Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2013 Ytri – Skógar

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. I og S, Ytri-Skógum 2 og 3, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga, Rangárþingi eystra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Hinn 23. febrúar 2012 var á fundi skipulagsnefndar Rangárþings bs. lögð fram lýsing af skipulagsverkefni fyrir byggingar, aðkomu og samgöngur að Skógum. Tók lýsingin til alls mannvirkjasvæðis Ytri-Skóga, norðan þjóðvegar nr. 1. Var lýsingin samþykkt en settur fyrirvari um samþykki landeigenda. Einnig var mælst til þess að leitað yrði umsagna um lýsinguna og hún kynnt íbúum og öðrum hagsmunaaðilum. Lá samþykki landeigenda, þ.e. héraðsnefndar Rangæinga og héraðsnefndar Vestur-Skaftafellssýslu, fyrir 27. og 29. febrúar s.á. Sveitarstjórn Rangárþings eystra tók málið fyrir 8. mars 2012 og staðfesti greinda afgreiðslu. Í kjölfar þess var lýsingin kynnt almenningi og hagsmunaðilum.

Tillaga að deiliskipulagi Ytri-Skóga var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 21. maí 2012. Gerði hún m.a. ráð fyrir nýjum íbúðarhúsum, að upphaf vegslóða inn á Fimmvörðuháls yrði fært austar og að tjaldsvæði yrðu færð. Var tillagan samþykkt og mælst til þess að hún yrði auglýst til kynningar. Haldinn var íbúafundur 24. s.m. þar sem tillagan var kynnt og einnig munu hafa verið haldnir fundir með hagsmunaaðilum og Skipulagsstofnun. Hinn 14. júní 2012 var tillagan lögð fyrir sveitarstjórn sem samþykkti auglýsingu hennar. Í kjölfar þess var tillagan auglýst og gefinn frestur til að koma að athugasemdum til 1. ágúst s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum máls þessa.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir að nýju á fundi 13. september 2012. Kynntar voru tillögur að svörum við fram komnum athugasemdum og tekið undir þær. Lagðar voru til breytingar á tillögunni er lutu að því að tekin yrði út gönguleið um hlað á Ytri-Skógum, gert yrði ráð fyrir bílastæðum fyrir rútur norðan gamla barnaskólans og breytingar gerðar á tveimur frístundalóðum austan við Fjósagil. Sveitarstjórn tók málið fyrir sama dag og vísaði afgreiðslu þess til frekari umfjöllunar í skipulagsnefnd og til síðari umræðu í sveitarstjórn. Tillagan var til umfjöllunar á fundi skipulags- og byggingarnefndar Rangárþings eystra 30. október 2012 og var fært til bókar að hún væri samþykkt með nokkrum minni háttar breytingum. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 8. nóvember s.á. og eftirfarandi bókað: „Lögð er fram greinargerð skipulags- og byggingarnefndar þar sem er yfirlit yfir athugasemdir sem gerðar voru við tillögu að deiliskipulagi fyrir Ytri-Skóga og svör við þeim. Sveitarstjórn samþykkir greinargerðina og að allir sem gerðu athugasemdir fái senda greinargerðina í heild. Sveitarstjórn samþykkir tillögu að deiliskipulagi fyrir Ytri-Skóga dags. 25. september 2012 með áorðnum breytingum.“

Í kjölfar þessa var Skipulagsstofnun sent deiliskipulagið til lögboðinnar athugunar. Með bréfi, dags. 6. desember 2012, gerði stofnunin athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins og tiltók ýmis atriði sem hún taldi að leiðrétta þyrfti eða þörfnuðust nánari skýringa. Var málið lagt fyrir að nýju hjá skipulags- og byggingarnefnd 20. desember s.á. Samþykkt var að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar og var bókað að gerðar hefðu verið minni háttar breytingar á skipulagsgögnum til samræmis. Var skipulagsfulltrúa falið að svara öðrum athugasemdum Skipulagsstofnunar og tillagan, með áorðnum breytingum, dags. 20. desember 2012, samþykkt. Tók sveitarstjórn málið fyrir að nýju 10. janúar 2013 og samþykkti þá afgreiðslu. Hún var síðan send Skipulagsstofnun sem gerði nú ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um gildistöku. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 6. febrúar 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu ábúendur jarðarinnar Ytri-Skóga. Hafi þeir stundað búskap á jörðinni í áraraðir og sinnt ferðaþjónustu á svæðinu. Muni deiliskipulagið hafa talsverðar breytingar í för með sér varðandi skipulag svæðisins og mikil áhrif fyrir kærendur. Sé það haldið verulegum form- og efnislegum annmörkum.

Deiliskipulagstillagan hafi ekki verið kynnt með formlega réttum hætti. Auglýst tillaga hafi tekið miklum breytingum frá kynntri tillögu og hafi hún þar af leiðandi ekki fengið þá meðferð sem kveðið sé á um í 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillögunni hafi enn verið breytt eftir að fresti til athugasemda hafi verið lokið, t.d. varðandi framtíðarbyggingarsvæði við Fosstún. Ákveðin festa sé nauðsynleg þegar komi að kynningu á deiliskipulagi. Sæti tillaga sífelldum breytingum, meðan á kynningu hennar standi, eigi þeir sem hagsmuna eigi að gæta þess ekki kost að gera athugasemdir, enda erfitt að sjá hvað verið sé að leggja til. Að auki hafi Skipulagsstofnun gert verulegar athugasemdir við tillöguna. Hafi henni verið breytt í kjölfar þess og samþykkt þannig en ekki virðist hafa verið farið að nefndum athugasemdum að öllu leyti. Einnig sé enn misræmi á milli deiliskipulagsuppdráttar og greinargerðar. Auki þetta enn á óvissuna um hvað verið sé að leggja til og skerði möguleika á að gera athugasemdir. Þá fullnægi rökstuðningur sveitarstjórnar í svörum við fram komnum athugasemdum ekki skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verulegar athugasemdir séu gerðar við vegslóða þann er nú liggi upp með heimreið og gegnum hlöð kærenda. Geri deiliskipulagið ráð fyrir að vegstæði hans verði fært til austurs og að vegurinn muni sameinast núverandi vegslóða nokkru ofar. Muni vegstæðið verða í gróinni brekku og beitilöndum kærenda með tilheyrandi röskun á hagsmunum þeirra og starfsaðstöðu. Standist ákvörðun þessi ekki lög. Ekki sé gert ráð fyrir neins konar vegaframkvæmdum upp á Fimmvörðuháls í Aðalskipulagi Rangárþings eystra 2003-2015, hvorki fjallvegum, vegslóðum né öðrum vegum. Breyti hér engu þótt einungis sé verið að færa hluta vegslóðans en ekki hann allan. Jafnframt sé skírskotað til ákvæða 5. gr. og 1. mgr. 7. gr. jarðalaga nr. 81/2004, en þar komi m.a. fram að ef fyrirhugað sé í skipulagi að breyta landnotkun svæða sem nýtt hafi verið til landbúnaðar, skuli leyfi ráðherra til að leysa landið úr landbúnaðarafnotum liggja fyrir áður en viðkomandi skipulagsáætlun hljóti endanlega afgreiðslu. Slíks samþykkis hafi ekki verið aflað. Þá verði legu vegslóðans ekki breytt nema í samræmi við ákvæði byggingarbréfs og þau ákvæði ábúðalaga sem um það gildi. Samkvæmt byggingarbréfi sé landeigendum einungis heimilt að taka land undan ábúð ef það skerði ekki aðstöðu til búrekstrar að mati héraðsráðunauts. Umræddar breytingar muni gera það, samkvæmt greinargerð héraðsráðunauts og hafa veruleg áhrif á aðgang með sauðfé að afréttarlöndum á heiðinni fyrir ofan svæðið. Hafi kærendur aðeins yfir að ráða um 40-50 ha af ræktuðu landi.

Nefndur vegslóði flokkist undir einkaveg í skilningi 11. gr. laga nr. 80/2007. Af því leiði að hann lúti forræði kærenda sem lífstíðarábúenda jarðarinnar. Bresti sveitarfélaginu heimildir til að gera í deiliskipulagi ráð fyrir vegslóða í andstöðu við þá sem hafi forræði á því landi sem vegslóðinn eigi að liggja um. Loks liggi ekkert kostnaðarmat eða kostnaðaráætlun til grundvallar því að umrædd leið sé ódýrasti kosturinn af þeim leiðum sem skoðaðar hafi verið og sú sem minnstu raski valdi. Byggi ákvörðun sveitarstjórnar á getgátum og þar með ómálefnalegum sjónarmiðum. Hafi sveitarstjórn vanrækt rannsóknarskyldu sína, sbr. hér 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og gangi skipulagning slóðans jafnframt að öðru leyti gegn öllum meðalhófssjónarmiðum, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur hafi lagt til aðra staðsetningu fyrir vegslóðann. Muni sú leið í engu raska Völvuleiði eða rústum beitarhúsa, svo sem ýjað sé að í svörum sveitarstjórnar. Geti sveitarstjórn því ekki lagt fram slík sjónarmið til grundvallar staðsetningu vegslóðans.

Raðhúsabyggð, sem gert sé ráð fyrir nokkru vestan við skólabygginguna, sé óþörf og verulega illa staðsett, en nefndum vegslóða yrði þar best fyrir komið. Mætti finna raðhúsabyggðinni annan stað og beri að fella ákvörðunina úr gildi hvað þetta varði að teknu tilliti til meðalhófssjónarmiða. Deiliskipulagið sé einnig í trássi við gildandi aðalskipulag, svo sem um framtíðarbyggingarsvæði að Fosstúni og skógrækt sunnan Kvernu. Þá verði enn frekar gengið á ræktað land kærenda verði byggingum komið fyrir norðan við Fosstún.

Gert sé ráð fyrir bílastæðum fyrir rútur norðan við gamla barnaskólann, þ.e. inn á ræktuðu landi og túni kærenda. Ekki verði annað ráðið en að bílastæðin séu að miklu leyti inn á friðlýstu svæði með Skógaá en í engu sé að því vikið í greinargerð deiliskipulagsins hvort gætt hafi verið ákvæða laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Þá virðist þau liggja út fyrir skipulagt svæði samkvæmt aðalskipulagi. Gangi fyrirhuguð staðsetning þeirra gegn áðurnefndu byggingarbréfi og ákvæðum ábúðar- og jarðalaga. Jafnframt sé gerð athugasemd við framtíðaraðkomuleið að bílastæði við Skógafoss.

Hagsmunir annarra aðila á svæðinu hafi verið settir í forgang á kostnað kærenda. Gangi deiliskipulagið gegn öllum jafnræðissjónarmiðum, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Sömuleiðis gangi það gegn venjuhelguðum grenndar- og nábýlisreglum íslensk réttar og að öðru leyti gegn friðhelgu einka- og fjölskyldulífi kærenda.

