Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2003 Laufásvegur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 11. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2003, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. nóvember 2002 um veitingu leyfis fyrir breytingum á ytra útliti fyrstu hæðar og breyttri notkun hennar úr atvinnuhúsnæði í íbúðir í húsinu nr. 17 við Laufásveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. febrúar 2003, er barst nefndinni sama dag, kærir Ragnar Halldór Hall hrl., f.h. Á, G, G, E, E, F  og R, eigenda eignarhluta í fasteigninni að Laufásvegi 19, Reykjavík,  ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. nóvember 2002 um veitingu leyfis fyrir breytingum á ytra útliti fyrstu hæðar og breyttri notkun hennar úr atvinnuhúsnæði í íbúðir í húsinu nr. 17 við Laufásveg í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 5. desember 2002.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Húsin að Laufásvegi 17 og 19 eru sambyggð og hafa verið íbúðir í þeim en fyrsta hæð að Laufásvegi 17 hefur verið notuð sem atvinnuhúsnæði um skeið.

Hinn 26. nóvember 2002 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík á afgreiðslufundi byggingarleyfi fyrir breytingum á útliti fyrstu hæðar vesturhliðar hússins að Laufásvegi 17 í Reykjavík og breytingu atvinnuhúsnæðis á fyrstu hæð í íbúðir. Samþykki meðeigenda að Laufásvegi 17, dags. 17. október 2002, fylgdi erindinu.  Kærendur töldu á rétt sinn hallað með téðri ákvörðun og skutu henni til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda:  Kærendur telja að við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið vanrækt að ganga úr skugga um afstöðu eigenda fasteignarinnar að Laufásvegi 19 til fyrirhugaðra breytinga.  Fasteignirnar að Laufásvegi 17 og 19 séu sambyggðar þannig að gaflar þeirra liggi saman.  Sérhver breyting á notkun annarrar fasteignarinnar hafi þess vegna bein áhrif á hagsmuni annarra í sömu sambyggingu.  Augljóst sé því að heimiluð breyting á notkun fasteignarinnar að Laufásvegi 17 verði ekki ákveðin svo gilt sé nema að gætt sé ákvæða 39. og 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, en kærendum hafi ekki verið kunnugt um fyrirhugaðar breytingar fyrr en eftir að þær hafi verið samþykktar.

Benda kærendur á að lóð húsanna nr. 17-19 við Laufásveg sé sameiginleg og af afsalsgerningum fyrir eignarhlutum í fasteigninni að Laufásvegi 17, sem fylgt hafi umsókn um greindar breytingar, verði ráðið að gæta hefði átt hagsmuna eigenda að Laufásvegi 19 skv. fyrrgreindum ákvæðum fjöleignarhúsalaga við meðferð umsóknar um umrædda breytingu.  Virðist sem byggingaryfirvöldum hafi orðið á í messunni að þessu leyti.  Rétt þyki að árétta að þinglýsing mæliblaðs fyrir lóðina nr. 17-19 við Laufásveg, þar sem ráða megi að lóðinni hafi verið skipt upp í aðgreindar lóðir, hafi átt sér stað án atbeina eða samþykkis eigenda hússins að Laufásvegi 19.  Umrædd þinglýsing geti því með engu móti rýrt réttarstöðu kærenda í máli þessu.  Lóðin sé skráð óskipt hjá Fasteignamati ríkisins og kærendur greiði eftir sem áður fasteignagjöld af eignarhluta sínum í hinni sameiginlegu lóð svo og eignarskatt.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Álitaefni máls þessa sé eingöngu það hvort samþykki kærenda hafi þurft að liggja fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin um að veita leyfi til breytinga þeirra er mál þetta snúist um.

Ekki sé fallist á að fasteignirnar Laufásvegur 17 og Laufásvegur 19 séu eitt hús í merkingu laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, enda um tvö hús að ræða á aðskildum lóðum og ekki um neina sameign að ræða með Laufásvegi 17 og Laufásvegi 19 þrátt fyrir að gaflar húsanna liggi saman.  Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga, nr. 26/1994 um fjöleignarhús hafi eigandi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem greini í lögunum eða öðrum lögum.  Í eignarráðum felist heimild eiganda til að ráðstafa og hagnýta eign sína á hvern þann hátt sem hann kjósi innan þess ramma sem vísað sé til í fyrrgreindu ákvæði.  Þegar af þeirri ástæðu sé ekki um það að ræða að samþykki eigenda að Laufásvegi 19 hafi þurft að liggja fyrir þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin.  Tilvísun kærenda til ákvæða 39. gr. og 41. gr. fjöleignahúsalaga eigi því ekki við í máli þessu. 

Jafnvel þótt talið yrði að fasteignirnar nr. 17 og 19 við Laufásveg teldust eitt hús í merkingu laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, hafi samþykki kærenda ekki þurft að liggja fyrir í máli þessu.  Í 1. mgr. 27. gr. laganna sé áskilið samþykki allra eigenda hússins til breytinga á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geti eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. 27. gr.

Kærendur hafi ekki lagt fram rökstuðning fyrir því hvaða röskun fyrirhuguð breyting á nýtingu fasteignarinnar nr. 17 við Laufásveg muni valda þeim.  Hafa verði í huga að fasteignin nr. 19 við Laufásveg sé öll lögð undir íbúðarhúsnæði og sé vandséð að sambærileg nýting fasteignarinnar nr. 17 við Laufásveg muni valda kærendum röskun, óþægindum eða öðru óhagræði.  Rétt sé að árétta að samkvæmt teikningum samþykktum 22. september 1954 sé sýnd ein íbúð á fyrstu hæð hússins að Laufásvegi 17.  Fyrsta hæðin hafi því upprunalega verið íbúð sem síðar hafi verið breytt í verslunarhúsnæði, eða um árið 1973.  Með hinni kærðu ákvörðun sé verið að færa notkun fyrstu hæðarinnar í upprunalegt horf.

Í máli þessu sé því haldið fram að þinglýst mæliblað þar sem lóðinni sé skipt upp hafi ekki áhrif á réttarstöðu kærenda í máli þessu.  Þinglýsing mæliblaðsins hafi farið  fram 20. september 1995 og sé skjalinu þinglýst á alla eignarhluta hússins.  Sú málsástæða að þinglýsingin hafi átt sér stað án aðildar eða samþykkis kærenda eigi því ekki við rök að styðjast.   Einn kærenda hafi keypt íbúð sína á árinu 2003 og annar kærenda árið 1997.  Átti þeim því að vera fullkunnugt um tilvist mæliblaðsins þar sem lóðinni sé skipt upp í tvo eignarhluta.  Aðrir kærendur í máli þessu virðist nú samkvæmt þinglýsingabókum hafa selt sínar eignir.

Að lokum sé tekið fram að kærendur hafi ekki gert athugasemdir við útlitsbreytingar á fasteigninni nr. 17 við Laufásveg, en telja verði að útlitsbreytingar þær sem hér um ræði séu ekki  það verulegar að samþykki annarra eigenda hafi þurft að liggja fyrir við afgreiðslu umsóknarinnar.

Fyrirhuguð breyting á hagnýtingu húsnæðisins sæti ekki sérstakri takmörkun, hvorki í lögum nr. 26/1994, þinglýstum gögnum né aðalskipulagi.  Þá þyki ekki hafa verið sýnt fram á að umrædd breyting muni hafa í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir kærendur en ráð hafi mátt gera fyrir í upphafi við nýtingu húsnæðisins.

Niðurstaða:  Húsin að Laufásvegi 17 og 19 eru sambyggð en hafa ekkert sameiginlegt húsrými og samkvæmt þinglýstu mæliblaði frá árinu 1995, sem ekki hefur verið hnekkt, hefur hvort hús sérstaka lóð.  Samkvæmt Landskrá fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins hefur húsið að Laufásvegi 19 verið byggt árið 1933 en húsið að Laufásvegi 17 árið 1956. 

Þegar litið er til þessara staðreynda þykir eðlilegt að líta á umrædd hús sem sjálfstæð fjöleignarhús í skilningi fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, en í 3. gr. laganna er gert ráð fyrir að hús geti verið sérstök hús þótt samtengd séu mæli eðlisrök með því.  Verður því ekki fallist á að leita hafi þurft samþykkis eigenda hússins að Laufásvegi 19 samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga vegna afgreiðslu byggingarleyfis fyrir breyttri notkun séreignarhluta í húsinu að Laufásvegi 17 og breytingu á ytra útliti hússins er henni fylgdi.

Hin kærða ákvörðun felur í sér breytingu sem er byggingarleyfisskyld skv. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en umrætt svæði hefur ekki verið deiliskipulagt.  Í 7. mgr. nefndrar 43. gr. er kveðið á um að umsókn um leyfi skv. 1. mgr. í þegar byggðu hverfi sem ekki hafi verið deiliskipulagt skuli grenndarkynnt áður en afstaða sé tekin til umsóknarinnar.  Slík grenndarkynning fór ekki fram áður en hin umdeilda ákvörðun var tekin. 

Með hliðsjón af því, að með hinni kærðu ákvörðun var í fjöleignarhúsi verið að breyta atvinnuhúsnæði til fyrra horfs í íbúðarhúsnæði, sem að öðru leyti er eingöngu nýtt til íbúðar, þykir greindur annmarki ekki geta ráðið úrslitum um gildi hinnar kærðu ákvörðunar eins og hér stendur sérstaklega á, og verður hinni kærðu ákvörðun ekki hnekkt af þessum sökum.

Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu umræddrar ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. nóvember 2002, sem staðfest var í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 5. desember s.á., um veitingu leyfis fyrir breytingum á ytra útliti fyrstu hæðar og breyttri notkun hennar úr atvinnuhúsnæði í íbúðir í húsinu nr. 17 við Laufásveg í Reykjavík, er hafnað.

 

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                        Geirharður Þorsteinsson

 

   

 

 

 

 

59/2005 Helluhraun

Með

Ár 2006, mánudaginn 24. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2005, kæra eiganda hússins að Helluhrauni 9, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi á synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 6. júlí 2005 á beiðni um breytingu á notkun hússins að Helluhrauni 9 í Reykjahlíð, úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. ágúst 2005, er barst nefndinni samdægurs, kærir J, Helluhrauni 15, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi f.h. H ehf. synjun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 6. júlí 2005 á beiðni um breytingu á notkun hússins að Helluhrauni 9 í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 24. maí 2005, óskaði kærandi eftir heimild sveitarstjórnar Skútustaðahrepps til að breyta notkun hússins að Helluhrauni 9, Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Í bréfinu sagði að fyrirhugað væri að leigja út sex herbergi til ferðamanna fyrst um sinn en bæta síðar við þremur herbergjum þannig að alls yrðu tuttugu svefnpláss í húsinu.  Að  auki yrði í húsinu aðstaða til að neyta morgunverðar. 

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps tók beiðni kæranda fyrir á fundi hinn 26. maí 2005 og samþykkti, með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að veita hagsmunaaðilum á svæðinu kost á að tjá sig um beiðnina og var frestur veittur til 29. júní 2005.  Sveitarstjórn bárust tvær athugasemdir og á fundi hennar hinn 6. júlí 2005 var eftirfarandi fært til bókar og samþykkt samhljóða:  „Sveitarstjórn hafnar að verða við erindi Helluholts ehf. um að breyta notkun hússins að Helluhrauni 9 úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Til grundvallar ákvörðunar sveitarstjórnar liggur eftirfarandi:  Borist hafa athugasemdir frá eigendum Helluhrauns 2 og 5.  Þar kemur m.a. fram að eigendur hafi keypt húseignir sínar á þeim forsendum að hús þeirra væru í íbúðarhverfi.  Þá tekur sveitarstjórn undir þær röksemdir að umferð um götuna muni aukast verulega verði af áformum um frekari gistirekstur.  Enn fremur tekur sveitarstjórn undir þær athugasemdir að bílastæði verði of fá við götuna til að anna auknum umsvifum vegna gistirekstrar.“  
Kærandi hefur skotið framangreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að húsið að Helluhrauni 9 hafi upphaflega verið byggt af Kísiliðjunni hf. árið 1969 sem bústaður fyrir 12 einhleypa starfsmenn verksmiðjunnar.  Því sé ljóst að alveg frá upphafi hafi húsið verið ætlað til notkunar fyrir fjölmennt starfslið sem m.a. hafi unnið á þrískiptum vöktum sem óhjákvæmilega hafi fylgt talsverð umsvif og umferð.  Sniðill hf. hafi eignast húsið árið 1993 og rekið þar gistingu um árabil.  Kærandi hafi eignaðist húsið 2001 og hafi því þá verið breytt í íbúðarhúsnæði. 

Kærandi vísar enn fremur til þess að Helluhraun sé ekki hrein íbúðargata heldur sé þar starfrækt ýmis þjónustustarfsemi í bland við íbúðarbyggð.  Svo hafi verið nánast frá því að gatan hafi byggst í kringum árið 1970.  Pósthús hafi verið að Helluhrauni 3 í meira en 30 ár og lengst af einnig símstöð, en nú síðustu árin sé þar afgreiðsla Sparisjóðs Suður-Þingeyinga.  Þá hafi heilsugæslustöð verið starfrækt um árabil að Helluhrauni 17 og Norræna eldfjallastöðin sé með aðsetur að Helluhrauni 1.  Gistirekstur hafi verið í meira en 20 ár að Helluhrauni 13 og 15 og gisting hafi einnig verið lengi rekin að Helluhrauni 6.  Bent sé á að fyrir 20–30 árum hafi búið allt að 17 fjölskyldur við Helluhraun og auk þess allt að 12 einstaklingar sem dvalið hafi í húsinu að Helluhrauni 9.  Hafi íbúar við götuna þá verið á bilinu 60–80 en í dag séu þeir litlu fleiri en 30.  Umferð íbúa hafi því minnkað til muna og telji kærandi líklegt að gistirekstur hafi minni umferð í för með sér heldur en umferð heimamanna.  Vísar kærandi sérstaklega til þess að umferð hafi fylgt notkun húss þess sem hér um ræði í þau 24 ár sem það hafi verið dvalarstaðar fyrir allt að 12 einstaklinga sem flestir eða allir hafi haft bíl til umráða.  Með vísan til alls þessa telji kærandi að athugasemdir, sem fram hafi komið í kjölfar grenndarkynningar þess efnis að Helluhraun sé skipulögð íbúðargata og að íbúar við götuna hafi mátt treysta því að svo yrði áfram, fái ekki staðist. 

Deiliskipulag frá árinu 1977 sýni aðeins fimm bílastæði við Helluhraun 9.  Þrátt fyrir þetta viti allir kunnugir að sunnan við húsið hafi árið 1969 verið gert bílastæði sem hafi verið í notkun allar götur síðan og sé bílastæði þetta um 180 fermetrar að stærð.  Svo virðist sem að mistök hafi orðið við frágang deiliskipulagsins árið 1977, hvað varði bílastæði við húsið.  Kærandi skírskotar einnig til þess að á vesturkanti Helluhrauns, þar sem engin byggð sé, séu einnig leyfð bílastæði.  Því sé vandséð hvernig halda megi því fram að bílastæði skorti vegna gistireksturs að Helluhrauni 9.

Kærandi heldur því fram að gistiheimili séu gjarnan staðsett í íbúðarhverfum eða í jaðri þeirra.  Vandfundin sé sú atvinnustarfsemi sem hafi minni áhrif á nánasta umhverfi sitt en gistiheimili þar sem aðeins sé framreiddur morgunverður.

Af hálfu kæranda er bent á að sveitarstjórn hafi ekki verið fullmönnuð við afgreiðslu erindis hans en einn nefndarmaður hafi vikið sæti við afgreiðslu málsins.  Ekki hafi verið boðaður varamaður og hljóti slíkt að teljast ámælisvert. 

Að lokum bendir kærandi á að Kísiliðjunni hafi verið lokað og hafi þá 45 manns misst vinnuna.  Engin atvinnustarfsemi hafi enn komið í staðinn.  Allir séu sammála um að ferðaþjónusta eigi sér bjarta framtíð í Mývatnssveit.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi þó engar lóðir til umráða fyrir hótel eða gistiheimili.  Við Helluhraun sé blönduð byggð, þar hafi ýmis þjónustustarfsemi verið í áratugi, gatan liggi í jaðri þjónustusvæðis og engin vandkvæði séu með bílastæði.  Eigendur 18 íbúða af 20 við götuna hafi ekki gert athugasemdir við grenndarkynninguna og hafi þar með lýst samþykki sínu varðandi breytta notkun hússins að Helluhrauni 9.

Málsrök Skútustaðahrepps:  Af hálfu sveitarstjórnar Skútustaðahrepps er vísað til þess  að á fundi sveitarstjórnar hinn 26. maí 2005 hafi eftirfarandi verið samþykkt samhljóða:  „Erindi Helluholts ehf. þar sem óskað er eftir leyfi til að breyta notkun hússins Helluhrauni 9 úr íbúðahúsnæði í gistiheimili.  Fyrirhugað er að leigja út 6 herbergi til ferðamanna fyrst um sinn, en bæta við 3 herbergjum síðar, þannig að alls verði 20 svefnpláss í húsinu.  Sveitarstjóra falið að láta fara fram grenndarkynningu í samræmi við lokamálsgrein 43. gr. skipulags- og byggingalaga…“

Í kjölfar samþykktar sveitarstjórnar hafi sveitarstjóri sent öllum eigendum fasteigna við Helluhraun bréf, dags. 30. maí 2005, og hafi því m.a. fylgt afrit af umsókn kæranda.  Athugasemdir hafi borist frá tveimur eigendum fasteigna og á fundi sveitarstjórnar hinn 6. júlí 2005 hafi beiðni kæranda verið synjað.

Af hálfu sveitarfélagsins sé bent á að leyfi sem veitt hafi verið til gistirekstrar í húsinu að Helluhrauni 9 árið 1995 til 1999 hafi aðeins verið nýtt um skamma hríð þar sem erindi hafi borist bygginganefnd Skútustaðahrepps frá þáverandi eiganda hússins, sbr. fundargerð bygginganefndar frá 29. október 1995, þar sem óskað hafi verið eftir heimild til að breyta austurenda Helluhrauns 9 í tvær íbúðir.  Byggingarnefnd hafi samþykkt erindið og sveitarstjórn staðfest afgreiðslu byggingarnefndar á fundi hinn 30. október 1995.  Húsnæðinu hafi því verið breytt í hefðbundið íbúðahúsnæði löngu fyrir árið 2001.  Síðan þá hafi ekki verið gistirekstur að Helluhrauni 9.

Varðandi þá fullyrðingu kæranda að gatan Helluhraun sé blönduð byggð þá er bent á að Norræna eldfjallastöðin að Helluhrauni 1 teljist ekki starfsstöð.  Húsið sé íbúðarhús í eigu Norrænu eldfjallastöðvarinnar.

Varðandi bílastæði á svæðinu þá óttist sveitarstjórn að bílastæði verði of fá til að anna auknum umsvifum vegna gistirekstrar.  Vitað sé að all oft hafi komið upp mál þar sem lagt hafi verið í einkastæði íbúa og þeir ýmist kvartað vegna þess við kæranda og starfmenn hans eða látið kyrrt liggja.  Þetta segi ef til vill ekki endilega mikla sögu um bílastæðaþörfina, en ljóst sé að ókunnugir átti sig ekki á aðstæðum á hverjum stað eins og heimamenn.  Vart verði á móti mælt að alla jafnan takist nágrönnum að umgangast hverjir aðra af kurteisi og tillitssemi og venjast háttum hvers annars.  Mörgum kunni að reynast óþægilegt að fá nýja granna dag eftir dag.

Það að sveitarstjórn hafi ekki verið fullmönnuð við afgreiðslu málsins verði vart talið ámælisvert en einn sveitarstjórnarmaður hafi vikið af fundi vegna tengsla við kæranda.  Alger einhugur hafi ríkt í sveitarstjórninni um afgreiðslu málsins og vandséð að afstaða sveitarstjórnar hefði breyst þótt varamaður hefði verið kallaður til. 

Rétt sé að Kísiliðjunni hafi verið lokað og engin atvinnustarfsemi komið í staðinn.  Þær staðreyndir réttlæti þó ekki að farið sé á svig við lög og reglur til atvinnusköpunar.  Það sé aftur á móti ofmælt að allir séu sammála um bjarta framtíð ferðaþjónustu í Mývatnssveit.  Framtíð ferðaþjónustunnar sé björt ef vel sé að henni staðið og víðtæk sátt ríki um atvinnugreinina meðal íbúa sveitarinnar.  Framtíðin sé ekki björt hjá þeim ferðaþjónustuaðilum sem ekki fari að þeim lögum og reglum sem gildi og hafi skapað sér óvild með frekjulegri framgöngu.

Í kærunni komi fram að Skútustaðahreppur hafi engar lóðir til umráða fyrir hótel eða gistiheimili.  Rétt sé að Skútustaðahreppur sé landlaus, hafi aðeins yfir takmörkuðu leigulandi að ráða.  Engu að síður séu skipulögð svæði til aukningar ferðaþjónustu og enn fremur hafi tvö stór hótel og nokkur smærri gistiheimili hafið starfsemi á síðustu árum og gistirýmum fjölgað umtalsvert.  Kærandi hafi t.d. aldrei leitað hófanna hjá sveitarstjórn um lóð fyrir gistiheimili.

Þá sé einnig rétt hjá kæranda að eigendur 18 íbúða af 20 hafi ekki gert athugasemdir í grenndarkynningu og teljist þar með samþykkir breytingunni.  Vegna þessa sé rétt að taka fram að í mörgum þeirra húsa sem við götuna standi búi leigjendur en ekki eigendur sem að auki búi aðeins þar tímabundið. 

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi verið nokkur vandi á höndum í þessu máli.  Fjárhagslegir hagsmunir kæranda kunni að vera í veði.  Þeir sem athugasemdir hafi gert telji að eignir þeirra rýrni í verði frá því sem nú sé ef  rekstur gistiheimilis verði leyfður í næsta nágrenni.  Sveitarstjórn viti að kærandi hafi lagt í fjárfestingar sem hann kunni að glata að einhverju leyti fái hann ekki leyfi til að gera þær breytingar sem hann óski. 

Niðurstaða:  Hin kærða ákvörðun fól í sér synjun á beiðni um að breyta húsinu að Helluhrauni 9 í Reykjahlíð úr íbúðarhúsi í gistiheimili.  Í gildi er Aðalskipulag Skútustaðahrepps fyrir Reykjahlíð 1996-2015 og skv. því stendur hús það sem hér um ræðir á íbúðarsvæði.  Fyrir úrskurðarnefndina hefur verið lagt skipulag, dagsett í júlí árið 1977, þar sem lóðastærðir við Helluhraun og Lynghraun eru tilgreindar.  Skipulag þetta felur ekki í sér ákvörðun um fekari nýtingu fasteigna við götuna.

Samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps fyrir Reykjahlíð 1996-2015 og gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 440/1998 er heimilt að reka gistiaðstöðu á íbúðarsvæðum ef reksturinn veldur ekki nágrönnum ónæði m.a. vegna óeðlilega mikillar umferðar.

Húsið að Helluhrauni 9 mun hafa verið byggt árið 1969 af Kísiliðjunni hf. sem nýtti það sem aðsetur fyrir starfsmenn verksmiðjunnar.  Í maí árið 1995 var veitt heimild til gistirekstrar í húsinu en í október sama ár var veitt heimild til að breyta austurenda þess í tvær íbúðir.     

Helluhraun nr. 9 í Reykjahlíð stendur í gróinni götu þar sem hefðbundin íbúðarbyggð blandast ýmiss konar þjónustustarfsemi.  Eru þar m.a. pósthús, bankastofnun og heilsugæsla auk þess sem nú þegar eru starfrækt gistiheimili í götunni.  Húsin við Helluhraun standa öðru megin götunnar en hinum megin hennar er autt svæði sem skv. gildandi aðalskipulagi gerir ráð fyrir blandaðri landnotkun. 

Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið og umfangs þess gistirekstrar sem kærandi hyggst starfrækja í húsi sínu telur úrskurðarnefndin að notkunarbreytingin sem hér um ræðir fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  

Við húsið að Helluhrauni nr. 9 eru fimm bílastæði auk þess sem sunnan þess er svæði sem nýtt hefur verið sem bílastæði.  Verður því ekki annað séð en að ákvæði 64. gr. skipulagsreglugerðar nr. 441/1998 séu uppfyllt hvað bílastæðaþörf varðar. 

Samkvæmt þessu verður að telja að málefnaleg rök hafi skort fyrir hinni kærðu ákvörðun og verður hún af þeim sökum úr gildi felld.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Synjun hreppsnefndar Skútustaðahrepps frá 6. júlí 2005 á beiðni um breytingu á notkun hússins að Helluhrauni 9 í Reykjahlíð, úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili, er felld úr gildi. 

 

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________         _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Geirharður Þorsteinsson

 

 

 

15/2006 Tangagata

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 6. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 15/2006, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 3. mars s.á., kærir R, Sundstræti 41, Ísafirði ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar hinn 2. febrúar 2006. 

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin kveði þegar upp úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda. 

Úrskurðarnefndin hefur leitað afstöðu byggingarleyfishafa og skipulags- og byggingaryfirvalda á Ísafirði til kærunnar og framkominnar kröfu.  Hefur nefndinni borist greinargerð Ísafjarðarbæjar en byggingarleyfishafi hefur ekki lýst sjónarmiðum sínum til kærunnar.  Með hliðsjón af framlögðum gögnum er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé nú tækt til efnisúrlausnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Árið 2000 sótti eigandi Tangagötu 26 um byggingarleyfi til breytinga á íbúðarhúsi og byggingar bílskúrs á eignarlóð sinni.  Á svæðinu var í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina frá árinu 1997.  Tillaga að breytingu á umræddu deiliskipulagi var kynnt á árinu 2000 þar sem bygging bílskúrs á lóðinni nr. 26 við Tangagötu, fast að lóðamörkum við Sundstræti, var heimiluð.  Erindið var grenndarkynnt og lauk kynningunni án athugasemda.  Breyting þessi á deiliskipulaginu var hvorki send Skipulagsstofnun til afgreiðslu né auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Framkvæmdir hófust við breytingar á íbúðarhúsinu en ekki við bílskúrinn. 

Vorið 2005 hófst eigandi Tangagötu 26 handa við bílskúrsbygginguna, gróf  fyrir sökklum, skipti um jarðveg og lagði lagnir að grunninum.  Kærandi, sem er eigandi að Sundstræti 41, kom á framfæri við umhverfisnefnd athugasemdum vegna framkvæmdanna og í kjölfarið sótti eigandi Tangagötu 26 um endurnýjun á byggingarleyfi fyrir bílskúrnum með bréfi, dags. 22. júlí 2005.  Það erindi var tekið fyrir á fundi umhverfisnefndar 27. júlí 2005 og var tæknideild falið að grenndarkynna umsóknina.  Það var gert með bréfum, dags. 29. júlí og 11. ágúst 2005, og markar seinna bréfið upphaf og lok grenndarkynningarinnar.  Ein athugasemd barst, frá kæranda í bréfum, dags. 12. ágúst og 5. september 2005. 

Að grenndarkynningu lokinni eða hinn 28. september 2005 var á fundi umhverfisnefndar bókað eftirfarandi:  „Umhverfisnefnd metur það svo, að þar sem skuggamyndun virðist vera óveruleg og að í gildandi deiliskipulagi fyrir Eyrina, dags. í nóvember 1997, er gert ráð fyrir að heimilt verði að byggja geymsluhús aftast á lóðum, leggur umhverfisnefnd til við bæjarstjórn að umsókn Þórðar verði samþykkt.“  Bæjarstjórn vísaði tillögunni aftur til umhverfisnefndar og á fundi nefndarinnar hinn 12. október 2005 var byggingarfulltrúa falið að ræða við umsækjanda.  Á fundi umhverfisnefndar hinn 26. október 2005 var gerð grein fyrir því að samkomulag hafi náðst við eiganda lóðarinnar að Tangagötu 26 um breytingu á áður innsendu erindi þannig að innri gafl bílskúrsins verði u.þ.b. 1,3 metra frá lóðarmörkum að Sundstræti 41, en skúrinn breikki og verði fimm metrar á breidd í stað fjögurra.  Í kjölfarið lagði umhverfisnefnd til við bæjarstjórn að umsóknin um byggingarleyfið, svo breytt, yrði samþykkt.  Tillaga umhverfisnefndar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 3. nóvember 2005.  Með bréfi, dags. 25. nóvember 2005, kærði kærandi ákvörðun þessa til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði uppkveðnum til bráðabirgða hinn 16. desember 2005 stöðvaði framkvæmdir við gerð bílskúrsins með vísan til þess að svo virtist sem hið umþrætta byggingarleyfi væri ekki í samræmi við deiliskipulag. 

Gögn umhverfisnefndar varðandi grenndarkynninguna voru send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 8. desember 2005, og í bréfi stofnunarinnar, dags. 22. desember 2005, voru ekki gerðar athugasemdir við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda.  Birtist auglýsing um gildistökuna í B-deild Stjórnartíðina hinn 5. janúar 2006. 

Á fundi umhverfisnefndar hinn 11. janúar 2006 var eftirfarandi fært til bókar:  „Lagður fram úrskurður ÚSB í kærumáli vegna bílskúrsbyggingar að Tangagötu 26 á Ísafirði.  Fram kemur í úrskurðinum að framkvæmdir við bygginguna skuli stöðvaðar, þar sem byggingarleyfi var ekki í samræmi við deiliskipulag, þar sem auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins, sem gerir ráð fyrir bílskúrnum, hafi ekki verið birt í Stjórnartíðindum þegar umsókn um byggingu bílskúrsins var samþykkt.  Með vísan til úrskurðar ÚSB er lagt til við bæjarstjórn að samþykkt bæjarstjórnar frá 3. nóvember 2005, um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúrbyggingu að Tangagötu 26 á Ísafirði, verði felld úr gildi, sbr. 2. tl. 26. gr. stjórnsýslulaga.“   Kærandi féll frá fyrri kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. nóvember 2005, með bréfi, dags. 30. janúar 2006.
Á fyrrgreindum fundi umhverfisnefndar hinn 11. janúar 2006 var einnig eftirfarandi fært til bókar:  „Tekin fyrir umsókn Þórðar Eysteinssonar þar sem hann sækir um heimild til að byggja 35m² bílskúr á lóðinni að Tangagötu 26, Ísafirði, í samræmi við deiliskipulag um lóðina, sem gekk í gildi með auglýsingu í Stjórnartíðindum 5. janúar 2006.  Umhverfisnefnd leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt.“  Á fundi bæjarstjórnar 19. janúar var tillaga umhverfisnefndar samþykkt.

Hefur kærandi skotið framangreindri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að umdeild bygging hafi verulega neikvæð grenndaráhrif.  Hún muni skyggja á lóð hennar og hús.  Byggingin eigi að vera fjögurra metra há og muni byrgja alla sýn sem þó hafi verið einhver milli húsa.  Nálægðin verði yfirþyrmandi.  Byggingin sé áætluð við lóðamörk hennar húss, í gömlu og grónu hverfi þar sem hús séu lágreist og byggðin þétt.  Lóðin sem fylgi húsi kæranda sé vestan megin þar sem sólar njóti síðari hluta dags og muni byggingin skyggja á glugga á báðum hæðum húss hennar. 

Ekki sé fallist á að komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda með þeirri breytingu sem gerð hafi verið frá upphaflegri umsókn, enda hafi breikkun bílskúrsins í för með sér að hann stækki um sjö fermetra.  Skúrinn hafi mikil neikvæð áhrif á umhverfið og skapi slæmt fordæmi.  Í upphaflegu deiliskipulagi fyrir svæðið hafi verið gert ráð fyrir geymsluskúrum aftast á lóðum en hér sé á ferðinni mikið meira en geymsluskúr. 

Málsrök Ísafjarðarbæjar:  Af hálfu Ísafjarðarbæjar er kröfu kæranda mótmælt.  Ítarleg grenndarkynning hafi átt sér stað á fyrirhuguðum bílskúr og komið hafi verið til móts við sjónarmið kæranda í málinu með því að færa skúrinn frá lóðamörkum. 

Bent sé á að í allri umfjöllun bæjaryfirvalda um mál þetta hafi verið fjallað um bílskúrsbyggingu en ekki geymsluskúr aftast í lóð. 

Fyrirhuguð bygging verði um 3,4 metrar á hæð en ekki 4 eins og kærandi haldi fram.  Fyrirhuguð bygging verði um 4,7 metra frá húsinu að Sundstræti 41 og 1,3 metra frá lóðarmörkum að Sundstræti 41.  Gluggar á 2. hæð að Sundstræti 41 séu nokkru hærri en fyrirhugaður bílskúr og muni hann því ekki byrgja útsýni úr þeim gluggum. 

Bæjarstjórn hafi á fundi sínum hinn 3. nóvember 2005 samþykkt að breyta deiliskipulagi lóðarinnar þannig að það tæki mið af athugasemdum um nálægð við Sundstræti 41 sem fram hafi komið í kjölfar grenndarkynningarinnar.  Málsmeðferð öll vegna deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið yfirfarin af Skipulagsstofnun sem ekki hafi gert athugasemd við að deiliskipulagsbreytingin væri auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Auglýsingin hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. janúar sl.  Umsókn um byggingarleyfi hafi verið samþykkt í bæjarstjórn hinn 2. febrúar sl., enda í samræmi við gildandi deiliskipulag. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti samþykktar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 þess efnis að veita byggingarleyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði í samræmi við samþykkt deiliskipulag sem tók gildi hinn 5. janúar 2006. 

Baklóð kæranda, sem snýr í norður, og baklóð byggingarleyfishafa liggja saman.  Samkvæmt gögnum sem lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina mun hin fyrirhugaða bílskúrsbygging vera 3,4 metrar á hæð og vera 1,3 metra frá lóðamörkum kæranda.  Hús kæranda stendur um 3,4 metrum frá lóðamörkum.  Á næstu lóð við byggingarleyfishafa hefur verið byggður bílskúr að lóðarmörkum. 

Úrskurðarnefndin telur að hæð og umfang byggingar samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi muni ekki skera sig verulega úr umhverfi sínu með tilliti til byggðarmynsturs þegar litið er til þess að um þétta byggð er að ræða og á lóðinni við hliðina hefur þegar verið reistur bílskúr.  Skuggavarp og birtuskerðing vegna hinnar fyrirhuguðu byggingar mun einkum beinast að norðurhluta lóðar kæranda.  Með vísan til þessa verður ekki séð að hið umdeilda byggingarleyfi og sú útsýnisskerðing sem af því leiðir valdi kæranda slíku óhagræði eða röskun að ógilda beri ákvörðunina. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 19. janúar 2006 um að veita leyfi til byggingar bílskúrs að Tangagötu 26 á Ísafirði. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 
_____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                              Geirharður Þorsteinsson

 

 

 

 

10/2006 Lindargata

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 10/2006, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. apríl 2004 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Skúlagötusvæði við Lindargötu og breytingu á því skipulagi sem skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 12. janúar 2005 varðandi lóðina að Lindargötu 27-29 í Reykjavík.  Þá er kærð veiting byggingarleyfis fyrir átta hæða íbúðarhúsi á lóðinni að Lindargötu 27-29 sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 22. mars 2005. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. febrúar 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Guðfinna J. Guðmundsdóttir hdl., f.h. D, K, K og M, íbúa að Lindargötu 25 í Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 13. apríl 2004 að samþykkja deiliskipulag fyrir Skúlagötusvæði við Lindargötu og breytingu á því skipulagi sem skipulagsráð Reykjavíkur samþykkti hinn 12. janúar 2005 varðandi lóðina að Lindargötu 27-29 í Reykjavík.  Þá er kærð veiting byggingarleyfis fyrir átta hæða íbúðarhúsi á lóðinni að Lindargötu 27-29 sem byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti hinn 22. mars 2005. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda skv. hinu kærða byggingarleyfi þar til málsúrslit liggi fyrir. 

Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn er málið varða og greinargerðir Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa og þykir málið nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.  Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Þann 5. nóvember 2003 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi reits 1.152.4, sem afmarkast af Hverfisgötu, Klapparstíg, Lindargötu og Vatnsstíg, og var sú afgreiðsla staðfest af borgarráði 11. nóvember s.á.  Áður hafði nefndin kynnt tillöguna fyrir hagsmunaaðilum. 

Á fundi nefndarinnar hinn 7. apríl 2004 var skipulagstillagan tekin fyrir að lokinni auglýsingu en athugasemdir höfðu borist frá tveimur aðilum.  Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti auglýsta tillögu með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda og vísaði málinu til borgarráðs sem samþykkti bókunina á fundi sínum 13. apríl 2004. 

Hinn 26. nóvember 2004 samþykkti skipulagsfulltrúi á embættisafgreiðslufundi sínum að grenndarkynna tillögu að breytingu á ofangreindu deiliskipulagi, að því er varðaði lóðina að Lindargötu 27 og 29.  Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna fyrir hagsmunaaðilum að Lindargötu 20, 26, 28 og 30, Skúlagötu 10 og 12 og Klapparstíg 1 og 1a en engar athugasemdir bárust.  Skipulagsráð Reykjavíkur staðfesti deiliskipulagsbreytinguna hinn 12. janúar 2005. 

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík samþykkti síðan byggingarleyfi á umræddri lóð fyrir átta hæða íbúðarhúsi á grundvelli hins breytta deiliskipulags og mun hafa verið hafist handa við framkvæmdir í nóvember 2005. 

Í kjölfar þess settu kærendur sig í samband við skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkur og voru upplýst um hina grenndarkynntu deiliskipulagsbreytingu og í bréfi, dags. 12. desember sl., óskuðu þeir eftir endurupptöku málsins.  Á fundi borgarráðs hinn 20. desember 2005 var samþykkt að vísa málinu til meðferðar lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs.  Sviðsstjóri fundaði með kærendum vegna málsins og urðu lyktir þær, skv. minnisblaði sviðsstjóra, dags. 15. og 19. janúar 2006, sem sent var tveimur kærenda, að skilyrði væru hvorki fyrir hendi til að endurupptaka málið né til afturköllunar stjórnvaldsákvörðunarinnar. 

Hafa kærendur skotið fyrrgreindum deiliskipulagsákvörðunum og veittu byggingarleyfi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að þeir hafi ekki fengið vitneskju um hinar kærðu deiliskipulagsákvarðanir fyrr en í nóvember 2005 og hafi þá verið farið fram á endurupptöku deiliskipulagsins hinn 12. desember s.á. vegna ágalla á málsmeðferð.  Með bréfi forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 19. desember 2005, til borgarráðs hafi verið óskað eftir heimild til að afturkalla skipulagsbreytinguna frá janúar 2005 með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga á þeim forsendum að um hafi verið að ræða ógildanlega ákvörðun.  Með bréfi borgarritara, dags. 19. janúar 2006, hafi kærendum verið gert kunnugt um að umdeilt deiliskipulag yrði ekki afturkallað.  Á því sé byggt að þá fyrst hafi kærufrestur byrjað að líða og sé kæran því innan kærufrests. 

Fyrir liggi að deiliskipulagið frá 13. apríl 2004 hafi verið auglýst í dagblöðum lögum samkvæmt en einnig sent íbúum sem borgin taldi að hagsmuna hefðu að gæta.  Kærendur hafi ekki verið þeirra á meðal þó svo hús þeirra standi við hlið lóðarinnar nr. 27 við Lindargötu.  Hefðu þeir þó átt að vera þeir aðilar sem hvað mestra hagsmuna hefðu að gæta af umræddum breytingum.  Samkvæmt grein 3.2 í skipulagsreglugerð eigi að leitast við að marka stefnu og áherslur skipulagstillögu í sem mestri samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaðila og kynna þeim áform um skipulagsgerðina og leita eftir skoðunum þeirra varðandi áherslur.  Skilja verði ákvæðið svo að yfirvöld verði við slíkt að gæta jafnræðis meðal borgaranna en það hafi ekki verið gert heldur hafi aðilum verið mismunað og jafnræðis ekki gætt þar sem borgin hafi eingöngu kynnt tillöguna fyrir einstökum aðilum en ekki kærendum. 

Áður en umrætt deiliskipulag hafi verið samþykkt 13. apríl 2004 hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir svæðið frá janúar 1985 en fyrir lóðina nr. 29 við Lindargötu hafi verið samþykkt deiliskipulag 21. janúar 2003.  Í greinargerð með deiliskipulaginu frá árinu 2004 komi fram að helstu breytingarnar séu aukið leiksvæði fyrir leiksskóla, lóðirnar nr. 27 og 29 við Lindargötu verði sameinaðar og lóðarmörk þeirra færð lengra til norðurs.  Að öðru leyti sé gert ráð fyrir uppbyggingu á svæðinu með svipuðum hætti og fyrra skipulag hafi gert ráð fyrir.  Sama orðalag sé notað í auglýsingunum sem birtust í blöðunum.  Í greinargerðinni sé síðan vísað í töflu með skilmálum einstakra lóða.  Í töflunni komi fram að ekkert nýtingarhlutfall sé á lóðunum nr. 27 og 29 við Lindargötu en eftir sameininguna verði það 2,51 og heimilt sé að byggja allt að einn metra út fyrir skilgreindan byggingarreit á annarri hæð og ofar.  Í uppdráttum sem fylgi komi fram að ekkert hús sé á lóðunum fyrir skipulagsbreytinguna en eftir hana megi byggja á lóðinni nr. 27 fjórar hæðir, kjallara og ris og á lóðinni nr. 29 sex hæðair, kjallara og ris.  Hús kærenda á nr. 25 sé skilgreint sem hluti af verndaðri götumynd, tvær hæðir kjallari og ris, og sé nýtingarhlutfallið hækkað úr 0,69 upp í 0,75 og gert ráð fyrir að reisa megi viðbyggingu garðmegin án fjölgunar bílastæða.  Liggi alveg ljóst fyrir að miklir hagsmunir séu og hafi verið í húfi fyrir kærendur vegna umrædds deiliskipulags enda hús þeirra skilgreint sem hluti af verndaðri götumynd sem varla eigi við rök að styðjast eftir að við hlið þess hafi verið heimiluð bygging húss upp á margar hæðir. 

Hinn 12. janúar 2005 hafi síðan verið gerð breyting á deiliskipulaginu með grenndarkynningu sem ekki hafi náð til kærenda þótt þeir eigi verulegra hagsmuna að gæta í málinu og þar með hafi verið gengið á persónulegan og lögvarðan rétt þeirra.  Með breytingunni hafi lágmarkshæð á vestari hluta nýbyggingarinnar við Lindargötu 27 verið lækkuð en mörk efstu hæðar að Lindargötu 29 færð í sömu hæð lengra til vesturs og inn á lóðina nr. 27.  Með þessari breytingu hafi því hluti af nýbyggingunni á lóðinni nr. 27 verið lækkaður en hluti af henni settur í sömu hæð og nýbyggingin á lóðinni nr. 29.  Þá hafi verið heimilaður bílastæðakjallari undir húsinu, lóðarmörk færð til norðurs og veitt heimild til að byggja allt að einn metra út fyrir skilgreindan byggingarreit á fyrstu hæð og ofar við Lindargötu 27 en hefði áður verið á annarri hæð og ofar.

Deiliskipulagsbreytingin sé ólögmæt þar sem gengið hafi verið framhjá kærendum við grenndarkynningu hennar og sjónarmið kærenda aldrei komist að í málinu.  Ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir kærendur og takmarki réttindi þeirra að verulegu leyti, bæði persónuleg og fjárhagsleg.  Á grundvelli umrædds deiliskipulags hafi síðan verið veitt byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóðinni nr. 27 og 29 við Lindargötu í samræmi við deiliskipulagið frá 12. janúar 2005.  Af hálfu kærenda sé á því byggt að svo verulegir gallar hafi verið á kynningu deiliskipulagsbreytinganna og um leið lögmæti ákvörðunarinnar, að byggingarleyfi sem veitt hafi verið á grundvelli þess sé ógilt.  Þessu til stuðnings sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 2210/1997. 

Þá telji kærendur að forsendur fyrir hinni vernduðu götumynd séu brostnar.  Hið nýja skipulag hafi valdið því að verðmæti fasteignar þeirra hafi lækkað, nýtingarmöguleikar hennar hafi skerst frá því sem áður hafi verið auk þess sem hún hafi rýrnað svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður.  Skuggavarp hafi aukist enda byggingin við hliðina of há.  Þó svo að hluti byggingarinnar sem standi á lóðinni nr. 27 hafi verið lækkaður um 1,5 metra þá komi á móti að hluti byggingarinnar hafi verið hækkaður um 5,4 metra.  Telji kærendur að möguleikarnir á því að nýta lóð þeirra hafa skerst verulega með deiliskipulagsbreytingunni samþykktri 12. janúar 2005 vegna hækkunar á húsinu að hluta, m.a. vegna aukins skuggavarps.  Kærendur hafi nýlega fengið samþykki fyrir svölum á annarri hæð húss síns sem nú komi að litlum notum vegna skuggavarpsins og nálægðar við nýbygginguna.  Þá sé til lítils að byggja við húsið viðbyggingu þegar umrædd nýbygging muni rísa svo nálægt eign þeirra.  Aukið ónæði og óþægindi muni stafa af hinu nýja húsi við byggingu bílastæðakjallara og ekki hafi verið athugað hvaða áhrif bygging hans muni hafa á hús kærenda.  Bent sé á að í 4. mgr. gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 segi að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.  Fyrirhuguð bygging sé í andstöðu við heildaryfirbragð þess svæðis sem til stóð að vernda.  Hafi upphaflega verið við það miðað að mörk varðandi uppbyggingu Skuggahverfis ætti að vera við lóð nr. 29 en því hafi nú verið breytt. 

Sú hlið fyrirhugaðrar byggingar sem snúi að húsi kærenda sé aðeins þremur metrum frá lóðarmörkum auk þess sem veitt sé heimild til að byggja einn metra út fyrir byggingarreit frá fyrstu hæð og upp úr.  Sé gert ráð fyrir stórum gluggum á hliðinni beint út að húsi og lóð kærenda.  Vísað sé í þessu sambandi til brunavarnaákvæða um fjarlægð milli húsa og að þessi tilhögun gangi enn frekar gegn grenndarhagsmunum kærenda. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingarkröfum verði hafnað. 

Vísað er til þess að kæran sé of seint fram komin hvað alla kröfuliði varði. Deiliskipulag reits 1.152.4 hafi öðlast gildi 14. júní 2004 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og umdeild skipulagsbreyting sem grenndarkynnt hafi verið hafi öðlast gildi með birtingu auglýsingar hinn 25. janúar 2005.  Þá hafi hið kærða byggingarleyfi verið samþykkt af byggingarfulltrúa 29. mars 2005. 

Í 5. málsl. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 komi skýrt fram að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá þeim tíma að kæranda var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Kærufrestur vegna fyrstu ákvörðunarinnar hafi því runnið út hinn 14. júlí árið 2004, en kæran sé dagsett þann 21. febrúar 2006.  Ekki sé að finna neinar útskýringar á því í kæru hvers vegna kæran sé jafn seint fram komin og raun beri vitni nema þær að kærendum hafi verið ókunnugt um auglýsingar í blöðum.  Það að borgarar fylgist ekki með lögboðnum auglýsingum geti ekki talist haldbær afsökun fyrir því að kæra komi of seint fram. 

Annað sé uppi á teningnum að því er varði síðari skipulagsákvörðunina frá 12. janúar 2005.  Ítreka beri að breytingar með þeirri skipulagsákvörðun hafi öðru fremur falist í því að lækka hámarkshæð vesturhluta byggingarinnar við Lindargötu 27, sem snúi að húsi kærenda, stækka lóðina til norðurs og gera ráð fyrir bílastæðakjallara undir húsinu.  Þau mistök hafi átt sér stað að tillagan hafi ekki verið grenndarkynnt gagnvart kærendum. 

Framkvæmdir hafi byrjað á umræddri lóð í lok nóvember 2005 en í bréfi kærenda frá 28. nóvember s.á. komi fram að þá fyrst hafi þeim verið ljóst að samkvæmt gildandi deiliskipulagi væri ráðgerð átta hæða bygging að Lindargötu 27, þar af tæpar tvær hæðir neðan götulínu.  Telja verði, ef kærufrestur vegna seinni deiliskipulags-ákvörðunarinnar miðist ekki við birtingu gildistökuauglýsingar í Stjórnartíðindum eins og lögboðið sé, þá hafi kærufrestur í síðasta lagi byrjað að líða frá þeim tíma sem kærendum mátti vera kunnugt um að ákvörðunin hefði verið tekin.  Sé því mótmælt að hægt sé að teygja kærufrest lengur en til loka árs 2005 vegna umræddrar ákvörðunar.  Reykjavíkurborg leggi sérstaka áherslu á að kærufrestir í skipulags- og byggingarmálum séu ákvarðaðir skammir af löggjafanum svo að ekki ríki réttaróvissa um lögmæti ákvarðana lengur en brýna nauðsyn beri til með tilliti til hagsmuna byggingarleyfishafa.  Í ljósi þessa verði kærendur því að bera hallann af því að kæran sé of seint fram komin. 

Þá sé frávísunarkrafan studd þeim rökum að kærendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá umrædda breytingu á deiliskipulagi fellda úr gildi í ljósi þess að breytingin felist í því að lækka hámarkshæð byggingarinnar við Lindargötu 27, gengt húsi kærenda, stækka lóðina til norðurs og gera ráð fyrir bílastæðakjallara undir húsinu.  Eina atriðið sem hafi möguleg neikvæð áhrif á hagsmuni kærenda á framkvæmdastigi sé vegna bílakjallarans.  Vekja beri athygli á því að framkvæmd við hann hafi verið að mestu leyti um garð gengin þegar kæran hafi komið fram.  Efnislegar athugasemdir kærenda á frumstigi málsins hafi einkum lotið að bílakjallaranum og ónæði vegna hans og þeim stóru byggingum sem nú séu að rísa í grennd við minni og viðkvæmari eldri byggð.  Yfirlýst markmið borgaryfirvalda sé að fjölga bílastæðum neðanjarðar í miðborginni þótt því geti fylgt hvimleitt ástand fyrir íbúa í grenndinni á meðan framkvæmdir standi yfir, en um sé að ræða bílastæðalausn sem létti einnig á þeirri byggð sem fyrir sé.  Ekki sé tekið undir þau sjónarmið að umræddar breytingar á deiliskipulagi valdi frekari röskun á hagsmunum kærenda umfram það sem kunni að leiða af samþykkt eldra deiliskipulags. 

Komi kæran til efnislegrar skoðunar bendi Reykjavíkurborg á að sjónarmið kærenda um skerðingu á nýtingu lóðar þeirra vegna hinna kærðu breytinga séu þess eðlis að þau geti aldrei valdið ógildingu umræddra ákvarðana.  Ljóst sé að hin samþykkta breyting á deiliskipulagi geti valdið einhverjum afmörkuðum grenndaráhrifum á hluta af lóð kærenda en við slíkum áhrifum megi að jafnaði búast þegar gerðar séu breytingar á húsum í þéttbýli.  Aukning skuggavarps inn á lóð kærenda, þegar sól sé lægst á lofti, sé innan þeirra marka sem miðað sé við í þéttri byggð og hið sama megi segja um útsýnisskerðingu.  Við umfjöllun um grenndarsjónarmið verði sérstaklega að hafa í huga að í skipulags- og byggingarlögum sé gert ráð fyrir að sveitarstjórnir hafi heimildir til þess að breyta skipulagsáætlunum, sbr. t.d. 25. og 26. gr. þeirra laga.  Telji aðilar sig hins vegar geta sannað að þeir hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem almennt megi búast við hjá fasteignaeigendum í þéttbýli eigi þeir bótarétt skv. ákvæðum 33. gr. laganna.  Um bótarétt sé úrskurðarnefndin hins vegar ekki bær til að fjalla. 

Hvað varði hið kærða byggingarleyfi, þá geri kærendur ekki neinar efnislegar athugasemdir við það, þrátt fyrir kröfu um ógildingu þess, né bendi þeir á nein atriði sem leitt geti til ógildingar þess.  Kröfu um ógildingu sé því hafnað enda ekkert komið fram í málinu sem bendi til þess að byggingarleyfið sé háð neinum annmörkum. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er þess krafist að öllum kröfum kærenda verið vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að þeim verði hafnað. 

Sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir umdeildu húsi að Lindargötu 27 hinn 2. febrúar 2005 og hafi byggingarfulltrúi samþykkt hana 22. mars s.á.  Byggingarleyfishafi hafi tilkynnt kærendum um væntanlegar framkvæmdir sem síðan hafi hafist með uppsetningu girðingar í samráði við borgaryfirvöld og lögreglu en girðingarefni hafi verið flutt á staðinn hinn 30. nóvember 2005. 

Varðandi kærðar deiliskipulagsákvarðanir eru sjónarmið byggingarleyfishafa á sömu lund og tíunduð hafa verið af hálfu Reykjavíkurborgar fyrir frávísunarkröfum en áhersla lögð á að kærufrestur 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé ákvarðaður út frá hlutlægu viðmiði og komi grandsemi kærenda því ekki til álita í þeim efnum.  Meginreglan sé sú að borgurum eigi að vera kunnugt um þær ákvarðanir sem sæti opinberri birtingu að lögum.  Sé þessi ályktun í fullu samræmi við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, þar sem segi að birt fyrirmæli skuli binda alla frá og með deginum eftir útgáfu þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin hafi verið birt, ef þau geymi ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku. 

Varðandi hið kærða byggingarleyfi sé á því byggt að kærendum hafi mátt vera kunnugt um byggingarleyfið fljótlega eftir veitingu þess í ljósi þess að deiliskipulagsbreytingin að baki leyfinu hafi sætt opinberri birtingu.  Jafnvel þótt lagt yrði til grundvallar það tímamark sem gert sé í kæru, þ.e. í nóvember 2005, sé ljóst að kærufresturinn hafi verið liðinn í desember s.á.  Rétt sé að benda á að í bréfum kærenda til borgaryfirvalda sé óskað eftir endurupptöku á deiliskipulagi en ekki byggingarleyfi.  Ákvæði 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti því ekki komið til skoðunar við útreikning kærufrests. 

Af kæru verði ráðið að krafa um ógildingu byggingarleyfisins sé eingöngu byggð á því að það hafi verið veitt á grundvelli ólögmæts skipulags.  Kæran snerti því í reynd ekki byggingarleyfið sem slíkt heldur deiliskipulagið að baki því.  Krafan um ógildingu leyfisins sé því afleidd af kröfu um ógildingu skipulagsins.  Hafi kærendur enga hagsmuni af því að úrskurðarnefndin fjalli um gildi byggingarleyfisins ef kæruliðum um skipulagsákvarðanirnar verði vísað frá en kærufrestir vegna þeirra ákvarðana sé löngu liðnir.  Af þessum sökum beri að vísa öllu málinu frá. 

Að baki skömmum kærufresti í skipulags- og byggingarmálum búi sjónarmið um réttaröryggi og hagsmunir leyfishafa.  Ekki sé unnt að mynda nýjan kærufrest með beiðni um endurupptöku máls enda væru reglur um kærufresti þýðingarlausar og færi slík túlkun gegn sjónarmiðum 1. málsl. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.  Framangreindum röksemdum til stuðnings megi vísa til dóms Hæstaréttar frá 16. júní 2005 í málinu nr. 45/2005. 

Byggingarleyfishafi telji enga þá form- eða efnisannmarka vera á hinum kærðu ákvörðunum að leitt geti til ógildingar.  Sérstaklega sé bent á að mistök við grenndarkynningu skipulagsbreytingarinnar frá 12. janúar 2005 geti ekki ein og sér valdið ógildingu þeirra ákvörðunar.  Fram komi í svari borgarritara við endurupptökubeiðni kærenda að ekkert liggi fyrir um að athugasemdir kærenda hefðu leitt til annarrar niðurstöðu en raunin hafi orðið á hefðu þær legið fyrir við afgreiðslu málsins. 

Áhersla sé lögð á að byggingarleyfishafi hafi ríka hagsmuni af því að umdeilt skipulag verði ekki ógilt enda hafi hann fengið útgefið byggingarleyfi á grundvelli þess og hafið framkvæmdir samkvæmt því í góðri trú um gildi skipulagsins og byggingarleyfisins.  Framkvæmdir hafi ekki verið hafnar fyrr en kærufrestir hafi verið liðnir og verði að telja að kærendur hafi sýnt af sér tómlæti með því að hafa ekki freistað þess að fá skipulaginu hnekkt fyrr.  Ótækt sé að byggingarleyfishafi gjaldi fyrir það og ógilding umdeildra ákvarðana muni fyrirsjáanlega valda honum miklu tjóni. 

Aðilar hafa fært fram frekari rök og sjónarmið fyrir kröfum sínum en hér hafa verið rakin og hefur úrskurðarnefndin haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Borgaryfirvöld og byggingarleyfishafi hafa sett fram kröfu um frávísun kærumáls þessa.  Hefur sú krafa einkum verið studd þeim rökum að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. 

Fyrir liggur að umdeildar deiliskipulagsákvarðanir sættu opinberri birtingu, sú fyrri hinn 11. júní 2004 og sú seinni hinn 24. janúar 2005.  Við mat á upphafi kærufrests hins kærða byggingarleyfis verður við það að miða að kærendum hafi mátt vera ljóst að leyfi hafði verið gefið út fyrir framkvæmdum á lóðinni nr. 27-29 við Lindargötu í síðasta lagi í lok nóvember, er þeir rituðu skipulags- og byggingarsviði borgarinnar bréf vegna fyrirhugaðrar byggingar og þegar undirbúningur framkvæmda hófst með flutningi girðingarefnis á staðinn.  Gátu kærendur þá þegar kært veitingu byggingarleyfsins án tillits til beiðni þeirra um endurupptöku hinna kærðu deiliskipulagsákvarðana, en kæra þeirra barst ekki úrskurðarnefndinni fyrr en rúmum tveimur og hálfum mánuði síðar, eða hinn 18. febrúar 2006.  Hafa því allar hinar kærðu ákvarðanir verið kærðar að liðnum kærufresti sem er einn mánuður skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Kemur þá til skoðunar hvort einhver þau atvik séu fyrir hendi sem leiða eigi til þess að málið verði tekið til efnismeðferðar samkvæmt undanþáguheimildum 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Ljóst er að deiliskipulagsákvörðunin sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. júní 2004 verður ekki tekin til efnismeðferðar samkvæmt greindum undanþáguákvæðum þar sem meira en eitt ár er liðið frá birtingu gildistökuauglýsingar, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.  Seinni skipulagsákvörðunin, sem fól í sér tilteknar breytingar á heimilaðri húsbyggingu skv. fyrra skipulagi, var kærð tæpum tólf mánuðum eftir gildistöku að teknu tilliti til tímans sem afgreiðsla endurupptökubeiðni kærenda tók í samræmi við 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.  Ekki verður talið að slíkur dráttur á að kæra ákvörðun, sem birt var opinberri birtingu, teljist afsakanlegur og með hliðsjón af efni ákvörðunarinnar verður ekki fallist á að veigamiklar ástæður mæli með því að ákvörðunin verði tekin til efnismeðferðar.  Ennfremur liggja ekki fyrir ástæður er réttlætt geti að kæra vegna umrædds byggingarleyfis, sem tengist fyrrgreindum skipulagsákvörðunum að efni til, verði tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti. 

Að öllu framangreindu virtu og með vísan til 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________         ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                         Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

5/2006 Laugavegur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 5/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2005 um að veita leyfi fyrir niðurrifi húss að Laugavegi 85 í Reykjavík og byggingu fjögurra hæða húss með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og sex íbúðum á efri hæðum hússins. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. janúar 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Hverfisgötu 100a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2005 um að veita leyfi fyrir niðurrifi húss að Laugavegi 85 í Reykjavík og byggingu fjögurra hæða húss með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og sex íbúðum á efri hæðum hússins. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt hefur kærandi gert þá kröfu í bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2006, að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi þar til efnisniðurstaða liggi fyrir í kærumálum hans vegna byggingarleyfisins og deiliskipulags umrædds reits. 

Gögn og umsagnir vegna byggingarleyfiskærunnar og greindrar skipulagskæru hafa nú borist úrskurðarnefndinni og telst málið nægilega upplýst til þess að taka það til efnismeðferðar.  Verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 28. júní 2005, skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar gildistöku deiliskipulags fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi, Barónsstíg, Hverfisgötu og Snorrabraut.  Skipulagið var samþykkt í skipulagsráði 1. júní 2005, staðfest í borgarráði 9. júní s.á. og öðlaðist gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. ágúst 2005.  Lóðin að Laugavegi 85 og lóð kæranda að Hverfisgötu 100a eru innan þessa skipulagsreitsreits.  Í kærunni er vísað til þess að í hinu samþykkta deiliskipulagi hafi verið gerð tillaga að nýjum lóðarmörkum hússins að Hverfisgötu 100a, en í skipulaginu hafi ekki verið tekið tillit til óska kæranda um byggingarreit efri hæða til samræmis við byggingarrreiti aðlægra húsa.  Skipulagið gangi gegn hagsmunum kæranda með ýmsu móti, m.a. sé innkeyrsla að baklóð við hús hans breikkuð. 

Hinn 29. nóvember 2005 samþykkti síðan byggingarfulltrúinn í Reykjavík, með stoð í hinu kærða skipulagi, umsókn um leyfi til þess að rífa eldra hús og byggja í þess stað fjögurra hæða hús úr steinsteyptum einingum með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð en sex íbúðum á efri hæðum á lóðinni nr. 85 við Laugaveg.  Hefur kærandi nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi skírskotar til þess að hann hafi kært deiliskipulag það sem hið kærða byggingarleyfi grundvallist á, en af því skipulagi verði ekki annað ráðið en gert sé ráð fyrir gegnumakstri að húsum við Laugaveg 85-91 og virðist húsið að Laugavegi 85 eiga aðkomu frá Hverfisgötu um lóð kæranda.  Telur kærandi óeðlilegt að veitt sé byggingarleyfi fyrir umræddu húsi á meðan kæra hans er varði gildi deiliskipulags svæðisins sé ekki til lykta leidd. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að kærumáli vegna umdeilds byggingarleyfis verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð. 

Til stuðnings frávísunarkröfu vísar Reykjavíkurborg til þess að kæran sé of seint fram komin.  Byggingarfulltrúi hafi samþykkti umsótt byggingarleyfi hinn 29. nóvember 2005.  Skv. 5. málsl. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kærufrestur einn mánuður frá þeim tíma að kæranda var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Kærufrestur vegna ákvörðunarinnar hafi því runnið úr þann 29. desember sama ár en kæran sé dagsett 19. janúar 2006.  Þá verði ekki séð að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna heimilaðrar byggingar að Laugavegi 85. 

Hvergi í skipulagskæru kæranda, sem vitnað sé til í kærumáli þessu, sé gerð athugasemd við uppbyggingarheimildir lóðarinnar að Laugavegi 85, heldur snúist óánægja kæranda um heimildir skipulagsins varðandi hans eigin lóð.  Því sé ranglega haldið fram að húsið að Laugavegi 85 eigi aðkomu um lóðina að Hverfisgötu 100a.  Eina aðkoman fyrir akandi umferð að umræddri lóð sé fyrirhuguð með skipulagskvöð yfir lóðirnar að Laugavegi 87-91 eins og umdeilt skipulag beri vitni um.  Verði ekki séð að hið kærða byggingarleyfi raski á nokkurn hátt hagsmunum kæranda. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi hefur mótmælt kröfum kæranda og krefst þess að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Hann hafi beðið með að hefja framkvæmdir þar til kærufrestur hafi verið liðinn samkvæmt lögum en kæran hafi borist að liðnum þeim fresti.  Byggingarleyfi hans sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag og hafi verið farið að öllum reglum við undirbúning og meðferð þess. 

Niðurstaða:  Eins og fram er komið hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsákvörðun þeirri er hið kærða byggingarleyfi á stoð í.  Skírskotað er til sömu raka fyrir byggingarleyfiskæru þeirri sem hér er til umfjöllunar og búa að baki greindri skipulagskæru að því viðbættu að kærandi telur umdeilt skipulag gera ráð fyrir að fasteignin að Laugavegi 85 hafi aðkomu frá Hverfisgötu við húshlið hans. 

Hús kæranda og fyrirhugað hús að Laugavegi 85 eru á sama skipulagsreit og í nálægð hvort við annað og verður ekki að fyrra bragði fullyrt um að fyrirhuguð bygging geti ekki snert hagsmuni kæranda.  Í málinu liggja ekki fyrir gögn um að kæranda hafi verið tilkynnt um veitingu hins kærða byggingarleyfis en borgaryfirvöldum var kunnugt um málskot hans til úrskurðarnefndarinnar vegna deiliskipulags þess sem umdeilt byggingarleyfi styðst við.  Þá verður ekki af málsatvikum ráðið hvenær kæranda mátti vera ljóst að veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir húsi því sem fyrirhugað er að reisa á lóðinni að Laugavegi 85.  Verður að virða vafa í þessu efni kæranda í hag og liggur því ekki fyrir að kæra vegna umdeilds byggingarleyfis, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 19. janúar sl., hafi borist að liðnum kærufresti. 

Af þessum sökum verður ekki fallist á að vísa beri kærumáli þessu frá vegna aðildarskorts kæranda eða vegna þess að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. 

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli kæranda vegna gildistöku deiliskipulags þess sem tekur til umrædds skipulagsreits og í þeim úrskurði var kæru kæranda um ógildingu skipulagsins hafnað. 

Eina málsástæða kæranda, sem sérstaklega er færð fram í kærumáli þessu og ekki er tekið á í fyrrgreindum úrskurði, snýst um það hvort fasteignin að Laugavegi 85 muni hafa rétt til gegnumaksturs um húsasund það sem liggur við hús kæranda.  Gildandi deiliskipulagsuppdráttur ber með sér að svo er ekki. 

Í ljósi þess að hið kærða byggingarleyfi er í samræmi við greint skipulag og ekki er fram komið að það sé haldið annmörkum er áhrif gætu haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki fallist á kröfu kæranda.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. nóvember 2005 um að veita leyfi fyrir niðurrifi húss að Laugavegi 85 í Reykjavík og byggingu fjögurra hæða húss með atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og sex íbúðum á efri hæðum hússins, er hafnað.

 

 

___________________________ 
 Ásgeir Magnússon

 

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Geirharður Þorsteinsson

11/2002 Drekavogur

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 11/2002, kæra 12 íbúa við Sigluvog í Reykjavík á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2002 um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Drekavogi 4, Reykjavík, úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði með 11 íbúðum ásamt heimild til viðbyggingar og hækkunar hússins um eina hæð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. maí 2002, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kæra M, Sigluvogi 6, G, Sigluvogi 8, M, M og H, Sigluvogi 10, J, V og E, Sigluvogi 12, G, Sigluvogi 14 og R, H og J, Sigluvogi 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2002 að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss að Drekavogi 4, úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði með 11 íbúðum ásamt heimild til viðbyggingar og hækkunar hússins um eina hæð.  Sú ákvörðun var staðfest í borgarstjórn hinn 18. apríl 2002.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 10. janúar 2001 barst Borgarskipulagi fyrirspurn um hvort breyta mætti notkun lóðarinnar að Langholtsvegi 115 í íbúðarbyggð, en fyrir var á lóðinni skrifstofu- og þjónustustarfsemi.  Var fyrirspurninni svarað á þá leið að ekki væri lagst gegn því að breyta notkun lóðarinnar úr athafnasvæði í íbúðasvæði með nýtingarhlutfalli allt að 0,7.  Eftir að tillögur frá fyrirspyrjanda höfðu borist um uppbyggingu svæðisins samþykkti skipulags- og byggingarnefnd að unnin yrði skipulagstillaga með hliðsjón af framlögðum tillögum. 

Hinn 22. ágúst 2001 var hagsmunaaðilum sent bréf þar sem tilkynnt var að skipulags- og byggingarnefnd hefði samþykkt að hefja vinnu að deiliskipulagi svæðisins og var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum eða athugasemdum, sem nýst gætu við mótun skipulagsins. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 24. október 2001 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir umræddan skipulagsreit og breytingu á aðalskipulagi í samræmi við hana og samþykkti borgarráð erindið á fundi sínum hinn 30. október það ár. 

Með bréfi, dags. 2. nóvember 2001, var óskað eftir heimild Skipulagsstofnunar til auglýsingar á tillögunni í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 73/1997 vegna fyrirhugaðrar aðalskipulagsbreytingar og gerði stofnunin ekki athugasemd við að tillagan yrði auglýst til kynningar. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi svæðisins var í auglýsingu frá 21. nóvember til 19. desember 2001 með athugasemdafresti til 4. janúar 2002.  Sex athugasemdabréf bárust frá nágrönnum og voru þau kynnt fyrir skipulags- og byggingarnefnd á fundi hinn 18. janúar 2002 auk þess sem skuggavarp vegna fyrirhugaðra mannvirkja var kynnt.  Umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdirnar var síðan lögð fram á fundi nefndarinnar hinn 30. janúar 2002 og var auglýst tillaga að deiliskipulagi og breyting á aðalskipulagi samþykkt með þeim breytingum sem lagðar voru til í umsögninni og fram koma á uppfærðum deiliskipulagsuppdrætti.  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 5. febrúar 2002.  Þeim sem gert höfðu athugasemdir var tilkynnt um afgreiðsluna og leiðbeint um kærurétt með bréfi, dags. 7. febrúar 2002.  Hinn 20. febrúar s.á. staðfesti umhverfisráðherra nefnda breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur.  Aðalskipulagsbreytingin öðlaðist síðan gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. mars 2002. 

Skipulagsstofnun tilkynnti síðan í bréfi, dags. 12. mars 2002, að stofnunin gerði ekki athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulags yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda en auglýsing þess efnis var þó ekki birt í Stjórnartíðindum. 

Kærendur skutu síðan aðal- og deiliskipulagsbreytingunni til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 5. mars 2002. 

Byggingarfulltrúinn í Reykjavík gaf síðan út hið kærða byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Drekavogi 4 ásamt viðbyggingu og hækkun hússins á grundvelli hins samþykkta deiliskipulags hinn 9. apríl 2002, en áður hafði heimild verið veitt fyrir skiptingu lóðarinnar að Langholtsvegi 115 þar sem teknir voru undir lóðina við Drekavog 4a og 4b 2991 fermetri af heildarlóðinni í samræmi við fyrrgreint deiliskipulag.  Skutu kærendur veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2004, lagði forstöðumaður lögfræði og stjórnsýslu hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar það til við skipulags- og byggingarnefnd að nefndin afturkallaði samþykki sitt á deiliskipulagstillögunni frá 30. janúar 2002 og samþykkti hana að nýju með vísan til 2. tl. 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Var lagt til að þeim sem hefðu andmælt tillögunni á sínum tíma yrði tilkynnt um afturköllun fyrri ákvörðunar og um hina nýju samþykkt og þeim leiðbeint um kærurétt að nýju.  Tilgreind ástæða þessarar málsmeðferðar var sú að líklegt þótti að úrskurðarnefndin felldi deilskipulagið úr gildi í ljósi úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 13/2002, dags. 13. mars 2003, en þar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að þótt heimilt væri að auglýsa samhliða breytingu á aðal- og deiliskipulagi mætti ekki samþykkja deiliskipulag sem fengið hefði slíka meðferð fyrr en að umhverfisráðherra hefði staðfest aðalskipulagsbreytinguna.  Skipulags- og byggingarnefnd afturkallaði samþykkt sína um deiliskipulagið frá 30. janúar 2002 og samþykkti deiliskipulagstillöguna að nýju á fundi sínum hinn 18. febrúar 2004.  Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum hinn 25. febrúar 2004.  Ekki verður séð að skipulagsákvörðunin hafi eftir þetta fengið lögboðna afgreiðslu Skipulagsstofnunar eða verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Úrskurðarnefndinni bárust loks í hendur gögn og umsögn borgaryfirvalda vegna skipulags- og byggingarleyfiskæru kærenda hinn 28. september 2005 og kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumálinu vegna skipulagsins hinn 5. nóvember 2005.  Var kæru vegna aðalskipulagsbreytingarinnar vísað frá þar sem það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að dæma um gildi slíkrar breytingar og kæru vegna deiliskipulagsins var einnig vísað frá nefndinni með þeim rökum að sú skipulagsákvörðun hefði ekki tekið gildi þar sem hún hefði ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. 

Málsrök kærenda:  Kærendur styðja ógildingarkröfu sína þeim rökum að óeðlilegt hafi verið að veita byggingarleyfið á meðan kæra þeirra vegna skipulags svæðisins væri óafgreidd.  Húsið að Drekavogi 4a og 4b sé í engu samræmi við nærliggjandi hús og muni tróna yfir þeim.  Hæðafjöldi hússins, þ.e. kjallari og þrjár hæðir, sé ekki í samræmi við svör þau sem kærendur hafi fengið við athugasemdum sínum við umdeilda skipulagstillögu þar sem húsið hafi þar verið talið tvær hæðir og þakhæð auk kjallara. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Kærendur hafi ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi byggingarleyfisins þar sem umrætt hús sé löngu risið í samræmi við það deiliskipulag sem afturkallað hafi verið á árinu 2004. 

Niðurstaða:  Húsið Drekavogi 4 mun hafa verið fullbyggt á árinu 2003 í samræmi við hið kærða byggingarleyfi.  Þrátt fyrir þessa staðreynd verður ekki fallist á kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun kærumáls þessa, enda ekki útilokað að greind bygging geti snert hagsmuni kærenda og þeim verður ekki kennt um þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu málsins. 

Fyrir liggur að deiliskipulag það sem umrætt byggingarleyfi studdist við tók aldrei gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda og var skipulagsákvörðunin afturkölluð af borgaryfirvöldum á árinu 2004 og ný ákvörðun sama efnis tekin.  Sú ákvörðun fékk heldur ekki lögboðna meðferð skv. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem hún var ekki send Skipulagsstofnun til umsagnar og auglýsing um gildistöku hennar var ekki birt í B-deild Stjórnartíðnda. 

Hið kærða byggingarleyfi hefur því hvorki stoð í gildandi deiliskipulagi né hefur það verið grenndarkynnt skv. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Brast því lagagrundvöll fyrir veitingu þess og ber af þeim sökum að fallast á kröfu kærenda um ógildingu þess. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist úr hömlu.  Valda því miklar annir og málafjöldi hjá úrskurðarnefndinni og óhæfilegur dráttur borgaryfirvalda á því að nefndin fengi í hendur umbeðin málsgögn, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. apríl 2002, um að veita byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins Drekavogur 4 úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði með 11 íbúðum ásamt heimild til viðbyggingar og hækkunar hússins um eina hæð, er felld úr gildi. 

 

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

 
________________________________          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                           Geirharður Þorsteinsson

 

14/2006 Hraunteigur

Með

Ár 2006, miðvikudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum með innbyggðum bílgeymslum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. febrúar 2006, er barst nefndinni hinn 1. mars sama ár, kæra J og E, íbúar að Hrísateigi 4, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum með innbyggðum bílgeymslum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig í Reykjavík.  Ákvörðunin var staðfest í borgarráði Reykjavíkur hinn 9. febrúar 2006.
Skilja verður erindi kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda skv. hinu kærða leyfi þar til að efnisniðurstaða lægi fyrir í kærumáli kærenda varðandi deiliskipulagsbreytingu þá sem var undanfari byggingarleyfisins.

Gögn og umsögn Reykjavíkurborgar hafa borist úrskurðarnefndinni vegna kæru deiliskipulagsins og byggingarleyfisins og þykir málið nægjanlega upplýst til þess að taka það nú til efnismeðferðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 4. mars 2005 var lögð fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu varðandi lóðina nr. 6 við Hrísateig.  Samþykkt var að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á gildandi deiliskipulagi.  Fólst breytingin í því, að í stað tveggja húsa á tveimur lóðum með fjórum íbúðum og bílskúrum á milli, kæmu þrjú parhús á jafnmörgum lóðum, öll með innbyggðum bílskúrum.  Hámarkshæð húsa var óbreytt, eða 8,5 m miðað við götu.

Andmæli bárust frá nokkrum fjölda íbúa á svæðinu við hina kynntu skipulagstillögu og þar á meðal frá kærendum.  Mun tillagan hafa tekið þeim breytingum eftir kynningu hennar að í stað þriggja parhúsa skyldu koma tvö parhús og eitt einbýlishús.

Greind skipulagstillaga var samþykkt á afgreiðslufundi skipulagsráðs 22. júní 2005 og staðfest í borgarráði hinn 30. júní s.á.  Gildistaka skipulagsbreytingarinnar var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 14. júlí 2005 og skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 7. febrúar 2006 samþykkti síðan byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig á grundvelli breytingar þeirrar sem gerð hafði verið á greindu deiliskipulagi lóðarinnar að Hrísateigi 6 og staðfesti borgarráð þá ákvörðun 9. febrúar sl.  Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja málskot sitt á því að fyrir úrskurðarnefndinni sé óafgreidd kæra á deiliskipulagsbreytingu vegna lóðarinnar að Hrísateig 6 þar sem ráðagerð sé um umþrættar byggingar.  Óeðlilegt sé að borgaryfirvöld gefi út byggingarleyfi með stoð í hinu kærða skipulagi áður en málalyktir fáist um gildi umræddrar skipulagsákvörðunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.

Umrædd ákvörðun sé í fullu samræmi við deiliskipulag svæðisins eftir breytingu þá sem gerð hafi verið á árinu 2005 og sem kærendur hafi skotið til úrskurðarnefndarinnar.  Ætla verði að kæra byggingarleyfisins byggi á sömu rökum og deiliskipulagskæran og hafi Reykjavíkurborg tjáð sig um þau vegna þeirrar kæru.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Kærendur byggja málskot sitt á því að óeðlilegt sé að veita byggingarleyfi í skjóli skipulags sem kært hafi verið til úrskurðarnefnarinnar og sé enn óafgreitt.

Fyrr í dag féll úrskurður í máli kærenda um deiliskipulagsbreytingu þá er heimilar umdeildar byggingar og varð niðurstaða sú að hafnað var kröfu um ógildingu skipulagsins og eru í þeim úrskurði gerð grein fyrir þeim álitaefnum sem í raun búa að baki kærumáli þessu.

Þar sem engum sjálfstæðum málsástæðum er teflt fram gegn hinni kærðu ákvörðum umfram þær sem stíundaðar voru í skipulagskærunni og ekki er kunnugt um annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar verður kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda, um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir tveimur tveggja hæða parhúsum með innbyggðum bílgeymslum á lóðunum nr. 4 og 6 við Hraunteig í Reykjavík, er hafnað.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

 

__________________________          ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                            Geirharður Þorsteinsson

 

 

 

 

8/2006 Gullengi

Með

Ár 2006, mánudaginn 6. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagsfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2006, að veita leyfi fyrir byggingu þrílyfts fjölbýlishúss með níu íbúðum ásamt geymslukjallara undir hluta hússins nr. 6 við Gullengi ásamt veitingu takmarkaðs byggingarleyfis fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna sömu byggingar sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 7. febrúar 2006.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. febrúar 2006, og með rafrænu bréfi, dags. 17. febrúar 2006, er bárust nefndinni sömu daga, kærir G, formaður húsfélagsins að Gullengi 11, Reykjavík, þá ákvörðun  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2006 að veita leyfi fyrir byggingu þrílyfts fjölbýlishúss með níu íbúðum ásamt geymslukjallara undir hluta hússins nr. 6 við Gullengi ásamt veitingu takmarkaðs byggingarleyfis fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna sömu byggingar sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 7. febrúar 2006.  Þessar ákvarðanir voru staðfestar í borgarráði hinn 26. janúar og 9. febrúar 2006.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt var gerð sú krafa að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar þar til að efnisniðurstaða lægi fyrir í málinu.

Úrskurðarnefndinni hafa borist gögn og umsögn Reykjavíkurborgar ásamt greinargerð lögmanns byggingarleyfishafa vegna stöðvunarkröfunnar ásamt fylgigögnum og þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að unnt sé að taka það til efnismeðferðar.  Verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Þann 17. mars 2004 samþykkti skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur að kynna fyrir hagsmunaaðilum framlagða tillögu Tekton ehf., dags. 25. febrúar 2004, að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 2-6 við Gullengi.  Mun tillagan hafa falið í sér byggingu þriggja fjölbýlishúsa á lóðinni en í upphaflegu skipulagi var lóðin, sem er um 6000 fermetrar, ætluð undir bensínstöð og bílastæði fyrir stóra bíla. 

Skipulags- og byggingarnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 28. júlí 2004 að lokinni kynningu tillögunnar fyrir hagsmunaaðilum og var þá lögð fram breytt skipulagstillaga, dags. 21. júlí 2004, ásamt athugasemdabréfum þeim er borist höfðu við fyrrgreinda kynningu.  Jafnframt var lögð fram umsögn forstöðumanns verkfræðistofu Reykjavíkurborgar og samantekt skipulagsfulltrúa á athugasemdum, dags. 14. maí 2004, með breytingum frá 26. júlí 2004. Á þeim fundi var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og málinu vísað til borgarráðs sem samþykkti á fundi hinn 10. mars 2005 greinda bókun nefndarinnar um auglýsingu á breyttu deiliskipulagi að Gullengi 2-6.

Hinn 8. júní 2005 var deiliskipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulagsráðs að lokinni auglýsingu með athugasemdafresti til 2. maí 2005.  Fjöldi athugasemda barst þar sem fyrirhugaðri skipulagsbreytingu var andmælt og þar á meðal af hálfu kærenda.  Fyrir fundinum lá jafnframt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní 2005.  Skipulagsráð samþykkti að vísa skipulagstillögunni ásamt framkomnum athugasemdum og umsögn skipulagsfulltrúa til umsagnar hverfisráðs Grafarvogs. 

Á fundi skipulagsráðs þann 21. september 2005 var málið tekið fyrir að nýju ásamt bókun hverfisráðs Grafarvogs, dags. 8. september 2005, og var deiliskipulagstillagan samþykkt með svofelldri bókun:

„Samþykkt með þremur atkvæðum fulltrúa Reykjavíkurlista með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.
Vísað til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti og óskuðu bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks taka undir vel rökstudd mótmæli íbúa á svæðinu og greiða atkvæði gegn tillögunni.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Fulltrúar Reykjavíkurlistans vísa til umsagnar hverfisráðs Grafarvogs og ítreka þær ábendingar sem þar koma fram. Íbúðir fara betur á þessum reit en bensínstöð og stæði fyrir stóra bíla.“

Afgreiðslunni var vísað til borgarráðs sem samþykkti erindið með fjórum atkvæðum gegn tveimur á fundi sínum hinn 29. september 2005 og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu hinn 4. október s.á. með 13 samhljóða atkvæðum.  Skipulagsstofnun gerði ekki athugasemd við birtingu gildistökuauglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og birtist auglýsing þar um hinn 20. október 2005.

Kærandi, ásamt nokkrum öðrum íbúum á svæðinu, skutu þessari deiliskipulagsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 24. janúar 2006 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík síðan byggingarleyfi fyrir þrílyftu fjölbýlishúsi að Gullengi 6, sem fyrirhugað er að reisa á lóðinni að Gullengi 2-6, með stoð í hinu kærða deiliskipulagi og hinn 7. febrúar sl. var veitt svonefnt takmarkað byggingarleyfi fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna fyrirhgaðrar byggingar.  Hefur kærandi skotið þessum ákvörðunum til úrskurðar-nefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfur sínar við sömu málsástæður og tíundaðar eru í kæru á skipulagi því sem var undanfari hinna kærðu ákvarðana.  Þar er byggt á sjónarmiðum um stöðugleika í skipulagsmálum og væntingum íbúa út frá skipulagsákvörðunum.  Telur kærandi byggingar þær sem fyrirhugaðar séu á lóðinni að Gullengi 2-6 óhóflega stórar og nýtingarhlutfall of hátt sem leiði til skerðingar á útsýni, aukinnar umferðar og ónæðis gagnvart nágrönnum sem muni rýra verðmæti nágrannaeigna.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Bent er á að hin kærðu byggingarleyfi séu ekki háð neinum efnislegum annmörkum og eigi þau stoð í skipulagi því sem sett hafi verið á árinu 2005.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Í greinargerð lögmanns byggingarleyfishafa í tilefni af kröfu um stöðvun framkvæmda er tekið fram að umdeild byggingarleyfi séu í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag.  Ekkert liggi fyrir um að málsmeðferð, efni eða form hinna kærðu ákvarðana sé ábótavant eða andstætt lögum.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.

Niðurstaða:   Eins og rakið hefur verið byggir kærandi ógildingarkröfu sína á sömu rökum og færð eru fram í kæru hans og annarra íbúa á deiliskipulagsbreytingu þeirri er m.a. heimilar byggingu umdeilds húss að Gullengi 6.  Engar sjálfstæðar málsástæður hafa verið færðar fram af hálfu kæranda er snerta undirbúning og efni umdeildra byggingarleyfisákvarðana.

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð í kærumálum nr. 80 og 83/2005 er snúast um fyrrgreinda deiliskipulagsákvörðun fyrir lóðina að Gullengi 2-6 og var í þeim úrskurði hafnað kröfu um ógildingu skipulagsins.  Eru sjónarmið kæranda og Reykjavíkurborgar vegna umþrættra byggingaráforma gerð þar ítarleg skil.

Hinar kærðu ákvarðanir eru í samræmi við deiliskipulagsákvörðun sem ekki hefur verið hnekkt og ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð umdeildra  byggingarleyfa.  Eru því ekki skilyrði til þess að taka ógildingarkröfu kæranda til greina.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2006, að veita leyfi fyrir byggingu þrílyfts fjölbýlishúss með níu íbúðum ásamt geymslukjallara undir hluta hússins nr. 6 við Gullengi, ásamt veitingu takmarkaðs byggingarleyfis fyrir greftri, fyllingu og aðstöðugerð vegna sömu byggingar sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 7. febrúar 2006, er hafnað.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

_____________________________      ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson              Geirharður Þorsteinsson

90/2005 Lónsbraut

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 9. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2005, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 3. nóvember 2004, 8. desember 2004 og 10. ágúst 2005 og ákvörðunum skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. mars 2005 og 15. apríl 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 16. sama mánaðar, kærir E, eigandi bátaskýlis nr. 58 við Lónsbraut, Hafnarfirði, ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 3. nóvember 2004, 8. desember 2004 og 10. ágúst 2005 og ákvarðanir skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 7. mars 2005 og 15. apríl 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi og hefur jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Þar sem málsatvik liggja nægjanlega ljós fyrir verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar.

Málsatvik og rök:  Í gildi er deiliskipulag fyrir suðurhöfn Hafnarfjarðar frá árinu 2000 er tekur til umrædds svæðis.  Í skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að hæðir bátaskýla við Lónsbraut skuli taka mið af hæð nýjustu skýlanna sem standi austast á svæðinu og að heimilt sé að hækka sökkla þeirra skýla sem lægst standa um allt að 1,5 metra vegna sjávarhæðar.

Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að búið sé að hækka sökkla umdeildra bygginga verulega og stefni í að mænishæð þeirra verði allt að 2,5 – 3,0 metrum hærri en skýli kæranda og séu þau í engu samræmi við hæðir annarra skýla á svæðinu og gildandi deiliskipulag.  Kærandi hafi átt í vandræðum vegna aur- og vatnsflæðis að skýli sínu, sem hann hefði vænst að úr rættist þegar Lónsbrautin yrði hönnuð og lögð lægra en nú sé með hliðsjón af ákvarðaðri hæð bátaskýlanna í gildandi skipulagi.  Umræddar byggingar skemmi heildarsvip svæðisins vegna hæðar sinnar en auk þess sé þakhalli skýlisins að Lónsbraut 52 í engu samræmi við þakhalla annarra skýla.

Bæjaryfirvöld benda á að eigendur sumra bátaskýla á svæðinu hafi nýtt sér heimild í skipulagsskilmálum um að hækka gólf skýlanna um 1,5 metra og hafi skýlunum þá verið lyft til að gæta samræmis í þakhalla annarra skýla fremur en að taka mið af skýlum austast á svæðinu.  Á gildandi mæliblaði fyrir umrætt svæði sé gólkóti, (GK á mæliblaðinu), greindur á einum stað 3,9 metrar sem gildi fyrir öll skýlin og sé kótinn miðaður við að gólf skýlanna sé yfir stórstreymi.  Breyting á umræddu skipulagi sé í vinnslu þar sem skýrar sé kveðið á um gólfkóta og mænishæð umræddra skýla til þess að taka af allan vafa en ekki sé áformuð gatnagerð á svæðinu að svo komnu.

Niðurstaða:  Hin kærðu byggingarleyfi voru annars vegar afgreidd af embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar og hins vegar af skipulags- og byggingarráði bæjarins á tímabilinu nóvember 2004 til ágúst 2005, en ekki liggur fyrir að umdeildar afgreiðslur hafi verið staðfestar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna.  Sveitarstjórnum er heimilt skv. 4. mgr. 40. gr. að víkja frá ákvæðum laganna um meðferð umsókna um byggingarleyfi með sérstakri samþykkt sem staðfest skal af ráðherra.

Af bókunum afgreiðslufunda skipulags- og byggingarfulltrúa, þar sem ákvarðanir voru teknar um hin kærðu byggingarleyfi, má ráða að afgreiðslumátinn byggi á heimild í samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 4. maí 2004 um embættisafgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa. 

Í ljós er leitt að umrædd samþykkt hefur ekki hlotið staðfestingu ráðherra og er því ekki viðhlítandi heimild til þess að víkja frá fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfum.  Þá liggur ekki fyrir samþykkt, staðfest af ráðherra, sem heimilar skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar lokaafgreiðslu byggingarleyfisumsókna á umræddum tíma.

Af þessum ástæðum hafa hin kærðu byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 þar sem á skortir að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi staðfest umdeild leyfi og verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfanna.

Vegna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda þykir rétt að taka fram að það er á verksviði byggingaryfirvalda bæjarins að gæta þess að ekki sé ráðist í byggingarleyfisskyldar framkvæmdir eða þeim fram haldið án gilds byggingarleyfis, sbr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________  
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon

 

92/2005 Gnitakór

Með

Ár 2006, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2005, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs  frá 6. apríl 2005 um að samþykkja leyfi fyrir byggingu tveggja hæða einbýlishúss á lóðinni að Gnitakór 9 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. H, eiganda fasteignarinnar að Kleifarkór 19, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 6. apríl 2005 að veita leyfi fyrir byggingu tveggja hæða einbýlishúss að Gnitakór 9 í Kópavogi.  Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti þá ákvörðun hinn 12. apríl 2005. 

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um úrskurð til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Í ljósi þess að umdeild bygging var þegar risin er kæra barst og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til úrlausnar. þykja ekki efni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök:  Á árinu 2003 tók gildi deiliskipulag fyrir nýbyggingarsvæði sem hin kærða bygging að Gnitakór 9 tilheyrir.  Umdeilt byggingarleyfi var veitt í apríl 2005 og var úttekt gerð á járnabindingu útveggja efri hæðar áður en uppsteypa hófst hinn 13. september 2005. 

Kærandi krefst ógildingar byggingarleyfisins með þeim rökum að það fari í bága við gildandi deiliskipulag með því að húsið að Gnitakór 9 sé hærra en heimiluð hámarkshæð og stöllun gólfplötu efri hæðar eigi ekki stoð í skipulaginu.  Húsið sé yfir 6 metra á hæð miðað við aðkomukóta að ofanverðu við götu en skilmálateikningar deiliskipulagsins heimili aðeins 4,8 metra hæð miðað við þann kóta.  Valdi þetta skerðingu á útsýni kæranda frá annarri hæð húss hans að Kleifarkór 19 sem verið sé að byggja.  Kærandi hafi ekki orðið áskynja um þennan ágalla fyrr en gólfplata á efri hæð húss hans hafi verið steypt um mánaðarmótin október – nóvember 2005 og hafi kæran því borist innan kærufrests.

Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að ógildingarkröfu kæranda verði hrundið.  Bent er á að úttekt vegna útveggja efri hæðar hússins að Gnitakór 9 hafi farið fram 13. september 2005 og hafi kæranda mátt vera ljóst frá þeim tíma hver hæð hússins væri.  Hafi kæran því borist að liðnum kærufresti og beri að vísa henni frá úrskurðarnefndinni.  Þá er á það bent að skipulagsskilmálar heimili hæð húss allt að 7,5 metra frá aðkomukóta en húsið að Gnitakór 9 sé um 6 metra yfir þeim kóta.  Húsið standi lægra en hús kæranda og í nokkurri fjarlægð auk þess sem óbyggð séu hús ofan Gnitakórs milli húss kæranda og byggingarleyfishafa og verði ekki séð að umdeilt hús skerði útsýni frá fasteign kæranda umfram önnur hús á svæðinu.  Vafi leiki á um, í ljósi aðstæðna, að kærandi eigi einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.

Byggingarleyfishafi hefur mótmælt kröfu kæranda og tekur undir frávísunar- og efniskröfu Kópavogsbæjar í málinu.  Húsið að Gnitakór 9 hafi verið hannað og byggt í samræmi við skipulagsskilmála er byggingarleyfishafa voru látnir í té og hafi húsið verið reist samkvæmt samþykktu byggingarleyfi og veggir efri hæðar steyptir hinn 14. september 2005.  Gæti einhvers misræmis í skipulagsgögnum beri byggingarleyfishafi ekki ábyrgð á því og eigi hann ekki að verða fyrir óþægindum og tjóni af þeim sökum.

Málsaðilar hafa fært fram frekari rök og sjónarmið til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.  Þá hefur nefndin kynnt sér staðhætti á vettvangi.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að útveggir hússins að Gnitakór 9 voru uppsteyptir um miðjan september 2005 og húsið þá komið í fulla hæð og fengið endanlegt form þótt frágangi þaks hafi verið ólokið.  Gólfplata efri hæðar í húsi kæranda er í sömu hæð og aðkoma að húsinu frá götu og mátti kærandi því gera sér grein fyrir frá fyrrgreindum tíma hver áhrif húsið að Gnitakór 9 hefði á útsýni frá húsi kæranda að Kleifarkór 19.

Kæra í máli þessu er dagsett 16. nóvember 2005 og barst hún úrskurðarnefndinni hinn 17. sama mánaðar eða um tveimur mánuðum eftir að uppsteypu hússins að Gnitakór 9 var lokið.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kærð er og verður því að telja með hliðsjón af greindum málsatvikum að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti.

Með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni, enda liggja ekki fyrir atvik er réttlæta að taka málið til meðferðar skv. 1. eða 2. tl . greinds ákvæðis.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
 Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ____________________________     
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ásgeir Magnússon