í málinu og fara með málefni náttúruverndar í landinu.

Loks segir í lokamálsgrein í niðurstöðu Skipulagsstofnunar:  „Veiting framkvæmdaleyfis bryti því í bága við niðurstöðu stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.“  Úrskurðarnefndin telur að hér láti nærri að komist sé að niðurstöðu með svipuðum hætti og gert var þegar Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð um mat á umhverfisáhrifum í samræmi við eldri ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum.  Þykir á skorta að stofnunin tjái sig um mögulegar mótvægisaðgerðir og annað er máli gæti skipt um fyrirhugaða framkvæmd ef í hana yrði ráðist, en ætla verður að stofnuninni hafi átt að vera ljóst að sveitarstjórn væri heimilt að ganga gegn áliti hennar með rökstuddri ákvörðun. 

Tilvísun í 1. mgr. 24. gr. reglugerðar 1123/2005 verður að teljast óheppileg í ljósi þess að í umræddu reglugerðarákvæði virðist vera misritun og að auki er í ákvæðinu vikið verulega frá orðalagi 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, sem reglugerðarákvæðið á þó að styðjast við.

Þrátt fyrir þá annmarka sem úrskurðarnefndin telur vera á áliti Skipulagsstofnunar verður ekki talið að álitið hafi verið ófullnægjandi eða að ágallar á því hafi verið líklegir til að breyta niðurstöðu bæjarstjórnar Ölfuss um framkvæmdaleyfið.  Verður því að telja að skilyrði hafi verið til þess að taka fyrirliggjandi umsókn um framkvæmdaleyfi til afgreiðslu, svo sem gert var. 

Enda þótt fallast megi á það með kærendum að í sumum liðum í röksemdafærslu bæjarstjórnar Ölfuss gæti ónákvæmni og að aðrir liðir eigi jafnvel ekki við, þá þykir ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss nægilega rökstudd einungis með tilvísun til jákvæðra efnahagslegra áhrifa, sem gagna nýtur um í málinu, og með ábendingu um hve huglæg þau umhverfisáhrif eru sem Skipulagsstofnun leggur til grundvallar niðurstöðu sinni.  Telur úrskurðarnefndin að í tilviki sem þessu, þar sem á vegast annars vegar náttúruverndarsjónarmið og hins vegar hagsmunir sem eiga rót í efnahagslegum ávinningi, væri ákjósanlegt að leggja hlutlægan mælikvarða á þá hagmuni sem í húfi eru með kostnaðar-ábatagreiningu.  Má ætla að niðurstöður slíkrar greiningar hefðu lagt traustari grundvöll að ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Er raunar að því fundið í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu umhverfismála hér á landi frá árinu 2001, hve slíkum aðferðum hafi sjaldan verið beitt hérlendis. 

Af hálfu kærenda er vísað til athugasemda sem settar hafi verið fram þegar frummatsskýrslan hafi verið til umfjöllunar þar sem bent hafi verið á að brýnt væri að stjórnvöld á Suðurlandi myndu kanna valkosti til efnistöku til þess að mæta mikilli eftirspurn eftir byggingarefni í landshlutanum.  Á meðan slík könnun hafi ekki farið fram sé ekki hægt að útiloka að finna megi efnistökustaði hæfilega nálægt notkunarstað.  Ekki verður fallist á að þessar ábendingar hafi átt að leiða til þess að framkvæmdaraðili eða bæjarstjórn hefðu frumkvæði að könnun annarra valkosta, enda lá fyrir í aðalskipulagi sveitarfélagsins, staðfestu af umhverfisráðherra hinn 4. janúar 2005, stefna þess um landnotkun og þar með talið um efnistökusvæði.  Hefðu athugasemdir um valkosti til efnistöku fremur getað haft þýðingu við undirbúning og gerð aðalskipulagsins en við mat á umhverfisáhrifum efnistöku sem ráðgerð var í gildandi aðalskipulagi. 

Þykja málsástæður kærenda er lúta að röksemdafærslu bæjarstjórnar fyrir hinni kærðu ákvörðun samkvæmt framansögðu ekki eiga að leiða til þess að fallist verði á kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á með kærendum að veiting hins umdeilda leyfis hafi farið svo gegn markmiðsákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða náttúruverndarlaga að ógildingu varði, enda hefur við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar einmitt verið staðreynt hvort fyrirhuguð efnistaka fái samrýmst heimildum greindra laga.  Er m.a. ítarlega fjallað um þessa þætti málsins í vandaðri matsskýrslu framkvæmdaraðilans, sem er meðal höfuðgagna málsins.

