Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

6/2010 Gunnarssund

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 6/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. desember 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 13. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir bárujárnsklæddu timburhúsi á einni hæð með portbyggðu risi á lóðinni. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 11. febrúar 2010, er barst nefndinni sama dag, kæra H og E, Gunnarssundi 10, Hafnarfirði, samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. desember 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar, er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9, og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 13. janúar 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir bárujárnsklæddu timburhúsi á einni hæð með portbyggðu risi á lóðinni.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2010. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykja nú nægilegar upplýsingar liggja fyrir til þess að málið verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 7. apríl 2009 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar fyrirspurn eiganda fasteignarinnar að Gunnarssundi 9 um hvort leyft yrði að byggja nýtt hús á lóðinni í stað húss þess sem fyrir var.  Á fundi sínum hinn 12. maí 2009 lýsti ráðið sig jákvætt gagnvart erindinu en þá lágu fyrir umsagnir Byggðasafns Hafnarfjarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins um niðurrif eldra húss.  Á sama fundi var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar frá árinu 1981 þar sem gert var ráð fyrir nýju einbýlishúsi að Gunnarssundi 9 sem yrði ein hæð og ris.  Samþykkti skipulags- og byggingarráð að grenndarkynna tillöguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Að lokinni grenndarkynningu var breytingartillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. júlí 2009 þar sem ráðið samþykkti hana og tók undir fyrirliggjandi svör við þeim þremur athugasemdum er borist höfðu.  Var gildistaka skipulagsbreytingarinnar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 14. ágúst 2009. 

Á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 19. ágúst 2009 var samþykkt byggingarleyfi fyrir einnar hæðar bárujárnsklæddu timburhúsi á steyptum sökkli að Gunnarssundi 9.  Sú afgreiðsla var síðan staðfest í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 1. september sama ár. 

Skutu kærendur áðurgreindri skipulagsákvörðun og veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndarinnar sem felldi þær ákvarðanir úr gildi með úrskurði, dags. 8. október 2009, þar sem ekki var talið rétt að fara með skipulagsbreytinguna sem óverulega breytingu samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Kröfu um ógildingu byggingarleyfis fyrir niðurrifi eldra húss á lóðinni var hins vegar vísað frá. 

Hinn 20. október 2009 samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar að auglýsa nýja tillögu að deiliskipulagsbreytingu samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga og var haldinn kynningarfundur um tillöguna hinn 23. nóvember sama ár.  Eitt athugasemdabréf barst á kynningartíma tillögunnar, frá kærendum í máli þessu.  Skipulags- og byggingarráð samþykkti hina auglýstu tillögu fyrir sitt leyti hinn 15. desember með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulags- og byggingarsviðs, sem hafði m.a. að geyma drög að svörum við framkomnum athugasemdum kærenda.  Lagði ráðið til við bæjarstjórn að samþykkja skipulagstillöguna.  Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hana hinn 22. desember 2009 og öðlaðist tillagan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. janúar 2010.  Fól skipulagsbreytingin í sér að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 fór úr 0,45 í 0,75 og flatarnýting lóðar úr 0,25 í 0,4. 

Í kjölfar deiliskipulagsbreytingarinnar veitti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar byggingarleyfi fyrir nýju einnar hæðar timburhúsi með portbyggðu risi að Gunnarssundi 9 hinn 13. janúar 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 27. janúar sama ár. 

Hafa kærendur skotið greindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hin kærða deiliskipulagsbreyting og veiting byggingarleyfis í kjölfar hennar fyrir nýju húsi að Gunnarssundi 9 raski hagsmunum þeirra og hafi framsetningu og kynningu skipulagsbreytingarinnar verið áfátt. 

Er á það bent að málsetningar á uppdrætti skipulagstillögu skorti og framsetning skýringarmyndar á uppdrætti sé villandi auk þess sem mælikvarði uppdráttar og skýringarmyndar gefi misvísandi niðurstöður.  Þannig gefi uppdráttur til kynna að grunnflötur fyrirhugaðs húss að Gunnarssundi 9 verði 64 m² en ef beitt sé mælikvarða skýringarteikningar verði grunnflöturinn 83,3 m².  Í texta skipulagstillögunnar segi hins vegar að grunnflöturinn eigi að vera 75 m².  Málsetning skýringarmyndar sé á þann veg að reynt sé að draga sem mest úr því hve fyrirhugað hús sé miklu stærra en hús það sem fyrir hafi verið á lóðinni.  Eingöngu séu sýnd lóðrétt mál og miðað við minnstu hæð á húsi.  Sýnd sé minnsta hækkun þaks frá því sem áður hafi verið, eða um 1,7 m, en þagað um að þakið fari hækkandi frá blámiðju til beggja átta og verði um 4,0 m til endanna.  Þá komi fram að heimiluð vegghæð sé 3,9 m yfir gólfkóta 10,0 en kótann sé hvergi að finna á skýringarmynd.  Því sé haldið fram að við ákvörðun vegghæðar fyrirhugaðs húss hafi verið tekið mið af vegghæðum húsanna að Gunnarssundi 4 og 7 en við hæðarmælingarnar sé beitt ólíkum aðferðum, þ.e. annars vegar mælt frá götu í þakskegg en hins vegar frá gólfi fyrirhugaðs húss sem liggi nokkuð yfir götuhæð.  Ekkert samráð hafi verið haft við eigendur fasteigna í nágrenninu við undirbúning skipulagstillögunnar og engar athugasemdir nágranna hafi verið teknar til greina.  Eðlilegt hefði verið að grenndarkynna teikningar af fyrirhuguðu húsi að Gunnarssundi 9 enda hafi slíkar kynningar verið viðhafðar af minna tilefni. 

Með hinni kærðu skipulagsbreytingu sé nýtingarhlutfall hækkað sem um 67% á aðeins einni lóð og með því sé farið á svig við grundvallarhugmynd gildandi skipulags um nýtingu lóða á reitnum.  Ekki geti talist rök í málinu að aðrar lóðir við götuna séu ofbyggðar enda séu byggingar á þeim reistar fyrir gildistöku takmarkana um lóðarnýtingu í skipulagi svæðisins. 

Vegna hæðar sinnar muni fyrirhugað hús að Gunnarssundi 9 skerða útsýni, rýmistilfinningu og lífsgæði kærenda sem búi í nokkurra metra fjarlægð.  Þótt vegghæð hins nýja húss verði sú sama og eldra húss verði þak hins nýja nærfellt helmingi hærra, bratt risþak með göflum í stað lágs valmaþaks.  Þakið, eins og það snúi að kærendum, nánast fjórfaldist að flatarmáli og það litla sem eftir sé af útsýni og fjarsýni hverfi alveg. 

Málsrök Hafnarfjarðar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er skírskotað til þess að grunnflötur eldra húss að Gunnarssundi 9 hafi verið 8,6×9,01 m eða 77,5 m².  Húsið sem nú sé veitt byggingarleyfi fyrir sé 9,375×8 m eða 75 m² auk lágrar geymslu sem sé 3,0×1,8 m eða 5,4 m².  Grunnflötur nýja hússins verði því 80,4 m² eða 2,9 m² stærri en þess húss sem rifið hafi verið.  Brúttóflötur hins nýja húss verði samkvæmt skráningartöflu 149,5 m² og nýtingarhlutfallið 0,75, sem sé í samræmi við deiliskipulag eftir hina kærðu breytingu.  Þakform sé bæði í samræmi við skipulagið fyrir og eftir breytingu en gert sé ráð fyrir 40° þakhalla. 

Ekki verði séð að umhverfisleg gæði minnki frá því sem eldra skipulag hafi gert ráð fyrir.  Útsýni skerðist ekki úr gluggum á miðhæð húss kærenda að Gunnarssundi 10 þar sem vegghæð sé óbreytt.  Nýtingarhlutfallið fari aðeins úr 0,69 í 0,75 þegar borið sé saman eldra og fyrirhugað hús og sé sú nýting í samræmi við aðliggjandi byggð.  Nýtingarhlutfallið 0,45 verði að telja mjög lágt fyrir miðbæjarsvæði en tíðkist fremur í einbýlishúsabyggð utan slíkra svæða.  Hið kærða byggingarleyfi veiti heimild til byggingar íbúðarhúss og þar sem húsið rúmist innan gildandi deiliskipulagsskilmála hafi ekki verið skilyrði til þess að grenndarkynna leyfisumsóknina.  Ekki sé fallist á að ófagleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð enda beri fyrirliggjandi gögn í máli þessu og fyrra máli um sama efni með sér að efnisatriði hafi verið útskýrð og kynnt með lögformlegum hætti og málefnaleg rök búið að baki. 

Markmiðið með deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar frá 1981, sem gildi á umræddu svæði, hafi ekki verið að lækka nýtingarhlutfall lóða sem fyrir hafi verið.  Í formála greinargerðar með skipulaginu segi meðal annars:  „Tillagan stefnir að því, að uppbygging geti átt sér stað í miðbænum án þess að fórnað sé miklu af þeim sérkennum sem setja svip á hann í dag.“ Á bls. 125 í sömu greinargerð segi ennfremur:  „Allar nýbyggingar í miðbæ skal leitast við að fella sem best má verða að þeirri byggð, sem fyrir er.  Tekið skal mið af hinum ríkjandi mælikvarða byggðarinnar í heild.  Yfirborðsefni séu valin og/eða meðhöndluð með hliðsjón af nágrannabyggð.  Á reitnum þar sem stök bárujárnshús eru mest áberandi, skal nota risþök á nýbyggingar.  Geta þau verið með kvistum svo fremi sem stærð kvists ofgeri ekki þaki.“  Því hefði verið unnt að heimila sams konar þak á eldra húsi að Gunnarssundi 9 og nú sé gert ráð fyrir á samþykkta nýbyggingu á lóðinni án breytinga á skipulagi.  Eini munurinn á formi þess húss sem rifið hafi verið og á endurbyggingunni sé að rishæð hússins verði nýtanleg og grunnflötur fyrstu hæðar stækki um 2,9 m², en nýja húsið falli einstaklega vel að þeirri byggð sem fyrir sé. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er bent á að upphaflega hafi verið áætlað að gera við og endurbyggja gamla húsið á lóðinni að Gunnarssundi 9 en niðurstaða ástandskönnunar hafi leitt í ljós að ódýrara og hagkvæmara væri að reisa nýtt hús.  Gamla húsið hafi verið byggt í mörgum áföngum, með mismunandi byggingarefnum, allt frá árinu 1916, sem hafi torveldað áætlanir um frágang og lausnir við endurnýjun hússins.  Hafi það verið rifið í september 2009. 

Gamla húsið hafi verið ein hæð og kjallari, samtals 119,9 m² með nýtingarhlutfall 0,69 og flatarnýtingu 0,44.  Samkvæmt deiliskipulagsbreytingu og samþykktum byggingarnefndarteikningum sé fyrirhugað að byggja nýtt einbýlishús innan sama byggingarreits og með sama grunnfleti, 75 m².  Nýja húsið verði ein hæð og portbyggt ris með mænisþaki með 40° halla.  Gólf á fyrstu hæð verði 80-90 cm lægra en gólf gamla hússins og verði birt flatarmál hússins í heild 134,7 m² með alls 430,7 m³ rými.  Lóðin sé eftir stækkun, samkvæmt nýju lóðarblaði, 199,5 m² og nýtingarhlutfall verði 0,75, sé miðað við brúttóflatarmál hússins, og flatarnýtingin 0,37.  Ljóst sé að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Gunnarssundi 9 hafi verið hærra en kveðið hafi verið á um í skipulaginu frá 1981 en við gildistöku þess hafi lóðin þegar verið byggð.  Hafa verði í huga að nýja húsið sé ekki óhóflega stórt en nýtingarhlutfallið verði hátt vegna smæðar lóðarinnar.  Nýtingarhlutfall sé í raun ekki nothæfur mælikvarði á hámarksstærð húss á þessari lóð vegna þess hve lóðin sé lítil í samanburði við aðrar lóðir á reitnum. 

Gamla húsið sem staðið hafi að Gunnarssundi 9 hafi ekki verið í samræmi við deiliskipulagið frá 1981 hvað gerð og þakhalla varði en fyrirhugað hús verði það hins vegar.  Form þess, stærðarhlutföll og efnisnotkun verði hefðbundin og einföld og muni húsið verða í betra samræmi við önnur hús í götunni.  Á skipulagsreitnum sé aðallega byggt meðfram götum en í miðju reitsins sé stórt opið svæði með miklum gróðri.  Bil á milli nýja hússins að Gunnarssundi 9 og annarra húsa breytist ekki og muni það því ekki þrengja meira að nágrannaeignum en gerist annars staðar á reitnum. 

—–

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi við meðferð fyrra kærumáls. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting fól í sér hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar að Gunnarssundi 9 úr 0,45 í 0,75 og flatarnýtingar lóðar úr 0,25 í 0,4.  Þá var markaður um 75 m² rétthyrndur byggingarreitur undir hús á lóðinni auk 2,0×3,5 m reits fyrir útigeymslu við norðausturhorn byggingarreitsins.  Þá voru sett skilyrði um 3,9 m vegghæð frá gólfkóta og 7,5 m hámarkshæð við suðausturhorn húss, sem yrði með portbyggðu risi.  Um áratuga skeið stóð á lóðinni einnar hæðar íbúðarhús með kjallara og var þá nýtingarhlutfall 0,69 og flatarnýting 0,44.  Tilefni breytingarinnar mun vera það að ekki þótti hagfellt að endurnýja hús það sem reist hafði verið á lóðinni árið 1916 og var það því rifið og stefnt að byggingu nýs húss í staðinn. 

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar lögum samkvæmt.  Var hún sett fram á uppdrætti og í greinargerð þar sem fram kom nýtingarhlutfall og flatarnýting lóðar ásamt hæð og formgerð fyrirhugaðs húss.  Á skipulagsuppdrættinum voru sýndar skýringarteikningar að fyrirhuguðu húsi en þær teikningar teljast ekki bindandi hluti skipulagsákvörðunar, sbr. gr. 5.4.3 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Verður ekki séð að sá ágalli hafi verið á kynningu og framsetningu umdeildrar skipulagsbreytingar að varðað geti ógildingu hennar. 

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var heimilað að reisa nýtt hús á umræddri lóð sem yrði með nánast sama grunnfleti og litlu stærra að heildarflatarmáli en hús það sem fyrir var á lóðinni.  Nýbyggingin yrði um 1,7 m hærri en eldra hús vegna breytts þakforms, en sú breyting rúmaðist innan gildandi skilmála deiliskipulags svæðisins fyrir umdeilda skipulagsbreytingu.  Heimiluð nýbygging fellur að byggðamynstri á skipulagsreitnum og sker nýtingarhlutfall umræddrar lóðar sig ekki úr, borið saman við aðrar lóðir á svæðinu.  Með hliðsjón af þessu, og með tilliti til jafnræðissjónarmiða um nýtingu lóða á skipulagsreitnum, verður ekki fallist á að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé haldin þeim efnisannmörkum er leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar. 

Hið kærða byggingarleyfi er í samræmi við deiliskipulag eftir framangreinda breytingu og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð við þá ákvarðanatöku hafi verið ábótavant verður kröfu kærenda um ógildingu leyfisins hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. desember 2009 um breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Hafnarfjarðar er tók til lóðarinnar að Gunnarssundi 9 og ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa bæjarins frá 13. janúar 2010, er bæjarstjórn staðfesti hinn 27. janúar sama ár, um að veita byggingarleyfi fyrir bárujárnsklæddu timburhúsi á einni hæð með portbyggðu risi á lóðinni. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    ______________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

72/2007 Eyjólfsstaðaskógur

Með

Ár 2010, miðvikudaginn 3. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 72/2007, kæra á synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir Hreinn Pálsson hrl., f.h. A ehf., lóðarhafa að lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði, synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi.  Hin kærða synjun var staðfest á fundi bæjarráðs 11. júlí 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða synjun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 1. nóvember 2006, óskaði kærandi máls þessa eftir leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi.  Var beiðnin tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 20. s.m., sem samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt með vísan til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þrjár athugasemdir bárust vegna grenndarkynningarinnar er aðallega lutu að stærð og hæð hússins.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 21. maí 2007 fjallaði nefndin um erindi kæranda að nýju og var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Á grundvelli framkominna athugasemda og þar sem hæð hússins er meiri en leyfilegt er skv. skilmálum, þá hafnar S&B erindi umsækjanda.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar 6. júní 2007.  Með bréfi kæranda til skipulags- og byggingarnefndar var óskað eftir afstöðu nefndarinnar til mögulegrar lækkunar á þaki hússins.  Á fundi nefndarinnar 2. júlí 2007 var eftirfarandi bókað:  „S&B stendur við fyrri bókun frá 21. maí 2007 og þar sem hæð hússins og stærð er meiri en skilmálar kveða á um og að teknu tilliti til vel rökstuddra athugasemda sem fram komu við grenndarkynningu þá hafnar S&B framkomnu erindi.“  Var framangreint staðfest á fundi bæjarráðs 11. júlí 2007. 

Skaut kærandi synjun skipulags- og byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að umsókn hans um leyfi til byggingar frístundahúss í Eyjólfsstaðaskógi sé í samræmi við skilmála, bæði hvað stærð húss og byggingarform varði.  Grenndarkynningin hafi ekki verið skipulega gerð, tekið langan tíma og kæranda ekki kynntar niðurstöður hennar.  Þá séu rök synjunarinnar snubbótt. 

Málsrök Fljótsdalshéraðs:  Af hálfu Fljótsdalshéraðs er vísað til þess að samkvæmt umsókn kæranda um leyfi til byggingar frístundahúss í Eyjólfsstaðaskógi hafi nýtingarhlutfall verið 0,056 en eigi ekki að vera hærra en 0,05.  Þá hafi mesta hæð samkvæmt teikningum hússins verið 7,55 m, mælt af neðsta gólfi, og hæð af aðkomugólfi á efsta þakkant verið 6,20 m, en megi ekki fara yfir 5,40 m.  Verður af gögnum málsins ráðið að tilvitnaðar heimildir um hæð og stærð húsa á svæðinu eigi sér stoð í skjali er beri heitið Deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggð – 2. áfangi – í landi Skógræktarfélags Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum. 

Andsvör kæranda við málsrökum Fljótsdalshéraðs:  Kærandi bendir á að samkvæmt upplýsingum sem hann hafi aflað sér hjá Skipulagsstofnun hafi samþykkt um deiliskipulag fyrir Eyjólfsstaðaskóg aldrei öðlast gildi þar sem auglýsing þess efnis hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóðinni nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði. 

Meðal gagna málsins er skjal er ber heitið Deiliskipulag fyrir frístundahúsabyggð – 2. áfangi- í landi Skógræktarfélags Austurlands í Eyjólfsstaðaskógi á Völlum.  Eru þar m.a. tilgreindir almennir skilmálar um stærð og hæð húsa og nýtingarhlutfall lóða.  Skjal þetta er unnið í apríl 1999 og er undirritað af bæjarstjóra Austur-Héraðs.  Er hin kærða synjun m.a. byggð á því að hæð og stærð hússins sé umfram það sem heimilt sé samkvæmt ákvæðum er fram koma í skjali þessu. 

