Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

29/2021 Skólavörðustígur

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 31. mars, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 29/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr., laga nr. 130/2011.

 Fyrir var tekið mál nr. 29/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir við byggingu hússins á grundvelli hins kærða byggingarleyfis verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. mars 2021.

Málsástæður og rök: Á svæði því sem lóðirnar Skólavörðustígur 30 og 36 tilheyra er í gildi deiliskipulag Lokastígsreita, staðgreinireita 1.181.2, 1.181.3. og 1.181.4. Lóðin Skólavörðu-stígur 36 er staðsett á reit 1.181.4., Lokastígsreit 4. Um reit fjögur segir nánar í greinargerð deiliskipulagsins að þar sé yfirbragð byggðarinnar fremur lágt og þétt. Flest húsanna séu tví- eða þrílyft með risi. Við Lokastíg og Baldursgötu sé röð stakstæðra húsa en við Skólavörðustíg séu þau ýmist stakstæð eða sambyggð. Sameiginlegir sérskilmálar gilda fyrir reiti tvö, þrjú og fjögur. Þar er m.a. tiltekið að heimilt sé að byggja litlar geymslur á baklóð, allt að 6 m2, þar sem aðstæður leyfi og litlar viðbyggingar allt að 12 m2 í samræmi við byggingarstíl húsa. Ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum sé minni en 3,0 m þurfi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Hinn 4. júlí 2018 var samþykkt breyting á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Skólavörðustígs 36. Í breytingunni fólst m.a. heimild til að auka byggingarmagn á 1. hæð að suðvestur lóðarmörkum, nýta þakhæð 1. hæðar að hluta sem þaksvalir og stækka og hækka stigahúsið. Heimilað byggingarmagn á lóðinni eftir breytingu er 281,5 m2. Lóðin er 216 m2 að flatarmáli og er nýtingarhlutfall hennar þar með 1,3.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. október 2020 var samþykkt leyfi fyrir áður framkvæmdu niðurrifi húss að Skólavörðustíg 36. Þá var jafnframt samþykkt byggingarleyfisumsókn um byggingu þriggja hæða staðsteypts húss á lóðinni með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð. Fyrirhugað hús yrði samtals 314,8 m2 og nýtingarhlutfall þess 1,45. Kærandi í máli þessu kærði framangreint leyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með kæru dags. 18. nóvember 2020. Máli því lauk með úrskurði í máli nr. 121/2020 frá 22. desember s.á. en í málinu var ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð á lóðinni nr. 36 við Skólavörðustíg felld úr gildi þar sem nýtingarhlutfall hússins var yfir því hámarki sem deiliskipulag svæðisins heimilaði. Lóðarhafi Skólavörðustígs 36 sótti í kjölfarið um byggingarleyfi sem var veitt 2. mars 2021. Er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Krafa kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er studd þeim rökum að umrædd nýbygging sé steinsteypt og nærri því að teljast óafturkræf. Því beri brýna nauðsyn til að stöðva framkvæmdir til að koma í veg fyrir að hagsmunir hans verði fyrir borð bornir. Einnig verði að líta til þess að líklegt verði að telja að krafa kæranda um ógildingu muni ná fram að ganga enda blasi við að með leyfinu hafi verið gengið gegn skilmálum gildandi deiliskipulags á svæðinu.

Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samþykkt byggingaráforma sé í fullu samræmi við ákvæði laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, sem og skilmála deiliskipulags. Ekkert hafi komið fram sem að mati borgaryfirvalda sem ætti að leiða til ógildingar á hinu kærða byggingarleyfi. Meginregla íslensks stjórnsýsluréttar sé að kæra stjórnvaldsákvörðunar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar nema lagaheimild sé til staðar. Í 5. gr. laga nr. 130/2011 komi fram heimild til stöðvunar framkvæmda en beiting hennar komi eingöngu til í undantekningartilvikum enda íþyngjandi úrræði gagnvart leyfishafa að ræða sem túlka beri þröngt. Þótt að framkvæmdir kunni að hefjast, geti það ekki eitt leitt til stöðvunar framkvæmda að byggingarefni sé steinsteypa og megi vænta þess að málsmeðferð taki stuttan tíma og niðurstaða liggi fyrir í málinu áður en framkvæmdir verði komnar langt á veg.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna stöðvunarkröfunnar en hann hefur ekki nýtt sér þann rétt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvaldsfresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórn­valdi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildar­ákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar byggingu þriggja hæða staðsteypts húss. Fyrirliggjandi gögn málsins bera með sér að umdeild byggingaráform hafa verið samþykkt en  byggingarleyfi, sem veitir heimildir til að hefja framkvæmdi, ekki verið gefið út og munu framkvæmdir ekki hafnar.

Í ljósi framangreinds og fyrirséðs málsmeðferðartíma hjá úrskurðarnefndinni verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni enda munu fyrstu framkvæmdir lúta að grunni umrædds húss en ekki uppsteypu þess. Verður kröfu um stöðvun framkvæmda því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða máls þessa liggur fyrir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

124/2020 Leirutangi

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 31. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2020, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. október 2020 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir stækkun húss að Leirutanga 10.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Leirutanga 10, Mosfellsbæ, þá ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 23. október 2020 að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Leirutanga 10. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Með umsókn, dags. 7. desember 2017, sóttu kærendur í máli þessu um leyfi til að hækka rishæð hússins nr. 10 við Leirutanga og innrétta íbúðarrými og geymslu í samræmi við framlögð gögn. Húsið skyldi hækkað í 7,40 m og stækkað úr 158,4 m² í 303,3 m². Erindið var grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 frá 12. mars til 10. apríl 2018. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 22. maí s.á. var með hliðsjón af framkomnum athugasemdum ekki fallist á umbeðna hækkun hússins. Í ljósi fyrirliggjandi skipulagsskilmála fyrir svæðið frá árinu 1981, þar sem hæð húsa var heimiluð 6,60 m, var samþykkt að grenndarkynna erindið að nýju með hliðsjón af þeim skilmálum.

Umsókn um byggingarleyfi var grenndarkynnt að nýju á tímabilinu frá 25. júní til 27. júlí 2018 og bárust athugasemdir vegna umsóknarinnar. Á fundi skipulagsnefndar 17. ágúst 2018 var skipulagsfulltrúa og lögmanni bæjarins falið að yfirfara gögn málsins og skila álitsgerð. Á fundi skipulagsnefndar 26. október 2018 var m.a. bókuð samþykkt um að fela byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi þegar fullnægjandi gögn hefðu borist. Var vísað til minnisblaðs lögmanns sveitarfélagsins, dags. 24. s.m., þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að stefnt skyldi að útgáfu byggingarleyfis til handa umsækjanda. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. febrúar 2019 var samþykkt byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Leirutanga 10 þannig að brúttóflatarmál húss færi úr 158,4 m² í 303,3 m² og hámarkshæð þess yrði 6,60 m.

Greind ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 31. október 2019 í máli nr. 14/2019. Vísaði nefndin til þess að skv. 1. mgr. 44. gr. væri unnt að veita byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Að mati nefndarinnar hefði með umþrættu byggingarleyfi verið vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt væri á grannlóðum svæðisins að óheimilt hefði verið að grenndarkynna umsóknina, enda yrði að telja að umdeild hækkun nýtingarhlutfalls hefði óhjákvæmilega áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur. Með bréfi, dags. 3. september 2020, óskuðu kærendur eftir endurupptöku fyrrgreinds úrskurðar þar sem arkitekt hefði gert mistök við gerð skráningartöflu sem leitt hefði til hærra nýtingarhlutfalls lóðarinnar. Úrskurður nefndarinnar hefði því byggst á röngum upplýsingum um staðreyndir málsins. Með bréfi, dags. 30. september 2020, synjaði nefndin beiðni um endurupptöku þar sem skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku máls voru ekki talin uppfyllt.

Kærendur sóttu að nýja um leyfi til að hækka rishæð umrædds húss við Leirutanga og innrétta íbúðarrými og geymslu í samræmi við framlögð gögn. Húsið skyldi hækkað í 6,60 m og stækkað úr 158,4 m² í 278,7 m². Kom fram í umsókninni að nýtingarhlutfall yrði 0,35 og að hæð hússins yrði innan marka núgildandi byggingarskilmála. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. október 2020 var ákveðið að leita eftir umsögn skipulagsnefndar um erindið þar sem ekki væri í gildi deiliskipulag á svæðinu. Á fundi skipulagsnefndar 23. október 2020 var umsókn kærenda tekin fyrir og henni synjað. Vísaði nefndin til þess að á grundvelli fyrirliggjandi gagna teldi hún ekki kost á að grenndarkynna umsókn í samræmi við 44. gr. skipulagslaga með tilliti til nýtingarhlutfalls. Hlutfallið færi yfir þau mörk er fram kæmu í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leirutanga frá 19. maí 1981. Vísaði nefndin jafnframt til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 14/2019. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 23. október 2020 synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda með vísan til afgreiðslu skipulagsnefndar. Bæjarstjórn staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 28. nóvember 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að margoft hafi verið gefið út byggingarleyfi við Leirutanga sem fari langt umfram þau mörk sem fram komi í skipulags- og byggingar-skilmálum svæðisins frá árinu 1981, þ.e. nýtingarhlutfall 0,3. Í botngötu kærenda séu sex lóðir og fari nýtingarhlutfall þriggja þeirra yfir framangreind mörk, þ.e. á lóðunum Leirutanga 2, 4 og 6. Nýtingarhlutfall lóðanna sé 0,38, 0,4 og 0,35, en stærð húsanna sé rangt skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þá séu öll húsin yfir leyfilegri hæð í skipulags- og byggingarskilmálum. Að auki séu fjölmörg önnur hús við Leirutanga með nýtingarhlutfall langt umfram leyfilegt nýtingarhlutfall samkvæmt skilmálum, en nýtingarhlutfall þeirra sé á bilinu 0,35 upp í 0,64. Um 42% lóða við Leirutanga séu með nýtingarhlutfall yfir 0,3. Það sé því ljóst að umsókn kærenda um stækkun á húsi sínu sé í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar á umræddu svæði, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Einnig sé byggt á því að niðurstaða skipulagsnefndar sé brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar sé kveðið á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti enda hafi nefndin margoft gefið út byggingarleyfi á lóðum við Leirutanga sem fari langt umfram þá skilmála sem settir hafi verið. Sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Reglan eigi að hindra að ákvarðanir verði tilviljanakenndar, byggðar á geðþótta og annarlegum viðhorfum. Allir skuli vera jafnir fyrir lögum skv. 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Einnig feli synjunin í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að skipulags- og byggingar-skilmálar fyrir Leirutanga frá 19. maí 1981 hafi verið nýttir við hönnun á götu, uppskiptingu lóða og byggingu fyrstu húsa við götuna. Skipulagsnefnd og byggingarfulltrúi hafi nýtt sér skilmálana sem leiðbeinandi gagn við mat á hæð nýs þaks á húsi kærenda. Það hafi verið gert til að reyna að gæta jafnræðis við aðra íbúa í hverfinu og samræmis við önnur hús sem þegar væru byggð, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skilmálar og hönnun hverfisins hafi verið unnin fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og gildandi skipulagslaga. Uppfylli fyrrnefndir skipulags- og byggingarskilmálar ekki kröfur um deili­skipulag samkvæmt gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eða eldri reglugerð nr. 400/1998. Við fyrri umsókn kærenda um byggingarleyfi hafi það verið afstaða sveitarfélagsins að við mat á því hvort áskilnaður um að framkvæmdin væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar skipti einkum máli hvort íbúar á aðliggjandi lóðum og í hverfinu hafi, miðað við heildarsvip hverfisins og almenna nýtingu lóða, mátt treysta því að ekki yrði ráðist í framkvæmdir sambærilegar þeim sem á reyni í máli þessu. Hafi Mosfellsbær talið að skipulags- og byggingarskilmálarnir hefðu grundvallarþýðingu við mat á því hvers íbúar hafi mátt vænta þótt þeir hefðu e.t.v. ekki sömu þýðingu og samþykkt skipulag.

Vísað sé til 5. tölul. ákvæðis til bráðabirgða við skipulagslög er fjalli um slíka eldri skilmála en hvorki verði séð að framangreindir skipulags- og byggingarskilmálar hafi verið sendir Skipulagsstofnun til samþykktar né hafi borist svör frá Skipulagsstofnun hvað það varði. Af þessu megi ráða að gert hafi verið ráð fyrir því að á slíkum svæðum yrði í framtíðinni að gera ráðstafanir í samræmi við samþykkt skipulagslög, svo sem með grenndarkynningu umsókna um byggingarleyfi. Sveitarfélagið hafi litið á skipulags- og byggingarskilmála Leirutanga sem leiðbeinandi gagn en í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 14/2019 virðist byggt á þeim skilmálum sem ígildi skipulags.

Afgreiðsla sveitarfélagsins á umsókn um byggingarleyfi sé lögmæt, m.a. með vísan til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 14/2019. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi byggingar-fulltrúi sem og skipulagsnefnd talin sig bundna af niðurstöðu og umfjöllun úrskurðar­nefndarinnar um gildi byggingar- og skipulagsskilmála Leirutanga. Hafi útgáfu byggingar-leyfis verið hafnað á þeim grundvelli að breytingin myndi fela í sér að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi yfir 0,3. Megi í þessu samhengi vísa til þess að í afgreiðslu úrskurðar­nefndarinnar á beiðni um endurupptöku máls nr. 14/2019 hafi jafnframt komið fram að nefndin teldi ekki forsendur til endurupptöku þar sem nýtingarhlutfall væri enn of hátt.

Hluti þeirra fasteigna sem kærendur vísi til í umfjöllun sinni um nýtingarhlutfall séu af annarri húsategund, þ.e. ekki sé um einbýlishús að ræða og því ekki hægt að miða við nýtingarhlutfall þeirra. Við skoðun sveitarfélagsins hafi komið í ljós að nýtingarhlutfall þriggja grannlóða sé hærra en samkvæmt opinberum skrám. Af þeim átta lóðum sem séu í sama botnlanga og liggi á bakvið Leirutanga 10 séu þrjár með hærra nýtingarhlutfall en 0,3.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu kærenda er ítrekað að fjölmargar lóðir við Leirutanga séu með hærra nýtingarhlutfall en leyft er samkvæmt skipulags- og byggingar­skilmálum Leirutanga. Mosfellsbær hafi frá upphafi veitt leyfi umfram leyfilegt nýtingar­hlutfall og leyfilega hæð. Umsókn kærenda sé bæði í takt við það sem almennt gerist á grannlóðum lóðar kærenda og gildandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar á umræddu svæði.

Niðurstaða: Samþykki eða synjun á umsókn um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 23. október 2020 að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Leirutanga 10.

Fyrrgreind lóð er á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Við slíkar aðstæður er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá fara fram grenndarkynning. Svo sem greinir í málavöxtum taldi skipulagsnefnd, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, ekki kost á að grenndar-kynna umsókn kærenda í samræmi við nefnt ákvæði skipulagslaga með tilliti til nýtingarhlutfalls. Vísaði nefndin til þess að hlutfallið færi yfir þau mörk sem kæmu fram í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir Leirutanga frá árinu 1981, en um þá afstöðu sína vísaði nefndin jafnframt til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 14/2019.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að niðurstaða nefndarinnar í máli nr. 14/2019, þar sem ákvörðun byggingarfulltrúa frá 1. febrúar 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Leirutanga 10 var felld úr gildi, byggðist á því að skilyrði grenndarkynningar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga hefðu ekki verið uppfyllt. Að mati nefndarinnar hefði samþykki umsóknar kærenda leitt til hækkunar á nýtingarhlutfalli lóðarinnar sem þar með hefði haft töluverð áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur. Sú niðurstaða leiddi ekki af skipulags- og byggingarskilmálum svæðisins heldur af samanburði á nýtingarhlutfalli grannlóða á svæðinu, svo sem ráða má af forsendum úrskurðarins. Þá var synjun úrskurðarnefndarinnar á endurupptökubeiðni málsins ekki á því byggð að nýtingarhlutfall lóðarinnar væri of hátt, svo sem sveitarfélagið vísar til í greinargerð sinni, heldur á þeim grundvelli að skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru ekki talin uppfyllt. Var hvað það varðar annars vegar vísað til þess að meira en þrír mánuðir væru liðnir frá því kærendum mátti vera kunnugt um uppkvaðningu úrskurðarins og hins vegar að aðrir aðilar hefðu ekki veitt samþykki sitt fyrir endurupptöku málsins, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Jafnframt er á það bent að í 5. tölulið ákvæðis til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010 er mælt fyrir um að sveitarstjórn skuli senda Skipulagsstofnun deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim sem gerðar hafi verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998 og hafi ekki verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Þetta skuli gera innan eins árs frá gildistöku laganna en skipulagslög tóku gildi 1. janúar 2011. Loks er tekið fram að sveitarstjórn skuli gera Skipulagsstofnun grein fyrir því hvort hún hafi samþykkt viðkomandi áætlun. Fram kemur í greinargerð sveitarfélagsins í máli þessu að ekki verði séð af málaskrá þess að umræddir skipulags- og byggingarskilmálar hafi verið sendir Skipulagsstofnun til samþykktar.

Telja verður að skipulagsnefnd hafi ekki verið heimilt að synja grenndarkynningu umsóknar kærenda einvörðungu með vísan til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi yfir þau mörk sem fram kæmu í umræddum skilmálum frá 1981. Bar skipulagsnefnd að taka rökstudda afstöðu til þess hvort grenndarkynna ætti umsókn kærenda á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, m.a. með hliðsjón af þeim breyttu forsendum sem lágu fyrir í málinu frá fyrri úrskurði úrskurðarnefndarinnar vegna umsóknar kærenda um byggingarleyfi. Í þeim efnum er m.a. haft í huga að samkvæmt því sem fram kom í endurupptökubeiðni kærenda mun arkitekt hafa gert mistök við gerð skráningartöflu vegna fyrri byggingarleyfisumsóknar, sem að sögn aðila mun hafa leitt til hærra nýtingarhlutfalls lóðarinnar, auk þess sem umsókn kærenda tók breytingum sem leiddi til þess að nýtingarhlutfallið lækkaði frá fyrri umsókn.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar sé svo áfátt að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar frá 23. október 2020 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir stækkun hússins að Leirutanga 10.

104/2020 Þúfukot

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lögbýlisins Þúfukots í Kjósarhreppi þá ákvörðun hrepps­nefndar Kjósarhrepps að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á ákvörðun sveitarfélagsins um breytta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús og breytta notkun húss þess er stendur á umræddri lóð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kjósarhreppi 18. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 29. ágúst 2019 tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps fyrir á fundi sínum beiðni þess efnis að notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr landi Þúfukots yrði breytt úr frístundalóð í lóð undir íbúðarhús. Nefndin tók jákvætt í erindið og vísaði því til sveitar­stjórnar. Hreppsnefnd Kjósarhrepps staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi 8. október 2019 með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðar­nefndarinnar, sem vísaði málinu frá með úrskurði uppkveðnum 27. mars 2020 í kærumáli nr. 115/2019. Var í úrskurðinum bent á að skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki væri óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Því lægi ekki fyrir ákvörðun í málinu sem byndi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Skipulags- og byggingarfulltrúi Kjósarhrepps mun hafa móttekið 23. júní 2020 hnitsettan uppdrátt lóðarinnar Þúfukot 4, Nýjakots. Hinn 18. ágúst s.á. stimplaði skipulags- og byggingarfulltrúi uppdrátt fyrir mannvirki á lóðinni með undirrituðun hönnuðar þar sem vísað var til gr. 10.1.2. og 12.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Sama dag skrifaði skipulags- og byggingarfulltrúi undir skjal með fyrirsögninni „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“, þar sem m.a. kom fram að mannvirkið á umræddri lóð uppfyllti skilyrði til að vera „samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum megin atriðum.“ Vakti skipulags- og byggingarfulltrúi jafnframt athygli á að einangrunargildi hússins væri samkvæmt eldri reglugerð og uppfyllti því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Skyldi leitast við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að það hafi verið fyrir tilviljun að hann hafi komist að því að búið væri að breyta skráningu Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í íbúðarhúsalóð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Þar komi fram að mannvirki á lóðinni væri skráð á byggingar­stig 4 (fokhelt) og matsstig 8 (ólokið, tekið í notkun). Út frá þeim upplýsingum verði að gera ráð fyrir að tekin hafi verið ný ákvörðun af hálfu hreppsnefndar um að heimila breytta notkun lóðarinnar. Sú ákvörðun sé ólögmæt þegar af þeirri ástæðu að kærandi hafi ekki fengið að koma að sjónarmiðum sínum við meðferð málsins, sbr. 13. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umrædd lóð sé innan landareignar kæranda, Þúfukots, og því hafi breytt notkunar lóðarinnar augljóslega veruleg áhrif á hagsmuni hans. Sveitarfélaginu hafi verið vel kunnugt um afstöðu kæranda í málinu og hafi því borið að veita honum færi á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Hin skilyrta ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hafi verið háð ýmsum efnis­annmörkum. Ljóst sé að umsókn um breytingu lóðarinnar hafi einungis stafað frá öðrum eiganda hennar, en skráðir eigendur lóðarinnar séu tveir. Úr þessu hafi ekki verið bætt með fullnægjandi hætti. Þá hafi ákvörðuninni verið vísað til hreppsnefndar af skipulags- og byggingarnefnd, en á fundi nefndarinnar 29. ágúst s.á. hafi einungis verið bókað um að jákvætt væri tekið í erindið en engin tillaga hafi fylgt frá nefndinni. Hvorki efnisleg né málefnaleg ákvörðun hafi verið tekin um hvort breyta eigi landnotkun lóðarinnar. Það sé heldur ekki á færi skipulags- og byggingarnefndar að taka málið til fullnaðarafgreiðslu, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Bent sé á að staðsetning lóðarinnar sé innan jarðar kæranda og því ljóst að lóðarmörkin verði ekki ákveðin án aðkomu hans. Hafi hnitsettur lóðaruppdráttur verið afhentur sveitarfélaginu en sé ekki sé hægt að byggja ákvörðun á honum þar sem aðilar beggja vegna lóðarmarka þurfi að samþykkja ytri mörk hennar.

Kæranda sé ekki kunnugt um að málið hafi verið tekið fyrir af byggingarfulltrúa. Ekki fáist séð hvernig skráning mannvirkisins samrýmist 1. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr., laga nr. 160/2010 um mannvirki. Hið skráða byggingarstig staðfesti í raun að ekki sé heimilt að breyta skráningu á notkun lóðarinnar. Á lóðinni standi fullkláraður sumarbústaður en hann sé nú skráður sem fokhelt og óklárað íbúðarhúsnæði í fasteignaskrá. Því gefi auga leið að sumar­bústaðurinn uppfylli ekki kröfur til að vera skráður sem íbúðarhús. Mjög mikilvægt sé að fasteignir séu skráðar til samræmis við raunverulegt ástand og notagildi þeirra. Virðist sem um einhverskonar málamyndaskráningu sé að ræða. Þá liggi heldur ekki fyrir hvort umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið leitað. Liggi fyrir leyfi byggingarfulltrúa um breytta skráningu sé ljóst að leyfið sé ógildanlegt í ljósi framangreinds.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé hin umrædda lóð innan svæðis sem skilgreint sé sem landbúnaðarland. Samkvæmt stofnskjali lóðarinnar frá 2007 hafi hún verið stofnuð sem frístundalóð og henni síðan afsalað til eigandans. Sé það andstætt þágildandi skilmálum nefnds aðalskipulags þar sem svæðið hafi verið skilgreint sem landbúnaðarland. Samkvæmt stefnumörkun þess skipulags hafi mátt reisa þrjú frístundahús á landbúnaðarsvæði en þau skyldu þó standa í grennd við hvert annað. Stofnun lóðarinnar í öndverðu hafi því verið ólögmæt. Í núgildandi aðalskipulagi megi finna skilgreint frístundasvæði innan Þúfukots á svæði auðkenndu sem F6. Staðsetning Þúfukots 4, Nýjakots, sé utan þess svæðis. Nýtingar­hlutfall og stærð lóðar falli þó nær skilgreiningu á lóð fyrir frístundahús samkvæmt núgildandi aðalskipulagi en þar sé ekki gert ráð fyrir að íbúðarhúsalóðir séu að jafnaði minni en 0,5 ha. Umdeild lóð sé hins vegar aðeins 0,40 ha.

Í kafla 2.3.1 í gildandi aðalskipulagi komi fram almenn stefnumörkum um að staðsetja skuli alifuglahús í góðri fjarlægð frá annarri byggð. Þá sé þar vísað til þess að gerð sé grein fyrir lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Þó verði að skoða staðsetningu eldishúsa í hverju tilfelli fyrir sig og meta t.d. út frá ríkjandi vindátt og fjölda dýra. Fram komi í 6. gr. reglugerðarinnar að ákveða skuli í skipulags­áætlun hver fjarlægðarmörkin eigi að vera en í gildandi aðalskipulagi hafi ekki verið mörkuð stefna um það. Ekki hafi farið fram rannsóknar eða athuganir á ríkjandi vindátt eða fjölda dýra, eins og aðalskipulagið mæli fyrir um. Hin kærða ákvörðun sé því á engan hátt í samræmi við skilmála gildandi aðalskipulags. Einnig sé bent á að umsókn um breytingu landnotkunar hinnar umdeildu lóðar hafi verið hafnað í gildistíð Aðalskipulags Kjósarhrepps 2005-2017. Kærandi hafi því haft réttmætar væntingar til þess að ekki yrðu breytingar þar á þrátt fyrir gildistöku nýs aðalskipulags, enda ekkert í skilmálum hins nýja skipulags sem gefi tilefni til annars. Hin kærða ákvörðun fari því að öllum líkindum í bága við gildandi aðalskipulag.

Ekki liggi fyrir hver áform leyfishafa séu varðandi notkun lóðarinnar eða frekari skilmála. Fráleitt sé að slík áform liggi ekki fyrir þegar samþykki sé veitt fyrir eðlisbreytingu á lóð sem skipt sé út fyrir landabúnaðarland. Grundvallarmunur sé á þörf fyrir aðgengi að neysluvatni fyrir frístundahús og íbúðarhús með heilsársbúsetu. Ekki liggi fyrir með hvaða hætti öflun neysluvatns verði. Hið sama gildi um tengingu við hitaveitu, en staðsetning lóðarinnar liggi alls ekki vel við stofnæðum hitaveitu. Eigi slík tenging að fara fram verði það ekki gert án samþykkis kæranda. Einnig sé bent á að aðkomuvegur frá Eyrarfjallsvegi að fyrirhugaðri íbúðarhúsalóð liggi um land kæranda, en engir samningar liggi fyrir um slíka vegtengingu. Um leið og lögheimili fáist skráð þurfi að tryggja aðkomuveg samkvæmt vegalögum nr. 80/2007, en slíkt verði ekki gert án samþykkis kæranda.

Auk framangreinds sé ógildingarkrafa kæranda byggð á því að oddviti hreppsnefndar sveitar­félagsins hafi verið vanhæfur til þess að taka þátt í undirbúningi, meðferð og úrlausn mála sem kærandi sé aðili að eða vegna mála þar sem hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Í því sambandi sé vísað til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga og 20. gr. sveitarstjórnarlaga. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi orðið fyrir líkamsárásum og hótunum af hendi íbúa Þúfukots 4, Nýjakots, en íbúinn sé jafnframt fyrri eigandi lóðarinnar. Um þær deilur hafi verið fjallað í fjölmiðlum og þar hafi oddvitinn tekið afgerandi afstöðu með íbúanum. Þá hafi oddvitinn krafist þess í tölvupósti til fyrirsvarsmanns kæranda að hann hagaði sér eins og „siðaður maður“. Ljóst sé að oddvitinn hafi sýnt óvild í garð fyrirsvarsmanns kæranda og það opinberlega. Draga verði óhlutdrægni hans verulega í efa. Kveðið sé á um þrengri vanhæfisreglur í 20. gr. sveitarstjórnarlaga en almennt gildi skv. 3. gr. stjórnsýslulaga. Þá kunni vanhæfi hans að leiða til vanhæfis undirmanna hans.

Málsrök Kjósarhrepps: Sveitarfélagið telur að sú ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa að veita byggingarleyfi skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki fyrir breyttri notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, geti ekki komið til endurskoðunar þar sem kærandi hafi ekki haft uppi kröfu um ógildingu þeirrar ákvörðunar. Að því marki sem það kunni að skipta máli sé ljóst að við þá afgreiðslu hafi skipulagsfulltrúi tekið afstöðu til þess hvort umrædd samþykkt samræmdist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki.

Lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr jörðinni Þúfukoti á árinu 2007. Í þágildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2017 hafi lóðin verið á svæði skilgreindu sem landbúnaðar­svæði. Fyrir liggi að skipulagsyfirvöld hafi á sínum tíma samþykkt stofnun lóðarinnar sem sérstakrar og afmarkaðrar fasteignar án þess að landið væri tekið úr landbúnaðarnotum, án þess að aðalskipulagi hefði verið breytt og án þess að gert væri deiliskipulag vegna þess. Í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 sé umrætt svæði enn skilgreint sem landbúnaðarsvæði. Litið hafi verið svo á að unnt væri að breyta skráðri landnotkun án þess að gera breytingar á aðalskipulagi eða gera deiliskipulag fyrir þessa einu lóð. Umrædd lóð sé ekki lengur hluti af lögbýlinu Þúfukoti heldur sérstök og afmörkuð fasteign. Heimilt sé að samþykkja byggingu íbúðarhúss á landi sem skilgreint sé sem landbúnaðarsvæði í aðalskipulagi. Til þess hafi verið litið að ekki væri að sjá eðlismun á þeirri lóð og lóðunum Þúfukoti 1, Lyngholti og Þúfukoti 2, Hálsakoti, sem skráðar væru sem íbúðarhúsalóðir. Gildandi aðalskipulag útiloki ekki að íbúðarhúsalóðir geti verið minni en 0,5 ha þó þær skuli að jafnaði vera það í nýjum íbúðarhúsabyggðum.

Horft hafi verið til þess að undanfarin ár hafi umrædd lóð verið nýtt til fastrar búsetu og heilsársdvalar. Sveitarfélagið hafi þjónustað þá eign með sambærilegum hætti og önnur íbúðar­hús, s.s. varðandi sorphirðu. Með því að samþykkja breytta notkun liggi fyrir að heimilt yrði að skrá þar lögheimili, sem hefði væntanlega í för með sér auknar skatttekjur fyrir sveitarfélagið.

Í kafla 2.3.1 í greinargerð gildandi aðalskipulags komi fram að um lágmarksfjarlægð eldishúsa frá byggð gildi reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um fjarlægðir og komi þar fram að eldi alifugla með bú ætluð fyrir fleiri en 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 60.000 stæði fyrir hænur skuli vera að lágmarki í 100 m fjarlægð frá byggð. Sé bú ætlað fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 6.000 stæði fyrir hænur skuli fjarlægð vera 50 m. Fjarlægð mannvirkis á lóð Þúfukots 4, Nýjakots, frá næsta alifuglabúi uppfylli skilyrði nefndrar 6. gr. reglugerðarinnar, hvort sem um sé að ræða íbúðarhúsnæði eða sumarbústað.

Almennt sé sú krafa gerð við stofnun lóða í sveitarfélaginu að mörk þeirra séu hnitsett þannig að enginn vafi geti verið um afmörkun þeirra. Af þessum sökum hafi þótt rétt, þegar leyfishafar hafi óskað eftir heimild til að breyta skráðri landnotkun, að setja skilyrði um hnitsetningu lóðarinnar. Ekkert hafi komið fram um að ágreiningur væri uppi milli kæranda og leyfishafa um hvar landamerki lóðanna Þúfukots og Þúfukots 4, Nýjakots, væru, en þau landamerki hafi verið ákveðin áður en kærandi hafi eignast Þúfukot. Þá sé það ekki á forræði eða valdsviði sveitarfélagsins að leysa úr slíkri landamerkjaþrætu. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi móttekið hnitsettan uppdrátt en ekki verði séð að sú hnitasetning hafi áhrif á réttarstöðu kæranda, enda landamerki þau sömu og áður.

Bent sé á að þegar Þúfukoti 4, Nýjakoti, hafi verið skipt út úr Þúfukoti og hús reist á lóðinni hafi verið gengið frá aðgangi að neysluvatni úr landi Þúfukots. Sama gildi um hitaveitu, en mannvirkið á lóðinni sé tengt við hitaveitu Kjósarveitu ehf. Þá sé þegar fyrir hendi vegtenging við lóðina. Ekki sé hægt að fallast á að breyting á notkun umræddrar lóðar hafi veruleg og íþyngjandi áhrif á réttarstöðu kæranda. Sú mögulega skerðing sem geti falist í hinni kærðu ákvörðun sé innan þeirra marka sem fasteignaeigendur verði að þola í nábýli. Að lokum fáist ekki séð að meint vanhæfi oddvita hreppsnefndar sveitarfélagsins hafi verið fyrir hendi þegar ákvörðun hreppsnefndar um að samþykkja umsókn leyfishafa hafi verið tekin 8. október 2019. Þá sé það meginregla 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 að starfsmaður sveitar­félags verði ekki vanhæfur vegna vanhæfis yfirmanns.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að mannvirkið á umræddri lóð hafi í upphafi verið byggt sem íbúðarhúsnæði. Lóðinni hafi skipt út úr jörðinni Þúfukoti ásamt þeim réttindum og skyldum sem fasteigninni fylgdi, þ.m.t. rétti til vatns. Húsið hafi verið notað til heilsársíbúðar frá því það hafi fyrst verið reist. Fullnægt hafi verið þeim fyrirvörum sem hreppsnefnd hafi sett með samþykkt sinni á umsókn leyfishafa 8. október 2019. Hvorki fáist séð að breytingin hafi nokkur áhrif á eignarréttindi kæranda né takmarki notkun á jörð hans.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að ákvörðun hreppsnefndar frá 8. október 2019 hljóti að vera grundvöllur hinnar breyttu skráningar á landnotkun sem hafi verið framkvæmd, en kærandi hafi til vara krafist þess að hún yrði felld úr gildi. Líti úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hins vegar svo á að önnur ákvörðun Kjósarhrepps liggi fyrir um heimild til breyttrar landnotkunar sé þess krafist að sú ákvörðun verði felld úr gildi.

Vísað sé til þess að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi ekki heimild til að taka endanlega ákvörðun í málinu, sbr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og erindisbréf skipulags- og byggingarnefndar. Einnig vísist til 4. mgr. 30. gr. samþykkta stjórnar sveitarfélagsins Kjósar­hrepps þar sem fram komi að ef nefnd sé falið fullnaðarafgreiðsla mála skuli kveða á um það í sérstökum viðauka við samþykktina. Enginn slíkur viðauki sé fyrir hendi. Hafnað sé þeim málatilbúnaði sveitarfélagsins að hreppurinn hafi ekki tekið ákvörðun um breytta landnotkun heldur hafi það verið í höndum skipulags- og byggingarfulltrúa. Hreppsnefnd hagi málmeðferð vísvitandi þannig að hún sé flókin, villandi og ógagnsæ. Með því að taka skilyrta stjórnvalds­ákvörðun í upphafi, sem ekki sé unnt að kæra nema skilyrðin komi fram, virðist sem hrepps­nefndin geri í raun tilraun til að taka ákvarðanir sem ekki séu kæranlegar.

Ítrekað sé að hnitsettur uppdráttur þurfi að vera undirritaður af bæði kæranda og leyfishafa. Bent sé á að á fundi skipulags- og byggingarnefndar 11. nóvember 2020 hafi verið tekin fyrir umsókn um breytingu á stærð tiltekinnar lóðar og í afgreiðslu nefndarinnar hafi það verið gert að skilyrði að fyrir lægi samþykki eiganda eða eigenda upprunafasteignar, sbr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Ekki fáist séð hvers vegna hreppsnefnd og skipulags- og byggingarnefnd geri ekki sömu kröfur í þessu máli. Vísist um það til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun sett fram í aðalskipulagi. Hins vegar eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðanotkun, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en heimilt er að skilgreina landnotkun og takmarkanir á henni þrengra í deiliskipulagi en gert er í aðalskipulagi, sbr. gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Um notkun húsa fer þó eftir lögum nr. 160/2010 um mannvirki, en skv. 1. mgr. 9. gr. þeirra laga er óheimilt að breyta notkun mann­virkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, auk þess sem það er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að greinarmunur er á því hvort um breytta notkun lóðar eða húss er að ræða.

Upphaf máls þessa má rekja til erindis eins af eigendum lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, um að breyta notkun hennar úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús. Svo sem rakið er í málavöxtum tók skipulags- og byggingarnefnd Kjósarhrepps 29. ágúst 2019 jákvætt í erindið og vísaði því til sveitarstjórnar. Hreppsnefnd staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 8. október s.á. með þeim áskilnaði og fyrirvara að afhentur yrði hnitsettur uppdráttur af spildunni ásamt staðfestingu byggingarfulltrúa á að hús það sem á lóðinni stæði uppfyllti skilyrði laga og reglugerða til að verða samþykkt sem íbúðarhúsnæði. Fyrir liggur að þau skilyrði sem hreppsnefnd setti hafa verið uppfyllt og verður því að líta svo á að nefndin hafi tekið endanlega ákvörðun um að breyta notkun lóðarinnar. Þá liggur einnig fyrir í máli þessu að 2. september 2020 var skráningu hússins á lóðinni breytt úr sumarbústað í einbýlishús í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, en slík breyting getur einungis átt sér stað að undangengnu byggingarleyfi byggingarfulltrúa, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki, sem er kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar. Að virtum atvikum málsins og málatilbúnaði kæranda verður því litið svo á að einnig sé kærð sú ákvörðun sem legið hafi að baki breyttri skráningu á notkun hússins í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands.

Af ákvæði 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga verður ráðið að ákvörðun um notkunar lóðar sé að meginstefnu til tekin með deiliskipulagi. Þrátt fyrir það verður talið að sveitarstjórn sé heimilt að samþykkja breytta notkun lóðar að því gefnu að sú notkun rúmist innan heimilda aðalskipulags, enda er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna. Í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 er hin umrædda lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Fjallað er um landbúnaðarsvæði í kafla 2.3.1 í skipulaginu en þar segir m.a. að með skipulaginu sé horfið frá því að takmarka fjölda íbúðarhúsa á hverri jörð, enda sé það talið geta staðið í vegi fyrir íbúafjölgun í sveitarfélaginu. Þá segir jafnframt að heimilt sé að reisa stök mannvirki á landbúnaðarsvæðum, eins og lýst sé í kafla 2.3.9. Í þeim kafla kemur fram að á landbúnaðarlandi sé heimilt að reisa íbúðarhús til fastrar búsetu, enda hamli uppbygging hvorki eðlilegri landbúnaðarstarfsemi né spilli samfellu í góðu landbúnaðarlandi. Með hliðsjón af framan­greindu var ákvörðun hreppsnefndar um að breyta notkun lóðarinnar í samræmi við stefnu og heimildir aðalskipulags.

Líkt og kemur fram hér að framan er skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt 11. gr. laganna skal byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra og tilkynna umsækjanda skriflega um samþykkt byggingaráforma. Upphaflegt erindi eigenda Þúfukots 4, Nýjakots, fól ekki í sér formlega byggingarleyfisumsókn um breytta notkun húss heldur umsókn um breytta notkun lóðarinnar. Af atvikum málsins verður þó ráðið að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi litið svo á að með umsókn um breytta notkun lóðarinnar hafi eigendur hennar jafnframt sótt um breytta notkun hússins sem stendur á lóðinni. Fyrir liggur að 18. ágúst 2020 stimplaði hann uppdrætti frá árinu 2007 sem merktir eru „Frístundahús Nýjakot 2“. Þá er á uppdrættinum ódagsett áritun hönnuðar við eftirfarandi texta: „Samanber byggingarreglugerð nr. 112/2012 gr. 10.1.2. og 12.1.2.“ Samkvæmt nefndri gr. 10.1.2. skal hönnuður við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þess hluta reglugerðarinnar, en 10. hluti reglugerðarinnar ber heitið „Hollusta, heilsa og umhverfi“. Sambærilega orðað ákvæði er í gr. 12.1.2., en 12. hluti reglugerðarinnar fjallar um öruggi við notkun. Sama dag og skipulags- og byggingarfulltrúi stimplaði nefnda uppdrætti skrifaði hann undir skjal með heitinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“. Þar kemur fram eftirfarandi afgreiðsla embættisins: „Í samræmi við 10.1.2. gr. og 12.1.2. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012, staðfestist hér með, að hús það (F2310159) sem stendur á umræddri lóð, uppfyllir skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði í öllum meginatriðum. Athygli er samt sem áður vakin á að einangrunargildi hússins er skv. eldri reglugerð og uppfyllir því ekki að öllu leyti kröfur dagsins í dag. Leitast skal við að koma til móts við þær kröfur við endurbætur og viðhald hússins.“

Gera verður þá kröfu til stjórnvalda að ákvarðanir þeirra séu að formi og efni til nægilega skýrar þannig að ekki sé vafa undirorpið á hvaða lagagrundvelli þær eru teknar og hvert sé efni þeirra. Að mati úrskurðarnefndarinnar uppfylla fyrrgreindar afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa ekki þá kröfu þar sem þær fela fyrst og fremst í sér mat hans á því að tiltekin ákvæði byggingarreglugerðar séu uppfyllt. Verður því ekki talið að um formlega stjórnvaldsákvörðun á grundvelli 1. mgr. 9. gr. eða 11. gr. laga um mannvirki hafi verið að ræða. Er þá m.a. litið til þess að í yfirskrift stimplaðs uppdráttar frá árinu 2007 kemur fyrir orðið „Frístundahús“ og að stimplunin ber ekki með sér að breytt notkun hússins hafi verið samþykkt. Þá er horft til þess að í skjalinu „Staðfesting íbúðarhúsnæðis“ segir að umrætt hús uppfylli skilyrði til að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði „í öllum meginatriðum.“ Verður því að líta svo á að ekki hafi verið tekin ákvörðun í skilningi 9. gr. laga um mannvirki um breytta notkun hússins. Verður því ekki komist hjá því að vísa þeim hluta málsins frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðar­afgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda. Verður að telja að sú regla eigi við hvort sem byggingarleyfisumsókn varðar heimild til að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. um mannvirki. Fyrir liggur að ekki var formlega sótt um leyfi til að breyta notkun mannvirkisins, en sem fyrr greinir mun skipulags- og byggingarfulltrúi hafa litið svo á að umsókn um breytta notkun lóðar varðaði jafnframt breytta notkun hússins á lóðinni. Sú umsókn var ekki grenndarkynnt en ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins hvort láðst hafi að gera það með formlega réttum hætti eða hvort að það hafi verið mat skipulags­yfirvalda að erindið varðaði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda, sbr. fyrrnefnda 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Kjósarhrepps um að samþykkja að breyta notkun lóðarinnar Þúfukots 4, Nýjakots, úr sumarbústaðalóð í lóð undir íbúðarhús.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni þeim hluta málsins er lýtur að breyttri notkun húss á lóðinni Þúfukoti 4, Nýjakoti.

131/2020 Fífuhvammur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 6. janúar 2021 var hafnað kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða byggingarleyfis.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. janúar 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér þó nokkra forsögu. Að lokinni grenndarkynningu samþykkti skipulagsnefnd Kópavogsbæjar á fundi sínum 3. júlí 2007 erindi lóðarhafa Fífuhvamms 25 um leyfi til byggingar 62,5 m2 bílskúrs ásamt skyggni yfir innkeyrslu og var byggingarleyfi samþykkt á fundi byggingarnefndar Kópavogs 22. ágúst s.á. Eigendur Fífuhvamms 27, sem komið höfðu að athugasemdum við grenndarkynningu, kærðu nefndar ákvarðanir til úrskurðar­nefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi þær úr gildi með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2008, í kærumáli nr. 118/2007. Á fundi byggingarnefndar Kópavogs 6. ágúst 2008 var eigendum Fífuhvamms 25 veitt leyfi til að byggja 56,8 m2 bílskúr með geymslu á lóð þeirra. Kærðu eigendur Fífuhvamms 27 einnig það leyfi til til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 25. september 2008, í máli nr. 87/2008. Lóðarhafar Fífuhvamms 25 sóttu um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á 56,8 m2 bílskúr sem þá hafði verið reistur, en að lokinni grenndarkynningu var umsókninni synjað af byggingarfulltrúa Kópavogs 21. júní 2011. Kærðu umsækjendur þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en með úrskurði uppkveðnum 15. janúar 2015, í máli nr. 48/2011, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála synjunina úr gildi þar sem undirbúningi og rökstuðningi hennar þótti svo áfátt að leiða ætti til ógildingar. Hinn 26. nóvember 2015 synjaði byggingarfulltrúi að nýju umsókn eigenda Fífuhvamms 25 um leyfi fyrir 56,8 m2 viðbyggingu ofan á umræddan bílskúr, m.a. með vísan til grenndaráhrifa. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 1. desember 2017, í máli nr. 116/2015.

Með umsókn, dags. 7. október 2019, sóttu eigendur Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 gróðurhús ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndar­kynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulags­ráð erindið og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs. Kærendur kærðu ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði uppkveðnum 8. maí 2020 vísaði kærumálinu, sem var nr. 31/2020, frá nefndinni þar sem ekki lægi fyrir lokaákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 4. desember 2020 samþykkti byggingar­fulltrúi umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi lagt umtalsvert fjármagn og vinnu í að koma svæði milli húsanna Fífuhvamms 25 og 27 í snyrtilegt horf, m.a. með matjurtagarði og gróðursetningu plantna. Þær framkvæmdir og frekari áform kærenda um að setja upp heitan pott og gróðurhús til að nýta lóð þeirra sem mest séu sett í uppnám með byggingu gróðurhúss og útsýnispalls ofan á bílskúr nágranna, sem að auki sé ekki í samræmi við götumynd. Feli framkvæmdin í sér útsýnispall ofan á bílskúr, sem sé alveg við lóðarmörk lóðar kærenda, og hafi það áhrif á friðhelgi einkalífs og heimilis kærenda. Fari útgáfa byggingarleyfisins því í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni þeir verða fyrir tjóni af þeim sökum. Sérstaklega sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2015 þar sem deilt hafi verið um sambærilega byggingu á sama stað. Í niðurstöðu nefndarinnar segi m.a. að umsótt viðbygging yrði á eða nærri mörkum lóðarinnar að Fífuhvammi 27 og að ljóst væri að af byggingunni yrðu grenndaráhrif. Vísað var til þess að viðbyggingin myndi valda auknu skugga­varpi á lóð kærenda. Sömu sjónarmið eigi hér við fullum fetum.

Leyfishafar hafi gert ítrekaðar tilraunir til að auka við byggingamagn á lóð þeirra við lóðamörk, en þeim áformuð hafi verið synjað af bæði skipulagsyfirvöldum í Kópavogi og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Á árinu 2008 hafi þó verið fallist á að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóð Fífuhvamms 25 en kærendur bendi á að bílskúrinn hafi verið notaður undir íbúð. Samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi Fífuhvamms 27 liggi bílskúr Fífuhvamms 25 alveg upp að lóðarmörkum lóðar kærenda og séu lóðamörk því ekki rétt á teikningu sem lögð hafi verið fram af hálfu leyfishafa, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2015. Sé þannig umsögn skipulags- og byggingardeildar um að viðbyggingin muni ekki ná að mörkum lóðar kærenda, augljóslega röng.

Á teikningu leyfishafa sem hafi verið grenndarkynnt sé ekki merkt handrið ofan á bílskúr. Hins vegar sé gróðurhúsið teiknað þannig að útgengt sé frá því til bæði norðurs og suðurs. Úr þessu virðist reynt að bæta með síðari teikningum en kærendum sé ekki kunnugt um að þær teikningar hafi farið í grenndarkynningu. Sú útfærsla sé í algjöru trássi við gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um handrið, en jafnframt vísist til gr. 6.5.4. í sömu reglugerð, þar sem komi fram að handrið veggsvala skuli vera minnst 1,1 m að hæð. Aukin hæð á vegg sem liggi að mörkum lóðar kærenda muni þrengja að fasteign þeirra, spilla útliti og auka skuggavarp. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar segi að gert sé ráð fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi sem standa muni um 3 m frá mörkum lóðar kærenda. Nú þegar sé byrjað að byggja gróðurhúsið og sé það einungis 1,8 m frá lóðarmörkum. Útsýnispallur eigi samkvæmt teikningum að vera úr hömruðu gleri og liggja alveg að lóðamörkum. Því sé klárlega um hækkun á mannvirki á lóðamörkum að ræða þrátt fyrir að öðru sé haldið fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar. Þetta hafi m.a. áhrif á ræktunarsvæði kærenda. Að lokum sé bent á að í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð sé m.a. kveðið á um að staðsetning bygginga skuli vera þannig að sólar og skjóls njóti á sem heppilegastan hátt á leik- og dvalarstæðum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hin kærða ákvörðun feli í sér byggingu 8,1 m2 gróðurhúss á þaki bílskúrs á lóðinni Fífuhvammi 25. Um sé að ræða töluverða breytingu frá fyrri tillögu, þ.e. 56,8 m2 steinsteypta viðbyggingu sem hefði fyllt út í þakflöt bílskúrsins. Óveruleg grenndaráhrif fylgi gróðurhúsinu hvað varði skuggavarp, nánd, innsýn og útsýni. Gróðurhúsið muni standa 3 m frá mörkum lóðar kærenda auk þess sem teikningum hafi verið breytt til að koma til móts við athugasemdir kærenda. Sé nú gert ráð fyrir ógegnsæju gleri á þeim gafli gróðurhússins sem snúi að lóð kærenda. Jafnframt sé aðeins gert ráð fyrir útgengi frá gróðurhúsi út á svalir í norður til þess að lágmarka ónæði. Þá muni fyrirhugað handrið á svölum ekki takmarka útsýni frá lóð kærenda. Að lokinni breytingu verði nýtingar­hlutfall lóðarinnar 0,18, en það sé vel innan marka meðalnýtingarhlutfalls á svæðinu, sem sé 0,29. Loks sé að finna fordæmi fyrir byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs í götunni og falli breytingin því vel að götumynd.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að þegar bílskúr lóðar Fífuhvamms 25 hafi verið samþykktur hafi lóðamörk verið 40 cm austan við viðbygginguna, en síðar hafi Kópavogsbær breytt mörkunum án samþykkis leyfishafa. Gróðurhúsið hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda, hvorki varðandi skuggavarp né vegna annarra óþæginda sem kærendur vísi til. Austurhlið gróðurhússins verði ógegnsæ og þar að auki sé enginn gluggi á vesturhlið húss kærenda. Hvað sem líði legu lóðamarka sé ekkert í gildandi rétt sem girði fyrir að byggt sé á lóðamörkum ef gætt sé þeirra reglna sem gildi um brunavanir. Ekki sé lengur kveðið á um lágmarksfjarlægð húsa frá lóðamörkum í byggingarreglugerð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs um að veita byggingarleyfi fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25, en lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Í slíkum aðstæðum er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá fara fram grenndarkynning.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er Fífuhvammur 25 á svæði íbúðarbyggðar, merktu ÍB-2 Digranes. Kemur fram í aðalskipulaginu að þar sé nokkuð fastmótuð byggð en um sé að ræða þéttustu byggð Kópavogs með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli. Fer hið kærða leyfi því ekki í bága við landnotkun aðalskipulags. Þá verður ekki séð að 8,1 m2 gróðurhús á þaki bílskúrs fari í bága við byggðamynstur eða þéttleika byggðar. Eykst enda nýtingarhlutfall óverulega og við sömu götu er að finna gróðurhús, auk þess sem ámóta glerhýsi er að finna ofan á bílskúrum að Fífuhvammi 21 og að Fífuhvammi 31. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu umsókn. Var það og gert með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti, sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Við þá kynningu komu kærendur að athugasemdum sínum og vegna þeirra lögðu leyfishafar fram uppfærða teikningu. Fólu breytingarnar í sér að ekki yrði lengur gert ráð fyrir að gengið yrði út á þak bílskúrsins frá gróðurhúsinu sunnan megin heldur einungis til norðurs, auk þess sem austurhlið gróðurhússins yrði úr ógegnsæju gleri til að takmarka innsýn yfir vestanverða lóð kærenda. Þá var gert ráð fyrir handriði úr hömruðu gleri á þakfleti bílskúrsins sem myndi afmarka svalaflöt á bílskúrsþakinu norðan megin. Kærendum voru kynntar uppfærðar teikningar í samræmi við gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og komu að athugasemdum, sem m.a. lutu að stærð fyrirhugaðra svala, yfirsýn yfir garð þeirra og að birtuskilyrði myndu versna með tilkomu svalahandriðs. Í kjölfarið tók skipulagsráð umsóknina til umfjöllunar þar sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda og uppfærðra teikninga.

Gróðurhús það sem um ræðir er úr gleri, það er lægra en íbúðarhús leyfishafa, ekki mikið að umfangi og nær einungis yfir lítinn hluta þakflatar bílskúrsins, sem er 56,8 m2. Þá var dregið úr grenndaráhrifum gagnvart lóð kærenda með áðurnefndum breytingum á teikningum. Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og til þess fallin að hafa áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna yfirsýnar yfir á næstu lóð, mun sú innsýn ekki aukast svo nokkru nemi yfir suður- og vesturhluta lóðar kærenda, þegar litið er til staðsetningar þess glugga sem áður var á austurhlið húss leyfishafa, þar sem nú er gengið inn í gróðurhúsið. Hins vegar verður aukin yfirsýn yfir bakgarð kærenda, sem vísar til norðurs, en sá hluti garðsins er minni. Úr þeim áhrifum er þó dregið með svalahandriði úr ógegnsæju gleri. Almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og að mati úrskurðarnefndarinnar er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kærenda sem þeir hafa haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð. Skuggavarp eykst ekki að marki vegna handriðsins, enda verður það úr hömruðu gleri sem hleypir birtu í gegn. Er því ekki hægt að líta svo á að grenndaráhrif vegna þess séu þau sömu og ef um steyptan vegg væri að ræða.

Að framangreindu virtu geta grenndaráhrif vegna þeirra framkvæmda sem heimilaðar eru með hinu kærða leyfi ekki talist slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli mega búast við. Þá liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á ákvörðuninni að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

112/2020 Borgarholtsbraut

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og í kjölfar þess var kæra málsins dregin til baka 21. apríl 2021.

Árið 2021, föstudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Ásgeir Magnússon dómstóri tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa fjórbýlishús að Borgarholtsbraut 39 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2020, er barst nefndinni 9. nóvember s.á., kærir eigandi, Borgarholtsbraut 40, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogs frá 21. september 2020 að samþykkja leyfi til að reisa fjórbýlishús á lóðinni nr. 39 við Borgarholtsbraut. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðun um að samþykkja byggingu hússins verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um bætur með vísan til 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 10. desember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var lagt fram erindi lóðarhafa Borgarholts­brautar 39 um leyfi til að rífa 185,4 m² timburhús og reisa fjórbýlishús með sex bílastæðum á lóðinni. Samkvæmt erindinu var gert ráð fyrir að heildarbyggingarmagn yrði 605 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,18 í 0,78. Var samþykkt að grenndarkynna tillöguna fyrir lóðarhöfum Borgarholtsbrautar 37, 38, 40, 41 og 42  sem og Melgerðis 20, 22, 24 og 26 í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar m.a. frá kæranda máls þessa. Að lokinni grenndarkynningu veitti skipulags- og byggingardeild umsögn, dags. 31. mars 2020, um framkomnar athugasemdir og taldi m.a. að fyrirhuguð breyting væri ekki fyllilega í samræmi við rammaákvæði aðalskipulags Kópavogs hvað varðaði byggingarmagn á lóð og legu og form byggingarreits. Einnig væri óhjákvæmilegt að nýbygging á lóðinni myndi hafa áhrif á útsýni frá Borgarholtsbraut 40. Þá hefði nokkuð verið um svipaðar breytingar á Borgarholtsbraut og mætti þar nefna Borgarholtsbraut 48 og 67.

Hinn 21. september 2020 var á fundi skipulagsráðs lögð fram og samþykkt breytt tillaga vegna Borgarholtsbrautar 39. Einnig var lagt fram samþykki lóðarhafa Borgarholtsbrautar 37 og 41 fyrir umræddum breytingum og uppfærð umsögn skipulags- og byggingar­deildar, dags. 14. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að dregið hefði verið úr umfangi fyrirhugaðrar nýbyggingar. Heildarbyggingarmagn yrði 465 m² í stað 605 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,60. Bílastæðum yrði fækkað um eitt og eystri hluti byggingarinnar færður 3,6 m nær Borgarholtsbraut. Dregið yrði úr umfangi suðurhluta nýbyggingar og fjarlægð frá lóðar­mörkum í suður yrði 10,6 til 13,0 m. Aðkomu að fyrirhugaðri byggingu hefði verið breytt og þakformi. Greind afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 13. október 2020. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. desember s.á. var samþykkt niðurrif húss og bílskúrs á lóðinni Borgarholtsbraut 39 og umsókn um byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að væntanleg nýbygging að Borgarholtsbraut 39 muni skerða útsýni frá fasteign hans að Borgarholtsbraut 40 til suðurs og að skuggi verði á palli við hús kæranda þegar sól sé lágt á lofti. Af þessum sökum muni verðmat eignarinnar rýrna.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að umrædd lóð sé á svæði þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag og hafi umsókn um byggingarleyfi verið kynnt í samræmi við gildandi lög og reglur. Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogsbæjar 2012-2024 heyri lóðin undir íbúðarbyggð, nánar tiltekið ÍB-1, Kársnes, sem lýst sé sem nokkuð fastmótaðri byggð en þó sé gert ráð fyrir fjölgun íbúða. Samræmist hin kærða ákvörðun megin­mark­miðum aðalskipulagsins um þéttingu byggðar með fjölbreyttum húsagerðum og góðri nýtingu á landi og landgæðum. Jafnframt sé nýtingarhlutfall innan skilgreindra marka í aðalskipulagi.

Við meðferð málsins hafi verið gerð húsakönnun þar sem farið hafi verið yfir sambærilegar breytingar sem gerðar hafi verið á svæðinu og séu þó nokkur fordæmi fyrir slíkum breytingum. Jafnframt hafi verið gerðar breytingar á teikningum eftir að athugasemdir hefðu borist á kynningartíma umsóknarinnar. Hafi breytt tillaga verið kynnt fyrir þeim er gert hefðu athugasemdir og hafi meirihluti aðila verið sáttur við breytinguna.

Hvað útsýnisskerðingu varði sé búið að draga töluvert úr umfangi fyrirhugaðrar byggingar. Geti íbúar ekki gert ráð fyrir því að skipulag og ásýnd gatna haldist óbreytt um ókomna tíð, þvert á móti, sérstaklega þar sem lögð sé áhersla á þéttingu byggðar í aðalskipulagi. Hæð fyrirhugaðrar nýbyggingar sé í samræmi við hæð nærliggjandi húsa og sé hún ekki talin rýra götumynd.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi telur að rök kæranda haldi ekki. Ekki falli skuggi á pall kæranda, jafnvel ekki inn á lóð hans, á jafndægri 21. mars kl. 17:00. Þá sé útsýni ekki lögvarið á Íslandi.

Niðurstaða: Samþykki byggingarleyfis og útgáfa þess er í höndum byggingarfulltrúa, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2020 að veita byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni nr. 39 við Borgarholtsbraut.

Fyrrgreind lóð er á svæði þar sem ekki er í gildi deiliskipulag. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna, en samkvæmt ákvæðinu má veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar þegar um er að ræða framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Var hið umdeilda byggingarleyfi veitt að undangenginni grenndar­kynningu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Í greinargerð Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024 eru rammaákvæði, en um er að ræða almenn ákvæði sem gilda um þegar byggð hverfi. Þar segir að komi fram óskir um breytingar í núverandi byggð, hvort sem hún sé deiliskipulögð eða ekki, skuli liggja fyrir greinargerð með skýringarmyndum þar sem ítarlega sé greint frá mögulegum áhrifum breytingarinnar á þá byggð sem fyrir sé. Einkum skuli horft til hluta eins og hvernig breytingin falli að aðliggjandi byggð og yfirbragði hverfisins hvað varði stærð og hlutföll, umferð, bílastæðaþörf, útsýni og skuggamyndun. Þegar óskað sé eftir breytingum skv. 43. og 44. gr. skipulagslaga skuli byggingarmagn á lóð, hvort sem um sé að ræða nýbyggingu eða aukið nýtingarhlutfall á lóð, að jafnaði ekki vera hærra en meðaltalsnýtingarhlutfall nærliggjandi „húsa“, hæð húsa eða mannvirkja skuli að jafnaði ekki vera hærri en sú lína sem dregin sé milli þeirra húsa í götunni sem séu sitt hvoru megin við og lega og form byggingarreits skuli að jafnaði liggja innan línu sem dregin sé milli húsa sitt hvoru megin við.

Á lóðinni Borgarholtsbraut 39 mun hafa staðið 185,4 m² einbýlishús á einni hæð með risi ásamt bílskúr. Með hinu kærða byggingarleyfi er gert ráð fyrir byggingu fjórbýlishúss á lóðinni á þremur hæðum. Í byggingarlýsingu segir að hæðarlega lóðarinnar miðist við að húsið gangi inn í landið og frá steyptum stoðveggjum við verandir taki við gras- og gróðurflái sem sé með hallanum 1:2. Risþak sé á húsinu og þakhalli 20°, heildarstærð hússins verði 462,9 m² og nýtingarhlutfall lóðar­innar 0,60. Til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall næstu lóða, þ.e. Borgarholts­brautar nr. 37 er 0,27 og lóðar nr. 41 er 0,58, en annars er nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða frá 0,34-0,47 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Nýtingarhlutfall grannlóða er því almennt töluvert lægra en nýtingarhlutfall lóðar byggingarleyfishafa yrði eftir umdeilda breytingu en áþekkt nýtingarhlutfalli lóðarinnar Borgarholtsbrautar 41.

Telja verður að með umþrættu byggingarleyfi sé vikið svo frá nýtingarhlutfalli því sem almennt gerist á lóðum við umræddan hluta Borgarholtsbrautar að ekki hafi verið skilyrði til þess að grenndarkynna umsóknina, enda verður að telja að umdeild hækkun nýtingarhlutfalls hafi óhjákvæmilega talsverð áhrif á þéttleika byggðar og byggðamynstur. Þá verður ekki séð að tekið sé mið af áðurgreindum rammaákvæðum gildandi aðalskipulags um breytingar í þegar byggðum hverfum hvað nýtingarhlutfall varðar. Verður af þeim sökum að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Hvað varðar kröfu kæranda um skaðabætur skv. 51. gr. skipulagslaga skal bent á að álitaefni þess efnis eiga ekki undir úrskurðarnefndina.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir fjórbýlishúsi á lóðinni nr. 39 við Borgarholtsbraut.

2/2021 Tunguvegur

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar í Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. Ásgeir Magnússon tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. desember 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa steinsteyptan bílskúr á lóðinni nr. 12 við Tunguveg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. janúar 2021, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Rauðagerði 53, Rauðagerði 55 og Tunguvegi 10, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. desember 2020 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa steinsteyptan bílskúr á lóðinni nr. 12 við Tunguveg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Að öðrum kosti er gerð krafa um að Reykjavíkurborg setji það skilyrði fyrir framkvæmdum að þær fari fram frá Tunguvegi og að svæðið verði afgirt frá Rauðagerði meðan á þeim standi og að aðkomu að Rauðagerði verði lokað. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir: Á lóðinni að Tunguvegi 12 stendur tveggja hæða steinsteypt tvíbýlishús, reist árið 1960, samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Ekki er í gildi deili­skipulag sem tekur til umræddrar lóðar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. ágúst 2020 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja 32,6 m² steinsteyptan bílskúr á umræddri lóð. Var afgreiðslu málsins frestað, en á fundi 1. september s.á. var málinu vísað til skipulags­fulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og ákvað hann á embættisafgreiðslufundi sínum 4. s. m. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Tunguvegi 10 og 14 og Rauðagerði 53 og 55. Stóð grenndarkynningin frá 21. september til og með 19. október 2020 og komu kærendur máls þessa á framfæri athugasemdum. Í umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 30. október 2020, var lagt til að vegghæð bílskúrs yrði ekki hærri en 2,70 m, en að öðru leyti yrði umsókn samþykkt óbreytt. Hinn 11. nóvember 2020 samþykkti skipulags- og samgönguráð erindið með vísan til fyrrnefndrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Tók byggingarfulltrúi umsóknina fyrir að nýju á afgreiðslufundi 8. desember s.á. og samþykkti hana. Var það skilyrði sett fyrir samþykkt umsóknarinnar að ný eignaskiptayfirlýsing yrði samþykkt fyrir útgáfu byggingar­leyfis og að henni yrði þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt. Afgreiðsla byggingarfulltrúa var samþykkt á fundi borgarráðs 7. janúar 2021.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að við meðferð málsins hafi ekki verið virt ýmis ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, s.s. varðandi andmælarétt, rannsókn máls, jafnræði, meðalhóf og leiðbeiningarskyldu. Reykjavíkurborg hafi ekki viðhaft nægjanlega gagnrýna hugsun í störfum sínum og ekki gætt að hagsmunum allra aðila málsins. Hafi leyfishafi notið velvildar vegna starfa sinna og kunningsskapar innan borgarinnar. Málsmeðferð hafi ekki verið nægi­lega vönduð og skort hafi samráð við nágranna. Hefði það verið góð stjórnsýsla að senda íbúum annað bréf eða boða þá til fundar til að skoða möguleikann á samstarfi. Athugasemdum þeirra hafi í einhverjum tilfellum verið sleppt, þeim breytt eða ekki verið svarað efnislega. Ábending varðandi hæð bygginga hafi ekki verið meðal athugasemda sem skipulagsfulltrúi hafi tiltekið í umsögn sinni. Hafi borið að taka til skoðunar allar athugasemdir og óska eftir frekari rökstuðningi og gefa nágrönnum kost á andmælum. Ekki hafi verið tekið tillit til mikilvægra athugasemda um staðsetningu bílskúrsins, stærð hans, hæð, gerð, skuggavarp, gras á þaki bílskúrsins og staðsetningu glugga á honum. Vegna legu byggingarinnar verði hægt að nýta óhindrað aðgengi frá Rauðagerði sem hafi í för með sér aukið ónæði. Hafi leyfishafi ekki farið leynt með að til standi að leigja bílskúrinn út sem íbúð.

Í þinglýstum gögnum sé gerð krafa um ákveðna legu bílskúrs á lóðinni en hinn umdeildi bílskúr sé öðruvísi að lögun, hærri og stærri og staðsettur á öðrum stað en gert sé ráð fyrir. Bendi lögun hans og gerð til þess að verið sé að þétta byggð og að verið sé að stytta sér leið í því ferli sem borgin hafi hafið í þéttingu byggðar. Sé umræddur bílskúr hvorki í samræmi við samþykkta bílskúra við götuna né þinglýst skipulag og kvaðir sem settar hafi verið. Ekki hafi verið hægt að samþykkja leyfi fyrir byggingu umrædds bílskúrs með því að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi heldur hafi þurft að breyta skipulagsáætlunum. Er þess óskað að nefndin skoði þinglýst mæliblað Reykjavíkurborgar og kvöð sem sett hafi verið um legu bílskúrs.

Umræddur bílskúr sé of hár, en bílskúr að Tunguvegi 10 sé 2,5 m að hæð og liggi lóð Tunguvegar 12 hærra. Falli bílskúrinn ekki inn í götumyndina og þyrfti að vera innar á lóðinni til samræmis við þinglýstar heimildir. Gluggi sem snúi að Rauðagerði sé óþarfur og sam­ræmist ekki götumynd. Eðlilegra væri að gluggar sneru að lóð og garði Tunguvegar 12. Hægt hafi verið að koma til móts við kærendur að Rauðagerði og setja frekar þakglugga. Gras á þaki sé ekki í samræmi við neinar byggingar í hverfinu.

Fram komi í skýrslu Minjastofnunar Íslands frá árinu 2014 að mikilvægt sé að tryggja heildstæða vernd á yfirbragði hverfisins og standa vörð um byggðina en ekki liggi fyrir hvort tekið hafi verið tillit til þessara atriða við meðferð málsins. Þá sé óskað álits úrskurðar­nefndarinnar um kvaðir er varði t.a.m. aðgengi á milli lóða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að gluggi á norður­hlið umrædds bílskúrs snúi að göngustíg en ekki inn á lóð Rauðagerðis 53 og hafi ekki áhrif á götumynd. Í samþykktum aðaluppdráttum frá 1966 sé teiknaður sams konar bílskúr og sá sem deilt sé um, eða L-laga bílskúr. Hæðir bílskúra þurfi að miðast við nauðsynlega hæð innkeyrsludyra, burðarviki og þakfrágang. Þak bílskúrsins sé flatt, líkt og á öðrum bílskúrum við Tunguveg. Gras á þakinu muni ekki hafa teljandi áhrif á ásýnd eða heildarútlit götunnar og sé ekkert sem komi í veg fyrir slíkt fyrirkomulag. Vegghæð bílskúrsins sé í samræmi við það sem almennt sé og því ekki um háan bílskúr að ræða. Meðferð byggingarleyfis­umsóknarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við málsmeðferðarreglur skipulagslaga nr. 123/2010.

Ekki sé aðkoma að Tunguvegi 12 frá Rauðagerði nema um göngustíg og ekki sé heimilt að nýta hann til aðkomu eða framkvæmda og uppdrættir sýni ekki aðkomu frá Rauðagerði. Almennt séu byggingarreitir stakstæðra bílageymslna með úthliðar í lóðarmörkum og sé það í fullu samræmi við byggðamynstur Tunguvegar. Slíkt sé þó alltaf skoðað út frá aðstæðum. Ekki standi til að breyta eða bæta við aðgengi frá Rauðagerði, ekki sé um breytta notkun að ræða á lóðinni og ekki sé verið að fjölga íbúðum. Ekkert liggi fyrir um nauðsyn þess að lóðin verði afgirt meðan á framkvæmdum standi en það sé ekki á valdi úrskurðarnefndarinnar að ákveða það. Fullyrðingum um að málinu hafi verið hagrætt í þágu umsækjanda sé alfarið vísað á bug enda hafi kærendur ekki fært fram rök því til stuðnings.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi hefur upplýst úrskurðarnefndina um að stefnt sé að því að framkvæmdir hefjist í mars 2021, en hann hefur að öðru leyti ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóðinni Tunguvegi 12. Ekki mun vera í gildi deili­skipulag sem tekur til lóðarinnar og voru hin umdeildu byggingaráform samþykkt að undan­genginni grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði má veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar þegar um er að ræða framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Lóðin Tunguvegur 12 er á skilgreindu íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og er svæðið að mestu fullbyggt og fastmótað. Á lóðinni stendur steinsteypt 210,8 m² tvíbýlishús og fól hin kærða ákvörðun í sér heimild til að byggja á lóðinni 32,6 m² bílskúr  með 2,70 m vegghæð og torfþaki. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er lóðin 471 m², líkt og lóðirnar Tunguvegur 8, 10 og 14 og eru hús á þeim lóðum frá 152 til 220,2 m² að stærð. Á lóðinni Tunguvegi 8 er 40,6 m² bílskúr og á lóðunum Tunguvegi 10 og 14 eru bílskúrar 28 m² að stærð samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá. Mun hæð bílskúrs að Tunguvegi 10 vera 2,50 m en hæð bílskúrs að Tunguvegi 14 vera 2,65 m samkvæmt gögnum frá kærendum. Standa bílskúrarnir á baklóðum við suður- og austurmörk þeirra. Fram kemur á samþykktum aðaluppdráttum fyrir bílskúr að Tunguvegi 12 að bílskúrinn sé staðsettur við suður- og austurmörk lóðarinnar, að lóðamörkum Tunguvegar 10 og Rauðagerðis 55, og er hann L-laga. Verður þak bílskúrsins flatt. Víkur stærð og hæð skúrsins ekki að marki frá öðrum bílskúrum á fyrrnefndum grannlóðum og er staðsetning hans innan lóðar í samræmi við staðsetningu annarra bílskúra á svæðinu. Með hliðsjón af framangreindu voru skilyrði fyrir grenndarkynningu umræddrar umsóknar uppfyllt.

Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir leyfisumsókn fyrir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Komu kærendur að athugasemdum og tók skipulags-fulltrúi afstöðu til framkominna athugasemda í samræmi við gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar því lögum samkvæmt.

Eins og fyrr er getið er staðsetning, hæð og flatarmál umdeilds bílskúrs í samræmi við það sem gerist og gengur á svæðinu og hefur því svipuð grenndaráhrif og bílskúrar þeir sem fyrir eru á grannlóðum hvað skuggavarp varðar. Er hæð bílskúrsins og umfang ekki meira en almennt gerist með tilliti til nútímakrafna um lofthæð, einangrun þaks og frágang þess. Þá verður ekki séð að innsýn yfir á næstu lóðir frá lóð leyfishafa aukist frá því sem nú er þótt gluggi verði á norðurhlið skúrsins sem snýr að Rauðagerði. Eldvarnareftirlit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins yfirfór hina grenndarkynntu umsókn og gerði ekki athuga­semdir við staðsetningu bílskúrsins með tilliti til sambrunahættu, sbr. gr. 9.7.5. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012.

Hinn 23. september 2020 var þinglýst lóðarleigusamningi milli Reykjavíkurborgar og lóðar­hafa Tunguvegar 12 um lóðina er kveður m.a. á um kvaðir á henni. Ákvarðar sá samningur réttarstöðu greindra aðila, en það er ekki annarra að leiða rétt sinn af honum.

Rétt þykir að benda á vegna athugasemda kærenda er varða framkvæmdir við bílskúrinn að byggingarstjóra og iðnmeisturum er skylt samkvæmt gr. 4.11.3. í byggingarreglugerð að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af fram­kvæmdum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. desember 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa steinsteyptan bílskúr á lóðinni nr. 12 við Tunguveg.

113/2020 Kársnesbraut

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 113/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. október 2020 um að samþykkja tillögu að byggingarleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Þróunarfélagið ehf., eigandi Hafnarbrautar 12, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. október 2020 að samþykkja tillögu að byggingarleyfi fyrir Kársnesbraut 104. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 10. desember 2020.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 2. september 2019 var lögð fram byggingarleyfisumsókn lóðarhafa Kársnesbrautar 104 þar sem óskað var eftir því að reisa tvær viðbyggingar við núverandi hús á lóðinni. Var gert ráð fyrir 80 m2 viðbyggingu á suðurhlið hússins og annarri 1100 m2 viðbyggingu á norðurhlið hússins á þremur hæðum með lyftu og stigahúsi. Samþykkti skipulagsráð að grenndarkynna framlagða tillögu í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var umsóknin grenndarkynnt með athugasemdafresti frá 6. janúar 2020 til 3. febrúar s.á. Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2020 og vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar þar sem athugasemdir bárust á kynningartíma. Á fundi skipulagsráðs 21. september s.á. var umsóknin samþykkt með áorðnum breytingum. Á fundi bæjarráðs 24. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 13. október s.á. var afgreiðsla skipulagsráðs staðfest.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að hann telji að grenndarkynning sú sem liggi til grundvallar byggingarleyfinu hafa verið áfátt í veigamiklum atriðum. Brjóti framlögð tillaga gegn nábýlisrétti og grenndarhagsmunum kæranda, en hann sé að byggja íbúðir á næstu lóð. Þar að auki sé enn sá meginannmarki á allri málsmeðferðinni og hinu kærða byggingarleyfi að notast hafi verið við röng lóðarmörk sem geri það að verkum að Kópavogsbær hafi í raun veitt byggingarleyfi sem heimili lóðarhöfum Kársnesbrautar 104 að byggja bílastæði á lóð Hafnarbrautar 12.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að Kársnesbraut 104 standi á ódeiliskipulögðu svæði og hafi umsókn um byggingarleyfi af þeim sökum verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi málsmeðferðin verið í samræmi við gildandi lög og reglur. Við grenndarkynningu hafi komið fram athugasemdir frá kæranda og gerðar hafi verið breytingar á tillögunni sem hafi komið til móts við athugasemdir kæranda. Jafnframt hafi það verið mat skipulagsyfirvalda að þrátt fyrir að stuðst hefði verið við eldra lóðarblað í kynningu hefði það ekki haft þau áhrif að grenndarkynningaruppdrættir gæfu ranga mynd af hinum kærðu byggingaráformum.

Þá sé vakin athygli á því að þegar þetta sé ritað hafi byggingarfulltrúi ekki samþykkt byggingaráform í samræmi við kynnta tillögu þar sem beðið sé eftir viðbrögðum frá hönnuði við athugasemdum byggingarfulltrúa á tæknilegum útfærslum á aðaluppdrætti.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til þeirra sömu atriða og fram koma í greinargerð bæjaryfirvalda. Að auki hafi tillögunni verið breytt að grenndarkynningu lokinni til að koma til móts við athugasemdir kæranda. Breytingarnar hafi falið í sér að húsið væri stallað inn að vestanverðu eins og hægt sé, þaklína þess lækkuð næst götunni og húsið tekið upp í fulla hæð um tvo metra frá útvegg, svo að þaklínan héldi sér frá götunni. Auk þess hafi verið sett inn valma sneiðing á gaflinn sem snúi í vestur til að lækka hann. Lengra sé ekki hægt að ganga þar sem frekari minnkun myndi gera það að verkum að fyrirhuguð vélasamstæða sem viðbygging eigi að hýsa komist ekki fyrir í húsinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að mótvægisaðgerðir sem bent sé á komi að litlu sem engu leyti til móts við ábendingar hans. Notast sé við rangt lóðarblað sem geri það að verkum að bílastæði nágranna lendi á lóð Hafnarbrautar 12. Ekki fylgi byggingarlýsing aðaluppdráttum og séu þeir illa málsettir. Teikningar sem sýni skuggavarp séu enn fremur ekki meðfylgjandi aðaluppdráttum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða þó ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds.

Endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfu þess er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar þar sem staðfest var afgreiðsla skipulagsráðs, er liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin hefur aflað þeirra upplýsinga frá Kópavogsbæ að byggingaráform á grundvelli hinnar kærðu afgreiðslu hafi ekki verið samþykkt á þeim tíma sem liðinn er frá kæru. Er því ekki að svo stöddu fyrir hendi samþykkt byggingarleyfi sem kæranlegt er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, enda er meðferð hinnar umdeildu byggingarleyfisumsóknar ekki lokið. Ljúki henni með því að byggingarfulltrúi veiti leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

115/2020 Laufskógar

Með

Árið 2021, föstudaginn 12. febrúar 2020, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 115/2020, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Hveragerðis frá 8. október 2020 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. nóvember 2020, er barst nefndinni 12. s.m., kærir eigandi Laufskóga 19, þá afgreiðslu bæjarstjórnar Hveragerðis frá 8. október 2020 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé  krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 10. desember 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 18. ágúst 2020 var lögð fram umsókn um byggingarleyfi fyrir einnar hæðar íbúðarhúsi á lóðinni Laufskógar 21. Afgreiddi nefndin málið með þeim hætti að vekja  athygli á því að húsið yrði staðsett nokkuð nærri lóðarmörkum og lagði til að málinu yrði vísað í grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkti bæjarráð þá afgreiðslu á fundi sínum 20. ágúst 2020. Með bréfi skipulagsfulltrúa sama dag var umsóknin grenndarkynnt fyrir hagsmunaaðilum og frestur gefinn til að koma að athugasemdum til 20. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 6. október s.á. var umsóknin tekin fyrir að nýju og hún samþykkt með þeim breytingum að fjarlægð hússins frá lóðarmörkum yrði 5 m. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 8. október 2020.

Kærandi bendir á að einbýlishúsið eigi að rísa á lóð þar sem fyrir séu fjórir kofar og því muni lóðin breytast í fjölbýlishúsaslóð. Lóðarteikningar séu rangar því einungis séu sýndir þrír kofar. Staðsetning einbýlishússins innarlega á lóðinni sé í ósamræmi við byggðarmynstur auk þess sem staðsetningin muni trufla garðrými og næði nágrannalóða. Fyrirhugaður aðkomuvegur búi til botnlanga inn af lóðinni og trufli enn frekar garðrými kæranda. Samkvæmt Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029 sé lóðin á svæði sem sé fullbyggt fyrir utan þéttingarmöguleika á garðyrkjulóðum. Því sé byggingarleyfið ekki í samræmi við aðalskipulag. Þá hafi grenndarkynning verið ófullnægjandi þar sem öllum athugasemdum kæranda hafi ekki verið svarað af skipulags- og mannvirkjanefnd.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er bent á að bæði skipulags- og mannvirkjanefnd og bæjarstjórn hafi svarað innsendum athugasemdum. Það hafi verið mat skipulagsfulltrúa að framkvæmdin félli vel að yfirbragði byggðar og stefnumörkun í Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar 2017-2029. Í skipulaginu sé svæðinu lýst sem fullbyggðu svæði þar sem fyrir sé blönduð byggð garðyrkjustöðva og íbúðabyggðar á 1-2 hæðum, aðallega einbýlishús á stórum lóðum. Fram komi í skipulagsskilmálum að heimilt sé að auka byggingarmagn núverandi íbúðarlóða og skuli þá leitast við að halda götumynd eins og kostur sé. Nýtingarhlutfall sé 0,3 til 0,45. Byggingarleyfið sé því í samræmi við aðalskipulag.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði.

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, en þá skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er tiltekið í lagagreininni að þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr sömu laga. Endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis í kjölfar grenndarkynningar er hins vegar á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki sem eru rakin hér að framan.

Hin kærða afgreiðsla bæjarstjórnar frá 8. október 2020 er ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 heldur liður í málsmeðferð sem lýkur með ákvörðun byggingarfulltrúa. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu hefur ekkert byggingarleyfi enn verið samþykkt eins og áskilið er skv. lögum nr. 160/2010 þar sem tilskilin gögn liggja ekki fyrir. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í máli þessu verður ekki hjá því komist að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Þó þykir rétt að benda á að veiti byggingarfulltrúi leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð við þá ákvörðunartöku í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

129/2020 Hólmasel

Með

Árið 2021, mánudaginn 8. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 129/2020, kæra vegna óhæfilegs dráttar á á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna Hólmasels 2, Reykjavík, og álagningu fasteignagjalda fyrir sömu eign.   

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2020, er barst nefndinni 8. s.m., kærir eigandi eignarhluta 01-0103 og 01-0104 í fasteigninni Hólmasel 2, Reykjavík, óhæfilegan drátt á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar hans vegna Hólmasels 2 og álagningu fasteignagjalda fyrir sömu eign. Verður að skilja málatilbúnað kæranda sem svo að þess sé krafist að úrskurðað verði að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda og að ákvarðanir um álagningu fasteignagjalda verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. janúar 2021.

Málavextir: Hinn 18. desember 2017 sótti kærandi um byggingarleyfi vegna eignarhluta 01-0104 í fasteigninni Hólmasel 2 og var með umsókninni sótt um „[t]ilfærsl[u] á innveggjum vegna íbúðarbreytingar. Stækkun á íbúð og baðherbergi, þannig að bílskúr minnkar.“ Erindi kæranda var hafnað af byggingarfulltrúa þar sem samþykki meðeigenda skorti. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 11. júní 2019 í máli nr. 47/2018. Í kjölfarið sendi kærandi inn nýja umsókn 21. nóvember 2019 og var erindinu vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. desember s.á.. Hinn 20. s.m. barst úrskurðarnefndinni kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar kæranda. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. janúar 2020 þar sem því var frestað. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 27. febrúar s.á., í máli nr. 131/2019, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að rétt væri að byggingarfulltrúi tæki fyrirliggjandi umsókn kæranda til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Á afgreiðslufundum byggingarfulltrúa 21. apríl 2020, 28. s.m og 12. maí s.á. var erindið tekið fyrir að nýju og að endingu var það samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 10. nóvember s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á tafir á afgreiðslu erindi hans hafi staðið yfir í um þrjú ár. Þá hafi það verið mistök hjá embætti byggingarfulltrúa að breyta notkun á eignarhluta 01-0104 í atvinnuhúsnæði en fasteignagjöld í þeim flokki séu 1,47% hærri en hjá íbúðum. Því sé um ólöglega gjaldtöku að ræða. Það sama gildi um eignarhluta 01-0103 en hann eigi að skrá sem ósamþykkta íbúð. Óheimilt sé að innheimta fasteignagjöld af þeim eignarhluta sem atvinnuhúsnæði þar sem engin virðisaukaskattskyld starfsemi fari þar fram.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er því mótmælt sem röngu að málið hafi tafist með óeðlilegum hætti. Ítrekaðar frestanir á afgreiðslu erindisins megi rekja til þess að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum sem snúið hafi að uppfærðri skráningartöflu fyrir fasteignina. Fyrir liggi að kærandi hafi nú þegar fengið úrlausn erindis síns með samþykki byggingarleyfisins. Kærandi hafi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærumálsins þar sem kæruefnið hafi nú þegar verið afgreitt. Sé þess því krafist að þeim kærulið verði vísað frá úrskurðarnefndinni.

Heimild sveitarstjórnar til álagningar fasteignaskatts fari skv. 4. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segi að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á því sviði. Hvorki verði séð að lög nr. 4/1995 hafi að geyma kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar né að álagning fasteignaskatts geti fallið undir málefnasvið umhverfis- og auðlindamála. Af þeim sökum sé einnig gerð krafa um að þeim kærulið verði vísað frá.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu í 2. mgr. 29. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar fyrir breyttri notkun eignarhluta 01-0104 í fasteigninni Hólmaseli 2, Reykjavík, en fyrir liggur að byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 10. nóvember 2020. Hefur því verið bundinn endir á málið en sú afgreiðsla er ekki kærð. Hefur ekki þýðingu að lögum að úrskurða um drátt á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi sem hefur þegar verið samþykkt. Verður þeim hluta kærunnar því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Einnig er kærð álagningu fasteignagjalda vegna eignarhluta 01-0103 og 0104 í sömu fasteign. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Um álagningu fasteignaskatts er fjallað í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en almenna kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er ekki að finna í þeim lögum. Brestur úrskurðarnefndina því vald til að taka kæruefnið til endurskoðunar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

88/2020 Ásvallagata

Með

Árið 2021, föstudaginn 8. janúar, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2020, er barst nefndinni 30 s.m., kæra eigendur, Ásvallagötu 23, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt eru gerðar kröfur um að framkvæmdin uppfylli öll lög og reglugerðir, að haft verði nákvæmara eftirlit, að gengið verði frá húsi kærenda eins og það hafi upphaflega verið, að skoðað verði hvort byggingarstjóri hafi tilheyrandi starfsleyfi og tryggingar og að kærendur séu upplýstir ef breytingar verði á fyrirhuguðum verklokum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. október 2020.

Málavextir: Hinn 7. nóvember 2006 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi sem fólst m.a. í því að gera þaksvalir og aðkomurými úr gleri á húsinu nr. 21 við Ásvallagötu, en byggingarleyfið var síðan endurnýjað á árinu 2009. Gerð var breyting á leyfinu árið 2010 sem fólst m.a. í því að breyta þakgerð á þaksvölum úr glerþaki í bárujárnsþak. Þá var aftur gerð breyting á leyfinu árið 2017 sem fólst m.a. í því að samþykkja reyndarteikningar af þaksvölum vegna lokaúttektar. Leyfishafar festu kaup á fasteigninni að Ásvallagötu 21 í júní 2018, en frágangi vegna framkvæmda á þaksvölum mun þá ekki hafa verið lokið.

Með bréfi, dags. 19. maí 2020, sendu kærendur minnisblað til byggingarfulltrúa vegna framkvæmdanna þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum vegna þeirra. Kom þar m.a. fram að íbúar í húsi kærenda hafi orðið varir við leka í íbúðum sínum sem þeir telji að megi rekja til framkvæmdanna. Gerðu kærendur ýmsar kröfur í minnisblaðinu, þ. á m. að ef fyrirhugað væri að leyfa breytingar á verklokum yrðu þeir upplýstir um það. Hinn 1. júlí 2020 sóttu leyfishafar um byggingarleyfi fyrir breytingum á þaksvölum hússins og kom þar fram að einungis væri um útfærslubreytingar að ræða. Breytingar hafi verið gerðar á hliðarveggjum aðliggjandi húsa en séu alfarið innan lóðarmarka Ásvallagötu 21. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. s.m. var bókað að sótt væri um leyfi til að breyta áður samþykktu byggingarleyfi vegna lokaúttektar sem fælist í því að gaflar yrðu klæddir á húsinu. Var umsóknin samþykkt.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi fyrst fengið fregnir af samþykki um­deilds byggingarleyfis þegar þeir hafi haft samband við byggingarfulltrúa 10. september 2020. Því sé kæran lögð fram innan kærufrests.

Samþykki umsóknarinnar hafi komið kærendum á óvart þegar tekið sé tillit til þess að þeir hafi sent minnisblað til byggingarfulltrúa 19. maí 2020 þar sem skilmerkilega hafi verið gerð grein fyrir fjölmörgum göllum við framkvæmd þaksvalanna. Í umsókninni komi fram að ekki sé um stækkun að ræða heldur einungis útfærslubreytingu. Hið rétta sé að svalirnar hafi breikkað um 180 cm, 90 cm hvoru megin, frá þeim áformum sem hafi verið grenndarkynnt og þau samþykkt. Í umsókninni segi einnig að allar breytingar séu innan lóðarmarka Ásvallagötu 21, en hið rétta sé að til standi að klæða gaflinn á Ásvallagötu 23. Svalagólfið muni ná upp að húsgafli húss kærenda og svalirnar séu 4-5 m2 stærri en á fyrri teikningum. Að kærendum óspurðum hafi verið byggt ofan á þak þeirra og göt boruð í vegg og bárujárn, sem gæti hafa valdið leka og geti valdið leka í framtíðinni.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli bera breytingar sem þessar undir nágranna sem eigi hagsmuna að gæta áður en samþykki sé veitt. Hagsmunir kærenda séu miklir en vatnstjón hafi nú þegar orðið í þremur íbúðum vegna leka frá svölum. Teikningarnar, sem sýni að gólf svalanna endi upp við gafl, hafi aldrei verið bornar undir kærendur. Fjölmargir sérfræðingar séu sammála um að svalagólf sem endi við samskeyti húsa feli í sér aukna hættu á vatnsleka, en á þeim teikningum sem kynntar hafi verið fyrir kærendum og þeir samþykkt hafi 90 cm þakkantur verið á húsi Ásvallagötu 21, á milli svalanna og gaflsins á húsi kærenda. Þegar áður samþykktar teikningar séu bornar saman við þær teikningar sem nú hafi verið samþykktar sjáist greinilega að um umtalsverða stækkun sé að ræða. Þá sé eldvörnum ábótavant þar sem þak hafi verið hækkað með forsköluðum timburvegg á milli húsanna, en einnig sé forskalaður timbur­­­veggur, þ.e. timbur með vírneti og steypu, yfir steyptum eldvarnarvegg milli húsanna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni. Ljóst megi vera að kærendum hafi verið kunnugt um framkvæmdina allt frá því fyrst hafi verið leitað leyfis þeirra vegna fram­kvæmdarinnar. Hafi kærendur verið meðvitaður um framkvæmdirnar, sbr. nýlegt erindi þeirra til byggingarfulltrúa.

Árið 2010 hafi þaki yfir svölum samkvæmt byggingarlýsingu verið breytt úr glerþaki í hefðbundið bárujárnsþak. Sótt hafi verið um samþykki fyrir reyndarteikningum af þaksvölum vegna lokaúttektar sem varði útfærslu þaksvala á árinu 2017. Með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið sótt um samþykki fyrir nýrri útfærslu á þaki svalanna þar sem byggt sé glerhýsi ofan á þær. Samkvæmt uppdráttum sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn sé breytingin innan þeirra stærðarmarka sem samþykktar hafi verið árið 2017 og því sé ekki um að ræða stækkun. Kærð stækkun hafi í raun átt sér stað fyrr eða á árinu 2017.

Fram komi í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarfulltrúi skuli leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á því hvort framkvæmd samræmist skipulagsáætlun sveitarfélagsins. Í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu byggingarleyfis. Fram komi að sé framkvæmd í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn ákveðið að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar. Skilyrði fyrir slíkri málsmeðferð sé að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Ekkert deiliskipulag sé í gildi á umræddu svæði og því gildi nefnd 44. gr. skipulagslaga. Byggingarfulltrúi hafi metið það svo að ekki væri þörf á aðkomu skipulags­fulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð krafa um frávísun málsins þar sem kærendur hafi sent kæruna að liðnum kærufresti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra hafi verið send 76 dögum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vefsvæði Reykjavíkurborgar og því sé kærufrestur liðinn. Kærendur hafi fylgst grannt með hinum umdeildu framkvæmdum og verið í tíðum samskiptum við starfsmenn byggingarfulltrúa vegna þeirra. Fyrir liggi tölvupóstur frá starfsmanni byggingarfulltrúa 9. september 2020 til annars leyfishafa þar sem fram komi að einn eigenda Ásvallagötu 23 óski eftir upplýsingum um stöðu byggingarleyfis. Það sé því ljóst að kærendur hafi verið upplýstir um hina kærða ákvörðun þann dag og hafi raunar verið  upplýstir um hana allt frá þeim tíma sem hún hafi verið birt. Þá komi fram í byggingarsögu að aðilar á vegum kærenda hafi óskað 22. júlí 2020 eftir afriti allra gagna sem varði framkvæmdina.

Málsmeðferð byggingarleyfisins hafi á allan hátt verið lögmæt. Hin kærða ákvörðun feli í sér óverulega breytingu á áður útgefnu byggingarleyfi sem snerti hagsmuni kærenda ekki á nokkurn hátt, enda séu þær allar innan lóðarmarka og hafi engin nábýlisréttarleg áhrif á kærendur. Skerði breytingin í engu hagsmuni nágranna hvað varði landnotkun, útsýni, skuggavarp, innsýn eða aðra hagsmuni. Rúmist sú breyting að öllu leyti innan ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í þessu samhengi sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að í hinni kærðu ákvörðun felist samþykki fyrir stækkun svalanna um 180 cm. Hið rétta sé að stærð svala sé óbreytt, fari hvorki yfir lóðarmörk né byggingarreit hússins og sé í samræmi við áður útgefið byggingarleyfi. Eina breytingin felist í smávægilegum frágangi sem engum sé sýnileg öðrum en leyfishöfum. Bent sé á að ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem kærendur vísi til, eigi við um málsmeðferð við breytingu á deiliskipulagi, en um það sé ekki að ræða í máli þessu.

Þá sé bent á að breytingin ein og sér væri í öllu falli ekki byggingarleyfisskyld á grundvelli gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, enda væri þá um að ræða endurnýjun þakkants og veggklæðningar þar sem sambærilegt efni og frágangur væri notaður og samþykkt hafi verið í upphaflegu byggingarleyfi auk þess sem útliti byggingarinnar væri svo til ekkert breytt. Slíkar framkvæmdir einar og sér væru einfaldlega ekki byggingarleyfisskyldar. Kærumálið muni ekki leysa úr ágreiningi um hvort rekja megi leka til frágangs á þaki sem leyfishafar leitist nú við að lagfæra. Sú deila hafi ekkert með forsendur byggingarleyfisins að gera. Kærendur vilji að framkvæmdirnar séu gerðar á þeirra forsendum og í samráði við þá. Það hafi ekkert með lögmæti byggingarleyfisins að gera heldur varði það hvort rekja megi rakatjón til þeirra framkvæmda sem þegar hafi átt sér stað. Hvað sem öðru líði sé bent á að ákvæði um grenndarkynningu byggingarleyfisskyldra framkvæmda sé einfaldlega ekki ætlað að vernda hagsmuni af þessum toga og væri það í andstöðu við markmið laga að fallast á sjónarmið kærenda. Vettvangurinn fyrir úrlausn deilu milli leyfishafa og kærenda sé ekki þetta kærumál.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Fundargerð byggingarfulltrúa, sem m.a. hafði að geyma hina kærðu ákvörðun, mun hafa verið birt á heimasíðu borgarinnar í kjölfar afgreiðslufundar hans 14. júlí 2020. Sá birtingarmáti telst ekki til opinberrar birtingar í skilningi 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Getur birting fundargerðar byggingarfulltrúa því ekki markað upphaf kærufrests í máli þessu, enda er ekki fyrir hendi sérstök lagaheimild um að slík birting teljist vera opinber birting. Ekkert liggur fyrir um að kærendum hafi mátt vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun meira en mánuði áður en kæra barst úrskurðarnefndinni 30. september 2020. Verður því við það að miða að kæran hafi borist innan lögmælts kærufrests. Hið kærða byggingarleyfi snertir framkvæmdir á þakfleti hússins að Ásvallagötu 21, sem er sambyggt húsi kærenda, og er ekki útilokað að ákvörðunin geti haft áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra eins og atvikum er háttað. Verða þeir því taldir eiga kæruaðild í máli þessu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því einvörðungu tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21, en upphaflegt byggingarleyfi til að gera þaksvalir og aðkomurými er frá árinu 2009. Ágreiningur í málinu lýtur m.a. að því hvort byggingarleyfið feli einungis í sér útfærslubreytingu vegna frágangs, líkt og kemur fram í byggingarleyfinu, eða hvort um stækkun á umræddum svölum sé að ræða, eins og kærendur halda fram.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulagi liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að grenndarkynning felist í því að skipulags­nefnd kynni leyfisumsóknina nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests. Þó er skipulagsnefnd heimilt skv. 3. mgr. ákvæðisins að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og/eða umsækjenda.

Líkt og rakið var í málavöxtum var með umsókn hins kærða byggingarleyfis sótt um leyfi vegna breytinga sem gerðar höfðu verið á hliðarveggjum aðliggjandi húsa. Á samþykktum uppdráttum hins kærða byggingarleyfis kemur fram að um sé að ræða útfærslubreytingar sem gerðar hafi verið eftir að reyndarteikningar hússins voru samþykktar árið 2017. Hins vegar verður af samanburði teikninga sem samþykktar voru árið 2017 og samþykktra teikninga vegna umþrætts byggingarleyfis ráðið að svalirnar hafa breikkað og ná nú að gafli húss kærenda að Ásvallagötu 23 auk þess sem svalahandrið hefur færst utar. Er því ljóst að ekki er einungis um útfærslubreytingu að ræða, svo sem kemur fram bæði í umsókn um byggingarleyfi og á samþykktum uppdráttum. Hin kærða ákvörðun heimilar stækkun svalanna auk þess sem þær ná að gafli húss kærenda. Bar því samkvæmt fyrrnefndri 44. gr. skipulagslaga að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina áður en byggingarfulltrúi tók afstöðu til hennar.

Að öllu framangreindu virtu verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. júlí 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á þaksvölum hússins að Ásvallagötu 21.