Þegar metið er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verður, auk þess sem þegar er rakið, að hafa í huga að bæjarstjórn bar ekki aðeins að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar og gæta að öðru leyti skilyrða 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur bar henni einnig að líta til stjórnarskrárvarinna eignar- og atvinnuréttinda landeigenda og framkvæmdaraðila, sem haft hafa arð af rekstri efnisnámu á umræddu svæði um áratuga skeið.  Þá skipti og miklu að svæðið ber þegar veruleg ummerki efnistökunnar og að í hinni kærðu ákvörðun er áskilnaður um frágang svæðisins og umgengni um það.  Er þannig tryggt að gripið verði til raunhæfra mótvægisaðgerða þrátt fyrir að Skipulagsstofnun hafi ekki neytt heimildar 2. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. til að mæla sérstaklega fyrir um þær í áliti sínu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hafna beri kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.  Jafnframt falla úr gildi réttaráhrif bráðbirgðaúrskurðar frá 22. júní 2006 um takmörkun á framkvæmdum samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist nokkuð vegna mikils málafjölda sem komið hefur til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita Fossvélum ehf. framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________         ____________________________
                           Ásgeir Magnússon                                Geir Oddsson                                     

 

_____________________________         _____________________________
Geirharður Þorsteinsson                                Þorsteinn Þorsteinsson

45/2006 Ingólfsfjall

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2006, kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi, dags. 9. júní 2006, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Landvernd ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist til bráðbirgða að efnistaka úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs verði stöðvuð án tafar þar til mál þetta hafi verið til lykta leitt. 

Úrskurðarnefndinni barst hinn 14. júní 2006 bréf Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, dags. 10. júní 2006, þar sem sama ákvörðun er kærð, með sömu eða svipuðum rökum og með sömu kröfum og fram koma í kæru Landverndar.  Þykja skilyrði vera fyrir hendi til að sameina framangreindar kærur og verður því fjallað um þær sem eitt kærumál. 

Þá hefur úrskurðarnefndinni borist í tölvupósti kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands þar sem kærð er sama ákvörðun og að framan greinir en erindið hefur enn ekki borist nefndinni undirritað.  Verður ekki, að svo stöddu, tekin afstaða til þess hvort síðastgreint erindi fullnægi skilyrðum 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um skriflega kæru. 

Leyfishafa, landeiganda og sveitarstjórn var þegar í stað gert viðvart um framkomnar kærur og kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hafa þessir aðilar sent úrskurðarnefndinni andmæli og athugasemdir er einkum lúta að því hvort verða eigi við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og er málið nú tekið til úrlausnar um það álitaefni. 

Málsatvik og rök:  Fram kemur í málsgögnum að fyllingarefni hafi um áratuga skeið verið unnið úr Þórustaðnámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Á árinu 2004 hóf rekstraraðili námunnar að vinna efni uppi á fjallinu og var því rutt niður í námu þá sem fyrir var neðan fjallsins.  Skipulagsstofnun taldi efnistöku uppi á fjallinu háða mati á umhverfisáhrifum og var sú niðurstaða stafest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 10. desember 2004. 

Að fenginni þessari niðurstöðu lét rekstraraðili námunnar vinna mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar efnistöku uppi á fjallinu.  Var matsferlið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br.  Matsskýrsla lá fyrir í mars 2006.  Vann Skipulagsstofnun lögbundið álit um matið og er í niðurstöðu álitsins mælt gegn því að leyfi verði veitt fyrir umræddri framkvæmd. 

Bæjarstjórn Ölfuss tók ákvörðun um að veita umrætt framkvæmdaleyfi þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar og færði fram rök fyrir þeirri ákvörðun.  Eru kærendur ósammála rökum bæjarstjórnar og ákvörðun hennar og hafa þeir skotið málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærendur styðja kröfu sína um stöðvun framkvæmda einkum þeim rökum að verði framkvæmdum haldið áfram meðan úrskurðarnefndin hafi málið til meðferðar sé hætta á að varanleg spjöll verði unnin á brún og hlíð Ingólfsfjalls á vinnslusvæðinu áður en endanleg niðurstaða fáist í málinu.  Ætla megi að hluti þeirra varanlegu og óafturkræfu áhrifa, sem framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa í för með sér, komi fram strax á fyrstu dögum efnistökunnar.  Það sé því afar brýnt að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað áður en hagsmunum þeim, sem kærunni sé ætlað að verja, verði fórnað. 

Af hálfu framkvæmdaleyfishafa og landeigenda er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Miklir hagsmunir séu tengdir áframhaldandi efnisvinnslu og sé efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur af áframhaldandi efnisvinnslu gríðarlega mikill.  Stöðvun vinnslu á þessum tímapunkti hefði í för með sér mikil neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.  Hagsmunir kærenda séu ekki eins ríkir að þessu leyti og breyti þá engu sjónarmið sem sett séu fram í kærum þeirra til nefndarinnar.  Vakin sé sérstök athygli á því að í kærunum séu ekki færð fram skilmerkileg rök fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda og ekki sé þar að finna nauðsynlega útlistun á hagsmunum kærenda hvað þetta varði. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss er m.a. á það bent að ekki sé í kærunum vikið að því einu orði að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt, enda hafi málsmeðferðin öll verið eftir gildandi reglum.  Það sé lögbundið verkefni sveitarfélagsins að veita framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Við ákvörðun um leyfisveitinguna sé sveitarfélagið ekki bundið af áliti Skipulagsstofnunar heldur beri því að taka rökstudda afstöðu til álitsins og taka að því búnu upplýsta ákvörðun í málinu.  Alls þessa hafi verið gætt.  Þá hafi kærendur ekki sett kröfu sína um stöðvun framkvæmda fram fyrr en rétt fyrir lok kærufrests og af orðalagi megi ráða að þeir séu í vafa um hvort, eða að hvaða marki, óafturkræf áhrif framkvæmdarinnar komi fram á þeim tíma sem málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í þessum þætti málsins og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn sína til bráðabirgða í málinu. 

