Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2022 Fornuströnd

Með

Árið 2022, þriðjudaginn 12. júlí, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Mál nr. 68/2022, kæra á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 3. júlí 2022 kæra eigendur Látrastrandar 9 og Fornustrandar 10, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarnesbæjar frá 21. júní 2022 að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 5. apríl 2022, var sótt um leyfi fyrir endurbótum og stækkun einbýlishússins við Fornuströnd 8, Seltjarnarnesi. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 5. maí s.á. Erindinu var frestað á þeim fundi og skipulagsfulltrúa var falið að óska eftir áliti skipulagshönnuðar. Umsóknin var tekin fyrir að nýju í skipulags- og umferðarnefnd 21. júní s.á. og var þá samþykkt. Fundargerð þess fundar var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi 22. júní 2022.

Kærendur benda á að fyrirhuguð nýbygging verði utan byggingarreits, að hæð ofan á bílskúr muni verða mun hærri en tíðkist í hverfinu, að þakgarðar séu ekki leyfilegir og byggingarmagn sé meira en heimilað byggingarmagn samkvæmt deiliskipulagi. Hverfið sé fullbyggt hverfi og kærendur telji sig ekki þurfa að þola útsýnisskerðingu, aukið skuggavarp og mikla innsýn.

Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að byggingarleyfi fyrir hinni kærðu framkvæmd hafi ekki verið gefið út og að byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og umferðarnefndar 21. júní 2022.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa hin umdeildu byggingaráform ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa.

Hið kærða samþykki skipulags- og umferðarráðs á umdeildum byggingaráformum felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur en hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Fornustrandar 8. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun í máli þessu sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 59. gr. laga um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2022 Tryggvagata

Með

Árið 2022, fimmtudaginn 7. júlí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfunda­búnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 um að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins á lóð Tryggvagötu 32, Selfossi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur hluta hússins að Tryggvagötu 32, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins á lóð Tryggvagötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 31. mars 2022.

Málavextir: Annar kærenda sótti um starfsleyfi til Heilbrigðiseftir­lits Suðurlands 8. janúar 2020 vegna reksturs sólbaðsstofu. Heilbrigðiseftirlitið kallaði eftir upplýsingum frá byggingar­fulltrúa um hvort starfsemin uppfyllti skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, þ.e. hvort húsnæðið hefði hlotið staðfestingu frá leyfisveitanda byggingar­leyfis á því að starfsemin væri í samræmi við samþykkta notkun þess. Málið var í kjölfarið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. janúar 2020 og var þar frestað á meðan kallað var eftir samþykki meðeigenda. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 6. janúar 2021 þar sem byggingarfulltrúi lagðist gegn útgáfu starfsleyfis með vísan til þess að starfsemin samræmdist ekki skipulagi, samþykki meðeigenda lægi ekki fyrir og önnur fyrirliggjandi gögn væru ófullnægjandi.

Fyrri hluta ársins 2021 bárust sveitarfélaginu athugasemdir við aðstæður að Tryggvagötu 32 og fór byggingarfulltrúi í kjölfarið í eftirlitsferð á staðinn 16. apríl s.á. Annar kærenda fékk sendar athugasemdir byggingarfulltrúa, dags. 27. maí s.á., þar sem greint var frá þeim athugasemdum sem gerðar voru við fasteignina og notkun hennar. Þar var m.a. tekið fram að vaknað hefði grunur um að nýting hluta mannvirkis á lóðinni, þ.e. efri hæð fasteignarinnar, væri ekki í samræmi við skráða notkun, þar sem grunur hefði vaknað um að þar væri rekin sól­baðsstofa. Var tekið fram að slík nýting mannvirkisins væri óheimil og var kærendum gert að láta af þeirri notkun. Í bréfinu var jafnframt að finna athugasemdir um byggingarleyfis-skyldar framkvæmdir sem fram hefðu farið á lóðinni án þess að leyfi hefðu verið fengið fyrir þeim. Fulltrúi kærenda sendi sveitarfélaginu svar þar sem fram kom að sólbaðsstofa í húsnæðinu væri hugsuð og yrði notuð sem minni háttar atvinnustarfsemi í eigu annars kærenda. Notaður væri sérinngangur fyrir efri hæð til að komast inn á sólbaðsstofuna, en þar væru fjórir bekkir með mismunandi stillingum. Hugmyndin væri sú að tveir gestir gætu sótt stofuna í einu. Sólbaðsstofan væri skilin frá íbúðarhúsnæðinu og staðsett ofan á bílskúr, þar sem áður hefði verið geymsla. Þar væri öryggiskassi sem stjórni rafmagni, slökkvitæki og góð loftræsing. Þá fylgi sér bað­herbergi fyrir viðskiptavini með klósetti, vaski og sturtu.

Hinn 13. desember 2021 barst umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi frá kærendum, þar sem óskað var eftir leyfi fyrir breytingum innanhúss á annarri hæð hússins að Tryggvagötu 32 vegna innréttingar á sólbaðsstofu í rými ofan á bílskúr, en það er nú skráð sem geymsla. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. s.m. og málinu var vísað til meðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd þar sem ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið. Málið var í framhaldinu tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd 29. s.m. þar sem samþykkt var að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum. Grenndarkynning fór fram á tíma­bilinu 29. desember 2021 til 26. janúar 2022 og bárust tvær athugasemdir á kynningartíma. Í þeim kom m.a. fram að ekki væri um atvinnuhúsnæði að ræða, að bílastæði við húsið anni ekki rekstrinum, að sólbaðsstofan væri nú þegar starfrækt í húsinu og af henni hefði hlotist mikið ónæði. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. janúar 2022 þar sem farið var yfir framkomnar athugasemdir og með vísan til þeirra var umsókn um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins hafnað. Kærendum var tilkynnt um þá afgreiðslu sama dag. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. febrúar s.á. og var umsókninni hafnað. Kærendum var sendur tölvupóstur sama dag þar sem þeir voru upplýstir um að mögulega væri unnt að samþykkja breytingar á hluta hússins sem slíkar „þó ekki sé samþykkt að vera með rekstur í húsnæðinu.“

Lögmaður kærenda óskaði frekari rökstuðnings og upplýsinga um afgreiðslu málsins með tölvupósti, dags. 24. febrúar 2022. Hinn 25. s.m. svaraði lögmaður sveitarfélagsins fyrir­spurnum lögmanns kærenda, en þar kom m.a. fram að fyrir mistök hefði láðst að geta um kærufrest og kæruleiðir. Þá var vísað til þess að þar sem í hinni kærðu ákvörðun kæmi fram á hvaða forsendum umsókninni hefði verið hafnað væri litið svo á að kærendur ættu ekki rétt á frekari rökstuðningi.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt skilyrði V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um birtingu ákvörðunar og rökstuðning. Í tilkynningu til kærenda um ákvörðun byggingarfulltrúa hafi hvergi komið fram heimild kærenda til þess að fá ákvörðunina nánar rökstudda, hvert bæri að kæra ákvörðunina eða hver kærufrestur væri, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þegar innt hafi verið eftir frekari upplýsingum um ákvörðun byggingarfulltrúa um fyrrgreint hafi lögfræðingur sveitarfélagsins tekið fram að fyrir mistök hafi láðst að geta um kærufrest og kæruleiðir. Af þeim sökum myndi sveitarfélagið ekki bera fyrir sig að kærufrestur hefði tekið að líða fyrir þann dag, þ.e. 25. febrúar 2022. Sé því kæru­frestur ekki liðinn og renni ekki út fyrr en 25. mars s.á.

Ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsækjanda um byggingarleyfi sé stjórnvalds­ákvörðun og beri honum því að fara eftir meginreglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnsýslu­laga við ákvarðanatöku og málsmeðferð. Brotið hafi verið gegn leiðbeiningar­skyldu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, þegar kærendum hafi verið kynnt ákvörðun byggingar­fulltrúa, en tilkynningin hafi ekki innihaldið leiðbeiningar um að heimilt væri að kæra ákvörðun byggingar­fulltrúa, hvert skyldi kæra ákvörðunina eða upplýsingar um kærufrest vegna ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. sömu laga. Rannsóknarreglan, sbr. 10. gr. laganna, hafi verið brotin í ljósi þess að málið virðist ekki hafa verið skoðað umfram það að lesa yfir þær athugasemdir sem hafi borist við grenndarkynningu. Einkum sé ljóst að rannsóknarreglan hafi verið brotin þegar litið sé til þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafi farið fram að morgni sama dags og frestur til athugasemda hafi runnið út. Bent sé á að málshraði megi ekki vera á kostnað vandaðra stjórnsýsluhátta. Þá hafi kærendur ekki fengið frekari tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri eftir að athugasemdir hafi borist nefndinni. Feli það ekki einungis í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar heldur einnig brot á andmælarétti kærenda, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt svari skipulags- og byggingarfulltrúa hafi megingrundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar verið sá að ekki hafi legið fyrir samþykki eiganda hins hluta hússins að Tryggva­götu 32. Hefðu kærendur því þurft að komast að samkomulagi við eiganda þess hluta til að fá umsókn sína samþykkta, sbr. c-lið 2. mgr. gr. 2.4.1. byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki verði séð að einstaklingsbundið mat hafi farið fram, enda hafi umsókninni verið hafnað án þess að kærendur hafi fengið leiðbeiningar um að afla samþykkis eða tækifæri til að andmæla því að slíkt samþykki þyrfti.

Því sé andmælt að ekki hafi verið þörf á frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun í ljósi þess að kærendum hafi verið tjáð að hún hafi verið grundvölluð á innsendum athugasemdum. Slíkt teljist ekki vera fullnægjandi rökstuðningur heldur hefði átt að tilgreina hvað í umræddum athugasemdum hafi valdið því að litið hafi verið svo sterklega til þeirra.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að öll máls­meðferðin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og vandaða stjórnsýsluhætti. Birting ákvörðunar og rökstuðningur fyrir henni hafi verið fullnægjandi þrátt fyrir annmarka á til­greiningu á rétti til nánari rökstuðnings og kæruleiðum. Úr þeim annmörkum hafi verið bætt í samskiptum við lögmann kærenda.

Því sé hafnað að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin. Málefni er varði rekstur sólbaðsstofu kærenda hafi verið vandlega rannsökuð af hálfu sveitarfélagsins í gegnum tíðina, bæði í tengslum við umsókn kærenda og fyrri erindi er snúi að sama rekstri. Þá hafi rannsóknar­reglan verið virt að fullu við yfirferð athugasemda, enda hafi athugasemdir borist snemma á grenndarkynningartímanum, þ.e. í byrjun janúar 2022. Ekkert hafi því verið að vanbúnaði að taka málið fyrir á fundi hinn 26. s.m. Hefðu frekari athugasemdir borist í lok kynningar­tímans hefði málinu verið frestað til frekari úrvinnslu og rannsóknar en nægur tími hafi gefist frá 7. janúar til 26. s.m. til að leggja mat á framkomnar athugasemdir.

Afgreiðsla athugasemda við grenndarkynningu hafi verið í samræmi við hefðbundið og venju­helgað verklag þar um. Þannig hafi skipulags- og byggingarnefnd tekið afstöðu til athugasemda í umsögn sinni og skipulags- og byggingarfulltrúi synjað beiðni kærenda í framhaldinu. Ekki sé hefðbundið að umsækjendum gefist færi á að svara athugasemdum úr grenndarkynningu eða koma að frekari sjónarmiðum að þeim framkomnum. Lög og verklag geri ekki ráð fyrir að umsækjendur komi sjónarmiðum sínum frekar á framfæri á þeim tímapunkti. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar liggi þó jafnframt fyrir að frekari andmæli kærenda hefðu með öllu verið þýðingarlaus, enda hefði krafa sveitarfélagsins um samþykki meðeigenda byggt á afdráttar­lausu ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þar sem kveðið sé á um að breytingar á hagnýtingu séreignar sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur en áður hafi verið, og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Af athugasemdum megi ráða að slíkt samþykki liggi ekki fyrir og að sú breyting að hefja rekstur í húsinu myndi hafa í för með sér ónæði, röskun og óþægindi, m.a. að teknu tilliti til bílastæða, eins og fram hafi komið í báðum innsendum athugasemdum.

Þegar kærendur hafi óskað eftir frekari rökstuðningi hafi lögmaður kærenda þegar fengið afhentar þær athugasemdir og afgreiðslur málsins sem fyrir hafi legið hjá sveitarfélaginu. Árborg geti fallist á að mögulega hafi verið tilefni til að upplýsa frekar um þau lagaákvæði sem synjun hafi byggst á, s.s. um ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994. Hins vegar hafi ákvörðunin ekki verið byggð á mati heldur á því að lögbundin skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og mátt hafi ráða af efni framkominna athugasemda og afgreiðslu málsins. Þessi yfirsjón hafi þó ekki þau áhrif að fallast beri á kröfur kærenda um að ákvörðunin skuli felld úr gildi, enda séu annmarkarnir ekki verulegir.

Veigamikil rök mæli með því að ákvörðunin verði ekki ógilt, enda sé ljóst að kærendur hafi um nokkurra ára skeið freistað þess að hefja rekstur í húsnæðinu án samþykkis nágranna sinna, sem þó sé lögbundið skilyrði fyrir breytingu á afnotum hluta hússins. Fyrir liggi að nágrannar hafi ekki hugsað sér að samþykkja slíka breytingu og myndi ógilding stjórnvalds­ákvörðunarinnar því ekki verða til þess að málið færi í neinn annan farveg en þann sem málið hafi verið í. Ekki komi til breytinga á afnotum fasteignarinnar nema að samþykki annarra eigenda ­hússins liggi fyrir og ekkert bendi til þess að það samþykki liggi nú fyrir. Væri það því eingöngu til þess að tefja endanlega niðurstöðu málsins að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús beri að afla samþykkis allra eigenda hússins ef breyting á hagnýtingu séreignar hafi í för með sér verulega meiri ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Kærendur fallist ekki á að breytt notkun húsnæðisins í samræmi við áætlanir þeirra feli í sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur. Þvert á móti geti kærendur ekki séð hvaða lögmætu hagsmunir eiganda hins hluta húsnæðisins sé raskað, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994.

