Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

86/2012 Hjálmholt

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 12. desember kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 86/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. ágúst 2012 um að veita byggingarleyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar og útbúa verönd út í garð á lóðinni nr. 6 við Hjálmholt í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2012, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Gunnar Viðar hdl., f.h. E, Hjálmholti 6, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. ágúst 2012 að veita byggingarleyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar út í garð og útbúa verönd á lóð nr. 6 við Hjálmholt í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Hjálmholt 6 er fjöleignarhús með fjórum íbúðum.  Útidyr eru á framhlið hússins en garður er á bak við.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. maí 2012 var í kjölfar jákvæðrar afgreiðslu á fyrirspurn tekin fyrir umsókn um leyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar og útbúa verönd á lóðinni.  Fylgdi erindinu samþykki allra meðeigenda hússins.  Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina með vísan til þess að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 18. maí s.á. 

Nokkru síðar, eða um 20. júlí s.á., munu synir kæranda hafa komið á fund starfsmanns hjá skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar og komið að andmælum við fyrrgreinda afgreiðslu.  Mun starfsmaðurinn hafi farið fram á að lagt yrði fram skriflegt erindi af því tilefni en áhöld munu um hvort erindið skyldi berast innan nánar tilskilins tíma.  Með bréfi til skipulags- og byggingarsviðs, dags. 7. ágúst 2012, fór kærandi fram á að leyfishafa yrði synjað um veitingu byggingarleyfis fyrir nefndum framkvæmdum.  Byggingarleyfi var útgefið 7. ágúst 2012 og var kæranda tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 8. s.m., en í því bréfi kom einnig fram að erindi kæranda hefði verið móttekið sama dag hjá Reykjavíkurborg. 

Með tölvubréfi hinn 21. ágúst 2012 fór kærandi fram á að ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis yrði afturkölluð skv. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða endurupptekin á grundvelli 1. tl. 1. mgr. 24. gr. laganna.  Hafnaði starfsmaður skipulags- og byggingarsviðs þeirri beiðni með bréfi, dags. 24. ágúst s.á., í ljósi þess hversu seint formlegar athugasemdir hefðu borist og með það í huga að framkvæmdir væru langt komnar. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að á aðalfundi húsfélagsins hinn 29. apríl 2012, hafi hann í bréfi til byggingarfulltrúa veitt skriflegt samþykkti sitt fyrir gerð dyra með glerhurð úr kjallara hússins út í garð.  Í bréfinu hafi verið vísað til meðfylgjandi teikningar sem hafi verið sýnd eigendum hússins í lok fundarins og hafi þá jafnframt verið aflað undirritunar annarra á teikninguna.  Við nánari skoðun á teikningunni hafi komið í ljós að sótt hafi verið um byggingarleyfi fyrir mun stærri og viðameiri framkvæmdum en lýst hafi verið í nefndu bréfi til byggingarfulltrúa. 

Um meiriháttar framkvæmdir sé að ræða sem hafa muni í för með sér verulegar útlitsbreytingar á húsinu.  Muni þær leiða til verðrýrnunar á íbúð kæranda þar sem þær feli í sér gerð sérinngangs að kjallaraíbúð með auknum umgangi og ónæði fyrir kæranda.  Þá séu framkvæmdirnar þess eðlis að gengið verði allverulega á rétt kæranda til afnota sameiginlegrar lóðar þar sem töluverður hluti lóðarinnar fari undir verönd, steyptan vegg og tröppur. 

Ekki hafi verið boðað til aðalfundar húsfélagsins í samræmi við 59. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, en haft hafi verið samband símleiðis við eigendur hússins, sem og son kæranda, sama dag og fundurinn hafi verið haldinn og greint frá því að á dagskrá hans væru hefðbundin aðalfundarstörf.  Hafi sonur kæranda ekki haft tök á að mæta á fundinn og ekki talið ástæðu til að óska eftir því að fundinum yrði frestað, m.t.t. þess hvaða mál væru á dagskrá. 

Vegna langvarandi veikinda kæranda hafi synir hans verið honum innan handar um sameiginleg málefni hússins, þ.m.t. að mæta með eða fyrir kæranda á húsfundi, og hafi öllum íbúum hússins verið kunnugt um þetta.  Varði það kæranda miklu að boðað sé til húsfunda eins og lög geri ráð fyrir.  Þar sem staðið hafi verið að boðun fundarins með ólögmætum hætti hafi kærandi ekki notið þeirrar aðstoðar sem þurfti svo að hagsmuna hans yrði fyllilega gætt. 

Svo miklir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá skipulags- og byggingarsviði að varði ógildingu leyfisins, en starfsmanni þeim er rætt hafi verið við hafi verið fullkunnugt um fram komnar athugasemdir og að von væri á skriflegum athugasemdum.  Hafi starfsmaðurinn ekki tilgreint hvenær frestur til að skila inn athugasemdum yrði liðinn og í tölvupóstum milli starfsmanna sviðsins, er kærandi hafi undir höndum, sé ekki tiltekið hver sá frestur skuli vera. 

Andmælaréttur kæranda skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið virtur.  Með ólíkindum sé að sá maður sem veitt hafi kæranda frest til að setja fram skrifleg andmæli hafi síðan staðið að ákvörðun í málinu án þess að taka nokkurt tillit til sjónarmiða kæranda og þrátt fyrir að vita að sú umsókn sem fyrir lá stæðist ekki lögum samkvæmt.  Þá sé afar gagnrýnivert að tekin hafi verið ákvörðun í málinu áður en kæranda hafi fyrst verið gert viðvart um að hinn óskilgreindi tímafrestur væri að renna út.  Hafi málið því ekki verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.  Áskilji kærandi sé rétt til að hafa uppi bótakröfur á hendur Reykjavíkurborg vegna þessa.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Umræddar framkvæmdir eða umfang þeirra hafi ekki getað komið kæranda á óvart en teikning að fyrirhuguðum framkvæmdum hafi legið fyrir þegar sameigendur leyfishafa hafi veitt samþykki sitt.  Jafnframt sé bent á að kærandi sé lögráða. 

Ákvæði fjöleignarhúsalaga séu frávíkjanleg, leiði það af eðli máls.  Mæti allir húseigendur á aðalfund, sem boðað hafi verið til með skemmri fyrirvara en lög greini, leiði það af eðli þess máls að fundurinn teljist lögmætur mótmæli enginn fundarmanna fundarboðinu.  Rétt sé einnig að hafa í huga 4. mgr. 62. gr. laganna þar sem segi að séu allir félagsmenn mættir geti fundurinn samþykkt afbrigði og tekið mál til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu þótt þeirra hafi ekki verið getið í fundarboði.  Umræddur fundur og þær ákvarðanir sem teknar hafi verið á honum hafi því verið fyllilega lögmætar. 

Ljóst sé að áður en byggingarleyfi hafi verið gefið út hafi byggingarfulltrúi fengið samþykki kæranda fyrir framkvæmdinni, sem hann hafi verið fyllilega fær að lögum um að veita.  Málið hafi verið mjög langt komið hjá byggingarfulltrúa þegar munnlegar athugasemdir hafi borist frá sonum kæranda og hafi þeim verið veittur ríflegur frestur til að koma að athugasemdum með formlegum hætti.  Það hafi þeir ekki gert fyrr en tæpum þremur vikum síðar og á þessum vikum hafi hvorki komið fram skýring á þessum mikla drætti né ósk um frest til að skila inn athugasemdum.  Það hafi því virst augljóst að synir kæranda hefðu hætt við andmæli sín og hafi þessi langa þögn þeirra verið metin sem slík.  Aldrei hafi því reynt á andmælareglu stjórnsýslulaga í málinu.  Þrátt fyrir það hafi málið verið rannsakað og haft hafi verið samband við arkitekt leyfishafa og eftir þau símtöl hafi niðurstaðan orðið sú að ekki væri ástæða til aðgerða.  Með hliðsjón af því, og að engar formlegar athugasemdir hefðu borist hafi ekki lengur þótt forsvaranlegt að draga útgáfu byggingarleyfisins. 
 
Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Kærandi sé lögráða.  Ráði hann því einn sínum ákvörðunum og beri sem slíkur fulla ábyrgð á þeim.  Hafi engin skjöl verið lögð fram í málinu um að hann sé ekki andlega fær um að taka sínar ákvarðanir og bendi ekkert til þess.  Kærandi hafi ekki verið beittur neinum blekkingum.  Útskýrt hafi verið fyrir honum í hverju breytingarnar fælust og hafi hann samþykkt þær af fúsum og frjálsum vilja. 

Sú fullyrðing að synir kæranda hafi að öllu jöfnu mætt á húsfundi sé ekki alls kostar rétt.  Ávallt hafi verið mætt af hálfu leyfishafa á húsfundi en synir kæranda hafi aldrei mætt heldur kærandi sjálfur.  Um sé að ræða lítið og óformlegt húsfélag og hafi hvorki verið boðað til húsfunda með formlegum hætti né formleg stjórn verið í húsfélaginu.  Í lögum sé hvergi að finna ákvæði um skyldu húsfélags til að senda út fundardagskrá til aðila sem ekki eigi eignarhlut í viðkomandi húsi og breyti því engu um lögmæti fundarins hvort synir kæranda hefðu verið á fundinum eður ei.  Vísað sé til 3. mgr. 40. gr. laga um fjöleignarhús, en þar segi að hafi eigandi sótt fund óboðaður eða þrátt fyrir ófullnægjandi boðun geti hann ekki borið fyrir sig ágalla á fundarboðum og séu þá ákvarðanir fundarins bindandi fyrir hann.  Hafi allir eigendur hússins samþykkt umræddar framkvæmdir. 

Ekki liggi fyrir nein gögn um að framkvæmdirnar muni leiða til verðrýrnunar á íbúð kæranda og sé það því ósannað.  Megi telja að þær muni auka verðgildi íbúðar kæranda frekar en hitt og auka öryggi, t.d. vegna eldsvoða, þar sem útgönguleiðum úr íbúðinni fjölgi. 

Harðlega sé mótmælt að slíkir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá skipulags- og byggingarsviði að varði ógildingu byggingarleyfisins.  Kæranda hafi verið gefinn kostur á að koma að sínum athugasemdum og andmælum áður en ákvörðun hafi verið tekin.  Jafnframt hafi synir kæranda fengið nokkurra daga andmælafrest þrátt fyrir að þeir séu ekki aðilar að málinu. 

Athugasemdir kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar:  Kærandi bendir á þar sem um sé að ræða framkvæmd er feli í sér mikla breytingu á húsinu og hafi í för með sér verðrýrnun annarra íbúða þess verði að telja hæpið að það standist með vísan til meginreglna fjöleignarhúsalaga að fella þetta tilvik undir 4. mgr. 62. gr. laganna.  Undantekningar frá meginreglum skuli skýra þröngt.  Hvað varði frest sem synir kæranda hafi haft til að skila inn athugasemdum þá hafi dagsetning sú er Reykjavíkurborg tiltaki í málsrökum sínum ekki verið tilkynnt þeim sem lokafrestur og liggi það ekki fyrir í gögnum málsins.  Hafi synir kæranda bent starfsmanni skipulags- og byggingarsviðs á að þeir myndu jafnvel leita til lögmanns, en einungis 10 virkir dagar hafi verið á tímabilinu frá 20. júlí til 7. ágúst 2012. 

Grundvallaratriði sé að komið hafi fram athugasemdir sem hafi átt að gefa starfsmanni sviðsins tilefni til að rannsaka málið betur eða í það minnsta að gefa ekki út byggingarleyfi fyrr en athugasemdir hefðu borist.  Hafi í ljósi forsögu málsins verið eðlilegt að haft hefði verið samband við syni kæranda og þeim gerð ljós staða málsins. 

Athugasemdir kæranda við greinargerð byggingarleyfishafa:  Kærandi bendir á að lögræðissvipting sé viðurhlutamikil íhlutun í líf einstaklings og ekki sjálfgefið að gripið sé til þess þótt farið sé að halla undir fæti.  Megi byggingarleyfishöfum vera ljóst að kærandi þarfnist aðstoðar við athafnir daglegs lífs og þar af leiðandi einnig aðstoðar við að átta sig á áhrifum þess að samþykkja eins viðamiklar breytingar á fasteigninni og hér um ræði.  Verði enda ekki séð hvaða brýnu hagsmunir hafi krafist þess að fundur yrði haldinn og samþykki meðeigenda fengið með slíkum hraða og raun beri vitni.  Hafi leyfishöfum verið í lófa lagið að boða til fundarins eftir ákvæðum fjöleignarhúsalaga.  Ákvæði 59. gr. og 60. gr. tilvitnaðra laga kveði á um að til húsfundar skuli boða með skriflegum hætti.  Með vísan til framangreindra ákvæða og allra atvika málsins, svo sem umfangs framkvæmdarinnar og heilsufars kæranda, sé sérkennilegt að bera fyrir sig 3. mgr. 40. gr. laganna.  Hafi leyfishafar ekki útskýrt hvers vegna eðlilegt hafi verið talið að víkja frá meginreglum laganna um  fundarboðun þegar taka átti fyrir tillögu um verulegar breytingar á sameign.  Þá sé ekki hægt að sjá hvernig nefndar framkvæmdir muni auka verðgildi íbúðar kæranda. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar um veitingu byggingarleyfis vegna framkvæmda við lóð nr. 6 við Hjálmholt.  Lýtur ágreiningur málsins fyrst og fremst að því hvort lögmætt samþykki sameigenda nefndrar fasteignar fyrir umdeildum breytingum hafi legið fyrir við veitingu leyfisins.