Niðurstaða:  Af hálfu kærenda er þess krafist að framkvæmdir sem hafnar eru með stoð í hinu umdeilda framkvæmdaleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hafi málið til efnismeðferðar.  Er sú krafa þeirra studd þeim rökum að ætla megi að hluti þeirra varanlegu og óafturkræfu áhrifa sem framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa í för með sér komi fram strax á fyrstu dögum efnistökunnar.  Eru megin röksemdir þeirra í málinu einnig af sama meiði þar sem aðallega er á því byggt að hinni umdeildu framkvæmd fylgi meiri varanleg og óafturtæk sjónræn áhrif en unnt sé að una við. 

Af hálfu leyfishafa, landeigenda og sveitarstjórnar hefur hins vegar verið lögð áhersla á þá ríku hagsmuni sem séu tengdir því að efnisvinnslan verði ekki stöðvuð fyrirvaralaust, auk þeirra vandkvæða sem óhjákvæmilega muni leiða af slíkri stöðvun nú. 

Úrskurðarnefndin fellst á þau sjónarmið kærenda að sjónræn áhrif geti fljótlega komið fram haldi efnisvinnsla samkvæmt umdeildu framkvæmdaleyfi áfram óheft og að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um ágreining málsaðila nema tryggt sé að ásýnd fjallsbrúnar og hlíðar verði ekki raskað til muna meðan nefndin hafi málið til úrlausnar. 

Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. 

Með hliðsjón af tilvitnaðri lagareglu og með tilliti til atvika málsins og ríkra hagsmuna leyfishafa fellst úrskurðarnefndin ekki á að réttlætanlegt sé að stöðva alla vinnslu samkvæmt leyfinu meðan nefndin hefur málið til efnismeðferðar.  Er þá einnig til þess litið að efnisvinnsla hefur um nokkurt skeið verið með þeim hætti að lausu efni hefur verið ýtt fram af fjallinu ofan í eldri námu um svonefnda vestari rás og eru ekki sjáanleg vandkvæði á að halda vinnslu áfram með óbreyttu sniði meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu í málinu. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða nefndarinnar að stöðva beri framkvæmdir sem miði að lækkun eða breytingu á fjallsbrún á námusvæðinu ofan Þórustaðnámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Jafnframt er leyfishafa óheimilt að ráðast í gerð fyrirhugaðrar eystri rásar eða að ýta efni fram af fjallsbrúninni á öðrum stað en um núverandi vestari rás.  Óheimilt er að víkka eða dýpka þá hvilft sem myndast hefur efst í vestari rásinni. 

Með vísun til 3. málsl. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er lagt fyrir sveitarstjórn að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem miða að lækkun eða breytingu á fjallsbrún á námusvæði ofan Þórustaðanámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli, eru stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Jafnframt er leyfishafa á sama tíma óheimilt að ráðast í gerð fyrirhugaðrar eystri rásar eða að ýta efni fram af fjallsbrún á öðrum stað en um núverandi vestari rás.  Loks er óheimilt á umræddum tíma að víkka eða dýpka þá hvilft sem myndast hefur efst í vestari rásinni.  Að öðru leyti er efnisvinnsla heimil á svæðinu með sama sniði og verið hefur að undanförnu. 

Bæjarstjórn Ölfuss ber að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt. 

 

___________________________   
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

7/2002 Kapelluhraun

Með

Ár 2003, föstudaginn 13. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður í fjarveru aðalmanns.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2002, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 um að synja erindi Skógræktar ríkisins um áframhaldandi efnistöku í Hrauntungum í Kapelluhrauni.

Á málið er nú lagður svofelldur

Úrskurður.

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. mars 2002, er barst nefndinni 21. sama mánaðar, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. B ehf., þá ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 að synja erindi Skógræktar ríkisins frá 29. janúar 2002 um að afstaða verði tekin til erindis Borgartaks ehf. um að félaginu verði heimilað, á næstu 6 árum, að taka hraunfyllingu (u.þ.b. 320.000-350.000 rúmetra), er félagið sé eigandi að, úr námu í landi Skógræktar ríkisins í Hrauntungum í Kapelluhrauni.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í andmælum við frávísunarkröfu, dags. 21. mars 2003, gerir kærandi þá varakröfu að ef úrskurðarnefndin telji að nauðsynlegt hafi verið að afla mats á umhverfisáhrifum áður en unnt væri að óska framkvæmaleyfis, sé þess engu að síður krafist að nefndin felli úr gildi ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar og heimili kæranda að taka allt að 150.000 rúmmetra af hraunfyllingu úr námunni. 

Verði ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en þess krafist að úrskurðarnefndin kveði á um skyldu Hafnarfjarðarbæjar til þess að greiða kæranda bætur, sbr. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga, vegna þess tjóns er hin kærða ákvörðun hafi í för með sér fyrir hann.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. maí 2003, óskar lögmaður kæranda þess loks að úrskurðarnefndin skeri úr um það, með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997, hvort fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda séu háðar framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er þess aðallega krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að hin kærða ákvörðun standi óröskuð og að bótakröfu kæranda verði hafnað.

Málavextir:  Með samningi, dags. 6. febrúar 1992, keypti kærandi af Skógrækt ríkisins 1.000.000 rúmmetra af hraunfyllingu úr námusvæði í landi skógræktarinnar í Straumi í Hafnarfirði, þar sem heita Hrauntungur í Kaphelluhrauni.  Samningur þessi var til 10 ára og rann því út þann 6. febrúar 2002.  Þá hafði kærandi, að eigin sögn, aðeins tekið úr námunni u.þ.b. 650.000 rúmmetra af hraunfyllingu og taldi sig því eiga þar u.þ.b. 350.000 rúmmetra óunna.  Leituðu forsvarsmenn kæranda eftir því við Skógrækt ríkisins að gildistími samningsins yrði framlengdur um 6 ár þannig að unnt yrði að ljúka vinnslu umsamins efnismagns úr námunni.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2002, óskaði lögmaður Skógræktar ríkisins þess að Hafnarfjarðarbær gerði grein fyrir afstöðu sinni til óska kæranda um áframhaldandi námuvinnslu á svæðinu.  Var erindi þessu synjað, án rökstuðnings, á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar hinn 7. febrúar 2002 og er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 2002, óskaði Skógrækt ríkisins rökstuðnings fyrir framangreindri ákvörðun bæjarráðs.  Var með bréfi, dags. 21. febrúar 2002, gerð grein fyrir rökstuðningi bæjaryfirvalda fyrir umræddri ákvörðun.  Er þar m.a. tekið fram að samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 47. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 sé öll efnistaka í bæjarlandinu óheimil án framkvæmdaleyfis bæjarstjórnar.  Þá kemur einnig fram í rökstuðningi bæjaryfirvalda, að frekari efnistaka á svæðinu samræmist ekki gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar og að mörkuð hafi verið sú stefna að umræddri námu verði lokað og frá henni gengið.  Með vísan til stefnumörkunar bæjarstjórnar um efnistöku í bæjarlandinu og núgildandi aðalskipulags Hafnarfjarðar sé það ekki vilji bæjarstjórnar að heimila frekari efnistöku í landi Skógræktarinnar í Hafnarfirði.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að hina kærðu ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar skorti lagastoð og því beri að fella hana úr gildi.  Telur hann 27. gr. laga nr. 73/1997 og 47. gr. laga nr. 44/1999 ekki vera haldbæra stoð fyrir þeirri ákvörðun bæjarráðs að synja honum um heimild til að taka hraunfyllingu, í sinni eigu, úr námunni.  Bæjarráð hafi ekki vald til að banna töku kæranda á hraunfyllingu þeirri er hann hafi keypt á árinu 1992 en á þeim tíma hafi a.m.k. verið heimilt að taka það efni úr námunni.  Krafa kæranda um að fá að taka hraunfyllingu úr námunni byggi á samningi og hafi hann tekið hraunfyllingu jafnt og þétt úr námunni frá febrúar 1992.  Það sé því ekki svo að fyrir dyrum standi nú meiri háttar framkvæmdir, sbr. 27. gr. laga nr. 73/1997, enda framkvæmdir löngu hafnar, eða á árinu 1992.  Tilvitnuð lagaákvæði geti aðeins náð til framkvæmda er hefja skuli eftir gildistöku laganna, en ekki til framkvæmda sem áður hafi byrjað.  Þar að auki hafi kærandi tekið hraunfyllingu úr námunni eftir gildistöku laga nr. 73/1997 og 44/1999, allt fram í febrúar 2002, án þess að Hafnarfjarðarbær hafi hreyft við því athugasemdum.  Bærinn hafi því heimilað efnistöku úr námunni í mörg ár eftir gildistöku fyrrgreindra laga og hafi kærandi því mátt ætla að honum væri heimilt að nýta efni sitt í námunni.  Hefði kærandi haft ástæðu til að ætla að Hafnarfjarðarbær breytti um afstöðu til efnistökunnar hefði hann flýtt efnistökunni og lokið henni á árinu 1991.  Ekkert hafi breyst í skipulagi á svæðinu er réttlæti breytta afstöðu bæjarsins, sem sé mjög íþyngjandi fyrir kæranda.

Þá telur kærandi fráleitt að brottnám á hraunfyllingu hans úr námunni teljist nú til meiri háttar framkvæmda er áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess.  A.m.k. sé órökstutt að efnistaka nú teljist meiri háttar, þar sem efnistaka úr námunni eftir gildistöku laga nr. 73/1997 og 44/1999 og þar til í febrúar 2002 hafi ekki verið talin slík meiri háttar framkvæmd.  Umrætt svæði sé námusvæði og hafi verið það um langan tíma.  Ásýnd umhverfisins breytist ekki til hins verra, enda þótt tekið sé meira magn af hraunfyllingu úr námunni.  Svæðið verði námusvæði líkt og áður og ásýnd umhverfis lík og áður.  Þá séu fleiri námur í grenndinni, sem verið sé að nýta, og sé kæranda ekki kunnugt um að Hafnarfjarðarbær hafi bannað töku efnis úr þeim.  Efnistaka úr námunni gangi að mati kæranda ekki gegn áætlunum um skipulag svæðisins, enda sé þar gert ráð fyrir byggingum í framtíðinni.  Kappkostað hafi verið að ganga vel frá landi eftir efnistöku og hafi því verið komið í nánast sama horf og fyrir efnistöku.  Það sé því rangt að efnistakan hafi valdið spjöllum á landinu.  Þá sé efnistakan a.m.k. í samræmi við skipulag er gilt hafi er samningur um hana hafi verið gerður á árinu 1992 og sé af þeirri ástæðu heimil.

Kærandi telur að svo íþyngjandi ákvörðun sem hér um ræði eigi ekki að taka nema fullvíst sé að öllum lagaskilyrðum sé fullnægt.  Hafnarfjarðarbær hafi ekki látið rannsaka áhrif efnistökunnar á umhverfið og hafi sveitarfélagið því m.a. vanrækt rannsóknarskyldu er boðin sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá telur kærandi að Hafnarfjarðarbær hafi, með ákvörðun sinni, brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi vafalaust mátt ná markmiðum um umhverfisvernd með öðru og vægara móti, svo sem með tilmælum um frágang á landi eftir efnistöku o.fl.

Verði ekki fallist á kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld verði úr gildi sé þess krafist að úrskurðarnefndin úrskurði um að Hafnarfjarðarbæ sé skylt að bæta kæranda það tjón sem hann verði fyrir vegna þeirrar ákvörðunar bæjarráðs að synja honum um heimild til að nýta hraunfyllingu er hann eigi í fyrrgreindri námu.  Verði talið að Hafnarfjarðarbæ sé heimilt, skv. lögum nr 73/1997 og/eða 44/1999 og á grundvelli breytts skipulags svæðisins, að banna kæranda að nýta þau verðmæti er hann hafi keypt af Skógrækt ríkisins á árinu 1992 sé ljóst að Hafnarfjarðarbæ beri að bæta honum allt það tjón er hann verði fyrir, sbr. skýr ákvæði 33. gr. laga nr. 73/1997.  Augljóst sé að kærandi verði fyrir verulegu tjóni ef honum verði ekki heimilað að selja hraunfyllingu er hann eigi í námunni.

Að lokum áréttar kærandi að hann hafi hinn 23. febrúar 2002 fengið vitneskju um efni bréfs bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, dags. 21. febrúar 2002, þar sem rökstudd hafi verið hin kærða ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar.  Kæran hafi því verið sett fram innan kærufrests, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt, enda varði hún fyrst og fremst hagsmuni hans, en ekki sé ágreiningur milli hans og Skógræktar ríkisins að hann eigi hraunfyllingu í námunni.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu bæjarlögmanns Hafnarfjarðar er tekið fram að Skógrækt ríkisins hafi óskað eftir afstöðu bæjarráðs Hafnarfjarðar um að framlengja leigutíma umrædds samnings, en sá sem kæri afgreiðslu bæjarráðs sé Borgartak ehf. Hafnarfjarðarbær fallist á að Borgartak eigi aðild að þessu máli og geti kært umrædda afgreiðslu bæjarráðs að uppfylltum réttum formskilyrðum, þar sem Borgartak ehf. hafi verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.

Hafnarfjarðarbær leggi hins vegar þann skilning í erindi Skógræktarinnar, sem synjað hafi verið í bæjarráði 7. febrúar 2002, að Skógræktin hafi einungis verið að leita eftir afstöðu bæjarins um að framlengja samningi um efnistöku og sé bærinn andsnúinn því, sbr. afgreiðslu bæjarráðs á erindinu.  Skipulags- og byggingarráð hafi ekki vald til þess að hnekkja þessari afstöðu bæjarins til framlengingar á samningi, frekar en annað stjórnvald, sökum sjálfstæðis sveitarfélaganna í landinu, sem sé stjórnarskrárvarið, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1994.

Hvorki Skógræktin né Borgartak hafi sótt um framkvæmdaleyfi að fengnu mati á umhverfisáhrifum, sem þeim beri að gera, en slíkt framkvæmdaleyfi, samþykkt af bæjarstjórn, sé forsenda þess að unnt sé að halda áfram efnistöku á umræddum stað.  Gildistími umrædds samnings hafi verið útrunninn og hafi erindið um afstöðu bæjarins til framlengingar hans því verið borið undir bæjarráð. 

Skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum beri að sækja um framkvæmdaleyfi þegar um sé að ræða meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breyting lands með jarðvegi eða efnistöku.  Skuli slíkar framkvæmdir vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þegar það eigi við.  Þegar um svo mikla efnistöku sé að ræða sem í þessu tilviki beri að afla mats á umhverfisáhrifum, sbr. 4. tl. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993.  Framkvæmdaaðila beri að sækja um slík leyfi, sbr. 7. gr. nefndra laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 63/1993.
 
Hefði Borgartak ehf. sótt um framkvæmdaleyfi eftir að hafa aflað mats á umhverfisáhrifum og bæjarstjórn synjað félaginu um slíkt leyfi, hefði mátt kæra þá synjun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum, sbr. 27. gr. laganna.  Borgartak ehf. byggi rétti sinn til efnistökunnar alfarið á umræddum samningi frá 1992, og reyni þá eingöngu á reglur samningaréttarins um hvernig túlka beri þennan samning hvað varði gildistíma hans þegar meta skuli rétt félagsins til áframhaldandi efnistöku úr námunni.  Málið heyri því undir dómstóla en ekki undir úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingarmál.  Beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni af framangreindum ástæðum.

Til stuðnings varakröfu sinni um að hin kærða ákvörðun skuli standa óröskuð bendi Hafnarfjarðarbær á að skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 njóti ákveðnar landslagsgerðir verndar, s.s. eldvörp, gervigígar og eldhraun og falli Kapelluhraun undir þetta lagaákvæði.

Eins og fram komi í núgildandi aðalaskipulagi þá hafi efnistaka í landi Hafnarfjarðar ekki farið fram með nógu skipulegum hætti og hafi hlotist af því veruleg eyðilegging á landslagi og önnur umhverfisspjöll, oft fyrir lítinn afrakstur.  Þessu vilji Hafnarfjarðarbær breyta.  Því sé til að svara um efnistök úr námum í nágrenninu, sem verið sé að nýta, að fyrir liggi mat á umhverfisáhrifum fyrir allar námurnar, fyrir utan eina sem Vegagerðin nýti, en sú náma hafi verið opnuð án samráðs við bæinn.  Unnið sé að mati fyrir þá námu. Jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi því ekki verið brotin með synjun bæjarráðs þann 7. febrúar 2002 á áframhaldandi efnistöku með stoð í umræddum samningi frá 1992.

Þá sé rangt, að áliti Hafnarfjarðarbæjar, að bærinn hafi vanrækt rannasóknarskyldu sína sem boðin sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda sé það hlutverk Borgartaks sem framkvæmdaaðila að óska eftir mati á umhverfisáhrifum og sækja um framkvæmdaleyfi, en ekki bæjarins.

Af ofangreindum ástæðum sé bótaskyldu Hafnarfjarðarbæjar í máli þessu einnig alfarið hafnað.

Þar sem mat á umhverfisáhrifum liggi ekki fyrir og ekki hafi verið sótt um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri efnistöku, sem lögskylt sé, sé ekki gerlegt að fjalla frekar um kröfu kæranda efnislega.  Hér eigi ekki við að fjalla frekar um hvernig beri að túlka samning hvað varði gildistíma hans eða fjalla um reglur samningaréttarins um slík efni. Sé það dómstóla að dæma um slíkt að mati Hafnarfjarðarbæjar, eins og þegar hafi komið fram.
 
Andmæli kæranda:
  Vegna frávísunarkröfu Hafnarfjarðarbæjar var kæranda gefinn kostur á að koma að andsvörum við greinargerð bæjarins í málinu.  Kom lögmaður kæranda sjónarmiðum hans á framfæri við úrskurðarnefndina með bréfi, dags. 21. mars 2003.  Telur hann að hafna beri kröfu Hafnarfjarðarbæjar um frávísun málsins enda styðji lög ekki þá kröfu bæjarins.  Telur hann að í rökstuðningi Hafnarfjarðarbæjar, dags. 21. febrúar 2002, felist að bæjaryfirvöld hafi synjaði kæranda um framkvæmdaleyfi.  Þá synjun hafi kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar og sé hún réttur aðili til að fjalla um ágreining sem uppi sé um lögmæti þeirrar synjunar, sbr. t.d. 8. og 27. gr. laga nr. 73/1997.  Kærandi telji reyndar að óskylt hafi verið að leita eftir framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar, en hins vegar sé það staðreynd að leitað hafi verið slíks leyfis.  Það sé því rangt sem fram komi í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar að ekki hafi verið sótt um framkvæmdaleyfi.  Þá sé einnig rangt að framkvæmdaleyfi hafi aðeins mátt sækja um að fengnu mati á umhverfisáhrifum, eins og haldið sé fram af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.  Kærandi telji að óskylt hafi verið að afla slíks mats vegna fyrirhugaðrar efnistöku, enda byggi sú efnistaka á samningi er gerður hafi verið fyrir gildistöku laga um mat á umhverfisáhrifum.

Loks vísar kærandi á bug öðrum málsástæðum er Hafnafjarðarbær teflir fram til stuðnings frávísunarkröfu sinni og mótmælir jafnframt varakröfu bæjarins með vísan til rökstuðnings í kæru, sem hann reifar nánar í andmælum sínum.

Fari svo að úrskurðarnefndin telji að nauðsynlegt hafi verið að afla mats á umhverfisáhrifum áður en unnt væri að óska framkvæmdaleyfis, sé þess engu að síður krafist að nefndin felli úr gildi ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar og heimili kæranda að taka allt að 150.000 rúmmetra af hraunfyllingu úr námunni.  Styðjist sú varakrafa við ákvæði 21. gr. í viðauka 1 með lögum nr. 106/2000 og ákvæði stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. maí 2003, óskar lögmaður kæranda þess loks að úrskurðarnefndin skeri úr um það, með vísan til 2. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997, hvort fyrirhugaðar framkvæmdir kæranda séu háðar framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.  Áréttar hann að hann telji fyrirhugaðar framkvæmdir ekki framkvæmdaleyfisskyldar.  Ekki hafi heldur verið skylt að afla mats á umhverfisáhrifum framkvæmdanna enda gildi um þær I. liður ákvæða til bráðabirgða með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í málinu.  Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð nánari grein fyrir röksemdum þeirra í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin boðaði til vettvangsgöngu og kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 6. mars 2003.  Auk nefndarmanna og framkvæmdastjóra nefndarinnar voru mættir lögmaður kæranda ásamt starfsmanni, sem hefur umsjón með námusvæðinu.  Ekki var mætt af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.  Nefndarmenn fóru um svæðið og fengu upplýsingar um það hvernig kærandi hygðist standa að frekari efnistöku á svæðinu og frágangi þess.

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir óskaði Skógrækt ríkisins þess með bréfi, dags. 29. janúar 2002, að Hafnarfjarðarbær lýsti afstöðu sinni til erindis kæranda um áframhaldandi efnistöku úr námu í landi Skógræktarinnar í Kapelluhrauni.  Bæjarráð synjaði erindi þessu og verður afstaða bæjarins ekki skilin á annan veg en svo, að litið hafi verið á umrætt erindi sem beiðni um samþykki bæjarins fyrir efnistökunni.  Kom og fram í rökstuðningi bæjaryfirvalda, sem síðar kom fram, að efnistakan væri háð framkvæmdaleyfi og samræmdist þar að auki ekki gildandi aðalskipulagi bæjarins.

Enda þótt fallast megi á það með bæjaryfirvöldum að umrætt erindi Skógræktar ríkisins hafi í raun aðeins verið fyrirspurn og því ekki gefið tilefni til formlegrar ákvörðunar verður ekki framhjá því litið að afgreiðsla bæjaryfirvalda og síðari rökstuðningur hefur á sér yfirbragð stjórnvaldsákvörðunar.  Verður svar bæjaryfirvalda ekki skilið á annan veg en svo að með því hafi verið synjað erindi um leyfi fyrir frekari efnistöku á svæðinu og að þýðingarlaust hefði verið fyrir Skógrækt ríkisins eða kæranda að sækja formlega um leyfi til efnistökunnar, enda verður framkvæmdaleyfi ekki veitt fari fyrirhuguð framkvæmd í bága við gildandi skipulag, sbr. 1. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður því að líta svo á að svar bæjarráðs við greindu erindi Skógræktar ríkisins hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem hafi verið lokaákvörðun um erindið og því kæranleg samkvæmt 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Auk ágreinings um lögmæti framangreindrar ákvörðunar bæjarráðs er í máli þessu deilt um það hvort Skógrækt ríkisins eða kærandi hefðu þurft að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir umræddri efnistöku, eftir atvikum að undangengnu mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Hefur kærandi óskað úrlausnar úrskurðarnefndarinnar um þann vafa sem hann telur leika á um framkvæmdaleyfisskyldu efnistökunnar.

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er það á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að skera úr um vafa um það hvort afla þurfi framkvæmdaleyfis til tiltekinnar framkvæmdar.  Verður að skilja ákvæði þetta svo að úrskurðarnefndin taki slík álitaefni, sem til hennar er vísað, til úrlausnar án þess að fyrir liggi ákvörðun sveitarstjórnar í málinu.  Ber nefndinni því að taka erindi kæranda um úrlausn um framkvæmdaleyfisskyldu efnistökunnar til meðferðar, óháð mati á því hvert hafi verið gildi þeirrar ákvörðunar bæjarráðs, sem upphaflega var kærð í málinu.

Með hliðsjón af framansögðu verður ekki fallist á kröfu Hafnarfjarðarbæjar um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það skilyrði er sett í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 73/1997 að leyfisskyldar framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir.  Af þessu leiðir að takmarkaða þýðingu hefur að skera úr um framkvæmdaleyfisskyldu umræddrar efnistöku nema áður sé úr því skorið hvort sú staðhæfing bæjarráðs, að efnistakan fari í bága við gildandi aðalskipulag, sé á rökum reist.

Í málinu liggur fyrir gildandi aðalskipulagsuppdráttur Hafnarfjarðar 1995-2015.  Eru á honum sýnd þau efnistökusvæði sem fyrir eru innan marka skipulagsins, þar á meðal svæði það sem um ræðir í máli þessu.  Sérstaklega eru þar auðkennd þau svæði þar sem umfang og mörk eru talin háð mati á umhverisáhrifum en það auðkenni nær ekki til hins umdeilda svæðis.  Aðliggjandi svæði er merkt með lit sem táknar opin svæði/almenn græn svæði, en í greinargerð aðalskipulagsins er þessi litarmerking nánar skýrð sem merking fyrir óbyggt land án skipulagðrar notkunar.  Í greinargerð aðalskipulagsins segir að yfirborðsvinnsla á hrauni sé óheimil, nema í þeim námum sem nú þegar séu í samningsbundinni vinnslu í Hrauntungum í Kapelluhrauni.  Hafnarfjarðarbær hafi ekki veitt leyfi fyrir þeirri yfirborðsvinnslu, heldur Skógrækt ríkisins, sem sé landeigandi.  Samningar um þessa vinnslu, 1.000.000 m³ hraungjalls, hafi verið gerðir áður en lög um mat á umhverfisáhrifum hafi öðlast gildi.

Þá liggur fyrir í málinu „Stefnumótun og verklagsreglur um efnistöku í landi Hafnarfjarðar“, samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 13. nóvember 2001, þar sem segir að umrætt svæði sé í aðalskipulagi skilgreint sem opið svæði/almennt grænt svæði og hraunnám. 

Miðað við þau gögn sem fyrir liggja og að framan er lýst verður ekki fallist á að efnistaka á umræddu svæði fari í bága við gildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt í nefndri stefnumótun um efnistöku sé ráðgert að leggja af efnistöku á svæðinu, enda hefur þessi stefnumótun ekki gildi sem skipulagsákvörðun og felur því ekki í sér breytingu á gildandi skipulagi svæðisins.  Verður því ógilt sú ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 að hafna áformum um frekari efnistöku á umræddu svæði með þeim rökum að framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi bæjarins.

Þar sem skipulag stendur því ekki í vegi að frekari efnistaka geti átt sér stað á umræddu svæði á kærandi lögvarða hagsmuni því tengda að fá úr því skorið hvort efnistakan teljist háð framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 27. gr. l. 73/1997.

Efnisnám kæranda í Kapelluhrauni hefur farið fram á grundvelli samnings hans við landeiganda frá 6. febrúar 1992.  Samkvæmt 17. grein náttúruverndarlaga nr. 47/1971, sem í gildi voru þegar umræddur samningur var gerður, var landeiganda heimil efnistaka í landi sínu, gengi hún ekki í berhögg við ákvæði laganna um friðlýsingu náttúruminja og stofnun útivistarsvæða.  Sveitarstjórn gat þó, að fenginni umsögn náttúruverndarnefndar, bannað jarðrask af þessum sökum ef hún teldi hættu á að með því væri sérkennilegu landslagi eða náttúruminjum raskað.  Jafnframt var í gr. 3.3.4.7 þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 318/1985, m.s.br., gert ráð fyrir að efnistökusvæði væru auðkennd á aðalskipulagsuppdrætti sveitarfélaga.  Sveitarstjórnir höfðu þannig nokkur úrræði til íhlutunar um efnistöku en ekki var að lögum skylt að afla sérstaks leyfis sveitarstjórnar fyrir slíkum framkvæmdum.

Ákvæði um framkvæmdaleyfi var fyrst lögfest með 27. gr. laga nr. 73/1997 sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998.  Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis þessa er óheimilt að hefja meiri háttar framkvæmdir, sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, fyrr en að fengnu framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Er jafnframt áskilið að slíkar framkvæmdir skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum þar sem það eigi við.

Hvorki er í ákvæði þessu né í 9. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um framkvæmdaleyfi tekin afstaða til þess hvernig fari um framkvæmdir sem hafnar hafi verið fyrir gildistöku laga nr. 73/1997 og fram sé haldið eftir það tímamark.  Verður því að líta til almennra sjónarmiða um lagaskil og afturvirkni laga við úrlausn þess álitaefnis.

Ákvæði laga um framkvæmdaleyfi eru íþyngjandi fyrir landeigendur og rétthafa efnistökusvæða og fela í sér skerðingu á hagnýtingarrétti þeirra.  Verður ekki talið að slík ákvæði geti tekið til framkvæmda sem hafnar voru fyrir gildistöku laganna og unnar eru eftir áætlunum eða samningum, þar sem umfang þeirra hefur fyrirfram verði afmarkað, svo sem í tilviki því sem hér um ræðir.  Verður ekki talið að áframhaldandi námuvinnsla á svæðinu geti talist ný framkvæmd meðan umsömdu efnismagni hefur ekki verið náð og unnið er innan þess svæðis sem afmarkað var með samningi landeiganda og kæranda.  Tímamörk í samningi aðila eru einkaréttarlegs eðlis en ráða engu um umfang framkvæmdarinnar.  Var aðilum, að mati úrskurðarnefndarinnar, heimilt að framlengja umræddum samningi án sérstaks leyfis sveitarstjórnar, enda var ekki með þeirri ráðstöfun verið að auka umfang efnistökunnar umfram þau 1.000.000 m³ mörk sem sett höfðu verið og getið er í greinargerð gildandi aðalskipulags Hafnarfjarðar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki sé skylt að afla framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í umræddri námu, allt að því marki sem kveðið er á um í samningi landeiganda og kæranda. Þessi niðurstaða er þó háð því að framkvæmdin verði ekki talin matsskyld eða sé undanþegin matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 í samræmi við áritun á aðalskipulagsuppdrætti.  Verður hins vegar ekki tekin afstaða til þess álitaefnis í úrskurði þessum enda fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að skera úr álitaefnum samkvæmt þeim lögum.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ógilt er sú ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 7. febrúar 2002 að hafna áformum um frekari efnistöku í landi Skógræktar ríkisins í Kapelluhrauni með þeim rökum að framkvæmdin samræmist ekki gildandi aðalskipulagi bæjarins.  Ekki er skylt að afla framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku í umræddri námu, allt að því marki sem kveðið er á um í samningi landeiganda og kæranda.

_____________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________           _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Óðinn Elísson