Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2024 Stigahlíð

Með

 

Árið 2025, þriðjudaginn 4. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2024, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júlí 2024 um að samþykkja hverfisskipulag fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi í Reykjavík að því varðar skilmálaeiningu 3.2.4, Stigahlíð austur og vestur í Hlíðahverfi. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. desember s.á. um að samþykkja leyfi til byggingar húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Stigahlíð 88, Reykjavík, ákvörðun borgarráðs frá 11. júlí 2024 um að samþykkja tillögu að hverfisskipulagi fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi. Er þess krafist að fellt verði úr gildi hverfisskipulag fyrir Stigahlíð austur og vestur, sbr. skilmálaeiningu 3.2.4 í skipulagskilmálum Hlíðahverfis, sem er hluti hinnar kærðu ákvörðunar. Auk þess er gerð krafa um að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september s.á., um leyfi til byggingar húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð í Reykjavík, verði felld úr gildi. Hinn 11. desember 2024 upplýsti leyfishafi byggingarleyfisins úrskurðarnefndina um að uppfærðum teikningum fyrir húsið hefði verið skilað til Reykjavíkurborgar. Samkvæmt upplýsingum frá borginni voru teikningarnar samþykktar á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. s.m.

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. og 6. október 2024, kæra annars vegar eigendur, Stigahlíð 84 og hins vegar eigendur, Stigahlíð 82 einnig báðar fyrrnefndar ákvarðanir og krefjast ógildingar þeirra. Verða þau kærumál, sem eru nr. 115 og 116/2024, sameinuð máli þessu enda standa hagsmunir kærenda því ekki í vegi.

Af hálfu kærenda er jafnframt gerð krafa um að úrskurðað verði um stöðvun framkvæmda við húsið á lóðinni nr. 86 við  Stigahlíð meðan málin séu til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg munu framkvæmdir við byggingu hússins ekki hafnar. Þá þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunar­kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. nóvember 2024 og í desember s.á.

Málavextir: Hinn 1. nóvember 2023 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur lögð fram tillaga að hverfisskipulagi fyrir Hlíðahverfi, sem er innan borgarhluta 3, Hlíðar. Á fundinum var jafnframt lögð fram almenn greinargerð og stefna sem og skipulagsskilmálar, dags. 31. október 2023, verklýsing frá árinu 2015, skýrsla um íbúaþátttöku og samráð frá árinu 2023 og byggðakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur fyrir borgarhlutann, einnig frá árinu 2023. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Staðfesti borgarráð greinda afgreiðslu 9. s.m. og var tillagan auglýst til kynningar frá 16. nóvember 2023 til og með 1. febrúar 2024. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 19. júní 2024 voru kynntar athugasemdir er bárust á kynningartíma. Tillagan var síðan samþykkt á fundi ráðsins 26. s.m. með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 14. júní 2024. Samþykkti borgarráð nefnda afgreiðslu 11. júlí s.á. og í framhaldinu var hverfisskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar. Gerði stofnunin ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt þess þegar nánar tilgreind atriði hefðu verið lagfærð eða skýrð. Tók hverfisskipulag fyrir Hlíðahverfi gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2024 og féllu þá úr gildi eldri deiliskipulagsáætlanir fyrir skipulagssvæðið.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. september 2024 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa tveggja hæða steinsteypt einbýlishús með innbyggðri bílgeymslu og klætt læstri málmklæðningu á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð. Var umsóknin samþykkt og talið að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m., er fylgdi erindinu, kom fram að byggingarmagn og form hússins væri í samræmi við gildandi skilmála og innan byggingarreits eins og hann væri afmarkaður í hverfisskipulaginu. Var hér um að ræða nýja umsögn skipulagsfulltrúa vegna byggingaráforma á lóðinni  Stigahlíð 86, en fyrir lá umsögn hans frá 25. maí 2023 þar sem talið var að áformað byggingarmagn og form samkvæmt þá framlagðri umsókn væri ekki í samræmi við þágildandi skipulagsskilmála deiliskipulags fyrir Stigahlíð vestan, samþykktu í borgarráði árið 1983.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að bæði form- og efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun um hverfisskipulag og því byggi hið kærða byggingarleyfi ekki á fullnægjandi lagaheimild. Reglur um deiliskipulag eigi einnig við um hverfisskipulag eftir því sem við eigi, sbr. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Málsmeðferð við slíkar breytingar sé nánar útfærð í gr. 5.8. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en verulega skorti á að skilyrðum greinarinnar hafi verið fylgt með fullnægjandi hætti við undirbúning skipulagsins. Í gr. 5.3.3.3. í reglugerðinni komi fram að í hverfisskipulagi skuli setja almennar reglur eða skilmála um yfirbragð eða þróun byggðar og fari sú sérstaka heimild sem fengin sé lóðinni nr. 86 við Stigahlíð þvert gegn því skilyrði. Hvers vegna vikið sé frá almennum viðmiðum í götunni megi hvorki ráða af birtum gögnum né hafi það verið rökstutt. Þá hafi fyrirhuguð áform ekki verið kynnt með fullnægjandi hætti.

Samkvæmt skipulagsskilmálum sé heimilt að reisa nýbyggingu á lóðinni Stigahlíð 86 með hámarkshæð útveggja allt að 7 m og hámarks mænishæð 8,5 m, en á hinn bóginn sé gert ráð fyrir því að hámarkshæð húsa á öðrum lóðum í einingunni sé 6,0 m frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs. Með þessu séu sérstök sjónarmið látin gilda um eina lóð umfram aðra sem hafi veruleg áhrif á hagsmuni nágranna og heildarmynd götunnar. Fyrir því séu ekki málefnaleg rök sé litið til þeirra markmiða sem Reykjavíkurborg beri að vinna að lögum samkvæmt með ákvörðun um nýtt hverfisskipulag. Ekki sé heimilt að stefna að öðrum markmiðum með slíkum ákvörðunum, þ. á m. að vernda persónulega hagsmuni. Feli skilmálarnir í sér brot gegn réttmætisreglunni sem og jafnræðisreglum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, og óskráðar jafnræðisreglur stjórnsýsluréttar.

Skjalið „Hlíðarhverfi skipulagsskilmálar“ sé víða óljóst og skorti á skýrleika í ljósi umfangs málsins og þeirra hagsmuna sem undir séu. Þegar um jafn mikilvæga hagsmuni sé að ræða verði að gera kröfu um að almenningur geti skilið hvaða áhrif tillögur og endanlegir skilmálar hafi á nærumhverfið. Tillögu vegna skilmálaeiningar 3.2.4 hafi verið breytt verulega frá auglýsingu og því hafi borið að auglýsa tillöguna á nýjan leik, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Til að mynda hafi byggingarmagn á flestum lóðum verið minnkað nema á lóð Stigahlíðar 86. Einnig hafi litið út fyrir í frumútgáfu skipulagsskilmálanna að áfram skyldi gera ráð fyrir því að hámarksstærð húsa færi lækkandi eftir því sem vestar drægi í húsalengjunni að Stigahlíð, líkt og gilt hafi í eldra skipulagi. Því hafi verið breytt án sýnilegrar ástæðu í lokaútgáfu skipulagsskilmálanna. Þá hafi ekki verið ljóst af frumútgáfunni að veita ætti einni lóð rétt umfram aðrar. Gert sé ráð fyrir yfir átta metra háu húsi á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð, en önnur hús í götunni séu mun lægri. Hæsta húsið í götunni sé tæplega sjö metrar og hús innst í Stigahlíð séu lægri en hús austar í götunni. Verði af framkvæmdum megi búast við auknu skuggavarpi á lóðina Stigahlíð 88 og aðrar nærliggjandi lóðir og opin svæði. Þá muni birta og útsýni skerðast talsvert. Verði ekki séð hvernig slíkt samræmist hagsmunum íbúa í þessum hverfishluta og annarra borgara sem leið eigi fram hjá lóðinni, en hún sé við vinsælan göngustíg. Þá samræmist slíkt ekki hugmyndum um að sem flestir skuli geta notið birtu í húsagörðum eða göturýmum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar um hið kærða hverfisskipulag verði hafnað, en öðrum kröfum verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Undirbúningur hins kærða hverfisskipulags hafi verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010. Ítarlegt samráð hafi verið haft við íbúa og hagaðila við undirbúning þess og í raun verið gengið lengra en lög geri ráð fyrir, t.a.m. varðandi tímafresti auglýsingar. Auk þess hafi mikilvægur hluti samráðs verið í gegnum upplýsingamiðlun á vefnum. Hafi kærendur átt þess kost á að koma að athugasemdum sínum, sem þeir hafi ekki nýtt sér. Hverfisskipulagið eigi sér stoð í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga og falli vel að ramma viðfangsefnis í gr. 5.3.3. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Með því séu heimildir til framkvæmda skilgreindar með skýrum hætti. Þá hafi verið farið með skipulagstillöguna sem nýtt deiliskipulag, líkt og skylt sé að lögum.

Hverfisskipulagið byggi á þeim markmiðum sem fram komi í gildandi aðalskipulagi og sé ætlað að stuðla að jákvæðri þróun Reykjavíkur með því að gera hverfi borgarinnar vistvænni, sjálfbærari, meira heilsueflandi og þróa byggðina í takt við breyttar áherslur í samfélaginu, eins og segi í greinargerð með skipulaginu. Í því sé tryggt að ekki sé vegið að þeim réttindum sem fyrir hafi verið í fyrra deiliskipulagi. Ónýttar byggingarheimildir séu afmarkaðar miðað við nærliggjandi byggð sem og sjónarmið og markmið skipulagsins. Hafi t.d. verið aukið við byggingarmagn flestra einbýlishúsa í skilmálaeiningu 3.2.4. Til að gæta jafnræðis og samræmis hafi verið settir skilmálar um sama nýtingarhlutfall á lóðunum, þ.e.a.s. upp í 0,45, en ekki hafi verið gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á þeim lóðum þar sem nýtingarhlutfall hafi þegar verið orðið 0,45 eða meira. Nýtingarhlutfall lóðarinnar að Stigahlíð 82 hafi verið komið upp í 0,49 og því hafi ekki verið veitt heimild fyrir auknu byggingarmagni á lóðinni. Engin sérsjónarmið hafi legið að baki því að auka nýtingarhlutfall lóða í skilmálaeiningunni og engin greinarmunur hafi verið gerður milli íbúa í þessum efnum. Því sé hafnað að brotið sé á réttmætisreglunni.

Við útgáfu nýs hverfisskipulags hafi stefna borgarinnar m.a. verið sú að skoða heimildir til að auka byggingarmagn þar sem því yrði við komið, en það sé í takt við húsnæðisstefnu borgarinnar og stefnu um þéttingu byggðar. Einnig hafi verið lögð áhersla á aukningu á búsetuúrræðum. Hafi almennt verið leitast við að auka við byggingarmagn einbýlishúsalóða, þó þannig að haldið yrði í græn svæði og birtuskilyrði. Verið sé að veita lóðinni Stigahlíð 86 aukið byggingarmagn í samræmi við aðrar eignir í Stigahlíð austur og vestur og samræmist byggingarmagnið fyllilega stærð þeirra einbýlishúsa sem fyrir séu í hverfinu. Geri stefna aðalskipulags ráð fyrir fjölgun íbúða í borgarhlutanum og að þéttingarmöguleikar verði kannaðir frekar í hverfisskipulagi. Hafi nýtt hverfisskipulag samræmt þær heimildir sem fyrir hafi verið í Stigahlíð austur og vestur og ýtt undir að sömu heimildir væru þar veittar m.t.t. notagildis eigna og stefnu borgarinnar í skipulagsmálum.

Flest húsanna syðst í Stigahlíð vestur séu byggð á árunum 1985–1987. Síðustu áratugi hafi orðið ýmsar breytingar í byggingum húsa sem kalli á að t.d. hæð, flatarmál og útlit bygginga breytist, en einnig lega og halli þaks. Hámarks mænishæð Stigahlíðar 86 sé 8,5 m samkvæmt hverfisskipulagi, en í eldra skipulagi hafi verið gert ráð fyrir því að hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs mætti vera 6,0 m. Sé þar miðað við mælingar frá frágengnu aðalgólfi og upp útvegg. Mænishæð miði hins vegar við hæð botnplötu og upp að mæni, hæsta punkti þaks. Mænishæð geti þannig verið hærri en hæðarkóti frá aðalgólfi eða allt eftir atvikum og hönnun þaksins. Fari mænishæð hússins ekki yfir gildandi skilmála og þyki ekki vera í ósamræmi við hæð annarra einbýlishúsa í götunni, en hæð Stigahlíðar 82, 84 og 88 sé frá 7,0–7,45 m frá aðalgólfi húss og upp að mæni. Stigahlíð 68A sé tveimur húsum norðar en Stigahlíð 86. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé 37% og af uppdráttum megi ráða að hæð frá botnplötu sé 7,18 m.

Þegar tillaga að hverfisskipulaginu hafi upphaflega verið birt í nóvember 2023 hafi fyrir mistök verið gefið upp rangt nýtingarhlutfall nokkurra lóða í skilmálaeiningu 3.2.4. Ný skýrsla hafi verið birt 14. júní 2024 þar sem þetta hafi verið leiðrétt og jafnt 0,45 nýtingarhlutfall tiltekið. Þetta hafi aðeins átt við um 15 lóðir í allri tillögunni og einungis um sléttar tölur og lóðir sem hafi þegar farið umtalsvert fram yfir áður heimilað nýtingarhlutfall. Þar sem aðeins hafi verið um tæknileg mistök að ræða en ekki efnisleg, hafi þessarar innsláttarleiðréttingar ekki verið getið sérstaklega. Engar breytingar hafi verið gerðar á grundvallaratriðum hverfisskipulagsins og hafi leiðréttar tölur verið í tillögunni sem send hafi verið Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Byggingarreitur lóðarinnar Stigahlíðar 86 liggi í stefnunni suðvestur til norðausturs. Ekki verði séð að fyrirhuguð bygging muni hafa áhrif á birtuskilyrði eða skuggavarp umfram það sem vænta megi í þéttbýli og sérstaklega þar sem eignir kærenda liggi flestar austan við lóðina. Njóti því óhindraðar sólar úr suðri og vestri að mestu. Lóðin liggi niður í móti í norður og muni vistarverur sérbýlis að mestu vera á annarri hæð enda sé landhalli töluverður. Göngustígur sem liggi sunnan megin við lóðina sé langt utan við lóðarmörk. Þá samræmist umsókn um byggingarleyfi ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggi fyrirhugaðar framkvæmdir á gildandi skipulagsskilmálum.

 Athugasemdir leyfishafa: Byggingarleyfishafi krefst þess að kærumálum vegna byggingaráforma Stigahlíðar 86 verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að kröfum kærenda verði hafnað. Umrædd lóð hafi verið stofnuð snemma á níunda áratug síðustu aldar. Samkvæmt skipulagi frá 1983 hafi verið gert ráð fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni og hafi það legið fyrir þegar kærendur hafi keypt eignir sínar í Stigahlíð. Því sé ekki hægt að fallast á sjónarmið þeirra um ætlað skert útsýni, skuggavarp, áhrif á birtu eða önnur atriði sem séu augljósar og eðlilegar afleiðingar húsbyggingar. Hafi kærendur ekki lagt fram gögn eða nánari skýringar sem varpað geti ljósi á staðhæfingar þeirra um fyrrgreinda þætti. Eigi þeir engra lögvarinna hagsmuna að gæta, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, ekki síst vegna þess að kæruaðild til nefndarinnar grundvallist á nábýlisréttarlegum hagsmunum sem megi leiða af grenndarreglum. Til að slík sjónarmið geti skapað aðilum kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni þurfi óþægindi sem nágrannar verði fyrir að vera meiri en þau sem búast megi við, en nágranni verði hins vegar að sætta sig við óþægindi sem gera megi ráð fyrir. Ætluð óþægindi sem leiði af þróun í borgarskipulagi sé ótvírætt meðal þeirra sem gera megi ráð fyrir á þeim stað sem um ræði og aðilar verði að sætta sig við.

Því sé hafnað að hið kærða hverfisskipulag sé haldið annmörkum með þeim hætti sem kærendur vísi til eða að ætlaðir annmarkar geti valdið ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Það sé rangt að sérskilmálar gildi fyrir lóðina Stigahlíð 86 að því er varði byggingarheimildir. Sé nýtingarhlutfall allra lóða í botnlanganum og raunar á svæðinu öllu nú 0,45 að frátöldum lóðum sem áður hafi haft hærra nýtingarhlutfall. Virðist það í samræmi við áætlanir borgarinnar frá upphafi. Sé því hafnað að aukning byggingarmagns fari að einhverju leyti gegn réttmætisreglu eða jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins.

Þótt aðrir og ögn nákvæmari skilmálar teldust gilda um lóðina nr. 86 við Stigahlíð heldur en um lóðirnar nr. 50–64, 70–84 og 88–94 við Stigahlíð feli það eitt og sér ekki í sér ógildingarannmarka á hverfisskipulaginu eða byggingarleyfinu. Skipulagsvaldið sé í höndum sveitarfélagsins og hverfisskipulagið sé í samræmi við aðalskipulag.  Lóðin að Stigahlíð 86 sé eina óbyggða lóðin á öllu svæðinu og engar ástæður hafi verið fyrir því að setja nýja og sérstaka skilmála um aðrar lóðir. Sé mænishæð hússins hæfileg og í samræmi við almenna byggðaþróun borgarinnar. Hámarks mænishæð og hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs sé ekki hið sama. Því sé ekki um það að ræða að húsið að Stigahlíð 86 megi samkvæmt skipulagi vera 2,5 m hærra en önnur hús á svæðinu. Hámarks mænishæð hússins sé 8,1 m og sé það vel innan gildandi skilmála hverfisskipulagsins. Enn fremur sé vísað til erindis sem arkitekt leyfishafa hafi sent Reykjavíkurborg við meðferð fyrri umsóknar um byggingarleyfi. Þar komi fram að miðað við þær skýringar sem hann hafi fengið frá borginni sé húsið í raun 5,11 m á hæð, miðað við hæðarkóta aðalgólfs enda séu öll helstu íverurými hússins á efri hæð. Megi því fullyrða að húsið uppfylli einnig þá hæðarskilmála sem gildi um aðrar lóðir. Í öllu falli sé ljóst að fjöldi húsa á svæðinu og þar með í götunni sé með yfir 6,0 m mænishæð. Málatilbúnaður um brot á reglum um jafnræði eða réttmæti eigi því ekki við rök að styðjast.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að ef víkja eigi frá almennum reglum um gerð deiliskipulags verði slíkt að byggja á málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við réttmætisregluna og að sýnt sé fram á að slíkar reglur eigi ekki við. Einnig breyti það ekki eða bæti úr þeim óskýrleika og skorti á gögnum sem einkennt hafi undirbúnings- og kynningarferlið þótt skipulagið hafi verið auglýst lengur en lögbundnir frestir kveði á um.

Þeir annmarkar sem verið hafi á málsmeðferð hvað varði skipulagsskilmála hafi gert íbúum erfitt að átta sig á endanlegum áhrifum breytinganna á Stigahlíð austur og vestur fyrr en eftir að tillagan hafi verið auglýst. Við breytingar á skilmálum skuli birta bæði gildandi skilmála og tillögu að breytingum, sbr. 1. mgr. gr. 5.8.5.2 skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, en deiliskipulag fyrir svæðið frá 1983 hafi ekki verið meðal þeirra gagna sem birt hafi verið í tengslum við gerð og samþykkt hverfisskipulagsins. Í undirbúningsgögnum þess­ sé hvorki fjallað sérstaklega um hvert hæfilegt nýtingarhlutfall lóða skuli vera né hvaða skilmálar skuli gilda um hæð húsa. Virðist sú hugmynd um að auka byggingarheimildir hafa komið til í kjölfar erindis arkitekts lóðarhafa Stigahlíðar 86 þar sem hann nefni m.a. stærð húsa á aðliggjandi lóðum til stuðnings heimild fyrir byggingu stærra húss á lóðinni.

Byggð í hverfinu sé fastmótuð og hlutföll, þakform og yfirborðsáferð húsa áþekk og af svipaðri hæð og gerð. Fyrirhuguð bygging á lóðinni Stigahlíð 86 sé samkvæmt teikningum 8,1 m að hæð og hæðarkóti sé frá 51,92 til 60,03. Byggingin sé 375 m2  og 1305 m3 og komi því til með að verða talsvert meiri að umfangi en önnur aðliggjandi hús. Ekkert aðliggjandi húsa fari yfir hæðarkóta 60. Hús í hverfishlutanum séu og megi að hámarki vera tveggja hæða. Engin haldbær rök búi að baki því að heimila 8,5 m háa byggingu með 7 m útveggjum á lóðinni og engar haldbærar skýringar hafi verið settar fram af hálfu borgarinnar hvað þetta varði.

Þrátt fyrir að það samrýmist stefnu borgarinnar að leggja áherslu á þéttingu byggðar sé ekki þar með sagt að slíkt kalli jafnframt á aukna hæð óbyggðra húsa í rótgrónum hverfum enda komi t.d. fram í aðalskipulagi að hæðir húsa skuli m.a. ákvarðast af yfirbragði aðliggjandi byggðar. Að þessu leyti geti Reykjavíkurborg ekki borið saman aukið nýtingarhlutfall lóða almennt séð sem leiði almennt til viðbygginga eða stækkunar núverandi bygginga í grónu hverfi, við heimilaða hæð á nýbyggingum. Verið sé að bera saman ólík tilvik og leggja þau að jöfnu.

Ósamræmi sé í gögnum málsins um hvaða heimildir gildi varðandi hámarkshæð húsa í skilmálaeiningu 3.2.4. Vísi arkitekt hússins til þess efri hæðin teljist aðalgólf og því sé húsið einungis 5,11 m en augljóst sé af yfirbragði þeirrar byggðar sem þegar hafi risið að slík túlkun standist ekki. Þá sé vakin athygli á því að öll hús fyrir neðan götu, þ.e. Stigahlíð nr. 76–84 séu lægri en 7 metrar. Ekki sé hægt að líta svo á að byggingarleyfi fyrir Stigahlíð 68A sé fordæmisgefandi, en lóðin sé miklu stærri en aðrar lóðir í hverfinu og ekki hafi verið gert ráð fyrir henni í upprunalegu deiliskipulagi. Einungis tvö hús í botnlanganum séu skráð stærri en 400 m2 og ekkert hús í botnlanganum sé stærra en 380 m2 sé horft til þess hluta húsanna sem standi ofanjarðar. Þá séu fimm hús af níu undir 330 m2 að flatarmáli.  Langt hafi verið niður á fast á þessum lóðum og því hafi verið bætt við niðurgröfnum kjöllurnum undir hluta af húsunum.

Óljóst sé hvers vegna ákveðið hafi verið að auka nýtingarhlutfall lóða í Stigahlíð austur og vestur í 0,45, en þær breytingar séu þó í samræmi við áform um framkvæmdir á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð. Ekki verði séð að breyta hafi þurft nýtingarhlutföllum lóðanna til að hægt yrði að bæta við allt að 50 m2 aukaíbúðum og mörg húsanna megi nú stækka um meira en 100 m2. Hverfið sé gróið og eðlilegt að einungis sé bætt við afar hóflegum viðbótarbyggingar­heimildum, ef þá einhverjum. Jafnframt sé brýnt að auknar byggingarheimildir fari ekki umfram það markmið sem stefnt sé að í aðalskipulagi varðandi þéttingu byggðar í gömlum og grónum hverfum borgarinnar. Einnig sé mikilvægt að áhrif nýrra bygginga og viðbótabygginga við aðliggjandi byggð verði lágmörkuð, líkt og vikið sé að í aðalskipulagi. Hámarksnýtingarhlutfallið sé langt umfram það sem þörf sé á til að ná þeim þéttingar­markmiðum sem stefnt sé að í aðalskipulagi. Þá liggi fyrir talsverð þétting byggðar í næsta nágrenni á Veðurstofuhæð sem íbúar hverfisins hafi lýst talsverðum áhyggjum yfir í skipulagsferlinu.

Niðurstaða: Í máli þessu er annars vegar deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar borgarráðs að samþykkja hverfisskipulag fyrir Hlíðahverfi að því er varðar Stigahlíð austur og vestur, skilmálaeining 3.2.4, og hins vegar ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingaráform á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð, en um óbyggða lóð er að ræða. Eftir að kærur bárust úrskurðarnefndinni var nefndin upplýst um að leyfishafi hefði skilað inn uppfærðum teikningum til byggingarfulltrúa sem samþykktar voru á fundi hans 3. desember 2024. Hefur hin kærða ákvörðun frá 24. september s.á. um samþykkt byggingaráforma vegna Stigahlíðar 86 því ekki lengur réttarverkan. Verður kröfu um ógildingu hennar því vísað frá úrskurðarnefndinni. Þess í stað verður tekin afstaða til lögmætis samþykktar byggingarfulltrúa frá 3. desember 2024 sem líta verður svo á, að virtum sjónarmiðum kærenda, að sé hin kærða ákvörðun um samþykkt byggingaráforma vegna Stigahlíðar 86. Kæruheimild til nefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur eru eigendur fasteigna á lóðunum nr. 82, 84 og 88 við Stigahlíð. Verður í ljósi staðhátta að telja að ekki sé loku fyrir það skotið að samþykkt byggingaráform á lóðinni Stigahlíð 86 geti haft áhrif á grenndarhagsmuni þeirra með þeim hætti að skapi þeim kæruaðild fyrir úrskurðarnefndinni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ræðst kæruaðild af atvikum hverju sinni og felur í sér heildstætt mat á því hvort skilyrðum laganna sé fullnægt. Þá liggur fyrir að með hinni kærðu ákvörðun um hverfisskipulag var nýtingarhlutfall lóðarinnar að Stigahlíð 86 aukið frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í eldri skipulagsáætlun auk þess sem gerðar voru aðrar breytingar á skipulagsskilmálum. Teljast kærendur því eiga kæruaðild í máli þessu.

Með skipulagslögum er sveitarstjórnum falinn víðtækur réttur til skipulagsgerðar og breytinga á gildandi skipulagi innan marka síns sveitarfélags sem þó sætir takmörkunum sem leiða af lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. laganna skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Í kafla. 3.1.2. í greinargerð Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 kemur m.a. fram í umfjöllun um íbúðarhverfi og gæði byggðar að skapaður verði sveigjanleiki til að fjölga íbúðum innan gróinnar byggðar, samkvæmt ákvörðunum í hverfisskipulagi, með betri nýtingu þess húsnæðis sem fyrir er, viðbyggingum, ofanábyggingum, uppskiptingu eigna og breyttri notkun. Með því verði m.a. stuðlað að hagkvæmri og sjálfbærri borgarþróun og dregið úr nýbyggingarþörf. Þá er tekið fram í kafla 3.5.1. að álíta verði að ákvæði hverfisskipulags um „hægfara“ fjölgun íbúða innan einstakra hverfa, s.s. með einstaka nýbyggingum innan núverandi lóða samræmist almennum heimildum aðalskipulagsins um fjölgun íbúða, enda verði fjölgun íbúða innan einstakra reita eða lóða minni en 49 íbúðir.

Í kafla 3.6.2. í greinargerð aðalskipulagsins eru sett fram nánari markmið og leiðarljós um hæðir húsa og kemur m.a. fram að hæðir skuli almennt ákvarðast af t. a. m. yfirbragði aðliggjandi byggðar. Um gæði íbúðarhúsnæðis og nærumhverfis segir í kafla 3.6.3. að hönnun íbúðarhúsnæðis á einstökum reitum þurfi ávallt að skoða í samhengi við heildarskipulag viðkomandi hverfis, þau umhverfisgæði og þjónustu sem í boði eru í næsta nágrenni og þá byggð sem er fyrir eða áformuð á nærliggjandi svæðum. Einnig kemur fram í kafla 3.6. að stefna og viðmið aðalskipulags um þéttleika byggðar og byggingarmagn gefi einvörðungu til kynna mögulega hámarksnýtingu svæða, en að endanleg ákvörðun um magn bygginga, fjölda íbúða, hæðir húsa og þéttleika á einstökum svæðum sé ávallt tekin við gerð deiliskipulags, með tilliti til meginmarkmiða aðalskipulags um sjálfbæra þróun og gæði byggðar, að undangengnu kynningar- og samráðsferli og mati á umhverfisáhrifum og með sérstöku tilliti til þeirra viðmiða og ákvæða sem sett séu fram í köflum 3.6.1–3.6.4.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga annast sveitastjórnir t.a.m. gerð deiliskipulagsáætlana, en skv. 1. mgr. 37. gr. laganna eru þar teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Um hverfisskipulag er fjallað í 37. gr. skipulagslaga sem tegund deiliskipulags fyrir þegar byggð hverfi, sbr. gr. 1.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laganna gilda reglur um málsmeðferð deiliskipulags um hverfisskipulag eftir því sem við á, en tekið er fram að heimilt sé við vinnslu slíks skipulags að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar séu til deiliskipulagsáætlana í nýrri byggð og leggja frekar áherslu á almennar reglur um yfirbragð byggðarinnar auk almennra rammaskilmála. Í gr. 5.3.3.3. í skipulagsreglugerð er mælt fyrir um að í hverfisskipulagi skuli setja almennar reglur eða skilmála um yfirbragð, þróun og varðveislu byggðarinnar. Taka skuli afstöðu til ónýttra byggingarheimilda ef fyrir liggi. Þá sé heimilt að setja fram almennar reglur, leiðbeiningar og fyrirmæli um umfang og yfirbragð mannvirkja, breytingar og viðhald húseigna í stað byggingarreita og skilmála um nýtingarhlutfall eða byggingarmagn, að því tilskildu að framkvæmdaheimildir séu skýrðar með fullnægjandi hætti.

Hlíðahverfi er samkvæmt almennri greinargerð og stefnu hverfisskipulagsins skipt upp í 18 skilmálaeiningar, en þar er um að ræða þyrpingu húsa, lóða og/borgarumhverfis á afmörkuðu landsvæði innan hverfis sem fá sameiginlega skipulagsskilmála. Samkvæmt skipulagsskilmálum telst Stigahlíð austur og vestur til skilmálaeiningar 3.2.4 sem afmarkast af Hamrahlíð til norðurs, Kringlumýrarbraut til austurs, lóð Menntaskólans við Hamrahlíð til vesturs og opnu svæði og Veðurstofulóð til suðurs. Er því lýst svo í skilmálunum að gatan Stigahlíð liggi frá norðri til suðurs í miðri einingunni. Austan við götuna sé einbýlishúsabyggð sem tekið hafi að rísa í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar en byggðin vestan megin við götuna hafi verið skipulögð og reist eftir 1980. Í báðum tilvikum sé um að ræða innbyrðis fastmótaða byggð sem sé dæmi um byggingarstíl síns tíma. Verður þrátt fyrir þessa lýsingu þó að benda á að húsagerðir og útlit húsa á þeirri skipulagseiningu sem hér um ræðir er fjölbreytt þótt stafi að mestu frá sama tímabili.

Í skipulagsskilmálum fyrir skilmálaeiningu 3.2.4 eru helstu áherslur m.a. tilgreindar þær að veita viðbótarbyggingarheimildir þar sem nýtingarhlutfall lóðar gefi tilefni til, byggingarreitir á lóðum eru stækkaðir og heimilað er að útbúa aukaíbúð að uppfylltum skilyrðum. Þá er vísað til þess að í leiðbeiningum hverfisskipulags sé að finna nánari útlistun á skipulags- og byggingarskilmálum fyrir svæðið. Ónýttar byggingarheimildir sem fram komi í þeim deiliskipulagsáætlunum sem falli úr gildi með gildistöku hverfisskipulagsins haldi sér í skilmálum hverfisskipulags.

Húsagerðir eru tilgreindar sem einbýlishús á einni til tveimur hæðum að Stigahlíð 68 undanskilinni. Nýting ónýttra byggingarheimilda skuli vera í samræmi við eldri skilmála, þ.m.t. þakform, þakhalli og önnur takmarkandi atriði sem fram komi í viðeigandi skilmálaliðum. Jafnframt skuli nýting vera innan byggingarreits eins og hann sé afmarkaður í eldra deiliskipulagi. Með því er vísað til deiliskipulags fyrir Stigahlíð vestan sem samþykkt var í borgarráði árið 1983, en samkvæmt skipulagsskilmálum þess náði það yfir 20–21 einbýlishúsalóðir á svæðinu, þ. á m. lóðina Stigahlíð 86 og lóðir kærenda. Í skilmálunum var kveðið á um að hús skyldu vera ein hæð með lágu risi en leyfilegt væri að hluti þess væri tvær hæðir. Grunnflötur húss að bílageymslu meðtalinni mátti vera allt að 200 m2 og 80 m2 á annarri hæð, samtals 280 m2, en 240 m2 ef hús væri einnar hæðar. Hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs mátti vera 6,0 m. Húsagerð var að öðru leyti frjáls en tekið var fram að áríðandi væri að hús félli vel að landi.

Varðandi viðbótarbyggingarheimildir er í almennum ákvæðum skilmálanna m.a. tilgreint að allar viðbætur og breytingar skuli taka mið af þaki núverandi húss en jafnframt er vísað í leiðbeiningar hverfisskipulags um viðeigandi húsagerð. Ef viðbótarbyggingarmagn er til nýtingar fyrir lóðina er heimilt að byggja viðbyggingu sem taki mið af hæðarfjölda núverandi húss. Ekki sé heimilt að fjölga hæðum. Um útlitsbreytingar og viðhald kemur fram að forðast skuli að raska að óþörfu frumgerð húss og sérkennum þess við viðhald og útlitsbreytingar. Taka skuli tillit til forma og hlutfalla, glugga og gluggasetningar, innganga, áferðar, efnisvals, mynstra og annarra sérkenna húss. Sækja má um að taka í notkun ósamþykkt rými í kjöllurum húsa sem til hafa orðið s.s. vegna náttúrulegs landhalla enda muni umfang húss ekki aukast. Þá er í umhverfismati hverfisskipulagsins tekið fram að í skilmálum þess sé lögð áhersla á varðveislu byggðamynsturs í fastmótaðri byggð og eflingu staðaranda.

Í skilmálum hverfisskipulagsins er gert ráð fyrir því að nýtingarhlutfall lóða í skilmálaeiningu 3.2.4 verði að hámarki 0,45, nema í þeim tilvikum þegar nýtingarhlutfall er þegar orðið það eða hærra. Kærendur gera athugasemdir við þetta þar sem um sé að ræða gróið hverfi og eðlilegt sé að einungis sé bætt við afar hóflegum viðbótarbyggingar­heimildum ef þá einhverjum. Af þessu tilefni er til þess að líta sem tekið er fram í umsögn Reykjavíkurborgar í máli þessu að aukið var við byggingarmagn vegna skilmálaeiningar 3.2.4 í samræmi við þróun í hverfinu og þá aukningu sem þegar hafi átt sér stað á nýtingarhlutfalli lóðanna frá fyrra deiliskipulagi. Sama nýtingarhlutfall hafi verið sett á lóðir í skilmálaeiningunni til að gæta jafnræðis og samræmis. Telja verður þessi rök málefnaleg og ekki í bága við framanrakta stefnumótun aðalskipulags Reykjavíkur hvað varðar þróun byggðar innan gróinna hverfa.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar um hverfisskipulag fór fram margsháttar kynning á tillögunni sem var að auki auglýst til kynningar. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda og gerðar breytingar á tillögunni í samræmi við umsögn skipulagsfulltrúa.  Fyrir liggur í málinu að vegna mistaka við útreikning hafi birst rangar niðurstöður um nýtingarhlutfall 15 lóða í þeirri skipulagstillögu sem auglýst hafði verið til kynningar en leiðréttar tölur hafi verið birtar í tillögu er send hafi verið Skipulagsstofnun og í lokaútgáfu hennar. Telja verður að ekki felist í þessu að tillögunni hafi verið breytt í grundvallaratriðum og var því ekki tilefni til að auglýsa hana að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Í skipulagsskilmálum fyrir Stigahlíð austur og vestur við umfjöllun um nýbyggingar segir að heimilt sé að reisa á lóðinni Stigahlíð 86 einbýlishús á einni til tveimur hæðum. Er lóðin sú eina sem óbyggð er á svæðinu og því ekki óeðlilegt að sérstök umfjöllun sé um hana. Hámarksbyggingarmagn er í skilmálatöflu tilgreint 385 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,45 en gert var ráð fyrir að það væri 0,33 samkvæmt eldra deiliskipulagi. Fram kemur að hámarkshæð útveggja megi vera allt að 7 m og hámarks mænishæð 8,5 m. Skilmálar um hámarkshæð annarra húsa eru óbreyttir frá eldra deiliskipulagi. Að áliti kærenda er lóðarhafa Stigahlíðar 86 með þessu veitt mun rýmri heimild í skipulagi en aðrir njóta, en heimildir þeirra til breytinga á húsum sínum takmarkist við skilmála eldra deiliskipulags, sem tekin er upp í hverfisskipulagið, um að hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs megi vera 6,0 metrar.

Af hálfu skipulagsyfirvalda hefur verið bent á að hámarks mænishæð og hámarkshæð húsa frá uppgefnum hæðarkóta aðalgólfs sé ekki hið sama og vísað til sjónarmiða sem færð hafa verið fram af arkitekt hússins sem ætlað er að rísi á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð, um að það uppfylli einnig þá hæðarskilmála sem gildi um aðrar lóðir. Þá hefur verið vísað til þess að heimiluð hámarkshæð húss á lóðinni Stigahlíð 86 sé ekki í ósamræmi við hæð annarra einbýlishúsa í götunni. Samkvæmt aðaluppdráttum sé hæð Stigahlíðar 82 mælt frá aðalgólfi hússins og upp að mæni 7,2 m, hæð Stigahlíðar 84 sé 7,0 m frá aðalgólfi og upp að mæni og hæð Stigahlíðar 88 sé 7,45 m, mælt frá aðalgólfi upp að mæni. Þá sé hæð frá botnplötu Stigahlíðar 68A 7,18 m, en byggingu þess húss muni hafa verið lokið árið 2009. Virðist með þessu dæmi um að veittar hafi verið byggingarheimildir umfram heimildir deiliskipulags hverfisins, sem litið hafi verið til við ákvörðun hámarkshæðar byggingar fyrir lóðina Stigahlíð 86 í hverfisskipulaginu. Líkt og að framan greinir er tekið fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 að hæðir skuli almennt ákvarðast af yfirbragði aðliggjandi byggðar og verður ekki horft hjá þessum aðstæðum við það mat. Verður ekki talið að skilmálar um hámarkshæð fyrirhugaðs húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð feli í sér svo mikla breytingu á yfirbragði aðliggjandi byggðar að fari í bága við þessa stefnu aðalskipulagsins. Má nefna sem dæmi að hús á næstu lóð, Stigahlíð 88, hefur mænishæð 7,45 m, sem er aðeins 0,66 m lægra en mænishæð áformaðs húss á lóðinni nr. 86 við Stigahlíð.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða ákvörðun um hverfisskipulag ekki haldin þeim annmörkum að raskað geti gildi hennar. Verður ekki annað ráðið en að umdeilt hverfisskipulag sé hvað skilmálaeiningu 3.2.4 varðar í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags um þéttingu byggðar í eldri hverfum og að öðru leyti í  samræmi við gildandi aðalskipulag svo sem áskilið er í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Verður því að hafna kröfu kærenda um ógildingu þess.

—–

Í tilefni af sjónarmiðum kærenda sem varða sérstaklega samþykkt byggingaráforma verður að benda á að gert hefur verið ráð fyrir byggingu einbýlishúss á lóðinni Stigahlíð 86 allt frá því að eldra deiliskipulag tók gildi. Ljóst er að með hinni kærðu ákvörðun um hverfisskipulag getur heimiluð bygging á lóðinni haft í för með sér aukin grenndaráhrif frá því sem áður mátti gera ráð fyrir enda byggingarmagn aukið. Til þess ber þó að líta að um nokkuð stóra lóð er að ræða og að hámarksnýtingarhlutfall hennar verður  svipað og flestra annarra lóða á skipulagsreitnum. Geta grenndaráhrif ekki talist slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli mega búast við.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Að virtum gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að samþykkt byggingaráform séu í samræmi við ákvæði hverfisskipulagsins.

Með vísan til alls framangreinds er kröfu kærenda um ógildingu byggingaráforma fyrir lóðina nr. 86 við Stigahlíð hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júlí 2024 um að samþykkja hverfisskipulag fyrir Háteigshverfi, Hlíðahverfi og Öskjuhlíðarhverfi í Reykjavík að því varðar skilmálaeiningu 3.2.4, Stigahlíð austur og vestur í Hlíðahverfi.

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. desember 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Stigahlíðar 86.

Vísað er frá kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2024 um að samþykkja byggingaráform vegna Stigahlíðar 86.

155/2024 Tjarnargata

Með

Árið 2024, mánudaginn 23. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 155/2024, kæra vegna framkvæmda á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. nóvember 2024, kærir eigandi, Tjarnargötu 24, framkvæmdir á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum. Er þess krafist að eigandi lóðarinnar Kirkjugerðis 11 stöðvi framkvæmdir og að lóðamörk sem sett hafi verið árið 1969 fái að standa. Jafnframt er þess krafist að eigandinn gangi svo frá að ekki standi hætta af og að hann setji girðingu í stað þeirrar sem hann hafi tekið niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 20. nóvember 2024.

Málsatvik og rök: Ágreiningur um lóðamörk mun hafa staðið yfir um árabil milli eigenda lóðanna Tjarnargöt 24 og Kirkjugerði 11 í Sveitarfélaginu Vogum, en samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru húsin á nefndum lóðum byggð árið 1969 og 1978. Árið 2017 óskaði eigandi Kirkjugerðis 11 eftir því að lóðin yrði sett út og var mælingafyrirtæki falið það verk. Sama ár sótti eigandinn um leyfi til að stækka bílskúr á lóðinni að lóðamörkum. Var umsóknin grenndarkynnt og skilaði kærandi athugasemdum við þá kynningu þar sem byggingaráformunum var andmælt. Synjaði byggingarfulltrúi umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykki allra eigenda aðliggjandi lóða. Á þessu ári mun eigandi Kirkjugerðis 11 hafa hafið framkvæmdir við gerð stoðveggjar á umræddum lóðamörkum.

Kærandi telur að lóðamörk sem gerð hafi verið árið 1969 eigi að standa en ekki þær mælingar sem gerðar hafi verið af fyrirtæki. Það sé einkennilegt að einn lóðareigandi geti farið fram á að færa lóðarmörk sinnar lóðar og hefji svo framkvæmdir án leyfis og samráðs við nágranna. Það sé einnig einkennilegt að ekkert leyfi hafi verið gefið út eða að ekkert eftirlit hafi verið með framkvæmdunum.

Sveitarfélagið Vogar tekur fram að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir hinum umdeildu framkvæmdum. Um sé að ræða gerð stoðveggjar á lóðarmörkum Kirkjugerðis 11. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé tiltekið að allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna, auk gerðar palla og annars frágangs á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþegið byggingarleyfi, sbr. c- og d-lið ákvæðisins. Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi jafnframt fram að allur frágangur á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþeginn leyfi. Umræddur stoðveggur sé við jarðvegsyfirborð og því sé það afstaða sveitarfélagsins að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Búið sé að steypa vegginn.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld eða aðila máls að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að ákveðin eignamörk fái að standa enda er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr um eignaréttarlegan ágreining. Þá verður heldur ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin geri eiganda Kirkjugerðis 11 að stöðva framkvæmdir og haga frágangi með tilteknum hætti.

Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Hið kærða ágreiningsefni í máli þessu lýtur að framkvæmdum á lóðamörkum Kirkjugerðis 11 og Tjarnargötu 24 í Sveitarfélaginu Vogum. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út, enda sé það mat þess að ekki sé um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Liggur því fyrir að ekki hefur verið tekin ákvörðun á grundvelli mannvirkjalaga vegna hinna umdeildu framkvæmda. Verður af þeim sökum að líta svo á að ekki sé til að dreifa kæranlegri stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu því vísað frá.

Rétt þykir að leiðbeina kæranda um að telji hann að framkvæmdir fari fram á lóð hans geti hann beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis og farið fram á beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Afgreiðsla slíks erindis sætir eftir atvikum kæru til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

88/2024 Múlalind

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 88/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 3.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Múlalind 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kvisturinn verði fjarlægður.

Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn eigenda Múlalindar 3 um leyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð þeirra. Hinn 18. ágúst s.á. barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra þessa máls. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 11. september s.á., var tilgreint að við skoðun málsins hafi komið í ljós að ekki væri heimild í deiliskipulagi fyrir umræddum kvisti auk þess sem kvisturinn, sem búið væri að byggja, væri ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Tilkynnti embættið leyfishafa að áformað væri að fella leyfið úr gildi með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli 13. gr. sömu laga var leyfishafa veittur 14 daga frestur til til að tjá sig um málið. Embættinu bárust engar athugasemdir frá leyfishafa og hinn 29. október 2024 tilkynnti byggingarfulltrúi honum um að leyfið væri fellt úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. desember s.á. var bréfið lagt fyrir og það samþykkt.

Kærendur taka fram að þau hafi fyrst orðið vör við hina kærðu framkvæmd 11. ágúst 2024. Undanfarin ár hafi sífellt verið bætt við byggingarmagni á lóðinni áður en aflað hafi verið tilskilinna leyfa. Sú stækkun sem hér um ræði hafi aldrei verið kynnt kærendum þrátt fyrir að breytingin hafi áhrif á útsýni þeirra. Þrátt fyrir að framkvæmdin beri heitið „kvistur“ sé efnislega um að ræða hækkun á austanverðri langhlið bílskúrsins um eina hæð. Breytingin samræmist því ekki byggðamynstri þar sem öll önnur hús í götunni séu einnar hæðar, að undanskildu endahúsi á lóð nr. 2 sem falli ágætlega inn í umhverfið. Byggingarmagn á lóðinni sé komið langt umfram það sem eðlilegt geti talist.

Af hálfu eiganda Múlalindar 3 er bent á málsmeðferð byggingarleyfisins hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur. Um smávægilega breytingu á útliti hússins sé að ræða.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 12. júlí 2024 verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna þeirrar kröfu kærenda að hinn umdeildi kvistur á bílskúr lóðar Múlalindar 3 verði fjarlægður er bent á að hlutverk úrskurðarnefndarinnar skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði.  Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan vald­heimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til framangreindrar kröfu kærenda, en rétt þykir að leiðbeina þeim um að hægt er að fara fram á við byggingarfulltrúa að beitt verði þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 55. og 56. gr. laganna.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

124/2024 Oddagata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2024, kæra á ákvörðun Skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingar­áform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra Akralind ehf. Miðhrauni 13, Garðabæ og eigandi Oddagötu 13, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11. Einnig er kærð ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 5. október 2024.

Málavextir: Kærendur eru eigendur beggja eignarhluta fasteignarinnar að Oddagötu 13, Akureyri, sem liggur vestan og ofan við fasteignina að Oddagötu 11. Forsaga málsins er sú að með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 6. september 2022 tók gildi breyting á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar þar sem afmarkaður var byggingarreitur fyrir bílskúr á lóð Oddagötu 11 með þeim skilyrðum að hámark mænishæðar yrði 4,5 m.

Á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 var tekið fyrir erindi um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi vegna Oddagötu 11 sem fól í sér að gólfkóti yrði lækkaður um 90 cm. Ekki var talið að breytingin hefði þau áhrif að fara þyrfti fram grenndarkynning. Var breytingin birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024. Er sú breyting hin kærða skipulagsákvörðun. Á fundi skipulagsráðs 24. apríl s.á. var enn samþykkt breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina þar sem gert var ráð fyrir að byggingarreitur færist aftur um 1 m. Var breytingin grenndarkynnt fyrir eigendum Oddagötu 13 og Gilsbakkavegar 11. Engar athugasemdir bárust og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingaráform fyrir bílskúr á lóðinni 8. ágúst 2024, en byggingarleyfi hefur enn ekki verið gefið út.

 Málsrök kærenda: Kærandi, Akralind ehf. kveðst hafa fyrst fengið bréf frá sveitarfélaginu, dags. 14. desember 2021, í tilefni af grenndarkynningu vegna fyrirhugaðra breytinga á deili­skipulagi vegna Oddagötu 11 er varðaði bílskúrsbyggingu á lóðinni. Hafi hann skilað inn athugasemdum þar sem lagst var gegn umræddri deiliskipulagstillögu og bent á að fyrirhuguð bygging myndi koma til með að hafa gríðarleg grenndaráhrif með skertu útsýni yfir miðbæinn og til sjávar. Hafi félaginu svo verið tilkynnt með bréfi, dags, 16. ágúst 2022, að samþykkt hefði verið deiliskipulagsbreyting þar sem nú væri gert ráð fyrir byggingarreit fyrir bílgeymslu á lóðinni Oddagötu 11. Í ljósi athugasemda hefði samþykkið verið bundið því skilyrði að mesta hámarks mænishæð yrði 4,5, m sem væri lækkun miðað við það sem sótt hafði verið um.

Sótt hafi verið um aðra breytingu á umræddu deiliskipulagi 30. janúar 2024 og hafi erindið verið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs Akureyrarbæjar 14. febrúar s.á. Í fundargerð komi fram að breytingin fæli í sér að gólfkóti bílskúrs yrði lækkaður um 0,9 m og að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða. Hafi breytingin verið samþykkt og sérstaklega bókað að ekki væri talin þörf á grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi kærendum því hvorki verið tilkynnt né verið kunnugt um deiliskipulagsbreytinguna. Nýtt deiliskipulag hafi tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024.

Aftur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulaginu 12. apríl 2024. Í þeirri beiðni hafi verið óskað eftir að byggingareitur fyrir bílskúr yrði færður 1 m aftar á lóðinni. Hafi sú umsókn verið samþykkt á fundi skipulagsráðs 24. s.m. og bókað að breytingin skyldi grenndarkynnt lóðar­höfum Oddagötu 13. Hafi kærendum verið tilkynnt um þá breytingu sem þeir hafi ekki gert athugasemdir við en vilja sérstaklega benda á að í umræddri tilkynningu hafi ekkert komið fram um fyrri deiliskipulagsbreytingu varðandi gólfkóta. Síðari breytingin hafi svo tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024. Hinn 16. s.m. hafi svo verið sótt um staðfestingu byggingaráforma og byggingarleyfi fyrir umræddum bílskúr sem samþykkt hafi verið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. ágúst s.á.

Kærendum hafi fyrst orðið kunnugt um framangreint, þ.e. um þá breytingu á deiliskipulagi sem varðaði lækkun á gólfkóta sem tók gildi 7. mars 2024, fyrir rúmri viku síðan. Hafi annar kærenda, hlutafélagið, strax sent erindi á Akureyrarbæ þar sem þess var krafist að deili­skipulagsbreytingin og byggingarleyfi yrðu afturkölluð en ekki fengið efnisleg viðbrögð við erindinu.

Sú breyting sem tekið hafi gildi 7. mars 2024 virðist fela í sér að bílskúrinn sem fyrirhugað sé að reisa við Oddagötu 11 sé hærri en samkvæmt því deiliskipulagi sem áður gilti, þrátt fyrir að breytingin hafi átt að fela í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m. Þetta megi glögglega sjá þegar skoðuð er sú lína sem dregin sé inn í prentaða útgáfu deiliskipulagsins. Þar sjáist að mænir bílskúrsins standi umtalsvert hærra á hinni nýju teikningu heldur en þeirri eldri. Á það megi þó benda að enginn hæðarkóti sé ritaður inn á deiliskipulagið og því sé erfitt að átta sig á því hver raunhæð hússins eigi að vera samkvæmt deiliskipulagi. Allt að einu megi ljóst vera að sam­kvæmt gildandi deiliskipulagi virðist raunhæð hússins ljóslega hærri en heimilt var áður.

Telji kærendur ljóst að ákvörðun um umrædda deiliskipulagsbreytingu frá 14. febrúar 2024, sem fól í sér lækkun gólfkóta um 0,9 m, hafi í raun falið í sér hækkun hússins án þess að breytingin væri grenndarkynnt og hafi því verið ólögmæt. Í því tilliti verði ekki fram hjá því litið að með breytingunni skertust hagsmunir kærenda með tilliti til útsýnis og skuggavarps, sbr. 3. mgr. 43. gr. laga nr. 123/2010. Þá verði einnig að líta til þess að hámarks mænishæð hafi verið í deiliskipulagi árið 2022 ákveðin 4,5 metrar frá gólfkóta sem hafi verið lækkun frá því sem sótt hafi verið um að undangengnum athugasemdum frá kærendum. Að mati kærenda sé ákvörðun um samþykkt á deiliskipulaginu sem tekin var á fundi skipulagsráðs 14. febrúar 2024 því ólögmæt og sé ógildanleg.

Telji úrskurðarnefndin að kæra þessi hafi borist að liðnum lögbundnum kærufresti samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 sé á því byggt af hálfu kærenda að undantekningaákvæði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við í málinu. Svo sem lýst sé að framan hafi kærendum orðið kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu rétt rúmri viku áður en kæra þessi sé rituð. Hafi þeim aldrei verið tilkynnt um breytinguna og um leið og þeim varð það kunnugt hafi erindi verið sent til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara með það fyrir kærunefndina.