Með hinu umdeilda byggingarleyfi eru heimilaðar breytingar á ytra byrði hússins með því að stækka þrjú gluggaop á útvegg í stofurými kjallaraíbúðar.  Sett er svalahurð í miðbilið og gluggar beggja vegna stækkaðir.  Þá er grafið frá húsi í bakgarði og útbúin verönd undir svölum efri hæða.  Skilja steyptur veggur og tröppur að garðrými og veröndina.  Umræddar breytingar munu geta haft áhrif á hagnýtingu sameiginlegrar óskiptrar lóðar með því að bætt er við nýrri aðkomuleið að umræddu húsi.
 
Samkvæmt 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu með umsókn um byggingarleyfi fylgja hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Ytra byrði húss, eins og hér um ræðir, er í sameign eigenda þess skv. 8. gr., sbr. 6. gr., laga um fjöleignarhús, og þarf því að liggja fyrir samþykki meðeigenda fyrir breytingum á slíkri sameign sem gefið er á löglega boðuðum húsfundi skv. 4. mgr. 39. gr. og 2. mgr. 59. gr. laganna.  Hafi eigandi hins vegar sótt fund þrátt fyrir ófullnægjandi boðun getur hann ekki borið fyrir sig ágalla á fundarboðun og eru þá ákvarðanir fundarins bindandi fyrir hann skv. 3. mgr. 40. gr. tilvitnaðra laga.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar breytingu á útliti húss og afnotum sameignar og er slík breyting háð samþykki eigenda samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum fjöleignarhúsalaga.  Fyrir liggur að kærandi veitti á húsfundi skriflegt samþykki sitt fyrir gerð dyra með glerhurð út í garð eins og fram kemur í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 29. apríl 2012.  Teikning, er ber sömu dagsetningu, og byggingarfulltrúi samþykkti, er árituð um samþykki allra sameigenda hússins. 
Af nefndum gögnum verður ekki annað ráðið en að sú teikning hafi legið fyrir á umræddum húsfundi.  Verður að telja, eins og atvikum er háttað, að kærandi hafi veitt samþykki sitt fyrir hinum umdeildu framkvæmdum og að hann sé með vísan til 3. mgr. 40. gr. fjöleignarhúsalaga bundinn af því samþykki sínu, en ekki hefur verið sýnt fram á að kærandi hafi ekki verið til þess bær að veita það samþykki sitt. 

Með vísan til þess sem rakið hefur verið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. ágúst 2012 um að veita byggingarleyfi til að grafa frá gluggum, gera dyr úr stofu kjallaraíbúðar og útbúa verönd út í garð á lóðinni nr. 6 við Hjálmholt í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                       ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                     Þorsteinn Þorsteinsson

    

 

 

    

 

 

40/2012 Bankastræti

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. maí 2012, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir B, Skólavörðustíg 4C, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 að veita leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins á lóð nr. 12 við Bankastræti. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að byggingarleyfishafa verði gert að fjarlægja óleyfisbyggingarnar.  Til vara krefst kærandi þess að umsóknin verði tekin til afgreiðslu á nýjan leik.  Að auki krefst kærandi greiðslu málskostnaðar. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 14. ágúst 2012. 

Málavextir:  Í byrjun ágúst 2011 sendi kærandi byggingarfulltrúa fyrirspurn þess efnis hvort veitt hefði verið byggingarleyfi fyrir stórum viðarstrúktúrum, svölum, tröppum o.fl. sem byggðir hefðu verið í porti sunnan við veitingastaðinn Prikið að Bankastræti 12, og þá til hvaða starfsemi það leyfi næði, en eins og sæist af myndum neyttu gestir staðarins áfengis á svölunum og í portinu eftir klukkan 22 á kvöldin.  Svar byggingarfulltrúa barst hinn 9. s.m. þar sem fram kom að málið hefði verið skoðað og að greinilegt væri að byggt hefði verið út fyrir heimildir.  Aðspurður staðfesti kærandi við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdin ylli ónæði í nágrenninu. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð umrædds húss.  Var umsóknin tekin fyrir á ný á fundi hinn 22. s.m og er í fundargerð vísað til athugasemda eldvarnaeftirlits á umsóknarblaði.  Umsóknin var síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. desember s.á. 

Kærandi ítrekaði erindi sitt til byggingarfulltrúa 30. nóvember 2011, sem og 3. janúar 2012.  Svar byggingarfulltrúa barst honum hinn 3. febrúar s.á. þar sem fram kom að leyfi fyrir framkvæmdinni hefði verið veitt hinn 6. desember 2011. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að þrátt fyrir að hann hafi gert alvarlegar athugasemdir við byggingar þær sem málið snúist um hafi byggingarfulltrúi ekki hirt um að upplýsa hann um gang málsins eða veita honum tækifæri til að tjá sig um framkvæmdirnar áður en hin kærða ákvörðun var tekin.  Þá sé það kyndug stjórnsýsla að blessa, að því er virðist án athugasemda, slíkar óleyfisframkvæmdir með því að veita leyfi fyrir áður gerðum framkvæmdum. 

Byggðar hafi verið svalir og tröppur út í port sunnan við húsið án heimildar byggingarfulltrúa og hafi þetta port þjónað sem viðbót við skemmtistaðinn og aukið hávaða og ónæði frá staðnum.  Notkun svalanna að nóttu hafi falist í að þar megi reykja utandyra en auk þess sé þar leyfð neysla áfengra drykkja sem sé skýlaust brot á lögum, reglugerðum og samþykktum um áfengisveitingar.  Með tilkomu svalanna hafi hávaðinn og ónæðið aukist enn frekar enda átt greiðari leið að húsi kæranda. 

Framkvæmdin hafi ekki verið grenndarkynnt þótt hún hafi í för með sér mikla breytingu á hljóðvist og lífsgæðum nágranna og feli í sér breytingu á notkun, þ.e. breytingu á porti í útiveitingastað.  Íbúar hafi ítrekað kvartað vegna hávaða sem leiði af fyrrgreindri notkun svalanna.  Þrátt fyrir það hafi byggingarfulltrúi ekki látið fara fram könnun eða mælingu á hljóðvist í nágrenni Bankastrætis 12 né látið skoða hvaða breytingar hafi orðið á henni.  Telja verði að samræmi eigi að vera í stjórnkerfinu hvað þetta varði en Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, sem sé skylt að fjalla um mál tengd hljóðvist, hafi enga aðkomu átt að afgreiðslu málsins. 

Í deiliskipulagi svæðisins sé ekki að finna heimild fyrir viðbyggingu við Bankastræti 12 heldur einungis fyrir gerð stakrar byggingar fyrir aftan húsið.  Geti umræddar framkvæmdir ekki talist falla innan þeirrar heimildar.  Í deiliskipulaginu komi jafnframt fram að húsið sé byggt árið 1868 og að það sé háð þjóðminjalögum um allar breytingar á núverandi ástandi þess sökum aldurs.  Ekki hafi verið leitað álits Húsafriðunarnefndar á framkvæmdunum, hvorki áður en framkvæmdir hófust né áður en hið kærða leyfi var gefið út, og hafi því verið brotið gegn 6. gr. húsafriðunarlaga nr. 104/2001.  Þá segi í skipulaginu að lagt sé til í Húsverndarskrá Reykjavíkur að húsið njóti verndar vegna mikilvægis þess í götumynd Bankastrætis og Ingólfsstrætis.  Þeir viðarstrúktúrar sem reistir hafi verið stingi mjög í stúf við hið gamla hús og breyti götumynd, bæði frá Bankastræti og Ingólfsstræti. 

Þá bendi kærandi á þá miklu fjölgun skemmtistaða og bara í miðborginni sem orðið hafi á síðustu árum en sú þróun hafi óneitanlega skert lífsgæði íbúa svæðisins.  Með stefnu sinni í málefnum miðborgarinnar hafi borgaryfirvöld rýrt verðmæti fasteigna á svæðinu auk þess sem grenndarkynning hafi aðeins farið fram vegna örfárra fyrrnefndra staða og réttur íbúa til að tjá sig um nærumhverfi sitt því verið að engu hafður. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfu kæranda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis enda séu umrædd mannvirki í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Í deiliskipulagi fyrir Laugavegs- og Skólavörðustígsreiti, reitur 1.171.2, sem samþykkt hafi verið hinn 10. ágúst 2002, sé gert ráð fyrir 400 m2 nýbyggingu, sem sé fjórar hæðir og kjallari, á baklóð Bankastrætis 12.  Rúmist hinar kærðu framkvæmdir vel innan þeirra heimilda og hafi því ekki borið að grenndarkynna umrædda byggingarleyfisumsókn. 

Hvað varði þá málsástæðu að leita hefði þurft álits húsafriðunarnefndar skuli á það bent að ekki hafi verið gerðar neinar breytingar á húsinu, heldur hafi aðeins verið um að ræða viðbyggingu, þ.e. svalir, sorpgerði og geymslu, í portinu.  Loks sé á það bent að engin leyfi hafi verið veitt fyrir útiveitingum á staðnum og því sé neysla áfengra drykkja óheimil utandyra.  Allar kvartanir vegna slíks heyri undir lögreglustjóra en ekki byggingarfulltrúa. 

———-

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum  sínum  í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá honum. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 8. ágúst 2013. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema að afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 8. maí 2012, eða rúmum þremur mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um útgáfu byggingarleyfisins.  Verður því að líta svo á að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Hins vegar var kæranda ekki leiðbeint um kærurétt og kærufrest af hálfu sveitarfélagsins, svo sem því bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem afsakanlegt þykir að kæran hafi borist að liðnum kærufresti. 

Á svæði því sem um ræðir er í gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.2, sem afmarkast af Bankastræti, Skólavörðustíg, Bergstaðastræti, Hallveigarstíg og Ingólfsstræti.  Samkvæmt deiliskipulaginu er heimilt að byggja fjögurra hæða hús með kjallara syðst á lóð nr. 12 við Bankastræti, á bak við núverandi hús.  Efsta hæð hússins skal vera inndregin frá Bankastræti.  Hið kærða byggingarleyfi veitir hins vegar leyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og útisvölum úr timbri á baklóð hússins, með aðgengi út á svalirnar frá vínveitingastað í núverandi húsnæði á lóðinni.  Leyfi til byggingar svala, sem eru í beinum tengslum við og með aðgengi frá veitingastað, er til þess fallið að valda nágrönnum ónæði umfram það sem búast hefði mátt við samkvæmt gildandi deiliskipulagi, en ekki er að finna heimild fyrir slíkum mannvirkjum innan umrædds byggingarreits. 

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.  Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að hið kærða byggingarleyfi er í andstöðu við gildandi deiliskipulag og ber því að fella það úr gildi. 

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. desember 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir áður gerðri geymslu, sorpgerði og svölum á baklóð hússins að Bankastræti 12. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

82/2013 Lambhagavegur

Með

Árið 2013, miðvikudaginn 6. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 82/2013, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 á umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2013, er barst nefndinni 19. s.m., kærir D, f.h. Þrístiklu, Lambhagavegi 31, Reykjavík, samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 á umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. 

Málavextir:  Lambhagavegur 29 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag fyrir svonefndan Lambhagareit og tekur skipulagið til alls átta lóða sem skilgreindar eru sem ræktunarlóðir.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 12. mars 2013 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr staðsteyptri steinsteypu á nefndri lóð.  Var afgreiðslu málsins frestað, með vísan til athugasemda á umsóknarblaði, og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem á fundi sínum hinn 15. s.m. vísaði málinu til umsagnar hjá verkefnisstjóra.  Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 22. s.m. og það afgreitt jákvætt, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag. 

Hinn 23. apríl 2013 var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og fylgdi erindinu útskrift úr gerðabók embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 22. mars s.á. og umsögn hans, dagsett sama dag.  Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010.  Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2013, gerði kærandi athugasemdir við fyrrgreinda afgreiðslu og fór fram á að tekið yrði tillit til þess að byggingarreitur íbúðarhúss Lambhagavegar 31 lægi samhliða samþykktri byggingu.  Í framhaldi af því munu byggingarfulltrúi og kærandi m.a. hafa fundað um málið, en lyktir urðu þær að kærandi skaut afgreiðslu byggingarfulltrúa frá 23. apríl 2013 til úrskurðarnefndarinnar, eins og fyrr greinir. 

Málsrök kæranda:  Til stuðnings kröfum sínum vísar kærandi til þess að samþykktar teikningar brjóti í bága við gildandi deiliskipulag fyrir svæðið.  Samkvæmt skipulagi megi hæð gróður- og þjónustuhúsa ekki fara yfir 7,0 m, mælt frá gólfplötu og upp í mæni.  Þar sem hæðarmunur sé sérstaklega mikill sé kjallari leyfður undir slíkum húsum og megi hæð þá ekki fara yfir 9,0 m, mælt frá gólfplötu í kjallara.  Byggingin fari upp í 9,7 m, þar sem hún sé hæst, mælt frá kjallaraplötu, og í 11,3 m þar sem þak sé sýnt hæst.  Þá sé þakið klætt gróðri en þótt deiliskipulagið leyfi tæknibúnað og þakglugga yfir mænishæð sé ekki átt við að allt þakið megi þekja torfi og gróðri upp í 11,0 m hæð.  Því hafi verið haldið fram að þar sem húsið sé ekki með risi megi vegghæð fara í leyfða mænishæð og sé það jafngilt í deiliskipulagi.  Þessu sé kærandi ósammála og telji að hús sem sé 5,5 m að hæð með 1,5 m risi sé síður íþyngjandi en 7,0 m hús með flötu þaki gagnvart húsi í 5,0 m fjarlægð frá lóðamörkum og 13,0 m fjarlægð frá íbúðarbyggingarreit.

Umrædd bygging sé af slíkri stærðargráðu að hún rýri verulega gæði ræktunarlóðar garðyrkjubýlisins Þrístiklu.  Byggingarreitur íbúðarhúss að Þrístiklu sé í uppnámi og því hærri sem byggingin sé því meira íþyngjandi verði hún, einkum þar sem ekki sé um gróðurhús að ræða heldur steypt hús.  Ræktunarland fyrir ofan byggingarreit íbúðarhúsnæðis Þrístiklu verði fyrir verulegum áhrifum af byggingunni, svo og allt nærsvæði hennar, hvað varði vind og snjóþyngsli, og rýri þannig uppskeru og afkomu af landinu.  Hafi byggingaryfirvöldum borið að líta til meðalhófsreglu þegar hæð byggingarinnar hafi verið ákveðin þannig að hún yrði ekki hærri en nauðsyn bæri til.  Þá sé bent á að engin grenndarkynning hafi farið fram á fyrirhuguðum framkvæmdum. 

Samkvæmt deiliskipulagi megi á svæðinu reisa gróðurhús og þjónustubyggingar til garðyrkjuframleiðslu.  Kærandi telji að hlutfall gróðurhúsa gagnvart þjónustubyggingum sé ekki í eðlilegu samhengi.  Jafnframt sé fyrirhuguð starfsemi í húsinu, þ.e. pökkun eða frekari vinnsla á landbúnaðarvörum, ekki garðyrkja heldur iðnaður og því í trássi við deiliskipulag. 

Þá sé gerð athugasemd við að skýringarmynd, er lögð hafi verið inn með umsókn um byggingarleyfi, sé í engu lík teikningu af ræktunar- og þjónustuhúsi.  Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að teikningar hafi verið samþykktar óbreyttar eftir að þeim hefði áður verið hafnað. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist af kröfu kæranda verði hafnað. 

Hæðir húshluta heimilaðrar byggingar séu í samræmi við gr. 2.5 í greinargerð og skilmála skipulagsins.  Hæð sé miðuð við núverandi landhæð í hverju tilviki og í samræmi við eftirfarandi atriði:  Bygging sem hærra standi í lóðinni (nyrst) hafi 7,0 m leyfilega mænishæð yfir núverandi landhæð.  Núverandi landhæð á aðkomuhlið þeirrar byggingar sé frá 62,12 m (NV-horn) og um 66,0 m (NA-horn).  Eðlileg gólfhæð aðkomuhæðar gæti verið meðaltal þess, eða um 64,0 m, og leyfileg mænishæð 71,0 m.  Gólfhæð byggingarinnar samkvæmt aðalteikningu sé í 63,20 m hæð, eða 0,8 m neðar.  Mesta hæð útveggja sé ráðgerð 4,5 m yfir gólfhæð, þ.e. í 67,7 m hæð, eða 3,3 m undir leyfilegri mænishæð. 

Sú bygging sem lægra standi í lóð (syðst) sé með heimilaða hámarkshæð, mælt frá botnplötu kjallara, allt að 9,0 m.  Núverandi landhæð á aðkomuhlið þeirrar byggingar sé frá um 57,0 m (SV-horn) og 59,5 m (SA-horn).  Eðlileg gólfhæð aðkomuhliðar gæti verið meðaltal þessa, eða 58,25 m, og leyfileg hámarkshæð, mælt frá botnplötu, í allt að 67,25 m hæð.  Gólfhæð samkvæmt aðalteikningu sé í 57,42 m hæð, eða 0,83 m lægri.  Mesta hæð útveggja sé ráðgerð 6,93 m yfir botnplötu kjallara.  Áætluð mænishæð gróðurhúss, sem ekki sé hér til umfjöllunar, sé ráðgerð 9,0 m yfir botnplötu, þ.e.a.s. í hæðinni 66,42 m, eða 0,83 m lægra en leyfileg hámarkshæð miðað við núverandi landhæð. 

Það að kjallarahluti atvinnuhúsnæðisins nái inn undir þá byggingu sem hærra standi í lóðinni hafi ekkert með mestu hæð hennar að gera og hafi sá hluti kjallarans engin áhrif á umhverfið þar.  Þess sé heldur ekki getið í deiliskipulagi lóðarinnar að kjallari megi ekki vera undir þeirri byggingu eða hver gólfhæð hans skuli þá vera. 

Ekki sé heldur fallist á að skýringamynd á skipulagsuppdrætti sé ekki lík uppdráttum. Skýringarmyndir séu ekki endanleg útfærsla á hönnun heldur sé með þeim verið að gefa hugmynd um form, hæðir og legu í landi. 

Sú fullyrðing að byggingarreitur íbúðarhúss kæranda sé í uppnámi fái ekki staðist.  Hin umdeilda bygging sé innan byggingarreits og vel það.  Sé sjónarmiðum um áhrif byggingarinnar á vind, snjóalög og ræktunarmöguleika á Þrístiklu mótmælt sem ósönnum og ósönnuðum.  Þá vísi Reykjavíkurborg enn fremur til röksemda byggingarleyfishafa í málinu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Sjónarmið byggingarleyfishafa eru á svipaðan veg og hjá Reykjavíkurborg.  Jafnframt er vísað til þess að samanlagt byggingarmagn ræktunar- og þjónustuhúss sé 1.838,3 m², sem sé langt undir heimilaðri hámarksstærð samkvæmt deiliskipulagi.  Svo hátti einnig til um þakhæðir.  Þannig sé hámarkshæð ræktunarhúss með handriðum 6,93 m, og hámarkshæð þjónustuhúss, á hæsta punkti grasþaks, sé um 5,5 m og hámarksvegghæð 4,5 m.  Meðalhófsreglunnar hafi því verið gætt.  Hvergi séu gefnir upp fastir hæðarkótar á byggingum í deiliskipulagi, en þess farið á leit við hönnuði að þeir aðlagi legu húsa sem mest að landi.  Hæðarmunur á umræddri lóð sé þannig að ræktunarhús verði að langmestu leyti niðurgrafið.  Sé grenndarkynningar ekki þörf þegar unnið sé innan gildandi deiliskipulags. 

Enn fremur sé á það bent að aðeins hluti af þeirri hlið hússins sem snúi að Þrístiklu standi hærra en land Þrístiklu en hluti af þeirri sömu hlið sé einnig neðar en land þeirra, eða um 2,0 m.  Grasþök hafi verið hönnuð með það að leiðarljósi að húsin féllu betur inn í umhverfið en hvergi sé tekið fram í skipulagsskilmálum að ekki megi grasleggja þök.  Mikill trjágróður sé milli lóða og inni á landi Þrístiklu.  Byrgi hann nú þegar sýn milli lóða enda séu trén um 8-10 m há.  Muni fyrirhugað hús því ekki verða íþyngjandi á neinn hátt. 

Garðyrkja sé iðnaður í nútímasamfélagi.  Í skilmálum deiliskipulagsins sé sérstaklega tekið fram að í byggingunum geti m.a. verið pökkunarhús.  Telji leyfishafi það gott fordæmi að heimila byggingu ræktunarhúsa/þjónustuhúsa/geymslna sem séu í samræmi við deiliskipulag.  Þá sé skýringarmynd í samræmi við endanlegar teikningar.  Skýringarmynd segi ekkert til um stærðir heldur sé hugmynd um hvernig hentugt sé að byggja upp svæðið þar sem mikill landhalli sé.  Loks sé bent á að teikningar, sem kærandi vísi til að hafi verið hafnað, hafi átt við um annað erindi. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir staðsteyptu ræktunar- og gróðurhúsi að Lambhagavegi 29 í Reykjavík og lúta álitaefni málsins einkum að því hvort hæð byggingarinnar sé í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags. 

Kveðið er á um hámarkshæð bygginga í gr. 2.5 í gildandi deiliskipulagi svonefnds Lambhagareits, er tekur til umrædds svæðis.  Er þar tilgreint að mesta leyfilega mænishæð annarra húsa en íbúðarhúsa megi vera 7,0 m.  Á lóðum nr. 25, 27 og 29 sé heimilt að byggja kjallara undir atvinnuhúsnæði þar sem hæðarmunur í landi bjóði upp á slíkt og sé hámarkshæð, mæld frá botnplötu kjallara, heimiluð allt að 9,0 m. 

Fram kemur í byggingarlýsingu aðaluppdrátta hins kærða byggingarleyfis að byggingin sé „ein samhangandi bygging, kjallari og 1. hæð“.  Nánar tiltekið er norðurhluti byggingarinnar kjallari en suðurhlutinn er á einni hæð.  Eru byggingarhlutarnir samtengdir með stigagangi.  Samkvæmt samþykktum uppdrætti er vegghæð norðurhlutans yfir gólfplötu hvergi meiri en 4,5 m og mænishæð þar af leiðandi mest 5,5- 6,0 m.  Hæð frá gólfplötu suðurhluta byggingarinnar (kjallara) upp á þakplötu er 5,8 m og þar með innan þeirra marka sem deiliskipulagið áskilur.  Heildarhæð stigagangs milli byggingarhluta er hins vegar um eða yfir 11 m samkvæmt teikningum, mælt frá botnplötu að mæni.  Að auki er hæð frá tæknirými við stigagang undir suðurhluta byggingarinnar um eða yfir 11 m.  Víkur hin kærða ákvörðun að þessu leyti frá skilmálum skipulagsins hvað hámarkshæð húss varðar, en frávikið fellst að öllu leyti í rúmmálsaukningu neðanjarðar. 

Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir, skv. 1.tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.  Í 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er þó heimilað að víkja frá gildandi skipulagi við útgáfu byggingarleyfis þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðast í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.  Form, staðsetning og hæð umræddrar byggingar ofan jarðar er í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags og verða grenndaráhrif hennar því þau sömu og vænta mátti.  Þá verður ekki séð að byggingarleyfið fari gegn skilmálum skipulagsins um landnotkun og landnýtingu.      

Með hliðsjón af framangreindu liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2013 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa ræktunar- og þjónustuhús úr steinsteypu á lóð nr. 29 við Lambhagaveg í Reykjavík. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

53/2013 Gerðarbrunnur

Með

Árið 2013, þriðjudaginn 8. október tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 53/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr. sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júní 2013, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Kristján S, Gerðarbrunni 20-22, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 6. mars 2008 um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingaleyfi verði stöðvaðar.  Með hliðsjón af því sem liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 24. júní 2013.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. janúar 2008 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa steinsteypt parhús á tveimur hæðum með innbyggðum bílgeymslum á lóðinni nr. 24-26 við Gerðarbrunn í Reykjavík.  Afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 26. febrúar s.á.  var málinu á ný frestað og m.a. fært til bókar að málinu væri vísað til umsagnar skipulagsstjóra þar sem farið væri út fyrir byggingarreit.  Skipulagsstjóri vísaði málinu til skipulagsráðs er tók það fyrir á fundi hinn 5. mars 2008 og afgreiddi með svohljóðandi hætti:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997. Frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu hinn 6. s.m. 

Kærandi tekur fram að á árinu 2007 hafi hann keypt byggingarrétt á lóðinni nr. 20-22 við Gerðarbrunn og hafi þá legið fyrir samþykkt skipulag húsa í götunni þar sem byggingarreitir hafi verið nákvæmlega tilgreindir.  Steyptur hafi verið sökkull húss á næstu lóð, þ.e. við Gerðarbrunn 24-26, á árunum 2007-2008 en frekari byggingarframkvæmdir við húsið hafi hafist fyrir um það bil mánuði.  Af því tilefni hafi kærandi kynnt sér teikningar að húsinu þar sem fram hafi komið að það færi um 1,5 metra út fyrir byggingarreit lóðarinnar.  Nánari skoðun hafi leitt í ljós að byggingarfulltrúi hafi upplýst um þessa staðreynd á fundi 26. febrúar 2008 og að skipulagsráð hafi síðan samþykkt þessa breytingu án nokkurrar kynningar.  Hliðrunin muni hafa í för með sér verulega skerðingu á útsýni frá svölum húss kæranda og skerða sólarljós.  Brjóti þessar síðari tíma breytingar á húsinu gegn rétti kæranda til birtu og útsýnis sbr. gr. 2.3.4 og 6.2.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 en samsvarandi ákvæði hafi verið í eldri lögum.  Sé of seint fyrir kæranda að óska eftir breytingum á húsi sínu til að draga úr þeim óþægindum sem verði af þessum ólöglegu breytingum.

Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Hafi kæranda mátt vera kunnugt um legu hússins að Gerðarbrunni 24-26 þegar framkvæmdir hafi byrjað á árunum 2007-2008.   Honum hafi þá verið í lófa lagið að kynna sér samþykkta uppdrætti.  Kærufrestur í máli þessu sé því liðinn og ekki séu færð rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá fyrrgreindu ákvæði um kærufrest.  Þá sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafar gera einnig kröfu um frávísun málsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni.  Kærandi hafi haft fjölmörg tækifæri og tilefni til að kynna sér hina kærðu ákvörðun.  Ákvörðunin hafi verið tekin að fengnu samþykki kæranda og birt á vef Reykjavíkurborgar og hafi honum frá þeim tíma mátt vera ákvörðunin ljós auk þess sem um birtingu á opinberum vettvangi hafi verið að ræða.  Kærandi hafi auk þess fengið byggingarleyfi fyrir húsi sínu sem háð hafi verið samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Þá hafi hann sótt um leyfi til að gera breytingu á útitröppum sem liggi að húsi byggingarleyfishafa 13. desember 2011 og hafi kærandi þá þurft að kynna sér teikningar og fá leyfi aðliggjandi húseigenda við þær breytingar.  Framkvæmdum við umrædda byggingu hafi verið fram haldið í febrúar 2013 og hafi vinnuskúr verið settur upp í lok mars s.á.  Kærufrestur hafi því einnig verið liðinn í því tilviki.  Beri því að vísa kæru þessari frá skv. 1. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem í gildi var við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á.  Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun um að veita byggingarleyfi fyrir húsinu að Gerðarbrunni 24-26 var staðfest í borgarráði hinn 6. mars 2008 og var byggingarleyfi gefið út í kjölfarið og framkvæmdir hafnar.  Samkvæmt fyrirliggjandi byggingarsögu hússins var úttekt gerð á botnplötu þess hinn 16. október 2008.  Af þeim ástæðum verður að ætla að kæranda hafi mátt vera ljós lega umrædds húss þegar á árinu 2008 og var því kærufrestur löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 13. júní 2013.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða um kærufresti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

 

 

2/2013 Ástún Kópavogi

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 24. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.     

Fyrir var tekið mál nr. 2/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Jafnframt eru kærðar ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Loks eru kærðar samþykktir byggingarfulltrúa Kópavogs frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs og um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á nefndri lóð.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. janúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra J og Þ, Daltúni 14, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 varðandi lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Jafnframt kæra þau ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6. Með bréfi sömu aðila, dags. 25. febrúar 2013, og móttekið sama dag, eru kærðar ákvarðanir byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs hússins á lóð nr. 6 við Ástún og um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Kærendur kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðar-nefndinni.  Með hliðsjón af því að hús það sem fyrir var að Ástúni 6 hefur þegar verið rifið og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 13. nóvember 2007 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 vegna lóðar nr. 6 við Ástún í þá veru að á lóðinni yrði íbúðarsvæði í stað blandaðrar landnotkunar þjónustustofnana og opins svæðis til sérstakra nota.  Staðfesti ráðherra þá breytingu og öðlaðist hún gildi í janúar 2008.  Í kjölfar þessa var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. janúar s.á. samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð er gerði ráð fyrir að á lóðinni risi 12 íbúða fjölbýlishús á þremur hæðum með bílageymslu.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2008.

Ný tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var lögð fyrir skipulagsnefnd Kópavogs hinn 21. mars 2012.  Lutu breytingar frá gildandi deiliskipulagi m.a. að lögun byggingarreits, hækkun byggingar um 0,8 m, formi þaks og fjölda íbúða.  Þá var fyrirhuguð bílageymsla felld út og gert ráð fyrir tveimur íbúðum og geymslum í kjallara.  Bílastæði á lóð yrðu 21.  Var samþykkt að auglýsa fram lagða tillögu og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 27. s.m.  Komu kærendur og íbúar að Daltúni 13 á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar og héldu skipulagsyfirvöld fund með þeim aðilum.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 20. nóvember 2012 var málið til umfjöllunar og lá þá fyrir umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsett sama dag, um fyrirliggjandi athugasemdir.  Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna, ásamt  umsögn, með þeim breytingum að aðkomukóti og hámarkshæð fyrirhugaðs fjölbýlishúss voru lækkuð, bílastæðum fjölgað í 28 og þar af 14 stæði í bílskýli austan við fyrirhugað fjölbýlishús.  Var tillögunni vísað
til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi hinn 27. nóvember 2012.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2012, að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Hinn 28. desember 2012 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um niðurrif húss að Ástúni 6 með vísan til þess að það ætti að víkja samkvæmt skipulagi á lóðinni.  Jafnframt var tekið fyrir erindi um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð, sem og beiðni lóðarhafa um undanþágu frá 6. til 16. hluta byggingarreglugerðar nr. 112/2012.  Var erindið samþykkt og talið samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010.  Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslur byggingarfulltrúa án umræðu á fundi hinn 8. janúar 2013. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að húsið að Ástúni 6 sé eitt reisulegasta og jafnframt síðasta heillega bóndabýlið í Fossvogsdalnum.  Beri að varðveita það en ekki virðist hafa verið haft samráð við Húsafriðunarnefnd um niðurrif hússins.  Taki hús í hverfinu mið af gamla bænum þannig að hverfið hafi yfir sér sérstakan heildstæðan blæ með tilvísun til eldri tíðar.

Kynning á breytingu á deiliskipulagi á árinu 2007 hafi verið ábótavant.  Hafi kærendur farið skriflega fram á það við bæjaryfirvöld að grenndarkynning yrði endurtekin og þeim veittur kostur á að tjá sig um breytingarnar en því erindi hafi aldrei verið svarað.  Þá hafi engar nothæfar teikningar verið til svo unnt væri að átta sig á skuggavarpi vegna fyrirhugaðs fjölbýlishúss samkvæmt skipulagsbreytingunni.  Með breytingu á deiliskipulagi, sem hlotið hafi gildi árið 2012, sé verið að auka við skipulag sem ólöglega hafi verið staðið að frá upphafi og sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 138/2012 í því sambandi.

Með bréfi til bæjaryfirvalda, dags. 29. september 2012, hafi kærendur farið fram á fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar.  Hafi þeim á fundi nokkru síðar verið kynnt útfærsla að lítið eitt lægri nýbyggingu og þar gefið í skyn að ef ekki yrði fallist á þá útfærslu myndi eldri útfærslan gilda.  Ekki hafi fengist fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp hússins.  Það hafi fyrst verið með bréfi skipulagsyfirvalda, dags. 19. desember 2012, sem upplýst hafi verið hvaða teikning að húsinu yrði notuð ásamt upplýsingum til að reikna skuggavarp nýbyggingarinnar.  Einnig hafi verið sendar óljósar teikningar af skuggavarpi hússins miðað við 21. júní og 21. september, er sýni að á hádegi 21. september verði lóð kærenda að mestu í skugga.  Í erindi til bæjaryfirvalda, dags. 28. desember 2012, hafi kærendur sent upplýsingar um skuggavarp.  Komi þar fram að samkvæmt útreikningum sem þeir hafi látið gera muni ekki sjá til sólar í Daltúninu frá lokum september fram til aprílbyrjunar og yfir hásumarið muni sólar aðeins gæta til kl. 17.  Húsið að Daltúni 14 muni verða í skugga í nærfellt 95 daga hvern vetur.  Hafi kærendur farið fram á að ekkert yrði aðhafst í málinu er skert gæti rétt þeirra, en ekkert svar hafi borist við þeirri beiðni.
 
Á síðasta fundi skipulagsyfirvalda á árinu 2012 hafi verið fallist á umsókn um niðurrif eldra húss að Ástúni 6.  Jafnframt hafi leyfishafa verið veitt undanþága frá lögum sem tekið hafi gildi um áramót og fjalli m.a. um fjölda bílastæða við fjölbýlishús og framkvæmd öryggismála á byggingarsvæðum.

Telja verði að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 vegna grenndaráhrifa, s.s. skuggavarps og aukinnar umferðar.  Nú þegar skorti bílastæði við götuna, þrengsli séu mikil og umferð sé vandamál.  Auk þess sé um að ræða þéttingu byggðar í hverfi sem þegar sé þéttbyggt. 

Kærendur hafi komið sér upp notadrjúgum og skjólgóðum reit sunnan við hús sitt, þar sem sé heitur pottur og sólbaðsstétt ásamt blóma- og matjurtagarði.  Þetta hafi kostað talsvert fé og fyrirhöfn.  Verði lóðin í skugga hálft árið sé líklegt að ræktun matjurta verði ómöguleg og að sólar muni ekki gæta eftir almennan vinnutíma þannig að búast megi við að verð húseignarinnar muni skerðast án þess að nokkrar bætur komi fyrir.  Þá muni kostnaður vegna upphitunar hússins aukast.  Skipulagsyfirvöld hafi bent á að skuggavarp verði litlu meira en það sem íbúar ofar og neðar við götuna búi við, en bent sé á að nágrannar kærenda hafi kvartað undan skuggavarpi enda sé talað um það sem afleiðingu 40 ára gamals skipulagsslyss.  Þá bendi kærendur á að um nauðvörn þeirra sé að ræða þar sem þeir hafi ekki enn fengið fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar.  Þannig hafi aðeins t.d. verið svarað einni af þremur skriflegum fyrirspurnum þeirra.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er farið fram á að kröfu kærenda vegna ákvörðunar um niðurrifs hússins að Ástúni 6 verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Niðurrif mannvirkisins raski ekki með nokkrum hætti hagsmunum kærenda svo að þeir geti átt kæruaðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun.  Þá heyri friðun mannvirkja skv. lögum nr. 104/2001 um húsafriðun ekki undir úrskurðarnefndina.  Jafnframt beri að vísa þeim þáttum kærunnar frá er lúti að ógildingu ákvörðunar um breytingu á aðalskipulagi fyrir lóðina Ástún 6 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 22. janúar 2008 um breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, en samsvarandi ákvæði hafi verið í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Komi fram í kæru að kærendum hafi orðið kunnugt um umræddar breytingar í júní 2008.  Kærufrestur vegna þessara ákvarðana sé því löngu liðinn.

Ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 sé hvorki að formi né efni haldin annmörkum.  Hún sé í samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2002-2012, sem og markmið þess um þéttingu byggðar og nýtingu á stofnkerfi bæjarins.  Í þágildandi deiliskipulagi hafi byggingarreitur fyrirhugaðs húss á lóðinni verið því sem næst ferningur í stað þess að vera ílangur eins og eigi við um þegar byggð hús við Ástún.  Með tillögunni sé leitast við að útfæra mannvirkið að heildargötumyndinni og þeim fjölbýlishúsum sem fyrir séu við götuna þannig að um sambærilegan byggingarstíl sé að ræða.  Yfirbragð og ásýnd byggðarinnar verði talsvert betri við skipulagsbreytinguna. 

Fullyrðingar kærenda um skuggavarp eigi ekki við rök að styðjast en breytingin muni leiða til þess að skuggavarp minnki sé tekið mið af deiliskipulagi frá 2008.  Fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar að skugginn sé áþekkur en þó grennri sem helgist af því að grunnfleti hússins hafi verið breytt.  Hækkun á mænishæð með 15º þakhalla hafi ekki áhrif á skuggavarp.  Hafi fyllilega verið tekið tillit til hagsmuna kærenda í máli þessu og málefnaleg sjónarmið legið að baki umræddri ákvörðun.  Í kjölfar samráðsfundar sem haldinn hafi verið með þeim er mótmælt hafi skipulags-breytingunni hafi sú ákvörðun verið tekin að lækka vegghæð hússins úr 49,85 m í 48,35 m, eða um 1,5 m, vegna hækkunar á mænishæð úr 39,85 m í 50,65 m (svo).  Stafi þessi munur af því að þakformi hússins hafi verið breytt úr flötu þaki í valmaþak.  Einnig hafi aðkomuhæð hússins verið lækkuð til að koma til móts við sjónarmið andmælenda.  Málið hafi fengið umtalsverða umfjöllun og vandaða málsmeðferð og leitast hafi verið við að eiga fullt samráð við þá aðila sem gert hafi athugasemdir.

Þá telji Kópavogsbær ekki efni til að fjalla sérstaklega um gildi byggingarleyfis sem gefið hafi verið út fyrir byggingu fjölbýlishúss að Ástúni 6.  Leyfið hafi verið gefið út í kjölfar samþykktar og auglýsingar á breyttu deiliskipulagi fyrir umrædda lóð og sé því gefið út á lögmætum forsendum.

– – – –

Lóðarhafa Ástúns 6 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna kæru-máls þessa en engar athugasemdir af hans hálfu hafa borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Eins og fyrr greinir er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Í þágildandi 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því væri háð staðfestingu ráðherra, en skv. 5. mgr. 8. gr. þeirra laga var ekki unnt að skjóta slíkum ákvörðunum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. nú 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Verður kæru á nefndri breytingu á aðalskipulagi Kópavogs því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt áðurgreindri 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga var kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kæru skal vísa frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt þyki að hún hafi borist of seint eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru skal þó ekki sinnt berist hún ári eftir að ákvörðun er tilkynnt aðila.  Kæra á ákvörðun um breytt deiliskipulag lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi árið 2008, barst úrskurðarnefndinni 18. janúar 2013, eða nokkrum árum eftir að hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda, og ber með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni. 

Hús það sem heimilað var niðurrif á hinn 28. desember 2012 og stóð á lóðinni að Ástúni 6 var rifið fyrri hluta árs 2013.  Af þeim sökum hefur ekki þýðingu að taka afstöðu til fyrirliggjandi kröfu kærenda um ógildingu þeirrar ákvörðunar og verður kröfu þess efnis þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag vegna lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi 21. desember 2012, og ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 28. desember s.á., um niðurrif hússins að Ástúni 6 og um heimild til að reisa nýtt hús á lóðinni, bárust úrskurðar-nefndinni innan kærufrests og verða þær ákvarðanir því teknar til efnismeðferðar enda verður að telja að þær ákvarðanir geti snert lögvarða hagsmuni kærenda með hliðsjón af nálægð fasteignar þeirra við umrædda lóð.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, fundur haldinn með þeim aðilum sem gerðu athugasemdir, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um skuggamyndun.  Var tillagan í kjölfarið send Skipulagsstofnun og hún birt í Stjórnartíðindum innan lögbundins frests.  Með skipulagsbreytingunni var m.a. íbúðum að Ástúni 6 fjölgað um tvær, lögun byggingarreits breytt frá því að vera sem næst ferningur í ílangan rétthyrning og breytingar gerðar á hæð hússins.  Þá var gert ráð fyrir valmaþaki í stað slétts þaks.  Í máli þessu koma aðeins til skoðunar þessar breytingar en ekki byggingarheimildir þær á lóðinni sem fyrir voru í deiliskipulagi frá árinu 2008.

Lóð kærenda liggur norðan við lóðina Ástún 6 og liggur gata á milli þeirra.  Af málatilbúnaði kærenda má ráða að þeir hafi einkum áhyggjur af skuggavarpi gagnvart fasteign sinni vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 og hafa þeir lagt fram frekari gögn um skuggavarp vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Við meðferð málsins voru gerðar breytingar frá auglýstri tillögu, þannig að aðkomukóti var lækkaður úr 37,15 í 36,20 og kóti hámarkshæðar úr 50,65 í 49,06 en í deiliskipulagi frá 2008 var gert ráð fyrir að kóti hámarkshæðar væri 49,85.  Samkvæmt þessu lækkar heimiluð hámarkshæð hússins við hina kærðu breytingu um 79 cm.  Þá veldur breyting á lögun og legu byggingarreitar einhverjum breytingum á skuggavarpi.  Fela þessar breytingar og fjölgun íbúða um tvær ekki í sér veruleg grenndaráhrif frá því sem verið hefði að óbreyttu skipulagi.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.

Rétt þykir að benda á að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var eða að hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði, eða eftir atvikum úr ríkissjóði, eða að sveitarsjóður leysi fasteignina til sín, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ákvarðanir um bótarétt og fjárhæð bóta eiga hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrirmælum nefnds ákvæðis um málsmeðferð.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um um nýbyggingu fjölbýlishúss á lóðinni Ástúni 6 stoð í gildu deiliskipulagi.  Þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar séu á málsmeðferð umræddrar ákvörðunar sem valdið geti ógildingu hennar verður kröfu þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum um ógildingu ákvarðana bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007, um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 og um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Ástúns 6 frá 22. janúar 2008, auk kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012, um að heimila niðurrif húss á nefndri lóð, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún og á ákvörðun  byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um að veita leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni að Ástúni 6 í Kópavogi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

98/2012 Guðrúnargata

Með

Árið 2013, föstudaginn 26. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 98/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2012 um að veita byggingarleyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli bílskúrsins. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Guðrúnargötu 8, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2012 að veita byggingarleyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli bílskúrsins.  Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 15. mars 2013.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. maí 2012 var samþykkt umsókn um leyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli bílskúrsins.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 18. s.m.  Framkvæmdir hófust í samræmi við ofangreint samþykki án þess að byggingarleyfi hefði verið gefið út. Athygli eiganda var vakin á þessu og í kjölfarið bárust tilskilin gögn til útgáfu byggingarleyfis. Í kjölfarið var byggingarleyfi gefið út hinn 5. september 2012. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að umrædd framkvæmd raski möguleikum til nýtingar hluta lóðarinnar að Guðrúnargötu 8.  Lóðin sé sameiginleg og óskipt og byggingarleyfið hafi á sínum tíma verið afturkallað af byggingarfulltrúa þar sem láðst hefði að taka fram að leyfið væri háð samþykki meðeigenda.  Hafi byggingarleyfishafa verið kunnugt um neikvæða afstöðu meðeigenda til áforma um bílskúrinn þar sem umræddur lóðarhluti sé bestur til að njóta sólar. Auk þessa hafi byggingarleyfishafi nú hellulagt þennan hluta lóðarinnar fyrir sig persónulega án samþykkis meðeigenda. Byggingarleyfishafa hafi borist tilkynning frá lögfræðingi byggingaryfirvalda þar sem honum hafi verið veittur 30 daga frestur til að leggja fram samþykki allra meðlóðarhafa fyrir framkvæmdinni í samræmi við 30. gr. laga um fjöleignarhús. Þrátt fyrir það hafi byggingarleyfishafi ráðist í framkvæmdina án þess að slíks samþykkis hefði verið aflað. Hafi kærandi talið málið vera til meðferðar hjá borginni í ljósi vitneskju um fyrrgreinda tilkynningu.  Annað hafi þó komið á daginn er byggingarleyfishafi hafi fengið útgefið byggingarleyfi hinn 5. september 2012.  Kærandi hafi í kjölfarið átt fund með byggingarfulltrúa og lögfræðingi hans, en á þeim fundi hafi niðurstaðan orðið sú að ekki tæki því að leiðrétta þau mistök sem orðið hefðu með tilliti til þess kostnaðar sem félli á byggingarleyfishafa við afturköllun umræddrar framkvæmdar.  Telji kærandi þessi málalok og vinnubrögð rýra möguleika sína til hagnýtingar á sameiginlegri, óskiptri lóð.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að veiting hins kærða byggingarleyfis hafi verið lögmæt. Fyrst og fremst sé um að ræða breytingu á séreign og eigi 30. gr. laga um fjöleignarhús því ekki við í málinu.  Það að loka einum inngangi bílskúrsins teljist vera óveruleg breyting á sameign, en skv. 1. mgr. 26. gr. nefndra laga hafi eigandi einn rétt til hagnýtingar og umráða yfir séreign sinni með þeim takmörkunum einum sem leiði af lögum og óskráðum grenndarreglum, eðli máls eða sem byggjast á löglegum ákvörðunum húsfélagsins.  Þá segi enn fremur í 2. mgr. 27. gr. laganna að eigandi geti ekki sett sig upp á móti breyttri hagnýtingu séreignar sameiganda síns sé sýnt að hún hafi ekki í för með sér röskun á lögmætum hagsmunum hans.  Því hafi lokaniðurstaða byggingarfulltrúa verið sú að ekki væri þörf á samþykki sameigenda í þessu tilviki enda hafi engin röskun á lögmætum hagsmunum kæranda fylgt byggingarleyfinu. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að um sé að ræða lokun á dyrum á vesturhlið bílskúrs sem opnist út á sameiginlega gönguleið frá götu inn í sameiginlegan garð, en bílskúrinn sé séreign byggingarleyfishafa.  Á suðurhlið bílskúrsins hafi verið gluggi sem sagað hafi verið niður úr og sett hurð í staðinn sem engin áhrif hafi á möguleika til nýtingar umræddrar lóðar.  Hin hurðin hafi verið óþétt og illa farin og hafi þurft mikillar viðgerðar við.  Sökum misskilnings hafi framkvæmdir byrjað áður en endanlegt byggingarleyfi hafi verið gefið út.  Byggingarleyfið hafi hins vegar aldrei verið afturkallað svo sem kærandi haldi fram.  Í ljósi þess að um minni háttar framkvæmd hafi verið að ræða hafi samþykkis meðeigenda hússins ekki verið aflað, enda ekki talið að framkvæmdin hefði áhrif á sameiginleg afnot af lóðinni.  Byggingarleyfishafa hafi ekki verið kunnugt um neikvæða afstöðu annarra eigenda hússins til framkvæmdanna, en ekki hafi reynt á samþykki þeirra þar sem þær upplýsingar hafi fengist hjá byggingarfulltrúa að þess gerðist ekki þörf þar sem bílskúrinn væri séreign byggingarleyfishafa.  Að sjálfsögðu sé útivera í garðinum öllum heimil og hafi byggingarleyfishafi ekki hindrað það.  Gömul og illa farin hellulögn hafi verið til staðar við suðurenda bílskúrsins sem ráðist hafi verið í lagfæringar á.  Hellurnar hafi verið hreinsaðar upp og skipt út brotnum hellum til þess að hægt væri að ganga þarna um og njóta þess að sitja úti.  Þetta hafi ekki verið meiri háttar framkvæmd af hálfu byggingarleyfishafa heldur lagfæring á hellulögn sem fyrir hafi verið. 

Í kjölfar bréfs frá lögfræðingi byggingarfulltrúa, dags. 21. júní 2012, hafi byggingarleyfishafi leitað álits lögfræðings Húseigendafélagsins sem hafi komist að annarri niðurstöðu en lögfræðingur borgarinnar í nefndu bréfi og talið, með vísan til 1. mgr. 26. gr. og 2. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús, að samþykkis meðeigenda væri ekki þörf í umræddu tilfelli, enda sýnt að hún hefði ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum meðlóðarhafa. Endanlegt byggingarleyfi hafi verið veitt 5. september 2012 en 7. sama mánaðar hafi byggingarleyfishafa borist bréf frá byggingarfulltrúa þar sem beðist hafi verið afsökunar á fyrrgreindu bréfi, dags. 21. júní s.á., sem hefði verið yfirsjón að senda.  Hafi byggingarleyfishafi síðan, hinn 11. september 2012, upplýst kæranda símleiðis um að endanlegt byggingarleyfi hefði verið veitt. 

Breytingum á bílskúrnum sé lokið og vottorð um lokaúttekt hafi verið gefið út án athugasemda hinn 23. október 2012.  Farið hafi verið í einu og öllu að þeim reglum, leiðbeiningum og fyrirmælum byggingarfulltrúa en tilgangur breytinganna hafi verið lagfæring og viðhald bílskúrsins. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Af orðalagi 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 má ráða að við það verði að miða hvenær kæranda varð fyrst ljóst eða mátti verða ljóst að leyfið yrði veitt. 

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. maí 2012. Hinn 21. júní s.á. fékk byggingarleyfishafi senda tilkynningu frá lögfræðingi byggingarfulltrúa þess efnis að farið væri fram á að lagt yrði fram samþykki meðeigenda hússins fyrir framkvæmdinni áður en byggingarleyfi yrði gefið út.  Af málatilbúnaði aðila og fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærandi hafi frá þeim tíma staðið í þeirri trú að leyfi til umdeildra framkvæmda væri háð samþykki meðeigenda. Fyrir liggur að með símtali 11. september 2012 tilkynnti byggingarleyfishafi kæranda um það að endanlegt byggingarleyfi hefði verið afgreitt.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 9. október 2012 og verður með hliðsjón af framangreindu að telja að hún hafi borist innan lögmælts kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.  Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar. 

Skv. 2. mgr. 1. gr. laga um fjöleignarhús telst fjöleignarhús vera hvert það hús sem skiptast í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra.  Skv. 5. mgr. 1. gr. gilda lögin um lögskipti eigenda fullgerðra fjöleignarhúsa að lóðum meðtöldum.  Fellur fasteignin að Guðrúnargötu 8 undir lögin. 

Í málinu er deilt um hvort hið kærða byggingarleyfi, er varðar breytingar á bílskúr í séreign byggingarleyfishafa, hafi áhrif á hagnýtingu lóðar sem er í óskiptri sameign eigenda hússins.  Fyrir breytingum á séreign þarf ekki samþykki meðeigenda svo fremi sem sýnt sé fram á að þær hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum þeirra, sbr. 1. mgr. 26. og 2. mgr. 27. gr. nefndra laga.  Umræddar breytingar eru vissulega gerðar á séreign byggingarleyfishafa en breytingarnar hafa hins vegar áhrif á hagnýtingu sameiginlegrar óskiptrar lóðar vegna umgangs um hana að nýjum inngangi í séreign byggingarleyfishafa. Er því ekki unnt að fallast á að umræddar breytingar hafi ekki í för með sér röskun á lögmætum hagsmunum meðeigenda byggingarleyfishafa og þar af leiðandi að samþykkis þeirra sé ekki þörf fyrir breytingunum. Breytingin hefur í för með skerta möguleika til hagnýtingar sameiginlegrar lóðar og hefur þar með í för með sér breytingu á hagnýtingu sameignar sbr. 31. gr., sbr. 30. gr. nefndra laga. 

Samkvæmt 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 skulu með umsókn um byggingarleyfi fylgja hönnunargögn og önnur nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús.  Í máli þessu lá ekki fyrir samþykki meðeigenda, sem þó var áskilið samkvæmt því sem að framan er rakið.  Skorti því lagaskilyrði fyrir veitingu hins umdeilda byggingarleyfis og verður það því fellt úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. maí 2012 um að veita byggingarleyfi til að setja hurð í stað glugga á suðurgafl bílskúrs á lóð að Guðrúnargötu 8 og loka dyrum á vesturgafli hans. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

84/2012 Grundarstígur

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 24. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 84/2012 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. september 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2012 að veita leyfi til að byggja við kjallara hússins að Grundarstíg 10, Reykjavík, sal úr steinsteypu með steyptri loftplötu og torfi á þaki, steypa vegg á lóðamörkum að Grundarstíg nr. 8, setja op og hlið í vegg að Skálholtsstíg og breyta notkun einbýlishúsalóðar í lóð fyrir blandaða atvinnustarfsemi. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt krefst kærandi stöðvunar framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nægjanlega upplýst til að taka megi það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda. 

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg hinn 10. september 2012.

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 var samþykkt umsókn um hið kærða byggingarleyfi en áður hafði verið fjallað um umsóknina á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 3. s.m.  Var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 26. s.m. og byggingarleyfi gefið út af byggingarfulltrúa 14. mars s.á. 

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar byggingarleyfisins á þeim forsendum að breytingarnar brjóti í bága við 4. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, gildandi aðalskipulag Reykjavíkurborgar og þróunaráætlun miðborgarinnar. Framkvæmdirnar styðjist við deiliskipulag sem kærandi hafi skotið til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í lok árs 2011 með kröfu um ógildingu skipulagsins. Sem eigandi helmingshluta í húseigninni nr. 9 við Grundarstíg eigi kærandi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.  Augljóst sé að breytingarnar sem heimilaðar séu í byggingarleyfinu séu gerðar til að skapa aðstöðu fyrir tónleikahald og veitingarekstur inni í miðju íbúðarhverfi. 

Kærandi tekur fram að kæran sé svo seint fram komin af þeim sökum að byggingarleyfi séu ekki auglýst og því sé torsótt að fylgjast með hvenær slík leyfi séu veitt.  Þá hafi úrskurðarnefndin í svari sínu, dags. 16. janúar 2012, við fyrirspurn um móttöku kæru vegna deiliskipulags frá 12. desember 2011, er taki til umræddrar lóðar, upplýst að úrlausnar væri að vænta eftir sex mánuði og vildi kærandi því ekki flækja málið óþarflega með því að kæra væntanlegt byggingarleyfi að nauðsynjalausu.  Auk þess hafi eftirgrennslan kæranda um kæru deiliskipulagsins með tölvupóstum, dags. 7. júlí, 13. ágúst og 15. ágúst 2012 ekki borið árangur.  Ekki hafi orðið ljóst fyrr en með símtali við starfsmann nefndarinnar 28. ágúst 2012 að ekki væri von á úrskurði vegna kæru deiliskipulagsins á næstunni.  Kærandi búi erlendis og hafi því ekki átt kost á því að fylgjast með framkvæmdum að Grundarstíg 10 undanfarið hálft ár. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda í máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæran sé allt of seint fram komin.  Kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út hinn 14. mars 2012 og framkvæmdir hafist fljótlega, en úttekt á botni fyrir sökkul hafi farið fram 30. apríl 2012.  Hafi fjölmargar úttektir verið gerðar á byggingunni síðan.  Telja verði því að kæranda hafi fyrir löngu mátt vera kunnugt um framkvæmdirnar.  Breyti engu í því sambandi þó kærandi sé búsettur erlendis, mönnum sé alla jafna í lófa lagið að fylgjast með framkvæmdum með einum eða öðrum hætti þrátt fyrir búsetu annars staðar.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. 

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík var tekin á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. janúar 2012 og byggingarleyfið var gefið út 14. mars s.á.  Í máli þessu liggur fyrir úrtak úr færslubók þar sem fram kemur að úttekt fór fram 30. apríl s.á. á botnplötu viðbyggingar.  Verður að telja að kæranda hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákörðun frá þeim tíma.  Kæra barst úrskurðarnefndinni um fjórum mánuðum eftir greint tímamark eða 3. september 2012 og var kærufrestur þá löngu liðinn.  Ekki þykja efni til að taka kærumál þetta til meðferðar að liðnum kærufresti.  Fyrrgreind undanþáguákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimila að mál sé tekið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti, ber að túlka þröngt og verða þau ekki talin eiga við um persónulegar ástæður á borð við ferðir eða dvöl aðila fjarri eigin fasteign.  Ber því að vísa  máli þessu frá úrskurðarnefndinni skv. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________________
Ómar Stefánsson

108/2008 Tjarnargata

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 4. desember kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður nefndarinnar, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 108/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 við Tjarnargötu

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. nóvember 2008, er barst nefndinni 1. desember s.á., kærir Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl., f.h. H, Suðurgötu 15, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2008 að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 að Tjarnargötu í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 23. s.m. 

Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krafðist kærandi þess að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar yrðu stöðvaðar.  Þegar úrskurðarnefndin fékk upplýsingar um framvindu framkvæmda eftir að þær hófust voru þær vel á veg komnar og í ljósi þess, og með hliðsjón af því að hluti heimilaðra viðbygginga eru glerbyggingar sem auðvelt væri að fjarlægja ef til þess kæmi, þótti að svo komnu ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfunnar um stöðvun framkvæmda.   Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. apríl 2008 var lögð fram umsókn framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar um byggingarleyfi fyrir breytingum á innra fyrirkomulagi Tjarnarbíós að Tjarnargötu 12 og fyrir tveggja hæða steinsteyptri inngangsbyggingu, með glerþaki að hluta sem lægi að húsi nr. 10d við Tjarnargötu, glerskála í miðhluta ports, með kaffibar, ásamt breikkun hússins Suðurgötumegin til samræmis við Suðurgötu 15.  Þá var sótt um leyfi fyrir stækkun lóðar hússins.  Var afgreiðslu málsins frestað.  Að lokinni umfjöllun um málið á nokkrum fundum skipulagsstjóra og byggingarfulltrúa var samþykkt að vísa málinu í grenndarkynningu.  Umsóknin var grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum að Tjarnargötu 10d og Suðurgötu 15 og bárust athugasemdir m.a. frá kæranda.  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 15. ágúst 2008 var lögð fram umsögn um brunatæknilegar lausnir, dags. 14. ágúst 2008, og umsögn, dags. 2. júlí s.á., varðandi hönnun loftræsikerfis.  Breytingar voru gerðar á teikningunum þar sem m.a. voru felldar út svalir á þaki anddyrisbyggingar ásamt því að frambyggt stigahús við inngang var fellt út og stigi færður inn.  Þá var gert ráð fyrir aðgengi slökkviliðs að bakgarði fjölbýlishúsa inn í miðju skálans.  Hætt var við stækkun lóðar. 

Umsókn um téðar byggingarframkvæmdir var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 21. október 2008, en þar lágu m.a. fyrir niðurstöður forhönnunar brunavarna frá því í september s.á.  Var í ákvörðuninni tekið fram að frágangur á lóðamörkum yrði í samráði við rétthafa aðliggjandi lóða og að þinglýst yrði kvöð um bann við umferð annarra en slökkviliðs um dyr inn í portið að baki hússins.  Fól hin kærða samþykkt í sér stækkun 1. hæðar hússins um 140,3 m², 2. hæðar um 72,3 m² og 3. hæðar um 47,8 m², eða samtals 260,4 m². 

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar þeim rökum að umræddar breytingar feli í sér brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar og annarra reglna um brunavarnir.  Verði með óafturkræfum hætti lokað fyrir aðkomu að porti milli húsa við Tjarnargötu og Suðurgötu.  Verulegar athugasemdir hafi verið gerðar á sínum tíma af hálfu eldvarnareftirlits við að umræddum inngangi inn í portið yrði lokað með steinvegg og þess hafi verið krafist að þar yrði léttur opnanlegur tréveggur til að tryggja aðkomu slökkviliðs og körfubíla inn í portið.  Nú hafi hins vegar verið samþykkt að loka varanlega fyrir þennan inngang.  Samkvæmt skýrum ákvæðum b-liðar 1. mgr. gr. 137.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli öll húsaskipan og aðgengi fyrir björgunarmenn vera með þeim hætti að aðstaða til björgunar sé sem auðveldust.  Þá sé í gr. 158.2 í sömu reglugerð gert ráð fyrir að flóttaleiðir og aðgengi að þeim skuli vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar.  Með því að loka algerlega fyrir aðkomu slökkviliðs- og körfubíla inn í portið milli húss kæranda og húsanna Tjarnargötumegin verði flóttaleiðir úr húsunum skertar verulega og möguleikar takmarkaðir á björgun fólks af efri hæðum ef til eldsvoða komi.  Þá virðist ekki hafa farið fram nein sérstök úttekt á þessum þætti málsins eða athugasemdum kæranda í þessa veru.  Sé því ljóst að ekki hafi verið sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Því beri að fella ákvörðunina úr gildi samkvæmt grunnreglum stjórnsýslulaga. 

Hið kærða byggingarleyfi heimili að reistar verði viðbyggingar sem hvort tveggja séu sambyggðar og áfastar Tjarnargötu 10d og Suðurgötu 15 og sé slíkt óheimilt án samþykkis eigenda umræddra húsa.  Styðjist það m.a. við ákvæði 30. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og meginreglur um grenndarrétt.  Fyrir liggi að ekkert slíkt samþykki hafi verið veitt fyrir breytingunum og teljist þær því ólögmætar. 

Nefnd ákvörðun sé auk þess haldin þeim annmarka að skipulags- og byggingarsvið Reykjavíkurborgar hafi verið vanhæft til að fjalla um umsókn byggingarleyfishafa.  Báðir aðilar séu hluti af stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og starfi á ábyrgð borgarstjórnar, sem hafi endanlegt ákvörðunarvald varðandi málefni beggja.  Við afgreiðslu málsins sé stjórnvald því að fjalla um eigin umsókn um byggingarleyfi.  Fari sú málsmeðferð í bága við 1., 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.  Jafnframt sé vísað til ólögfestra hæfisreglna stjórnsýsluréttar þessu til stuðnings og bent á að útilokað verði að telja að leyfisveitandi geti litið óhlutdrægt á eigin umsókn, sem varði verulega hagsmuni, og tekið hlutlausa afstöðu til mótmæla kæranda. 

Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda um stækkun lóðar Tjarnargötu 12 vegna fyrirhugaðra breytinga og kærandi hafi aldrei veitt samþykki sitt fyrir þeirri stækkun.  Hins vegar virðist byggt á því að samþykki hafi legið fyrir og því sé ákvörðunin ólögmæt. 

Með ákvörðuninni sé einnig brotið gegn lögvörðum grenndarrétti kæranda.  Gert sé ráð fyrir að inni í portinu verði byggt glerhýsi sem nýtt verði undir veitingarekstur með tilheyrandi hávaða og ónæði fyrir íbúa nærliggjandi húsa.  Augljóst sé að slíkur rekstur myndi hafa veruleg óþægindi í för með sér fyrir kæranda, þar sem hljóðeinangrun í slíku glerhýsi yrði lítil sem engin, auk þess sem hávaði myndi magnast upp inni í portinu vegna bergmáls.  Breytingunum fylgi verulegt rask fyrir kæranda og fyrirsjáanlega verðrýrnun á fasteign hennar.  Samkvæmt teikningum sé gert ráð fyrir vélbúnaði fyrir loftræstingu á annarri hæð byggingar við hlið Suðurgötu 15, með tilheyrandi hávaða og ónæði fyrir íbúa nærliggjandi íbúða.  Umræddur búnaður verði væntanlega í notkun á kvöldin og um helgar, eða á starfstíma Tjarnarbíós.  Það sé óásættanlegt fyrir kæranda og veruleg röskun á heimilisfriði og friðhelgi einkalífs.  Þá muni tveggja hæða bygging við mynni húsasunds milli Tjarnargötu 12 og Tjarnargötu 10d valda verulegu skuggavarpi inn í portið sem skerði notkunarmöguleika þess. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að gögn málsins beri með sér að hönnunargögn, og þar með talin brunatæknileg úttekt í tilefni af umdeildri leyfisveitingu, hafi verið samþykkt af forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins með áritun þar um.  Þá þurfi ekki samþykki  lóðarhafa aðliggjandi lóða  fyrir breytingunum en samkvæmt bókun byggingarfulltrúa beri að hafa samráð við þá um frágang á lóðamörkum. 

