Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

113/2019 Brúarhvammur

Með

Árið 2020, föstudaginn 5. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 113/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóða í landi Brúarhvamms.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. október 2019, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kærir Kvótasalan ehf., eigandi jarðarinnar Brúarhvamms, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóða í landi Brúarhvamms. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að ógilt verði deiliskipulag frístundalóða í landi Brúarhvamms sem samþykkt var 4. september 2007 og breyting á því deiliskipulagi sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2017.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 15. nóvember og 1. desember 2019.

Málavextir: Brúarhvammur er nýbýli sem stofnað var úr jörðinni Brú í Biskupstungum á árunum 1970 og 1973. Úr spildunni voru síðar seldar tvær lóðir, Brúarhvammur lóð nr. 1 með afsali, dags. 30. nóvember 1992, og Brúarhvammur lóð nr. 2 með afsali, dags. 11. janúar 1991. Hinn 4. september 2007 var samþykkt deiliskipulag fyrir frístundalóðir í landi Brúarhvamms. Fól það í sér endurgerð deiliskipulags frá 1992 en í greinargerð skipulagsins kemur fram að frá þeim tíma hafi Tungufljót brotið nokkuð af skipulagssvæðinu undir sig. Ein lóð sé á svæðinu og stækkun sunnan hennar. Aðkoma sé frá stofnvegi 35, Biskupstungnabraut, og er aðkomuvegur lóðarinnar frá heimreið að Brúarhvammi sýndur á uppdrætti.

Hinn 6. febrúar 2017 var samþykkt breyting á deiliskipulaginu og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á. Skipulagssvæðið var stækkað til norðausturs með því að bæta við viðskipta- og þjónustulóð, Brúarhvammi lóð nr. 2. Kemur fram í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni að mörk þeirrar lóðar hafi verið dregin með hliðsjón af afsölum frá annars vegar 12. mars 1973, sem sé fyrir landið sem báðar lóðirnar hafi tilheyrt áður, og hins vegar frá 11. janúar 1991, en það afsal sé fyrir Brúarhvamm lóð nr. 2. Á skipulagsuppdrætti er gert ráð fyrir sömu aðkomu að lóð nr. 1 og áður, en bætt er við aðkomu að lóð nr. 2 frá heimreið að Brúarhvammi. Kærandi eignaðist Brúarhvamm í ágúst 2017, þ.e. nokkrum mánuðum eftir greinda deiliskipulagsbreytingu.

Á fundi skipulagsnefndar Uppsveita Árnessýslu 10. apríl 2019 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi sem náði til lóðanna Brúarhvamms nr. 1 og 2 í Bláskógabyggð. Á fundinum var ekki gerð athugasemd við að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt. Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 9. maí 2019 var tillagan samþykkt samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var og mælst til að tillagan yrði auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. laganna og að eiganda jarðarinnar Brúarhvamms yrði send tillagan til kynningar. Tillagan var auglýst til kynningar frá 22. maí til 3. júlí 2019 og bárust athugasemdir á þeim tíma, m.a. af hálfu kæranda. Að lokinni auglýsingu var tillagan lögð fyrir fund sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 24. september 2019. Tók sveitarstjórnin ekki undir athugasemdir frá eiganda Brúarhvamms, þar sem um minniháttar frávik væri að ræða frá gildandi deiliskipulagi. Með afgreiðslunni væri ekki tekin afstaða til einkaréttarlegs ágreinings um afmörkun lóðanna. Á fundinum samþykkti sveitarstjórn framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi og öðlaðist hún gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 2019.

Deiliskipulagsbreytingin nær til Brúarhvamms lóða nr. 1 og 2, en staðsetning þeirra er óbreytt. Heimilt verður að byggja á lóð nr. 1 allt að 140 m2 sumarhús á einni hæð með 6,0 m mænishæð. Að auki má byggja allt að 30 m2 geymslu. Fyrir breytinguna mátti byggja 40-80 m2 frístundahús, með 5,5 m mænishæð, og 10 m2 geymslu á lóðinni. Byggingarreitur á lóð nr. 1 var stækkaður, en tekið er fram í greinargerð skipulagsins að hann sé í minnst 10 m fjarlægð frá lóðarmörkum að Brúarhvammi og 50 m frá Tungufljóti, svo sem einnig er sýnt á uppdrætti. Veghelgunarsvæði, 30 m frá miðlínu Biskupstungnabrautar, er sýnt beggja vegna vegar og sú breyting gerð að aðkoma lóðar nr. 2 færist norðar og er nú innan veghelgunarsvæðis. Þá var bætt við aðkomu að lóð nr. 1 um lóð nr. 2, en fyrri aðkoma helst óbreytt.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé gert ráð fyrir að á Brúarhvammi lóð 1, landnr. 167225, verði heimilt að byggja allt að 140 m2 frístundahús með allt að 6,0 m mænishæð. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi megi húsið vera 40-80 m2 með 10 m2 geymslu. Gert sé ráð fyrir því að aðkoma að lóðinni verði um Brúarhvamm lóð 2, landnr. 174434, auk þess að áfram sé gert ráð fyrir aðkomu um heimreið og bæjarhlað jarðar kæranda, Brúarhvamms, landnr. 167071.

Á veðbókarvottorði fyrir jörðina sé ekki að finna neina kvöð um umferðarrétt um heimkeyrslu hennar. Þá sé í þinglýstum skjölum þar sem jörðinni sé afsalað ekki tekið neitt fram um slíkan rétt. Með vísan til þessa telji eigendur Brúarhvamms ljóst að eigandi lóða 1 og 2 að Brúarhvammi eigi engan umferðarrétt um jörðina Brúarhvamm. Því sé ekki hægt að fallast á umrædda tillögu að deiliskipulagi, enda liggi fyrir að gengið sé á rétt kæranda með því að halda inni í deiliskipulagi aðkomu að lóð um heimkeyrslu og bæjarhlað Brúarhvamms. Ekki sé mögulegt að leiða umferðarrétt um land jarðarinnar Brúarhvamms af þinglýstum heimildum og hljóti það eitt og sér að leiða til ógildingar deiliskipulagsins, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 67/2015, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 118/2009.

Í afsali þáverandi eiganda Brúarhvamms, þar sem afsalað hafi verið 5.000 m2 spildu úr jörðinni Brúarhvammur undir lóð 2 árið 1991 komi eftirfarandi fram varðandi staðsetningu lóðarinnar: „Að norðan 75 m til vesturs frá heimreið að bænum. Að austan afmarkast landið af heimreið til suðurs og nær til suðurs 67 m frá vegi. Að sunnan er spildan 75 m lína jafnhliða norðurhlið og vestan bein lína í túngirðinguna jafnhliða austurhlið.“ Afsalshafi hafi staðfest staðsetningu lóðarinnar með uppdrætti sem hann hafi sent til sýslumanns með beiðni um þinglýsingu. Uppdrættinum hafi verið þinglýst 28. nóvember 2000 og á honum megi sjá greinda afmörkun spildunnar Brúarhvammur lóð 2. Uppdrátturinn, ásamt afsali, staðfesti svo ekki verði um villst að í gildandi deiliskipulagi frá 2017 ásamt tillögu að breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 19. september 2019 sé spildan ekki staðsett á réttum stað. Í báðum tilvikum sé hún staðsett um það bil 30-40 metrum sunnar en fyrrgreind afsöl geri ráð fyrir. Spildan nái því um 115 metra frá vegi í stað 75 metra. Byggingarreitur samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé 10 metra frá lóðarmörkum. Röng staðsetning spildunnar hafi þau áhrif að byggingarreitur á spildunni Brúarhvammi lóðar 2 sé staðsettur um 30-40 metra inn á jörðinni Brúarhvammi, sunnan megin. Eigendur Brúarhvamms hafi ekki samþykkt slíka tilfærslu á spildunni og sé með þessu gróflega gengið á eignarrétt kæranda.

Kærandi hafi eignast jörðina Brúarhvamm með afsali, dags. 24. ágúst 2017, eða um fimm mánuðum eftir að tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Brúarhvamms lóð 2 hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Seljandi jarðarinnar hafi verið dánarbú fyrrverandi eigandans og hafi engum verið til að dreifa til að leggja fram mótmæli við tillöguna um deiliskipulag. Kærandi hafi frá því að hann eignaðist landið mótmælt gildandi deiliskipulagi og bent sveitarstjórn á augljósa villu við gerð tillögu að því deiliskipulagi sem nú hafi verið samþykkt, þrátt fyrir að gengið sé gróflega á eignarrétt kæranda. Það sé fáheyrt að sveitarfélag breyti þinglýstum eignarheimildum landeiganda með samþykkt deiliskipulags, þ.e. breyti landamerkjum með þeim hætti einum að landeiganda séu færðar auknar heimildir á kostnað annars landeiganda. Skipti engu þótt gildandi deiliskipulag hafi verið samþykkt án athugasemda. Af úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, t.d. úrskurði frá 25. nóvember 2015 í máli nr. 60/2013 og frá 10. október 2014 í máli nr. 62/2014, verði ráðið að rík krafa sé gerð til rannsóknar á þinglýstum skjölum áður en deiliskipulag sé samþykkt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og óskráða rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins. Þinglýsingum fylgi ákveðinn áreiðanleiki að lögum og verði þinglýstum gögnum ekki breytt án aðkomu eiganda. Sveitarfélaginu hafi verið óheimilt að víkja frá lýsingu á landamerkjum í afsali og þinglýstum uppdrætti frá 2000 um afmörkun lóðar 2 við breytingu deiliskipulags í apríl 2017. Sama eigi við um tillögu þá sem nú liggi fyrir um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð 1 og lóð 2 þar sem enn sé gert ráð fyrir aðkomu að lóð 1 um heimreið jarðarinnar Brúarhvammur án þess að fyrir liggi heimildir til þess, hvorki þinglýstar né aðrar.

Beri því að fella úr gildi fyrirliggjandi tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna Brúarhvamms lóð 1 og lóð 2, sem samþykkt hafi verið á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar þann 19. september 2019, ásamt því að ógilda beri deiliskipulagsbreytingu vegna Brúarhvamms lóð 2 frá apríl 2017 og Brúarhvamms lóð 1 sem samþykkt hafi verið 4. september 2007.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu Bláskógabyggðar kemur fram að í deiliskipulagi frá 2007 og í deiliskipulagsbreytingu 2017 sé gert ráð fyrir umræddri aðkomu og hafi ekki verið gerðar athugasemdir við hana í málsmeðferð vegna þessa. Umferðarrétturinn byggi á þinglýstum heimildum. Í afsali fyrrum eiganda Brúarhvamms, dags. 30. nóvember 1992, hafi fylgt með uppdráttur af spildunni, lóð 1, þar sem sýnd sé aðkoma frá heimreið að Brúarhvammi. Kaupandi þess tíma hafi síðar selt spilduna með kaupsamningi, dags. 7. nóvember 2003, og sé þar tekið fram að þáverandi eigandi Brúarhvamms heimili greiðan aðgang að landspildunni frá afleggjara. Það sama komi fram í kaupsamningi vegna kaupa núverandi eiganda lóðarinnar, dags. 28. apríl 2015. Ágreiningur um eignarréttindi verði ekki leystur fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og sé í öllu falli um að ræða skipulagskvöð sem lögð hafi verið á 2007, eða jafnvel fyrr með deiliskipulagi frá 1992, löngu áður en kærandi hafi eignast jörðina Brúarhvamm og sé kærufrestur hvað þetta varðar löngu liðinn.

Því sé hafnað að tækt sé að ógilda hina kærðu deiliskipulagsbreytingu á þeim grundvelli að staðsetning Brúarhvamms lóð 2 sé röng á skipulagsuppdrætti. Sams konar athugasemdir hafi komið fram af hálfu kæranda við málsmeðferðina með bréfi, dags. 2. júlí 2019. Í kjölfarið hafi skipulagsfulltrúi sent erindi til kæranda, dags. 3. júlí 2019, þar sem óskað hafi verið eftir afstöðu hans til lýsingar ytri merkja upprunalegu spildunnar í afsali, dags. 12. mars 1973, þar sem fram komi að spildan sé 30 metra frá þjóðveginum. Tekið sé fram að þessir 30 metrar séu veghelgunarsvæði stofnvega. Því hafi hlutaðeigandi ekki haft umráð hins 30 metra beltis og ekki getað selt það. Láðst hafi að tilgreina þetta í áðurnefndu afsali, dags. 11. janúar 1991. Þá hafi ekki verið tekið tillit til þess við gerð hins þinglýsta uppdráttar, en eigandi upprunalegu spildunnar hafi ekki undirritað hann. Tekið sé fram að uppdrátturinn sé ekki áritaður af lóðarhöfum aðliggjandi lóða eða sveitarstjórn. Skipulagsfulltrúi hafi sent að nýju fyrirspurn, dags. 4. júlí 2019, þar sem kæranda sé bent á deiliskipulagsbreytinguna frá 2017 þar sem sama afmörkun lóðarinnar sé lögð til grundvallar og í hinni kærðu breytingu. Kærandi hafi svarað framangreindum fyrirspurnum með bréfi, dags. 5. júlí 2019.

Af deiliskipulagsbreytingu frá 2017 sé ljóst að afmörkun lóðar 2 byggi á þinglýstum heimildum, sbr. það sem áður sé lýst. Við meðferð deiliskipulagsbreytingar frá 2017 hafi engar athugasemdir borist við afmörkun lóðarinnar. Kærandi hafi keypt Brúarhvamm eftir að deiliskipulagið frá 2017 hafi verið samþykkt. Ekki geti reynt á gildi þeirrar deiliskipulagsbreytingar í kærumáli þessu, enda kærufrestur vegna hennar löngu liðinn.

Varðandi hina kærðu deiliskipulagsbreytingu hafi kærandi sent inn athugasemdir í skipulags­ferlinu þar sem gerð hafi verið athugasemd við afmörkun lóðarinnar. Óskað hafi verið eftir nánari skýringum á hverju afstaða hans hafi byggst í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en að mati sveitarstjórnar hafi ekki komið fram athugasemdir sem hafi gefið tilefni til þess að breyta afmörkuninni. Að auki sé bent á að eignarréttindum verði ekki ráðstafað með deiliskipulagi.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu eiganda Brúarhvamms lóðar 2 er tekið fram að eignarréttur hans að spildunni sé staðfestur með þinglýstu afsali frá desember 2015. Því sé hafnað að stað–setning spildunnar sé röng í hinu kærðu deiliskipulagi.

Varðandi afmörkun á lögbýlinu Brúarhvammi, þá sé í þinglýstu afsali, dags. 31. mars 1970, tekið fram: „Norðurmörk spildunnar eru 30 metrum fyrir sunnan Brú, samsíða veginum 150 metra …“ Þegar kaupandinn hafi keypt meira land og það hafi verið stækkað úr 1,5 ha í 8 ha hafi í afsali, dags. 12. mars 1973, sagt: „er að norðanverðu 30 metra frá þjóðveginum – 350 – þrjú hundruð og fimmtíu metra austur með veginum frá miðjum fljótfarsvegi Tungufljóts“. Í báðum afsölum, sem afmarki lögbýlið Brúarhvamm eins og það sé í dag, sé skýrt tekið fram að fyrstu 30 metrar sunnan við og samsíða veginum til austurs frá miðju Tungufljóti hafi bærinn Brú haldið eftir við söluna og tilheyri það því bænum Brú. Ekki hafi fengist staðfest að Vegagerðin hafi nokkurn tímann gert landsvæðið upptækt og greitt bændum á bænum Brú bætur fyrir tekið land. Megi af því ráða að landið tilheyri enn bænum.

Þar sem það liggi fyrir að fyrri eigandi hafi selt og afsalað hálfum hektara úr landi sínu Brúarhvammi. Þar sem hann hafi ekki getað selt eitthvað sem hann hafi ekki átt, þá geti lóðin ekki legið öðruvísi en hún sé sýnd á núgildandi deiliskipulagi. Í athugasemdum kæranda í deiliskipulagsferlinu komi að auki fram að hann telji sig ekki hafa neinn umráðarétt yfir 30 m belti meðfram þjóðveginum. Loks hafi verið sýnt fram á með óumdeilanlegum hætti að fullur umferðarréttur sé til staðar fyrir lóð 1 um heimreið Brúarhvamms.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að tveir uppdrættir fylgi þinglýstu afsali og hvorugur sýni aðkomu að landinu eins og Bláskógabyggð haldi fram. Þó séu teiknuð bílastæði á öðrum þeirra á landi Brúarhvamms. Þar sem uppdrættir séu ekki staðfestir af seljanda, hafi þeir ekki legið fyrir við afsalsgerð og feli ekki í sér heimkeyrslu að lóð 1, sé ekki hægt að líta á þá sem marktæk gögn sem staðfesti þá fullyrðingu Bláskógabyggðar að fyrir liggi þinglýstar heimildir um umferðarrétt. Enga þýðingu í málinu hafi að fullyrt sé í síðari afsölum að heimilaður sé greiður aðgangur að landspildunni, enda hafi síðari afsalsgjafi enga heimild til að ráðstafa eignum annarra. Því sé að auki hafnað að um sé að ræða skipulagskvöð og sé ítrekuð tilvísun til Hæstaréttardóms í máli nr. 118/2009 því til stuðnings. Við gerð deiliskipulags hafi hvorki verið leitað samþykkis né gripið til eignarnáms og því augljóst að ekki sé um skipulags­kvöð að ræða.

Staðsetningu spildunnar sé mjög skýrt lýst í afsali hennar frá 11. janúar 1991 þótt ljóst sé að þar afsali afsalsgjafi landi sem ekki hafi verið í hans eigu, þ.e. 30 m landræmu meðfram vegi. Þrátt fyrir skýr ákvæði um landamerki í afsalinu hafi Bláskógabyggð og eigandi lóðar 1 og 2 ákveðið einhliða að færa til landamerki 30 m inn á landareign Brúarhvamms. Bláskógabyggð hafi tekið fram í samþykki fyrir hinni kærðu tillögu að deiliskipulagi að ekki sé tekin afstaða til landamerkjadeilna. Samt sem áður samþykki Bláskógabyggð tillögu að deiliskipulagi þar sem augljóslega sé verið að ganga gróflega á eignarrétt eiganda Brúarhvamms. Eins og fram komi í kæru þá hafi sveitarfélaginu ítrekað verið bent á villur í þeirri tillögu að deiliskipulagi, sem og þeirri sem samþykkt hafi verið árið 2017, en hafi valið að halda áfram með tillöguna að deiliskipulagi þrátt fyrir vitneskju um betri rétt kæranda.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Kærandi krefst þess að úrskurðarnefndin felli úr gildi eldri deiliskipulagsáætlun frá árinu 2007 og breytingar á henni frá árinu 2017 og 2019. Fyrri deiliskipulagsbreytingin sem kærandi krefst ógildingar á var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 6. febrúar 2017 og tók gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2017. Var kærufrestur vegna þeirrar deiliskipulags­breytingar, og eldra deiliskipulags frá árinu 2007, því löngu liðinn þegar kæra barst í þessu máli 1. nóvember 2019. Verður kröfum kæranda um ógildingu þeirra ákvarðana því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 28. gr. stjórnsýslulaga. Skiptir ekki máli í þessu samhengi með hvaða hætti eignarhaldi á jörðinni Brúarhvammi var háttað á meðan kærufrestur leið, en þótt kærandi hafi ekki haft tilefni til kæru fyrr en hann eignaðist jörðina í ágúst 2017 er ekki hægt að telja afsakanlegt að hann hafi ekki komið að kæru fyrr.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitar­stjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Hefur sveitarstjórn ákveðið mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað, en henni ber þó að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þótt hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. nefndra laga.

Deilur aðila um deiliskipulagsbreytingu þá sem samþykkt var af sveitarstjórn 19. september 2019 hverfast m.a. um túlkun þinglýstra heimilda og hvar mörk lóðarinnar Brúarhvamms nr. 2 eru til norðurs samkvæmt þeim. Einnig er deilt um tilvist umferðarkvaðar á umræddu svæði. Úrskurðarnefndin er ekki til þess bær að lögum að skera úr um eignarréttarlegan ágreining enda einskorðast valdheimildir hennar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar samkvæmt lögum nr. 130/2011. Ágreining um bein eða óbein eignaréttindi verður eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum, en rétt þykir að geta þess að deiliskipulagsákvarðanir geta ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda.

Hin kærða skipulagsákvörðun felur ekki í sér breytingar frá fyrra skipulagi varðandi þau atriðum sem helst er deilt um. Á uppdrætti sem fylgir hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er staðsetning lóða óbreytt og fyrri aðkomuvegur að Brúarhvammi lóðar nr. 1 er utan skipulagssvæðis deiliskipulags–breytingarinnar. Hins vegar er gerð breyting á aðkomu lóðar nr. 2 á þá lund að hún er færð norður og inn fyrir veghelgunarsvæði Biskupstungnabrautar. Er og gert ráð fyrir aðkomu lóðar nr. 1 þá leið í gegnum lóð nr. 2. Jákvæð umsögn Vegagerðarinnar vegna þessa, dags. 12. ágúst 2019, liggur fyrir í málinu, auk samþykkis eiganda jarðarinnar Brúar, en þegar jörðin Brúarhvammur var seld úr landi Brúar hélt eigandi Brúar eftir 30 m landræmu sunnan Biskupstungnabrautar. Þannig var tekið fram í afsali, dags. 31. mars 1970, að um spildu væri að ræða sem væri 1,5 ha að stærð og afmarkaðist hún þannig að „norðurtakmörk spildunnar eru 30 metrar fyrir sunnan brú, samsíða veginum 150 metra“. Þá var tekið fram afsali, dags. 12. mars 1973, að sameinuð spildan væri samtals um 8 ha og væri hún afmörkuð að norðanverðu 30 m frá þjóðveginum. Greind afsöl voru þinglýst á jörðina Brúarhvamm og er tekið fram í afsali til kæranda, dags. 24. ágúst 2017, hver þinglýst skjöl séu á eigninni, þ. á m. eignarheimildir seljanda skv. greindum afsölum.

Þær breytingar aðrar sem gerðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felast í auknu byggingarmagni á lóð nr. 1 og stækkun byggingarreits. Þar verður heimilt að byggja allt að 140 m2 sumarhús á einni hæð með 6,0 m mænishæð í stað 40-80 m2 frístundahúss með 5,5 m mænishæð. Að auki má nú byggja á lóðinni allt að 30 m2 geymslu í stað 10 m2 geymslu áður. Má ljóst vera að hin kærða ákvörðun sé til þess fallin að hafa í för með sér grenndaráhrif fyrir kæranda, s.s. vegna breytts útsýnis. Það veldur þó ekki ógildingu hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar en ekki verður talið að grenndarhagsmunum kæranda hafi verið raskað að því marki að réttur hans hafi verið fyrir borð borinn í skilningi c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt skilmálum Aðalskipulags Bláskógabyggðar 2015-2027 fyrir frístundabyggð getur stærð aukahúss/gestahúss verið allt að 40 m2 og stærð geymslu allt að 15 m2 og teljast þessar byggingar með í heildarbyggingarmagni lóðar. Í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga kemur fram að gildandi skipulagsáætlanir skulu vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Eins og fram hefur komið er ein af þeim breytingum sem gerð er með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að heimilt er að byggja 30 m2 geymslu á lóð nr. 1. Er hin kærða deiliskipulagsbreyting því ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag hvað þetta varðar. Leiðir það óhjákvæmilega til ógildingar. Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður hin kærða skipulagsákvörðun þó einungis felld úr gildi að þeim hluta sem heimilar byggingu geymslu allt að 30 m2. Að öðru leyti stendur ákvörðunin óröskuð enda þykir hún ekki haldin öðrum þeim form- eða efnisannmörkum er leitt geta til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist meðal annars sökum umfangs þeirra mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 19. september 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundalóða í landi Brúarhvamms að þeim hluta er heimilar byggingu allt að 30 m2 geymslu. Að öðru leyti stendur ákvörðunin óröskuð.

29/2020 Rjúpnabraut

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 4. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 4. mars 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut, Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Krókshlíð ehf., lóðarhafi Rjúpnabrautar 10, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 4. mars 2020 að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinni kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 29. apríl 2020.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum frá 5. maí 1993. Hinn 6. mars 2007 var samþykkt breyting á skilmálum nefnds deiliskipulags, sem fól í sér að heimilt yrði að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á hverri lóð innan deiliskipulagssvæðisins, þó með þeim takmörkunum að nýtingarhlutfall lóðar mætti ekki vera hærra en 0,03. Mænishæð húsanna, þar sem jörð stæði hæst, mætti vera 6,5 m. Í greinargerð sem fylgdi deiliskipulagsbreytingunni kom m.a. fram að á undanförnum misserum þar á undan hefðu  verið gerðar fjölmargar breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar. Nú væri svo komið að mismunandi skilmálar giltu um stærðir húsa innan deili­skipulags­svæðis jarðarinnar án þess að neinn sérstakur munur væri á náttúrufarslegum aðstæðum á þessum svæðum. Að mati landeigenda og sveitarstjórnar væri þessi staða ekki æskileg þar sem hún gæti leitt til misskilnings og jafnvel skapað ósætti milli lóðarhafa vegna ójafnræðis.

Hinn 31. maí 2018 lagði leyfishafi fram umsókn um leyfi til að byggja 131,8 m² sumarhús með risi á lóðinni Rjúpnabraut 9. Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 18. júlí s.á. Samkvæmt teikningum sem fylgdu umsókninni yrði húsið 5,57 m hátt og byggt á sama stað og eldra sumarhús sem hafði verið rifið. Byggingarfulltrúi stöðvaði fram­kvæmdir á lóðinni 29. október 2019 þar sem við skoðun á undirstöðum hefði komið í ljós að ekki væri verið að framkvæma í samræmi við samþykktar teikningar. Samkvæmt þeim ætti að festa húsið á steinsteypta undirstöðubita en ekki steinsteyptan grunn, eins og framkvæmt hefði verið.

Leyfishafi fékk verkfræðistofu til að mæla gólfhæð byggingarinnar og hæð landsins í kring 13. febrúar 2020. Byggingarfulltrúi fór á staðinn og sannreyndi mælingarnar með GPS-mælitækjum, en samkvæmt þeim er lægsti punktur á lóð í kóta 196,0 og hæsti punktur á lóð í kóta 201,5. Mesti hæðarmunur innar lóðar var því 5,5 m og mænishæð húss leyfishafa í kóta 204,88. Samkvæmt greindum mælingum var fjarlægð milli húsanna að Rjúpna­braut 9 og 10 um 40 m.

Leyfishafi lagði fram nýja umsókn um byggingarleyfi, sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. mars 2020. Á aðaluppdráttum sem fylgdu byggingarleyfisumsókninni kemur fram að húsið, sem er með rishæð, verði 131,8 m² að flatarmáli, og með 5,8 m mænishæð. Í fundargerð var bókað að sótt hefði verið um að setja hús niður á steinsteyptan grunn sem tæki mið af landi í kringum húsið. Fyrir lægju gögn vegna hæðarmælinga á lóð og sökkli. Eigandi hefði áður verið búinn að fá byggingarleyfi til að byggja á umræddri lóð sumarhús með risi, sem yrði samtals 131,8 m². Að endingu var bókað að umsóknin samræmdist gildandi deiliskipulagi og var hún samþykkt. Þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa var skotið til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekki hafi verið viðhöfð grenndarkynning samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna samþykktrar breytingar á fyrirhuguðu húsi á umræddri lóð­­­. Jafnframt séu gerðar alvarlegar athugasemdir við að byggingar­framkvæmd skuli samþykkt að þeim loknum, en það sé augljóst brot á 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Augljóst sé að bygging sumarhúss ofan á bílskúr eða annað mannvirki sem sé þrír metrar á hæð brjóti í bága við gildandi deiliskipulag og beri skipulagsfulltrúa því að stöðva framkvæmdir þar til úr hafi verið bætt, sbr. 2. mgr. 53. gr. skipulagslaga. Framangreind veiting byggingarleyfis sé algjörlega á skjön við gildandi deiliskipulag. Túlkun byggingarfulltrúa á orðum deili­skipulags „þar sem jörð stendur hæst“ með þeim hætti að átt sé við hæsta mögulega punkt í lóðinni sé algjörlega út í hött. Augljóst sé að túlka beri orðalag þetta svo að um sé að ræða þann stað þar sem jörð standi hæst undir viðkomandi byggingu.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið vísar til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulags­skilmálum sé heimilað að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á lóðum almennt, þó með þeim takmörkunum að nýtingarhlutfall lóðar megi ekki vera hærra en 0,03. Lóðin Rjúpnabraut 9 sé 4.937 m² að stærð, hús á lóðinni verði 131,8 m² og nýtingarhlutfall sé því 0,0267. Mænishæð hússins, þar sem jörð standi hæst, megi vera 6,5 m. Þar sem grunnur hússins standi nú verði mænishæð undir 6,5 m. Hafi það verið sérstaklega mælt af byggingarfulltrúa. Það sé því ljóst að mænishæð sé samkvæmt skilmálum. Vakin sé athygli á því að mænishæð megi vera 6,5 m, þar sem jörð standi hæst. Mikill hæðarmunur sé í lóðinni sjálfri, eða 5,5 m. Mænishæð hússins verði í kóta 204,88 en gólfkóti hússins sé 199,3. Hæð húss sem komi á sökkul sé 5,57 m. Þá liggi líka fyrir að allur grunnurinn verði fylltur með jarðvegi eftir að húsið hafi verið fest á hann og jarðvegshæð verði við efri brún grunns. Enginn bílskúr eða nothæft rými verði undir húsinu. Fjarlægð milli húsanna að Rjúpnabraut 9 og 10 sé um 40 m og sé fyrirhuguð bygging að Rjúpnabraut 9 vel innan byggingarreits. Samkvæmt því sé fyrirhuguð bygging í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála svæðisins. Þar sem umsókn um byggingarleyfi hafi verið í samræmi við skipulagsskilmála hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Byggingarleyfi hafi upphaflega verið samþykkt 18. júlí 2018. Samkvæmt samþykktum teikningum skyldi húsið sett niður á steinsteypta undirstöðubita. Síðar hafi framkvæmdir verið stöðvaðar þar sem í stað undirstöðu­bita hefði verið steyptur grunnur. Umsókn hafi verið send inn að nýju þar sem skýrt sé að vegna kröfu burðarþolverkfræðings og flutningsaðila hússins skyldi húsið sett á steinsteyptan grunn. Að öðru leyti sé húsið sjálft óbreytt. Fyrir liggi að byggingarfulltrúi hafi við afgreiðslu málsins kynnt sér öll atriði er varði húsið sjálft og þá breytingu sem gerð hafi verið á upphaflegum áætlunum, þ.e. að festa húsið á steinsteyptan grunn í stað undirstöðubita. Ekkert hafi því verið til fyrirstöðu að samþykkja byggingarleyfi að nýju þar sem það hafi samrýmst gildandi skipulagsskilmálum.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að öll hönnun framkvæmdarinnar hafi verið unnin af löggildum fagmönnum og hlotið samþykki sveitarfélagsins. Hafi í hvívetna verið unnið eftir samþykktum teikningum. Víða í Bláskógabyggð séu aðstæður svipaðar og á lóðinni Rjúpnabraut 9, þar sem byggt sé í halla, og þar megi sjá svipuð mannvirki. Lóðin og nánasta umhverfi hafi verið hæðarmæld til þess að sýna stöðu húss á lóð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar byggingu sumarhúss á lóðinni Rjúpnabraut 9. Lóðin er á deiliskipulögðu svæði og því bar ekki að grenndarkynna umdeilda byggingarleyfisumsókn skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eða auglýsa hana til kynningar skv. 1. eða 2. mgr. 43. gr. laganna nema hún víki frá gildandi deiliskipulagi og kalli þar með á deiliskipulagsbreytingu.

Svo sem áður er fram komið var í mars 2007 samþykkt breyting á skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Úthlíðar, sem tók m.a. til stærða húsa á skipulagssvæðinu. Með breytingunni var heimilað að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á hverri lóð en nýtingarhlutfall mætti þó ekki fara yfir 0,03. Þá var og tiltekið að „mænishæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, megi vera 6,5 m“. Tilgreint orðalag um mænishæð húsa verður samkvæmt orðanna hljóðan túlkað svo að miða skuli við hámarksmænishæð frá hæsta punkti lóðarinnar.

Í hinu kærða byggingarleyfi var heimiluð bygging 131,8 m² sumarhúss með 5,8 m mænishæð. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar yrði samkvæmt því 0,027. Samkvæmt því er ljóst að stærð hússins og mænishæð fara ekki í bága við skilmála gildandi deiliskipulags. Þá verður af gögnum ráðið að enginn bílskúr eða annað rými verði undir húsinu, eins og kærandi hefur haldið fram.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 4. mars 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni nr. 9 við Rjúpnabraut, Bláskógabyggð.

7/2020 Selás

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 4. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 30. desember 2019 um stöðvun allra framkvæmda við byggingu á tvílyftu íbúðarhúsi að Selási 20, Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Seláss 20 í Reykjanesbæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Reykjanesbæjar frá 30. desember 2019 að stöðva allar framkvæmdir við byggingu tvílyfts íbúðarhúss að Selási 20. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. mars 2020.

Málavextir: Með bréfi, dags. 22. mars 2017, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið úthlutað lóðinni Selási 20 í Reykjanesbæ. Lóðin tilheyrir Ásahverfi og þar er í gildi deiliskipulag sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2007. Í skilmálum deiliskipulagsins segir m.a: ,,Reykjanesbær mun setja almenna úthlutunar­skilmála þar sem kveðið er á um tímamörk fyrir skil á teikningum, byggingafresti o.fl. Reykjanesbær mun gefa út mæliblöð á grundvelli deiliskipulagsins þar sem lóðamörk og byggingareitir verða málsettir og gefnir upp kótar fyrir gólfplötu 1. hæðar ásamt hæðarkótum á lóðarmörkum.“ Úthlutunarskilmálar lóða í hverfinu eru m.a. á þá leið að heildarhæð tveggja hæða húsa sé ekki meiri en 6,3 m.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu tvílyfts húss á umræddri lóð var ódagsett en undirrituð af honum og var nafn aðalhönnuðar tilgreint í henni. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á 231. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. júní 2017. Bréf byggingarfulltrúa, dags. 15. s.m., var sent kæranda þar sem tilkynnt var um samþykki byggingaráforma. Samkvæmt samþykktum byggingaráformum er hæðarkóti lægsta punkts þaksins 19,38 en hæsta punkts 20,82. Á lóðarblaði kemur fram að leyfilegur hæðarkóti húss sé 19,50. Byggingarleyfi var gefið út af embætti byggingarfulltrúa 22. febrúar 2018 og hinn 9. mars s.á. var byggingarreitur settur út af Tækniþjónustu SÁ ehf. Á lóðarblaði var gólfkóti hússins tiltekinn 13,20.

Hinn 8. október 2018 var af hálfu byggingarfulltrúa tölvupóstur sendur aðalhönnuði hússins þar sem farið sem fyrst fram á útskýringar og lagfæringar á mistökum hans varðandi hæðarkóta hússins. Aðalhönnuður svaraði erindinu og kvaðst ætla að sjá til þess að hæðarkótinn yrði leiðréttur. Mun kærandi hafa fengið afrit af tölvupósti aðalhönnuðarins. Hinn 30. janúar 2019 sendi embætti byggingarfulltrúa tölvupóst á aðalhönnuðinn og eigandann þar sem spurt var hvenær embættið mætti eiga von á leiðréttum uppdráttum. Var á það bent að við tilraun til að skrá hönnuð í byggingargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefði hönnuðurinn ekki fundist á skrá yfir hönnuði og í ljós komið að aðalhönnuðurinn væri hvorki með löggildingu sem aðalhönnuður né með gæðakerfi, líkt og lög nr. 160/2010 um mannvirki gerðu ráð fyrir. Óskað var eftir staðfestingu á ábyrgðartryggingu hönnuðar. Að sögn sveitarfélagsins var þessum tölvupósti var ekki svarað.

Hinn 5. apríl 2019 sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til kæranda og aðalhönnuðar þar sem fram kom að vart hefði orðið við að framkvæmdir við húsið á lóð kæranda væru hafnar að nýju af fullum krafti og athygli vakin á því að ekki hefðu borist uppfærðir uppdrættir og að aðalhönnuður hefði ekki löggildingu og gæðakerfi svo sem lög áskildu. Þessum tölvupósti var ekki svarað af hálfu kæranda heldur kom byggingarstjóri hússins á fund byggingarfulltrúa og lagði til að Tækniþjónusta SÁ myndi taka málið að sér og skila inn leiðréttum uppdráttum án frekari tafa. Byggingarfulltrúi ítrekaði erindi sitt um að bætt yrði úr framangreindum ágöllum með tölvu­pósti 19. nóvember 2019 til Tækniþjónustu SÁ sem lagði fram leiðrétta uppdrætti 23. desember s.á. með hæðarkótum í samræmi við lóðarblað. Voru uppdrættirnir samþykktir af byggingarfulltrúa.

Stuttu síðar fékk byggingarfulltrúi ábendingu um að hús kæranda væri of hátt og í kjölfarið óskaði embættið eftir staðfestingu á hæðarsetningu þess. Hinn 30. desember 2019 stöðvaði byggingarfulltrúi síðan framkvæmdir við Selás 20 með vísan til þess að húsið væri of hátt. Mæling á þakhæð leiddi í ljós að hæsti punktur á þaki væri í kóta 20,33 en samkvæmt lóðarblaði og leiðréttum uppdráttum ætti hann að vera 19,50. Samkvæmt upphaflegum upp­dráttum átti hæsti punktur byggingarinnar vera í kóta 20,82. Hinn 6. janúar 2020 barst byggingarfulltrúa ósk um að þak hússins yrði hækkað um 88 cm, en með bréfi, dags. 24. s.m., var kæranda tilkynnt að erindinu hefði verið hafnað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, enda væri umbeðin hækkun í andstöðu við skipulag hverfisins.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að ekki sé fullnægjandi lagagrundvöllur fyrir hinni kærðu ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Hann hafi fengið samþykkta aðal­uppdrætti og hafið byggingu hússins samkvæmt þeim. Með áritun aðaluppdrátta sé byggingar­fulltrúi búinn að staðfesta að þeir samræmist skipulagi, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Séu því ekki lagaskilyrði til þess að stöðva framkvæmdir á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, sbr. einnig gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Sveitarfélagið sé ekki eigandi lóðarinnar Seláss 20. Ef landeigendur túlki hæðarkóta á annan hátt en byggingarfulltrúi hafi gert við áritun aðaluppdrátta sé um að ræða einkaréttarlegan ágreining milli landeigenda og kæranda. Slíkur ágreiningur sé sveitarfélaginu óviðkomandi. Hlutverk mæliblaðs að lögum sé að sýna afmörkun útskiptra fasteigna, sbr. c-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, líkt og fjallað sé um í lóðarleigusamningi. Hæðarkóti komi fram á lóðarblaði en ekki í deiliskipulaginu sjálfu. Því geti meint brot gegn tilgreindu ákvæði um hæðarkóta á lóðarblaði ekki heimilað stöðvun framkvæmda á þeim grundvelli að þær séu í ósamræmi við deiliskipulag. Lóðarblað hafi ekki annað og meira hlutverk en að afmarka lóðir og geti skilmálar deiliskipulags ekki breytt því.

Hvað sem því líði sé á því byggt að framkvæmdir kæranda hafi verið í samræmi við skilmála lóðarblaðsins. Hið flata þak sem sýnt sé á aðaluppdráttum sé með halla þar sem lægsti punktur sé undir hæðarkóta og hæsti punktur yfir honum. Byggingarfulltrúi hafi fallist á það með undir­ritun sinni og sé bundinn við það. Kærandi hafi hafið uppbyggingu og haldið henni áfram í góðri trú.

Kærandi byggi á því að málsmeðferð byggingarfulltrúa við ákvörðun um stöðvun framkvæmda hafi verið ólögmæt. Byggingarfulltrúi hafi afhent kæranda bréf á vettvangi. Honum hafi borið að senda bréf í kjölfarið þar sem stöðvunin væri ítrekuð. Þá hafi kæranda ekki gefist kostur á að bregðast við og koma að athugasemdum. Ekki hafi verið vísað til lagaákvæða fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa og rangt sé, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 24. janúar 2020, að framkvæmdir hafi einnig verið stöðvaðar á þeirri forsendu að uppbygging hafi ekki verið í samræmi við endurbætta aðaluppdrætti frá Tækniþjónustu SÁ ehf., dags. 20. desember 2019. Kæranda hafi einvörðungu verið tilkynnt um að framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til þess að þær samræmdust ekki deiliskipulagi.

Kærandi byggi á því að hinir endurbættu aðaluppdrættir og fyrirspurn um „hækkun“ á þaki hafi ekki stafað frá sér og að gögnin hafi ekki verið send til embættis byggingarfulltrúa í hans umboði. Þar sem fyrirspurnin hafi ekki verið undirrituð af skráðum lóðarhafa, kæranda, og uppdrættir hafi ekki stafað frá honum hafi byggingarfulltrúa borið að ganga úr skugga um að umrædd gögn væru send í umboði hans.

Það að löggiltur hönnuður hafi ekki undirritað aðaluppdrætti valdi því ekki að byggingar­fulltrúi geti stöðvað framkvæmdir. Kærandi hefði skilað inn nýjum uppdráttum undirrituðum af löggiltum hönnuði ef ekki hefði verið fyrir óréttmætar kröfur byggingarfulltrúa um að leiðrétta hið samþykkta þak.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að með vísan til samskipta kæranda og fulltrúa hans við embætti byggingarfulltrúa sé ljóst að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um alvarlega galla á hönnunargögnum þegar í október 2018. Þá hafi kæranda og sérfræðimenntuðum ráðgjöfum og fulltrúum hans mátt vera ljóst að framkvæmdir gætu ekki haldið áfram á grundvelli slíkra hönnunargagna. Þá hafi kæranda og fulltrúum hans mátt vera ljóst að bygging fasteignarinnar mætti ekki vera í andstöðu við gildandi skipulag. Kærandi hafi ítrekað verið hvattur til að lagfæra hönnunargögn og koma þeim til embættis byggingarfulltrúa svo að framkvæmdir gætu haldið áfram og þá í samræmi við rétt gögn. Ljóst sé að kærandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti að hafa ekki brugðist við ítrekuðum og alvarlegum ábendingum og áskorunum embættis byggingarfulltrúa. Fyrir liggi að ábend­ingar hafi komið fram löngu áður en byggingarframkvæmdir hafi verið komnar jafn langt og raun beri vitni. Embætti byggingarfulltrúa hafi lagt áherslu á að koma ábendingum og áskorunum á framfæri við kæranda eins fljótt og hægt hafi verið. Sveitarfélagið telji að það hafi ekki verið jafn flókið og kostnaðarsamt fyrir kæranda að gera nauðsynlegar lagfæringar ef brugðist hefði verið við ítrekuðum áskorunum byggingarfulltrúa. Ákvarðanir og frekari fram­kvæmdir á grundvelli gallaðra hönnunargagna verði að vera á ábyrgð eiganda fasteignarinnar. Ef í ljós komi gallar í hönnunargögnum séu eigendur fasteigna hvattir til að leiðrétta þau. Það sé á ábyrgð byggingarfulltrúa að sjá til þess að framkvæmdir séu í samræmi við lög og reglur.

Sveitarfélagið mótmæli því alfarið að stöðvun framkvæmda geti ekki byggst á 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, enda sé heimild byggingarfulltrúa beinlínis að finna í ákvæðinu sjálfu. Í 1. mgr. gr. 2.9.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé ákvæði um heimild byggingarfulltrúa til að stöðva ólöglegar framkvæmdir eða notkun og fyrirskipa lokun mannvirkis. Ákvæðið sé heimildar­ákvæði og sem slíkt alltaf háð mati viðkomandi byggingarfulltrúa hvort þeim heimildum sé beitt að teknu tilliti til aðstæðna og alvarleika mála. Samskipti milli aðila í þessu máli beri með sér að byggingarfulltrúi hafi ítrekað verið búinn að mæla fyrir um úrbætur af hálfu kæranda. Tilmælum byggingarfulltrúa hafi ekki verið sinnt og því hafi verið talið nauðsynlegt að grípa til þess úrræðis að stöðva framkvæmdir.

Stöðvun framkvæmda sé í eðli sínu bráðabirgðaúrræði sem unnt sé að beita tafarlaust án þess að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslu­lögum. Sveitarfélagið telji að byggingarfulltrúi hafi gætt meðalhófs við stöðvun framkvæmda. Þá hafi kæranda og fulltrúum hans mátt vera fullkunnugt um aðfinnslur byggingarfulltrúa.

Markmið laga nr. 160/2010 um mannvirki sé m.a. að vernda líf og heilsu manna og tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með þeim, sbr. 1. gr. laganna. Allir þeir sem komi að mannvirkjagerð með einum eða öðrum hætti hafi réttindi og skyldur samkvæmt lögunum. Þannig skuli byggingarfulltrúar meðal annars annast eftirlit með byggingarleyfis­skyldum framkvæmdum, sbr. 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá beri eigandi mannvirkis ábyrgð á því að hönnun, bygging og rekstur mannvirkis sé í samræmi við kröfur laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Eigandi mannvirkis skuli enn fremur hafa virkt eftirlit með því að þeir sem hann ráði til að hanna og byggja mannvirkið fari eftir ákvæðum laganna, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Útgefandi byggingarleyfis skuli hafa eftirlit með mannvirkjagerð og að úttektir fari fram og hafi hann heimild til að beita þvingunarúrræðum í samræmi við ákvæði laganna ef fyrirmælum um úrbætur sé ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna. Það standist því ekki skoðun að hér sé á ferðinni einkaréttarlegur ágreiningur landeiganda og húsbyggjanda sem komi byggingarfulltrúa ekki við. Eftirlit og áskoranir byggingarfulltrúa og síðar ákvörðun um stöðvun framkvæmda rúmist vel innan laga um mannvirki.

Alfarið sé hafnað þeim sjónarmiðum kæranda að þar sem um sé að ræða flatt þak með halla og lægsti punktur sé undir hæðarkóta og hæsti punktur yfir honum sé mannvirkið í samræmi við gildandi lög og reglur. Hafi byggingarfulltrúi og ítrekað hafnað þeim sjónarmiðum, m.a. á fundum með kæranda. Vikið sé að hæðarkótum í gr. 4.3.2 í byggingarreglugerð: „[…] Tilgreina skal á aðaluppdrætti hæð á neðsta gólfi mannvirkis, hæðarkóta á hverri hæð og hæðarkóta efsta punkts þakvirkis miðað við hæðarkerfi viðkomandi sveitarfélags, en götuhæð þar sem hæðarkerfi er ekki fyrir hendi.“ Sjónarmiðum um að þak þurfi einungis að meðaltali að vera undir hámarkshæðarkóta sé af þessum sökum hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi árétti að sá eini sem hafi umboð frá honum vegna framkvæmdanna sé byggingarstjóri. Hvorki Tækniþjónusta SÁ né framkvæmdastjóri þess fyrirtækisins hafi slíkt umboð. Í umsögn sveitarfélagsins sé fjallað um ábendingar vegna hæðar á þaki og að fram­kvæmdir hafi verið stöðvaðar vegna slíkra ábendinga. Bent sé á að sá eini sem hafi komið á framfæri ábendingum hafi haft aðaluppdrætti undir höndum síðan 22. júní 2017, sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt óbreytta. Að mati kæranda skorti verulega á að sveitarfélagið leggi fram gögn um þær ábendingar vegna hæðar þaks og fleira sem haldið sé fram í umsögn þess. Kærandi vilji taka fram að hann hafi oftsinnis farið á fund með byggingarfulltrúa til þess að ræða framkvæmdir og reyna að leita lausna í málinu. Hvergi sé minnst á það í umsögn sveitar­félagsins. Skylda hvíli á stjórnsýslu sveitarfélaga að skrá slíka fundi í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Niðurstaða: Samkvæmt V. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu hönnunargögn mann­virkja, t. a. m. aðaluppdrættir og séruppdrættir, vera unnin af hönnuðum sem hafa fengið lög­gildingu, sbr. 25. og 26. gr. laganna. Þá skal mannvirki og notkun þess samræmast skipulags­áætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Samkvæmt kennisniði á uppdrætti deiliskipulags umrædds svæðis er hámarkshæð tveggja hæða húsa 6,3 m frá botnplötu og er það einnig tekið fram í úthlutunarskilmálum lóðarinnar Seláss 20. Á lóðarblaði sem útbúið var á grundvelli deiliskipulagsins kemur fram að gólfkóti hússins sé 13,20 og hæsti kóti 19,50. Uppdrættir sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa 8. júní 2017 og gerðu ráð fyrir að húsið væri 7,62 m á hæð, þ.e. að gólfkótinn væri 13,20 og hæsti kóti 20,82, voru ekki áritaðir af löggiltum hönnuði. Voru uppdrættirnir því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og áritun þeirra ekki lögum samkvæmt.

Af framangreindum ástæðum var byggingarfulltrúa heimilt  að stöðva framkvæmdir á umræddri lóð kæranda í samræmi við 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki. Samþykki byggingarfulltrúa á umþrættum aðaluppdráttum veldur því ekki að honum sé þar með óheimilt að beita þvingunarúrræðum ákvæðisins sé það hans mat að skilyrði þess séu á annað borð fyrir hendi. Þá ber að hafa í huga að hinn 23. desember 2019 samþykkti byggingarfulltrúi nýja uppdrætti fyrir lóðina Selás 20 með hæðarkótum í samræmi við lóðarblað og teljast þeir nú gildandi aðaluppdrættir lóðarinnar.

Þrátt fyrir að byggingarfulltrúi hafi ekki sent kæranda bréf með ítrekun á beitingu þvingunarúrræðis í samræmi við leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar leiðir það ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hafi komið að andmælum vegna hinnar kærðu ákvörðunar, svo sem með bréfi, dags. 6. febrúar 2020, og var hann í tölvupóstsamskiptum við byggingarfulltrúa í janúar 2020 vegna málsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun að raskað geti gildi hennar og verður framkominni ógildingarkröfu því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 30. desember 2019 um að stöðva framkvæmdir að Selási 20, Reykjanesbæ.

112/2019 Ólafsgeisli

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 4. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2019, kæra á ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 13. maí 2019 um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Ólafsgeisla 121, Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2019, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kæra eigendur Ólafsgeisla 121, Reykjavík, ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 13. maí 2019 um álagningu skipulagsgjalds vegna húseignarinnar að Ólafsgeisla 121. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Þjóðskrá Íslands 22. nóvember 2019.

Málavextir: Hinn 13. maí 2019 sendi Þjóðskrá Íslands kærendum áskorun um að láta framkvæma brunabótamat vegna fasteignar þeirra að Ólafsgeisla 121 og var hún virt til brunabóta samkvæmt brunabótamati, dags. 7. ágúst 2019. Í kjölfar þess var skipulagsgjald lagt á vegna fasteignarinnar og kærendum sendur reikningur fyrir álögðu skipulagsgjaldi að upphæð kr. 181.914  með gjalddaga 1. september 2019.

Með bréfi til Þjóðskrár Íslands, dags. 16. september 2019, óskuðu kærendur eftir því að krafan yrði látin falla niður. Var þar vísað til upplýsinga vátryggingafélags Sjóvár um að fasteignin hefði verið tryggð lögboðinni brunatryggingu hjá félaginu frá árinu 2004 á grundvelli brunabótamats sem fram hefði farið í byrjun apríl s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir hafi búið í umræddri fasteign í u.þ.b. 17 ár. Þau hafi keypt brunatryggingu hjá Sjóvá og þar með hafi þau talið sig hafa uppfyllt skyldu sína skv. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar. Hafi þau aldrei fengið upplýsingar um að á þeim hafi hvílt skylda til að óska eftir sérstöku brunabótamati frá Þjóðskrá Íslands og ekki hafi verið minnst á það þegar þau keyptu tryggingu hjá Sjóvá.

Í 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem umrædd gjaldtaka byggi á, komi fram að af nýbyggingum, sem virtar hafi verið til brunabóta, skuli greiða skipulagsgjald í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati. Þá komi fram að nýbygging teljist hver nýreist hús sem virt sé til brunabóta. Ljóst sé að miðað hafi verið við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar við-byggingar. Ekki sé unnt að fallast á að hús sem reist hafi verið á árinu 2002 geti árið 2019 talist nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga. Engin rök leiði til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þessa lagaákvæðis, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 128/2018.

Það sé viðurkennd meginregla að kröfuhafi verði að gæta réttar síns og halda honum til haga og beri halla af vanrækslu sinni á því. Þjóðskrá hafi látið hjá líða, töluvert lengur en geti talist hæfilegt, að gera ráðstafanir til að tryggja rétt sinn eða framgöngu kröfunnar. Stofnunin hafi sýnt óhæfilegt tómlæti varðandi kröfuna sem hljóti að leiða til þess að hún verði látin niður falla. Ekkert hafi gefið kærendum ástæðu til að ætla að þau hafi ekki farið fyllilega rétt að við brunatryggingu fasteignar þeirra sl. 17 ár fyrr en nú, þegar þeim hafi verið send krafa um greiðslu tæplega 200.000 kr.

Fram hafi komið í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að álagning skipulagsgjalds geti dregist nokkuð eftir að viðkomandi bygging hafi verið tekin í notkun. Hafi úrskurðarnefndin fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis sé lokið. Á því verði þó að vera takmarkanir. Því til stuðnings megi nefna ummæli úrskurðarnefndar í málum nr. 20/2011 og nr. 38/2010: „Verður ekki á það fallist að umrædd bygging, sem leggja verður til grundvallar að reist hafi verið fyrir tíu til tólf árum, verði talin nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga þegar umdeild álagning fór fram.“

Málsrök Þjóðskrár Íslands: Þjóðskrá Íslands bendir á að skv. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar sé húseigendum skylt að brunatryggja allar húseignir. Húseign skuli metin brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að byggingu hennar hafi lokið eða eftir að hún sé tekin í notkun og beri eigandi ábyrgð á því að óska eftir brunabótamati. Samkvæmt 2. gr. sömu laga annist Þjóðskrá virðingu húseignar samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar og sé heiti þeirrar gerðar brunabótamat. Markmið brunabótamats sé að finna vátryggingarverðmæti húseignarinnar á þeim tíma er virðing fari fram. Skuli matið taka til þeirrar efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geti af eldi og miðist við byggingar-kostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti.

Álagning skipulagsgjalds fari fram á grundvelli brunabótamats, sbr. 2. mgr. 17. gr. skipulags-laga nr. 123/2010, þar sem segi að greiða skuli skipulagsgjald af nýbyggingum í eitt skipti sem nemi 0,3% af brunabótamati hverrar húseignar. Nýbygging teljist hvert nýreist hús sem virt sé til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldra hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemi a.m.k. 1/5 verðs eldra hússins. Umrætt skipulagsgjald verði fyrst lagt á og innheimt þegar brunabótamat liggi fyrir.

Ljóst þyki að kærendur hafi ekki sótt um brunabótamat hjá Þjóðskrá þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum heldur hafi þau aðeins sótt um brunatryggingu hjá tryggingarfélagi sínu. Í kaupsamningi aðila um fasteignina, dags. 15. október 2002, komi m.a. fram að „kaupendum er skylt að bruna-tryggja eignina frá og með afhendingardegi“, sem hafi verið við undirritun kaupsamnings. Í málinu liggi fyrir að eignin hafi ekki verið brunatryggð með tryggingu hjá Sjóvá fyrr en í apríl 2004. Einnig komi skýrt fram í framangreindum kaupsamningi að „kaupendur greiði skipulags-gjald þegar þess verður krafist nú 0,3% af brunabótamati eignarinnar“.  Í afsali sem aðilar hafi undirritað í maí 2004 komi fram að brunabótamat fasteignarinnar sé núll. Þjóðskrá geti þar af leiðandi ekki fallist á þá málsástæðu að kærendur hafi ekki vitað að fasteignin væri ekki með brunabótamat eða að þeim hafi ekki verið kunnugt um að þeim bæri að óska eftir slíku mati og greiða skipulagsgjald sem væri 0,3% af brunabótamati eignarinnar.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna nr. 809/2000 segi að hús-eigandi skuli óska eftir brunabótamati eigi síðar en fjórum vikum eftir að nýtt hús sé tekið í notkun og ef húseignin uppfylli ekki vátryggingarskyldu þá skuli byggingarfulltrúi synja um lokaúttekt. Byggingarfulltrúi sveitarfélaga hafi eftirlit með mannvirkjagerð og beri ábyrgð á því að Þjóðskrá berist upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim svo og um öll mannvirki, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Í kerfum stofnunarinnar hafi byggingarstig eignarinnar ekki verið uppfært af byggingarfulltrúa í stig sjö, þ.e. fullgerð, fyrr en hinn 3. október 2018, en fram að þeim tíma hafi byggingarstig eignarinnar verið fjórir, þ.e. fokheld. Þegar stofnuninni hafi borist tilkynning um framangreint frá byggingarfulltrúa hafi áskorun um brunabótamat verið send eigendum í maí 2019, eða um sjö mánuðum eftir að byggingarstig eignarinnar hafi verið uppfært. Verði ekki séð að þarna hafi verið um tómlæti af hálfu Þjóðskrár að ræða sem verði þess valdandi að stofnunin hafi þar með fyrirgert rétti sínum til að virða umrædda eign til brunabóta og þar með að leggja á skipulagsgjald til innheimtu hjá innheimtumanni ríkissjóðs.

Skv. 6. gr. reglugerðar um skipulagsgjald nr. 737/1997 skuli Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar, eða stofnverðs þar sem það eigi við, þegar virðing hafi farið fram eða tilkynnt hafi verið um stofnverð og veita honum þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu vegna innheimtu gjaldsins. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar falli skipulagsgjald í gjalddaga þegar brunabótavirðing hafi farið fram eða stofnverð tilkynnt og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt það innheimtumanni ríkissjóðs. Skipulagsgjald byggingarinnar hafi því ekki fallið í gjalddaga fyrr en við brunabótavirðingu hinn 7. ágúst 2019.

Tómlæti kærenda um að hafa ekki óskað eftir brunabótamati eigi ekki að leiða til þess að við-komandi komist hjá því að greiða skipulagsgjald sem þeim beri að greiða lögum samkvæmt og samkvæmt kaupsamningi þeirra.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 48/1994 um brunatryggingar séu þær skyldur að „tilkynna vátryggingafélagi um notkun húseignar og óska eftir mati“, svo samofnar samkvæmt orðalagi að eðlilegt sé að halda að um sömu aðgerð sé að ræða. Erfitt sé að lesa úr ákvæðinu skyldu húseigenda til að gera að eigin frumkvæði annað en að óska eftir því við vátryggingafélag að húseign sé metin og tryggð lögboðinni brunatryggingu, eins og kærendur gerðu, enda hlyti slík trygging að byggjast á einhverskonar mati. Þá sé ekki unnt að fallast á að skylda til að óska sérstaklega eftir mati frá Fasteignamati ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, sé skýr. Vera kunni að mistök hafi orðið til þess að húseignin hafi ekki verið tryggð lögboðinni brunatryggingu fyrr en árið 2004, eða tveimur árum eftir að hún hafi verið tekin í notkun, en þó sé ekki hægt að sjá að slík mistök hafi þýðingu í þessu samhengi.

Byggingarfulltrúi sveitarfélaga beri ábyrgð á því skv. 1. mgr. 19. laga nr. 6/2001 um mannvirki að upplýsingar berist um breytingar á mannvirkjum. Kærendur eigi ekki að bera hallann af því að byggingarfulltrúi hafi ekki uppfært skráningu byggingarstigs í kerfum Þjóðskrár fyrr en 17 árum eftir að hafinn hafi verið þar búskapur.

Þá vísi kærendur til viðbótar við ofangreinda úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til úrskurðar nefndarinnar nr. 72/2009, en í honum segi: „Verður ekki á það fallist að umræddar fasteignir, sem reistar hafa verið fyrir árum og áratugum, verði talin nýreist hús í skilningi 35. gr. skipulags- og byggingarlaga er umdeild álagning fór fram. Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þess lagaákvæðis, sem umdeild álagning styðst við, þegar litið er til orðalags þess.“

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta. Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 hluta verðs eldra húss. Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins, nú Þjóðskrá Íslands, hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.

Eins og háttað er reglum um álagningu skipulagsgjalds má við því búast að hún geti farið fram nokkru eftir að viðkomandi bygging hefur verið tekin í notkun og hefur úrskurðarnefndin í fyrri úrskurðum fallist á að réttlætanlegt kunni að vera að leggja gjaldið á nokkru eftir að byggingu mannvirkis hafi lokið. Á hitt ber að líta að miðað er við að gjaldið sé lagt á nýreist hús og nýjar viðbyggingar. Verður ekki á það fallist að umrædd bygging, sem leggja verður til grundvallar að reist hafi verið fyrir um 18 árum, verði talin nýreist hús í skilningi 17. gr. skipulagslaga þegar umdeild álagning fór fram. Engin eðlis- eða efnisrök leiða til þess að beitt verði svo rúmri lögskýringu við túlkun þessa lagaákvæðis þegar litið er til orðalags þess.

Samkvæmt því sem að framan er rakið ber að fella úr gildi hina kærðu álagningu skipulags-gjalds vegna umræddrar fasteignar kærenda.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds með gjalddaga 1. september 2019 að upphæð kr. 181.914 vegna húseignarinnar að Ólafsgeisla 121, Reykjavík.

17/2020 Urðarstígur

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2020 um stöðvun framkvæmda að Urðarstíg 9 og fyrirspurn kæranda um byggingar­leyfisskyldu framkvæmdanna.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. febrúar 2020, kærir ÞórHildur ehf, eigandi íbúðar á neðri hæð Urðarstígs 9, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2020 um að stöðva framkvæmdir að Urðarstíg 9. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að öllu leyti eða að hluta. Jafnframt er lögð fram fyrirspurn um byggingarleyfisskyldu nefndra framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. febrúar 2020.

Málavextir: Kærandi festi kaup á neðri hæð fasteignarinnar að Urðarstíg 9 í Reykjavík með kaupsamningi, dags. 27. nóvember 2019. Húsið er tveggja hæða timburhús sem reist var árið 1921. Eftir kaupin hóf kærandi framkvæmdir við lagfæringar innan íbúðarinnar og í fram­haldinu sendu eigendur efri hæðar hússins erindi, dags. 9. desember 2019, til byggingar­fulltrúans í Reykjavík og óskuðu eftir upplýsingum um það hvort þær framkvæmdir sem ættu sér stað á neðri hæð væru byggingarleyfisskyldar. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 16. desember 2019, sem sent var til fyrri eigenda neðri hæðar Urðarstígs 9, var þeim gefinn 14 daga frestur til að veita skýringar á framkvæmdunum. Hinn 6. janúar 2020 sendu eigendur efri hæðarinnar annað erindi til byggingarfulltrúa þar sem fullyrt var að kærandi hefði átt við burðar­virki hússins og einangrun milli hæða. Höfðu þeir aftur samband við byggingarfulltrúa 14. s.m. og óskuðu eftir upplýsingum. Sama dag sendi byggingarfulltrúi bréf til fyrri eigenda neðri hæðarinnar þar sem fram komu ásakanir eigenda efri hæðarinnar og veitti 14 daga frest til andmæla. Hinn 20. janúar 2020 fór fulltrúi byggingarfulltrúa á staðinn og skoðaði fyrrgreindar framkvæmdir. Við þá skoðun hitti fulltrúinn fyrirsvarsmann kæranda og sama dag fékk fyrirsvarsmaðurinn sent bréf embættisins sem sent hafði verið fyrrverandi eigenda íbúðarinnar 14. janúar s.á., þar sem kvartanir eigenda efri hæðar komu fram og var veittur frestur til að leggja fram skýringar vegna málsins.

Með bréfi til fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 24. janúar 2020, var tilkynnt að embætti byggingarfulltrúa hafi haft til skoðunar framkvæmdir að Urðarstíg 9 og að vettvangsferð skilmálafulltrúa embættisins hafi leitt í ljós að búið var að rífa niður veggi, gólf, timbursúlur og bita, einangrun og eldhús og  gera breytingar á burðarvirki hússins. Var eigendum gert að stöðva tafarlaust allar framkvæmdir hverju nafni sem þær nefndust og sækja um byggingarleyfi innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Þá var jafnframt veittur 14 daga andmælafrestur.