Erindinu hafi ekki verið svarað af hálfu Akureyrarbæjar innan þess frests sem veittur hafi verið sveitarfélaginu og sé málið nú kært strax í kjölfar þess. Sé því að mati kærenda alveg ljóst að það sé sannarlega afsakanlegt, í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 37/1993, að kæran hafi ekki borist fyrr. Einnig telji kærendur ljóst að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda ljóst að hagsmunir þeirra skerðast alvarlega og varanlega, fái deiliskipulagsbreytingin og byggingarleyfið að standa óraskað. Væri slíkt ótækt og óheimilt án þess að kærendum væri veitt tækifæri á að hreyfa andmælum.

 Málsrök Akureyrarbæjar: Bent er á að við skoðun málsins hafi uppgötvast villa í gögnum deiliskipulagsbreytingar sem hafi eflaust valdið því að kærendur telji að verið sé að hækka umræddan bílskúr. Villan sé sú að ásýndarteikningin sem kærendur fengu senda og átti að sýna gildandi skipulag hafi ekki verið rétt, þ.e. húsið á efri ásýndarteikningunni virðist vera neðar á lóðinni en raun ber vitni. Neðri myndin sem sé breytingatillagan hafi hins vegar verið rétt. Myndin sem hefði átt að vera efri ásýndarmyndin í deiliskipulagsbreytingunni sé sú sem birt var í Stjórnartíðindum 6. september 2022. Umrædd villa hafi því engin áhrif á gildi skipu­lagsins. Niðurstaðan sé því að breytingin sem samþykkt hafi verið í skipulagsráði 14. febrúar 2024 hafi engin grenndaráhrif á eign kærenda og því hafi ekki verið þörf á að grenndarkynna deiliskipulagsbreytinguna.

 Bent sé á að í flestum tilvikum hafi nefndin ekki talið það afsakanlegt að kæra berist að kæru­fresti liðnum og vísað kærum frá, sbr. mál ÚUA nr. 100/2024, 99/2024, 77/2024 og 135/2023. Í niðurstöðum nefndarinnr í þessum málum segi að sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar.

Í þessu máli sé ekki um að ræða að stjórnvald hafi veitt rangar leiðbeiningar varðandi kærufrest. Málsástæður kærenda um að þeim hafi ekki verið tilkynnt um deiliskipulagsbreytinguna og að þeim hafi ekki verið kunnugt um hana fyrr en 14. október 2024 breyti engu hér um. Eigi það einnig við um þær málsástæður að kærendur hafi sent erindi til Akureyrarbæjar þar sem krafist hafi verið afturköllunar hinna kærðu ákvarðana í tilraun til að leysa málið án þess að þurfa að fara fyrir kærunefndina.

Bent sé á að samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sé heimilt að víkja frá kröfum 2. mgr. sömu greinar um grenndarkynningu „þegar um svo óveruleg frávik er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn.“ Hafi skipulagsráð metið það svo að breytingin hefði ekki grenndaráhrif þar sem engin breyting yrði á hæð eða ásýnd fyrirhugaðs mannvirkis að vestanverðu, séð frá eign kærenda. Breytingin hafi því engin áhrif á kærendur hvað varði útsýni eða skuggavarp umfram það sem gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir. Því sé ljóst að ákvörðun um lækkun gólfkóta hafi ekki verið þess eðlis að hún breytti nokkru um skilmála eldra skipulags um landnotkun, nýtingar­hlutfall, útlit og form byggingarinnar.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 14. febrúar 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar vegna Oddagötu 11 og ákvörðun Akureyrarbæjar um að samþykkja byggingaráform og útgáfu byggingarleyfis vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11 sem tekin var á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 8. ágúst s.á. Kæruheimild er í 59. gr laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá fyrstu birtingu ákvörðunar skv. 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulags­breytingar sem deilt er um í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2024 og tók kærufrestur að líða degi síðar, sbr. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Kæra í máli þessu barst úrskurðar­nefndinni 21. október s.á. og var kærufrestur þá liðinn. Þá liggur fyrir að eftir gildistöku hinnar umþrættu deiliskipulagsbreytingar hefur önnur deiliskipulagsbreyting verið samþykkt. Sú breyting felur í sér að byggingarreitur fyrir bílskúr á umræddri lóð er færður 1 m aftar á lóðinni og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júlí 2024.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá skv. 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til efnismeðferðar. Verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki verður talið, eins og atvikum er háttað, að taka málið til meðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt fyrrgreindum undan­tekningarákvæðum 28. gr. stjórnsýslulaga enda hefur lögmælt opinber birting ákvörðunar þá þýðingu að almenningi teljist vera kunnugt um hina birtu ákvörðun.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða samþykkt byggingaráforma sér stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað enda liggja ekki fyrir þeir meinbugir á ákvörðuninni sem raskað geta gildi hennar. Ekki liggur fyrir að byggingarleyfi hafi verið gefið út vegna byggingaráformanna.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar frá 8. ágúst  2024 um að samþykkja byggingaráform vegna bílskúrs á lóðinni Oddagötu 11.

120/2024 Haðarstígur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 120/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024, um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12–14 við Haðarstíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Njarðargötu 39, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 13. september 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. október 2024.

Málavextir: Hinn 27. apríl 2023 var lögð inn umsókn til byggingarfulltrúa um byggingarleyfi til að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð ásamt því að breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð, útbúa nýjar svalir í suður, lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga á parhúsinu að Haðarstíg 14. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2023 og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 21. júlí 2023 var málinu vísað til umsagnar verkefnastjóra og á afgreiðslufundi 14. september s.á. lagði skipulagsfulltrúi fram umsögn í málinu þar sem ekki var fallist á erindið í þeirri mynd sem það barst þar sem það var talið valda neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 5. október 2023 var samþykkt að grenndarkynna framan­greinda byggingarleyfisumsókn. Grenndarkynningin fór fram frá 6. nóvember til 4. desember s.á. og bárust fjórar athugasemdir á kynningartíma. Að lokinni grenndarkynningu var málið lagt fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. desember 2023 þar sem því var vísað til umsagnar verkefnastjóra. Eftir yfirferð verkefnastjóra og skipulagsfulltrúa á málinu var þakkóti lækkaður og umfang stækkunar á bakhlið hússins minnkað. Málinu var síðan vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs þar sem það var samþykkt 28. febrúar 2024. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024 var umsóknin svo breytt samþykkt og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 13. júní s.m. Byggingarleyfi var útgefið 13. september 2024.

Málsrök kæranda: Vísað er til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 14. september 2023, um að ekki væri fallist á umdeilt erindi í þeirri mynd sem það væri, þar sem það valdi neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir. Hins vegar hafi erindið verið grenndarkynnt þar sem kærandi og eigandi fasteignar að Njarðargötu 39 og 41 skiluðu inn neikvæðum athugasemdum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Í kjölfar grenndarkynningar hafi kærandi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra um stöðu máls, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum hafi verið svarað 15. febrúar 2024 þar sem fram komi að kærandi fái bréf um afgreiðslu málsins. Ekki sé hægt að koma með frekari athugasemdir við erindið, það verði hægt að kæra niðurstöðuna en kæruleiðbeiningar muni koma fram í bréfinu. Í tölvupósti 1. mars s.á. svari verkefnastjóri kæranda með því að skrifa „þið komið til með að fá bréf sem segir ykkur hvernig þið getið kært erindið“. Hafi kærandi svarað samdægurs og bent á að hún muni kæra. Í tölvupósti frá verkefnastóra 2. apríl 2024 hafi einnig komið fram að byggingarfulltrúi komi til með að senda bréf með kæruleiðbeiningum þegar málið hafi fengið endanlega afgreiðslu hjá þeim. Það sé ekki hægt að kæra málið fyrr en afgreiðsla þess liggi fyrir. Málið sé í frestun hjá byggingarfulltrúa þar sem vísað sé til athugasemda á teikningum.

Byggingarleyfi hafi verið gefið út 13. september 2024 samkvæmt tölvupósti frá byggingar­fulltrúa, dags. 3. október 2024, eftir skriflega fyrirspurn kæranda degi áður. Umrædd tilkynning um veitingu byggingarleyfisins hafi svo borist 10 dögum eftir að kærandi hafði sent skriflega fyrirspurn um stöðu málsins eða 23. september 2024, fyrst til verkefnastjóra og síðan með öðrum tölvupósti til byggingarfulltrúa, en þeim tölvupósti hafi ekki verið svarað. Hafi því tilkynning um veitingu framangreinds byggingarleyfis borist kæranda tæplega mánuði eftir að leyfið var sannarlega veitt.

Í kjölfar veitingu byggingarleyfisins hafi kærandi sent tölvupóst á verkefnastjóra, þar sem hún kveðst ekki enn hafa fengið bréf frá byggingarfulltrúa með nauðsynlegum leiðbeiningum vegna málsins. Verkefnastjóri hafi þá bent sér á að hafa samband við byggingarfulltrúa vegna málsins. Í skipulagsgáttinni, 11. október 2024 þegar kæra þessi var rituð, sé tiltekið að mál varðandi Haðarstíg 14 sé enn í vinnslu. Valdi það töluverðri réttaróvissu á meðal þeirra nágranna sem sent hafi inn athugasemdir vegna framkvæmdanna. Líkt og áður greini hófust framkvæmdir 3. október 2024 eða sama dag og tölvupóstur barst frá byggingarfulltrúa þar sem fram komi dagsetning byggingarleyfisins og að kærufrestur skuli vera mánuður án þess að frekari leið­beiningar séu veittar, t.d. við hvaða tímamark sé verið að miða.

Hafi kærandi óskað í kjölfarið eftir gögnum er varði framangreint byggingarleyfi og svörum um hvers vegna tölvupóstur með nauðsynlegum leiðbeiningum um kæruleiðir og réttarstöðu hafi ekki enn borist. Hafi verkefnastjóri svarað þeim tölvupósti en ekki byggingarfulltrúi sem kæranda hafði áður verið leiðbeint um að ætti að beina erindi að. Í tölvupóstinum kveðst verkefnastjórinn ætla að taka málið til skoðunar og tiltekur við hvaða tímamark kæruheimild miði. Þá hafi verið liðnir tuttugu dagar frá útgáfu byggingarleyfisins og aðeins tíu dagar til stefnu til að kæra framangreinda leyfisveitingu til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála. Frekari skriflegum fyrirspurnum kæranda hafi ekki verið svarað. Þá liggi fyrir að nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu og kæruleiðir hlutaðeigandi nágranna hafi ekki borist, hvorki frá byggingarfulltrúa né framangreindum verkefnastjóra.

Grenndarréttarreglur leggi ríkar kröfur á að stjórnvöldum, sem falið sé að veita byggingarleyfi sem óhjákvæmilega hafi í för með sér óþægindi fyrir hlutaðeigandi nágranna, rannsaki mál til hlítar svo unnt sé að leggja fullnægjandi mat á atvik og aðstæður málsins og þar með þolmörk þeirra óþæginda sem um ræði. Heimiluð framkvæmd komi til með að hafa í för með sér skuggamyndun og skerðingu á útsýni sem hafi óumflýjanlega áhrif á verðmat nærliggjandi fasteigna. Þá liggi fyrir álit fasteignasala og arkitekts þar sem ljóst sé að framangreindar fram­kvæmdir muni hafa í för með sér töluvert óhagræði fyrir fasteign kærenda að Njarðargötu 39.

Í rökstuðningi byggingarfulltrúa verði ekki séð að tekið hafi verið tillit til framangreindra athugasemda og sé þá sérstaklega vísað til umsagnar verkefnastjóra, þar sem fram komi að ólíklegt sé að innsýn aukist í glugga íbúða að Njarðargötu 39 og að ónæði verði vegna svala á suðurhlið hússins. Hafi umsögnin verið lögð fram án þess að aðstæður á vettvangi væru skoðaðar. Af því leiði að umsagnaraðilar byggingarleyfisins hafi ekki kynnt sér aðstæður áður en leyfi var veitt þrátt fyrir fjölda neikvæðra athugasemda hlutaðeigandi nágranna sem unnar hafi verið meðal annars af tveimur arkitektum, þ.e. eins eiganda á Njarðargötu 41 og arkitekts sem hafi komið á staðinn og skoðað allar aðstæður í aðdraganda þess að umsögn var skilað inn.

Krafa um ógildingu byggingarleyfis og samþykki byggingaráforma byggingarfulltrúa 4. júní 2024 sé byggð á því að málmeðferð byggingarfulltrúa sé ekki í samræmi við lög. Máls­meðferðin brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar og öllum þeim sem gert hafi athugasemdir við framkvæmdina. Í umsagnarferli hafi hvorki kæranda né öðrum verið leiðbeint um rétt sinn með tilhlýðilegum hætti eða kynnt niðurstaða byggingarfulltrúa. Hafi viðkomandi því hvorki notið andmælaréttar né leitað lögbundinna kæruleiða. Leyfisveitandi hafi að sama skapi ekki sinnt rannsóknarskyldum sínum í málinu með því að hafa virt athugasemdir í lögbundnu umsagnarferli að vettugi og ekki tekið afstöðu til þeirra.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að við framkvæmd grenndarkynningar hinnar kærðu umsóknar hafi verið farið að öllu í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Fyrir mistök hafi þeim aðilum sem sendu inn athugasemdir ekki verið sent bréf með kæru­leiðbeiningum og sé beðist velvirðingar á því. Þess verði gætt að skerpa verkferla varðandi sendingar slíkra bréfa og verði farið yfir verklagið við uppfærslu stöðu mála í skipulagsgáttinni úr „Í vinnslu“ í „Lokið“. Þrátt fyrir að misbrestur hafi orðið á sendingu bréfsins hafi kærandi verið meðvituð um málið innan kærufrests og fengið svör við spurningum sínum varðandi stöðu málsins og upplýsingar um kæruleið, bæði frá verkefnastjóra skipulagsfulltrúa og skrifstofufulltrúa hjá byggingarfulltrúa. Auk þess vísist til heimasíðu borgarinnar þar sem hægt sé að fylgjast með stöðu mála og finna má allar fundargerðir.

 Málið eigi sér töluverða forsögu þar sem ýmsar útfærslur á breytingum á bæði Haðarstíg 12 og 14 hafi borist byggingar- og skipulagsfulltrúa frá árinu 2020. Upphaflega hafi verið sótt um að hækka mæni hússins á lóð nr. 14 við Haðarstíg og setja kvisti á hvora hlið, setja svalir á 1. hæð hússins, stækka glugga á suðausturhlið í kjallara og endurskipuleggja rishæð. Einnig hafi verið óskað eftir samþykkt á áður gerðum breytingum á innra skipulagi í kjallara og á 1. hæð ásamt ísetningu á glugga og hurð sem snúi að garði. Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. janúar 2022 hafi sérstaklega tilgreint að ekki væri heimilað að útbúa séríbúð í kjallara og mælst gegn því að grafið yrði frá kjallara hússins með þeim hætti sem sýnt var í inn kominni fyrirspurn.

 Í nýjustu byggingarleyfisumsókninni, dags. 27. apríl 2023, hafi verið fallið frá því að sækja um íbúð í kjallara. Sótt hafi verið um að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð. Breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð ásamt nýjum svölum í suður og lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga. Fremst í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, hafi fyrir mistök verið fjallað um að sótt væri um að innrétta íbúð í kjallara hússins. Neðar í umsögninni komi þó skýrt fram: „Það er ekki verið að sækja um fjölgun íbúða í húsinu, ekki er heimilað að hafa íbúð í kjallara. Í umsókn er sótt um breytingar á einbýlishúsi. Jákvætt var tekið í lækkun gólfs í kjallara til að auka notkunarmöguleika kjallarans.“ Í útgefnu byggingarleyfi komi einnig skýrt fram: „Sótt er um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg“. Því liggi skýrt fyrir að ekki hafi verið veitt samþykki fyrir því að útbúa íbúð í kjallara hússins að Haðarstíg 14 og ekkert bendi til þess að innra skipulag þess gefi það til kynna að eigendur séu að fara bakdyraleið að því að breyta fasteigninni í tvær íbúðir.

 Við vinnslu málsins hjá skipulagsfulltrúa hafi verkefnastjóri embættisins farið á staðinn og kynnt sér aðstæður í götunni fyrir framan og aftan húsið að Haðarstíg 14. Brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkótann úr 61,45 í 60,50 svo hæð hússins væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll séu í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsum í götunni öðrum en parhúsinu að nr. 12-14. Að lokinni grenndarkynningu hafi jafnframt umfang stækkunarinnar á suðausturhlið hússins, sem snúi að Njarðargötu 39, verið minnkað svo skuggavarp hússins yrði sambærilegt og á Haðarstíg 16-18. Því sé ljóst að tekið hafi verið tillit til þess að um mikið nábýli sé að ræða og komið til móts við athugasemdirnar sem bárust vegna málsins.

Íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á næstu byggð sem haft geti í för með sér aukið skuggavarp eða aðrar breytingar á umhverfi íbúanna. Telja verði að sú skerðing sem íbúar í nágrenni við Haðarstíg 14 verði fyrir sé ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli megi almennt búast við. Telji Reykjavíkurborg að í umþrættu máli séu ekki til staðar verulegir annmarkar sem réttlætt geti ógildingu hins útgefna byggingarleyfis og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 13. september 2024.

 Málsrök leyfishafa: Bent er á að erindið var grenndarkynnt og kærandi hafi 22. nóvember 2023 gert ítarlegar athugasemdir við framkvæmdina. Því sé ljóst að kærandi hafi þegar í ferli málsins komið athugasemdum sínum á framfæri, sem skipulagsfulltrúi hafi hafnað, öfugt við ýmsar aðrar athugasemdir í kjölfar grenndarkynningar sem tekið hafi verið tillit til.

Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 18. júlí 2023 þar sem sótt var um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá húsi parhúss nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg. Samþykkt hafi verið á fundi skipulagsfulltrúa 23. nóvember s.á. að koma til móts við athugasemdir nágranna með því að lækka suðausturhlið svo skuggavarp hússins sé sambærilegt og á Haðarstíg 16-18 og lækka húsið svo það sé ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.

Framkvæmdin, sem sé þegar hafin, byggi á byggingaleyfi dags. 13. september 2024, grund­vallað á ofangreindri samþykkt skipulagsfulltrúa. Þar sem kæran byggi alfarið á því að kærandi hafi ekki komið sjónarmiðum sínum og athugasemdum að við veitingu byggingarleyfis og afgreiðslu skipulagsfulltrúa, en ljóst sé af gögnum málsins að svo er ekki, sé sú krafa gerð að kæru sé vísað frá, en til vara hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að framlagðar teikningar gefi villandi mynd af raunverulegri fjarlægð á milli húsanna að Haðarstíg 14 og Njarðargötu 39. Að öðru leyti eru ítrekuð fyrri sjónarmið. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

—–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara, grafa frá parhúsi nr. 14 á lóðinni Haðarstíg 12–14 og gefa út byggingar­leyfi í skjóli þeirrar samþykktar 13. september 2024. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mann­virki nr. 160/2010.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra, m.a. um stöðu málsins, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum var svarað með þeim hætti að kærandi fengi bréf um afgreiðslu málsins og í því bréfi yrði leiðbeint um kæruleiðir. Tilkynning um samþykki umsóknar og útgáfu framangreinds byggingarleyfis barst kæranda þó ekki fyrr en tæplega mánuði eftir að leyfið var gefið út, eða hinn 3. október 2024, en þá var málið enn sagt í vinnslu í skipulagsgátt borgarinnar. Samkvæmt því verður að telja að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2024, hafi borist innan lögbundins kærufrests og verður það því tekið til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir, eins og á við í máli þessu, getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar greinar fer grenndarkynning fram með þeim hætti að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta af framkvæmdum samkvæmt leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun er gefinn kostur á að tjá sig um þær innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.

Líkt og fram kemur í málavöxtum var umrædd byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt með fjögurra vikna athugasemdafresti þar sem kærandi kom athuga­semdum sínum á framfæri. Hins vegar liggur fyrir að þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta frá kæranda með fyrirspurn um væntanlegt framhald og niðurstöðu málsins fórst það fyrir að tilkynna þeim sem tjáðu sig á kynningartíma um niðurstöðu og mögulegar kæruleiðir þegar erindið hafði fengið endanlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa. Sá ágalli á málsmeðferð verður þó ekki talin raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda varð kærandi ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum. Hann fékk að lokum tilkynningu um lyktir málsins ásamt svörum við innsendum athugasemdum og kom að kæru í máli þessu. Að öðru leyti var meðferð málsins í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, er tekið fram að parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll eru í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsunum í götunni fyrir utan húsið nr. 12-14. Þær breytingar séu jafn fjölbreyttar og húsin eru mörg en hvergi sé að sjá samhæfða útfærslu milli tveggja aðliggjandi parhúsa. Þá kemur fram að skuggavarp fylgdi umsóttum breytingum sem sýni að þær komi til með að hafa áhrif í bakgarði húsanna við Njarðargötu 39 og 41. Skipulagsfulltrúi mælti gegn því að kynntar teikningar yrðu samþykktar óbreyttar og mælti með því að minnka umfang byggingarinnar. Lagði hann til að lækka suðausturhlið hússins en hún er bakhliðin sem snýr að Njarðargötu 39 svo skuggavarp yrði sambærilegt og  frá Haðarstíg 16-18. Einnig var lagt til að húsið yrði lækkað svo það yrði ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.

Á uppfærðum aðaluppdráttum, dags. 21. febrúar 2024, má sjá að brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkóta hússins úr 61,45 í 60,50 svo hæð þess væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Að lokinni grenndarkynningu var jafnframt dregið úr umfangi stækkunarinnar á suðausturhlið hússins svo skuggavarp yrði sambærilegt og frá Haðarstíg 16-18. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024, þar sem hin kærða ákvörðun var tekin, voru lagðir fram endanlegir aðaluppdrættir og skuggavarpsteikningar.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar að­stæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunar­kenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum sjónarmiðum.

Lóðin Haðarstígur 14 er 92 m2 og húsið á lóðinni 92,8 m2 og er nýtingarhlutfall lóðarinnar fyrir breytingu 1,01. Eftir heimilaðar breytingar verður byggingin 131,2 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,43. Lóðin sem tilheyrir húsi nr. 12, sem er hinn hluti parhússins er 147,8 m2 og húsið á lóðinni 76,7 m2 , en þar er stækkun hússins fyrirhuguð. Samkvæmt fasteignaskrá HMS má ætla að hús við götuna séu um 130 m2 en í nokkrum tilfellum stærri. Nýtingarhlutfall lóðarinnar Haðarstígs 8 er 1,34, á lóðum nr. 10 og 16 er nýtingarhlutfallið 0,93 og á lóðinni nr. 18 er það 1,48. Verður því stærð hússins og nýtingarhlutfall lóðar sambærileg við parhúsin sem standa sitthvoru megin við parhúsið á Haðarstíg 12-14 og önnur hús í sömu götu.

Af gögnum málsins verður ráðið að grenndaráhrif umdeildra breytinga með tilliti til skugga­varps verði óveruleg en að einhver innsýn í fasteign kæranda verði frá kvistinum, en þau grenndaráhrif teljast þó ekki umtalsverð eða meiri en gengur og gerist á svæðinu.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg.

84/2024 Sólvallagata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí 2024 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi og lóð Sólvallagötu 14.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi að Hávallagötu 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á húsi og lóð Sólvallagötu 14. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2024, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir íbúi að Hávallagötu 25, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingar­fulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, krafa kærenda er sú sama og hagsmunir þeirra þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 85/2024, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. september 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. júlí 2023 var tekin fyrir umsókn sendiráðs Bandaríkjanna um leyfi til að breyta innra skipulagi og byggja við hús á lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Umsóknin tók til byggingar lyftuhúss norðan aðalinngangs, bygging yfir svalir ofan á inngangi, gerð nýs inngangs og trappa á norðurhlið 1. hæðar að eldhúsi íbúðarhúss, mhl.01, bygging ofan á bílskúr, mhl.02 með aðgengi um utanáliggjandi stiga meðfram vesturhlið. Jafnframt því að byggja vaktskýli, mhl.03 fyrir öryggisgæslu í suðvesturhorni lóðar og reisa öryggisgirðingu inn á lóð og meðfram lóðarmörkum aðliggjandi lóðar einbýlishúss á lóð nr. 14 við Sólvallagötu, tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var erindinu frestað og vísað til athugasemda. Erindið var tekið fyrir að nýju 25. s.m. og vísað til umsagnar og/eða grenndarkynningar hjá skipulags­fulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. október 2023, kom fram að ekki væru gerðar athugasemdir að öðru leyti en að tekið var neikvætt í staðsetningu vakthúss fremst á lóðinni og vísað til að skuggavarpsmyndir sem sýndu grenndaráhrif þyrftu að fylgja byggingar­leyfis­umsókn fyrir breytingar á umfangi bílskúrs áður en hægt væri að taka endanlega afstöðu til um­fangs framkvæmdanna.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. desember s.á. var tekin fyrir breytt umsókn um leyfi til að þess að breyta innra skipulagi, byggja lyftuhús norðan aðalinngangs, byggja yfir svalir ofan á inngangi, gera nýjan inngang og tröppur á norðurhlið 1. hæðar að eldhúsi íbúðarhúss, mhl.01, byggja ofan á bílskúr, mhl.02 með aðgengi um utanáliggjandi stiga meðfram vesturhlið og reisa öryggisgirðingu inni á lóð og meðfram lóðarmörkum aðliggjandi lóðar einbýlishúss á lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Erindinu var frestað og málinu vísað til skipulagsfulltrúa til grenndarkynningar. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júlí 2024 þar sem umsóknin var samþykkt.

Málsrök kærenda: Vísað er til þess að fyrirhuguð uppbygging og nýting á lóðinni Sólvalla­götu 14 sé ekki í samræmi við landnotkun svæðisins sem íbúðabyggðar samkvæmt Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040. Uppsetning öryggisgirðingar og aðstaða starfsfólks staðfesti að ekki sé um hefðbundið íbúðarhúsnæði að ræða. Almennir borgarar hafi hvorki öryggisgirðingar né aðstöðu fyrir starfsfólk í íbúðar­húsnæði sínu. Framkvæmdirnar séu þess eðlis að túlka beri áformin sem breytingu á starfsemi lóðarinnar. Ekkert hafi komið fram í framlögðum gögnum um umferðarsköpun eða bílastæðaþörf sendiherrabústaðarins og þeirrar starfsemi sem þar muni fara fram. Ætla verði að starfsemin muni kalla á nokkur bílastæði og skapa nokkra umferð umfram það sem almennt gerist í íbúðarbyggð.

Breytingar á húsi og lóð ógni öryggi nágranna og annarra íbúa hverfisins og hafi neikvæð áhrif á friðhelgi einkalífs og persónuvernd. Breytingarnar séu ekki í samræmi við stefnu aðal­skipulags um borgarvernd, séu óafturkræfar og hafi neikvæð áhrif á ásýnd hverfisins og staðar­anda. Samþykkt nýbyggingar fyrir starfsmannaaðstöðu, sem sé útfærð eins og stúdíóíbúð ofan á þegar byggðum bílskúr sé fordæmisgefandi nýjung í viðbyggingum og eigi sér ekki fyrir­myndir í hverfinu eða öðrum borgarhlutum. Með byggingunni sé götumyndinni raskað veru­lega. Samþykki nágranna fyrir framkvæmdum á lóðarmörkum liggi ekki fyrir og hafi þeir harð­lega mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé sett fram borgarverndarstefna sem sé heildstæð stefna um borgarvernd sem nái til allrar borgarinnar. Njóti svæðið innan Hringbrautar og umhverfis Landakotshæð verndar samkvæmt því, m.a. sem „samstæður húsa og heildir“. Hafi stefna þessi haft þýðingu í einstökum málum á undanförnum árum. Undirbúningur hins kærða leyfis hafi verið ófullnægjandi þar sem ekki hafi verið aflað umsagnar Borgarsögusafns vegna breytinga á Sólvallagötu 14. Þá séu samanlagt lagðar til mjög veigamiklar breytingar sem ekki sé hægt að horfa á einangrað og geti haft fordæmisgildi fyrir hverfið í heild.

Við grenndarkynningu Reykjavíkurborgar hafi vantað bæði leyfisumsókn og rökstuðning fyrir málsmeðferð umsóknar. Þá hafi verið ýmsir annmarkar á hönnunargögnunum sem gert hafi hagsmunaaðilum erfitt fyrir að átta sig á fyrirhuguðum framkvæmdum. Framlögð gögn hafi með því ekki uppfyllt skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 5. kafla skipulags­reglugerðar nr. 90/2013.

Bygging sú sem heimilað hafi verið að byggja ofan á bílskúr hafi umtalsverð áhrif á garðmynd Hávallagötu 21, auki skuggavarp og ljótleika umhverfisins ásamt því að rýra dvalargildi garðsins og þar með verðgildi eignarinnar. Skipulagsfulltrúi hafi gert lítið úr áhrifum skuggavarps nýbyggingarinnar á lóð nágranna og hafi ekki fjallað um neikvæð áhrif nýbyggingarinnar á suðurgarð nágranna.

Um 80 manns hafi sent inn umsögn vegna málsins en í athugasemdum og svörum skipulags­fulltrúa hafi ekki verið tekið undir eitt einasta atriði. Með niðurstöðu skipulagsfulltrúa hafi athugasemdir nágranna og hagsmunaaðila verið virtar að vettugi og umsóknaraðila veitt for­réttindi umfram almenna borgara. Ítrekað hafi verið óskað eftir fundi með skipulagsfulltrúa, bæði send inn umsögn og gerðar athugasemdir við grenndarkynningu en engu hafi verið svarað og hagsmunaaðilum ekki verið tilkynnt niðurstaða málsins.

Þá bendir kærandi á að í fyrri málum sem ratað hafi á borð úrskurðarnefndarinnar varðandi lóðir sendiráða hafi niðurstaða nefndarinnar verið á þann veg að vísa málum frá vegna úrlendis­réttar. Því sé undirstrikað að húsið á Sólvallagötu 14 sé í dag íbúðarhús sem standi mannlaust. Þótt bandarísk stjórnvöld hafi fest kaup á Sólvallagötu 14 og hafi áform um að þar verði í framtíðinni sendiherrabústaður, þá sé staða lóðarinnar ekki sú í dag. Núverandi sendiherra­bústaður Bandaríkjanna á Íslandi sé annars staðar. Því eigi málið að falla undir lögsögu úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 sem öðlast hafi lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendiráðssvæðið friðhelgi. Í því felist að svæðið sé utan dóms- og framkvæmda­valdslögsögu íslenska ríkisins. Úrskurðarnefndin hafi ekki, sem handhafi stjórnsýsluvalds, lög­sögu um rétt eða skyldur sendiráðs Bandaríkjanna. Ágreiningur varðandi greindar fram­kvæmdir verði því aðeins til lykta leiddar á sviði þjóðarréttarsamninga.

Bent sé á að báðar kærur málsins gefi til kynna að verið sé að kæra útgefið byggingarleyfi fyrir framkvæmdum að Sólvallagötu 14 en ekki sé búið að gefa út byggingarleyfi. Byggingarfulltrúi hafi einungis samþykkt byggingaráform. Slíkir annmarkar á kröfugerð ættu að leiða til frávísunar.

Við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi byggingarfulltrúi gætt að skilyrðum gr. 2.4.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 auk þess að hann hafi aflað umsagnar Minjastofnunar. Hvergi í lögum komi fram að Borgarsögusafn veiti umsagnir við útgáfu byggingarleyfa og getur skortur á öflun slíkrar umsagnar ekki varðað gildi byggingarleyfis.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé Sólvallagata 14 á svæði sem sé skilgreind íbúðarbyggð (ÍB1). Ekkert deili- eða hverfisskipulag sé í gildi fyrir svæðið og því þurfi að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknir þegar það eigi við. Skilyrðum þeim er 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kveði á um hafi verið gerð greinagóð skil í umsögnum skipulags­fulltrúa frá 12. október 2023 og 6. júní 2024.

 Athugasemdir leyfishafa: Bent er á að sótt hafi verið um hið kærða leyfi eftir þeim reglum sem um slík leyfi gildi. Leyfishafa hafi ekki verið kunnugt um neina annmarka á umsókninni eða afgreiðslu hennar og mótmælir sjónarmiðum kærenda. Óskað sé eftir því að farið verði yfir það hvort formskilyrði til þess að taka kærurnar til efnismeðferðar séu uppfyllt og að kæru­málunum verði eftir atvikum vísað frá.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að þrátt fyrir bókun umhverfis- og skipulagsráðs um að jafnræðisreglan hafi verið í hávegum höfð við afgreiðslu málsins sé reyndin önnur. Samþykktar breytingar séu fordæmalausar og ljóst að umsækjandi hafi notið forréttinda umfram almenna borgara sem sæki um leyfi fyrir breytingum á eignum sínum. Reglur úrlendisréttar eigi ekki að hamla því að úrskurðað sé í málinu af hálfu úrskurðar­nefndarinnar, enda hafi ekki verið sendiráð á lóðinni og sendiherrann hafi ekki aðsetur þar.

Upplýsingaöflun úrskurðarnefndarinnar: Við meðferð þessa kærumáls óskaði úrskurðar­nefndin eftir viðhorfum utanríkisráðuneytisins varðandi beitingu alþjóðasamnings um stjórnmála­samband frá 18. apríl 1961, svonefnds Vínarsamnings, og barst svar frá ráðuneytinu 12. nóvember 2024.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík á byggingar­leyfi vegna breytinga á húsi og lóð nr. 14 við Sólvallagötu. Kæruheimild er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 sem öðlast hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæði friðhelgi en í því felst að svæðið er utan dóms- og framkvæmdavaldslögsögu íslenska ríkisins. Í i. lið 1. gr. samningsins kemur fram að sendiráðssvæði sé byggingar eða hluti bygginga og tilheyrandi lóð, hver sem eigandinn sé, sem nýtt sé af sendiráði, þar á meðal íbúð forstöðumanns sendiráðs. Í 41. gr. er kveðið á um að það sé skylda allra þeirra sem njóta forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Bandaríkjanna eftir byggingarleyfi vegna fyrir­hugaðra framkvæmda og var fallist á umsóknina af borgaryfirvöldum.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að sendiherra hafi ekki enn búsetu í húsinu við Sólvallagötu. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar kom fram að því hafi borist nóta frá sendiráði Bandaríkjanna 28. janúar 2021, þar sem tiltekið var að utanríkisþjónusta Bandaríkjanna hygðist festa kaup á fasteigninni og hagnýta hana sem bústað sendiherra og hafi undanþágur Vínarsamningsins því átt við í kaupferlinu og hafi vernd og friðhelgi samningsins gilt frá því utanríkisþjónusta Bandaríkjanna varð eigandi fasteignarinnar, en skv. 30. gr. samningsins skuli einkaheimili sendierindreka njóta sömu friðhelgi og verndar sem sendiráðs­svæðið.

Í fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar til utanríkisráðuneytisins var vakin athygli á því að í 1. mgr. 21. gr. Vínarsamningsins sé kveðið á um að móttökuríki skuli aðstoða sendiríki að afla sér í landi þess, „í samræmi við þau lög sem þar gilda“, húsakynna sem nauðsynleg séu fyrir sendiráð eða aðstoða það við öflun húsnæðis á annan hátt. Var með hliðsjón af þessu óskað eftir því að ráðuneytið mundi lýsa yfir viðhorfum af þessu tilefni sem gætu orðið til leið­beiningar, þ.e. m.a. með hvaða hætti samningurinn girði fyrir uppkvaðningu úrskurða skv. 59. gr. laga um mannvirki, um gildi byggingarleyfis. Ráðuneytið kaus að tjá sig ekki um þennan þátt fyrirspurnar nefndarinnar með vísan til þess að það væri verkefni úrskurðaraðila og dóm­stóla að skera þar úr um.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslu­kærum, hefur verið litið svo á af hálfu nefndarinnar, sbr. úrskurði í málum nr. 60/2005, 52/2003, 66/2002 og 10/2002, að af 22. og 31. gr. áður greinds þjóðréttarsamnings leiði að hún hafi ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráða heldur verði ágreiningi sem þeim sem fyrir liggur í máli þessu einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóða­réttarins um stjórnmálasamband. Verður með hliðsjón af því að vísa máli þessu frá úrskurðar­nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

69/2024 Horn 1

Með

Árið 2024, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 7. júní 2024 um að synja umsókn Litlahorns ehf. um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Þá var einnig kærð ákvörðun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 16. júlí s.á. um að veita megi byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júlí 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Litlahorn ehf. þá ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 7. júní 2024 um að synja umsókn þess um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 22. júlí 2024.

Málavextir: Hinn 9. maí 2024 sótti Litlahorn ehf. um byggingarleyfi á jörðinni Horni 1 fyrir viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu með sex herbergjum fyrir 12 gesti. Á fundi umhverfis- og skipulags­nefndar 5. júní s.á. var umsókn kæranda synjað. Nefndin taldi uppbyggingu á svæðinu ekki heimila þar sem fram kæmi í aðalskipulagi að hún skyldi vera samkvæmt deiliskipulagi. Undanþáguákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 væri ekki uppfyllt þar sem byggingaráformin samræmdust ekki aðalskipulagi. Byggingarfulltrúi synjaði kæranda um byggingarleyfi með tölvupósti 7. s.m. Í kjölfarið sendi kærandi byggingarfulltrúa, umhverfis- og skipulags­nefnd og skipulagsfulltrúa bréf, dags. 9. s.m., þar sem afgreiðslunni var mótmælt. Með bréfi, dags. 17. s.m., fór kærandi fram á endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar sveitar­félagsins á grundvelli 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og til vara óskaði hann eftir heimild til að hefja vinnu við gerð deiliskipulags fyrir framkvæmdasvæðið. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 2. júlí s.á. og var beiðni um endurupptöku eða afturköllun ákvörðunar hafnað, en samþykkt að veita heimild til að vinna deiliskipulag fyrir hið umrædda svæði.

Á fundi bæjarráðs 16. júlí 2024 var umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1 tekin fyrir. Um var að ræða 63,6 m2 viðbyggingu með 15,3 m2 vindfangi fyrir matsal og anddyri og stækkun á tæknirými um 9,6 m2 auk 141 m2 gistiálmu með sex herbergjum. Í fundargerð kom fram að samkvæmt aðalskipulagi væri umrætt svæði á reit VÞ 36, þar sem gert væri ráð fyrir m.a. ferðaþjónustu, gistingu, tjaldsvæði og þjónustuhúsi með veitingum. Í skilmálum fyrir reitinn kæmi fram að uppbygging væri heimil samkvæmt deiliskipulagi. Gert væri ráð fyrir allt að 120 gestum. Ekki væri til gildandi deiliskipulag fyrir svæðið, en að umsækjandi hefði upplýst sveitarfélagið um að deiliskipulag væri í vinnslu. Heimilaði bæjarráð að veita mætti byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, enda hefði kærandi hafið vinnu við gerð deiliskipulags. Þá var samþykkt að falla frá grenndarkynningu skv. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga þar sem að mati bæjarráðs varðaði framkvæmdin ekki hagsmuni annarra en umsækjanda. Á grundvelli heimildar bæjarráðs samþykkti byggingarfulltrúi aðaluppdrætti 15. ágúst 2024. Byggingarheimild fyrir umræddri framkvæmd var svo gefin út 3. september s.á.

Með bréfi, dags. 22. júlí s.á., upplýsti byggingarfulltrúi kæranda um að ákvörðun hans frá 7. júní s.á. hefði ekki verið tekin af til þess bærum aðila samkvæmt 1. mgr. 44. gr. sbr. 6. gr. skipulagslaga. Hefði byggingarfulltrúi því ákveðið að afturkalla ákvörðunina á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún væri ógildanleg og ekki til tjóns fyrir aðila.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júlí 2024 um að synja umsókn hans um byggingarleyfi hafi verið haldin verulegum ágöllum sem eigi að leiða til ógildingar hennar. Fyrirhuguð mannvirkjagerð, sem sótt hafi verið um, sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlun á svæðinu, sbr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í athugasemdum kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. ágúst 2024, kom fram að kærandi teldi einnig að ákvörðun bæjarráðs frá 16. júlí 2024, um að samþykkt byggingarleyfis væri skilyrt því að deiliskipulagsvinna væri hafin, bryti í bága við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Fór hann fram á að ákvörðun bæjarráðs yrði ógilt að því er varðaði skilyrði um gerð deiliskipulags, en að ákvörðun um veitingu byggingarleyfis til handa kæranda stæði óhögguð. Engin þörf væri á gerð deiliskipulags þar sem framkvæmdin félli bæði að Aðalskipulagi Hornafjarðar 2012–2030 ásamt því að vera í samræmi við núverandi landnotkun, byggðarmynstur og þéttleika byggðar á Horni 1. Gerð deiliskipulags væri tímafrek, kostnaðarsöm og mjög íþyngjandi fyrir kæranda í ljósi þess að allar forsendur lægju fyrir í gildandi aðalskipulagi.

Öðrum ferðaþjónustuaðilum, sem starfi á sama svæði og kærandi, hafi ítrekað verið veitt byggingarleyfi án skilyrðis um gerð deiliskipulags. Á fundi bæjarráðs 16. júlí 2024 hafi meðal annars verið veitt byggingarleyfi fyrir gistihúsi á Seljavöllum án allra skilyrða. Á Seljavöllum sé ekki í gildi deiliskipulag og í aðalskipulagi komi skýrt fram að uppbygging skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi, sem séu sömu forsendur og gildi um Horn 1. Báðar framkvæmdirnar lúti að uppbyggingu ferðaþjónustu og séu sambærilegar og tilheyri sama svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi Hornafjarðar, þ.e. Nesjahverfi. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu sveitarfélagsins að útskýra hvaða önnur sjónarmið eigi við um veitingu leyfis til gistihússins á Seljavöllum en eigi við um leyfi kæranda. Ákvörðun bæjarráðs um að skylda kæranda til að vinna deiliskipulag hafi verið ómálefnaleg og gengið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi bæjarráð skýra lagaheimild til að veita leyfið án deiliskipulagsgerðar. Vísað sé til fleiri dæma um uppbyggingu og leyfis­veitingar á grundvelli aðalskipulags, sem séu sambærilegar fyrirætlunum kæranda, þar sem ekki hafi verið gerð krafa um deiliskipulag.

Málsrök Sveitarfélagsins Hornafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að byggingarfulltrúi hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 22. júlí 2024, að fyrri afgreiðsla hans frá 7. júní s.á. hefði ekki verið í samræmi við lög þar sem umhverfis- og skipulagsnefnd hefði ekki verið heimilt að afgreiða mál á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga heldur væri það bæjarstjórn eða sá aðili sem hefði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála skv. 6. gr. laganna. Í samþykkt um stjórn- og fundarsköp sveitarfélagsins hefði vald til fullnaðarafgreiðslu mála á grundvelli þessa lagaákvæðis ekki verið afsalað til umhverfis- og skipulagsnefndar og því væri það bæjarstjórn, eða eftir atvikum bæjarráð, sem tæki endanlegar ákvarðanir á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Í ljósi þessa hafi umsókn um byggingarleyfi verið tekin fyrir á fundi bæjarráðs 16. júlí s.á. og bókað í fundargerð um samþykki nefndarinnar fyrir byggingarleyfinu enda væri vinna við gerð deiliskipulags á svæðinu hafin. Þar sem fyrri ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júní s.á. hafi verið ógildanleg hefði hún verið afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga. Eigi kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Sveitarfélagið hafi við meðferð byggingarleyfisumsóknar, sem samþykkt hafi verið 16. júlí 2024, verið í samskiptum við kæranda á öllum stigum málsins og veitt honum ítarlegar upp­lýsingar um framvindu þess. Fullyrðingar um að afgreiðsla málsins hafi dregist úr hófi og valdið kæranda fjártjóni séu ekki réttar.

Uppbygging kæranda að Horni sé ekki sambærileg þeim dæmum sem hann telji fram í kæru sinni. Horn sé einn fjölsóttasti ferðamannastaður sveitarfélagsins og þar sé rekin greiðasala, gistihús og tjaldsvæði. Staðurinn sjálfur sé áfangastaður þar sem gestir komi til að upplifa náttúrufegurð o.fl. Ólík uppbygging hafi farið fram á umræddum svæðum á undanförnum árum. Kærandi hafi síðustu árin fengið byggingarleyfi samþykkt þrátt fyrir ákvæði aðal­skipulags sem tekið hafi gildi 28. febrúar 2018 um að uppbygging í landi Horns vegna ferða­þjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi. Kærandi hafi nú sótt um leyfi til að stækka núverandi kaffihús um 78,9 m2 ásamt því að reisa nýja 141,8 m2 gistiálmu. Samtals hafi verið sótt um aukningu byggingarmagns á svæðinu yfir 220 m2. Ljóst sé að framkvæmdunum muni fylgja frekari breytingar á svæðinu, svo sem vegna aðkomu fólks og bíla. Á Seljavöllum, sem kærandi vísi til, hafi verið óskað eftir leyfi til að breyta notkun núverandi íbúðarhúss í minna gistiheimili í sama notkunarflokki skv. gr. 9.1.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og það hafi verið áður. Breyting á notkun hússins feli ekki í sér aukningu byggingarmagns eða aðrar breytingar á svæðinu. Þá séu heimildir og kröfur aðalskipulags fyrir þessi tvö svæði ólíkar. Á Horni, reit VÞ 36, séu heimildir fyrir umfangsmeiri og ólíkri starfsemi. Þar séu heimildir fyrir ferðaþjónustu, gistingu, tjaldsvæði og þjónustuhús með veitingu. Heimilt sé að vera þar með allt að 120 gesti. Á Seljavöllum, reit VÞ 10, sé í aðalskipulagi gert ráð fyrir allt að 30 gestum og starfsemi sem tengist ferðaþjónustu sé eingöngu fyrir gistingu og greiðasölu. Svæði VÞ 36 sé með meiri heimildir fyrir atvinnustarfsemi en VÞ 10 og að samræming uppbyggingar á fyrrnefndu svæði sé miklu meira krefjandi en á Seljavöllum.

Kærandi hafi haldið því fram að sveitarfélagið hafi brotið gegn meðalhófsreglu þar sem gerð deiliskipulags sé það íþyngjandi aðgerð og að sveitarfélaginu hafi borið að fara með málið samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við afgreiðslu umsóknar hans. Ef þannig háttaði til að sveitarfélögum bæri að afgreiða mál er varði þessa lagagrein eingöngu með meðalhófsreglu að leiðarljósi væri gerð deiliskipulagsáætlana tilgangslaus. Ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé undanþáguákvæði frá meginreglu 2. mgr. 37. gr. laganna. Í 44. gr. sé ekki fjallað um að skipulagsyfirvöldum sé skylt að heimila framkvæmdir án deiliskipulagsgerðar, heldur sé um heimildarákvæði að ræða. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins sé ljóst að skipulags­yfirvöldum beri að leggja mat á hvert tilfelli fyrir sig áður en ákvörðun sé tekin. Mikil upp­bygging hafi átt sér stað á Horni á undanförnum árum og fyrir svo umfangsmikla uppbyggingu sé mikilvægt að mótuð sé heildstæð stefna fyrir svæðið í formi deiliskipulags. Því hafi sveitar­félagið ákvæðið að ákvæði 44. gr. skipulagslaga yrði ekki nýtt í þessu tilfelli. Í aðalskipulagi sé sett fram stefna sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar og sú stefna svo útfærð nánar í deiliskipulagi fyrir einstök hverfi eða reiti. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við eigi og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Ljóst sé að þessar nánari útfærslur sé ekki að finna í aðalskipulagi fyrir svo umfangsmikla uppbyggingu sem fyrirhuguð sé á Horni.

Þrátt fyrir að kærandi telji að framkvæmdir þær sem hann hafi sótt um og hin kærða ákvörðun bæjarráðs séu í fullu samræmi við Aðalskipulag Hornafjarðar 2012–2030 þá komi fram í aðalskipulaginu að uppbygging vegna ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi. Í greinargerð aðalskipulagsins komi einnig sérstaklega fram um breytingar á aðalskipulagi að eitt af markmiðum með að styrkja atvinnulíf sé að „efla byggð og að sveitarfélagið geti veitt góða þjónustu við dreifbýlið. Talið er að uppbygging á þessum ellefu svæðum verði jafnt og þétt næstu árin og því mikilvægt að gerð verði grein fyrir þessum þáttum í deiliskipulags­áætlunum fyrir svæðin.“ Sveitarfélagið hafi túlkað ákvæðið á þann hátt og mótað ákveðna stjórnsýsluframkvæmd, þ.e. að umfangsminni framkvæmdir, svo sem minni viðbyggingar, breytingar á klæðningu o.þ.h., væri hægt að heimila án deiliskipulagsgerðar. Uppbygging í landi Horns, sem hafi farið fram á undanförnum árum, sé umfangsmikil og unnin í áföngum. Aðstæður á svæðinu hafi breyst og sé Horn einn af vinsælustu áfangastöðum í sveitarfélaginu. Kærandi hafi hvorki mótmælt aðalskipulagsbreytingunni frá árinu 2018 né óskað eftir breytingu á henni, þó ákvæðið hafi verið í gildi í meira en sex ár og minnt hafi verið á það við afgreiðslu fyrri umsókna þar sem undanþáguákvæði hafi verið beitt.

Ákvæði um að uppbygging vegna ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi hafi verið sett í aðalskipulag, sem hafi öðlast gildi árið 2014, fyrir nánast öll verslunar- og þjónustu­svæði í dreifbýli og á flestum þeirra sé búið að vinna deiliskipulag. Af þeim 11 verslunar- og þjónustusvæðum sem komið hafi til eftir breytingu á aðalskipulagi árið 2018 hafi ákvæði um uppbyggingu á grundvelli deiliskipulags verið sett fyrir sjö svæði og á fjórum þeirra sé búið að vinna deiliskipulag. Af öllum þeim svæðum þar sem í skilmálum aðalskipulags komi fram að uppbygging ferðaþjónustu skuli heimil samkvæmt deiliskipulagi, hafi sveitarfélagið nýtt sér ákvæði 44. gr. skipulagslaga í einstökum tilfellum vegna umfangsminni framkvæmda.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Ítrekað er að kærandi byggi á að skipulagslög nr. 123/2010 og núverandi skipulagskerfi geri ráð fyrir að sveitarfélög vinni deiliskipulag fyrir þau svæði þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar. Þar sé átt við svæði í fleirtölu og hverfi og lóðir en ekki eina staka lóð eins og eigi við á Horni. Skipulagslög geri ekki ráð fyrir að unnið sé deiliskipulag fyrir staka lóð í þéttbýli og hvað þá í dreifbýli. Lóðin sem um ræði sé aðeins um 1.000 m2 að stærð og í um 7–8 km fjarlægð frá næsta bæ. Krafa um gerð deiliskipulags á Horni eigi engan veginn við og gangi gegn hugmyndinni að baki deiliskipulagi, sem sé að gera skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags þar sem teknar séu ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form, eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Óheimilt sé að binda samþykkt byggingarleyfis því skilyrði að gert verði deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæði í ljósi þess að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag fyrir svæðið hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er annars vegar deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar um að synja umsókn um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1. Hins vegar er deilt um lögmæti ákvörðunar bæjarráðs sveitarfélagsins frá 16. júlí 2024 um að veita megi byggingarleyfi án gerðar deiliskipulags á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með vísan til þess að kærandi hafi hafið vinnu að gerð deiliskipulags. Fer kærandi fram á að fellt verði úr gildi „skilyrði [um gerð deiliskipulags] fyrir samþykki byggingarleyfis“ sem vísað sé til í afgreiðslu bæjarráðs.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 22. júlí 2024, var kærandi upplýstur um að ákvörðun um synjun byggingarleyfis frá 7. júní s.á. hefði ekki verið tekin í samræmi við lög og að hún væri afturkölluð á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvalds­ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 7. júní 2024 verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður þeim hluta kærumáls þessa því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga er það á hendi sveitarstjórna að skipuleggja land innan marka sveitarfélags og annast þær og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Skipulagsáætlanir eru tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti, en þó ber við töku skipulagsákvarðana að hafa í huga markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Á svæðum þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar er meginreglan sú að gera skuli deiliskipulag, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Finna má undantekningu frá þeirri reglu í 1. mgr. 44. gr. laganna þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag og deiliskipulag liggur ekki fyrir. Eins og fram kemur í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn, eða þeim aðila sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr. laganna, heimilt að ákveða að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt.

Aðalskipulag Hornafjarðar 2012–2030 tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. október 2014. Breyting á aðalskipulaginu, Verslun og þjónusta á 11 stöðum í dreifbýli, var staðfest af Skipulagsstofnun 13. febrúar 2018 og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. s.m. Meðal annars var gerð breyting á skipulagsuppdrætti varðandi Nes – Lón og á blaðsíðu 39 í greinargerð aðalskipulagsins var bætt inn svohljóðandi texta í töflu 16.1. um svæði VÞ 36: „Horn. Ferðaþjónusta, gisting, tjaldsvæði, þjónustuhús með veitingum. Uppbygging skal heimil, skv. deiliskipulagi.“

Í hinni kærðu ákvörðun bæjarráðs frá 16. júlí 2024 segir: „Umsækjandi upplýsti sveitarfélagið um að deiliskipulag er í vinnslu og um að […] verkfræðistofa sér um gerð þess. Bæjarráð heimilar að veita megi byggingarleyfi á grundvelli 1.mgr. 44.gr. skipulagslaga enda hefur landeigandi hafið vinnu við deiliskipulag á svæðinu.“

Eins og fram hefur komið er ekki í gildi deiliskipulag fyrir Horn 1, en deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt í sveitarstjórn og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 42. gr. skipulagslaga. Í aðalskipulagi er sérstaklega tekið fram að uppbygging á reit VÞ 36, Horn, sé heimil samkvæmt deiliskipulagi, en þegar ákvörðun bæjarráðs um að veita megi byggingarleyfi til handa kæranda var tekin 16. júlí 2024 var einungis vinna hafin við deiliskipulag svæðisins. Verður því að telja að sú ákvörðun hafi ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga að framkvæmd skuli vera í samræmi við aðalskipulag.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun bæjarráðs felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Hornarfjarðar frá 5. júní 2024 um synjun umsóknar um leyfi til að byggja viðbyggingu veitingahúss og gistiálmu á Horni 1.

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 16. júlí 2024 um að veita megi byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

91/2024 Birkihvammur

Með

Árið 2024, föstudaginn 11. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2024, kæra á ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi matshluta 0101 og 0102 í fast­eigninni Birkihvammi 9, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn eigenda matshluta 0103 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar nefnds húss og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrði stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 9. september 2024.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að gera breytingar á innra skipulagi 3. hæðar hússins að Birkihvammi 9. Fól leyfið í sér heimild til að breyta innra fyrirkomulagi íbúðar með því að breyta eldhúsi og borðkrók í hjónaherbergi og þar sem áður var hjónaherbergi og stofa yrði eldhús og stofa eftir breytingarnar og veggur milli stofu og hjónaherbergis yrði fjarlægður. Jafnframt voru heimilaðar lítilsháttar breytingar á neysluvatns- og hitalögnum og að stofnlagnir fyrir gólfhita og neysluvatn yrðu lagðar frá lagnarými í kjallara upp í gegnum skorstein. Áritaði byggingarfulltrúi framlagða uppdrætti til samþykktar hinn 7. ágúst s.á. og gaf út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að samþykki hans á grundvelli fjöleignar­húsalaga nr. 26/1994 hafi þurft fyrir hinni umdeildu framkvæmd. Burðarveggir séu séreign fjöleignarhúss, sbr. 3. tl. 5. gr. laganna, og ef átt sé við burðarvirki þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 30. gr, 31. gr. og 36. gr. laganna. Með vísan til sömu ákvæða þurfi einnig samþykki kæranda fyrir tilfærslu á herbergjum og breytingum á neysluvatns- og hitalögnum. Í bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 27. janúar 2024, hafi embættið bent á að samþykki kæranda þurfi fyrir framkvæmdunum.

Varðandi lagnaleið um skorstein og fræsingu lagna í gólf, sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt 12. júlí 2024, telji kærandi að sömu sjónarmið eigi við. Samkvæmt samþykktum teikningum byggingarfulltrúa sé búið að færa eldhús á efri hæð, yfir svefnherbergisálmu kæranda, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði og röskun en áður hafi verið og verið sé að færa lagnir vegna alls þessa án samráðs við kæranda. Búið sé að færa lagnir, fræsa úr plötu fyrir lögnum, breyta burðarvirki og útliti hússins án samþykkis meirihluta eiganda eignarinnar.

Ekkert samráð hafi verið haft við kæranda um framkvæmdirnar og hvoki hafi umsókn um byggingarleyfi né breytingar á húsnæðinu verið grenndarkynntar. Hafi byggingarfulltrúi að engu fylgt lögum og reglum við útgáfu byggingarleyfisins. Bent sé á að það skilyrði sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 27. janúar 2024, að samþykki þurfi frá kæranda sé lögbundið. Geti byggingarfulltrúi því ekki litið framhjá þessu óhjákvæmilega skilyrði og fari því hið kærða byggingarleyfi gróflega á svig við réttindi kæranda sem honum séu tryggð lögum samkvæmt. Hið kærða byggingarleyfi sé því ólögmætt.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bent er á að hinar umþrættu breytingar hafi falið í sér að gert hafi verið op í steyptan vegg og fjarlægðir 2,3 m af veggnum sem í heildina hafi verið 5,3 m langur, tilfærslu eldhúss og lagningu hitalagna í gólf íbúðarinnar með fræsingu. Enn fremur hafi stofnlögn fyrir neyslu- og heitt vatn verið leidd í gegnum stromp sem áður hafi gegnt hlutverki reykháfs fyrir olíukyndingu sem löngu sé aflögð og þjóni engu hlutverki lengur.

Í umsögn burðarvirkishönnuðar, dags. 22. febrúar 2024, sé staðfest að fyrirhugaðar ráðstafanir muni tryggja fullnægjandi styrkingu í kringum opið. Breytingin hafi því engin áhrif á hagsmuni kæranda og vísast í því sambandi til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 18. nóvember 2009 í máli nr. 65/2009.

Sé því enn fremur hafnað að samþykki kæranda sé áskilið fyrir breytingum á lögnum í gólfi íbúðarinnar. Í 1. mgr. 27. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994 komi fram að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi eða ráð fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gengur og gerist í sambærilegum húsum séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Í 2. mgr. 27. gr. segi svo að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geti eigandi ekki sett sig á móti slíkri breytingu ef sýnt sé að hún hafi ekki í för með sér neina röskun á lögmætum hagsmunum hans.

Umræddar gólflagnir séu sannarlega í séreign en þær hafi engin áhrif á lagnakerfi hússins og þar með ekki nein áhrif á hagsmuni kæranda. Breyting á stofnlögn sem leidd var í gegnum stromp sé í séreign byggingarleyfishafa, en skv. 7. tl. 5. gr. laga um fjöleignarhús séu lagnir og tilfæringar, hverju nafni sem þær nefnist og hvar sem þær eru, sem eingöngu þjóni þörfum viðkomandi séreignar, séreign. Lagning stofnlagnarinnar í gegnum strompinn sé minniháttar framkvæmd inni í strompinum, sem hvorki sjáist né hafi áhrif á lagnakerfi hússins eða aðra hagsmuni kæranda. Sé því ekki fallist á að skortur á samþykki skv. 30. gr. fjöleignahúsalaga valdi ógildingu byggingarleyfisins eins og aðstæðum er háttað.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæra hafi borist eftir að kærufrestur hafi verið liðinn og því beri að vísa henni frá. Þá hafi kærandi ráðið lögmann um mánuði fyrr vegna málsins sem bendi til þess að hún hafi fylgst grannt með málinu. Auk þess hafi iðnaðarmenn upplýst kæranda um hið samþykkta byggingarleyfi um miðjan júlí. Telji leyfishafar að hin kærða ákvörðun um byggingarleyfi sé byggð á traustum efnislegum grunni þar sem byggingar­fulltrúi hafi byggt ákvörðun á mati og hönnun sérfræðinga á sviði lagna og burðarvirkis.

Til grundvallar leyfi til niðurrifs veggjar sé bent á umsögn byggingaverkfræðings sem sé afdráttarlaus um að styrking sé tryggð. Einnig sé vísað til tölvupósts sem leyfishöfum var sendur f.h. byggingafulltrúans í Kópavogi 28. maí 2024. Þar komi fram að fyrir liggi jákvæð umsögn burðarvirkishönnuða. Telja leyfishafar að umsögn burðarvirkishönnuðar staðfesti að niðurrif veggjar raski ekki hagsmunum kæranda.

Í fyrrnefndum tölvupósti komi einnig skýrlega fram sú afstaða byggingafulltrúa að lagnir inn í séreign teljist til séreignar og að breytingar á þeim séu ekki háðar samþykki annarra eigenda í húsinu. Þá sé bent á að einangrunardúkur verði lagður undir gólfhitalagnir og muni því ekkert rask verða á hagsmunum kæranda. Einnig sé á það bent að kærandi hafi lagt vatnslagnir í sameign hússins án þess að hafa til þess leyfi frá Kópavogsbæ eða meðeigendum sínum. Þá sé færsla á eldhúsi í samræmi við samþykktar teikningar og samþykkt byggingarleyfi, sbr. a-lið 2.3.5. gr. byggingarreglugerðar. Sérstaklega sé vísað til teikningar hönnuðar þar sem fram komi að kröfur sem varði hljóðvist séu tryggðar í samræmi við leiðbeiningar í grein 11.1.3. í byggingar­­reglugerð nr. 112/2012. Tilfærslan hafi ekki áhrif á burðarvirki íbúðarinnar eða hússins ásamt því að fyrir liggi staðfesting Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðisins, dags. 12. júní 2024, án athugasemda.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að kærandi hafi fyrst verið upplýstur um samþykki á umsókn leyfishafa 30. júlí 2024, þegar sveitarfélagið svaraði fyrirspurn hans varðandi hvort umsóknin hafi verið samþykkt. Umsóknin hafi verið tekin fyrir á fundi 12. júlí s.m. en byggingarfulltrúi hafi gert athugasemdir sem voru síðan sendar til umsækjanda svo umsóknin var ennþá ókláruð á þeim tíma. Byggingarleyfið hafi ekki verið gefið út fyrr en 7. ágúst 2024. Engin hönnun né álit sérfræðinga hafi legið fyrir þegar burðarveggur var brotinn og fræst var fyrir lagnir í gólfið og ekki hafi verið búið að skila inn neinum teikningum þegar leyfishafar hófu framkvæmdir.

Varðandi álit sem byggingarfræðingur hafi unnið um niðurrif úr burðavegg þá sé það einhliða mat. Bent sé á að burðarveggur sem sé á teikningu fyrir breytingu og liggi á milli skála og stofu sé ekki til staðar og hafi ekki verið það síðastliðin 30 ár. Þegar veggur á milli skála og stofu var tekinn niður hafi verið skilinn eftir um 10 cm biti í lofti eins og oft sé gert þegar verið sé að vinna með burðþol. Leyfishafar hafi tekið umræddan bita niður úr lofti og því sé sá veggur sem sýndur er á teikningu milli skála og stofu ekki lengur til staðar.

Neysluvatnslagnir séu fræstar í burðvirkisplötu á milli hæða, en ekki settar niður í gólfílögn eins og gert sé ráð fyrir á samþykktum teikningum. Leyfishafar hafi einnig lagt gólfhitalagnir beint á gólfplötu án þess að vera með einangrun. Umræddur strompur sem leyfishafar hugsi sem lagnaleið, gangi í gegnum forstofu kæranda. Bent sé á að almennt hafi strompar sem þessir verið fjarlægðir þar sem þeir taki rými frá eigendum fasteigna. Hafi kærandi einmitt hug á að fjarlæga stromp í forstofu. Ekki hafi verið um að ræða tilfærslu á herbergjum, heldur meiri­háttar framkvæmd sem þurfi samþykki kæranda þar sem færsla á eldhúsi/votrými yfir svefnherbergisálmu komi alltaf til með að valda meiri hljóðvist.

Ítrekað sé að leyfishafar hafi farið í framkvæmdir án leyfis og ekki liggi fyrir teikningar eða samþykki fyrir þeim breytingum sem hafi verið gerðar á opnanlegum fögum, sem sé mikil útlitsbreyting á húsinu. Í byggingarleyfinu komi fram að unnið skuli eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum en þegar byggingarleyfi var gefið út 7. ágúst 2024 hafi ekki legið fyrir séruppdrættir eða lagnateikningar.

Viðbótarathugasemdir leyfihafa: Bent er á að teikning af aðaluppdrætti hafi verið samþykkt og undirrituð á fundi 12. júlí 2024. Sé því ekki rétt að leyfið hafi ekki verið samþykkt þann dag. Hafi fundargerðin sem samþykkt var sama dag, sem birt var á vefsíðu bæjarins, borið með sér að leyfið hafi verið samþykkt og liggi fyrir að kæranda hafi verið kunnugt um það þann dag. Þá sé ljóst af samskiptum lögmanns kæranda og starfsmanna bæjarins frá 16. s.m. að kærandi mátti vita eða hefði mátt vita að byggingarleyfið hafi verið samþykkt nokkrum dögum fyrr. Þá hafi lögmaður kæranda verið upplýstur í síðasta lagi þann 26. júlí 2024 um fundinn þann 12. júlí þar sem leyfið var samþykkt.

Kærandi haldi fram að burðarveggur sem sé á teikningu fyrir breytingu og liggi á milli skála og stofu sé ekki til staðar og hafi ekki verið síðastliðin 30 ár, en nú sé búið að taka niður 10 cm bita sem skilin hafi verið eftir vegna burðarþols. Bent sé á að ekki sé um burðarvegg að ræða, heldur léttan vegg og að enginn burðarbiti hafi verið í loftinu þegar leyfishafar keyptu íbúðina.

Engar hitalagnir séu í gólfi enda eigi eftir að leggja þær og þar af leiðandi einangrunardúkinn líka. Samráð hafi verið haft við Kópavogsbæ um færslu opnanlegra faga og framkvæmdin ekki hluti af hinu kærða byggingarleyfi.

Sú ljósmynd sem kærandi vísi til í málsgögnum sínum hafi verið tekin í leyfisleysi þegar kærandi hafi brotist inn í íbúð leyfishafa. Það sýni þó fyrst og fremst þann yfirgang sem kærandi hafi sýnt leyfishöfum og sé í fullkominni andstöðu við ákvæði fjöleignarhúsalaga og megin­reglur nábýlisréttar.

Allar framkvæmdir hafi verið unnar eftir teikningum og muni byggingarstjóri framkvæmdanna sjá til þess að allt verði gert samkvæmt samþykktum gögnum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar fjöleignarhússins að Birkihvammi 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Þá verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á að úrskurðarnefndin taki afstöðu til byggingar­leyfisskyldu breytingar á opnanlegum gluggafögum umræddrar íbúðar. Felst breytingin í því að þar sem gluggi skiptist með þverpósti var áður opnanlegt fag á efri hluta, en eftir breytingar er neðri hluti gluggans með opnanlegu fagi. Kærandi er eigandi tveggja eignarhluta af þremur í húsinu, en leyfishafi er eigandi hins þriðja.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Af gögnum málsins má ráða að kærandi sendi fyrirspurn til sveitarfélagsins 25. júlí 2024 um hvort búið væri að samþykkja framangreinda umsókn. Í svari sveitarfélagsins degi síðar kom fram að umsóknin hefði verið tekin fyrir á fundi 12. s.m., en byggingarfulltrúi hefði gert athugasemdir og umsóknin því ekki afgreidd. Var kærandi fyrst upplýstur um samþykki byggingarleyfisins með svari sveitarfélagsins við fyrirspurn hans í tölvupósti 30. júlí 2024. Er kæra þessi því innan lögbundins kærufrests og verður tekin til efnismeðferðar.

 Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingar­leyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, sbr. nánar 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010. Í 1. mgr. 26. gr. fjöleignarhúsalaga er tiltekið að eiganda sé heimilt að nýta eign sína að vild nema að lög eða aðrar réttarheimildir mæli á annan veg. Í 27. gr. laganna er áskilið samþykki sumra eigenda fjöleignarhúss eða eftir atvikum allra vegna breytingar á hagnýtingu séreignar nema að fyrir liggi að breytingin hafi ekki í för með sér skerðingu á lögmætum hagsmunum.

Allt burðarvirki húss, þ.m.t. burðarveggir, er í sameign eigenda fjöleignarhúss samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 8. gr., sbr. 3. tl. 1. mgr. 5. gr. fjöleignarhúsalaga. Breytingar, endurbætur og fram­kvæmdir á sameign sem víkja frá samþykktum teikningum eru háðar samþykki einfalds eða aukins meirihluta sameigenda fjöleignarhúss samkvæmt 30. gr. laganna. Með hinu umdeilda byggingarleyfi var samþykkt op á vegg innan íbúðar byggingarleyfishafa án þess að samþykki annarra eigenda fasteignarinnar væri fyrirliggjandi, en við afgreiðsluna lá fyrir umsögn burðarþols­hönnuðar að fyrirhugaðar ráðstafanir muni tryggja fullnægjandi styrkingu í kringum opið. Með hliðsjón af nefndri umsögn og afgreiðslu embættis byggingarfulltrúa sem fag- og eftirlitsaðila með byggingarframkvæmdum verður að leggja til grundvallar í máli þessu að umdeilt op á burðarvegg hafi ekki veikt svo nokkru nemi burðarvirki hússins. Skortur á lögmæltu samþykki annarra eigenda hússins fyrir umræddri framkvæmd verður ekki talinn varða ógildingu umþrætts byggingarleyfis eins og aðstæðum er háttað, þar sem ekki verður talið að breytingin á burðarveggnum innan íbúðar leyfishafa raski lögvörðum hagsmunum kæranda.

Í 5. gr. fjöleignarhúsalaga er talið upp hvað falli undir séreign fjöleignarhúss og samkvæmt 7. tl. teljast til séreignar, lagnir og tilfæringar, hverju nafni sem þær nefnast og hvar sem þær eru, sem eingöngu þjóna þörfum viðkomandi séreignar. Fyrir liggur staðfesting hönnuðar um að hljóðvist eftir umdeilda breytingu sé fullnægjandi í samræmi við b-lið 1. mgr. 11.1.3 gr. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að unnt sé að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á um hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi. Verður því samkvæmt framansögðu tekin afstaða til þess hvort umdeild breyting á opnanlegum glugga­fögum séu háðar byggingarleyfi eða ekki.

Í kafla 2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um byggingarleyfisskyldar fram­kvæmdir og hvaða framkvæmdir eru undanþegnar slíku leyfi.

Í gr. 2.3.4. er fjallað um breytingar er varða útlit eða form mannvirkis. Þar segir í 1. mgr. að „varði breyting á mannvirki útlit þess og form skal leita samþykkis hlutaðeigandi skipulags­nefndar áður en byggingarheimild eða byggingarleyfi er veitt enda liggi ekki fyrir samþykkt deiliskipulag sem heimilar breytinguna. Ekki þarf að leita slíks samþykkis sé breytingin óveruleg.“ Í 2. mgr. kemur meðal annars fram að til þess að breyting á mannvirki geti talist óveruleg megi hún ekki skerða hagsmuni nágranna, t.d. hvað varðar útsýni, skuggavarp eða innsýn og ekki breyta eða hafa áhrif á götumynd.

Í gr. 2.3.5. eru taldar upp minniháttar mannvirki og framkvæmdir sem eru undanþegnar byggingarleyfi. Samkvæmt a-lið á það við um allt viðhald innanhúss og utan, þ.m.t. endurnýjun léttra innveggja. Í leiðbeiningarskjali Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með reglugerðinni segir um a-lið gr. 2.3.5. að allt viðhald utanhúss sé undanþegið leyfum, s.s. endurnýjun þak- og veggklæðningar og útskipting glugga. Miðað er við að notuð séu sambærileg efni og að frágangur sé sambærilegur. Samkvæmt fyrirliggjandi mynd af fjölbýlishúsinu að Birkihvammi 9 eru þær breytingar sem gerðar hafa verið á opnanlegum gluggafögum þess eðlis að þær skerði ekki hagsmuni nágranna í skilningi nefndrar 2. mgr. gr. 2.3.4. Er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umdeild breyting á opnanlegum gluggafögum verði að teljast óveruleg og sé því undanþeginn byggingarleyfi skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Að öllu framangreindu virtu, og að teknu tilliti til 27. gr fjöleignarhúsalaga, liggur fyrir að umdeildar breytingar á séreign leyfishafa sem heimilaðar voru með hinu kærða byggingarleyfi verða ekki taldar raska lögvörðum hagsmunum annarra sameigenda fjöleignarhússins.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum.

Umdeild breyting á gluggafögum íbúðar í matshluta 0103 að Birkihvammi 9 er ekki háð byggingarleyfi.

76/2024 Suðurgata

Með

Árið 2024, miðvikudaginn 25. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2024, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitar­félagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 8. júlí 2024, kærir eigandi bílskúrs og íbúðar á 1. hæð fjöleignahúss á lóð nr. 4 við Suðurgötu, Vogum, ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitarfélagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 31. júlí og 1. ágúst 2024.

Málavextir: Með bréfi, dags. 9. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að byggingarfulltrúi Sveitar­félagsins Voga hefði ákveðið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 10.000 vegna óleyfis-framkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum. Í bréfinu var vísað til fyrri bréfa frá byggingarfulltrúa, dags. 26. febrúar 2019, 12. apríl 2019, 30. ágúst 2019, 17. febrúar 2020, 29. mars 2021, 16. júní 2022, 4. október 2023 og 7. júní 2024.

Í bréfinu kemur meðal annars fram að fyrir liggi að geymslu í húsnæðinu hafi verið breytt í baðherbergi auk þess sem dyraopi á milli eldhúss og þvottahúss hafi verið lokað. Sé það ekki í samræmi við samþykktar teikningar af húsinu. Með því móti hafi íbúðinni í raun verið skipt í tvennt. Þá liggi fyrir að bílgeymslu hafi verið breytt í íverurými sem sé heldur ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti.

Fram kom að byggingarfulltrúi hafi ítrekað veitt kæranda tækifæri til þess að verða við athuga­semdum með því að breyta húsnæðinu til fyrra horfs. Hvorki hafi verið orðið við þeim beiðnum né send staðfesting um að orðið hafi verið við fyrirmælum byggingarfulltrúa. Væri byggingar­fulltrúi því tilneyddur að beita þeim þvingunarúrræðum sem hann hafi áður boðað.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að ekki þurfi sérstakt byggingarleyfi fyrir minni­háttar framkvæmdum sem um ræði í máli þessu. Skipulag íbúðarinnar sé gamalt og ekki sé við neinar teikningar að styðjast. Hvorki þurfi byggingarleyfi til þess að opna eða loka dyrum né til þess að setja bedda í bílskúr. Í Reykjavík hvetji borgaryfirvöld fasteignaeigendur til þess að nýta bílskúra til íbúðar og sama eigi að eiga við um Sveitarfélagið Voga. Húsnæðið hafi verið leigt út í þeim tilgangi að fjármagna kaupin á því. Nái kröfur sveitarfélagsins fram að ganga lendi kærandi í fjárhagsvandræðum.

Afskipti sveitarfélagsins hafi komið til eftir að kærandi sótti um leyfi frá sveitarfélaginu til að skrá þrjár íbúðareiningar í húsinu. Hins vegar hafi sú umsókn verið dregin til baka þar sem viðhorf sveitarfélagsins hafi verið neikvætt. Sveitarfélagið vilji engar teikningar og fari fram á að húsnæðinu verði komið í upprunalegt ástand, en húsið hafi verið reist árið 1953. Engar teikningar séu til af innra skipulagi íbúðarinnar og gæti því núverandi útfærsla verið hin upphaflega. Eignin hafi verið keypt í núverandi ástandi og hafi kærandi ekki breytt innra skipulagi. Sveitarfélagið fari fram á að salerni verði fjarlægt og dyr verði opnaðar hjá kæranda, en virðist ekki skipta sér af innra skipulagi hjá íbúum á efri hæð hússins. Þá hafi sveitarfélagið ekki komið með neinar athugasemdir varðandi slæmt ástand hússins að öðru leyti eða vegna óleyfisskúrs á sameigin­legri lóð.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Þær breytingar sem kærði hafi ráðist í á íbúð sinni séu slíkar að búið sé að skipta íbúðinni upp í sjálfstæð rými sem ekki sé innangengt á milli. Með því hafi hann búið til tvær sjálfstæðar íbúðir á hæðinni. Þá hafi hann einnig breytt bílskúr í sjálfstæða íbúð. Slíkar breytingar á notkun og fjölgun íbúða séu í eðli sínu verulegar og geti ekki fallið undir minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilega breytingu sem ráðherra væri heimilt að undanþiggja byggingarleyfi með ákvæði í reglugerð.

Undanþegin byggingarleyfi skv. byggingarreglugerð nr. 110/2012 séu framkvæmdir sem ekki falli undir umfangsflokk 2 og 3 skv. b. og c. lið 1. mgr. 1.2.3. gr. Hvorug framkvæmdin geri það enda um að ræða húsnæði þar sem fólk hafi varanlega búsetu. Auk þess hafi breytingarnar veruleg skipulagsleg áhrif og grenndaráhrif á sameigendur húss og nágranna sem skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi að meta og meðeigendur að samþykkja.

 Sveitarfélagið mótmæli því að húsnæðið hafi verið í því ástandi sem það sé nú þegar kærandi keypti það. Framkvæmdir hafi m.a. staðið yfir við breytingar á fyrstu hæð hússins þegar mál þetta hófst, sbr. bréf byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 26. febrúar og 12. apríl 2019. Það hafi þó að mati sveitarfélagsins ekki grundvallarþýðingu í málinu. Skýrt sé af þeim aðal­uppdráttum hússins sem til séu að ekki séu samþykktar tvær íbúðir á fyrstu hæð hússins og bílskúrinn hafi ekki verið samþykktur sem íbúðarrými. Þá sé eignaskiptasamningur skýr um þetta og sameigendur hafi hafnað slíkri breytingu. Kröfur sveitarfélagsins séu því alveg skýrar um að lokun sem gerð var milli eldhúss og þvottahúss verði fjarlægð þannig að ekki verði um tvær íbúðir að ræða og að bílgeymslu verði breytt aftur í bílgeymslu og látið af afnotum hennar sem íverurýmis.

 Sveitarfélagið vísi að öðru leyti til fyrirliggjandi gagna og einkum til rökstuðnings sem fram komi í bréfi sveitarfélagsins frá 9. júlí 2024 þar sem ákvörðun um beitingu dagsekta sé rökstudd og tilkynnt kæranda. Málið hafi verið rannsakað á fullnægjandi hátt og hafi kæranda ítrekað verið veittur möguleiki til að tjá sig. Jafnframt hafi honum ítrekað verið veittur frestur til að bregðast við kröfum með því að ráðast í úrbætur, sækja um leyfi fyrir breytingunum og fá leyfi sameigenda áður en gripið yrði til þvingunarúrræða. Með því hafi kæranda verið sýnd mikil þolinmæði og viðhaft meðalhóf með því að grípa ekki til þvingunarúrræða fyrr en fullreynt væri að kærandi hygðist ekki verða við kröfum um úrbætur. Fjárhæð dagsekta sé jafnframt hógvær m.t.t. þess að kærandi hafi skipt húsnæðinu upp í þrjár íbúðir sem séu í útleigu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að sveitarfélagið hafi við meðferð málsins brotið reglur stjórnsýslulaga. Ekki hafi farið fram hlutlaus rannsókn, kærandi hafa ekki fengið að nýta andmælarétt og ekki hafi verið gætt jafnræðis eða meðalhófs. Ekki hafi verið litið til lagaskilareglna, en húsið hafi verið byggt um miðja síðustu öld. Húsnæðið sé í samræmi við aðaluppdræti frá 1953 og reglur sem þá giltu. Engin gögn séu þó til um upphaflegt skipulag innra rýmis hússins frá þeim tíma. Lagðar hafi verið inn tillögur að breytingum á húsnæðinu, en þeim hafi ekki verið tekið með jákvæðum hætti. Ekki hafi af þeim ástæðum enn verið ráðist í fyrirhugaðar framkvæmdir.

Um sé að ræða minniháttar framkvæmdir innan séreignarhluta kæranda. Um sé að ræða færslu á vaski, lokun dyra tímabundið, uppsetningu sturtu og salernis­tilfærslu, ásamt færslu eldhúss og elhúsinnréttingar. Kærandi spyr hvort honum sé ekki heimilt að búa í bílskúr eins og öðrum íbúum í sömu götu eða hvort hann sæti einelti af hálfu sveitarfélagsins og hafi takmarkaðri réttindi en aðrir íbúar. Skorað sé á sveitarfélagið að leggja fram teikningar af öllum húsum í nágrenninu þar sem búið sé í bílskúrum án þess að við það séu gerðar athugasemdir, en kærandi hafi sent sveitarfélaginu myndir af slíkum bílskúraíbúðum.

Í eignaskiptayfirlýsingu hússins hafi verið gert frávik frá samþykktum teikningum þar sem dyr hafi verið settar til að loka innskoti við inngang og anddyri í sameign. Við þetta séu samt engar athugasemdir gerðar. Þá hafi kærandi leitað til sveitarfélagsins vegna óleyfisskúrs í eigu íbúa efri hæðar sem standi á sameiginlegri lóð hússins. Enginn brunaútgangur sé á efri hæð og allt viðhald komið á tíma. Þá hafi verið settur kvistur á þak hússins í óleyfi. Byggingarfulltrúi hafi ekki tekið nokkurt tillit til þessara ábendinga en beini kröfum einungis að kæranda sem eiganda neðri hæðar. Samkvæmt þessu hljóti að vera einhver tengsl milli íbúa efri hæðar og sveitarfélagsins sem ráði aðgerðum sveitarfélagsins.

Mótmælt er staðhæfingum um að eignin hafi verið í núverandi ástandi þegar kærandi festi kaup á henni. Skorað sé á opinberan aðila að leggja fram gögn um meint ástand við kaupin og einnig gögn um upphaflegt ástand og allar breytingar síðan. Þá sé einnig skorað á sveitarfélagið að leggja fram þær reglur sem giltu um breytingar á húsnæði frá 1953. Leyfi kærandi sér að halda því fram að á þeim tíma hafi ekki þurft neitt opinbert leyfi til þess að setja upp salerni, opna eða loka dyraopum eða búa í bílskúr. Hafi sveitafélagið sönnunarbyrðina fyrir því að það hafi þurft leyfi frá upphafi til minnstu breytinga innan dyra. Hafi sveitarfélagið einnig sönnunarbyrði fyrir því ef það telji núgildandi lög séu afturvirk og hafi áhrif í máli þessu.

Svör sveitarfélagsins um að það þurfi ekki að líta til samfélagslegra áhrifa af ákvörðunum séu röng og aðfinnsluverð. Samfélagsleg áhrif séu þau að kærandi missir eign sína, margir lendi á götunni og húsið haldi áfram að drabbast niður.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér , en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga um álagningu dagsekta á kæranda að fjárhæð kr. 10.000 til að knýja fram að óleyfis­breytingar á fasteign kæranda að Suðurgötu 4, Vogum, verði fjarlægðar, breyttri notkun bílskúrs hætt og húsið fært til fyrra horfs. Kæruheimild til nefndarinnar er í 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Í máli þessu er deilt um hvort þær breytingar sem gerðar hafa verið í íbúð og bílskúr neðri hæðar Suðurgötu 4 í Vogum hafi verið framkvæmdar af kæranda. Í eignaskiptayfirlýsingu frá maí 2018, sem kærandi undirritaði, er eignarhluti hans í fasteigninni skráður sem ein íbúð á fyrstu hæð og bílgeymsla. Meðal gagna þessa máls er bréf byggingar­fulltrúa sveitarfélagsins Voga til kæranda, dags. 12. apríl 2019. Þar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá kæranda og því sem sést hafi við vettvangsskoðun sé búið að stúka af vestur­hluta íbúðarinnar og koma þar fyrir eldhúsaðstöðu og salerni í þeim tilgangi að skipta íbúðinni upp í tvo aðskilda hluta til útleigu. Hafi kærandi tjáð skoðunarmönnum að bílskúrinn væri þegar í útleigu og hafi við vettvangsskoðun sést að búið var að fjarlægja innkeyrsludyr og setja þess í stað vegg með glugga. Verður að áliti nefndarinnar að byggja á þessu um að kærandi hafi ráðist í þær framkvæmdir sem um er deilt og lýst er í hinni kærðu ákvörðun. Fær þetta einnig stoð í öðrum gögnum málsins, en frá árinu 2019 hefur kærandi ítrekað verið áminntur af byggingarfulltrúa vegna breytinga í íbúð og bílskúr.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 er óheimilt að breyta mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Í 1. mgr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að óheimilt sé að breyta mannvirki, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda. Frá þessu eru undantekningar sem varða minniháttar mannvirkjagerð, sem eiga ekki við í máli þessu. Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 er síðan mælt svo fyrir að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hinn ólöglegi byggingarhluti verði fjarlægður. Byggingarfulltrúa er svo heimilt skv. 2. mgr. 56. gr. laganna að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skuli hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Var hin kærða ákvörðun um álagingu dagsekta með réttu heimfærð til þessara lagaákvæða og verður að telja ákvörðun um fjárhæð dagsekta jafnframt hóflega. Verður með vísan til þessa að hafna ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, þykir rétt að dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun umhverfis- og skipulagssviðs Sveitarfélagsins Voga frá 8. júlí 2024 um álagningu dagsekta vegna óleyfisframkvæmda við fasteignina að Suðurgötu 4, Vogum.

Dagsektir sem kunna að hafa verið lagðar á samkvæmt hinni kærðu ákvörðun til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falla niður.

91/2024 Birkihvammur

Með

Árið 2024, mánudaginn 9. september, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 91/2024, kæra á ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 Kópavogi og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi matshluta 0101 og 0102 í fasteigninni Birkihvammi 9, þá ákvörðun byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn eigenda matshluta 0103 um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi 3. hæðar hússins á lóð Birkihvamms 9 og gera breytingar á neysluvatns- og hitalögnum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig er farið fram á að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að gera breytingar á innra skipulagi 3. hæðar hússins á lóð nr. 9 við Birkihvamm. Í umsókninni var því lýst að sótt væri um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi, þ.e. færa til herbergi og rífa niður vegg. Einnig væri sótt um lítilsháttar breytingu á neysluvatns- og hitalögnum. Áritaði byggingarfulltrúa framlagða uppdrætti til samþykktar. Hinn 7. ágúst s.á. gaf byggingarfulltrúa út byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni.

Af hálfu kæranda er á því byggt að samþykki hans á grundvelli fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 hafi þurft fyrir hinni umdeildu framkvæmd. Burðarveggir séu séreign fjöleignarhúss, sbr. 3. tl. 5. gr. laganna, og ef átt sé við burðarvirki þurfi samþykki allra eigenda, sbr. 1. mgr. 8. gr., 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 30. gr, 31. gr. og 36. gr. laganna. Með vísan til sömu ákvæða þurfi einnig samþykki kæranda fyrir tilfærslu á herbergjum og breytingum á neysluvatns- og hitalögnum. Í bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 27. janúar 0224, hafi embættið bent á að samþykki kæranda þurfi fyrir framkvæmdunum. Hið kærða byggingarleyfi sé því ólögmætt.

Leyfishafi bendir á að kæra hafi borist eftir að kærufrestur hafi verið liðinn og því beri að vísa henni frá. Það sé meginregla í stjórnsýslurétti að kæra frestar ekki réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögunum segi að líta verði m.a. til þess hvort líkur séu til þess að kærðri ákvörðun verði breytt efnislega. Í ljósi þess að kæra sé of seint fram komin, hin kærða ákvörðun sé byggð á efnislegum grundvelli og þegar horft sé til fyrri úrskurðar nefndarinnar, þá séu yfirgnæfandi líkur til þess að hinni kærðu ákvörðun verði ekki breytt. Mörgum verkþáttum sé þegar lokið og því sé vandséð hvernig krafa kæranda uppfylli þau skilyrði 5. gr. laga nr. 130/2011 að framkvæmdir séu yfirvofandi eða hafnar.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar breytingu á innra fyrirkomulagi hússins að Birkihvammi 9 í Kópavogi. Að virtum framangreindum lagaákvæðum, þeim sjónarmiðum sem liggja þeim að baki og að um er að ræða afturkræfa framkvæmd sem mun að mestu vera lokið, verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að halda áfram framkvæmdum áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á grundvelli ákvörðunar byggingarafulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að breyta innra fyrirkomulagi Birkihvamms 9 Kópavogi.