Reykjavíkurborg telji málsástæðu kæranda um vanhæfi fráleita og bendi á að engin ákvæði sé að finna í lögum um sérmeðferð skipulags- og byggingarmála vegna þeirra fasteigna og/eða lóða sem séu í eigu sveitarfélaga. 

Vísað sé til meðfylgjandi gagna og umsagna vegna brunatæknilegra atriða og hljóðvistar.  Bent sé á að frá fyrstu umsókn um breytingar á Tjarnargötu 12 hafi m.a. verið horfið frá því að byggja stigahús út fyrir núverandi lóðamarkalínu.  Aðkoma að baklóðum milli Tjarnargötu og Suðurgötu verði um port frá Vonarstræti og settar verði tvíbreiðar dyr á glerskála Tjarnarbíós sem aðkomuleið fyrir slökkvilið að baklóðum.  Samkvæmt brunahönnun verði dyrnar hvorki skilgreindar né notaðar sem flóttaleið frá Tjarnarbíói.  Núverandi bygging, sem sé tveggja hæða með timburþaki og liggi að Suðurgötu 15, verði rifin.  Þar verði í staðinn byggð tveggja hæða bygging með risþaki sem verði stærri að grunnfleti.  Nýjar byggingar muni liggja upp að húsunum Tjarnargötu 10d og Suðurgötu 15 en verði hvorki sambyggðar né áfastar eins og haldið sé fram í kærunni.  Vélbúnaður fyrir loftræsikerfi verði áfram sá sami og notaður hafi verið í húsinu um árabil. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 21. október 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 við Tjarnargötu í Reykjavík.  Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag. 

Í 2. mgr. 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var sú meginregla sett að gera skyldi deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir væru fyrirhugaðar.  Í 3. mgr. ákvæðisins var þó heimilað að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag.  Kusu borgaryfirvöld að neyta þeirrar undanþáguheimildar laganna og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina skv. 7. mgr. 43. gr. þeirra.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 1. og 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem sagði að fara skyldi með breytingu á deiliskipulagi eins og um nýtt skipulag væri að ræða nema breytingar væru óverulegar. 

Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til þess hversu umfangsmikil hún er í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddri lóð eða svæði og hver grenndaráhrif hennar eru á nærliggjandi eignir.  Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá er lóðin nr. 12 við Tjarnargötu 1.042 m² að flatarmáli en húsið 1.572,3 m².  Samkvæmt samþykktum byggingarleyfisteikningum er heimiluð stækkun hússins hins vegar 260,4  m².  Verður húsið því samtals 1.832,7 m² að flatarmáli eftir stækkun og nýtingarhlutfall lóðarinnar því 1,76.  Nýtingarhlutfall nágrannalóðanna að Suðurgötu 15 og Tjarnargötu 10d er 2,0 og 2,3. 

Þegar litið er til þess að um er að ræða þétta byggð á miðborgarsvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi, að heimiluð stækkun umrædds húss felur ekki í sér hækkun þess eða að nýtingarhlutfall lóðar verði hærra en gerist og gengur á svæðinu og heimilaðri notkun er ekki breytt, verður hin umrædda breyting að teljast óveruleg.  Var skipulagsyfirvöldum því heimilt að grenndarkynna fyrirhugaðar framkvæmdir skv. 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Af sömu ástæðum verða grenndaráhrif heimilaðra breytinga ekki slík að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Skipulags- og byggingaryfirvöldum sveitarfélaga er falið lögum samkvæmt að fara með skipulags- og byggingarmál og taka ákvarðanir á þeim sviðum, s.s. með því að taka afstöðu til byggingarleyfisumsókna.  Er það ekki á færi annarra stjórnvalda að taka slíkar ákvarðanir og gæta þeirra opinberu hagsmuna sem m.a. þarf að líta til við töku ákvarðana.  Vanhæfisreglur stjórnsýslunnar fjalla um sérstakt hæfi einstaklinga, í ljósi persónulegra hagsmuna eða tengsla, sem í krafti starfs síns eða embættis í opinberri stjórnsýslu koma að meðferð máls og töku ákvarðana.  Þær reglur lúta ekki að hæfi stjórnvalds til að sinna þeim skyldum sem þeim er ætlað lögum samkvæmt.  Kemur því ekki til álita að ógilda hina kærðu ákvörðun á grundvelli reglna um vanhæfi. 

Fyrir liggur í málinu umsögn um brunatæknilegar lausnir, dags. 14. ágúst 2008, vegna umdeildra framkvæmda og niðurstöður forhönnunar brunavarna frá september 2008, þar sem fram kemur að aðgangur að baklóðum verði áfram um port frá Vonarstræti og settar verði tvíbreiðar dyr á glerskála Tjarnarbíós sem aðkomuleið fyrir slökkvilið að baklóðum.  Í greindri umsögn kemur fram að fyrirhugaðar framkvæmdir við endurgerð og viðbyggingu komi ekki til með að hafa neikvæð áhrif á aðstöðu slökkviliðs til björgunar- og slökkvistarfa, enda verði áfram möguleikar á aðkomu slökkviliðs að baklóðunum úr tveimur áttum.  Brunatæknileg úttekt á erindinu var samþykkt af forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.  Af þessu verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið ákvæða laga og reglugerða um brunavarnir við hönnun umdeildra breytinga og leitað til þar til bærra aðila í þeim efnum.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að byggingarefni umdeildra viðbygginga og hönnun hafi uppfyllt kröfur þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um hljóðvist.  Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka.    

Samkvæmt samþykktum teikningum liggja heimilaðar viðbyggingar við Tjarnargötu 12 að húsi kæranda á lóðamörkum.  Fasteignirnar standa hvor á sinni lóð og teljast því sjálfstæðar fasteignir í skilningi 3. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.  Af þeim sökum áskilja nefnd lög ekki samþykki kæranda þótt byggt sé að lóðarmörkum hans og ekki er að finna reglu á öðrum réttarsviðum sem áskilur samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar vegna mannvirkjagerðar að lóðarmörkum.  Samþykki kæranda var því ekki skilyrði þess að umdeilt byggingarleyfi var veitt. 

Varðandi athugasemdir kæranda um að ekkert samráð hafi verið haft vegna stækkunar lóðarinnar er rétt að benda á að fallið var frá þeim áformum. 

Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. október 2008 um að veita leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við húsið á lóðinni nr. 12 við Tjarnargötu. 

________________________________
Ómar Stefánsson

_______________________________          _____________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

1/2011 Tjarnarmýri

Með

Árið 2012, þriðjudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 1/2011, kæra á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010 um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri og ákvörðun nefndarinnar að samþykkja breytt byggingarleyfi fyrir greindu húsi hinn 2. desember s.á.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. desember 2010, er barst nefndinni 3. janúar 2011, kæra Á, B, H, M og S, Suðurmýri 16 og E, Suðurmýri 14, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010 að veita byggingarleyfi fyrir tveggja hæða íbúðarhúsi á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri og ákvörðun nefndarinnar að samþykkja breytt byggingarleyfi fyrir greindu húsi hinn 2. desember s.á.  Bæjarstjórn Seltjarnarness staðfesti nefndar ákvarðanir hinn 26. maí og 6. desember 2010.  Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Umsókn byggingarleyfishafa um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús barst skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness 21. janúar 2010.  Umrætt svæði hefur byggst upp án þess að hafa verið deiliskipulagt.  Hinn 16. mars s.á. var samþykkt á fundi nefndarinnar að grenndarkynna umsóknina með ákveðnum breytingum.   Athugasemdir bárust og voru þær lagðar fram á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 14. maí 2010.  Var umsóknin samþykkt og sú ákvörðun staðfest í bæjarstjórn 26. maí s.á.  Byggingarleyfi var gefið út 30. júní 2010.  Sótt var um breytingar á veittu byggingarleyfi hússins og samþykkti skipulags- og mannvirkjanefnd að grenndarkynna umsóknina en síðar var sú grenndarkynning dregin til baka og framkvæmdir við byggingu hússins stöðvaðar. 

Hinn 12. október 2010 var tekin fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd ný umsókn um breytingar á byggingarleyfi hússins að Tjarnarmýri 2 sem samþykkt var að grenndarkynna.  Að grenndarkynningu lokinni var umsóknin samþykkt á fundi nefndarinnar hinn 2. desember 2010 og sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 6. s.m.  Nýtt byggingarleyfi var síðan gefið út 9. desember 2010 og hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að hin kærða leyfisveiting og framkvæmdir gangi gegn grenndarhagsmunum þeirra.  Um sé að ræða nýtt og mikið breytt byggingarleyfi fyrir Tjarnarmýri 2.  Á lóðinni hafi átt að rísa tveggja hæða einbýlishús en þegar liðið hafi á uppsteypu þess hafi komið í ljós að framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við hinar grenndarkynntu teikningar frá 22. mars 2010, sem sýni húsbygginguna samsíða lóðarlínu milli Tjarnarmýrar 2 og Suðurmýrar 14 og 16. 

Í ágúst 2010 hafi byggingarfulltrúa Seltjarnarness verið greint frá grunsemdum kærenda um að húsið sem verið væri að reisa að Tjarnarmýri 2 væri ekki í samræmi við grenndarkynningargögn og útgefið byggingarleyfi.  Standi húsið m.a. innan við þrjá metra frá lóðarmörkum, sem snúi að Suðurmýri 14 og 16, og væru þrjú gluggaop á lagnakjallara á þeirri hlið.  Fyllt hafi verið í gluggaopin með einangrunarplasti og dregið yfir með múrblöndu.  Stigahús sé milli fyrstu hæðar hússins og lagnakjallarans auk þess sem útitröppur hafi verið settar við kjallarainngang Tjarnarmýrarmegin.  Loks væri dyraop ásamt tröppum utan á einum útvegg lagnakjallarans. 

Í grenndarkynntum gögnum frá 13. október 2010 komi fram að húsið að Tjarnarmýri 2 standi ekki samsíða lóðarmörkin og sé 3 til 33 cm nær lóðarmörkum Suðurmýrar 14 og 16 en gert hafi verið ráð fyrir við fyrri grenndarkynningu.  Við seinni grenndarkynningu hafi kærendur gert athugasemdir við nýtingarhlutfall lóðarinnar, staðsetningu hússins á lóðinni og vegghæð þess, en hvoru tveggja varpi auknum skugga á lóðir Suðurmýrar 14 og 16. 

Allri málsmeðferð vegna byggingar hússins að Tjarnarmýri 2 hafi verið ábótavant af hálfu bæjaryfirvalda og hafi lögvörðum hagsmunum kærenda verið raskað.  Byggingarfulltrúi bæjarins hafi framselt eftirlitsskyldu sína á úttektum á húsinu til aðila sem sjálfur hafi gert teikningarnar að húsinu og hafi hann því haft eftirlit með sjálfum sér.  Ekki hafi verið grenndarkynnt að nýju og gefið út nýtt, breytt byggingarleyfi samkvæmt nýjum teikningum fyrr en að lokinni uppsteypu hússins.   Þá hafi einnig reynst erfitt að fá svör við erindum sem send hafi verið bæjaryfirvöldum vegna málsins.  Stærð og staðsetning umdeildrar byggingar valdi auknu skuggavarpi og takmarki möguleika kærenda til nýtingar fasteigna sinna. 

Málsrök Seltjarnarness:  Af hálfu Seltjarnarness er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og að samþykkt skipulags- og byggingarnefndar frá 2. desember 2010 verði staðfest. 

Í byrjun júní 2010 hafi lóðarhafi óskað eftir leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi húss ásamt afleiddum útlitsbreytingum samkvæmt uppdráttum.  Ekki hafi verið fjallað um málið á formlegan hátt vegna sumarleyfa og hafi því, að höfðu samráði við bæjarstjóra, verið veitt leyfi til að halda framkvæmdum áfram samkvæmt nýjum uppdráttum, með tölvubréfi 8. júlí 2010, með þeim fyrirvara að umsóknin yrði tekin fyrir á næsta fundi skipulags- og mannvirkjanefndar að loknum sumarleyfum.  Nefndin hafi ítrekað með tölvupósti 26. júní s.á. að kjallaratröppur á uppdrætti væru ekki innan þeirrar heimildar. 

Í ágúst s.á. hafi umsókn um framangreindar breytingar og uppdrættir verið lagðir fram.  Samþykkt hafi verið að vísa umsókninni til grenndarkynningar.  Áður en tímabili grenndarkynningar væri lokið hafi komið í ljós að settur hafði verið kjallaragluggi á austurhlið kjallararýmis.  Við nánari skoðun hafi einnig komið í ljós að kjallari væri mun dýpri en tilkynnt hefði verið um, auk þess sem vísbendingar hefðu verið um að nýta ætti hann til búsetu.  Þar sem umræddar framkvæmdir hafi ekki verið í samræmi við fyrirliggjandi uppdrætti hafi þær verið stöðvaðar þegar í stað og það tilkynnt eiganda og byggingarstjóra í bréfi, dags. 18. ágúst 2010.  Auk þess hafi annar úttektaraðili verið fenginn til að taka framvegis að sér úttektir á framkvæmdum, því engar tilkynningar um misræmi hafi borist byggingarfulltrúa frá fyrri úttektaraðila.  Málið hafi verið tekið aftur upp á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 31. ágúst 2010 og eftirfarandi bókað:  „Grenndarkynning dags. 18.8. 2010 dregin til baka.  Framkvæmdastöðvun gildir enn.  Eiganda gert að framvísa nýjum uppdráttum – Formanni nefndarinnar gefið umboð til að afgreiða málið milli funda.“  Loks hafi umsókn um breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi verið samþykkt á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 2. desember 2010 og staðfest af bæjarstjórn Seltjarnarness 6. s.m. 

Varðandi fjarlægð hússins frá lóðarmörkum til austurs sé byggingin staðsett samkvæmt aðaluppdrætti en þegar hún hafi verið komin vel á veg hafi nágrannar talið að skekkja væri á útsetningu hússins.  Í ljós hafi komið að lóðin væri örlítið minni en fram kæmi á mæliblaði.  Þar sem langhliðar lóðar til austurs og vesturs væru ekki samsíða hafi húsið verið stillt af miðað við legu götu vestan húss en þess gætt að suðausturhorn væri rétt, þ.e. í þriggja metra fjarlægð frá lóðamörkum.  Áhrifin af þessu séu þó hverfandi ef skuggavarpslíkan sé skoðað.  Ekkert athugavert sé við staðsetningu hússins að Tjarnarmýri 2 og hún sé í samræmi við gildandi afstöðumynd.  Því hafi í raun ekki verið ástæða til að upplýsa nágranna um endanlega útsetningu þess. 

—————-

Lóðarhöfum Tjarnarmýrar 2 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum í máli þessu en engar athugasemdir eða andmæli hafa borist frá þeim. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi ákvarðana skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí og 2. desember 2010 um veitingu byggingarleyfa vegna hússins að Tjarnarmýri 2, sem bæjarstjórn staðfesti 26. maí og 6. desember s.á. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru þegar hinar kærðu ákvarðanir voru teknar, er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun.  Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema afsakanlegt þyki að kæra hafi borist of seint eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 3. janúar 2011, eða rúmum sjö mánuðum eftir að bæjarstjórn staðfesti fyrri ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar um byggingarleyfi fyrir umræddu húsi og rúmum sex mánuðum eftir útgáfu byggingarleyfisins.  Þá mun uppsteypu hússins hafa verið lokið í ágústmánuði 2010.  Af þessum ástæðum verður að telja að kæra vegna hins fyrra byggingarleyfis hafi borist að liðnum kærufresti og ekki liggja fyrir þær ástæður sem réttlæti að málið verði tekið til efnismeðferðar að því er varðar greint byggingarleyfi.  Verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 2. desember 2010, um að veita heimild fyrir breyttu byggingarleyfi vegna Tjarnarmýrar 2, fól fyrst og fremst í sér þá breytingu frá fyrra byggingarleyfi að heimiluð lofthæð kjallararýmis hússins, sem er 97,2 m² að flatarmáli, fór úr 1,8 m í 2,65.  Ekki er í hinni kærðu ákvörðun heimilað að setja glugga eða dyraop á útveggi kjallararýmisins.

Í 74. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem í gilda var við töku hinnar kærðu ákvörðunar, er sett fram það viðmið að hver hæð í íbúðarhúsi skuli vera 2,7-2,8 m frá gólfi að yfirborði næstu gólfplötu, en þó þannig að lofthæð verði aldrei minni en 2,5 m.  Átti þessi regla við þegar ekki var til að dreifa ákvæðum í deiliskipulagi um vegghæðir húsa.  Samkvæmt 9. mgr. 2. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga skal miða við brúttóflatarmál húss við útreikning nýtingarhlutfalls.  Hugtakið brúttóflatarmál er skilgreint í ÍST 50, gr. 4.4, á þann veg að um sé að ræða samanlagt brúttóflatarmál allra hæða byggingar, sem m.a. geta verið að hluta eða að öllu leyti niðurgrafnar.  Samkvæmt þessu telst kjallari hússins hæð sem taka skal tillit til við útreikning nýtingarhlutfalls lóðar.  Samkvæmt aðaluppdrætti er lóðin að Tjarnarmýri 2  413,5 m2 og brúttóflatarmál húss að kjallara meðtöldum 318,3 m2.  Nýtingarhlutfall lóðarinnar verður því 0,77 en ekki 0,53 eins fram kemur á samþykktum teikningum.  Miðað við upplýsingar úr fasteignaskrá er nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða á þeim götureit sem Tjarnarmýri 2 tilheyrir um og innan við 0,5 að tveimur lóðum undanskildum, sem hafa nýtingarhlutföllin 0,57 og 0,75. 

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga sem og 9. og 43. gr. sömu laga, verður byggingarleyfi að eiga sér stoð í deiliskipulagi.  Frá þeirri meginreglu er að finna undantekningu í 3. mgr. 23. gr. laganna, um heimild sveitarstjórnar til að veita leyfi til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu.  Við afmörkun undantekningarreglunnar gagnvart meginreglunni hefur verið talið að skýra beri ákvæðið til samræmis við 2. mgr. 26. gr. sömu laga þar sem heimilað er að gera óverulegar breytingar á deiliskipulagi með grenndarkynningu.  Þegar meta skal hvort bygging teljist einungis hafa í för með sér óverulegar breytingar verður m.a. að líta til byggðamynsturs og þéttleika byggðar og þess hversu umfangsmikil hún er í hlutfalli við þær byggingar sem fyrir eru á umræddu svæði og hver grenndaráhrif hennar eru á nærliggjandi eignir. 

Telja verður að með umdeildu byggingarleyfi sé vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gildir um sambærilegar lóðir á svæðinu að óheimilt hafi verið að veita byggingarleyfið á grundvelli undantekningarreglu 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Hefði það jafnframt verið í betra samræmi við stefnu núgildandi aðalskipulags Seltjarnarness, um að unnið verði deiliskipulag fyrir einstök svæði þar sem mörkuð verði stefna um þéttingu byggðar í eldri hverfum, að unnið hefði verið deiliskipulag fyrir umræddan götureit áður en afstaða var tekin til umsóknar um umdeilt byggingarleyfi. 

Með hliðsjón af framansögðu verður hin kærða ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 2. desember 2010, um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Tjarnarmýri 2, felld úr gildi.  Aðrar kröfur kærenda er snúa að tilteknum aðgerðum vegna byggingar umdeilds húss heyra ekki undir úrskurðarnefndina og verður því engin afstaða tekin til þeirra í máli þessu. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 14. maí 2010, um að veita byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á tveimur hæðum á lóðinni nr. 2 við Tjarnarmýri, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 2. desember 2010, sem bæjarstjórn staðfesti 6. s.m., um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með sambyggðum bílskúr á lóð nr. 2 við Tjarnarmýri. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

33/2012 Skútuvogur

Með

Árið 2012, fimmtudaginn 18. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 33/2012, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að veita leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. apríl 2012, er barst nefndinni 26. s.m., kærir S, eigandi eignarhluta í húsinu að Skútuvogi 12 K, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 að samþykkja umsókn um leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog og gera breytingu á brunavörnum hússins.  Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Matshluti 030102 að Skútuvogi 12 J-K mun hafa verið notaður fyrir vörulager heildverslunar, en lóðin er skráð sem viðskipta/þjónustulóð í fasteignaskrá Þjóðskrár.  Er lóðin á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 24. janúar 2012 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í rými 0102, matshluta 03, og gera breytingar á brunavörnum í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog. Erindinu var frestað með vísan til athugasemda á umsóknarblaði.  Umsóknin var næst tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 7. febrúar s.á. og afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010. Áskilið samþykki heilbrigðiseftirlits. Áskilin lokaúttekt byggingarfulltrúa.“  Með tölvubréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 8. mars 2012, kom fram að kærandi hefði haft spurnir af því að fyrrgreint leyfi hefði verið veitt án samráðs við aðra eigendur hússins og var óskað nánari upplýsinga.  Ítrekaði kærandi fyrirspurn sína með bréfi, dags. 12. apríl s.á., og fór m.a. fram á að upplýst yrði með rökstuddum hætti hvers vegna ekki hefði verið haft samráð við aðra eigendur hússins áður en ákvörðun var tekin.  Barst kæranda svar frá skipulags- og byggingarsviði með tölvubréfi hinn 16. s.m., ásamt upplýsingum um kærurétt.  Skaut kærandi eftir það fyrrgreindri ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar eins og áður er getið. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að hún sé eigandi rýmis sem staðsett sé fyrir ofan samþykkt hjólbarðaverkstæði og hafi eiginmaður hennar haft þar vinnuaðstöðu síðastliðin níu ár.  Hafi ekkert samráð verið haft við hana eða aðra eigendur að húseigninni vegna umræddrar leyfisveitingar.  Telji kærandi að starfsemi sú er heimiluð hafi verið í húsinu muni valda verulegum óþægindum, s.s. vegna aukinnar umferðar, hávaða og lyktar, auk eldhættu.  Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið á rétt sameigenda umrædds fjöleignarhúss og verðgildi eignar kæranda rýrt verulega. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Í greinargerð Reykjavíkurborgar, er barst úrskurðarnefndinni hinn 14. júní 2012, er tekið fram að ekki hafi verið þörf á samþykki meðeigenda fyrir umræddri starfsemi, sem sé í samræmi við skipulag svæðisins.  Um atvinnuhúsnæði sé að ræða á skilgreindu athafnasvæði samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur, en á athafnasvæðum sé gert ráð fyrir verkstæðum, vörugeymslum og iðnaði sem ekki hafi í för með sér mengun.  Almennt sé ekki gert ráð fyrir íbúðum á athafnasvæðum, nema íbúðum sem tengdar séu starfsemi á svæðinu.  Engin lagaskylda hafi því hvílt á skipulagsyfirvöldum til að hafa samráð við kæranda.  Sé húsnæði tekið til íbúðarnota á skilgreindum athafnasvæðum megi íbúar alltaf búast við að starfsemi á svæðinu geti haft í för með sér einhver óþægindi, s.s. vegna umferðar, lyktar og hávaða. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er áréttað að gerðar hafi verið umfangsmiklar úrbætur á umræddu húsnæði til að fullnægja kröfum um eldvarnir og hafi eftir það verið veitt byggingarleyfi og starfsleyfi fyrir þeirri stafsemi sem um sé að ræða.  Áður hafi verið lager fyrir heildverslun í húsnæðinu og hafi töluvert af gámum fylgt þeirri starfsemi. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er meðal skilyrða fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.  Í máli þessu er af hálfu borgaryfirvalda vísað til gildandi aðalskipulags og virðist lagt til grundvallar að ekki sé í gildi deiliskipulag að umræddu svæði.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Þó er heimilt að undangenginni grenndarkynningu skv. 44. gr. laganna að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag enda sé fyrirhuguð framkvæmd í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.  Segir jafnframt í ákvæðinu að skipulagsnefnd sé heimilt að falla frá grenndarkynningu ef sýnt sé fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjanda. 

Eins og atvikum er hér háttað verður að telja að heimilt hafi verið að falla frá grenndarkynningu enda verður ekki séð að umdeild breyting á notkun húsnæðis á skilgreindu athafnasvæði hafi verið til þess fallin að raska hagsmunum nágranna.  Er þá við það miðað að kærandi og aðrir sameigendur byggingarleyfishafa að fasteigninni að Skútuvogi 12 teljist ekki nágrannar í skilningi 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, enda ræðst réttarstaða þeirra af ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 þar sem kveðið er á um réttindi þeirra og skyldur varðandi fjöleignarhúsið. 

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. tilvitnaðra laga um fjöleignarhús eru breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum, háðar samþykki allra eigenda hússins.  Samkvæmt ákvæðinu er ekki þörf á samþykki sameigenda fyrir breytingu á hagnýtingu séreignarhluta sé breytingin í samræmi við það sem verið hafi eða gert hafi verið ráð fyrir í upphafi.  Eins og áður hefur verið rakið er húsið að Skútuvogi 12 á skilgreindu athafnasvæði og samræmist rekstur dekkjaverkstæðis slíkri landnotkun.  Að því gættu verður að telja að notkunin samræmist því sem ráð hafi verið gert fyrir í upphafi og ekki hafi því verið skylt að afla samþykkis sameigenda í húsinu vegna umræddrar breytingar, enda snertir hún aðeins notkun séreignarhluta en varðar ekki sameiginlegt rými í húsinu.  Var byggingarfulltrúa því rétt að veita hið umdeilda byggingarleyfi og verður kröfu kæranda um ógildingu þess þar af leiðandi hafnað.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist lítillega sökum anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar 2012 um að samþykkja leyfi til að innrétta hjólbarðaverkstæði í matshluta 030102 í húsinu nr. 12 J-K við Skútuvog í Reykjavík. 

 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________          ______________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson