Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2019 Reynilundur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 29. október fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundarbúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Reynilundi 11, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 17. október 2019 að synja umsókn þeirra um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs Reynilundar 11 ásamt því að gera dyr og glugga á suðurhlið hans. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir: Með umsókn, dags. 27. september 2017, sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs þeirra að Reynilundi 11 um 1,5 m til suðurs auk þess sem settar yrðu dyr og gluggi á suðurhlið bílskúrsins. Með umsókn voru lögð fram samþykki íbúa Reynilundar 13 og 15, en ekki Reynilundar 17, en um er að ræða raðhúsalengjuna Reynilund 11-17. Skipulagsnefnd tók umsóknina fyrir 26. apríl 2019 og ákvað að grenndarkynna hana þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu. Tillögurnar voru grenndarkynntar íbúum Reynilundar 9, 13, 15 og 17. Athugasemdir bárust frá íbúa Reynilundar 17 sem lagðist gegn hinum umsóttu breytingum, en íbúinn er jafnframt arkitekt raðhúsalengjunnar. Með erindi skipulagsstjóra Garðabæjar, dags. 2. september 2019, var kærendum tilkynnt að lögð hefði verið fram niðurstaða húsakönnunar varðandi raðhúsalengjuna Reynilund 11-17, í tengslum við nýtt deiliskipulag Lundahverfis, þar sem varðveislugildi hússins væri metið hátt. Á fundi skipulagsnefndar 4. október 2019 var umsóknin tekin fyrir og með vísan til niðurstöðu húsakönnunar var mælt gegn því að byggingarleyfi yrði veitt og afgreiðslu málsins vísað til bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 17. s.m. var málið tekið fyrir og umsókn kærenda hafnað. Með bréfi, dags. 3. desember 2019, var sú ákvörðun kærð eins og að framan greinir.

Með tölvupósti, dags. 28. janúar 2020, óskaði Garðabær eftir fresti til þess að skila greinargerð og gögnum í málinu þar sem tillaga um nýtt deiliskipulag fyrir svæðið hefði verið tekin fyrir að lokinni auglýsingu á fundi skipulagsnefndar 16. janúar 2020. Samkvæmt upplýsingum skipulagsstjóra hafi verið gerð tillaga að breyttum uppdrætti er sýni stækkun byggingarreita raðhúsanna nr. 11-17 við Reynilund og yrðu þeir uppdrættir á dagskrá skipulagsnefndar 7. febrúar s.á. Kærendur voru upplýstir um beiðni Garðabæjar og gerðu ekki athugasemd við hana. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var nýtt deiliskipulag fyrir umrætt svæði, Lundahverfi, samþykkt og tók það gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 6. maí s.á. Sú ákvörðun bæjarstjórnar var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu þess með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020.

Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar, 22. september 2020, var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að tilkynnt framkvæmd vegna stækkunar bílskúrs að Reynilundi 11 væri undanþegin byggingarleyfi, sbr. h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Sú ákvörðun hefur verið kærð af eiganda Reynilundar 17 til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að höfnun byggingarleyfisins sé ómálefnaleg og byggð á meðvirkni og hræðslu. Bæjaryfirvöld hafi í öllum samskiptum við kærendur gefið í skyn að þeim sé ekki stætt á að veita byggingarleyfið þar sem þeir óttist lögsókn eiganda Reynilundar 17 en ekki litið til mögulegrar málsóknar kærenda. Telji kærendur að með þessu sé jafnræðisregla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 brotin, sbr. 11. gr. laganna, en þar segi að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá segi í 2. mgr. ákvæðisins að óheimilt sé að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á m.a. þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Hér sé niðurstaða málsins grundvölluð á því hver gagnaðilinn í málinu sé, þ.e. eigandi Reynilundar 17, en skoðunum hans sé gert hátt undir höfði hjá bæjaryfirvöldum. Með því séu kærendur álitnir réttlægri í þessu máli og halli verulega á þá. Þá hafi leiðbeiningar bæjaryfirvalda gagnvart kærendum verið af skornum skammti, en skv. 7. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerti starfssvið þess. Að lokum hafi meðferð málsins tekið óhóflega langan tíma, eða rúm tvö ár, og málshraðaregla stjórnsýslulaga því ekki virt, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

———-

Bæjaryfirvöldum Garðabæjar var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í máli þessu en þau hafa ekki tjáð sig um málatilbúnað kærenda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningar­tilvikum sem þar eru greind.

Hinn 27. september 2017 sóttu kærendur um byggingarleyfi fyrir breytingum á lóð sinni Reynilundi 11, Garðabæ. Þeirri umsókn var hafnað af bæjarstjórn Garðabæjar 17. október 2019. Á fundi bæjarstjórnar 20. febrúar 2020 var samþykkt nýtt deiliskipulag sem tekur til þessa svæðis og er byggingarreitur húss kærenda þar stækkaður um 10 m2 til suðurs. Sú deiliskipulagsákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði í máli nr. 46/2020 uppkveðnum 16. október 2020. Í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag tók gildi tilkynntu kærendur byggingarfulltrúa Garðabæjar um fyrirhugaða framkvæmd sína við stækkun bílskúrs, sbr. gr. 2.3.6. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 22. september 2020 var staðfest sú afgreiðsla byggingarfulltrúa að heimila áformaðar framkvæmdir og jafnframt að tilkynntar framkvæmdir væru undanþegnar byggingarleyfi samkvæmt h-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Með tölvupósti úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2020, var kærendum gefinn kostur á að koma að skýringum um það hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins. Svar barst sama dag og kom fram að ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 22. september s.á. væri enn innan kærufrests og hefðu kærendur þar af leiðandi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar, 16. október 2020, var kærendum tilkynnt um það að með úrskurði uppkveðnum sama dag hefði úrskurðarnefndin hafnað kröfu um ógildingu deiliskipulags svæðisins. Voru kærendur inntir eftir því hvort og þá hvaða lögvörðu hagsmuni þeir teldu sig enn hafa af úrlausn málsins með tilliti til þess að sú ákvörðun sem kæra í máli þessu beinist að var tekin áður en deiliskipulag hafði tekið gildi. Þeim tölvupósti var ekki svarað.

Fyrir liggur að eftir hina kærðu synjun bæjaryfirvalda á umsókn kærenda um stækkun bílskúrs hafi verið sett deiliskipulag fyrir umrætt svæði þar sem byggingarreitur á lóð kærenda hefur verið stækkaður um 10 m2 en þar var stækkun bílskúrsins fyrirhuguð. Með fyrrgreindri afgreiðslu bæjarráðs 22. september 2020 hafa bæjaryfirvöld heimilað áformaðar framkvæmdir á lóðinni Reynilundi 11 og samkvæmt upplýsingum bæjarins er um að ræða sömu framkvæmdir og synjað var um með hinni kærðu ákvörðun í máli þessu. Með samþykki byggingaráforma kærenda hefur hin kærða ákvörðun um synjun fyrri umsóknar sama efnis fallið brott og hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Eiga kærendur því ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti umdeildrar ákvörðunar. Breytir þar engu um hver örlög kærumáls vegna hinnar nýju ákvörðunar um samþykki byggingaráforma þeirra verða eins og atvikum er háttað. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Afgreiðsla máls þessa hjá úrskurðarnefndinni hefur dregist vegna beiðni aðila sem freistuðu þess að leita lausnar í málinu.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

34/2020 Hringhella

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 27. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2020, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni að Hringhellu 4, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. maí 2020, er barst nefndinni s.d., kærir Vörubílastöð Hafnarfjarðar, Hringhellu 4, Hafnarfirði, álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni Hringhellu 4. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning og innheimta gjalds fyrir 22 gáma verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Hafnarfjarðarbæ að endurgreiða kæranda greiðslu sem innt var af hendi með fyrirvara 5. maí 2020, samtals að fjárhæð kr. 394.306.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 9. júní 2020.

Málsatvik: Hin kærða ákvörðun á sér nokkurn aðdraganda. Hafnarfjarðarbær sendi bréf til kæranda, dags. 17. ágúst 2017, þar sem fram kom að samkvæmt bókhaldi bæjarins ætti kærandi ógreiddan reikning vegna dagsekta. Var kærandi hvattur til að greiða skuldina eða sækja um stöðuleyfi fyrir gámana innan 15 daga svo komist yrði hjá frekari innheimtuaðgerðum. Höfuðstóll skuldar stæði í kr. 3.680.000. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 23. október s.á., þar sem fram kom að af efni bréfs bæjarins mætti ráða að sektin hefði verið lögð á af byggingarfulltrúa vegna meintrar vanrækslu kæranda við að sækja um stöðuleyfi vegna lausafjár á lóð hans. Mótmælti kærandi kröfugerðinni sem rangri og ólögmætri. Tók hann fram að á byggingarnefndarteikningum fyrir lóðina Hringhellu 4 kæmi fram að á henni væri gert ráð fyrir alls 23 sérgeymslusvæðum og einu sameiginlegu geymslusvæði. Því væri á þessum svæðum gert ráð fyrir að geymt væri lausafé, t.d. gámar, vagnar og annar búnaður sem e.t.v. væri þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir ef ekki væri gert ráð fyrir slíkri nýtingu lóðarinnar við skipulagningu hennar. Ekki væri þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir það lausafé sem væri á lóð kæranda svo lengi sem það væri innan þessa skipulagða geymslusvæðis. Skylda samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 til að sækja um stöðuleyfi fyrir gám hvíldi á eiganda gámsins en ekki eiganda lóðarinnar sem gámurinn stæði á. Kröfugerðinni væri því beint að röngum aðila en Hafnarfjarðarbær hefði beint fjárkröfum sínum og þvingunarúrræðum að eiganda fasteignarinnar Hringhellu 4. Loks benti kærandi á að byggingarreglugerðin heimilaði ekki álagningu dagsekta við því að eigandi gáms sækti ekki um stöðuleyfi. Skoraði kærandi á Hafnarfjarðarbæ að fella niður hina ólögmætu innheimtu.

Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar var svarað með bréfi, dags. 19. janúar 2018. Í því kom fram að fallið hefði verið frá beitingu dagsekta eins og lagt hefði verið upp með í innheimtuviðvörun, dags. 17. ágúst 2017. Hins vegar væri eiganda gáma á umræddri lóð gert að fjarlægja gáma sína innan tiltekins tíma í samræmi við reglur um stöðuleyfi. Í reglum Hafnarfjarðarbæjar um stöðuleyfi kæmi fram að með skipulögðum svæðum væri átt við að slíkt svæði hefði verið deiliskipulagt í þeim tilgangi að geyma slíka muni. Þannig nægði ekki að slíkt væri einungis tilgreint á aðaluppdrætti. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð væri gert ráð fyrir að eigandi sækti um stöðuleyfi, en þar væri einnig gert ráð fyrir að ábyrgðarmaður hlutar sækti um slíkt leyfi. Eigandi eða umráðamaður húss bæri ábyrgð á að halda lóð sinni hreinni og snyrtilegri, sbr. t.d. 1. gr. samþykktar um umgengni og þrifnað utan húss í Bessastaðahreppi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi. Þar sem eigandi þeirra muna sem um ræddi væri óþekktur kynni því að vera rétt að beina kröfum að eiganda eða umráðamanni umræddrar lóðar, enda teldist hann ábyrgðarmaður þeirra muna sem þar væru geymdir í skilningi reglna um stöðuleyfi. Í því tilviki sem hér um ræddi væru ekki til staðar upplýsingar um eigendur gámanna.

Hinn 22. janúar 2018 sendi Hafnarfjarðarbær umburðarbréf, m.a. til kæranda, þar sem fram kom að samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð væri skylt að sækja um stöðuleyfi ef láta ætti gám standa lengur en tvo mánuði innan lóðar. Þetta ætti við um alla lóðarhafa, bæði umráðamenn lóða fyrir atvinnu- og iðnaðarhúsnæði/íbúðarhúsnæði, að undanskildum þeim lóðarhöfum sem væru með skilgreint gámasvæði samkvæmt skipulagi. Haft hefði verið samband við þá eigendur sem sannarlega væru með gáma sína á lóðum og þeim bent á að þeim væri skylt að sækja um stöðuleyfi fyrir gámunum ef þeim væri ætlað að standa þar lengur en í tvo mánuði. Hefði ekki verið sótt um stöðuleyfi fyrir stöðuleyfisskyldum lausafjármunum gilti gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð um heimild byggingarfulltrúa til að fjarlægja viðkomandi lausafjármuni. Væri þess krafist að kærandi fjarlægði umrædda gáma af lóð sinni eigi síðar en 30 dögum frá dagsetningu bréfsins, að öðrum kosti yrðu þeir fjarlægðir á kostnað eiganda í samræmi við gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð.

Enn var með bréfi af hálfu Hafnarfjarðarbæjar, dags. 18. febrúar 2019, óskað eftir því að kærandi sækti um stöðuleyfi. Samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfirði væri gjaldið fyrir útgáfu stöðuleyfis kr. 33.838 fyrir einn gám á hvern eiganda. Ef eigandi sækti um stöðuleyfi fyrir fleiri en einn gám í hans eigu lækkaði gjaldið í kr. 16.576 umfram þennan eina. Ef ekki yrði brugðist við áskoruninni innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi Hafnarfjarðarbær fjarlægja gáminn/gámana af lóðinni á kostnað eiganda, sbr. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð, og yrði miðað við 18. mars 2019. Með bréfi bæjarins, dags. 3. júní 2019, var skorað á kæranda að nýju að sækja um stöðuleyfi eða fjarlægja gáminn. Var tekið fram að yrði þessum tilmælum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Gæti sú ákvörðun falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eiganda eða beitingu dagsektarákvæða. Kærandi brást ekki við þeirri áskorun og því sendi bærinn aftur bréf til hans, dags. 23. júlí 2019, þar sem m.a. kom fram að með vísan til gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð væri þess krafist að umræddir gámar yrðu fjarlægðir innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Yrði ekki orðið við þeirri kröfu innan tilgreinds frests væri áskilinn réttur til að beita úrræðum sem getið væri um í gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð, s.s. dagsektum.

Kærandi svaraði með bréfi, dags. 24. september 2019, þar sem fram kom að hann teldi að tilmæli þau sem kæmu fram í bréfi Hafnarfjarðarbæjar ættu sér hvorki stoð í lögum né reglugerð. Jafnframt hafnaði hann túlkun bæjarins á gr. 2.6.1. og 2.6.2. í byggingarreglugerð. Samkvæmt ákvæðunum væri nægilegt að tiltekin lóð væri skipulögð með staðsetningu lausafjármuna sem féllu undir ákvæðin í huga og að byggingar- og skipulagsyfirvöld hefðu samþykkt slíka notkun lóðarinnar. Mannvirkjastofnun hefði staðfest að það væri á valdi sveitarfélaga að taka slíkar ákvarðanir um einstakar lóðir og að það rúmaðist innan ramma laganna. Kærandi teldi að honum væri hvorki skylt né rétt að sækja um stöðuleyfi fyrir gáma og vagna sem hann ætti ekki en stæðu á lóð hans.

Hinn 19. desember 2019 var kæranda sent bréf með tilkynningu um afgreiðslu byggingar­fulltrúa vegna stöðuleyfa 2019. Í bréfinu kom fram að á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hefði verið tekið fyrir að nýju erindi vegna stöðuleyfa. Eigendum gáma, sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir, hefði verið sent bréf og þeim bent á að sækja þyrfti um stöðuleyfi eða fjarlægja þá gáma sem væru án stöðuleyfa og bent á að dagsektir yrðu lagðar á ef ekki yrði brugðist við. Dagsektir að upphæð kr. 20.000 yrðu lagðar á eigendur gáma sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir frá og með 30. desember 2019. Hinn 31. desember s.á. var gefinn út reikningur á kæranda vegna tveggja gáma að upphæð kr. 40.000 með skýringunni dagsektir, ekki sótt um stöðuleyfi fyrir gáma. Kærandi svaraði bréfi Hafnarfjarðarbæjar 14. janúar 2020 þar sem hann tók aftur fram að hann væri ekki eigandi umræddra gáma, en ákvörðun byggingarfulltrúa um álagningu dagsekta næði eingöngu til eigenda gáma, ásamt því að ítreka fyrri rök um að ekki væri heimilt að leggja á dagsektir vegna þess að eigandi sækti ekki um stöðuleyfi. Kærandi fékk reikning með bókunardegi 31. janúar 2020 þar sem innheimtar voru dagsektir vegna 15 gáma sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir að upphæð kr. 300.000. Var annar samhljóða reikningur og gefinn út 29. febrúar s.á. Kærandi greiddi 5. maí 2020 kr. 401.094, þ.e. kr. 394.306 auk áfallins kostnaðar að fjárhæð kr. 6.788.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að félagsmenn kæranda eigi og reki vörubifreiðar og standi lóð hans félagsmönnum til reiðu fyrir þann rekstur, sem óhjákvæmilega fylgi ýmiss búnaður. Að áeggjan bæjaryfirvalda hafi kærandi keypt fasteignina Hringhellu 4 og flutt rekstur sinn þangað. Byggingarnefndarteikningar hafi verið samþykktar árið 2001 og hafi þar verið skilgreind 23 geymslusvæði fyrir hvern leyfishafa auk eins sameiginlegs svæðis. Stærð og lögun svæðanna hafi miðast við að á hverju þeirra mætti standa 40 feta gámur. Hafi kærandi nýtt lóð sína eins og ráð hafi verið fyrir gert en á árinu 2016 hafi bréf frá Hafnarfjarðarbæ farið að berast þar sem stöðugjalda hafi verið krafist vegna gáma á lóðinni. Því hafi verið og sé enn mótmælt og byggi kærandi kröfur sínar á fjórum málsástæðum. Kröfum bæjarins sé beint að röngum aðila, lóð kæranda sé sérstaklega skipulögð og ætluð til geymslu gáma og því undanþegin þeirri skyldu að sækja þurfi um stöðuleyfi vegna þess, ákvörðun um fjárhæð þjónustugjalda vegna stöðuleyfa hafi ekki verið tekin í samræmi við fyrirmæli laga og loks skorti heimild að lögum til að innheimta sérstakt stöðuleyfi fyrir hvern og einn gám sem standi á tiltekinni lóð.

Hafnarfjarðarbær hafi frá upphafi beint öllum sínum kröfum að kæranda á grundvelli eignar­halds hans á umræddri lóð. Í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé kveðið á um útgáfu svokallaðra stöðuleyfa, sbr. ákvæði 9. tölul. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í b-lið gr. 2.6.1. í reglugerðinni komi m.a. fram að umsókn um stöðuleyfi skuli vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og fylgja skuli samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á. Ljóst sé að skyldan til að sækja um stöðuleyfi hvíli á eiganda eða ábyrgðarmanni gáma, en ekki eiganda þeirrar lóðar sem þeir standi á. Hafnarfjarðarbær hafi hins vegar túlkað ákvæðið svo að þar sem vísað sé til ábyrgðarmanns hlutar sé átt við eiganda lóðarinnar sem hluturinn standi á, þ.e.a.s. þegar eigandi viðkomandi munar sé óþekktur. Þessi túlkun samræmist hvorki orðum reglugerðarákvæðisins né almennum sjónarmiðum. Algengt sé að iðnaðar- og atvinnuhúsnæði sé leigt út og oft sé málum svo háttað að leigutakar í tilteknu húsi séu margir og alveg óskyldir. Með leigu á húsnæðinu fylgi réttur til þess að nýta lóðina sem húsið standi á. Það verði ekki lagt á leigusalann að sækja um leyfi fyrir þeim lausafjármunum sem leigutaki geymi á lóðinni og því síður beri honum skylda til þess að greiða fyrir slíkt leyfi, vegna hlutar sem hann eigi ekkert í. Þá séu ekki rök til þess að leggja dagsektir á leigusalann ef leigutakinn vanræki að sækja um leyfi. Skyldan beinist eingöngu að þeim sem eigi viðkomandi hlut, hafi umráð hans eða beri af öðrum ástæðum ábyrgð á honum. Leigusali beri ekki ábyrgð á lausafjármunum sem leigutaki hans geymi á leigulóðinni. Leigusali hafi ekki heimild að lögum til að fjarlægja þá eða gera aðrar ráðstafanir. Þær heimildir hafi sveitarfélög hins vegar í þeim tilvikum þegar eigandi hlutar sé óþekktur. Ef ætlun löggjafans eða stjórnvalda hefði verið að skylda þessi hvíldi á eiganda lóðar, eingöngu á grundvelli eignarhalds hans yfir henni, þá hefði verið kveðið á um það í ákvæðinu. Það hafi ekki verið gert og sé hvergi vikið að neinum skyldum lóðarhafa í þessu sambandi. Eingöngu sé vikið að rétti hans, sem felist í því að leita verði samþykkis hans áður en sótt sé um stöðuleyfi.

Af gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð leiði að ekki sé þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir gáma sem standi innan svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til slíkra nota. Ein meginforsenda kæranda fyrir því að kaupa svo stóra lóð hafi verið sú að félagsmönnum væri gert kleift að hafa þar allan búnað sinn, innan girðingar, öruggan og fjarri íbúðarbyggð. Með þessu hafi kærandi orðið við kröfum og óskum bæjarins. Á lóðinni sé teiknað og skipulagt gámasvæði fyrir 23 gáma. Þeir 22 gámar sem séu á lóðinni séu því innan heimilda þessa skipulags. Ekki sé þörf á að sækja um stöðuleyfi fyrir þessa gáma, enda hafi slíkt leyfi verið veitt í eitt skipti fyrir öll þegar byggingaryfirvöld hafi samþykkt skipulag og fyrirhugaða nýtingu lóðarinnar. Hafnarfjarðarbær hafi byggt á því að orðalag ákvæðisins fæli í sér að kveða yrði á um það í deiliskipulagi hvers svæðis að þar mættu standa gámar til þess að ekki væri þörf á að sækja um stöðuleyfi. Slík túlkun feli í sér útvíkkun á gjaldtökuheimildum Hafnarfjarðarbæjar, sem sé óheimil samkvæmt ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Hefði það verið ætlun löggjafans að svæði yrði að vera sérstaklega skilgreint í deiliskipulagi til að heimilað væri að hafa þar gáma án stöðuleyfis hefði það þurft að koma fram í mannvirkjalögum. Túlkun Hafnarfjarðarbæjar fari að auki þvert gegn túlkun Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en stofnunin telji það ekki ráðast af deiliskipulagi svæðis hvort þar megi samþykkja gámasvæði. Það sé á valdi sveitarstjórna á hverjum stað að heimila slíkt eða banna. Tilgangur og markmið með setningu þessara ákvæða um stöðuleyfi sé að gera byggingar- og skipulagsyfirvöldum mögulegt að koma höndum yfir og hafa stjórn á staðsetningu gáma eða annars lausafjár, innan lóðar og innan hverfa, sem sé mikilvægt til að koma í veg fyrir hættu af slíkum munum. Því sé kveðið á um að umsókn skuli fylgja uppdráttur af lóð þar sem staðsetning gáms sé skilgreind og lýst. Þegar lóðarhafi hafi lagt inn umsókn um samþykki byggingarnefndarteikningar af lóð, þar sem gert sé ráð fyrir gámasvæði, og þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt teikninguna sé markmiðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar að þessu leyti náð. Megi í raun segja að lóðarhafinn og byggingaryfirvöld hafi í eitt skipti fyrir öll samið um það hvernig vörslu og staðsetningu slíkra muni skuli háttað á viðkomandi lóð.

Samkvæmt 51. gr. mannvirkjalaga sé sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu byggingarfulltrúa. Samkvæmt ákvæðinu sé þeim heimilað að heimta gjald fyrir útgáfu stöðuleyfa fyrir gáma. Eigi upphæð gjaldsins að taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og vera byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Í ákvæðinu sé tekið fram að gjaldið megi ekki vera hærra en sem nemi kostnaðinum við að veita umbeðna þjónustu. Gjaldskrána skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafi Hafnarfjarðarbær ekki fengist til að afhenda rekstraráætlun þá sem gjaldskrá hans sé byggð á. Af því leiði að gjaldskráin sé ekki byggð á lögmætum grunni og beri að víkja henni til hliðar. Eina sundurliðunin eða skýringin á fjárhæð þóknunar hafi fengist með óformlegum hætti frá byggingarfulltrúa. Þar hafi komið fram að gjaldið samanstandi af þóknun samkvæmt gjaldskrá að fjárhæð kr. 11.377 og áætluðum tveimur tímum í tímavinnu á gjaldinu kr. 10.201 hver tími. Hér sé átt við gjald fyrir leyfi vegna gáms númer eitt. Engin sundurliðun eða skýring hafi fengist á ákvörðun gjalds fyrir gáma umfram þann fyrsta. Sá rökstuðningur sem hafi fengist fyrir ákvörðun fjárhæðar þóknunar Hafnarfjarðarbæjar standist enga skoðun. Í mannvirkjalögum sé hvergi fjallað um eftirlitsstarfsemi á vegum sveitarfélaga á þessu sviði og því síður sé þar að finna heimild til að innheimta gjald af lóðarhöfum til að standa straum af slíkri starfsemi. Engin skynsamleg rök styðji það heldur að starfsmenn bæjarins þurfi að inna svo mikla vinnu af hendi við útgáfu stöðuleyfis.

Af orðalagi gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð sé ljóst að eigandi eða ábyrgðarmaður gáma þurfi aðeins að sækja um eitt stöðuleyfi óháð fjölda gáma. Þannig sé talað um stöðuleyfi í eintölu en lausafjármuni í fleirtölu. Í 3. málsl. 3. gr. reglugerðarinnar segi til að mynda að handhafi stöðuleyfis sé ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna lausafjármuna og sé leyfisveitanda heimilt að krefja eiganda um gögn og rökstuðning þar að lútandi. Engin rök styðji það að kostnaður Hafnarfjarðarbæjar við útgáfu stöðuleyfis aukist í takt við fjölda gáma á tiltekinni lóð. Aðeins hafi verið lögð inn ein beiðni um leyfi fyrir alla 22 gámana og aðeins eitt leyfi verið gefið út fyrir þá alla. Þetta styðji aftur þá niðurstöðu að Hafnarfjarðarbær líti fremur á gjaldtöku vegna útgáfu stöðuleyfa sem tekjulind heldur en þóknun vegna veittrar þjónustu. Þetta fari gegn skýrum fyrirmælum 51. gr. mannvirkjalaga, ákvæðum laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Hafi það verið ætlun löggjafans að sveitarfélög innheimti stöðugjöld vegna gáma á einstökum lóðum eftir fjölda gáma eða stærð hefði verið kveðið skýrt á um það í lögunum sjálfum. Það sé ekki á valdi sveitarstjórna að túlka ákvæði 51. gr. með þessum hætti til íþyngingar fyrir lóðarhafa og eigendur gáma í bænum. Álagning þessara gjalda á kæranda sé því meingölluð og andstæð lögum og ríkjandi sjónarmiðum í stjórnsýslurétti.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að samkvæmt 9. tölul. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli í reglugerð meðal annars kveðið á um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði, atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingar­fulltrúa til að krefjast þess að þeir verði fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Á þessum grundvelli segi í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfisveitanda, þ.e. byggingarfulltrúa, til að láta eftirfarandi, m.a. gáma, standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Umsókn skuli vera skrifleg og henni m.a. fylgja uppdrættir, t.d. aðaluppdráttur, og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármuna. Þá sé í gr. 2.6.1. jafnframt ákvæði um staðsetningu þessara lausafjármuna og ábyrgð handhafa stöðuleyfa. Stöðuleyfi skuli ekki veitt til lengri tíma en 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað. Grein 2.6.2. í byggingarreglugerð fjalli síðan um heimild leyfisveitanda til að fjarlægja lausafjármuni.

Hafnarfjarðarbær hafi sett sérstakar reglur um stöðuleyfi, sem hafi síðast verið samþykktar í bæjarstjórn 12. desember 2018. Þar komi m.a. fram að sækja verði um stöðuleyfi til byggingar­fulltrúa ef lausafjármunir eigi að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem þeim sé ætlað samkvæmt skipulagi, sbr. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð og 9. tölul. 60. gr. mannvirkja­laga. Sérstaklega sé tekið fram í reglunum að með skipulögðu svæði sé átt við svæði sem hafi verið deiliskipulagt í þeim tilgangi að vera gámasvæði. Hvorki í mannvirkjalögum né byggingarreglugerð sé skilgreint hvað sé átt við með „skipulögðu svæði“. Í samræmi við almenna hugtakanotkun í mannvirkjalögum, byggingarreglugerð og skipulagslögum nr. 123/2010 verði þó að miða við að átt sé við svæði sem hafi verið sérstaklega skipulögð, skilgreind eða afmörkuð sem gámasvæði í deiliskipulagi, og eftir atvikum einnig í aðalskipulagi. Einnig verði að líta til þess að í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir að með umsókn um stöðuleyfi fylgi uppdrættir þar sem gerð sé grein fyrir staðsetningu leyfisskylds gáms á lóðinni. Ákvæði byggingarreglugerðar geri því ekki ráð fyrir að staðsetning gáma á aðaluppdrætti einum saman uppfylli skilyrði um að teljast svæði sem sé sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu gáma. Verði því að ganga út frá því að meginreglan sé sú að ef tiltekið svæði sé ekki skipulagt, skilgreint eða afmarkað sem geymslusvæði, gámasvæði eða álíka í deiliskipulagi, og þar séu geymdir eða geyma eigi einhvern af þeim lausafjármunum sem taldir séu upp í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð, t.d. gám, lengur en tvo mánuði, þá sé fyrir hendi skylda til að sækja um stöðuleyfi. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé lóð kæranda ekki með sérstöku gámasvæði.

Skylda til að sækja um stöðuleyfi hvíli réttilega á eiganda eða umráðamanni viðkomandi lausafjármunar. Hins vegar sé skýrt samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð að með umsókn skuli fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á. Í gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð sé svo að finna heimild byggingarfulltrúa til að fjarlægja gám sem staðsettur sé á lóð án stöðuleyfis eða krefja eiganda um að hann fjarlægi gáminn. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð sé byggingarfulltrúa einnig heimilt að beita dagsektum til þvingunar í slíkum málum. Skýrt sé samkvæmt 4. mgr. nefndrar 56. gr. að dagsektir og kostnað megi innheimta með fjárnámi og hafi sveitarfélag m.a. lögveð í þeirri lóð sem gámar standi á fyrir kröfu sinni. Það sé því ljóst að skyldur eiganda gáms og lóðarhafa liggi saman og sé ekki hægt að slíta í sundur með þeim hætti sem kærandi leggi upp með í kæru sinni. Þá sé samkvæmt 15. gr. mannvirkjalaga skýrt að eigandi húsnæðis beri ábyrgð á því að fylgt sé ákvæðum gildandi laga og reglugerða við rekstur mannvirkis. Út frá almennum skýringarreglum í lögfræði gildi það ákvæði framar reglugerðum. Auk framangreinds skuli áréttað að lóðarhafi beri að lögum ábyrgð á sinni fasteign og tilheyrandi lóð í samræmi við almennar skaðabótareglur og ákvæði í lóðarleigu­samningum. Sé byggingarfulltrúa heimilt að beita þvingunarúrræðum gagnvart eigendum gáma sem staðsettir séu innan lóðar án stöðuleyfis og felist sú þvingun í því að eigendum beri að fjarlægja gám ella eiga á hættu að fá lagðar á sig dagsektir.

Samkvæmt 2. gr. í reglum Hafnarfjarðarbæjar um stöðuleyfi skuli innheimt gjald á hvern gám, lausafjármun, samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfirði. Samkvæmt gildandi gjaldskrá nr. 1349/2019 sé gjald fyrir stöðuleyfi árið 2020 kr. 34.933 fyrir fyrsta gám eða lausafjármun og kr. 17.113 vegna stöðuleyfis fyrir gám eða lausafjármuni umfram þann fyrsta. Upphæð gjaldsins taki í fyrsta lagi mið af kostnaði vegna móttöku og umfjöllunar á innsendri umsókn um stöðuleyfi. Yfirfara þurfi umsóknir í samræmi við gr. 2.6.1. í gildandi byggingarreglugerð, s.s. yfirfara uppdrætti og staðsetningu gámsins sem um ræði. Gjald fyrir þennan hluta sé kr. 11.138. Þá sé gert ráð fyrir kostnaði vegna eftirlits við framfylgd útgefinna stöðuleyfa, m.a. eftirlit með að handhafi stöðuleyfis uppfylli þær kröfur sem fram komi í gr. 2.6.1., sbr. kröfu í 2. mgr. gr. 2.6.2. Það sé skylda byggingarfulltrúa að sinna slíku eftirliti, sbr. gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð. Í rekstraráætlun sé gert ráð fyrir að slíkt eftirlit feli þá í sér athugun á staðnum. Gjald fyrir þennan hluta sé því kr. 23.795. Framangreindur kostnaður sé eðli málsins samkvæmt lægri vegna stöðuleyfis fyrir gám umfram þann fyrsta. Þó sé ljóst að kostnaður við móttöku umsóknar og það sem því fylgi falli eðli málsins samkvæmt til vegna viðbótargáma. Hér skuli þó áréttað að endanlegur raunkostnaður sveitarfélagsins vegna stöðuleyfis fyrir gáma umfram þann fyrsta kunni þó að verða hærri í einhverjum tilvikum en sem nemi upphæð gjaldsins. Sé stöðuleyfi veitt fyrir viðbótargámi eða gámum, nokkru eftir að stöðuleyfi hafi verið veitt fyrir fyrsta gáminn, færi hagræðingin af því að sinna eftirliti með fleiri en einum gámi á viðkomandi lóð. Þrátt fyrir þessa staðreynd þá myndi sveitarfélagið innheimta lágmarksupphæð fyrir eftirlit vegna þeirra gáma og væri gjaldið því lægra en fyrir fyrsta gám.

Einn eða fleiri ótengdir aðilar geti sótt um stöðuleyfi fyrir gám/gámum á sömu lóðinni með samþykki lóðarhafa. Eins og fram komi í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð þurfi sérstaklega að taka tillit til öryggissjónarmiða og hollustuhátta við mat á umsóknum og útgáfu stöðuleyfa. Það eigi við um hvern og einn gám sem leyfi sé veitt fyrir. Yrði leyfi veitt með einu gjaldi óháð fjölda lausafjármuna á lóð sé augljóst að töluvert erfiðara, ef ekki vonlaust, yrði að uppfylla þær skyldur. Þeirri afstöðu sem m.a. komi fram í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar, nú Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sé því mótmælt.

Niðurstaða: Byggingarreglugerð nr. 112/2012 er sett með stoð í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og er í reglugerðinni m.a. kveðið á um stöðuleyfi í kafla 2.6., sbr. 9. tl. 60. gr. nefndra laga. Í gr. 2.6.1. í reglugerðinni er tekið fram að sækja skuli um stöðuleyfi til að láta lausafjármuni, s.s. gáma, standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Greinir aðila á um hvort skilyrði þessu sé fullnægt og hefur því verði haldið fram af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að svæði þurfi að vera skilgreint sem gámasvæði í deiliskipulagi til að fullnægja þeirri kröfu að teljast sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu gáma, svo sem fram komi í reglum bæjarins um stöðuleyfi samþykktum af bæjarstjórn 12. desember 2018.

Kærandi er lóðarhafi Hringhellu 4, sem skráð er iðnaðar- og athafnalóð hjá fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Deiliskipulag Hellnahrauns, 1. áfangi, tekur til umræddrar lóðar og í greinargerð skipulagsins kemur fram að „Á aðaluppdráttum (byggingarnefndarteikningum) skal sýna skipulag lóðar, hæðarlegu, staðsetningu bílastæða, aðkomur, athafnasvæði, gámasvæði í samræmi við gr. 22 í byggingarreglugerð og að vera að öðru leyti í samræmi við grein um lóðafrágang í lóðarleigusamningum […].” Í tilvitnuðu ákvæði þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 var fjallað um lóðauppdrætti en þar skyldi skv. 2. mgr. 22. gr. m.a. gera grein fyrir gámastæðum og skyldi fyrirkomulag lóðar vera í eðlilegu samhengi við þá starfsemi sem fram færi í viðkomandi byggingu og næsta nágrenni. Sambærileg ákvæði er að finna í gr. 4.4.4. í núgildandi byggingarreglugerð. Meðal teikninga af lóðinni og mannvirkjum á henni sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa árið 2001, þ.e. byggingarnefndarteikninga, er að finna lóðaruppdrátt og afstöðumyndir. Byggingarfulltrúi hefur einnig samþykkt afstöðumynd af lóðinni 13. maí 2004, lítillega breytta vegna starfsmannahúss, og er hún nýjust af samþykktum teikningum. Allar myndirnar sýna 23 afmörkuð „geymslusvæði fyrir hvern leyfishafa“ á lóðinni og er stærð þeirra ýmist 9,5×15 eða 10×15 m. Þá er þar gert ráð fyrir þvottaplani og olíuskilju og að hluti bílastæða rúmi bifreið með tengivagni.

Náið samspil er milli skipulagslaga nr. 123/2010 og mannvirkjalaga og er í þeim báðum að finna gagnkvæmar lagatilvísanir um ýmsa þætti. Í áðurgreindri gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð er þó ekki vísað til þess að deiliskipulag þurfi að vera fyrir hendi og verður af orðalagi ákvæðisins ekki fullyrt að það sé nauðsynlegt til að svæði geti í skilningi þess talist sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu þeirra lausafjármuna sem um er fjallað í ákvæðinu. Þá liggur fyrir deiliskipulag af umræddu svæði þar sem sérstaklega er mælt fyrir um hvað sýna skuli á aðaluppdráttum eða byggingarnefndarteikningum og hafa slíkar teikningar verið samþykktar fyrir lóð kæranda sem sýna geymslusvæði. Þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að þau geymslusvæði séu ætluð fyrir þá lausafjármuni sem um er fjallað í nefndu ákvæði byggingarreglugerðar, enda eru þau hvorki bílastæði né ætluð fyrir mannvirki og standa í eðlilegu samhengi við starfsemi kæranda á lóðinni. Bar því ekki nauðsyn til að sækja um stöðuleyfi vegna geymslu umræddra gáma á lóðinni og var bæjaryfirvöldum hvorki rétt að fara fram á það að viðlögðum dagsektum né að innheimta gjöld af kæranda vegna samþykktrar umsóknar. Verður hin kærða álagning stöðuleyfisgjalds því felld úr gildi.

Svo sem úrskurðarnefndin hefur komist að niðurstöðu um var óheimilt að gera kröfu um að sótt yrði um stöðuleyfi vegna gáma sem stóðu á þar til ætluðu svæði á lóð kæranda. Að auki skal á það bent að fyrrgreindum kröfum bæjaryfirvalda var ítrekað beint að kæranda sem lóðarhafa umræddrar lóðar þrátt fyrir að fyrir lægi að hann væri ekki eigandi gámanna. Af orðalagi gr. 2.6.1. og 2.6.2. í byggingarreglugerð er ljóst að fyrst og fremst er gert ráð fyrir því að eigandi stöðuleyfisskyldra lausafjármuna sæki um slík leyfi og uppfylli kröfur og skilyrði vegna þess, en megi að öðrum kosti búast við að verða beittur þvingunarúrræðum. Verður ekki séð að eignarhald umræddra lausafjármuna hafi verið sérstaklega rannsakað í máli þessu, en í ljósi niðurstöðu málsins verður ekki um það fjallað.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi kærð álagning stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni Hringhellu 4.

23/2020 Skógrækt Hvammssveit

Með

Árið 2020, föstudaginn 23. október, fundaði  úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2020, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 5. mars 2020 um að binda samþykkt umsókna um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi þriggja jarða í Dalabyggð tilteknum skilyrðum.

Í málinu er nú kveðinn svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. mars 2020, er barst nefndinni 30. s.m., kæra landeigendur Hóls í Hvammssveit, Óss í Saurbæ og Stóra-Langadals á Skógarströnd, Dalabyggð, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 5. mars 2020 að binda samþykkt umsókna um framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt í landi jarða þeirra þeim skilyrðum að fyrir framkvæmdunum þyrfti að liggja fyrir umsögn Minjastofnunar Íslands og samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Er gerð sú krafa að nefnd skilyrði verði felld úr gildi en að öðrum kosti verði umsögn Minjastofnunar einskorðuð við fyrirhuguð skógræktarsvæði, en ekki heildarland umræddra jarða, byggt verði á fyrirliggjandi gögnum og umsagnir verði án kostnaðar fyrir landeigendur.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 28. apríl og í september 2020.

Málavextir: Kærendur hafa áform um að hefja skógrækt á jörðum sínum og munu liggja fyrir samningar við Skógræktina þess efnis. Áætlað er að stærð fyrirhugaðs skógræktarsvæðis á jörð Stóra-Langadals sé 149 ha, á jörðinni Hóli í Hvammssveit 120 ha og á Ósi í Saurbæ 10 ha. Hinn 2. mars 2020 voru á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Dalabyggðar teknar fyrir umsóknir kærenda um framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar skógræktar á jörðum þeirra. Höfðu sambærileg erindi frá kærendum áður komið til skoðunar hjá sveitarfélaginu, en afgreiðslu þeirra verið frestað þar til mótuð hefði verið stefna hjá sveitarfélaginu varðandi landnotkun tengda landbúnaði samfara nýju aðalskipulagi. Voru umsóknir landeigenda Hóls og Stóra-Langadals afgreiddar með svofelldum samhljóða bókunum: „Nefndin samþykkir erindið með tilliti til nýrrar flokkunar á landbúnaðarlandi í drögum að endurskoðun á Aðalskipulagi Dalabyggðar, en landið fellur undir flokk II og III samkvæmt þeirri greiningu. Einnig þarf að liggja fyrir samþykki eigenda aðliggjandi jarða og umsögn Minjastofnunar. Samþykkt samhljóða, með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar á drögum að flokkun landbúnaðarlands.“ Hlaut umsókn landeiganda á Ósi sömu afgreiðslu að öðru leyti en því að bókað var að landið félli undir flokk II. Voru nefndar afgreiðslur samþykktar á fundi sveitarstjórnar 5. mars 2020. Á sama fundi var einnig samþykkt tillaga umhverfis- og skipulagsnefndar um að samþykkt yrðu drög að viðmiðum fyrir flokkun landbúnaðarlands vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Dalabyggðar.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að þeir séu allir skógarbændur og séu miklir hagsmunir í húfi fyrir þá í máli þessu. Skógræktin hafi þegar tekið skógræktarsvæðin út og samþykkt skógrækt á lögbýlum, en endanlegur samningur milli skógarbónda og Skógræktarinnar sé háður útgáfu framkvæmdaleyfis frá sveitarstjórn. Þegar skógarbændur, eða sveitarfélög fyrir þeirra hönd, óski umsagnar Minjastofnunar Íslands sé því hafnað að veita umsögn á þeirri forsendu að viðkomandi sveitarfélag hafi ekki lokið við skráningu fornleifa, eins og því beri að gera í tengslum við gerð aðalskipulags. Stofnunin taki fram að skráning skuli fara fram og að skógarbóndinn skuli láta framkvæma hana á sinn kostnað. Að öðrum kosti verði umsögn ekki veitt og þar með fái bóndinn ekki skógræktarleyfið.

Áratugir séu síðan sveitarfélögum í landinu hafi verið gert skylt samkvæmt lögum að framkvæma skráningu fornminja, en meiri hluti þeirra hafi ekki lokið því. Árið 2015 hafi Minjastofnun talið að 150.000 eða 70% allra fornminja væru óskráðar. Stofnunin hafi ekki boðvald til að geta knúið sveitarfélög til að ljúka skráningunni og fari því þessa leið. Virðist Minjastofnun ekki hafa heimild til að framkvæma sjálf skráninguna og krefja skógarbóndann um greiðslu, en vísi á einkaaðila. Sendi hún út lista yfir lítinn hóp aðila sem taki slíkt að sér, en engar frekari leiðbeiningar fylgi. Taki Minjastofnun enga ábyrgð á kostnaðinum og sveitarfélagið hafni því að bera ábyrgð á honum. Standist þessi málsmeðferð engan veginn.

Skógrækt á lögbýlum og landbúnaðarlandi sé ekki deiliskipulagsskyld og engin leið að lesa það úr lögum og reglum, sbr. j-lið gr. 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í leiðbeiningum sem Skógræktin og Skipulagsstofnun hafi gefið út um „Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga II. útgáfa 2014“ segi að almennt sé skógrækt ekki deiliskipulagsskyld og að ekki sé gert ráð fyrir að vinna þurfi deiliskipulag fyrir skógrækt á landbúnaðarsvæðum ef nægilega skýr grein sé gerð fyrir henni í aðalskipulagi. Liggja verði fyrir mjög skýr rök fyrir því að víkja frá þessari meginreglu. Engin dæmi hafi fundist um slíka undantekningu, enda séu öll leyfi til skógræktar á lögbýlum, sem sveitarfélög landsins hafi gefið út fram að þessu eingöngu með vísan til aðalskipulags. Ljóst sé af málatilbúnaði minjavarða Vesturlands og Norðurlands eystra að þeir telji að setja skuli deiliskipulag þar sem skógrækt sé fyrirhuguð. Ekki séu tilgreind skýr lagaákvæði þessu til stuðnings heldur óskýrt orðalag í lögum, reglum og leiðbeiningum túlkað frjálslega og það notað til að gera auknar og íþyngjandi kröfur á skógarbændur sem löggjafinn hafi upphaflega ekki ætlast til.

Ekki verði séð að Minjastofnun hafi heimild samkvæmt lögum nr. 80/2012 um menningarminjar til að taka sjálf gjald fyrir skráninguna. Ætlist stofnunin til þess að viðkomandi jarðir séu skráðar en í bréfum hennar, þar sem hún hafni því að veita umsögn, sé alltaf vísað til jarðarinnar, ekki aðeins til skógræktarsvæðisins. Það megi enn fremur lesa úr þeim tilboðum sem gerð hafi verið í verkin. Dæmi um nokkur tilboð sýni hversu handahófskennt þetta sé og án rökstuðnings um innihald. Skilningur sveitarfélagsins sé skýr, sbr. svar skipulagsfulltrúa frá 20. mars 2020 til eins kærenda, einungis sé verið að tala um skógræktarsvæðið.

Ljóst sé að mistúlkun Minjastofnunar og tilboðsgjafanna á því hvers sveitarstjórn krefjist og skógarbóndinn þarfnist þýði að hann sé látinn greiða margfalda þá upphæð sem þurft hefði til að uppfyllt séu skilyrði sveitarstjórnar og kröfur Minjastofnunar. Engin lagastoð sé fyrir því að krefja landeigenda, og/eða skógarbónda í þessu tilviki, um kostnað vegna fornleifaskráningar. Segi enda í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 80/2012 að sá sem beri ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög skuli standa straum af kostnaði við skráninguna, sem í þessu tilfelli sé sveitarfélagið. Í 28. gr. sömu laga segi að kostnaður Minjastofnunar vegna vettvangskönnunar á fornminjum sem gerð sé í þeim tilgangi að staðfesta eðli eða tilgang þeirra skuli greiddur af stofnuninni.

Ekki verði séð að við meðferð málsins hafi verið horft til reglna um lögmæti eða meðalhóf. Í lögmætisreglunni felist sú krafa að starfsemi stjórnvalda skuli vera í samræmi við og eiga stoð í lögum. Sú meginregla gildi að starfsemi stjórnvalda skuli fjármögnuð með almennum skatttekjum. Innheimta þjónustugjalda fyrir þjónustu sem opinberum aðilum sé skylt að veita sé háð því skilyrði að fyrir hendi sé lagaheimild til töku gjalds og að fyrir það komi sérstakt endurgjald.