Kærandi andmælti ákvörðun byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 26. janúar 2020, og gerði athugasemdir við málsmeðferð embættisins auk þess að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðun embættisins um byggingarleyfisskyldu. Því bréfi var svarað af hálfu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 31. s.m., þar sem fram kom að á myndum sem teknar hafi verið við skoðun byggingar­fulltrúa sæist að búið væri að bæta við burðarbitum undir gólf efri hæðar, endurnýja bita og stoðir, saga sundur og bæta við bitum í gólfi íbúðar og rífa burt baðherbergisveggi. Þessi atriði féllu ekki undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og því byggingarleyfisskyld og fyrri ákvörðun embættisins staðfest. Kærandi svaraði því bréfi með bréfi, dags. 5. febrúar 2020, og kom þar á framfæri frekari andmælum og skoraði á embættið að afturkalla ákvörðun sína. Því var hafnað með bréfi, dags. 10. febrúar 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að mat byggingarfulltrúans í Reykjavík, að framkvæmdir kæranda séu byggingarleyfisskyldar, sé rangt og því beri að ógilda ákvarðanir embættisins um stöðvun framkvæmda og skyldu kæranda til að sækja um byggingarleyfi. Ákvarðanir byggingarfulltrúa séu ekki fyllilega skýrar um hvaða þætti framkvæmda á vegum kæranda embættið telji byggingarleyfisskylda. Í raun telji kærandi að um sé að ræða breytinga milli bréfa á forsendum embættisins fyrir ákvörðunum sínum sem kærandi telji skýrast af ófullnægjandi rannsókn byggingarfulltrúa á atvikum málsins.

Samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er allt viðhald innanhúss í íbúðar­húsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum, viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar o.þ.h. undanþegið byggingarleyfi. Minniháttar breytingar á burðar­veggjum, eldvarnarveggjum, votrými eða eldhúsi innan íbúðar séu heimilar án byggingarleyfis enda sé leyfisveitanda tilkynnt um framkvæmdir áður en þær hefjist. Allar framkvæmdir kæranda að Urðarstíg 9 falli undir framangreinda undanþágu frá byggingarleyfiskyldu. Í því samhengi sé áréttað að samkvæmt ákvæðinu sé allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsnæði undan­þegið byggingarleyfisskyldu og að upptalning ákvæðisins á nánar tilgreindum framkvæmdum sé einungis í dæmaskyni. Ljóst sé að einungis breytingar á eldhúsi og votrými, sem séu meiri að umfangi en almennt viðhald, endurnýjun innréttinda eða breyting eða endurnýjun á léttum veggjum, teljist tilkynningar­skyldar. Önnur túlkun á ákvæðinu fæli í sér að t.d. það eitt að mála baðherbergi eða að endurnýja eldhúsinnréttingu væri háð byggingarleyfi enda fæli það í sér minniháttar breytingu á votrými.

Af bréfi byggingarfulltrúa frá 10. febrúar 2020 megi ráða að hann telji að eftirfarandi atriði leiði til þess að framkvæmdir kæranda séu byggingarleyfis­skyldar: Viðbót burðarbita undir gólf efri hæðar, endurnýjun ótiltekinna bita og stoða, sundur sögun og viðbót bita í gólfi íbúðar og rif á baðherbergisveggjum. Jafnframt sé tiltekið í bréfi embættisins að allar breytingar eða útskipti á burðarvirki geti ekki talist til viðhalds heldur sé um að ræða byggingarleyfisskyldar fram­kvæmdir. Þá árétti embættið þá afstöðu sína að rif á tveimur baðherbergisveggjum geti ekki talist minniháttar breyting á votrými heldur sé um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd.

Á myndum byggingarfulltrúa, merktar A og B í fylgiskjölum, sem teknar hafi verið við skoðun 20. janúar 2020, megi sjá stoðir og bita fyrir léttan vegg sem kærandi hyggist setja upp í alrými íbúðarinnar. Að því er kærandi komist næst sé þetta sá „burðarbiti“ sem byggingarfulltrúi vísi til í bréfi sínu. Einnig megi ætla að með vísun til burðarbita eigi byggingarfulltrúi við tvo bita sem sýnilegir séu á myndum C og D.

Umræddir bitar séu allir fremur þykkir og kirfilega festir. Megintilgangur þeirra sé að mynda grind fyrir létta veggi sem kærandi hyggist setja upp. Bitarnir séu hvorki ætlaðir né til þess fallnir að bera gólf efri hæðarinnar og finnist kæranda langsótt ef telja eigi þá hluta af burðarvirki hússins. Í því samhengi vísi kærandi til þess að mun þynnri bitar séu alla jafna notaðir í sama tilgangi og kæmi aldrei til greina að telja þá burðarbita. Bitar á myndum A, B, C og D séu allir staðsettir þar sem fyrir hafi verið annað hvort léttur veggur eða enginn veggur.

Í tölvupósti embættis byggingarfulltrúa, dags. 23. janúar 2020, segi orðrétt: „Miðað við sam­þykktar teikningar er einungis burður í útveggjum rýmisins“. Upphaf­legt mat byggingarfulltrúa, um að einungis sé burður í útveggjum rýmisins, sé rétt. Allar breytingar á innri veggjum rýmisins hljóti því að teljast breytingar á léttum veggjum og því undanþegnar byggingarleyfi. Óljóst sé hvaða bita og veggjastoðir byggingarfulltrúi telji háða byggingarleyfisskyldu við endurnýjun og viðhald. Líkt og fram hafi komið í tölvupósti embættisins 23. janúar 2020 sé einungis burður í útveggjum hússins og sé endurnýjun bita og veggjastoða því eftir atvikum annað hvort tímabært viðhald eða tilfærsla og/eða endurnýjun á léttum veggjum. Hvort tveggja sé undanþegið byggingarleyfi. Timburgólf í íbúðinni hafi verið endurnýjað og rétt af en um sé að ræða löngu tímabært viðhald á gólfi sem hafi ekki borið með sér að hafa verið viðhaldið frá byggingu hússins. Bitum sem hafi verið farnir að fúna var skipt út fyrir nýja bita sem festir hafi verið á sama stað. Aðrir bitar hafi verið klæddir að utan til að rétta af gólfið. Kærandi telji fyllilega ljóst að ekki sé um að ræða breytingu á burðarvirki hússins heldur geti vart verið um annað að ræða en viðhald á timburgólfi sem sé undanþegið byggingarleyfisskyldu.

Í íbúðinni séu tvö votrými, annars vegar lítið baðherbergi og hins vegar stærra votrými með sturtuaðstöðu. Bæði rýmin séu ósnert. Húsið sé tæplega hundrað ára gamalt og víðsvegar um íbúðina hafi komið í ljós ýmsar lagnir, bæði tengdar og ótengdar, sem engar nánari upplýsingar séu liggi fyrir um. Kærandi hafi í slíkum tilvikum ekki hreyft við þeim lögnum. Bláar og rauðar lagnir, sem glitti í á nokkrum fyrirliggjandi ljósmyndum, hafi verið til staðar við afhend­ingu eignarinnar og séu annars vegar hluti af ofnakerfi íbúðarinnar, sem sé ósnert, og hins vegar lagnir fyrir eldhús sem verið sé að endurnýja á sama stað og þær hafi verið áður. Niðurrif þeirra léttu veggja sem byggingarfulltrúi telji vera baðherbergis­veggi geti í öllu falli ekki falið í sér breytingu á votrými. Engin slík votrými séu skilgreind á samþykktum teikningum og rými í miðri íbúðinni beri ekki með sér að vera ætluð sem votrými, ólíkt aðgreindu votrýmunum tveimur. Framkvæmdir kæranda á meintum baðherbergjum séu því í öllu falli til þess fallnar að færa íbúðina nær samþykktu ástandi. Því sé alfarið hafnað að rif á léttum veggjum innan íbúðarinnar hafi verið í sér byggingarleyfisskyldar breytingar á votrými.

Óháð niðurstöðu nefndarinnar um byggingarleyfisskyldu séu slíkir annmarkar á málsmeðferð embættis byggingarfulltrúa að ekki verði hjá því komist að ógilda hinar kærðu ákvarðanir og eftir atvikum leggja fyrir embættið að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar, fari svo að nefndin telji framkvæmdirnar byggingarleyfisskyldar.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Krafa um rannsókn máls sé ríkari en ella þegar teknar séu íþyngjandi ákvarðanir, svo sem um beitingu þvingunarráðstafana. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti áður en tekin hafi verið ákvörðun um byggingarleyfisskyldu og stöðvun framkvæmda að Urðarstíg 9. Endurspeglist þetta helst í því að embættinu hafi í rúman mánuð verið ókunnugt um raunverulegan eiganda umræddrar íbúðar og framkvæmdaraðila þrátt fyrir þinglýst gögn og ábendingar þess efnis og að embættinu hafi ekki verið fyllilega kunnugt um raunverulegt umfang og eðli framkvæmdanna eða ástand hússins fyrir framkvæmdirnar. Ljóst sé að embættið byggi um of á einhliða lýsingum eigenda efri hæðar hússins í stað þess að framkvæma fullnægjandi sjálfstæða rannsókn á aðstæðum. Í fyrsta svarpósti embættisins til eigenda efri hæðarinnar virðist embættið hafa gert upp hug sinn, innan klukkustundar og á grundvelli einhliða lýsingar, að um byggingarleyfisskyldar fram­kvæmdir sé að ræða. Embættið hafi í framhaldinu reynt að afla frekari upplýsinga án árangurs enda hafi fyrir­spurnum embættisins verið beint til rangs aðila. Að endingu hafi verið liðinn rúmur mánuður frá einhliða yfirlýsingum byggingarfulltrúa áður en hann hafi kannað aðstæður á staðnum. Að lokinni skoðun framkvæmda og samskiptum byggingarfulltrúa við kvartendur í kjölfar heimsóknar skilmálafulltrúa embættisins hafi það ekki talið framkvæmdirnar byggingar­leyfisskyldar. Af ókunnum ástæðum hafi sú afstaða breyst.

Í 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga komi fram þær meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar að aðili máls eigi rétt á að vera upplýstur um að til meðferðar sé mál þar sem fyrirhugað sé að taka stjórnvaldsákvörðun sem beint verði að honum og jafnframt að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en slík ákvörðun sé tekin. Það sé einnig ólögfest meginregla íslensks stjórnsýsluréttar, svonefnd réttmætisregla, að allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda þurfi að vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum en ekki geðþótta eða hentisemi.

Upphaf þessa máls verði rakið til kvörtunar eigenda efri hæðar hússins að Urðarstíg 9 til byggingarfulltrúa 9. desember 2019. Frá þeim tíma hafi verið ítrekuð samskipti milli kvartenda og byggingar­fulltrúa. Meðan á þeim samskiptum stóð hafi kæranda verið ókunnugt um að embætti byggingarfulltrúa hafi verið með mál hans til meðferðar. Kærandi hafi því með engu móti getað varist ítrekuðum rangfærslum um þær framkvæmdir sem fram hafi farið eða að öðru leyti komið sínum sjónarmiðum að. Kæranda hafi fyrst verið kunnugt um málið þegar skilmála­fulltrúi embættisins hafi mætt óvænt í heimsókn á framkvæmdastað 20. janúar 2020, rúmum mánuði eftir að meðferð málsins hafi hafist. Í kjölfar heimsóknar fulltrúans hafi kærandi talið að ekkert væri athugavert við framkvæmdirnar og var fulltrúanum tilkynnt að reyndar­teikningum af húsnæðinu yrði skilað þegar þær lægju fyrir. Svo sem greina megi í tölvupósti embættisins til kvartenda frá 23. janúar 2020 hafi kærandi ekki mátt eiga von á að tekin yrði íþyngjandi ákvörðun í málinu í kjölfar heimsóknarinnar enda hafi afstaða embættisins á þeim tíma virst vera sú að framkvæmdirnar væru undanþegnar byggingarleyfi. Fyrsta formlega tilkynning til kæranda um meðferð málsins hafi því ekki verið fyrr en framkvæmdirnar hafi verið óvænt stöðvaðar með bréfi, dags. 24. janúar 2020.

Byggingarfulltrúa hafi átt að vera ljóst, bæði á grundvelli þinglýstra heimilda og ítrekaðra ábendinga kvartenda, hver réttur eigandi fasteignarinnar hafi verið. Þá hafi þinglýst gögn þess efnis verið aðgengileg í rafrænni þinglýsingarbók sýslumanna auk þess sem Reykjavíkurborg hafi innheimt fasteignagjöld af kæranda og því vart geta dulist hver hafi verið réttur eigandi fasteignarinnar. Þau mistök að beina tvívegis áskorunarbréfum til fyrri eiganda fasteignarinnar hafi gert að engu möguleika kæranda til að koma að athugasemdum á fyrri stigum málsins. Þá telji kærandi líklegt að ómálefnaleg sjónarmið hafi að lokum orðið til þess að embættið hafi tekið hinar kærðu ákvarðanir enda liggi ekkert fyrir í málinu sem varpi ljósi á þá breytingu sem hafi orðið á afstöðu embættisins milli 23. og 24. janúar 2020.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvöldum að gæta meðalhófs við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana og sé sú krafa ríkari eftir því sem ákvörðunin sé meira íþyngjandi. Ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda byggist á heimild í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í greininni segi að byggingarfulltrúi geti stöðvar framkvæmdir ef byggingarleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni. Hafi byggingarfulltrúi gengið mun lengra en efni hafi verið til.

Ákvæði 55. gr. mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð, séu heimildarákvæði og beri byggingarfulltrúa að gæta meðalhófs við beitingu þess. Jafnframt beri byggingarfulltrúa að afmarka skýrt umfang stöðvunarinnar og hvort hún nái til framkvæmdar í heild eða að hluta. Kæranda og byggingar­fulltrúa greini á um hvort tilteknir hlutar framkvæmda séu byggingar­leyfisskyldir. Í stað þess að beina tilmælum til eiganda um úrbætur eða stöðva þann tiltekna hluta framkvæmda sem ágreiningurinn snúi að, hafi byggingarfulltrúi kosið að stöðva allar framkvæmdir, hverju nafni sem nefnist. Með beitingu mun meira íþyngjandi úrræðis en tilefni hafi verið til, hafi embættið komið í veg fyrir að kærandi geti takmarkað tjón sitt meðan leyst sé úr ágreiningnum með því að sinna öðrum hluta framkvæmda sem enginn ágreiningur sé um.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvöldum að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Kæranda, sem hafi atvinnu af endurbótum og útleigu á fast­eignum, sé ekki kunnugt um að sambærilegar endurbætur innahúss í gömlu húsnæði hafi áður verið taldar háðar byggingarleyfi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að fyrir liggi hvaða þættir það séu sem byggingarfulltrúi telji byggingarleyfisskylda. Í gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé svohljóðandi ákvæði: „Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda, sbr. þó 2.3.5 gr.“ Af myndum sem hafi verið teknar við skoðun byggingar­fulltrúa á staðnum 20. janúar 2020 sjáist að búið sé að bæta við burðarbitum undir gólf efri hæðar, endurnýja bita og stoðir, saga sundur og bæta við bitum í gólfi íbúðar og rífa burt baðherbergisveggi. Af þessu sé ljóst að búið sé að breyta burðarvirki hússins, þ.e. setja upp burðarbita þar sem þeir hafi ekki verið áður og því byggingarleyfisskyld framkvæmd. Ekki sé hægt að fallast á að umræddar breytingar á burðarvirki falli undir a. lið gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð sem minniháttar breytingar, hvorki á burðarvirki né votrými og þannig undanþegin byggingarleyfi. Umræddar breytingar, sem felist m.a. í útskipti á burðarvirki, geti ekki talist til viðhalds. Byggingarfulltrúa hafi heldur ekki verið tilkynnt um framkvæmdir sem gætu talist undanþegnar byggingarleyfi en tilkynningarskyldar skv. a. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Vegna tölvupósts byggingarfulltrúa frá 23. janúar 2020, þar sem fram komi að miðað við samþykktar teikningar sé einungis burður í útveggjum rýmisins, sé áréttað að sú afstöðumynd sem sé í fylgiskjölum sýni ekki íbúð kæranda og gefi því engar upplýsingar um burðarvirki hússins. Svar byggingarfulltrúa til eiganda efri hæðar hafi því ekki verið nákvæmt en hefð sé fyrir því í timburhúsum þessa tíma að burðarveggur sé eftir endilangri miðju húss, svokallaður hjartaveggur, sbr. snið á upphaflegri teikningu hússins. Þessi burðarveggur hafi verið fjarlægður úr rýminu og bitar settir í loftið í staðinn. Þá verði ekki ráðið af framkvæmdum á gólfi hvað þær eigi að fela í sér, en búið sé að fjarlægja gólfið svo sjáist niður á jörð.

Á myndum sem teknar hafi verið við skoðun byggingarfulltrúa 20. janúar 2020 sjáist ný vatns­rör, bæði fyrir heitt og kalt vatn á vegg, auk þess sem nýjar lagnir hafi verið lagðar í rýminu. Við fyrstu athugun virtist sem um baðherbergi hafi verið að ræða en hugsanlegt sé að þarna sé um lagnir fyrir eldhús að ræða. Það sé þó alls ekki ljóst af þeim lögnum sem þarna sjáist og engar teikningar sem sýni um hvaða rými sé að ræða eða hvaða tilgangi umræddar lagnir þjóni. Ljóst sé að verið sé að breyta lagnakerfi íbúðarinnar og umfang þessara framkvæmda sé það mikið að ekki sé hægt að fella framkvæmdirnar undir undanþáguákvæði gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð.

Málið hafi að öllu leyti verið nægilega rannsakað og upplýst áður en ákvörðun í málinu hafi verið tekin. Það sé vissulega óheppilegt að fyrri eiganda hafi upphaflega verið sent bréf til að óska skýringa, en það eigi sér eðlilegar skýringar. Ekki sé heldur byggt á einhliða lýsingum eiganda efri hæðar eins og haldið sé fram, heldur hafi farið fram vettvangsskoðun á rýminu þar sem byggingarfulltrúi hafi kannað umræddar framkvæmdir og tekið ljósmyndir á vettvangi. Það sé enn fremur mikill mis­skilningur hjá kæranda að embættið hafi gert upp hug sinn innan klukkustundar frá því að fyrsti póstur hafi borist frá eiganda efri hæðar. Í svari byggingarfulltrúa hafi komið fram að það þurfi byggingarleyfi fyrir breytingum á burði og í húsum sem byggð hafi verið fyrir 1926 og að erindið yrði framsent skilmálaeftirliti til frekari skoðunar og svara þar sem væntanlega hafi verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Í kjölfarið hafi í tvígang verið farið á staðinn til að kanna málið en enginn hafi hist fyrir í þau skipti og hafi það ekki verið fyrr en 20. janúar 2020 að fyrirsvar­smaður kæranda hittist fyrir og hægt hafi verið að staðreyna umfang og eðli framkvæmdanna. Hafi kæranda þá verið gert ljóst að embættið hafi talið framkvæmdirnar byggingarleyfisskyldar en að skoða þyrfti málið betur áður en næstu skref yrðu ákveðin. Farið hafi verið yfir málið á fundi skilmálaeftirlits byggingarfulltrúa 23. s.m. og ákveðið að senda stöðvunarbréf sem sent hafi verið næsta dag.

Stöðvun framkvæmda samkvæmt 1. og 3. mgr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð sé í eðli sínu bráðabirgðaúrræði sem heimilt sé að beita tafarlaust án þess að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að undangenginni málsmeðferð skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Vísist nánar um þetta atriði til leiðbeininga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stöðvun framkvæmda, lokun mannvirkja o.fl. frá 1. júní 2018. Það að fyrri eiganda hafi óvart verið send bréf í upphafi hafi í engu breytt um möguleika kæranda á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu, enda hafi hann komið að athugasemdum við ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda þegar hún hafi legið fyrir og tilkynnt kæranda. Öllum sjónarmiðum kæranda um að ómálefnaleg sjónarmið eða þrýstingur hafi ráðið för sé vísað á bug sem röngum og ósönnuðum. Á liðnum árum og áratugum hafi framkvæmdir verið stöðvaðar sem hafi verið hafnar án tilskilinna leyfa, þ. á m. vegna breytinga á burðarvirki, þó slík tilvik séu blessunarlega ekki algeng. Enn fremur sé á það minnt að eigendum húsa sem byggð séu fyrir árið 1925 sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands hyggist þeir breyta þeim, skv. 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningar­minjar. Ekki liggi slíkt álit fyrir í málinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Áréttað sé að í heimsókn skilmála­fulltrúa 20. janúar 2020 hafi kæranda ekki verið tilkynnt um að framkvæmdir yrðu mögulega stöðvaðar. Í lok heimsóknar virtist skilmálafulltrúinn vera því sammála að ekki hafi verið um byggingarleyfis­skyldar framkvæmdir að ræða og það sama megi lesa úr tölvupóstsamskiptum hans við eigendur efri hæðar þann sama dag. Þá sé ítrekað að eigninni hafi augljóslega verið breytt mikið frá upphaflegum teikningum og að enginn slíkur veggur sem rætt sé um í greinargerð borgarinnar hafi verið til staðar þegar framkvæmdir hafi hafist. Teikning af húsinu sem borgaryfirvöld vísi til hafi verið gerð þegar byggð hafi verið viðbygging í öðrum eignarhluta á efri hæð hússins. Veggur á umræddu sniði sé greinilega steyptur veggur í steyptum hluta hússins sem enginn ágreiningur sé um og skilji að forstofu sem tilheyri efri hæð og tengirými milli bílskúrs og íbúðar neðri hæðar. Umræddar lagnir, fyrir eldhús hafi þegar verið endurnýjaðar og legið í stokkum neðst á veggjum. Til að forða þeim frá hnjaski við framkvæmdir hafi þær tímabundið verið hengdar ofar en muni færðar á sinn stað aftur og notast áfram fyrir eldhúsið eftir endur­bætur. Kærandi telji augljóst að þar gildi a-liður gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem skýrt sé tekið fram að „viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar“ flokkist sem minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar komi fram sú afstaða að þar sem stöðvun framkvæmda sé bráðabirgða­úrræði sé heimilt að sniðganga málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi mótmæli þessari afstöðu harðlega. Beiting bráðabirgðaúrræða feli vissulega í sér viss frávik frá hefðbundinni málsmeðferð stjórnsýslumála og feli m.a. í aukna áherslu á að meðferð máls sé hraðar eftir föngum en þó verði að vega og meta slíka flýtingu á móti rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýsluréttarins. Þá feli taka ákvörðunar um stöðvun framkvæmda á grundvelli byggingarleyfisskyldu óhjákvæmilega í sér að tekin sé samhliða ákvörðun um byggingarleyfisskyldu framkvæmdanna. Svo sem málum sé hér háttað hafi verið liðnir 46 dagar frá því að byggingarfulltrúi hafi hafið meðferð málsins þar til tekin hafi verið ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Það standist enga skoðun að ekki hafi verið hægt að tilkynna honum um meðferð málsins og gefa kost á að koma á framfæri andmælum sínum fyrir töku ákvörðunarinnar. Á það megi einnig benda að greinilega hafi vilji verið til staðar til að veita tækifæri til slíkra andmæla í samræmi við góða stjórnsýsluhætti en með ítrekuðum mis­tökum við meðferð og rannsókn málsins hafi kærandi verið sviptur andmælarétti sínum. Ekki sé til staðar gildur grundvöllur fyrir beitingu úrræðisins enda sé ekki um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir að ræða. Rétt sé að benda á að óréttlættur dráttur á beitingu bráðabirgðar- og þvingunarúrræða geti orðið til þess að stjórn­völdum sé beinlínis óheimilt að beita þeim, sbr. Hrd. 1989, bls. 1242 og Hrd. 1996, bls. 1868.

Varðandi stöðvun allra framkvæmda, hverju nafni sem þær nefnist, sé ítrekað að þær fram­kvæmdir sem byggingarfulltrúi telji leyfisskyldar nái til minna en helmings af flatarmáli eignar­hluta kæranda. Við töku ákvörðunar um stöðvun framkvæmda hafi um 90% af verkhlutanum sem ágreiningur sé um verið lokið. Í heimsókn skilmálafulltrúa 20. janúar hafi sá hluti eignarinnar sem enginn ágreiningur sé um verið skoðaður og fyrirhuguðum framkvæmdum verið lýst. Það viðhald snúi að útskiptingu gólfefna, endurnýjun hreinlætistækja í votrýmum, endurnýjun innihurða, almennri málningarvinnu og öðru almennu viðhaldi. Sú ákvörðun að setja á allsherjar verkbann hafi því verið óþarflega íþyngjandi og til þess fallin að auka verulega fjárhagslegt tjón kæranda.

Athugasemdir kæranda, um að ekki hafi verið gætt jafnræðis við embættisafgreiðslur byggingarfulltrúa, snúi ekki að því að hann hafi ekki áður stöðvað framkvæmdir, heldur að kæranda sé ekki kunnugt um að viðhaldsframkvæmdir og breytingar á innra rými íbúðar­húsnæðis hafi áður verið taldar byggingarleyfisskyldar.

Hvað varði framkvæmdir á húsum byggðum fyrir árið 1925, upplýsist að kærandi hafi óskað símleiðis eftir leiðbeiningum Minjastofnunar um slíka umsagnarskyldu. Samkvæmt upplýsing­um frá stofnuninni sé umsagnarskylda einungis fyrir hendi þegar um sé að ræða byggingar­leyfisskyldar framkvæmdir og þá helst breytingar á ytri ásýnd húsa. Miðað við lýsingar kæranda á framkvæmdum innanhúss hafi starfsmaður Minjastofnunar ekki talið þörf á umsögn stofnunarinnar. Afstaða Minjastofnunar sé í samræmi við athugasemdir um 30. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um menningarminjar nr. 80/2012, þar sem ákvæðið sé nánar takmarkað við verulegar breytingar, flutning og niðurrif húsa.

Viðbótarathugasemdir Reykjavíkurborgar: Tekið er fram að starfsmaður byggingarfulltrúa hafi ekkert gefið upp um hvort hann hafi talið þetta byggingarleyfisskylt eða ekki. Þá hafi Reykjavíkurborg ekki verið að vísa til þeirrar teikningar sem kærandi vísi til. Ekki sé til grunnmynd af umræddri íbúð og ekki séu neinar umsóknir vegna umræddrar íbúðar til. Tekin hafi verið elsta teikning hússins sem dæmi um það að þessi veggur hafi verið í þessum eldri byggingum en ekki verið sjáanlegur í umræddu húsi. Hvað varði lagnirnar, sé það að segja að umræddar lagnir hafi aldrei verið samþykktar og engar teikningar séu til af þeim. Þær séu því án nokkurs vafa byggingarleyfisskyldar.

Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segi um stöðvun framkvæmda: „Stöðvun framkvæmda og notkunar og lokun mannvirkis samkvæmt 1. og 3. mgr. 2.9.1. gr. byggingar­reglugerðar (liðir 2 og 4 hér að framan) eru í eðli sínu bráðabirgðaúrræði sem unnt er að beita tafarlaust án þess að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum. Gæta ber meðalhófs við beitingu heimildanna, samanber einnig lið 1 hér að framan. Telji leyfisveitandi að skilyrði séu til beitingar heimildarinnar sendir hann hlutaðeigandi eiganda og eftir atvikum umráðamanni bréf þar sem stöðvun/lokun er tilkynnt.“ Kærandi hafi á öllum stigum málsins fengið andmælarétt og hæfilegan frest til svara. Fyrstu bréf hafi verið send á fyrri eigendur þar sem fasteignaskrá hafði ekki verið uppfærð. Ákvörðun um stöðvun hafi verið tekin strax eftir skoðun og myndatökur á staðnum og hún tilkynnt daginn eftir þá skoðun. Ekki hafi verið talið unnt að leyfa framkvæmdir að hluta í ljósi umfangs framkvæmda sem væru að miklu leyti byggingarleyfisskyldar og þar með háðar umsögn Minjastofnunar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 30. apríl 2020 að viðstöddum fyrirsvarsmanni kæranda og fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort framkvæmdir sem standa yfir innan íbúðar kæranda á neðri hæð Urðarstígs 9 séu byggingarleyfisskyldar og þar með hvort ákvörðun byggingar­fulltrúa frá 24. janúar 2020 um stöðvun framkvæmdanna hafi verið lögmæt.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningaskyldar. Í gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar  nr. 112/2012 er kveðið á um hvaða framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi. Þar er tekið fram að allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum, viðhald lagna­búnaðar innan íbúðar o.þ.h. sé undanþegið byggingarleyfi. Minniháttar breytingar á burðar­veggjum, eldvarnar­veggjum, votrými eða eldhúsi innan íbúðar eru heimilar án byggingarleyfis enda sé leyfis­veitanda tilkynnt um framkvæmdir áður en þær hefjast. Leiki vafi á um byggingarleyfisskyldu framkvæmda skal leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitamál samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki.

Kærandi hefur byggt málatilbúnað sinn á því að afstaðnar og fyrirhugaðar framkvæmdir í íbúð hans séu ekki háðar byggingarleyfi enda ekki verið hróflað við burðarvirki húss eða vatnslögnum breytt. Byggingaryfirvöld staðhæfa hins vegar að átt hafi verið við burðarvirki hússins og vatnslögunum breytt og séu þær framkvæmdir byggingarleyfisskyldar. Er því uppi ágreiningur um hvaða framkvæmdir hafi átt sér stað í nefndri íbúð.

Ekki liggja fyrir í málinu byggingarnefndarteikningar, hvorki aðaluppdrættir né séruppdrættir, ljósmyndir eða önnur gögn sem sýna hvernig skipulag íbúðar og lagnakerfis hennar hafi verið áður en framkvæmdir hófust. Hefur úrskurðarnefndin undir rekstri málsins óskað eftir upplýsingum og gögnum frá kæranda og byggingaryfirvöldum Reykjavíkurborgar í því skyni að varpa ljósi á hvað þegar hafi verið framkvæmt og um óloknar fyrirhugaðar framkvæmdir í umræddri íbúð kæranda og hefur nefndin skoðað aðstæður á vettvangi. Þrátt fyrir það liggja  ekki fyrir upplýsingar og gögn sem með viðhlítandi hætti verður stuðst við til að skera úr um leyfisskyldu umdeildra framkvæmda. Auk ágreinings um byggingarleyfisskyldu er deilt um hvaða framkvæmdir hafa átt sér stað. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni.

Í lögum um mannvirki er byggingarfulltrúa veitt úrræði til þess að halda uppi og verja þá hagsmuni sem búa að baki lögunum. Meðal annars getur hann stöðvað framkvæmdir sem hafnar eru án lögmælts byggingarleyfis, sbr. 55. gr. laganna. Slík ákvörðun er í eðli sínu úrræði til bráðabirgða þar til bætt hefur verið úr ætluðum annmörkum og eðli máls samkvæmt getur verið nauðsynlegt að beita úrræðinu með litlum sem engum fyrirvara og án ítarlegrar rann­sóknar. Í því máli sem hér um ræðir kom fulltrúi embættis byggingarfulltrúa á vettvang þar sem áttu sér stað allmiklar framkvæmdir í 99 ára gömlu fjöleignarhúsi og fyrir lágu kvartanir íbúa efri hæðar sem töldu að burðarvirki íbúðar þeirra hafi verið veikt. Lágu því efnisrök fyrir því að stöðva framkvæmdir tímabundið á meðan málið væri rannsakað.

Hin kærða ákvörðun fól í sér stöðvun allra framkvæmda án tillits til þess hvort einstakir þættir þeirra væru háðir byggingarleyfi og hefur stöðvunin staðið frá 24. janúar 2020. Í ljósi þess ágreinings sem uppi var um hvað framkvæmt hafði verið og þar með um byggingarleyfisskyldu einstakra þátta framkvæmdanna bar byggingarfulltrúa að fylgja eftir ákvörðun sinni með frekari rannsókn og staðfestingu á byggingarleyfisskyldu hinna einstöku þátta. Eins og fram hefur komið er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir viðhlítandi gögn sem leyst gætu úr fyrirspurn kæranda um byggingarleyfisskyldu. Af framangreindum ástæðum verður að telja að ekki séu lengur efnisrök fyrir því að stöðvun framkvæmda verði fram haldið í skjóli hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa þegar litið er til rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Úrskurðarorð:

Fyrirspurn um byggingarleyfisskyldu framkvæmda við Urðarstíg 9 er vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. janúar 2020 um stöðvun framkvæmda og að sótt verði um byggingarleyfi er felld úr gildi.

118/2019 Fitjar

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 23. október 2019 um að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Fitja í Skorradalshreppi þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 23. október 2019 að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að umsóknin verði samþykkt. Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verði breytt þannig að umsóknin verði samþykkt með þeim fyrirvara að hreppurinn skuli fyrst og án tafar deiliskipuleggja lóðirnar. Til þrautavara er þess krafist að umsóknin verði samþykkt með þeim fyrirvara að umsækjendur hefji undirbúning að deiliskipulagi með atbeina og á kostnað hreppsins.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 17. desember 2019 og 28. apríl 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 3. júlí 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við Fitjahlíð 28 og 32. Var málinu frestað þar sem að mati nefndarinnar lægi ekki fyrir fullnægjandi gögn, sbr. c-lið 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Fært var til bókar að kærendur þyrftu að leggja fram hnitsettan uppdrátt sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum um afgreiðslu nefndarinnar.

Í kjölfarið hafði annar kærenda samband við Þjóðskrá Íslands og óskaði eftir leiðbeiningum um hvaða gögnum þyrfti að skila til sveitarfélags til að uppfylla skilyrði fyrrnefnds lagaákvæðis. Fékk kærandi meðal annars þær leiðbeiningar að skila þyrfti inn umsóknareyðublaði F-550 um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá ásamt hnitsettum mæliblöðum með nýrri afmörkun landeigna. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa frá 21. ágúst 2018 til kæranda kom fram „[s]taðfestur uppdráttur af skipulagsyfirvöldum er deiliskipulag umræddra lóða Fitjahlíðar 28 og 32.“ Uppdráttur sem fylgt hafi með umsókn uppfylli ekki kröfu um gerð deiliskipulagstillögu.

Hinn 20. febrúar 2019 sendi annar kærenda erindi til skipulags- og byggingarnefndar og óskaði eftir því að umsókn kærenda yrði tekin til afgreiðslu en með erindinu fylgdi umsóknareyðublað ásamt hnitsettum uppdráttum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. mars s.á. var erindinu frestað að nýju þar sem hnitsettur uppdráttur sem staðfestur hefði verið af skipulags­yfirvöldum hafi ekki enn verið lagður fram. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar sama dag en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlinda­mála. Í úrskurði kveðnum upp 27. september 2019, í kærumáli nr. 21/2019, taldi nefndin að líta bæri svo á að kærður væri óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og var lagt fyrir hreppsnefnd Skorradalshrepps að taka umsókn kærenda til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar. Í kjölfarið var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju á fundi skipulags- og bygginganefndar 1. október 2019 og lagt til við hrepps­nefnd að hafna umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykkt deiliskipulag umræddra lóða. Staðfesti hreppsnefnd þá afgreiðslu á fundi sínum 23. s.m. Skipulagsfulltrúi tilkynnti kær­endum um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 25. s.m. Með bréfi, dags. 22. nóvember s.á., óskuðu kærendur eftir frekari rökstuðningi frá sveitarfélaginu fyrir synjuninni og fóru jafnframt fram á endurupptöku málsins með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni sem fyrr segir 23. nóvember 2019. Á fundi hreppsnefndar 11. mars 2020 var endurupptökubeiðni kærenda synjað og voru þeir upplýstir um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 28. apríl s.á.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að Skorradalshreppur hafi ekki orðið við beiðni um frekari rökstuðningi synjunarinnar. Þegar af þeirri ástæðu að lögbundinni skyldu til rökstuðnings hafi ekki verið sinnt beri að fallast á kröfu kærenda, sbr. 1. mgr. 21. gr. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telja verði að hin kærða ákvörðun komi niður á kærendum með íþyngjandi hætti, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 22. apríl 2013 í kærumáli nr. 131/2012. Ekki verði séð hvaða lögvörðu hagsmunir sveitarfélagsins réttlæti viðvarandi vanrækslu á skipulagsskyldu. Sveitarfélög beri að hafa frumkvæði að deiliskipulagsgerð, sbr. dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 439/2012. Með öðrum orðum sé ekki hægt að þvinga kærendur sem landeigendur til þess að nýta frjálsa heimild skv. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því virðist felast einhvers konar togstreita gagnvart kærendum og þar með valdníðsla. Í úrskurði úrskurðar­nefndarinnar í kærumáli nr. 21/2019 hafi m.a. verið áréttað að slíkar ákvarðanir mætti ýmist taka „með deiliskipulagsgerð, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, eða með samþykki sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga.“

Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kærunni verði vísað frá. Kæran uppfylli ekki þau skilyrði um efni kæru sem fram komi í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af rökstuðningi kærunnar megi ráða að aðalkrafa málsins snúist um það að sveitarfélagið taki málið upp að nýju og taki nýja ákvörðun í því. Þar sem hreppsnefnd hafi, þegar kæran var send nefndinni, ekki tekið endan­lega ákvörðun um það hvort að málið yrði tekið upp að nýju sé litið svo á að endanleg ákvörðun liggi ekki fyrir. Þá sé tilgreining kæruefnisins röng en í kærunni komi fram að kærð sé sú ákvörðun sveitarfélagsins að „hafna umsókn landeigenda á Fitjum í Skorradal um að skipta upp lóð þeirra nr. 30 í Fitjahlíð, milli nærliggjandi lóða, þ.e. 28 og 32.“ Í umsókn kærenda um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá komi fram að skipta eigi lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt, þ.e. í Fitjahlíð 30 og Fitjahlíð 30a sem skuli fá nýtt landnúmer. Umsókn kærenda hafi því ekki hljóðað upp á að skipta lóð á milli aðliggjandi lóða líkt og komi fram í kærunni og því beri að vísa henni frá. Vegna þeirra krafna í kæru sem snúi að því að úrskurðarnefndin samþykki umsókn kærenda eða að nefndin samþykki umsókn kærenda með fyrirvörum, sé bent á að það sé ekki innan valdsviðs nefndarinnar að taka ákvarðanir um skipulagsmál fyrir hönd sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið telji málsmeðferð umsóknarinnar hafa verið í samræmi við fyrirmæli skipulags­laga. Ástæðulaust hafi verið fyrir kærendur að leggja fram umsókn á eyðublaðinu F-550, umsókn um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá, til sveitarfélagsins. Umrætt eyðublað sé umsókn til Þjóðskrár Íslands um skráningu nýrrar landeignar í fasteignaskrá en sveitarfélagið líti svo á að í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar sé ekki verið að stofna nýja landeign sem slíka, þrátt fyrir að kærendur virðist sjálfir telja svo vera þar sem þeir vísi til „nýrrar lóðar“, nánar tiltekið Fitjahlíðar 30a, í umsókninni. Hér sé í raun verið að óska eftir því að lóðinni Fitjahlíð 30 verði skipt í tvennt og um leið að lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32 verði endur­skilgreindar, en slíkt geti ekki átt sér stað með öðrum hætti en með framlagningu þar til gerðra skjala og uppdrátta til sveitarfélagsins, sbr. 37. gr. skipulagslaga.

Túlka verði c-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna þannig að þegar lögð sé fram umsókn um stofnun fasteignar í fasteignaskrá þurfi umsækjandi að leggja fram með umsókninni hnitsettan uppdrátt sem skipulagsyfirvöld viðkomandi sveitarfélags hafi staðfest. Að mati sveitarfélagsins séu einu hnitsettu uppdrættirnir sem fengið geti slíka staðfestingu skipulagsuppdrættir, í þessu tilviki deiliskipulagsuppdráttur. Óumdeilt sé að mati hreppsins að þeir uppdrættir sem kærendur hafi lagt fram til afgreiðslu málsins hjá hreppnum uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til slíkra uppdrátta, sbr. gr. 5.5.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þannig sé ómögulegt að sækja um skráningu nýrra landeignar til fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands ef lögboðnar aðgerðir af hendi landeiganda hafi ekki áður verið uppfylltar gagnvart skipulagsyfirvöldum sveitarfélagsins. Þjóðskrá haldi aðeins utan um skráningu slíkra eigna. Eðlilegast væri að kærendur myndu láta vinna tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið svo að taka megi heildstæðar ákvarðanir um afmörkun lóða og lóðarstæðir í þessari þegar byggðu frístundabyggð og þá með aðkomu allra hagsmunaaðila.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja frávísunarkröfu Skorradalshrepps vera fráleita. Sveitarfélagið hafi engin rök fyrir hinni kærðu synjun og að baki henni séu því ómálefnalegar ástæður, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra megi óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls. Það sé rangt að aðalkrafa snúist um endurupptöku. Skýrt sé í kærunni að aðalkrafa kærenda sé sú að úrskurðarnefndin samþykki umsóknina. Vara- og þrautavarakrafa kærenda séu sömuleiðis efnislegar. Því sé haldlaus sá útúrsnúningur sveitar­félagsins að þar sem óljóst sé hvort hreppurinn muni endurupptaka málið liggi endanleg ákvörðun ekki fyrir. Hér sé ekki kærð synjun á erindi um endurupptöku eða dráttur á því, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, heldur synjun á umsókn kærenda sem bókað hafi verið um að væri fullnaðarafgreiðsla. Að sama skapi sé fjarstæðukennd sú afstaða sveitarfélagsins að vísa beri kærunni frá vegna þess að kæra tilgreini samsetta aðgerð, þ.e. uppskiptingu lóðar annars vegar og sameiningu hvors lóðarhelmings við sitt hvora lóðina hins vegar. Kærendur hafi sótt um „samsetta aðgerð“ í samræmi við munnlegar og skriflegar leiðbeiningar Þjóðskrár Íslands. Að mati stofnunarinnar fer skráning eða breyting á skráningu fasteignar fram í tvennu lagi. Fyrst sé lóð skipt upp og að því búnu sé hið uppskipta skeytt við aðrar lóðir.

Kærendur telij að hin samsetta aðgerð sé ekki skipulagsmál heldur falli hún undir lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna en Þjóðskrá hafi forræði á skýringu orðalags c-liðar 1. mgr. 14. gr. þeirra laga um hnitsettan uppdrátt „sem staðfestur hefur verið af skipulags­yfirvöldum“. Þjóðskrá hafi skýrt þetta ákvæði svo að stimpill sveitarfélags sé nægilegur til þess að uppfylla þetta skilyrði. Hreppurinn geti því ekki hafnað málinu vegna eigin synjunar á að stimpla hnitsettan uppdrátt sem fylgt hafi umsókninni. Krafa hreppsins um deiliskipulag sé íþyngjandi og óþörf. Sé um árekstur lagabálka að ræða hljóti sérlög nr. 6/2001 að ráða og úrlausn Þjóðskrár sé bindandi fyrir sveitarfélagið. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 beri sveitarstjórn að gera og kosta deiliskipulag nema ef landeigandi óski eftir að gera það. Ef afstaða hreppsins stæðist, þ.e. um fortakslaust skilyrði um deiliskipulag áður en orðið yrði við umsókn kærenda, væri að engu gerð sú lagaskylda hreppsins að vinna og kosta deiliskipulag. Frá árinu 1997 hafi landið allt verið skipulagsskylt. Ef deiliskipulag liggi ekki fyrir geti það valdið vandkvæðum og þess vegna sé sveitarstjórn t.d. ekki stætt á að hafna umsóknum um byggingarleyfi og framkvæmdaleyfi, en það sama eigi við um umsókn um uppskiptingu lóðar og sameiningu við tvær aðrar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að umsókn þeirra verði samþykkt.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps að synja umsókn um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Var ákvörðunin rökstudd með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykkt deili­skipulag umræddra lóða.

Líkt og rakið var í málavöxtum kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð 27. september 2019 í kærumáli nr. 21/2019 þar sem sama umsókn kærenda var til skoðunar. Taldi úrskurðarnefndin að þrátt fyrir að hún hafi verið lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna yrði að líta svo á að efnislega hafi hún falið í sér beiðni um skiptingu lóða og breytingu á lóðamörkum. Vísaði nefndin til þess að ákvarðanir um lóðir og lóðamörk væru teknar á grundvelli skipulagslaga nr. 123/2010 og að slíkar ákvarðanir gætu annað hvort verið teknar með deili­skipulagsgerð, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, eða með samþykki sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga. Var hreppsnefndinni því ekki stætt á að synja umsókn kærenda einvörðungu með vísan til þess að ekki lægi fyrir samþykkt deili­skipulag umræddra lóða enda er ljóst að 1. mgr. 48. gr. skipulagslaga mælir fyrir um heimild sveitarstjórnar til að skipta lóðum og ákveða lóðamörk án deiliskipulagsgerðar. Liggur ekki fyrir hvers vegna hreppsnefndin taldi sér ekki fært að afgreiða umsóknina á grundvelli þeirrar lagaheimildar.

Að framangreindu virtu verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu synjunar sé svo áfátt að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 23. október 2019 um að synja umsókn kærenda um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.

111/2019 Svarfhólsskógur

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2019, kæra vegna gjaldtöku fyrir hreinsun rotþróa í Svarfhólsskógi í Hvalfjarðarsveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. október 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi sumarbústaðar að Hátröð 9, Hvalfjarðarsveit, gjaldtöku fyrir hreinsun rotþróa í Svarfhólsskógi. Er þess krafist að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu fyrir hreinsun rotþróa hjá sumarbústaða­eigendum í Svarfhólsskógi eða endurgreiði þeim „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Til vara er þess krafist að næsta árlega greiðsla kæranda vegna hreinsun rotþróar verði felld niður eða að sveitarfélagið endurgreiði honum „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 10. febrúar 2020.

Málavextir: Hinn 15. mars 2017 sendi kærandi, fyrir hönd Svarfhólsskógar, félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, sveitarstjóra Hvalfjarðarsveitar tölvupóst þar sem bent var á að rotþrær í Svarfhólsskógi, sem síðast hefðu verið hreinsaðar árið 2013, hefðu ekki verið hreinsaðar árið 2016. Því myndu líða fjögur ár á milli hreinsana þrátt fyrir að í 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit væri kveðið á um að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ára fresti. Í bréfinu kom einnig fram að margir sumar­bústaðaeigendur hefðu látið í ljós óánægju sína með hækkun á hreinsunargjaldi fyrir rotþró, en með gjaldskrá nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit hækkaði hreinsunar­gjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús úr kr. 8.440 í kr. 11.650. Kom kærandi þeim tilmælum á framfæri við sveitarstjórn að hún freistaði þess að ná hagstæðari samningi um hreinsun rotþróa. Svaraði sveitarstjóri samdægurs og þakkaði ábendingarnar, benti á að farið yrði yfir málin heildstætt og að þjónustugjöld skuli standa undir kostnaði við veitta þjónustu. Í kjölfarið áttu frekari samskipti sér stað milli kæranda og sveitarfélagsins.

Hinn 11. apríl 2018 barst félagi eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi bréf frá skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins þar sem útskýrt var skipulag sveitarfélagsins á hreinsun rotþróa og að árið 2013 hefðu verið gerðar breytingar á fyrirkomulaginu. Bent var á að sveitarfélagið hefði gert samning um hreinsun rotþróa árið 2014 sem gilti til ársins 2019 og væri hann ekki uppsegjanlegur á samningstímanum. Einnig kom fram að undanfarin ár hefði hreinsun rotþróa verið rekin með halla og nauðsynlegt hefði reynst að hækka gjöldin árið 2016 til að mæta raunkostnaði við hreinsun rotþróa.

Hinn 21. apríl 2018 var á aðalfundi félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhóls­skógi skorað á sveitarstjóra að svara erindi formanns félagsins er varðaði forsendur gjaldtöku fyrir sorp- og rotþróarhreinsun og hvernig sveitarfélagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumar­bústaðaeigenda fyrir rotþróahreinsun. Á fundi sveitarstjórnar 8. maí s.á. var samþykkt að hafna kröfu um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Hinn 21. mars s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra frá félaginu vegna gjaldtöku „fyrir sorp- og rotþróahreinsun í frístundabyggðinni Svarfhólsskógur […] í Hvalfjarðarsveit.“ Með úrskurði 22. október 2019, í kærumáli nr. 90/2018, var kæru félagsins vísað frá sökum aðildarskorts. Kæra í máli þessu barst 28. s.m., eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að í álagningarskrám Hvalfjarðarsveitar á fyrri árum hafi þess verið getið að gjald fyrir hreinsun rotþróar væru uppreiknuð milli ára miðað við vísitölur. Því hafi verið hætt fyrirvaralaust árið 2017 og án nokkurrar útskýringar. Það ár hafi gjald fyrir hreinsun rotþróar verið hækkað um 35%, haldist óbreytt 2018 en hækkað um 6,3% árið 2019. Meintur kostnaður sveitarfélagsins vegna hreinsun rotþróa hafi verið innheimtur með fasteignagjöldum en skipt niður á þrjú ár fyrir hverja hreinsun. Samkvæmt greiðslu­fyrirkomulagi og reglum sveitarfélagsins, sbr. 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit, þar sem kveðið sé á að rotþrær skuli eigi hreinsa sjaldnar en á þriggja ári fresti, hefði átt að hreinsa rotþrær í Svarfhólsskógi árið 2016, en það hafi ekki verið gert. Hvorki hafi verið haft samráð við sumarbústaðaeigendur né þeim verið tilkynnt um breytingu á tíðni hreinsunar, svo sem sveitarfélaginu hafi borið að gera samkvæmt sömu grein samþykktarinnar þar sem segi að sveitarstjórn ákveði að fengnum tillögum framkvæmdaaðila tíðni hreinsunar og skuli ákvörðun tilkynnt íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins.

Kærandi hafi á árinu 2017 haft samband við fyrirtæki er sjái um hreinsun rotþróa og spurst fyrir um kostnað við hreinsun á rotþróm í eignarlóðum í Svarfhólsskógi ásamt öllum rotþróm á samliggjandi svæði leigulóða í skóginum. Niðurstaðan hafi verið rúmlega einni milljón króna lægri upphæð en það sem sveitarfélagið innheimti á sama svæði. Kærandi hafi kynnt þá niðurstöðu fyrir sveitarstjóra félagsins með bréfi, dags. 15. mars 2017, og hvatt hann til að reyna að ná betri samningi, en það hafi hann ekki gert. Þá hafi kærandi ítrekað óskað eftir rökstuddri og sundurliðaðri gjaldtöku vegna rotþróarhreinsunar. Skipulagsfulltrúi sveitar­félagsins hafi svarað þeirri beiðni 11. apríl 2018 með mjög ófullkominni sundurliðun og hafi því verið óskað eftir nákvæmari sundurliðun, en þeirri beiðni hafi verið vísað til sveitarstjóra. Á aðalfundi félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi 21. apríl 2018 hafi verið skorað á sveitarstjóra að svara erindi kæranda. Áskorunin hafi verið afgreidd með bókun á sveitarstjórnarfundi 8. maí s.á., en þar hafi ranglega verið sagt að gerð hafi verið krafa um endurgreiðslu álagðs hreinsunargjalds rotþróa. Aðeins hafi verið spurt um hvernig sveitar­félagið hygðist leiðrétta ofgreiðslu sumarbústaðaeigenda á gjaldinu. Þá sé þeirri staðhæfingu í bókuninni mótmælt að aðilar í Svarfhólsskógi hafi ekki ofgreitt umrætt gjald.

Nýtt tæmingarskipulag hafi verið tekið upp árið 2013, en sumarbústaðaeigendum í Svarfhóls­skógi hafi ekki verið tilkynnt um það. Vegna misskilnings milli forsvarsmanna sveitar­félagsins og verktakans hafi rotþrær ekki verið hreinsaðar fyrr en árið 2017 eða fjórum árum síðar. Eigi að síður hafi sumarbústaðaeigendum verið gert að greiða eina ársgreiðslu í viðbót og hafi þeir því greitt 37,5% meira en allir aðrir í sveitarfélaginu, eða 31.625 kr. fyrir eina hreinsun með fjórum árgjöldum á meðan allir aðrir hafi greitt 22.995 kr. Í greinargerð sveitarfélagsins í kærumáli nr. 90/2018 komi fram að ný þriggja ára lota í Svarfhólsskógi hafi byrjar að líða árið 2014. Sú túlkun sé fráleit þar sem ný þriggja ára lota hafði byrjað um leið og rotþrær hafi verið tæmdar árið 2013.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í kæru komi ekki fram hvaða stjórnvaldsákvörðun sveitarfélagsins sé verið að kæra, sbr. áskilnað þar um í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki sé vísað til neinnar einnar ákvörðunar sveitarfélagsins sem kveði einhliða á um rétt eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli. Ekki liggi fyrir nein kæranleg stjórnvaldsákvörðun í málinu. Athuga­semdir kæranda snúi ýmist að ákvörðunum sveitarfélagsins sem varði fleiri en einn aðila sem teljist vera stjórnvaldsfyrirmæli og heyri því ekki undir úrskurðarvald úrskurðarnefndarinnar eða að tiltekinni ákvörðun stjórnvalds einkaréttarlegs eðlis, þ.e. samningi við verktaka um hreinsun rotþróa eða að framsetningu upplýsinga. Ákvörðun um breytingu á fyrirkomulagi á hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu, sem gengið hafi í gildi árið 2014, sé ekki stjórnvalds­ákvörðun. Fyrirkomulaginu hafi verið breytt með hliðsjón af rekstrarlegum forsendum en augljóst sé að slík ákvörðun varði ekki bara kæranda í afmörkuðu máli heldur alla eigendur fasteigna í sveitarfélaginu sem séu með rotþró.

Aðalkrafa kæranda sé sett fram af hálfu kæranda fyrir hönd allra sumarbústaðaeigenda í Svarfhólsskógi. Vísa verði þeirri kröfu frá þar sem kærandi sé eini eigandi sumarbústaðar í Svarfhólsskógi sem sé aðili að kærumálinu. Hvað varði varakröfu kæranda, þess efnis að næsta ársgreiðsla hans verði felld niður eða að sveitarfélaginu verði gert að endurgreiða kæranda „fjórðu ársgreiðsluna“ með vöxtum, sé hvorugur liður kröfunnar þess eðlis að nefndin geti úrskurðað um þá. Nefndin geti ekki kveðið á um niðurfellingu álagningar rotþróargjalds sem ekki hafi enn verið lagt á. Þaðan af síður geti nefndin úrskurðað að sveitarfélaginu sé skylt að endurgreiða kæranda „fjórðu ársgreiðsluna“ þar sem hún geti ekki úrskurðað um kröfur sem séu af fjárhagslegu eðli. Því beri að vísa kærunni frá í heild sinni þar sem hún uppfylli hvorki þá kröfu sem lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geri til kröfugerðar né almennar reglur stjórnsýsluréttar um að stjórnsýslukæra skuli varða tiltekna stjórnvaldsákvörðun.

Sveitarfélaginu sé skylt skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að ákveða fyrirkomulag tæmingar á rotþróm í sveitarfélaginu og beri ábyrgð á flutningi þeirrar seyru sem úr rotþróm komi. Til að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af því að uppfylla þá skyldu innheimti sveitarfélagið rotþróargjald á grundvelli gjaldskrár nr. 1145/2016 fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit. Gjaldskráin sé sett á grundvelli samþykktar nr. 583/2008 um fráveitu í Hvalfjarðarsveit, en samþykktin hafi sjálf verið sett á grundvelli ákvæða 3. málsl. 5. mgr. 4. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, nú 1. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna, og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. laganna. Í 23. gr. samþykktarinnar komi fram að sveitarstjórn skuli setja gjaldskrá til að standa undir kostnaði við söfnun og förgun seyru. Gjaldið skuli standa undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli en skuli aldrei vera hærra en sem nemi rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða fram­kvæmd eftirlits með einstökum þáttum.

Söfnun og meðhöndlun á heimilis- og rekstrarúrgangi og sé grunnþjónusta sveitarfélags sem þurfi að vera í föstum skorðum. Hún megi ekki falla niður þótt einhverjir fasteignaeigendur nýti sér hana eða ekki eða þótt þörf til að nýta sér hana sé mismikil. Almennt geti því sá sem greiði þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hljótist af því að veita honum viðkomandi þjónustu sé reiknaður sérstaklega út. Sveitarfélagi sé þannig ekki skylt að reikna út kostnað við hreinsun hverrar rotþróar í sveitarfélaginu, heldur sé því heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á fjölda þeirra, eins og skýrt sé tekið fram í 2. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, en þar segi: „Sveitarfélagi er einnig heimilt að ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig.“ Með vísan til þess sé heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja rotþró í sveitarfélaginu. Vísað sé til eldri úrskurða úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í kærumálum nr. 17/2013, 31/2013 og 43/2013.

Álögð gjöld fyrir hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit séu ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og teljist gjaldið því lögmætt þjónustugjald. Í gjaldskránni komi fram að hreinsunar­gjald á rotþró við hvert íbúðarhús og sumarhús skuli vera 11.650 kr., en gjaldið hækki þó árlega í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs, sbr. 4. mgr. 2. gr. gjaldskrárinnar og hafi því verið 12.381. kr. vegna ársins 2019. Innheimt hreinsunargjald samkvæmt gjaldskránni hafi hins vegar ekki staðið undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið falli vegna hreinsunar rotþróa. Í þeim skjölum sem skipulags- og umhverfisfulltrúi hafi sent kæranda megi sjá að kostnaður vegna hreinsun rotþróa á árunum 2012-2017 hafi verið 9.500.000 kr. lægri en tekjur af hreinsunargjaldi á sama tímabili, en 5.600.000 kr. tap hafi verið af sömu starfsemi árin 2015-2017 án þess að innri afnot hafi verið tekin með við framsetningu þeirra fjárhæða. Þá hafi tekjur sveitarfélagsins vegna rotþróargjalds á árinu 2018 verið 8.010.726 kr. en kostnaður, án bókfærðra innri afnota, verið kr. 7.282.371 kr. Á árinu hafi innri afnot numið 1.362.233 kr. og hafi því heildartap af starfseminni verið 633.878 kr. Ef ekki sé tekið tillit til innri afnota hafi heildartekjur af rotþróargjaldi vegna áranna 2016-2018 verið 21.929.189 kr. en heildar­kostnaður 22.616.121 kr. Við álagningu rotþróargjalds hafi verið farið eftir fyrirmælum 3. mgr. 23. gr. laga um meðhöndlun úrgangs, sem og 23. gr. áðurnefndar samþykktar þess efnis að rotþróargjaldið skuli ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem falli til í sveitar­félaginu við meðhöndlun úrgangs og tengdri starfsemi.

Tæmingarfyrirkomulag sveitarfélagsins hafi verið breytt árið 2014. Rotþrær hafi verið tæmdar í sumarbústaðahverfinu í Svarfhólsskógi árið 2013 og af augljósum ástæðum hafi sveitar­félagið ekki talið þörf á hreinsun rotþróa á svæðinu með aðeins árs millibili. Hafi því verið miðað við að þriggja ára lota hæfist í Svarfhólsskógi árið 2014. Sveitarfélagið hafi þó verið meðvitað um það að þar sem fjögur ár myndu líða á milli tæminga kynni að koma upp sú staða að hreinsunarbíll þyrfti að fara sérstakar ferðir til að tæma þær rotþrær sem kynnu að fyllast. Hafi því verið komið til móts við allar slíkir beiðnir sem borist hafi árið 2016 án þess að sérstakt gjald væri tekið fyrir það, en minnihluti sumarhúsaeigenda á svæðinu hafi kallað eftir slíkri þjónustu. Sveitarfélagið þurfi að hafa svigrúm til að geta gert breytingar á atriðum sem tengjast rekstri sveitarfélagsins á meðan slíkar breytingar komi ekki niður á íbúum þess eða þeirri þjónustu sem lögboðið er að þeir skuli njóta. Þá sé bent á að í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 799/1999 um meðhöndlun seyru, þar sem kveðið sé á um að sveitarstjórnir skuli sjá til þess að komið sé á kerfisbundinni tæmingu á seyru úr rotþróm, hljóti jafnframt að felast heimild sveitarstjórnar til að gera þær breytingar á kerfisbundinni tæmingu sem hún telji nauðsynlegar. Hafi breyting á tæmingarfyrirkomulagi sveitarfélagsins árið 2014 verið innan þeirrar heimildar. Hið nýja fyrirkomulag frá árinu 2014 hafi tekið við af gamla fyrirkomulaginu sem hafi gert ráð fyrir að ný þriggja ára lota hæfist árið 2013. Eldra fyrirkomulagið hafi þar með fallið niður samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að hann dragi ekki í efa að valdið sé hjá sveitarfélaginu að ákveða tíðni hreinsana, en sveitarfélaginu beri skylda til að tilkynna slíkar breytingar til íbúanna líkt og kveðið sé á um 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðarsveit. Krafa kæranda snúist um að vera ekki látinn greiða fyrir þjónustu sem ekki sé veitt. Með „fjórðu árgreiðslunni“ sé kærandi að vísa til rotþróargjaldsins ársins 2017 sem sveitarstjórn hafi lagt á sumarbústaði í Svarfhólsskógi með óréttmætum hætti. Breyting á fyrirkomulagi tæminga rotþróa í Svarfhólsskógi hafi haft þau áhrif á fasteignareigendur þar að þeir hafi verið krafðist um 37,5% hærra gjald en allir aðrir í Hvalfjarðarsveit. Sveitarfélaginu hafi borið að fella niður gjald fyrir tæmingu rotþróar árið 2017 til að laga það að breyttu skipulagi þegar það hafi einhliða og án nokkurrar tilkynningar þar um ákveðið að fresta þá fullgreiddri þjónustu um eitt ár. Sveitarfélagið vísi sjálft til þess að með nýju fyrirkomulagi á tæmingu rotþróa árið 2014 hafi eldra fyrirkomulag verið fellt úr gildi en hafi þrátt fyrir það hefði verið haldið áfram að innheimta gjaldið.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð gjaldtaka af hálfu Hvalfjarðarsveitar vegna hreinsunar rotþróa í Svarfhólsskógi. Gerir kærandi aðallega þá kröfu að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu fyrir rotþróahreinsun hjá sumarbústaðaeigendum í Svarfhólsskógi eða endurgreiði þeim „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Aðrir sumarbústaðaeigendur en kærandi eru ekki aðilar að kærumáli þessu og er hann ekki til þess bær að gera kröfu í málinu fyrir þeirra hönd.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að sveitarfélagið felli niður næstu árlegu greiðslu hans fyrir rotþróarhreinsun eða endurgreiði honum „fjórðu árgreiðsluna“ með vöxtum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Hlutverk hennar er því að taka afstöðu til lögmætis kæranlegra ákvarðana tiltekinna stjórnvalda og fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að leggja fyrir sveitarfélagið að endurgreiða kæranda „fjórðu árgreiðsluna“.

Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður að líta svo á að kærð sé álagning rotþróargjalds á fasteign kæranda að Hátröð 9 vegna ársins 2019 og að krafist sé ógildingar álagningarinnar. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda kæranda fyrir árið 2019 er dagsettur 8. febrúar það ár. Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 28. október 2019. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Á álagningarseðlinum er ekki að finna slíkar leiðbeiningar en vísað er á tiltekna slóð á vefsíðu sveitarfélagsins til nánari upplýsinga án þess að tekið sé fram að þær upplýsingar taki jafnframt til kæruleiðbeininga. Sé slóðin sett inn í vafra opnast skjal með upplýsingum um álagningu gjalda árið 2019, m.a. kæruleiðbeiningum, en það fyrirkomulag þykir ekki fullnægja framangreindum áskilnaði stjórnsýslulaga. Með hliðsjón af því, sem og vegna þess að á árinu 2019 var kærumál nr. 90/2018 til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þar sem kærandi, fyrir hönd Svarfhólsskógar, félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi, kærði gjaldtöku sveitar­félagsins vegna hreinsun rotþróa á sömu forsendum og í þessu máli, verður talið afsakanlegt að kæran hafi borist að loknum kærufresti. Kom enda kærandi kæru að í máli þessu skömmu eftir uppkvaðningu úrskurðar í máli nr. 90/2018 þar sem því var vísað frá. Verður mál þetta er varðar álagningu rotþróargjalds á fasteign kæranda því tekið til efnismeðferðar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, skal sveitarfélag ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrar­úrgangi í sveitarfélaginu og ber ábyrgð á flutningi heimilsúrgangs, en seyra úr rotþróm sumarbústaða telst vera heimilisúrgangur í skilningi laganna. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Á grundvelli nefndra lagaákvæða setti Hvalfjarðarsveit samþykkt nr. 583/2008 um fráveitur í Hvalfjarðar­sveit og var hún í gildi þegar hið umdeilda gjald var lagt á fasteign kæranda.

Sveitarfélög skulu skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málslið ákvæðisins. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna og þágildandi 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998, nú 5. mgr. 59. gr. Er gjaldskrá sú sem hin kærða álagning byggir á nr. 1145/2016 um hreinsun rotþróa í Hvalfjarðarsveit.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við hreinsun hverrar rotþróar heldur er því heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 mælir fyrir um. Í gögnum málsins er m.a. að finna sundurliðaðar tekjur og útgjöld sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa fyrir árin 2012-2018 og af þeim sést að útgjöld sveitarfélagsins á umræddu tímabili voru talsvert hærri en tekjur. Hin umdeilda álagning, sem fram fór á grundvelli gjaldskrár nr. 1145/2016, er því í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að innheimt gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður sem fellur til við að veita þjónustuna.

Samkvæmt 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 ákveður sveitarstjórn að fengnum tillögum framkvæmdaaðila tíðni hreinsunar og skal hún tilkynnt íbúum og fyrirtækjum sveitarfélagsins, svo og ef um breytingar er að ræða, með hæfilegum fyrirvara. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að rotþró skuli hreinsa eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Fyrir liggur að árið 2013 voru rotþrær sumarbústaða í Svarfhólsskógi hreinsaðar. Svo sem segir í málavaxtalýsingu kemur fram í bréfi skipulags- og umhverfisfulltrúa til félags eigenda eignarlóða undir frístundahús í Svarfhólsskógi að breytt fyrirkomulag við hreinsun rotþróa í sveitarfélaginu hafi verið tekið upp árið 2013. Hafi verið gert ráð fyrir að rotþrær í Svarfhólsskógi yrðu hreinsaðar árið 2014, en það hafi þó ekki verið gert „hugsanlega vegna þess að hreinsað var árið 2013.“ Á árinu 2016 hafi verið komið til móts við fólk sem hafi haft samband við skrifstofu sveitarfélagsins vegna fullrar rotþróar og yrði hreinsunarbíll sendur. Mun hreinsun rotþróa hjá öðrum en þeim sem samband höfðu við sveitarfélagið því ekki hafa átt sér stað næst fyrr en árið 2017.

Af fyrrgreindri 15. gr. samþykktar nr. 583/2008 verður ráðið að sveitarfélaginu hafi borið að tilkynna, m.a. kæranda, um breytt fyrirkomulag á hreinsun rotþróa, en fyrir liggur að það var ekki gert. Breytingin leiddi til þess að fjögur ár liði á milli þess að rotþró kæranda var hreinsuð og er það ekki í samræmi við nefnda 2. mgr. 15. gr. samþykktarinnar. Til þess er þó að líta að sveitarfélagið mun á árinu 2016 hafa sent hreinsunarbíl til þeirra sem óskuðu eftir hreinsun á rotþró. Þá verður að játa sveitarfélagi ákveðið svigrúm til að uppfylla lögbundnar skyldur sínar við að veita þá grunnþjónustu sem því er á herðar lagt, s.s. með breytingum á fyrirkomulagi söfnunar og meðhöndlunar úrgangs, svo fremi að skilyrði til töku þjónustugjalds sé uppfyllt, en eins og fyrr greinir voru álögð gjöld sveitarfélagsins vegna hreinsunar rotþróa talsvert lægri en kostnaður af veittri þjónustu. Að framangreindu virtu verður fyrrgreindur annmarki á breytingu fyrirkomulags við hreinsun rotþróa ekki talinn geta valdið ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu álagningar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu álagningar rotþróargjalds Hvalfjarðarsveitar fyrir árið 2019 vegna fasteignarinnar að Hátröð 9.

35/2020 Langholtsvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð hússins á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Langholtsvegi 138, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð hússins á lóðinni. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 17. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja stein­steyptan bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð húss þess sem stendur á lóðinni. Umsókninni fylgdi m.a. samþykki sameigenda fyrir framkvæmdunum.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júní 2019 og ákveðið að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. júlí s.á., kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Hinn 10. september 2019 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin og var byggingarleyfi gefið út 29. apríl 2020. Í útgefnu byggingarleyfi er tekið fram að frágangur á lóðarmörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Kærendur benda á að bygging svala að Langholtsvegi 136 hafi nú þegar farið fram. Þá sé gert ráð fyrir í deiliskipulagi svæðisins að framkvæmdir nái ekki út fyrir byggingarreit. Varðandi stöðvunarkröfuna sé þó alvarlegra að leyfishafi hafi kynnt kærendum að hann hyggist láta verktaka mæta á svæðið til þess að hefja skurðgröft fyrir grunni bílskúrsins. Í því felist meðal annars að grafinn verði fleygskurður inn á lóð kærenda þar sem m.a. standi 72 ára gömul tré. Engin heimild sé til slíkra framkvæmda.

Borgaryfirvöld telja að hafna beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Farið sé fram á að kveðinn verði upp fullnaðarúrskurður í málinu. Kjósi byggingarleyfishafi að halda framkvæmdum áfram áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri hann það á eigin ábyrgð og áhættu. Útgáfa byggingarleyfis fyrir Langholtsveg 136 sé í fullu samræmi við málsmeðferðarreglur laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Af hálfu leyfishafa er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Því sé mótmælt að framkvæmdir verði stöðvaðar enda séu forsendur kærunnar alrangar og byggðar á röngum eða engum gögnum um að byggingarleyfið uppfylli ekki löggild skilyrði 55. gr. laga um mannvirki.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis sem heimilar byggingu bílskúrs og svala á húsi á lóðinni nr. 136 við Langholtsveg. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að leyfishafi hefur þegar reist umþrættar svalir. Gert er ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr á nefndri lóð en málsrök kærenda um stöðvun framkvæmda við bílskúrsbygginguna lúta aðallega að jarðraski á lóð þeirra sem muni fylgja þeim framkvæmdum. Í því sambandi er til þess að líta að hið kærða byggingarleyfi heimilar ekki framkvæmdir á lóð kærenda heldur einskorðast heimildir þess við lóð leyfishafa. Verður leyfishafi því að byggja á öðrum heimildum hyggist hann hagnýta sér lóð kærenda til framkvæmda og kærendur verða sömuleiðis að byggja á réttarreglum, s.s. um lögbann, vilji þeir ekki þola það. Sá ágreiningur er af einkaréttarlegum toga og á ekki undir úrskurðarnefndina sem einskorðar lögmætisathugun sína við lögmæti hins kærða byggingarleyfis, en eins og áður segir heimilar það ekki framkvæmdir á lóð kærenda. Þá skal á það bent að á leyfishafa hvílir sú skylda samkvæmt útgefnu byggingarleyfi að hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóða við frágang á lóðarmörkum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir ekki tilefni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en frekari fram­kvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

39/2020 Ægisgata, Stykkishólmi

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 39/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að framkvæmdir verði stöðvaðar og mannvirki fjarlægð á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 í Stykkishólmsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2020, er barst nefndinni 25. s.m., kærir lóðarhafi Ægisgötu 3, Stykkishólmi, drátt á afgreiðslu erinda kæranda, sem ítrekuð voru með bréfi, dags. 22. apríl 2020, um að framkvæmdir á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 verði stöðvaðar og girðing þar fjarlægð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Stykkishólmsbæ að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 27. maí 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 6. maí 2019 var samþykkt byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Ægisgötu 1. Í lok nóvember 2019 mun kærandi, eigandi Ægisgötu 3, hafa haft samband bréflega við bæjaryfirvöld í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3. Í bréfinu kom fram að kærandi teldi steypta veggi á lóðamörkum vera of háa og of nálægt lóðamörkum. Þá vakti kærandi athygli á að til stæði að breyta hæð lóðarinnar. Með tölvupósti til bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar 8. janúar 2020 var þess krafist að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Byggingarfulltrúi tók málið til skoðunar og í bréfi hans til kæranda, dags. 20. janúar 2020, kom fram að girðingar á lóðamörkum við Ægisgötu 1 væru ekki í samræmi við reglur og að framkvæmdir við þær hefðu verið stöðvaðar.

Kærandi tekur fram að þrátt fyrir bréf byggingarfulltrúa frá 20. janúar 2020 hafi framkvæmdir á lóðinni nr. 1 við Ægisgötu haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Lóðin hafi verið hækkuð og búið sé að fylla að skjólveggjum og þeir þá í raun orðnir stoðveggir. Bæjaryfirvöld hafi ekkert aðhafst þrátt fyrir að hafa verið vel upplýst um framkvæmdirnar. Hinn 22. apríl 2020 hafi kærandi sent bréf til byggingarfulltrúa og bæjarstjóra og krafist þess að þvingunarúrræðum yrði beitt vegna framkvæmda á lóð nr. 1. Því hafi ekki verið svarað.

Af hálfu Stykkishólmsbæjar er tekið fram að erindi kæranda frá 22. apríl 2020 hafi nú verið svarað með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 26. maí s.á. Dráttur á afgreiðslu erindisins skýrist m.a. af því ástandi sem uppi hafi verið vegna Covid-faraldursins o.fl., eins og fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda. Líkt og fram komi í gögnum málsins hafi verið óskað eftir því við lóðarhafa að Ægisgötu 1 að hann geri grein fyrir umræddum framkvæmdum og hvernig hann hyggist ljúka málinu með fullnægjandi hætti. Hafi honum verið gefinn kostur á að gera grein fyrir framkvæmdunum bæði skriflega og með uppdráttum. Tekið hafi verið fram að nauðsynlegt væri að fram kæmi á uppdráttum fjarlægð veggja frá lóðamörkum, hæð þeirra og jarðvegshæð beggja megin við til þess að hægt væri að taka afstöðu til þess hvort um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir sé að ræða.

Eins og áður hafi verið rakið hafi ekki tekist að ljúka málinu vegna ýmissa ástæðna, svo sem sóttkvíar byggingarfulltrúa í apríl, páskahátíðar o.fl. Þegar endanleg gögn berist byggingarfulltrúa muni sveitarfélagið senda kæranda uppdráttinn og gögn til skoðunar og umsagnar. Berist gögn ekki innan tíðar muni byggingarfulltrúa grípa til nauðsynlegra aðgerða til að knýja á um málalok í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannviki.

Niðurstaða: Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hefur kærandi um nokkurra mánaða skeið beint athugasemdum til stjórnvalda í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á mörkum lóðar sinnar nr. 1 við Ægisgötu og nágrannalóðar nr. 3 við sömu götu. Framkvæmdir við stoðveggi á lóðinni nr. 3 við Ægisgötu voru stöðvaðar 20. janúar 2020, en ekki hefur verið tekin ákvörðun af hálfu Stykkishólmsbæjar um hvort fjarlægja beri umrædd mannvirki. Beindi kærandi þeim kröfum aftur að bænum, með bréfi, dags. 22. apríl 2020, að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar og að mannvirki yrðu fjarlægð.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, enda liðið um hálft frá því að kærandi setti fyrst fram kröfur sínar gagnvart sveitarfélaginu. Erindi hans frá 22. apríl 2019 hefur nú verið svarað og hafa verið færðar fram skýringar á töfum svaranna. Málið er í vinnslu hjá sveitarfélaginu sem hefur upplýst um að til meðferðar sé mál lóðarhafa Ægisgötu 1 hjá embætti byggingarfulltrúa og þurfi lóðarhafi að gera grein fyrir framkvæmdunum, meðal annars m.t.t. byggingarleyfisskyldu þeirra Gefa upplýsingar sveitarfélagsins tilefni til að ætla að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

134/2019 og 2/2020 Blesugróf

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 14. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðar­-innar Blesugrófar 34.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2019, er barst nefndinni 29 s.m., kæra eigendur, Blesugróf 14, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 14. nóvember 2019 að samþykkja breytingu á deili­skipulagi Blesugrófar vegna lóðarinnar Blesugrófar 34. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. janúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra Fjóla ehf., eigandi Jöldugrófar 24, og íbúar að Jöldugróf 24, sömu ákvörðun borgarráðs með kröfu um ógildingu hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 2/2020, sameinað kærumáli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2020.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. febrúar 2019 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðarinnar Blesugrófar 34. Í breytingunni fólst að heimilt yrði að reisa tveggja hæða einbýlishús með aukaíbúð innan núverandi byggingarreits og að nýtingarhlutfall lóðar yrði 0,45. Var samþykkt að grenndar­kynna framlagða tillögu þegar leiðréttir uppdrættir hefðu borist. Var tillagan grenndarkynnt 25. febrúar s.á. með athugasemdafresti til 25. mars s.á., en frestur til að skila inn athugasemdum var síðar framlengdur til 4. apríl s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslu­fundi skipulagsfulltrúa 12. apríl 2019 og því vísað til umsagnar verkefnisstjóra ásamt inn­sendum athugasemdum. Skipulags- og samgönguráð samþykkti tillöguna á fundi 6. nóvember s.á. með vísan til 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og með þeim breytingum sem komu fram í umsögn skipulagsfulltrúa frá 1. s.m., en þar var m.a. lagt til að hæðarkóti jarðhæðar yrði lækkaður, flatarmál annarrar hæðar yrði minnkað um helming og að heimilt yrði að útbúa svalir á þaki jarðhæðar. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 14. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. desember s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja ljóst að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé verið að taka hagsmuni eins aðila fram yfir hagsmuni fjöldans. Í umsögn skipulagsfulltrúa komi fram að tekið sé mið af húsi á lóð nr. 24 við Jöldugróf, en það hús standi mun ofar í landi auk þess sem efri hæð þess sé í götuhæð. Það sé ekki hærra en nærliggjandi hús í Jöldugróf og ekki hærra en gildandi deiliskipulag segi til um. Í umsögninni sé stuðst við rangan hæðarkóta við Blesugróf 12 og því hafi borgarráð samþykkt hækkun Blesugrófar 34 á röngum forsendum. Veruleg hækkun verði á lóðamörkum þar sem grunnur hússins verði mjög hár. Þá komi skýrt fram í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að þegar unnið sé deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skuli lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsakönnunar. Samkvæmt orðanna hljóðan skuli lagt mat á varðveislugildi byggðar og sé enginn afsláttur gefinn í lagagreininni. Ljóst sé að ef byggt verði í samræmi við deiliskipulagsbreytinguna þá verði það algjör umbreyting á byggingaformi, stærð og hæð, miðað við þær byggingar sem fyrir séu í Blesugróf, auk þess sem það kollvarpi svipmóti götunnar.

Við breytingar á samþykktu deiliskipulagi sé það meginregla að fara skuli með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Undantekningu frá þeirri meginreglu sé að finna í 2. mgr. 43. laganna en þar segi að þegar gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. skuli fara fram grenndarkynning. Í ákvæðinu segi jafnframt að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í athugasemdum með frum­varpi því er orðið hafi að skipulagslögum nr. 123/2010 sé vísað í dæmaskyni um óverulegar breytingar af þessu tagi til þess þegar iðnaðarhúsnæði sé breytt í íbúðarhúsnæði, glerjun útisvala, skyggni yfir útidyr, dúkkuhús sem sett séu í garð o.s.frv. Þá sé fjallað um óverulegar breytingar í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar segi í 2. mgr. gr. 5.8.2. að við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli einnig metið hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu sem varði almannahagsmuni.

Í gildandi deiliskipulagi Blesugrófar komi fram að leyfilegt nýtingarhlutfall á lóð sé 0,4 en sé kjallari undir húsi, að hluta til eða að öllu leyti, hækki hlutfallið í 0,45. Jafnframt sé tiltekið að heimilt sé að fá samþykktar tvær íbúðir í húsi en þær skuli uppfylla öll skilyrði nýrra íbúða samkvæmt byggingarreglugerð, m.a. um fjölda bílastæða á lóð. Þá sé varðandi hæð bygginga vísað til þess að almennt miði deiliskipulagið við þá hæð sem einkenni hverfið, þ.e. einnar hæðar einbýlishús með lágu þaki. Skuli hæsti útveggur ekki vera hærri en 3,5 m og hæsti punktur þaks ekki meira en 1,5 m yfir hæstu leyfilegu hæð útveggja. Í samræmi við það sé um lágreista einbýlishúsabyggð að ræða í Blesugróf og Jöldugróf þar sem fjöldi fasteigna séu með niðurgröfnum kjallara í samræmi við efni deiliskipulagsins. Taki kærendur undir lýsingu skipulagsfulltrúa, sem komi fram í svari embættisins vegna fyrirspurnar um breytingu á deiliskipulagi, um að Blesugróf 1-34 sé „sérbýlishúsareitur sem inniheldur að mestu eina íbúð í húsi á lóð, með sterk karaktereinkenni og heilsteypta götumynd sem þarf að taka tillit til við útfærslu skipulags á umræddum lóðum.“ Þá geri hið kærða deiliskipulag ráð fyrir að hæsti punktur þaks verði ekki hærri en 6,6 m frá grunnplötu/gólfkóta, en í upphaflegri tillögu hafi hins vegar verið gert ráð fyrir að hæsti punktur þaks yrði ekki hærri en 6,2 m. Með hliðsjón af fyrrgreindu geti deiliskipulagsbreytingin með engu móti talist óveruleg í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þvert á móti megi öllum vera ljóst að um grundvallarbreytingu á skipulagi svæðisins, þ.e. einsleit lágreist einbýlishúsabyggð, sé að ræða. Því hafi Reykjavíkurborg borið að fara með breytingu líkt og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. sömu laga. Bent sé á að undantekningarákvæði beri að túlka þröngt í samræmi við almennar lögskýringar­reglur. Breytingin víki verulega frá nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Nýtingarhlutfallið fari úr 0,4 í 0,45. Heimilt verði að reisa tveggja hæða einbýlishús, að hluta með aukaíbúð, og að hæsti punktur þaks verði allt að 6,6 m frá grunnplötu/gólfkóta í stað 3,5 m. Ljóst sé að fasteignin muni rísa hátt og gnæfa yfir nærliggjandi fasteignir með tilheyrandi grenndaráhrifum. Þá sé sérstaklega bent á að breytingin verði á engan hátt borin saman við þau tilvik sem lýst sé í dæmaskyni um óverulegar breytingar í fyrrgreindum athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að skipulagslögum nr. 123/2010.

Deiliskipulagsbreytingin gangi út frá þeirri forsendu að „þar sem ekki sé hægt að vera með kjallara á þessari lóð sé gert ráð fyrir húsi á tveimur hæðum.“ Kærendur mótmæli þeirri staðhæfingu sem staðlausri. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 1. nóvember 2019 sé vísað til þess að aðstæður á lóð hafi verið skoðaðar. Talið hafi verið að landhalli væri ekki nægjanlegur til að hafa kjallara án þess að til verulegrar landmótunar kæmi. Ekkert liggi fyrir um hvenær og hvernig skoðun á vettvangi hafi farið fram eða hverjir hafi staðið að henni. Bent sé á að fjölmörg hús í sömu götu hafi verið reist með niðurgröfnum kjallara án nokkurra vandkvæða, t.d. fasteignir á lóðum nr. 3, 8, 9, 10, 16, 20, 25, 27, 28 og 29 við Blesugróf, en á þeim lóðum sé landhalli minni en á lóð nr. 34. Samkvæmt uppgefnum kótum verði hæðarmunur milli aðalgólfa Blesugrófar 34 og aðliggjandi Blesugrófar 12 um 2,5 m. Því fái röksemdir að baki deiliskipulagsbreytingunni ekki staðist. Einnig sé bent á að í fyrrgreindri umsögn skipulags­fulltrúa sé sérstaklega vísað til þess landhalla sem sannanlega sé á lóðinni, sbr. eftirfarandi á bls. 6 í umsögninni: „Skipulagsfulltrúi getur fallist á að aðlaga megi betur neðri hæð umræddrar nýbyggingar að landhalla fyrir í sem er á lóðinni […]“. Ekki sé hægt að halda því fram án viðeigandi gagna og rannsókna að ógerningur sé að hafa kjallara á lóðinni. Reykjavíkurborg og skipulagsfulltrúa hafi borið að sjá til þess að málið væri nægjanleg upplýst áður en ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi hafi verið tekin. Hafi því verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Gerðar séu verulegar athugasemdir við þau gögn, þ. á m. uppdrætti, sem liggi að baki hinni kærðu ákvörðun. Þannig sýni skipulagsuppdráttur ekki þær lóðir sem grenndarkynningin taki til nema að verulega takmörkuðu leyti. Tilfinnanlega skorti á upplýsandi teikningar og gögn sem sýni hið breytta deiliskipulag í réttu ljósi gagnvart lágreistri aðliggjandi byggð, vestan og norðan megin við hið breytta skipulag. Þrívíddarmyndir taki ekki tillit til hæðarlegu landsins, t.a.m. sé hverfið sýnt sem á flötu landi, en svo sé vitaskuld ekki. Sneiðingar séu sérstaklega valdar til að gera sem minnst úr áhrifum hækkunar að Blesugróf 34 en efni standi til. Annars vegar sé valið snið gegnum Jöldugróf 24, sem sé tveggja hæða að hluta með inngangi á efri hæð af götu, og hins vegar snið í gegnum Blesugróf 12, sem sé enn óbyggt, en hönnun húss þeirrar lóðar hafi verið breytt eftir kæru þar að lútandi og húsið því mun lægra en sýnt sé. Engar sneiðingar séu teknar í gegnum þau hús sem máli skipta og séu þegar til staðar í næsta nágrenni, s.s. að Blesugróf 14, 16, 18 eða 20. Auglýstur skipulagsuppdráttur sýni ekki allar þær lóðir sem grenndarkynningin hafi náð til. Ekki sé sýndur takmarkandi byggingarréttur fyrir efri hæð fyrirhugaðs húss að Blesugróf 34. Heimilaðar þaksvalir á efri hæð séu án takmarkana, en þaðan ofan verði séð niður í garð húsa við Blesugróf 10, 12 og 14. Þá hafi ekki verið gerð grein fyrir fyrirhuguðu sambyggðu húsi, þ.e. Blesugróf 32, en ljóst sé að um parhús verði að ræða en ekki stök einbýlishús. Aðeins sé gert ráð fyrir tveimur bílastæðum á lóðinni en krafa um fjölda bílastæða á lóðum einbýlishúsa í hverfinu geri að jafnaði ráð fyrir þremur stæðum og aukastæði ef um aukaíbúð sé að ræða. Því ætti að gera ráð fyrir að lágmarki fjórum stæðum miðað við íbúðafjölda. Þá hafi ekki verið lögð fram staðfærð hæðarmæling á lóð og aðliggjandi byggingum svo sannreyna megi staðreyndir málsins. Því sé ljóst að gögnin sem legið hafi að baki deiliskipulagsbreytingunni hafi ekki með réttu getað orðið grundvöllur að töku lögmætrar stjórnvaldsákvörðunar í málinu. Vegna hinna verulega takmörkuðu gagna hafi kærendur leitað til arkitekts um gerð þrívíddarteikninga að svæðinu, auk hreyfimynda, samkvæmt þeim forsendum sem upphafleg tillaga að deiliskipulagsbreytingu hafi tekið til, og samkvæmt deiliskipulags­breytingunni, eins og hún hafi verið samþykkt af borgarráði 14. nóvember 2019. Af þeim gögnum megi ótvírætt ráða að ásýnd hins skipulagða svæðis muni taka verulegum breytingum.

Hin kærða ákvörðun sé fordæmisgefandi deiliskipulagsbreyting fyrir aðrar lóðir á svæðinu, sbr. gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð. Sami aðili eigi samliggjandi lóðir að Blesugróf 30 og 32 og sé fyrirséð að hann muni óska eftir sambærilegri deiliskipulagsbreytingu vegna þeirra lóða. Slíkt muni leiða til enn neikvæðari breytinga á götumynd og aukinna grenndaráhrifa fyrir aðra íbúa og eigendur lóða á svæðinu enda verði hægt að vísa til þess að sú deiliskipulagsbreyting sem hér um ræði sé fordæmisgefandi. Megi um það efni vísa til almennra meginreglna stjórnsýslu­réttar um jafnræði aðila, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Bent sé á að skipulagsfulltrúi hafi tekið undir áhyggjur hagsmunaaðila að þessu leyti í umsögn sinni frá 1. nóvember 2019, sbr. eftir­farandi ummæli: „Með nokkrum rétti má skilja áhyggjur íbúa vegna fordæmis sem breyting þess getur leitt af sér.“ Því hafi verið óheimilt að beita undantekningarákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Engar sérstakar ástæður fyrir breytingunni séu tilgreindar vegna lóðarinnar nr. 34 við Blesugróf og hafi þeim hvorki verið lýst né þær skilgreindar í svörum Reykjavíkurborgar. Að lokum verði hin kærða ákvörðun á engan hátt borin saman við deiliskipulagsbreytingu og byggingarframkvæmdir á lóðinni nr. 24 við Jöldugróf frá 2007, sem skipulagsfulltrúi vísi ítrekað til í umsögn sinni. Viðkomandi lóð í Jöldugróf sé í brattri brekku ólíkt því sem við eigi um hina umþrættu lóð.

Við grenndarkynningu hafi kærendur vísað í dæmaskyni til úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í kærumálum nr. 15/2007, 57/2006 og 12/2007 varðandi mál þar sem ekki hafi verið fallist á að um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða. Ekki sé fallist á þann málatilbúnað skipulagsfulltrúa í umsögn hans að með gildistöku skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarfélögum verið gert auðveldara að grenndarkynna breytingar á deiliskipulagi. Undantekningarákvæði þágildandi 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé efnislega hið sama og núgildandi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, þótt ákveðnum viðmiðum hafi verið bætt við síðarnefnda ákvæðið. Þvert á móti megi halda því fram að heimildir sveitarfélaga hafi fremur verið þrengdar miðað við athugasemdir við ákvæðið í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 123/2010. Með vísan til alls þessa geti hin umþrætta deiliskipulagsbreyting með engu móti talist óveruleg í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Að auki beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi á grundvelli grenndarsjónarmiða, þ.e. með tilliti til þeirra áhrifa sem hún muni hafa í för með sér fyrir nágranna og aðra hagsmunaaðila innan svæðisins. Ítrekað sé að veruleg andstaða sé við tillöguna meðal allra hagsmunaaðila. Einbýlishús á tveimur hæðum að hluta, með hæsta punkt þaks allt að 6,6 m yfir gólfkóta og allt að 6,2 m háa útveggi, muni gnæfa yfir fasteign kærenda til norðurs og með öllu skerða útsýni úr henni í þá átt, þar á meðal þekkt kennileiti eins og Esjuna. Muni kærendur verða fyrir verulegu fjárhagstjóni af þessum sökum. Kærendur sem og aðrir hagsmunaaðilar á svæðinu hafi mátt ganga út frá að hin heildstæða götumynd myndi haldast til frambúðar og að ekki yrði vikið í verulegum atriðum frá gildandi skipulagi. Á það sé bent að í lóðarleigusamningi milli Reykjavíkurborgar og eiganda hinnar umþrættu lóðar hafi sérstaklega verið tiltekið í 3. gr. að leigutaki skyldi hlíta öllum skilmálum borgarinnar vegna lóðarinnar, þ. á m. samþykktum deiliskipulagsskilmálum fyrir svæðið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að upphafleg tillaga að skipulagsbreytingu umrædds svæðis hafi gert ráð fyrir fullri annarri hæð en með hliðsjón af þeim athugasemdum sem borist hafi á kynningartíma hafi verið ákveðið að efri hæðin yrði inndregin. Ekki sé verið að auka nýtingarhlutfall lóðar frá því sem áður hafi verið heimilt í deiliskipulagi. Einungis sé um að ræða tilfærslu á endanlegri útfærslu á heimiluðu byggingar­magni. Hafa þurfi í huga að nú sé miðað við að innan nýtingarhlutfalls séu bæði A- og B-rými, en áður hafi tíðkast að miða einungis við A-rými þegar nýtingarhlutfall væri ákveðið. Deiliskipulagsbreytingin hafi heimilað breytta útfærslu húss á lóðinni en með því sé verið að nýta betur þau verðmæti sem felist í lóðum innan hverfis. Hagsmunaaðilar geti haft frum­kvæði að breytingu á deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en endan­­­legt ákvörðunarvald um það hvort deiliskipulagi verði breytt sé í höndum sveitarstjórnar að undangenginni lögmætri málsmeðferð. Þrátt fyrir að lóðarhafi hinnar umdeildu lóðar hafi fengið útgefinn lóðarleigusamning þá sé ekkert í lögum sem aftri honum frá því að kanna afstöðu sveitarstjórnar til tillögu að breytingu á gildandi deiliskipulagi.

Árið 2007 hafi tekið gildi breyting á deiliskipulag Blesugrófar vegna lóðarinnar nr. 24 við Jöldugróf. Sú breyting sé að nokkru leyti fyrirmynd að breyttum skilmálum um uppbyggingu á lóð Blesugrófar 34, sér í lagi aukið byggingarmagn, hæð byggingarinnar og form hennar, en á milli þessara lóða sé opið svæði sem geri það að verkum að stærri hús fái betur notið sín en ef þau stæðu mitt á milli minni bygginga.

Hver umsókn um breytingu á deiliskipulagi sé afgreidd sjálfstætt. Ekki sé endilega víst að heimiluð breyting á deiliskipulagi fyrir eina lóð innan skipulagssvæðis heimili öðrum innan svæðisins sömu breytingu. Aðstæður kunni að vera mismunandi sem og að áherslur og sýn í skipulagsmálum geti tekið breytingum. Í svari skipulagsfulltrúa felist ekki annað en að skipulagsfulltrúi skilji afstöðu og áhyggjur athugasemdaraðila um meint fordæmisgildi deiliskipulagstillögunnar. Ekki verði séð að það skipti nokkru fyrir efnislega þætti þessa máls þótt á uppdráttum sé Blesugróf 12 skráð til samræmis við þá uppdrætti sem áður hafi verið samþykktir. . Eftir grenndarkynningu hafi verið ákveðið að lækka gólfkóta Blesugrófar 34 frá því sem grenndarkynnt gögn hafi gert ráð fyrir, þ.e. úr 20,2 m í 19,6 m. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið eftir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Ákvæði um gerð húsakönnunar sé í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga, sem fjalli um gerð nýs deiliskipulags. Ekki sé gert ráð fyrir því að unnin sé húsakönnun við grenndarkynnta breytingu á deiliskipulagi.

Við afgreiðslu umsóknar um breytingu á deiliskipulagi hafi skipulagsfulltrúi tekið faglega afstöðu til þess hvort skilyrði óverulegrar breytingar á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga væru til staðar. Hafi það verið mat hans að tillagan væri innan marka ákvæðisins hvað varði áhrif hennar á yfirbragð byggðar, nýtingarhlutfall og notkun. Jafnframt að tillagan hefði óveruleg áhrif á nærliggjandi byggð. Bent sé á að við grenndarkynningu á tillögu að deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. laganna sé hagsmunaaðilum sérstaklega send gögn málsins í stað þess að hún sé auglýst með opinberum hætti þegar um málsmeðferð skv. 1. mgr. sama ákvæðis sé að ræða. Það leiði til þess að meiri líkur séu á því að hagsmuna­aðili tjái sig um efni tillögunnar. Auglýsing á tillögu að deiliskipulagsbreytingu tryggi ekki endilega betri málsmeðferð. Grenndarkynning einfaldi feril deiliskipulagsbreytingar án þess að réttur hagsmunaaðila sé hafður að engu, en ferlið sé hagkvæmara bæði hvað varði tíma og kostnað.

Eftir grenndarkynningu hafi leyfileg hæð hússins hækkað úr 6,2 m í 6,6 m. Að loknum athugasemdafresti hafi hæðarkóti botnplötu verið lækkaður. Á samþykktum uppdrætti sé miðað við að botnplata verði í kóta 19,6 m en í upphaflegu tillögunni hafi hann verið í kóta 20,2 m. Þar að auki hafi í upphaflegri tillögu verið gert ráð fyrir að hámarkshæð hússins, þ.e. mænishæð, væri 26,2 m og sé sú hæð óbreytt á samþykktum deiliskipulagsuppdrætti. Því hafi leyfileg hæð hússins hækkað. Í deiliskipulagi svæðisins sé gert ráð fyrir því að tilteknar lóðir beri hærri hús en almennt sé miðað við í skilmálum deiliskipulagsins, sbr. gr. 6.8 í greinargerð skipulagsins. Þar segi að á tilteknum lóðum sé gert ráð fyrir hærri húsum en almennt gerist í hverfinu. Miði deiliskipulagið við að hæsti punktur sé 6,0 m. Lóðin Blesugróf 34 sé ekki ein af fyrrgreindum lóðum en aftur á móti hafi hverfið verið í þróun frá samþykkt deiliskipulagsins á árinu 2005. Hafi skipulagsfulltrúi metið það svo að umrædd breyting fyrir lóðina rúmist innan markmiða deiliskipulagsins. Einnig skipti máli að lóðin snúi að hluta að opnu svæði sem geri það að verkum að hún beri hærra hús en ella. Því sé ekki um grundvallarbreytingu á deiliskipulagi svæðisins að ræða.

Hvað varði grenndaráhrif hafi kynningargögn sýnt aukið skuggavarp á nágrannalóðir að morgni á sumarsólstöðum. Hafi skipulagsfulltrúi því lagt til að efri hæð hússins yrði minnkuð um helming svo draga mætti úr skuggavarpi. Réttur borgarbúa til útsýnis sé víkjandi réttur í stækkandi borg. Öðru máli gegni um skert birtustig en fjarlægð frá lóðamörkum sé innan 3 m viðmiða. Engin hætta sé því á aukinni innsýn svo lengi sem fólk kjósi að búa í borg og sætti sig við nábýli. Ekki sé hægt að fallast á röksemdir varðandi meinta verðrýrnun en bent sé á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga geti sá sem sýnt geti fram á tjón vegna breytingu á skipulagi átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Eftir grenndarkynningu sitji byggingin lægra í umhverfi og á þann hátt „kaffæri“ hún síður næstu hús. Við töku skipulagsákvarðana beri m.a. að taka mið af markmiði c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga um að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagsmunir heildarinnar séu hafðir að leiðarljósi. Ekki verði séð að hagsmunir kærenda hafi að nokkru skerst en umdeild breyting sé vel innan þeirra marka sem hverfið þoli. Hvorki sé hægt að líta á uppbyggingu byggðar né götumynd sem skerðingu á grenndarhagsmunum. Íbúar geti ekki vænst þess að götumynd standi óbreytt nema til komi sérstök aðgerð um verndun götumyndar. Í þéttbýli megi vænta þess að ný hús kunni að breyta götumynd að einhverju leyti.

Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 1. nóvember 2019 hafi komið fram að ástæða þess að ekki hafi verið talið mögulegt að hafa kjallara undir húsinu sé lega hússins í landi. Kjallari hefði leitt til þess að húsið hefði haft meiri áhrif gagnvart nærliggjandi húsum en sú leið sem hafi verið samþykkt. Mikilvægt sé að horfa til þess að deiliskipulag Blesugrófar geri ráð fyrir að fram fari atvikabundið mat á því hvort aðstæður leyfi að gerður sé kjallari undir fyrirhuguðu húsi. Ekki verði séð hvaða máli það skipti fyrir faglega afstöðu skipulagsfulltrúa hvenær vettvangs­skoðun hafi verið framkvæmd þar sem að landhæð og landmótun lóðarinnar breytist ekki dag frá degi.

Á grenndarkynntum deiliskipulagsuppdrætti sjáist lóðin Blesugróf 34 með skýrum hætti. Jafnframt sé á uppdrættinum gerð grein fyrir nærliggjandi lóðum. Sé það í samræmi við það sem almennt tíðkist við grenndarkynningu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Af gr. 5.8.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 megi ráða að við breytingu á gildandi deiliskipulagi sé fyrst og fremst gert ráð fyrir því að gerð sé grein fyrir breytingu í greinargerð og á skipulags­uppdrætti. Ekki sé kveðið á um breytingu á öðrum gögnum. Í gr. 5.5.4. segi að heimilt sé að nota skýringaruppdrætti, svo sem götumyndir, skuggavarpsteikningar og sniðmyndir, líkön og hreyfimyndir. Því sé um valkvæð gögn að ræða.

Þar sem skipulagslög geri ráð fyrir því að hægt sé að breyta deiliskipulagi sé ekki hægt að taka undir með kærendum að þeir hafi haft réttmætar væntingar til þess að svæðið taki ekki breytingum. Hið gagnstæða myndi leiða til þess að svæði, sem séu þegar byggð, gætu ekki tekið breytingum og þróast. Markmið skipulagslaga sé að stuðla að þróun byggðar og skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Með því að nýta auðar lóðir innan hverfis sé sveitarstjórn að starfa í samræmi við markmið skipulagslaga.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Vísað er til þess að þau ummæli Reykjavíkurborgar að með deiliskipulagsbreytingunni sé verið að nýta með betri hætti þau verðmæti sem felist í lóðum innan hverfisins séu hrein þversögn. Fasteignir nágranna muni rýrna í verði ef tveggja hæða stórhýsi rísi á hæðinni. Það sé verið að auka verðmæti eins aðila á kostnað annarra. Ekki sé hægt að bera fyrir sig rök um þéttingu byggðar þegar um ræði byggingu einnar fasteignar.

Ekki sé rétt það sem komi fram í greinargerð Reykjavíkurborgar að eini munurinn á málsmeðferð samkvæmt 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 felist í því að auglýsa þurfi tillögu í stað þess að grenndarkynna hana. Í meginreglu 1. mgr. 43. gr. laganna felist að við breytingu á samþykktu deiliskipulagi beri að fara með hana eins og um nýtt deili­skipulag sé að ræða. Samkvæmt því beri almennt að fara að þeim efnisákvæðum sem mælt sé fyrir um varðandi gerð nýs deiliskipulags í VIII. kafla laganna. Séu þau efnisákvæði ekki takmörkuð við auglýsingu, líkt og borgaryfirvöld byggi á. Sem dæmi megi nefna að í 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga segi að þegar unnið sé deiliskipulag í þegar byggðu hverfi skuli lagt mat á varðveislugildi svipmóts byggðar og einstakra bygginga sem fyrir séu með gerð húsa­könnunar. Því liggi fyrir að málsmeðferð sé verulega frábrugðin eftir því hvort farið sé að meginreglu 1. mgr. 43. gr. laganna eða undantekningarákvæði 2. mgr. sama lagaákvæðis. Vandséð sé hvernig hagur heildarinnar hafi verið hafður að leiðarljósi, sbr. markmiðsákvæði 1. gr. skipulagslaga, við töku hinnar kærðu ákvörðunar í ljósi hinnar verulegu og megnu andstöðu allra hagsmunaaðila innan svæðisins. Grundvallaratriði sé að hagsmunaaðilar hafi aðgang að nákvæmum upplýsingum sem búi að baki þeirra staðhæfingu borgaryfirvalda að kjallari á lóð Blesugrófar 34 hefði leitt til þess að húsið hefði haft meiri áhrif gagnvart nærliggjandi húsum en sú leið sem hafi verið samþykkt til þess að unnt sé að meta lögmæti og réttmæti hennar. Af þeim málsástæðum sveitarfélagsins verði ráðið að það hafi synjað því að hafa kjallara undir húsinu en ekkert liggi fyrir um þá synjun.

——

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi, eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Ber að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þótt hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Skipulagsvaldið er jafnframt bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Í 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga segir að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins skuli fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Var farið með hina kærðu deiliskipulags­breytingu í samræmi við áðurnefnda 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Árið 2005 tók gildi deiliskipulag Blesugrófar. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að helstu einkenni byggðarinnar séu einnar til tveggja hæða einbýlishús í mismunandi ásigkomulagi. Mest sé um einnar hæðar hús með mænisþaki. Einnig kemur þar fram að heimilt sé að samþykkja tvær íbúðir í húsi. Nýtingarhlutfall lóða sé 0,4 en sé kjallari undir húsi, að hluta til eða öllu leyti, hækki leyfilegt nýtingarhlutfall í 0,45. Um hæð bygginga segir að almennt miði deiliskipulagið við þá hæð sem einkenni hverfið, þ.e. einnar hæðar einbýlishús með lágu þaki. Þá skuli hæsti útveggur ekki vera hærri en 3,5 m. Hæsti punktur þaks megi vera 1,5 m yfir mestu leyfilegu hæð útveggja. Á tilgreindum lóðum megi byggja hærri hús og í þeim húsum sé gert ráð fyrir að hæsti punktur þaks sé 6,0 m frá grunnplötu. Hæsti útveggur hærri húsagerðar skuli ekki vera meiri en 6,0 m. Lóðin að Blesugróf 34 var ekki á meðal þeirra lóða þar sem heimilað var að reisa tveggja hæða hús. Samkvæmt skipulagsuppdrætti deiliskipulags nær bílskúr Blesugrófar 34 að mörkum lóðar nr. 32 og tengist hann bílskúr þeirrar lóðar. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu voru settir sérskilmálar fyrir lóðina Blesugróf 34. Segir í greinargerð skipulagsbreytingarinnar að þar sem ekki sé hægt að vera með kjallara á lóðinni sé gert ráð fyrir húsi, að hluta á tveimur hæðum. Heimilt sé að nýta hluta þaks sem svalir. Þá er nýtingarhlutfall lóðarinnar ákveðið 0,45, þ.e. A-rými og B-rými samanlagt, og að hæsti punktur þaks megi ekki fara yfir 6,6 m frá grunnplötu.

Ljóst er að með hinni kærðu ákvörðun hækkar leyfilegt nýtingarhlutfall lóðar hússins án kjallara úr 0,4 í 0,45, en sú breyting verður þó ekki talin veruleg. Fyrir liggur að flest hús á deiliskipulagssvæðinu eru einnar hæðar einbýlishús með lágu þaki en hins vegar má þar einnig finna tveggja hæða hús, auk þess að gildandi deiliskipulag Blesugrófar heimilar byggingu hærri húsa á nokkrum lóðum. Verður því ekki séð að umrædd breyting, er felst í því að heimila byggingu tveggja hæða húss að hluta, sé til þess fallin að breyta útliti og formi byggðar á viðkomandi svæði umfram það sem heimilað var samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags. Að því er varðar fordæmisgildi skipulagsbreytingarinnar verður að líta til þess að sunnan og austan megin við lóðina að Blesugróf 34 er opið svæði. Af umsögn skipulagsfulltrúa verður ráðið að framangreind sérstaða lóðarinnar liggi að baki þeirri ákvörðun að víkja frá skipulagsskilmálum svæðisins að því er varðar nýtingarhlutfall og leyfilega hæð hússins. Er ekki að sjá að aðrar lóðir á skipulagssvæðinu, þ. á m. lóð nr. 32 við Blesugróf, hafi sömu sérstöðu. Verður því ekki fallist á að breytingin feli í sér almennt fordæmi fyrir byggð á skipulagssvæðinu. Samkvæmt framangreindu var heimilt að breyta deiliskipulaginu með grenndarkynningu í stað auglýsingar. Að kynningu lokinni var tillagan tekin fyrir í skipulags- og samgönguráði, framkomnum athugasemdum kærenda auk annarra hagsmunaaðila svarað, breytingartillagan samþykkt og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda. Þá bar skipulagsyfirvöldum ekki að gera húsakönnun vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar í samræmi við 5. mgr. 37. gr., enda var gerð húsakönnun fyrir svæðið vegna gerðar deiliskipulags hverfisins árið 2005. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi að formi til verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér heimild til að byggja hús, að hluta á tveimur hæðum, á lóð Blesugrófar 34 og má hámarkshæð þaks vera 6,6 m frá grunnplötu. Þar að auki verður heimilt að nota hluta þaks sem svalir. Af gögnum málsins verður ráðið að þær breytingar muni hafa í för með sér grenndaráhrif, s.s. vegna útsýnis, skuggavarps og innsýnar. Hins vegar verður ekki talið að grenndarhagsmunum kærenda hafi verið raskað með þeim hætti að réttur þeirra hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 14. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Blesugrófar 34.