Samkvæmt 4. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og er það skilyrði gildistöku skipulags, sbr. gr. 6.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á kærumáli þessu kom í ljós að auglýsing um gildistöku deiliskipulags annars áfanga frístundahúsabyggðar í Eyjólfsstaðaskógi hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda og hefur það því ekki öðlast gildi.  Var hin kærða synjun því reist á röngum forsendum.  Gat skipulags- og byggingarnefnd ekki synjað umsókn kæranda með vísan til skipulags sem ekki hafði öðlast gildi heldur bar nefndinni að taka til athugunar hvort skilyrði væru til að afgreiða umsóknina á grundvelli 3. tl. til bráðabirgða eða 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þessa var ekki gætt og verður hin kærða synjun því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni auk tafa við öflun málsgagna. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun skipulags- og byggingarnefndar Fljótsdalshéraðs frá 2. júlí 2007 á beiðni um leyfi til byggingar frístundahúss á lóð nr. 14 í Eyjólfsstaðaskógi, Fljótsdalshéraði. 

 

________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________             _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                 Þorsteinn Þorsteinsson

58/2009 Grundarstígur

Með

Ár 2010, mánudaginn 8. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 58/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 um að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 í Reykjavík og breyta notkun þess. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. ágúst 2009, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kæra H, Hl og Ha, eigendur fasteignarinnar að Grundarstíg 9 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða starfsemi í stað íbúðar.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði 6. ágúst 2009.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verði frestað þar til deiliskipulag fyrir húsið og næsta umhverfi þess liggi fyrir.  Til þrautavara er þess krafist að skipulagsstjóra verði gert að skilyrða rekstrarleyfi til starfseminnar.  Með bréfi kærenda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. nóvember 2009, er barst nefndinni hinn 1. desember s.á., gerðu kærendur einnig kröfu um að kveðinn yrði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú vera tækt til efnisúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsráðs 25. febrúar 2009 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort byggja mætti sal við kjallara hússins á lóð nr. 10 við Grundarstíg og breyta nýtingu þessa fyrrum íbúðarhúss Hannesar Hafstein í blandaða atvinnustarfsemi.  Einnig var lögð fram umsögn skipulagsstjóra, dags. 20. febrúar 2009.  Ráðið gerði ekki athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og bókaði að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt þegar hún bærist.  Í tilvitnaðri umsögn skipulagsstjóra kom m.a. fram að ekki væri ástæða til að leggjast gegn því að menningartengd starfsemi yrði rekin í húsinu þar sem ætlun eigenda væri að láta hverfið njóta góðs af starfseminni.  Einnig kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir við viðbyggingu í garði, m.a. með vísan til umsagna borgarminjavarðar og Húsafriðunarnefndar ríkisins.  Einnig var tekið fram að fyrirhuguð hækkun mænisáss væri það óveruleg að húsið myndi ekki skera sig úr umhverfinu og ekki líklegt að hækkunin hefði áhrif á skuggamyndun á næstu lóðum. 

Hinn 31. mars 2009 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi vegna hússins.  Sótt var um leyfi til að byggja sal við kjallara með steyptri loftplötu og torfi á þaki, lækka gólf í núverandi kjallara, miðjusetja glugga á vesturgafli, hækka þak um 70 cm, byggja svalir á rishæð, steypa vegg á lóðarmörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta nýtingu hússins í blandaða atvinnustarfsemi.  Afgreiðslu umsóknarinnar var frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Erindinu var einnig vísað til umsagnar skipulagsstjóra til ákvörðunar um grenndarkynningu og jafnframt var óskað umsagnar um bílastæðakröfu.  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra 3. apríl 2009 var samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum.  Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 10. júní 2009, ásamt fylgigögnum og tölvubréfi eins kærenda, dags. 11. maí 2009, þar sem óskað var eftir framlengingu á athugasemdafresti.  Grenndarkynning stóð frá 14. apríl til 14. maí og var framlengd til og með 22. maí 2009.  Bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum.  Á fundinum hinn 10. júní 2009 bókaði skipulagsráð að ekki væru gerðar athugasemdir við að veitt yrði byggingarleyfi þegar teikningar hefðu verið lagfærðar í samræmi við athugasemdir á umsóknareyðublaði, með þeim breytingum sem fram kæmu í umsögn skipulagsstjóra.  Í umsögninni kom m.a. fram að við útgáfu byggingarleyfis skyldi setja það skilyrði að mannfagnaðir í nýbyggingunni stæðu ekki lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, alla daga vikunnar, og að yfirlýsingu þessa efnis skyldi þinglýst á lóðina fyrir samþykkt byggingarleyfis.  Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 21. júlí 2009 var eftirfarandi samþykkt:  „Sótt er um leyfi til að byggja við kjallara sal úr steinsteypu með steyptri loftplötu og torfi á þaki, lækka gólf í núverandi kjallara, miðjusetja glugga á vesturgafli, hækka þak um 70 cm, byggja svalir á rishæð, steypa vegg á lóðamörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta nýtingu þessa fyrrum einbýlishúss Hannesar Hafstein í blandaða atvinnustarfsemi á lóð nr. 10 við Grundarstíg.  Kynning stóð frá 14. apríl til 14. maí, framlengt til og með 22. maí 2009.  Athugasemdir bárust. …  Niðurrif: Bílskúr 19,5 ferm., 42,9 rúmm.  Stækkun: Kjallari 110,5 ferm., 3. hæð 16,6 ferm.  Samtals stækkun: 127,1 ferm., 455,9 rúmm.  Gjald kr. 7.700 + 7.700 + 35.104.  Samþykkt.  Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Var framangreint staðfest á fundi borgarráðs hinn 6. ágúst 2009. 

Skutu kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að hið kærða leyfi heimili að húsinu að Grundarstíg 10 verði breytt úr íbúð í aðstöðu til skemmtanahalds með tónleikasal, veitingasal og fundaraðstöðu.  Húsið standi inni í miðju íbúðarhverfi.  Leyfið stangist á við ákvæði gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 þar sem segi að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Hið kærða leyfi gangi gegn framangreindu í þremur atriðum.  Í fyrsta lagi sé ólíklegt að fyrirhuguð starfsemi í húsinu muni nýtast sem þjónusta við íbúa hverfisins nema að mjög litlu leyti.  Ekki sé hægt að skilgreina fyrirhugað margmiðlunarsafn sem þjónustu við íbúana og það að gera ýmsum menningarverðmætum úr nánasta umhverfi hússins skil geti varla talist til þjónustu.  Fundaraðstaða fyrir íbúana sé góðra gjalda verð, en slíka þjónustu megi sækja víða í nágrenninu og því ekki knýjandi þörf íbúanna fyrir slíkt inni í miðju hverfinu.  Starfsemin sé ætluð fyrir aðra en þá sem í hverfinu búi.  Í öðru lagi muni hin fyrirhugaða notkun augljóslega valda hávaða.  Tónleikum fylgi alltaf einhver hljóð, annars væri ekki um tónleika að ræða.  Það sé álit kærenda að starfsemi, sem m.a. sé beinlínis ætlað að framleiða hljóð, valdi ónæði vegna hávaða með þeim hætti að það stangist á við ofangreint ákvæði í skipulagsreglugerð.  Þá sé ótalinn hávaði sem ávallt myndist við það að fólk safnist saman utandyra til að reykja og vegna umferðar í kring um húsið, m.a. þegar leigubílar bíði eftir fólki o.þ.h.  Í þriðja lagi snúist hin fyrirhugaða starfsemi um að draga að sér umferð.  Ef enginn mæti á fundi eða tónleika og ef kaffigestir verði sjaldséðir sé engin starfsemi.  Umferð sé beinlínis tilgangur starfseminnar.  Tónleikasalurinn muni taka um 70 manns í sæti og fundarsalir í húsinu taki líklega nokkra tugi að auki.  Starfsemin hljóti því að draga að sér umferð.  Hugmyndir byggingarleyfishafa um að auðvelt verði að fá landsmenn til að leggja bílum sínum í 200-300 metra fjarlægð frá staðnum, þegar þeir sæki fundi, tónleika, kaffihús, veislur, sýningar eða aðrar uppákomur í húsinu, séu léttvægar.  Gestir Grundarstígs 10 muni leggja bílum sínum í öll stæðin á Grundarstíg og nálægum götum og upp á gangstéttir.  Ábyrgðarlaust sé að halda öðru fram.  Íbúar í kringum Grundarstíg 10 búi á svæði þar sem talsverður bílastæðaskortur sé nú þegar.  Þeir muni sjá fram á aukinn bílastæðaskort, einkum á kvöldin. 

Þá sé á því byggt að hið kærða leyfi stangist á við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2025 en í kafla 3.1.2 þess segi að á íbúðarsvæðum sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu.  Þá segi þar ennfremur:  „Við mat á umsókn um tiltekna starfsemi, t.d. verslun innan íbúðarsvæða, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, er lagt til grundvallar úttekt á framboði á nærþjónustu í viðkomandi hverfi og áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni og áhrif byggingar á yfirbragð hverfis.  Gott aðgengi íbúa hverfisins að þjónustunni skal enn fremur lagt til grundvallar við mat á umsókninni.“  Fyrirhuguð starfsemi á Grundarstíg 10 hafi í för með sér mikla umferð um svæðið, valdi auknum hávaða og sé fyrst og fremst ætluð öðrum en íbúunum sjálfum, þó í undantekningartilfellum megi hugsa sér að íbúarnir hafi einhver not af starfseminni.  Að auki sé rétt að benda á að hvorki hafi farið fram úttekt á framboði á þeirri nærþjónustu sem byggingarleyfishafi ætli að veita í hverfinu né heldur áhrif hugsanlegrar starfsemi á umhverfið, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða eða annars ónæðis af starfseminni.  Samkvæmt aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir því að ný þjónusta á íbúðarsvæði sé aðallega fyrir íbúa svæðisins. 

Þá vísi kærendur til þess að skilyrði sem byggingarleyfishafa hafi verið sett séu ótrygg, sbr. það að mannfagnaðir í nýbyggingunni skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin.  Vandséð sé hvers vegna tímatakmarkanir á mannfagnaði séu eingöngu lagðar á nýbygginguna en ekki húsið allt.  Mannfagnaðir inni í gamla húsinu geti valdið jafnmikilli truflun og í nýbyggingunni og ættu því að lúta sömu reglum.  Þá sé núverandi lagaumhverfi hvað varði grenndarrétt og nábýli óljóst og skilyrði af þessu tagi því haldlítil. 

Bent sé á að í umsókn um byggingarleyfið hafi sú skoðun verið sett fram að húsið að Grundarstíg 10 sé í jaðri miðborgarinnar og beri að taka tillit til þess við útreikninga á bílastæðisgjöldum.  Hugtakið „jaðar miðborgarinnar“ sé óskilgreint en engu að síður  notað, m.a. í viðleitni borgaryfirvalda til að færa miðbæjarstarfsemina inn í nærliggjandi íbúðarhverfi.  Þannig sé t.d. „jaðar miðborgarinnar“ notað á bls. 2-3 í þróunaráætlun miðborgar.  Hér séu yfirvöld að gera mörkin milli íbúðarbyggðar og miðbæjar óskýr, en þau mörk hafi til þessa verið nokkuð skýr. 

Að lokum sé vísað til þess að vinnubrögð skipulagsstjóra séu að sumu leyti óvönduð.  Þau gefi tilefni til að ætla að ákveðin mismunun hafi átt sér stað.  Slík vinnubrögð séu líkleg til að leiða til ranglátrar eða a.m.k. óheppilegrar niðurstöðu. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Varakröfur kærenda séu ekki tækar, enda sé það utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar að fresta og/eða skilyrða ákvarðanatöku sveitarstjórnarinnar.  Einnig sé á það bent að skipulagsstjóri sé ekki útgefandi rekstrarleyfis og geti þ.a.l. ekki skilyrt útgáfu slíks leyfis. 

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að fyrirhuguð starfsemi í húsinu að Grundarstíg 10 sé ekki í samræmi við gr. 4.2.1 í skipulagsreglugerð um íbúðarsvæði.  Hvað þetta varði þá hafi m.a. komið fram hjá byggingarleyfishafa að ætlunin sé að reka í húsinu sal sem unnt sé að nota til tónleikahalds, sýninga, fyrirlestra og fundarhalda.  Um sé að ræða starfsemi sem falli í flokk I samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, en það séu veitingastaðir án áfengisveitinga.  Reykjavíkurborg hafi litið svo á að umrædd starfsemi falli beint undir skilgreiningu á þjónustustarfsemi sem skilgreind sé í skipulagsreglugerð, enda hafi ítrekað komið fram í erindum byggingarleyfishafa að starfsemin sé að miklu leyti miðuð að íbúum hverfisins.  Jafnframt hafi það verið álit Reykjavíkurborgar að starfsemin væri alls ekki til þess fallin að valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar eða að hún dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Bent sé á að fyrirætlanir byggingarleyfishafa séu í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem liggi fyrir bæði í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 og í fyrirliggjandi vinnu að nýju aðalskipulagi um þjónustu í íbúðarhverfum og um sjálfbær hverfi, en sérstök stefnumörkun þess efnis muni fylgja nýju aðalskipulagi. 

Þar að auki sé bent á að Reykjavíkurborg hafi, í góðu samstarfi við byggingarleyfishafa, sett skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis í því skyni að tryggja að reksturinn í húsinu verði innan þeirra marka sem sett séu, m.a. í skipulagsreglugerð.  Í gögnum málsins liggi fyrir greinargerðir byggingarleyfishafa um fyrirætlanir og þær leiðir sem verði farnar til að draga úr grenndaráhrifum vegna breytinganna.  Hafi það verið einróma mat skipulagsráðs og skipulagsstjóra að þær aðgerðir séu sannfærandi og að ástæðulaust sé að gera ráð fyrir óásættanlegum ágangi í grenndinni vegna fyrirhugaðra breytinga. 

Tekið sé fram að væntanlega hafi það ekki verið ætlun höfunda skipulags- og byggingarlaga eða skipulagsreglugerðar að banna íbúum annarra hverfa að nýta sér einstakar þjónustueiningar sem séu staðsettar innan íbúðahverfa, enda myndi slík túlkun hafa í för með sér óeðlilega niðurstöðu.  Myndi hún m.a. leiða það af sér að íbúum í Hlíðunum væri óheimilt að versla í Melabúðinni og að íbúum í Vesturbænum væri meinað að fara í klippingu á hárgreiðslustofunni að Bergstaðastræti 10, því þótt rekstur beggja þjónustueininga sé innan íbúðahverfis og aðallega ætlaður íbúum hverfisins sé óumdeilt að fleiri íbúar Reykjavíkur nýti sér hann og myndi það teljast bæði óeðlilegt og ómálefnalegt að gera skipulagslegar athugasemdir við það. 

Í kærunni séu raktar áhyggjur kærenda af hávaða vegna fyrirhugaðrar starfsemi, sérstaklega vegna tónleikahalds, reykingafólks og umferðar.  Reykjavíkurborg vísi til þeirra skilyrða sem sett hafi verið við útgáfu byggingarleyfisins þess efnis að mannfagnaðir skuli ekki standa lengur en til kl. 23:00 á kvöldin, alla daga vikunnar.  Telja verði að skipulagsstjóri, í samstarfi við byggingarleyfishafa, hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að lágmarka áhrif vegna hávaða frá umferð og vegna reykingafólks með því að útbúa reykingaaðstöðu innan lóðar.  Í rekstrarleyfi verði skilyrði um að hávaði verði innan eðlilegra marka og muni brot á slíkum skilyrðum varða sviptingu leyfisins.  Í umsögn skipulagsstjóra um athugasemdir er borist hafi á kynningartíma hafi m.a. verið fallist á að hin samþykkta breyting gæti valdið auknu umferðarálagi í næsta nágrenni.  Í bréfi byggingarleyfishafa sé tekið fram að umtalsverðan fjölda almennra bílastæða sé að finna í um 200-300 m fjarlægð (2-4 mínútna gangur) frá Grundarstíg 10.  Auk þess sé tekið fram að unnið verði gagngert að því að viðskiptavinir hússins nýti sér umrædd bílastæði.  Einn aðaltilgangur borgaryfirvalda með uppbyggingu bílastæðahúsa sé að gera almenningi kleift að sækja sér þjónustu án þess að skylda alla þjónustuaðila til að leggja stóran hluta af lóð sinni undir bílastæði.  Þyki það vera óeðlileg krafa í nálægð við miðborg auk þess sem það stuðli hvorki að hagkvæmri nýtingu lands né dragi úr því að verðmætt land á miðborgarsvæði fari undir samgöngumannvirki og bílastæði.  Athugun skipulagsstjóra hafi því leitt í ljós að ekki væri ástæða til þess að fara fram á að lóðarhafar gerðu ráð fyrir auknum fjölda bílastæða innan lóðar, þar sem næg almenn bílastæði á borgarlandi væru í næsta nágrenni.  Hins vegar muni byggingarleyfishafi að sjálfsögðu greiða sig frá bílastæðakröfu vegna nýbyggingar. 

Ekki sé fallist á að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024.  Bent sé á að við meðferð byggingarleyfisumsóknarinnar og þeirrar fyrirspurnar sem hafi verið undanfari hennar, hafi skipulagsstjóri með meðferð sinni lagt mat á efni erindisins, m.a. með því að kanna þjónustuframboð í nágrenninu og leggja heildstætt skipulagslegt mat á umsóknina.  Ekki sé því hægt að halda því fram að skipulags- og byggingarsvið hafi ekki sinnt hlutverki sínu við meðferð málsins þótt niðurstaða skipulagsstjóra, skipulagsráðs og byggingarfulltrúa sé ekki í samræmi við skoðanir kærenda á umfjöllunarefninu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að í fjölmörgum bréfum og greinagerðum hafi verið settar fram skýrar áætlanir um eðli og umfang þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð sé í húsinu að Grundarstíg 10.  Þannig hafi íbúum hverfisins, íbúasamtökum miðborgarinnar og skipulagsyfirvöldum verið gefinn kostur á að kynna sér áformin til hlítar.  Bent sé á að áformaðar breytingar á fasteigninni og fyrirhuguð starfsemi þar falli innan ramma skipulags- og byggingarlaga og skipulagsreglugerðar eins og atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð sé skilgreind í gr. 4.2.1 reglugerðarinnar.  Fyrirhuguð starfsemi bjóði upp á aðstöðu til samveru íbúa, m.a. með heimsókn á kaffihús stofnunarinnar.  Íbúar geti fengið aðstöðu í húsinu fyrir skilgreinda viðburði samkvæmt samkomulagi.  Menningarsögu og byggingarlist hverfisins verði haldið til haga í margmiðlunarsýningu.  Þjónustan verði valkvæð eins og önnur þjónusta í hverfinu en sé viðbót við fræðslu- og afþreyingarmöguleika íbúa. 

Fyrirhuguð starfsemi sé afar ólík þeirri mynd sem dregin sé upp í kærunni og sé vísað til skipulagsskrár stofnunarinnar þar að lútandi.  Nýbyggingin verði hljóðeinangruð eins og best verði á kosið.  Þá hafi verið þinglýst kvöð þess efnis að ekkert samkomuhald verði í nýbyggingunni eftir kl. 23:00.  Í anda markmiða stofnunarinnar verði gestir hússins hvattir til að nota vistvænan ferðamáta, s.s. almenningsvagna, reiðhjól og að koma fótgangandi.  Akandi umferð verði beint í nálæg bílastæðahús og almenningsbílastæði sem þáttur í þeirri viðleitni að framfylgja manngildisstefnumiðum stofnunarinnar.  Starfsemi stofnunarinnar, sem og starfsemi annarra fyrirtækja í hverfinu, dreifist yfir daginn.  Þessi víxlverkun í starfsemi leiði því til heppilegrar nýtingar bílastæða. 

Fullyrðingar um hávaða og umferðaþunga í kæru eigi ekki við rök að styðjast. Salurinn taki að hámarki 70 manns og þrjú fundarherbergi í húsinu taki á bilinu 4-14 manns.  Húsið standi í þegar byggðu hverfi þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir.  Starfsemi hússins sé sannarlega breytt en breytingar á landnotkun á reitnum verði að teljast minni háttar.  Sé litið til götureitsins sem markist af Grundarstíg, Skálholtsstíg, Þingholtsstræti og Spítalastíg sé ljóst að þar sé og hafi verið íbúðarbyggð en jafnframt atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðarbyggð.  Að Þingholtsstræti 27, sem liggi að lóðarmörkum Grundarstígs 10, hafi lengi verið prentsmiðja og einnig lessalur Borgarbókasafns Reykjavíkur.  Í því húsi séu nú auk íbúða m.a. arkitektastofur og hugbúnaðarfyrirtæki.  Að Þingholtsstræti 25 hafi áður verið spítali en nú sé þar gistiskýli.  Að Grundarstíg 2a hafi myndlistar- og handíðaskóli verið til húsa um árabil og þar hafi einnig verið starfrækt matvöruverslun.  Breyting á starfsemi Grundarstígs 10 verði í þessu samhengi að teljast minni háttar breyting á landnotkun götureitsins en jafnframt ný og aðgengileg þjónusta við íbúa hverfisins alls.  Byggingarleyfishafi sé sannfærður um að starfsemi Hannesarholts, þ.e. sjálfseignarstofnunin sem rekin verði í húsinu, verði farsæl viðbót við það fjölbreytta mannlíf og blönduðu byggð sem þrifist hafi í hverfinu í áraraðir eins og önnur starfsemi beri vott um. 

Hvað varði starfsemina sem rekin verði í húsinu þá sé um að ræða lítið kaffihús sem verði opið á dagtíma, aðstöðu til fundahalda og sal í viðbyggingu sem notaður verði fyrir minni háttar listviðburði, fyrirlestra og annað sambærilegt.  Margmiðlunarsýning og/eða -safn verði starfrækt en aðgangur að því verði að mestu leyti í gegnum vefsíðu Hannesarholts.  Fyrirhugað sé að leigja aðstöðuna í húsinu í takmörkuðum mæli til einkaafnota en um slík not gildi að sjálfsögðu þinglýstar reglur um opnunartíma hússins. 

Mikilvægt sé að hafa í huga að Hannesarholt sé hugsjónastofnun þar sem kjarninn í starfseminni sé rekstur menningartengdrar starfsemi.  Slíkri stofnun sé og verði mjög annt um að virða í hvívetna rétt nágranna til friðhelgi og óþægindalítils umhverfis.  Hannesarholt muni því, óháð lögum og reglugerðum, leggja áherslu á mannvænt líf í húsinu og nágrenni þess.  Til að undirstrika þennan einlæga vilja forsvarsmanna Hannesarholts hafi íbúasamtökum miðborgarinnar verið boðið sæti í fimm manna stjórn stofnunarinnar.  Slíkt boð sé líklega einsdæmi í miðborginni. 

Ítrekað sé að í hverfinu hafi alla tíð verið blönduð byggð, lifandi og fjölbreytt mannlíf.  Starfsemi hafi komið og farið og eðlilegt að framhald verði á því.  Það sé engin tilviljun að eigendur hússins hafi horft til hverfisins varðandi fyrirhugaða starfsemi Hannesarholts enda sé þetta merkilega hús Hannesar Hafstein staðsett við Grundarstíg og verði tæplega flutt.  Þá eigi mörg önnur hús í hverfinu sér langa og merkilega sögu sem mikilvægt sé að halda á lofti.  Sem dæmi um hina blönduðu byggð hverfisins í gegnum árin sé skemmst að minnast Borgarbókasafns Reykjavíkur sem starfrækt hafi verið að Þingholtsstræti 29a (Esjubergi), en það hús ásamt Grundarstíg 10 sé eitt af elstu steinsteypuhúsum í Reykjavík, reist um 1916.  Önnur stofnun hafi einnig verið starfrækt örskammt frá Grundarstíg 10 til margra ára, Tónskóli Sigursveins D. Kristinssonar í Hellusundi 7, frá árunum 1971-1996.  Þegar skólinn hafi um síðir flust úr Hellusundinu hafi nemendur verið um 650 og kennarar um 66 talsins.  Í dag sé Bónusvídeó á næsta götuhorni við Grundarstíg 10, þ.e. að Grundarstíg 12.  Safnaðarheimili Fríkirkjunnar sé skammt frá eða að Laufásvegi 13, Hótel Holt sé á næstu grösum, Volcano Show að Hellusundi 6, Kvennaskólinn og Bónus í seilingarfjarlægð.  Á Grundarstígnum megi að auki finna leikskóla, heildverslun, ERGO Engineering Geology ehf. og Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna.  Í Þingholtsstræti, næstu götu fyrir neðan Grundarstíg, megi nefna að í húsi nr. 23 sé fyrirtæki er framleiði kvikmyndir og tannlækningastofa.  Í húsi nr. 27 sé arkitekta- og verkfræðistofa, fyrirtæki á sviði upplýsingatækni og Amnesty International.  Þá sé Stofnun Sigurðar Nordals í húsi nr. 29.  Af framangreindu megi glögglega sjá að byggð í hverfinu sé og hafi lengi verið afar blönduð þótt hverfið sé skilgreint íbúðarhverfi.  Starfsemi Hannesarholts yrði því áhugaverð viðbót við þá fjölbreyttu flóru mannlífs sem þar þrífist fyrir. 

Smekklegar og löngu tímabærar lagfæringar á húsinu ásamt menningarlegri starfsemi innandyra geti orðið verulegur vegsauki fyrir hverfið og umhverfi þess.  Sú staðreynd að ætlunin sé að halda til haga menningarsögu hverfisins og byggingarlist í væntanlegri margmiðlunarsýningu hljóti einnig að vera dýrmætt fyrir það fólk sem kosið hafi að búa sér heimili í hverfinu.  Byggingarleyfishafar telji hafið yfir allan vafa að fyrirhuguð starfsemi flokkist undir „þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis“ og viti það fyrir víst út frá samtölum við nágrannana að fjölmargir íbúar muni nota einn eða fleiri þátt þessarar starfsemi.  Að öðru leyti sé starfsemi Hannesarholts einnig ætluð öllum almenningi rétt eins og starfsemi Borgarbókasafnsins í Þingholtsstræti forðum. 

Hvað varði fullyrðingar kærenda um hávaða sé bent á að áformað sé að halda tónleika í fyrirhugaðri viðbyggingu í bakgarði hússins að Grundarstíg 10.  Veggurinn á Þingholtsstræti 27, sem liggi að viðbyggingunni að lóðarmörkum, sé brunagafl.  Í viðbyggingunni (salnum) verði gluggar með tvöföldu, þykku verksmiðjugleri að garðinum og þakgluggar að gamla húsinu verði með samlímdu öryggisgleri.  Bæði gamla húsið og viðbyggingin séu steinsteypt hús, þar sem efnisþyngdin ein sé besta hljóðeinangrunin.  Veggir verði slitnir frá steinveggjum Þingholtsstrætis 27 með steinullarmottum.  Á þaki viðbyggingarinnar verði gras sem sannarlega sé hljóðeinangrandi.  Salurinn verði að auki með sérstakri loftræstingu svo ekki þurfi að opna glugga.  Veggir og gluggar verði sérstaklega útbúnir þannig að ekkert heyrist af utanhússhljóðum inn.  Þetta virki að sjálfsögðu í báðar áttir, þ.e. ekkert heyrist út.  Þannig eigi að vera hægt að flytja þar klassíska tónlist án truflana.  Fyrir utan viðbygginguna/salinn sé gróður og síðan garðveggurinn 2,5 m hár.  Einnig sé minnt á ákvæði þess efnis að samkomuhald í nýbyggingunni sé aðeins heimilað til kl. 23:00. 

Ástæða sé til að ítreka að markmiðið með starfseminni sé allt annað en að reka skemmtistað.  Því sé hvorki ástæða til að óttast umtalsverða umferð leigubíla né annarra bíla.  Miðað við að fyrirhugaður fyrirlestra/tónleikasalur taki á bilinu 50-70 manns í sæti og oftast mæti tveir saman, þar af sumir gangandi/hjólandi eins og Hannesarholt muni leggja mikla áherslu á, megi ljóst vera að ekki þurfi að hafa áhyggjur af þungri umferð. 

Tilgangur fyrirhugaðrar starfsemi lúti að fólki, ekki umferð.  Fundarherbergin í húsinu sjálfu, auk fyrirlestrasalar í viðbyggingu, verði þrjú talsins.  Tvö þeirra rúmi 4-8 manns og hið þriðja 12-14 manns samkvæmt teikningum.  Það sé því alrangt að fundarsalir í húsinu sjálfu taki nokkra tugi.  Áætlað sé að salur í viðbyggingu verði aðallega notaður á kvöldin og um helgar, en minna á daginn þegar kaffihúsið verði opið.  Þannig sé líklegt að fjöldi gesta dreifist allvel á dag-, kvöld- og helgaropnunartíma, sem muni leiða til hagstæðrar nýtingar á opinberum bílastæðum.  Líklegt sé að sú starfsemi sem dragi að sér flest fólk og þar með einhverja umferð verði að kvöldi þegar fjölmörg opinber bílastæði, sem annars séu upptekin á dagtíma, losni. 

——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi 25. janúar 2010. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009 um að veita leyfi m.a. til að byggja við kjallara og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 og heimila þar blandaða atvinnustarfsemi í stað íbúðar.  Þá felur hið kærða leyfi og í sér heimild til niðurrifs bílskúrs á lóðinni.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag en samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 stendur húsið á íbúðarsvæði, nánar tiltekið á miðborgarsvæði, þar sem byggð er þétt, nýtingarhlutfall lóða hátt og götur þröngar. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga með síðari breytingum, sem og 9. og 43. gr. sömu laga, gildir sú meginregla að byggingarleyfi verði að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri reglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna þar sem segir að sveitarstjórn geti veitt leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Ákváðu borgaryfirvöld að neyta þessarar undanþáguheimildar í máli því sem hér er til meðferðar og grenndarkynntu því framkomna byggingarleyfisumsókn.  Er það meðal úrlausnarefna málsins að skera úr um hvort skilyrði hafi verið til að beita umræddri undanþáguheimild í málinu.

Við afmörkun undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem segir að fara skuli með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag sé að ræða nema breytingin sé óveruleg.

Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulega breytingu verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún sé í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar séu á nærliggjandi eignir.  Sé um breytta notkun að ræða, eins og í hinu kærða tilviki, verður og að líta til þeirra áhrifa sem fyrirhuguð starfsemi kann að hafa á umferð, bílastæðaþörf og aðrar breytingar sem starfseminni kunni að fylgja.

Eins og að framan hefur verið rakið heimilar hið kærða byggingarleyfi bæði umtalsverða stækkun hússins að Grundarstíg 10 og að notkun þess verði breytt úr íbúð í blandaða atvinnustarfsemi þar sem heimilt sé að halda mannfagnaði til kl. 23:00 öll kvöld vikunnar.  Má ætla að þessari starfsemi fylgi aukin umferð og umgangur, hávaði og aukið álag á bílastæði fram eftir kvöldum.  Telur úrskurðarnefndin að um svo verulega breytingu sé að tefla að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með umsókn um byggingarleyfi eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997. 

Úrskurðarnefndin telur jafnframt að ekki hafi verið gerð nægileg grein fyrir því hvernig fullnægja eigi ákvæðum 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um bílastæði.  Í byggingarlýsingu á aðaluppdráttum er að vísu gerð grein fyrir bílastæðaþörf en hvorki er þar gerð grein fyrir bílastæði fyrir hreyfihamlaða né útskýrt hvers vegna ekki þurfi að líta til sætafjölda í húsinu við ákvörðun um fjölda bílastæða.  Þá er ekki heldur vikið að því í hinni kærðu ákvörðun hvort mæta eigi bílastæðakröfu með greiðslu bílastæðagjalds skv. 28. gr. byggingarreglugerðar eða með öðrum hætti.

Loks er engin grein gerð fyrir því hvernig hið umdeilda byggingarleyfi samræmist stefnumarkandi ákvörðunum þróunaráætlunar miðborgar um íbúðarsvæði, samþykktum í borgarráði 10. október 2000, þar sem fram kemur að á íbúðarsvæðum miðborgarsvæðis sé meginmarkmið borgaryfirvalda að vernda og bæta íbúðarbyggð og umhverfi hennar.  Þar skuli og stefnt að því að halda núverandi íbúðarhúsnæði og íbúðarlóðum sem slíkum nema í þeim tilvikum þar sem aðstæður mæli sérstaklega gegn því og að notkun húsnæðis til léttiðnaðar, undir skrifstofur eða ámóta verði ekki heimiluð ef hætta sé á að hún valdi íbúum stöðugu ónæði eða auki umferð verulega. 

Samkvæmt því sem að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið skilyrði til þess að fara með málið eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997, auk þess sem hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi fyrir henni hafi verið áfátt.  Verður ákvörðunin því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna og málafjölda hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júlí 2009, sem staðfest var í borgarráði 6. ágúst 2009, um að veita leyfi til að byggja við og hækka þak hússins að Grundarstíg 10 í Reykjavík og breyta notkun þess. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

40/2009 Bústaðavegur

Með

Ár 2010, fimmtudaginn 28. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2009, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. júní 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. S, Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009 að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umdeild bygging verði fjarlægð. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 29. febrúar 2008 var lögð fram fyrirspurn Geislavarna ríkisins um byggingu 20 m² smáhýsis á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9.  Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina með eftirfarandi bókun:  „Ekki eru gerðar athugasemdir við að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við embætti skipulagsstjóra, á eigin kostnað, sem síðar verður grenndarkynnt án þess tekin sé afstaða til staðsetningu samkvæmt skissu.“ 

Fyrirspurnin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008 og svohljóðandi bókað:  „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagsstjóra frá 29. febrúar 2008. Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið. Byggingarleyfisumsókn verður grenndarkynnt þegar hún berst.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir 24,3 m² smáhýsi úr timbri fyrir Geislavarnir ríkisins á lóð nr. 9 við Bústaðaveg og fylgdi umsókninni samþykki lóðarhafa.  Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 15. maí 2008. 

Hinn 22. desember 2008 höfðu kærendur máls þessa samband við embætti byggingarfulltrúa og mótmæltu framkvæmdum á lóð Veðurstofu Íslands og með tölvupósti byggingarfulltrúa, dags. 26. desember s.á., var þeim m.a. tilkynnt að embættið hefði samþykkt byggingu smáhýsis á umræddri lóð og hafi þá legið fyrir umsagnir ýmissa aðila, m.a. skipulagsstjóra.  Væri ekki annað að sjá en að starfsmönnum hefði við yfirferð umsóknar yfirsést bókun þess efnis að umsókn um byggingarleyfi yrði grenndarkynnt ef hún bærist.  Þegar þetta hefði komið í ljós hefðu framkvæmdir verið stöðvaðar. 

Í kjölfar þessa var kærendum sendur aðaluppdráttur, er samþykktur hafði verið 6. maí 2008, af umræddu smáhýsi til óformlegrar kynningar á málinu og þeim bent á að hefðu þeir einhverjar athugasemdir fram að færa myndi fara fram grenndarkynning. 

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa, dags. 5. janúar 2009, fóru kærendur fram á að formleg grenndarkynning ætti sér stað.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. janúar s.á., var þeim tilkynnt að fallið hefði verið frá grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn og að stöðvun framkvæmda hefði verið aflétt með vísan til minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar 2009. 

Var ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kærenda og með úrskurði, dags. 26. febrúar 2009, felldi nefndin leyfið úr gildi þar sem grenndarkynning á áformuðum framkvæmdum hafði ekki farið fram skv. fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. febrúar 2009 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áðurgreindu smáhýsi á lóð Veðurstofunnar og var ákveðið að grenndarkynna umsóknina.  Að henni lokinni var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 22. apríl sama ár og lágu þar fyrir andmæli kærenda og umsögn skipulagsstjóra.  Var umsóknin samþykkt með vísan til nefndrar umsagnar skipulagsstjóra og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 24. apríl 2009. 

Málsrök kærenda:  Kröfur kærenda byggjast á því að hið kærða byggingarleyfi sé ólögmætt og með veitingu þess sé gengið á mikilvæga hagsmuni þeirra. 

Umdeilt smáhýsi standi framan við stofuglugga Stigahlíðar 87 og byrgi fyrir útsýni til suðurs sem áður hafi verið óskert.  Að mati kærenda sé húsið allt of hátt og muni tilvist þess hafa áhrif á verðmæti fasteigna þeirra.  Einfalt hefði verið að finna smáhýsinu annan stað á lóð Veðurstofunnar en með því hefði dregið verulega úr grenndaráhrifum þess.  Smáhýsið sé auk þess í ósamræmi við aðrar byggingar á svæðinu og falli illa að umhverfi sínu.  Íbúðarhúsin við Stigahlíð standi lægra en umrædd bygging og verði því áhrif hennar á umhverfið og útsýni meiri en ella.  Kærendur hefðu átt þess kost að benda á þessi atriði áður en byggingin var reist ef áður hefði farið fram grenndarkynning.  Umrætt smáhýsi muni ennfremur takmarka þá fjölþættu útivist sem til þessa hafi verið stunduð á svæðinu. 

Kærendum sé ekki kunnugt um þá starfsemi sem fram muni fara í greindu húsi en henni fylgi mikil hávaðamengun og óljóst sé hversu mikil umferð muni fylgja starfseminni.  Nóg sé komið af mælitækjum og sendum í nágrenni fasteigna kærenda en um sé að ræða svæði sem sé ódeiliskipulagt. 

Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar beri með sér að hagsmunir nágranna séu fyrir borð bornir.  Húsið hafi verið reist án grenndarkynningar en hún síðan farið fram eftir að húsið hafi verið komið á lóðina og byggingarleyfið fellt úr gildi.  Ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda sem fram hafi komið við grenndarkynninguna enda megi ætla að kynningin hafi aðeins þjónað þeim tilgangi að bæta úr formgalla á málsmeðferð byggingarleyfis fyrir þegar reistri byggingu. 
 
Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á að kröfum kærenda verði hafnað. 

Grenndaráhrif umrædds smáhýsis séu svo óveruleg að ekki raski hagsmunum kærenda né annarra íbúa að neinu leyti.  Það sé aðeins um 20 m² að flatarmáli og um fjórir metrar á hæð.  Það sé staðsett innarlega á lóð, í a.m.k. 60 m frá stofuglugga kærenda og um 40 m fjarlægð frá lóðarmörkum.  Lóð Veðurstofunnar sé á ódeiliskipulögðu svæði og sé stofnanalóð samkvæmt aðalskipulagi.  Byggingin hafi einhver sjónræn grenndaráhrif en þau þyki ekki þess eðlis að hafna hefði átt umsókn byggingarleyfishafa.  Minnt sé á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, skuggavarp eða önnur grenndaráhrif.  Telja verði að hagsmunir Geislavarna ríkisins af því að sinna lögboðinni starfsemi sinni með byggingu umrædds smáhýsins séu mun ríkari en hagsmunir kærenda af lítilsháttar útsýnisskerðingu.  Ekki verði gerð krafa um að smáhýsið falli að byggingarstíl annarra húsa í hverfinu, enda standi það sér á lóðinni og eigi kærendur og aðrir íbúar ekki kröfu til nýtingar lóðarinnar til útivistar.  Þar að auki verði ekki séð að ca. 20 m² smáhýsi komi í veg fyrir útivist og leiki á lóðinni. 

Starfsemi sú sem smáhýsið þjóni eigi að vera kunn kærendum enda hafi hún verið kynnt við grenndarkynningu og upplýst um að smáhýsinu sé ætlað að hýsa mælitæki fyrir Geislavarnir ríkisins.  Ekkert bendi til þess að íbúum stafi hætta af starfseminni og ekki sé fallist á að frá skúrnum berist verulegur hávaði.  Við val á staðsetningu smáhýsisins hafi m.a. verið tekið tillit til masturs, lagnastokks, jarðvegs og álfasteins sem á lóðinni sé.  Á öðrum stöðum, nær Bústaðavegi, sé gert ráð fyrir annarri uppbyggingu eins og uppdráttur af lóðinni sem samþykktur hafi verið 11. maí 1999 beri með sér.  Eðlilegt sé að umrædd stofnanalóð sé nýtt fyrir mælingar og þess háttar og mannvirki reist á henni í því skyni enda hafi svo verið um árabil og almenningi verið það kunnugt.  Telji Reykjavíkurborg að málsmeðferð umdeildrar byggingarleyfisumsóknar hafi verið eðlileg og að engin efnisleg rök séu fyrir því að fella byggingarleyfið úr gildi. 

Þá sé ekki unnt að fallast á kröfu kærenda um að úrskurðað verði í málinu að umrætt smáhýsi verði fjarlægt.  Smáhýsið sé byggtr skv. samþykktu byggingarleyfi og hafi úrskurðarnefndin enga lagalega heimild til að fyrirskipa slíka aðgerð. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi hefur komið sjónarmiðum sínum á framfæri við úrskurðarnefndina í fyrra kærumáli um sama efni og bendir hann á að kærendur búi í meira en 60 m fjarlægð frá umræddu smáhýsi sem sé fyrirferðarlítið, aðeins um 20 m² að flatarmáli og 4 m á hæð.  Hafi það því hverfandi grenndaráhrif  Byggingin muni ekki fela í sér skert útsýni fyrir kærendur, hún sé ekki í óþægilegri nálægð við þá og muni ekki varpa skugga á lóðir kærenda eða á annan hátt skerða hagsmuni þeirra. 

Bent sé á að byggingin hýsi búnað er mæli geislavirkar svifagnir í andrúmslofti og séu strangar kröfur gerðar um staðarval slíkra mælinga.  Vegi veðurfarsleg skilyrði hvað þyngst auk þess sem sjónlína þurfi að vera við gervihnött.  Hvað hávaða af notkun skúrsins varði beri að taka það fram að byggingarleyfishafi hafi gert sérstaka kröfu til hönnuða um að tryggja að hávaði verði innan ásættanlegra marka, enda skúrinn nærri fjölmennum vinnustað.  Því sé alfarið vísað á bug að búnaðurinn hafi þann hávaða í för með sér að hann hafi áhrif á kærendur. 

—————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 20. febrúar 2009 í tilefni af fyrra kærumáli vegna umrædds mannvirkis. 

Niðurstaða:  Lóð Veðurstofu Íslands, er hin umdeilda bygging stendur á, er á ódeiliskipulögðu svæði en hún er skilgreind sem stofnanalóð í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Lóðin er hluti af svæði með mótaða byggð en engar byggingar standa á milli fasteigna kærenda og umdeilds smáhýsins. 

Samkvæmt meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú undantekning er gerð í 3. mgr. ákvæðisins, þegar um er að ræða þegar byggð hverfi, að sveitarstjórn getur veitt heimild til framkvæmda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en þá að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Hefur umrædd bygging verið grenndarkynnt í samræmi við tilvitnað ákvæði eftir að úrskurður gekk í fyrra máli um gildi byggingarleyfis fyrir henni og verður að telja eins og atvikum er háttað að heimilt hafi verið að fara með málið eftir undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hins vegar verður að fallast á með kærendum að grenndarkynning þjóni ekki tilgangi sínum með viðunandi hætti  eftir að mannvirki það sem kynningin tekur til er risið.  Er meðferð málsis haldi ágalla að þessu leyti en ekki þykir, þrátt fyrir það, alveg næg ástæða til þess að ógilda hina kærðu ákvörðun.
 
Eins og áður greinir stendur umdeild bygging Geislavarna ríkisins á stofnanalóð Veðurstofunnar sem er 30.591 m2 að stærð samkvæmt fyrirliggjandi aðaluppdrætti af lóðinni.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar er lágt og mátti því vænta að frekari uppbygging gæti þar átt sér stað.  Á lóðinni standa möstur og önnur mannvirki er tengjast starfsemi Veðurstofunnar og ekki verður talið óeðlilegt eða ófyrirséð að mælingum eins og hér um ræðir sé fundinn staður á slíkri lóð.  Byggingin er ekki stór og stendur í nokkurri fjarlægð frá fasteignum kærenda.  Þótt hún hafi grenndaráhrif og þá einkum á útsýni frá hýbýlum kærenda, verða áhrifin ekki talin slík að raskað geti gildi hins kærða byggingarleyfis þegar tekið er mið af framangreindum atvikum.  Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað. 

Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla um kröfu kærenda um brottnám hinar umdeildubyggingar í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsráðs Reykjavíkur frá 22. apríl 2009, sem borgarráð staðfesti 24. sama mánaðar, um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9 í Reykjavík. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

45/2007 Sóltún

Með

Ár 2009, föstudaginn 18. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Sigurður Erlingsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 45/2007, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.
 
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 22. s.m., kæra G og J, Sóltúni 5 í Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007, sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m., um að veita leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 17. apríl 2007 var m.a.  samþykkt umsókn um leyfi til að setja upp glerlokun á tuttugu svalir fjölbýlishúss nr. 5 á lóð nr. 5-9 við Sóltún.  Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs hinn 18. s.m. og samþykkt í borgarráði 26. apríl 2007.  Skutu kærendur ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir.

Ekki mun hafa komið til þess að formleg byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 væri gefið út en þrátt fyrir það mun hafa verið ráðist í framkvæmdir við umrædda glerlokun og henni lokið að mestu.

Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið óheimilt að samþykkja fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra eigenda íbúða í fjölbýlishúsinu að Sóltúni 5.  Fyrir liggi álit kærunefndar fjöleignarhúsamála, dags. 13. febrúar 2006, þar sem skýrt komi fram að óheimilt sé að ráðast í framkvæmdir við lokun svala hússins án samþykkis allra eigenda þess.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi heimilað framkvæmdina.     

Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að byggingarfulltrúa hafi verið fullkomlega heimilt að samþykkja umrædda umsókn þrátt fyrir að ekki liggi fyrir samþykki eigenda allra íbúða í húsinu, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 44/1998.  Hin kærða ákvörðun byggi einnig á því að um sé að ræða póstalausar svalalokanir sem hafi hverfandi áhrif á útlit hússins og því um óverulega breytingu að ræða sem falli undir ákvæði 3. liðar B-hluta 41. gr. fjöleignarhúsalaga og raski ekki í neinu hagsmunum kærenda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 17. apríl 2007 sem staðfest var í borgarráði hinn 26. s.m. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum en þess háttar leyfi hefur byggingarfulltrúi ekki gefið út í deilumáli þessu.  Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar fellur staðfesting sveitarstjórnar úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða.    

Eins og að framan greinir var byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki gefið út innan tilskilins frests og er hin kærða samþykkt því úr gildi fallin.  Hafa kærendur af þessum sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.  Breytir það ekki þeirri niðurstöðu þótt umdeild ákvörðun um svalalokun hafi að mestu komið til framkvæmda enda fellur það utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að fjalla um framkvæmdir sem ráðist er í án tilskilinna leyfa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________           __________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Sigurður Erlingsson  

110/2008 Ögurhvarf

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 16. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 110/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í  Kópavogi frá 29. október 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra M, Dimmuhvarfi 27 og S, Dimmuhvarfi 23, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í  Kópavogi frá 29. október 2008 að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu veitingahúss á 1. hæð fasteignarinnar að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda en þar sem engar framkvæmdir hafa verið  á grundvelli hins kærða leyfis hefur ekki verið tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar.

Málsatvik og rök:  Að Ögurhvarfi 6 í Kópavogi er nýbygging og er lóð hússins á  svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði í Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Liggur það að íbúðarsvæði þar sem kærendur búa.

Hinn 29. október 2008 samþykkti byggingarfulltrúinn í Kópavogi umsókn um leyfi til að innrétta veitingastað á 1. hæð hússins að Ögurhvarfi 6.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu hinn 11. nóvember sama ár.  Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Benda kærendur á að veitingarekstur falli ekki að skilgreiningu athafnasvæðis og fari leyfið því í bága við gildandi skipulag svæðisins.  Óeðlilegt sé að staðsetja veitinga- og skemmtistað nánast í bakgarði íbúðarhúsa við Dimmuhvarf, í hverfi sem hafi verið kynnt sem friðsæl „sveit í bæ“.  Búast megi við slíkum hávaða frá umferð fólks og farartækja vegna umdeilds veitingarekstrar að telja verði leyfisveitinguna atlögu að friðhelgi heimila kærenda sem standi aðeins í um 30 metra fjarlægð frá fyrirhuguðum veitingastað.  Þá sé ljóst að íbúðareignir í nágrenninu muni falla verulega í verði.  

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fellur staðfesting sveitarstjórnar fyrir veitingu byggingarleyfis úr gildi hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út samkvæmt nefndri 44. gr. innan 12 mánaða frá staðfestingunni.

Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti veitingu hins kærða byggingarleyfis hinn 11. nóvember 2008 en samkvæmt upplýsingum frá byggingaryfirvöldum bæjarins hefur byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga ekki verið gefið út fyrir hinum heimiluðu framkvæmdum og engar framkvæmdir átt sér stað.  Liggur því fyrir að staðfesting bæjarstjórnar er fallin úr gildi þar sem meira en ár er liðið frá henni án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út.   

Eins og málum er komið hafa kærendur ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________            _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson  

16/2009 Heiðaþing

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2009, kæra á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. mars 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Heiðaþingi 6, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008 að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi.  Bæjarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 10. febrúar 2009. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt hefur verið gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Kópavogsbær, sem er byggingarleyfishafi samkvæmt hinu kærða leyfi, kom því á framfæri við úrskurðarnefndina að framkvæmdir stæðu ekki fyrir dyrum að Heiðaþingi 2-4 og hefur því ekki verið tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar. 

Málavextir:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag fyrir suðursvæði Vatnsenda er tekur m.a. til umræddra lóða við Heiðaþing.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum skyldu fyrirhuguð hús á lóðunum vera einnar hæðar parhús með innbyggðum bílageymslum, en heimilt var að hafa kjallara fyrir geymslur undir húsunum að hluta. 

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 6. júní 2006 var lagt fram erindi þáverandi lóðarhafa Heiðaþings 2-4 þar sem farið var fram á frávik frá gildandi skipulagi að því leyti að heimilað yrði að nýta kjallararými sem íbúðarherbergi og að svalir næðu út fyrir byggingarreit.  Var samþykkt að kynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 og Gulaþings 1 og 3. 

Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 8. ágúst 2006 þar sem lá fyrir umsögn bæjarskipulags um fram komnar athugasemdir frá lóðarhöfum Heiðaþings 6 og 8 varðandi skuggavarp og frágang á lóðamörkum.  Skipulagsnefnd fjallaði um erindið á fundi 22. ágúst 2006 ásamt tillögum um útfærslu og frágang á lóðamörkum vegna athugasemda lóðarhafa að Heiðaþingi 6.  Var skipulagsstjóra falið að kynna tillöguna og í kjölfarið gáfu lóðarhafar Heiðaþings 2 og 4 út yfirlýsingu þar sem samþykkt var að reistur yrði skjólveggur á lóðamörkum Heiðaþings 4 og 6 og því lýst yfir að lóðarhafar Heiðaþings 4 myndu setja upp stoðvegg á lóð sinni. 

Skipulagsnefnd samþykkti síðan tillögu um útfærslu deiliskipulags varðandi Heiðaþing 2 og 4 og vísaði málinu til bæjarráðs sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 7. september 2006.  Var þeirri ákvörðun skotið til úrskurðarnefndarinnar af hálfu kæranda í máli þessu. 

Hinn 4. apríl 2007 voru umsóknir lóðarhafa að Heiðaþingi 2 og 4 teknar fyrir á fundi byggingarnefndar sem samþykkti byggingarleyfi vegna lóðanna með vísan til þess að erindin hefðu hlotið afgreiðslu skipulagsnefndar og bæjarráðs í samræmi við 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi gaf síðan út umrædd leyfi hinn 3. maí 2007.  Voru byggingarleyfi þessi einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Hinn 20. september 2007 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurði í kærumálunum vegna skipulagsbreytingarinnar og útgáfu byggingarleyfanna.  Var kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar vísað frá, þar sem á skorti að auglýsing um gildistöku hennar hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Þá voru byggingarleyfin fyrir Heiðaþing 2 og 4 felld úr gildi með vísan til þess að þau vikju frá gildandi deiliskipulagsskilmálum. 

Áðurgreind deiliskipulagsbreyting tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 12. október 2007 og skaut kærandi ákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 9. nóvember sama ár. 

Hinn 2. maí 2008 birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda um afturköllun deiliskipulagsbreytingar varðandi Heiðaþing 2-4 og mun Kópavogsbær hafa leyst til sín umræddar fasteignir. 

Hinn 19. nóvember 2008 samþykkti byggingarnefnd umsókn Kópavogsbæjar um leyfi til að byggja parhús á lóðunum að Heiðaþingi 2-4 og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 25. nóvember s.á.  Kærandi sendi erindi, dags. 2. desember 2008, til bæjarráðs Kópavogs þar sem þess var farið á leit að fallið yrði frá áformum um byggingu tveggja hæða húsa á lóðunum.  Erindinu var vísað til bæjarstjórnar sem sá ekki ástæðu til að falla frá ákvörðun um veitingu byggingarleyfisins. 

Hefur kærandi skotið veitingu byggingarleyfisins fyrir Heiðaþing 2-4 til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Vísað er til þess að samkvæmt hinu kærða byggingaleyfi eigi að nýta útveggi neðri hæðar sem reistir hafi verið í tíð eldra byggingarleyfis sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi. 

Heimilað sé nú að reisa hús á tveimur hæðum með íbúðarrýmum í kjallara auk þess sem útgangur verði úr kjallararými.  Augljóst sé að með hinni kærðu ákvörðun sé brotið gegn gildandi skipulagi með því að heimila þvottahús og/eða önnur íbúðarrými í kjallara og í raun sé verið að byggja á því skipulagi sem fellt hafi verið úr gildi.  Auk þess liggi fyrir að hæð hússins sé meiri en skipulag heimili enda sé hæð milli minnstu hæðar í mestu hæð hússins meiri en heimiluð hámarkshæð, sem sé 4,8 m.  Byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og muni bygging tveggja hæða húss að Heiðaþingi 4 bæði skerða einkalíf og lífsgæði kæranda. 

Málsrök Kópavogsbæjar:  Því er mótmælt að hið kærða byggingarleyfi sé í ósamræmi við gildandi deiliskipulag.  Engin íbúðarherbergi séu í kjallara samkvæmt samþykktum teikningum heldur aðeins geymslur og þvottahús sem séu á allan hátt sambærileg rými.  Deiliskipulag geri ráð fyrir kjallara undir hluta húss þar sem hafa megi geymsluherbergi.  Heimiluð rými í kjallara, sem sé undir um 1/3 hluta aðalhæðar, geti ekki með nokkru móti talist íbúðarherbergi og breyti í engu um eðli herbergjanna þó að útgönguleiðir séu úr kjallaranum út í garð. 

Hæð parhúsanna að Heiðaþingi 2-4 sé innan marka skipulagsskilmála.  Hvort hús um sig sé ekki hærra en 4,8 m frá kóta aðkomuhæðar og miða eigi við gólfkóta við útreikning mestu hæðar hvors húss um sig en hæðarblöð ráði hæðarlegu lóða samkvæmt skilmálum deiliskipulags. 

Telja verði afgreiðslu bæjarins á umdeildri byggingarleyfisumsókn bæði formlega og efnislega rétta og sé því ekki tilefni til að fallast á ógildingarkröfu kæranda. 

Niðurstaða:  Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli vegna deiliskipulagsbreytingar er varðaði lóðirnar að Heiðaþingi 2 og 4 og tók gildi hinn 12. október 2007.  Var kærumálinu vísað frá með þeim rökum að hin kærða ákvörðun hefði verið afturkölluð af hálfu Kópavogsbæjar með skuldbindandi hætti. 

Samkvæmt uppdrætti gildandi deiliskipulags umrædds svæðis, sem nefnt er Vatnsendi-Þing, og tók gildi hinn 14. júlí 2005, er gert ráð fyrir parhúsum á einni hæð á lóðunum að Heiðaþingi 2 og 4.  Fyrirliggjandi sérskilmálar fyrir reit 1 og svæði 8 á deiliskipulagsuppdrættinum eiga m.a. við um lóðirnar að Heiðaþingi 2 og 4.  Þar kemur fram að heimilt sé að reisa einnar hæðar parhús með einni íbúð á hvorri lóð að hámarks flatarmáli án kjallara 235 m2 að Heiðaþingi 2 og 250 m2 að Heiðaþingi 4.  Sérskilmálarnir heimila kjallara fyrir geymslur undir hluta húss og óheimilt er að hafa þar íbúðarherbergi.  Tekið er fram að hæð húsa sé annars vegar gefin upp sem bindandi hæðafjöldi og hins vegar sem hámarkshæð byggingar yfir aðkomukóta sem mest má vera 4,8 m. 

Grunnmynd neðri hæðar á samþykktum aðaluppdráttum fyrir Heiðaþing 2 og 4 sýnir geymslurými, þvottahús og gang í ætluðum kjallara húsanna.  Hins vegar er í byggingarlýsingu aðaluppdrátta tekið fram að um sé að ræða tveggja hæða parhús með tveimur íbúðum og innbyggðum bílgeymslum og í skráningartöflu er gert ráð fyrir 70 m2 íbúðum í kjöllurum húsanna.  Að þessu leyti gætir misræmis í samþykktum aðaluppdráttum. 

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum er lofthæð ætlaðs kjallararýmis meiri en 2,5 m sem telst full lofthæð íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, sbr. 78. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Hæðarblöð og sneiðmyndir sýna og að gólfplata ætlaðs kjallararýmis er ekki niðurgrafin með austurhlið húsanna og fellur umrætt húsnæði því ekki undir skilgreiningu gr. 4.25 í byggingarreglugerð þar sem kjallari er skilgreindur á þann veg að gólf sé undir yfirborði jarðvegs á alla vegu. 

Fallast má á að það eigi sér nokkra stoð í samþykktum aðaluppdráttum að ekki séu heimiluð íbúðarherbergi í umdeildu húsrými og að mesta hæð húsanna sé ekki umfram það sem skipulagsskilmálar áskilja.  Hins vegar verða húsin að teljast tveggja hæða með vísan til þess sem áður er rakið og brýtur hin kærða ákvörðun að því leyti í bága við gildandi skipulag svæðisins þar sem kveðið er á um einnar hæðar parhús að Heiðaþingi 2-4.  Verður af þeim sökum að fella ákvörðunina úr gildi með vísan til 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 19. nóvember 2008, er bæjarstjórn staðfesti hinn 10. febrúar 2009, um að veita byggingarleyfi fyrir parhúsum að Heiðaþingi 2 og 4 í Kópavogi. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________       ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Aðalheiður Jóhannsdóttir

44/2008 Urðarmói

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 6 við Urðarmóa á Selfossi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. júlí 2008, er barst nefndinni 2. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. M og S, Urðarmóa 10 og A og B, Urðarmóa 12, Selfossi, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þar sem málið telst nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar, og hinum umdeildu framkvæmdum var að mestu lokið er kæra barst, verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir og rök:  Kærumál þetta á sér nokkurn aðdraganda, en 14. febrúar 2008 var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar umsókn lóðarhafa um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 og var hún samþykkt.  Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum hinn 6. maí s.á., var leyfið fellt úr gildi með vísan til þess að það væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins.  Á fundi bæjarráðs 25. apríl 2008 var samþykkt breyting á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Urðarmóa og birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 8. maí s.á.  Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 12. júní 2008 var samþykkt leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. s.m. 

Hafa kærendur kært ákvörðun bæjaryfirvalda um byggingarleyfið eins og að framan greinir. 

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu eigendur aðliggjandi lóða við Urðarmóa 10 og 12 og hafi því lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, sbr. einnig úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 6. maí 2008 þar sem staðfestir hafi verið lögvarðir hagsmunir þeirra. 

Um málsástæður og lagarök fyrir kærunni sé að öðru leyti vísað til rökstuðnings og lagaraka með kæru þeirra til úrskurðarnefndarinnar á samþykkt bæjarráðs um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar að Urðarmóa 6.  Sé á því byggt að gildi byggingarleyfisins velti á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar.  Verði hún felld úr gildi leiði það til þess að fella beri hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Fyrir liggi að húsið á lóð nr. 6 við Urðarmóa hafi verið reist í andstöðu við gildandi deiliskipulag.  Óheimilt sé skv. 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. 

Af hálfu Árborgar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þeir uppfylli ekki skilyrði 3. ml. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga um kæruaðild.  Kærendur séu eigendur lóðanna nr. 10 og nr. 12 við Urðarmóa og byggi þeir á því að af þeirri ástæðu einni eigi þeir lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Með breytingu þeirri sem gerð hafi verið á deiliskipulagi lóðarinnar að Urðarmóa 6 hafi leyfilegum þakhalla hússins að Urðarmóa 6 verið breytt.  Áfram sé um að ræða einbýlishús á einni hæð í samræmi við upphaflegt deiliskipulag.  Umrædd bygging sé öll innan skilgreinds byggingarreits og sé mesta hæð hennar u.þ.b. einum metra minni en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagsskilmálum, auk þess sem vegghæð sé í fullu samræmi við þá.  Sé því ljóst að umrædd breyting hafi engin áhrif gagnvart fasteignum kærenda.  Byggingin sé hvorki hækkuð né henni breytt á nokkurn þann hátt sem kunni að hafa áhrif á grenndarrétt kærenda.  Breytingin komi ekki til með að valda auknu skuggavarpi eða draga úr útsýni frá fasteignum kærenda eða á nokkurn annan hátt valda kærendum óþægindum.  Með vísan til þessa hafi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.  Verði ekki á framangreint fallist sé vísað til þess að hið kærða leyfi sé í fullu samræmi við deiliskipulag svæðisins. 

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu kærenda mótmælt og þess krafist að henni verið hafnað. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 20. nóvember 2009.  Að vettvangsgöngu lokinni aflaði úrskurðarnefndin gagna um hæðarsetningu og mænishæðir húsa á umræddu svæði auk séruppdrátta að burðarvirki þaks Urðarmóa 6.  Hafa þau gögn verið kynnt umboðmanni kærenda og honum gefinn kostur á að tjá sig um þau. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 12. júní 2008 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni að Urðarmóa 6 á Selfossi.  Bæjarráð staðfesti þá ákvörðun hinn 27. sama mánaðar.  Áður höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykkt bæjarráðs frá 25. apríl s.á. um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar.  Með úrskurði uppkveðnum fyrr í dag var því máli vísað frá úrskurðarnefndinni með þeim rökum að kærendur ættu ekki lögvarða hagsmuni.  Er rakið í þeim úrskurði að bygging hússins að Urðarmóa 6 hafi ekki haft nein grenndaráhrif er máli skipti gagnvart fasteignum kærenda að Urðarmóa 10 og 12 umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt upphaflegu deiliskipulagi svæðisins. 

Ekki verður séð að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið gengið gegn lögvörðum hagsmunum kærenda frekar en með áður nefndri skipulagsbreytingu.  Eiga kærendur því ekki lögvarða hagmuni af úrlausn máls þessa og verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

44/2009 Láland

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 44/2009, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. júní 2009, er barst nefndinni samdægurs, kærir Arnar Þór Stefánsson hdl., f.h. J, Lálandi 19, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009 að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21.  Var afgreiðsla byggingarfulltrúa lögð fram á fundi skipulagsráðs 27. sama mánaðar og samþykkt á fundi borgarráðs 28. sama mánaðar.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni en engar framkvæmir hafa hafist á grundvelli hins kærða leyfis og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda. 

Málavextir:  Í gildi er deiliskipulag Fossvogshverfis, einbýlishús, frá árinu 1968.  Í greinargerð þess á uppdrætti segir að á hverri lóð skuli reisa fjögur einnar hæðar einbýlishús sem heimilt sé að aðskilja eins og sýnt sé á mæliblaði, þannig að sérlóðarhluti fylgi hverju húsi.  Bifreiðageymsla skuli vera í húsinu sjálfu eða áföst því og sé æskileg staðsetning sýnd á mæliblöðum.  Þá segir ennfremur að viðhald á sameiginlegum hluta lóðar greiði lóðarhafar að jöfnu.  Árið 2000 öðlaðist gildi breyting á deiliskipulagi þessu er m.a. fól í sér stækkun byggingarreita og með ákvörðun borgaryfirvalda frá árinu 2007 var nýtingarhlutfall lóða á svæðinu heimilað 0,3. 

Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. maí 2009 var eftirfarandi fært til bókar:  „Láland 17-23, nr. 21 breyta og byggja við.  Sótt er um leyfi til að byggja viðbyggingu til suðurs og til að breyta innra fyrirkomulagi og útliti einbýlishússins nr. 21 á lóð nr. 17-21 við Láland. …Stækkun: 130,9 ferm., 502,2 rúmm. … Samþykkt.“

Hefur kærandi skotið framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að ofan greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að húseignin að Lálandi 21 fari eftir stækkun út fyrir byggingarreit samkvæmt gildandi deiliskipulagi sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 3. febrúar 2000.  Að minnsta kosti sé ljóst að sorptunnugeymsla samkvæmt teikningum sé langt út fyrir byggingarreit.  Ennfremur sé ljóst að hús kæranda sé um 12 metrum vestan við byggingarreit húseignarinnar að Lálandi 21.  Í norðurkanti beggja húsanna, Lálands 19 og 21, séu núna bílskúrar sem snúi austur-vestur og snúi þeir því hvor á móti öðrum og inngangar húsanna einnig hvor á móti öðrum.  Samkvæmt fyrirliggjandi teikningum virðist ætlun byggingarleyfishafa m.a. vera að rífa núverandi bílskúr og byggja nýjan sem verði vestast í byggingarreit og snúi norður-suður í stað austur-vestur eins og nú sé.  Þannig sé verið að hverfa frá því sem fram komi á mæliblöðum um staðsetningu bílskúrs en í skilmálum framangreinds deiliskipulags segi að æskileg staðsetning bifreiðageymsla sé sýnd á mæliblaði.  Þá hafi þessar breytingar ennfremur í för með sér að húsin að Lálandi 19 og 21 muni ekki lengur snúa þannig að aðkoma þeirra sé hvor á móti annarri heldur hafi hús kæranda langhlið hins nýja bílskúrs á móti sinni aðkomu og inngangi.  Þá séu aðrar breytingar fyrirhugaðar samkvæmt teikningum svo sem að setja bílastæði þar sem áður hafi verið gróður og gras.

Framangreindar breytingar nágrannans á húseigninni, og þá einkum bílskúrs- og bílastæðabreytingin, sé kærandi afar ósáttur við þar sem hann hafi bílskúrshlið gengt aðkomu húss síns og inngangi.  Aðkoma kæranda og fjölskyldu að húsi þeirra verði mjög óskemmtileg þar sem búið sé að riðla öllu heildarfyrirkomulagi húseigna á hinni sameiginlegu lóð að Lálandi 17-23 og það orðið annað en á öðrum stöðum í götunni.  Til að mynda séu önnur hús að Lálandi öll byggð með bílskúra í austur-vestur, en ekki norður-suður.

Kærandi bendi á að húseign byggingarleyfishafa, sem og húseign kæranda og tvær aðrar húseignir, Láland 17 og 23, séu samkvæmt lóðarleigusamningum frá árinu 1974 staðsettar á einni og sömu lóðinni og sé uppdráttur viðfestur þeim samningum.  Þannig segi í lóðarleigusamningunum:  „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4342 ferm., skv. viðfestum uppdrætti“.  Leiði af meginreglum eignarréttar um sameign að byggingarleyfishafa hafi borið að óska eftir samþykki kæranda fyrir breytingum þeim sem hann hugðist gera á húseign sinni sem staðsett sé á hinni sameiginlegu lóð, sérstaklega í ljósi þess hve umfangsmiklar þær séu og feli í sér miklar breytingar sem raski hagsmunum hans. 

Ennfremur sé ljóst að hér gildi lög um fjöleignarhús nr. 26/1994, en í 2. mgr. 3. gr. þeirra laga segi:  „Þótt sambyggð eða samtengd hús teljist tvö sjálfstæð hús eða fleiri skv. 1. mgr. þá gilda ákvæði laganna eftir því sem við getur átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg eru, svo sem lóð ef hún er sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip ef því er að skipta. Sama gildir einnig ef því er að skipta um sameiginleg málefni sjálfstæðra ótengdra fjöleignarhúsa og/eða annars konar húsa.“  Samkvæmt þessu gildi meginreglur 41. gr. laganna um ákvarðanatöku á hinni sameiginlegu lóð.  Þannig leiði af 6. tölul. A-liðar 1. mgr. 41. gr. að til ákvarðana um byggingu, framkvæmdir og endurbætur sem hafi í för með sér verulegar breytingar á sameign þurfi samþykki allra eigenda á hinni sameiginlegu lóð, Lálandi 17-23.

Samkvæmt framangreindu skorti á að fullnægt sé lögbundnum skilyrðum um samþykki kæranda og annarra eigenda á lóðinni að Lálandi 17-23 til að framkvæmdir þær sem hér um ræði megi fara fram.  Af þessum ástæðum hafi einnig verið ólögmætt af hálfu byggingafulltrúa að samþykkja þessar breytingar, enda sé ekki fullnægt því skilyrði 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að samþykki meðeiganda liggi fyrir.  Vísist um sambærilega aðstöðu til dóms Hæstaréttar 19. janúar 2006 í máli nr. 326/2005.  Samþykktin sé því ólögmæt og beri að fella hana úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er hafnað þeim fullyrðum kæranda að atriði í hinni kærðu samþykkt séu ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag á svæðinu.  Á svæðinu sé í gildi deiliskipulag um Fossvogshverfi, svæði 3, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 6. febrúar 1968.  Sá hluti deiliskipulagsins sem nái yfir einbýlishúsabyggðina neðst í Fossvogi hafi verið endurskoðaður, m.a. vegna stækkunar á byggingarreitum, og öðlast gildi á árinu 2000.  Heildarskilmálum deiliskipulagsins hafi verið breytt þrisvar á síðastliðnum árum; kjallarar hafi verið heimilaðir undir einbýlishúsum á árinu 2006, nýtingarhlutfall hafi verið hækkað úr 0,24 í 0,3 á árinu 2007 og gluggar hafi verið heimilaðir á göflum raðhúsa á árinu 2008.  

Ljóst sé að húsið að Lálandi 21 muni standa að öllu leyti innan byggingarreits og sé sorptunnuskýlið ekki undanskilið.  Afmörkun byggingarreits í gildandi deiliskipulagi sé skýr og augljóst hljóti að vera, ef samþykktir uppdrættir og deiliskipulag séu borin saman, að byggingin standi að öllu leyti innan byggingarreits. 

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi og lóðarleigusamningum frá árinu 1974 sé ljóst að um sé að ræða heildarlóðina fyrir Láland 17-23 (stök nr.).  Sé þetta fyrirkomulag lóðamála ríkjandi í Fossvoginum þar sem gert hafi verið ráð fyrir fjórum einbýlishúsum innan afmarkaðra lóðarhluta auk sameiginlegrar aðkomulóðar.  Í skilmálum gildandi deiliskipulags komi jafnframt fram að heimilt sé að aðgreina lóðir þannig að sér lóðarhluti fylgi hverju húsi með limgirðingum.  Jafnframt sé nýtingarhlutfall ákvarðað sérstaklega fyrir hvern lóðarhluta og hafi verið ákvarðað 0,3 ofanjarðar með bílgeymslu eftir skilmálabreytingu árið 2007.

Með vísan til ofangreinds sé engan veginn hægt að fallast á þá málsástæðu kæranda að samkvæmt meginreglum eignarréttar um sameign hafi þurft samþykki kæranda fyrir breytingum á húsi byggingarleyfishafa.  Það sé þvert á móti álit Reykjavíkurborgar að meginreglur eignarréttar um séreign leiði til þess að byggingarleyfishafa hafi verið heimilt að ráðast í framkvæmdir sem séu í samræmi við gildandi deiliskipulag innan eigin lóðarhluta, innan byggingarreits, og í samræmi við ákvæði um nýtingarhlutfall innan lóðarhlutans. 

Fallist sé á það með kæranda að ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, þar sem fjallað sé um atriði og málefni sem sameiginleg séu, svo sem lóð ef hún sé sameiginleg að öllu leyti eða nokkru og um útlit og heildarsvip, eigi við um hluta lóðarinnar að Lálandi 17-23, enda sé sá hluti lóðarinnar sem teljist vera í sameign sérstaklega afmarkaður í deiliskipulagi og á mæliblaði.  Hvergi komi þó fram í ákvæðum laga um fjöleignarhús að leita þurfi samþykkis allra meðeigenda fyrir öllum framkvæmdum innan sameiginlegra lóða, hvað þá innan skilgreindra sérafnotaflata.  Reykjavíkurborg fallist því á að meginreglur laga um fjöleignarhús eigi við í þeim tilfellum þar sem ráðist sé í breytingar á aðkomulóð, þ.e. þeim hluta hennar sem afmarkaður sé í gildandi deiliskipulagi/skýringarmynd sem sameiginlegur flötur, ætlaður fyrir sameiginleg bílastæði og aðkomu.  Því sé vísað á bug með öllu að þessar meginreglur eigi við um byggingarheimildir hvers lóðarhluta fyrir sig þar sem sérstakar heimildir hafi verið veittar fyrir hvern lóðarhluta.  Myndi gagnstæð niðurstaða leiða til óeðlilegrar niðurstöðu þar sem réttur meðlóðarhafa til að hafa áhrif á byggingarrétt nágranna yrði töluvert ríkari en sambærilegur réttur nágranna í fjöleignarhúsum.

Ekki sé fallist á að niðurstaða Hæstaréttar í dómi frá 19. janúar 2006 í máli nr. 326/2005 hafi þýðingu í máli þessu. 
 
Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að fyrirhuguð viðbygging við Láland 21 sé innan skilgreinds byggingarreits og í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.  Fullyrðingar um hið gagnstæða séu beinlínis rangar.  Byggingarnefndarteikningar sem hlotið hafi samþykki byggingarfulltrúa séu í fullu samræmi við þinglýstar heimildir lóðarhafa við Láland 21 þar sem byggingarreitur sé skýrlega greindur á mæliblöðum.  Kærandi hafi engar forsendur til að fullyrða að þær mælingar séu rangar.  Fyrirhuguð sorpgeymsla sé staðsett u.þ.b. tvo metra inni á lóð þar sem nú sé garður byggingarleyfishafa og steinabeð.

Í kæru séu athugasemdir gerðar við staðsetningu bílskúrs og fundið að því að innkeyrsla í hann samrýmist ekki heildarsvip hverfisins og verði aðkoma að húsi kæranda „óskemmtileg“.  Ekki sé fallist á þetta.  Vissulega sé það algeng staðsetning bílskúra neðst í Fossvogi að inn í þá sé ekið að austan eða vestan.  Frá því séu hins vegar fjölmargar undantekningar  svo sem að Lálandi nr. 12, ein í Kvistalandi, sex í Haðalandi, fjórar í Grundarlandi, sex í Bjarmalandi og tvær í Árlandi.  Allt séu þetta götur neðst í Fossvogi sem liggi eins og Láland.  Samkvæmt þessu sé ekkert óvanalegt við að ekið sé inn í bílskúr frá suðri heldur sé það í ágætu samræmi við heildarsvip húsa á svæðinu. 

Í kæru sé á því byggt að það leiði af meginreglum eignarréttar um sameign að byggingarleyfishafa hafi borið að óska eftir samþykki kæranda um fyrirhugaða breytingu og að slíkt samþykki sé forsenda fyrir útgáfu byggingarleyfis samkvæmt 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Rökstuðningur og lagatúlkanir kæranda um þessi efni fái ekki staðist.  Lóðin nr. 17-23 við Láland sé ekki sameign byggingarleyfishafa, kæranda og annarra sem þar búi.  Hún sé eign Reykjavíkurborgar og hafi verið leigð húseigendum lóðarinnar til 75 ára.  Í þinglýstum heimildum séu skýrlega tiltekin mörk hverrar lóðar fyrir sig og í upphafi tilgreindur sá byggingarreitur sem tilheyri hverri lóð.  Hver lóðarhafi greiði leigu af sinni lóð samkvæmt sérstökum lóðarleigusamningi.  Þótt lóðin sé óskipt hafi ótvírætt verið tilgreindur aðskilinn réttur fjögurra lóðarhafa til ráðstöfunar á hverri lóð um sig.

Dómur Hæstaréttar sem kærandi vísi til hafi enga þýðingu við úrlausn þessa álitaefnis þar sem ekki sé hér um sameign að ræða.  Af sömu ástæðu sé tilvísun kæranda í 43. gr. skipulags- og byggingarlaga marklaus. 

Þá vísi kærandi til ákvæða laga um fjöleignarhús og telji að af þeim leiði að leita hafi átt eftir samþykki kæranda fyrir útgáfu byggingarleyfis.  Ekki sé fallist á það með kæranda að lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús eigi við um ágreining þann sem hér sé til úrlausnar.  Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna gildi þau um fjölbýlishús með íbúðum og raðhús og önnur sambyggð eða samtengd hús.  Í 2. mgr. 3. gr. laganna, sem kærandi vísi til, sé gert ráð fyrir því að lögin gildi „… eftir því sem við getur átt um þau atriði og málefni sem sameiginleg eru, svo sem lóð ef hún er sameiginleg að öllu leyti eða nokkru …“.  Þótt ekki sé fallist á það með kæranda að lóðin sé sameign byggingarleyfishafa og annara húseigenda á lóðinni, kunni að vera að fjöleignarhúsalögum verði beitt um tiltekin ágreiningsefni aðila sem upp komi og varði sameiginleg málefni lóðarhafa.  Rétt sé hins vegar að huga að skýru orðalagi tilvitnaðs ákvæðis sem merki að lögin taki til þeirra málefna sem sameiginleg séu og þeirra aðeins.  Í því felist m.a. að leigjendur lóðanna nr. 17-23 við Láland þyrftu að standa sameiginlega að ákvörðun um endurnýjun á skolplögnum sem liggi á sameiginlegu svæði, verða sammála um nýtingu bílastæða á sameiginlegu svæði, kosta lýsingu eða sjómokstur á því og svo framvegis.  Það sé fráleit túlkun á ákvæðum fjöleignarhúsalaga að þau taki almennt til hagnýtingar húseigenda á lóðum undir einbýlishús þeirra.  Það sé beinlínis tilgangurinn með skiptingu lóðarinnar að Lálandi nr. 17-23 og annarra sambærilegra lóða í Fossvogi í tiltekna byggingarreiti að afmarka nýtingarrétt hvers lóðarhafa um sig, þar með talið byggingarrétt.  Af þessu leiði að ákvæði laga um fjöleignarhús taki ekki til lögmætrar hagnýtingar byggingarleyfishafa á lóð sinni innan skilgreinds byggingarreits og staðfest sé með útgefnu byggingarleyfi. 

Andsvör kæranda við sjónarmiðum Reykjavíkurborgar og byggingarleyfishafa:  Kærandi bendir á að af hálfu Reykjavíkurborgar sé því haldið fram að aðeins hluti af hinni umræddu lóð sé sameiginlegur en aðrir hlutar í séreign.  Þetta sé beinlínis rangt enda segi í lóðarleigusamningum: „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4342 ferm., skv. viðfestum uppdrætti.“  Gildandi deiliskipulag og mæliblað, sem borgin vísi til, breyti nákvæmlega engu um þetta grundvallaratriði enda breyti hvorki skipulag né mæliblað eignarréttindum manna.

Vakin sé sérstök athygli á því að samkvæmt fundargerðum byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar hafi sl. sumar verið veitt leyfi fyrir breytingum í húseignum að Lálandi 8 og Kvistalandi 1.  Í báðum tilvikum hafi fylgt teikningum samþykki meðlóðarhafa.  Þar hafi því verið farið að lögum öndvert við það sem gerst hafi í þessu máli.

Í umsögn byggingarleyfishafa sé fullyrt að það séu fjölmargar undantekningar frá þeirri reglu að bílskúrar neðst í Fossvogi snúi til vesturs eða austurs.  Um þetta sé það að segja að í Fossvogi standi einbýlishús í aftari röð, á sameiginlegri lóð ofan götu, nær hvort öðru en fremri húsin á lóðinni.  Í vestanverðum Fossvogi sé annað skipulag á bílskúrsmálum aftari húsanna ofan götu en í Lálandi, sem sé í austanverðum Fossvogi.  Í vestanverðum Fossvogi snúi bílskúrar beggja húsa eins og opnist til suðurs, en inngangur húsanna sé þá oftast einnig til suðurs og snúi ekki móti bílskúrshlið nágrannans.  Þetta skipulag bílskúrsmála í vestanverðum Fossvogi sé byggingarmálum í Lálandi óviðkomandi.  Í Lálandi hafi öll 24 húsin verið byggð með bílskúra sem snúi móti austri og vestri.  Í algjörum undantekningartilfellum, þó ekki í Lálandi, séu bílskúrar í aftari húsaröð sömu lóðar ofan götu byggðir þannig að annar snúi til suðurs en hinn til austurs eða vesturs.  Í þeim tilfellum sé aðkoma að því húsi sem hafi bílskúr og inngang til austurs eða vesturs mjög óskemmtileg þar sem hún snúi að bílskúrshlið nágrannans.  Hugsanlegt sé að í þessum tilfellum sé ekki um upphaflegar bílskúrsbyggingar að ræða heldur síðari tíma viðbyggingar.

Í umsögn borgarinnar sé ekki fallist á sjónarmið kæranda um að umræddar breytingar séu umfangsmiklar.  Kærandi standi aftur á móti fast á því að breytingarnar séu verulega umfangsmiklar.  Þannig feli byggingarleyfið í sér að hús sem sé fyrir um 150 m² að stærð sé stækkað um 130 m².  Bílskúr sé brotinn niður og byggður nýr með opnun til suðurs.  Sorptunnugeymsla sé byggð utan byggingarreits.  Garðinum, sem snúi að nágrönnum, sé að töluverðum hluta breytt í bílastæði.  Viðbygging sé töluvert hærri en byggt hafi verið í Fossvogi og þakkantur eldri hluta hússins hækkaður til samræmis, en þakkantur hafi aðeins mátt vera að hámarki 50 cm samkvæmt byggingarskilmálum frá 1973.  Þar að auki sé húsið að mestu endurbyggt innanstokks.

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum og kröfum sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009, sem staðfest var á fundi borgarráðs 28. sama mánaðar, um að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21. 

Í gildi er deiliskipulag frá árinu 1968 fyrir einbýlishúsahverfið neðst í Fossvogi.  Samkvæmt því er heimilt að byggja fjögur einbýlishús á hverri lóð.  Með breytingum á deiliskipulaginu á árunum 2000 og 2007 var nýtingarhlutfall hækkað í 0,3 og byggingarreitir stækkaðir.  Í deiliskipulagi þessu segir um bílskúra að æskileg staðsetning þeirra sé sýnd á mæliblöðum.  Verður að skilja orðalag þetta svo að mæliblöðin séu aðeins leiðbeinandi, en ekki bindandi, um staðsetningu bílskúra innan lóðar og er því ekkert í deiliskipulaginu sem kemur í veg fyrir að bílskúr byggingarleyfishafa snúi norður-suður en ekki austur-vestur eins og þó er algengast á svæðinu.  Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum rúmast fyrirhuguð viðbygging við húsið að Lálandi 21 innan byggingarreits.  Um sorpskýli á lóðum sérbýlishúsa gilda ákvæði gr. 84.2 og 84.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 þar sem gert er ráð fyrir að slík skýli séu umfangslítil mannvirki, staðsett innan lóðar, og verður ekki séð að áskilið sé að staðsetning þeirra að öðru leyti sé ákvörðuð í deiliskipulagi.  Með vísan til framanritaðs verður ekki fallist á að hin kærða samþykkt sé í andstöðu við gildandi deiliskipulag svæðisins. 

Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins er heimilt að byggja fjögur einbýlishús á hverri lóð.  Í greinargerð deiliskipulagsins sem er á uppdrætti þess, segir og að heimilt sé að aðgreina lóðirnar eins og mæliblað sýni þannig að sér lóðarhluti fylgi hverju húsi.  Þá segir einnig að standsetningu og viðhald á sameiginlegum hluta lóðar greiði lóðarhafar að jöfnu, svo og gerð gangstíga og lýsingu.  Með breytingu á skilmálum deiliskipulagsins á árinu 2000 var sérstaklega tilgreint að við útreikning nýtingarhlutfalls skyldi miða við að hver lóðarhluti væri einn fjórði af heildarstærð lóðar.  Í samhljóða lóðarleigusamningum fyrir lóðirnar nr. 19 og 21 við Láland frá árinu 1974 segir að um sé að ræða leigusamning um lóð til íbúðarbyggingar og sé hvorum leigutaka leigð ein tilgreind lóð, annars vegar nr. 19 og hins vegar nr. 21.  Í lóðarleigusamningi um lóðina nr. 19 segir ennfremur:  „Lóðin Láland 17-23 (stök nr.) er ein óskipt lóð, að stærð 4323 ferm., skv. viðfestum uppdrætti.  Lóðin Láland nr. 19 er hluti af þeirri lóð.“   Samhljóða ákvæði er í samningi um lóðina nr. 21 við Láland.  Verður að skilja tilgreind ákvæði deiliskipulags svæðisins og lóðarleigusamninga á þann veg að ekki hafi verið skylt að afla samþykkis annarra rétthafa hinnar sameiginlegu lóðar til framkvæmda á sérgreindum lóðarhluta byggingarleyfishafa. 

Samkvæmt öllu framanrituðu verður hafnað kröfu kæranda um að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. maí 2009 um að veita leyfi til að byggja við húsið að Lálandi 21.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________             ________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

109/2008 Miðskógar

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 21. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 109/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Álftaness frá 6. nóvember 2008 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Miðskógum 8 á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. desember 2008, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir Gestur Jónsson hrl., f.h. H ehf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Álftaness frá 6. nóvember 2008 að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Miðskógum 8 á Álftanesi. 

Málavextir:  Kærandi eignaðist lóðina að Miðskógum 8 með kaupsamningi 24. nóvember 2005.  Lagði hann fyrst fram umsókn um leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni hinn 23. janúar 2006.  Var umsóknin eftir það til meðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd allt þar til hún tók umsóknina til afgreiðslu á fundi sínum 13. nóvember 2006.  Var á fundinum fært til bókar að hafnað væri „… ósk um byggingarleyfi samkvæmt framlögðum teikningum“, auk þess sem nefndin teldi að „… skipulagslegir annmarkar fylgi byggingu húss á Miðskógum 8 og hvetur til þess að endurskoðun deiliskipulags fyrir hverfið í heild gangi fyrir afgreiðslu nýrra byggingarleyfa.“  Í skýringum, sem nefndin lét fylgja þessari ályktun, var vísað til þess að Skipulagsstofnun teldi deiliskipulagsdrög frá árinu 1980, sem hafi mótað byggð við Miðskóga, vera ígildi deiliskipulags fyrir svæðið, en í ljósi þess og bókana í sveitarstjórn árið 1981 um byggingarskilmála fyrir Miðskógasvæðið yrði að hafna umsókn kæranda, enda hafi hús samkvæmt framlögðum uppdráttum ekki samrýmst þeim skilmálum.  Auk þessa var vísað til þess meðal annars að fyrirhugað hús stæði of nærri strandlínu, land undir byggingarreit á lóðinni væri of lágt yfir sjávarmáli, í aðalskipulagi væri gert ráð fyrir göngustíg „… meðfram strandkantinum sunnan Miðskóga“ og áætlanir hafi verið uppi um fráveitu frá byggðinni þar meðfram Skógtjörn, sem lóð kæranda næði að.  Síðastgreind atriði yrðu ekki leyst á viðunandi hátt nema með því að gera landfyllingu út í tjörnina, sem væri á náttúruminjaskrá, og myndi sú fylling að auki fara yfir sjávarfitjar, sem nytu sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.  Þessi niðurstaða skipulags- og byggingarnefndar var staðfest á fundi bæjarstjórnar 14. nóvember 2006.

Kærandi vildi ekki una þessari niðurstöðu og höfðaði mál til ógildingar á ákvörðunum skipulags- og byggingarnefndar og bæjarstjórnar í málinu með stefnu áritaðri um birtingu 6. febrúar 2007.  Lauk meðferð málsins með dómi Hæstaréttar 17. apríl 2008.  Var í dóminum talið að líta yrði svo á að deiliskipulag væri í gildi fyrir svæðið þar sem lóð kæranda væri, sbr. 11. lið ákvæða til bráðabirgða við lög nr. 73/1997, enda hefði sveitarfélagið í yfir tvo áratugi hagað gerðum sínum eins og í gildi væri deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Hins vegar var ekki talið að kærandi hefði átt rétt á því að fá útgefið byggingarleyfi þar sem vikið væri frá skilmálum skipulagsákvæða vegna lóða á svæðinu að því er varðaði hæð þaks á útsýnisturni og var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að sýkna bæri sveitarfélagið af kröfu kæranda um ógildingu hinna umdeildu ákvarðana.

Kærandi sótti að nýju um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð sinni með byggingarleyfisumsókn sem móttekin var 2. maí 2008.  Næsti fundur skipulags- og byggingarnefndar eftir að umsókn kæranda barst var haldinn 19. maí 2008 en samkomulag mun hafa verið um að umsóknin yrði ekki til afgreiðslu á þeim fundi.  Hinn 22. maí 2008 var þess hins vegar krafist að umsókn kæranda um byggingarleyfið yrði tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd.  Umsóknin var síðan tekin fyrir á fundi nefndarinnar 19. júní 2008.  Samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að málinu yrði frestað með vísan til 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br., þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Þessa afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar ómerkti bæjarstjórn á fundi sínum 26. júní 2008, að því er virðist vegna hugsanlegs vanhæfis nefndarmanns skipulags- og byggingarnefndar, og vísaði málinu til nýrrar afgreiðslu nefndarinnar.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 10. júlí 2008 var umsókn kæranda tekin fyrir að nýju og lagði nefndin til við bæjarstjórn að afgreiðslu hennar yrði frestað þar sem breytingar stæðu yfir á deiliskipulagi Vestur-Skógtjarnarsvæðisins.  Samþykkti bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar, á fundi sínum hinn 17. júlí 2008 tillögu skipulags- og byggingarnefndar um að fresta afgreiðslu umsóknarinnar.  Kom málið ekki til frekari meðferðar hjá bæjaryfirvöldum eftir það og vísaði kærandi meintum drætti á afgreiðslu þess til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála  með bréfi, dags. 17. ágúst 2008.  Kvað nefndin upp úrskurð í málinu hinn 9. október 2008 og var það niðurstaða hennar að frestun málsins hefði verið ólögmæt og að óhæfilegur dráttur hefði orðið á meðferð þess.

Umsókn kæranda var tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 27. október 2008 og samþykkti nefndin að leggja til við bæjarstjórn að henni yrði hafnað með vísan til greinargerðar sem lögð var fram á fundinum.  Ákvað bæjarstjórn á fundi sínum hinn 6. nóvember 2008 að hafna umsókn kæranda og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að sveitarfélagið Álftanes hafi brotið gegn ýmsum ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins.  Ekki hafi verið gætt andmælaréttar kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, en honum hafi aldrei verið gefinn kostur á að koma til móts við athugasemdir sveitarfélagsins, s.s. varðandi stærð fyrirhugaðs húss eða staðsetningu byggingarreits innan lóðar.  Þá hafi verið brotið gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga en málið hafi tekið óhóflega langan tíma í meðförum sveitarfélagsins.  Brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en sveitarfélaginu hafi borið að fara vægari leið en að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi til að ná fram markmiðum sem fram komi í greinargerð sveitarfélagsins við höfnun byggingarleyfis.  Sá möguleiki hafi verið fyrir hendi að færa til byggingarreit innan lóðarinnar, draga úr stærð hússins og semja um kvaðir vegna sjávarfitja.

Brotið hafi verið gegn hæfisreglum, sbr. 3. – 6. gr. stjórnsýslulaga.  Forseti bæjarstjórnar sé hagsmunaaðili sem íbúi að Miðskógum 6.  Þó svo hann hafi vikið sæti við afgreiðslu málsins í bæjarstjórn sé ljóst að flest þau atriði sem fram komi í rökstuðningi skipulags- og byggingarnefndar Álftaness sé að finna í bréfi hans til þáverandi bæjarstjóra, dags. 20. september 2005, bréfi til þáverandi skipulagsfulltrúa, dags. 17. október 2005, og í bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 31. október 2005.  Þar af leiðandi megi leiða að því líkum að fulltrúar Á-lista hreyfingarinnar í skipulags- og byggingarnefnd hafi verið vanhæfir þegar komið hafi að því að fjalla um þetta mál, enda hafi þeir verið skipaðir og þeim stýrt af forseta bæjarstjórnar.

Brotið hafi verið gegn reglum um birtingu ákvörðunar og um leiðbeiningar, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Sveitarfélaginu hafi ítrekað borið að upplýsa kæranda formlega um að ákvörðun hafi verið tekin, ásamt rökstuðningi og leiðbeiningum þar að lútandi.  Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 17. nóvember 2008, hafi kæranda verið gerð grein fyrir synjun sveitarfélagsins á umsókn hans um byggingarleyfi, sem staðfest hafi verið á fundi bæjarstjórnar 6. nóvember 2008.  Jafnframt hafi kærandi verið  upplýstur um að kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála væri 30 dagar frá dagsetningu umrædds bréfs að telja.  Hið rétta sé að kærufrestur byrji að líða frá og með þeim degi sem kæranda hafi orðið ljóst eða mátt vera ljóst að stjórnvald hefði tekið ákvörðun.  Í þessu tilfelli hafi ákvörðun verið tekin á fundi bæjarstjórnar 6. nóvember 2008.  Kærufrestur hafi því verið til 6. desember 2008 eða næsta virka dags hafi verið um að ræða helgidag eða frídag.  Greinargerð fulltrúa Á-lista sem var lögð hafi verið fram sem rökstuðningur á fundi skipulags- og byggingarnefndar hafi hvorki verið send kæranda né kynnt honum með neinum hætti.

Loks hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.  Fyrir liggi að sveitarfélagið hafi gefið út að minnsta kosti 20 byggingarleyfi á grundvelli deiliskipulagsins frá 1981.  Á þeim uppdrætti, svo og uppdráttum gerðum af Guðmundi Kr. Kristinssyni arkitekt, hafi alla tíð verið gert ráð fyrir húsi á lóðinni nr. 8 að Miðskógum.  Með höfnun á byggingarleyfi telji kærandi að sér hafi verið mismunað og að um brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hafi verið að ræða.

Af hálfu kæranda er áréttað að ákvæði 43. gr. skipulags- og byggingarlaga um byggingarleyfi feli í sér að afgreiða beri umsókn um byggingarleyfi í samræmi við gildandi deiliskipulag og að óheimilt sé að fresta eða hafna umsókn um byggingarleyfi af því tilefni að fram sé komin tillaga að nýju eða breyttu skipulagi, nema við eigi hið sérstaka ákvæði 6. mgr. 43. gr., en svo sé ekki í hinu kærða tilviki.

Kærandi telji að rökstuðningur sveitarfélagsins er fram komi í greinagerð fulltrúa Á-lista, dags. 26. október 2008, fái ekki staðist.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 444/2007 frá 17. apríl 2008 sé staðfest gildi deiliskipulagsins frá 1981 og þar með tilvist lóðarinnar nr. 8 að Miðskógum sem byggingarlóðar.  Sveitarfélagið hafi ekki fært sönnur á annað.  Kærandi hafni því öllum rökum fyrir synjun á byggingarleyfi sem grundvallist á því að deiliskipulagið frá 1981 sé ekki í gildi.  Sveitarfélagið vísi í sögulegt samhengi þar sem því sé haldið fram að í raun séu deiliskipulagsdrög frá 1973 í gildi en ekki deiliskipulagsuppdrátturinn frá 1981, þrátt fyrir að hverfið hafi verið byggt eftir honum.  Fyrir liggi dómur Hæstaréttar í máli nr. 444/2007 og niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í október 2008, sem hvoru tveggja staðfesti gildi deiliskipulagsins frá 1981.  Þá hafi Skipulagsstofnun þrisvar gefið álit um gildi skipulagsins frá 1981.  Uppdrátturinn frá 1973 hafi ekki verið notaður við uppbyggingu á svæðinu og hvorki gatnagerð né lóðir hafa tekið mið af honum.  Honum fylgi hvorki mæliblöð, greinagerð né tölulegar upplýsingar sem séu lögformleg gögn þegar fjallað sé um deiliskipulag.  Hvað götur, hús og lóðir varði sé svæðið skipulagt og uppbyggt samkvæmt deiliskipulaginu frá 1981.  Þáverandi eigandi lóðarinnar að Miðskógum 8 hafi beint fyrirspurn til skipulagsnefndar Álftaness, dags. 30. ágúst 2005, um hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu að hefja byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 8 að Miðskógum.  Í svari skipulagsnefndar Álftaness, í formi ályktunar, dags. 8. september 2005, segi m.a:  „Skipulagsnefnd staðfestir að umrædd lóð er á samþykktu deiliskipulagi hverfisins.“ 

Sveitarfélagið setji fram þau rök að lóðin nr. 8 að Miðskógum sé of lítil til að byggt sé á henni einbýlishús.  Lóðin sé að 1/3 hluta úti í fjöru þar sem sjór flæði yfir og þar af leiðandi ekki nothæf sem byggingarlóð.  Ekki sé mögulegt að hliðra staðsetningu byggingarreits innan lóðarinnar vegna þrengsla.  Um þetta sé því til að svara að lóðin sé samkvæmt Fasteignamati ríkisins 1.490 m².  Nákvæmar mælt sé sá hluti lóðar er liggi fyrir neðan manngerðan grjótgarð um það bil 20% af heildarstærð lóðar.  Það séu því 1.192 m² af landi til að byggja á.  Athygli sé vakin á því að í nærliggjandi sveitarfélögum, Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavogi, Reykjavík og Mosfellsbæ, hafi undanfarin ár verið úthlutað lóðum fyrir einbýlishús sem séu 600-800 m² að stærð.  Rök sveitarfélagsins hvað þetta varði séu því fráleit.

Í greinagerð sveitarfélagsins segi að lóðin liggi lágt í landinu eða í kóta 3,5 m en samkvæmt Aðalskipulagi Álftaness 2005-2024 eigi kóti íbúðarhúsalóða að vera 4,75 m.  Af þessu tilefni sé á það bent að í Aðalskipulagi Álftaness 2005-2024 segi að „… við ströndina verði gólfkótar eftir aðstæðum ekki undir 4,75 m yfir meðalsjávarhæð.“  Samkvæmt teikningum EON-arkitekta að húsi á lóðinni sé gert ráð fyrir að plötukóti hússins sé a.m.k. 4,75 m eða í samræmi við skipulagsskilmála fyrir svæðið og í samræmi við aðalskipulag.  Samkvæmt skipulagsskilmálum deiliskipulagsins frá 1981 sé einnig gefin heimild til að kótasetja allt að 50% af heildarflatarmáli hússins 1,4 m ofar eða neðar aðalplötu.  Rök sveitarfélagsins vegna hæðarkóta eigi því ekki við.

Í greinargerðinni sé vísað í umsögn Siglingastofnunar um Aðalskipulag Álftaness 2005-2024, dags. 16. mars 2006, hvað varði takmörkun frávika frá skilmálum skipulagsins um lágmarksgólfhæð og fjarlægð frá sjávarkambi þegar leyfi séu veitt til nýbygginga í eldri hverfum.  Uppdrættir að einbýlishúsi að Miðskógum 8 geri ráð fyrir húsi sem sé innan byggingarreits samkvæmt gildandi skipulagi.  Uppgefinn kóti á gólfplötu sé í samræmi við aðalskipulag og gildandi deiliskipulag.  Í bréfi Siglingastofnunar, dags. 16. mars 2006, komi engar athugasemdir fram af hálfu stofnunarinnar varðandi byggingu á lóðinni aðrar en þær að takmarka þurfi eins og mögulegt sé frávik frá skilmálum skipulagsins um fjarlægð frá sjávarkambi og lágmarksgólfhæð.  Það sé álit Siglingastofnunar að lóðin sé fullkomlega hæf sem byggingarlóð.  Vísun sveitarfélagsins í umsögn stofnunarinnar eigi því ekki við.
 
Í greinargerð sveitafélagsins sé tekið fram að í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir óheftu aðgengi gangandi vegfarenda meðfram fjörum á Álftanesi.  Strönd Skógtjarnar njóti hverfisverndar og samrýmist það ekki umhverfisstefnu Álftaness að leyfa uppfyllingar út í fjöru.  Af þessu tilefni bendi kærandi á að við Skógtjörn standi mörg hús er séu í svipaðri afstöðu til tjarnarinnar og fyrirhugað hús að Miðskógum 8.  Áform um göngustíga verði að vera í samræmi við byggð á svæðinu og skipulögð með eigendum lóðanna sem um ræði.  Ráðgjafi bæjarstjórnar hafi lýst því yfir við arkitekt kæranda að hæglega væri hægt að leggja gönguleið meðfram tjörninni án þess að það hefði áhrif á legu fyrirhugaðs húss.  Þá hafi kærandi ávallt lýst sig reiðubúinn til að hliðra byggingarreit innan lóðarinnar.  Nú liggi fyrir að bæjarstjórn hafi fallið frá lagningu göngustígsins meðfram Skógtjörn en hyggist þess í stað beita sér fyrir því að lögð verði náttúruleg gönguleið meðfram tjörninni, í formi svokallaðra stikla.  Bæjaryfirvöld verði að hafa samráð við lóðareigendur um lagningu stikla jafnt sem göngustíga.

Í greinargerð sveitarfélagsins, undir fyrirsögninni Umhverfi og fráveita, sé fjallað um hverfisvernd, umhverfisstefnur, Bernarsamning og Ramsarsáttmálann um verndun votlendis almennt.  Kærandi telji að ofangreindur texti greinargerðar hafi ekkert að gera með umfjöllun um byggingarleyfi fyrir hús að Miðskógum 8.  Í áliti Siglingastofnunar komi ekkert fram um að fyrirhuguð bygging á lóðinni brjóti í bága við náttúruminjalög og telji stofnunin að lóðin uppfylli öll skilyrði til að teljast fullkomlega hæf sem byggingarlóð.  Samkvæmt Aðalskipulagi Álftaness 2005-2024 sé lóð kæranda skilgreind sem byggingarlóð og svo sé einnig í þremur aðalskipulagsáætlunum þar á undan fyrir sveitarfélagið.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 14. mars 2006, komi fram að þrátt fyrir að Skógtjörn sé á náttúruminjaskrá þá sé tjörnin ekki friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1990.  Einnig komi fram að lóð kæranda sé á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi.  Sjávargrjótgarðurinn á lóðinni sé reistur af manna völdum og geti því ekki talist til náttúruminja.  Á lóðinni hafi áður verið mannvirki á sama stað og fyrirhuguð bygging eigi að rísa.

Í greinargerðinni komi fram að fyrirliggjandi áætlanir Orkuveitu Reykjavikur um endurnýjun frárennslislagna á Álftanesi geri ráð fyrir sameiginlegri lögn frá hverfinu með tengingu við öll hús á svæðinu.  Gert sé ráð fyrir dælubrunni við enda traðar sem liggi að fjöru milli lóða nr. 6 og nr. 10 annars vegar og lóða nr. 8 og nr. 12 hins vegar við Miðskóga.  Af þessu tilefni bendi kærandi á að við Skógtjörnina standi mörg hús í svipaðri afstöðu til tjarnarinnar og fyrirhugað hús.  Áform um lausnir á fráveitumálum taki ekki mið af þessu eina húsi heldur hljóti þau mál að vera skipulögð í samræmi við alla byggðina við tjörnina.  Sveitarfélaginu beri skylda til að aðlaga slíkar fyrirætlanir áformum lóðarhafa.

Kærandi hafi nú reynt að fá afgreiðslu á umsókn sinni um byggingarleyfi í rúm þrjú ár.  Staðsetning byggingarreits hafi legið fyrir frá árinu 1981.  Löngu eftir að umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi fyrst borist sveitarfélaginu virðist forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa hafið vinnu við tillögugerð vegna áforma um að leggja stíga og frárennslislagnir á lóð hans.  Umrædd tillögugerð hafi verið í vinnslu án nokkurs samráðs við kæranda, sem hafi aldrei fengið fundarboð né bréf varðandi þessi áform sveitarfélagsins.  Kærandi hafi ávallt lýst sig reiðubúinn til umræðu um útfærslur á fráveitumálum sem snúi að títtnefndri lóð.  Það sé fráleitt að forsvarsmenn sveitarfélagsins telji sig geta skipulagt og framkvæmt fráveitur og göngustíga á eignarlóð án nokkurs samráðs eða umboðs frá eiganda hennar.  Kæranda hafi aldrei borist formlegt tilboð frá sveitarfélaginu um lausn þessara mála.

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi með vísan til framanritaðs.

Málsrök Sveitarfélagsins Álftaness:  Af hálfu sveitarfélagsins er því mótmælt að málsmeðferð hafi farið í bága við tilgreind ákvæði stjórnsýslulaga.  Hvað andmælarétt varði telji sveitarfélagið málatilbúnað kæranda ekki eiga rétt á sér.  Sveitarfélagið hafi farið með mál kæranda að öllu leyti eins og önnur sambærileg mál.  Afgreiðsla sveitarstjórnar á byggingarleyfisumsóknum fari óhjákvæmilega þannig fram að lagt sé mat á fyrirliggjandi umsókn og gögn málsins og hvort sú umsókn samrýmist reglum og skipulagi.  Sé svo ekki sé umsókninni hafnað með rökstuðningi, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt komi skýrt fram að ekki sé nauðsynlegt að veita andmælarétt þegar afstaða aðila máls liggi fyrir í gögnum málsins eða slíkt sé augljóslega óþarft.  Þannig sé einmitt ástatt í máli kæranda.  Ákvörðun sé tekin á grundvelli umsóknar.  Ef ekki sé hægt að samþykkja umsóknina verði ekki lögð á stjórnvöld sú skylda að breyta umsókninni í samráði við umsækjanda eða hefja einhvers konar samningaviðræður um það hvernig umsókn þyrfti að líta út til þess að uppfylla skilyrði. 

Hvað málshraða varði sé ljóst að kærandi hafi í fyrsta sinn sótt um byggingarleyfi fyrir um þremur árum.  Í þeim skilningi sé það rétt sem fram komi í kæru að málið eigi sér langan aðdraganda.  Hins vegar verði ekki fallist á að málshraðaregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin.  Á þessum tíma hafi málið m.a. farið fyrir Hæstarétt þar sem kröfum kæranda, sem hafi höfðað málið, hafi verið hafnað og sveitarfélagið sýknað.  Óhugsandi sé að þessi dráttur verði á einhvern hátt skrifaður á reikning sveitarfélagsins.  Eftir að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar frá 9. október 2008 um túlkun á 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi legið fyrir hafi málið verið afgreitt innan hæfilegs tíma.  Öllum sjónarmiðum um að málshraðaregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin, og að það geti komið til skoðunar nú, sé hafnað.

Sjónarmiðum kæranda um að meðalhófsreglu hafi ekki verið gætt við afgreiðslu málsins sé einnig hafnað.  Líkt og kæranda sé fullljóst hafi átt sér stað nánast samfelld bréfaskipti og önnur samskipti um málið á síðustu mánuðum.  Ítrekað hafi verið leitað að lausn sem aðilar gætu sætt sig við, m.a. í því skyni að semja við kærendur um kaup á spildunni.  Í kæru sé einmitt kvartað yfir því að slíkra leiða hafi ekki verið leitað.  Líkt og áður sé rakið sé verklag sveitarstjórna við afgreiðslu byggingarleyfisumsókna iðulega með þeim hætti að umsóknirnar séu einfaldlega teknar fyrir til samþykkis eða synjunar og rökstuðningur fylgi.  Að teknu tilliti til slíks rökstuðnings geti umsækjandi síðan breytt umsókn sinni og sótt um að nýju. 

Um þá málsástæðu kæranda að brotið hafi verið gegn hæfisreglum sé af hálfu sveitarfélagsins bent á að um hæfi sveitarstjórnarmanna gildi 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en ekki þau ákvæði stjórnsýslulaga sem kærandi tiltaki, þótt reglurnar séu vissulega svipaðar.  Því sé hafnað með öllu að allir fulltrúar tiltekins framboðslista séu vanhæfir þótt svo standi á um einn fulltrúa.  Sú regla sé skýr í stjórnsýslurétti að nefndarmenn stjórnsýslunefndar verði ekki sjálfkrafa vanhæfir af þeirri ástæðu einni að einn af nefndarmönnum sé vanhæfur til meðferðar máls.  Í kæru séu engar þær ástæður raktar sem geti leitt til vanhæfis nefndarmanna á grundvelli 19. gr. sveitarstjórnarlaga, né heldur á grundvelli 3. – 6. gr. stjórnsýslulaga.

Jafnvel þó að svipuð rök hafi komið fram við afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar annars vegar og í bréfum hins vanhæfa bæjarfulltrúa hins vegar sé ekkert sem bendi til þess að vafi leiki á um hæfi annarra bæjarfulltrúa og nefndarmanna til afgreiðslu málsins. Fyrrnefnd bréf hafi ekki verið rituð af hálfu sveitarfélagsins og hafi hinn vanhæfi bæjarfulltrúi ekki komið að afgreiðslu málsins á neinu stigi þess.

Kærendur geri athugasemd við tilkynningu til kærenda um ákvörðun sveitarfélagsins.  Ekki verði séð og ekki sé útskýrt í kæru hvernig ætlaður annmarki eigi að hafa haft áhrif á þá ákvörðun sem tekin hafi verið.  Því sé mótmælt að um annmarka hafi verið að ræða að þessu leyti.

Ekki fáist staðist sú fullyrðing kæranda að greinargerð sú sem vísað hafi verið til sem rökstuðning fyrir ákvörðuninni hafi ekki verið send honum né kynnt með neinum hætti þar sem greinargerðin hafi verið fylgiskjal með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda.  Ennfremur liggi fyrir staðfesting kæranda á móttöku ákveðinna gagna, þ.á m. margnefndrar greinargerðar sem hafi verið rökstuðningur fyrir afgreiðslu málsins.

Hvað varði leiðbeiningar um kærufrest þá sé ljóst að hver sem niðurstaðan sé um upphafstímamark hans þá hafi hagsmunir kæranda í engu verið skertir.  Kærandi hafi komið kæru sinni á framfæri innan frests og ekki verði séð að þessi ætlaði annmarki á leiðbeiningum sveitarfélagsins komi til frekari skoðunar.

Sveitarfélagið hafni málatilbúnaði er lúti að því að jafnræðisregla hafi verið brotin gagnvart kæranda. Skylda hvíli á stjórnvöldum til þess að rannsaka og meta hvert mál fyrir sig á grundvelli atvika þess og gildandi lagareglna.  Fyrst og fremst hafi sveitarfélaginu því borið skylda til að afgreiða málið í samræmi við aðal- og deiliskipulag. 

Sveitarfélagið telji að kærandi geti ekki leitt rétt sinn á uppdrætti frá 1981 þar sem hann hafi aldrei hlotið gildi deiliskipulags.  Að fenginni þeirri niðurstöðu hafi verið ljóst að skort hafi stoð í skipulagi fyrir útgáfu byggingarleyfis á grundvelli umsóknar kæranda.  Þar af leiðandi hefði verið beinlínis óheimilt að afgreiða málið með öðrum hætti en gert hafi verið.  Einstaklingur geti ekki byggt rétt á grundvelli jafnræðissjónarmiða þegar fyrri afgreiðsla sem viðkomandi vilji leggja til grundvallar í síðari máli hafi verið háð annmörkum.  Jafnvel þó kærandi gæti sýnt fram á að tiltekið mál hefði verið afgreitt á grundvelli uppdráttarins frá 1981 þá sé eftir sem áður ljóst að sá uppdráttur hafi ekki gildi sem deiliskipulag og því hafi verið óheimilt að leggja hann til grundvallar.

Sveitarfélagið telji að engir þeir annmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun sem gætu með nokkru móti haft áhrif á gildi hennar.  Í kæru séu atvik málsins að ýmsu leyti rakin með ónákvæmum hætti og hafi það að sjálfsögðu áhrif á málatilbúnað kæranda.  Ekki verði séð að nein af þeim málsmeðferðarreglum sem kærandi vísi til hafi verið brotin í málinu.

Vegna þeirra athugasemda sem kærandi hafi gert við rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun árétti sveitarfélagið að gerður hafi verið skipulagsuppdráttur að ósk landeigenda, dags. í ágúst 1973.  Samþykkt hans marki upphaf afgreiðslu erinda og byggingarframkvæmda á túni milli Skógtjarnar og Vestri-Skógtjarnar (Árnakots), ef undan sé skilið húsið Hlein.  Skipulagsuppdráttur þessi finnist ekki í skjalasafni sveitarfélagsins.  Hins vegar hafi uppdráttur, sem sýni afstöðu Hvamms (nú Miðskóga 20) og deiliskipulag á fyrrnefndri spildu, verið lagður fram með umsókn um byggingarleyfi fyrir þessu fyrsta húsi sem byggt hafi verið samkvæmt skipulaginu.  Þessi afstöðumynd endurspegli án alls vafa skipulagsuppdráttinn, enda höfundur sá sami.  Uppdrátt þennan megi því nota til að glöggva sig á skipulagi svæðisins eins og það hafi verið staðfest af hreppsnefnd á fundi hennar 27. ágúst 1973 en þar hafi verið gerð svofelld bókun:  „Þá samþykkti nefndin að tillögu byggingafulltrúa eftirfarandi  1. Tillaga að deiliskipulagi á svæðinu vestan Skógtjarnar, sunnan Sólbarðs og austan V-Skógtjarnar dagsett í ágúst 1973 gerð af Guðm. Kr. Kristinssyni.  Meðfylgjandi bréf Eggerts Klemenzsonar og yfirlýsing Auðbjargar Jónsdóttur og Sigurfinns Klemenzsonar um að þau hafi fallist á vegalagningu í landi þeirra, að fyrirhuguðu húsi Klemenzar Eggertssonar.  Lagt er til að staðsetning og aðkoma að húsi Klemenzar Eggertssonar sé samþykkt.“

Í kjölfar deiliskipulagsins frá 1973 hafi átt sér stað uppbygging á umræddu svæði en fyrir hafi þar verið húsin að Skógtjörn, Sólbarði og Hlein, auk verkstæðis milli Sólbarðs og Hleinar sem nú hafi verið rifið.  Hafi byggingarleyfi fyrir húsum að Miðskógum nr. 7, 9, 10, 14, 16, 18 og 20 verið veitt samkvæmt umræddu skipulagi en auk þess megi ráða af bókunum byggingar- og skipulagsnefndar frá þessum tíma að eftir því hafi verið farið við uppbyggingu á svæðinu. 

Hvað varði þá breytingartillögu frá árinu 1980, sem verið hafi til umfjöllunar á árinu 1981 og kennd sé við það ár, þá sé því mótmælt að hún hafi hlotið gildi sem deiliskipulag.  Uppdráttur hafi ekki verið talinn fullunninn og skipulagsákvæði (skilmálar), sem samþykkt hafi verið í byggingar- og skipulagsnefnd 26. október 1981, hafi aldrei verið samþykktir af sveitarstjórn.  Vísist til fjölmargra bókana byggingar- og skipulagsnefndar og hreppsnefndar þessu til stuðnings.

Samkvæmt 11. ákvæði til bráðabirgða við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 geti skipulag sem ekki uppfylli formskilyrði um auglýsingu o.fl. talist gilt hafi sveitarstjórn samþykkt skipulagið.  Hvað gildi uppdráttarins frá 1981 varði skipti því meginmáli að athuga hver afstaða hreppsnefndar Bessastaðahrepps hafi verið, þ.e. hvort hreppsnefndin hafi staðfest afgreiðslu byggingar- og skipulagsnefndar frá 26. október 1981.  Ítrekuð leit að framhaldi og lyktum vinnu við deiliskipulag milli Skógtjarnar og Vestri-Skógtjarnar eftir fyrrgreinda afgreiðslu á 28. fundi byggingar- og skipulagsnefndar 26. október 1981, annars vegar í fundagerðabókum nefndarinnar og hins vegar í fundagerðabókum hreppsnefndar, hafi engan árangur borið.  Það verði því að telja að vinna við breytingar á áður samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið, þ.e. skipulaginu frá 1973, hafi runnið út í sandinn. 

Þrátt fyrri þessa niðurstöðu hafi einstakar byggingarleyfisumsóknir verið afgreiddar af sveitarfélaginu með hliðsjón af uppdrættinum frá 1981.  Í afgreiðslum sveitarfélagsins sé  þó aldrei vísað beint til uppdráttarins og þaðan af síður sé vísað til þess að uppdrátturinn hafi gildi sem deiliskipulag.  Um sé að ræða Miðskóga 2, 4, 6 og 24.  Þessar einstöku afgreiðslur gefi ekki til kynna að deiliskipulagið í heild hafi verið samþykkt af sveitarfélaginu.

Af öllu ofangreindu sé ljóst að skipulagssaga svæðisins sé ekki í samræmi við það sem kærandi hafi talið.  Ferlið hafi reyndar verið nokkuð annað en gengið hafi verið út frá við meðferð dómstóla, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 444/2007, en ekki hafi áður farið fram svo ítarleg rannsókn á skjalasafni sveitarfélagsins.

Af hálfu sveitarfélagsins sé áréttað að deiliskipulag frá 1973 sé í gildi fyrir Miðskóga 8, en ekki uppdrátturinn frá 1981.  Hvorki dómur Hæstaréttar í máli nr. 444/2007 né úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 9. október 2008 feli í sér neina niðurstöðu um gildi skipulags á svæðinu, en af forsendum dóms Hæstaréttar leiði að sönnunarbyrði um að uppdrátturinn frá 1981 teljist ekki hafa gildi deiliskipulags fyrir viðkomandi spildu hvíli á sveitarfélaginu.  Þá sönnun telji sveitarfélagið sig hafa fært fram í máli þessu.

Áréttað sé að afstaða Skipulagsstofnunar bindi hvorki málsaðila né úrskurðarnefndina.  Sveitarfélagið telji afstöðu stofnunarinnar ekki standast.  Eina gildi þeirra erinda sem stafi frá Skipulagsstofnun í þessu máli sé að í þeim endurspeglist ákveðin sjónarmið sem stofnunin telji leiða til þeirrar niðurstöðu að uppdrátturinn frá 1981 hafi gildi sem deiliskipulag.  Þessi sjónarmið og þau sem birtist í kæru verði úrskurðarnefndin nú að vega og meta andspænis sjónarmiðum sveitarfélagsins og komast að sjálfstæðri niðurstöðu.

Kærandi vísi til svars skipulagsnefndar Álftaness frá 8. september 2005 við fyrirspurn þáverandi eiganda spildunnar.  Umrætt svar sé ekki bindandi fyrir afgreiðslu sveitarfélagsins á umsókn kæranda.  Aðili geti ekki byggt réttindi eða lögmætar væntingar á svari við fyrirspurn.  Sérstaklega sé bent á að fyrirspurnin hafi ekki stafað frá kæranda heldur þriðja aðila.

Sveitarfélagið telji að með vísan til fyrirliggjandi gagna, og þess sem fram komi í greinargerð frá 26. október 2008, hafi tekist að sýna fram á að uppdrátturinn frá 1981 geti ekki haft gildi á grundvelli 11. ákvæðis til bráðabirgða við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 þar sem fullsannað sé að sveitarfélagið hafi aldrei samþykkt hann.  Að fenginni þeirri niðurstöðu sé ljóst að sveitarfélaginu hafi borið að hafna umsókn um byggingarleyfi þar sem ekki sé gert ráð fyrir Miðskógum 8 í þágildandi deiliskipulagi frá 1973.

Verði ekki fallist á ofangreint sé hins vegar byggt á því að þrátt fyrir að uppdrátturinn frá 1981 hafi eitthvert gildi sem skipulag þá hafi sveitarfélaginu allt að einu verið rétt að hafna umsókninni.  Túlka verði deiliskipulag í samræmi við aðalskipulag og aðrar aðstæður.  Svæðið sé aðþrengt og óheppilegt byggingarland fyrir einbýlishús.  Ekki sé mögulegt að hliðra staðsetningu byggingarreits innan spildunnar vegna þrengsla.  Að auki sé kótasetning í umsóknargögnum ekki í samræmi við ákvæði í aðalskipulagi um plötuhæðir.  Þar segi að lágmarksgólfhæð skuli vera 5,20 m.y.s.  Umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi miðast við gólfhæðina 5,00 m.y.s. og hafi hún ekki verið í samræmi við gildandi skipulag.

Sveitarfélagið telji kæranda rangtúlka umsögn Siglingastofnunar.  Umsögnin styðji þá afstöðu sveitarfélagsins að gera verði strangar kröfur til þess að skýr heimild til lægri gólfhæðar komi fram í eldri deiliskipulagsákvörðunum um þegar byggð hverfi.  Slíkri heimild sé ekki til að dreifa í máli þessu.  Þá sé hafnað málatilbúnaði kæranda um aðgengi gangandi vegfarenda meðfram fjörum og um uppfyllingar og fráveitu.

Kærandi haldi fram að spildan, sem afmörkuð sé sem Miðskógar 8 sé í Aðalskipulagi Álftaness 2005-2024 skipulögð sem byggingarlóð.  Fullyrðing þessi sé ónákvæm.  Hugtakið byggingarlóð sé ekki notað í aðalskipulaginu.  Spildan falli hins vegar innan íbúðarsvæðis.  Fleira falli undir þá skilgreiningu en lóðir til húsbygginga, sbr. ákvæði 4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, og styðji aðalskipulag því ekki málatilbúnað kærenda að þessu leyti.

Andmæli lóðarhafa að Miðskógum 6:  Eigandi eignarinnar að Miðskógum 6 óskaði þess að fá að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu.  Byggir hann á sömu eða svipuðum sjónarmiðum og fram koma í greinagerð sveitarfélagsins sem rakin eru hér að framan.  Telur hann að í gildi sé deiliskipulag frá árinu 1973 fyrir umrætt svæði en samkvæmt því sé spilda nr. 8 við Miðskóga aðeins óbyggt svæði.  Drög að deiliskipulagi svæðisins frá 1981 hafi hins vegar aldrei öðlast gildi sem deiliskipulag.

————————–

Aðilar hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki þykir ástæða til að rekja nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar bæjarstjórnar Álftaness frá 6. nóvember 2008 á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Miðskógum 8 á Álftanesi.  Krefst kærandi ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og byggir hann kröfu sína annars vegar á því að við meðferð málsins hafi ekki verð gætt ýmissa ákvæða stjórnsýslulaga og hins vegar að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun hafi verið stórlega áfátt.

I.  Um málsmeðferð og stjórnsýslulög.

Ekki verður fallist á að andmælaréttur hafi verið brotinn á kæranda við afgreiðslu umsóknar hans er móttekin var 2. maí 2008.  Kærandi lagði fram umsókn, ásamt lögboðnum fylgiskjölum, sem skipulags- og byggingarnefnd tók rökstudda afstöðu til, og verður að telja að sú málsmeðferð hafi samrýmst ákvæðum 2. mgr. 38. gr. og 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Úrskurðarnefndin hefur áður fallist á, með úrskurði hinn 9. október 2008, að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu umsóknar kæranda.  Hins vegar tóku bæjaryfirvöld umsóknina til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar eftir að téð niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lá fyrir og verður ekki fallist á að brot gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti nú haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar.

Um hæfi sveitarstjórnarmanna fer samkvæmt 19. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Liggur ekki annað fyrir en þeirrar hæfisreglu hafi verið gætt við meðferð málsins og verður ekki fallist á að meint vanhæfi fulltrúa í skipulags- og byggingarnefnd geti leitt til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Ekki þykir hafa þýðingu að fjalla um birtingu hinnar kærðu ákvörðunar eða leiðbeiningar um kærufrest, enda kom kærandi kæru sinni að í tækan tíma.  Skal þó áréttað að upphaf kærufrests í máli þessu ber að miða við þau tímamörk þegar kæranda var orðið kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun, sem ætla verður að hafi verið við móttöku bréfs byggingarfulltrúa frá 17. nóvember 2008, eða í fyrsta lagi 18. nóvember 2008.

Um málsástæður kæranda er lúta að meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga verður fjallað í tengslum við umfjöllun um forsendur og rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun.

II.  Um forsendur og rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu byggingarleyfisskyldar framkvæmdir vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Í máli þessu er um það deilt hvort í gildi sé deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Sé deiliskipulag talið vera í gildi eru áhöld um það hvort í gildi sé deiliskipulag frá 1973 eða 1981.  Þarf að leysa úr þessum álitaefnum til þess að unnt sé að komast að niðurstöðu um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

Af hálfu Sveitarfélagsins Álftaness er því haldið fram að á umræddu svæði hafi gilt deiliskipulag, dags. í ágúst 1973, sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn 27. sama mánaðar.  Ábendingar um þetta meinta deiliskipulag frá 1973 virðast fyrst hafa komið fram eftir að dómur féll í Hæstarétti í máli nr. 444/2007 hinn 17. apríl 2008.  Er hvorki vitnað til þessa deiliskipulags við fyrri afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar fyrir Miðskóga 8 á árinu 2006 né í bréfum sveitarfélagsins og Skipulagsstofnunar um skipulagsmál á umræddu svæði í október 2005 og í mars 2006.  Þá verður heldur ekki séð að vikið hafi verið að þessu skipulagi í dómsmáli því sem kærandi höfðaði í febrúar 2007 til ógildingar á fyrri synjun umsóknar um byggingarleyfi að Miðskógum 8.  Ekki liggur fyrir skipulagsuppdráttur meints deiliskipulags frá ágúst 1973 heldur einungis uppdráttur er ber yfirskriftina „Tillaga að staðsetningu einbýlishúss á landi Skógtjarnar“, áritaður af Guðmundi Kr. Kristinssyni í ágúst 1973.  Enda þótt á uppdrættinum megi sjá innbyrðis afstöðu nokkra byggingarlóða og byggingarreita á þeim eru hvorki á uppdrættinum né á fylgiskjali með honum neinir skilmálar, sem þó hefði verið nauðsynlegt til þess að um fullnægjandi deiliskipulag hefði getað verið að ræða, sbr. m.a. 10. gr. þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 217/1966.  Þegar litið er til þess að ekki finnst staðfestur skipulagsuppdráttur þykir óvarlegt að ráða af bókun hreppsnefndar frá 27. ágúst 1973 að þá hafi verið samþykkt tillaga að deiliskipulagi heldur einungis tillaga að staðsetningu eins húss og aðkomu að því.  Verður því ekki fallist á að í gildi hafi verið deiliskipulag, dags. í ágúst 1973, enda þótt einhver uppbygging muni hafa átt sér stað á svæðinu í samræmi við skipulagsdrög frá þessum tíma.

Fyrir liggur uppdráttur að umræddu svæði sem sveitarstjóri Bessastaðahrepps hefur ritað á hinn 5. júní 1989 eftirfarandi:  „Samþykkt skipulag af lóðum í landi Skógtjarnar 1981-82.“  Er uppdrátturinn að stofni til dagsettur í maí 1981 og sýnir lóðir, byggingarreiti og afstöðu þeirra innan lóða, auk götu og aðkomu að lóðum.  Á uppdrættinum er m.a. sýnd lóð kæranda að Miðskógum 8.  Þá liggja og fyrir skipulagsákvæði sem samþykkt voru í byggingar- og skipulagsnefnd Bessastaðahrepps hinn 26. október 1981 en á sama fundi lá umræddur uppdráttur fyrir og var á fundinum gerð svofelld bókun:  „Þá samþykkti nefndin að gata sú er liggur eftir landi Skógtjarnar, sbr. skipulagsteikningu frá Fjarhitun hf. dags. í maí 1981 skuli bera heitið Miðskógar.“   Telur úrskurðarnefndin að þessi gögn fullnægi að formi til þeim kröfum sem gera þurfti til deiliskipulags á þeim tíma sem hér um ræðir.

Eins og framanritað ber með sér fjallaði byggingar- og skipulagsnefnd Bessastaðahrepps um skipulagstillögur fyrir umrætt svæði á árinu 1981.  Á þessum tíma voru í gildi skipulagslög nr. 19/1964 með áorðnum breytingum.  Var í þeim lögum ekki gert ráð fyrir að skipulagsnefndir störfuðu á vegum sveitarfélaganna enda var meðferð skipulagsmála að miklu leyti á hendi Skipulagsstjórnar ríkisins.  Með 4. mgr. 9. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 var sveitarstjórnum hins vegar veitt heimild til þess að fela byggingarnefndum önnur störf á sviði byggingarmála en þau sem undir nefndirnar heyrðu samkvæmt byggingarlögum, „… s.s. að fjalla um og gera tillögur til sveitarstjórnar varðandi skipulagsmál, nöfn gatna, torga og bæjarhluta.“  Verður ekki annað ráðið af málsgögnum en að hreppsnefnd Bessastaðahrepps hafi falið byggingarnefnd meðferð skipulagsmála með stoð í nefndri lagaheimild, enda hét nefndin byggingar- og skipulagsnefnd á þessum tíma og fjallaði um skipulagsmál svo sem að framan greinir. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978 var áskilið að samþykktir byggingarnefndar skyldu bornar undir sveitarstjórn til samþykktar eða synjunar.  Í 6. mgr. 8. gr. sagði hins vegar að ef sveitarstjórn hefði ekki tekið ályktun byggingarnefndar til afgreiðslu innan tveggja mánaða frá því hún hefði verið gerð öðlaðist ályktunin gildi, enda hefði ákvæðum IV. kafla laganna um byggingarleyfisumsóknir og byggingarleyfi verið fullnægt.

Með framanritað í huga og með hliðsjón af því að eftir umræddu deiliskipulagi frá 1981 hefur verið unnið um áraraðir verður að telja að það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn eða öðlast gildi með stoð í 6. mgr. 8. gr. byggingarlaga nr. 54/1978, sem jafna megi til samþykkis sveitarstjórnar.  Skýtur það frekari stoðum undir þessa niðurstöðu að lóðin að Miðskógum 8 var tilkynnt til Fasteignamats ríkisins sem byggingarlóð með tilkynningu sveitarstjóra Bessastaðahrepps 24. febrúar 1984, að sveitarstjóri áritaði hinn 5. júní 1989 uppdrátt að svæðinu sem samþykkt skipulag af lóðum í landi Skógtjarnar 1981-82 svo og að skipulagsnefnd Álftaness staðfesti hinn 8. september 2005 að lóðin að Miðskógum 8 væri á samþykktu deiliskipulagi hverfisins.  Rannsókn á ótölusettum fundargerðum hreppsnefndar frá árinu 1981 þykir heldur ekki taka af öll tvímæli um að deiliskipulagið kunni ekki að hafa verið staðfest í sveitarstjórn, en þar eru m.a. misritaðar og leiðréttar dagsetningar tveggja fundargerða byggingar- og skipulagsnefndar á því ári.  Þykir Sveitarfélagið Álftanes því ekki hafa fært fram sönnur fyrir því að sveitarstjórn hafi ekki samþykkt þá skipan mála sem fólst í deiliskipulaginu frá 1981, sbr. dóm Hæstaréttar frá 17. apríl 2008 í máli nr. 444/2007.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að í gildi hafi verið deiliskipulag fyrir umrætt svæði frá 1981 er hin kærða ákvörðun var tekin og er hafnað þeirri málsástæðu Sveitarfélagsins Álftaness að deiliskipulagstillagan frá 1981 hafi aldrei verið samþykkt í sveitarstjórn og hafi því ekki getað öðlast gildi sem deiliskipulag með stoð í 11. lið ákvæða til bráðabirgða við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997.

Af hálfu sveitarfélagsins Álftaness er því haldið fram að hvað sem líði niðurstöðu um gildi deiliskipulags fyrir umrætt svæði hefði byggingarleyfi samkvæmt umsókn kæranda farið í bága við Aðalskipulag Álftaness 2005-2024.  Samkvæmt aðalskipulaginu skuli lágmarksgólfhæð vera 5,20 m.y.s., en hönnunargögn hafi miðað við 5,00 m.y.s.  Á þetta verður ekki fallist enda skýrt tekið fram í greinargerð tilvitnaðs aðalskipulags að umrætt ákvæði um lágmarksgólfhæðir eigi við á nýjum íbúðarsvæðum sem deiliskipulögð verði í samræmi við Aðalskipulag Álftaness 2005-2024.  Tekur ákvæðið því ekki til svæða þar sem deilskipulag er þegar í gildi eins og í hinu kærða tilviki.  Ekki verður heldur fallist á að sjónarmið sveitarfélagsins er lúta að verndun strandsvæða, gerð göngustíga eða fráveitu eigi að standa í vegi fyrir því að byggt verði á lóð kæranda.  Er fulljóst að engin friðlýsing er í gildi um lóðina og af meðalhófsreglu leiðir að sveitarfélaginu bar að leita leiða til að ná fram markmiðum um göngustíga og fráveitu með öðru og vægara móti en að meina kæranda að hagnýta sér lóð sína til byggingar.  Væri það og andstætt jafnræðisreglu að synja einum lóðarhafa á deiliskipulögðu svæði um byggingarleyfi þar sem aðrir lóðarhafar hafa fengið byggingarleyfi í samræmi við gildandi skipulag án vandkvæða að því er best verður séð.

Miðað við allt framanritað var hin kærða synjun á umsókn kæranda um byggingarleyfi að Miðskógum 8 ólögmæt og ekki reist á málefnalegum grundvelli.  Verður hún því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness frá 6. nóvember 2008 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Miðskógum 8 á Álftanesi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                          ______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                  Ásgeir Magnússon