Eignarhlutarnir tveir hafi báðir sérinngang og muni umgangur í og úr fyrirhugaðri sólbaðsstofu einungis fara í gegnum inngang kærenda. Sólbaðsstofan yrði þó aðskilin frá íbúð kærenda þar sem stofan yrði ofan á bílskúr hússins sem fylgi eignarhluta þeirra. Þá vísi kærendur því á bug sem komi fram í innsendum athugasemdum við grenndarkynningu að brunahætta stafi af rekstri sólbaðsstofunnar sem og að rekstur hennar myndi valda ónæði við húsið vegna skorts á bílastæðum. Teikningar þær sem fylgt hafi umsókn kærenda sýni þær breytingar sem til hafi staðið að ráðast í en þar sé gert ráð fyrir brunahólfandi veggjum. Þannig yrði verulega dregið úr brunahættu auk þess sem kærendur myndu gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar yrðu til þess að fullnægja kröfum um brunavarnir vegna hinnar breyttu notkunar húsnæðisins. Varðandi bílastæðamál þá bendi kærendur á að bílastæði það sem fylgi fasteign þeirra, fyrir framan bílskúr þeirra, rúmi vel tvo bíla. Þá sé einnig nóg um önnur bílastæði í nærumhverfinu sem séu opin almenningi. Viðskiptavinir sólbaðsstofunnar myndu því hvorki þurfa að hamla aðgengi annarra íbúa húsnæðisins né valda öðrum ónæði er þau nýti þjónustu kærenda. Geti því annar eigandi húsnæðisins ekki sett sig á móti þeirri breytingu sem um ræði.

Þrátt fyrir að 27. gr. fjöleignarhúsalaga feli í sér lögbundin skilyrði um að afla verði samþykki annarra eigenda í ákveðnum tilvikum verði það að teljast matskennt hvað feli í sér verulega meiri óhagræði, röskun eða óþægindi fyrir aðra. stjórnvöldum sé ekki heimilt að afnema það mat með því að vísa til verklagsreglna og þess að athugasemdir hafi borist við grenndarkynningu. Ekki sé endilega samasemmerki milli þess að nágrannar setji sig upp á móti áformum um breytingar og að þær breytingar feli í sér verulega meira óhagræði.

Kærendur telji í ljósi framangreinds að Árborg hefði átt að upplýsa kærendur um að nauðsynlegt væri að afla samþykkis meðeiganda áður en umsókn þeirra hefði verið hafnað. Slíkt hefði veitt kærendum tækifæri til þess að greiða úr þeim annmarka eða að mótmæla því að slíkt samþykki þyrfti. Hefðu kærendur þannig getað komið sjónarmiðum sínum að og varpað frekara ljósi á málið. Að mati kærenda hafi með þessu verið brotið gegn 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sem og andmælarétti og rannsóknarreglu, sbr. 13. og 10. gr. sömu laga.

Þá mótmæli kærendur þeirri fullyrðingu Árborgar að ekkert hafi verið að vanbúnaði að taka málið fyrir á fundi að morgni 26. janúar 2022 þar sem athugasemdir þær sem borist hafi í málinu hafi verið sendar til nefndarinnar í byrjun mánaðarins. Í ljósi þess að frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið til 26. janúar geti kærendur ekki séð að það hafi verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að mat á athugasemdum hafi farið fram áður en fresturinn hafi runnið út.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins Tryggvagötu 32, Selfossi.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra á. Hin kærða ákvörðun var tekin 2. febrúar 2022 og var kærendum tilkynnt um hana samdægurs. Máttu þeir því vita af hinni kærðu ákvörðun þá þegar þann dag. Kæra í máli þessu er dagsett og barst úrskurðarnefndinni 3. mars s.á. og er því utan hins lögbundna eins mánaðar frests fyrrnefndrar 2. mgr. 4. gr.

Fjallað er um réttaráhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. 20. gr. sömu laga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til að fá ákvörðun rökstudda og kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti svo og hvert skuli beina kæru. Í máli þessu var kærendum ekki leiðbeint um framangreind atriði. Í ljósi þess, sem og að kæra í málinu barst innan hins almenna þriggja mánaða frests stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra, verður talið afsakanlegt að kæra hafi borist utan hins lögbundna kærufrests.

Lóðin Tryggvagata 32 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 er heimilt að veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er umrædd lóð á íbúðarsvæði. Fjallað er um stefnu um landnotkun í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir að stefna um landnotkun skuli sýnd með einum landnotkunar­flokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn landnotkunar­flokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Íbúðarbyggð er skilgreind í a-lið nefndrar greinar sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minni háttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Í Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er ekki að finna heimild til að vera með minni háttar atvinnustarfsemi á svæðinu. Samræmist hið umsótta leyfi um breytta notkun því ekki landnotkun svæðisins og hefði því með réttu ekki átt að grenndarkynna leyfisumsóknina, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er samþykkt byggingaráforma háð því skilyrði að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Líkt og rakið er að framan er ekki heimilt að vera með atvinnustarfsemi í þeirri íbúðar­byggð sem hér um ræðir samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030. Þá er í 10. gr. laga um mannvirki kveðið á um að samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skuli fylgja umsókn um byggingarleyfi. Fjallað er um breytingar á hagnýtingu séreignar í 27. gr. síðastnefndu laga en þar er að finna mismunandi reglur um breytingu á hagnýtingu séreignar eftir því hvort um verulega breytingu er að ræða eða ekki. Í 1. mgr. nefndrar greinar er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem áður hafi verið eða ráð hafi verið gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Í 3. mgr. greinarinnar segir að sé um að ræða breytingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir. Fasteignin Tryggvagata 32 skiptist í tvo eignarhluta, 0101 og 0201. Hvorki liggur fyrir í máli þessu samþykki allra eigenda né meirihluta eigenda miðað við eignarhluta og var byggingarfulltrúa Árborgar því rétt að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins að Tryggvagötu 32. Þá verður ekki talið að byggingarfulltrúa hafi borið að gefa kærendum kost á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðun var tekin, enda lá ekki fyrir fyrrgreint skilyrði um samþykki meðeigenda. Var því augljóslega óþarft að leyfa kærendum að tjá sig frekar um efni málsins, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga.

Að framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 um að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins að Tryggvagötu 32, Selfossi.

50/2022 Hamarstígur

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 29. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 50/2022, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. maí 2022, kæra eigendur Hamarstígs 24 Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrar frá 26. apríl 2022 að samþykkja leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Hamarstíg 26. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 21. júní 2022.

Málsatvik og rök: Hinn 13. janúar 2021 var á þar til gerðu eyðublaði lögð fram fyrirspurn til skipulagssviðs/ráðs Akureyrarbæjar um leyfi til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 26 við Hamarstíg og breyta þaki á húsi lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 27. s.m. var samþykkt að grenndarkynna tillöguna skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þegar fyrir lægi samþykki eigenda nágrannalóða vegna nálægðar bilgeymslunnar við lóðarmörk. Byggingaráformin voru þó ekki grenndarkynnt fyrr en ári síðar eða með bréfi sviðsstjóra þjónustu- og skipulagssviðs, dags. 28. febrúar 2022. Var frestur til að koma að athugasemdum veittur til 1. apríl s.á. en hann var síðar framlengdur til 7. s.m. vegna uppfærslu á uppdrætti. Kærendur gerðu athugasemdir við grenndarkynninguna og á fundi skipulagsráðs 20. apríl 2022 var málið tekið fyrir að nýju þar sem þær athugasemdir voru lagðar fram ásamt tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við þeim. Samþykkti skipulagsráð „fyrirliggjandi umsókn um byggingaráform“ og tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við framkomnar athugasemdir. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi sent Akureyrarbæ ítarlegar athugasemdir við grenndarkynningu málsins og m.a. bent á að byggingaráformin fælu í sér verulegt skuggavarp og almennt ónæði í rúmlega 70 ára gömlu og rótgrónu hverfi. Eina svar bæjaryfirvalda hafi verið að líkur á skuggavarpi væru taldar hverfandi. Ekki hafi verið farið yfir aðrar athugasemdir og þær aldrei teknar fyrir. Hæðarmunur lóða Hamarstígs 26 og 24 sé 130 cm og með byggingaráformunum sé ráðgert að þriðja hæðin bætist við húsið á lóð Hamarstígs 26. Kærendur muni því horfa yfir þriggja hæða hús til vestur sem að viðbættum hæðarmismun lóðanna yrði um 10 m. Ákvörðunin hafi veruleg áhrif á hagsmuni kærenda vegna færri sólarstunda að vetri og vori þegar sól sé lágt á lofti. Einnig hljótist af þessu verulegt ónæði þar sem hin viðbætta hæð muni vera að stórum hluta úr geri og með hurð út á svalir. Um yrði að ræða þriggja hæða hús í mjög lágreistu og fallegu hverfi.

Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að líkur á neikvæðum áhrifum vegna aukins skuggavarps séu hverfandi. Húsið á lóð Hamarstígs 26 sé í um 30 m fjarlægð frá húsinu á lóð Hamarstíg 24 og um 14 m frá lóðarmörkum sem teljist vera nokkuð mikið í þéttbýli. Vegna þeirrar fjarlægðar og þeirrar staðreyndar að á báðum lóðunum sé þéttur gróður og tré, sem séu töluvert hærri en fyrirhugaðar byggingar, hafi ekki verið talin þörf á að gera sérstakar skuggavarpsrannsóknir. Þá sé vegna fjarlægðar milli húsanna ekki talið að breytingin feli í sér ónæði fyrir kærendur umfram það sem geti talist eðlilegt í þéttbýli. Til að minnka áhrif af hinum fyrirhugaða bílskúr verði hann hafður í 3 m fjarlægð frá lóðarmökum og innst á lóðinni. Fyrirhuguð byggingaráform séu í góðu samræmi við útlit og gerð húsa í næsta nágrenni og falli vel að þeirri byggð sem fyrir sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 2. mgr. 9. gr., 11. gr. og 13. gr. laganna. Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en upphaf máls þessa má rekja til fyrirspurnar lóðarhafa Hamarstígs 26 til bæjaryfirvalda Akureyrarbæjar vegna tiltekinna byggingaráforma á lóðinni. Samkvæmt framkomnum upplýsingum frá bæjaryfirvöldum hafa umdeild byggingaráform á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu ekki verið samþykkt af byggingarfulltrúa. Hið kærða samþykki skipulagsráðs á umdeildum byggingaráformum að lokinni grenndarkynningu felur samkvæmt framansögðu ekki í sér lokaákvörðun varðandi umrædd byggingaráform í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga heldur er hún liður í málsmeðferð erindis lóðarhafa Hamarstígs 26. Er því ekki fyrir hendi ákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Bent er á að ljúki málinu með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

181/2021 Sænska húsið

Með

 

Árið 2022, föstudaginn 24. júní, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 181/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 1. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform „Sænska hússins“ á lóðinni Smáratúni 1, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Smáratúns 6, Selfossi, ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 1. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform „Sænska hússins“ á lóðinni Smáratúni 1, Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 12. janúar 2022.

Málavextir: Lóðin Smáratún 1 á Selfossi er á ódeiliskipulögðu svæði. Tillaga að áformuðum breytingum á lóðinni var kynnt nágrönnum 2. – 31. desember 2020, en lóðin mun hafa staðið auð um langt skeið. Í tillögunni var m.a. fjallað um afmörkun byggingarreits, nýtingarhlutfall, hámarksfjölda hæða auk þess sem aðkoma að lóðinni var skilgreind. Að lokinni kynningunni, sem vísað var til sem grenndarkynningar, fjallaði skipulagsnefnd um tillöguna 13. janúar 2021 og tók bæjarstjórn málið fyrir á fundi 20. s.m. þar sem afgreiðslu málsins var frestað. Skipulagsnefnd tók málið aftur fyrir á fundi 10. mars s.á. þar sem staðfest var að umbeðin gögn hafi borist nefndinni og að breytingar hafi verið gerðar á tillögunni í kjölfar athugasemda sem borist hefðu. Bæjarstjórn tók málið aftur fyrir 19. s.m. og samþykkti tillöguna. Framangreind afgreiðsla var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 21. september s.á. í máli nr. 132/2021 var kærumálinu vísað frá þar sem engin kæranleg ákvörðun hefði verið tekin í málinu. Hvorki hafi staðið til að breyta deiliskipulagi né veita byggingar- eða framkvæmdaleyfi og því hafi kynning sveitar­félagsins ekki verið eiginleg grenndarkynning í skilningi skipulagslaga nr. 123/2010.

Með ódagsettri umsókn var sótt um byggingarleyfi fyrir endurbyggingu svonefnds Sænska húss í „sem upprunalegustu mynd“ á lóðinni Smáratúni 1. Í framkvæmdalýsingu kom fram að Sænska húsið stæði á lóðinni Austurvegi 33 en um væri að ræða fjölbýlishús á tveimur hæðum með hálfniðurgröfnum kjallara. Húsið á lóðinni Smáratúni 1 yrði staðsteypt, einangrað að utan, klætt með standandi báruklæðningu og með hefðbundnu kraftsperruþaki. Vísaði byggingar-fulltrúi erindinu til skipulags- og byggingarnefndar á afgreiðslufundi sínum 15. september 2021. Nefndin tók málið fyrir á fundi 22. s.m. og samþykkti í samræmi við 44. gr. laga nr. 123/2010 að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir eigendum tólf fasteigna við Eyrarveg og Smáratún. Tólf athugasemdir bárust og lutu þær m.a. að stærð og útliti byggingar, mænisstefnu, nýtingarhlutfalli, bílastæðafjölda og málsmeðferð sveitarfélagsins. Farið var yfir athugasemdirnar á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. nóvember 2021 og samþykkt að ekki væri tilefni til að gera breytingar á tillögunni. Jafnframt var bókað að lagt yrði til við bæjarstjórn að samþykkja svör við athugasemdum og byggingaráform. Á sama fundi var byggingarlóðinni Smáratúni 1 úthlutað til byggingaraðila og var honum tilkynnt um það með úthlutunarbréfi, dags. 4. s.m. Svör við athugasemdum vegna grenndarkynningar voru send þeim sem gerðu athugasemdirnar með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 9. nóvember 2021. Á fundi bæjarstjórnar 1. desember s.á. var áðurgreind tillaga skipulags- og byggingarnefndar frá 3. nóvember s.á. samþykkt. Á afgreiðslu­fundi byggingarfulltrúa 8. desember s.á. voru byggingaráform um að reisa fimm íbúða fjölbýlishús samþykkt með fyrirvara um að skilað yrði greinargerðum hönnuða varðandi eldvarnir og frávik frá algildri hönnun.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að gengið sé þvert gegn vilja þeirra íbúa sem hafi fengið að taka þátt í seinni grenndarkynningu og að ámælisvert sé að ekki hafi öllum íbúum við Smáratún verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum við grenndarkynninguna. Húsið passi ekki á nokkurn hátt inn í götumyndina og standi skáhallt og þvert á önnur hús í götunni. Einnig sé ámælisvert að ekki hafi verið gætt jafnræðis við úthlutun lóðarinnar Smáratúns 1, líkt og fram komi í bókun á fundi skipulags- og byggingarnefndar 3. nóvember 2021. Oft hafi verið spurst fyrir um eða sótt um lóðina en þau svör hafi borist að hún hafi ekki verið föl. Þá hafi vilyrðishafi sent bæjarráði 18. nóvember 2021 beiðni um að breyta nafni lóðarhafa og fengið þá beiðni samþykkta.

Málsrök Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að kærumál þetta megi rekja til áform byggingaraðila um að flytja hið svonefnda Sænska hús, sem standi við Austurveg 33 á Selfossi, á auða lóð að Smáratúni 1 eða endurbyggja húsið á lóðinni í upprunalegri mynd og starfrækja í því hótel. Bent sé á að skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 geti sveitarstjórn veitt byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skuli skipulagsnefnd sveitarfélags láta fara fram grenndarkynningu, líkt og gert hafi verið í þessu tilviki. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna felist grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem talið er að geti átt hagsmuna að gæta af leyfisumsókn og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hafi afgreitt málið skuli þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.

Bæði skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Árborgar hafi farið vandlega yfir athuga­semdir sem borist hafi frá íbúum. Að mati Árborgar séu athugasemdirnar þess eðlis að þær standi ekki í vegi fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum sem felist í flutningi eða endurbyggingu Sænska hússins á lóðinni Smáratúni 1, en framkvæmdirnar samræmist aðalskipulagi, skil­greindri landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Umrædd lóð sé á skilgreindu mið­svæði í aðalskipulagi og jafnvel þó lóðin tilheyri Smáratúni þá standi hún einnig við Kirkjuveg, þar sem bæði sé atvinnu- og þjónustustarfsemi. Að mati sveitarstjórnar séu því skilyrði til þess að heimila framkvæmdina án deiliskipulagstillögu geti hagsmunir nágranna ekki staðið í vegi fyrir henni.

Málsrök kæranda virðist aðallega byggjast á huglægri afstöðu hans um að húsið verði of stórt auk þess sem það samræmist ekki götumynd Smáratúns. Bent sé á að húsið verði ekki hærra en önnur hús í götunni eins og sjá megi t.d. á afstöðumyndum sem sendar hafi verið til nágranna við grenndarkynningu. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að útsýni hans skerðist umfram það sem eðlilegt þyki í þéttbýli og ekkert bendi til þess að sólarbirta minnki á hans eign. Samkvæmt byggingaráformum verði húsið um 300 m2 en lóðin sé um 600 m2 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Nýtingarhlutfallið verði því 0,5.

Líta verði til þess að kærandi búi við Smáratún 6, sem sé í u.þ.b. 50 m fjarlægð frá fyrirhuguðu húsi. Lóðin Smáratún 1 standi á horni Smáratúns og Kirkjuvegar. Næsta hús við hliðina á Smáratúni 1 til suðurs sem sé á lóðinni Eyrarvegi 8 snúi einnig út á Kirkjuveg. Þá sé hitt endahúsið við Smáratún, þ.e. á lóðinni Smáratúni 2, með inngang sem snúi að Kirkjuvegi. Fyrirhuguð afstaða hússins sé því ekki í verulegu ósamræmi við heildargötumynd. Lóðin standi nú auð og í órækt og muni hún og umhverfi hennar verða færð til mun betri vegar með framkvæmdunum.

Byggingaráform hafi verið rækilega kynnt fyrir öllum þeim sem geti átt hagsmuna að gæta, bæði með kynningu í desember 2020 og aftur með formlegri grenndarkynningu í september til október 2021. Farið hafi verið yfir allar athugasemdir og ábendingar en að mati sveitarfélagsins séu þær ekki til þess fallnar til að koma í veg fyrir samþykkt áformanna.

Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út. Það sé í höndum lóðarhafa að uppfylla skilyrði sem sett hafi verið áður en til þess komi. Um afgreiðslu byggingarleyfis fari eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Því sé hafnað að hugsanlegt framsal lóðarréttinda geti valdið ógildingu á samþykki bæjarstjórnar á byggingaráformunum. Ekki hafi verið gengið frá slíku framsali en ef til þess komi þá yrði nýr lóðarhafi ætíð bundinn af fyrirliggjandi skilyrðum um lóðina. Þá sé rétt að geta þess sem fram komi í úthlutunarbréfinu frá 4. nóvember 2021 að lóðarhafa sé óheimilt að framselja lóðar­réttindi fyrr en lóðarleigusamningur hafi verið gerður. Þá sé órökstuddum fullyrðingum um meint ójafnræði við úthlutun lóðarinnar mótmælt en ágreiningur um lóðaúthlutun eigi ekki undir úrskurðarnefndina.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að ranglega sé farið með staðreyndir í umsögn Árborgar þar sem fram komi að kærumálið megi rekja til áforma um að flytja hið svonefnda Sænska hús á auða lóð Smáratúns 1 eða endurbyggja húsið á lóðinni í upprunalegri mynd og starfrækja í því hótel. Upphaflega hafi einungis verið talað um flutning á húsinu en þegar ljóst hafi orðið að það væri ógerlegt hafi verið bætt við að um væri að ræða endur­uppbyggingu í upprunalegri mynd. Hvergi hafi áður verið nefnt að starfrækja ætti hótel í húsinu, hvorki í fyrri kynningu sveitarfélagsins né þeim gögnum sem sveitarfélagið hafi lagt fram við grenndarkynningu. Á teikningum sé gert ráð fyrir fimm íbúðum ásamt geymslum í kjallara.

Í athugasemdum Árborgar sé tekið fram að Smáratún sé íbúðargata en svo komi í ljós að við Kirkjuveg séu bæði íbúðarhús auk atvinnu- og þjónustustarfsemi. Það sé rangt að á þessum stutta hluta Kirkjuvegar standi ekkert hús og einungis eitt hús við Kirkjuveg sem flokkast geti undir atvinnu- og þjónustustarfsemi, þ.e. Kirkjuvegur 8, þar sem rekin sé fasteignasala. Því sé harðlega mótmælt að við Kirkjuveg sé bæði atvinnu- og þjónustustarfsemi sem réttlætt geti byggingu 300 m2 húss á 600 m2 lóð með nýtingarhlutfallinu 0,5. Endurbygging hússins samræmist því ekki aðalskipulagi, skilgreindri landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Einnig komi fram að samkvæmt aðalskipulagi sé Smáratún 1 á svæði fyrir blandaða landnotkun en jafnframt að Smáratún sé íbúðargata. Vandséð sé að skilgreina eina lóð við íbúðargötu sem blandaða landnotkun. Sveitarfélagið reyni að tengja Smáratún 1 við aðliggjandi götu og þá starfsemi sem þar fari fram, t.d. Hótel Selfoss sem standi við Eyrarveg 2 við Ölfusá og veitingastað við Eyrarveg 8.

Í athugasemdum íbúa við grenndarkynningu hafi m.a. komið fram að fyrirhugað hús snúi öfugt við götumynd annarra húsa við Smáratún. Þessu sé svarað með því að tengja fyrirhugað hús við aðra götu og segja að lóðin liggi einnig að Kirkjuvegi og að næsta hús við Smáratún 1 til suðurs, sem sé húsið að Eyrarvegi 8 sem sveitarfélagið ranglega segi að snúi út að Kirkjuvegi. Eyrarvegur 8 snúi að Eyrarvegi þótt inngangur sé frá Kirkjuvegi. Þá snúi Smáratún 2 ekki að Kirkjuvegi heldur Smáratúni eins og önnur hús við götuna og inngangur þess húss sé einnig frá Smáratúni. Fyrirhuguð afstaða sé því í verulegu ósamræmi við heildargötumynd Smáratúns.

Íbúar hafi tekið fram í athugasemdum að bílastæðavandræði væru í Smáratúni vegna fjölda einka- og langferðabíla á svæðinu í tengslum við Hótel Selfoss og kirkjuna. Í svari Árborgar sé ekkert minnst á aukna umferð um miðbæ Selfoss og látið eins og það komi íbúum ekki við þar sem um sérstakt verkefni sé að ræða sem sé til úrlausnar í stærra samhengi og myndi bygging við Smáratún 1 ekki hafa þar úrslitaáhrif. Nú hafi hins vegar komið fram að í húsinu eigi að reka hótel.

Því sé mótmælt að byggingaráformin hafi verið kynnt vel. Fyrri grenndarkynning hafi verið klúður og hafi orðið að endurtaka hana eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála. Síðari grenndarkynning hafi einungis náð til tólf aðila og hvergi hafi þess verið getið að öðrum væri frjálst að tjá sig. Í ljósi þess að nú komi í fyrsta skipti fram að byggja eigi hótel séu framangreindar grenndarkynningar ómarktækar og þurfi að leggja fram nýjar teikningar og umsóknir vegna hótelreksturs við íbúagötuna Smáratún. Efna þurfi til víðtækrar grenndar­kynningar þar sem öllum íbúum Smáratúns verði boðið að tjá skoðun sína.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Árborgar frá 1. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir svonefndu Sænska húsi á lóðinni Smáratúni 1 á Selfossi. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki veitir byggingarfulltrúi byggingar­leyfi og skv. 11. gr. sömu laga samþykkir hann byggingaráform. Verður því litið svo á að kærð sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa frá 8. desember 2021 að samþykkja byggingaráform fyrir fimm íbúða fjölbýlishúsi á umræddri lóð.

Lóðin Smáratún 1 er á ódeiliskipulögðu svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deili­skipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Hins vegar er sveitarstjórn eða þeim aðila sem hefur heimild til fullnaðarafgreiðslu mála heimilt skv. 44. gr. laganna að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er lóðin Smáratún 1 á svæði með blandaðri landnotkun. Er svæðið þannig bæði íbúðarsvæði og verslunar- og þjónustusvæði. Hin sam­þykktu byggingaráform heimila að reist verði fimm íbúða fjölbýlishús á lóðinni og verður framkvæmdin því í samræmi við landnotkun svæðisins. Í aðalskipulaginu kemur fram varðandi þéttleika íbúðarsvæða að á Selfossi sé gert ráð fyrir að nýtingarhlutfall íbúðalóða verði á bilinu 0,3-0,45. Þá segir að nýtingarhlutfallið sé til leiðbeiningar og skilgreinist nánar í deiliskipulagi. Lóð Smáratúns 1 er 603,8 m2 og verður brúttóflatarmál fyrirhugaðrar byggingar samkvæmt samþykktum byggingaráformum 413,8 m2 en að frátöldu þakrými verður flatarmálið 275,2 m2. Mun nýtingarhlutfall á lóðinni því verða 0,46 sem telja verður óverulegt frávik frá framan-greindri leiðbeiningu aðalskipulags, en þar að auki er ekki að sjá að nýtingarhlutfallið skeri sig úr í samanburði við nýtingarhlutfall íbúðalóða í næsta nágrenni. Þá bera gögn málsins ekki með sér að fyrirhuguð bygging verði í ósamræmi við byggðamynstur svæðisins. Var því heimilt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina.

Líkt og fram kemur í málavöxtum var byggingarleyfisumsóknin grenndarkynnt með fjögurra vikna athugasemdafresti, sbr. 1. og 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Kom kærandi að athuga­semdum sínum við grenndarkynninguna og tók bæjarstjórn, að undangenginni umfjöllun skipulags- og byggingarnefndar, afstöðu til framkominna athugasemda. Svör við athuga­semdum voru send þeim sem gerðu athugasemdir við grenndarkynninguna þrátt fyrir að þau svör hafi þá ekki verið afgreitt af bæjarstjórn. Sá ágalli hróflar þó ekki við gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Að öðru leyti var meðferð málsins í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Að framangreindu virtu liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar sem leitt geta til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir að benda á að samkvæmt hinum samþykktu byggingaráformum stendur til að byggja fimm íbúða fjölbýlishús á umræddri lóð. Hefur ekki verið veitt leyfi til að byggja eða breyta notkun fyrirhugaðs fjölbýlishúss í hótel, eins og fram kemur í umsögn sveitarfélagsins, en verði slíkt leyfi veitt er það eftir atvikum kæranlegt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Árborgar frá 8. desember 2021 um að samþykkja byggingaráform fyrir fimm íbúða fjölbýlishúsi á lóðinni Smáratúni 1, Selfossi.

44/2022 Frakkastígur

Með

 

Árið 2022, föstudaginn 24. júní, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík Mættir voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Unnþór Jónsson, settur varaformaður, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021, um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem barst nefndinni 3. maí 2022, kærir Húsfélagið Laugavegi 49A þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og þannig auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. maí 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Laugavegar 47 sömu ákvörðun byggingarfulltrúa og gerir kröfu um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er nr. 54/2022, sameinað máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 9. maí 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 12. október 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu á austurhlið hússins að Frakkastíg 9, stækka veitingastað sem fyrir er í húsinu í flokk II, tegund C, og þar með auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55. Á samþykktum uppdráttum er gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni sunnan megin við húsið.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að verið sé að loka á aðgengi að lóð Laugavegar 49A frá Frakkastíg með heimilaðri viðbyggingu og staðsetningu bílastæða. Laugavegur 49A hafi notast við aðgengi frá Frakkastíg í áratugi og því hafi myndast hefðarréttur. Frakkastígur 9 hafi áður verið íbúðarhúsnæði en hafi verið breytt í veitingastað fyrir 15 gesti árið 2018. Nú eigi að breyta honum í veitingastað fyrir 55 gesti þar sem boðið verði upp á áfengi til kl. 23:00 á virkum dögum og til kl. 03:00 um helgar. Opnunartíminn feli í sér brot á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sem tilgreini Frakkastíg 9 á svæði með takmarkaðar miðborgarheimildir. Staðurinn eigi einungis að hafa heimild til að vera opinn til kl. 23:00 um helgar, nema þá með sérstakri undanþágu.

Á teikningu séu sýndar svalir á jarðhæð hússins að Frakkastíg 9 sem snúi að hluta að lóð Laugavegar 49A og þar muni fara fram veitingasala utanhúss og vínveitingar verði leyfðar að nóttu til. Þetta muni hafa rask og truflun í för með sér fyrir íbúa Laugavegar 49A. Viðbyggingin muni skyggja verulega á garð þeirra og rýra notagildi hans. Líklega sé ekki farið eftir gr. 9.7.5 í byggingar­reglugerð nr. 112/2012 um löglegt bil milli húsa m.t.t. brunavarna. Teiknaður sé brunastigi til „bráðabirgða“ á austurgafl húss Frakkastígs 9 sem hafi áhrif á notkunarmöguleika húss Laugavegar 49A og auki á brunahættu. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hafi verið frá fasteignasala muni framkvæmdirnar hafa talsverð neikvæð áhrif á verðgildi nefnds húss.

Þá hafi árið 2014 komið upp ágreiningur milli eiganda Frakkastígs 9 og annars kærenda þessa máls, eiganda Laugavegar 47, um umferðarrétt hins síðarnefnda um lóð Frakkastígs 9. Með dómi Hæstaréttar frá 5. febrúar 2015 í máli nr. 76/2015 hafi umferðarréttur kærandans um lóð Frakkastígs 9 verið staðfestur, en um sé að ræða einu aðkomuna að bílastæðum hússins, vöru- og sorpgeymslu. Hið kærða byggingarleyfi feli í sér tvö bílastæði sem gangi út í umferðar­rétt Laugavegar 47. Augljóst megi vera að ólögmætt sé að samþykkja byggingarleyfi sem gangi á þann rétt og samþykkta uppdrætti hússins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að samkvæmt Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 sé lóðin Frakkastígur 9 á landnotkunarsvæði M1A og þannig innan svæðis í miðborginni þar sem gildi almennar vínveitingarheimildir. Í gildandi deili­skipulagi fyrir reit 1.173.0 komi fram að heimilt sé að byggja útbyggingu innan byggingarreits á lóð Frakkastígs 9 og að heimilað nýtingarhlutfall fyrir lóðina sé 0,7. Nýtingarhlutfall verði 0,67 með hinni umþrættu viðbyggingu og þannig innan heimilda deiliskipulags. Því hafi ekki borið að grenndarkynna framkvæmdina. Byggingin sé öll í einu brunahólfi og uppfylli bruna­varnar­kröfur. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort eigandi Laugavegar 49A hafi umferðarrétt um lóð Frakkastígs 9. Það falli undir verksvið dómstóla en ekki úrskurðar­nefndarinnar að skera úr um bein eða óbein eignarréttindi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi byggingarleyfis sem heimilar viðbyggingu húss sem stendur á lóðinni Frakkastíg 9 í Reykjavík, en á samþykktum uppdráttum má sjá að gert er ráð fyrir tveimur bílastæðum sunnan megin við húsið.

Með dómi Hæstaréttar 5. febrúar 2015 í máli nr. 76/2015 var fallist á þá kröfu annars kærenda þessa máls, eiganda Laugavegar 47, að hann yrði settur með beinni aðfarargerð inn í umferðarrétt að bílastæðum, vörugeymslu og sorpgeymslu að lóð Laugavegar 47 um lóð Frakkastígs 9. Þá var einnig staðfestur réttur kærandans til að nota bílastæði sem tilheyra húsinu en liggja að hluta til á lóð Frakkastígs 9. Samkvæmt greindum dómi Hæstaréttar liggur fyrir að kærandinn hefur umferðarrétt um lóð Frakkastígs 9 og rétt til að nota bílastæði sem að hluta liggja á þeirri lóð. Ljóst er að þau tvö bílastæði sem fyrirhugað er að verði sunnan megin við húsið að Frakkastíg 9 muni skerða óbeinan eignarrétt umrædds kæranda. Telja verður að samþykki hans hefði því þurft að liggja fyrir hinum umdeildu byggingaráformum áður en byggingarleyfis­umsóknin var samþykkt, en af gögnum málsins verður hvorki séð að leitað hafi verið eftir því samþykki né að samráð hafi verið við hann haft. Að framangreindu virtu verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. október 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir viðbyggingu á austurhlið húss á lóð nr. 9 við Frakkastíg, stækka veitingastað í flokk II, tegund C, og auka mögulegan gestafjölda úr 15 í 55.

168/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 168/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 um að synja umsókn um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 7. janúar 2022.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 29. janúar 2021 var lögð fram fyrirspurn kæranda, dags. 21. s.m., þar sem falast var eftir áliti skipulagsfulltrúa á hug­mynd um að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Fyrirspurninni var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og lögð fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. febrúar s.á. Í umsögninni kom fram að ekki væri fallist á erindið þar sem það samræmdist ekki markmiðum Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Erindið var tekið fyrir af skipulagsfulltrúa 5. febrúar s.á. þar sem tekið var neikvætt í það, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Kærandi skaut málinu til skipulags- og samgönguráðs 12. febrúar 2021, sem tók erindið fyrir á fundi 31. mars s.á. Ekki var fallist á erindið. Í kjölfarið lagði kærandi fram breytta fyrirspurn, dags. 2. júní s.á. Erindið var tekið fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 11. s.m. og var því vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á fundi skipulagsfulltrúa 9. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dagsettri sama dag. Neikvætt var tekið í erindið, með vísan til umsagnarinnar. Sú afgreiðsla var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála en með úrskurði í máli nr. 121/2021, uppkveðnum 15. september 2021, var málinu vísað frá þar sem umsögn skipulagsfulltrúa væri liður í undirbúningi mögulegrar stjórnvaldsákvörðunar en ekki sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun sem bindur enda á meðferð máls.

Í kjölfar framangreinds úrskurðar sótti kærandi um byggingarleyfi. Á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 26. október 2021 var umsókn kæranda lögð fram. Málinu var frestað og sent til skipulags­fulltrúa til umsagnar og/eða grenndarkynningar. Skipulagsfulltrúi afgreiddi erindið á afgreiðslu­fundi sínum 15. nóvember 2021 og tók neikvætt í erindið, með vísan til umsagnar sinnar frá sama degi. Umsókn kæranda var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. s.m., með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að ýmsar tilvitnanir skipulagsfulltrúa í umsögn hans til aðalskipulags skjóti skökku við. Vísað sé til þess að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum, sérstaklega í miðborginni, og að eðlilegt megi telja að færri bílar tilheyri hverri íbúð í þéttri miðborgarbyggð en í öðrum hverfum borgarinnar. Bent sé á að á bls. 155 í aðalskipulaginu segi m.a. um bíla- og hjólastæðastefnu að á svæði 1 sé að hámarki eitt bílastæði á íbúð við endurnýjun byggðar/ný­byggingu. Umrædd lóð sé á svæði 1 og í húsinu séu og hafi alltaf verið tvær íbúðir. Samkvæmt framansögðu ættu því tvö bílastæði að fylgja lóðinni. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í markmið um að fækka stæðum en þar segi einnig að „[n]ýr bílskúr á lóðinni krefðist þess að ný innkeyrsla yrði gerð frá götu. Almennum bílastæðum á borgarlandi (götu) myndi þar með fækka um a.m.k. eitt þar sem innkeyrslan yrði staðsett. Ekki sé æskilegt að fjölga sér­afnota­stæðum/innkeyrslum í miðborginni á kostnað sameiginlegra bílastæða og er almennt ekki tekið jákvætt í slíkt.“ Rökin séu mótsagnarkennd þar sem vísað sé til markmiða aðalskipulags um fækkun bílastæða í miðborginni en þar næst sé fækkun bílastæða orðin neikvæð. Þá hljómi orðin „[e]kki er æskilegt að“ og „ekki er almennt tekið jákvætt í“ eins og persónuleg skoðun en ekki skipulagslegar forsendur.

Varðandi bílgeymslur á öðrum lóðum sem kærandi hafi vísað til segi í umsögn skipulagsfulltrúa að það sé rétt að þær hafi verið samþykktar á síðustu áratugum en ekki sé um að ræða erindi sem hafi verið samþykkt eftir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 þegar aðrar áherslur og önnur markmið hafi verið í gildi. Þá segi að ekki hafi verið tekið jákvætt í að brjóta upp garðveggi á þessu svæði til að koma fyrir bílastæðum eða bílskúrum. Kærandi bendi á að í kaflanum Borgar­vernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé sérstaklega fjallað um hverfisvernd innan Hring­brautar, en þar segi m.a. um markmið: „Svipmót húsa, á tilgreindum verndarsvæðum, sem verða nánar afmörkuð í hverfisskipulagi, varðandi ytra byrði, veggáferð, gluggagerðir og þak verði sem minnst raskað og endurbygging miðist sem mest við upphaflega gerð hússins – sama gildi t.a.m. um afmörkun lóða, svo sem garðveggi og girðingar.“ Líkt og fram komi í markmiðakafla aðal­skipulagsins 2010-2030 um hverfisvernd þá hafi heftið Húsvernd í Reykjavík upphaflega fylgt með aðalskipulaginu 1996-2016 og svo aftur með aðalskipulagi 2001-2024. Í heftinu segi í kafla 2 um húsvernd: „Áhersla er lögð á varðveislu staðbundinna sérkenna í húsagerð og skipulagi, einkum þar sem um er að ræða hverfi, hverfishluta og götumyndir með sterkan heildarsvip. Á þeim svæðum þar sem lögð er til verndun byggðar vegna sérstöðu svæðis eða byggðamynsturs, er lögð áhersla á varðveislu heildarinnar. Grindverk og girðingar eru stór hluti af sérkennum eldri hverfa Reykjavíkur. Leitast skal við að viðhalda þeim eins og framast er unnt í upprunalegri mynd, og endurnýja í sömu eða svipaðri mynd ef nauðsyn krefur.“

Af framangreindu sé ljóst að nákvæmlega sömu ákvæði um hverfis- og húsvernd giltu nú og þegar þær bílgeymslur sem byggðir hafi verið í götunni á þessari öld og kærandi hafi vísað til í fyrirspurn sinni. Auðvelt sé að tryggja góðan frágang stoðveggjar og setja t.d. upp innkeyrsluhlið að götu í takt við vegginn til að tryggja samhengi. Bílgeymslur á lóðum nr. 77 og nr. 83 að Bergstaðastræti hafi verið samþykktir árið 2006 þegar sömu húsverndarákvæði hafi verið í gildi og í dag. Þá hafi bygging bílgeymsla ekki þótt vera í ósamræmi við markmið aðalskipulags, sem hafi verið þau sömu og nú. Út frá jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sé óskað eftir því að niðurstaða Reykjavíkurborgar verði endurskoðuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að umsókn kæranda hafi verið synjað vegna neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 15. nóvember 2021. Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki segi að þegar mannvirki sé háð byggingarleyfi skv. 9. gr. þá skuli byggingar­fulltrúi ganga úr skugga um að fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði. Sambærileg skylda hvíli á byggingarfulltrúa skv. 5. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar komi fram að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa ef vafi leiki á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Ekkert deiliskipulag sé á svæðinu sem um ræði og því hafi skipulagsfulltrúi skoðað erindið með tilliti til þess hvort mögulegt yrði að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar, þ.e. hvort fyrirhuguð mannvirkjagerð væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika og hvort hún væri í samræmi við stefnu aðalskipulags Reykjavíkur.

Í kaflanum Borgarvernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 komi fram að Bergstaðastræti 81 tilheyri hverfisverndarsvæði. Þar komi fram þau markmið að vernda eigi og varðveita heildar­yfirbragð gamla bæjarins, þ.m.t. svipmót húsa varðandi ytra byrði og þá einnig garðveggi sem svip sinn setji á svæðið. Neikvæð umsögn skipulagsfulltrúi hafi m.a. byggst á því að ný bílgeymsla, niðurgrafinn að hluta, með tilheyrandi uppbroti á garðvegg lóðarinnar við Bergstaðastræti, gæti ekki samrýmst þessum markmiðum aðalskipulagsins.

Jafnræðis skuli gætt með því að tryggja að sambærileg mál fái sambærilega afgreiðslu. Reykjavíkur­borg hafni því að aðstæður sem byggingarleyfi frá árinu 2006 á lóðum Bergstaða­strætis nr. 83 og 77 séu sambærilegar þeim sem nú séu uppi. Heftið Húsvernd í Reykjavík hafi verið fylgiskjal með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og stefnan sem þar hafi komið fram hafi einungis verið leiðbeinandi. Með kaflanum Borgarvernd í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 hafi sú stefnumörkun sem fram hafi komið í Húsvernd í Reykjavík verið færð inn í A-hluta skipulagsins, þ.e. bindandi hluta þess, og þannig gert mun hærra undir höfði en áður. Skipulags­legar aðstæður hafi því breyst frá árinu 2006. Í tilfelli lóðar nr. 77 við Bergstaðastræti hafi verið um að ræða stækkun á þegar gerðri bílgeymslu með innkeyrslu frá Bergstaðastræti sem þegar hafi verið til staðar. Varðandi lóð nr. 83 við Bergstaðastræti sé um að ræða bílgeymslu með innkeyrslu frá Barónsstíg en þegar hafi verið til staðar gat í vegg á lóðarmörkum fyrir bílastæði innan lóðar. Í hvorugum þessara tilvika hafi þurft að fækka almenningsstæðum í götu líkt og yrði tilfellið við gerð nýrrar innkeyrslu á lóð nr. 81.

Samkvæmt uppdráttum frá 14. október 2021, sem umsögn skipulagsfulltrúa byggi á, sé gert ráð fyrir útirými á þaki bílgeymslu. Líkt og fram komi í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 51/2015 vegna Laufásvegs nr. 59 teljist notkun þakflatar óhefðbundin og geti eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar á næstu lóðir. Í úrskurðinum komi fram að leyfi fyrir notkun þakflatar þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi, en því sé ekki til að dreifa í máli þessu. Umþrætt erindi hafi af þessum sökum ekki verið tækt til grenndarkynningar. Það sé því álit Reykjavíkurborgar að fyrirhuguð byggingar­áform kæranda samræmist ekki skipulagsáætlunum. Í ljósi þess að skilyrði fyrir samþykkt og útgáfu byggingarleyfis séu m.a. að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010, hafi verið rétt að synja umsókn kæranda og að sú synjun hafi verið byggð á málefnalegum grunni.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Því sé andmælt að skipulagsforsendur hafi breyst frá árinu 2006. Heftið Húsvernd í Reykjavík hafi verið fylgirit með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 og síðar Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og megi ætla að skipulagsyfirvöld hafi fylgt því. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé í kaflanum Borgarvernd fjallað um hverfisvernd innan Hringbrautar. Þar komi fram að ákvæði hverfisverndar séu almenns eðlis og að nauðsynlegt sé að stefna um hverfisvernd verði nánar skýrð í hverfisskipulagi. Síðar segi svo að tillögur um verndun húsaraða og samstæða sé alfarið viðfangsefni hverfis- og deiliskipulags. Hvorki sé til hverfis- né deiliskipulag á viðkomandi svæði. Í markmiðum hverfisverndar innan Hringbrautar sé aftur minnst á að nánari skilgreiningu verði getið í hverfisskipulagi, t.d. hvað varði afmörkun lóða, garðveggi og girðingar. Í aðalskipulagi 2001-2024 hafi komið fram að heftið Húsvernd í Reykjavík skyldi vera leiðbeinandi við gerð deiliskipulags, sem ekki hafi legið fyrir þá frekar en nú. Í framhaldi hafi komið fram að áherslur heftisins, t.a.m. um verndun einstakra svæða, yrði lögð til grundvallar við mótun nánari stefnu um verndun í hverfisskipulagi svæðanna innan Hringbrautar. Það sé ljóst að sömu skilyrði og sama stefna hafi gilt árið 2006 og nú.

Eðlileg þróun borgarumhverfis rýri ekki gildi gagnvart umhverfi eða varðveislu. Bílgeymslur séu að finna um gjörvöll Þingholtin með tilheyrandi götum í steypta garðveggi. Ekki sé hægt að segja að það hafi neikvæð áhrif á fallegar götumyndir hverfisins. Að auki þurfi ávallt að búa til göt í slíka garðveggi til þess að húseigendur einfaldlega komist að húsakynnum sínum. Hvað varði hug­mynd um útirými á þaki bílgeymslu, sem Reykjavíkurborg tilgreini sem neikvæða, sé sú hugmynd algjört aukaatriði í tillögu kæranda og sé hann meira en tilbúinn til þess að falla frá hugmyndum um slíka nýtingu og leggi það hér með til sem útgangspunkt. Við það muni ásýnd bílgeymslunnar lækka sem nemi hæð steyptra handriða þakgarðs í tillögunni eða um 90 cm.

Bent sé á nýlega afgreitt og samþykkt erindi úr sama hverfi, Laufásveg 73. Sú afgreiðsla sé dagsett 18. október 2021, löngu eftir synjun erindis kæranda. Sótt hafi verið um leyfi til að byggja 66 m2 viðbyggingu, nánar tilgreint sem tómstundahús og gróðurhús á lóðamörkum í suðaustur, auk áhaldaskúrs og pergólu á baklóð. Í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur segi m.a. að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið og að skoða þurfi erindið út frá byggðamynstri o.fl. Þar segi einnig að garðveggir séu einkennandi fyrir götumyndina og gefi hverfinu sterkan svip. Í því samhengi sé rétt að benda á að á umræddri lóð sé bílgeymsla frá fornu fari og hafi innkeyrslugat veggjar ekki neikvæð áhrif á þessa sterku götumynd, en ekki verði annað skilið en að skipulagsfulltrúi sé sammála því. Í sömu umsögn segi að ekki verði heimilt að nýta þakflöt viðbyggingar sem þak­verönd, slíkt þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi. Tillaga kæranda um að falla frá hugmynd um þak­verönd sé í fullu samræmi við þessa umsögn skipulagsfulltrúa. Lega lóðar og afstaða til nágrennis sé svipuð en innkeyrsla að þegar gerðri bílgeymslu sé á vestari hluta lóðar og bílgeymsla kæranda verði mun minni en garðhúsbygging Laufásvegar 73. Á árinu 2008 hafi byggingarfulltrúi sam­þykkt byggingu tvöfaldrar bílgeymslu á austanverðum lóðamörkum þessarar sömu lóðar, Laufás­vegar 73, sem hafi hins vegar ekki verið byggð og sé það enn eitt fordæmið í hverfinu. Að lokum sé bent á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi fellt úr gildi synjun byggingarfulltrúa Reykjavíkur um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Sjafnargötu 3 með úrskurði upp­kveðnum 1. febrúar 2018 í máli nr. 80/2015. Í niðurstöðu nefndarinnar hafi m.a. verið litið til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingar­fulltrúa skal hann skv. 2. mgr. 10. gr. laganna leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins.

Svo sem greinir í málavöxtum sótti kærandi um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti í Reykjavík, en lóðin er á ódeiliskipulögðu svæði. Í umsókn sinni vísaði kærandi til þess að fordæmi væru fyrir því á nokkrum lóðum við götuna að bílgeymslur hefðu verið samþykktar. Í umsögn skipulagsfulltrúa við umsókn kæranda var um skipulagslega stöðu vísað til þess að Bergstaðastræti 81 væri samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 á skil­greindu íbúðarsvæði ÍB12, Skólavörðuholt. Svæðið innan Hringbrautar væri á sérstöku hverfis­verndarsvæði þar sem markmiðið væri m.a. að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðar. Steyptir garðveggir settu einnig svip sinn á margar götur og hefðu mikið umhverfisgildi. Þá vísaði skipulagsfulltrúi til þess að fyrirhuguð bílgeymsla krefðist þess að inn­keyrsla yrði gerð frá götu og þar með myndu almennum bílastæðum á borgarlandi, þ.e. götu, fækka um a.m.k. eitt, en ekki væri æskilegt að fjölga sérafnotastæðum í miðborginni á kostnað sam­eiginlegra bílastæða. Þau dæmi sem kærandi hefði talið upp sem fordæmisgefandi í hverfinu hefðu verið samþykkt fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og að skipulagslegar for­sendur hefðu breyst. Einnig væri ekki tekið jákvætt í að brjóta upp garðvegg á þessu svæði til að koma fyrir bílgeymslu, en dæmi væru um að heimild hefði verið veitt til að útbúa aðgengi að eldri bílgeymslum en ekki nýjum. Samræmdist byggingaráform kæranda þannig ekki markmiðum aðal­skipulags borgarinnar. Í kjölfarið synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda með vísan til framan­greindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

 Í máli þessu greinir kæranda og Reykjavíkurborg m.a. á um reglur um hverfisvernd sem fram koma í heftinu Húsvernd í Reykjavík og áhrif þeirra reglna á byggingarleyfisumsókn kæranda, en þó var ekki vísað til þeirra í umsögn skipulagsfulltrúa. Umrætt hefti var fylgirit með Aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 en í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 kom fram að heftið yrði áfram leiðbeinandi við gerð deiliskipulags. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er í kafla um mark­mið hverfisverndar innan Hringbrautar vísað til þess að umrætt hefti gildi áfram og verði grund­völlur að endurskoðun á afmörkun og skilgreiningum einstakra verndarsvæða í hverfisskipulagi og deiliskipulagi innan Hringbrautar. Hin kærða ákvörðun varðar ekki gerð skipulagsáætlunar heldur synjun á byggingarleyfisumsókn á ódeiliskipulögðu svæði. Verður því ekki séð að reglur umrædds heftis hafi þýðingu við úrlausn þessa kærumáls.

Í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 skilaði skipulagsfulltrúi umsögn um hvort fyrirhuguð framkvæmd samræmdist skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar. Var það mat hans að byggingaráformin væru ekki í samræmi við markmið aðalskipulags án þess þó að skýrlega væri greint væri frá hver þau markmið væru. Af þeirri umfjöllun sem finna má í umsögninni verður þó að telja að um hafi verið að ræða það markmið aðalskipulags varðandi hverfisvernd innan Hringbrautar að varðveita og styrkja söguleg og fagurfræðileg einkenni byggðar auk þess almenna leiðarstefs aðalskipulagsins að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum. Þó fallast megi á að skipulagsforsendur séu fyrir því að fækka ekki almennum bílastæðum á borgarlandi verður ekki séð hvernig framkvæmdin, sem fæli í sér fækkun á einu bílastæði, gangi gegn þeirri stefnu aðalskipulags að fækka bílastæðum. Var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar því áfátt hvað það varðar. Aftur á móti verða ekki talin efni til að hnekkja því mati skipulagsfulltrúa að framkvæmdin, sem fæli í sér uppbrot á steyptum garðvegg, nýrri aðkeyrslu og byggingu bílgeymslu, gangi gegn markmiðum aðalskipulags um hverfisvernd svæðisins.

Jafnræðisreglu íslensk stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en 1. mgr. ákvæðisins kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í laga­legu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sam­bærileg mál ber að afgreiða á sambærilegan hátt. Svo sem fyrr greinir vísaði skipulagsfulltrúi til þess í umsögn sinni að þau dæmi sem kærandi hefði tilgreint í umsókn sinni sem fordæmisgefandi fyrir umrædda bílgeymslu hefðu verið samþykkt fyrir gildistöku Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 þegar aðrar áherslur og markmið hefðu verið í gildi, auk þess sem dæmi væru um að heimilað hefði verið að útbúa aðgengi að eldri bílgeymslum en ekki nýjum. Ekki er að öllu ljóst hvaða breyttu áherslur og markmið nýs aðalskipulags ættu að leiða til annarrar meðferðar vegna fram­kvæmdaáforma á borð við þá sem hér um ræðir. Þó verður ekki talið að synjun byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn kæranda hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu þar sem að þau dæmi sem kærandi vísaði til í umsókn sinni fólu hvorki í sér brot á garðvegg til að koma fyrir nýrri aðkeyrslu og bílgeymslu né fækkun á bílastæðum fyrir almenning.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærður ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. nóvember 2021 um að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðar nr. 81 við Bergstaðastræti.

40/2022 Bíldshöfði

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson, starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2022 um að samþykkja byggingarleyfi til að breyta starfsemi í rými í matshluta 03, innrétta kjötverslun og bakarí auk þess að gera flóttaleið og setja útsogsrör á suðurhlið húss á lóð nr. 18 við Bíldshöfða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. apríl 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir Höfðasetrið ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2022 að samþykkja byggingarleyfi til breyttrar starfsemi í rými í matshluta 03 og innrétta kjötverslun og bakarí auk þess að gera flóttaleið og setja útsogsrör á suðurhlið húss á lóðinni Bíldshöfða 18. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upp­lýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til fram­kominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. apríl 2022.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 20. mars 2022 var tekin fyrir umsókn Kjötkompanísins ehf. um leyfi til að breyta starfsemi í rými í matshluta 03 og innrétta kjötverslun og bakarí auk þess að gera fljóttaleið á suðurhlið hússins að Bíldshöfða 18. Var afgreiðslu málsins frestað. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. apríl 2022 var umsóknin samþykkt.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur ákvörðun byggingarfulltrúa ekki samrýmast ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Fyrirsvarsmaður eiganda rýmisins sem hin kærða ákvörðun taki til hafi gengið á milli meðeiganda í fjöleignarhúsinu með samþykkisblað þar sem stæði: „Eigendur rýmis í mhl. 03 þar sem Kjötkompaní ehf. leigir húsnæði að Bíldshöfða 18, 110 Reykjavík samþykkja hér með allar fyrirhugaðar breytingar á rýminu vegna starfsemi Kjöt­kompanísins ehf. í samræmi við teikningar hannaðar af Páli Poulsen hjá Strendingi ehf. þann 28.03.2022.“ Eigendur tíu eignarhluta af fjórtán í matshlutum 02 og 03 hefðu undirritað sam­þykkisblaðið. Á samþykkisblaðinu væri hins vegar eingöngu vísað til þess að verið væri að samþykkja fyrirhugaðar breytingar á rýminu en ekki vikið að ráðstöfunum á ytra byrði hússins sem sé hluti sameignar í skilningi 6. og 8. gr. laga um fjöleignarhús.

Bent sé á að framkvæmdirnar, þar á meðan uppsetning á útsogsröri, hafi ekki verið til umfjöllunar og ákvarðanatöku á húsfundi. Á aðalfundi Húsfélags 02 og 03 Bíldshöfða 18, sem haldinn hafi verið 5. apríl 2022, hafi eingöngu verið bókað af hálfu kæranda undir dagskrár­liðnum önnur mál að hann legðist gegn því að útsogsrör yrði lagt frá starfsrými Kjöt­kompanísins upp fyrir þak. Málið hafi ekki verið rætt frekar.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé gerð krafa um að með byggingar­leyfisumsókn fylgi nauðsynleg gögn, þar með talið eftir atvikum samþykki meðeiganda sam­kvæmt lögum um fjöleignarhús. Ekki hafi verið heimilt að ganga á milli meðeigenda til að afla samþykkis á tilteknu atriði sem lögin geri ráð fyrir að sé gert á löglega boðuðum húsfundi. Meginreglan sé sú að sameiginlegar ákvarðanir eigi að taka á húsfundi, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um fjöleignarhús. Um væri að ræða breytta hagnýtingu á séreign sem hefði sérstök og veruleg óþægindi í för með sér sbr. 27. gr. laga um fjöleignarhús, en staðsetning útsogsrörsins raski hagsmunum kæranda óhæfilega. Hann leigi út eignarhluta sinn sem sé á 3. hæð. Staðsetning útsogsrörsins kunni að valda verulegri sjón-, hávaða- og lyktarmengun fyrir kæranda og þá starfsemi sem rekin sé í eignarhluta hans í skilningi 4. mgr. 27. gr. greindra laga. Hin kærða ákvörðun hafi því verið verulegum annmörkum háð sem leiði til þess að fella beri hana úr gildi.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að umdeilt byggingar­leyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða, athafna- og iðnaðarsvæði. Í byggingar­leyfis­umsókn, sem tekin hafi verið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. mars 2022, hafi breytingar á húsinu vegna útsogsrörs ekki komið fram, heldur einungis lítils­háttar breytingar á bakhlið hússins vegna flóttaleiða. Skoðunarmaður byggingarfulltrúa hafi gert athugasemdir um að gera þyrfti grein fyrir útsogi frá ofni og kallað hafi verið eftir samþykki 2/3 hluta meðeigenda. Samþykkið hafi borist 28. mars s.á. og verið lagt fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. apríl s.á. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt á þeim grundvelli að breytingar teldust ekki verulegar og að samþykki 2/3 hluta meðeigenda nægði fyrir breyting­unni sbr. 3. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, með síðari breytingum.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að sú starfsemi sem hann óskaði leyfis fyrir í hús­næðinu væri í samræmi við aðra verslunarstarfsemi sem þegar væri þar til staðar, svo sem m.a. matsölustaður. Ekki væri séð að með breytingum samþykktum af byggingarfulltrúa hefði hags­munum annarra húseigenda verið raskað með nokkru móti. Með umsókn um byggingarleyfi hefði verið lögð fram samþykkisyfirlýsing 10 húseigenda af 14 og yfirlýsingin því gefin af meira en 2/3 hlutum þeirra. Ekki væri annað ráðið en að þeir sem undirritað hefðu yfirlýsinguna hefðu kynnt sér teikningar að fyrirhuguðum breytingum fyrir undirritun sína. Þá beri yfir­lýsingin með sér að með orðunum „fyrirhugaðar breytingar á rýminu“ væri átt við breytingar á sameigninni. Á teikningu af suðurhlið hússins hafi blasað við að gert væri ráð fyrir útsogsröri auk flóttaleiðar. Ekki lægi fyrir annað en að ákvæði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki hafi verið uppfyllt við útgáfu byggingarleyfis. Byggingarfulltrúa hafi ekki borið að hafna beiðni um byggingarleyfi á grundvelli þess að ákvörðun um breytingar á sameign hafi borið að taka á sérstökum löglega boðuðum húsfundi, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús. Ekki geti komið til greina að krefjast þess af byggingarfulltrúa að hann gæti hvort yfir­lýsingar meðeigenda væru gefnar í tengslum við slíkan fund eða ekki. Byggingarleyfið verði þannig ekki ógilt af úrskurðarnefndinni af þessari ástæðu enda beri að leysa úr ágreiningi að þessu leyti fyrir kærunefnd húsamála, sbr. 80. gr. laga um fjöleignarhús eða eftir atvikum fyrir dómstólum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að kæran varði fyrst og fremst það hvort hin kærða ákvörðun samrýmist ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þannig að uppfyllt sé skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Uppsetning útsogsrörs á ytra byrði fjöleignarhússins falli undir 3. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Það sé ekki í samræmi við fyrirmæli laga um fjöleignarhús að gengið sé á milli eigenda með yfirlýsingu til samþykkis eða synjunar sbr. meginreglu 39. gr. laganna um töku ákvarðana á húsfundum. Þá verði ekki séð að yfirlýsingin sem tiltekinn fjöldi meðeigenda undirrituðu hafi tekið til breytinga á sameign utanhúss heldur einungis fyrirhugaðra breytinga á rýminu sjálfu. Lögmætt samþykki hafi því ekki legið fyrir og hin kærða ákvörðun því ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki um samþykki meðeigenda. Þar sem framkvæmdir séu yfir­staðnar sé fallið frá stöðvunarkröfu í málinu. Þá sé einungis gerð krafa um að hið kærða byggingar­leyfi verði fellt úr gildi að því er varðaði uppsetningu á útsogsröri með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis þar sem heimilað var að breyta notkun rýmis mathluta 03, innrétta kjötverslun og bakarí, gera flóttaleið og setja útsogsrör á suðurhlið húss á lóð Bíldshöfða 18.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Er slíka kæruheimild t.a.m. að finna í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt 10. gr. laga um mannvirki skulu með umsókn um byggingarleyfi fylgja hönnunar­gögn og önnur nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Ytra byrði hússins, sem hið kærða leyfi lýtur m.a. að, er í sameign eigenda þess skv. 8. gr., sbr. 6. gr., laga um fjöleignarhús, og þarf því að liggja fyrir samþykki meðeigenda fyrir breytingum á slíkri sameign sem gefið er á löglega boðuðum húsfundi skv. 4. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 59. gr. laganna.

Í athugasemdum við nefnda 39. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um fjöleignarhús segir m.a: „Það skal tekið fram til áréttingar, að ákvarðanir um sameiginleg málefni skal taka á húsfundum þar sem allir eigendur hafa átt þess kost að mæta og taka þátt í umræðum, ákvörðun og atkvæðagreiðslu. Þannig er sá háttur, sem stundum er hafður á, að gengið sé á milli eigenda með plagg eða yfirlýsingu um að einhver sameiginleg málefni, sem eigendum er hverjum í sínu lagi ætlað að samþykkja með undirritun sinni eða synja, ekki í samræmi við fyrirmæli frum­varpsins. Ákvörðun þannig tekin er ekki lögmæt og skuldbindandi nema fyrir þá sem undirritað hafa samkvæmt almennum reglum um skuldbindingargildi loforða og samninga. Gildir einu þótt sá meirihluti hafi samþykkt sem tilskilinn er til viðkomandi ákvörðunar. Þessi háttur getur því aðeins gengið að allir undirriti og samþykki enda er þá kominn á samningur.“

Samkvæmt gögnum málsins lá ekki fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa samþykki meðeigenda fyrir breytingum á sameign, gefið á löglega boðuðum húsfundi, skv. 4. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 59. gr. laganna. Voru því ekki lagaskilyrði fyrir samþykkt hins kærða byggingar­leyfis. Að teknu tilliti til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður hið kærða byggingarleyfi þó einungis fellt úr gildi að því er varðar samþykktar fram­kvæmdir á sameign hússins á lóð Bíldshöfða 18.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. apríl 2022 að því er varðar leyfi til framkvæmda á sameign hússins á lóð Bíldshöfða 18.

35/2022 Hlaðbrekka

Með

Árið 2022, mánudaginn 13. júní, tók Ómar Stefánsson, starfandi formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 35/2022, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars 2022, um að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17, Kópavogi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2022, er barst nefndinni 23. apríl s.á., kæra eigendur Fögrubrekku 18 og 20 þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 22. mars s.á. að staðfesta afgreiðslu skipulagsráðs á erindi um byggingarleyfi vegna Hlaðbrekku 17. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að byggingarleyfi verði fellt úr gildi ef það hafi verið gefið út áður en úrskurður nefndarinnar liggi fyrir í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 23. maí 2022.

Málsatvik og rök: Með erindi, dags. 2. febrúar 2021 óskuðu lóðarhafar Hlaðbrekku 17 eftir leyfi til viðbyggingar og breytinga á innra skipulagi húss sem stendur á lóðinni. Að lokinni grenndarkynningu umsóknarinnar var erindinu hafnað á fundi skipulagsráðs 5. júlí 2021 og staðfesti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi 15. s.m. Lóðarhafar fóru fram á endurupptöku málsins með bréfi dags. 10. nóvember s.á. og á fundi bæjarráðs 18. s.m. var samþykkt að vísa málinu til skipulagsráðs til nýrrar meðferðar. Á fundi skipulagsráðs 14. mars 2022 var erindi lóðarhafa samþykkt og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsráðs 22. s.m..

Kærendur benda á að við endurupptöku málsins hafi verið lögð fram gögn sem séu röng og tekið hafi verið tillit til röksemda sem ekki væru í samræmi við þau viðmið sem hafa skuli til hliðsjónar við slíkt mat. Alvarlegir misbrestir hafi verið á afgreiðslu málsins, nýtingarhlutfall lóðar sé mun meira en gefið hafi verið upp í umsókn auk þess sem hæð í framlagðri umsókn sé vel rúmum meter hærri en sú lína sem dregin sé milli aðliggjandi húsa og því í andstöðu við þau viðmið sem Kópavogsbær hafi sett. Umbeðnar breytingar á húsinu muni hafa áhrif á útsýni kærenda auk þess að breyta ásýnd götunnar þar sem gatan sé einsleit með húsum byggðum á svipuðum tíma með sambærilega hönnun.

Bæjaryfirvöld benda á að byggingarfulltrúi hafi enn ekki samþykkt byggingaráform fyrir greindri viðbyggingu. Samþykki skipulagsráðs og staðfesting bæjarstjórnar feli ekki í sér endanlega afgreiðslu á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn en það sé hlutverk byggingar­fulltrúa sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða þar sem endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. Þá hafi orðið eigendaskipti á húsinu og ekki liggi fyrir hvort nýir eigendur ætli að halda málinu áfram í samræmi við þær teikningar sem hafi verið grenndarkynntar. Samþykkt skipulagsráðs hafi byggt á þeim forsendum að það væri í samræmi við rammahluta gildandi aðalskipulags og að grenndaráhrif væru óveruleg. Þá væri að finna fordæmi í næsta nágrenni hvað varðaði þakform og dvalarsvæði.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvalds­ákvarðana sem teknar eru á þeim lagagrundvelli.

Eins og að framan greinir snýst mál þetta um ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar að samþykkja fyrir sitt leyti viðbyggingu og breytingu á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki er það hlutverk byggingarfulltrúa í viðkomandi sveitarfélagi að veita byggingarleyfi vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er slíku leyfi, eftir atvikum að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfis á ódeiliskipulögðu svæði og afgreiðslu skipulagsyfirvalda eins og á við í máli þessu. Byggingarfulltrúi hefur ekki samþykkt eða gefið út slíkt leyfi fyrir viðbyggingu eða breytingum á innra skipulagi hússins að Hlaðbrekku 17. Þrátt fyrir að ákvörðun bæjarstjórnar feli í sér afstöðu til beiðni um byggingarleyfi verður sú afstaða ekki talin binda enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda um að ræða lið í málsmeðferða byggingarleyfsumsóknar.

 Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að fyrir hendi sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem leitt hafi mál til lykta í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumálinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

182/2021 Svínabú að Torfum

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 182/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyja­fjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Holt ehf., eigandi Grundar I, og Ljósaborg ehf., eigandi Grundar II A, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Gerðu kærendur jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni, en með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 11. mars 2021 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Eyjafjarðarsveit 22. desember 2021.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar 29. nóvember 2018 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar um að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir svínabú í landi Torfa. Í tillögunni fólst m.a. að byggt yrði upp svínabú fyrir 2.400 grísi (30 kg og stærri) og 400 gyltur. Afmörkuð yrði 5,45 ha lóð undir fyrirhugaðar byggingar, sem yrðu 2.600 m² eldishús, 3.100 m² gyltu- og fráfærugrísahús, 300 m² starfsmanna- og gestahús, allt að átta síló, samtals 80 m² að grunn­flatar­máli, og 1-2 haugtankar, samtals um 6.000 m³. Að loknum kynningartíma tillögunnar fjallaði skipulagsnefnd um innkomnar athugasemdir á fundi sínum 14. mars 2019 og bókaði að nefndin legði til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga yrði samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipu­lagslaga nr. 123/2010 með þeim breytingum sem tilgreindar væru í afgreiðslu nefndarinnar á tilteknum athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 28. mars 2019 var afgreiðsla skipulags­nefndar samþykkt og var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. maí s.á. Samhliða meðferð deiliskipulagsins var framkvæmdin tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem framkvæmd í flokki B samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir 12. mars 2019 þar sem stofnunin komst að þeirri niður­stöðu að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur kærðu framangreindar ákvarðanir, þ.e.a.s. ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að framkvæmdir vegna svínabús að Torfum skyldu ekki háðar mati á umhverfis-áhrifum og afgreiðslu sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 28. s.m. á deiliskipulagstillögu vegna svína­búsins, til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2019 í máli nr. 49/2019 var þeim hluta kærunnar sem varðaði mats­skylduákvörðunina vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá vísaði nefndin einnig þeim hluta kærunnar frá sem laut að deiliskipulaginu á þeim grundvelli að það hefði ekki verið sam­þykkt með réttum hætti í sveitarstjórn og bæri því að vísa málinu frá, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 27. nóvember 2019 óskuðu kærendur eftir því við Skipulagsstofnun að stofnunin endurupptæki matsskylduákvörðun sína, en þeirri beiðni var hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. janúar 2020. Kærendur óskuðu eftir endurupp­töku málsins að nýju með bréfi, dags. 17. desember 2021, en þeirri beiðni var einnig hafnað með bréfi stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2022. Þá stefndu kærendur íslenska ríkinu fyrir dóm 4. október 2020 til að fá matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar hnekkt.

Hinn 13. ágúst 2019 gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi til handa landeigenda að Torfum sem tók til vegtengingar við Eyjafjarðarbraut vestri og borunar eftir neysluvatni innan lóðar fyrirhugaðs svínabús. Kærendur kærðu greinda ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 70/2019, uppkveðnum 22. ágúst 2019, var málinu vísað frá þar sem kærendur voru ekki taldir eiga lögvarðir hagsmuni af úrlausn málsins. Var í forsendum þeirrar niðurstöðu vísað til þess að þótt framkvæmdirnar væru óum­deilanlega hluti af undirbúningi vegna svínabús væri ekki um slík tengsl framkvæmda að ræða að kærendur gætu byggt aðild sína á því.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti 25. nóvember 2019 nýtt deiliskipulag umrædds svæðis vegna títtnefnds svínabús. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfum kærenda með úrskurði uppkveðnum 7. maí 2020 í máli nr. 133/2019. Hinn 19. nóvember 2021 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Eyjafjarðarsveitar byggingarleyfis­umsókn vegna svínabús á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ógilda beri hin kærða ákvörðun þar sem enn sé beðið úrlausnar dómstóla um lögmæti ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um matsskyldu hins fyrirhugaða svínabús að Torfum samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Vísað sé til 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mann­virki þar sem segi að óheimilt sé að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirki sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir eða ákvörðun stofnunarinnar um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Rekið sé dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu nefndrar ákvörðunar Skipu­lagsstofnunar, en í málinu liggi fyrir matsgerð frá 14. júní 2021 sem staðfesti að hið fyrirhugaða svínabú muni hafa meiri umhverfisáhrif en svínabú að þröskulds­viðmiðunarstærðum skv. 1. viðauka laga nr. 106/2000. Vegna stefnunnar og niðurstöðu matsgerðarinnar virðist fram­kvæmdaraðilinn hafa farið þá leið að draga úr umfangi hins fyrirhugaða svínabús. Ekki liggi fyrir hvernig þessi nýja staða muni hafa áhrif á niðurstöðu dómsmálsins.

Sú staða sé uppi að verulegur vafi sé um lögmæti matsskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar og hvort að sú ákvörðun geti verið grundvöllur byggingarleyfis. Hin nýja framkvæmd hafi ekki stoð í lögmætri ákvörðun Skipulagsstofnunar á þessum tímapunkti, sbr. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Horfa verði til þess að verulegar breytingar virðist hafa verið á hinni fyrirhuguðu framkvæmd sem geti haft áhrif á gildi matsskylduákvörðun stofnunarinnar. Kærendur hafi því sent erindi til Skipulagsstofnunar um að endurupptaka ákvörðunina.

Þá verði einnig að líta til þess að sumarið 2021 hafi Finnstaðaá, sem renni meðfram hinni fyrir­huguðu byggingu, flætt verulega yfir bakka sína. Flóðið hafi farið yfir nær allan byggingareit hins fyrirhugaða húss, en hefði það verið risið hefði það mögulega legið undir alvarlegum skemmdum og öll dýr drepist. Hefði flóðið komist í haugtanka hefði mögulega verið um stór­slys að ræða. Þetta séu grundvallar­forsendur sem hefðu breytt fyrri ákvörðunum Skipulags­stofnunar og valkostamati á skipulagsstigi. Hið kærða byggingaleyfi sé því grundvallað á afar veikum forsendum í umræddri ákvörðun stofnunarinnar.

Málsrök Eyjafjarðarsveitar: Af hálfu Eyjafjarðarsveitar er bent á að íbúðarhús kærenda að Grund I og Grund II A séu staðsett langt utan þeirra fjarlægðarmarka sem í gildi séu um fjar­lægð svínahúsa frá íbúðarhúsum. Þau séu í kílómetra fjarlægð frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína segi að svínabú með meira en 2.000 eldisgrísi þurfi að vera í að lágmarki 500 m fjarlægð frá næstu íbúðarhúsum á skipulögðum landbúnaðarsvæðum. Vegna þessarar miklu fjarlægðar eigi kærendur ekki lög­varða hagsmuni af kærumáli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 sé svæðið skipulagt sem landbúnaðarsvæði. Ljóst sé að tilkoma svínabúsins muni ekki skerða nýtingarmöguleika kærenda á jörðum sínum jafnvel þó 500 m radíus fari inn á jarðir þeirra og ekkert sem gefi til kynna að svæðið verði nýtt til annars en landbúnaðar í framtíðinni. Vegna þessa geti kærendur ekki talist eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins.

Aðeins sé verið að heimila byggingar húsa en ekki veita starfsleyfi auk þess sem búið sé að samþykkja deiliskipulag vegna spildunnar sem leyfið eigi sér stoð í. Rétt sé að geta þess að byggingarleyfið nái aðeins til húsakosts sem dugi fyrir 300-400 gyltum, u.þ.b. 2.000 smágrísum og 200 eldisgrísum. Sá fjöldi dýra sé ekki skilgreindur berum orðum á uppdráttum en með því að bera fermetrafjölda einstakra deilda í húsnæðinu saman við kröfur reglugerðar nr. 1276/2014 um velferð svína megi álykta með vissu að byggingarleyfið sé langt frá því að fullnýta heimild deiliskipulagsins. Sveitarfélagið telji ekkert athugavert við að heimilað sé að byggja aðeins hluta heimilaðs byggingarmagns nú en að síðar verði veitt leyfi sem fullnýti heimild skipu­lagsins. Ef áðurgreindur fjöldi dýra sé borinn saman við fjarlægðarmörk samkvæmt reglugerð nr. 520/2015 þá sé hann mun minni heldur en fjarlægðarmörk vegna bús með meira en 2.000 stæði fyrir eldisgrísi eða 750 stæði fyrir gyltur, sbr. 6. gr. reglugerðarinnar. Fjarlægðarmörkin virðast vera um 300 m miðað við útgefið byggingarleyfi, sbr. viðauka við reglugerðina, þ.e. 400 stæði fyrir gyltur gefi 290 m. Bent sé á að heimild samkvæmt deiliskipulagi nái til allt að 2.400 eldisgrísa og 400 gylta.

Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 70/2019 hafi kæru á ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfi vegna vegtengingar og borunar eftir vatni á spildunni úr Torfum undir svínabúið verið vísað frá vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Í því máli hafi verið um að ræða afmarkaðan hluta framkvæmdarinnar, rétt eins og hið kærða byggingar­leyfi í máli þessu. Veiting byggingarleyfis sé aðeins einn afmarkaður hluti framkvæmdarinnar en umfjöllun um framkvæmdina hafi farið fram við gerð deiliskipulagsins fyrir svínabú í landi Torfa. Kærendur hafi getað komið sínum sjónarmiðum á framfæri við þá málsmeðferð. Skipu­lagið hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 21. nóvember 2019 og hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnað kröfu kærenda að fella það úr gildi, sbr. úrskurð í máli nr. 133/2019. Fyrir liggi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að svínabúið sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en í máli nr. 49/2019 hafi úrskurðarnefndin vísað frá kæru kærenda vegna þeirrar ákvörðunar auk þess sem Skipulagsstofnun hafi hafnað beiðni kærenda um endurupp­töku ákvörðunarinnar. Af þessu megi vera ljóst að kærendur hafi fengið tækifæri til að koma að sínum andmælum og sjónarmiðum og fengið umfjöllun um andmæli sín vegna fram­kvæmdarinnar. Í ljósi þess að byggingarleyfið eigi stoð í gildandi deiliskipulagi og mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar, sem og að kærendur hafi fengið öll tækifæri til að and­mæla þessum ákvörðunum, þá verði ekki séð hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur hafi af byggingar­leyfinu, sem aðeins sé hluti af umræddri heildarframkvæmd.

Kærendur hafi höfðað dómsmál til ógildingar fyrrnefndrar matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar auk þess sem þeir hafi beðið Skipulagsstofnun um að endurupptaka ákvörðunina. Í kæru þessa máls ætlist þeir til að úrskurðarnefndin hafi matsskylduákvörðun Skipulags­stofnunar að engu og að byggingarleyfið verði fellt úr gildi þar sem vafi leiki á um gildi mats­skyldu­ákvörðunarinnar. Þeir ætlist til þess að Skipulagsstofnun, úrskurðarnefndin og dómstólar fjalli um matsskylduákvörðunina á sama tíma, en samkvæmt reglunni um litis pendens áhrif megi ekki höfða fleiri en eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Dómstólar teljist æðri stjórnvöldum og á meðan krafa kærenda um ógildingu á matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé til meðferðar hjá dómstólum beri stjórnvöldum að vísa kröfum frá sem lúti að ógildingu ákvörðunarinnar. Felli dómstólar ákvörðunina úr gildi yrði komin upp ný staða sem skoða yrði þegar þar að kæmi, en deili­skipulag sem sé í gildi myndi eftir sem áður halda velli. Öll lögbundin skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfisins séu því til staðar.

Kærendur haldi því fram að byggingaráætlun svínabúsins hafi verið breytt og virðast telja það vera út af dómsmáli þeirra og matsgerð sem þeir hafi aflað. Eyjafjarðarsveit sé ekki kunnugt um að byggingaráformum hafi verið breytt. Leyfishafi geti byggt búið í áföngum og verði að hafa svigrúm til þess út frá sínum eigin viðskiptalegu forsendum. Órökstutt sé af hálfu kærenda hvers vegna byggingaráætlunum hafi verið breytt eða hvers vegna málshöfðun þeirra og mats­gerð ættu að hafa áhrif á uppbyggingu búsins.

Það hafi verið vitað frá upphafi að Finnastaðaá eigi það til að flæða yfir bakka sína í miklum leysingum. Hluti af framkvæmdum vegna svínabúsins feli í sér gerð varnargarða til að varna flóðum, lítilsháttar færslu árfarvegar og dýpkun hans. Bakkavarnir við Finnastaðaá séu ekki óyfirstíganlegar fremur en við önnur smærri, sambærileg eða stærri vatnsföll hér á landi.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er farið fram á frávísun málsins með sambæri­legum rökum og gert var af hálfu Eyjafjarðarsveitar. Leyfishafi bendir jafnframt á að mats­skylduákvörðun Skipulagsstofnunar sé í fullu gildi og hafi hvorki verið hnekkt af æðra stjórn­valdi né dómstólum. Skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki um að fyrir liggi ákvörðun um að ekki sé þörf á mati á umhverfisáhrifum sé því uppfyllt.

Engin breyting hafi verið gerð á framkvæmdinni líkt og kærendur haldi fram. Til standi að reisa byggingar um 3.000 m2 að stærð í þessum áfanga en aðrir áfangar verði framkvæmdir síðar. Deiliskipulagið heimili 5.700 m2 byggingarmagn. Heimilt sé að hafa allt að 2.400 alisvín og allt að 400 gyltur. Leyfishafa sé ekki skylt að nýta allt byggingarmagnið í einu. Viðskiptalegar forsendur ráði byggingarhraða og uppbyggingu en framkvæmdin fari fram í samræmi við gildandi deiliskipulag og leyfi yfirvalda. Upphaflega hafi svínabúið átt að vera um 8.500 m2 að stærð. Forsvarsmaður kærenda hafi boðist til að hanna búið í þeirri stærð og hafi gert forsvars­manni leyfishafa tilboð í verkið og tekið fram að ekki væri þörf á mati á umhverfisáhrifum. Það hafi því komið á óvart þegar kærendur hafi síðar sett sig upp á móti því að búið yrði reist, þó það væri aðeins tæplega 5.700 m2, og að ofuráherslu hafi verið lögð á að búið skyldi sæta mati á umhverfisáhrifum. Það skipti greinilega engu máli hver stærð búsins komi til með að verða, kærendur muni alltaf setja sig upp á móti því sem gert verði.

Algjörlega órökstutt sé hvers vegna stórslys geti orðið þegar Finnastaðaá flæði yfir bakka sína. Það sé vel þekkt staðreynd að áin geti flætt yfir bakka sína í miklum leysingum en það gerist þó ekki nema með nokkurra áratuga millibili. Leyfishafi sé meðvitaður um að það geti gerst oftar og því sé fyrirhugað að gera varnargarða fyrir byggingarnar. Einnig sé fyrirhugað að færa farveg árinnar lítilsháttar og gera hana aðgengilega svo unnt sé að grafa reglulega upp úr farvegi hennar, dýpka hann og hreinsa framburð. Þetta hafi verið hluti af framkvæmdaáætlun svína­búsins frá upphafi. Ef byggingar hefðu verið reistar og svínabúið væri komið í fullan rekstur hefðu varnargarðar varið byggingarnar fyrir flóði og þær ekki orðið fyrir skemmdum. Einnig hefðu þeir varið haugtanka, sem auk þess verði vel varðir og muni halda vatni og vindum. Þó svo að flóðið hefði lent á byggingum hefðu dýr ekki drepist enda gólf það hátt að vatn hefði ekki komist að þeim. Haugtankar hefðu líklega ekki orðið fyrir skemmdum þó vatn hefði komist að þeim og varnargarðar ekki haldið. Þá sé bent á að svínabúið sé háð starfsleyfi og verði undir eftirliti þess til bærra aðila, t.a.m. Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlits og Matvæla­stofnunar. Öryggi muni verða að fullu tryggt í rekstri búsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­fulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa.

Eyjafjarðarsveit hefur gert kröfu um frávísun málsins vegna svokallaðra litis pendens áhrifa, þ.e. að aðeins megi höfða eitt mál vegna sömu kröfunnar, sbr. 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kærendur í máli þessu reka nú mál fyrir dómstólum vegna mats­skylduákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 um að fyrirhuguð framkvæmd svína­bús að Torfum í Eyjafjarðarsveit sé ekki líkleg til þess að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þetta ljóslega ekki sama krafa og höfð er uppi í máli þessu, þar sem krafist er ógildingar á byggingarleyfi, auk þess sem 4. mgr. 94. gr. laga nr. 91/1991 á við um rekstur tveggja dómsmála en ekki dómsmáls og stjórn­sýslukæru. Verður því kærumáli þessu því ekki vísað frá á þeim grundvelli. Þá er haldlaus sú málsástæða sveitarfélagsins að vísa beri málinu frá þar sem kærendur hafi áður komið að sínum sjónarmiðum vegna deiliskipulags svæðisins og matsskylduákvörðunar Skipulags­stofnunar, enda fá þær staðreyndir engu breytt um þá kæruheimild sem er til staðar vegna samþykkis byggingaráforma í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Bæði Eyjafjarðarsveit og leyfishafi telja að vísa beri kærumáli þessu frá þar sem kærendur uppfylli ekki greint skilyrði um lögvarða hagsmuni með hliðsjón af fjarlægð íbúðarhúsa þeirra frá hinu fyrirhugaða svínabúi. Byggingarleyfið heimili aðeins byggingu húsa fyrir svínabú en veiti ekki starfsleyfi vegna starfsemi fyrirhugaðs svínabús.

Af ákvæðum laga nr. 160/2010 leiðir að byggingarleyfi felur ekki einvörðungu í sér heimild til að reisa mannvirki heldur kveður það líka á um notkun þess, sbr. m.a. 6. tl. 3. gr., 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga. Við mat á lögvörðum hagsmunum vegna veitingu byggingarleyfis ber því einnig að líta til þeirrar notkunar sem leyfið heimilar þrátt fyrir að önnur leyfi séu tilskilin svo að fyrirhuguð starfsemi geti hafist. Á samþykktum aðalupp­dráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að hin umdeilda bygging sé ætluð til reksturs svínabús. Ekki er útilokað að sú starfsemi geti haft áhrif á hagsmuni kærenda umfram aðra, s.s. vegna lyktarmengunar, og með hliðsjón af því teljast kærendur uppfylla skilyrði kæruaðildar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hins kærða byggingarleyfis fyrst og fremst á því að vafi sé uppi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 12. mars 2019 að fyrirhugað svínabú að Torfum skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Vísa þeir til þess að mál sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem farið sé fram á ógildingu matsskylduákvörðunarinnar. Svo sem rakið er í málavöxtum komu kærendur að kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna umþrættrar matsskylduákvörðunar, en með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 49/2019, upp-kveðnum 14. nóvember 2019, var þeim hluta kærunnar sem varðaði þá ákvörðun vísað frá þar sem kærufrestur var liðinn. Þá liggur fyrir að Skipulagsstofnun hefur í tvígang synjað beiðni kærenda um endurupptöku ákvörðunarinnar. Er því ljóst að sú ákvörðun hefur gildi að lögum, enda hefur henni hvorki verið hnekkt né hún endurupptekin eða afturkölluð af hálfu Skipulags­stofnunar. Þá verður ekki talið að tilvist áðurnefnds dómsmáls geti ein og sér leitt til ógildingar hins kærða byggingarleyfis. Skal á það bent að ef fallist verður á dómkröfur kærenda þá standa þeim til boða önnur réttarúrræði til að verja hagsmuni sína, s.s. með því að hlutast til um að byggingarfulltrúi beiti þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010.

Á samþykktum aðaluppdrætti má sjá að gert er ráð fyrir malarplani allt í kringum svínabúið sem og malarveg frá planinu að Finnastaðaá þar sem koma á fyrir brunahana auk þess sem vísað er til þess að brunavarnir verði samkvæmt brunahönnunarskýrslu frá 20. október 2021. Í kafla 7.4 þeirrar skýrslu kemur fram að tryggja skuli slökkviliði aðkomu að Finnastaðaá til öflunar á slökkvivatni með akfærri leið niður að á og athafnasvæði við ánna með grófjöfnuðu malarplani. Hinn fyrirhugaði malarvegur, hluti malarplans og brunahani eru utan skipulags­svæðis deiliskipulags Torfa, svínabú, og felur því byggingarleyfið í sér framkvæmdir á ódeili­skipulögðu svæði að hluta. Í ljósi þess að þær framkvæmdir verða á lóð leyfishafa og einungis lítillega utan deiliskipulagssvæðisins, sem og að virtum þeim hagsmunum sem framkvæmdum er ætlað að verja með því að tryggja aðkomu slökkviliðs, verður sá annmarki þó ekki talinn slíkur að varðað geti ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verður heldur ekki séð að það eigi að leiða til ógildingar byggingarleyfisins þó að Finnastaðaá geti flætt yfir bakka sína, en fram hefur komið af hálfu Eyjafjarðarsveitar og leyfishafa að sú staðreynd sé vel þekkt og til standi að gera varnargarða vegna þess.

Að framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að hið kærða byggingarleyfi sé haldið slíkum form- eða efnisannmörkum að varði ógildingu þess verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda og umfangs kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsveitar frá 19. nóvember 2021 um að samþykkja umsókn til að byggja eldishús fyrir svínabú á lóðinni Sölvastöðum í landi Torfa í Eyjafjarðarsveit.

177/2021 Hvaleyrarbraut

Með

Árið 2022, miðvikudaginn 25. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson starfandi formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 177/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar­bæjar frá 10. nóvember 2021 um að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Marás, vélar ehf. og Arctic Sport ehf., eigendur tveggja fasteigna að Hvaleyrarbraut 29 þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 10. nóvember 2021 að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 7. janúar 2022.

Málavextir: Húsnæðið að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði er tveggja hæða atvinnuhúsnæði. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru sex iðnaðar- eða vörugeymslubil á neðri hæð hússins og sex iðnaðarbil á efri hæð. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, samþykktri af byggingar­­fulltrúa 1. október 2010 og þinglýstri 3. desember s.á., var eignarhluta 01 0103 skipt upp í tvo eignarhluta, 01 0103 og 01 0105. Á meðfylgjandi teikningum er sýndur veggur á milli rýma 01 0103 og 01 0105, en hann mun aldrei hafa verið settur upp. Þá mun lokaúttekt á húsinu ekki hafa farið fram. Eru kærendur máls þessa eigendur umræddra rýma.

Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. ágúst 2021, sóttu kærendur um leyfi til að fella niður vegg á milli fyrrgreindra rýma. Í kjölfarið fóru fram tölvupóstsamskipti á milli kærenda og byggingarfulltrúa þar sem m.a. kemur fram að í umsóttum breytingum felist að tvær fasteignir séu sameinaðar í eina með því að fjarlægja eignamörkin á milli þeirra. Við það falli annað rýmisnúmerið niður, en eitt rými geti ekki verið með tvö rýmisnúmer eða fasteignanúmer. Var vísað til ákvæða laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 10. nóvember 2021 var fyrrnefnd umsókn kærenda tekin fyrir og synjað á þeim grundvelli að hún væri ekki í samræmi við reglur um skráningu fasteigna.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að Hvaleyrarbraut 29 sé fjöleignarhús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Umræddar fasteignir séu séreignir og nýttar sem geymslu­húsnæði. Á milli þeirra hafi aldrei verið veggur og hafi kærendur því sótt um byggingarleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir þeirri skipan mála.

Af samskiptum kærenda við byggingarfulltrúa áður en umdeild ákvörðun hafi verið tekin verði ráðið að hún byggi á því mati byggingarfulltrúa að það samræmist hvorki skilgreiningu fjöleignarhúsalaga á séreign að ekki sé veggur á milli rýmanna né ákvæðum laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Engin stoð sé fyrir því í lögum eða reglugerðum að skylda eigendur tveggja séreignahluta í fjöleignarhúsi til að hafa vegg á milli þeirra.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 26/1994 sé séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið ásamt því sem honum fylgi. Byggingarfulltrúi hafi í samskiptum við kærendum vísað til tilgreinds ákvæðis en það veiti ekki fullnægjandi lagastoð fyrir þeirri afstöðu bæjaryfirvalda að kærendum sé skylt að hafa vegg á milli fasteignanna. Ákvæðið hafi að geyma almenna skilgreiningu á hugtakinu séreign sem verði ekki túlkuð á þann veg að lagðar séu sérstakar og íþyngjandi skyldur á herðar fasteignareigenda. Í lögum nr. 6/2001 komi fram að séreignarhluta í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. laganna. Umræddar fasteignir séu skráðar sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, þær hafi verið metnar fasteignamati sem slíkar og af þeim greiddir fasteignaskattar. Engu skipti í því sambandi hvort veggur sé á milli þeirra eða ekki enda fari ekki á milli mála samkvæmt teikningum og eignaskiptayfirlýsingu hver mörkin milli fasteign­anna séu. Í 2. mgr. 15. gr. sömu laga segi enda að fasteignir í fjöleignarhúsum skuli afmarkaðar á grunnteikningum og skráningartöflu húss. Ekki sé hægt að túlka ákvæði laganna á þann veg að þau skyldi eigendur séreigna í fjöleignarhúsi til að hafa vegg á milli eignanna og þaðan af síður að þau veiti nægjanlega skýra stoð fyrir slíkum íþyngjandi kröfum á borgarana. Ýmis dæmi séu um að eigendur mismunandi séreignahluta í fjöleignarhúsum hafi opnað á milli þeirra og nýtt sem eina heild, bæði í íbúðarhúsum og atvinnuhúsnæði, án þess að bæjaryfirvöld hafi amast við því.

Hvorki verði séð að ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki né byggingarreglugerð nr. 112/2012 geri þá kröfu að hafður sé veggur á milli fasteignanna heldur uppfylli umrædd rými allar þær kröfur sem lögin og reglugerðin geri til fasteigna, þ.m.t. um brunavarnir. Hafnarfjarðarbær hafi ekki orðið við kröfu kærenda um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun og brjóti það gegn 21. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðunin eigi sér ekki stoð í lögum, hún sé efnislega röng og því beri að fella hana úr gildi. Jafnframt sé hún háð slíkum formannmörkum að ekki verði hjá því komist að ógilda hana.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að málsástæða kærenda sé röng og órökstudd og krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Í c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna segi að fasteignir, hluti þeirra og einstök mannvirki skuli skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá. Séreignahluta í fjöleignarhúsum skuli skrá samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Hugtakið séreign sé skilgreint í 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús sem afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskipta­yfirlýsingu. Í 5. gr. sömu laga sé fjallað nánar um séreign en samkvæmt 1. málslið ákvæðisins falli þar undir allt afmarkað húsrými sem gert sé að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum og allt sem liggi þar innan veggja, sbr. 1. málslið ákvæðisins.

Hver fasteign, eða séreign, afmarkist af veggjum, t.d. geti íbúð í fjölbýli verið með mörg herbergi en afmarkist við aðra séreign eða sameign með veggjum. Jafnframt afmarkist geymsla í sameign með veggjum. Hvert rými sem sé séreign skuli hafa veggi sem umlyki viðkomandi bil til að kallast sér fasteign. Eigendum hafi verið boðið að sækja um eitt fasteignanúmer fyrir rýmin en þá myndi rýmið verða að einu með engum vegg. Að öðrum kosti yrði veggnum bætt við og rýmin með tvö fasteignanúmer.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Túlkun sveitarfélagsins á skilgreiningu 4. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús á séreign er mótmælt. Í umræddu ákvæði sé um afmörkun séreignar vísað til þinglýstra heimilda um húsið. Ákvæðið áskilji ekki að veggur sé milli séreignarhluta í fjöleignarhúsi, heldur að þeir séu afmarkaðir í þinglýstum heimildum. Þessi skilningur eigi sér einnig stoð í orðalagi 5. gr. laganna þar sem segi í 1. tölulið, að undir séreign fjöleignarhúss falli: „Allt afmarkað húsrými sem gert er að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum“. Af þessu ákvæði sé ljóst að afmörkun fasteignar í fjöleignarhúsi ráðist af teikningum. Framan­greind ákvæði laga nr. 26/1994 og laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, verði með engu móti túlkuð þannig að veggur milli séreignarhluta sé skilyrði þess að þeir geti talist fasteignir í skilningi laganna. Þvert á móti sé það undir eigendum viðkomandi séreignarhluta komið að ákveða hvort á milli þeirra skuli vera veggur eða ekki, að gættum öllum reglum laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar að synja umsókn um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29. Líkt og greinir í málavöxtum var með eignaskipta­yfirlýsingu, sem þinglýst var 3. desember 2010, eignarhluta 01 0103 í húsinu skipt upp í tvo eignarhluta sem fengu númerin 01 0103 og 01 0105. Á teikningu sem fylgdi með eignaskipta­yfirlýsingunni er sýndur veggur á milli framangreindra rýma en hann mun aldrei hafa verið settur upp. Í ljósi þess munu kærendur hafa lagt fram umrædda umsókn sem byggingarfulltrúi synjaði með vísan til þess að erindið samræmdist ekki reglum um skráningu fasteigna.

Fjöleignarhús telst vera hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem getur bæði verið allra og sumra, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignar­hús. Gilda lögin m.a. um hús sem alfarið eru nýtt til annars en íbúðar, svo sem fyrir atvinnu­starfsemi, sbr. 3. tölulið 3. mgr. 1. gr. laganna. Hugtakið séreign er skilgreint í 4. gr. laganna sem afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum sé lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgi sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laganna eða eðli máls. Nánari útlistun á því sem fellur undir séreign fjöleignarhúss er að finna í 1.-11. tölulið 5. gr. laganna.

Séreignahlutar í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús skal skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. c-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Í 2. mgr. 15. gr. sömu laga segir að fasteignir í fjöleignarhúsum skuli afmarkaðar á grunn­teikningum og skráningartöflu húss. Um skráningu fasteigna í fjöleignarhúsum fari samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Umsókn kærenda var synjað með eftirfarandi rökstuðningi: „Erindinu er synjað samræmist ekki reglum um skráningu fasteigna.“ Af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum milli kærenda og byggingarfulltrúa áður en umsókninni var hafnað má ráða að byggingarfulltrúi sé í þessu sambandi að vísa til c-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 og 4. gr. og 1. töluliðar 5. gr. laga nr. 26/1994. Í greinargerð sveitarfélagsins er einkum byggt á því að séreign skuli vera innan veggja, sbr. síðastnefnda lagagrein.

Í 1. tölulið 5. gr. laga nr. 26/1994 segir að undir séreign falli allt afmarkað húsrými sem gert er að séreign samkvæmt þinglýstum heimildum og allt sem liggur þar innan veggja. Þrátt fyrir að vísað sé til „veggja“ í umræddum tölulið verður ekki séð að veggur sé skilyrði fyrir skráningu fasteignar sem séreignar enda er í fleiri töluliðum ákvæðisins fjallað um aðrar tegundir séreigna sem ekki er skilyrði að veggir umlyki, s.s. bílastæði samkvæmt 9. tölulið. Þá segir í 10. tölulið að undir séreign falli aðrir hlutar húss eða lóðar, bílskúr á lóð húss eða búnaður og lagnir sem þinglýstar heimildir segja séreign og teljist það samkvæmt eðli máls. Enn fremur kemur fram í skilgreiningu hugtaksins séreign samkvæmt 4. gr. laganna að séreign skuli afmörkuð samkvæmt þinglýstum heimildum en ekki er getið hvers eðlis sú afmörkun skuli vera. Er því ekki gerð fortakslaus krafa í lögum um fjöleignarhús um að séreign skuli afmörkuð með veggjum á allar hliðar og átti umdeild synjun byggingarfulltrúa þar af leiðandi sér ekki stoð í framan­greindum lagaákvæðum.

Um efni rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar er fjallað í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir m.a. að vísa skuli í rökstuðningi til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á, sbr. 1. mgr. lagagreinarinnar. Verður að telja að rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið í samræmi við fyrrnefnt ákvæði en hvergi er vísað til hvaða reglna um skráningu ákvörðunin byggir á. Er því ekki hægt að sjá hvort ákvörðunin hafi byggst á öðrum reglum en vísað hafði verið til í tölvupóstsamskiptum milli kærenda og byggingar-fulltrúa í aðdraganda ákvörðunarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sé slíkum annmörkum háður að valdi ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna fjölda kærumála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að synja um byggingarleyfi til að fella niður vegg milli rýma 01 0103 og 01 0105 í fjöleignarhúsinu að Hvaleyrarbraut 29 í Hafnarfirði.