Málsrök Rangárþings eystra: Sveitarfélagið mótmælir því að ákvæðum skipulagslaga hafi ekki verið fylgt við meðferð málsins. Kynningar á lýsingu skipulagstillagna og tillagna að skipulagi séu hugsaðar sem samráðsvettvangur við íbúa og hagsmunaðila til að fá fram þeirra sjónarmið áður en tillaga að skipulagi sé auglýst. Eðlilegt sé að tillaga taki breytingum í þessu samráðsferli. Geri skipulagslögin ekki ráð fyrir að nefndar kynningar séu endurteknar þótt gerðar séu breytingar á tillögu áður en hún sé auglýst formlega til kynningar. Ekki hafi verið um grundvallarbreytingar að ræða. Engar verulegar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni eftir auglýsingu hennar. Þá hafi ekki verið gerðar neinar breytingar sem gengið hafi á hagsmuni kærenda, þvert á móti. Því sé andmælt að Skipulagsstofnun hafi gert verulegar athugasemdir við tillöguna að lokinni auglýsingu. Ekki sé ljóst hvaða misræmi eigi að vera milli greinargerðar og uppdráttar deiliskipulagsins.

Vegslóði á Fimmvörðuháls sé ekki í andstöðu við aðalskipulag. Með færslu upphafs slóðans sé ekki verið að gera nýjan veg/vegslóða. Gerð sé lítil háttar breyting á upphafi slóðans sem verði til þess að uppakstursleiðin færist úr bæjarhlaðinu á Ytri-Skógum og valdi ábúendum minna ónæði en nú sé. Vegslóðinn sé einungis sýndur til skýringar í gildandi aðalskipulagi og kalli tilfærsla hans ekki á breytingu á aðalskipulagi. Kærendur líti svo á að umræddur slóði sé einkavegur en ekki sé gert ráð fyrir að slíkir vegir séu sýndir í aðalskipulagi.

Deiliskipulagið geri hvorki ráð fyrir að taka land úr landbúnaðarnotum né undan ábúð. Lítið meira land, ef nokkuð, fari undir nýja hluta slóðans en farið hafi undir þann eldri. Ekki komi fram í greinargerð héraðsráðunauts að stæðið fyrir slóðann sem slíkan muni skerða land til landbúnaðarnota. Sveitarfélagið og landeigendur hafi alla tíð lagt áherslu á að bæta ábúendum land sem tapist vegna framkvæmdanna, m.a. verði eldri hluti vegslóðans græddur. Ekki sé gert ráð fyrir að vegurinn verði opinn almenningi. Beitarland tapist því ekki vegna hans. Heimilt sé að girða slóðann til að hægt sé að nýta landið til búrekstrar. Fallið hafi verið frá gerð bílastæða neðan við hann til að koma til móts við sjónarmið kærenda. Leiði það ekki til ógildingar á deiliskipulagi þótt rétthafar eða landeigendur kunni að eiga rétt á bótum eða ef í ljós komi að slóðinn verði ekki færður nema með samkomulagi við ábúendur.

Sveitarfélög fari með skipulagsvald á öllu landi innan staðarmarka viðkomandi sveitarfélags og skipti eignarhald lands og mannvirkja ekki máli. Sveitarfélagið hafi því heimild að lögum til að vinna skipulag að svæðinu og ákveða hvar upphaf umrædds slóðar skuli liggja til framtíðar. Nefndur slóði sé nauðsynleg aðkoma upp á afréttinn/fjalllendið fyrir ofan Skóga, m.a. vegna öryggis þeirra sem fari um svæðið. Lega slóðans varði einnig aðra hagsmunaaðila sem á svæðinu séu og almenning. Hafi framtíðarlega slóðans áhrif á skipulagið í heild. Heimilt sé að kveða á um legu einkavega í deiliskipulagi.

Því sé mótmælt að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína við mat á því hvaða leiðir væru heppilegar. Farið hafi verið nokkuð ítarlega yfir mögulegar leiðir, áhrif þeirra og kostnað. Aðrar leiðir séu mun lengri og valdi miklu meira raski á náttúru svæðisins. Leið sú sem valin hafi verið sé ódýrust samkvæmt grófu kostnaðarmati. Ekki hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu við ákvörðunina og búi lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki henni.

Mikilvægt sé talið að styrkja Skógasvæðið með framboði á nýjum íbúðarlóðum og taki staðsetning raðhúsabyggðarinnar m.a. mið af því að nýta núverandi vegi, veitukerfi og styrkja byggðarmynstur svæðisins. Þá sé framtíðar íbúðarbyggð við Kvernu, skógrækt og framtíðar aðkomuleið að bílastæðum við Skógafoss til skýringa og þurfi því ekki að breyta aðalskipulagi. Bílastæði norðan við gamla barnaskólann séu staðsett á eðlilegum stað miðað við nýtingu hans og annarra mannvirkja á svæðinu sem tengist ferðaþjónustu. Séu stæðin utan friðlýsts svæðis. Staðsetning bílastæða á landbúnaðarlandi kalli ekki á breytingu á aðalskipulagi. Að mati sveitarstjórnar sé um óverulega skerðingu á ræktunarlandi að ræða.

Ákvarðanir deiliskipulagsins séu vel skýrðar í greinargerð þess. Athugasemdum sé svarað ítarlega í greinargerð sveitarstjórnar með svörum til þeirra er sendu inn athugasemdir. Sérstaklega sé andmælt fullyrðingum um útúrsnúninga eða að ekki hafi verið færð efnisleg rök fyrir deiliskipulaginu. Því sé mótmælt að hagsmunir kærenda hafi verið látnir mæta afgangi, en m.a. hafi verið fallið frá gönguleið um hlaðið hjá þeim. Hafi ekki verið gengið á hagsmuni kærenda, nema að óverulegu leyti, þó ekki hafi verið gengið svo langt að láta skipulagsvald á svæðinu í þeirra hendur. Óútskýrðum fullyrðingum um brot á jafnræðissjónarmiðum eða grenndar og nábýlisréttareglum sé mótmælt.

                        ——

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags Ytri-Skóga. Telja kærendur m.a. að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn ákvæðum 40. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum kemur fram að þar sé að finna ýmis nýmæli og breytingar frá gildandi skipulags- og byggingarlögum. Skýrari fyrirmæli séu lögð til um samráð og kynningu við gerð skipulagsáætlana og þannig sé lögð áhersla á að auka aðkomu almennings við gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt sé. Með því sé ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun við afgreiðslu skipulagsáætlunar.

Meðal nýmæla laganna er ákvæði 40. gr. sem kveður á um að þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefjist skuli sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu. Skuli leita umsagnar Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynna hana fyrir almenningi. Samkvæmt athugasemdum í frumvarpi til skipulagslaga byggist nefnt ákvæði á þeirri meginreglu að því fyrr sem athugasemdir komi við gerð deiliskipulags því betra. Jafnframt lýsingu skal kynna tillögu að deiliskipulagi, forsendur hennar og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt, áður en hún er tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn.

Í máli því sem hér er til úrlausnar sætti tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis breytingum eftir kynningu hennar. Var skipulagstillagan síðan auglýst til kynningar svo breytt og veittur frestur til að koma að athugasemdum. Eðlilegt verður að telja að tillaga geti tekið breytingum sökum athugasemda og ábendinga er fram koma við kynningu á byrjunarstigi, ella þjónaði kynningin vart tilgangi sínum. Gera skipulagslög ekki kröfu um að þegar svo hátti til þurfi að kynna tillögu að nýju áður en sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillöguna til kynningar. Ákveði sveitarstjórn hins vegar að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skal hin breytta tillaga auglýst á nýjan leik skv. 1. mgr., sbr. 4. mgr. 41.gr. laganna.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að allnokkrar breytingar hafi verið gerðar á tillögunni eftir auglýsingu hennar. Þannig var í samþykktri greinargerð, dags. 20. desember 2012, gert ráð fyrir byggingarheimildum fyrir hreinlætisaðstöðu og þjónustuhús á tjaldsvæði, en svo var ekki í greinargerð með auglýstri tillögu, dags. 13. júní s.á. Jafnframt var í samþykktri greinargerð heimild fyrir stækkun eða endurbyggingu þriggja frístundahúsa á skipulagssvæðinu en heimild til slíks var ekki í auglýstri tillögu. Fleiri breytingar voru samþykktar á tillögunni eftir auglýsingu hennar, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar þar um.

Hvað varðar síðar til komna tilgreiningu á byggingarheimildum á tjaldsvæði skal á það bent að á uppdrætti hinnar auglýstu tillögu voru þar sýnd hús og verður að telja eðlilegt að gera ráð fyrir þjónustuhúsum á tjaldsvæðinu. Þá virðist með heimilaðri stækkun þriggja frístundahúsa sem verið sé að samræma stærð þeirra, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands eru tvö þeirra þegar að þeirri stærð sem heimild er nú veitt fyrir, en hið þriðja nokkuð minna. Á uppdrætti auglýstrar tillögu var jafnframt sýnt framtíðar byggingarsvæði við Kvernu sem og framtíðar aðkoma að bílastæðum við Skógafoss, án nánari skýringa í greinargerð tillögunnar og var kynningu hennar að þessu leyti áfátt. Á samþykktum uppdrætti eru nefnd byggingarsvæði ekki sýnd, en þau eru hins vegar sýnd á skýringarmynd í greinargerð og þess getið að þar sem ekki sé gert ráð fyrir þessum byggingarsvæðum í aðalskipulagi sé einungis verið að sýna hvaða möguleikar séu til framtíðar. Þá er ekki sýnd framtíðar aðkoma að bílastæðum við Skógafoss á hinum samþykkta uppdrætti, enda tekið fram í greinargerð skipulagsins að sú aðkoma samræmist ekki aðalskipulagi. Svo sem að framan er rakið voru gerðar allnokkrar breytingar á deiliskipulagstillögunni eftir að hún var auglýst þar til hún var samþykkt og ber málsmeðferðin með sér að betur hefði mátt standa að gerð tillögunnar. Á það ber hins vegar að líta að breytingarnar voru til komnar vegna athugasemda Skipulagsstofnunar sem og athugasemda sem bárust á kynningartíma. Eins og fram hefur komið er beinlínis gert ráð fyrir því í skipulagslögum að breytingar geti átt sér stað að gefnu tilefni. Sá varnagli er jafnframt sleginn að sé auglýstri tillögu breytt í grundvallaratriðum skuli hún auglýst að nýju. Að mati úrskurðarnefndarinnar var hvorki eðli breytinganna né umfang slíkt að þær gætu talist grundvallarbreytingar í skilningi 4. mgr. 41. gr. laganna og þurfti því ekki að auglýsa tillöguna að nýju. Þá verður ekki heldur ráðið að aðrir þeir annmarkar hafi verið á meðferð málsins að ógildingu varði.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar og annast hún og ber ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. laganna. Við beitingu þess ber m.a. að fylgja markmiðssetningu nefndra laga sem tíunduð er í 1. gr. þeirra. Þar er t.a.m. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Jafnframt að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir ennfremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvarðanatöku sé stefnt að lögmætum markmiðum. Jafnframt gerir meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá kröfu til stjórnvalda að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til þess að ná settum markmiðum er búi að baki stjórnvaldsákvörðun. Einnig verður að hafa í huga það sjónarmið að almenningur eigi að geta vænst þess að ekki sé ráðist í breytingar í mótaðri eða skipulagðri byggð nema að nauðsyn beri til þess, enda geta slíkar breytingar raskað stöðu fasteignareigenda á svæðinu og haft margvísleg grenndaráhrif. Verða sveitarstjórnir að virða greind lagaákvæði og sjónarmið við töku skipulagsákvarðana. Þá skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga og er stefna aðalskipulags bindandi við gerð deiliskipulags, sbr. 32. gr. þeirra laga.

Kærendur telja staðsetningu vegslóða, er færa á austar við heimreið þeirra, ekki í samræmi við ákvæði þágildandi Aðalskipulags Rangárþings eystra 2003-2015. Í nefndu aðalskipulagi segir svo: „Ekki er gert ráð fyrir nýjum vegslóðum í Þórsmörk, á Fimmvörðuhálsi og að Fjallabaki.“ Í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi kemur fram í kafla 1.1 að í því sé mörkuð stefna fyrir nýjan veg á Fimmvörðuháls. Nánari umfjöllun um veginn má finna í kafla 3.8.4 þar sem þess er getið að einn fjallvegur sé innan svæðisins, leiðin upp á Fimmvörðuháls. Um veginn er svo enn fjallað í kafla 4, um áhrif deiliskipulagsins á umhverfið, og er þar gerð grein fyrir mismunandi möguleikum á legu upphafs hans. Á skýringarmynd í greinargerð, er sýnir bújarðir og veg á Fimmvörðuháls, er vegurinn merktur sem nýr vegur, en svo er hins vegar ekki á aðaluppdrætti deiliskipulagsins. Að fyrirliggjandi gögnum virtum verður ekki talið að hin umdeilda staðsetning téðs vegslóða feli í áætlun um nýjan vegslóða á Fimmvörðuhálsi. Um er að ræða vegstúf sem mun vera um 100 m langur og liggur hann sem slíkur ekki á Fimmvörðuhálsi. Þá segir svo í 2. mgr. gr. 4.16.2 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum, stofnbrautum og tengibrautum. Fer hin kærða skipulagsákvörðun að þessu leyti því ekki í bága við þágildandi aðalskipulag.

Kærendur átelja jafnframt staðsetningu hins umþrætta vegslóða þar sem landbúnaðarland þeirra hafi ekki verið tekið úr landbúnaðarnotum svo sem áskilið sé í jarðalögum nr. 81/2004. Þá telja kærendur að ákvörðun sveitarstjórnar byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum og að hvorki hafi verið gætt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga né athugasemdum kærenda svarað með rökstuddum hætti og brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu laganna.

Eins og rakið hefur verið komu kærendur á framfæri athugasemdum við téðan vegslóða á kynningartíma tillögunnar. Gerðu þeir tillögu um að nýju vegstæði yrði fundinn staður upp af aðalheimreið Skógasvæðisins, upp fyrir heitavatnsholuna og inn með gilinu og þaðan beint inn á fyrirliggjandi vegslóða. Í svörum sveitarfélagsins við fram komnum athugasemdum er gerð grein fyrir því hvers vegna valin hafi verið sú staðsetning sem gert er ráð fyrir í nefndu deiliskipulagi. Jafnframt var tekið fram að sú leið er lögð hefði verið til af hálfu kærenda væri óhentug m.a. vegna umferðar, rasks og kostnaðar. Þá var við skipulagsgerðina horft til mismunandi leiða við staðsetningu hins umdeilda vegslóða og gerður samanburður á þeim kostum sem til greina þóttu koma. Fallast má á með kærendum að tilfærsla umrædds hluta vegslóðans í gegnum ræktarland þeirra sé til þess fallin að raska hagsmunum þeirra komi til framkvæmdar deiliskipulagsins að þessu leyti. Er raunar vikið að því í kafla 4. í greinargerð þess þar sem samanburður er gerður á milli mismunandi leiða og tekið fram að sú leið er valin var þveri bithaga í Kvennabrekku, en land sem þar skerðist sé hægt að bæta. Því verður ekki annað séð en að skipulagsyfirvöld hafi við beitingu skipulagsvalds síns skoðað mismunandi staðsetningu fyrir vegslóðann, lagt mat á þá hagsmuni sem í húfi væru og valið þá leið er talin væri fela í sér minni röskun. Rétt er að árétta að skipulagslög gera ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttindum, en aðilar geta þá eftir atvikum leitað bótaréttar úr hendi sveitarfélagsins í samræmi við 51. gr. skipulagslaga sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi tjóni, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Loks verður ekki talið að umrædd tilfærsla vegslóðans feli í sér að verið sé að skipuleggja landsvæðið fyrir aðra starfsemi en landbúnað og var því ekki nauðsyn á að leita samþykkis ráðherra samkvæmt jarðalögum. Af þeim sökum kemur byggingarsamningur sá er kærandi vísar til því ekki til álita við úrlausn málsins.

Samkvæmt öllu framangreindu verður gildi hins kærða deiliskipulags ekki raskað er varðar umdeildan vegslóða, enda verður eins og áður greinir hvorki séð að á því séu form- eða efnisannmarkar er það varðar. Þá var málsmeðferð hins kærða deiliskipulags að lögum, svo sem áður greinir.

Hins vegar er ákveðið ósamræmi á milli þágildandi aðalskipulags og hins umdeilda deiliskipulags hvað varðar landnotkun innan skipulagsreitsins og þar með í andstöðu við 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga sem kveður á um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana.

Þannig eru tvö frístundahús, auðkennd F3 og F4 í hinu umdeilda deiliskipulagi, staðsett á svæði sem samkvæmt uppdrætti þágildandi aðalskipulags er skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota. Samkvæmt þágildandi skipulagsreglugerð eru það svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar er stunduð, s.s. trjárækt. Í greinargerð aðalskipulagsins er m.a. sagt um Skóga að þar séu tveir eldri sumarbústaðir. Jafnframt segir að ekki sé gert ráð fyrir aukningu frístundabyggðar í Skógum. Þá kemur fram í aðalskipulaginu að svæði með þremur frístundahúsum eða færri séu ekki sýnd á skipulagsuppdrætti. Í gr. 4.11.1 í þágildandi skipulagsreglugerð segir m.a. um frístundabyggð að á sveitarfélagsuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum svæðum fyrir frístundabyggð utan þéttbýlisstaða. Í hinu umdeilda deiliskipulagi er sagt um frístundabyggð að frá gamalli tíð séu alls fjögur frístundahús innan skipulagssvæðisins og veitir deiliskipulagið heimild til að endurbyggja/stækka húsin þannig að þau verði allt að 70 m² að stærð. Svo sem áður segir eru húsin F3 og F4 staðsett á opnu svæði til sérstakra nota, án þess að vera auðkennd frekar sem frístundahús á uppdrætti þágildandi aðalskipulags. Úr því hefur verið bætt í núgildandi aðalskipulagi og eru húsin nú merkt með hringtáknum sem stök frístundahús. Það verður þó ekki hjá því komist að fella deiliskipulagið úr gildi hvað varðar heimildir til stækkunar þeirra, enda var á þeim tíma ekki fært að heimila frekari uppbyggingu frístundahúsanna í andstöðu við landnotkun samkvæmt þágildandi aðalskipulagi, sbr. og þágildandi skipulagsreglugerð.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir annmarkar séu á hinu kærða deiliskipulagi að varði ógildingu þess í heild sinni. Eins og áður er rakið gætti þó þess misræmis á milli þágildandi aðalskipulags og hins kærða deiliskipulags að ógildingu varði, en með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þykir þó rétt að ógilda hina kærðu deiliskipulagsákvörðun einungis að því marki sem fór í bága við gildandi aðalskipulag.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður aðeins fallist á kröfu kæranda um ógildingu með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings eystra frá 10. janúar 2013 að samþykkja deiliskipulag fyrir Ytri-Skóga hvað varðar frístundahús auðkennd F3 og F4. Að öðru leyti stendur deiliskipulagið óhaggað.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Hildigunnur Haraldsdóttir                                   Þorsteinn Þorsteinsson

46/2013 Krossholt Langholt í Vesturbyggð

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 3. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2013, er barst nefndinni 14. s.m., kærir Ó, fyrir hönd eigenda jarðarinnar Kross í Vesturbyggð, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð, að því er varðar spildu úr landi Haga á Barðaströnd, á landamerkjum Haga og jarðarinnar Kross. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt fer kærandi fram á „… að úrskurðarnefndin ítreki fyrri úrskurð þess efnis að ekki verði veitt byggingarleyfi vegna“ byggingar á spildu Vesturbyggðar úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal, ásamt því að framkvæmdir verði ekki heimilaðar á meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni.

Gögn málsins bárust frá Vesturbyggð 5. júlí 2013.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. september 2011, í málinu 43/2011, var felld úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011 um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar byggðist á því að fyrrgreind bygging hefði ekki fallið að skilgreindri landnotkun Aðalskipulags Vesturbyggðar 2006-2018, en svæðið sem leyfið tók til var þar skilgreint sem iðnaðarsvæði.

Í kjölfar úrskurðarins var ráðist í breytingu á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Um var að ræða breytingu á landnotkun á þeim hluta skipulagssvæðisins sem ágreiningur í fyrrnefndum úrskurði snerist um. Breytingin fólst í því að það sem áður var skilgreint sem iðnaðarsvæði I2, varð að athafnasvæði A1 og verslunar- og þjónustusvæði V9. Auglýsing um þessa breytingu á aðalskipulaginu birtist í B-deild Stjórnartíðinda 4. nóvember 2011. Enn var gerð breyting á aðalskipulaginu á árinu 2013, m.a. að því er varðar sama svæði. Breytingin fólst í því að verslunar- og þjónustusvæði V9 varð tvískipt, annars vegar fyrir saumastofu og hins vegar fyrir ferðaþjónustu. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. apríl 2013.

Samhliða breytingu á aðalskipulagi var ákveðið að láta vinna deiliskipulag fyrir sama svæði. Skipulags- og byggingarnefnd Vesturbyggðar vann að gerð tillagna frá nóvember 2011 til ágúst 2012. Fundur með íbúum og hagsmunaaðilum var haldinn 12. september 2012 og á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. s.m. var samþykkt tillaga að deiliskipulagi, með fyrirvara um breytingar í samræmi við athugasemdir og ábendingar. Á fundi bæjarstjórnar 19. s.m. var tillagan samþykkt með sömu fyrirvörum og ákveðið að auglýsa hana skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún auglýst til kynningar frá 21. nóvember 2012 til 9. janúar 2013.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 18. febrúar 2013 kom fram að athugasemdir í 10 töluliðum hefðu borist frá kæranda á auglýsingartíma. Lögmanni sveitarfélagsins hafði verið falið að veita umsögn um athugasemdir kæranda og á fundi nefndarinnar var farið yfir nefnd atriði og þau rædd. Lagt var til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt, með vísan til umsagnar lögmannsins, og var hún samþykkt á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar hinn 25. s.m. Voru færðar til bókar athugasemdir bæjarstjórnar við hvert atriði í athugasemdum kæranda og einnig vísað til umsagnar lögmannsins. Með bréfi, dags. 26. s.m., kynnti byggingarfulltrúi kæranda ákvörðun bæjarstjórnar og umsögn um athugasemdir hans við deiliskipulagstillöguna.

Eftir athugun Skipulagsstofnunar birtist auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda 3. maí 2013, um nýtt deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð og skaut kærandi samþykkt deiliskipulagsins til úrskurðarnefndarinar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi segir upphaf málsins vera það að hann hafi á árinu 2011 kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði, á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal. Úrskurðarnefndin hafi fallist á sjónarmið hans og fellt ákvörðunina úr gildi. Þrátt fyrir orð Vesturbyggðar um að framkvæmdir hefðu verið stöðvaðar við húsið hefðu þær haldið áfram á árinu 2011. Skipulags- og byggingarnefnd Vesturbyggðar hefði síðan verið sent erindi í upphafi árs 2012, sem tekið hefði verið fyrir á fundi og byggingarfulltrúa þá falið að taka saman greinargerð um stöðu mála. Byggingarfulltrúi hefði farið í vettvangsskoðun 1. febrúar 2012 og hafi það verið fyrstu viðbrögð af hálfu Vesturbyggðar frá því að úrskurðarnefndin hefði fengið málið inn á sitt borð. Af þessu megi vera ljóst að Vesturbyggð hafi virt að vettugi ákvörðun úrskurðarnefndarinnar. Einn stjórnarmanna byggingaraðilans sé jafnframt bæjarfulltrúi í Vesturbyggð og honum hafi því verið vel kunnugt um það allan tímann að framkvæmdir væru í gangi. Á annað hundrað fjár hafi verið sett inn í bygginguna í nóvember og desember 2012 en féð hefði verið hýst í húsum nefnds bæjarfulltrúa fram að þeim tíma.

Til að réttlæta þessa ólöglegu byggingu hafi Vesturbyggð eytt fjármunum sveitarfélagsins í það að breyta aðalskipulagi og deiliskipulagi þannig að byggingin gæti rúmast innan skipulags. Þetta sé framkvæmt á þann hátt að fá viðkomandi svæði samþykkt undir landbúnaðartengda ferðaþjónustu og samþykkja síðan í kjölfarið að áður samþykktar byggingarnefndarteikningar muni gilda sem skipulagsskilmálar fyrir viðkomandi lóð. Hins vegar sé alveg ljóst að um fjárhús sé að ræða. Kærandi kveðst hafa sent athugasemdir vegna þessa við kynningu á þessum skipulagsbreytingum.

Samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 séu skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis þau m.a. að „… mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu“. Þar sem notkun umdeildrar byggingar sé fjárhús samræmist það ekki núverandi skipulagsáætlunum né heldur áformum um landbúnaðartengda ferðaþjónustu og beri því að stöðva starfsemi í húsinu. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 11.1, sé óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Þetta ákvæði sé einnig skýrt í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, en grunnur byggingarinnar hafi verið reistur á gildistíma þeirra laga.

Í fyrrgreindri skipulagsreglugerð, gr. 4.14, komi fram að landbúnaðarsvæði nái yfir allt land jarða eða lögbýla, sbr. ákvæði jarðalaga og ábúðarlaga um land sem nýtt sé til landbúnaðar. Þetta ákvæði megi einnig sjá í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018, bls. 47 í greinargerð. Af þeim sökum geti umdeilt svæði ekki verið skilgreint sem landbúnaðartengt svæði, enda sé umrædd landspilda í eigu Vesturbyggðar en þar sé hvorki lögbýlisréttur né tilheyri spildan bújörð eða lögbýli.

Málsrök Vesturbyggðar: Því er mótmælt að Vesturbyggð hafi á einhvern hátt virt að vettugi fyrrnefndan úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. september 2011. Þvert á móti hafi verið farið í að breyta aðalskipulagi til að leiðrétta villur sem þar hefðu verið varðandi stærð iðnaðarlóða. Í framhaldi af því hefði síðan verið ákveðið að láta vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið og hafi við þá vinnu m.a. verið kallað eftir afstöðu og sjónarmiðum íbúa þar. Þar sem að stórum hluta hefði verið um að ræða deiliskipulagningu á núverandi byggð hefði þótt nærtækast að samþykktar byggingarnefndarteikningar yrðu látnar gilda um núverandi byggingar á svæðinu, þ.m.t. þá byggingu sem framangreindur úrskurður hefði tekið til. Hefði verið veitt leyfi fyrir þeirri byggingu undir ferðaþjónustutengda starfsemi, tengda íslenskum landbúnaði.

Í núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, nánar tiltekið í 53. gr., sé kveðið á um heimild til handa skipulagsfulltrúa að krefjast þess að ólögleg framkvæmd verði fjarlægð. Byggingarfulltrúi Vesturbyggðar hafi metið það svo að ekki væri ástæða til að nýta nefnda heimild til að láta fjarlægja umrædda byggingu áður en skipulagi væri breytt. Ákvæði gr. 1.11 í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998, um skyldu til að fjarlægja mannvirki í tilteknum tilvikum áður en ráðist sé í skipulagsbreytingar, eigi ekki við í málinu vegna ósamræmis við áðurnefnda 53. gr., enda hafi eldri skipulagsreglugerð eingöngu gilt eftir því sem hún samræmdist lögum nr. 123/2010 eftir gildistöku þeirra.

Auk framangreinds virðist ákveðins misskilnings gæta af hálfu kæranda þegar hann haldi því fram að það svæði sem hin umdeilda bygging standi á geti ekki verið skilgreint sem landbúnaðartengt svæði þar sem það sé ekki landbúnaðarsvæði í skilningi laga. Breyting hafi verið gerð á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 í október 2011. Í þeirri breytingu hafi m.a. falist að iðnaðarsvæði I2 hafi orðið að athafnasvæði A1 og verslunar- og þjónustusvæði V9. Einnig hafi verið gerðar leiðréttingar vegna stærðar tveggja lóða á iðnaðarsvæði I2. Í nýju deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að svæðið vestan Móru verði skilgreint sem íbúðarsvæði og svæði fyrir frístundabyggð, auk þess sem verslunar- og þjónustusvæði V9 verði tvískipt, annars vegar fyrir saumastofu og hins vegar fyrir ferðaþjónustu. Samkvæmt þessu verði svæðið ekki skilgreint sem landbúnaðarsvæði.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu snýr að gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð. Stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og reglugerðum settum með stoð í þeim sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 52. gr. laganna, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 131/2011. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en það fellur utan valdheimilda hennar að fjalla um aðrar kröfur kæranda.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 2. september 2011 felld úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 13. maí 2011, um að veita byggingarleyfi fyrir stálgrindarhúsi á spildu sveitarfélagsins úr landi Haga á Barðaströnd, vestan árinnar Móru í Mórudal. Kærandi byggir kæru sína nú einkum á því að ólögmætt hefði verið að breyta skipulagi svæðis þess sem hin umdeilda bygging stendur á fyrr en byggingin hefði verið fjarlægð. Það hafi ekki verið gert og því skuli ógilda hið kærða deiliskipulag.

Í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 var kveðið á um það í 4. mgr. 56. gr. að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Nefnt ákvæði féll brott með nýjum skipulagslögum nr. 123/2010, sem höfðu tekið gildi þegar vinna hófst við hið kærða deiliskipulag. Ákvæði í 2. mgr. gr. 11.1 í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem var í aðalatriðum samhljóða áðurnefndri 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, hafði því ekki lengur lagastoð og verður ekki á því byggt í málinu. Samkvæmt því er ljóst að Vesturbyggð var heimilt að breyta skipulagi hins umdeilda svæðis þrátt fyrir að framangreind bygging hefði ekki verið fjarlægð.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Verður við endurskoðun lögmætis ákvarðana er þau mál varða því fyrst og fremst gætt að því hvort rétt hafi verið staðið að töku ákvarðana í samræmi við VIII. kafla laganna og hvort málefnaleg rök hafi búið að baki ákvörðun.

Breytingar á Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018 fóru fram jafnhliða gerð hins umdeilda deiliskipulags. Með fyrri breytingu frá 4. nóvember 2011 var svæði sem áður var skilgreint sem iðnaðarsvæði I2, og fjallað var um í áðurnefndum úrskurði frá 2. september 2011, nú skilgreint sem A1 athafnasvæði og V9 svæði fyrir verslun og þjónustu. Samkvæmt breytingunni sem tók gildi 15. apríl 2013 er svæði V9 nú tvískipt, annars vegar fyrir saumastofu og hins vegar fyrir ferðaþjónustu. Á deiliskipulagsuppdrætti hinnar kærðu ákvörðunar er spilda sú sem fjallað er um í kæru nú skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði og í greinargerð deiliskipulagsins kemur fram að í byggingu á spildunni verði rekin landbúnaðartengd ferðaþjónusta. Þar koma enn fremur fram nánari skilmálar um útlit  byggingarinnar, frágang á lóð og búfjárhald. Hvað þennan hluta deiliskipulagssvæðisins varðar, og einnig að öðru leyti, verður ekki annað séð en að deiliskipulagið sé í samræmi við hið breytta aðalskipulag og uppfylli þar með ákvæði 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Jafnframt er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana fullnægt.

Deiliskipulagstillagan var kynnt íbúum á viðkomandi svæði áður en hún var tekin til afgreiðslu í skipulags- og byggingarnefnd og bæjarstjórn Vesturbyggðar. Tillagan var auglýst og fram komnum athugasemdum vegna hennar svarað. Þá var hún rædd og samþykkt í bæjarstjórn að undangenginni umfjöllun í skipulags- og byggingarnefnd. Gildistaka deiliskipulagsins var síðan auglýst í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni lögmæltri athugun Skipulagsstofnunar. Var málsmeðferð tillögunnar því í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin form- eða efnisannmörkum sem áhrif geta haft á gildi hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 25. febrúar 2013 um að samþykkja deiliskipulag vegna Krossholts/Langholts í Vesturbyggð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

66/2014 Aðalskipulag Grófin – Berg

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 66/2014, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 á tillögu að breyttu Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2014, er barst nefndinni 8. júlí s.á., kæra lóðarhafar Bakkavegar 18, 20, og 21 í Reykjanesbæ, þá ákvörðun Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 25. júlí 2014.

Málavextir og málsrök: Hinn 3. júní 2014 samþykkti sveitarstjórn Reykjanesbæjar breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 fyrir hafnar og miðsvæði. Jafnframt var gert ráð fyrir að íbúðasvæði á Berginu yrði minnkað og að lóðir Bakkavegar 17 og 19 yrðu á miðsvæði en ekki íbúðarsvæði. Þá var samþykkt breyting á afmörkun sjávar við hafnarsvæði. Staðfesti Skipulagsstofnun téða breytingu 11. s.m. og birtist auglýsing um gildistöku breytinganna í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2014.

Kærendur taka fram að ekkert samráð hafi verið haft við þá vegna breytinganna og ekki hafi verið farið að lögum við auglýsingu þeirra. Séu umræddar breytingar á Bakkavegi verulega íþyngjandi fyrir kærendur. Rekstur hótels að Bakkavegi 17 hafi valdið kærendum miklu ónæði, líkt og þeir hafi margoft bent á. Muni sú mikla stækkun sem áformuð sé á athafnasvæði hótelsins skerða lífsgæði kærenda með ónæði og umferðarhættu og hafa áhrif á verðmæti og sölumöguleika fasteigna þeirra.  

Reykjanesbær krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun hafi hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. sömu laga sæti ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber samkvæmt lögunum að staðfesta ekki kæru til nefndarinnar. Af þessu leiði að umrædd ákvörðun sé ekki kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hin umþrætta breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar staðfest af Skipulagsstofnun 11. júní 2014 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Sæta ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. téðra laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar  og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

2/2013 Ástún Kópavogi

Með

Árið 2013, fimmtudaginn 24. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.     

Fyrir var tekið mál nr. 2/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Jafnframt eru kærðar ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Loks eru kærðar samþykktir byggingarfulltrúa Kópavogs frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs og um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi á nefndri lóð.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. janúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra J og Þ, Daltúni 14, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 að samþykkja breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 varðandi lóðina nr. 6 við Ástún í Kópavogi.  Jafnframt kæra þau ákvarðanir bæjarstjórnar Kópavogs frá 22. janúar 2008 og frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6. Með bréfi sömu aðila, dags. 25. febrúar 2013, og móttekið sama dag, eru kærðar ákvarðanir byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um heimild til niðurrifs hússins á lóð nr. 6 við Ástún og um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Kærendur kröfðust þess jafnframt að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu byggingarleyfum yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðar-nefndinni.  Með hliðsjón af því að hús það sem fyrir var að Ástúni 6 hefur þegar verið rifið og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. 

Málavextir:  Hinn 13. nóvember 2007 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 vegna lóðar nr. 6 við Ástún í þá veru að á lóðinni yrði íbúðarsvæði í stað blandaðrar landnotkunar þjónustustofnana og opins svæðis til sérstakra nota.  Staðfesti ráðherra þá breytingu og öðlaðist hún gildi í janúar 2008.  Í kjölfar þessa var á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 22. janúar s.á. samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð er gerði ráð fyrir að á lóðinni risi 12 íbúða fjölbýlishús á þremur hæðum með bílageymslu.  Birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 2. júní 2008.

Ný tillaga að breyttu deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var lögð fyrir skipulagsnefnd Kópavogs hinn 21. mars 2012.  Lutu breytingar frá gildandi deiliskipulagi m.a. að lögun byggingarreits, hækkun byggingar um 0,8 m, formi þaks og fjölda íbúða.  Þá var fyrirhuguð bílageymsla felld út og gert ráð fyrir tveimur íbúðum og geymslum í kjallara.  Bílastæði á lóð yrðu 21.  Var samþykkt að auglýsa fram lagða tillögu og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 27. s.m.  Komu kærendur og íbúar að Daltúni 13 á framfæri athugasemdum á kynningartíma tillögunnar og héldu skipulagsyfirvöld fund með þeim aðilum.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 20. nóvember 2012 var málið til umfjöllunar og lá þá fyrir umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsett sama dag, um fyrirliggjandi athugasemdir.  Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna, ásamt  umsögn, með þeim breytingum að aðkomukóti og hámarkshæð fyrirhugaðs fjölbýlishúss voru lækkuð, bílastæðum fjölgað í 28 og þar af 14 stæði í bílskýli austan við fyrirhugað fjölbýlishús.  Var tillögunni vísað
til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar og samþykkti bæjarstjórn tillöguna á fundi hinn 27. nóvember 2012.  Tók skipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2012, að undangenginni lögboðinni afgreiðslu Skipulagsstofnunar.

Hinn 28. desember 2012 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um niðurrif húss að Ástúni 6 með vísan til þess að það ætti að víkja samkvæmt skipulagi á lóðinni.  Jafnframt var tekið fyrir erindi um leyfi til að reisa fjölbýlishús á sömu lóð, sem og beiðni lóðarhafa um undanþágu frá 6. til 16. hluta byggingarreglugerðar nr. 112/2012.  Var erindið samþykkt og talið samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010.  Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslur byggingarfulltrúa án umræðu á fundi hinn 8. janúar 2013. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að húsið að Ástúni 6 sé eitt reisulegasta og jafnframt síðasta heillega bóndabýlið í Fossvogsdalnum.  Beri að varðveita það en ekki virðist hafa verið haft samráð við Húsafriðunarnefnd um niðurrif hússins.  Taki hús í hverfinu mið af gamla bænum þannig að hverfið hafi yfir sér sérstakan heildstæðan blæ með tilvísun til eldri tíðar.

Kynning á breytingu á deiliskipulagi á árinu 2007 hafi verið ábótavant.  Hafi kærendur farið skriflega fram á það við bæjaryfirvöld að grenndarkynning yrði endurtekin og þeim veittur kostur á að tjá sig um breytingarnar en því erindi hafi aldrei verið svarað.  Þá hafi engar nothæfar teikningar verið til svo unnt væri að átta sig á skuggavarpi vegna fyrirhugaðs fjölbýlishúss samkvæmt skipulagsbreytingunni.  Með breytingu á deiliskipulagi, sem hlotið hafi gildi árið 2012, sé verið að auka við skipulag sem ólöglega hafi verið staðið að frá upphafi og sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 138/2012 í því sambandi.

Með bréfi til bæjaryfirvalda, dags. 29. september 2012, hafi kærendur farið fram á fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar.  Hafi þeim á fundi nokkru síðar verið kynnt útfærsla að lítið eitt lægri nýbyggingu og þar gefið í skyn að ef ekki yrði fallist á þá útfærslu myndi eldri útfærslan gilda.  Ekki hafi fengist fullnægjandi upplýsingar um skuggavarp hússins.  Það hafi fyrst verið með bréfi skipulagsyfirvalda, dags. 19. desember 2012, sem upplýst hafi verið hvaða teikning að húsinu yrði notuð ásamt upplýsingum til að reikna skuggavarp nýbyggingarinnar.  Einnig hafi verið sendar óljósar teikningar af skuggavarpi hússins miðað við 21. júní og 21. september, er sýni að á hádegi 21. september verði lóð kærenda að mestu í skugga.  Í erindi til bæjaryfirvalda, dags. 28. desember 2012, hafi kærendur sent upplýsingar um skuggavarp.  Komi þar fram að samkvæmt útreikningum sem þeir hafi látið gera muni ekki sjá til sólar í Daltúninu frá lokum september fram til aprílbyrjunar og yfir hásumarið muni sólar aðeins gæta til kl. 17.  Húsið að Daltúni 14 muni verða í skugga í nærfellt 95 daga hvern vetur.  Hafi kærendur farið fram á að ekkert yrði aðhafst í málinu er skert gæti rétt þeirra, en ekkert svar hafi borist við þeirri beiðni.
 
Á síðasta fundi skipulagsyfirvalda á árinu 2012 hafi verið fallist á umsókn um niðurrif eldra húss að Ástúni 6.  Jafnframt hafi leyfishafa verið veitt undanþága frá lögum sem tekið hafi gildi um áramót og fjalli m.a. um fjölda bílastæða við fjölbýlishús og framkvæmd öryggismála á byggingarsvæðum.

Telja verði að kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 vegna grenndaráhrifa, s.s. skuggavarps og aukinnar umferðar.  Nú þegar skorti bílastæði við götuna, þrengsli séu mikil og umferð sé vandamál.  Auk þess sé um að ræða þéttingu byggðar í hverfi sem þegar sé þéttbyggt. 

Kærendur hafi komið sér upp notadrjúgum og skjólgóðum reit sunnan við hús sitt, þar sem sé heitur pottur og sólbaðsstétt ásamt blóma- og matjurtagarði.  Þetta hafi kostað talsvert fé og fyrirhöfn.  Verði lóðin í skugga hálft árið sé líklegt að ræktun matjurta verði ómöguleg og að sólar muni ekki gæta eftir almennan vinnutíma þannig að búast megi við að verð húseignarinnar muni skerðast án þess að nokkrar bætur komi fyrir.  Þá muni kostnaður vegna upphitunar hússins aukast.  Skipulagsyfirvöld hafi bent á að skuggavarp verði litlu meira en það sem íbúar ofar og neðar við götuna búi við, en bent sé á að nágrannar kærenda hafi kvartað undan skuggavarpi enda sé talað um það sem afleiðingu 40 ára gamals skipulagsslyss.  Þá bendi kærendur á að um nauðvörn þeirra sé að ræða þar sem þeir hafi ekki enn fengið fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar.  Þannig hafi aðeins t.d. verið svarað einni af þremur skriflegum fyrirspurnum þeirra.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er farið fram á að kröfu kærenda vegna ákvörðunar um niðurrifs hússins að Ástúni 6 verði vísað frá úrskurðarnefndinni.  Niðurrif mannvirkisins raski ekki með nokkrum hætti hagsmunum kærenda svo að þeir geti átt kæruaðild að þeirri stjórnvaldsákvörðun.  Þá heyri friðun mannvirkja skv. lögum nr. 104/2001 um húsafriðun ekki undir úrskurðarnefndina.  Jafnframt beri að vísa þeim þáttum kærunnar frá er lúti að ógildingu ákvörðunar um breytingu á aðalskipulagi fyrir lóðina Ástún 6 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 22. janúar 2008 um breytingu á deiliskipulagi fyrir umrædda lóð.  Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, en samsvarandi ákvæði hafi verið í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Komi fram í kæru að kærendum hafi orðið kunnugt um umræddar breytingar í júní 2008.  Kærufrestur vegna þessara ákvarðana sé því löngu liðinn.

Ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 sé hvorki að formi né efni haldin annmörkum.  Hún sé í samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2002-2012, sem og markmið þess um þéttingu byggðar og nýtingu á stofnkerfi bæjarins.  Í þágildandi deiliskipulagi hafi byggingarreitur fyrirhugaðs húss á lóðinni verið því sem næst ferningur í stað þess að vera ílangur eins og eigi við um þegar byggð hús við Ástún.  Með tillögunni sé leitast við að útfæra mannvirkið að heildargötumyndinni og þeim fjölbýlishúsum sem fyrir séu við götuna þannig að um sambærilegan byggingarstíl sé að ræða.  Yfirbragð og ásýnd byggðarinnar verði talsvert betri við skipulagsbreytinguna. 

Fullyrðingar kærenda um skuggavarp eigi ekki við rök að styðjast en breytingin muni leiða til þess að skuggavarp minnki sé tekið mið af deiliskipulagi frá 2008.  Fram komi í umsögn skipulags- og byggingardeildar að skugginn sé áþekkur en þó grennri sem helgist af því að grunnfleti hússins hafi verið breytt.  Hækkun á mænishæð með 15º þakhalla hafi ekki áhrif á skuggavarp.  Hafi fyllilega verið tekið tillit til hagsmuna kærenda í máli þessu og málefnaleg sjónarmið legið að baki umræddri ákvörðun.  Í kjölfar samráðsfundar sem haldinn hafi verið með þeim er mótmælt hafi skipulags-breytingunni hafi sú ákvörðun verið tekin að lækka vegghæð hússins úr 49,85 m í 48,35 m, eða um 1,5 m, vegna hækkunar á mænishæð úr 39,85 m í 50,65 m (svo).  Stafi þessi munur af því að þakformi hússins hafi verið breytt úr flötu þaki í valmaþak.  Einnig hafi aðkomuhæð hússins verið lækkuð til að koma til móts við sjónarmið andmælenda.  Málið hafi fengið umtalsverða umfjöllun og vandaða málsmeðferð og leitast hafi verið við að eiga fullt samráð við þá aðila sem gert hafi athugasemdir.

Þá telji Kópavogsbær ekki efni til að fjalla sérstaklega um gildi byggingarleyfis sem gefið hafi verið út fyrir byggingu fjölbýlishúss að Ástúni 6.  Leyfið hafi verið gefið út í kjölfar samþykktar og auglýsingar á breyttu deiliskipulagi fyrir umrædda lóð og sé því gefið út á lögmætum forsendum.

– – – –

Lóðarhafa Ástúns 6 var gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum vegna kæru-máls þessa en engar athugasemdir af hans hálfu hafa borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Eins og fyrr greinir er kærð ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007 um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012.  Í þágildandi 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því væri háð staðfestingu ráðherra, en skv. 5. mgr. 8. gr. þeirra laga var ekki unnt að skjóta slíkum ákvörðunum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. nú 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Verður kæru á nefndri breytingu á aðalskipulagi Kópavogs því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Samkvæmt áðurgreindri 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga var kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. nú 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.  Kæru skal vísa frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt þyki að hún hafi borist of seint eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran sé tekin til meðferðar, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Kæru skal þó ekki sinnt berist hún ári eftir að ákvörðun er tilkynnt aðila.  Kæra á ákvörðun um breytt deiliskipulag lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi árið 2008, barst úrskurðarnefndinni 18. janúar 2013, eða nokkrum árum eftir að hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda, og ber með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni. 

Hús það sem heimilað var niðurrif á hinn 28. desember 2012 og stóð á lóðinni að Ástúni 6 var rifið fyrri hluta árs 2013.  Af þeim sökum hefur ekki þýðingu að taka afstöðu til fyrirliggjandi kröfu kærenda um ógildingu þeirrar ákvörðunar og verður kröfu þess efnis þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun um breytt deiliskipulag vegna lóðar nr. 6 við Ástún, er tók gildi 21. desember 2012, og ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 28. desember s.á., um niðurrif hússins að Ástúni 6 og um heimild til að reisa nýtt hús á lóðinni, bárust úrskurðar-nefndinni innan kærufrests og verða þær ákvarðanir því teknar til efnismeðferðar enda verður að telja að þær ákvarðanir geti snert lögvarða hagsmuni kærenda með hliðsjón af nálægð fasteignar þeirra við umrædda lóð.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Ástún 6 var auglýst og kynnt lögum samkvæmt, fundur haldinn með þeim aðilum sem gerðu athugasemdir, afstaða tekin til fram kominna athugasemda og gagna aflað, svo sem um skuggamyndun.  Var tillagan í kjölfarið send Skipulagsstofnun og hún birt í Stjórnartíðindum innan lögbundins frests.  Með skipulagsbreytingunni var m.a. íbúðum að Ástúni 6 fjölgað um tvær, lögun byggingarreits breytt frá því að vera sem næst ferningur í ílangan rétthyrning og breytingar gerðar á hæð hússins.  Þá var gert ráð fyrir valmaþaki í stað slétts þaks.  Í máli þessu koma aðeins til skoðunar þessar breytingar en ekki byggingarheimildir þær á lóðinni sem fyrir voru í deiliskipulagi frá árinu 2008.

Lóð kærenda liggur norðan við lóðina Ástún 6 og liggur gata á milli þeirra.  Af málatilbúnaði kærenda má ráða að þeir hafi einkum áhyggjur af skuggavarpi gagnvart fasteign sinni vegna byggingar fjölbýlishússins að Ástúni 6 og hafa þeir lagt fram frekari gögn um skuggavarp vegna fyrirhugaðrar byggingar.  Við meðferð málsins voru gerðar breytingar frá auglýstri tillögu, þannig að aðkomukóti var lækkaður úr 37,15 í 36,20 og kóti hámarkshæðar úr 50,65 í 49,06 en í deiliskipulagi frá 2008 var gert ráð fyrir að kóti hámarkshæðar væri 49,85.  Samkvæmt þessu lækkar heimiluð hámarkshæð hússins við hina kærðu breytingu um 79 cm.  Þá veldur breyting á lögun og legu byggingarreitar einhverjum breytingum á skuggavarpi.  Fela þessar breytingar og fjölgun íbúða um tvær ekki í sér veruleg grenndaráhrif frá því sem verið hefði að óbreyttu skipulagi.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu umdeildrar deiliskipulagsbreytingar.

Rétt þykir að benda á að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækkar, nýtingarmöguleikar hennar skerðast frá því sem áður var eða að hún rýrnar svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, á sá sem sýnt getur fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði, eða eftir atvikum úr ríkissjóði, eða að sveitarsjóður leysi fasteignina til sín, sbr. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Ákvarðanir um bótarétt og fjárhæð bóta eiga hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina samkvæmt fyrirmælum nefnds ákvæðis um málsmeðferð.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa um um nýbyggingu fjölbýlishúss á lóðinni Ástúni 6 stoð í gildu deiliskipulagi.  Þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar séu á málsmeðferð umræddrar ákvörðunar sem valdið geti ógildingu hennar verður kröfu þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfum um ógildingu ákvarðana bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. nóvember 2007, um breytingu á Aðalskipulagi Kópavogs 2000-2012 og um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Ástúns 6 frá 22. janúar 2008, auk kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012, um að heimila niðurrif húss á nefndri lóð, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfum kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. nóvember 2012 um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 6 við Ástún og á ákvörðun  byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 28. desember 2012 um að veita leyfi til að reisa fjölbýlishús á lóðinni að Ástúni 6 í Kópavogi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

91/2008 Miðbær Selfoss, Árborg

Með

Árið 2012, föstudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt

Fyrir var tekið mál nr. 91/2008, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 20. desember 2007 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. september 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. Á,  og N, persónulega og fyrir hönd S ehf., Sigtúnum 2, Þ og Ó, Sigtúnum 7, B, Sigtúnum 9 og H, Tryggvagötu 14, Selfossi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 20. desember 2007 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi miðbæjarins á Selfossi.

Gera kærendur þá kröfu að ákvörðun bæjarstjórnar verði felld úr gildi.

Málavextir:  Forsaga málsins er sú að í september 2006 efndi bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar til samkeppni um skipulag miðbæjar á Selfossi.  Samkvæmt aðalskipulagi er svæðið hluti af skilgreindu miðsvæði Selfoss.  Niðurstöður lágu fyrir í febrúar 2007 og í framhaldinu var haldinn opinn kynningarfundur þar sem vinningstillagan var kynnt og gefinn kostur á athugasemdum og umræðum.  Tillaga að deiliskipulagi miðbæjarins var síðan auglýst til kynningar frá 19. júlí 2007 til 16. ágúst s.á., með athugasemdafresti til 30. s.m.  Athugasemdir bárust, m.a. frá kærendum, og var tillögunni í kjölfarið breytt.  Deiliskipulagstillagan var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins hinn 13. desember 2007 og af bæjarstjórn hinn 20. s.m.  Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 18. ágúst 2008.

Hið samþykkta deiliskipulag byggir á fyrrgreindri verðlaunatillögu, en tekur þó aðeins til hluta samkeppnissvæðisins.  Afmarkast það af Kirkjuvegi, Eyravegi, Austurvegi og Tryggvagötu, en suðurmörk þess liggja að svæði sem skilgreint er í aðalskipulagi sem almenningsgarður og þjónustusvæði.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að hús þeirra séu á eignarlóðum við Tryggvagötu og Sigtún og hafi þeir því augljósra lögvarinna hagsmuna að gæta.  Í Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025 sé landnotkun á umræddu svæði skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði/miðsvæði.  Komi þar m.a. fram að á svæðinu sé gert ráð fyrir styrkingu miðbæjar Selfoss sem aðalþjónustusvæðis alls sveitarfélagsins með miðstöð stjórnsýslu, verslunum, skrifstofum, þjónustu- og menningarstofnunum, veitingarekstri, og „nokkurri íbúðarbyggð“.  Á þessu svæði sé reiknað með nýtingarhlutfalli á bilinu 1,0-2,0.  Á því svæði sem deiliskipulagið taki til hafi verið í gildi deiliskipulag sem samþykkt hafi verið 24. febrúar 1993, Selfoss-Miðbær – Tryggvagata – Árbakkasvæði, og sé um að ræða verulega breytingu á því með hinu nýja skipulagi.

Kærendur telji hið kærða deiliskipulag ólögmætt þar sem það sé í ósamræmi við aðalskipulag Árborgar.  Samkvæmt samþykktum deiliskipulagsuppdrætti sé gert ráð fyrir umferð af hringtorgi við Austurveg inn á svæðið um stút, sem hafi verið nefndur fjórði stúturinn á hringtorginu.  Á uppdrættinum sé stúturinn utan afmarkaðs deiliskipulagssvæðis þrátt fyrir að deiliskipulagið geri ráð fyrir honum til að dreifa umferð inn á svæðið.  Í greinargerð með deiliskipulaginu komi fram að þessi tenging sé forsenda þess.  Í greinargerðinni segi einnig að framkvæmdir skuli hefjast fyrst við byggingar næst hringtorgi og niður með Eyravegi og nauðsynlegt sé að ganga frá framkvæmdum á torgi um leið og byggingarframkvæmdum næst torginu sé lokið.  Samkvæmt upplýsingum kærenda hafi þessi tenging umferðar inn á svæðið sætt mikilli andstöðu Vegagerðarinnar og Skipulagsstofnunar.  Gildandi aðalskipulag geri einungis ráð fyrir þremur stútum af hringtorginu.  Ljóst sé að ekki hafi átt að samþykkja deiliskipulagið með þessum hætti eða sýna hringtorg á deiliskipulagsuppdrætti, líkt og gert hafi verið.  Því sé misræmi milli aðal- og deiliskipulags og verði ekki úr því bætt nema með breytingu á aðalskipulagi.  Slík málsmeðferð sé í andstöðu við ákvæði 7. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem mæli fyrir um að deiliskipulag skuli gera á grundvelli aðalskipulags, sbr. einnig 2. mgr. gr. 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Á deiliskipulagsuppdrætti sé enn fremur sýndur vegur sem tengi saman Kirkjuveg og Tryggvagötu.  Sé honum ætlað að dreifa umferð inn á svæðið frá Kirkjuvegi og Austurvegi með því að taka við umferð úr hringtorginu um fjórða stútinn.  Í ljósi þessarar tengingar við Austurveg, sem og að samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags tengi þessi vegur hinn svonefnda miðbæ við aðra bæjarhluta, hafi borið að gera grein fyrir honum í aðalskipulagi, sbr. gr. 4.16.1 og 4.16.2 í skipulagsreglugerð.

Þá samrýmist deiliskipulagið ekki gr. 4.4.1 og gr. 5.5.1 í skipulagsreglugerð um landnotkun á miðsvæðum og verslunar- og þjónustusvæðum.  Samkvæmt greindum ákvæðum skuli á slíkum svæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir verslun og þjónustu.  Þó sé heimilt að gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þar sem aðstæður leyfi, sérstaklega á efri hæðum.  Ljóst sé að deiliskipulagið samrýmist ekki greindum fyrirmælum þar sem það geri ráð fyrir að 50-60% húsnæðis á svæðinu verði til íbúðar.

Kærendur telji útreikning nýtingarhlutfalls lóða á hinu deiliskipulagða svæði hafa verið ólögmætan.  Einungis sé sýnt meðaltalsnýtingarhlutfall á reitnum öllum en ekki nýtingarhlutfall innan lóðarmarka, sem miða beri við.  Nýtingarhlutfall lóða á skipulagassvæðinu sé mun hærra en gerð sé grein fyrir og fari í sumum tilvikum yfir hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt aðalskipulagi.  Útreikningur nýtingarhlutfalls með þessum hætti sé ólögmætur þegar verið sé að kynna byggingarmagn nýframkvæmda innan fyrirhugaðs byggingarreits.

Gerð sé gríðarleg breyting á byggðarmynstri svæðisins sem verði að byggjast á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Telji kærendur að brotið sé gegn fyrirmælum gr. 4.2.2 í skipulagsreglugerð þar sem segi að við deiliskipulagningu íbúðarsvæða skuli þess jafnan gætt að í íbúðum og á lóðum íbúðarhúsa sé sem best hægt að njóta sólar, útsýnis, skjóls og friðsældar.

Brotið sé svo freklega gegn grenndarhagsmunum kærenda að það varði ógildingu deiliskipulagsins.  Sé þar t.d. gert ráð fyrir 33 metra háum, tíu hæða turni.  Muni hann gnæfa yfir umhverfið og varpa skugga á Ráðhúsið, torgið og alla nærliggjandi byggð og verða í ósamræmi við heildaryfirbragð svæðisins.  Þá verði um mikla skerðingu að ræða á útsýni, birtu og eignaréttindum kærenda með byggingu blokka á svæðinu, sem og gerð nýrrar einstefnugötu.  Selfoss standi á einu virkasta jarðskjálftabelti á Suðurlandi og byggingar sem fyrir séu á skipulagssvæðinu væru því í mikilli hættu þegar og ef farið yrði að sprengja fyrir bílakjöllurum fyrir þessar blokkir.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar:  Af hálfu Sveitarfélagsins Árborgar er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað.  Sveitarfélagið hafni því að deiliskipulagið sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag.  Grein 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 mæli fyrir um að á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir stofnbrautum og tengibrautum.  Í grein 4.16.1 séu stofnbrautir skilgreindar sem aðalumferðarbrautir í þéttbýli og tengist þær stofnvegakerfi utan þéttbýlis.  Tengibrautir tengi einstaka bæjarhluta við stofnbrautakerfið og nálæga bæjarhluta saman innbyrðis og séu helstu umferðargötur í hverjum bæjarhluta.

Á þéttbýlisuppdrætti Selfoss í gildandi aðalskipulagi sjáist að skilgreindar stofnbrautir á þessu svæði séu Suðurlandsvegur inn á hringtorgið við Ölfusárbrú og hins vegar þær tvær götur sem taki við af honum, Eyravegur, sem tengi Selfoss við Eyrarbakkaveg, og Austurvegur, sem liggi í gegnum Selfoss til austurs og haldi þar áfram sem þjóðvegur nr. 1.  Ártorgið, gatan sem muni eiga upptök sín við fjórða stútinn á hringtorginu og liggja þaðan í gegnum miðbæinn, sé hvorki stofnbraut né tengibraut, heldur einstefnugata/torg og falli því ekki undir götur þær sem beri að gera grein fyrir á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags.  Það að gert sé ráð fyrir götu í deiliskipulaginu sem liggi að fyrirhuguðum fjórða stút á hringtorginu við Ölfusárbrú sé því ekki í andstöðu við gildandi aðalskipulag.

Þá sé Ártorgið vistgata/gönguhraðagata samkvæmt deiliskipulagi og muni gatnahönnunin miðast við 15 km umferðarhraða, sbr. gr. 2.12 í greinargerð með deiliskipulaginu.  Slík gata geti ekki fallið undir skilgreiningu skipulagsreglugerðar um stofn- eða tengibraut.

Umrætt svæði sé á miðsvæði í aðalskipulagi og skv. gr. 4.4.1 skipulagsreglugerðar skuli þar fyrst og fremst gert ráð fyrir verslun og þjónustu.  Heimilt sé þó að gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þar sem aðstæður leyfi, sérstaklega á efri hæðum.  Umrætt deiliskipulag falli að skilgreiningu þessari.  Í gr. 2.3 í greinargerð með deiliskipulagi komi fram að verslun sé yfirleitt eingöngu leyfð á 1. hæð og íbúðir á efri hæðum.  Þó séu íbúðir leyfðar í einstaka tilfellum á 1. hæð.  Almennt sé gert ráð fyrir að skrifstofustarfsemi sé á 2. hæð og ofar.  Í turni skuli eingöngu vera verslun/þjónusta, stofnanir eða skrifstofustarfsemi.  Í byggingum sem liggi næst turni sé heimilt að hafa skrifstofustarfsemi eða þjónustu á öllum hæðum og tengja þær turni.

Nýtingarhlutfalli í reit sé ætlað að sýna þéttleika byggðar á skilgreindu afmörkuðu svæði eða reit.  Í hinu kærða skipulagi sé verið að deiliskipuleggja á heildstæðan hátt miðbæ Selfoss.  Afmörkun skipulagssvæðisins sé skýr.  Nýtingarhlutfall á svæðinu sé reiknað þannig að tekin sé stærð reits (hluti af miðbæjarreit) og fundið hlutfallið milli byggingarmagns og stærðar reits.  Fullyrðingar kærenda um að útreikningur nýtingarhlutfalls sé ólögmætur standist því ekki.  Stærð skipulagssvæðis sé 45.000 m2 og hámarksbyggingarmagn 45.100 m2.  Nýtingarhlutfallið sé því 1,0 (1,002) fyrir svæðið í heild.  Til þess að skapa gott almenningsrými, s.s. vistgötu, göngustíga, hjólastíga, bílastæði, torg og græn svæði, auk miðstöðvar fyrir almenningssamgöngur, sé leitast við að takmarka lóðastærðir einstakra húsa.  Leiði það til þess að nýtingarhlutfall á ákveðnum lóðum kunni að virðast nokkuð hátt en nýtingarhlutfall á deiliskipulagssvæðinu í heild sé langt innan viðmiðunarmarka.

Umrætt svæði sé nú skilgreint sem miðsvæði á aðalskipulagi en hafi í eldra aðalskipulagi Selfoss 1987-2007 verið skilgreint sem blandað svæði íbúða, verslunar og opinberrar þjónustu.  Á hluta svæðisins hafi verið í gildi deiliskipulag, samþykkt í bæjarstjórn Selfoss 8. desember 1993.  Það skipulag hafi ekki komið til framkvæmda nema hvað varði lóðirnar að Austurvegi 4-10.  Ekki sé hægt að fallast á að við skipulag miðbæjar Selfoss sé sveitarfélagið bundið af eldra deiliskipulagi sem enginn hafi hingað til sýnt áhuga á að byggja eftir.

Hugleiðingar kærenda um hættuástand sem fylgja kunni framkvæmdum geti ekki leitt til þess að deiliskipulagið verði fellt úr gildi, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 22/2005.  Þá sé skerðing sú sem kunni að verða á grenndarhagsmunum kærenda ekki slík að raskað geti gildi umrædds skipulags en komi til slíkrar skerðingar tryggi bótaákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kærendum bætur.
——-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir málatilbúnaði sínum sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem gilti á þeim tíma sem hér um ræðir, skyldi gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir væru fyrirhugaðar.  Í 9. gr. sömu laga sagði og að svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlanir skyldu vera í innbyrðis samræmi.  Þá er kveðið á um það í 2. mgr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að í aðalskipulagi skuli gera grein fyrir þegar byggðum og fyrirhuguðum samgöngumannvirkjum, s.s. þjóðvegum og höfnum, svo og helstu umferðaræðum og tengingum við þær, og í 5. mgr. sömu greinar kemur fram að á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags skuli gera grein fyrir stofnbrautum og tengibrautum.  Verður að skilja ákvæði þessi svo að ekki nægi að sýna á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags stofn- og tengibrautir heldur þurfi einnig að sýna tengingar við þær.

Á þéttbýlisuppdrætti Selfoss í Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025, sem liggur til grundvallar hinu kærða deiliskipulagi, er ekki gert ráð fyrir nema þremur örmum við hringtorg það sem nefnt er Brúartorg.  Er þar auk þess gert ráð fyrir göngu- og hjólastíg frá hringtorginu að miðbæjartorgi.  Í hinu nýja deiliskipulagi er hins vegar gert ráð fyrir fjórðu tengingunni við hringtorgið, sem mun opna fyrir umferð ökutækja eftir einstefnugötu til suðurs frá Brúartorgi, inn á miðbæjarsvæðið, svokallað Ártorg, og liggur þessi gata á svipuðum stað og nefndur göngu- og hjólastígur samkvæmt aðalskipulaginu.  Er þessi einstefnugata forsenda þess í hinu nýja deiliskipulagi að unnt sé að dreifa umferð um miðbæjarsvæðið.  Samræmist hið nýja deiliskipulag að þessu leyti hvorki gildandi aðalskipulagi né nefndu ákvæði skipulagsreglugerðar um samgöngur í skipulagsáætlunum.

Hið kærða deiliskipulag tekur til landsvæðis sem auðkennt er sem miðsvæði á þéttbýlisuppdrætti Selfoss í aðalskipulagi Árborgar.  Samkvæmt gr. 4.4.1 í skipulagsreglugerð skal á miðsvæðum fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu, en þar sem aðstæður leyfa má þó gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga.  Í grein 3.6 í skilmálum hins kærða skipulags kemur fram að gert sé ráð fyrir að 50-60% húsnæðis á svæðinu sé til íbúðarnota og dæmi eru um íbúðir á 1. hæð.  Orkar tvímælis að þessar heimildir skipulagsins samræmist tilvitnuðum ákvæðum skipulagsreglugerðar um landnotkun á miðsvæðum, en að minnsta kosti leiðir þetta fyrirkomulag til þess að taka verður ríkara tillit til íbúðarnota á svæðinu en almennt gerist á miðsvæðum.

Í gr. 4.4.2 í tilvitnaðri skipulagsreglugerð er fjallað um miðsvæði í skipulagáætlunum.  Segir þar að þegar gert sé ráð fyrir íbúðum í deiliskipulagi miðsvæða skuli gera grein fyrir hvernig íbúum verði tryggður aðgangur að útivistar- og leiksvæðum og bílastæðum.  Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að eiginleg leiksvæði innan lóða séu í lágmarki.  Þá segir í greinargerð með aðalskipulagi Árborgar að gert sé ráð fyrir að fjöldi bílastæða verði í samræmi við ákvæði í gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð en deiliskipulag kveði nánar á um bílastæðafjölda, staðsetningu stæða og útfærslu þeirra.  Í greinargerð með hinu kærða deiliskipulagi segir hins vegar að gert sé ráð fyrir minni bílastæðakröfum en byggingarreglugerð segi til um og megi færa rök fyrir því vegna mikillar samnýtingar bílastæða.  Segir þar og m.a. að tekin hafi verið ákvörðun um að miða við eitt bílastæði fyrir hverja 60 m² og að allar íbúðir sem séu stærri en 80 m² skuli hafa a.m.k. eitt stæði í bílastæðakjallara eða yfirbyggðri bílgeymslu.  Þegar haft er í huga að á svæðinu er gert ráð fyrir yfir 200 íbúðum, auk umfangsmikilla bygginga fyrir verslun og þjónustu, verður ekki fallist á að séð hafi verið fyrir leiksvæðum og bílastæðum, svo sem áskilið er í skipulagsreglugerð, eða að sýnt hafi verið fram á að bílastæðaþörf sé minni en þar er tilgreint.  Er hinu kærða deiliskipulagi áfátt hvað þetta varðar.

Loks er það athugavert að í hinu kærða deiliskipulagi er nýtingarhlutfall sett fram sem reitanýtingarhlutfall, en í aðalskipulagi Árborgar er almennt miðað við nýtingar hlutfall lóða, þegar þess er á annað borð getið á hvaða grundvelli nýtingarhlutfall skuli reiknað.  Þótt heimilt sé að setja nýtingarhlutfall fram sem reitanýtingarhlutfall leiðir af misræmi í framsetningu aðal- og deiliskipulags í þessu efni að erfitt er að staðreyna hvort nýtingarhlutfall deilskipulags sé innan marka aðalskipulags og er óvissa um hvort svo sé í öllum tilvikum í hinu kærða deiliskipulagi.

Samkvæmt framansögðu samræmist hið kærða deiliskipulag ekki aðalskipulagi, svo sem áskilið er.  Að auki er það haldið öðrum efnislegum annmörkum, svo sem að framan er lýst.  Verður af þeim sökum fallist á kröfu kærenda um ógildingu þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar um deiliskipulag miðbæjar Selfoss frá 20. desember 2007 er felld úr gildi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                      Hildigunnur Haraldsdóttir

53/2010 Aðalskipulag Akureyrar

Með

Ár 2010, þriðjudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 53/2010, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2010, er barst nefndinni hinn 6. sama mánaðar, kæra E og S, Lerkilundi 24 á Akureyri, samþykkt bæjarstjórnar Akureyrar frá 18. maí 2010 um breytingu á Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018, er lýtur að tengingu Brálundar við Miðhúsabraut.  Kærendur krefjast þess að hætt verði við tengingu Brálundar við Miðhúsabraut og að lagt verði fyrir Akureyrarbæ að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um að sá hluti aðalskipulagsins sem varðar tenginguna verði felldur úr gildi. 

Málsatvik:  Í hinni umdeildu aðalskipulagsbreytingu fólst meðal annars að gerð var nánari grein fyrir helstu tengingum innan gatnakerfis Akureyrar við stofn- og tengibrautir.  Þar á meðal var ákvörðun um að Brálundur yrði tengdur inn á Miðhúsabraut og er það sú breyting sem kærendur telja raska lögvörðum hagsmunum sínum.

Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 12. maí 2010 og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 18. sama mánaðar.  Umhverfisráðherra staðfesti breytinguna á aðalskipulaginu hinn 10. júní 2010 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 6. júlí 2010. 

Ekki þótti tilefni til að leita eftir áliti Akureyrarbæjar í málinu. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sem sæta slíkri staðfestingu ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga, svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________     _____________________________
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

64/2009 Hafnarfjörður, aðalskipulag

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 1. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2009, kæra á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. september 2009, er barst nefndinni hinn 23. sama mánaðar, kærir Á, Smárahvammi 9, Hafnarfirði, breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti hinn 17. mars 2009 að auglýsa.  Gerir kærandi þá kröfu að gildandi aðalskipulag standi óhaggað. 

Málsatvik og rök:  Á fundi sínum hinn 17. mars 2009 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005 – 2025 er tók til kafla 2.2.10 sem fjallar um frístundabyggð á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Var þar gert ráð fyrir takmarkaðri uppbyggingu innan svæðisins.  Auglýsing um breytingartillöguna birtist í Fjarðarpóstinum hinn 20. ágúst 2009. 

Bendir kærandi á að í gildandi aðalskipulagi segi að ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu á umræddu svæði en í breytingartillögu komi fram að „… takmörkuð uppbygging verði innan svæðisins.“  Nú virðist því vera gert ráð fyrir þeim möguleika að reisa mörg hús á svæðinu í stað þess eina sem úrskurðað hafi verið ólögmætt í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 4/2008.  Ekki komi fram í aðalskipulagstillögunni hversu „takmörkuð“ ráðgerð uppbygging verði og engir uppdrættir fylgi tillögunni.  Það væri vafasamt fordæmi fyrir sveitarfélag ef breyta mætti staðfestu skipulagi vegna þess eins að túlkun í úrskurði úrskurðarnefndarinnar sé ekki í samræmi við ásetning sveitarfélagsins eins og haldið sé fram í greinargerð aðalskipulagstillögunnar.  Rétt sé að úrskurðarnefndin úrskurði um lagalega rétta túlkun á þeim kafla aðalskipulagsins er breytingin taki til. 

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild aðalskipulagstillaga hefur ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í nefndu lagaákvæði er einnig kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina og verður af þeim sökum vísað frá. 

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________             ______________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson

96/2006 Vatnsmýri

Með

Ár 2007, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 96/2006, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir A, f.h. stjórnar ByggáBIRK, Skýli 21, Fluggörðum, Reykjavíkurflugvelli, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík.  Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu.

Málsatvik og rök:  Hin kærða aðalskipulagstillaga fólst meðal annars í því að landnotkun á hluta austursvæðis Vatnsmýrarinnar var breytt og byggingarsvæði milli flugvallar og Öskjuhlíðar stækkað til suðurs um 20 hektara.  Þá var gert ráð fyrir samgöngumiðstöð og lóð fyrir Háskólann í Reykjavík á svæðinu.  Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 27. september 2006 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 5. október sama ár.  Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna hinn 18. maí 2007 og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. maí 2007.

Skírskotar kærandi til þess að fjöldi mótmæla við umdeilda skipulagstillögu, sem hafi byggst á framtíðarhorfum Reykjavíkurflugvallar og flugstarfsemi þar, hafi verið virtur að vettugi.  Telja verði að niðurstaða í málinu hafi verið fyrirfram gefin í samræmi við pólitíska stefnu um brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýrinni.     

Niðurstaða:  Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
                              Hjalti Steinþórsson                          

 

_____________________________          ___________________________          Þorsteinn Þorsteinsson                               Aðalheiður Jóhannsdóttir
                                      

 

49/2006 Aðalskipulag

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 49/2006, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Leirár- og Melahrepps frá 25. maí  2006 á tillögu að Aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps 2002-2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. júní 2006, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir Björn Jónsson hrl., fyrir hönd Á og Ö, eigenda jarðarinnar Leirár í Borgarfirði,  samþykkt sveitarstjórnar Leirár- og Melahrepps frá 25. maí 2006 á tillögu að Aðalskipulagi Leirár- og Melahrepps 2002-2014.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 25. maí 2006 mun sveitarstjórn Leirár- og Melahrepps, nú Hvalfjarðarsveitar, hafa samþykkt tillögu að aðalskipulagi hreppsins fyrir 2002-2014.  Á kynningartíma tillögunnar gerðu kærendur athugasemdir við að sá hluti Leirárdals er tæki til lands þeirra yrði gert að fjarsvæði og 100 metra breitt svæði austanvert við Leirá yrði gert að grannsvæði vatnsbóla.  Þá var  farið fram á að nánar tilgreint svæði yrði gert að frístundabyggð.  Var óskum kærenda hafnað af hálfu sveitarstjórnar og framkomnar athugasemdir leiddu ekki til breytinga á umræddri aðalskipulagstillögu.  Telja kærendur aðalskipulagið þrengja með ólögmætum og bótaskyldum hætti nýtingarmöguleika á landareign þeirra og væri samþykkt þess jafnframt brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Vísaði sveitarstjórn til þess að ekki lægi fyrir ósk allra sameigenda að landi fyrir heimild til frístundabyggðar og ákvörðun um grannsvæði væri til varnar vatnslindum.

Niðurstaða:  Fyrir liggur að umdeild aðalskipulagstillaga hefur ekki öðlast gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda skv. 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í nefndu lagaákvæði er einnig kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra.  Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina.  Verður málinu því vísað frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________         
            Hjalti Steinþórsson                          

 

 

_______________________________     ____________________________ 
Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

 

 

 

30/2005 Sléttuvegur

Með

Ár 2006, þriðjudaginn 17. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2005, kæra á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. febrúar 2005 á tillögu að breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur er fól í sér að hluta svæðis fyrir þjónustustofnanir vestan Háaleitisbrautar, milli Sléttuvegar og Bústaðavegar, var breytt í íbúðasvæði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, er barst nefndinni hinn 11. apríl 2005, kærir Eiríkur Elís Þorláksson hdl., fyrir hönd húsfélagsins að Sléttuvegi 17-19, Reykjavík, samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. febrúar 2005 á tillögu að breyttu aðalskipulagi Reykjavíkur er fól í sér að hluta svæðis fyrir þjónustustofnanir vestan Háaleitisbrautar, milli Sléttuvegar og Bústaðavegar, var breytt í íbúðasvæði.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök:  Hinn 2. febrúar 2005 tók borgarráð Reykjavíkur fyrir hina kærðu aðalskipulagsbreytingu en við kynningu hennar komu fram athugasemdir, m.a. frá kæranda. Var tillagan samþykkt óbreytt.  Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna hinn 2. mars 2005 og var auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 4. sama mánaðar.

Kærendur skutu nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar með þeim rökum að með ákvörðuninni, sem heimilaði nánast tvöföldun á nýtingarhlutfalli umdeilds svæðis, væri gengið á hagsmuni félagsmanna kæranda.  Þá hafi málsmeðferð verið svo ábótavant að ógildingu varði, enda hafi verið farið gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, almennum meginreglum við skipulagsákvarðanir og meginreglum stjórnsýsluréttarins.

Kærandi hefur gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki þykir ástæða til að rekja frekar eins og hér stendur á. 

Niðurstaða:  Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni. 

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar sem hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur nefndina vald til þess að taka ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.  Hefur úrskurðarnefndin komist að þessar niðurstöðu í fyrri úrskurðum um sama álitaefni og hefur þessi túlkun nú beina stoð í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005. 

Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 ___________________________ 
                       Hjalti Steinþórsson                          

 

_______________________                ____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson