Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

45/2006 Ingólfsfjall

Ár 2006, fimmtudaginn 22. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2006, kærur Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands á ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi, dags. 9. júní 2006, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Landvernd ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss frá 11. maí 2006 um að veita framkvæmdaleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli.  Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Þá er þess krafist til bráðbirgða að efnistaka úr Ingólfsfjalli í landi Kjarrs verði stöðvuð án tafar þar til mál þetta hafi verið til lykta leitt. 

Úrskurðarnefndinni barst hinn 14. júní 2006 bréf Náttúruverndarsamtaka Suðurlands, dags. 10. júní 2006, þar sem sama ákvörðun er kærð, með sömu eða svipuðum rökum og með sömu kröfum og fram koma í kæru Landverndar.  Þykja skilyrði vera fyrir hendi til að sameina framangreindar kærur og verður því fjallað um þær sem eitt kærumál. 

Þá hefur úrskurðarnefndinni borist í tölvupósti kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands þar sem kærð er sama ákvörðun og að framan greinir en erindið hefur enn ekki borist nefndinni undirritað.  Verður ekki, að svo stöddu, tekin afstaða til þess hvort síðastgreint erindi fullnægi skilyrðum 3. gr. reglugerðar nr. 621/1997 um skriflega kæru. 

Leyfishafa, landeiganda og sveitarstjórn var þegar í stað gert viðvart um framkomnar kærur og kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.  Hafa þessir aðilar sent úrskurðarnefndinni andmæli og athugasemdir er einkum lúta að því hvort verða eigi við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda og er málið nú tekið til úrlausnar um það álitaefni. 

Málsatvik og rök:  Fram kemur í málsgögnum að fyllingarefni hafi um áratuga skeið verið unnið úr Þórustaðnámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Á árinu 2004 hóf rekstraraðili námunnar að vinna efni uppi á fjallinu og var því rutt niður í námu þá sem fyrir var neðan fjallsins.  Skipulagsstofnun taldi efnistöku uppi á fjallinu háða mati á umhverfisáhrifum og var sú niðurstaða stafest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 10. desember 2004. 

Að fenginni þessari niðurstöðu lét rekstraraðili námunnar vinna mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar efnistöku uppi á fjallinu.  Var matsferlið í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br.  Matsskýrsla lá fyrir í mars 2006.  Vann Skipulagsstofnun lögbundið álit um matið og er í niðurstöðu álitsins mælt gegn því að leyfi verði veitt fyrir umræddri framkvæmd. 

Bæjarstjórn Ölfuss tók ákvörðun um að veita umrætt framkvæmdaleyfi þrátt fyrir álit Skipulagsstofnunar og færði fram rök fyrir þeirri ákvörðun.  Eru kærendur ósammála rökum bæjarstjórnar og ákvörðun hennar og hafa þeir skotið málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Kærendur styðja kröfu sína um stöðvun framkvæmda einkum þeim rökum að verði framkvæmdum haldið áfram meðan úrskurðarnefndin hafi málið til meðferðar sé hætta á að varanleg spjöll verði unnin á brún og hlíð Ingólfsfjalls á vinnslusvæðinu áður en endanleg niðurstaða fáist í málinu.  Ætla megi að hluti þeirra varanlegu og óafturkræfu áhrifa, sem framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa í för með sér, komi fram strax á fyrstu dögum efnistökunnar.  Það sé því afar brýnt að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað áður en hagsmunum þeim, sem kærunni sé ætlað að verja, verði fórnað. 

Af hálfu framkvæmdaleyfishafa og landeigenda er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda mótmælt.  Miklir hagsmunir séu tengdir áframhaldandi efnisvinnslu og sé efnahagslegur og samfélagslegur ávinningur af áframhaldandi efnisvinnslu gríðarlega mikill.  Stöðvun vinnslu á þessum tímapunkti hefði í för með sér mikil neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif.  Hagsmunir kærenda séu ekki eins ríkir að þessu leyti og breyti þá engu sjónarmið sem sett séu fram í kærum þeirra til nefndarinnar.  Vakin sé sérstök athygli á því að í kærunum séu ekki færð fram skilmerkileg rök fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda og ekki sé þar að finna nauðsynlega útlistun á hagsmunum kærenda hvað þetta varði. 

Af hálfu Sveitarfélagsins Ölfuss er m.a. á það bent að ekki sé í kærunum vikið að því einu orði að réttum málsmeðferðarreglum hafi ekki verið fylgt, enda hafi málsmeðferðin öll verið eftir gildandi reglum.  Það sé lögbundið verkefni sveitarfélagsins að veita framkvæmdaleyfi samkvæmt 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Við ákvörðun um leyfisveitinguna sé sveitarfélagið ekki bundið af áliti Skipulagsstofnunar heldur beri því að taka rökstudda afstöðu til álitsins og taka að því búnu upplýsta ákvörðun í málinu.  Alls þessa hafi verið gætt.  Þá hafi kærendur ekki sett kröfu sína um stöðvun framkvæmda fram fyrr en rétt fyrir lok kærufrests og af orðalagi megi ráða að þeir séu í vafa um hvort, eða að hvaða marki, óafturkræf áhrif framkvæmdarinnar komi fram á þeim tíma sem málið verði til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í þessum þætti málsins og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn sína til bráðabirgða í málinu. 

Niðurstaða:  Af hálfu kærenda er þess krafist að framkvæmdir sem hafnar eru með stoð í hinu umdeilda framkvæmdaleyfi verði stöðvaðar meðan úrskurðarnefndin hafi málið til efnismeðferðar.  Er sú krafa þeirra studd þeim rökum að ætla megi að hluti þeirra varanlegu og óafturkræfu áhrifa sem framkvæmdin muni óhjákvæmilega hafa í för með sér komi fram strax á fyrstu dögum efnistökunnar.  Eru megin röksemdir þeirra í málinu einnig af sama meiði þar sem aðallega er á því byggt að hinni umdeildu framkvæmd fylgi meiri varanleg og óafturtæk sjónræn áhrif en unnt sé að una við. 

Af hálfu leyfishafa, landeigenda og sveitarstjórnar hefur hins vegar verið lögð áhersla á þá ríku hagsmuni sem séu tengdir því að efnisvinnslan verði ekki stöðvuð fyrirvaralaust, auk þeirra vandkvæða sem óhjákvæmilega muni leiða af slíkri stöðvun nú. 

Úrskurðarnefndin fellst á þau sjónarmið kærenda að sjónræn áhrif geti fljótlega komið fram haldi efnisvinnsla samkvæmt umdeildu framkvæmdaleyfi áfram óheft og að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um ágreining málsaðila nema tryggt sé að ásýnd fjallsbrúnar og hlíðar verði ekki raskað til muna meðan nefndin hafi málið til úrlausnar. 

Samkvæmt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. 

Með hliðsjón af tilvitnaðri lagareglu og með tilliti til atvika málsins og ríkra hagsmuna leyfishafa fellst úrskurðarnefndin ekki á að réttlætanlegt sé að stöðva alla vinnslu samkvæmt leyfinu meðan nefndin hefur málið til efnismeðferðar.  Er þá einnig til þess litið að efnisvinnsla hefur um nokkurt skeið verið með þeim hætti að lausu efni hefur verið ýtt fram af fjallinu ofan í eldri námu um svonefnda vestari rás og eru ekki sjáanleg vandkvæði á að halda vinnslu áfram með óbreyttu sniði meðan beðið er endanlegrar niðurstöðu í málinu. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða nefndarinnar að stöðva beri framkvæmdir sem miði að lækkun eða breytingu á fjallsbrún á námusvæðinu ofan Þórustaðnámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli.  Jafnframt er leyfishafa óheimilt að ráðast í gerð fyrirhugaðrar eystri rásar eða að ýta efni fram af fjallsbrúninni á öðrum stað en um núverandi vestari rás.  Óheimilt er að víkka eða dýpka þá hvilft sem myndast hefur efst í vestari rásinni. 

Með vísun til 3. málsl. 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er lagt fyrir sveitarstjórn að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt. 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem miða að lækkun eða breytingu á fjallsbrún á námusvæði ofan Þórustaðanámu í sunnanverðu Ingólfsfjalli, eru stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Jafnframt er leyfishafa á sama tíma óheimilt að ráðast í gerð fyrirhugaðrar eystri rásar eða að ýta efni fram af fjallsbrún á öðrum stað en um núverandi vestari rás.  Loks er óheimilt á umræddum tíma að víkka eða dýpka þá hvilft sem myndast hefur efst í vestari rásinni.  Að öðru leyti er efnisvinnsla heimil á svæðinu með sama sniði og verið hefur að undanförnu. 

Bæjarstjórn Ölfuss ber að hlutast til um að úrskurði þessum verði framfylgt. 

 

___________________________   
Hjalti Steinþórsson

 

____________________________        _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson