Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

69/2024 Horn 1

Með

Árið 2024, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 7. júní 2024 um að synja umsókn Litlahorns ehf. um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Þá var einnig kærð ákvörðun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 16. júlí s.á. um að veita megi byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júlí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Litlahorn ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 7. júní 2024 um að synja umsókn þess um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 22. júlí 2024.

Málavextir: Hinn 9. maí 2024 sótti Litlahorn ehf. um byggingarleyfi á jörðinni Horni 1 fyrir viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu með sex herbergjum fyrir 12 gesti. Á fundi umhverfis- og skipulags­nefndar 5. júní s.á. var umsókn kæranda synjað. Nefndin taldi uppbyggingu á svæðinu ekki heimila þar sem fram kæmi í aðalskipulagi að hún skyldi vera samkvæmt deiliskipulagi. Undanþáguákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 væri ekki uppfyllt þar sem byggingaráformin samræmdust ekki aðalskipulagi. Byggingarfulltrúi synjaði kæranda um byggingarleyfi með tölvupósti 7. s.m. Í kjölfarið sendi kærandi byggingarfulltrúa, umhverfis- og skipulags­nefnd og skipulagsfulltrúa bréf, dags. 9. s.m., þar sem afgreiðslunni var mótmælt. Með bréfi, dags. 17. s.m., fór kærandi fram á endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar sveitar­félagsins á grundvelli 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til vara óskaði hann eftir heimild til að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir framkvæmdasvæðið. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 2. júlí s.á. og var beiðni um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar hafnað, en samþykkt að veita heimild til að vinna deiliskipulag fyrir hið umrædda svæði.

Á fundi bæjarráðs 16. júlí 2024 var umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1 tekin fyrir. Um var að ræða 63,6 m2 viðbyggingu með 15,3 m2 vindfangi fyrir matsal og anddyri og stækkun á tæknirými um 9,6 m2 auk 141 m2 gistiálmu með sex herbergjum. Í fundargerð kom fram að samkvæmt aðalskipulagi væri umrætt svæði á reit VÞ 36, þar sem gert væri ráð fyrir m.a. ferðaþjónustu, gistingu, tjaldsvæði og þjónustuhúsi með veitingum. Í skilmálum fyrir reitinn kæmi fram að uppbygging væri heimil samkvæmt deiliskipulagi. Gert væri ráð fyrir allt að 120 gestum. Ekki væri til gildandi deiliskipulag fyrir svæðið, en að umsækjandi hefði upplýst sveitarfélagið um að deiliskipulag væri í vinnslu. Heimilaði bæjarráð að veita mætti byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, enda hefði kærandi hafið vinnu við gerð deiliskipulags. Þá var samþykkt að falla frá grenndarkynningu skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga þar sem að mati bæjarráðs varðaði framkvæmdin ekki hagsmuni annarra en umsækjanda. Á grundvelli heimildar bæjarráðs samþykkti byggingarfulltrúi aðaluppdrætti 15. ágúst 2024. Byggingarheimild fyrir umræddri framkvæmd var svo gefin út 3. september s.á.

Með bréfi, dags. 22. júlí s.á., upplýsti byggingarfulltrúi kæranda um að ákvörðun hans frá 7. júní s.á. hefði ekki verið tekin af til þess bærum aðila samkvæmt 1. mgr. 44. gr. sbr. 6. gr. skipulagslaga. Hefði byggingarfulltrúi því ákveðið að afturkalla ákvörðunina á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún væri ógildanleg og ekki til tjóns fyrir aðila.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júlí 2024 um að synja umsókn hans um byggingarleyfi hafi verið haldin verulegum ágöllum sem eigi að leiða til ógildingar hennar. Fyrirhuguð mannvirkjagerð, sem sótt hafi verið um, sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. ágúst 2024, kom fram að kærandi teldi einnig að ákvörðun bæjarráðs frá 16. júlí 2024, um að samþykkt byggingarleyfis væri skilyrt því að deiliskipulagsvinna væri hafin, bryti í bága við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Fór hann fram á að ákvörðun bæjarráðs yrði ógilt að því er varðaði skilyrði um gerð deiliskipulags, en að ákvörðun um veitingu byggingarleyfis til handa kæranda stæði óhögguð. Engin þörf væri á gerð deiliskipulags þar sem framkvæmdin félli bæði að Aðalskipulagi Hornafjarðar 2012–2030 ásamt því að vera í samræmi við núverandi landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar á Horni 1. Gerð deiliskipulags væri tímafrek, kostnaðarsöm og mjög íþyngjandi fyrir kæranda í ljósi þess að allar forsendur lægju fyrir í gildandi aðalskipulagi.

Öðrum ferðaþjónustuaðilum, sem starfi á sama svæði og kærandi, hafi ítrekað verið veitt byggingarleyfi án skilyrðis um gerð deiliskipulags. Á fundi bæjarráðs 16. júlí 2024 hafi meðal annars verið veitt byggingarleyfi fyrir gistihúsi á Seljavöllum án allra skilyrða. Á Seljavöllum sé ekki í gildi deiliskipulag og í aðalskipulagi komi skýrt fram að uppbygging skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi, sem séu sömu forsendur og gildi um Horn 1. Báðar framkvæmdirnar lúti að uppbyggingu ferðaþjónustu og séu sambærilegar og tilheyri sama svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hornafjarðar, þ.e. Nesjahverfi. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu sveitarfélagsins að útskýra hvaða önnur sjónarmið eigi við um veitingu leyfis til gistihússins á Seljavöllum en eigi við um leyfi kæranda. Ákvörðun bæjarráðs um að skylda kæranda til að vinna deiliskipulag hafi verið ómálefnaleg og gengið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi bæjarráð skýra lagaheimild til að veita leyfið án deiliskipulagsgerðar. Vísað sé til fleiri dæma um uppbyggingu og leyfis­veitingar á grundvelli aðalskipulags, sem séu sambærilegar fyrirætlunum kæranda, þar sem ekki hafi verið gerð krafa um deiliskipulag.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að byggingarfulltrúi hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 22. júlí 2024, að fyrri afgreiðsla hans frá 7. júní s.á. hefði ekki verið í samræmi við lög þar sem umhverfis- og skipulagsnefnd hefði ekki verið heimilt að afgreiða mál á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga heldur væri það bæjarstjórn eða sá aðili sem hefði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála skv. 6. gr. laganna. Í samþykkt um stjórn- og fundarsköp sveitarfélagsins hefði vald til fullnaðarafgreiðslu mála á grundvelli þessa lagaákvæðis ekki verið afsalað til umhverfis- og skipulagsnefndar og því væri það bæjarstjórn, eða eftir atvikum bæjarráð, sem tæki endanlegar ákvarðanir á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Í ljósi þessa hafi umsókn um byggingarleyfi verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs 16. júlí s.á. og bókað í fundargerð um samþykki nefndarinnar fyrir byggingarleyfinu enda væri vinna við gerð deiliskipulags á svæðinu hafin. Þar sem fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júní s.á. hafi verið ógildanleg hefði hún verið afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga. Eigi kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Sveitarfélagið hafi við meðferð byggingarleyfisumsóknar, sem samþykkt hafi verið 16. júlí 2024, verið í samskiptum við kæranda á öllum stigum málsins og veitt honum ítarlegar upp­lýsingar um framvindu þess. Fullyrðingar um að afgreiðsla málsins hafi dregist úr hófi og valdið kæranda fjártjóni séu ekki réttar.

Uppbygging kæranda að Horni sé ekki sambærileg þeim dæmum sem hann telji fram í kæru sinni. Horn sé einn fjölsóttasti ferðamannastaður sveitarfélagsins og þar sé rekin greiðasala, gistihús og tjaldsvæði. Staðurinn sjálfur sé áfangastaður þar sem gestir komi til að upplifa náttúrufegurð o.fl. Ólík uppbygging hafi farið fram á umræddum svæðum á undanförnum árum. Kærandi hafi síðustu árin fengið byggingarleyfi samþykkt þrátt fyrir ákvæði aðal­skipulags sem tekið hafi gildi 28. febrúar 2018 um að uppbygging í landi Horns vegna ferða­þjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi. Kærandi hafi nú sótt um leyfi til að stækka núverandi kaffihús um 78,9 m2 ásamt því að reisa nýja 141,8 m2 gistiálmu. Samtals hafi verið sótt um aukningu byggingarmagns á svæðinu yfir 220 m2. Ljóst sé að framkvæmdunum muni fylgja frekari breytingar á svæðinu, svo sem vegna aðkomu fólks og bíla. Á Seljavöllum, sem kærandi vísi til, hafi verið óskað eftir leyfi til að breyta notkun núverandi íbúðarhúss í minna gistiheimili í sama notkunarflokki skv. gr. 9.1.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og það hafi verið áður. Breyting á notkun hússins feli ekki í sér aukningu byggingarmagns eða aðrar breytingar á svæðinu. Þá séu heimildir og kröfur aðalskipulags fyrir þessi tvö svæði ólíkar. Á Horni, reit VÞ 36, séu heimildir fyrir umfangsmeiri og ólíkri starfsemi. Þar séu heimildir fyrir ferðaþjónustu, gistingu, tjaldsvæði og þjónustuhús með veitingu. Heimilt sé að vera þar með allt að 120 gesti. Á Seljavöllum, reit VÞ 10, sé í aðalskipulagi gert ráð fyrir allt að 30 gestum og starfsemi sem tengist ferðaþjónustu sé eingöngu fyrir gistingu og greiðasölu. Svæði VÞ 36 sé með meiri heimildir fyrir atvinnustarfsemi en VÞ 10 og að samræming uppbyggingar á fyrrnefndu svæði sé miklu meira krefjandi en á Seljavöllum.

Kærandi hafi haldið því fram að sveitarfélagið hafi brotið gegn meðalhófsreglu þar sem gerð deiliskipulags sé það íþyngjandi aðgerð og að sveitarfélaginu hafi borið að fara með málið samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við afgreiðslu umsóknar hans. Ef þannig háttaði til að sveitarfélögum bæri að afgreiða mál er varði þessa lagagrein eingöngu með meðalhófsreglu að leiðarljósi væri gerð deiliskipulagsáætlana tilgangslaus. Ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé undanþáguákvæði frá meginreglu 2. mgr. 37. gr. laganna. Í 44. gr. sé ekki fjallað um að skipulagsyfirvöldum sé skylt að heimila framkvæmdir án deiliskipulagsgerðar, heldur sé um heimildarákvæði að ræða. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins sé ljóst að skipulags­yfirvöldum beri að leggja mat á hvert tilfelli fyrir sig áður en ákvörðun sé tekin. Mikil upp­bygging hafi átt sér stað á Horni á undanförnum árum og fyrir svo umfangsmikla uppbyggingu sé mikilvægt að mótuð sé heildstæð stefna fyrir svæðið í formi deiliskipulags. Því hafi sveitar­félagið ákvæðið að ákvæði 44. gr. skipulagslaga yrði ekki nýtt í þessu tilfelli. Í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og sú stefna svo útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við eigi og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Ljóst sé að þessar nánari útfærslur sé ekki að finna í aðalskipulagi fyrir svo umfangsmikla uppbyggingu sem fyrirhuguð sé á Horni.

Þrátt fyrir að kærandi telji að framkvæmdir þær sem hann hafi sótt um og hin kærða ákvörðun bæjarráðs séu í fullu samræmi við Aðalskipulag Hornafjarðar 2012–2030 þá komi fram í aðalskipulaginu að uppbygging vegna ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi. Í greinargerð aðalskipulagsins komi einnig sérstaklega fram um breytingar á aðalskipulagi að eitt af markmiðum með að styrkja atvinnulíf sé að „efla byggð og að sveitarfélagið geti veitt góða þjónustu við dreifbýlið. Talið er að uppbygging á þessum ellefu svæðum verði jafnt og þétt næstu árin og því mikilvægt að gerð verði grein fyrir þessum þáttum í deiliskipulags­áætlunum fyrir svæðin.“ Sveitarfélagið hafi túlkað ákvæðið á þann hátt og mótað ákveðna stjórnsýsluframkvæmd, þ.e. að umfangsminni framkvæmdir, svo sem minni viðbyggingar, breytingar á klæðningu o.þ.h., væri hægt að heimila án deiliskipulagsgerðar. Uppbygging í landi Horns, sem hafi farið fram á undanförnum árum, sé umfangsmikil og unnin í áföngum. Aðstæður á svæðinu hafi breyst og sé Horn einn af vinsælustu áfangastöðum í sveitarfélaginu. Kærandi hafi hvorki mótmælt aðalskipulagsbreytingunni frá árinu 2018 né óskað eftir breytingu á henni, þó ákvæðið hafi verið í gildi í meira en sex ár og minnt hafi verið á það við afgreiðslu fyrri umsókna þar sem undanþáguákvæði hafi verið beitt.

Ákvæði um að uppbygging vegna ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi hafi verið sett í aðalskipulag, sem hafi öðlast gildi árið 2014, fyrir nánast öll verslunar- og þjónustu­svæði í dreifbýli og á flestum þeirra sé búið að vinna deiliskipulag. Af þeim 11 verslunar- og þjónustusvæðum sem komið hafi til eftir breytingu á aðalskipulagi árið 2018 hafi ákvæði um uppbyggingu á grundvelli deiliskipulags verið sett fyrir sjö svæði og á fjórum þeirra sé búið að vinna deiliskipulag. Af öllum þeim svæðum þar sem í skilmálum aðalskipulags komi fram að uppbygging ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi, hafi sveitarfélagið nýtt sér ákvæði 44. gr. skipulagslaga í einstökum tilfellum vegna umfangsminni framkvæmda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að kærandi byggi á að skipulagslög nr. 123/2010 og núverandi skipulagskerfi geri ráð fyrir að sveitarfélög vinni deiliskipulag fyrir þau svæði þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Þar sé átt við svæði í fleirtölu og hverfi og lóðir en ekki eina staka lóð eins og eigi við á Horni. Skipulagslög geri ekki ráð fyrir að unnið sé deiliskipulag fyrir staka lóð í þéttbýli og hvað þá í dreifbýli. Lóðin sem um ræði sé aðeins um 1.000 m2 að stærð og í um 7–8 km fjarlægð frá næsta bæ. Krafa um gerð deiliskipulags á Horni eigi engan veginn við og gangi gegn hugmyndinni að baki deiliskipulagi, sem sé að gera skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags þar sem teknar séu ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form, eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Óheimilt sé að binda samþykkt byggingarleyfis því skilyrði að gert verði deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæði í ljósi þess að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag fyrir svæðið hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er annars vegar deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að synja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Hins vegar er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarráðs sveitarfélagsins frá 16. júlí 2024 um að veita megi byggingarleyfi án gerðar deiliskipulags á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með vísan til þess að kærandi hafi hafið vinnu að gerð deiliskipulags. Fer kærandi fram á að fellt verði úr gildi „skilyrði [um gerð deiliskipulags] fyrir samþykki byggingarleyfis“ sem vísað sé til í afgreiðslu bæjarráðs.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2024, var kærandi upplýstur um að ákvörðun um synjun byggingarleyfis frá 7. júní s.á. hefði ekki verið tekin í samræmi við lög og að hún væri afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvalds­ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júní 2024 verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður þeim hluta kærumáls þessa því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er það á hendi sveitarstjórna að skipuleggja land innan marka sveitarfélags og annast þær og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Skipulagsáætlanir eru tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti, en þó ber við töku skipulagsákvarðana að hafa í huga markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar er meginreglan sú að gera skuli deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Finna má undantekningu frá þeirri reglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir. Eins og fram kemur í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn, eða þeim aðila sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. laganna, heimilt að ákveða að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt.

Aðalskipulag Hornafjarðar 2012–2030 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. október 2014. Breyting á aðalskipulaginu, Verslun og þjónusta á 11 stöðum í dreifbýli, var staðfest af Skipulagsstofnun 13. febrúar 2018 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Meðal annars var gerð breyting á skipulagsuppdrætti varðandi Nes – Lón og á blaðsíðu 39 í greinargerð aðalskipulagsins var bætt inn svohljóðandi texta í töflu 16.1. um svæði VÞ 36: „Horn. Ferðaþjónusta, gisting, tjaldsvæði, þjónustuhús með veitingum. Uppbygging skal heimil, skv. deiliskipulagi.“

Í hinni kærðu ákvörðun bæjarráðs frá 16. júlí 2024 segir: „Umsækjandi upplýsti sveitarfélagið um að deiliskipulag er í vinnslu og um að […] verkfræðistofa sér um gerð þess. Bæjarráð heimilar að veita megi byggingarleyfi á grundvelli 1.mgr. 44.gr. skipulagslaga enda hefur landeigandi hafið vinnu við deiliskipulag á svæðinu.“

Eins og fram hefur komið er ekki í gildi deiliskipulag fyrir Horn 1, en deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Í aðalskipulagi er sérstaklega tekið fram að uppbygging á reit VÞ 36, Horn, sé heimil samkvæmt deiliskipulagi, en þegar ákvörðun bæjarráðs um að veita megi byggingarleyfi til handa kæranda var tekin 16. júlí 2024 var einungis vinna hafin við deiliskipulag svæðisins. Verður því að telja að sú ákvörðun hafi ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að framkvæmd skuli vera í samræmi við aðalskipulag.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun bæjarráðs felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornarfjarðar frá 5. júní 2024 um synjun umsóknar um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1.

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 16. júlí 2024 um að veita megi byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

91/2024 Birkihvammur

Með

Árið 2024, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2024, kæra á ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi matshluta 0101 og 0102 í fast­eigninni Birkihvammi 9, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn eigenda matshluta 0103 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar nefnds húss og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrði stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 9. september 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að gera breytingar á innra skipulagi 3. hæðar hússins að Birkihvammi 9. Fól leyfið í sér heimild til að breyta innra fyrirkomulagi íbúðar með því að breyta eldhúsi og borðkrók í hjónaherbergi og þar sem áður var hjónaherbergi og stofa yrði eldhús og stofa eftir breytingarnar og veggur milli stofu og hjónaherbergis yrði fjarlægður. Jafnframt voru heimilaðar lítilsháttar breytingar á neysluvatns- og hitalögnum og að stofnlagnir fyrir gólfhita og neysluvatn yrðu lagðar frá lagnarými í kjallara upp í gegnum skorstein. Áritaði byggingarfulltrúi framlagða uppdrætti til samþykktar hinn 7. ágúst s.á. og gaf út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að samþykki hans á grundvelli fjöleignar­húsalaga nr. 26/1994 hafi þurft fyrir hinni umdeildu framkvæmd. Burðarveggir séu séreign fjöleignarhúss, sbr. 3. tl. 5. gr. laganna, og ef átt sé við burðarvirki þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 30. gr, 31. gr. og 36. gr. laganna. Með vísan til sömu ákvæða þurfi einnig samþykki kæranda fyrir tilfærslu á herbergjum og breytingum á neysluvatns- og hitalögnum. Í bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 27. janúar 2024, hafi embættið bent á að samþykki kæranda þurfi fyrir framkvæmdunum.

Varðandi lagnaleið um skorstein og fræsingu lagna í gólf, sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt 12. júlí 2024, telji kærandi að sömu sjónarmið eigi við. Samkvæmt samþykktum teikningum byggingarfulltrúa sé búið að færa eldhús á efri hæð, yfir svefnherbergisálmu kæranda, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði og röskun en áður hafi verið og verið sé að færa lagnir vegna alls þessa án samráðs við kæranda. Búið sé að færa lagnir, fræsa úr plötu fyrir lögnum, breyta burðarvirki og útliti hússins án samþykkis meirihluta eiganda eignarinnar.

Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda um framkvæmdirnar og hvoki hafi umsókn um byggingarleyfi né breytingar á húsnæðinu verið grenndarkynntar. Hafi byggingarfulltrúi að engu fylgt lögum og reglum við útgáfu byggingarleyfisins. Bent sé á að það skilyrði sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. janúar 2024, að samþykki þurfi frá kæranda sé lögbundið. Geti byggingarfulltrúi því ekki litið framhjá þessu óhjákvæmilega skilyrði og fari því hið kærða byggingarleyfi gróflega á svig við réttindi kæranda sem honum séu tryggð lögum samkvæmt. Hið kærða byggingarleyfi sé því ólögmætt.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bent er á að hinar umþrættu breytingar hafi falið í sér að gert hafi verið op í steyptan vegg og fjarlægðir 2,3 m af veggnum sem í heildina hafi verið 5,3 m langur, tilfærslu eldhúss og lagningu hitalagna í gólf íbúðarinnar með fræsingu. Enn fremur hafi stofnlögn fyrir neyslu- og heitt vatn verið leidd í gegnum stromp sem áður hafi gegnt hlutverki reykháfs fyrir olíukyndingu sem löngu sé aflögð og þjóni engu hlutverki lengur.

Í umsögn burðarvirkishönnuðar, dags. 22. febrúar 2024, sé staðfest að fyrirhugaðar ráðstafanir muni tryggja fullnægjandi styrkingu í kringum opið. Breytingin hafi því engin áhrif á hagsmuni kæranda og vísast í því sambandi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 18. nóvember 2009 í máli nr. 65/2009.

Sé því enn fremur hafnað að samþykki kæranda sé áskilið fyrir breytingum á lögnum í gólfi íbúðarinnar. Í 1. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 komi fram að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi eða ráð fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Í 2. mgr. 27. gr. segi svo að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geti eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans.

Umræddar gólflagnir séu sannarlega í séreign en þær hafi engin áhrif á lagnakerfi hússins og þar með ekki nein áhrif á hagsmuni kæranda. Breyting á stofnlögn sem leidd var í gegnum stromp sé í séreign byggingarleyfishafa, en skv. 7. tl. 5. gr. laga um fjöleignarhús séu lagnir og tilfæringar, hverju nafni sem þær nefnist og hvar sem þær eru, sem eingöngu þjóni þörfum viðkomandi séreignar, séreign. Lagning stofnlagnarinnar í gegnum strompinn sé minniháttar framkvæmd inni í strompinum, sem hvorki sjáist né hafi áhrif á lagnakerfi hússins eða aðra hagsmuni kæranda. Sé því ekki fallist á að skortur á samþykki skv. 30. gr. fjöleignahúsalaga valdi ógildingu byggingarleyfisins eins og aðstæðum er háttað.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæra hafi borist eftir að kærufrestur hafi verið liðinn og því beri að vísa henni frá. Þá hafi kærandi ráðið lögmann um mánuði fyrr vegna málsins sem bendi til þess að hún hafi fylgst grannt með málinu. Auk þess hafi iðnaðarmenn upplýst kæranda um hið samþykkta byggingarleyfi um miðjan júlí. Telji leyfishafar að hin kærða ákvörðun um byggingarleyfi sé byggð á traustum efnislegum grunni þar sem byggingar­fulltrúi hafi byggt ákvörðun á mati og hönnun sérfræðinga á sviði lagna og burðarvirkis.

Til grundvallar leyfi til niðurrifs veggjar sé bent á umsögn byggingaverkfræðings sem sé afdráttarlaus um að styrking sé tryggð. Einnig sé vísað til tölvupósts sem leyfishöfum var sendur f.h. byggingafulltrúans í Kópavogi 28. maí 2024. Þar komi fram að fyrir liggi jákvæð umsögn burðarvirkishönnuða. Telja leyfishafar að umsögn burðarvirkishönnuðar staðfesti að niðurrif veggjar raski ekki hagsmunum kæranda.

Í fyrrnefndum tölvupósti komi einnig skýrlega fram sú afstaða byggingafulltrúa að lagnir inn í séreign teljist til séreignar og að breytingar á þeim séu ekki háðar samþykki annarra eigenda í húsinu. Þá sé bent á að einangrunardúkur verði lagður undir gólfhitalagnir og muni því ekkert rask verða á hagsmunum kæranda. Einnig sé á það bent að kærandi hafi lagt vatnslagnir í sameign hússins án þess að hafa til þess leyfi frá Kópavogsbæ eða meðeigendum sínum. Þá sé færsla á eldhúsi í samræmi við samþykktar teikningar og samþykkt byggingarleyfi, sbr. a-lið 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar. Sérstaklega sé vísað til teikningar hönnuðar þar sem fram komi að kröfur sem varði hljóðvist séu tryggðar í samræmi við leiðbeiningar í grein 11.1.3. í byggingar­­reglugerð nr. 112/2012. Tilfærslan hafi ekki áhrif á burðarvirki íbúðarinnar eða hússins ásamt því að fyrir liggi staðfesting Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðisins, dags. 12. júní 2024, án athugasemda.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að kærandi hafi fyrst verið upplýstur um samþykki á umsókn leyfishafa 30. júlí 2024, þegar sveitarfélagið svaraði fyrirspurn hans varðandi hvort umsóknin hafi verið samþykkt. Umsóknin hafi verið tekin fyrir á fundi 12. júlí s.m. en byggingarfulltrúi hafi gert athugasemdir sem voru síðan sendar til umsækjanda svo umsóknin var ennþá ókláruð á þeim tíma. Byggingarleyfið hafi ekki verið gefið út fyrr en 7. ágúst 2024. Engin hönnun né álit sérfræðinga hafi legið fyrir þegar burðarveggur var brotinn og fræst var fyrir lagnir í gólfið og ekki hafi verið búið að skila inn neinum teikningum þegar leyfishafar hófu framkvæmdir.

Varðandi álit sem byggingarfræðingur hafi unnið um niðurrif úr burðavegg þá sé það einhliða mat. Bent sé á að burðarveggur sem sé á teikningu fyrir breytingu og liggi á milli skála og stofu sé ekki til staðar og hafi ekki verið það síðastliðin 30 ár. Þegar veggur á milli skála og stofu var tekinn niður hafi verið skilinn eftir um 10 cm biti í lofti eins og oft sé gert þegar verið sé að vinna með burðþol. Leyfishafar hafi tekið umræddan bita niður úr lofti og því sé sá veggur sem sýndur er á teikningu milli skála og stofu ekki lengur til staðar.

Neysluvatnslagnir séu fræstar í burðvirkisplötu á milli hæða, en ekki settar niður í gólfílögn eins og gert sé ráð fyrir á samþykktum teikningum. Leyfishafar hafi einnig lagt gólfhitalagnir beint á gólfplötu án þess að vera með einangrun. Umræddur strompur sem leyfishafar hugsi sem lagnaleið, gangi í gegnum forstofu kæranda. Bent sé á að almennt hafi strompar sem þessir verið fjarlægðir þar sem þeir taki rými frá eigendum fasteigna. Hafi kærandi einmitt hug á að fjarlæga stromp í forstofu. Ekki hafi verið um að ræða tilfærslu á herbergjum, heldur meiri­háttar framkvæmd sem þurfi samþykki kæranda þar sem færsla á eldhúsi/votrými yfir svefnherbergisálmu komi alltaf til með að valda meiri hljóðvist.

Ítrekað sé að leyfishafar hafi farið í framkvæmdir án leyfis og ekki liggi fyrir teikningar eða samþykki fyrir þeim breytingum sem hafi verið gerðar á opnanlegum fögum, sem sé mikil útlitsbreyting á húsinu. Í byggingarleyfinu komi fram að unnið skuli eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum en þegar byggingarleyfi var gefið út 7. ágúst 2024 hafi ekki legið fyrir séruppdrættir eða lagnateikningar.

Viðbótarathugasemdir leyfihafa: Bent er á að teikning af aðaluppdrætti hafi verið samþykkt og undirrituð á fundi 12. júlí 2024. Sé því ekki rétt að leyfið hafi ekki verið samþykkt þann dag. Hafi fundargerðin sem samþykkt var sama dag, sem birt var á vefsíðu bæjarins, borið með sér að leyfið hafi verið samþykkt og liggi fyrir að kæranda hafi verið kunnugt um það þann dag. Þá sé ljóst af samskiptum lögmanns kæranda og starfsmanna bæjarins frá 16. s.m. að kærandi mátti vita eða hefði mátt vita að byggingarleyfið hafi verið samþykkt nokkrum dögum fyrr. Þá hafi lögmaður kæranda verið upplýstur í síðasta lagi þann 26. júlí 2024 um fundinn þann 12. júlí þar sem leyfið var samþykkt.

Kærandi haldi fram að burðarveggur sem sé á teikningu fyrir breytingu og liggi á milli skála og stofu sé ekki til staðar og hafi ekki verið síðastliðin 30 ár, en nú sé búið að taka niður 10 cm bita sem skilin hafi verið eftir vegna burðarþols. Bent sé á að ekki sé um burðarvegg að ræða, heldur léttan vegg og að enginn burðarbiti hafi verið í loftinu þegar leyfishafar keyptu íbúðina.

Engar hitalagnir séu í gólfi enda eigi eftir að leggja þær og þar af leiðandi einangrunardúkinn líka. Samráð hafi verið haft við Kópavogsbæ um færslu opnanlegra faga og framkvæmdin ekki hluti af hinu kærða byggingarleyfi.

Sú ljósmynd sem kærandi vísi til í málsgögnum sínum hafi verið tekin í leyfisleysi þegar kærandi hafi brotist inn í íbúð leyfishafa. Það sýni þó fyrst og fremst þann yfirgang sem kærandi hafi sýnt leyfishöfum og sé í fullkominni andstöðu við ákvæði fjöleignarhúsalaga og megin­reglur nábýlisréttar.

Allar framkvæmdir hafi verið unnar eftir teikningum og muni byggingarstjóri framkvæmdanna sjá til þess að allt verði gert samkvæmt samþykktum gögnum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar fjöleignarhússins að Birkihvammi 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Þá verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á að úrskurðarnefndin taki afstöðu til byggingar­leyfisskyldu breytingar á opnanlegum gluggafögum umræddrar íbúðar. Felst breytingin í því að þar sem gluggi skiptist með þverpósti var áður opnanlegt fag á efri hluta, en eftir breytingar er neðri hluti gluggans með opnanlegu fagi. Kærandi er eigandi tveggja eignarhluta af þremur í húsinu, en leyfishafi er eigandi hins þriðja.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Af gögnum málsins má ráða að kærandi sendi fyrirspurn til sveitarfélagsins 25. júlí 2024 um hvort búið væri að samþykkja framangreinda umsókn. Í svari sveitarfélagsins degi síðar kom fram að umsóknin hefði verið tekin fyrir á fundi 12. s.m., en byggingarfulltrúi hefði gert athugasemdir og umsóknin því ekki afgreidd. Var kærandi fyrst upplýstur um samþykki byggingarleyfisins með svari sveitarfélagsins við fyrirspurn hans í tölvupósti 30. júlí 2024. Er kæra þessi því innan lögbundins kærufrests og verður tekin til efnismeðferðar.

 Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingar­leyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, sbr. nánar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010. Í 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga er tiltekið að eiganda sé heimilt að nýta eign sína að vild nema að lög eða aðrar réttarheimildir mæli á annan veg. Í 27. gr. laganna er áskilið samþykki sumra eigenda fjöleignarhúss eða eftir atvikum allra vegna breytingar á hagnýtingu séreignar nema að fyrir liggi að breytingin hafi ekki í för með sér skerðingu á lögmætum hagsmunum.

Allt burðarvirki húss, þ.m.t. burðarveggir, er í sameign eigenda fjöleignarhúss samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 8. gr., sbr. 3. tl. 1. mgr. 5. gr. fjöleignarhúsalaga. Breytingar, endurbætur og fram­kvæmdir á sameign sem víkja frá samþykktum teikningum eru háðar samþykki einfalds eða aukins meirihluta sameigenda fjöleignarhúss samkvæmt 30. gr. laganna. Með hinu umdeilda byggingarleyfi var samþykkt op á vegg innan íbúðar byggingarleyfishafa án þess að samþykki annarra eigenda fasteignarinnar væri fyrirliggjandi, en við afgreiðsluna lá fyrir umsögn burðarþols­hönnuðar að fyrirhugaðar ráðstafanir muni tryggja fullnægjandi styrkingu í kringum opið. Með hliðsjón af nefndri umsögn og afgreiðslu embættis byggingarfulltrúa sem fag- og eftirlitsaðila með byggingarframkvæmdum verður að leggja til grundvallar í máli þessu að umdeilt op á burðarvegg hafi ekki veikt svo nokkru nemi burðarvirki hússins. Skortur á lögmæltu samþykki annarra eigenda hússins fyrir umræddri framkvæmd verður ekki talinn varða ógildingu umþrætts byggingarleyfis eins og aðstæðum er háttað, þar sem ekki verður talið að breytingin á burðarveggnum innan íbúðar leyfishafa raski lögvörðum hagsmunum kæranda.

Í 5. gr. fjöleignarhúsalaga er talið upp hvað falli undir séreign fjöleignarhúss og samkvæmt 7. tl. teljast til séreignar, lagnir og tilfæringar, hverju nafni sem þær nefnast og hvar sem þær eru, sem eingöngu þjóna þörfum viðkomandi séreignar. Fyrir liggur staðfesting hönnuðar um að hljóðvist eftir umdeilda breytingu sé fullnægjandi í samræmi við b-lið 1. mgr. 11.1.3 gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að unnt sé að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á um hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi. Verður því samkvæmt framansögðu tekin afstaða til þess hvort umdeild breyting á opnanlegum glugga­fögum séu háðar byggingarleyfi eða ekki.

Í kafla 2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um byggingarleyfisskyldar fram­kvæmdir og hvaða framkvæmdir eru undanþegnar slíku leyfi.

Í gr. 2.3.4. er fjallað um breytingar er varða útlit eða form mannvirkis. Þar segir í 1. mgr. að „varði breyting á mannvirki útlit þess og form skal leita samþykkis hlutaðeigandi skipulags­nefndar áður en byggingarheimild eða byggingarleyfi er veitt enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimilar breytinguna. Ekki þarf að leita slíks samþykkis sé breytingin óveruleg.“ Í 2. mgr. kemur meðal annars fram að til þess að breyting á mannvirki geti talist óveruleg megi hún ekki skerða hagsmuni nágranna, t.d. hvað varðar útsýni, skuggavarp eða innsýn og ekki breyta eða hafa áhrif á götumynd.

Í gr. 2.3.5. eru taldar upp minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem eru undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt a-lið á það við um allt viðhald innanhúss og utan, þ.m.t. endurnýjun léttra innveggja. Í leiðbeiningarskjali Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með reglugerðinni segir um a-lið gr. 2.3.5. að allt viðhald utanhúss sé undanþegið leyfum, s.s. endurnýjun þak- og veggklæðningar og útskipting glugga. Miðað er við að notuð séu sambærileg efni og að frágangur sé sambærilegur. Samkvæmt fyrirliggjandi mynd af fjölbýlishúsinu að Birkihvammi 9 eru þær breytingar sem gerðar hafa verið á opnanlegum gluggafögum þess eðlis að þær skerði ekki hagsmuni nágranna í skilningi nefndrar 2. mgr. gr. 2.3.4. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeild breyting á opnanlegum gluggafögum verði að teljast óveruleg og sé því undanþeginn byggingarleyfi skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Að öllu framangreindu virtu, og að teknu tilliti til 27. gr fjöleignarhúsalaga, liggur fyrir að umdeildar breytingar á séreign leyfishafa sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingarleyfi verða ekki taldar raska lögvörðum hagsmunum annarra sameigenda fjöleignarhússins.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum.

Umdeild breyting á gluggafögum íbúðar í matshluta 0103 að Birkihvammi 9 er ekki háð byggingarleyfi.

76/2024 Suðurgata

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitar­félagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júlí 2024, kærir eigandi bílskúrs og íbúðar á 1. hæð fjöleignahúss á lóð nr. 4 við Suðurgötu, Vogum, ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitarfélagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 31. júlí og 1. ágúst 2024.

Málavextir: Með bréfi, dags. 9. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að byggingarfulltrúi Sveitar­félagsins Voga hefði ákveðið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 10.000 vegna óleyfis-framkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum. Í bréfinu var vísað til fyrri bréfa frá byggingarfulltrúa, dags. 26. febrúar 2019, 12. apríl 2019, 30. ágúst 2019, 17. febrúar 2020, 29. mars 2021, 16. júní 2022, 4. október 2023 og 7. júní 2024.

Í bréfinu kemur meðal annars fram að fyrir liggi að geymslu í húsnæðinu hafi verið breytt í baðherbergi auk þess sem dyraopi á milli eldhúss og þvottahúss hafi verið lokað. Sé það ekki í samræmi við samþykktar teikningar af húsinu. Með því móti hafi íbúðinni í raun verið skipt í tvennt. Þá liggi fyrir að bílgeymslu hafi verið breytt í íverurými sem sé heldur ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Fram kom að byggingarfulltrúi hafi ítrekað veitt kæranda tækifæri til þess að verða við athuga­semdum með því að breyta húsnæðinu til fyrra horfs. Hvorki hafi verið orðið við þeim beiðnum né send staðfesting um að orðið hafi verið við fyrirmælum byggingarfulltrúa. Væri byggingar­fulltrúi því tilneyddur að beita þeim þvingunarúrræðum sem hann hafi áður boðað.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að ekki þurfi sérstakt byggingarleyfi fyrir minni­háttar framkvæmdum sem um ræði í máli þessu. Skipulag íbúðarinnar sé gamalt og ekki sé við neinar teikningar að styðjast. Hvorki þurfi byggingarleyfi til þess að opna eða loka dyrum né til þess að setja bedda í bílskúr. Í Reykjavík hvetji borgaryfirvöld fasteignaeigendur til þess að nýta bílskúra til íbúðar og sama eigi að eiga við um Sveitarfélagið Voga. Húsnæðið hafi verið leigt út í þeim tilgangi að fjármagna kaupin á því. Nái kröfur sveitarfélagsins fram að ganga lendi kærandi í fjárhagsvandræðum.

Afskipti sveitarfélagsins hafi komið til eftir að kærandi sótti um leyfi frá sveitarfélaginu til að skrá þrjár íbúðareiningar í húsinu. Hins vegar hafi sú umsókn verið dregin til baka þar sem viðhorf sveitarfélagsins hafi verið neikvætt. Sveitarfélagið vilji engar teikningar og fari fram á að húsnæðinu verði komið í upprunalegt ástand, en húsið hafi verið reist árið 1953. Engar teikningar séu til af innra skipulagi íbúðarinnar og gæti því núverandi útfærsla verið hin upphaflega. Eignin hafi verið keypt í núverandi ástandi og hafi kærandi ekki breytt innra skipulagi. Sveitarfélagið fari fram á að salerni verði fjarlægt og dyr verði opnaðar hjá kæranda, en virðist ekki skipta sér af innra skipulagi hjá íbúum á efri hæð hússins. Þá hafi sveitarfélagið ekki komið með neinar athugasemdir varðandi slæmt ástand hússins að öðru leyti eða vegna óleyfisskúrs á sameigin­legri lóð.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Þær breytingar sem kærði hafi ráðist í á íbúð sinni séu slíkar að búið sé að skipta íbúðinni upp í sjálfstæð rými sem ekki sé innangengt á milli. Með því hafi hann búið til tvær sjálfstæðar íbúðir á hæðinni. Þá hafi hann einnig breytt bílskúr í sjálfstæða íbúð. Slíkar breytingar á notkun og fjölgun íbúða séu í eðli sínu verulegar og geti ekki fallið undir minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilega breytingu sem ráðherra væri heimilt að undanþiggja byggingarleyfi með ákvæði í reglugerð.

Undanþegin byggingarleyfi skv. byggingarreglugerð nr. 110/2012 séu framkvæmdir sem ekki falli undir umfangsflokk 2 og 3 skv. b. og c. lið 1. mgr. 1.2.3. gr. Hvorug framkvæmdin geri það enda um að ræða húsnæði þar sem fólk hafi varanlega búsetu. Auk þess hafi breytingarnar veruleg skipulagsleg áhrif og grenndaráhrif á sameigendur húss og nágranna sem skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi að meta og meðeigendur að samþykkja.

 Sveitarfélagið mótmæli því að húsnæðið hafi verið í því ástandi sem það sé nú þegar kærandi keypti það. Framkvæmdir hafi m.a. staðið yfir við breytingar á fyrstu hæð hússins þegar mál þetta hófst, sbr. bréf byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 26. febrúar og 12. apríl 2019. Það hafi þó að mati sveitarfélagsins ekki grundvallarþýðingu í málinu. Skýrt sé af þeim aðal­uppdráttum hússins sem til séu að ekki séu samþykktar tvær íbúðir á fyrstu hæð hússins og bílskúrinn hafi ekki verið samþykktur sem íbúðarrými. Þá sé eignaskiptasamningur skýr um þetta og sameigendur hafi hafnað slíkri breytingu. Kröfur sveitarfélagsins séu því alveg skýrar um að lokun sem gerð var milli eldhúss og þvottahúss verði fjarlægð þannig að ekki verði um tvær íbúðir að ræða og að bílgeymslu verði breytt aftur í bílgeymslu og látið af afnotum hennar sem íverurýmis.

 Sveitarfélagið vísi að öðru leyti til fyrirliggjandi gagna og einkum til rökstuðnings sem fram komi í bréfi sveitarfélagsins frá 9. júlí 2024 þar sem ákvörðun um beitingu dagsekta sé rökstudd og tilkynnt kæranda. Málið hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt og hafi kæranda ítrekað verið veittur möguleiki til að tjá sig. Jafnframt hafi honum ítrekað verið veittur frestur til að bregðast við kröfum með því að ráðast í úrbætur, sækja um leyfi fyrir breytingunum og fá leyfi sameigenda áður en gripið yrði til þvingunarúrræða. Með því hafi kæranda verið sýnd mikil þolinmæði og viðhaft meðalhóf með því að grípa ekki til þvingunarúrræða fyrr en fullreynt væri að kærandi hygðist ekki verða við kröfum um úrbætur. Fjárhæð dagsekta sé jafnframt hógvær m.t.t. þess að kærandi hafi skipt húsnæðinu upp í þrjár íbúðir sem séu í útleigu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að sveitarfélagið hafi við meðferð málsins brotið reglur stjórnsýslulaga. Ekki hafi farið fram hlutlaus rannsókn, kærandi hafa ekki fengið að nýta andmælarétt og ekki hafi verið gætt jafnræðis eða meðalhófs. Ekki hafi verið litið til lagaskilareglna, en húsið hafi verið byggt um miðja síðustu öld. Húsnæðið sé í samræmi við aðaluppdræti frá 1953 og reglur sem þá giltu. Engin gögn séu þó til um upphaflegt skipulag innra rýmis hússins frá þeim tíma. Lagðar hafi verið inn tillögur að breytingum á húsnæðinu, en þeim hafi ekki verið tekið með jákvæðum hætti. Ekki hafi af þeim ástæðum enn verið ráðist í fyrirhugaðar framkvæmdir.

Um sé að ræða minniháttar framkvæmdir innan séreignarhluta kæranda. Um sé að ræða færslu á vaski, lokun dyra tímabundið, uppsetningu sturtu og salernis­tilfærslu, ásamt færslu eldhúss og elhúsinnréttingar. Kærandi spyr hvort honum sé ekki heimilt að búa í bílskúr eins og öðrum íbúum í sömu götu eða hvort hann sæti einelti af hálfu sveitarfélagsins og hafi takmarkaðri réttindi en aðrir íbúar. Skorað sé á sveitarfélagið að leggja fram teikningar af öllum húsum í nágrenninu þar sem búið sé í bílskúrum án þess að við það séu gerðar athugasemdir, en kærandi hafi sent sveitarfélaginu myndir af slíkum bílskúraíbúðum.

Í eignaskiptayfirlýsingu hússins hafi verið gert frávik frá samþykktum teikningum þar sem dyr hafi verið settar til að loka innskoti við inngang og anddyri í sameign. Við þetta séu samt engar athugasemdir gerðar. Þá hafi kærandi leitað til sveitarfélagsins vegna óleyfisskúrs í eigu íbúa efri hæðar sem standi á sameiginlegri lóð hússins. Enginn brunaútgangur sé á efri hæð og allt viðhald komið á tíma. Þá hafi verið settur kvistur á þak hússins í óleyfi. Byggingarfulltrúi hafi ekki tekið nokkurt tillit til þessara ábendinga en beini kröfum einungis að kæranda sem eiganda neðri hæðar. Samkvæmt þessu hljóti að vera einhver tengsl milli íbúa efri hæðar og sveitarfélagsins sem ráði aðgerðum sveitarfélagsins.

Mótmælt er staðhæfingum um að eignin hafi verið í núverandi ástandi þegar kærandi festi kaup á henni. Skorað sé á opinberan aðila að leggja fram gögn um meint ástand við kaupin og einnig gögn um upphaflegt ástand og allar breytingar síðan. Þá sé einnig skorað á sveitarfélagið að leggja fram þær reglur sem giltu um breytingar á húsnæði frá 1953. Leyfi kærandi sér að halda því fram að á þeim tíma hafi ekki þurft neitt opinbert leyfi til þess að setja upp salerni, opna eða loka dyraopum eða búa í bílskúr. Hafi sveitafélagið sönnunarbyrðina fyrir því að það hafi þurft leyfi frá upphafi til minnstu breytinga innan dyra. Hafi sveitarfélagið einnig sönnunarbyrði fyrir því ef það telji núgildandi lög séu afturvirk og hafi áhrif í máli þessu.

Svör sveitarfélagsins um að það þurfi ekki að líta til samfélagslegra áhrifa af ákvörðunum séu röng og aðfinnsluverð. Samfélagsleg áhrif séu þau að kærandi missir eign sína, margir lendi á götunni og húsið haldi áfram að drabbast niður.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér , en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga um álagningu dagsekta á kæranda að fjárhæð kr. 10.000 til að knýja fram að óleyfis­breytingar á fasteign kæranda að Suðurgötu 4, Vogum, verði fjarlægðar, breyttri notkun bílskúrs hætt og húsið fært til fyrra horfs. Kæruheimild til nefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í máli þessu er deilt um hvort þær breytingar sem gerðar hafa verið í íbúð og bílskúr neðri hæðar Suðurgötu 4 í Vogum hafi verið framkvæmdar af kæranda. Í eignaskiptayfirlýsingu frá maí 2018, sem kærandi undirritaði, er eignarhluti hans í fasteigninni skráður sem ein íbúð á fyrstu hæð og bílgeymsla. Meðal gagna þessa máls er bréf byggingar­fulltrúa sveitarfélagsins Voga til kæranda, dags. 12. apríl 2019. Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá kæranda og því sem sést hafi við vettvangsskoðun sé búið að stúka af vestur­hluta íbúðarinnar og koma þar fyrir eldhúsaðstöðu og salerni í þeim tilgangi að skipta íbúðinni upp í tvo aðskilda hluta til útleigu. Hafi kærandi tjáð skoðunarmönnum að bílskúrinn væri þegar í útleigu og hafi við vettvangsskoðun sést að búið var að fjarlægja innkeyrsludyr og setja þess í stað vegg með glugga. Verður að áliti nefndarinnar að byggja á þessu um að kærandi hafi ráðist í þær framkvæmdir sem um er deilt og lýst er í hinni kærðu ákvörðun. Fær þetta einnig stoð í öðrum gögnum málsins, en frá árinu 2019 hefur kærandi ítrekað verið áminntur af byggingarfulltrúa vegna breytinga í íbúð og bílskúr.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að óheimilt sé að breyta mannvirki, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Frá þessu eru undantekningar sem varða minniháttar mannvirkjagerð, sem eiga ekki við í máli þessu. Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 er síðan mælt svo fyrir að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hinn ólöglegi byggingarhluti verði fjarlægður. Byggingarfulltrúa er svo heimilt skv. 2. mgr. 56. gr. laganna að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skuli hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Var hin kærða ákvörðun um álagingu dagsekta með réttu heimfærð til þessara lagaákvæða og verður að telja ákvörðun um fjárhæð dagsekta jafnframt hóflega. Verður með vísan til þessa að hafna ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitarfélagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.

91/2024 Birkihvammur

Með

Árið 2024, mánudaginn 9. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 91/2024, kæra á ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi matshluta 0101 og 0102 í fasteigninni Birkihvammi 9, þá ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn eigenda matshluta 0103 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að gera breytingar á innra skipulagi 3. hæðar hússins á lóð nr. 9 við Birkihvamm. Í umsókninni var því lýst að sótt væri um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi, þ.e. færa til herbergi og rífa niður vegg. Einnig væri sótt um lítilsháttar breytingu á neysluvatns- og hitalögnum. Áritaði byggingarfulltrúa framlagða uppdrætti til samþykktar. Hinn 7. ágúst s.á. gaf byggingarfulltrúa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Af hálfu kæranda er á því byggt að samþykki hans á grundvelli fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 hafi þurft fyrir hinni umdeildu framkvæmd. Burðarveggir séu séreign fjöleignarhúss, sbr. 3. tl. 5. gr. laganna, og ef átt sé við burðarvirki þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 30. gr, 31. gr. og 36. gr. laganna. Með vísan til sömu ákvæða þurfi einnig samþykki kæranda fyrir tilfærslu á herbergjum og breytingum á neysluvatns- og hitalögnum. Í bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 27. janúar 0224, hafi embættið bent á að samþykki kæranda þurfi fyrir framkvæmdunum. Hið kærða byggingarleyfi sé því ólögmætt.

Leyfishafi bendir á að kæra hafi borist eftir að kærufrestur hafi verið liðinn og því beri að vísa henni frá. Það sé meginregla í stjórnsýslurétti að kæra frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögunum segi að líta verði m.a. til þess hvort líkur séu til þess að kærðri ákvörðun verði breytt efnislega. Í ljósi þess að kæra sé of seint fram komin, hin kærða ákvörðun sé byggð á efnislegum grundvelli og þegar horft sé til fyrri úrskurðar nefndarinnar, þá séu yfirgnæfandi líkur til þess að hinni kærðu ákvörðun verði ekki breytt. Mörgum verkþáttum sé þegar lokið og því sé vandséð hvernig krafa kæranda uppfylli þau skilyrði 5. gr. laga nr. 130/2011 að framkvæmdir séu yfirvofandi eða hafnar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar breytingu á innra fyrirkomulagi hússins að Birkihvammi 9 í Kópavogi. Að virtum framangreindum lagaákvæðum, þeim sjónarmiðum sem liggja þeim að baki og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd sem mun að mestu vera lokið, verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi Birkihvamms 9 Kópavogi.

55/2024 Sandeyri

Með

Árið 2024, föstudaginn 16. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Kristín Svavarsdóttir vistfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2024, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 um að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar og tengd mannvirki í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Sandeyri, þá ákvörðun  Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2024.

Málavextir: Hinn 1. apríl 2015 gaf Umhverfisstofnun út starfsleyfi til handa Arctic Sea Farm ehf. fyrir framleiðslu á 4.000 tonnum á ári af regnbogasilungi, með 5.300 tonna hámarkslífmassa, í sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Matvælastofnun gaf svo út rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sama hámarkslífmassa 4. september 2020. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en með úrskurði, uppkveðnum 26. febrúar 2021 í máli nr. 89/2020, var kröfu um ógildingu hennar hafnað.

Í september 2020 lagði Arctic Sea Farm fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar um 8.000 tonna laxeldi og/eða silungseldi í Ísafjarðardjúpi. Álit Skipulagstofnunar um matsskýrsluna lá fyrir 28. janúar 2021. Taldi stofnunin að matsskýrslan uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hefði verið lýst á fullnægjandi hátt.

Hinn 3. nóvember 2023 sótti Arctic Sea Farm um byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gaf síðan út byggingarleyfi 11. apríl 2024. Í leyfinu kemur fram að byggingarfulltrúi stofnunarinnar hafi yfirfarið og staðfest aðaluppdrætti í samræmi við 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hafi það verið mat hans að önnur skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis skv. 13. gr. sömu laga væru jafnframt uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi ítrekað andmælt sjókvíaeldi við jörð hans, sem sé einstök og ósnortin náttúruperla með viðkvæmu vistkerfi sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið heimiluð stóriðja innan netlaga jarðar hans, en skipulagsyfirvöld hafi lagt rangt mat á umfang þeirra og legu. Þá muni framkvæmdin hafa veruleg áhrif á nýtingu jarðarinnar, m.a. vegna mengunar í hafi og við strönd, hávaða, ljós- og sjónmengunar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi vanrækt þá skyldu sína skv. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að leggja mat á óafturkræf áhrif framkvæmdarinnar á þau vistkerfi sem séu innan jarðareignar kæranda með tilheyrandi sérfræðiálitum.

Málsrök Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar: Stofnunin bendir á að það hafi verið mat hennar að kærðar byggingarleyfisframkvæmdir hafi verið utan netlaga jarðar kæranda og því væri hann ekki aðili að stjórnsýslumáli um byggingarleyfið. Við greiningu á því hvort umrædd mannvirki væru innan netlaga hafi stofnunin stuðst við eigin athuganir á gögnum um svæðið og samsetningu upplýsinga úr byggingarleyfisumsókn, þ.e. hnit, fjölgeislamælingu frá Landhelgisgæslu Íslands og kortagrunn frá Landmælingum Íslands. Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun jafnframt óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar um hvort byggingaráformin væru í samræmi við Strandsvæðisskipulag Vestfjarða 2022. Tekið var tillit til umhverfismats framkvæmdarinnar sem og áhættumats um siglingaöryggi. Leyfishafa hafi verið gert að afla sérfræðiálits um möguleg og veruleg áhrif á þau vistkerfi eða jarðminjar sem við eigi í 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Það hafi leyfishafi gert og hafi verið tekið tillit til álitsins við mat á því hvort binda þyrfti byggingarleyfið frekari skilyrðum, en ekki hafi verið talin þörf á því.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærandi fullnægi ekki áskilnaði um kæruaðild, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og af þeim sökum beri að vísa málinu frá. Skýrlega verði ráðið af kæru að aðild hans að málinu felist eingöngu í því að umrædd framkvæmd hafi átt sér stað á eignarlandi hans, þ.e. innan netlaga jarðarinnar Sandeyri. Samkvæmt lögum nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða miðist netlög við sjávarbelti 115 m út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Ótvírætt sé að eldissvæði leyfishafa liggi mun lengra frá stórstraumsfjöruborði en 115 m. Stysta fjarlægð frá því svæði sem byggingarleyfið taki til að fasteign kæranda sé um 600 m og möguleg grenndaráhrif því óveruleg. Því til viðbótar hafi þýðingu að kærandi hafi ekki fasta búsetu á fasteigninni, en hún sé ætluð til notkunar yfir sumartímann. Að lokum liggi fyrir að leyfishafi hafi haft rekstrarleyfi á svæðinu frá árinu 2012 eða rúmum þremur árum áður en kærandi hafi eignast sína fasteign.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 11. apríl 2024 að gefa út byggingarleyfi fyrir fiskeldiskvíar í sjó við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögverndaða hagsmuni þeirra að fá leyst úr ágreiningi kærumálsins.

Landareignum sem liggja að sjó fylgja netlög en í lögum er jafnan miðað við að þau nái 60 faðma eða 115 metra frá stórstraumsfjörumáli, sbr. t.d. 2. tölul. 3. gr. laga nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Í kæru er um hagsmuni kæranda vísað til þess að eldissvæði það sem kennt er við Sandeyri sé í netlögum þeirrar jarðar. Á þetta verður ekki fallist, að virtum gögnum þessa máls, þar sem fjarlægðin er meiri en sem nemur 115 metrum. Kærandi hefur um afmörkun netlaga einnig vísað til svonefndrar dýptarreglu Jónsbókar, þ.e. fyrirmæla í 2. kap. rekabálks um einkarétt til veiði miðað við dýpt selneta. Er ekki ástæða til að fjalla nánar um þá reglu eða gildi hennar, enda er ljóst af málsgögnum að meira dýpi er við umræddar eldiskvíar en miðað er við samkvæmt reglunni. Verður því aðild kæranda ekki reist á því að sjókvíar leyfishafa séu í netlögum landareignar hans.

Kemur þá til álita hvort kærandi hafi að öðru leyti lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa kærumáls, en svo sem fyrr er rakið verður að gera þá kröfu í þeim efnum að hið kærða rekstrarleyfi raski einstaklingsbundnum hagsmunum hans og að sú skerðing sé veruleg. Af aðaluppdráttum er fylgdu byggingarleyfisumsókn leyfishafa verður ráðið að fjarlægð frá fiskeldiskvíum og tengdum mannvirkjum að húsi kæranda sé um 2 km og að fjarlægð frá kvíunum að strandlengju sé um 1 km. Þrátt fyrir að kærandi megi vænta einhverrar truflunar vegna starfseminnar verður að teknu tilliti til framangreindra fjarlægðarmarka ekki álitið að grenndarréttur kæranda sé skertur svo verulega að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni í málinu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

62/2024 Rofabær

Með

Árið 2024, mánudaginn 12. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna klæðningar á suðurhlið fjöleignar­hússins að Rofabæ 43–47 og fyrir breyttri gerð svalahandriða.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júní 2024, kærir eigandi/íbúi, Rofabæ 47, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna klæðningar á suðurhlið fjöleignarhússins að Rofabæ 43–47 og fyrir breyttri gerð svalahandriða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. júní 2024.

Málavextir: Húsfélag Rofabæjar 43–47 hefur í hyggju að fara í viðhaldsframkvæmdir utan-húss og liggur fyrir ástandsskýrsla ráðgjafaraðila á sviði viðhalds- og endurbóta frá árinu 2016 þar sem lagðar eru til endurbætur. Á aðalfundi húsfélagsins 27. mars 2023 var samþykkt að taka tilboði í framkvæmdir sem fólu m.a. í sér að allar svalir á suðurhlið hússins yrðu brotnar niður og byggðar upp með léttum handriðum úr áli og gleri í stað steyptra handriða. Hinn 17. maí s.á. var sótt um byggingarleyfi fyrir þessum framkvæmdum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 13. júní 2023 var umsókninni vísað til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar, sem á afgreiðslufundi sínum, dags. 15. s.m., vísaði erindinu til umsagnar verkefnastjóra hjá embættinu. Það var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa, 13. júlí s.á., sem í umsögn sinni vísaði í skilmála gildandi hverfisskipulags frá árinu 2019 þar sem kveðið væri á um að við allar útlitsbreytingar og viðhald skyldi leitast við að halda í upprunalegan byggingarstíl og vernda sérkenni húsa og að þær skyldu falla vel að viðkomandi húsi hvað varði byggingarstíl, stærð, form, efni og frágang. Var þá tekið fram að með því að brjóta steypt svalahandrið og setja í stað þeirra glerhandrið, líkt og sýnt væri á uppdráttum sem hefðu fylgt byggingarleyfisumsókn yrði ásýnd og byggingarstíl hússins raskað. Þá hefðu ekki verið færð fyrir því rök að nauðsynlegt væri að klæða suðurhlið hússins með álklæðningu.

Hinn 27. júlí 2023 var erindið ásamt bréfi stjórnar húsfélagsins lagt fram að nýju á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og því vísað til umsagnar verkefnisstjóra hjá embættinu. Var erindið ekki tekið aftur fyrir á afgreiðslufundi fyrr en 26. apríl 2024 þar sem umsögn skipulags-fulltrúa frá þeim sama degi var samþykkt, en fyrir liggur að húsfélagið átti í millitíðinni í viðræðum við borgaryfirvöld. Í greindri umsögn skipulagsfulltrúa kom fram að samskonar lausn á klæðningu og svalahandriðum hefði verið samþykkt árið 2021 fyrir fjölbýlishúsið Hraunbæ 96–100. Þá var greint frá því að framkvæmdum við klæðningu væri lokið og að eldri svalahandrið hefðu verið brotin niður. Í ljósi aðstæðna og forsögu málsins var lagt til að umsókn um breytingar á svölum yrði samþykkt. Var niðurstaðan sú að heimilt væri að setja upp þau svalahandrið sem sótt hefði verið um auk þess sem heimilt væri að klæða húsið ef ástand þess væri metið sem svo að ekki væri möguleiki á að gera við skemmdir þess.

Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. maí 2024 þar sem byggingaráformin voru samþykkt.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda, sem er íbúðareigandi í fjölbýlishúsinu, er byggt á því að með hinum umdeildu byggingar­áformum sé ásýnd og byggingarstíl hússins raskað. Áformin brjóti í bága við gildandi hverfisskipulag en skipulagsfulltrúinn í Reykjavík hafi í umsögn sinni, dags. 26. apríl 2024, fallist á breytingarnar með vísan til fordæmis sem geti ekki skapað lögmætar væntingar þess efnis að farið sé gegn lögum. Þá hafi samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús ekki fylgt umsókn um byggingarleyfi líkt og áskilið sé í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt lögum um fjöleignarhús sé um sameign að ræða sem verði ekki ráðstafað með samningi nema allir eigendur séu því samþykkir og eigi hið sama við um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar, sbr. 19. gr. laganna. Varðandi byggingu, endurbætur eða framkvæmdir, sem feli í sér verulega breytingu á sameign sem ekki hefði verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu segi í 30. gr. sömu laga að ekki verði í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er byggt á því að ástand steyptra svalahandriða hafi verið orðið mjög slæmt og því hafi verið nauðsynlegt að fjarlægja þau og setja ný. Þá hafi verið nauðsynlegt að klæða suðurhlið hússins með sléttri álklæðningu og gera við helstu skemmdir á útveggjum með múrviðgerðarefnum eða öðrum þéttiefnum áður en veggir yrðu klæddir.

Samkvæmt ástandsskýrslu sem unnin hafi verið fyrir húsfélagið árið 2016, hefði ástand út-veggja suðurhliðar verið slæmt. Víða væru sýnileg einkenni frostskemmda í steypu og nokkuð um aðrar skemmdir. Mjög miklar steypuskemmdir væru í köldum steyptum flötum eins og svalagólfum, svalahandriðum og stoðveggjum sem skilji svalir íbúða á suðurhlið. Á svalagólfum væru greinileg ummerki steypuskemmda sem sæjust á útfellingum úr svalaloftum ásamt sprungum o. fl. Þá hefðu svalagólf sigið við frambrún sem benti til þess að styrkur steinsteypu væri lítill. Mætti segja að öll svalaloft bæru merki alvarlegra steypuskemmda. Ástand stálhandriða á svölum hefði verið metið lélegt og sum þeirra hefðu bognað út að ofan vegna þyngdar steyptra hluta handriðanna sem hefðu sigið. Í skýrslunni hefði verið lagt til að klæða suður- og vesturhliðar hússins með sléttri álklæðningu og að áður yrði gert við helstu skemmdir á útveggjum. Jafnframt hefði verið lagt til að svalahandrið yrðu endurnýjuð þannig að í stað steyptra handriða með stálvirki kæmu létt svalahandrið klædd með litaðri klæðningu.

Á aðalfundi húsfélagsins Rofabæjar 43–47 hinn 27. mars 2023 hefðu 12 viðstaddra samþykkt að ganga að tilboði vegna hinna umdeildu byggingaráforma en tveir verið því mótfallnir. Samkvæmt 9. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús þurfi samþykki 2/3 hluta eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, sé um að ræða endurbætur, breytingar og nýjungar sem ganga verulega lengra og séu verulega dýrari og umfangsmeiri en venjulegt viðhald. Allar ákvarðanir sem ekki eiga undir liði A-C-liði falli undir D-lið sama ákvæðis og nægi því samþykki einfalds meirihluta eigenda miðað við hlutfallstölur á löglega boðuðum húsfundi. Í 1. mgr. 42. gr. laganna segi að húsfundur geti tekið ákvarðanir samkvæmt C-, D- og E-lið 41. gr. án tillits til fundarsóknar, enda sé hann löglega boðaður og haldinn. Í 2. mgr. sömu lagagreinar segi að sé um að ræða ákvarðanir sem falli undir B-lið 41. gr. verði a.m.k. helmingur eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, að vera á fundi og tilskilinn meirihluti þeirra að greiða atkvæði með tillögu. Þar sem yfir helmingur eigenda hafi mætt á aðalfundinn og 2/3 af þeim greitt atkvæði með tillögunni væru skilyrði laganna uppfyllt.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu húsfélagsins er vísað til þess að löglega boðaður húsfundur hafi verið haldinn 27. mars 2023 þar sem tekin hefði verið ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir á suðurhlið hússins og taka tilboði lægstbjóðanda. Fyrir hefði legið ástandsskýrsla frá árinu 2016 en ástandi hússins hafi frá þeirri úttekt aðeins hrakað. Hvorki kærandi né móðir hans, sem þá hefði einnig verið skráður eigandi íbúðar kæranda, hefðu mætt á húsfundinn.

Fyrirhugaðar viðgerðir falli ekki undir A-lið 1. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og samþykki allra eigenda því ekki nauðsynlegt. Útilokað sé að heimfæra þær viðgerðir og endurbætur sem ráðist hafi verið í á suðurhlið hússins sem verulega breytingu á sameign eða útliti hússins. Nægi þá ótvírætt samþykki einfalds meirihluta eigenda.

Lögum nr. 26/1994 sé meðal annars ætlað að tryggja að enginn sé beittur órétti, sviptur eignaráðum sínum eða beittur þvingunum. Þeim sé með sama hætti ætlað að tryggja að enginn einn geti komið í veg fyrir að eignir annarra fari forgörðum, svo sem með því að hindra eðlilegt og nauðsynlegt viðhald eða stöðva hagkvæmar, viðhaldslitlar og nýtískulegar breytingar á húsi sem ekki breyta útliti hússins sérstaklega. Fyrir hafi legið úttekt ráðgjafafyrirtækisins Verksýnar þess efnis að steypuviðgerðir á suðurhlið hússins myndu ekki koma að gagni til að gera við skemmdir á húsinu og að klæðning væri því nauðsynleg. Þá sé framkvæmdum við klæðningu hússins að mestu lokið.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Úrskurðarnefndinni til ráðuneytis í máli þessu var A byggingartæknifræðingur og matsmaður.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 að samþykkja byggingaráform vegna klæðningar og svalahandriða á fjöleignarhúsinu að Rofabæ 43–47. Felast áformin í því að ráðast í viðhaldsframkvæmdir á suðurhlið hússins sem var steinsteypt, sléttpússuð og máluð, þannig að verði klædd með sléttri álklæðningu. Þá verði í stað steyptra handriða sett létt glerhandrið á svalir enda hafi steypt handrið að hluta til bognað út að ofan vegna þyngdar, svo sem það var orðað í umsögn byggingaryfirvalda Reykjavíkurborgar. Leyfishafi hefur upplýst úrskurðarnefndina um að hann hafi stöðvað framkvæmdir við svalir á meðan málið er til úrlausnar fyrir nefndinni en klæðningu suðurhliðar hússins er þegar lokið.

Í 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er gerð krafa um að með byggingarleyfisumsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. eftir atvikum samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Umsókn um byggingarleyfi í máli þessu fylgdi afrit af fundargerð aðalfundar húsfélagsins sem haldinn var 27. mars 2023. Í fundargerðinni kemur fram að á fundinn hafi mætt eigendur 13 íbúða af 24 með 56,6% eignarhluta hússins og að þar hafi verið gerð tillaga um að taka lægsta tilboði sem hefði verið samþykkt af 12 eigendum en einn verið á móti.

Samkvæmt 9. tl. B-liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 þarf samþykki 2/3 eigenda, miðað við fjölda og eignarhluta, við ákvarðanatöku um endurbætur, breytingar og nýjungar sem ganga verulega lengra og eru verulega dýrari og umfangsmeiri en venjulegt og nauðsynlegt viðhald. Ekki verður annað séð en að þær framkvæmdir sem hér um ræðir feli í sér nauðsynlegt viðhald á ytra byrði hússins. Verður að telja þær framkvæmdir sem fela í sér breytingu á útliti hússins með klæðningu þess og breyttu útliti svala ganga lengra en venjulegt og nauðsynlegt viðhald. Krefjast framkvæmdirnar því að lágmarki samþykkis 2/3 eigenda miðað við fjölda og eignar-hluta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum uppfyllti fundarsókn skilyrði 2. mgr. 42. gr. laga nr. 26/1994 og voru framkvæmdirnar samþykktar af 2/3 hluta eigenda. Kemur þá næst til skoðunar hvort önnur ákvæði laga nr. 26/1994 geri ríkari kröfur til samþykkis fyrir framkvæmdunum.

Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994 segir að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Í 2. mgr. er kveðið á um að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi í för með sér breytingar á sameign, utan húss eða innan, sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Þá er í 3. mgr. kveðið á um að samþykki einfalds meirihluta nægi til smávægilegra breytinga. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 26/1994 kemur fram að ekki sé mögulegt að gefa nákvæmari lýsingar eða viðmið um það hvað teljist til verulegra eða óverulegra breytinga. Verður því að meta það í hverju tilviki fyrir sig með hliðsjón af atvikum og staðháttum í hverju húsi.

Kærunefnd húsamála hefur látið í té álit sitt á því hvort sú breyting á svölum sem samþykkt var á húsfundi 27. mars 2023 teljist veruleg í skilningi 30. gr. laga um fjöleignarhús. Í áliti sínu frá 5. febrúar 2024 í máli nr. 38/2023 taldi kærunefndin að svo væri ekki með hliðsjón af fyrirliggjandi myndum sem sýndu bágborið ástand svalanna og að ekki yrði annað ráðið en að stærð og lögun þeirra héldi sér þrátt fyrir að breyting yrði á því efni sem notað væri á framhliðar þeirra.

Í máli þessu er um það að ræða að ein hlið hússins að Rofabæ 43–47 hefur þegar verið klædd með svokallaðri steniklæðningu og þá hafa sambyggð hús á sameiginlegri lóð sum hver verið klædd með ólíkum steni- og álklæðningum. Með hliðsjón af þessum staðháttum og því að húsið hefur þegar verið klætt að hluta, verða hin umdeildu byggingaráform ekki talin fela í sér verulegar breytingar á útliti hússins samkvæmt 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga og því hafi samþykki 2/3 hluta eigenda samkvæmt 2. mgr. lagaákvæðisins verið fullnægjandi. Er og haft í huga að ekki verður breyting á formi eða stærð svala hússins. Þá verður ekki ráðið að klæðning suðurhliðar þess hafi verulega breytingu í för með sér í skilningi ákvæðisins enda klæðningin slétt og ljós að lit, líkt og við átti um útvegginn eins og hann var áður. Umsókn um byggingarleyfi fylgdi því nauðsynlegt samþykki meðeigenda samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 26/1994, sbr. 3. tl. B.-liðar 1. mgr. 41. gr. og 2. mgr. 42. gr. þeirra. Vegna tilvísunar kæranda til 19. gr. laga um fjöleignarhús verður bent á að greinin varðar einkum ákvarðanir er snerta ráðstöfun eigna- og afnotaréttar sameigenda á sameign og er því ekki af þýðingu í máli þessu.

Í 3. málsl. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins og var það gert í máli þessu. Þá verða byggingaráform aðeins samþykkt og gefið út byggingarleyfi ef fyrirhuguð framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Á svæðinu er í gildi hverfisskipulag fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás, ásamt leiðbeiningum hverfisskipulags sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 2019. Í Byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur frá árinu 2017, sem unnin var í tengslum við gerð hverfisskipulagsins, kemur m.a. fram að skipulag hverfisins sé byggt á þeirri hugmynd að mynda skjólvegg með fjölbýlishúsum, þar sem land beri hæst í norðri, fyrir lægri byggð fyrir sunnan. Fjölbýlishúsin eru á þremur til fjórum hæðum og komið fyrir með þeim hætti að góðir garðar, opin svæði og leikvellir eru á milli þeirra að sunnanverðu en bílastæði að norðanverðu. Fjöleignarhúsið að Rofabæ 43–47 er eitt þessara húsa. Suðurhlið þess snýr að Rofabæ og norðurhliðin að sameiginlegum garði húsa á lóðinni, en einnig eru á lóðinni hús að Hraunbæ 176–198.

Í hverfisskipulaginu er lóðin innan skilmálaeiningar 7.2.11, Hraunbær og Rofabær. Þar segir um útlitsbreytingar og viðhald að taka skuli tillit til og raska sem minnst frumgerð húss og sérkennum þess, s.s. formum og hlutföllum, gluggum og gluggasetningu, inngöngum, áferð, efnisvali, litum og mynstrum. Þá segir þar um svalir og svalalokanir að þær séu heimilar, enda falli þær vel að viðkomandi húsi hvað varði byggingarstíl, stærð, form, efni og frágang. Hönnun og útfærsla skuli vera samræmd fyrir allt húsið nema aðstæður og hlutverk svalanna sé mismunandi og ekki um sömu hlið á húsinu að ræða. Um framangreint, þ.e. útlitsbreytingar, viðhald og svalir, er nánar vísað til leiðbeininga hverfisskipulags.

Í leiðbeiningum um svalir og útlitsbreytingar kemur m.a. fram að útlitsbreytingar og viðbætur við hús eigi að taka mið af byggingarstíl þess og leitast skuli við að halda í upphafleg sérkenni. Við endurbætur og breytingar þurfi að miða við upprunalegt efnisval húsa og aðliggjandi byggðar. Allur frágangur, svo sem við glugga, þakkant/þakrennur og svalir, ætti einnig að miðast við upprunalega gerð, upprunaleg hlutföll og byggingarstíl hússins. Á sama stað í leiðbeiningunum segir að almennt sé ekki heimilt að klæða hús að utan nema sýnt hafi verið fram á nauðsyn þess með óyggjandi hætti. Á húsum þar sem engin verndarákvæði séu í gildi þurfi að skoða hvort klæðning sé eina færa leiðin og hún valin með það í huga að hún rýri ekki heildarásýnd hússins. Æskilegt sé að helstu stíleinkennum sé haldið og að klæðning sé jafnvel takmörkuð við ákveðnar hliðar. Þá er tekið fram að þegar svalir séu byggðar, þeim breytt eða farið í aðrar breytingar á ytra útliti húsa sé mikilvægt að raska ekki sérkennum byggingarinnar. Í þeim tilfellum þar sem svalir eru fyrir á húsi sé best að nota sama útlit og sama efni og útfærslu og fyrir er.

Samkvæmt þessu skal við útlitsbreytingar og viðhald húsa í Árbæjarhverfi taka tillit til og raska sem minnst frumgerð húss og sérkennum þess, s.s. formum og hlutföllum, gluggum og glugga-setningu, inngöngum, áferð, efnisvali, litum og mynstrum. Þegar svalir eru byggðar, þeim breytt eða farið í aðrar breytingar á ytra útliti húsa er kveðið á um mikilvægi þess að raska ekki sérkennum bygginga. Í leiðbeiningum er tekið fram að almennt sé ekki heimilt að klæða hús að utan nema sýnt hafi verið fram á nauðsyn þess með óyggjandi hætti. Þarf að meta aðstæður hverju sinni og má vænta þess að horft verði einkum til þess hvort verja þurfi hús fyrir skemmdum. Getur val á klæðningarefni einnig verið af þýðingu með hliðsjón af heildarásýnd húss.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. maí 2024 var umsókn húsfélagsins að Rofabæ 43–47 um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á suðurhlið hússins samþykkt. Umsagnir skipulagsfulltrúa, dags. 13. júlí 2023 og 26. apríl 2024, fylgdu erindinu og vísaði byggingarfulltrúi til þess að framkvæmdin samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010. Líkt og fram hefur komið var það niðurstaðan í seinni umsögn skipulagsfulltrúa að heimila skyldi að setja upp þau svala-handrið sem sótt var um og klæða húsið ef ástand þess væri metið sem svo að ekki væri möguleiki á að gera við skemmdir þess. Með þessu áleit skipulagsfulltrúi að byggingaráformin væru ekki andstæð skipulagi og verður ekki gerð athugasemd við þá afstöðu, sem studd var ítarlegum rökum.

Það má telja til annmarka á undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar að ekki fylgdi nánari rök-stuðningur hinni kærðu ákvörðun. Í umsögn Reykjavíkurborgar til nefndarinnar í máli þessu er þó tekið skýrt fram að borgin byggi á því að ástand svalahandriða hafi verið mjög slæmt og því hafi verið nauðsynlegt að fjarlægja þau og setja ný í staðinn. Þá hafi verið nauðsynlegt að klæða suðurhlið hússins og gera við helstu skemmdir í útveggjum, svo sem segir í umsögninni, sem fái stoð í ástandsskýrslu frá 2016. Að teknu tilliti til þessara röksemda og þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um bágt ástand hússins, verður ekki gerð athugasemd við þetta mat Reykjavíkurborgar.

Með hliðsjón af framanröktu hafnar úrskurðarnefndin kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna klæðningar á suðurhlið fjöleignarhússins að Rofabæ 43–47 og fyrir breyttri gerð svalahandriða.

52/2024 Móstekkur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhús á lóð nr. 61–63 við Móstekk.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Fortis ehf., lóðarhafi Móstekks 61–63, Selfossi, landnúmer L236631, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóð nr. 61–63. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 21. maí 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar 17. apríl 2024 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi fyrir byggingu parhúss á lóð nr. 61–63 við Móstekk á Selfossi. Á framlögðum uppdráttum kom fram að um væri að ræða parhús með tveimur íbúðum. Í fundargerð afgreiðslufundarins var bókað að umsókninni væri synjað þar sem teikning gæfi til kynna að hægt verði að nýta matshluta 0102 sem tvær aðskildar „íbúðareiningar“ með tveimur aðskildum inngöngum, en í gr. 5.1. í deiliskipulagi svæðisins væri kveðið á um að í einbýlis-, par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi og að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ekki verði séð að byggingarfulltrúi hafi leitað umsagnar skipulagsfulltrúa í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem mælt sé fyrir um að það sé skylt leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Eignarhluti 0102 í parhúsinu sé hannaður þannig að um sé að ræða tvö rými með tveimur aðskildum inngöngum. Bílgeymsla tengi rýmin saman og sé innangengt frá henni að báðum rýmunum. Miði hönnunin að því að gera söluvænni vöru fyrir væntanlega kaupendur, s.s. fyrir foreldra með unglinga eða uppkomin börn. Þótt fallast megi á það með byggingarfulltrúa að hugsanlega væri unnt að nýta eignarhlutann sem tvær aðskildar „íbúðareiningar“ gæti slíkt þó ekki orðið án breytinga á hönnun mannvirkisins og að uppfylltum öðrum lagalegum skilyrðum sem varði stofnun nýrrar fasteignar.

Af lögum nr. 160/2010 leiði að byggingaryfirvöld skuli við ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis meta hvort mannvirkið og notkun þess samrýmist gildandi skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Ákvörðun um að synja umsókn um byggingarleyfi verði ekki á því reist að teikning gefi til kynna að hugsanlega megi nýta mannvirki með hætti sem ekki samrýmist deiliskipulagi. Ekki sé farið leynt með að vilji sé til að eiga möguleika á að fjölga íbúðum í parhúsinu og að vonir séu bundnar við að skipulagsyfirvöld samþykki það í framtíðinni. Slíkt sé alþekkt og feli í sér annað sjálfstætt umsóknarferli. Staðreyndin sé sú að eignarhluti 0102 sé á aðaluppdrætti skilgreindur sem ein íbúð og séu engar fyrirætlanir um að nýta hann sem aðskildar íbúðareiningar í andstöðu við gildandi deiliskipulag.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ljóst megi vera að eignarhluti 0102 sé hannaður sem tvær aðskildar íbúðareiningar og að áætlanir standi til að nýta rýmin sem slíkar. Frumskilyrði útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirki og notkun þess samrýmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt gildandi deiliskipulag í landi Bjarkar við Selfoss (Björkurstykki) sé skýrlega kveðið á um að í einbýlis- par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum. Kærandi hafi staðfest að nýta megi matshluta 0102 sem sér­íbúðar­hluta. Öllum sem skoða aðaluppdrætti sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn kæranda megi ljóst vera að um sé að ræða aukaíbúð. Í þeim hluta sé að finna sérútgang, eldhúskrók, sérbaðherbergi og á milli hennar og bílgeymslu sé teiknaður EI60 veggur. Hvort sem viðurkennt sé að nýta eigi þennan hluta sem séríbúðarhluta strax eða síðar, sé ljóst að um sé að ræða rými sem með engu móti verði skilgreint sem annað en aukaíbúð í skilningi skipulagsskilmála og erfitt sé að ímynda sér skýrara dæmi um aukaíbúð við parhús. Er og vísað til úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. júlí 2009 í máli nr. 95/2008 og frá 19. október 2011 í máli nr. 66/2010.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Reynt hafi á sambærilegt álitaefni og hér um ræði í dómi Hæstaréttar frá 17. desember 2020 í máli nr. 25/2020. Ágreiningur þess máls hafi m.a. lotið að því hvernig túlka bæri skipulagsskilmála sem kváðu á um að óheimilt væri að hafa meira en eina íbúð í húsi og hvort aðaluppdrættir mannvirkis gerðu ráð fyrir einni eða tveimur íbúðum. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að sjónarmið þau sem tiltekin hafi verið af Sveitarfélaginu Árborg skipti ekki höfuðmáli heldur fyrst og fremst hvernig skráningu fasteigna sé háttað. Eignarhluti 0102 í fyrirhuguðu parhúsi sé skilgreindur sem ein íbúð á aðaluppdrætti og ætti sú skráning að vera ráðandi við úrlausn málsins en ekki ályktanir um hugsanlega nýtingu hans. Þá verði ekki séð að þeir úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem vísað hafi verið til hafi þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús beri að afhenda byggingarfulltrúa eignaskiptayfirlýsingu til staðfestingar og komi þá til skoðunar hvort hún sé í samræmi við skipulagsskilmála, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar. Augljóst sé að byggingarfulltrúi myndi ekki staðfesta eignaskiptayfirlýsingu sem mælti fyrir um að eignar­hlutinn skiptist í tvær aðgreindar íbúðir. Muni bann við aukaíbúðum í skipulagsskilmálum því áfram hafa þýðingu þótt hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar á byggingarleyfis­umsókn vegna húss á lóð nr. 61–63 við Móstekk. Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Þá verða byggingaráform aðeins samþykkt og gefið út byggingarleyfi ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis, sbr. 11. gr og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2020–2036 er landnotkun umrædds svæðis skilgreind sem íbúðarsvæði, ÍB7, Björkurstykki. Kemur fram að um sé að ræða óbyggt svæði og að í gildi sé deiliskipulag fyrir hluta svæðisins og að gert sé ráð fyrir fjölbreyttum íbúðakostum. Deiliskipulag í landi Bjarkar við Selfoss (Björkurstykki) tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. júní 2019. Um hönnun mannvirkja og uppdrætti er tiltekið í kafla 4.1. í greinargerð deiliskipulagsins að húsagerðir séu frjálsar að öðru leyti en því sem mæli- og hæðarblöð, skilmálar skipulagsins, byggingarreglugerð og aðrar reglugerðir segi til um. Jafnframt er tekið fram að þar sem hús séu samtengd skuli samræma útlit, þakform, lita og efnisval. Það eigi einnig við um hús sem séu á sömu lóð en séu ekki samtengd. Á aðaluppdráttum skuli sýna skipulag lóðar, þ. á m. bílastæði. Á grundvelli deiliskipulagsins gefi sveitarfélagið út mæli- og hæðablöð sem sýni nákvæmar stærðir lóða, lóða­mörk og byggingarreiti húsa. Í kafla 4.7 greinargerðarinnar segir um bílastæði og bílageymslur að gert sé ráð fyrir tveimur bílastæðum við hverja íbúð í einbýlis-, par- og raðhúsum. Þá kemur fram í kafla 5.1 að í einbýlis-, par- og raðhúsum skuli vera ein íbúð í hverju húsi og að ekki sé heimilt að hafa aukaíbúð á lóðum. Um parhús, gerð P1, segir að innan byggingarreits sé heimilt að reisa einnar hæðar parhús ásamt sambyggðri bílgeymslu og að koma skuli fyrir tveimur bílastæðum á lóð.

Óyggjandi er af aðaluppdráttum sem fylgja byggingarleyfisumsókn kæranda að um sé að ræða þrjár aðskildar íbúðareiningar. Af hálfu kæranda hefur verið vísað til stuðnings málsrökum til dóms Hæstaréttar frá 17. desember 2020 í máli nr. 25/2020, sem varðaði aukaíbúð í einbýlishúsi. Þar er með almennum hætti fjallað um að ekki sé að finna í skipulagslögum eða öðrum réttarheimildum um fasteignir fyrirmæli um hvenær fleiri en ein íbúð teljist óhjákvæmilega vera í húsi. Þá sé heldur ekki að finna neinar haldbærar vísbendingar um að hlutlægt mat á innra skipulagi og öðrum eiginleikum húss samkvæmt aðaluppdráttum eigi að ráða við mat á því hvort hús teljist einbýli og fullnægi þar með skilmálum deiliskipulags sem mæli fyrir um að óheimilt sé að hafa fleiri en eina íbúð í húsi. Í ljósi þessa hefði rökstuðningur byggingar­fulltrúa mátt vera með ítarlegri hætti, en þó að teknu tilliti til þess að aðstæður eru aðrar.

Af hálfu úrskurðarnefndarinnar er gerð bending um að á uppdrætti deiliskipulagsins, þ.e. við götu 15, er gert ráð fyrir parhúsi, P1, á tveimur jafn stórum lóðum, að heildarstærð 1.260 m2 ásamt tveimur samliggjandi bílastæðum. Á mæliblaði lóðarinnar, sem áritað var af skipulagsfulltrúa 22. nóvember 2023, eru bílastæðin sýnd með sambærilegum hætti en húsið sýnt á einni lóð, L236631, þar sem önnur íbúðin er stærri og tekur til sín aukinn hluta lóðarinnar um leið og tilhögun bílastæða er breytt.

Með vísan til framangreinds verður að líta svo á að rökstuðningi og undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt og því sé rétt að fella hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar frá 17. apríl 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir parhúsi á lóð nr. 61–63 við Móstekk.

24/2024 Túngata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a  við Túngötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 28. febrúar 2024, kærir eigandi að Marargötu 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á íbúðarhúsi á lóð nr. 36a við Túngötu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2024.

Málavextir: Á Túngötu 36 og 36a er parhús. Hinn 26. ágúst 2022 kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í máli nr. 22/2022 þar sem felld var úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. mars s.á. um að samþykkja leyfi fyrir áður gerðum breytingum á húsinu að Túngötu 36a. Fólust þær breytingar í því að í stað glugga á norðurhlið hússins voru settar dyr sem stækkaði opið auk þess sem gerðar voru svalir eða pallur með tröppum niður á lóðina. Í niðurstöðu nefndarinnar kom fram að ekki væri loku fyrir það skotið að umdeildar framkvæmdir gætu haft grenndaráhrif gagnvart fasteign kæranda, s.s. vegna auk­innar innsýnar og breyttrar umferðar um lóð leyfishafa. Ætti undantekningarregla 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 því ekki við og hefði borgaryfirvöldum borið að grenndar­kynna hina umdeildu umsókn fyrir kæranda og öðrum er gætu átt hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 30. janúar 2024 var samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu á húsinu að Túngötu 36a. Fólst hún í það sinn aðeins í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Var umsóknin talin samræmast ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010. Jafnframt var tekið fram að um væri að ræða samþykkt á framkvæmd sem gerð hefði verið án byggingarleyfis. Fékk framkvæmdar­aðili sent bréf, dags. 5. febrúar 2024, þar sem fram kom að umsókn hans um byggingarleyfi hefði verið samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með hinni kærðu ákvörðun sé hunsaður úrskurður úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022. Við undirbúning ákvörðunar­innar hafi ekki farið fram grenndarkynning en innsýn í íbúð sé óbreytt frá fyrra máli. Þá fáist ekki séð að Minjastofnun Íslands hafi fjallað um breytinguna, en hús á lóðum Túngötu 36 og 36a hafi verið reist fyrir árið 1940 og falli því undir áskilnað 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Jafnframt verði hvorki séð hvort sameigandi parhússins hafi samþykkt umrædda framkvæmd né hvers vegna vísað hafi verið til þess við afgreiðslu málsins að fyrir lægi samþykki lóðarhafa Túngötu 23. Sé um rökstuðning fyrir kæru vísað til rökstuðnings úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 22/2022.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað. Engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Sérstaklega hafi verið horft til þess að fyrirliggjandi umsókn væri talsvert frábrugðin fyrri umsókn frá árinu 2022. Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi umsækjandi lagt fram nýja umsókn um byggingarleyfi, dags. 18. október 2023, þar sem einungis hafi verið sótt um leyfi fyrir áðurgerðum breytingum er fólust í síkkun glugga á norðurhlið hússins. Litið hafi verið til þess að á húsinu hafi verið minni gluggi frá byggingu þess og staðfestu upphaflegar teikningar það. Eftir vettvangsskoðun byggingarfulltrúa og mat á umfangi og grenndaráhrifum breytingarinnar gagnvart fasteign kæranda hafi umsóknin verið samþykkt. Byggingar­­fulltrúi hafi talið breytinguna í engu skerða hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn og því hafi ekki verið tilefni til að grenndarkynna umsóknina, sbr. loka­málslið 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsókninni hafi fylgt samþykki sameiganda að Túngötu 36 og þar með hafi skilyrði um samþykki meðeiganda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús verið uppfyllt, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, en tilvísun til samþykkis lóðar­hafa Túngötu 23 í fundargerð byggingarfulltrúa frá 30. janúar 2024 hafi verið ritvilla sem búið sé að lagfæra.

Breytingin muni ekki hafa aukin grenndaráhrif í för með sér gagnvart fasteign kæranda, hvorki hvað varði innsýn né önnur grenndaráhrif. Snúi umræddur gluggi að bakgarði og girðingu milli Túngötu 36a og fasteignar kæranda. Framkvæmdir á Túngötu 36a hafi verið gerðar á árinu 2021 en þá hafi verið við það miðað í 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að leita skyldi umsagnar Minjastofnunar Íslands væru hús byggð árið 1925 eða fyrir þann tíma. Það hafi ekki verið fyrr en með breytingarlögum nr. 126/2022 sem tekið hafi gildi 1. janúar 2023 sem miðað hafi verið við að leita skyldi umsagnar vegna húsa sem byggð væru fyrir árið 1940. Þar sem samþykki byggingarfulltrúa hafi tekið til áðurgerðra breytinga hafi hann ekki talið sig skyldan til að fylgja því eftir hvort umsækjandi hefði leitað álits Minjastofnunar Íslands. Samkvæmt athugasemdum með frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 80/2012 skyldu eigendur leita álits stofnunarinnar áður en ráðist væri í verulegar breytingar, flutning eða niðurrif. Um hafi verið að ræða minniháttar breytingu á einum glugga sem falli þar af leiðandi ekki undir 30. gr. laganna.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila, fyrri eiganda Túngötu 36a, er tekið fram að eftir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 22/2022 hafi eigendur hætt við þau áform sín að byggja stigapall og tröppur niður á plan norðan megin við húsið en eftir hafi staðið síkkun glugga í stofu. Slík framkvæmd sé ekki byggingar­leyfisskyld en skuli tilkynnt byggingarfulltrúa. Þar sem síkkunin hafi verið framkvæmd áður en byggingarfulltrúa hafi verið tilkynnt um fyrirhugaða síkkun hafi embættið ákveðið að sækja skyldi um byggingarleyfi. Ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi enda framkvæmdin eingöngu tilkynningaskyld.

Marargata 7 standi töluvert hærra en Túngata 36a og hafi því innsýn frá Marargötunni verið mikil áður en glugginn hafi verið síkkaður. Snúi sex stórir stofugluggar að Túngötu 36a þar sem á móti hafi verið fimm misstórir gluggar. Standist húsin ekki alveg á og að auki séu 30 m frá glugganum á Túngötu 36a að húsi kæranda og nokkur gróður á milli húsanna. Vegna fjarlægðar og afstöðu verði ekki séð hvernig innsýn kæranda inn um einn síkkaðan glugga í stofu Túngötu 36a geti haft nokkur slík grenndaráhrif að tilefni sé til kærunnar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að meðal þeirra gagna sem fylgt hafi umsögn Reykjavíkurborgar sé teikning arkitekts sem dagsett sé 18. október 2023. Geri kærandi ráð fyrir að umrædd teikning sé flokkuð sem byggingarleyfisumsókn sem tekin hafi verið afstaða til á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. janúar 2024. Ný umsókn um byggingarleyfi hafi því borist frá tilgreindum arkitekt rúmi ári eftir að úrskurðarnefndin hafi kveðið upp úrskurð sinn í máli nr. 22/2022. Þegar umsóknin hafi verið lögð inn hjá Reykjavíkurborg hafi lög nr. 126/2022 sem breytt hafi lögum nr. 80/2012 um menningarminjar tekið gildi. Sú lagaskylda að leita skuli umsagnar Minjastofnunar Íslands hafi ekki verið uppfyllt. Það sé útilokað að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að leggja mat á það hvaða breytingar á húsum sem falli undir 30. gr. laganna teljist minniháttar eða meiriháttar, verulegar eða óverulegar. Slíkt mat sé í höndum Minjastofnunar, ef það eigi yfirleitt að fara fram. Hafi starfsmaður Reykjavíkurborgar óskað eftir afstöðu stofnunarinnar til umsóknarinnar og í svari 21. mars 2024 hafi m.a. komið fram að stofnunin teldi umræddar breytingar umsagnarskyldar skv. 30. gr. laga nr. 80/2012. Reykjavíkurborg hafi hunsað þessa niðurstöðu og upplýst nefndina um að byggingarfulltrúi teldi að ekki væri þörf á því að leita álits Minjastofnunar.

Fyrir óleyfisframkvæmd fyrri eigenda Túngötu 36a hafi gluggi á norðurvegg hússins við Túngötu 36a verið þannig staðsettur að eigendur íbúða gegn nefndri íbúð hafi ekki séð inn í hana. Hafi framkvæmdirnar falist í því að téður gluggi hafi í það minnsta verið tvöfaldaður að stærð. Eftir breytinguna hafi innsýn aukist verulega inn í íbúðina frá íbúðum við Marargötu 7.

Eigendaskipti hafa orðið að Túngötu 36a og hafa nýir eigendur tekið undir málatilbúnað borgaryfirvalda.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 6. júní 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. janúar 2024 að samþykkja umsókn um leyfi fyrir áður gerðri breytingu sem fólst í því að gluggi á 1. hæð norðurhliðar íbúðarhúss á lóð nr. 36a við Túngötu var síkkaður.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Með hinu umdeilda leyfi var fallist á stækkun glugga á norðurhlið hússins að Túngötu 36a. Á þremur hæðum hússins á þeirri hlið hafa frá byggingu þess árið 1937 verið níu gluggar. Sá gluggi sem um er deilt í málinu nær nú niður á gólf. Glugginn er í stofu hússins og við hlið hans er stærri stofugluggi og er sambærilegur gluggi í hinum hluta parhússins, þ.e. í þeim hluta sem er á lóð nr. 36 við Túngötu. Hvorki verður séð að innsýn yfir á lóð kæranda aukist að neinu marki né að aukin innsýn hans vegna síkkunar gluggans snerti lögvarða hagsmuni hans með þeim hætti að játa verði honum kæruaðild vegna hinnar umdeildu ákvörðunar. Þá teljast sjónarmið um verndun mannvirkja samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar til almanna­hagsmuna en slík sjónarmið teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Verður kærumáli þessu af framangreindum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

41/2024 Brekadalur

Með

Árið 2024, föstudaginn 3. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 41/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. apríl 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Brekadals 7, Reykjanesbæ, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að „byggingarlínu verði breytt að bindandi línu samkvæmt deiliskipulagi“. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðar-nefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 11. apríl 2024.

Málavextir: Lóðarhafi Brekadals 5 sendi fyrirspurn til Reykjanesbæjar 25. nóvember 2022 vegna lóðar sinnar. Kom þar fram að fyrirhuguð væri nýbygging fyrir einbýli og að fyrirspurnin gengi út á að kanna grundvöll fyrir 14,0 m breiðu húsi að hluta, en byggingarreiturinn væri 10,0 m á breidd og 24,0 m á lengd. Skyggni og svalir færu 1,5 m út fyrir 14,0 m breiddina. Tók lóðarhafi fram að fordæmi væru fyrir breiðari húsum við sömu götu og væri Brekadalur 9 t.a.m. einnig 14 m breitt hús fyrir utan svalir og skyggni sem færi 2,8 m út fyrir 14 m breiddina.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. desember s.á. var erindi kæranda um breikkun á byggingarreit um 4 m samþykkt og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 3. janúar 2023. Kom fram í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs að allir byggingarreitir þeirra húsa sem risið hafi við þessa röð hafi verið breikkaðir um 2–4 m og í ljósi þess fordæmis væri erindið samþykkt.

 Lóðarhafi sendi fyrirspurn til Reykjanesbæjar 30. júlí 2023 þar sem kannaður var grundvöllur fyrir útfærslu byggingar sem samkvæmt fyrirspurnarteikningu, dags. 25. s.m., átti að vera 15,5 m á breidd. Kom fram í fyrirspurn lóðarhafa að eldri fyrirspurn hefði þegar verið sam­þykkt, þar sem fjallað hafi verið um breiðara hús en byggingarreitur segði til um, vegna þess að önnur hús í götunni væru flest einnig breiðari en tilgreindur byggingarreitur. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 18. ágúst 2023 var erindi lóðarhafa um breikkun á byggingarreit úr 10 m í 15,5 m hafnað og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 22. ágúst 2023.

 Með bréfi dags. 28. ágúst 2023 var kærendum, með vísan til 5. mgr. 13. gr., 2. mgr. 43. gr. og 1.–2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, grenndarkynnt breyting á deiliskipulagi fyrir Brekadal 5 þar sem fram kom að óskað væri eftir stækkun á byggingarreit þannig að byggingar­reiturinn yrði 14 m að breidd í stað 10 m. Kærendur mótmæltu breytingunni með bréfi, dags. 1. september s.á., þar sem breytingin hefði áhrif á birtu á lóð þeirra.

Af tölvupóstsamskiptum milli  sveitarfélagsins og lóðarhafa í september 2023 virðist sem fallið hafi verið frá hinum grenndarkynntu áformum, en lóðarhafa bent á að „aðlaga bygginguna að því sem samþykkt var áður [og þá] væri hægt að afgreiða byggingarleyfisumsókn byggða á fyrri afgreiðslu.“

Ný umsókn lóðarhafa, dags. 5. janúar 2024, var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. febrúar s.á. Kom þar fram að sótt hefði verið um byggingarleyfi í umfangsflokki II fyrir ein­býlis­húsi á tveimur hæðum með innbyggðri bílgeymslu á efri hæð. Stækkun byggingarreits hafi verið samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. desember 2022. Í fundargerð kom fram að erindinu væri vísað til skipulagsráðs þar sem grenndarkynning væri runnin úr gildi. Var lóðarhafa tilkynnt um það með bréfi, dags. 9. s.m. Jafnframt kom fram á fundinum að niðurstaða afgreiðslufundar byggingarfulltrúa fæli í sér samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Umsókn lóðarhafa var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. mars 2024 og segir í fundargerð þess fundar að byggingaráform séu samþykkt og að erindið uppfylli gildandi skipulagsskilmála. Var lóðarhafa tilkynnt um þessa afgreiðslu með bréfi dags. sama dag og kom þar aftur fram að niðurstaða á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa fæli í sér samþykkt byggingaráforma í samræmi við 11. gr. laga nr. 160/2016.

Kærendum var tilkynnt með tölvubréfi 8. mars 2024 að erindi um breytingu á byggingarreit yrði tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. mars s.á. og yrði þar farið yfir þær athugasemdir sem borist hefðu við grenndarkynningu. Af fundargerð ráðsins verður ekki ráðið að málið hafi verið tekið fyrir á þeim fundi.

Byggingarleyfi vegna byggingar einbýlishúss að Brekadal nr. 5 samkvæmt aðaluppdráttum, dags. 11. janúar 2024, var gefið út 26. mars s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að Reykjanesbær hafi ekki gætt að lögum og reglum er ákvörðun hafi verið tekin um að víkja frá gildandi deiliskipulagi. Svo virðist sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt byggingaráform og vísað þar í ákvörðun sem tekin hafi verið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. mars. 2022. Á þeim fundi hafi komið fram að allir byggingarreitir húsa sem risið hafi við þessa röð hafi verið breikkaðir um 2–4 m og í ljósi þess fordæmis sé erindið um stækkun á byggingarreit samþykkt. Kærendur mótmæli þessu sem röngu, enda hafi allar lóðirnar við Brekadal, þ.e. nr. 1, 3, 7, 11 og 13, fylgt bindandi byggingarlínu í 15 m í austri, nema lóð nr. 9 þar sem hún nái einum metra austar. Breikkun lóða sé í flestum tilvikum til vesturs sem hafi ekki áhrif á skuggamyndun nærliggjandi húsa. Hér sé færsla um 2 m til austurs sem myndi skugga á lóð kærenda. Bókun fundarins um að byggingaráformin uppfylli gildandi skipulagsskilmála sé því röng.

Þá geti byggingarfulltrúi ekki vikið frá gildandi deiliskipulagi nema að gættu ákvæði 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Svo virðist ekki hafa verið hafa verið gert hér enda sé vísað í ákvörðun sem tekin hafi verið áður en grenndarkynning hafi farið fram 28. ágúst 2023. Þannig hafi verið litið fram hjá athugasemdum kærenda og þær ekki hafa fengið efnislega meðferð. Auk þess virðist málið ekki hafa fengið eðlilega málsmeðferð þar sem hvorki samþykki umhverfis- og skipulagsráðs né bæjarstjórnar liggi fyrir en byggingarleyfi hafi engu að síður verið gefið út og teikningar samþykktar.

Hin kærða ákvörðun brjóti gegn rétti kærenda. Ákvæði deiliskipulags um bindandi byggingar­línu í austri hafi verið sett til að tryggja birtuskilyrði við næstu lóð þar sem lóðirnar séu þröngar og byggingarreitur aðeins 10 m á breidd. Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga beri við útgáfu byggingarleyfis að tryggja að hagsmunir nágranna skerðist í engu m.a. varðandi skuggavarp.

Samkvæmt þeim teikningum af Brekadal 5 sem birtar hafi verið á vef Reykjanesbæjar 9. mars 2024 hefur línan verið færð um tvo metra austur fyrir bindandi byggingarlínu og valdi því verulega meiri skugga á verönd kærenda í vestur en útreikningar hafi sýnt við byggingu fasteignar kærenda, enda hafi þar verið hafðar til hliðsjónar þær reglur sem settar hafi verið í deiliskipulagi svæðisins og á lóðarblöðum. Samþykktar teikningar á vef Reykjanesbæjar séu einnig breyttar frá þeim teikningum er fylgt hafi í bréfi Reykjanesbæjar um grenndarkynningu 28. ágúst 2023. Búið sé að bæta skorsteinsvegg við sem sé hærri en leyfileg hámarkshæð byggingar skv. deiliskipulagi, þ.e. 4,3 m. Óásættanlegt sé að byggingarlína Brekadals 5 sé flutt um tvo metra að lóð kærenda til austurs með þeirri viðbótar skuggamyndun sem það valdi.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er tekið fram að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið vönduð og vel rökstudd og byggi á ítarlegum gögnum. Við með­ferð og afgreiðslu málsins hafi sveitarfélagið farið eftir skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Að mati sveitarfélagsins hafi ekkert komið fram sem dragi lögmæti ákvörðunarinnar í efa og að fyrirliggjandi gögn séu gild og í samræmi við lög og faglega stjórn­sýslu. Sveitarstjórn sé bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins sem feli m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Ekkert sé fram komið í málinu sem bendi til þess að stefnt sé að öðru en lögmætum markmiðum. Því sé hafnað að ákvörðunin sé ekki í samræmi við deiliskipulag og önnur fordæmi í sömu götu, allir byggingarreitir sem skráðir séu á oddatölu hafi fengið sambærilega meðferð, þar sem ljóst hafi verið að byggingarreitir hafi verið áætlaðir litlir.

Ef kærendur vilji bera fyrir sig að skuggavarp hafi áhrif á aðliggjandi lóðir þurfi að sýna fram á það með þar til gerðum gögnum, en kærendur hafi ekki sýnt fram á að stækkunin hafi áhrif á lóð þeirra með öðru en orði á blaði. Því geti kærendur ekki byggt rökstuðning sinn á skugga­varpi, þar sem ekki séu til nein gögn um skuggavarp á lóð nr. 7. Sveitarfélagið telji ekki að slík gögn séu þörf vegna sinnar ákvörðunartöku þar sem málið sé afgreitt líkt og fordæmi eru um vegna annarra lóða í götunni og að kærendur hafi ekki sýnt fram á það að skuggavarp sé í raun og veru til staðar.

Samkvæmt samþykktu lóðar/mæliblaði ætti gólfkóti Brekadals 7 að vera +11,80 m en gólfkóti fasteignar kærenda sé hins vegar +11,40 m, sem sé 40 cm neðar en ætlað hafi verið, án þess að fyrir liggi að sveitarfélagið hafi sett þá kvöð á lóð þeirra. Þar af leiðandi sé lóðin neðar en húsið sem áætlað sé að byggt verði austan megin við lóð kærenda, þ.e. lóð nr. 5 við Brekadal.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að ekkert í kæru eigi við rök að styðjast og að öllum fullyrðingum sem þar komi fram sé hafnað sem röngum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi vegna einbýlishúss á tveimur hæðum með innbyggðri bílgeymslu á efri hæð að Brekadal 5, Reykjanesbæ. Eru kærendur eigendur næstu lóðar, Brekadals 7, og eiga kæruaðild að máli þessu vegna grenndar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Verður því einungis tekin afstaða til ógildingarkröfu kærenda, en ekki verður tekin afstaða til varakröfu kærenda að „byggingar­línu verði breytt að bindandi línu samkvæmt deiliskipulagi“.

Á svæðinu er í gildi deiliskipulag Dalshverfis 1. áfanga frá árinu 2005. Hefur deiliskipulaginu verið breytt alloft, en engin breyting vegna Brekadals 5 hefur verið birt í B-deild Stjórnar­tíðinda. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins segir í kaflanum „Byggingar“ að byggingar­reitir séu sýndir á mæliblöðum og skilmálateikningum og skuli byggingar standa innan þeirra. Þó megi einstaka minniháttar byggingarhlutar, svo sem þakskegg, skyggni og gluggafrágangur skaga út fyrir byggingarreit samkvæmt sérákvæðum húsagerða. Byggingarreitir séu sýndir með brotnum línum og heilum þykkum línum, byggingarlínum. Byggingarlína, þ.e. heil og þykk lína, ákvarði staðsetningu húss á lóð og sé bindandi, þótt gera megi ráð fyrir minni háttar innskotum samkvæmt sérákvæðum skulu hús fylgja byggingarlínu.

Sérskilmálar um svokölluð „I einbýlishús“ eru í gildi samkvæmt deiliskipulaginu fyrir odda­tölur Brekadals, þ.e. lóðarnúmerin 1–13. Er þar fjallað um byggingarreiti og þau ákvæði sem fram koma í almennum skilmálum um að byggingar skuli standa innan byggingarreita, en að minniháttar byggingarhlutar megi skaga út fyrir reitinn. Þar kemur einnig fram að þess skuli gætt að byggingarhlutar utan byggingarreits séu sem fyrirferðarminnstir og rýri ekki heildar-yfirbragð. Á skipulagsuppdrætti má sjá að byggingarreitur og byggingarlínur falla saman þar sem þær er að finna.

Samkvæmt 11. gr. og 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða hvorki byggingar­áform samþykkt né byggingarleyfi gefið út nema mannvirki sé í samræmi við skipulags­áætlanir á viðkomandi svæði.

Áritaðir uppdrættir vegna Brekadals 5 sýna að byggingarreitur sé 14,0 m á breidd og fer húsið þar með bæði út fyrir byggingarreit og byggingarlínu deiliskipulags til austurs. Þá fara hlutar hússins einnig út fyrir byggingarreit til vesturs. Eru hin samþykktu byggingaráform ekki í samræmi við deiliskipulag hvað þetta varðar, sem telja verður til verulegs annmarka á hinni kærðu ákvörðun.

Hvað varðar sjónarmið leyfishafa um fordæmi má benda á að deiliskipulagi Dalshverfis 1. áfanga var breytt sérstaklega vegna Brekadals 9 með samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þann 20. september 2017 á þann veg að byggingarreitur stækkaði um 2 m. Birtist auglýsing þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 19. október s.á. Að öðru leyti þykir rétt að taka fram að tilvísun til jafnræðissjónarmiða geta ekki skapað réttmætar væntingar þess efnis að farið sé gegn lögum, óháð því hvort slíkt hafi viðgengist áður.

Verður í ljósi alls framangreinds að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 8. mars 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Brekadals 5, Reykjanesbæ.

111/2023 Hafnargata

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 18. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kæra íbúar að Búðavegi 24, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september s.á. um að samþykkja byggingarleyfisumsókn eiganda fiskiðjuvers á Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði, við mörk þeirrar lóðar gegnt lóð kærenda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og vísað til efnislegrar meðferðar hjá byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun yfirvofandi framkvæmda, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 28. september 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 27. september 2023.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Á lóð Hafnargötu 36 á Fáskrúðsfirði er starfrækt fiskiðjuver Loðnuvinnslunnar hf. Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var lögð fram umsókn um leyfi til að reisa tvær viðbyggingar við iðjuverið að flatarmáli 147,5 m2 og 652,7 m2 í kverk austan frystitækjasalar og norðan við pökkunarsal og starfsmanna­aðstöðu. Kom þar fram að bæta ætti við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá kælibúnaði til að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Að lokinni grenndarkynningu var byggingar­leyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og staðfest í bæjarráði 23. s.m. Við þá afgreiðslu kom fram að hávaði við fasteign kærenda yrði mældur að framkvæmdum loknum til að sannreyna útreikninga um að hljóðstig yrði með fram­kvæmdunum innan tilskilinna marka.

Framangreind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði uppkveðnum 11. febrúar 2022 í máli nr. 138/2021 hafnaði ógildingu hennar, m.a. þar sem útreikningar á hljóðvist bentu til þess að þegar framkvæmdir yrðu afstaðnar mundi hávaði frá starfseminni ekki fara yfir þau mörk við fasteign kæranda sem tilgreind væru í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Kærendum var jafnframt bent á að leiddi hin kærða framkvæmd til hávaða umfram leyfileg mörk gætu kærendur snúið sér til heilbrigðisnefndar, sem færi með eftirlit samkvæmt reglugerðinni.

Á fundi Heilbrigðisnefndar Austurlands 19. janúar 2023 var bókað að hávaði mældist yfir viðmiðunarmörkum að næturlagi og var óskað eftir tímasettri úrbótaáætlun frá Loðnu­vinnslunni vegna þessa. Var sú áætlun samþykkt á fundi framkvæmdaráðs Heilbrigðiseftirlits Austurlands 10. febrúar s.á. og afgreiðslan staðfest á fundi heilbrigðisnefndar 16. mars s.á. Með bréfi kærenda, dags. 5. júlí s.á., var farið fram á að eftirlitið gripi strax til aðgerða gegn ólögmætri hávaðamengun sem hlytist af starfsemi Loðnuvinnslunnar. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins svaraði kærendum með bréfi, dags. 20. s.m., þar sem fram kom að unnið væri eftir samþykktri úrbótaáætlun og því væru ekki forsendur til að grípa til frekari aðgerða að svo stöddu. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum 19. október 2023 í máli nr. 104/2023 vísaði málinu frá þar sem það væri í höndum heilbrigðis­nefndar, en ekki framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlitsins að taka ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða.

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar 7. mars 2023 samþykkti nefndin umsókn leyfishafa um byggingaráform og byggingarleyfi við Hafnargötu 36 vegna hljóðmanar við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Fól nefndin byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi er öllum tilskildum gögnum hefði verið skilað. Á fundi nefndarinnar 18. apríl s.á. fól nefndin skipulags- og umhverfisfulltrúa að fella byggingarleyfið úr gildi og grenndarkynna umsóknina. Sú grenndarkynning fór fram dagana 28. apríl til 26. maí s.á. og bárust þá athugasemdir frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið á dagskrá nefndarinnar á fundi 30. maí s.á. og var afgreiðslu þess frestað. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 13. júní 2023 var byggingarfulltrúa síðan falið að kalla eftir nánari hönnunar­gögnum sem sneru að mótvægisaðgerðum varðandi hljóðvist við Hafnargötu 36.

Í framhaldi þessa barst Fjarðabyggð minnisblað frá verkfræðistofu, dags. 21. júní 2023, þar sem fram kom m.a. að með hljóðvegg mætti gera ráð fyrir að hljóðstig lækkaði um 7-9 dB framan við Búðarveg 24 í tveggja metra hæð yfir landi og með honum drægi einnig úr umhverfishávaða. Enn var málið tekið fyrir á fundi 27. s.m. og var þar fjallað um minnisblað verkfræðistofunnar. Var málinu frestað en á fundi nefndarinnar 15. ágúst s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og byggingarfulltrúa falið að svara athugasemd kærenda sem barst við grenndarkynningu og leggja fyrir á næsta fundi. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 29. ágúst 2023 var umsóknin síðan samþykkt og var tekið fram að hún næði til þess að reisa hljóðmön á lóðarmörkum Hafnargötu 36 er hefði þann tilgang að draga úr hljóðmengun frá fiskvinnslu. Hinn 5. september s.á. gaf byggingarfulltrúi út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að hin umdeilda framkvæmd hafi átt að fara í deiliskipulagsferli en ekki eingöngu grenndarkynningu. Vísað sé til 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem fram komi að byggingarleyfi sem séu ekki í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar skuli fara í deiliskipulagsferli og að ekki nægi að grenndarkynna slíkar framkvæmdir.

Framkvæmdir varði byggingu á risastórum hljóðvegg sem sé staðsettur nokkrum metrum frá útidyrum kærenda. Um sé að ræða breytingu á byggðamynstri og þeim viðmiðum sem gerist og gangi í þéttbýli á Fáskrúðsfirði, sem og annars staðar. Kærendum sé ekki kunnugt um að slík mannvirki séu sett upp vegna brota á reglugerð um hávaða í andstöðu við vilja þess sem brotið sé gegn án þess að deiliskipulagi sé breytt. Hljóðveggur sá sem um ræði myndi ekki einungis breyta útsýni og nýtingu á eign kærenda heldur myndi hann, ásamt því fordæmi sem hlytist af byggingu hans, breyta grundvallarbyggðarmynstri Fáskrúðsfjarðar á þeim stöðum þar sem íbúðarhúsnæði sé nálægt atvinnustarfsemi.

Málsrök Fjarðabyggðar: Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að málsmeðferð sveitarfélagsins hvíli á 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu hafi verið farið yfir innkomnar athugasemdir og afstaða tekin til byggingarleyfisumsóknar. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafi tekið ákvörðun um að samþykkja byggingaráform og falið byggingar­fulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar öllum tilskildum gögnum hefði verið skilað. Ekki sé fallist á að um risastóran hljóðvegg sé að ræða. Hæð og umfang veggjarins sé ekki frábrugðið því sem tíðkist við iðnaðarlóðir. Veggurinn sé ekki hár, en hæð hans sé greinilega ákveðin með tilliti til hljóðtæknilegra sjónarmiða og þess að hæðarkóti bygginga við Hafnargötu 36 sé lægri en Búðavegar sem er fyrir ofan.

Því sé hafnað að samþykkt framkvæmdanna feli í sér breytingar á byggðamynstri og þeim viðmiðum sem gangi og gerist í þéttbýli á Fáskrúðsfirði sem og annars staðar. Þá sé því hafnað að um fordæmisgefandi framkvæmd sé að ræða sem muni breyta grundvallarbyggðamynstri Fáskrúðsfjarðar. Umsókn leyfishafa megi rekja til sérstakra og afmarkaðra hljóðvistarlegra aðstæðna vegna staðsetningar eimsvala við Hafnargötu 36 og legu Búðavegar þar fyrir ofan. Þá sé Búðavegur á mörkum tveggja landnotkunarsvæða samkvæmt gildandi aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Leyfið hafi því ekki sérstaka fordæmisþýðingu.

 Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærendur virðist freista þess að ná fram niðurstöðu í málinu sem hafi ekkert með bætta hljóðvist á svæðinu að gera. Því sé mótmælt að umrædd framkvæmd sé við lóðarmörk Búðavegar 24 og Hafnargötu 36. Hin umdeilda hljóðmön sé inni á lóð Hafnargötu 36 og sé 1,8 m frá lóðarmörkum. Þá liggi umferðargata í eigu sveitarfélagsins á milli lóðanna, sú gata sé 6,8 m breið og sé íbúðarhús kærenda 1,4 m frá veginum. Samtals séu því um 10 m á milli íbúðarhúss kærenda og hljóðmanar leyfishafa. Að lokum megi benda á að gengið sé inn í húsið að Búðavegi 24 að ofanverðu. Um sé að ræða hljóðmön/skjólvegg sem sé 30 cm minni en almennt sé heimilt án byggingarleyfis samkvæmt byggingarreglugerð.

Bygging hljóðveggjarins sé í beinum tengslum við starfsemi lóðarhafa og samræmist ákvæðum aðalskipulags Fáskrúðsfjarðar, en þau mæli ekki gegn því að settar séu upp girðingar og/eða hljóðmanir nærri lóðarmörkum á iðnaðarsvæðum. Slíkt sé ekki óalgengt og jafnvel æskilegt m.t.t. slysahættu. Samræmist það auk þess ákvæðum aðalskipulags að frágangur sé vandaður, en ljóst sé að hljóðmönin hafi bæði þýðingu á umhverfisþætti vegna hljóðs og útsýnis inn á iðnaðarsvæðið. Framkvæmdin sé að fullu leyti í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í skilningi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og því engin þörf á deiliskipulagsgerð vegna hennar. Hún muni auk þess bæta hljóðvist á svæðinu og ekki skerða grenndarhagsmuni umfram það sem almennt megi gera ráð fyrir í þéttbýli, þar sem íbúðarhús standi nærri hafnar- og iðnaðarsvæði. Þar beri að hafa í huga að hæðarkóti íbúðarhúss kærenda sé hærri en umferðargötunnar og því takmarki hljóðveggur að litlu leyti útsýni kærenda. Þá sé á engan hátt sýnt fram á með hvaða hætti hljóðveggurinn breyti nýtingu á eign kærenda.

Umrædd hljóðmön sé í samræmi við útgefið byggingarleyfi og samþykkta úrbótaáætlun Heilbrigðiseftirlits Austurlands um að draga úr hávaða frá starfsemi fiskiðjuversins. Hafi því legið fyrir í langan tíma að ráðist yrði í framkvæmdina. Fulltrúar leyfishafa hafi látið kærendur vita af framkvæmdunum og farið þess á leit við þá að þeir fjarlægðu bíla sína svo unnt væri að hefja jarðvinnu. Kærendur hafi ekki orðið við þeim umleitunum og gert allt sem í þeirra valdi stæði til að valda usla á verkstað.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi að loknum framkvæmdum bent á að hinn umdeildi veggur mælist 181 cm yfir vegi, en í fylgigögnum grenndarkynningar hafi verið tilgreint að vegghæð skyldi vera 150 cm yfir vegi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi sem heimilar að reist verði hljóðmön/-veggur við Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði. Leyfishafi starfrækir þar fiskiðjuver. Hið umdeilda leyfi er þáttur í úrbótaáætlun leyfishafa til að bregðast við hljóðmælingum sem sýnt hafa að hljóðstig vegna starfsemi leyfishafa hafi verið yfir leyfilegum mörkum.

Kærendur eru eigendur Búðavegar 24. Samkvæmt umsókn um byggingaráform og byggingar­leyfi er fyrirhugað að byggja „hljóðskerm á lóðamörkum Hafnargötu 36 við Búðaveg.“ Stendur fasteign kærenda við Búðaveg gegnt hinum umdeilda veggi og eiga kærendur því lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls með vísan til grenndar.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skv. 2. mgr. 9. gr. laganna veitir byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr., vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarleyfi skv. 1. mgr.

Í 7. gr. mannvirkjalaga er fjallað um byggingarnefndir. Þar kemur fram í 1. mgr. að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Þá segir í 2. mgr. 7. gr. að sveitarstjórn sé heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingar­fulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laganna skal slík samþykkt lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Fjarðabyggð hefur sett sér samþykkt um byggingarnefnd í Fjarðabyggð nr. 1060/2022, sem birtist í B-deild Stjórnar­tíðinda 16. september 2022. Tilvitnuð samþykkt var staðfest af ráðherra 31. ágúst s.á. Sú ábending er gerð að í rafrænu gagnasafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er þó enn vísað til samþykktar Fjarðabyggðar, sama efnis, nr. 820/2013, sem felld var úr gildi með hinni nýju samþykkt.

Í 2. gr. samþykktar nr. 1060/2022 kemur fram að skilyrði byggingarleyfis af hálfu byggingar­fulltrúa, samkvæmt III. kafla laga um mannvirki, sé að umhverfis- og skipulagsnefnd hafi samþykkt útgáfuna, en nefndin annist verkefni byggingarnefndar. Í 1. mgr. 3. gr. segir að byggingarfulltrúi skuli hafa samráð við umhverfis- og skipulagsnefnd um hvert það mál sem hann telur að varði verksvið nefndarinnar. Í 2. mgr. 3. gr. er mælt fyrir um að byggingarfulltrúi skuli leita samþykkis umhverfis- og skipulagsnefndar áður en byggingarleyfi er veitt, varði breyting á mannvirki útlit þess og form, nema breyting sé óveruleg, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Líkt og rakið er í málavaxtakafla samþykkti umhverfis- og skipulagsnefnd hina kærðu byggingarleyfisumsókn á fundi sínum 29. ágúst 2023 og gaf byggingarfulltrúi út leyfi 5. september s.á. Var hin formlega málsmeðferð sveitarfélagsins því í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 og samþykkt nr. 1060/2022.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Undantekningu frá þessari meginreglu má finna í 1. mgr. 44. gr. laganna, en þar kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir megi veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu.

Samkvæmt skipulagsuppdrætti 7: Fáskrúðsfjörður í Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2020–2040 er Hafnargata 36 á athafnasvæði, AT-402, en fasteign kærenda er á miðsvæði, M-400. Ekki eru í gildi deiliskipulagsáætlanir fyrir umrædd svæði. Í kafla 8.1.2 í greinargerð aðalskipulagsins eru almennir skilmálar fyrir athafnasvæði raktir, en þar segir:

Athafnasvæði eru ætluð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun svo sem léttan iðnað, hreinleg verkstæði, bílasölur og umboðs- og heildverslanir. Einnig atvinnustarfsemi sem þarfnast mikils rýmis, t.d. vinnusvæði utandyra á lóðum eða starfsemi sem hefur í för með sér þungaflutninga, svo sem vörugeymslur og matvælaiðnaður.

Á athafnasvæðum er lögð áhersla á góða ásýnd og vandaðan frágang, sérstaklega þar sem önnur nálæg landnotkun gefur tilefni til, s.s. íbúðarbyggð, miðsvæði, þjónusta og opin svæði. Gert er ráð fyrir því að hluti starfsemi á athafnasvæðum feli í sér sölu og afgreiðslu til almennings, líkt og gerist á svæðum fyrir verslun og þjónustu.

Þessu til viðbótar inniheldur aðalskipulagið sérskilmála fyrir athafnasvæðið AT-402, Athafnasvæði við Hafnargötu, en þar kemur fram: „Snyrtileg athafnastarfsemi í bland við verslun og þjónustu með mögulegum breytingum og viðbótum í samræmi við núverandi götumynd og yfirbragð á nálægum svæðum.“

Ekki er sérstaklega tekin afstaða til þess í aðalskipulaginu hvort hljóðmanir séu heimilar eða æskilegar á mörkum athafnasvæða og annarra svæða, t.a.m. miðsvæða. Helgast það af hlutverki aðalskipulags, en þar á að koma fram stefna sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu, sbr. 1. tölul. 2. gr. og 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 123/2010. Í fyrri efnisgrein almennra skilmála fyrir athafnasvæði, sem er samhljóða skilgreiningu athafnasvæðis í e-lið 2. mgr. gr. 6.2. skipulags­reglugerðar, er þó tekið fram að matvælaiðnaður sé heimilaður. Í seinni efnisgreininni er sérstök áhersla lögð á vandaðan frágang þar sem önnur nálæg landnotkun gefi tilefni til og er þar m.a. vísað til miðsvæða. Telja verður að sveitarfélög hafi nokkuð víðtækt svigrúm við mat á hvernig þetta markmið er útfært og verður því ekki litið svo á að farið hafi verið út fyrir það svigrúm við veitingu hins kærða leyfis. Var hið umdeilda byggingarleyfi því ekki í andstöðu við ákvæði Aðalskipulags Fjarðabyggðar 2020–2040. Þá verður hvorki séð að hið kærða leyfi hafi farið gegn landnotkun né að það hafi áhrif á þéttleika byggðar.

Í skipulagslögum, sbr. 6. tölul. 2. gr., er byggðamynstur skilgreint sem lögun og yfirbragð byggðar, svo sem hæð og þéttleiki. Hugtakið er skilgreint með nánari hætti í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð sem „[l]ögun og yfirbragð byggðar þar með talið fyrirkomulag byggðar og landnotkunar, svo sem hæð og þéttleiki, tegund landnotkunar, gatnakerfi, gerð og uppröðun bygginga“. Fjallað er um byggðamynstur innan sveitarfélagsins í kafla 3.2 í aðalskipulagi Fjarðabyggðar. Í kaflanum eru m.a. sett fram markmið sem miða að því að styrkja miðbæi en þar er ekkert að finna sem mælir gegn hinu kærða byggingarleyfi. Verður samkvæmt öllu framangreindu litið svo á að hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við aðalskipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og því hafi verið heimilt að grenndarkynna það.

Að lokum verður að líta til þess að hin kærða ákvörðun miðar að því að draga úr hávaða. Að mati nefndarinnar hafa stjórnvöld nokkuð svigrúm við mat á því hvaða leið er best fær til að ná því markmiði. Ekki verður litið svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið gengið lengra en tilefni var til í því skyni að draga úr hávaða er stafar frá starfsemi leyfishafa, sbr. nánar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með hliðsjón af framangreindu verður talið að engir þeir form- eða efnisannmarkar liggi fyrir sem leiði til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Það skal upplýst að lokum að kærendur í máli þessu gerðu kröfu um endurupptöku úrskurðar­máls nr. 104/2023, sem varðaði synjun um beitingu þvingunarúrræða, þar sem þeir álitu að ekki hefði verið tekin afstaða til úrbótaáætlunar vegna hljóðmengunar. Þar sem mál þetta varðar leyfi sem grundvallast á úrbótaáætluninni stóð til að taka afstöðu til þess erindis samhliða því að skorið væri úr ágreiningi þessa kærumáls. Í samráði við lögmann kærenda var því þó frestað að taka afstöðu til erindisins uns tekin yrði ný ákvörðun sama efnis og var kærð í máli nr. 104/2023, sem sætt gæti kæru til nefndarinnar. Sú ákvörðun, þegar hún lá fyrir 1. febrúar 2024, var þó ekki borin undir nefndina. Þá var krafa um endurupptöku máls nr. 104/2023 afturkölluð með bréfi, dags. 13. mars 2024. Af þessum ástæðum hefur meðferð þessa máls dregist nokkuð. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar frá 5. september 2023 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hljóðmön við lóðarmörk Hafnargötu 36, Fáskrúðsfirði.