Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2005 Rafstöðvarvegur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Sesselja Jónsdóttir lögfræðingur, varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og bílskúr við austurhlið hússins að Rafstöðvarvegi 31 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. apríl 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Rafstöðvarvegi 29, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu með kjallara við austurgafl parhússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki byggingarinnar ásamt byggingu bílskúrs með kjallara.  Var ákvörðunin staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 1. mars 2005.  Gerir kærandi þá kröfu að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og var þess jafnframt krafist að heimilaðar framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til efnisúrlausn lægi fyrir í málinu.

Með bráðabirgðaúrskurði nefndarinnar, uppkveðnum hinn 4. maí 2005, var kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda hafnað.

Málsatvik og rök:  Hús kæranda stendur norðaustanvert við hús byggingarleyfishafa og eiga fasteignirnar sameiginleg lóðamörk.  Hinn 11. desember 1995 samþykkti skipulagsnefnd Reykjavíkur uppdrátt af íbúðarsvæði við Rafstöðvarveg þar sem lóðir voru m.a. afmarkaðar og skilmálar settir um íbúðarbyggðina.  Samkvæmt þeim uppdrætti með síðari breytingum var heimilað að reisa bílskúra á lóðum kæranda og byggingarleyfishafa.  Uppdráttur þessi og skilmálar voru staðfestir í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 6. febrúar 1996. 

Hinn 6. september 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur breytingu á fyrrgreindum skipulagsuppdrætti að undangenginni grenndarkynningu skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fól sú breyting það í sér að heimilað var að reisa einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, 38 fermetra að grunnfleti, við austurgafl hússins að Rafstöðvarvegi 31 með inndreginni verönd á þaki viðbyggingarinnar.

Við grenndarkynningu tillögunnar komu fram athugasemdir af hálfu íbúa hússins að Rafstöðvarvegi 29, þ.á.m. kæranda í máli þessu, þar sem kærandi taldi umrædda viðbyggingu ganga óhæfilega á grenndarrétt hans með útsýnisskerðingu og skertum nýtingarmöguleikum á lóð.  Taldi hann að téðar framkvæmdir myndu rýra verðgildi fasteignar hans.  Af hálfu Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa var á því byggt að umdeild viðbygging hafi lítil sem engin grenndaráhrif gagnvart kæranda en komið hafi verið til móts við framkomnar athugasemdir hans með því að minnka glugga á gafli viðbyggingarinnar og færa fyrirhugaða verönd á þaki hennar um einn og hálfan metra frá þakbrún.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. september 2004 að undangenginni umsögn Skipulagsstofnunar þar sem ekki var gerð athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsbreytingarinnar. 

Skaut kærandi umræddri skipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 11. október 2004, og krafðist ógildingar hennar.

Hinn 15. febrúar 2005 veitti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir umræddri viðbyggingu, sem heimiluð hafði verið með fyrrgreindri skipulagsbreytingu, ásamt bílskúr og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og fram er komið, með skírskotun til þeirra raka sem færð voru fram gegn skipulagsbreytingunni.

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð í kærumáli nr. 56/2004 vegna deiliskipulagsbreytingarinnar er heimilaði umdeilda viðbyggingu og var kröfu um ógildingu skipulagsbreytingarinnar hrundið.  Í þeim úrskurði eru málsrök kæranda í máli þessu, Reykjavíkurborgar og eigenda Rafstöðvarvegar 31, reifuð nánar og er vísað til þeirrar umfjöllunar hér enda er í máli þessu byggt á sömu málsástæðum og rökum og í kærumálinu vegna nefndrar skipulagsbreytingar.

Niðurstaða:  Hið umþrætta byggingarleyfi heimilar m.a. byggingu um 20 fermetra bílskúrs með kjallara norðaustan við parhúsið að Rafstöðvarvegi 31.  Umrædd bílskúrsbygging á stoð í deiliskipualgi fyrir íbúðarbyggð við Rafstöðvarveg frá því að breyting var gerð á því skipulagi á árinu 1999.  Ekki er gerður ágreiningur um byggingu umrædds bílskúrs og verður því ekki fjallað frekar um þann þátt byggingarleyfisins.

Jafnframt heimilar hin kærða ákvörðun einnar hæðar viðbyggingu með kjallara, sem verður í tveggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum kæranda í vestur.  Á þaki viðbyggingarinnar er gert ráð fyrir verönd í eins og hálfs metra fjarlægð frá þakbrún að framanverðu.  Er viðbyggingin 38 fermetrar að grunnfleti en með heimiluðum kjallara er heildarflatarmál hennar 63 fermetrar.  Á sú viðbygging stoð í skipulagsbreytingunni er tók gildi hinn 30. september 2004 og staðfest var með úrskurði nefndarinnar fyrr í dag eins og áður er að vikið.

Engin rök hafa verið færð fram fyrir ógildingu hins kærða byggingarleyfis umfram þau sem teflt var fram gegn fyrrnefndri skipulagsbreytingu.  Þar sem umdeilt byggingarleyfi er í samræmi við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis og ekki liggja fyrir form- eða efnisannmarkar er gætu leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu um ógildingu byggingarleyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. febrúar 2005 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og bílskúr að Rafstöðvarvegi 31, er hafnað.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________          _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Sesselja Jónsdóttir

40/2004 Suðurgata

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2004, kæra íbúa að Suðurgötu 37, Hafnarfirði á ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 um að samþykkja breytingu á notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 15. júlí 2004, kæra J og S, eigendur hússins að Suðurgötu 37, Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004 að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar hinn 29. júní 2004.  Verður að skilja erindi kærenda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsin að Suðurgötu 35 og 37 munu á sínum tíma hafa verið byggð sem tvö aðskilin hús en verið sambyggð á árinu 1938 yfir sund er var milli húsanna og voru húsin þá í eigu sama eiganda.  Ekki virðist hafa verið gengið frá breyttum lóðarmörkum milli húsanna af þessu tilefni.  Húsið að Suðurgötu 35 mun hafa verið nýtt sem geymsluhúsnæði og verslun um langt skeið en síðar verið starfrækt þar hárgreiðslustofa.  Frá árinu 1994 var húsnæðið nýtt til íbúðar.  Í fasteignaskrá var húsnæðið skráð sem vörugeymsla á árinu 1986 en á árinu 1994 var skráningunni breytt í íbúðarhúsnæði.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt en í aðalskipulagi er svæðið merkt sem íbúðarsvæði.

Á árinu 2002 fóru kærendur fram á það við bæjaryfirvöld að húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en ella að umrædd hús yrðu aðskilin með sundi eins og hafi verið fyrir 1938.  Bentu þeir á að þeir væru að greiða lóðarleigu fyrir mun stærri lóð en þeir hefðu umráð yfir.  Var erindinu synjað en lagt til að að ofgreidd lóðarleiga yrði endurgreidd frá árinu 1993 og að lóðarmörkum fasteignanna yrði breytt og sú breyting grenndarkynnt.  Kærendur munu ekki hafa sæst á breytta lóðarskipan svo sem lagt var til.

Hinn 2. mars 2004 samþykki embætti byggingarfulltrúa umsókn frá eiganda hússins að Suðurgötu 35 um að breyta notkun hússins úr atvinnu- í íbúðarhúsnæði.  Skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar felldi þá afgreiðslu úr gildi hinn 30. mars 2004 en samþykkti að senda erindið í grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fresti til að koma að athugasemdum lauk hinn 21. maí 2004 og bárust athugasemdir frá íbúum að Suðurgötu 37 og 37b.  Snérust þær um lóðarmörk, ónæði, skort á bílastæðum, ástand byggingar og leiksvæði á lóð.

Að lokinni grenndarkynningu tók skipulags- og byggingarráð málið til afgreiðslu hinn 22. júní og samþykkti fyrir sitt leyti breytta notkun hússins að Suðurgötu 35 með vísan til umsagnar skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins, þar sem á því var byggt að breytingin hefði ekki í för með sér hagsmunaröskun gangvart kærendum.  Var umhverfis- og tæknisviði bæjarins falið að afgreiða erindið til Skipulagsstofnunar og voru byggingarteikningar síðan samþykktar hinn 23. júlí 2004.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að er þeir eignuðust húsið að Suðurgötu 37 á árinu 1979 hafi húsið að Suðurgötu 35 verið nýtt undir lager og síðar undir hárgreiðslustofu.  Eftir að hún hætti rekstri hafi húsnæðið verið notað til íbúðar án heimildar og hafi kærendur gert athugasemdir af því tilefni við bæjaryfirvöld sem hafi ekkert aðhafst í málinu.  Benda kærendur á að stigagangur þeirra húss gangi inn í húsið að Suðurgötu 35, eftir að byggt var yfir sund milli húsanna á sínum tíma, en hvorki sé einangrun né milliveggur milli húsanna og brjóti sú tilhögun gegn ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir og hávaðamengun.

Húsið að Suðurgötu 37 hafi verið byggt á árinu 1907 og sé búið að leggja í mikinn kostnað við að gera húsið upp sem skráð hafi verið sem einbýli en ekki parhús.  Suðurgata 35 sé ferkantað steinhús sem passi engan veginn inn í umhverfið og standi húsið inn á lóð kærenda og á skorti nægjanleg bílastæði.  Munur sé á því hvort umrætt húsnæði sé aðeins notað til atvinnurekstrar á daginn eða til íbúðar allan sólarhringinn.

Kærendur hafi átt í viðræðum við bæjaryfirvöld um margra ára skeið vegna umdeilds húss og m.a. óskað eftir því að húsin yrðu skilin að eða húsið að Suðurgötu 35 yrði rifið en í engu hafi verið komið til móts við óskir kærenda og hagsmunir þeirra verið fyrir borð bornir.  Geti þeir ekki sætt sig við að húsið að Suðurgötu 35 verði nýtt til íbúðar.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Bæjaryfirvöld benda á að umrædd hús hafi verið sambyggð er kærendur festu kaup á húsnæði sínu að Suðurgötu 37 á árinu 1979.  Aðeins sé gert ráð fyrir einni íbúð í húsinu að Suðurgötu 35 og muni bílastæðaþörf ekki aukast við þá breytingu.  Ekki verði séð að breytingin raski hagsmunum kærenda í ljósi þess að ekki sé tryggt að notkun hússins undir atvinnustarfsemi feli í sér minna ónæði eða röskun gagnvart kærendum en ef húsið væri notað til íbúðar.  Röksemdir kærenda um ástand hússins með tilliti til brunavarna og hávaðamengunar snerti ekki breytta notkun hússins heldur sé þar um tæknileg atriði að ræða.

Umrædd breyting hafi verið grenndarkynnt í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og samræmist breytingin gildandi aðalskipulagi.  Ekki séu rök til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Vettvangsskoðun:  Nefndarmenn og starfsmenn úrskurðarnefndarinnar fóru á vettvang hinn 13. apríl 2005 og kynntu sér staðhætti.  Viðstaddur var annar kærenda en enginn var mættur af hálfu embættis byggingarfulltrúa, sem tilkynnt hafði verið um vettvangsskoðunina, en ekki tókst að hafa upp á núverandi eiganda hússins að Suðurgötu 35. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun heimilar að húsið að Suðurgötu 35, sem er sambyggt húsi kærenda, verði nýtt sem ein íbúð með þeim innréttingum og frágangi sem fram kemur á aðaluppdrætti sem samþykktur var hinn 23. júlí 2004.  Ákvörðunin breytir ekki lóðamörkum milli húsanna.

Heimiluð notkun er í samræmi við gildandi aðalskipulag Hafnarfjarðar en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Ekki liggur fyrir í málinu hvort og þá hvaða notkun bæjaryfirvöld hafa áður heimilað varðandi umdeilt hús en fyrir liggur að það hefur verið nýtt með ýmsum hætti á liðnum áratugum.

Kærendur styðja málskot sitt þeim rökum að hin kærða ákvörðun gangi á hagsmuni þeirra.  Nýting umrædds húss muni valda meira ónæði en fyrir hafi verið, frágangur milli umræddra húsa sé ekki í samræmi við reglur um brunavarnir og hljóðvist, skortur sé á bílastæðum og gangi húsið að Suðurgötu 35 inn á lóð húss kærenda.

Almennt verður að telja að samskonar notkun húsnæðis á sama svæði sé til þess fallin að draga úr hagsmunaröskun og árekstrum milli einstakra fasteignaeigenda.  Ekki verður því fallist á að notkun hússins að Suðurgötu 35 til íbúðar gangi fremur á grenndarrétt kærenda en ef húsið yrði nýtt undir atvinnu- eða þjónustustarfsemi sem oft fylgir mikil umferð viðskiptavina og getur slík starfsemi staðið langt fram á kvöld og um helgar.  Þá standa kröfur núgildandi byggingarreglugerðar um bílastæði ekki í vegi fyrir hinni kærðu ákvörðun, sbr. gr. 12.8 í nefndri reglugerð, enda var umrætt hús reist á fyrstu áratugum síðustu aldar.

Samkvæmt samþykktum aðalteikningum hins kærða byggingarleyfis er gert ráð fyrir að veggur milli húss kærenda og Suðurgötu 35 sé með brunamótstöðu EI 90, sem uppfyllir kröfur byggingarreglugerðar þar að lútandi skv. gr. 103.3.  Ber byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með að kröfum að þessu leyti samkvæmt byggingarleyfinu og byggingarreglugerð sé fullnægt, sbr. 40. og 41. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu þessu virtu verða ekki taldir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði og er kröfu kærenda þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 22. júní 2004, að samþykkja breytta notkun hússins að Suðurgötu 35, Hafnarfirði úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

35/2004 Strandvegur

Með

Ár 2005, fimmtudaginn 7. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2004, kæra byggingarleyfishafa að fasteigninni Strandvegi 7, Garðabæ á ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004 um að synja beiðni kæranda um breytingu á gildandi byggingarleyfi fasteignarinnar, er fólst í því að fella brott millihurðir í forstofum íbúða umrædds húss. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. maí 2004, er barst nefndinni hinn 1. júní s.á., kærir B ehf., byggingarleyfishafi að fasteigninni Strandvegi 7, Garðabæ, þá ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004 að synja beiðni hans um breytingu á byggingarleyfi fasteignarinnar er fólst í því að fella brott millihurðir í forstofum íbúða umrædds húss.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar hinn 6. maí 2004.  Skilja verður erindi kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Á fundi byggingarnefndar Garðabæjar hinn 10. október 2003 var kæranda veitt byggingarleyfi fyrir þriggja til fjögurra hæða 13 íbúða fölbýlishúsi að Strandvegi 7 í Garðabæ.  Á samþykktum teikningum var gert ráð fyrir millihurðum í forstofum íbúða, en gengið er inn í þær úr sameiginlegu stigahúsi fjölbýlishússins.

Hinn 24. apríl 2004 tók byggingarnefnd bæjarins fyrir umsókn kæranda um breytingu á greindu byggingarleyfi er fólst m.a. í því að fella brott millihurðir í forstofum.  Var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun:  „Synjað.  Vegna athugasemda varðandi lofthljóðeinangrun milli íbúðar og rýmis utan hennar.“  Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu þessa með bréfi, dags. 12. maí 2004, að aflokinni staðfestingu bæjarstjórnar Garðabæjar á afgreiðslu byggingarnefndar og skaut hann málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur lofthljóðeinangrun milli stigahúss umrædds fjölbýlishúss og einstakra íbúða uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þótt millihurð í forstofu yrði felld brott.  Séu því ekki rök til þess að hafna umsókn hans um þá breytingu á grundvelli ónógrar lofthljóðeinagrunar.

Við hönnun hússins að Strandvegi 7 hafi góð hljóðvist verið sérstaklega tryggð.  Allir innveggir milli íbúða séu 200 millimetrar að þykkt með hljóðeinangrun meiri eða jafnt og 55 desibel og plötur hafi hljóðeinangrun sem sé meiri eða jafnt og 57 desibel.  Hljóðeinangrunargildi í forstofu íbúða hússins sé á bilinu 43-48 desibel en krafan, eins og hún hafi hingað til almennt verið túlkuð, sé að hljóðeinangrun sé meiri eða jafnt og 39 desibel.

Í gr. 173.1 í byggingarreglugerð komi fram að vegið hljóðeinangrunargildi fyrir lofthljóð milli forstofu, innan við ganghurð, og sameiginlegs gangs eða stigahúss skuli vera meiri eða jafnt og 39 desibel.  Krafa byggingarnefndar Garðabæjar virðist hins vegar vera að lofthljóðeinangrun í því tilfelli þurfi að vera meira eða jafnt og 52 desibel.

Með hliðsjón af því misræmi sem komið sé upp á túlkun byggingaryfirvalda sveitarfélaga á byggingarreglugerð að þessu leyti og með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga sé máli þessu skotið til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök Garðabæjar:  Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að hin kærða ákvörðun standi óröskuð.

Ákvörðun byggingarnefndar, um að gera kröfu um millihurðir í forstofu til að tryggja lofthljóðeinangrun, byggi á skýrum viðmiðum sem byggingaraðilar eigi að uppfylla skv. grein 173.1 í byggingarreglugerð.

Kærandi hafi á engan hátt sýnt fram á að þau viðmið geti talist uppfyllt ef felld sé niður krafa um millihurðir í forstofum umrædds fjölbýlishúss.

Ákvæði byggingarreglugerðar um lofthljóðeinangrun séu sett til að vernda heilsu manna gagnvart hávaða og eigi íbúðareigendur rétt á að þeim ákvæðum sé framfylgt.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á þeirri breytingu á byggingarleyfi hússins að Strandvegi 7, Garðabæ, að fella brott millihurðir í forstofu íbúða fjölbýlishússins með skírskotun til athugasemda varðandi lofthljóðeinangrun milli íbúðar og rýmis utan hennar.  Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hverjar þessar athugasemdir voru og ekki er vikið að þeim í umsögn Garðabæjar vegna kærumálsins.  Þar kemur þó fram að krafa um millihurð í forstofu styðjist við kröfur um lofthljóðeinangrun skv. gr. 173.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Í nefndri grein byggingarreglugerðar, sem er í 8. kafla hennar um hollustuhætti, er að finna töflu þar sem tilgreindar eru lágmarksviðmiðanir vegins hljóðeinangrunargildis fyrir lofthljóð í mismunandi tegundum húsnæðis.  Eru leiðbeiningargildi þar tilgreind innan sviga.  Þar er gerð sú almenna lágmarkskrafa um fjölbýlishús að hljóðeinangrunargildi milli íbúðar og rýmis utan hennar skuli vera 52 (55) desibel.  Slakað er á þessari kröfu hvað varðar hljóðeinangrunargildi milli forstofu eða rýmis innan við ganghurð og sameiginlegs gangs eða stigahúss þar sem viðmiðunargildið er 39 desibel.  Í tilvísunargrein um það viðmiðunargildi er tekið fram að almennt megi telja að krafan sé uppfyllt með hurð í hljóðeinangrunarflokki 35 desibel ef skilveggurinn sjálfur er með a.m.k. 10 desibela betri hljóðeinangrun en hurðin.  Ekki er í reglugerðinni að finna kröfu um að tvær hurðir þurfi að vera milli stigagangs og meginrýmis íbúðar í fjölbýlishúsi til þess að greindu skilyrði um lofthljóðeinangrun sé uppfyllt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið liggja ekki fyrir neinar lögmætar ástæður fyrir hinni kærðu ákvörðun og ber því að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Garðabæjar frá 23. apríl 2004, að synja beiðni kæranda um breytingu á byggingarleyfi fasteignarinnar að Strandvegi 7, Garðabæ, er felld úr gildi.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir

1/2005 Miðhraun

Með

Ár 2005, miðvikudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður,  Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2005, kæra á ákvörðunum svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2005, sem barst nefndinni 10. s.m., kæra B og S, eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, ákvarðanir svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.

Krefjast kærendur ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  Að auki kröfðust kærendur þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og féllst úrskurðarnefndin á þá kröfu með úrskurði, uppkveðnum 28. janúar 2005.

Loks krefjast kærendur þess, í framhaldi af því að mál hafi verið höfðað af hálfu eigenda Miðhrauns 1 um merki Miðhrauns 1 og 2, að framkvæmdir sem standi yfir að Miðhrauni 1 við byggingu hesthúss, sem deiliskipulagt hafi verið síðastliðið haust, verði stöðvaðar þar til dæmt verði í umræddu máli fyrir Héraðsdómi Vesturlands, eða síðar Hæstarétti ef þörf krefji. Hesthúsið sé að hluta til inn á umdeildu sameiginlegu landi þar sem sé hraun.

Úrskurðarnefndin hefur nú lokið gagnaöflun í máli þessu, m.a. með skoðun á vettvangi, og er málið nú tekið til efnisúrlausnar.

Málsatvik:  Með kæru, dagsettri 30. nóvember 2004, kærðu eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, byggingarleyfi sem veitt hafði verið hinn 23. nóvember 2004 til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.  Á umræddu svæði er hvorki í gildi aðalskipulag né deiliskipulag og leitaði sveitarstjórn því meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með því að umrætt byggingarleyfi yrði veitt. 

Með bréfi Skipulagsstofnunar, dagsettu 16. júlí 2004, var byggingarfulltrúa tilkynnt að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir umræddri byggingu, enda yrði fyrirhuguð framkvæmd kynnt næstu nágrönnum. 

Í greinargerð byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar um framvindu byggingar gestahússins segir að þann 16. ágúst 2004 hafi hreppsnefnd staðfest samþykkt byggingarnefndar um byggingarleyfi fyrir húsinu.  Ekki hafi farið fram formleg mæling á staðsetningu hússins en við vettvangsferð byggingarfulltrúa þann 16. september 2004 hafi verið slegið gróflega á hvar húsið ætti að vera samkvæmt afstöðumynd en viðstaddir hafi verið hönnuður og byggingarmeistari.  Í samræmi við þetta muni svo hafa verið grafið fyrir húsinu.  Í nóvember hafi byggingarstjórinn haft samband við byggingarfulltrúa og óskað eftir úttekt á sökklum og hafi byggingarfulltrúi þá litið á framkvæmdir og tjáð byggingarstjóra að hann tæki ekki út framkvæmdina en gerði ekki athugasemd við handbragð verksins, en vegna þess að ekki hefði borist greiðsla á byggingarleyfisgjöldum væri ekki búið að gefa út byggingarleyfi fyrir húsinu.  Við athugun hafi komið í ljós að reikningur vegna gjaldanna hefði glatast.  Hafi því orðið að ráði að framkvæmdir gætu haldið áfram og yrðu ekki stöðvaðar að svo stöddu.  Þann 23. nóvember 2004 hafi greiðsla borist og hafi þá leyfið verið gefið út.  Þann 17. nóvember 2004 hafi nágrannar að Miðhrauni 2 bent byggingarfulltrúa á að þeim hefði ekki verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkvæmdina.  Verður af málsgögnum ráðið að kærendur hafi gert athugasemdir við staðsetningu mannvirkisins og jafnframt að ekki hefði verið farið að skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu.

Af hálfu byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar var brugðist við á þann hátt að kærendum var sent erindi um kynningu á nýbyggingunni.  Jafnframt voru framkvæmdir stöðvaðar en þær voru þá komnar nokkuð á rekspöl.  Var m.a. lokið gerð sökkuls og gólfplötu og framkvæmdir hafnar við grind hússins, sem er timburhús á steinsteyptum grunni með steyptri gólfplötu.

Kærendur gerðu ekki athugasemdir í tilefni af framangreindri grenndarkynningu.  Hafa kærendur vísað til þess að málið hafi á þessum tíma verið í höndum úrskurðarnefndarinnar og að þangað hafi þau beint athugasemdum sínum og umkvörtunum.  Hafi þau talið málið úr höndum sveitarstjórnar á þessum tíma.

Á fundi svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness hinn 4. janúar 2005 var málið tekið fyrir.  Afturkallaði nefndin byggingarleyfið frá 23. nóvember 2004 með heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Jafnframt bókaði nefndin að þar sem ekki hefði borist svar við kynningarbréfi til nágranna liti nefndin svo á að ekki væru gerðar neinar athugasemdir við byggingarframkvæmdina og mælti því með því að leyfið yrði gefið út að nýju.  Staðfesti hreppsnefnd Eyja og Miklaholtshrepps samþykkt nefndarinnar síðar sama dag.  Ákvarðanir þessar kærðu eigendur Miðhrauns 2 til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 6. janúar 2005, en drógu jafnframt til baka fyrri kæru með hliðsjón af því að hin kærða ákvörðun í því máli hafði verið afturkölluð.

Eftir að byggingarleyfið hafði verið veitt að nýju var aftur tekið til við byggingu hússins og var að mestu lokið frágangi útveggja og þaks þegar úrskurðarnefndin stöðvaði framkvæmdir við bygginguna, með úrskurði uppkveðnum 28. janúar 2005, svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hinni umdeildu nýbyggingu hafi verið valinn staður án þess að þeim væri gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu, en það hafi þó verið skilyrði af hálfu Skipulagsstofnunar fyrir því að byggingarleyfi yrði veitt.  Grenndarkynning, sem fram hafi farið eftir að framkvæmdir hafi verið komnar á rekspöl, verði ekki talin fullnægjandi, enda hafi málið þá verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og ekki í höndum byggingarnefndar eða sveitarstjórnar.  Málsmeðferð hafi því verið ólögmæt og að auki hafi hinni umdeildu byggingu verið valinn staður nær sameiginlegu landi málsaðila en heimilt hafi verið án þess að fyrir lægi samþykki kærenda, sem meðeigenda að hinu sameiginlega landi.  Sé staðsetning nýbyggingar þar að auki til baga fyrir kærendur vegna atvinnustarfsemi þeirra, sem gestahúsið muni hafa truflandi áhrif á. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. janúar 2005, árétta kærendur enn frekar sjónarmið sín í málinu.  Gera kærendur athugasemdir við að byggingarleyfi sem hreppsnefnd hafi verið búin að afturkalla hafi verið veitt að nýju á þeirri forsendu að ekki hafi borist neinar athugasemdir innan tilskilins frests.  Þetta sé alrangt þar sem kærendur hafi fundað með oddvita, byggingarfulltrúa og einum fulltrúa sem bæði sitji í hreppsnefnd og byggingarnefnd, þar sem farið hafi verið yfir athugasemdir kærenda.  M.a. hafi komið fram að kærendur teldu umrætt hús innan svæðis sem deilt sé um í dómsmáli, sem byggingarleyfishafinn hafi höfðað um merki Miðhrauns 1 og 2, auk fleiri atriða sem kærendur setji út á.

Kærendum hafi áður verið tjáð að málið væri ekki í höndum sveitarstjórnar heldur úrskurðarnefndarinnar og hafi það leitt til þess að skriflegum athugasemdum hafi ekki verið komið á framfæri vegna kynningar þeirrar sem efnt hafi verið til.

Athugasemdir kærenda séu einkum eftirfarandi:

1. Staðsetning gestahússins sé ekki í samræmi við það sem framkvæmdaraðilar hafi áður talað um við kærendur.

2. Eigendur Miðhrauns 1, og skipulagsnefnd svæðisins hafi engra hagsmuna að gæta gagnvart staðsetningu þessa húss sem réttlæti byggingarleyfi á þeim stað sem bygging er nú hafin á.

3. Staðsetning gestahússins valdi röskun á hagsmunum kærenda og atvinnustarfsemi sem þarna sé fyrir.

4. Á teikningu hafi ekki verið gert ráð fyrir rotþró nema í samráði við byggingarfulltrúa og vilji kærendur koma því á framfæri að samráð verði einnig haft við þá um staðsetningu hennar.

5. Staðsetning hússins sé á umdeildu landi og hafi mál vegna þeirra deilna verið þingfest í Héraðsdómi Vesturlands þann 12. janúar 2005.

6. Ekki sé gert ráð fyrir bílastæði né vegi að húsinu og vilja kærendur að upplýst verði um hvort leyft verði að hann komi síðar.

7. Þar sem umferð að þessu svæði sé öll í gegnum hlaðið hjá kærendum og fyrirsjáanleg sé mikil breyting frá því sem áður hafi verið vilji kærendur að aðkoma nágranna að svæðinu verði endurskoðuð.

Kærendur telja loks að við ákvörðun um staðsetningu gestahússins og útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis hafi ekki verið gætt ákvæða skipulags- og byggingarlaga og beri því að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Málsrök byggingaryfirvalda:  Af hálfu byggingarfulltrúa hefur verið vísað til þess að grenndarkynning hafi farið fram eftir að kærendur hafi bent á áskilnað Skipulagsstofnunar þar að lútandi.  Kærendur hafi hins vegar ekki gert neinar athugasemdir í tilefni kynningarinnar og hafi því verið litið svo á að ekki væru gerðar athugasemdir af þeirra hálfu.  Því hafi hið umdeilda leyfi verið veitt eftir að fullnægt hafi verið skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu og verði að telja að við meðferð málsins hafi verið bætt úr annmörkum með fullnægjandi hætti.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Í greinargerð, dags. 31. janúar 2005, reifar Ólafur Sigurgeirsson hrl., sjónarmið byggingarleyfishafa í málinu og andmælir málatilbúnaði kærenda eins og hann er settur fram í bréfi þeirra, dags. 22. janúar 2005.  Krefst lögmaðurinn þess að hinar kærðu ákvarðanir verði staðfestar og að bráðbirgðaúrskurður frá 28. janúar verði felldur úr gildi.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að í bréfi kærenda frá 22. janúar 2005 segi að umrætt hús sé innan þess svæðis, sem deilt sé um í landamerkjamáli milli aðila, en í fyrri kæru segi að húsið sé tvo metra frá sameiginlegu landi.  Hið rétta sé að húsið standi langt frá landi Miðhrauns 2 samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi þeirrar jarðar.

Eftir samþykkt fyrra byggingarleyfis hafi komið í ljós að byggingarfulltrúa hafi láðst að grenndarkynna, en það hafi hann hins vegar gert á réttan hátt áður en til umfjöllunar um síðara byggingarleyfið hafi komið.

Athugasemdum kærenda í liðum 1 – 7 er andmælt af hálfu byggingarleyfishafa og einstökum liðum svarað með eftirfarandi hætti:

1.  Rangt sé að rætt hafi verið um aðra staðsetningu umdeilds húss en þá sem valin hafi verið.  Tveir kostir hafi veriði skoðaðir varðandi staðsetningu hússins og hafi kærendum verið kunnugt um þá báða.  Hafi annar þessara kosta verið að staðsetja húsið þar sem það hafi nú verið reist.

2. Því sé mótmælt að byggingarleyfishafar eigi ekki hagsmuna að gæta varðandi staðsetningu hússins.  Staðsetningin hafi verið ákveðin með tilliti til ýmissa þátta sem skipti máli fyrir eigendur mannvirkisins.

3. Byggingarleyfishafar telji að bygging gestahúss á þessum stað muni ekki hafa nein áhrif á sauðfjárbúskap kærenda hvorki um sauðburð né við rekstur fjár af fjalli á haustin, enda hafi þess verið gætt að húsið yrði staðsett í viðunandi fjarlægð frá því svæði í landi kærenda sem hér um ræði.

4.  Engin ástæða sé til að ætla að rotþró verði staðsett á þann veg að neysluvatn kærenda geti spillst.

5. Rangt sé að gestahúsið hafi verið staðsett á umdeildu landi. Mál hafi að vísu verið höfðað til úrlausnar ágreiningi um merki en sá ágreiningur snerti ekki land það sem húsið standi á. 

6.  Hvað veg og bílastæði varði þá sé gert ráð fyrir að aðkomuvegur að íbúðarhúsi verði samnýttur með gestahúsi.  Einnig sé gert ráð fyrir samnýtingu bílastæða sem liggi suðaustan við íbúðarhús en þau verði stækkuð sem nemi 2-3 bílastæðum.  Ekki verði því lagður vegur að gestahúsinu síðar.  

7. Fullyrðingum kærenda um umferð um hlað þeirra sé mótmælt. Akbraut sé sameiginleg frá þjóðvegi þar til 100 – 200m séu eftir að bæjunum, þar greinist vegurinn og sé sín heimreiðin að hvorum bæ.
 
Af hálfu byggingarleyfishafa er áréttað að grenndarkynning vegna byggingarleyfisins, sem gefið hafi verið út á grundvelli afstöðumyndar, sé alfarið á herðum skipulagsnefndar hreppsins en ekki byggingarleyfishafa.  Eins og komið hafi fram hafi mistök skipulagsfulltrúaembættisins verið ástæða þess að kynningin átti sér ekki stað.  Úr því hafi verið bætt af hálfu hreppsins um leið og mistökin hafi orðið ljós.  Byggingarleyfishöfum hafi ekki verið kunnugt um að kynningin hafi ekki verið framkvæmd og hafi þeim þar af leiðandi ekki verið unnt að leiðrétta það sem miður hafi farið.  Að lokinni grenndarkynningu hafi hreppsyfirvöld fullnægt skipulags- og byggingarlögum og á grundvelli þess að engar athugasemdir hefðu borist hafi verið gefið út nýtt byggingarleyfi. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 2. mars 2005.  Málsaðilar voru viðstaddir en byggingarfulltrúi hafði boðað að hann yrði fjarverandi.  Gengið var um svæðið og gerðu málsaðilar grein fyrir helstu sjónarmiðum sínum í málinu.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvarðana byggingarnefndar og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps um að veita leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.  Til grundvallar leyfisveitingunni liggur skilyrt afgreiðsla Skipulagsstofnunar á beiðni sveitarstjórnar um meðmæli samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997.  Þessa skilyrðis var ekki gætt af hálfu sveitarstjórnar þegar leyfið var fyrst veitt en eftir að kærendur höfðu bent á þann annmarka sem verið hafði á meðferð málsins voru framkvæmdir stöðvaðar og kærendum gefinn kostur á að tjá sig um byggingaráform byggingarleyfishafa.  Kærendur höfðu þá þegar kært útgáfu hins fyrra byggingarleyfis, sem ekki var fellt úr gildi fyrr en að lokinni kynningu byggingarleyfisumsóknarinnar.  Töldu kærendur að kynning umsóknarinnar væri markleysa þar sem málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og sendu því ekki inn athugasemdir.  Veitti byggingarnefnd síðan hið umdeilda byggingarleyfi með þeim rökum að engar athugasemdir hefðu borist.

Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð byggingarnefndar og sveitarstjórnar við afgreiðslu hins umdeilda leyfis hafi verið verulega áfátt.  Var þessum stjórnvöldum ekki heimilt að líta framhjá andmælum kærenda og bar þeim að taka afstöðu til þeirra, enda mátti þeim vera ljóst að kynning málsins samræmdist ekki þeirri staðreynd að í gildi var byggingarleyfi fyrir umræddri framkvæmd sem borið hafði verið undir úrskurðarnefndina.  Bar sveitarstjórn að afturkalla fyrra byggingarleyfið áður en efnt var til kynningar málsins ef ætlan hennar var að bæta úr þeim ágöllum á afgreiðslu byggingarleyfisins sem komið höfðu í ljós.  Verður að átelja þessi vinnubrögð en ekki þykir þó næg ástæða til að láta ágalla á málsmeðferð varða ógildingu hinna kærðu ákvarðana þegar litið er til þess að sjónarmið kærenda höfðu komið fram og að ekki var um að ræða grenndarkynningu í skilningi 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Af gögnum málsins verður ráðið að framkvæmdir við bygginu hins umdeilda gestahúss hafi að miklu leyti verið unnar án þess að fyrir lægi formlega gilt byggingarleyfi, sbr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður einnig að átelja þessa framvindu málsins en atvik þessi varða þó ekki gildi hinna kærðu ákvarana og þykja ekki geta leitt til ógildingar þeirra.

Þá kemur til skoðunar hvort einhverjir þeir efnisannmarkar séu á hinnum kærðu ákvörðunum er ógildingu varði, svo sem hvort við staðsetning hússins hafi verið gengið gegn settum réttarreglum eða lögvörðum grenndarhagsmunum kærenda.

Skilja verður málatilbúnað kærenda á þann veg að þau telji mörk milli séreignarlanda málsaðila vera um girðingu sem liggur fá norðri til suðurs skammt austan hins umdeilda húss og virðist ekki ágreiningur með aðilum um þau mörk.  Hins vegar virðast kærendur telja að hraunjaðar, sem norðurgafl hússins nær nánast alveg að, skilji milli séreignarlands byggingarleyfishafa og sameiginlegs lands málsaðila, en ágreiningur mun vera um þá afmörkun.

Þegar virt er hvort fullnægt sé lagaskilyrðum um fjarlægð hússins frá landamerkjum til norðurs og austurs verður helst litið til 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 4. mgr. greinar 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Í 1. mgr. 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er fjallað um lágmarksfjarlægðir  frá húsvegg að mörkum nærliggjandi lóðar eða miðju stígs eða götu.  Síðar í 75. gr. eru reglur um lágmarksfjarlægðir milli húsa.  Með hliðsjón af tilgangi ákvæðis þessa og eðlisrökum verður að skilja ákvæðið á þann veg að það eigi ekki við um fjarlægð húss frá mörkum þegar handan þeirra er land sem ekki getur verið byggingarland eða svæði þar sem vænta má einhverra mannvirkja.  Verður því ekki talið að ákvæði greinarinnar hafi staðið í vegi fyrir því að húsið væri staðsett nær umræddum hraunjaðri en fjóra metra, svo sem gert var, en húsið er í u.þ.b. tveggja metra fjarlægð frá hraunjaðrinum, og skiptir þá ekki máli þótt umdeild mörk fylgi hraunjaðrinum eins og kærendur halda fram.  Til austurs er fjarlægð hússins frá mörkum eignarlanda málsaðila um 18 metrar, sem er langt umfram það sem áskilið er samkvæmt byggingarreglugerð.  Óþarft er að fjalla um staðsetningu hússins með tilliti til afmörkunar lóðar til suðurs og vesturs, þar sem þau mörk snúa að séreignarlandi byggingarleyfishafa.

Í 4. mgr. greinar 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er m.a kveðið á um að í deiliskipulagi svæða fyrir frístundabyggð skuli byggingarreitir ekki staðsettir nær lóðarmörkum en 10 metra.  Í hinu umdeilda tilviki er ekki um deiliskipulag að ræða en þar sem það er augljós tilgangur umrædds ákvæðis að tryggja lágmarksfjarlægð milli sumarhúsa og deifingu sumarhúsabyggða þykir rétt að hafa hliðsjón af ákvæðinu hvað varðar fjarlægð hússins frá mörkum séreignarlanda málsaðila, enda kynnu framtíðarmöguleikar kærenda til nýtingar á eigin landi að öðrum kosti að vera fyrir borð bornir.  Hins vegar þykir ekki ástæða til að líta til þessarar reglu varðandi fjarlægð hússins frá hraunjaðrinum, enda er ekki hægt að gera ráð fyrir því að byggt verði í hrauninu eða lóðir settar út þar.  Með hliðsjón af því að um 18 metrar eru frá austurhlið hússins að mörkum séreignarlanda málsaðila er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að nægilega hafi verið tekið tillit til sjónarmiða skipulagsreglugerðar í þessu efni við staðsetningu hússins og verður því ekki fallist á að hún sé andstæð ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða reglugerða settum samkvæmt þeim.

Ekki verður heldur fallist á að með staðsetningu og byggingu umrædds húss hafi verið gengið gegn lögvörðum hagsmunum kærenda, hvort sem litið er til grenndarhagsmuna eða atvinnuhagsmuna.  Hið umdeilda hús er í viðunandi fjarlægð frá mörkum séreignarlanda málsaðila og ekki verður séð að það hefði þjónað betur hagsmunum kærenda þótt húsið hefði verið staðsett einhverjum metrum fjær hraunbrúninni en raunin varð.  Má þvert á móti ráða af aðstæðum að grenndaráhrif hússins hefðu orðið meiri hefði það verið staðsett fjær hrauninu en í óbreyttri fjarlægð frá merkjagirðingu séreignarlanda aðila.

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss ber að vísa frá úrskurðarnefndinni, enda er sú krafa ekki gerð með vísun til neinnar stjórnvaldsákvörðunar sem skotið hefur verið til nefndarinnar.  Önnur kæruefni eða athugasemdir kærenda, t.d. varðandi staðsetningu rotþróar, aðkomu að húsum málsaðila,  vegagerð og bílastæði, vísa ekki heldur til neinna stjórnvaldsákvarðana sem bornar hafa verið undir úrskurðarnefnina og koma þessi atriði því ekki til umfjöllunar við úrlausn málsins.

Samkvæmt framansögðu verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.  Jafnframt falla niður réttaráhrif úrskurðar nefndarinnar frá 28. janúar 2005 um stöðvun framkvæmda við hina umdeildu byggingu.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda við byggingu hesthúss að Miðhrauni 1 er vísað frá úrskurðarnefndinni.  Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu ákvarðana svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

8/2005 Kirkjubraut

Með

Ár 2005, föstudaginn 18. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2005, kæra eigenda fasteignanna að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7, Akranesi á ákvörðun byggingarfulltrúans á Akranesi frá 13. desember 2004 um að veita leyfi til byggingar fjöleignarhúss með 20 íbúðum og 7 verslunarrýmum ásamt niðurgrafinni bílageymslu á lóðinni nr. 12 við Kirkjubraut, Akranesi.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. janúar 2005, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra H og V, Lyngheiði 18, Kópavogi, eigendur fasteignanna að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7, Akranesi, ákvörðun byggingarfulltrúans á Akranesi frá 13. desember 2004 um að veita leyfi til byggingar fjöleignarhúss með 20 íbúðum og 7 verslunarrýmum ásamt niðurgrafinni bílageymslu á lóðinni nr. 12 við Kirkjubraut, Akranesi.  Umrædd ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. janúar 2005.   

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi þar til að efnisúrlausn liggi fyrir í málinu.

Athugasemdir og sjónarmið kæranda og Akraneskaupstaðar hafa borist úrskurðarnefndinni varðandi hið kærða byggingarleyfi og þykir málið nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að kveða nú þegar upp efnisúrskurð um álitaefnið og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

Málavextir:  Bæjarstjórn Akraness samþykkti árið 1990 deiliskipulag fyrir svæði er liggur að Akratorgi á Akranesi.  Samkvæmt deiliskipulaginu skyldi m.a. hús kærenda að Kirkjubraut 22 víkja.   
 
Hinn 15. mars 2004 var undirritaður samningur milli Akraneskaupstaðar og Sveinbjörns Sigurðssonar hf. um framkvæmdir á lóðunum nr. 12 til 18 við Kirkjubraut og í samvinnu þeirra aðila var unnin tillaga að breyttu deiliskipulagi er tók til þess reits. 

Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar hinn 22. mars 2004 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi svæðisins, er tók til svonefnds Akratorgsreits, samþykkt og lagt til að breytingin yrði auglýst til kynningar skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Fól tillagan m.a. í sér sameiningu lóðanna nr. 12, 14, 16 og 18 við Kirkjubraut og lóðarinnar nr. 3 við Sunnubraut annars vegar og lóðanna nr. 22 við Kirkjubraut og nr. 7 við Sunnubraut hins vegar, en þær tvær lóðir eru í eigu kærenda.  Þá var hluta götunnar Akurgerði lokað og sá hluti tekinn undir hina sameinuðu lóð að Kirkjubraut 12 til 18 og heimilað að reisa fjögurra hæða verslunar- og íbúðarhús á henni. 

Bæjarstjórn samþykkti hinn 23. mars 2004 að auglýsa breytingartillöguna og var hún birt í Lögbirtingablaðinu hinn 14. apríl 2004 með athugasemdafresti til 26. maí s.á.  Ennfremur var auglýsingin birt í Póstinum hinn 29. apríl 2004 og var athugasemdafrestur lengdur til 10. júní s.á.  Athugasemdir bárust frá íbúum, þ.m.t. kærendum, og voru þær teknar fyrir á fundi skipulags- og umhverfisnefndar hinn 21. júní 2004 og unnin greinargerð um framkomnar athugasemdir.  Nefndin ákvað á fundi sínum hinn 3. ágúst 2004 að láta fram fara úttekt á umferð og skuggavarpi vegna fyrirhugaðra bygginga svo og að halda fund með hagsmunaaðilum.  Þeim er athugasemdir höfðu gert var með bréfi, dags. 23. ágúst 2004, tilkynnt þessi afgreiðsla.  Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar hinn 21. september s.á. lágu frammi gögn um skuggavarp og athugun á umferðarsköpun vegna skipulagstillögunnar og ákvað nefndin að senda bæjarstjórn skipulagstillöguna óbreytta til samþykktar og ákvað jafnframt að boða til almenns kynningarfundar sem haldinn var hinn 5. október 2004.  Tillagan var afgreidd í bæjarráði hinn 23. september og samþykkt í bæjarstjórn hinn 28. september 2004.

Skipulagstillagan var síðan send Skipulagsstofnun til yfirferðar og afgreiddi stofnunin tillöguna með bréfi, dags. 18. október 2004.  Taldi stofnunin nauðsynlegt að skýrt væri í skipulagsskilmálum hvernig uppfylla mætti ákvæði 4. kafla byggingarreglugerðar um brunavarnir.  Í tilefni af þessu var bætt við skilmála deiliskipulagsins og var það þannig afgreitt á fundi skipulags- og umhverfisnefndar hinn 1. nóvember 2004.  Auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. nóvember 2004.

Kærendur kærðu framangreinda deiliskipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar og hafa krafist ógildingar hennar. 

Hinn 13. desember 2004 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn Sveinbjarnar Sigurðssonar hf. um heimild til þess að reisa fjöleignarhús með 20 íbúðum og 7 verslunarrýmum ásamt niðurgrafinni bílageymslu á hinni sameinuðu lóð við Kirkjubraut á grundvelli hins nýbreytta deiliskipulags og hafa kærendur nú kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Úrskurðarnefndinni er kunnugt um að hinn 2. febrúar 2005 felldi byggingarfulltrúi hið kærða byggingarleyfi úr gildi og var ákvörðun hans þar að lútandi lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 8. febrúar 2005.  Í bókun nefndarinnar sagði að í ljós hafi komið að vissir þættir samþykktra byggingarnefndarteikninga hússins að Kirkjubraut 12-18 hafi ekki verið í samræmi við skilmála deiliskipulags og byggingarreglugerð.  Framangreind ákvörðun byggingarfulltrúa hefur ekki verið staðfest af bæjarstjórn.  Á sama fundi byggingarnefndar var að nýju veitt leyfi til byggingar húss á lóðunum nr. 12-18 við Kirkjubraut. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að hið kærða byggingarleyfi styðjist við deiliskipulag sem sé í andstöðu við gildandi Aðalskipulag Akraness 1992-2012 hvað landnotkun varði.  Samkvæmt aðalskipulaginu séu lóðir þeirra að Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7 auðkenndar sem íbúðarsvæði og lóðirnar að Kirkjubraut 14-18 sem verslunar- og þjónustusvæði.  Séu það greinileg markmið aðalskipulagsins að ekki sé samskonar notkun á lóðunum Kirkjubraut 22 og Sunnubraut 7 annars vegar og Kirkjubraut 14-18 hins vegar.  Þá feli og deiliskipulagið í sér heimild til að loka varanlega götunni Akurgerði sem mörkuð sé á aðalskipulagsuppdrætti.

Kærendur halda því og fram að með umdeildri byggingu sé freklega gengið gegn lögvörðum grenndarhagsmunum þeirra.  Hún hafi í för með sér eyðileggingu á nýtingarmöguleikum lóða þeirra, skerðingu á útsýni og birtu og rýrnun á verðgildi fasteigna þeirra. 

Kærendur vísa og til þess að hið kærða byggingarleyfi uppfylli ekki kröfur byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um lágmarksfjarlægðir og brunavarnir.  Samkvæmt gr. 75.1 í reglugerðinni skuli lágmarks fjarlægð á milli húss þeirra að Kirkjubraut 22 og húss þess sem hið kærða byggingarleyfi lúti að vera 6,4 metrar en fjarlægð frá útvegg hússins að Kirkjubraut 12 sé aðeins 4,6 metrar.  Samkvæmt gr. 156 í byggingarreglugerðinni skuli bygging sem standi nær lóðarmörkum en tilskilið sé í reglugerðinni hafa A-REIM 120 eldvarnarvegg á þeirri hlið er að lóðarmörkum snúi.  Ekki sé gert ráð fyrir slíkum vegg skv. teikningum.  Verði slíkur veggur ekki reistur eða byggingunni breytt muni kærendum verða nær ómögulegt að nýta eign sína.

Að auki sé hið kærða byggingarleyfi ekki í samræmi við hið kærða deiliskipulag.  Samkvæmt skipulaginu skuli hús vera innan byggingarreits, nema við Kirkjubraut, þar sem heimilt sé að svalir og úthleyptir gluggar skagi út fyrir reitinn.  Ekki sé heimilt að svalir skagi út fyrir byggingarreit á milli lóða Kirkjubrautar 12-18 og 22 líkt og hið kærða byggingarleyfi heimili.  Þá sé kröfum deiliskipulagsins um þakgerð ekki fullnægt þar sem það geri ráð fyrir að þak hússins sé með u.þ.b. 13,7 metra mænishæð og 18 gráðu halla.  Samkvæmt þessu, miðað við 9 metra breiða byggingu, væri u.þ.b. 12,2 metrar upp að þakkanti.  Fyrirhuguð bygging sé aftur á móti með flötu þaki og með u.þ.b. 12,9 metra hæð upp að þakkanti.  Byggingin muni því virka stærri og varpa meiri skugga en gert hafi verið ráð fyrir samkvæmt deiliskipulaginu og rýra enn frekar verðmæti fasteigna þeirra.  Þá sé þakgerðin og hæð mannvirkisins úr öllu samhengi við nágrenni sitt. 

Sjónarmið Akraneskaupstaðar:  Af hálfu Akraneskaupstaðar er fram kominni kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Því er haldið fram að umdeilt byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulagsbreytingu er byggi á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum og farið hafi verið eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga við málsmeðferð. 

Þungamiðjan í kæru kærenda sé sú ráðagerð að húsið nr. 22 við Kirkjubraut víki fyrir nýjum mannvirkjum.  Þessi ákvörðun hafi legið fyrir frá árinu 1990 og með hinu kærða deiliskipulagi sé ekki verið að hrófla við þeirri ákvörðun.  Deiliskipulagið frá árinu 1990 geti af augljósum ástæðum ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar. 

Af hálfu Akraneskaupstaðar er viðurkennt að fyrirhuguð bygging samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni hafa einhver grenndaráhrif og vegna athugasemda íbúa hafi skuggavarp verið kannað og umferðarkönnun verið gerð.  Að mati kaupstaðarins séu grenndaráhrif ekki meiri en íbúar í þéttbýli megi sætta sig við.  A.m.k. telji kaupstaðurinn að lögmætir hagsmunir kærenda séu nægilega varðir með bótaákvæðum 33. gr. skipulags- og byggingarlaga vegna deiliskipulagsbreytingar þeirrar sem byggingarleyfið eigi stoð í og þau grenndaráhrif, ef einhver séu, eigi ekki að leiða til ógildingar hins kærða byggingarleyfis.  

Niðurstaða:  Hið umdeilda byggingarleyfi var veitt með stoð í deiliskipulagsbreytingu þeirri er staðfest var í bæjarstjórn Akraness hinn 28. september 2004 sem kærendur hafa jafnframt skotið til úrskurðarnefndarinnar.
 
Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag fallist á kröfu kærenda um ógildingu þeirrar deiliskipulagsbreytingar og er byggingarleyfið ekki lengur í samræmi við gildandi deiliskipulag umrædds svæðis svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 veitir sveitarstjórn byggingarleyfi og getur ein afturkallað slíka ákvörðun sína, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þrátt fyrir að byggingarfulltrúi hafi ákveðið afturköllun hins kærða byggingarleyfis verður að telja leyfisveitinguna í gildi þar sem sveitarstjórn hefur enn ekki staðfest þá afgreiðslu.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.  

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans á Akranesi frá 13. desember 2004, sem staðfest var í bæjarstjórn hinn 11. janúar 2005, að veita byggingarleyfi fyrir fjöleignarhúsi að Kirkjubraut 12-18, er felld úr gildi.

_______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________        ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Ingibjörg Ingvadóttir

1/2005 Miðhraun

Með

Ár 2005, föstudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl., en Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, boðaði forföll. 

Ekki náðist að boða varaformann til fundarins, en með hliðsjón af atvikum og með stoð í 34. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tekur úrskurðarnefndin fyrirliggjandi mál til meðferðar.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2005, kæra á ákvörðunum svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.

Í málinu er nú til bráðabirgða kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. janúar 2005, sem barst nefndinni 10. s.m., kæra B og S, eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, ákvarðanir svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness og sveitarstjórnar Eyja og Miklaholtshrepps frá 4. janúar 2005 um að veita að nýju leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.

Krefjast kærendur ógildingar hinna kærðu ákvarðana og að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og byggingarfulltrúa til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Liggja sjónarmið byggingarfulltrúa fyrir en af hálfu lögmanns byggingarleyfishafa var því lýst yfir með tölvubréfi til úrskurðarnefndarinnar hinn 26. janúar 2005 að byggingarleyfishafi ætlaði að tryggja að framkvæmdum yrði ekki fram haldið meðan úrskurðarnefndin úrskurðaði um kröfu kærenda.  Jafnframt yrði skilað greinargerð í málinu af hans hálfu.  Þessi yfirlýsing hefur hins vegar verið dregin til baka og eru framkvæmdir hafnar að nýju við hina umdeildu byggingu. 

Verður ekki hjá því komist að taka þegar í stað afstöðu til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, eins og atvikum er háttað.

Málsatvik:  Með kæru, dagsettri 30. nóvember 2004, kærðu eigendur Miðhrauns 2, Eyja og Miklaholtshreppi, byggingarleyfi sem veitt hafði verið hinn 23. nóvember 2004 til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1.  Á umræddu svæði er hvorki í gildi aðalskipulag né deiliskipulag og leitaði sveitarstjórn því meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með því að umrætt byggingarleyfi yrði veitt. 

Með bréfi Skipulagsstofnunar, dagsettu 16. júlí 2004, var byggingarfulltrúa tilkynnt að stofnunin gerði ekki athugasemdir við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir umræddri byggingu, enda yrði fyrirhuguð framkvæmd kynnt næstu nágrönnum. 

Ekki kom til neinnar kynningar áður en leyfið var veitt hinn 23. nóvember 2004.  Urðu kærendur, sem telja verður „næstu nágranna“ byggingarstaðarins, varir við er framkvæmdir hófust og gerðu athugasemdir um staðsetningu mannvirkisins og jafnframt að ekki hefði verið farið að skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu.

Af hálfu byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar var brugðist við á þann hátt að kærendum var sent erindi um kynningu á nýbyggingunni.  Jafnframt voru framkvæmdir stöðvaðar en þær voru þá komnar nokkuð á rekspöl.  Var m.a. lokið gerð sökkuls og gólfplötu og framkvæmdir hafnar við grind hússins, sem er timburhús á steinsteyptum grunni með steyptri gólfplötu.

Kærendur gerðu ekki athugasemdir í tilefni af framangreindri grenndarkynningu.  Hafa kærendur vísað til þess að málið hafi á þessum tíma verið í höndum úrskurðarnefndarinnar og að þangað hafi þau beint athugasemdum sínum og umkvörtunum.  Hafi þau talið málið úr höndum sveitarstjórnar á þessum tíma.

Á fundi svæðisbyggingarnefndar Snæfellsness hinn 4. janúar 2005 var málið tekið fyrir.  Afturkallaði nefndin byggingarleyfið frá 23. nóvember 2004 með heimild í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Jafnframt bókaði nefndin að þar sem ekki hefði borist svar við kynningarbréfi til nágranna liti nefndin svo á að ekki væru gerðar neinar athugasemdir við byggingarframkvæmdina og mælti því með því að leyfið yrði gefið út að nýju.  Staðfesti hreppsnefnd Eyja og Miklaholtshrepps samþykkt nefndarinnar síðar sama dag.  Ákvarðanir þessar kærðu eigendur Miðhrauns 2 til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 6. janúar 2005, svo sem að framan greinir, en drógu jafnframt til baka fyrri kæru með hliðsjón af því að hin kærða ákvörðun í því máli hafði verið afturkölluð.

Af hálfu kærenda er því haldið farm að hinni umdeildu nýbyggingu hafi verið valinn staður án þess að þeim væri gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum að í málinu, en það hafi þó verið skilyrði af hálfu Skipulagsstofnunar fyrir því að byggingarleyfi yrði veitt.  Grenndarkynning, sem fram hafi farið eftir að framkvæmdir hafi verið komnar á rekspöl, verði ekki talin fullnægjandi, enda hafi málið þá verið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og ekki í höndum byggingarnefndar eða sveitarstjórnar.  Málsmeðferð hafi því verið ólögmæt og að auki hafi hinni umdeildu byggingu verið valinn staður nær sameiginlegu landi málaðila en heimilt hafi verið án þess að fyrir lægi samþykki kærenda, sem meðeigenda að hinu sameiginlega landi.  Sé staðsetning nýbyggingar þar að auki til baga fyrir kærendur vegna atvinnustarfsemi þeirra, sem gestahúsið muni hafa truflandi áhrif á.

Af hálfu byggingarfulltrúa hefur verið vísað til þess að grenndarkynning hafi farið fram eftir að kærendur hafi bent á áskilnað Skipulagsstofnunar þar að lútandi.  Kærendur hafi hins vegar ekki gert neinar athugasemdir í tilefni kynningarinnar og hafi því verið litið svo á að ekki væru gerðar athugasemdir af þeirra hálfu.  Því hafi hið umdeilda leyfi verið veitt eftir að fullnægt hafi verið skilyrði Skipulagsstofnunar um kynningu og verði að telja að við meðferð málsins hafi verið bætt úr annmörkum með fullnægjandi hætti.

Af hálfu byggingarleyfishafa hefur verið vísað til þess að framkvæmdir hans styðjist við formlega gilt byggingarleyfi.  Hann hafi þegar orðið að fresta framkvæmdum og geti ekki fallist á að fresta þeim enn frekar.  Að öðru leyti hefur málið ekki verið reifað sérstaklega af hálfu byggingarleyfishafa um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti ákvarðana byggingarnefndar og sveitarstjórnar um að veita leyfi til byggingar gestahúss að Miðhrauni 1 í Eyja og Miklaholtshreppi.  Til grundvallar leyfisveitingunni liggur skilyrt afgreiðsla Skipulagsstofnunar á beiðni sveitarstjórnar um meðmæli samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997.  Leikur vafi á um það hvort málsmeðferð byggingarnefndar og sveitarstjórnar við undirbúning og gerð hinnar kærðu ákvörðunar hafi fullnægt lagaskilyrðum en að auki er til úrlausnar hvort efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun hvað varðar staðsetningu  byggingarreits.  Ríkir af þessum sökum nokkur óvissa um málalok meðan málsrannsókn er ólokið, en m.a. er fyrirhugað að kanna aðstæður á vettvangi.  Þykir ekki rétt, eins og atvikum er háttað, að heimila framhald framkvæmda við byggingu sem að hluta til hefur verið reist með stoð í byggingarleyfi sem leyfisveitandi hefur nú afturkallað vegna ágalla á málsmeðferð og verða framkvæmdir því stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir við byggingu gestahúss að Miðhrauni 1, sem unnið er að samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

___________________________       _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                           Ingibjörg Ingvadóttir

73/2004 Pósthússtræti

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2004, kæra eigenda fasteignanna að Hafnarstræti 9 (utan jarðhæðar) og Hafnarstræti 11, Reykjavík á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. nóvember 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna nr. 2 við Pósthússtræti og nr. 28 við Tryggvagötu og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. nóvember 2004 um að veita byggingarleyfi til breyttrar notkunar sömu fasteigna. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. desember 2004, sem barst nefndinni sama dag, kærir Einar Baldvin Árnason hdl., f.h. eigenda fasteignanna að Hafnarstræti 9 (utan jarðhæðar) og Hafnarstræti 11, Reykjavík, annars vegar samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 17. nóvember 2004 um breytt deiliskipulag lóðanna nr. 2 við Pósthússtræti og nr. 28 við Tryggvagötu og hins vegar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. nóvember 2004 um að veita byggingarleyfi til breyttrar notkunar sömu fasteigna.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarstjórn hinn 7. desember 2004

Kærendur krefjast ógildingar hinna kærðu ákvarðana ásamt því að framkvæmdir á grundvelli þeirra verði stöðvaðar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Til vara er þess krafist að sameining lóðanna verði ekki leyfð án þess að henni fylgi kvaðir er tryggi fullkomlega óhindraðan umferðarrétt kærenda að lóðum þeirra og að sá réttur sé tryggður gagnvart síðari eigendum eignarinnar og óháður breytingum á nýtingu Pósthússtrætis 2 og Tryggvagötu 28.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til framangreindrar kröfu kærenda um að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Hafa nefndinni borist sjónarmið þeirra og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu.

Málavextir:  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 22. júní 2004 var tekin fyrir beiðni um heimild til að breyta notkun hússins nr. 2 við Pósthússtræti úr skrifstofuhúsnæði í hótel með 50 herbergjum.  Samkvæmt umsókninni var gert ráð fyrir að í kjallara yrði eldhús, þvottahús, geymslur, skrifstofur o.fl.  Á fyrstu hæð yrði móttaka, setustofa, veitingasalur o.fl., og á annarri til fimmtu hæð 50 tveggja manna herbergi með snyrtingum, þar af þrjú sérhönnuð fyrir fatlaða.  Jafnframt var sótt um leyfi til að gera innangengt milli hússins og annarrar til fjórðu hæðar hússins nr. 28 við Tryggvagötu og samnýta sorpgeymslu, bakdyrainngang og aðkomu að lóð með því húsi.  Var erindinu frestað en tekið fyrir að nýju á fundi byggingarfulltrúa hinn 14. september 2004.  Var þá sótt um leyfi til að breyta notkun hússins nr. 2 við Pósthússtræti og nr. 28 við Tryggvagötu úr skrifstofuhúsnæði í hótel með 59 herbergjum, með fyrirkomulagi sem nánar er lýst í umsókninni.  Var erindinu frestað á ný. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. september 2004 var samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna sameiningar lóðanna nr. 2 við Pósthússtræti og Tryggvagötu 28 sem grenndarkynnt skyldi hagsmunaaðilum á svæðinu.  Þá samþykkti nefndin að vísa byggingarleyfisþætti málsins til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Hinn 15. október 2004 veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík takmarkað byggingarleyfi m.a. til að rífa og undirbúa framkvæmdir í húsunum að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28 vegna fyrirhugaðra breytinga.  Kröfðust kærendur ógildingar þeirrar ákvörðunar fyrir úrskurðarnefndinni sem með úrskurði hinn 11. nóvember 2004 féllst á þá kröfu þeirra. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 2 við Pósthússtræti og nr. 28 við Tryggvagötu var grenndarkynnt hagsmunaaðilum frá 29. september til 27. október 2004 og bárust athugasemdir frá kærendum.  Fól tillagan í sér að heimilt yrði að sameina lóðirnar nr. 2 við Pósthússtræti og nr. 28 við Tryggvagötu í eina lóð.  Á uppdrætti sem sýndi breytinguna var gerð grein fyrir kvöð sem hvílir á 30,2m² á lóðinni nr. 28 við Tryggvagötu og lóðum nr. 7, 9 og 11 við Hafnarstræti.  Efni kvaðarinnar er að lóðarhöfum er heimilaður frjáls og óhindraður umferðarréttur að lóðunum.  Með tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðanna nr. 2 við Pósthússtræti og nr. 28 við Tryggvagötu skyldi hvorki aukið við kvöðina né eðli hennar eða inntaki breytt. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. nóvember 2004 var lögð fram tillaga skipulagsfulltrúa að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, varðandi lóðirnar nr. 2 við Pósthússtræti og nr. 28 við Tryggvagötu og af því tilefni bókaði nefndin eftirfarandi:  „Kynnt deiliskipulagstillaga samþykkt, sbr. 4. gr. samþykktar fyrir skipulags- og byggingarnefnd, með þeim breytingum sem fram koma í framlagðri umsögn.  Skipulags- og byggingarnefnd áréttar og leggur sérstaka áherslu á að með breytingunni er ekki verið að auka heimildir lóðarhafa til notkunar á kvöðinni sem liggur um Hafnarstræti 7, til handa lóðinni nr. 28 við Tryggvagötu.  Lóðarhöfum hinnar sameinuðu lóðar sé því ekki heimilt að stöðva bifreiðar í kvöðinni til affermingar enda myndu slík not takmarka rétt athugasemdaaðila til umferðar um kvöðina.  Ljóst sé þó að slík not séu þeim heimil í undantekningartilvikum að höfðu samráði við athugasemdaaðila.“  Auglýsing um hið kærða deiliskipulag birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 29. nóvember 2004. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. nóvember 2004 var samþykkt að veita byggingarleyfi vegna Pósthússtrætis 2 og Tryggvagötu 28 og eftirfarandi bókað af því tilefni:  „Sótt er um leyfi til að breyta notkun hússins nr. 2 við Pósthússtræti (fyrrum hús Eimskipafélagsins) og nr. 28 við Tryggvagötu á lóðinni Tryggvagata 28, Pósthússtræti 2 úr skrifstofuhúsnæði í hótel.  Í kjallara verði eldhús, þvottahús, geymslur, tæknirými o.fl., á fyrstu hæð móttaka, setustofa, veitingasalur o.fl., á annarri hæð salur með friðuðum innréttingum og á annarri til fimmtu hæð samtals 59 tveggja manna hótelherbergi með snyrtingum, þar af fimm sérhönnuð fyrir hreyfihamlaða.  Jafnframt er sótt um leyfi til að gera innangengt milli húsanna á öllum hæðum nema fyrstu hæð, koma fyrir bakdyrainngangi, breyta fyrirkomulagi sorpgeymslu og setja nýja þakglugga á bæði húsin….Samþykkt“.

Hafa kærendur skotið framangreindum ákvörðunum skipulags- og byggingaryfirvalda til úrskurarnefndarinnar svo sem fyrr er getið. 

Málsrök kærenda:  Varðandi kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda er snúi að sameiningu lóðanna vísa þeir einkum til þess að sameining lóðanna lúti að þáttum er snerti sameiningu húsanna.  Aðallega sé átt við niðurbrot veggja á milli fasteignanna og aðrar tengingar á milli bygginganna.  Slíkar framkvæmdir séu háðar því að lóðirnar hafi verið sameinaðar.  Kærendum sé ekki kunnugt um hvort slíkum framkvæmdum sé lokið eður ei. 

Krafa um stöðvun framkvæmda á grundvelli byggingarleyfis lúti í fyrsta lagi að því að stöðvaðar verði framkvæmdir við gerð þakglugga á lóðarmörkum.  Rök þar að baki séu brunavarnarlegs eðlis og með kröfunni sé leitast við að koma í veg fyrir að rofið verði gat í þakið og brunavarnir þannig laskaðar. 

Í öðru lagi að framkvæmdir verði stöðvaðar vegna ætlaðrar uppsetningar útblásturskerfa er liggi beint inn á lóðir kærenda.  Hér skipti máli að um sé að ræða útblástur frá stóru hóteli með veitingastað, sem veitt sé beint inn á lóðirnar.  Nær öruggt sé að slíkt fyrirkomulag muni valda þeim tjóni og óþægindum.

Í þriðja lagi krefjast kærendur stöðvunar framkvæmda vegna fyrirhugaðrar uppsetningar þakblásara rétt við svefnherbergisglugga þeirra.  Bent sé á að hagsmunir kærenda séu ríkir enda fyrirséð að slíkur blásari muni valda þeim verulegum óþægindum.  Ekki sé nauðsynlegt fyrir framkvæmdirnar að þessi blásari fari strax upp.

Kærendur geri sér grein fyrir því að stöðvun framkvæmda sé viðurhlutamikið úrræði og að slíku úrræði skuli einungis beitt þegar um brýna hagsmuni sé að ræða.  Kærendur telji að eldvarnir íbúðar þeirra séu brýnir hagsmunir sem og hávaði fyrir utan svefnherbergi þeirra og útblásturs inn á lóð þeirra.  Þeir bendi einnig á að stöðvun þessara hluta framkvæmdanna muni ekki stöðva aðra hluta þeirra og geti byggingarleyfishafi haldið þeim áfram.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hafnað verði kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Því sé haldið fram að með deiliskipulagsbreytingunni sé ekki verið að skerða réttindi kærenda til aðkomu að lóð þeirra á neinn hátt og sú breyting geti ekki leitt til ógildingar hennar á grenndarréttarlegum forsendum.

Með vísan til fyrirliggjandi gagna sé ljóst að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá liggi einnig fyrir að hún raski ekki grenndarréttarlegum hagsmunum kærenda.  Hafna beri kröfu um stöðvun framkvæmda sem lúti að sameiningu lóðanna á meðan málið sé til efnisúrlausnar um deiliskipulagsþáttinn.  Bent sé á að engra framkvæmda sé þörf til að sameina lóðirnar. 

Varðandi kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða byggingarleyfis sé bent á að athugasemdir kærenda vegna þess séu minniháttar.

Reykjavíkurborg hafnar því að þakgluggar á Pósthússtræti 2 brjóti gegn grenndarhagsmunum kærenda og ákvæðum byggingarreglugerðar.  Forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi ritað á umsóknina og fyrir liggi brunahönnunarskýrsla vegna framkvæmdanna, dags. 1. júlí 2004, þar sem nánar sé gerð grein fyrir brunavörnum hússins.

Gert sé ráð fyrir að útblástur frá salernum í Pósthússtræti 2 verði á þaki hússins.  Útloftun frá hótelherbergjum að Tryggvasgötu 28, þ.m.t. salernum, verði hins vegar leidd út við vesturenda hússins.  Óhugsandi sé að það geti haft grenndaráhrif eða óþægindi í för með sér umfram það sem búast megi við á slíkum svæðum eða vegna loftræsingar húsa almennt.

Rangt sé að blásari á þaki hússins Pósthússtræti 2 sé rétt við lóðarmörk kærenda.  Að öðru leyti sé bent á að um sé að ræða hefðbundið loftræsikerfi sem hafi engin neikvæð grenndaráhrif og ljóst sé að hávaðamengun af slíku kerfi sé lítil sem engin eins og alkunna sé. 

Reykjavíkurborg heldur því fram að engar forsendur séu til stöðvunar framkvæmda í málinu enda lúti leyfið nánast eingöngu að framkvæmdum innanhúss.  Allar framkvæmdirnar séu afturkræfar og því engir hagsmunir kærenda sem réttlætt geti, að teknu tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, beitingu svo viðurhlutamikils úrræðis sem stöðvun framkvæmda sé.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að hafnað verði kröfu um stöðvun framkvæmda eða henni vísað frá úrskurðarnefndinni vegna vanreifunar. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu vísar byggingarleyfishafi til þess að heimild skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um stöðvun framkvæmda skuli einungis beita þegar um sé að ræða brýna hagsmuni og hætta sé á að kærandi verði fyrir verulegu og óbætanlegu tjóni, sé framkvæmdum fram haldið.  Stöðvunarákvæðið sé íþyngjandi ákvæði sem sæta skuli þröngri lagaskýringu.  Sönnunarbyrðin um að nauðsynlegir hagsmunir séu fyrir hendi hvíli á kærendum og hafi þeir ekki sýnt fram á þá hagsmuni. 

Annars vegar sé þess krafist af hálfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar vegna þeirrar ákvörðunar skipulags- og bygginganefndar að sameina umræddar lóðir. Byggingarleyfishafi heldur því fram að hann geti framkvæmt fyrirliggjandi breytingar á umræddum fasteignum án sameiningar lóðanna.  Það séu því ekki fyrir hendi forsendur fyrir stöðvunarkröfu kærenda að þessu leyti.  Þær breytingar sem verið sé að framkvæma, m.a. á grundvelli umræddrar sameiningar, séu þess eðlis að þær varði kærendur engu.  Mest sé um að ræða breytingar innanhúss sem ekki hafi áhrif á hagmuni kærenda.

Hins vegar þá krefjist kærendur stöðvunar framkvæmda með vísan til teikninga húsanna.  Einnig hér sé um að ræða breytingar sem varði kærendur engu, hvorki að settum lögum né samkvæmt reglum um nábýlisrétt. 

Þá hafnar byggingarleyfishafi því að þakgluggar hússins að Tryggvagötu 28, loftfrákastsrör frá salernum og þakblásari brjóti gegn grenndarhagsmunum kærenda. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu annars vegar deilt um lögmæti breytts deiliskipulags lóðanna að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28 og hins vegar ákvörðunar byggingarfulltrúa þess efnis að veita heimild til breytinga á innra fyrirkomulagi og breyttrar notkunar húsanna sem á fyrrgreindum lóðum standa. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er sett fram krafa um frávísun stöðvunarkröfu kærenda vegna vanreifunar.  Á þessa kröfu verður ekki fallist.  Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála starfar á stjórnsýslusviði og gilda því ekki reglur dómstólaréttarfars um málsforræði aðila við meðferð mála hjá nefndinni heldur ákvæði stjórnsýslulaga.  Af því leiðir að nefndinni ber að skýra kröfugerð aðila eða leita skýringa á henni ef þurfa þykir, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kröfu byggingarleyfishafa um frávísun því hafnað.

Ekki verður fallist á að stöðva beri framkvæmdir vegna ágreinings um gildi þeirrar breytingar á deiliskipulagi sem kærð er í málinu.  Er ekki sýnt að umrædd breyting hafi verið nauðsynleg forsenda þess að unnt væri að veita byggingarleyfi það sem um er deilt, heldur má allt eins ætla að leyfið hefði getað átt fullnægjandi stoð í óbreyttu skipulagi svæðisins.  Veltur gildi hins umdeilda byggingaleyfis því ekki á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um skipulagsþátt málsins.

Hið kærða byggingarleyfi lýtur aðallega að framkvæmdum inannhúss, þ.e. breytingum á innra fyrirkomulagi húsanna að Pósthússtræti 2 og Tryggvagötu 28, sem felast í því að breyta skrifstofurýmum í 59 herbergja hótel og gera innangengt milli efri hæða húsanna.  Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þessar framkvæmdir ekki þess eðlis að framhald þeirra sé líklegt til að raska um of hagsmunum kærenda eða hafa áhrif á niðurstöðu máls þessa. 

Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda, sem hafnar eru á grundvelli stjórnvaldsákvarðana þeirra sem um er deilt í málinu.

Í innsendum athugasemdum kærenda er gerð nánari grein fyrir kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda.  Verður að skilja málatilbúnað þeirra á þann veg að krafa um stöðvun framkvæmda takmarkist til vara við tiltekna þætti, þ.e. við gerð þakglugga á lóðamörkum, uppsetningu útblásturskerfa og þakblásara. 

Í þessari kröfugerð felst að krafist er frestunar réttaráhrifa að hluta.  Hinar umdeildu framkvæmdir styðjast hins vegar við eitt byggingarleyfi og þykja ekki vera skilyrði til að sundurgreina með skýrum hætti einstaka þætti þess og stöðva framkvæmdir við sumt en annað ekki.  Verður því ekki fallist á að stöðva framkvæmdir við þá þætti verksins sem kærandi tilgreinir en vænta verður þess að fyllsta öryggis verði gætt við framkvæmd verksins og að fullnægt verði kröfum um brunavarnir og brunahönnun byggingarinnar.  Verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda að hluta því einnig hafnað.

Þrátt fyrir framangreint eru frekari framkvæmdir við bygginguna á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu byggingarleyfishafa um frávísun kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda deiliskipulagi og hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

___________________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________             _______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                             Ingibjörg Ingvadóttir

1/2004 Þingholtsstræti

Með

Ár 2004, fimmtudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2004, kæra eigenda íbúða á 1, 2. og 3. hæð að Þingholtsstræti 7a og íbúa að Þingholtsstræti 8a í Reykjavík á þeirri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til að innrétta skemmtistað á 1. hæð atvinnuhússins að Þingholtsstræti 5.

Er í málinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. desember 2003, sem barst nefndinni 5. janúar 2004, kæra D og B, Blikanesi 2, Garðabæ, sem eigendur íbúðar á 3. hæð að Þingholtsstræti 7a og f.h. Sólbliks ehf., sem eiganda íbúða á 1. og 2. hæð í sama húsi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 að veita leyfi til að innrétta skemmtistað á 1. hæð atvinnuhússins Þingholtsstræti 5.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur hinn 4. desember 2003.

Framangreindir kærendur krefjast þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að hún verði ómerkt og að lagt verði fyrir skipulags- og byggingarnefnd að taka umsóknina til afgreiðslu á nýjan leik.  Jafnframt kröfðust kærendur þess að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi yrðu stöðvaðar ef til þeirra kæmi.  Engar framkvæmdir hafa átt sér stað á grundvelli leyfisins og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun þeirra.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni barst henni, hinn 6. janúar 2004, kæra frá B, íbúa að Þingholtsstræti 8a í Reykjavík, þar sem kærð er sama ákvörðun og í máli þessu.  Er þar byggt á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og í fyrrnefndri kæru og eru hagsmunir kærenda í báðum málunum sambærilegir.  Ákvað úrskurðarnefndin því að sameina kærumálin í eitt mál og var síðargreint kærumál sameinað því máli sem fyrr barst úrskurðarnefndinni og er það nr. 1/2004.

Málavextir:  Húsið að Þingholtsstræti 5 er á deiliskipulögðum reit með staðgreininúmerinu 1.170.3.  Deiliskipulag reitsins öðlaðist gildi hinn 16. ágúst 2002.  Í húsinu hefur til skamms tíma verið rekinn skemmtistaður í kjallara og gistiþjónusta á efri hæðum. Húsið, sem er skilgreint sem atvinnuhúsnæði, er allt í eigu byggingarleyfishafa.

Í ágúst 2003 sótti byggingarleyfishafi um leyfi byggingaryfirvalda til að innrétta skemmtistað á 1. hæð hússins að Þingholtsstræti 5.  Erindið var tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa hinn 26. ágúst 2003 og var þá vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 19. september sama ár var erindið tekið fyrir og samþykkt að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Þingholtsstræti 3, 7, 8 og 8a.  Kynningin átti sér stað frá 24. september til 24. október 2003.  Bréf voru send til átján aðila í nágrenninu og bárust átta athugasemdir. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 26. nóvember 2003 var erindið tekið til afgreiðslu og var þá bókað að fyrir nefndinni lægju athugasemdir og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 24. nóvember 2003.  Í umsögninni sagði m.a. að fyrirhuguð breyting á hagnýtingu 1. hæðar hússins félli bæði að ákvæðum aðalskipulags sem og gildandi deiliskipulags um landnotkun.  Þá var í umsögninni fjallað um tæknilegan frágang hússins, þannig að ekki yrði raskað grenndarhagsmunum umfram það sem búast mætti við á miðborgarsvæði að því er hljóðvist, lykt o.þ.h. varðaði.  Áfram sagði að ekki væri ástæða til að ætla að vandkvæði yrðu vegna lyktarmengunar, sorplosunar eða vegna bílastæða.  Að því er hljóðvist varðaði var lagt til að við lokaúttekt yrði staðfest með mælingum að húsnæðið uppfyllti kröfur byggingarreglugerðar og reglugerðar um hávaða.  Var vísað í því sambandi til nokkurra greinargerða sérfræðinga, sem um málið höfðu fjallað, þar sem fram komu tillögur að úrbótum á húsinu þannig að kröfur um hljóðvist yrðu uppfylltar.  Afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á erindinu var með eftirfarandi hætti:  „Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.  Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits og prófun á hljóðvist staðarins.“ 

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var kynnt sömu aðilum og fengið höfðu umsóknina til umsagnar í grenndarkynningunni.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að í Þingholtsstræti 1 og 2 séu reknir veitingastaðir og í kjallara hússins nr. 5 við Þingholtsstræti sé þegar rekinn veitingastaður.  Síðan sá veitingastaður hafi verið opnaður hafi ástandið í hverfinu versnað til muna.  Mikill ágangur sé í port sem sé á milli húsanna nr. 5 og 7 við Þingholtsstræti en úr því sé inngangur í húsin nr. 7 og 7a.  Þetta hafi valdið íbúum húsanna miklu ónæði og óþægindum, hávaði og ágangur ölvaðra manna sé með ólíkindum og þurfi íbúar daglega að hreinsa upp alls kyns óþrifnað.    Kærendur telji mjög vanhugsað að heimila einn veitingastað til viðbótar í götunni sem sé þröng og nú þegar sé mikil umferð um hana.  Hávaði og annað ónæði vegna gesta veitingastaðanna sem fyrir séu á svæðinu sé nánast óbærilegt íbúum við götuna og í næsta nágrenni.  Í skipulagi sé gatan skilgreind sem miðbæjargata með blöndu af íbúðarbyggð, verslunarrekstri og skyldri starfsemi.  Kærendur telji, þrátt fyrir framangreinda heimild í skipulagi, að hin kærða ákvörðun sé í andstöðu við aðal- og deiliskipulag þar sem með henni verði á svæðinu of margir veitingastaðir í hlutfalli við fjölda íbúða.   

Kærendur benda á að skemmtistaður sá sem hér um ræði muni verða opinn nánast næturlangt um helgar og honum muni fylgja hávaði af ölvuðum einstaklingum með tilheyrandi óþrifnaði, glerbrotum o.fl.  Hávaði af umferð verði einnig mikill og telji kærendur ósennilegt að gatan anni bílaumferð sem fylgja muni starfseminni.  Engin sérstök bílastæði fylgi veitingastaðnum, hvorki fyrir starfsfólk né gesti, en bílastæðavandi á svæðinu sé ærinn fyrir.  Þá telji og kærendur að sorpaðstaða veitingastaðarins sé ekki viðunandi, muni það leiða muni til mikils sóðaskapar í götunni.    Þá draga kærendur í efa að hið kærða byggingarleyfi samrýmist þeirri starfsemi sem vera eigi í húsinu.    Að lokum áskilja kærendur sér rétt til bóta vegna eignarýrnunar sem þau gætu orðið fyrir, verði hin kærða samþykkt staðfest, þar sem þau telji mestar líkur á að eignir þeirra verði verðminni en ella. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði staðfest.  Málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar þeirrar sem kærð sé hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga.  Þegar umsögn um hljóðvist hússins hafi legið fyrir hafi byggingarfulltrúi vísað umsókninni til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Með vísan til þess að til hafi verið deiliskipulag af reitnum sem heimili starfsemi þá sem hin kærða samþykkt lúti að, auk þess sem starfsemin samræmist aðalskipulagi, hafi verið ákveðið á fundi skipulagsfulltrúa hinn 19. september 2003 að umsóknin yrði sérstaklega kynnt hagsmunaaðilum í nágrenni fasteignarinnar.  Kynningarbréf hafi verið send til átján hagsmunaaðila í nágrenninu og hafi borist átta athugasemdabréf.  Hafi athugasemdunum verið svarað með ítarlegri umsögn skipulagsfulltrúa og skipulags- og byggingarsviðs, dags. 24. nóvember 2003.  

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að umrætt húsnæði sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.  Gatan sé skilgreind sem hliðarverslunarsvæði V-II.I, en ekki sem íbúðarsvæði milli Bankastrætis og Amtmannsstígs og sé samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags hliðarverslunargata í miðborg þar sem fjölbreytileg notkun sé leyfð, þ.m.t. rekstur veitingastaða.  Um landnotkun á miðborgarsvæðinu sé fjallað sérstaklega í sérstakri greinargerð með Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, Greinargerð III, Þróunaráætlun miðborgar, Landnotkun.  Um ákvörðun þá sem hér um ræði gildi m.a.:  „Afgreiðslutími áfengis á svæðum V- I.I og V- II.I.  Borgaryfirvöld vilja, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs. Rétt þykir í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V- I.I og hliðarverslunarsvæðum V- II.I.“  Á svæði því sem hér um ræði, hliðarverslunarsvæði V- II.I, sé sérstaklega gert ráð fyrir rýmri opnunartíma veitingastaða.  Þingholtsstræti hafi ekki verið skilgreint sem sérstakt götusvæði þar sem takmarkanir gilda um fjölda veitingastaða eða aðra starfsemi.  Bent sé á að í deiliskipulagi reitsins, sem beri heitið „Deiliskipulag stgr. 1.170.3“, sé ekki frekari takmörkun á landnotkun svæðisins frá því sem aðalskipulag geri ráð fyrir.  Í greinargerð um núverandi ástand á reitnum komi fram að fjölbreytt starfsemi sé á götuhæðum sem sé í samræmi við markmið Þróunaráætlunar.  Á efri hæðum séu yfirleitt íbúðir.  Deiliskipulagið byggi m.a. á „Almennum deiliskipulagsskilmálum fyrir Miðborgarsvæði Reykjavíkur“, dags. í janúar 2002.  Umsóknin falli því bæði að ákvæðum aðal- og deiliskipulags.   Samkvæmt aðal- og deiliskipulagi svæðisins sé gert ráð fyrir að starfsemi af því tagi sem hér um ræði sé heimil ef uppfyllt séu skilyrði um frágang og notkun húsnæðisins sem miði að því að taka sérstaklega tillit til íbúa og jafnvel annarra hagsmunaaðila í nágrenninu.  Tryggja þurfi, þegar fjallað sé um byggingarleyfi á þessum stöðum, að allur tæknilegur frágangur húseignarinnar verði með þeim hætti að ekki sé hætta á röskun grenndarhagsmuna umfram það sem eðlilegt megi teljast á miðborgarsvæði, sérstaklega hvað varði atriði eins og hljóðvist vegna starfsemi innanhúss.  Til að tryggja ofangreind atriði sé í gildi eftirfarandi stefnumarkandi samþykkt um notkun í aðalskipulagi (Greinargerð III):  „Notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða.  Skilyrði fyrir að veitt verði leyfi fyrir notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða (s.s. bakhúsum og efri hæðum) eru eftirfarandi:  Notkunin hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum. Notkunin hafi ekki í för með sér óæskilega aukningu umferðar, aðgengi verði tryggt og bílastæðakröfum fullnægt.” 

Með byggingarleyfisumsóknum á því svæði sem hér um ræði beri að leggja fram greinargerð um hljóðvist og í máli því sem hér sé til umfjöllunar hafi legið fyrir greinargerðir um hljóðvist hússins frá TSO Tækniþjónustu, dags. 12. maí 2003, sbr. einnig bréf TSO, dags. 20. mars 2003, auk mælingaskýrslu Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, dags. 14. apríl 2003.  Hjá byggingarfulltrúa hafi einnig legið fyrir minnispunktar Akustikon hljóðtækniráðgjafar ehf., dags. 18. september og 16. nóvember 2003.  Í þessum gögnum komi fram að gera þurfi úrbætur á húsnæðinu til að uppfylla kröfur um hljóðvist í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar og reglugerðar um hávaða, bæði gagnvart umhverfinu og innan hússins sjálfs.   Bent sé á að við afhendingu sérteikninga og við lokaúttektir beri byggingarfulltrúa að ganga úr skugga um að framkvæmt verði í samræmi við þær greinargerðir um hljóðvist sem liggi fyrir í málinu.  Á fyrirliggjandi aðaluppdráttum sé fullyrt að ráðstafanir verði gerðar til að tryggja 65 dB hljóðeinangrun og að hljóðstig innanhúss fari ekki upp fyrir 85 dB.  Þetta séu allt skilyrði sem sett séu fyrir útgáfu veitingaleyfis.  Við lokaúttekt á umræddum breytingunum verði staðfest með mælingum að húsnæðið uppfylli kröfur umræddra reglugerða varðandi hljóðvist.  

Í byggingarleyfisumsókn komi fram að gert sé ráð fyrir að matur verði eldaður á staðnum.  Samkvæmt uppdráttum sé gert ráð fyrir að loftræsing frá staðnum tengist loftræsitúðu sem nái upp úr þaki.  Ekki sé því hætta á lyktarmengun vegna eldhússins.   Hvað sorplosun varði þá muni sorp frá skemmtistaðnum verða geymt í sameiginlegri sorpgeymslu innanhúss.  Ekki sé því um að ræða nein frávik frá vanabundinni sorpmeðhöndlun og því ætti það fyrirkomulag ekki að valda nágrönnum neinu frekari ónæði eða óþægindum.  Ef sýnt verði fram á að nauðsynlegt verði að tryggja frekar frágang sorps og sorplosun muni heilbrigðiseftirlit gera frekari kröfur.    Af hálfu Reykjavíkurborgar sé vísað til þess að fasteignin að Þingholtsstræti 5 sé skráð atvinnuhúsnæði og skapi því bílaumferð í samræmi við það.  Bílastæðakröfur til húsnæðisins hafi þar af leiðandi ekki breyst og umrædd notkunarbreyting muni væntanlega ekki skapa meiri umferð akandi eða gangandi á hefðbundnum skrifstofutíma en almennt verði að gera ráð fyrir í slíku húsnæði.   Ljóst þyki þó að hætta sé á ónæði frá gestum á kvöldin og um nætur um helgar.  Aðalumkvörtunarefni kærenda lúti frekar að almennum reglum um hegðun borgaranna á almannafæri en að skipulagslegum forsendum miðborgarinnar.  Í þessu samhengi megi vísa til ábyrgðar rekstraraðila samkvæmt lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg.  Í 23. gr. hennar komi fram að hver sá sem reki veitingastað skuli sjá um að allt fari þar vel fram og að starfsemin valdi hvorki nágrönnum né vegfarendum ónæði.  Brot á lögreglusamþykktinni geti varðað sviptingu nauðsynlegra leyfa vegna starfseminnar.   Skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi þrátt fyrir þetta að hafa til hliðsjónar þau áhrif sem starfseminni fylgja utandyra en að sama skapi sé ómögulegt að meta hvort þau áhrif sem hin kærða samþykkt heimili leiði til þeirrar skerðingar á hagsmunum nágranna sem fullyrt sé af hálfu kærenda.  Í sama  húsi, auk nærliggjandi húsa, hafi verið reknir veitingastaðir og skemmtistaðir til fjölda ára.  Ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það hefði verið brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga ef umsókn byggingarleyfishafa hefði sætt annarri meðferð og takmörkunum en umsóknir þeirra aðila sem nú þegar séu með rekstur á svæðinu.  Ekki sé hægt að rökstyðja synjun þar sem fyrirhuguð nýting sé í samræmi við skilmála svæðisins og hafi byggingarleyfishafi að öllu leyti uppfyllt þau skilyrði sem honum hafi verið sett fyrir veitingu leyfisins í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.   

Í ljósi alls framangreinds, sérstaklega hvað varði grenndarréttarleg sjónarmið og þeirrar staðreyndar að hið kærða leyfi sé í samræmi við skipulag svæðisins auk þess sem samþykki meðeiganda í húsinu liggi fyrir, verði að telja að Reykjavíkurborg hafi hvorki haft skipulags- né málefnalegar ástæður til að synja hinni umþrættu byggingarleyfisumsókn.  

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að hafnað verði kröfum kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis sem og kröfum um ómerkingu leyfisins og heimvísun.

Byggingarleyfishafi bendir á að umsókn hans hafi hlotið þá meðferð skipulags- og byggingaryfirvalda, sem áskilin sé í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og sem borgaryfirvöld hafi sett sér.  Sú grenndarkynning, sem kveðið sé á um í skipulags- og byggingarlögum og í reglum borgarinnar, feli í sér möguleika einstaklinga og lögpersóna til að koma á framfæri athugasemdum um skipulag og framkvæmdir í nágrenni sínu.  Þessir aðilar hafi aftur á móti ekki neitunarvald um skipulag eða framkvæmdir, þótt sú tillaga eða umsókn, sem til kynningar sé hverju sinni, sé þeim ekki að skapi.  Engar upplýsingar liggi fyrir um að málsmeðferð og afgreiðsla borgarinnar á umsókn hans hafi verið haldin annmörkum.

Byggingarleyfishafi vísar til þess að eignarréttur hans að Þingholtsstræti 5 sé meðal annars varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnskipunarlög nr. 33/1944 með síðari breytingum.  Í eignarréttinum felist afdráttarlaus réttur hans til að nýta sér eign sína með þeim hætti sem hann kjósi, að því marki sem nýtingaráformum hans séu ekki settar skorður í skýrum og ótvíræðum ákvæðum laga eða af tilliti til brýnna hagsmuna þriðja manns, svo sem nágranna.  Hagsmunir þriðja aðila þurfi í þeim tilvikum að vera skýrir og ótvíræðir og hafið yfir allan skynsamlegan vafa að hagsmunir hans séu brýnni en hagsmunir byggingarleyfishafa.  Þar sem takmarkanir af þessu tagi feli í sér skerðingu á stjórnarskrárvernduðum réttindum byggingarleyfishafa beri að túlka þær þröngt og virða allan vafa í þeim efnum honum í hag.

Byggingarleyfishafi telur að fyrirhuguð breyting á hagnýtingu 1. hæðar hússins að Þingholtsstræti 5 falli vel að stefnumörkun borgarinnar um skipulag og samsetningu atvinnustarfsemi á svæðinu, eins og hún birtist í aðalskipulagi borgarinnar og deiliskipulagi reits nr. 1.170.3.

Í kafla þeim, þar sem fjallað sé um landnotkun og nýtingarhlutfall í aðalskipulagi Reykjavíkur, segi m.a. svo um landnotkun á miðborgar/miðhverfissvæði borgarinnar:  „Hér er annars vegar um að ræða hina eiginlegu miðborg Reykjavíkur og hins vegar þær verslunarmiðstöðvar sem ætlað er að þjóna allri borginni.  Um er að ræða blandaða starfsemi, s.s. verslun, þjónustu, opinberar stofnanir, menningarstofnanir, gistiheimili, hótel, veitingastaði, bensínstöðvar og íbúðir.“

Sá hluti götunnar, sem húsið standi á, sé samkvæmt nýlegum breytingum á aðalskipulaginu ekki skilgreindur sem íbúðasvæði eða íbúðagata, heldur sem hliðarverslunarsvæði V- II.I.  Um sé að ræða svæði þar sem leyfð sé og verði fjölbreytileg notkun, þ. á m. rekstur skemmtistaða og veitingastaða.  Um svæðið gildi m.a. neðangreint ákvæði Þróunaráætlunar miðborgarinnar, sem teljist hluti aðalskipulags borgarinnar:  „Afgreiðslutími áfengis á svæðum V- I.I og V- II.I.  Borgaryfirvöld vilja, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs. Rétt þykir í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V-I.I og hliðarverslunarsvæðum V- II.I.“

Í skýringum með þessu ákvæði komi m.a. fram að svæðin séu nálægt miðborgarkjarnanum þar sem mest veitingastarfsemi sé í dag.  Þau séu einnig fjær íbúðabyggð en önnur verslunarsvæði.  Samhæfing afgreiðslutíma áfengis á svæðinu skapi tengsl við veitingastarfsemi miðborgarkjarnans og stuðli að því að stærri hluti næturlífsins sé á tilgreindu svæði.

Þá sé og í Þróunaráætlun miðborgarinnar kveðið á um notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða.  Fram komi að skilyrði fyrir því að veitt verði leyfi fyrir notkun utan hinna skilgreindra götusvæða séu þau að notkunin hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum, og jafnframt að notkunin hafi ekki í för með sér óæskilega aukningu umferðar, að aðgengi verði tryggt og bílastæðakröfum verði fullnægt.

Í deiliskipulagi reits nr. 1.170.3, þ.m.t. í greinargerð og skilmálum með deiliskipulaginu, sé landnotkun ekki skilgreind nákvæmar en fram komi í aðalskipulaginu.  Vert sé að vekja athygli á grein 4.3.3 í skilmálum deiliskipulagsins, þar sem fram komi eftirfarandi:  „Ljóst er að hávaði við íbúðir í miðborginni og jaðarsvæðum verður í einhverjum tilvikum meiri en æskilegt er á íbúðarsvæðum.  Við hönnun íbúðarhúsnæðis og breytingar á eldra húsnæði skal leitast við að halda óþægindum af völdum hávaða í lágmarki með þeim aðgerðum sem tækar eru.“

Byggingarleyfishafi telur, með vísan til framangreinds, að hin fyrirhugaða breyting sé í fullu samræmi við skilgreinda landnotkun samkvæmt aðalskipulaginu, enda séu uppfyllt skilyrði skipulagsins um hljóðvist, sorplosun, lyktarmengun o.fl.  Sú starfsemi, sem hann ráðgeri þar, falli að þeirri fjölbreyttu landnotkun, sem borgaryfirvöld telji æskilega og eftirsóknarverða á þessum hluta miðborgarsvæðisins. Sú breyting eða þau áhrif, sem starfsemin kunni að hafa á umhverfi sitt, séu ekki umfram það sem búast megi við á skilgreindum miðborgarsvæðum.

Hvað hljóðvist varði þá sé bent á að skilyrði byggingarleyfisins séu lokaúttekt byggingarfulltrúa, samþykki heilbrigðiseftirlits og prófun á hljóðvist staðarins.  Þannig sé tryggt að rekstur skemmtistaðarins hefjist ekki nema uppfylltar séu kröfur, bundnar í lögum og reglugerðum, um hljóðvistina.  Nágrannarnir geti ekki gert frekari kröfur að þessu leyti.

Að því er umgengni og hegðun á götum borgarinnar varði telji byggingarleyfishafi varhugavert að líta svo á að ónæði það, sem íbúar í húsum í Þingholtsstrætinu á reit 1.170.3 telji sig verða fyrir, muni aðallega eða eingöngu stafa frá þeirri starfsemi, sem rekin verði í Þingholtsstræti 5.  Húsið standi mjög nálægt Bankastræti og eðlilega gæti einhverra áhrifa gangandi fólks þaðan upp í hliðargöturnar.  Eigendur veitinga- og skemmtistaða geti almennt ekki borið ábyrgð á hegðun og framkomu viðskiptavina þeirra utanhúss.

Byggingarleyfishafi vísar til bréfs lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 19. október 2004, þar sem fram komi upplýsingar um lögregluútköll, er tengist starfsemi skemmtistaðar í kjallara hússins að Þingholtsstræti 5.  Af þessu tilefni sé m.a. vakin athygli á að ekki liggi fyrir vitneskja um að íbúar í nágrenninu eða aðrir hafi kvartað til lögreglu vegna ónæðis frá staðnum og þó það komi ekki skýrt fram í bréfinu megi teljast mjög líklegt að í mörgum eða flestum hinna skráðu tilvika hafi verið um að ræða útköll vegna atburða, er gerst hafi inni á skemmtistaðnum fremur en utanhúss.  Einnig sé bent á að vegna nálægðar skemmtistaðarins að Þingholtsstræti 5 við aðra skemmtistaði og Bankastrætið sé ekki ólíklegt að í einhverjum tilvikum megi tengja útköllin við gesti og gangandi annars staðar frá, fremur en við viðskiptavini staðarins.

Byggingarleyfishafi telji framangreint sýna glöggt að áhrifin af rekstri skemmtistaðarins að Þingholtsstræti 5 á umhverfið séu í raun ótrúlega lítil.  Hann telji jafnframt að áhrifin af rekstri skemmti- eða veitingastaðar á 1. hæð hússins muni verða vel innan þeirra marka, sem með sanngirni megi hafa á svæði, sem skilgreint sé sem hliðarverslunarsvæði og sem hafi í skipulagsáætlunum borgarinnar sérstaka tengingu við veitingastarfsemi í miðborgarkjarna hennar.

Byggingarleyfishafi hefur lagt fram gögn um það hvernig hann telur að draga megi úr neikvæðum áhrifum hinnar umdeildu starfsemi, m.a. með því að loka aðkomu að porti milli húsanna nr. 5 og 7 við Þingholtsstræti og kveðst hann hafa boðist til að bera kostað af nauðsynlegum umbúnaði til þess.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi en ekki þótti þörf á að boða til formlegrar vettvangsgöngu vegna máls þessa.

Niðurstaða:  Í meginatriðum er úrlausnarefni máls þessa tvíþætt.  Annars vegar eru til úrlausnar álitaefni er varða form og málsmeðferð, en hins vegar hvort hið umdeilda byggingarleyfi samræmist deiliskipulagi og þá jafnframt hvort fyrirhugaðri starfsemi fylgi ónæði eða önnur neikvæð grenndaráhrif umfram það sem kærendur þurfi að una.

Úrskurðarnefndin telur að ágalli hafi verið á meðferð málsins hvað varðar kynningu þess gagnvart hagsmunaaðilum.  Á því var byggt að hið umdeilda leyfi samræmdist gildandi deiliskipulagi, sem ekki væri þörf á að breyta.  Þrátt fyrir þetta var efnt til grenndarkynningar með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem þó augljóslega átti ekki við í málinu.  Var þessi framsetning til þess fallin að villa um fyrir þeim sem kynningin tók til, enda varð ekki annað af henni ráðið en að annað hvort skorti deiliskipulag af svæðinu eða að þörf væri óverulegrar breytingar á deiliskipulagi.  Hvorugt var þó raunin og áttu borgaryfirvöld að haga kynningu málsins með öðrum hætti en gert var.  Hins vegar liggur ekki fyrir að þessi ranga framsetning hafi leitt til réttarspjalla og þykir því ekki rétt að láta þennan annmarka á meðferð málsins varða ógildingu.  Eru ekki aðrir ágallar sjáanlegir á meðferð borgaryfirvalda við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar er leiða eigi til ógildingar.

Kærendur hafa haldið því fram að hin kærða ákvörðun samræmdist ekki skipulagsskilmálum umrædds svæðis. 

Fyrir svæði það sem hér um ræðir var unnið deiliskipulag á árinu 2002.  Breyting var gerð á deiliskipulagi svæðisins sumarið 2004, en sú breyting hefur ekki þýðingu við úrlausn máls þessa.  Á deiliskipulagsuppdrætti að svæðinu er stutt greinargerð þar sem lýst er afmörkun skipulagssvæðisins, forsendum skipulagsins og mannvirkjum, sem fyrir eru á svæðinu. Jafnframt er þar getið þeirra meginþátta sem skipulagið byggir á, en í lok upptalningar þeirra segir svo:  „Að öðru leyti gilda „Almennir deiliskipulagsskilmálar fyrir Miðborgarsvæði Reykjavíkur“ dags. janúar 2002.“  Þrátt fyrir þá greinargerð sem er á uppdrættinum fylgir honum einnig greinargerð með yfirskriftinni „Miðborgarsvæði Reykjavíkur.  Greinargerð og skilmálar með deiliskipulagi reits 1.170.3 sem afmarkast af Bankastræti, Ingólfsstræti, Amtmannsstíg og Þingholtsstræti.“   Virðist þessi greinargerð unnin eftir forskrift að skipulagsskilmálum fyrir deiliskipulögð svæði innan miðborgarinnar og er í skilmálunum m.a. gerð grein fyrir því hvaða flokkar um húsvernd samkvæmt þemahefti með aðalskipulagi og þróunaráætlun miðborgar eigi ekki við á svæðinu.  Þá er um landnotkun stuðst við þá kafla úr nefndri þróunaráætlun sem settir eru fram í hefti sem tekið var upp í Aðalskipulag Reykjavíkur á árinu 2000.  Eru ákvarðanir um landnotkun þar m.a. settar fram með skilgreiningum og hólfunum sem fram koma á smáum og ógreinilegum uppdráttum í heftinu auk þess sem starfsemi er sums staðar takmörkuð af notkunarkvótum eða lengdum í götuhliðum, svo dæmi séu nefnd.  Hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurði fundið að sambærilegri framsetningu deiliskipulags en ekki þykir koma til álita að víkja skipulaginu til hliðar þar sem lögmæti þess er ekki til úrlausnar í málinu.  Verður deiliskipulagið því lagt til grundvallar við úrlausn um lögmæti hins umdeilda byggingarleyfis.

Í landnotkunarþætti Þróunaráætlunar miðborgar, sem tekinn hefur verið upp í aðalskipulagi og til er vísað í deiliskipulagsgögnum, segir um notkun utan skilgreindra götusvæða aðal- og hliðarverslunarsvæða að skilyrði fyrir veittri notkun séu að notkunin hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum og að ekki sé um óæskilega aukningu umferðar að ræða, aðgengi verði tryggt og bílastæðakröfum fullnægt.  Verður að leggja til grundvallar að þetta ákvæði eigi við í máli þessu og er á því byggt af hálfu borgaryfirvalda.

Úrskurðarnefndin telur að fyrirhuguð starfsemi, sem leyfð var með hinni kærðu ákvörðun, samrýmist ekki þessum skilmálum, enda verður ekki á það fallist að skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi ekki að líta til þeirra áhrifa sem starfseminni muni fylgja utandyra.  Gert er ráð fyrir að starfsemin sé heimil langt fram eftir nóttu um helgar.  Mun óhjákvæmilega fylgja henni aukin umferð gangandi vegfarenda og ökutækja um kvöld og fram á nætur.  Er m.a. af hálfu Reykjavíkurborgar tekið undir það að hætta sé á ónæði frá gestum á kvöldin og um nætur um helgar. Mjó gangstétt er fyrir framan fyrirhugaðan skemmtistað og skammt þar frá skaga tröppur hússins nr. 7 út undir gangstéttarbrún, en þessar aðstæður hafa það í för með sér að erfitt getur verið að gæta fyllsta öryggis við anddyri staðarins.  Stutt er í íbúðir kærenda sunnan við og gegnt skemmtistaðnum og gefur auga leið að tilvist staðarins muni hafa truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir.

Við mat á því hvort hið umdeilda byggingarleyfi samræmist skipulagsskilmálum þykir ekki skipta máli þótt leyfi hafi verið veitt fyrir öðrum skemmtistöðum í nágrenninu, enda ekki til þess vitað að reynt hafi á lögmæti þeirra leyfisveitinga.  Verður ekki heldur fallist á að skylt hafi verið að veita hið umdeilda leyfi með tilliti til jafnræðisreglu þar sem hvorki hefur verið skorið úr um lögmæti tilvitnaðra leyfisveitinga né staðreynt að um sambærileg mál hafi verið að ræða, m.a. með tilliti til skipulagskilmála. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið fullnægir hið umdeilda byggingarleyfi ekki skilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi af þeim sökum. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þess fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 26. nóvember 2003 um að veita leyfi til að innrétta skemmtistað á 1. hæð atvinnuhússins að Þingholtsstræti 5 í Reykjavík er felld úr gildi.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

     _______________________      ________________________
  Þorsteinn Þorsteinsson                         Ingibjörg Ingvadóttir

 

 

 

 

 

 

68/2004 Lækjargata

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2004, kæra stjórnar húsfélagsins Lækjargötu 4, Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 um að veita leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. desember 2004, er barst nefndinni sama dag, kærir Á, Lækjargötu 4, Reykjavík f.h. stjórnar húsfélagsins Lækjargötu 4, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 að veita leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu. 

Samþykkt byggingarfulltrúa var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 16. nóvember 2004. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi.

Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir afstöðu byggingarleyfishafa og byggingaryfirvalda til kærunnar og framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.  Hafa nefndinni borist munnleg andmæli byggingarleyfishafa og gögn frá Reykjavíkurborg um kæruefnið og er málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kærenda að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 24. ágúst 2004 var lögð fram umsókn um leyfi til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu og var afgreiðslu erindisins frestað.  Á fundi byggingarfulltrúa hinn 7. september 2004 var erindið tekið fyrir að nýju og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og/eða ákvörðunar um grenndarkynningu vegna fyrirhugaðrar notkunar á svölum þriðju hæðar fyrir veitingastarfsemi og nálægðar þeirra við íbúðarhúsnæði.  Skipulagsfulltrúi tók beiðnina fyrir á fundi hinn 10. september 2004 og samþykkti að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum að Austurstræti 20 og 22, Lækjargötu 2 og 4 vegna fyrirhugaðrar notkunar á svölum fyrir veitingastarfsemi.  Kynningin fór fram dagana 16. – 30. september 2004 og settu 12 íbúðareigendur fram athugasemdir vegna þessa.  Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 1. október 2004 voru athugasemdirnar kynntar og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 13. október 2004 var bókað að nefndin gerði ekki athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi þegar teikningar hefðu verið lagfærðar.  Var málinu því vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.  Byggingarfulltrúi afgreiddi erindið hinn 9. nóvember 2004 með áskilnaði um lokaúttekt byggingarfulltrúa, samþykki heilbrigðiseftirlits og athugun á að hljóð frá veitingastöðunum ylli ekki ónæði að Lækjargötu 4 áður en húsnæðið yrði tekið í notkun. 

Hið kærða leyfi felur í sér heimild til að koma fyrir tveimur veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu.  Á þriðju hæð er gert ráð fyrir að hámarksfjöldi gesta verði 100 en á fjórðu hæð 120.  Snyrtingar verði sameiginlegar og eldhús, uppþvottur og aðstaða starfsmanna verði í kjallara.  Jafnframt verði gerður hringstigi af svölum á þriðju hæð niður á jörð og stigi frá fjórðu hæð niður á svalir á þriðju hæð.  Ennfremur verði lyftustokki breytt þannig að lyfta komist í kjallara, gólf í eldhúsi hækkað um 18 cm, handriði og gróðri komið fyrir á svölum þriðju hæðar o.fl. 

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að hið kærða byggingarleyfi sé í hróplegu ósamræmi við þær áætlanir sem uppi hafi verið þegar eigendur íbúða í fjölbýlishúsinu að Lækjargötu 4 hafi keypt íbúðir sínar.  Húsin liggi saman og því muni veitingarekstur í húsnæðinu að Lækjargötu 2A valda þeim fjárhagslegu tjóni vegna hávaða sem sé þegar ærinn. 

Niðurstaða:  Eins og að framan greinir er í máli þessu deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. nóvember 2004 þess efnis að veita heimild til að koma fyrir veitingastöðum á þriðju og fjórðu hæð hússins nr. 2A við Lækjargötu í Reykjavík. 

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi lýtur það aðallega að framkvæmdum innanhúss s.s. frágangi innréttinga og gólfefna auk lítilsháttar framkvæmda á svölum hússins og uppsetningu brunastiga milli hæða.  Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þessar framkvæmdir ekki þess eðlis að framhald þeirra sé líklegt til að raska hagsmunum kærenda eða hafa áhrif á niðurstöðu máls þessa.  Af þessum sökum ber ekki nauðsyn til að verða við kröfu um stöðvun framkvæmda.  Með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda því hafnað.  Þrátt fyrir framangreint eru frekari framkvæmdir við bygginguna á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                  Ingibjörg Ingvadóttir

68/2003 Hverfisgata

Með

Ár 2004, þriðjudaginn 14. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2003, kæra eiganda húseignarinnar að Sunnuvegi 1, Hafnarfirði á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Hverfisgötu 57, Hafnarfirði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 17. nóvember 2003, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Ó, Sunnuvegi 1, Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 að veita leyfi til að byggja við húsið nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndin stöðvaði framkvæmdir við gerð svala og frágang utanhúss sem þeim tengjast með úrskurði kveðnum upp hinn 22. desember 2003 og er málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar. 

Málavextir:  Í húsinu nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði eru tvær íbúðir, lítil íbúð í kjallara og önnur stærri á aðalhæð hússins og í risi.  Bílskúr er áfastur húsinu og stendur hann í sömu hæð og kjallarinn.  Umrædd  fasteign liggur að lóð kæranda og er svæðið ekki deiliskipulagt.

Í maí árið 2001 fóru eigendur stærri íbúðarinnar að Hverfisgötu 57 fram á heimild byggingarnefndar Hafnarfjarðar til að byggja við húsið.  Beiðni þeirra laut að stækkun hússins á þann veg, að ofan á bílskúrinn yrði byggð 18,4 m² stofa og í henni miðri yrði lokað eldstæði.  Beiðninni var vísað til skipulags- og umferðarnefndar sem grenndarkynnti hana frá 10. september 2002 til 9. október sama ár.  Engar athugasemdir bárust og með vísan til þess gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi hinn 23. október 2002. 

Hinn 28. mars 2003 veitti byggingarfulltrúi heimild til þess að þak viðbyggingarinnar yrði nýtt sem svalir samkvæmt ósk byggingarleyfishafans og var af því tilefni gefið út nýtt byggingarleyfi.  Við staðfestingu byggingarnefndar á embættisafgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 8. apríl 2003 sagði að lagt hafi verið fram bréf nágranna, dags. 23. október 2002, vegna málsins. 

Eigendaskipti urðu á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september 2003, en þá eignaðist kærandi máls þessa fasteignina.

Með bréfi, dags. 17. nóvember 2003, kærði kærandi samþykkt byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 28. mars 2003 til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að staðsetning viðbyggingar þeirrar sem hér um ræði sé í andstöðu við IV. kafla byggingarreglugerðar nr. 441/1998, nánar tiltekið 1.– 6. tl. 75. gr., þar sem kveðið sé á um fjarlægð húsa frá lóðarmörkum, bil milli húsa o.fl.  Staðsetning viðbyggingarinnar brjóti gegn kvöð lóðarleigusamnings, sem þinglýst sé á fasteignina nr. 57 við Hverfisgötu, þess efnis að ekki verði byggð viðbygging eða sambærileg mannvirki nær Sunnuvegi 1 en nemi 6,30 metrum.  Kvöð þessari hafi ekki verið þinglýst á Sunnuveg 1.

Kvörtun kæranda beinist einnig að svölum sem ætlunin sé að byggja og hafin sé bygging á en þær hafi ekki verið á þeirri teikningu sem lögð hafi verið fram í grenndarkynningu.  Svalir þessar hafi því hvorki verið kynntar nágrönnum né hlotið samþykki þeirra og því sé tilvísun byggingarnefndar í fundargerð hinn 8. apríl 2003 í bréf nágranna markleysa, enda sé í því bréfi hvergi fjallað um svalir á viðbyggingunni.

Kærandi heldur því fram að skorsteinn vegna arins í viðbyggingunni hafi verið færður og sé ekki byggður samkvæmt samþykktu byggingarleyfi. 

Þá bendir kærandi á að samkvæmt teikningu vegna viðbyggingarinnar, dags. 23. október 2002, verði samþykktin ekki virk fyrr en eftir skráningu eignaskiptayfirlýsingar hjá Fasteignamati ríkisins og þinglýsingu hennar.  Af veðbókarvottorðum fyrir Hverfisgötu 57 verði ekki séð að sú þinglýsing hafi átt sér stað.

Kærandi bendir ennfremur á að framkvæmdir séu samþykktar hinn 28. mars 2003 á lóð sem sé 225 m2.  Með lóðarleigusamningi, dags. 22. september 2003, sé lóðin stækkuð að því er virðist á kostnað lóðar Sunnuvegar 1, sem rýri eign hans að miklum mun.

Varðandi framkvæmdirnar almennt fullyrðir kærandi að gluggi á brunavegg rýri nýtingarmöguleika lóðar hans auk þess sem hann auki eldhættu.  Frá svölum viðbyggingarinnar sjáist vel inn í íbúð hans, skorsteinninn valdi reykmengun í garði hans, svefnherbergi og stofu auk þess sem af honum stafi brunahætta.  Svalir á viðbyggingunni gnæfi yfir steyptan pall við útgang úr stofu hans út í garðinn og gjörbreyti því möguleikum til útivistar á þeim palli.

Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar:  Embætti byggingarfulltrúa í Hafnarfirði hefur komið til úrskurðarnefndarinnar gögnum vegna málsins en ekki greint sérstaklega frá sjónarmiðum bæjarins vegna kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfisins.

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafinn krefst þess að kærunni verði vísað frá þar sem kærandinn hafi, á þeim tíma sem byggingarleyfið hafi verið veitt, ekki átt lögvarða hagsmuni.  Þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni hafi framkvæmdum við viðbygginguna verið að mestu lokið og hið sama eigi við þegar kærandi hafi keypt fasteignina í september 2003.  Fyrir verslunarmannahelgi það ár hafi þakdúkur verið lagður ásamt festingum fyrir svalahandriðið, hluti skorsteinsins verið kominn og fyrir ágústlok hafi gluggi og hurð á gafli verið sett og öllum mátt vera ljóst á þeim tíma að svalir væru fyrirhugaðar á þaki viðbyggingarinnar.  Þessu til sönnunar hafi verið lagt fram tilboð í efni og vinnu við viðbygginguna, staðfesting á rafrænum greiðslum reikninga vegna glugga og svalahurðar og tveir reikningar vegna sama verks.  Upphaflegir reikningar sýni annars vegar greiðslu fyrir hurð og glugga og hins vegar innborgun á glugga.  Síðasti reikningurinn vegna glugga og svalahurðar sé greiddur hinn 3. október 2003, enda hafi verkinu þá verið lokið, utan þess að eftir hafi verið að ganga frá lausafögum. 

Frestur til að kæra samþykktir byggingarnefnda eða sveitarstjórna sé samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 aðeins mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt um samþykktina og því hafi kærufrestur verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. 

Hvað nýgerðan lóðarleigusamning varði þá heldur byggingarleyfishafinn því fram að með honum hafi aðeins verið staðfest lóðaskipting sem alla tíð hafi verið viðhöfð milli lóðanna að Hverfisgötu 57 og Sunnuvegar 1 og því löngu komin hefð á skiptinguna. 

Í engu hafi verið vikið frá samþykktum teikningum eða byggingarleyfi í þá veru að umrædd viðbygging sé á einhvern hátt verri fyrir kærendur.  Skorsteinninn hafi verið færður að ráði sérfræðinga þar sem talið hafi verið að mun öruggara væri að hafa skorsteininn á brunavegg. 

Byggingarleyfishafinn bendir á að umræddur gluggi á suðurvegg hafi verið hafður eins vestarlega á veggnum og unnt hafi verið, en fyrir hafi legið samþykki fyrrverandi eiganda Sunnuvegar 1 fyrir staðsetningu hans. 

Þeirri fullyrðingu kæranda sé mótmælt að hinar umdeildu svalir rýri nýtingarmöguleika á fasteign hans enda komi svalirnar til með að snúa að þeim hluta lóðar Sunnuvegar 1 sem sé minnst notaður.  Þeirri fullyrðingu kæranda sé einnig mótmælt að hinar umræddu svalir séu yfir steyptum palli við útgang úr stofu yfir í garð kæranda.  Byggingarleyfishafinn bendi á að hann hljóti að eiga rétt til að hagnýta sér eign sína á eðlilegan hátt, þ.m.t. réttinn til að byggja svalir og nýta þær.  Svalirnar komi einnig til með að nýtast sem neyðarútgangur. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi og óskaði í kjölfarið umsagnar Brunamálastofnunar á því hvort hið kærða byggingarleyfi og bygging hússins fullnægði kröfum um eldvarnir og brunatæknilegan frágang. 

Umsögn Brunamálastofnunar:  Úrskurðarnefndin óskaði eftir umsögn Bunamálastofnunar vegna kærunnar og barst hún nefndinni með bréfi, dags. 11. júní 2004.  Þar kemur fram að mat stofnunarinnar sé að hvorki byggingarleyfið né byggingin sjálf fullnægi kröfum um eldvarnir og brunatæknilegan frágang, en með brunahönnun hússins væri hægt að kanna hvort byggingarleyfið félli að ákvæðum byggingarreglugerðar um brunavarnir bygginga. 

Athugasemdir Hafnarfjarðarbæjar vegna umsagnar Brunamálastofnunar:  Hafnarfjarðarbær tekur undir umsögn Bunamálastofnunar og bendir m. a. á ábyrgð byggingarstjóra og aðalhönnuðar hússins. 

Athugasemdir byggingarleyfishafa vegna umsagnar Brunamálastofnunar:  Byggingar-leyfishafi gerir athugasemdir bæði við málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar og umsögn Brunamálastofnunar en ekki þykir þörf á að rekja þær frekar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þær allar til hliðsjónar við afgreiðslu málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um hvort ógilda eigi byggingarleyfi vegna viðbyggingar hússins nr. 57 við Hverfisgötu í Hafnarfirði, sem gefið var út hinn 28. mars 2003, þar sem leyfið feli í sér óhæfilega hagsmunaröskun gagnvart kæranda, vegna annmarka á málsmeðferð og efnislegs ólögmætis leyfisins.  Fól umdeilt leyfi í sér heimild til að nýta þak bílskúrs byggingarleyfishafa sem svalir, en að öðru leyti var það í samræmi við byggingarleyfisumsókn þá sem grenndarkynnt hafði verið og samþykkt hinn 23. október 2002.

Í málinu er sett fram krafa af hálfu byggingarleyfishafa um frávísun þess þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. 

Fyrir liggur að framkvæmdir samkvæmt hinu umdeilda byggingarleyfi hófust eftir útgáfu leyfisins og var þeim að mestu lokið þegar kæra barst úrskurðarnefndinni hinn 18. nóvember 2003. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna er einn mánuður frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hina kærðu framkvæmd samkvæmt 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  

Fram er komið að kærandi eignaðist fasteignina að Sunnuvegi 1 í september 2003 en að eigin sögn fluttist hann þangað hinn 24. október sama ár og skömmu síðar hafi hann orðið þess áskynja að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu stefndu í þá átt að þak viðbyggingar yrði hagnýtt sem svalir.  Hafi hann þá þegar leitað upplýsinga um heimildir fyrir framkvæmdinni hjá byggingaryfirvöldum í Hafnarfirði sem hafi orðið til þess að hann kærði útgáfu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar hinn 18. nóvember 2003. 

Byggingarleyfishafi hefur lagt fyrir úrskurðarnefndina gögn er benda til þess að í ágústlok hafi framkvæmdum við glugga og hurð á austurgafli hússins verið lokið.  Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 9. ágúst 2004, var honum gefinn kostur á að tjá sig um framangreinda fullyrðingu byggingarleyfishafa fyrir hinn 23. sama mánaðar.  Það hefur kærandi ekki gert og verður því að leggja til grundvallar frásögn byggingarleyfishafa um verklok framkvæmda við viðbygginguna og þau gögn þar að lútandi sem hann lagði fyrir úrskurðarnefndina. 

Með vísan til þessa hefði kæranda mátt vera ljóst, er hann festi kaup á fasteigninni að Sunnuvegi 1 í september árið 2003, að fyrirhugað væri að nýta þak viðbyggingarinnar sem svalir og telst kæra hans af þessum sökum of seint fram komin, er hún barst úrskurðarnefndinni hinn 18. nóvember 2003, og ber því að vísa henni frá, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Ekki þykja fram komnar þær ástæður er heimili frávik frá framangreindum kærufresti skv. 1. og 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir