Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

47/2005 Austurvegur

Ár 2005, föstudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir hdl.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2005, kæra eiganda fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, á synjun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005 á umsókn kæranda um að nýta hluta greindrar fasteignar undir hjólbarðaþjónustu.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júní 2005, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir G, eigandi fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005 að synja umsókn kæranda um að nýta hluta greindrar fasteignar undir hjólbarðaþjónustu.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málavextir:  Samkvæmt gildandi aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar stendur fasteignin að Austurvegi 18-20 á svæði sem ætlað er undir verslun og þjónustu en húsnæðið mun áður hafa verið nýtt undir verslun, bakarí og krá.  Umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Húsið er tveggja hæða, 485 fermetrar að flatarmáli og stendur á 1.276 fermetra lóð.

Með bréfi til byggingarfulltrúa Seyðisfjarðarkaupstaðar, dags. 11. október 2004, leitaði kærandi eftir afstöðu umhverfismálaráðs kaupstaðarins til þeirrar fyrirætlunar hans að flytja dekkjaþjónustu, er hann rak, í hluta neðri hæðar húsnæðisins að Austurvegi 18-20.  Erindið var tekið fyrir á fundi ráðsins hinn 18. október 2004 og var þar óskað eftir nánari útfærslu og teikningum af fyrirhuguðum breytingum svo unnt væri að grenndarkynna erindið.  Umhverfismálaráð samþykkti síðan hinn 10. janúar 2005 að grenndarkynna umsókn kæranda og bera málið undir viðkomandi umsagnaraðila en þá höfðu umbeðnar teikningar borist.

Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá fundar umhverfismálaráðs hinn 28. febrúar 2005 þar sem fram kom að athugasemdir hefðu borist frá íbúum fjögurra nærliggjandi fasteigna.  Var afgreiðslu málsins frestað þar sem enn lá ekki fyrir umsögn heilbrigðiseftirlits Austurlands og beðið var eftir breyttum teikningum frá arkitekt kæranda.  Var byggingarfulltrúa falið að leita álits Skipulagsstofnunar á rekstri hjólbarðaverkstæðis á umræddum stað.

Umhverfisráð samþykkti síðan fyrir sitt leyti hinn 9. mars 2005 að hluti hússins að Austurvegi 18-20 yrði nýttur undir dekkjaverkstæði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um sjón- og hljóðmengun og um almennan þrifnað. Var heimiluð starfsemi talin rúmast innan gildandi skipulags svæðisins.  Nágrannar þeir, sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynningu erindis kæranda, kærðu þessa afgreiðslu umhverfisráðs til úrskurðarnefndarinnar.  Töldu þeir ákvörðunina fara í bága við gildandi aðalskipulag bæjarins og skírskotuðu jafnframt til framkominna athugasemda við grenndarkynningu málsins er lutu að því að slíkri starfsemi, í næsta nágrenni íbúðarbyggðar, fylgdi óviðunandi ónæði.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands sendi bæjaryfirvöldum umsögn sína um rekstur hjólbarðaverkstæðisins í bréfi, dags. 29. mars 2005, þar sem fram kom að ekkert væri því til fyrirstöðu að gefið yrði út starfsleyfi fyrir dekkjaverkstæði á umsóttum stað svo framarlega sem skipulagsyfirvöld heimiluðu notkun hússins til starfseminnar.

Málið var loks til lykta leitt á fundi bæjarstjórnar Seyðisfjarðar hinn 26. maí 2005 þar sem umsókn kæranda um nýtingu hluta hússins að Austurvegi 18-20 undir hjólbarðaþjónustu var synjað af meirihluta bæjarstjórnar.

Kærandi skaut þessari ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er vikið en fyrrnefnd kæra á afgreiðslu umhverfisráðs um sama efni var dregin til baka að fenginni ákvörðun bæjarstjórnar.

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til afstöðu umhverfisráðs bæjarins um að skipulag væri ekki því í vegi að rekin væri dekkjaþjónusta í hluta hússins að Austurvegi 18-20.  Ráðist hafi verið í töluverðan kostnað við framkvæmdir en kærandi hafi ekki getað starfrækt hjólbarðaþjónustu sína frá því í október 2004 vegna deilumáls þessa og af þeim sökum komi til álita bótaskylda bæjaryfirvalda.  Kærandi lýsir sig jafnframt ósáttan við hina kærðu ákvörðun í ljósi þess að umsókn hans, sem synjað hafi verið, hafi einnig lotið að breytingum á umræddu húsi vegna verslunarrýmis og íbúðar.

Málsrök Seyðisfjarðarkaupstaðar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að hin kærða ákvörðun hafi einungis snúist um rekstur dekkjaverkstæðis á umdeildum stað og rökstuðningur fyrir afstöðu meirihluta bæjarstjórnar komi fram í fundargerð þess fundar þar sem ákvörðunin hafi verið tekin.

Umrætt svæði sé skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði í skipulagi og ekki verði séð af orðalagi gr. 4.5.1 og gr. 4.3.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem slík svæði séu skilgreind, að heimilt sé að hafa umdeilda starfsemi á umbeðnum stað.  Fái sú ályktun stuðning í orðalagi gr. 4.6.1 í nefndri reglugerð þar sem finna megi skilgreiningu á athafnasvæðum í skipulagi.  Á þeim svæðum sé fyrst og fremst gert ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta sé á mengun, svo sem léttum iðnaði, vörugeymslum og hreinlegum verkstæðum en dekkjaverkstæði hljóti að falla undir síðastgreint hugtak.  Hafi því ekki verið annað fært en að hafna erindi kæranda að þessu leyti.

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun var á því byggð að óheimilt væri að starfrækja hjólbarðaþjónustu eða dekkjaverkstæði á svæðum sem ætluð væru fyrir verslun og þjónustustarfsemi í skipulagi.

Í 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 eru landnotkunarflokkar í skipulagi skilgreindir.  Ákvæði kaflans eru mjög almennt orðuð og víða er að finna heimildir fyrir annarri starfsemi en skilgreind landnotkun skipulagssvæðis felur í sér.  Þannig er í gr. 4.5.1, sem fjallar um verslunar- og þjónustusvæði, gert ráð fyrir íbúðum á þeim svæðum þar sem aðstæður leyfa og í gr. 4.2.1 um íbúðarsvæði er heimiluð þjónustustarfsemi við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslanir, hreinlegur iðnaður, handiðnaðarfyrirtæki, þjónustustarfsemi eða önnur starfsemi sem ætlað sé að valdi ekki óþægindum vegna lyktar, hávaða, óþrifnaðar eða óeðlilega mikillar umferðar.  Af þessu leiðir að við túlkun þessara ákvæða verður fyrst og fremst að hafa í huga hvort sambýli mismunandi starfsemi sé til þess fallið að valda árekstrum eða sérstökum óþægindum.

Ekki verður talið að hjólbarðaþjónusta af þeirri gerð sem kærandi hyggst starfrækja hafi í för með sér meiri truflun eða óþægindi fyrir nágranna en búast má við að stafi frá annarri þjónustustarfemi af ýmsu tagi.  Eru þess og dæmi að hjólbarðaþjónusta hafi verið heimiluð á svæðum sem í skipulagi eru ætluð undir verslunar- og þjónustustarfsemi að því er virðist án sýnlegra vandkvæða.  Þykir orðalag skipulagsreglugerðar um skilgreiningu verslunar- og þjónustusvæða ekki heldur gefa tilefni til þeirrar þröngu túlkunar  sem lögð var til grundvallar við ákvörðun bæjarstjórnar í málinu.  Verður því að telja að starfræksla hjólbarðaþjónustu að Austurvegi 18-20 sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Seyðisfjarðar.

Almennt eiga fasteignaeigendur rétt á því að nýta fasteignir sínar í samræmi við gildandi skipulag og verða aðrir sem kunna að eiga hagsmuna að gæta að sæta því.  Þessara sjónarmiða var ekki gætt við ákvörðun bæjarstjórnar í málinu og er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hún hafi ekki verið reist á réttum forsendum.  Verður hún því felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 26. maí 2005, um að synja umsókn kæranda um nýtingu hluta fasteignarinnar að Austurvegi 18-20, Seyðisfirði, undir hjólbarðaþjónustu, er felld úr gildi.

 

 

____________________________
Ásgeir Magnússon

 

________________________                    ________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Ingibjörg Ingvadóttir