Jafnræðisreglan hafi verið brotin við afgreiðslu umsókna um framkvæmdaleyfi. Aðeins örfá sveitarfélög krefjist umsagnar Minjastofnunar Íslands vegna umsókna um leyfi vegna skógræktar. Meiri hluti sveitarfélaga sem ekki hafi sjálf lokið skráningu fornminja fari ekki fram á umsögn hennar og oftast sé heldur ekki beðið um samþykki eigenda allra aðliggjandi jarða. Því þurfi skógarbændur í þessum sveitarfélögum ekkert að greiða vegna fornleifaskráningar. Aðferðarfræði Dalabyggðar og örfárra annarra sveitarfélaga sé því alger undantekning frá reglunni í þessu sambandi. Líklegt sé að þessi mismunur á málsmeðferð stangist einnig á við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sem og 75. gr. hennar um atvinnufrelsi. Sé neikvætt viðhorf sveitarstjórnar til skógrækar einnig í andstöðu við stefnu ríkisstjórnar Íslands og Alþingis.

Við hina kærðu afgreiðslu hafi ekki verið vísað til tiltekinna laga eða reglugerða sem geri sveitarfélaginu skylt að setja skilyrði. Flest önnur sveitarfélög láti sér nægja að samþykkja sambærileg framkvæmdaleyfi með vísan til ákvæða í 4. eða 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Hér virðist því Dalabyggð enn og aftur gera meiri íþyngjandi kröfur til sinna skógarbænda en flest önnur sveitarfélög í sambærilegum málum. Að fara fram á samþykki eigenda allra jarða, sem e.t.v. liggi víðs fjarri og hvergi í augsýn við skógræktarlandið sé óþörf og talsvert íþyngjandi ráðstöfun sem ekki sé í samræmi við meðalhófsreglu. Séu aðrar leiðir færar.

Málsrök Dalabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að kröfum kærenda verði hafnað.

Í kröfugerð kærenda felist í raun krafa um að úrskurðarnefndin breyti ákvörðun sveitarstjórnar en slíkt sé ekki á færi nefndarinnar. Úrskurðarnefndin taki einungis afstöðu til lögmætis kærðrar ákvörðunar, sbr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.  Stjórnvaldsákvörðun sú sem hér um ræði sé ákvörðun sveitarstjórnar um að veita megi umsótt framkvæmdaleyfi. Ef talið væri að skilyrði sveitarstjórnar um umsögn Minjastofnunar Íslands væri ólögmætt þá ætti það að leiða til ógildingar á samþykkt sveitarstjórnar, enda geti skilyrðið eitt og sér ekki talist sjálfstæð stjórnvaldsákvörðun. Kröfugerð kærenda sé ósamrýmanleg þessum sjónarmiðum og verði af þeim sökum að vísa kærunni frá. Einn af þremur kærendum sé eigandi jarðarinnar Hóls í Hvammssveit og umsækjandi um það eina framkvæmdaleyfi sem kæran lúti að. Hinir tveir séu eigendur annarra jarða og verði ekki af málsgögnum ráðið að þeir eigi þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni tengda hinni umdeildu samþykkt sveitarstjórar sem lagðir verði til grundvallar aðild þeirra að málinu. Beri því, hvað sem öðru líði, að vísa málinu frá hvað þá varði.

Varakrafa sveitarfélagsins sé studd þeim rökum að samþykkt framkvæmdaleyfis fyrir skógrækt án áskilnaðar um umsögn Minjastofnunar Íslands væri ólögmæt þar sem slík samþykkt myndi ekki uppfylla lagaskilyrði. Leiði þetta af ákvæði 6. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem segi að áður en sveitarstjórn gefi út framkvæmdaleyfi skv. 15. gr. skuli gætt, eftir því sem við eigi, ákvæða IV. og VI. kafla laga um menningarminjar, en það verði ekki gert án atbeina Minjastofnunar Íslands. Þá segi í 5. mgr. 15. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar að fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði teljist ekki lokið fyrr en skráin hafi hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Af þessum ákvæðum leiði að sveitarstjórn hafi ekki verið heimilt að veita umrætt framkvæmdaleyfi án þess að setja skilyrði um umsögn stofnunarinnar. Væri því hvorki heimilt að fella skilyrðið úr gildi né leggja fyrir sveitarstjórn að veita leyfið án þess skilyrðis.

Einnig sé á því byggt að fullyrðingar kærenda um að sveitarfélaginu beri að annast skráningu fornminja á fyrirhuguðum skógræktarsvæðum og standa straum af kostnaði við hana séu á misskilningi byggðar. Sé í þessu sambandi vísað til 1. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 80/2012 en skv. 1. mgr. skuli skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið sé frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Áður en deiliskipulag sé afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna gefið út skuli skráning ætíð fara fram á vettvangi. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir ríkari skyldu til skráningar fornleifa við gerð aðalskipulags en nú sé í lögunum, en 1. mgr. 16. gr. hafi verið breytt við þriðju umræðu til þess horfs sem síðar varð að lögum. Sé í þessu sambandi vísað til greinargerðar með breytingartillögunni en augljóst sé að slakað hafi verið á þeim kröfum sem til stóð að gera um fornleifaskráningu við gerð aðalskipulags þannig að umfang skráningarinnar yrði í samræmi við markmið skipulagsstiganna og hafi skráningarskyldan með þessari breytingu verið bundin við deiliskipulagsstigið í ríkara mæli. Vettvangsskráning fornminja þurfi því ekki að eiga sér stað við gerð aðalskipulags líkt og kærendur virðist álíta.

Augljóst sé að ákvæði 3. gr. reglna nr. 620/2019, um skráningu jarðfastra menningarminja vegna skipulags og framkvæmda, sem Minjastofnun Íslands hafi sett um skyldu til skráningar á vettvangi áður en aðalskipulag sé samþykkt eigi sér ekki lagastoð. Komi það líka á daginn þegar litið sé til staðla Minjastofnunar Íslands um fornleifaskráningu sem vísað sé til í reglunum. Þá gæti líka ákveðins misskilnings í ákvæðinu um eðli og hlutverk aðalskipulags. Skráning fornminja á vettvangi þurfi því ekki að eiga sér stað við samþykkt aðalskipulags og sæti það ekki athugasemdum Skipulagsstofnunar við staðfestingu aðalskipulags þótt slík skráning hafi ekki farið fram. Komi víða fram í aðalskipulagi Dalabyggðar að fornleifar skuli skrá við gerð deiliskipulags og sé ekki að sjá að Skipulagsstofnun hafi gert athugasemd við þá stefnu sveitarfélagsins, enda sé hún í samræmi við ákvæði gildandi laga.

Fyrir liggi að ef skógræktarsvæði það sem hér um ræði væri talið deiliskipulagsskylt þá ætti skráning fornleifa á vettvangi að eiga sér stað sem liður í undirbúningi þess. Sú skipulagsgerð væri hins vegar á forræði og ábyrgð landeiganda eða framkvæmdaraðila og á hans kostnað, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Bæri hann þá jafnframt kostnað af skipulagsgerðinni, þar með talinn kostnað af fornleifaskráningu á svæðinu. Sveitarstjórn hafi ekki talið þörf á gerð deiliskipulags vegna skógræktaráforma kærenda og hafi stuðst við túlkun Skipulagsstofnunar og framkvæmd sem m.a. birtist í riti Skógræktarinnar og Skipulagsstofnunar Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga, III. útgáfa 2017. Af þessu leiði að almennt komi ekki til skráningar fornleifa á vettvangi í tengslum við gerð deiliskipulags vegna skógræktar á landbúnaðarsvæðum þar sem slíkt skipulag sé ekki gert.

Þegar svo standi á að fullnægjandi skráning fornminja hafi ekki átt sér stað í tengslum við skipulagsgerð skuli hún fara fram áður en leyfi til framkvæmda sé veitt, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 80/2012. Segi síðan nánar svo um þetta í 2. mgr. 28. gr. sömu laga að „Framkvæmdaraðili greiðir kostnað við þær rannsóknir á fornleifum sem Minjastofnun Íslands ákveður að séu nauðsynlegar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Við allar umfangsmiklar framkvæmdir skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum og vettvangsskráningu fornleifa”. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi um ákvæði 28. gr. að það taki m.a. til skógræktar. Í þessu felist annars vegar að Minjastofnun Íslands ákveði hvaða rannsóknir séu nauðsynlegar vegna fyrirhugaðra framkvæmda og hins vegar að framkvæmdaraðili greiði kostnað af þeim rannsóknum og þeirri vettvangsskráningu sem stofnunin ákveði að sé nauðsynleg. Sé ljóst af málatilbúnaði kærenda að kæran beinist í raun fyrst og fremst að ákvörðunum Minjastofnunar Íslands um skráningu fornminja á jörðum þeirra og kostnaði af henni í tilefni af umsóknum þeirra um framkvæmdaleyfi til skógræktar. Geti sveitarstjórn ekki svarað fyrir ákvarðanir Minjastofnunar Íslands eða borið ábyrgð á þeim. Sé tekið undir þau sjónarmið að umsögn Minjastofnunar Íslands og krafa stofnunarinnar um skráningu á vettvangi eigi eingöngu að taka til þeirra skógræktarsvæða sem lýst sé í umsóknum um framkvæmdaleyfi, enda verði ekki séð að nein málefnaleg rök standi til þess að gerð sé krafa um víðtækari skráningu fornminja vegna skógræktaráforma þeirra.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að ekki hafi verið fjallað um kjarna málsins í greinargerð sveitarfélagsins, þ.e. að ekki hafi verið tekið mið af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við afgreiðslu og umfjöllun málsins. Einnig sé bent á álit umboðsmanns Alþingis nr. 9937/2018, en þar komi fram að úrskurðarnefndir eigi að einbeita sér að efnisatriðum er varði réttaröryggi borgaranna gagnvart stjórnsýslunni og láta ekki lagatæknileg atriði vera rétthærri hvað slíkt varði, þ.m.t. sé sérstök áhersla á að taka skuli tillit til stjórnarskrárvarinna mannréttinda svo og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Þá sé sveitarfélagið ekki bundið af umbeðnu áliti Minjastofnunar Íslands og beri að afgreiða mál hvort sem álitsgjafi veiti slíkt álit eða ekki.

Rangt sé að úrskurðarnefndin geti ekki fjallað sérstaklega um sett skilyrði enda séu slík skilyrði efnislega sjálfstæð ákvörðun, sbr. ákvörðun nefndarinnar í máli nr. 94/2018. Einnig sé vísað til 26. gr. stjórnsýslulaga í þessu sambandi. Þá fjalli ákvæði 28. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar um rannsóknir, en ekki skráningu. Að öðru leyti sé bent á lögskýringar við 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga.

Dalabyggð hafi margsinnis verið bent á að afgreiðsla þeirra væri mun meira íþyngjandi en tíðkist hjá öðrum sveitarfélögum og sé ekki í samræmi við venju í þessum málaflokki. Það sé sérstaklega áberandi í greinargerð sveitarfélagsins að ekkert sé fjallað um þetta atriði og engin tilraun gerð til að andmæla því. Um sé að ræða nýja túlkun og framkvæmd laga en óheimilt sé að taka upp nýja stjórnsýsluframkvæmd hjá einum aðila meðan mál annarra séu leyst í samræmi við hina venjubundnu framkvæmd. Breyting á stjórnsýsluframkvæmd þurfi að vera gerð á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, ná til allra mála og taka verði tillit til réttmætra væntinga almennings og kynna honum breytinguna fyrirfram. Ekki þurfi einungis að tryggja samræmi mála heldur einnig að öllum standi einhver tiltekin gæði jafnt til boða.

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér.

—–

Eftir að kæra barst í máli þessu, eða 6. og 16. apríl 2020, óskaði skipulagsfulltrúi Dalabyggðar eftir umsögn Minjastofnunar Íslands vegna umsókna kærenda um framkvæmdaleyfi vegna fyrirhugaðrar skógræktar. Svar stofnunarinnar varðandi skógrækt á Hóli í Hvammssveit barst 6. apríl s.á. og kom þar fram að engin fornleifaskráning hefði farið fram við gerð aðalskipulags Dalabyggðar og svæðið sem færi undir tilvonandi skógrækt hefði því ekki verið skráð. Taldi stofnunin mjög líklegt að minjar myndu skaðast við skógrækt og gerði þar af leiðandi athugasemdir við að framkvæmdaleyfi yrði veitt áður en fullnægjandi fornleifaskráning hefði farið fram. Var og bent á að skráning landeiganda teldist ekki fullnægjandi fornleifaskráning. Minjastofnun veitti 17. apríl s.á. umsögn vegna skógræktar að Stóra-Langadal og var niðurstaða hennar á sömu lund. Í umsögn Minjastofnunar vegna skógræktar á Ósi í Saurbæ, dags. 5. júní 2020, kom fram að minjavörður hefði kannað svæðið á vettvangi. Fjórir minjastaðir hefðu fundist í og við fyrirhugað skógræktarsvæði og hafi þeir verið myndaðir og mældir upp af minjaverði. Nefndan dag hefði borist nýtt kort þar sem fyrirhugað skógræktarsvæði hefði verið minnkað og minjastaðirnir settir inn. Væru því ekki gerðar athugasemdir við framkvæmdina. Framkvæmdaleyfi vegna skógræktar í landi Óss í Saurbæ var gefið út 14. júlí 2020, en ekki munu hafa verið gefin út framkvæmdaleyfi fyrir skógrækt á Hóli í Hvammssveit og Stóra-Langadal.

Niðurstaða: Kveðið er á um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Með hliðsjón af efni kæru í máli þessu og tilkynningu til úrskurðarnefndarinnar um kæruna verður að skilja efni hennar með þeim hætti að kærendur, þrír talsins, hafi skotið til nefndarinnar afgreiðslu umsókna þeirra um skógrækt á jörðum sínum. Fyrir liggur að nú hefur verið gefið út framkvæmdaleyfi vegna skógræktar á jörðinni Óss í Saurbæ og hefur sá kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa. Verður kæru hans því vísað frá, en afstaða verður tekin til krafna annarra landeigenda sem kæruefnið snertir með beinum hætti.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. mgr. 52. gr. þeirra laga, en ákvörðun um samþykkt framkvæmdaleyfis fellur þar undir. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar í máli þessu við þau skilyrði sem framkvæmdaleyfi kærenda eru bundin og þeir krefjast ógildingar á, en nefndin tekur hins vegar ekki nýja ákvörðun í málinu eða breytir henni. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kærenda sem felur slíkar kröfur í sér.

Í hinum kærðu ákvörðunum var gerður sá fyrirvari að liggja þyrfti fyrir samþykki eigenda aðliggjandi jarða og umsögn Minjastofnunar Íslands um fyrirhugaðar framkvæmdir. Í hnotskurn snýst ágreiningsefni máls þessa um það hvort heimilt hafi verið að binda umrædd leyfi framangreindum skilyrðum, en kærendur krefjast þess að þau verði felld úr gildi.

Við meðferð málanna lágu fyrir umsóknir kærenda um framkvæmdaleyfi. Í umsókn landeiganda Hóls í Hvammssveit,  dags. 18. október 2019, kom m.a. fram að undirbúningur ræktunaráætlunar fæli m.a. í sér kortlagningu fyrirhugaðs ræktunarlands og þar með hvort einhver úrtök yrðu gerð innan ræktunarsvæða vegna verndarákvæða náttúruverndarlaga, fornminjalaga og/eða annarra takmarka sem kynnu að koma í ljós. Einnig var tekið fram í bréfinu að ekki væru friðlýst svæði á fyrirhuguðu samningssvæði, landið væri ekki á náttúruminjaskrá og engar friðlýstar fornminjar væru þar skráðar. Var hið sama tekið fram í umsókn vegna skógræktaráforma á jörðinni Stóra-Langadal.

Eins og rakið hefur verið óskaði skipulagsfulltrúi hinn 6. apríl 2020 umsagnar Minjastofnunar vegna fyrirhugaðra framkvæmda kæranda að Hóli í Hvammssveit eftir að kæra barst í máli þessu. Í beiðninni var tekið fram að þess væri vænst að umsögnin yrði í samræmi við eftirfarandi viðmið, þ.e. að miðast við að leiðbeina sveitarfélagi og skógarbónda, þannig að tryggja mætti vernd fornminja, sem kynnu að vera á fyrirhuguðu skógræktarsvæði. Jafnframt var frá því greint að sveitarfélagið myndi, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, tilgreina skilyrði í framkvæmdaleyfinu þess efnis að ekkert jarðrask eða trjáplöntun yrði leyfð innan 15 m frá minjastöðum sem nú væru þekktir eða sem kynnu að finnast á skógræktarsvæðinu. Skyldi 15 m fjarlægðin miðast við ystu sýnilegu mörk fornminja. Einnig kom fram að landeigandi hefði skráð minjar á svæðinu og meðfylgjandi væri listi og/eða yfirlýsing landeigenda um þær fornminjar sem honum væri kunnugt um á skógræktarsvæðinu og væri vísað í örnefnaskrá þar sem það ætti við. Kom og fram að með listanum fylgdi einnig ljósmynd, hnit og stutt lýsing á tilgreindum fornminjum.

Í umsögn Minjastofnunar sem barst samdægurs var m.a. bent á að engin fornleifaskráning hefði farið fram við gerð aðalskipulags Dalabyggðar, svo svæðið sem færi undir tilvonandi skógrækt hefði ekki verið skráð. Taldi stofnunin mjög líklegt að minjar myndu skaðast við skógrækt og þar af leiðandi væru gerðar athugasemdir við að framkvæmdaleyfi yrði veitt fyrr en fullnægjandi fornleifaskráning hefði farið fram. Væri gerð krafa um að minjar væru mældar upp á vettvangi og var tekið fram að skráning landeiganda teldist ekki fullnægjandi fornleifaskráning. Jafnframt var vísað til 15. gr. laga um menningarminjar um að fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði teldist ekki lokið fyrr en skráin hefði hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Leitaði sveitarfélagið jafnframt umsagnar Minjastofnunar vegna skógræktar á jörðinni Stóra-Langadal og var umsögn stofnunarinnar á sömu lund þótt ekki hafi beinlínis verið tekið fram að skráning landeiganda teldist ekki fullnægjandi skráning. Munu framkvæmdaleyfi ekki enn hafa verið gefin út og mun útgáfa þeirra stranda á því að kærendur hafa ekki látið skrá fornminjar í landi sínu.

Mælt er fyrir um í 6. mgr. 13. gr. skipulagslaga að áður en sveitarstjórn gefi út framkvæmdaleyfi skv. 15. gr. skuli gætt, eftir því sem við eigi, ákvæða IV. og VI. kafla laga um menningarminjar, en í greindum köflum er að finna ákvæði um verndun og varðveislu menningarminja og verndun og varðveislu fornminja. Er kveðið á um í 1. mgr. 16. gr. laganna að skráning fornleifa, húsa og mannvirkja skuli fara fram áður en gengið sé frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Jafnframt segir að áður en deiliskipulag sé afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna sé gefið út skuli skráning ætíð fara fram á vettvangi. Setji Minjastofnun reglur um lágmarkskröfur sem gera skuli til skráningar fyrir hvert skipulagsstig og sé heimilt að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um framvindu skráningarstarfsins, enda sé tryggt að því verði lokið innan hæfilegs tíma. Skráning fornminja skal því samkvæmt ofangreindu ætíð fara fram á vettvangi áður en leyfi til framkvæmda er gefið út hafi hún ekki farið fram við skipulagsgerð.

Ekki mun hafa farið fram fornleifaskráning á svæðinu við gerð aðalskipulags Dalabyggðar og ekki er fyrir hendi deiliskipulag á umræddum svæðum. Að teknu tilliti til orðalags 6. mgr. 13. gr. skipulagslaga er því ljóst að sveitarstjórn bar við meðferð umsóknanna að gæta fyrrnefndra ákvæða laga um menningarminjar. Verður í ljósi þess hlutverks og þeirrar stöðu sem Minjastofnun er falið í lögum um menningarminjar að telja að öflun umsagna frá stofnuninni í því skyni að fá upplýst um afstöðu hennar til fyrirliggjandi umsókna hafi verið liður í rannsókn máls og til þess fallin að tryggja að gætt væri áðurgreindra ákvæða. Var því umdeilt skilyrði um öflun umsagnar Minjastofnunar, sem sett var fyrir hinum kærðu ákvörðunum, lögum samkvæmt. Hefur slíkra umsagna þegar verið aflað að tilstuðlan sveitarfélagsins. Umsagnir Minjastofnunar Íslands sæta ekki sjálfstæðri kæru til úrskurðarnefndarinnar og af hálfu sveitarfélagsins var samþykkt framkvæmdaleyfanna ekki bundin skilyrði um efni umsagnanna heldur einungis að þeirra yrði aflað. Verður því í máli þessu ekki tekin afstaða til þess ágreinings sem fyrir hendi er varðandi framkvæmd og greiðslu vegna fornleifaskráningar á vettvangi sem fjallað er um í fyrirliggjandi umsögnum Minjastofnunar, en verði synjað um útgáfu framkvæmdaleyfa á grundvelli þeirra eru þær synjanir eftir atvikum kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Fyrirvari sveitarstjórnar um samþykki eigenda grannjarða á sér hins vegar hvorki stoð í lögum né gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins og hafa ekki heldur verið færð fram nein efnisrök í málinu fyrir setningu slíks skilyrðis. Fyrir liggur að kærendur eru eigendur þeirra jarða sem fyrirhugað er að nýta undir skógrækt sem fellur undir landnotkun landbúnaðarsvæða. Felur nefnt skilyrði því í sér að öðrum en landeigendum er veitt úrslitavald um það hvort fyrirhuguð landnýting nái fram að ganga. Verður sá áskilnaður í umræddum ákvörðunum sveitarstjórnar Dalabyggðar ekki talinn byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og verður hann því felldur úr gildi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður umdeilt skilyrði um samþykki eigenda aðliggjandi jarða fellt úr gildi en skilyrðið um öflun umsagnar Minjastofnunar Íslands skal standa óraskað.

Úrskurðarorð:

Kæru landeiganda jarðarinnar Óss í Saurbæ er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Skilyrði sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 5. mars 2020 um samþykki eigenda aðliggjandi jarða fyrir framkvæmdaleyfum kærenda er fellt úr gildi, en skilyrði um að fyrir þyrfti að liggja umsögn Minjastofnunar Íslands skal standa óraskað.

100/2020 Urðarbrunnur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 22. október tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 100/2020, kæra á afgreiðslu skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 28. ágúst 2020 á fyrirspurn um byggingu tvíbýlishús á tveimur hæðum við Urðarbrunn 16, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2020, er barst nefndinni 15. s.m., kærir VG verk og bygg ehf. „vegna ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 28. ágúst 2020, þar sem hafnað var að framangreindum aðila væri heimilt að byggja tvíbýlishús á tveimur hæðum á lóð nr. 16 við Urðarbrunn, með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.” Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt fyrir skipulagsfulltrúa að taka nýja ákvörðun í málinu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. október 2020.

Málavextir: Hinn 22. júní 2020 sendi kærandi á þar til gerðu eyðublaði fyrirspurn til byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar þar sem farið var fram á leyfi til þess að byggja tvíbýlishús á tveimur hæðum á lóð nr. 16 við Urðarbrunn. Eyðublaðinu fylgdi minnisblað byggingarverkfræðings sem sýndi tillögu að fyrirkomulagi lóðarinnar og aðkomu fyrir tvíbýlishús og var efni minnisblaðsins tilgreint sem „fyrirspurn vegna breytingar á deiliskipulagi“ Samkvæmt deiliskipulagi Úlfarsárdals sem tók gildi 6. febrúar 2018 er umrædd lóð skráð sem einbýlishúsalóð og kom það fram í minnisblaðinu. Með tölvupósti 29. júní 2020 var kæranda tilkynnt að af hálfu byggingarfulltrúa hefði erindið verið framsent til skipulagsfulltrúa til afgreiðslu.

Fyrirspurnin var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. júlí 2020 og henni vísað til umsagnar verkefnastjóra. Fyrirspurnin ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. ágúst 2020, var lögð fram að nýju á fundi skipulagsfulltrúa sama dag. Í umsögninni kom m.a. fram að þegar deiliskipulag Úlfarsárdals hefði farið í gegnum heildarendurskoðun hafi m.a. verið skoðuð samsetning húsagerða og hvar þyrfti að breyta fjölda íbúða. Niðurstaðan hafi verið að Urðarbrunnur 16 yrði einbýlishúsalóð í skipulagslegu samhengi við aðrar einbýlishúsalóðir. Fjölda íbúða verði að skoða út frá samhengi við aðra þætti, t.d. stærð og lögun lóðar, byggðamynstur, innviði og lágmarkskröfum sem gerðar séu fyrir hvert fastanúmer. Umrædd lóð, byggðamynstur og innviði byði ekki upp á að fjölga fastanúmerum. Var og bókað á fundi skipulagsfulltrúa að neikvætt væri tekið í erindið með vísan til greindrar umsagnar og hefur sú afgreiðsla verið kærð.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að með ákvörðun skipulagsfulltrúa hafi sveitarfélagið gerst brotlegt gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Margvísleg dæmi séu um að skipulagsfulltrúi hafi heimilað að breyta einbýlishúsalóðum í lóðir fyrir tvíbýli og eða fjölbýli í Gefjunar-, Iðunnar- og Urðarbrunni. Skipulagsfulltrúi tiltaki að Urðarbrunnur 16 verði áfram einbýlishúsalóð, en skömmu áður hafi hann samþykkt að einbýlishúsalóð Urðabrunnar 10-12 verði breytt í parhúsalóð. Röksemdum skipulagsfulltrúans um að lóðin nr. 16, byggðamynstur og innviðir bjóði ekki upp á breytingu sé því hafnað sem röngum.

Þegar markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 séu skoðuð sé ljóst að umrædd ákvörðun sé ekki í samræmi við yfirlýst markmið þess um stóraukna áherslu á þéttingu byggðar og blöndun byggðarmynsturs. Þessi takmörkun og órökstudda kvöð sem sett sé á lóð nr. 16 að Urðarbrunni samræmist illa framangreindum markmiðum og megi leiða að því líkum að takmörkunin byggist á ómálefnanlegum sjónarmiðum og gangi lengra en nauðsyn krefji.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki hafi verið tekin nein lokaákvörðun í málinu, en kært sé svar við fyrirspurn kæranda til skipulagsfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verði ekki lögð að jöfnu við formlega leyfisumsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli geti ekki, eðli máls samkvæmt, talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgi. Sé því ljóst að svar skipulagsfulltrúa vegna fyrirspurnar feli ekki í sér lokaákvörðun og beri því að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er í máli þessu deilt um neikvæða afgreiðslu skipulagsfulltrúa á erindi kæranda þar sem á eyðublaði vegna fyrirspurna til byggingarfulltrúa er „sótt um leyfi til að byggja tvíbýlishús“ á lóðinni Urðarbrunni 16. Eyðublaðinu fylgdi minnisblað og efni þess tilgreint sem fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi. Erindi kæranda var því sett fram sem fyrirspurn þótt orðalagið benti til þess að öðrum þræði væri sótt um leyfi. Afgreiðsla skipulagsfulltrúa og umsögn hans bera þess einnig öll merki að um afgreiðslu á fyrirspurn væri að ræða.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Fyrirspurn um afstöðu yfirvalda til erindis verður ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn og svar yfirvalds í slíku tilfelli getur eðli máls samkvæmt ekki talist stjórnvaldsákvörðun með þeirri réttarverkan sem slíkri ákvörðun fylgir, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Neikvæð afgreiðsla skipulagsfulltrúa á fyrirspurn kæranda fól því ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagafyrirmæli. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það athugist að minnisblað það sem fylgdi erindi kæranda bar með sér að fyrirspurnin lyti að breytingu deiliskipulags. Í ljósi þess að skýrt kom fram að um fyrirspurn væri að ræða verður ekki gerð athugasemd við að erindinu hafi ekki verið beint í farveg deiliskipulagsbreytingar en verði af hálfu kæranda sótt um slíka breytingu er ákvörðun um samþykkt hennar eða synjun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd.

38/2020 Orustustaðir

Með

Árið 2020, föstudaginn 16. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 16. desember 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi til lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða og á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps sem tilkynnt var með bréfi, dags. 31. s.m., um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þremur starfsmannahúsum að Orustustöðum.

Í málinu er nú kveðinn svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Hraunbóls/Sléttabóls 2 í Skaftárhreppi og leigutakar lóða nr. 192492 og nr. 221043 í landi jarðarinnar þær ákvarðanir „skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps, dags. 31. desember 2019, annars vegar að samþykkja framkvæmdaleyfi til „lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða í Skaftárhreppi, þannig að vegurinn verði akfær öllum bílum“ og hins vegar dags. 31. desember 2019 að samþykkja byggingarleyfi „fyrir starfsmannahúsum að Orustustöðum” ”. Skilja verður kæruna á þann veg að þar sé átt við þær ákvarðanir sem tilkynntar voru umsækjanda með bréfum, dags. 31. s.m., þ.e. fyrrgreint byggingarleyfi og jafnframt afgreiðsla skipulagsnefndar frá 12. desember 2019, sem samþykkt var af sveitarstjórn 16. s.m., um að fallast á umsókn um leyfi til lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða. Er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Einnig var gerð krafa um úrskurð um stöðvun framkvæmda á grundvelli hinna kærðu leyfa, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 5. júní 2020.

Til vara er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa frá 12. maí 2020 um að afturkalla þá ákvörðun, dags. 7. maí s.á., að afturkalla áðurgreindar ákvarðanir. Er þess krafist að ákvörðunin frá 12. maí 2020 verði felld úr gildi og að staðfest verði að forsenda fyrir leyfunum sé að leyfishafi afli samþykkis landeigenda Hraunbóls fyrir framkvæmdum innan eignarlands þeirra. Þar sem þess hafi ekki verið aflað þrátt fyrir að framkvæmdir hafi hafist hafi fyrrnefnd afturköllun á leyfunum verið í fullu í samræmi við lög og skyldur og eigi að standa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skaftárhreppi 22. maí, 15. júní og í september og október 2020.

Málavextir: Jörðin Orustustaðir er á Brunasandi í Skaftárhreppi og lagðist í eyði um 1950. Áformað er að reisa hótel á jörðinni og hefur sveitarfélagið samþykkt skipulagsáætlanir þar sem slík landnotkun er ráðgerð. Hinn 20. janúar 2015 tók gildi breyting á Aðalskipulagi Skaftár­hrepps 2010-2022 er gerði m.a. ráð fyrir verslunar- og þjónustusvæði með um 7.000 m² hóteli á jörðinni, sem og aðkomuvegi að Orustustöðum. Sama ár samþykkti sveitarstjórn Skaftár­hrepps deiliskipulag vegna hótels í landi Orustustaða og öðlaðist það gildi 17. febrúar 2016. Í skilmálum þess kemur m.a. fram að aðkoma að hótelinu sé frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi sem liggi að Hraunbóli. Þar sem enginn vegur liggi að jörðinni, aðeins slóðar, sé gert ráð fyrir nýjum 1,7 km vegkafla sem liggi af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Í febrúar 2016 lá einnig fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað hótel og aðkomuvegur að því væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Var tveimur síðastnefndum ákvörðununum skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og þess aðallega krafist að þær yrðu felldar úr gildi. Með úrskurðum nefndarinnar í máli nr. 26/2016 og í máli nr. 31/2016 var kröfum um ógildingu hafnað.

Á fundi skipulagsnefndar Skaftárhrepps 13. mars 2019 var tekin fyrir umsókn eiganda jarðarinnar Orustustaða um framkvæmdaleyfi til að leggja veg frá þjóðvegi 1 að Orustustöðum og var afgreiðslu málsins frestað. Í júní og september s.á. var lögmaður kærenda, f.h. eigenda jarðarinnar Hraunbóls/Sléttabóls 2, í tölvupóstsamskiptum við skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps og óskaði gagna og upplýsinga um stöðu umsóknarinnar. Var bent á að umbjóðendur hans hefðu frá upphafi mótmælt hugmyndum eiganda jarðarinnar Orustustaða um að leggja veg að fyrirhuguðu hóteli á jörðinni Orustustöðum og hefðu þeir ekki og myndu ekki heimila afnot af landi til þessa. Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa 16. september s.á. voru send gögn sem lágu fyrir fyrrnefndum fundi skipulagsnefndar og í svarbréfi hans 17. s.m. kom fram að umsóknin hefði ekki verið tekin aftur fyrir í skipulagsnefnd og að engar frekari upplýsingar hefðu borist.

Nýtt erindi er laut að aðkomu að Orustustöðum var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 12. desember 2019, nánar tiltekið umsókn um leyfi til að lagfæra hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða þannig að hann yrði akfær öllum bílum. Í umsókninni kom fram að framkvæmdin væri nauðsynleg til að komast að bænum Orustustöðum til að hefja þær framkvæmdir sem gert væri ráð fyrir í skipulagsáætlunum. Sækja þyrfti um leyfi til að laga núverandi veg í ljósi þess dráttar sem orðið hefði á að hægt væri að ráðast í framkvæmdir í hinu nýja vegstæði. Einkum væri um að ræða þann hluta vegarins sem lægi frá beygju, meðfram hrauninu, og að landamerkjum Orustustaða. Heildarlengd vegarins væri um 5,8 km en gera mætti ráð fyrir lagfæringum á um 2 km kafla. Var því lýst hvernig vinnu við lagfæringar yrði hagað og að þær yrðu samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og þversniði 2.1.11, vegtegund D á þeim stöðum sem nauðsynlegt væri til að gera veginn akfæran. Þá kom fram að Vegagerðin hefði hafnað beiðni umsækjanda um að taka hinn nýja veg á skrá sem héraðsveg, en það væri forsenda þess að hægt væri að ráðast í eignarnám. Sú afgreiðsla hefði verið kærð og væri til meðferðar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Skipulagsnefnd færði til bókar á fyrrnefndum fundi sínum 12. desember 2019 að hún gæti fyrir sitt leyti fallist á fyrirhugaðar vegabætur en þó með fyrirvara um samþykki landeigenda þess lands sem þær tækju yfir utan lands Orustustaða. Á sama fundi var samþykkt umsókn eiganda jarðarinnar Orustustaða um byggingarleyfi fyrir þremur starfsmannahúsum að Orustustöðum, einnig með fyrirvara um að fyrir lægi samþykki frá landeigendum Hraunbóls/Sléttabóls 2 og Fossjarða vegna aðkomuvegar. Jafnframt var samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á jörð Orustustaða. Sveitarstjórn samþykkti greindar afgreiðslur á fundi 16. desember 2019. Í kjölfar þess gerði lögmaður leyfishafa með bréfi, dags. 18. s.m., athugasemd við að umsókn um byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum hefði verið afgreidd með fyrrnefndu skilyrði og taldi að um mistök hefði verið að ræða. Var þess óskað að það yrði lagfært án tafar með vísan til 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en væri ekki um villu að ræða var farið fram á að afgreiðslan yrði endurupptekin eða afturkölluð. Yrði það ekki gert var þess krafist að ákvörðunin yrði rökstudd ítarlega með vísan til stjórnsýslulaga. Jafnframt þessu sendi leyfishafi inn nýja umsókn um byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 31. desember 2019, var leyfishafa tilkynnt að umsókn um byggingar­leyfi fyrir starfsmannahúsum að Orustustöðum samræmdist samþykktu deiliskipulagi og að málið hefði verið afgreitt af hans hálfu án sérstakrar aðkomu sveitarstjórnar Skaftárhrepps. Í bréfinu var ekki vikið að því að leyfið væri veitt með fyrirvara um samþykki landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2. Sama dag tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfishafa um samþykkt fyrrgreinds framkvæmdaleyfis en slíkt leyfi mun enn ekki hafa verið gefið út.

Hinn 29. janúar 2020 sendi lögmaður kærenda tölvubréf til skipulags- og byggingarfulltrúa og óskaði m.a. upplýsinga um það hvort umsókn um framkvæmdaleyfi hefði fengið frekari afgreiðslu. Lögmaður kærenda sendi annað tölvubréf 3. febrúar s.á. til skipulags- og byggingarfulltrúa og benti á að honum hefðu engin svör borist, en tók jafnframt fram að samkvæmt fundargerðum sveitarfélagsins hefði þegar verið veitt framkvæmdaleyfi. Var þess óskað að send yrðu afrit af gögnum málsins og að veittar yrðu upplýsingar um verklagsreglur hjá sveitarfélaginu við veitingu framkvæmdaleyfa. Jafnframt var upplýst að svo virtist sem hafist hefði verið handa við framkvæmdir innan eignarlands Hraunbóls/Sléttabóls 2, þrátt fyrir að ekki hefði verið aflað samþykkis landeigenda, svo sem bæri að lögum, og sem virtist hafa verið gert að skilyrði í fyrrnefndu framkvæmdaleyfi. Skyldi stöðva slíkar framkvæmdir tafarlaust og krefjast þess af framkvæmdaraðila að allt jarðrask yrði afmáð þegar í stað, sbr. 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi lögmanni kærenda gögn með tölvubréfi 4. febrúar 2020. Meðal þeirra var fundargerð skipulagsnefndar frá 12. desember 2019 sem og ákvörðun sveitarstjórnar frá 16. s.m. Einnig var tekið fram í bréfinu að borist hefði ný umsókn um byggingarleyfi vegna þriggja starfsmannahúsa í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Frekari tölvupóstsamskipti áttu sér stað í framhaldinu og í svarbréfi skipulags- og byggingar­fulltrúa 10. febrúar s.á. við fyrirspurn lögmanns kærenda kom m.a. fram sú afstaða fulltrúans að framkvæmdaleyfið tæki ekki gildi fyrr en samþykki landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2 lægi fyrir, eins og bókun skipulagsnefndar fæli í sér.

Skipulags- og byggingarfulltrúi var jafnframt í tölvupóstsamskiptum við leyfishafa vegna framkvæmda við veginn. Með tölvubréfi 2. mars 2020 var leyfishafa gerð grein fyrir réttinda­leysi hans til nýtingar vegslóðans án samþykkis eigenda Hraunbóls og vikið að því í hverju umferðarheimild hans um land Hraunbóls fælist. Í bréfinu kom einnig fram að næðist ekki samkomulag um vegabætur að Orustustöðum væri ekki annað fært en að fella úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir endurbótum vegarins, sem og byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum. Með bréfinu fylgdi lögfræðiálit, dags. 25. febrúar 2020, um rétt eiganda Orustustaða til umferðar um slóða sem lægi um land Hraunbóls. Umrætt bréf var jafnframt sent lögmanni kærenda. Kom lögmaður leyfishafa á framfæri athugasemdum með bréfi, dags. 5. mars s.á., og benti m.a. á að eigandi Orustustaða ætti skýran umferðarrétt um veginn og að lagfæringar á veginum sem nauðsynlegar væru til að leyfishafi gæti nýtt þann rétt sinn væru ekki háðar samþykki landeigenda. Svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi leyfishafa með tölvubréfi 2. apríl 2020 og vísaði til nýs lögfræðiálits, dags. 12. mars s.á. Þar sagði m.a. að þar til Vegagerðin hefði lagt varanlegan veg að Orustustöðum í samræmi við samþykkt deiliskipulag væru tveir kostir fyrirliggjandi, þ.e. að eigandi Orustustaða semdi við eiganda Hraunbóls og aðra eigendur núverandi vegar um endurbætur á veginum og aukinn umferðarrétt eða að frestað yrði uppbyggingu á jörð Orustustaða.

Hinn 7. maí 2020 sendi skipulags- og byggingarfulltrúi tölvubréf til m.a. leyfishafa og lögmanns kærenda. Í bréfinu kom fram að ekkert samkomulag lægi fyrir um endurbætur/uppbyggingu á veginum að Orustustöðum og skyldu framkvæmdir tafarlaust stöðvaðar. Einnig sagði að í ljósi þess að ekkert samkomulag lægi fyrir um endurbætur/uppbyggingu aðkomuvegar, sem og þess að eiganda Orustustaða væri ekki heimil þungaumferð vegna uppbyggingarframkvæmda fyrir 200 herbergja hótel, væri byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum afturkallað og skyldu fram­kvæmdir tafarlaust stöðvaðar. Enn fremur var óskað eftir því að skilað yrði skriflegu samkomu­lagi málsaðila um framgang málsins eigi síðar en 11. maí s.á. Loks að yrðu aðilar ekki við þeirri ósk væri bent á ákvæði 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um skyldu skipulagsfulltrúa til að stöðva framkvæmdir. Kom lögmaður leyfishafa að mótmælum með bréfi, dags. 8. maí 2020, og krafðist þess að afturköllun byggingarleyfisins yrði endurskoðuð og staðfest yrði að það væri enn í gildi. Var og tekið fram að eingöngu hefði verið ráðist í framkvæmdir til að lagfæra þær skemmdir sem unnar hefðu verið af einum kærenda á veginum og gerðar óverulegar lagfæringar til að komast um veginn, en slíkar framkvæmdir væru ekki framkvæmdaleyfisskyldar. Væri því ekki um það að ræða að stöðva neinar framkvæmdir við veginn enda engar framkvæmdir í gangi við lagfæringar á honum.

Nokkrum dögum síðar, eða 12 maí 2020, tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi í tölvubréfi til m.a. leyfishafa og lögmanns kærenda að hann hefði endurskoðað afstöðu sína varðandi afturköllun leyfisveitinga fyrir Orustustaði. Í bréfinu kom fram að ljóst væri eftir vettvangs­skoðun að engar endurbætur/uppbygging hefðu átt sér stað á aðkomuvegi að Orustustöðum þar sem hann færi um land Hraunbóls. Ekki væri um neinar óleyfisframkvæmdir að ræða, aðeins minni háttar viðhald. Hefði því ekki reynt á framkvæmdaleyfið sem veitt hefði verið í desember 2019. Þá var tekið fram að eina aðkoman að Orustustöðum væri um land Hraunbóls og að eigandi þeirrar jarðar yrði að þola umferð vegna byggingar íbúðarhúss á jörðinni Orustustöðum. Niðurstaðan væri því sú að leyfisveitingarnar frá desember 2019 stæðu, en afturköllun leyfanna í tölvubréfi 7. maí 2020 væri afturkölluð.

Svo sem fyrr greinir skaut eigandi Orustustaða ákvörðun Vegagerðarinnar um að synja umsókn hans um nýjan héraðsveg að Orustustöðum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og lá úrskurður ráðuneytisins fyrir 8. maí 2020. Með úrskurðinum var ákvörðun Vegagerðarinnar staðfest og m.a. talið að hún hefði byggst á málefnalegum grundvelli vegna andstöðu þriggja landeigenda sem hagsmuna hefðu að gæta.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að það hafi ekki verið fyrr en 4. febrúar 2020, eftir ítrekaða eftirgrennslan, að þeir hafi verið upplýstir um að búið væri að gefa út hin kærðu leyfi. Þegar í stað hafi verið komið á framfæri athugasemdum og mótmælum. Að fenginni staðfestingu skipulags- og byggingarfulltrúa á efni útgefinna leyfa og skilyrðis þeirra, þ.e. að þau væru háð fyrirvara um að aflað yrði samþykkis kærenda, hafi þeir verið í góðri trú um að réttindi þeirra væru nægilega tryggð. Teljist kærufrestur því frá 12. maí 2020 þegar kærendum hafi orðið kunnugt um breytta afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa til leyfanna og skilyrðis þeirra.

Eigandi jarðarinnar Orustustaða hyggist leggja aðkomuveg að áætlaðri hótelbyggingu að Orustustöðum þvert í gegnum ósnortið eignarland kærenda. Þeir hafi hins vegar ekki og muni ekki heimila þá veglagningu. Séu hagsmunir landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls 2 verndaðir með 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttinda­sáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt ákvæðinu megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema samkvæmt heimild í lögum og að almenningsþörf krefji.

Útgáfa þeirra leyfa sem um ræði brjóti í bága við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og meginreglur stjórnsýsluréttar. Máls­meðferð og ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um afturköllun frá 12. maí 2020 brjóti í bága við 53. gr. skipulagslaga sem og málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.

Deiliskipulag nægi ekki eitt og sér sem grundvöllur leyfisveitinga heldur þurfi samþykki landeigenda fyrir viðkomandi framkvæmd einnig að liggja fyrir eða aðrar heimildir. Þess hafi ekki verið aflað þrátt fyrir að hvor tveggja slóðinn, sem og skilgreindur aðkomuvegur að framkvæmd sem byggingarleyfið nái til, séu innan eignarlands kærenda. Sé í þessu sambandi m.a. vísað til 5. tl. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sbr. einnig 13. gr. skipulagslaga. Þá segi í 10. gr. reglugerðarinnar að áður en umsókn um framkvæmdaleyfi sé afgreidd skuli leyfisveitandi hafa tryggt að gætt hafi verið ákvæða laga og reglugerða sem til álita komi. Til hliðsjónar megi jafnframt vísa í bréf Skipulagsstofnunar til Skaftárhrepps, dags. 20. maí 2015 og 9. febrúar 2016, þar sem þetta sé áréttað. Umræddur slóði sé ekki á skipulagi og hafi aldrei verið, hvorki sem vegslóði né aðkomuvegur að Orustustöðum, enda aldrei nýttur sem aðkomuvegur að jörðinni. Forsenda fyrir því að leyfa framkvæmdir á grundvelli deili­skipulags hljóti að vera að til staðar sé sú aðkoma sem staðfest skipulag geri ráð fyrir að sé að svæðinu. Ekki sé gert ráð fyrir neinum bráðabirgðavegtengingum í deiliskipulagi vegna hótels í landi Orustustaða, aðeins að lagður verði aðkomuvegur sem feli í sér að sá vegur verði nýttur á framkvæmdatíma. Séu hin kærðu leyfi hvorugt í samræmi við skipulag.

Þá hafi við leyfisveitingu verið brotin ákvæði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga en þar segi að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Áréttað sé að umræddur slóði hafi ekki verið annað en hjólför á þeim hluta sem næstur sé landamerkjum Orustustaða. Á skipulagsuppdrætti megi sjá að gert sé ráð fyrir aðkomuvegi að Orustustöðum talsvert fyrir sunnan þann slóða sem hér um ræði.

Fyrir liggi staðfesting leyfishafa á því að ráðist hafi verið í framkvæmdir á slóðanum innan eignarlands kærenda. Efni hafi verið borið í slóðann á a.m.k. fimm stöðum og ræsi sett niður. Slóðinn sé nú akfær öllum bílum. Eigi leyfishafi engan umferðarrétt um slóðann, annan en almannarétt. Fullyrðingar um að meintum umferðarrétti hans fylgi réttur til lagfæringa eða endurbóta á veginum upp á sitt eindæmi séu fjarstæðukenndar. Það sé með ólíkindum að yfirvöld á svæðinu skirrist við að fylgja skýrum ákvæðum 53. gr. skipulagslaga og telji sér auk þess fært að kveða á um að leyfishafa sé heimilt að nýta sér eignarland annarra til framkvæmda án samþykkis viðkomandi með tilheyrandi skerðingum á réttindum og röskun á landi til frambúðar. Eftir þessar framkvæmdir muni standa fullbúinn vegur „akfær öllum bílum“ um ókomna tíð, slóði sem sé fjarri þeim aðkomuvegi að framkvæmdum sem skilgreindur hafi verið í skipulagi.

Málsrök Skaftárhrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er þess aðallega krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

Kæra í máli þessu hafi ekki borist nefndinni innan lögmælts kærufrests. Engra gagna njóti um það í málinu hvenær kærendum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu leyfanna en fram komi í kæru að þeim hafi verið kunnugt um útgáfu þeirra 4. febrúar 2020. Útilokað sé að fallast á skýringar kærenda um að kærufrestur hafi hafist 12. maí s.á., enda standi engin rök til að túlka upphaf kærufrests með öðrum hætti í þeirra tilviki. Með afgreiðslu skipulagsnefndar 12. desember 2019 hafi stjórnsýslulegri meðferð umsóknanna verið lokið og stjórnvaldsákvörðun verið tekin um skipulagslega skipan mála í tengslum við byggingu íbúðarhúss á jörðinni Orustustöðum. Í ákvörðun um framkvæmdaleyfi hafi falist að skipulagsnefnd hafi talið allar kröfur og önnur þau skilyrði sem áskilið sé jafnt í lögum sem reglugerðum uppfyllt. Auk þess hafi það verið mat nefndarinnar að málefnalegar og réttmætar skipulagslegar forsendur lægju að baki umsókninni. Því hafi hvorki verið efni né ástæður til að synja henni. Sömu sjónarmið eigi við um afgreiðslu skipulagsnefndar á byggingarleyfisumsókn um starfsmannahús. Hafi kærendur verið mótfallnir greindum ákvörðunum, réttara sagt forsendum og öðrum sjónarmiðum sem þær hafi byggst á, hafi þeim verið í lófa lagið að láta reyna á lögmæti þeirra fyrir úrskurðarnefndinni. Ákvarðanir þær sem kæranlegar hafi verið til nefndarinnar varði framkvæmda- og byggingarleyfi og hafi ekkert með það að gera hvort samþykki kærenda fáist fyrir vegabótum eða aðkomuvegi. Í því sambandi vegi það sjónarmið þyngst á vogarskálunum að umfjöllun og afgreiðsla úrskurðar­nefndarinnar einskorðist við lögmæti hinna kærðu leyfa, en réttarágreiningur af einkaréttar­legum toga heyri ekki undir nefndina. Af því leiði að kærufrestur til nefndarinnar sam­kvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi byrjað að líða 4. febrúar 2020 og lokið 30 dögum síðar. Kærufrestur hafi því verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Útgáfa framkvæmda- og byggingarleyfa komi til vegna byggingar íbúðarhússins, sem kærendur hafi ekki gert athugasemd við. Að baki veitingu byggingarleyfis fyrir starfsmanna­húsum hafi fyrst og fremst legið það sjónarmið að til að geta unnið að byggingu íbúðarhússins hafi verið nauðsynlegt að hafa starfsmannaaðstöðu. Þrátt fyrir að deiliskipulagið geri ráð fyrir þremur starfsmannahúsum og talað sé um starfsmannahús í fleirtölu í byggingarleyfinu snúist fram­kvæmdir á þessu stigi málsins eingöngu um byggingu eins starfsmannahúss. Rúmist fram­kvæmdin innan deiliskipulags og því samræmist ákvörðun um veitingu byggingarleyfis reglum skipulags- og byggingarlöggjafar og reglugerða.

Í umsókn um leyfi sé vinnu við lagfæringu vegar lýst og frekari rök færð fram. Sé litið til eðlis hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar, svo sem henni sé lýst í umsókn, og til meðfylgjandi gagna, þ.m.t. þversniðs vegar, kennisniðs, verði að líta svo á að fyrir skipulagsnefnd hafi legið þær upplýsingar og nauðsynleg gögn í skilningi 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sem framkvæma mætti eftir, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Enn fremur sé á því byggt að veiting framkvæmdaleyfis með þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir áskilji sé eitt, hitt sé svo sjálfstætt atriði hvernig reyni á leyfið.

Ekki sé um svo meiri háttar framkvæmdir að ræða eins og haldið hafi verið fram. Raunar meti skipulags- og byggingarfulltrúi það svo að framkvæmdirnar séu það óverulegar að til þeirra þurfi ekki leyfi. Einungis hafi verið um minni háttar viðhald að ræða. Einskorðist skoðun og afgreiðsla úrskurðarnefndarinnar við það hvort hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi að lögum verið áfátt að formi til eða efni. Nefndin sé í engri aðstöðu til að leggja mat á það hvort framkvæmdirnar hafi verið umfram það sem leyft hafi verið. Til þess hafi hún engar heimildir. Sæti framkvæmdir eftirliti af hálfu sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum og sé heimild til beitingar þvingunarúrræða í X. kafla laganna. Hafi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa, svo sem henni sé lýst og með hliðsjón af þeim forsendum sem hún hafi grundvallast á, verið lögmæt að formi til sem og efni og byggst á málefnalegum ástæðum. Beri því að hafna þeirri kröfu. Málsrök kærenda fyrir varakröfu séu með öllu haldlaus og sé bent á að eftir sem áður verði framkvæmdir sem leyfin taki til háðar samþykki þeirra. Þá sé rétt að árétta að ekki verði veitt leyfi fyrir hótelbyggingu fyrr en kominn sé varanlegur vegur að Orustustöðum samkvæmt deiliskipulagi.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá úrskurðar­nefndinni, en kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi verið sett fram. Tilvísanir kærenda til þess að þeir hafi eftir samskipti við skipulags- og byggingarfulltrúa talið að leyfi vegna framkvæmdanna yrðu felld úr gildi sé mótmælt. Slík samskipti lengi ekki lögbundinn kærufrest og ekki liggi fyrir í gögnum málsins að gefin hafi verið vilyrði um afturköllun áður en kæru­frestur hafi runnið út. Þá stofnist ekki nýr kærufrestur vegna ákvarðana skipulags- og byggingarfulltrúa frá 12. maí 2020. Afturköllunin hafi verið ólögmæt frá upphafi og hafi því ekki öðlast gildi og verið markleysa. Ekki sé því um kæranlega ákvörðun að ræða. Auk þess eigi kærendur ekki lögvarða hagsmuni af byggingu starfsmannabúðanna. Þær séu svo langt frá jörð og húsum kærenda að þær hafi engin grenndaráhrif, hvorki hvað varði útsýni, hljóðvist, skuggavarp né annars konar grenndaráhrif. Aukin umferð vegna uppbyggingar þeirra sé ekki varanleg og hafi því ekki í för með sér grenndaráhrif umfram það sem búast hafi mátt við um greindan veg.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé bent á að óumdeilt sé að leyfishafi eigi umferðarrétt um þann veg sem liggi um land kærenda, enda sé hann eina aðkoman að jörð leyfishafa. Hafi leyfishafi fyrir margt löngu fengið útgefið framkvæmdaleyfi til að lagfæra veginn innan eigin lands og séu framkvæmdir við þá lagfæringu hafnar. Eigi leyfishafi umferðarrétt um slóðann, í samræmi við skipulag, sem sæti ekki sérstökum takmörkunum að lögum. Eingöngu sé deilt um eðli þess umferðarréttar, en sá ágreiningur sé utan valdssviðs úrskurðarnefndarinnar. Sá ágreiningur sé að auki þýðingarlaus hvað varði þau leyfi sem deilt sé um í máli þessu. Bygging starfsmannahúss og umferð því tengd sé örugglega innan þess umferðarréttar sem leyfishafi eigi. Byggingarleyfið verði því ekki fellt úr gildi á þeim forsendum. Framkvæmdaleyfi vegna vegarins sé bundið skilyrði um samþykki kærenda og verði því ekki fellt úr gildi á þeim forsendum að það vanti.

Fullyrðingum um að ráðist hafi verið í umfangsmiklar framkvæmdir við veginn sé mótmælt. Ekki hafi verið ráðist í framkvæmdir á veginum á grundvelli hins umdeilda framkvæmdaleyfis. Gerðar hafi verið óverulegar lagfæringar til að geta komist um veginn en þær séu ekki framkvæmdaleyfisskyldar. Aðeins hafi verið lagfærðar skemmdir sem einn kærenda hafi unnið á veginum með því að stífla ræsi, fjarlægja ræsi og grafa veginn í sundur. Sé leyfishafa heimil umferð um slóðann til framkvæmda á jörðinni og til að laga skemmdarverk landeiganda á veginum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka m.a. fram að fullyrðingar um að einungis sé um minni háttar viðhald að ræða hafi ekkert vægi enda byggi þær á huglægu mati skipulags- og byggingarfulltrúa eftir vettvangsferð. Enginn samanburður liggi fyrir um ástand slóðans fyrir og eftir framkvæmdir. Það eina sem sé óumdeilt er að slóðinn hafi ekki verið akfær öllum bílum en hann sé það eftir framkvæmdir leyfishafa. Þá sé rétt að taka fram til frekari skýringa að sá hluti vegslóðans sem liggi vestan megin við fasteignirnar í landi Hraunbóls, þ.e. frá landa­merkjum Foss og að fasteignunum sé nýttur sem aðkomuvegur eigenda. Austan megin við fasteignir innan eignarlands Hraunbóls hafi á köflum aðeins verið um hjólför að ræða og hafi slóðinn verið nýttur til heyskapar, er búskapur hafi verið stundaður á Hraunbóli, þegar ekið hafi verið um hann á traktor með heyvagn. Nú hafi þessum menningarsögulegum merkjum um búskapar­hætti fyrri tíma verið eytt fyrir veg sem sé akfær öllum bílum.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Í máli þessu er einkum deilt um gildi tveggja ákvarðana sem teknar voru í desember 2019, en kæra vegna þeirra barst úrskurðarnefndinni 13. maí 2020. Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi fyrst verið upplýstir um hinar kærðu ákvarðanir 4. febrúar 2020, en þeir hafi talið réttindum sínum borgið eftir að þeim hafi borist staðfesting frá skipulags- og byggingarfulltrúa á efni og skilyrði umræddra leyfa. Hafi þeir ekki talið þörf á því að beina kæru til nefndarinnar fyrr en 12. maí s.á. þegar þeim hafi orðið kunnugt um breytta afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa. Í málavöxtum er vikið að þeim tölvupóstsamskiptum sem skipulags- og byggingarfulltrúi átti við m.a. lögmann kærenda 4. og 10. febrúar, 2. mars, og 7. og 12. maí 2020. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða þegar kærendum varð ljóst efni hinna kærðu ákvarðana 4. febrúar 2020, enda hafði þeim ekki verið kynnt það fyrr þrátt fyrir að hafa þá um hríð átt í samskiptum við fulltrúa sveitarfélagsins vegna fyrir­hugaðra framkvæmda. Áður en kærufresti lauk barst lögmanni kærenda tölvubréf skipulags- og byggingarfulltrúa, sem beint var til leyfishafa, um að næðist ekki samkomulag um vegabætur að Orustustöðum væri ekki annað fært en að fella úr gildi framkvæmdaleyfi fyrir endurbótum vegarins, sem og byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum. Gekk það eftir með ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa 7. maí 2020, sem síðan var afturkölluð 12. s.m. Eins og sakir stóðu var því ekki tilefni fyrir kærendur að beina kæru til úrskurðarnefndarinnar fyrr en þá, sem þeir og gerðu án ástæðulauss dráttar. Eins og hér stendur sérstaklega á þykir því afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en að auki verður ekki séð að kærendum hafi verið leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Verður máli þessu því ekki vísað frá af þeim sökum að kærufrestur hafi verið útrunninn.

Í 3. mgr. nefndrar 4. gr. laga nr. 130/2011 er kveðið á um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Með hinu kærða byggingarleyfi er veitt leyfi til byggingar þriggja starfsmannahúsa að Orustustöðum. Ekki er hægt að játa kærendum kæruaðild á þeim grundvelli einum að þeir telji sig eiga hagsmuna að gæta af því að ekki verði af byggingu hótels á landi Orustustaða og öðru því tengdu, heldur verður að gera þá kröfu að hinar umdeildu ákvarðanir raski einstaklingsbundnum og verulegum hagsmunum þeirra. Við það mat verður því að líta til annarra atriða. Umræddar byggingar munu standa í töluverðri fjarlægð frá fasteignum kærenda. Með hliðsjón af því verður ekki séð að hagsmunir þeirra muni skerðast í þeim mæli að skapi þeim kæruaðild. Er þá jafnframt til þess að líta að byggingarleyfið veitir einvörðungu heimild til byggingar téðra húsa en felur t.d. ekki í sér heimild til umferðar um land kærenda. Þykja framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingar­leyfi því ekki vera þess eðlis að þær snerti grenndarhagsmuni eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild hvað varðar byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsum að Orustustöðum. Eðli málsins samkvæmt eiga þeir þá ekki heldur aðild að ákvörðun skipulags- og byggingar­fulltrúa um að afturkalla afturköllun sína á því leyfi. Kröfum kærenda hvað þessar ákvarðanir varðar verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem frá er greint í málavöxtum er gert er ráð fyrir því í deiliskipulagi vegna hótels í landi Orustustaða að aðkoma að fyrirhuguðu hóteli sé frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi sem liggi að Hraunbóli. Er tekið fram í skipulaginu að þar sem enginn vegur liggi að Orustustöðum, aðeins slóðar, sé gert ráð fyrir nýjum 1,7 km vegkafla sem liggi af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar hins vegar lagfæringar á hluta núverandi vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða þannig að vegurinn verði akfær öllum bílum. Er þannig ekki veitt heimild fyrir lagningu hins nýja vegar sem gert er ráð fyrir í greindu deiliskipulagi, heldur leyfi til að lagfæra veg sem fyrir er í landi Hraunbóls. Halda kærendur því fram að í raun sé um slóða að ræða sem á köflum hafi einungis verið hjólför og er það í samræmi við það sem kemur fram í skipulagsáætlunum um aðkomu að Orustustöðum.

Ágreiningur máls þessa lýtur að miklu leyti að réttindum yfir áðurnefndum vegslóða. Slóðinn liggur að Orustustöðum í gegnum eignarland Hraunbóls/Sléttabóls 2, en samkvæmt 13. gr. vegalaga nr. 80/2007 hafa eigendur einkavega veghald þeirra. Í því felst samkvæmt skilgreiningu 5. tl. 3. gr. laganna á veghaldi að þeir hafa forræði yfir vegi og vegstæði, þ.m.t. vegagerð, þjónustu og viðhaldi vega. Leyfishafi telur sig eiga umferðarrétt um slóðann og að í honum felist réttur til lagfæringa svo hann fáið notið þess réttar. Þessu er harðlega mótmælt af kærendum. Hvorugur aðila hefur gert reka að því að fá úr þessum ágreiningi skorið, t.d. fyrir dómstólum sem eru til þess bærir að leysa úr honum. Til þess er úrskurðarnefndin hins vegar ekki bær, heldur einskorðast valdheimildir hennar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar lögum samkvæmt.

Hið kærða framkvæmdaleyfi lýtur að framkvæmdum við umþrættan vegslóða. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku. Við meðferð málsins var lögð fram skrifleg umsókn um framkvæmdaleyfi þar sem því var lýst hvernig framkvæmdinni yrði hagað. Hreinsað yrði úr gamla vegstæðinu efni sem ekki væru frostfrí, fyllt í með burðarhæfu efni og fláar lagaðir þannig að efni sem hreinsað yrði upp úr vegstæði yrði notað í fláa meðfram veginum. Var tekið fram að lagfæringar yrðu gerðar samkvæmt veghönnunarreglum Vegagerðarinnar og þversniði 2.1.11. vegtegund D á þeim stöðum sem nauðsynlegt væri til að gera veginn akfæran. Hafa skipulagsnefnd og sveitarstjórn Skaftárhrepps metið það svo að framkvæmd sú sem sótt var um leyfi fyrir sé framkvæmdaleyfisskyld, en í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi er tekið fram að framkvæmdir sem geti verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 4. gr., séu m.a. nýir vegir og enduruppbygging vega. Verður í kærumáli þessu því tekin afstaða til þess hvort hinu kærða framkvæmdaleyfi hafi að lögum verið áfátt að formi til eða efni.

Við útgáfu framkvæmdaleyfis skal sveitarstjórn m.a. fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd er í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga, og er tiltekið í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að allar framkvæmdir sem teljist meiri háttar, hafa áhrif á umhverfið og breyti ásýnd þess skuli vera í samræmi við skipulagsáætlanir. Vegslóði sá sem um ræðir sést á skipulagsuppdrætti deiliskipulags vegna hótels í landi Orustustaða, en skipulagið tekur ekki til hans þar sem hann liggur um land Hraunbóls/Sléttabóls 2 og er ekki um hann fjallað í greinargerð skipulagsins. Ekki er að sjá að sérstaklega sé fjallað um slóðann í greinargerð Aðalskipulags Skaftárhrepps 2010-2022, en í greinargerð með breytingu þeirri er gerð var á aðalskipulaginu í tilefni af þeim áformum sem fyrirhuguð eru á jörðinni Orustustöðum er vikið að því að slóðar liggi að landi Orustustaða að austan- og vestanverðu. Þá segir m.a. í aðalskipulaginu að héraðsvegum (safnvegir) og einkavegum sé ekki gerð sérstök skil í aðalskipulagi, en þeir helstu sýndir á skipulagsuppdrætti. Á skipulagsuppdrætti með Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 fyrir umrædda breytingu er slóðinn sýndur liggja í átt að vestanverðum landamerkjum Orustustaða. Eftir aðalskipulagsbreytinguna er hann sýndur styttri og endar samkvæmt breyttum uppdrætti skammt sunnan við Hraunból. Gerir enda breytt aðalskipulag ráð fyrir því að uppbygging vegar að Orustustöðum verði eftir annarri veglínu sem á uppdrætti er sýnd sunnan við núverandi vegslóða áður en hún sveigir aftur til norðurs þar sem hún mætir slóðanum við áðurnefnd landamerki Orustustaða. Þótt aðalskipulag geri ráð fyrir að einkavegum sé ekki gerð sérstök skil og aðeins þeir helstu sýndir á skipulagsuppdrætti er ekki hægt að líta fram hjá því að hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar að sá hluti vegslóða sem hefur verið afmáður af aðalskipulagsuppdrætti verði lagfærður, þar sem það á við, með þeim hætti að hann uppfylli viðmið um vegtegund D. Þrátt fyrir framangreint fjölluðu hvorki skipulagsnefnd né sveitarstjórn um eða tóku afstöðu til þess hvort framkvæmdin væri í samræmi við skipulagsáætlanir, svo sem áskilið er í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga.

Tekið er fram í 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að framkvæmdaleyfi skuli gefið út á grundvelli deiliskipulags, en svo sem áður er fram komið tekur deiliskipulag vegna hótels í landi Orustustaða ekki til umdeilds vegslóða þar sem hann liggur um land Hraunbóls/Sléttabóls 2. Víkja má frá greindu skilyrði samkvæmt 5. mgr. 13. gr. skipulags­laga sem segir að þar sem framkvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag og í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Þá er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef gerð er grein fyrir framkvæmdinni og fjallað ítarlega um hana í aðalskipulagi. Eins og fyrr greinir var ekki tekin afstaða til samræmis við skipulagsáætlanir við meðferð málsins hjá skipulagsnefnd og sveitar­stjórn. Að auki er rétt að benda á að þrátt fyrir að telja megi að heimiluð framkvæmd sé alvanaleg og almennt þarfnast ekki ítarlegrar skýringar er sá hluti vegslóðans sem til stóð að lagfæra ekki lengur sýndur á aðalskipulagsuppdrætti. Að því virtu, og að teknu tilliti til þess sem áður er rakið um gildandi aðalskipulag, er ljóst að því fer fjarri að þar sé ítarlega fjallað um framkvæmdina. Voru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til að veita hið umdeilda framkvæmdaleyfi án grenndarkynningar. Þykir í því sambandi engu breyta þótt þegar hafi legið fyrir afstaða kærenda til vegaframkvæmda í landi þeirra.

Þar sem ekki var gætt ákvæða 4. og 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga við veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis verður það óhjákvæmilega fellt úr gildi.

Fyrir liggur að framkvæmdir hafa þegar átt sér stað við vegslóðann og greinir aðila máls þessa á um hvort þær framkvæmdir falli innan þess framkvæmdaleyfis sem úrskurðarnefndin hefur komist að niðurstöðu um að fella verði úr gildi. Er því áður lýst hvernig framkvæmdum við veginn skyldi háttað samkvæmt umsókn um leyfi, en í kæru kemur fram að leyfishafi hafi borið í slóðann á a.m.k. fimm stöðum auk þess sem ræsi hafi verið sett niður. Vegurinn sé nú akfær öllum bílum, líkt og falist hafi í umsókn um framkvæmdaleyfi. Af hálfu leyfishafa er því mótmælt að ráðist hafi verið í umfangsmiklar framkvæmdir við veginn, eingöngu hafi verið lagfærðar þær skemmdir sem einn kærandi hafi unnið á veginum, s.s. með því að stífla ræsi eða grafa þau í burtu.

Samkvæmt 16. gr. skipulagslaga hefur sveitarstjórn eftirlit með því að framkvæmdir séu í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi og er skipulagsfulltrúa falið það eftirlit í umboði sveitarstjórnar, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Þá er það á hendi skipulagsfulltrúa að stöðva framkvæmd tafarlaust sé leyfisskyld framkvæmd hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni, sbr. 16. gr. reglugerðarinnar. Svo sem áður er rakið tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi í tölvubréfi til aðila málsins 7. maí 2020 að framkvæmdir skyldu tafarlaust stöðvaðar m.a. þar sem ekki lægi fyrir samkomulag um uppbyggingu aðkomuvegar að Orustustöðum. Nokkrum dögum síðar kynnti skipulags- og byggingarfulltrúi sér aðstæður á vettvangi og taldi að skoðun lokinni að ekki væri um óleyfisframkvæmdir að ræða heldur minni háttar viðhald og hefði því ekki reynt á framkvæmdaleyfið. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja ljósmyndir sem skipulags- og byggingarfulltrúi tók að beiðni nefndarinnar og sýna myndirnar slóðann eins og hann er nú. Þá eru meðal gagna málsins lögregluskýrsla og ljósmyndaskýrsla lögreglu sem þykja varpa ljósi á ástand slóðans eins og hann var fyrir hinar umdeildu lagfæringar. Kemur þar m.a. fram að ræsi hafi verið fjarlægt af hálfu eins kærenda. Ekki er hægt að telja framkvæmdaleyfisskylt að setja niður ræsi að nýju og þykja önnur gögn málsins styðja það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að um minni háttar viðhald hafi verið að ræða sem ekki hafi þarfnast framkvæmdaleyfis. Hefur þá ekki verið tekin afstaða til þess hvort leyfishafa hafi verið þær framkvæmdir heimilar að virtum réttindum kærenda. Verði af frekari framkvæmdum skal sem áður á það bent að ágreiningur um umferðarrétt og inntak hans á ekki undir úrskurðarnefndina. Verða kærendur því að byggja á öðrum réttarreglum, t.a.m. um lögbann, vilji þeir ekki þola hagnýtingu leyfishafa og verður hann sömuleiðis að nýta sér önnur úrræði, s.s. um innsetningu, eða eftir atvikum höfða dómsmál, vilji hann fá úr rétti sínum skorið.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 16. desember 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi til lagfæringar á hluta vegar frá þjóðvegi 1 að landamerkjum Orustustaða.

Öðrum kröfum kærenda er vísað frá úrskurðarnefndinni.

59/2020 Dagverðarnes

Með

Árið 2020, föstudaginn 16. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 29. apríl 2020 um að synja umsókn um að breyta lóðinni nr. 103 við Dagverðarnes úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júlí 2020, er barst nefndinni 10. s.m., framsendi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kæru A, dags. 29. maí 2020, varðandi þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradals­hrepps frá 29. apríl 2020 að synja umsókn um að breyta lóðinni nr. 103 við Dagverðarnes úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og breyting á skráningu lóðarinnar að Dagverðarnesi nr. 103 verði samþykkt með breytingu­hreppshrepps. Til vara er þess krafist að samþykkt verði breyting á aðalskipulagi Skorradalshrepps sé það skilyrði fyrir nefndri breytingu á deiliskipulagi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 24. ágúst 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 14. mars 2020, óskaði kærandi, sem er eigandi frístunda­lóðarinnar að Dagverðarnesi nr. 103, eftir breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Dagverðarness, svæði 3. Fól umsóknin í sér að lóðin að Dagverðarnesi 103 yrði breytt úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Í greinargerð með umsókninni kom m.a. fram að ekki yrði farið fram á breytingu á núverandi nýtingarhlutfalli, útliti eða formi viðkomandi svæðis, en verið væri að byggja heilsársíbúðarhús á lóðinni. Gagnvart sveitarfélaginu myndi umsækjandi ekki þurfa á neinni þjónustu að halda umfram það sem þegar væri veitt af Skorradalshreppi og sveitarfélagið veiti þeim lögbýlum og einbýlishúsalóðum sem væru í dalnum. Þá voru og tiltekin þegar samþykkt fordæmi íbúðarhúsalóðar í Dagverðarnesi staðsett á landi skipulögðu fyrir sumarhúsalóðir en lóð nr. 72 væri skráð sem slík.

Skipulags- og byggingarnefnd Skorradalshrepps tók erindi kæranda fyrir á fundi sínum 28. apríl 2020 og var það afgreitt með eftirfarandi bókun: „Erindi barst frá lóðarhafa Dagverðarnes 103 þar sem óskað er eftir því að breyta frístundalóð í íbúðarhúsalóð […] Skipulags- og byggingar­nefnd hafnar beiðni lóðarhafa þar sem það er ekki í samræmi við Aðalskipulag Skorradals­hrepps 2010-2022.“ Fundargerð skipulags- og byggingarnefndar var lögð fram á fundi hrepps­nefndar Skorradalshrepps 29. apríl 2020 sem staðfesti hana.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að þegar sé fyrir hendi hús sem sé staðsett á skipulögðu frístundasvæði en skráð sem íbúðarhúsnæði. Það hús sé af sömu stærð og kærandi sé að byggja í Dagverðarnesi 103 en nefnt hús sé að Dagverðarnesi 72. Vísast í þessu sambandi til jafnræðis­reglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og meðalhófsreglu 12. gr. laganna sem Skorradalshreppur hafi litið fram hjá við afgreiðslu erindisins. Í tilkynningu um afgreiðslu komi fram að beiðni lóðarhafa sé ekki í samræmi við aðalskipulag Skorradalshrepps. Lóðarhafa sé vel kunnugt um að breytingin sé hvorki í samræmi við deiliskipulag né aðalskipulag en kærandi hafi farið fram á breytingu á deiliskipulagi Dagverðarness á svæði 3 þar sem um sé að ræða minni háttar breytingu á gildandi skipulagi.

Málsrök Skorradalshrepps: Sveitarfélagið gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að nefndin hafni framkomnum aðal- og varakröfum kæranda.

Sveitarfélagið telji að ósamræmi sé á milli þess erindis kæranda sem skipulags- og byggingar­nefnd hafi afgreitt og þeirra krafna sem hann geri fyrir úrskurðarnefndinni. Ósamræmið felist í því að ekki sé þess krafist að úrskurðarnefndin ógildi ákvörðun sveitarfélagsins um að synja um breytingu á deiliskipulagi heldur sé gerð sú krafa um að synjun um breytingu á skráningu umræddrar lóðar verði felld úr gildi.

Bent sé á að engin afstaða hafi verið tekin til beiðni um breytingu á skráningu umræddrar lóðar þar sem að beiðni kæranda hefði verið lögð fram sem beiðni um breytingu á gildandi deili­skipulagi á þar til gerðu eyðublaði. Hafi skipulags- og byggingarnefnd því ekki tekið afstöðu til þess hvort heimila eigi breytingu á skráningu umræddrar lóðar úr sumarhúsalóð í íbúðarhúsalóð. Þá sé jafnframt bent á að þar sem að sveitarstjórn hafi, samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, forræði á skipulagsmálum innan sveitarfélagsins, sé úrskurðar­nefndinni óheimilt að taka skipulagsákvarðanir fyrir sveitarfélagið. Vísist um þetta til 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefndina. Bent sé á að samkvæmt ákvæðinu geti úrskurðarnefndin ekki tekið nýja ákvörðun heldur aðeins endurskoðað ákvarðanir sem þegar hafi verið teknar.

Í 12. gr. skipulagslaga sé mælt fyrir um að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Lóðin Dagverðarnes 103 sé innan svæðis sem sé skilgreint sem frístundabyggð í aðalskipulagi hreppsins. Í beiðni kæranda um deiliskipulagsbreytinguna sem hafi komið til afgreiðslu hafi ekki verið gert ráð fyrir því að aðalskipulagi sveitarfélagsins yrði breytt til samræmis og hafi það komið í veg fyrir umbeðna breytingu. Skipulags- og byggingarnefnd hafi ekki getað fallist á beiðni kæranda og telji sveitarfélagið að á grundvelli þessa geti úrskurðarnefndin ekki fallist á kröfur kæranda samkvæmt efni kærunnar.

Þá hafi beiðni kæranda um óverulega breytingu á umræddu deiliskipulagi verið þess efnis að landnotkunarflokki lóðarinnar yrði breytt úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Sveitarfélagið telji að því hafi ekki verið heimilt að fallast á slíka beiðni þar sem samræmi verði að vera á milli aðalskipulags sveitarfélagsins og umrædds deiliskipulags og því hafi kærandi þurft að gera ráðstafanir varðandi það að breyta aðalskipulaginu til samræmis við umsótta breytingu á deiliskipulaginu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en ekki er á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir skipulagsyfirvöld að afgreiða mál með tilteknum hætti. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sem annast og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags.

Eins og að framan er rakið sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Dagverðarness. Fól umsóknin í sér að lóð hans, Dagverðarnes 103, yrði breytt úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð. Samkvæmt Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 er lóð kæranda á skipulögðu svæði fyrir frístundabyggð, merkt F1 B. Af þessu er ljóst að í aðalskipulagi er ekki gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu og hefði því ekki verið unnt að verða við kröfu kæranda um að lóð hans verði skráð sem lóð undir íbúðarhús að óbreyttu aðalskipulagi vegna áskilnaðar 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana.

Kærandi hefur vísað til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í ljósi þess að lóðin Dagverðarnes 72, sem tilheyrir umræddri frístundabyggð, sé skráð sem íbúðarhúsalóð. Nefnd lóð er skráð á aðalskipulagsuppdrætti sem stök íbúðarhúsalóð. Verður því ekki talið að um sambærileg tilvik sé að ræða og liggur því ekki fyrir að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við meðferð erindis kæranda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu þess efnis því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 29. apríl 2020 um að synja umsókn um að breyta lóðinni nr. 103 við Dagverðarnes úr frístundalóð í íbúðarhúsalóð.

46/2020 Reynilundur

Með

Árið 2020 föstudaginn 16. október fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 20. febrúar 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Lundahverfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Reynilundar 17 og arkitekt raðhúsa­lengjunnar að Reynilundi 11-17, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 20. febrúar 2020 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Lundahverfi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 18. júlí 2020.

Málavextir: Hinn 27. september 2017 sóttu eigendur Reynilundar 11 um byggingarleyfi sem m.a. fól í sér stækkun bílskúrs til suðurs. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 17. október 2019 var samþykkt tillaga skipulagsnefndar um að hafna umsókn lóðarhafa að Reynilundi 11 um byggingarleyfi. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar en málið var frestað að beiðni bæjaryfirvalda og með samþykki kæranda.

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti tillögu að deiliskipulagi Lundahverfis í desember 2018 en ákvörðun um samþykkt tillögunnar var ekki auglýst í B-deild Stjórnartíðinda eins og áskilið er í 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 17. október 2019 var ákveðið að auglýsa að nýju tillögu að deiliskipulagi Lundahverfis samkvæmt 1. mgr. 31. gr. skipulags­laga, sbr. 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Deiliskipulagið nær yfir Lundahverfi og í greinargerð með því kemur fram að hverfið hafi verið byggt eftir skipulagi sem sé á skipulags­uppdrætti sem samþykktur hafi verið í byggingarnefnd Garðahrepps 10. desember 1969 og staðfestur í hreppsnefnd 23. s.m. Byggingarskilmálar fyrir lóðir í Hofstaðalandi hafi verið samþykktir í byggingarnefnd 1. nóvember 1967 og staðfestir í hreppsnefnd 12. desember s.á. Þessar samþykktir séu tveimur árum eldri en framangreindur skipulagsuppdráttur og sé því sennilegt að til grundvallar áformum um nýtt hverfi hafi verið til staðar eldra skipulag, þótt slík gögn séu nú ekki tiltæk. Með umræddri tillögu að nýju deiliskipulagi voru m.a. gerðar þær breytingar að mörk byggingarreita voru færð til samræmis við samþykktar deiliskipulagsbreytingar, lóð leikskólans Lundabóls stækkuð og kvöðum um holræsi og vatnsæðar breytt auk þess sem kvöðum um gönguleiðir var bætt við. Skipulagstillagan var auglýst til kynningar í Lögbirtingablaðinu og Fréttablaðinu 4. nóvember 2019 og einnig í Garðapóstinum, sem er staðarblað útgefið og dreift í Garðabæ. Frestur til að skila athugasemdum var til 16. desember 2019. Alls bárust þrjár athugasemdir innan frestsins og voru þær lagðar fram og kynntar á fundi skipulagsnefndar sem haldinn var 16. janúar 2020. Eftir að athugasemdafresti lauk barst erindi frá kæranda í máli þessu og lögmanni hans. Í greinargerð vegna athugasemda var ekki tekin afstaða til þeirra erinda þar sem þau bárust eftir að athugasemdarfresti lauk en þau voru kynnt bæði fyrir skipulags­nefnd og bæjarstjórn.

Athugasemdir sem bárust á athugasemdafresti voru frá eigendum raðhúsanna nr. 11, 13 og 15 við Reynilund og var með þeim lögð til stækkun á byggingarreitum lóðanna til að skapa möguleika á að stækka húsin. Á fundi skipulagsnefndar sem haldinn var 7. febrúar 2020 var tillagan tekin fyrir að nýju og samþykkt með þeirri breytingu að byggingarreitir raðhúsanna við Reynilund 11-17 voru rýmkaðir til að skapa möguleika á stækkun bílskúra húsanna um 10 m2. Bæjarstjórn samþykkti þá tillögu skipulagsnefndar á fundi sínum 20. febrúar 2020 með eftirfarandi bókun: „Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar um nýtt deiliskipulag fyrir Lundahverfi samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst. Athugasemdir hafa verið yfirfarnar og liggja fyrir tillögur að svörum. Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulagsnefndar að svörum við innsendum athugasemdum og deiliskipulagið með eftirfarandi áorðnum breytingum frá auglýstri tillögu. Byggingarreitir raðhúsanna við Reynilund 11, 13, 15 og 17 eru stækkaðir þannig að byggingarreitur við suðurhlið húsanna (baklóð) verður dreginn sem bein lína og getur þá komið til stækkunar bílskúrs um 10 m2. Samþykkt tillaga skal send Skipulagsstofnun samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og þá skal niðurstaða bæjarstjórnar auglýst, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Jafnframt skal senda þeim aðilum sem athugasemdir gerðu umsögn um þær.“

Með bréfi, dags. 13. mars 2020, var samþykkt bæjarstjórnar ásamt gögnum málsins send Skipulags­stofnun til yfirferðar og með bréfi stofnunarinnar, dags. 24. apríl 2020, var tilkynnt að ekki væri gerð athugasemd við að auglýsing um samþykkt deiliskipulagtillögunnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Auglýsing um samþykkt deiliskipulags Lundahverfis var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. maí 2020. Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins ásamt upplýsingum um kærufrest einnig birt í Fréttablaðinu 8. s.m. og í Garðapóstinum 20. maí 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er tekið fram að Garðabær hafi látið gera húsakönnun samkvæmt ákvæðum 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 í tengslum við vinnu við nýtt deili­skipulag Lundahverfis. Í húsakönnuninni segi að raðhúsalengjan að Reynilundi 11-17 hefði verið valin sem dæmi í yfirlitsritið heimili og húsagerð 1967-1987 um það sem merkast hafi verið að gerast í íbúðarhúsahönnun þess tímabils. Listrænt gildi, menningarsögulegt gildi, umhverfisgildi, upprunalegt gildi, tæknilegt ástand og varðveislugildi húsanna hafi verið hátt í öllum framangreindum flokkum.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar nr. 80/2012, sbr. 37. gr. skipulagslaga, skuli, áður en gengið sé frá aðal- eða deiliskipulagi, fara fram húsa- og mannvirkjaskráning á skipulagsreitnum. Minjastofnun hafi farið yfir tillögu að deiliskipulagi Lundahverfisins og farið m.a. yfir niðurstöðu húsakönnunarinnar. Í niðurstöðu Minjastofnunar, dags. 2. október 2019, segi: „Raðhús eftir Albínu Thordarson við Reynilund 11-17, sem í húsakönnun eru metin með hátt verðveislugildi og lagt til að þau verði friðuð (friðlýst). Minjastofnun tekur undir að ástæða sé til að húsaröðin njóti verndunar og leggur til að þau njóti hverfisverndar í deiliskipulagi, í rauðum flokki (einstök hús, húsaraðir- og götumyndir).“

Í samræmi við niðurstöðu húsakönnunar og álit Minjastofnunar hafi sveitarfélagið lagt til í auglýstri tillögu að deiliskipulagi að húsin að Reynilundi 11-17 yrðu vernduð. Húsin að Reynilundi 11-17 hafi verið sérmerkt á deiliskipulagsuppdrætti með bláum lit og merkingunni „Sjá mat í húsakönnun“. Í kafla 1.9 í kafla auglýstrar greinargerðar hafi sagt að í deili­skipulaginu væru ekki sett ákvæði um hverfisvernd eða aðrar ráðstafanir umfram það varðveislumat sem fram komi í húsakönnuninni. Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 7. febrúar 2020 hafi nefndin samþykkt að breyta auglýstri tillögu á þann veg að byggingarreitur bílskúra raðhúsanna yrði stækkaður en framangreind ákvæði greinargerðar og merkingar á uppdrætti um vernd húsanna hafi verið óbreytt.

Með stækkun byggingarreits og heimild til stækkunar bílskúra sé höfð að engu niðurstaða húsakönnunar og Minjastofnunar um varðveislugildi raðhúsalengjunnar. Slíkar framkvæmdir myndu hafa í för með sér verulegar breytingar á útliti raðhúsalengjunnar og rýra þannig verndargildi húsanna og gera friðun marklausa. Þá séu bæjaryfirvöld í rauninni að leggja blessun sína yfir ólögmæta innréttingu íbúðar í bílskúrnum að Reynilundi 11 sem þeim sé fullkunnugt um að sé raunverulegur tilgangur framkvæmdanna og stækkunar byggingareita. Sé þetta gert þrátt fyrir að skýrt komi fram í skilmálum deiliskipulagsins að einungis sé heimilt að vera með eina íbúð á hverri lóð. Þá sé að engu hafður höfundar- og sæmdarréttur arkitekts húsanna sem hafi ítrekað lýst því yfir að hún sé mótfallin þessum breytingum.

Það sé athyglisvert að bæjaryfirvöld skuli leggja áherslu á það í ákvörðunum sínum að stækkunin sé á baklóð en kærandi mótmæli því. Lóðin sé suðurlóð og öll raðhúsin við Vífilsstaðaveg austan Karlabrautar, hafi í tæpa fimm áratugi verið götumynd Vífilsstaðavegar, allt þar til hljóðmön hafi verið gerð þar árið 2018. Með tímanum muni mönin síga svo að þar sem nú sjáist um metri ofan af húsunum muni með tímanum sjást vel niður á miðja glugga. Þrátt fyrir að heimiluð sé stækkun bílskúra raðhúsanna sem geri að engu verndun húsanna hafi ekki verið gerðar breytingar á merkingum þeirra á samþykktum uppdrætti eða skilmálum greinargerðar um verndargildi. Óljóst sé því hvort húsin njóti verndar eða hvaða heimildir séu til breytinga á þeim. Deiliskipulagið uppfylli þannig ekki þær lágmarkskröfur sem gera verði til skýrleika skipulagsáætlana.

Kærandi telji að afgreiðsla skipulagsnefndar byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum. Eini tilgangurinn virðist vera að reyna að búa til byggingarreit undir framkvæmdir sem fram hafi farið í fullkomnu óleyfi og sé sveitarfélagið með því að leggja blessun sína yfir raunverulegan tilgang breytinganna sem sé að búa til íbúð í bílskúrnum og gera Reynilund 11 að tvíbýlishúsi.

Með breytingunni sé fallið frá fyrri ákvörðunum um höfnun byggingarleyfis og verndun húsanna. Engar skýringar séu gefnar á því hvers vegnar niðurstöðu fagaðila séu virtar að vettugi heldur þvert á móti sé raðhúsið eina húsið þar sem gerð sé breyting á byggingarreit við vinnslu deiliskipulagsins, gagngert til að unnt sé að byggja og breyta húsi sem hafi hátt verndargildi í öllum flokkum. Virðist sveitarfélagið hafa látið undan þrýstingi og hótunum um skaðabóta­kröfur sem hafi m.a. komið fram í fjölmiðlum. Enginn grundvöllur sé hins vegar fyrir því að sá sem ráðist í ólögmætar framkvæmdir geti átt skaðabótakröfu á hendur sveitarfélagi við þær aðstæður sem til staðar séu í málinu.

Samkvæmt lögmætisreglu íslensks réttar séu stjórnvöld bundin af lögum. Í því felst að ákvarðanir stjórnvalda og athafnir verði að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög. Með stækkun byggingarreita sé sveitarfélagið í hinu samþykkta deiliskipulagi að heimila framkvæmdir sem séu í andstöðu við lög.

Í fyrsta lagi liggi andstaða arkitekts hússins við breytingarnar skýrt fyrir en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 sé óheimilt að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. Með umræddum framkvæmdum sé brotið á höfundarrétti og sæmdarrétti kæranda sem sé varinn í 2. gr. höfundalaga og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Niðurstaða húsa­könnunar og álit Minjastofnunar staðfesti að raðhúsin hafi sérstöðu og höfundareinkenni sem geri það að verkum og þau falli augljóslega undir ákvæði högundarlaga. Þá megi leiða af dómaframkvæmd að teikningar af mannvirkjum falli undir höfundarrétt viðkomandi arkitekts, sbr. Hrd. 98/1983, en þar hafi Hæstiréttur talið að með því að breyta umræddum teikningum væri vegið að sæmdarrétti höfundar. Þá feli sæmdarréttur höfundar í sér vernd gegn því að verki hans sé breytt eða það birt með þeim hætti eða í því samhengi að skertur sé höfundarheiður eða höfundarsérkenni.

Í öðru lagi liggi fyrir að breyting á ytra byrði hússins verði ekki gerð nema með samþykki allra eigenda raðhúsalengjunnar. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús teljist allt ytra byrði fjöleignarhúss, útveggir, þak og gaflar til sameignar þess. Þá segi í 1. mgr. 30. gr. sömu laga að sé um byggingu, endurbætur eða framkvæmdir að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá verði ekki í hana ráðist nema allir eigendur samþykki, ef um sé að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Kærandi telji engan vafa leika á því að umræddar framkvæmdir teljist verulega breytingar á sameign enda breyti þær ytri ásýnd hússins og útliti þess. Með breytingunum sé verið að útbúa 50 m2 íbúð í bílskúrnum og útbúin 15 m2 geymsla. Engin bílageymsla verði þá í húsinu þrátt fyrir að slíkt sé skilyrði samkvæmt deiliskipulagi. Ekki sé gert ráð fyrir þessum breytingum í uppruna­legum teikningum að húsinu. Þá sé ótvírætt að breyting á útliti húss með þetta varðveislugildi sé veruleg breyting í skilningi ákvæðisins þar sem þurfi samþykki allra eigenda. Samkvæmt 27. gr. laga um fjöleignarhús séu breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem hafi verið eða ráð hafi verið gert fyrir í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, háðar samþykki allra eigenda hússins. Skýrt sé að bílskúr í raðhúsalengjunni verði ekki breytt í sjálfstæða íbúð án samþykkis allra í lengjunni, en slíkt fari auk þess í bága við skipulagsskilmála hverfisins.

Í úrskurðum kærunefndar fjöleignarhúsamála hafi sambærilegar breytingar verið taldar verulegar og breytingum verið hafnað, hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim á upprunalegum teikningum. Megi sem dæmi nefna um slíkt mál nr. 18/2004, sem hafi varðað byggingu á bílskúrum en samkvæmt teikningum hafi ekki verið gert ráð fyrir bílastæðum eða bílskúrum á þeim hluta lóðar sem málið hafi varðað. Nefndin hafi talið breytingarnar verulegar í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús og hafnað byggingarleyfi. Í úrskurði kærunefndarinnar í máli nr. 26/2005 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ef um væri að ræða byggingu, endurbætur eða framkvæmdir sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu þá yrði ekki í hana ráðist nema allir eigendur viðkomandi eignar samþykktu, ef um væri að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Kærunefndin hafi talið að þar sem framkvæmdirnar myndu breyta ásýnd svala hússins teldist fyrirhuguð framkvæmd veruleg breyting á útliti hússins í skilningi 1. mgr. 30. gr. laga um fjöleignarhús. Ekki hafi verið gert ráð fyrir lokun svala á upphaflegum teikningum og slíkar breytingar hafi þurft samþykki allra eigenda hússins. Kröfu álitsbeiðanda um að fyrir lægi lögmæt og bindandi ákvörðun um að loka mætti svölunum hafi því verið hafnað. Kærandi telji þennan dóm hafa fullt fordæmis­gildi varðandi breytingu á ytri ásýnd hússins, eins og sannarlega sé verið að gera. Þá hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála með nýlegum úrskurði sínum í máli nr. 99/2018 staðfest framangreint að mati kæranda.

Af framangreindum úrskurðum sé ljóst að breytingar sambærilegs eðlis og þær breytingar sem um ræði við Reynilund 11 teljist til verulegra breytinga í skilningi 1. mgr. 30. gr. laganna. Samþykki allra húseigenda þurfi fyrir slíkum framkvæmdum og eigendum að Reynilundi 11 hafi mátt vera það ljóst frá upphafi. Samt sem áður hafi þau þrýst á um að fá breytingarnar samþykktar af bæjaryfirvöldum.

Sú breyting skipulagsnefndar á deiliskipulagstillögunni að heimila stækkun byggingareits Reynilundar 11-17 um 10 m2 til þess eins að koma þar fyrir sjálfstæðri íbúð standist ekki þar sem hún hafi hvorki verið borin undir né kynnt eigendum Reynilundar 17 áður en deili­skipulagið hafi verið samþykkt. Kærandi hafi því ekki getað komið lögboðnum andmælarétti við eins og skylt sé að gera m.a. skv. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi sú breyting sem gerð hafi verið á tillögunni að loknum athugasemdafresti verið svo veruleg að þurft hefði að auglýsa tillöguna að nýju sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Líta verði til þess að um sé að ræða afar gróið og rólegt einbýlishúsahverfi og fjöldi húsa við Reynilund aðeins fjórtán, þ.e. tíu einbýlishús og svo raðhúsin við Reynilund 11-17. Breyting Reynilundar 11 í tvíbýlishús sé ekki einkamál eigenda Reynilundar 11, því með sama áframhaldi geti raðhúsalengjan orðið að 7-8 íbúða fjölbýlishúsi, þar sem um helmingur íbúðanna geti aldrei uppfyllt lög og reglugerðir Þetta sé meiriháttar breyting sem snerti alla eigendur raðhúsanna og fleiri húsa í götunni og því geti breyting deiliskipulagsins ekki talist minni háttar breyting. Breytingin hljóti að teljast meiriháttar því hún hljóti að þurfa að ná til allra raðhúsa norðan við Vífilsstaðaveg ef gæta eigi almennra jafnræðissjónarmiða og hafi því fordæmisgildi. Breytingin sé einungis bundin við eitt raðhús og einmitt það raðhús sem umsagnaraðilar hafi viljað friða og talið hafa hátt varðveislugildi.

Málsrök Garðabæjar: Bæjaryfirvöld benda á að mál er varði gildi deiliskipulags Lundahverfis geti aldrei snúist um hugsanlegar óleyfisframkvæmdir við húsnæði að Reynilundi 11 og rangt sé að lagt hafi verið til í auglýstri tillögu að raðhúsin við Reynilund 11-17 yrðu vernduð. Í greinargerð skipulagsins segi: „Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hefur verið unnin húsakönnun fyrir hverfið og er niðurstaða hennar, að lögð er til vernd á húsunum Einilundur 10, Gígjulundur 7 og Reynilundur 11-17, enda hafa þau hús hlotið hæstu einkunn í varðveislumati. Í þessu deiliskipulagi eru ekki sett ákvæði um hverfisvernd eða aðrar ráðstafanir umfram það varðveislumat sem fram kemur í húsakönnuninni. Skoðað verður sérstaklega hvernig standa megi að húsavernd í framhaldi af niðurstöðu húsakannanna í grónum hverfum í Garðabæ og ef ástæða þykir til að leggja á hverfisvernd í deiliskipulagi verður það gert með sérstakri deiliskipulagsbreytingu.“

Mál þetta varði lögmæti deiliskipulags fyrir þegar byggt hverfi í Garðabæ sem byggt hafi verið samkvæmt skipulagi sem samþykkt hafi verið í hreppsnefnd Garðahrepps árið 1969. Í hverfinu séu um 220 íbúðir, leikskóli og opin svæði. Ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að staðfesta nýtt skipulag á grundvelli núgildandi skipulagslaga varði á engan hátt meintar ólögmætar framkvæmdir við stækkun bílskúrs að Reynilundi 11. Þá eigi umfjöllun um þær breytingar sem eigendur raðhússins hafi sótt um ekki heldur við en þar sé um mál að ræða er varði útgáfu á byggingarleyfi sem fjallað hafi verið um áður en hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt. Auk þess sem umsókninni hafi verið hafnað.

Merking á skipulagsuppdrætti með bláum punktum merki ekki friðun eða hverfisvernd, heldur sé með henni vakin athygli á tillögu að friðun sem hafi verið kynnt en hafi ekki verið samþykkt og ekki sé verið að leggja til að verði samþykkt. Þessi auðkenning hafi því enga þýðingu um efni eða lögmæti deiliskipulagstillögunnar sem hafi ekki að geyma ákvörðun um friðun rað­húsanna við Reynilund nr. 11-17.

Því sé hafnað að breyting á byggingarreit hafi í för með sér verulega breytingu á útliti eða verðgildi umræddra húsa. Með stækkun byggingarreita lóðanna um 10 m2 sé augljóslega ekki verið að leggja neina blessun yfir að í húsunum að Reynilundi nr. 11-17 megi vera tvær íbúðir en umsókn eigenda umræddra húsa verið hafnað á sínum tíma. Aðkoma að raðhúsunum nr. 11-17 sé frá Reynilundi og snúi framhliðar húsanna að þeirri götu. Stækkun á byggingarreitum lóðanna sé því á baklóð og sé undarleg sú kenning að húsin myndi götumynd Vífilsstaðavegar enda sjái varla í húsin frá þeim vegi fyrir hljóðmön og trjágróðri. Fari hljóðmönin að síga megi gera ráð fyrir að hún verði einfaldlega hækkuð aftur til að hún geti þjónað upphaflegum tilgangi sínum. Vífilsstaðavegur sé auk þess flokkaður sem tengibraut og standi engin hús við hann með aðkomu frá honum. Sé erfitt að sjá að götumynd hans geti haft mikið vægi þegar ákvarðanir séu teknar um breytingar á húsum á aðliggjandi svæðum.

Það sé rangt sem haldið sé fram í kæru að stækkun byggingarreita við bílskúr lóðanna að Reynilundi nr. 11-17 geri að engu verndun eða sé í ósamræmi við merkingar á uppdrætti. Það liggi alveg skýrt fyrir að það hafi engin verndun verið ákveðin og umrædd merking tákni einungis að tillaga um friðun húsanna hafi komið fram og geti hún staðið óbreytt þrátt fyrir stækkun byggingarreits. Það sé af sömu ástæðu ekkert óljóst um það hvort húsin njóti verndar eða hvaða heimildir séu til breytinga á þeim, enda liggi skýrt fyrir að engin ákvörðun hafi verið tekin af bæjaryfirvöldum um friðun húsanna við Reynilund nr. 11-17. Heimiluð stækkun byggingarreits feli ekki í sér fyrirheit um byggingarleyfi, enda kunni veiting þess að vera háð öðrum skilyrðum en felist í skipulagi, t.d. um samþykki sameigenda í fjöleignarhúsi sé það áskilið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Málsástæða kæranda um brot gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins fái engan veginn staðist. Þau lagaskilyrði sem kærandi tilgreini takmarki með engum hætti heimildir sveitarfélags við skipulagsgerð og það tíðkist ekki að hafa í skipulagi áskilnað um samþykki sameigenda í fjöleignarhúsum, að gætt sé höfundarréttar hönnuðar mannvirkis eða annarra lagaskilyrða sem reynt geti á við útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. t.d. 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki sem áður hafi verið vikið að.

Að því er varði höfundarrétt arkitekta þá muni það almennt ekki vera áskilið við veitingu byggingarleyfa að þess réttar hafi verið gætt og sé það raunar ekki sjálfgefið að skilyrði þar að lútandi væri lögmætt, enda sé það ekki meðal þeirra skilyrða sem talin séu í lögum um mannvirki fyrir veitingu byggingarleyfa. Höfundaréttur sé varinn með refsi- og bótaábyrgð við brotum á honum og sé það á hendi dómstóla að ákvarða um viðurlög á þessu sviði.

Öll sú umfjöllun sem hér sé um tvær íbúðir í húsi og um viðbyggingar og breytingar á húsum sé í raun málinu óviðkomandi. Hið kærða skipulag leyfi ekki tvær íbúðir í húsi enda hefði þá verið um að ræða grundvallarbreytingu sem hefði þurft að auglýsa sérstaklega. Megi í þessu sambandi benda á sakarefnið í Landsréttarmáli nr. 387/2019.

Umfjöllun um úrskurði og álitaefni varðandi samþykki sameigenda eigi ekki við í málinu vegna þess að skipulagstillaga sé ekki háð slíku samþykki þótt í henni kunni að felast ráðagerðir um framkvæmdir sem kynnu að kalla á slíkt samþykki, enda sé það fyrst við veitingu byggingar­leyfis sem á það reynir, sbr. áður nefnda 1. mgr. 10. gr. laga um mannvirki.

Ástæða sé til að taka sérstaklega fram að ekkert í deiliskipulaginu eða öðrum gögnum styðji þá fullyrðingu að stækkun byggingarreita lóðanna við Reynilund 11-17 hafi verið samþykkt til þess eins að koma fyrir sjálfstæðri íbúð og liggi m.a. fyrir að hugmynd að slíku fyrirkomulagi hafi formlega verið hafnað. Það liggi hins vegar fyrir að umrædd stækkun byggingarreita hafi verið gerð í tilefni af athugasemdum eigenda Reynilundar 11, 13 og 15. Breytingin hafi verið málefnaleg og nægilega rökstudd en hún hafi tekið mið af því að byggingarreitir í deili­skipulaginu víki mjög víða frá útlínum núverandi húsa á svæðinu, raunar sé það almenna reglan varðandi einbýlishús en einnig algengt þegar um sé að ræða parhús eða raðhús. Megi því segja að með breytingunni hafi verið stuðlað að auknu jafnrétti meðal lóðarhafa. Sérstakur lóðarleigu­samningur sé í gildi um hverja lóð raðhúsalengjunnar við Reynilund 11-17 sem afmarki lóð hvers hús sem séreign og sé því stækkun byggingarreitar hverrar lóðar öðrum eigendum óviðkomandi. Umdeild stækkun byggingarreits um 10 m² veiti aðeins heimild til stækkunar bílskúrs og geti ekki talist grundvallarbreyting á hinni auglýstu skipulagstillögu sem hafi kallað á endurauglýsingu hennar skv. 4. mgr. 41. gr. Skipulagslaga.

Deiliskipulagið ásamt gögnum þess hafi verið yfirfarið af Skipulagsstofnun og fullnægi augljós­lega kröfum um skýrleika skipulagsáætlana og hafi bæjarstjórn við samþykkt á deiliskipulaginu gætt ákvæða skipulagslaga og skipulagsreglugerðar hvað varði efni skilmála og málmeðferð. Deiliskipulag Lundahverfis sé skipulagáætlun fyrir afmarkaðan reit og í samræmi við gildandi Aðalskipulag Garðabæjar 2016-2030.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að af umsögn Garðabæjar megi ráða að sveitarfélagið telji sig ekki bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins við töku skipulags­ákvarðana og geti því tekið ákvarðanir þar þvert á ákvæði annarra laga, s.s. höfundarlaga og fjöleignarhúsalaga. Þessu sé sérstaklega mótmælt. Ákvæði deiliskipulags í þessu tilviki fjalli ítarlega og sértækt um landnotkun á tilteknum lóðum sem hafi bein lagaleg áhrif á heimildir til framkvæmda á þeim lóðum. Sveitarfélagið sé að sjálfsögðu bundið af lögum við þá ákvarðana­töku rétt eins og við útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Í kæru komi fram að óljóst sé í hinu samþykkta deiliskipulagi hvort húsin njóti verndar eða hvaða heimildir séu til breytinga á þeim og að deiliskipulagið uppfylli þannig ekki þær lágmarkskröfur sem gera verði til skýrleika skipulagsáætlana. Af lestri umsagnar Garðabæjar megi ráða að sveitarfélagið sé ekki með það á hreinu sjálft hvaða réttaráhrif merkingar á skipulags­uppdrætti og umfjöllun um húsvernd í greinargerð skipulagsins eigi að hafa.

Harðlega sé mótmælt þeirri fullyrðingu í umsögninni að stækkun byggingarreitar hverrar lóðar sé öðrum eigendum óviðkomandi. Samkvæmt skýrum ákvæðum 3. mgr. 1. gr. fjöleignarhúsa­laga falli raðhús undir ákvæði þeirra laga. Eins og rakið sé ítarlega í kæru myndi stækkun bílskúra einstakra húsa teljast til verulegra breytinga í skilningi 1. mgr. 30. gr. laganna. Samþykki allra húseiganda þurfi fyrir slíkum framkvæmdum. Lóðarleigusamningur sem gerður hafi verið löngu fyrir gildistöku gildandi fjöleignarhúsalaga breyti engu þar um og geti ekki vikið til hliðar skýrum og ófrávíkjanlegum ákvæðum fjöleignarhúsalaga.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 20. febrúar 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Lundahverfi sem felur m.a. í sér heimild til stækkunar byggingar­reita raðhúsa við Reynilund nr. 11-17 til suðurs um 10 m2.

Í þeirri deiliskipulagstillögu sem auglýst var 4. nóvember 2019 með athugasemdafresti til 16. desember s.á. var ekki lögð til breyting á byggingarreit raðhússins Reynilundur 11-17. Stækkun byggingarreits átti sér stað eftir auglýsingu í kjölfar athugasemda frá eigendum Reynilundar 11-15 og var deiliskipulagstillagan ekki auglýst að nýju með breyttum byggingarreit. Þrátt fyrir það gerði kærandi og lögmaður hans athugasemdir við mögulega stækkun byggingarreits með bréfum, dags. 4. og 5. febrúar 2020, þar sem þeim hafði áskotnast afrit af athugasemdum eigenda Reynilundar 11-15. Þeim athugasemdum var ekki svarað með greinargerð um framkomnar athugasemdir enda bárust þær eftir að athugasemdafresti lauk. Þær voru samt sem áður lagðar fram á fundi skipulagsnefndar 7. febrúar s.á. og lágu frammi á fundi bæjarstjórnar ásamt öðrum gögnum málsins við afgreiðslu skipulagstillögunnar. Kom kærandi því að andmælum sínum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Breyting sú að stækka byggingarreit hverrar íbúðar í fjögurra íbúða raðhúsi um 10 m2 verður ekki talin breyting í grundvallaratriðum enda aðeins breyting á byggingarreitum sem þegar voru fyrir í gildandi skipulagi og þar af leiðandi ekki nauðsynlegt að auglýsa deiliskipulagið að nýju skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Í 6. mgr. 12. gr. skipulagslaga kemur fram að ef talin sé þörf á að vernda sérkenni eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja, náttúruminjar, náttúrufar eða gróður vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis við gerð skipulagsáætlunar, án þess að um friðun sé að ræða samkvæmt öðrum lögum, skuli setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfis­vernd. Jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndarsvæði í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð.

Við skipulagsvinnuna var gerð húsakönnun skv. 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga. Sú húsakönnun var send ásamt tillögu að deiliskipulagi til umsagnar hjá Minjastofnun Íslands. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 2. október 2019, er staðfest að gögn uppfylli kröfur fyrir afgreiðslu skipulags og hafi verið skilað inn til Minjastofnunar í samræmi við 15. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Í umsögninni er ennfremur lagt til að raðhúsalengjan Reynilundur 11-17 njóti hverfisverndar í deiliskipulagi.

Í skilmálum hins kærða deiliskipulags segir um húsvernd að niðurstaða húsa­könnunar sé að lögð sé til vernd á Einilundi 10, Gígjulundi 7 og Reynilundi 11-17, enda hafi þau hús hlotið hæstu einkunn í varðveislumati. Í þessu deiliskipulagi séu ekki sett ákvæði um hverfisvernd eða aðrar ráðstafanir umfram það varðveislumat sem fram komi í húsakönnuninni. Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 4. október 2019 var deiliskipulagstillagan lögð fram ásamt húsakönnun, fornleifaskráningu og umsögn Minjastofnunar. Var bókað að ekki væri æskilegt að setja ákvæði um hverfisvernd einstakra eigna í deiliskipulagi nema að undan­genginni stefnumótun þar sem tekin væri afstaða til samráðs við eigendur og samspils þeirrar verndar við aðalskipulag. Liggur því fyrir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um að raðhúsa­lengjan Reynilundur 11-17 skuli njóta hverfisverndar í umræddu deiliskipulagi.

Í hinu kærða deiliskipulagi er ekki fjallað um fjölgun íbúða í raðhúsalengjunni Reynilundi 11-17. Í deiliskipulagi eru m.a. ákvarðaðar byggingarheimildir á einstökum lóðum og byggingar­reitir sem ákvarða staðsetningu bygginga og heimilað umfang. Ekki er gerð sú krafa í skipulagslögum að við samþykki skipulagsáætlana liggi fyrir að öll skilyrði til samþykkis eða útgáfu byggingar- eða framkvæmdaleyfa á grundvelli þess skipulags séu uppfyllt. Á slík lagaskilyrði getur hins vegar reynt við málsmeðferð umsókna um byggingarleyfi, sbr. t.d. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sem hefur að geyma áskilnað um fyrirliggjandi samþykki sameigenda skv. fjöleignahúsalögum nr. 26/1994, varði umsókn breytingar á sameign. Enn fremur liggur ekki fyrir að lög áskilji að samþykki arkitekta þeirra húsa sem veitt er heimild til breytinga á liggi fyrir við samþykkt deiliskipulags. Álitaefni um inntak og vernd höfundaréttar ráðast af ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972. Úrlausn slíkra álitaefna falla utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála, en eiga eftir atvikum undir dómstóla.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 20. febrúar 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Lundahverfi í Garðabæ.

71 og 73/2020 Hóla- og Túnahverfi, Dalvík

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 15. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 18. febrúar 2020 um breytingu á deiliskipulagi Hóla- og Túnahverfis.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. ágúst 2020, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur, Hringtúni 21, Dalvíkur­byggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 18. febrúar 2020 að breyta deili­skipulagi Hóla- og Túnahverfis.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. ágúst 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hringtúni 25, Dalvíkurbyggð, einnig fyrrgreinda ákvörðun sveitarstjórnar. Í báðum kærumálunum er gerð sú krafa að liðir 2 og 4 í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, sem varða breytingar á lóðum nr. 17 og 19 auk lóða nr. 42 og 44 við Hringtún, verði felldir úr gildi. Þar sem hið síðara kærumál, sem er nr. 73/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður það kærumál sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalvíkurbyggð 3. september 2020.

Málavextir: Gildandi deiliskipulag fyrir Hóla- og Túnahverfi var samþykkt í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar 20. febrúar 2018 og afmarkast af Böggvisbraut í austri og opnu grasi grónu landsvæði í suðri, vestri og í norðri. Samkvæmt Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 er svæðið skilgreint sem íbúðarbyggð. Hinn 31. október 2019 samþykkti sveitarstjórn að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi. Í tillögunni fólust m.a. áform um þéttingu byggðar með því að breyta tilteknum einbýlishúsalóðum í parhúsa- og raðhúsalóðir. Tillagan var kynnt á tímabilinu frá 11. desember 2019 til 31. janúar 2020. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Að kynningu lokinni var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Dalvíkur­­byggðar 18. febrúar s.á., þar sem fyrir lá umsögn umhverfisráðs með tillögu að svörum við framkomnum athugasemdum og samþykkti sveitarstjórn deiliskipulagsbreytinguna. Hin sam­þykkta skipulagsbreyting var send Skipulagsstofnun 9. júní 2020 til lögboðinnar yfirferðar og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 23. s.m., að hún gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar. Tók hún síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. júlí 2020.

Málsrök kærenda: Annars vegar gera kærendur athugasemd við að einbýlishúsalóðum nr. 17 og 19 við Hringtún verði breytt í lóðir fyrir parhús. Með breytingunni sé verið að færa byggingarreit lóðarinnar um 4 m nær lóð kærenda að Hringtúni 21sem sé óásættanlegt. Hverfið hafi átt að vera hrein einbýlishúsabyggð samkvæmt því skipulagi sem unnið hafi verið. Aldrei hafi verið í myndinni að búa í raðhúsa/parhúsahverfi. Með breytingunni sé verið að fjölga íbúum og bílum um helming og auka umferð. Heildarmynd götunnar og útlit hverfisins verði aldrei það sama. Sé gerð sú krafa að Hringtún nr. 17 og 19 verði áfram einbýlishúsalóðir.

Hins vegar eru gerðar athugasemdir við að einbýlishúsalóðir nr. 42 og 44 við Hringtún verði sameinaðar í eina lóð og breytt í fjögurra íbúða raðhúsalóð. Verið sé að stækka byggingarreit um 80 m² og auka byggingarmagn töluvert, en heildarmynd götunnar og útlit hverfisins breytist gríðarlega við breytinguna. Ekkert tillit sé tekið til heildarútlits hverfisins hvað varði form, götumynd, nýtingarhlutfall og byggingarmagn.

Sveitarstjórn hafi ekki leitað eftir samstarfi og hlustað á íbúa en allt ferlið hafi verið unnið í andstöðu við íbúa hverfisins sem flestir hafi sett nafn sitt á undirskriftarlista þar sem farið hafi verið fram á að sveitarfélagið hverfi frá breytingunum.

Málsrök Dalvíkurbyggðar: Bæjaryfirvöld benda á að ástæðan fyrir breytingu á deili­skipulaginu hafi verið sú að ekki hafi verið eftirspurn eftir lóðum fyrir einbýlishús í Hóla- og Túnahverfi, en nokkuð hafi verið um fyrirspurnir um lóðir fyrir minni íbúðir í par- og raðhúsum. Lóðirnar sem um ræði við Hringtún og lóðir við Skógarhóla séu við götur sem séu fullbyggðar og hafi bygging húsa við þær hafist á níunda áratug síðustu aldar. Lítil eftirspurn hafi verið eftir einbýlishúsalóðum á Dalvík um nokkuð langan tíma. Hafi því verið kannað hvort ekki mætti þétta byggðina á Dalvík og koma til móts við þá þörf sem hafi verið á byggingu par- og raðhúsa. Niðurstaðan hafi verið sú að ákveða að breyta deiliskipulagi í Hóla- og Túnahverfi að undan­gengnum almennum borgarafundi og gera mögulegt að byggja par- og raðhús í hverfinu. Málefnalegar ástæður hafi því legið að baki breytingunni og hafi verið unnt að koma til móts við þá þörf sem myndast hefði fyrir fjölbýlishús. Þá liggi það fyrir að farið hafi verið í einu og öllu eftir reglum og farið rétt að við breytingu á deiliskipulaginu.

Rétt sé að árétta að samkvæmt deiliskipulaginu frá 2018 fyrir Hóla- og Túnahverfi, hafi verið gert ráð fyrir einbýlishúsabyggð og að breytingin hafi í för með sér aukinn fjölda íbúa í hverfinu og aukna umferð. Það sé gömul saga og ný að skipulag geti tekið breytingum í tímans rás. Í VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 séu reglur um gerð deiliskipulags og breytingu þess.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags. Við skipulagsgerð ber að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Í Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020 er Hóla- og Túnahverfi á skilgreindu svæði fyrir íbúðarbyggð. Eitt meginmarkmiða aðalskipulagsins er að unnið verði að endurbótum á bæjar­mynd og umhverfi þar sem þess sé þörf m.a. með þéttingu byggðar. Með þéttingu byggðar yrði leitast við að auka hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri bæjarins. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir Hóla- og Túnahverfi sem samþykkt var 10. apríl 2018 var eitt markmiða þess að móta heildstæða byggð með einbýlis-, rað- og parhúsum. Svo sem að framan er rakið er með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu tilteknum einbýlishúsalóðum á skipulagssvæðinu breytt í parhúsa- og raðhúsalóðir. Fer hin kærða deiliskipulagsbreyting samkvæmt framan­greindu ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulags­laga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Umrædd deiliskipulagsbreyting var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar sem og þeir gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist svo gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Samkvæmt breyttu deiliskipulagi er einbýlishúsalóðunum nr. 17 og 19 við Hringtún breytt í lóðir fyrir parhús, en hámarksbyggingarmagn helst óbreytt eða 260 m². Þá eru einbýlishúsa­lóðirnar við Hringtún nr. 42 og 44 sameinaðar í eina lóð og breytt í fjögurra íbúða raðhúsalóð. Húsin á lóðinni verða eftir breytingu á einni hæð í stað tveggja. Hámarksbyggingarmagn innan nýrrar sameinaðrar lóðar eykst um 80 m², fer úr 640 í 720 m². Framangreindar lóðir eru allar óbyggðar.

Kærendur gera m.a. athugasemdir við að breytingin hafi í för með sér óæskileg grenndaráhrif vegna fjölgunar íbúa, aukinnar umferðar og að yfirbragð hverfisins breytist. Íbúar eiga almennt að geta vænst þess að ekki sé ráðist í breytingar á mótaðri eða skipulagðri byggð nema að nauðsyn beri til, svo sem vegna breyttra aðstæðna, enda geti slíkar breytingar raskað stöðu fasteignareigenda með íþyngjandi hætti. Hins vegar ber til þess að líta að sveitarfélagið hefur bent á málefnalegar ástæður að baki breytingunni og með henni hafi verið unnt að koma til móts við þá eftirspurn sem myndast hefði fyrir rað- og parhúsum á svæðinu. Þá liggur fyrir að umdeild breyting víki óverulega frá nýtingarhlutfalli umræddra lóða fyrir breytingu, útlit og hæðir húsa verða óbreyttar eða lækka frá því sem fyrir var áætlað. Efnisrök liggja því að baki umdeildri breytingu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar frá 18. febrúar 2020 um breytingu á deiliskipulagi Hóla- og Túnahverfis.

68/2020 Fitjar

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 15. október, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2020, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 8. júlí 2020 um að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Fitja í Skorradalshreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 23. október 2019 að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skorradalshrepp að samþykkja umsóknina. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir hreppinn að samþykkja umsóknina með þeim formerkjum að hreppurinn deiliskipuleggi lóðirnar eða að umsækjendur geri það með atbeina og á kostnað hreppsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 3. september 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 3. júlí 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Var málinu frestað þar sem að mati nefndarinnar lægi ekki fyrir fullnægjandi gögn, sbr. c-lið 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Fært var til bókar að kærendur þyrftu að leggja fram hnitsettan uppdrátt sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum um afgreiðslu nefndarinnar.

Hinn 20. febrúar 2019 sendi annar kærenda erindi til skipulags- og byggingarnefndar og óskaði eftir því að umsókn kærenda yrði tekin til afgreiðslu en með erindinu fylgdi umsóknareyðublað ásamt hnitsettum uppdráttum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. mars s.á. var erindinu frestað að nýju þar sem hnitsettur uppdráttur sem staðfestur hefði verið af skipulagsyfirvöldum hafi ekki enn verið lagður fram. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar sama dag en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í úrskurði uppkveðnum 27. september 2019, í kærumáli nr. 21/2019, var lagt fyrir hreppsnefnd Skorradalshrepps að taka umsókn kærenda til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar. Í kjölfarið var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 1. október 2019 og lagt til við hreppsnefnd að hafna umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag umræddra lóða. Staðfesti hreppsnefnd þá afgreiðslu á fundi sínum 23. s.m. en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar sem felldi hana úr gildi með úrskurði uppkveðnum 29. maí 2020 í kærumáli nr. 118/2019. Var hreppsnefndinni ekki talið stætt á að synja umsókn kærenda einvörðungu með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag enda væri ljóst að 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 mæli fyrir um heimild sveitarstjórnar til að skipta lóðum og ákveða lóðamörk án deiliskipulagsgerðar. Var jafnframt vísað til þess að ekki lægi fyrir hvers vegna hreppsnefndin taldi sér ekki fært að afgreiða umsóknina á grundvelli þeirrar lagaheimildar.

Hinn 8. júní 2020 óskuðu kærendur eftir fundi með fulltrúum hreppsins til þess að ljúka afgreiðslu málsins efnislega. Með vísan til þess að fyrri afgreiðsla hreppsnefndar hafði verið felld úr gildi var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. júlí s.á. og henni hafnað, m.a. með vísan til markmiða og stefnu gildandi aðalskipulags. Hreppsnefnd staðfesti þá afgreiðslu á fundi sínum 8. júlí 2020 og var kærendum tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 9. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun sé byggð á sömu rökum og fyrri ákvörðun sem felld hafi verið úr gildi. Sú staðreynd að misræmi sé á milli raunstærða lóða og skráðra stærða sé fremur röksemd gegn gerð deiliskipulags en með. Mikill kostnaður felist í kröfu hreppsins um að jörðin verði deiliskipulögð „heildstætt“. Þá væri opnuð ormagryfja deilna um nákvæma staðsetningu lóðarmarka. Einnig þyrfti undanþágur fyrir flestar leigðar og byggðar lóðir vegna helgunarsvæða eða nálægðar við veg og vatn.

Reglan um skyldubundið mat sé brotin þar sem ekki sé fortakslaus lagaáskilnaður um deili­skipulag til þess að skipta megi lóðum eða breyta lóðamörkum. Þvert á skýra heimild 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé allt mat afnumið með vísan til þeirrar stefnu eða markmiðs hreppsins um að deiliskipuleggja eigi allar jarðir „heildstætt“. Meðalhófsregla sé einnig brotin með kröfu um heildstætt deiliskipulag. Markmiði um skiptingu lóðar megi ná með öðru og vægara móti. Grenndarkynning væri kostnaðarlítil fyrir alla aðila, en þess megi geta að fáar grenndarkynningar hafi verið í hreppnum undanfarin ár. Ráða megi óbeint af úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumáli nr. 118/2019 að slík stefnumörkun sé ómálefnalegt sjónarmið, sbr. 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga. Sú afstaða að samþykkja ekki sameiningar lóða utan deiliskipulagðra svæða sé ómálefnaleg þar sem heimild til þess sé að finna í 48. gr. skipulagslaga. Minna megi á að ábyrgð á gerð deiliskipulags liggi hjá hreppnum og skuli kostnaður við það greiðast úr sveitarsjóði samkvæmt sömu lögum.

Það sé ekki rétt sem fram komi í bókun skipulags- og byggingarnefndar að markmið um heildstætt deiliskipulag eigi aðeins við um „hverja jörð sem frístundabyggð stendur á.“ Í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 segi um byggðaþróun að „heildstætt deiliskipulag verði unnið fyrir hverja „jörð“ (skilgr. laga 81/2004)“. Áætlun um heildardeiliskipulag jarða sé ekki að finna í aðalskipulaginu. Hins vegar sé sett fram „sú meginregla að heildstætt deiliskipulag sé unnið af jörð þegar þrír eða fleiri afmarkaðir deiliskipulagsreitir hafa verið samþykktir á viðkomandi jörð.“ Þessir reitir séu ekki bundnir við frístundasvæði. Afgreiðsla umsóknarinnar á grundvelli 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga gangi í engu gegn markmiðinu og meginreglunni um heildstætt deiliskipulag jarða. Þá myndi samþykkt umsóknar kærenda samræmast stefnu aðalskipulagsins um að stækka lágmarksstærðir frístundalóða úr 0,33 ha að flatarmáli í 0,5 ha, sbr. áætlun um frístundabyggð í V. kafla aðalskipulagsins. Það gangi beinlínis gegn stefnu sveitarfélagsins að hafna stækkun lóða á frístundasvæðum.

Einnig sé um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að ræða. Vegna mistaka í kjölfar óleyfisframkvæmda vinni hreppurinn nú að deiliskipulagningu lóða nr. 47-62 við Fitjahlíð. Það sýni að hreppurinn telji sér fært að deiliskipuleggja þegar aðstæður krefjist. Fitjahlíð sé svæði sumarhúsa sem hafi risið löngu fyrir tíð skipulagsáætlana. Margt mæli gegn því að skipuleggja frístundabyggð þar, a.m.k. á stórum hluta svæðisins. Í tölvupósti frá Skipulagsstofnun 3. apríl 2020 segi að ljóst sé að „ef um er að ræða nýjar lóðir í deiliskipulagi þá þurfa þær að uppfylla ákvæði skipulagsreglugerðar.“ Skipulags- og byggingarnefnd deiliskipuleggi nú Fitjahlíð 47-62 en í þeirri vinnu hafi komið í ljós að sækja þurfi um margar undanþágur til ráðuneytis. Fyrir utan þessi tæknilegu og erfiðu atriði sé þegar orðið ljóst að það sé tímafrekt og kostnaðarsamt að fella gamla byggð að nútíma kröfum deiliskipulags. Einnig megi líka spyrja hver sé hin krefjandi þörf. Svæðið sé skilgreint sem frístundabyggð í aðalskipulagi og ef óskað sé breytinga á húsum í þegar byggðu hverfi geti hreppurinn farið með beiðnina skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Árið 2014 hafi þáverandi skipulagsfulltrúi verið spurður hvort grenndarkynning væri notað í eldri byggðum og svarað því á eftirfarandi hátt: „[V]ið höfum nýtt okkur grenndarkynningarákvæðið á nokkrum eldri svæðum þar sem ekkert deiliskipulag er í gildi.“

Stefna sveitarfélagsins sé til tjóns fyrir kærendur og takmarki eignarréttindi þeirra og atvinnu­frelsi m.t.t. útleigu lóða. Því sé brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar, 75. gr. um atvinnufrelsi og 77. gr. um álögur á borgarana. Sú röksemd í fyrra máli að kærendur geti deiliskipulagt lóðina á eigin kostnað hafi ekki staðist kröfur og stefna eða markmið þar um geri það enn síður. Þá hafi andmælaréttur einnig verið brotinn á kærendum.

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er gerð sú krafa að kröfum kærenda verði hafnað. Ákvörðun um að synja beiðni þeirra hafi verið rökstudd með vísan til þess að í aðalskipulagi sveitarfélagsins hafi verið mörkuð sú skipulagsstefna að heildstætt deiliskipulag skuli sett um hverja jörð innan sveitarfélagsins, þ.e. hverja jörð sem frístundabyggð standi á. Sameiningar lóða innan hreppsins hafi um langa hríð ekki verið samþykktar á svæðum þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag. Þá kalli ósamræmi á milli raunstærða lóða í landi Fitjahlíðar og skráðra stærða á gerð deiliskipulags.

Í samræmi við skyldu sveitarfélaga til að setja stefnu og markmið varðandi skipulagsmál í aðalskipulagsáætlunum sínum, sbr. 12. og 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sé gerð grein fyrir því í formála Aðalskipulags Skorradalshrepps 2010-2022 að í því sé mótuð stefna og settar reglur um deiliskipulag á jörðum eða jarðarhlutum sem taka þurfi mið af. Þá komi fram í kafla um leiðarljós að eitt helsta stefnumið þess varðandi byggðaþróun í hreppnum sé að heildstætt deiliskipulag verði unnið um hverja „jörð“, skv. skilgreiningu jarðalaga nr. 81/2004. Í lögunum sé jörð skilgreind sem „land með ákveðnum landamerkjum eða með ákveðnum tún- og engjamerkjum ef um er að ræða jörð eða hjáleigu sem hefur sameiginlegt beitiland með annarri jörð eða jörðum. Það gildir þó ekki um lóðir undir sumarbústaði án tillits til þess hvort þær eru í skipulögðu sumarbústaðahverfi og heldur ekki landspildur á svæðum sem skipulögð hafa verið fyrir aðra starfsemi en landbúnað.“ Samkvæmt því falli jarðir sem leigi sumarbústaðalóðir út úr jörðinni ekki undir lögin. Hins vegar hafi hreppsnefnd um langa hríð litið svo á að framangreind skilgreining samræmist ekki nútíma búrekstri og að heimila eigi eigendum að leigja sumarhúsalóðir frá jörðinni án þess að þurfa að taka hana úr landbúnaðarnotum. Hvað felist í hugtakinu „landbúnaður“ hafi breyst mikið síðustu áratugi og því sé eðlilegt í dag að líta svo á að ábúandi jarðar sem lóðir eru leigðar frá sé í búrekstri. Þetta sjónarmið komi víða fram í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Þannig segi t.a.m. á bls. 80 að þar sé sú meginstefna mörkuð að landnotkun á skipulagssvæðinu verði fyrst og fremst til landbúnaður en að skilgreining á því hugtaki hafi breyst í áranna rás og þannig sé t.d. nú viðurkennt að skógrækt sé landbúnaður. Með sama hætti telji hreppurinn réttmætt að skilgreina leigu á lóðum undir frístundahús sem landbúnað, enda fari þá fram nýting auðlinda þess lands til atvinnu- og verðmætasköpunar viðkomandi jarðar.

Því sé ljóst að sú skipulagsstefna hafi verið mörkuð fyrir sveitarfélagið að gerð yrði heildstæð deiliskipulagsáætlun fyrir hverja jörð, þ. á m. fyrir jarðir eigenda sem leigi utanaðkomandi einstaklingum lóðir undir sumarhús. Í því felist að aðalskipulag hreppsins kveði á um skýr markmið um gerð heildstæðs deiliskipulags frístundasvæða sem séu innan jarða sem enn séu skráðar undir landbúnaðarnotum, en jörðin Fitjar sé einmitt slík jörð. Beiting undan­þáguheimildar 48. gr. skipulagslaga um skiptingu lóða bryti gegn þeirri stefnu sem skipulags­yfirvöld hafi sett í aðalskipulagi um heildstæðar deiliskipulagsáætlanir fyrir allar jarðir. Jákvæð afgreiðsla erindis kærenda hefði fordæmisgildi ef önnur samskonar umsókn bærist sveitarfélaginu. Því hafi hreppnum verið bæði heimilt og nauðsynlegt að setja sér margumrædda stefnu í aðalskipulagi.

Vísað sé til álits umboðsmanns Alþingis nr. 2556/1998, en þar segi m.a: „Sú hætta fylgir, þegar veitt er eitt byggingarleyfi í einu, án þess að fyrir liggi deiliskipulag, að tvö eða fleiri byggingarleyfi á reit hafi í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri reitsins enda þótt hvert byggingarleyfi eitt og sér hafi ekki slík áhrif. Þegar svo stendur á þróast byggð ekki í samræmi við heildstæða og samþætta stefnumörkun í formi deiliskipulags, […].“ Þó fjallað hafi verið um útgáfu byggingarleyfis í gildistíð eldri laga telur hreppurinn að sömu grundvallarsjónarmið eigi við í þessu máli.

Fyrir liggur að sveitarfélagið hafi markað sér þá stefnu að hafna umsóknum á borð við þá sem lögð var fram af hálfu kærenda um sameiningu lóða. Staðfesti annar kærandi þetta í athugasemdum við hina kærðu ákvörðun, en þar komi fram að fyrri umsóknum um sambærilegar afgreiðslur hafi verið hafnað. Hvergi komi fram að sveitarfélagið hafi einhverju sinni afgreitt sambærilegt erindi með jákvæðum hætti. Ástæða stefnunnar sé sú að ef sameiningar lóða utan deiliskipulagðra svæðis væru heimilaðar þá væri um leið verið að rýra gildi deiliskipulagsáætlana sem stjórntækis við þróun byggðar innan sveitarfélagsins, þ. á m. hvað varðar byggðamynstur, lóðir, þéttleika byggðar, nýtingarhlutfall o.fl.

Við skoðun fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar þar sem synjanir sveitarfélaga um sameiningu lóða hafi verið til umfjöllunar hafi nefndin staðfest slíkar synjanir með vísan til þess að viðkomandi sveitarfélög hafi getað fært málefnaleg rök fyrir þeim, sbr. t.d. kærumál nr. 16/2014 og 136/2017. Í umræddum úrskurðum sé vísað til þess að samkvæmt skipulagslögum sé skipulagsvald innan marka sveitarfélaga í höndum sveitarstjórna. Í umræddri 48. gr. laganna felist að lóðir verði ekki sameinaðar eða mörkum þeirra breytt án samþykkis sveitarstjórnar sem nefndin túlki svo að einstaklingar eigi ekki lögvarða kröfu um sameiningu lóða í þeirra eigu. Í áðurnefndum úrskurðum komi fram að viðkomandi sveitarfélög hafi mótað sér stefnu í skipulagsmálum þess efnis að draga skuli úr sameiningu lóða í frístundahúsahverfum af skipulagslegum ástæðum. Í fyrirliggjandi máli sé sveitarfélaginu því fært að vísa til fyrrnefndrar stefnu sem rökstuðnings fyrir hinni kærðu ákvörðun.

Í skilmálum aðalskipulags um frístundabyggð séu settar fram hámarksviðmiðunarstærðir varðandi nýtingarhlutfall lóða, stærðir húsa, fjölda húsa á lóð o.fl. Í greinargerðinni segi m.a: „Vegna deiliskipulagsbreytinga þar sem stærðarskilmálar eru óljósir skal skipulags- og byggingarnefnd taka mið af nálægri byggð við endanlega ákvörðun um stærðir.“ Sveitarfélagið líti svo á að sameining lóða geti leitt til þess að ásýnd nánasta umhverfis breytist. Ekki sé fyrir hendi deiliskipulag sem skilgreini stærðir einstakra lóða en töluverð óvissa sé um stærðir lóða. Með setningu skilmála í aðalskipulagi um nýtingarhlutfall í frístundabyggðum hafi sveitarfélagið verið að nýta sér lagaheimildir til að setja fram viðmið um þéttleika frístundabyggðar og þar með stýra byggðamynstri umræddra svæða. Vegna óvissu um stærðir lóða sé ógerningur að reikna út nýtingarhlutfall og stýra byggðamynstri. Í því ljósi hafi sveitarfélaginu verið skylt að kalla eftir gerð deiliskipulags þar sem fram kæmu upplýsingar um lóðarstærðir og lóðamörk.

Í skipulagslögum sé hvergi að finna undanþáguákvæði frá skipulagsskyldu. Sveitarfélagið telji þess vegna að sér beri skylda til að deiliskipuleggja þau svæði innan marka sinna sem standi til að framkvæma á og þau svæði sem þegar hafi verið byggð, sbr. 12., 37. og 38. gr. skipulagslaga. Því eigi þau sjónarmið kærenda um fyrirsjáanlega erfiðleika við gerð deiliskipulags fyrir svæðið ekki við í málinu. Þá hafi kærendur árið 2007 látið vinna deiliskipulagsuppdrátt fyrir svæðið sem bendi til þess að gerð deiliskipulags sé umtalsvert minna mál en lýst sé í kæru. Það deiliskipulag hafi verið dregið til baka af kærendum en ljóst sé að grunnvinna sem unnin hafi verið á sínum tíma myndi nú nýtast við gerð deiliskipulagsáætlunar.

Kveðið sé á um það markmið í aðalskipulagi að gert verði heildstætt deiliskipulag um allar jarðir innan marka sveitarfélagsins, þ. á m. jarðir sem frístundabyggðir standi á. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þessa markmiðs á þann máta að skammstöfunin þ.e. hafi komið í stað skammstöfunarinnar þ. á m. Það sé vissulega óheppilegt og skiljanlegt að þetta hafi valdið misskilningi. Hins vegar geti ekki falist í þessu brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem umræddur texti sé tilvísun til fyrirliggjandi aðalskipulags sem leggi alla jarðareigendur að jöfnu.

Sveitarfélagið hafni því að um brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar sé að ræða. Löggjafinn hafi sett margvíslegar takmarkanir í tengslum við eignarréttindi manna en svigrúm til slíks sé sérstaklega ríkt þegar almannahagsmunir krefjist þess. Þær takmarkanir á eignarrétti sem kveðið sé á um í skipulagslögum falli undir framangreint viðmið. Sama gildi um ætluð brot á 75. gr. stjórnarskrárinnar um takmarkanir á atvinnurekstri. Þá verði ekki séð að í ákvörðun sveitar­félagsins felist álögur af hálfu hreppsins á kærendur og því ekki um brot á 77. gr. stjórnar­skrárinnar að ræða.

Sjónarmiði kærenda um brot á andmælarétti sé mótmælt. Öll rök og sjónarmið kærenda vegna málsins hafi legið fyrir við afgreiðsluna auk þess sem rökstuðningur ákvörðunarinnar hafi hvorki verið byggður á nýjum gögnum eða upplýsingum sem kærendum hafi verið ókunnugt um né á matskenndum atriðum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur mótmæla því að beiting lagaheimildar 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 feli í sér undanþágu. Þá sé fordæmisgildi slíkrar samþykktar takmarkað. Fordæmi eigi aðeins við ef um sambærilegar eða sams konar aðstæður sé að ræða. Úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem sveitarfélagið vísi til varði ekki sambærilega aðstöðu. Í kærumáli nr. 136/2017 hafi lóðir ekki legið saman og í kærumáli nr. 16/2014 hafi synjun verið byggð á formlegri stefnu í aðalskipulagi um tiltekinn brúttóþéttleika.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Verður því ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að umsókn þeirra verði samþykkt eða að lagt verði fyrir sveitarstjórn að samþykkja umsókn kærenda.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Var ákvörðunin rökstudd með vísan til þess að í Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 komi fram það markmið sveitarfélagsins að heildstætt deiliskipulag verði unnið um hverja jörð, að sameining lóða utan deiliskipulagðra svæða hafi ekki verið samþykkt hjá sveitarfélaginu um langa hríð og að misræmi sé á milli raunstærða og skráðra stærða lóðanna.

Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitar­félags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Að sama skapi ber sveitarstjórnum að afgreiða umsóknir um skiptingu jarða, landa eða lóða eða breyta landamerkjum og lóðamörkum skv. 48. gr. laganna. Einstakir aðilar eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn hins vegar að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Jafnframt skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Skorradalshrepps 2010-2022 er lóðin Fitjahlíð 30 á svæði fyrir frístundabyggð. Í kafla aðalskipulagsins um meginmarkmið hreppsnefndar kemur fram um stefnumið byggðaþróunar að „heildstætt deiliskipulag verði unnið fyrir hverja „jörð“ (skilgr. laga 81/2004)“. Í kafla 5.1 í aðalskipulaginu er rakið að skv. 5. gr. jarðalaga nr. 81/2004 nái landbúnaðarsvæði yfir allt land jarða eða lögbýla sem ekki hafi verið tekið úr landbúnaðarnotum. Einnig segir að Skorradalshreppur telji réttmætt að skilgreina leigu á lóðum undir frístundahús sem landbúnað enda fari þá fram nýting auðlinda viðkomandi jarða til atvinnu- og verðmætasköpunar.

Svo sem fyrr er rakið færði hreppsnefnd m.a. fram þau rök fyrir hinni kærðu ákvörðun að með því að samþykkja umsókn kærenda á grundvelli 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga væri farið gegn þeirri stefnu aðalskipulags að heildstætt deiliskipulag verði unnið um hverja jörð. Telja verður að með samþykki umsóknar kærenda hefði ekki verið farið gegn umræddri stefnu enda ljóst að þar með hefði ekki verið girt fyrir að heildstætt deiliskipulag yrði síðar unnið fyrir jörðina. Aftur á móti verður að telja það sjónarmið hreppsnefndar að vilja ekki sameina lóðir utan deiliskipulagðra svæða vera málefnalegt og í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að ákvarðanir um skipulagsforsendur séu teknar í deiliskipulagi, sbr. 37. gr. laganna. Jafnframt færði hreppsnefndin þau rök fyrir ákvörðuninni að misræmi væri á milli raunstærða og skráðra stærða lóðanna. Bjuggu því bæði skipulags- og efnisrök að baki hinni kærðu ákvörðun en hafa þarf hliðsjón af því að vald til að skipuleggja land inna marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Þá verður ekki talið að við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið farið á svig við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga eða andmælarétt skv. 13. gr. laganna brotinn enda lágu öll nauðsynleg gögn og sjónarmið kærenda fyrir við afgreiðslu málsins.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 8. júlí 2020 um að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.

82/2020 Þerneyjarsund

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 13. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 82/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. september 2020 um að fjarlægja skuli allt rusl og aðra lausafjármuni af lóðinni Þerneyjarsund 23 og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. september 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þerneyjarsunds 23, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 8. september 2020 að fjarlægja skuli allt rusl og aðra lausafjármuni af lóðinni Þerneyjarsund 23 og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 9. október 2020.

Málsatvik og rök: Með bréfi til kæranda, dags. 8. september 2020, fór byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps fram á að tekið yrði til á lóð kæranda, Þerneyjarsundi 23, og að allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Var einnig farið fram á að komið verði í veg fyrir frekari mengun og þá hættu sem til staðar sé vegna þeirra bygginga sem séu á lóðinni. Var bent á að umrædd lóð væri skipulögð sem sumarhúsalóð en ekki geymslusvæði fyrir lausafjármuni og rusl.

Kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi í framhaldinu beita þeim aðgerðum sem tilgreindar væru í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ.e. dagsektum sem geti numið allt að kr. 500.000.

Af hálfu kæranda kemur fram að verið sé að laga sumarbústaðinn á umræddri lóð. Bent sé á að bústaðurinn sé á lokaðri lóð með læstu hliði og almenningi sé ekki ætlað að fara þar inn eða um lóðina. Byggingarfulltrúi hafi farið inn á lóðina í leyfisleyfi og ekki haft samband við kæranda eða beðið útskýringa á því hvað væri um að ræða.

Vegna framkvæmda sé byggingarefni við bústaðinn sem notað sé eftir þörfum og einnig hafi nokkuð af lausamunum verið settir út úr húsinu vegna framkvæmdanna. Eðli málsins samkvæmt sé fyrst og fremst unnið að sumri til við bústaðinn.

Af hálfu hreppsyfirvalda er bent á að Þerneyjarsund 23 sé í skipulagðri frístundabyggð Hraunborga í Grímsnes- og Grafningshreppi. Sent hafi verið bréf til kæranda, dags. 8. september 2020 þar sem farið hafi verið fram á að hann myndi taka til á lóðinni og að allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Byggingarfulltrúi hafi farið aftur í skoðun að Þerneyjarsundi 23 hinn 9. október 2020. Við skoðun hafi komið í ljós að eigandi lóðarinnar hafi ekki brugðist við nefndu bréfi frá 8. september 2020. Enn sé mikið magn byggingaúrgangi, rusli og öðrum lausafjármunum á lóðinni. Þá sé bent á hrunhættu bygginga og mengun frá plasti og öðrum úrgangi sem liggi út um alla lóð.

Í viðbótarathugasemdum tekur kærandi fram að hann muni fjarlægja eigur sínar úr bústað sínum næsta vor og sumar og selja bústaðinn í framhaldi af því. Fari hann fram á frest til þess.

Niðurstaða: Samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki er byggingarfulltrúa heimilt að beita nánar tilgreindum þvingunarúrræðum til þess að knýja aðila til athafna. Markmiðið að baki þeim þvingunarúrræðum er að ásigkomulag, frágangur, umhverfi og viðhald mannvirkja og lóða sé þannig að ekki stafi hætta af því eða teljist skaðlegt. Þannig er byggingarfulltrúa heimilt að beita allt að 500.000 króna dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga, m.a. til að knýja fram úrbætur.

Sú afgreiðsla byggingarfulltrúa sem sætir kæru var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. september 2020. Kom þar fram að yrði ekki brugðist við tilmælum byggingarfulltrúa um að rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir af lóðinni og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt mætti kærandi búast við því að lagðar yrðu á dagsektir sem gætu numið allt að kr. 500.000 þar til tilmælum byggingarfulltrúa væri sinnt. Efni bréfs byggingarfulltrúa fól einungis í sér tilmæli til kæranda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Greint bréf ber með sér að vera liður í meðferð máls sem eftir atvikum getur lokið með ákvörðun um dagsektir, en bréfinu hefur ekki verið fylgt eftir með slíkri ákvörðun þar sem þyrfti m.a. að tilgreina fjárhæð dagsekta frá tiltekinni dagsetningu að virtum andmælarétti kærenda. Liggur því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Verði tekin ákvörðun um dagsektir í kjölfar þessa úrskurðar er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.