Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

109/2020 Mjallargata

Með

Árið 2020, föstudaginn 27. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 109/2020, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar á umsókn um stöðuleyfi fyrir einn 20 feta geymslugám bakvið bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Snerpa ehf., afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar á umsókn fyrirtækisins um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bak við bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði. Er þess krafist að skipulags- og mannvirkjanefnd verði gert að fallast á að tilvist gámsins sé til að geyma nauðsynlegt ljósleiðarefni og að geymsluhúsnæði fyrir atvinnustarfsemi í næsta nágrenni sé ekki í boði. Þá er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 18. nóvember 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 30. júlí 2020, sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir 20 feta geymslugám bakvið bílskúr að Mjallargötu 5, Ísafirði. Í umsókninni kom fram að gámurinn væri kominn á staðinn og hefði staðið þar skemur en í tvo mánuði.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 26. ágúst 2020 var umsókninni synjað og eftirfarandi bókað: „Skipulags- og mannvirkjanefnd hafnar umsókn á þeim forsendum að Mjallargata 5 er á hverfisvernduðu íbúðasvæði. Gámurinn skal fjarlægður fyrir 30. september 2020.“ Kæranda var tilkynnt um synjunina með tölvupóst 31. ágúst s.á.

Með bréfi, dags. 25. september 2020, óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið upp að nýju. Málið var tekið fyrir á fundi skipulag- og mannvirkjanefndar 28. október s.á. og bókað að nefndin stæði við fyrri ákvörðun.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að erindi hans hafi verið synjað „á þeim forsendum að Mjallargata 5 er á hverfisvernduðu íbúðasvæði.“ Það sé rangt að lóðin sé á íbúðasvæði, heldur sé um blandaða byggð að ræða. Hins vegar sé rétt að öll Eyri á Ísafirði sé undir hverfisvernd. Ákvæði í hverfisvernd taki á engan hátt til stöðuleyfa fyrir geymslugáma. Lóðir á sama götureit og Mjallargata 5 séu allar með húsnæði skráð sem atvinnuhúsnæði nema lóð kirkju kaþólska safnaðarins. Kærandi hafi brugðist við með því að reifa ástæður umsóknarinnar nánar og óska eftir endurupptöku fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd. Vísað hafi verið til þess m.a. að nefndin hafi látið farast fyrir að rannsaka málið nægilega áður en ákvörðun hafi verið tekin í því. Með síðari afgreiðslu sinni hafi skipulags- og mannvirkjanefnd kosið að líta fram hjá öllum skýringum kæranda án nokkurs rökstuðnings fyrir ákvörðun sinni sem hljóti að ganga í berhögg við lögmætisregluna. Þá felist í afgreiðslunni sú mismunum að hafnað hafi verið umsókninni um stöðuleyfi en öðrum umsækjendum í sambærilegri stöðu hafi verið veitt slíkt leyfi.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um endurupptöku 28. október 2020 hafi engin afstaða verið tekin til málsraka kæranda og afgreiðsla á erindinu hafi ekki verið rökstudd. Skipulags- og mannvirkjanefnd hafi vísað til ákvörðunar skipulagsfulltrúa en hvergi komi fram að sá hafi komið að ákvarðanatöku í málinu. Ranglega hafi verið fullyrt að kæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála myndi ekki fresta réttaráhrifum vegna synjunar stöðuleyfis.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hverfisvernd sé ekki sett fram í deiliskipulagi Eyrarinnar heldur sé hún sett fram í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 sem H8, bæði á þéttbýlisuppdrætti og greinargerð.

Kærandi vísi til þess að nefndin og bæjarráð hafi ekki gætt ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1998 um andmælarétt og hvorki verið kynnt kæruúrræði né kærufrestur. Bætt hafi verið úr þessu og erindi kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju með synjun á sömu forsendum. Almenn umræða hafi verið um efnið og það sé ekki ætlast til þess að menn séu með geymslugáma í íbúðar- og/eða blandaðri byggð. Að einhverju leyti hafi þó verið vikið frá þessu í þeim tilfellum þar sem hafi verið staðið að endurbótum á húsnæði og þurft að vera  með vinnu- og/eða kaffigám. Um sé að ræða blandaða byggð, ekki iðnaðar- og atvinnusvæði. Umræddur gámur sé ætlaður til geymslu á keflum og öðrum aðföngum er tengist fyrirtæki í rekstri. Henti húsnæði ekki undir rekstur fyrirtækis sé e.t.v. kominn tími til að finna hentugra húsnæði m.t.t. þess reksturs.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að blönduð byggð feli í sér atvinnurekstur og atvinnusvæði. Það fylgi atvinnurekstri að það geti komið upp tímabundinn verkefni í rekstrinum sem krefjist aukins geymslupláss. Ekki sé hægt að ætlast til þess að rekstraraðilar byggi nýtt húsnæði þegar þörf fyrir geymsluplássi sé tímabundin og/eða menn vili tryggja að lausafé utandyra hindri ekki snjómokstur eða koma í veg fyrir að hætta geti stafað af foktjóni vegna þess. Í þessu sambandi henti umræddur gámur mjög vel og hann standi í stæði sem beinlínis sé ætlað undir geymslugám. Því sé ekki svarað af stjórnvaldinu hvort þau geti bent á annan hentugan stað fyrir gáminn.

Kærandi hafi nýverið skipt um húsnæði og aukið fermetrafjölda starfsemi sinnar um ríflega 50%. Ekki sé borið við húsnæðisskorti, enda komi það málinu ekki við. Leysa hafi þurft úr því að lausafé utandyra fengi viðunandi geymslu og mögulegt hafi verið að leysa þá þörf með því að leigja tímabundið hentugt húsnæði, en það hafi ekki verið í boði. Því hafi verið ákveðið að nota geymslugám, enda hafi hann verið fullnægjandi úrræði og hefð hafi verið fyrir gám á sama stað. Málið hafi verið rætt við skipulagsfulltrúa áður en gámnum hafi verið komið fyrir og kynnt að þarna hefði áður staðið gámur. Hafi verið í gildi stefna um að ekki skyldi veita stöðuleyfi í blandaðri byggð hafi skipulagsfulltrúa borið þá þegar að uppfylla leiðbeingar-skyldu um slíkt.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Mælt er fyrir um setningu reglugerða á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki í 60. gr. þeirra og skulu skv. 9. tl. ákvæðisins m.a. vera í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa, kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er með stoð í lögunum, skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda, en hann er skv. skilgreiningu í 51. tl. í gr. 1.2.1. í reglugerðinni, það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur út eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerðinni. Eru það enda þeir aðilar sem veita byggingarleyfi skv. ákvæðum 9.-11. gr. mannvirkjalaga nema til staðar sé sérstök samþykkt skv. 7. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein er sveitarstjórn heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um útgáfu stöðuleyfis geti orðið án aðkomu byggingarfulltrúa, en auk þess er ekki í gildi samþykkt um afgreiðslur skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar sem sett hefur verið samkvæmt nefndu ákvæði.

Svo sem lýst er í málavöxtum tók skipulags- og mannvirkjanefnd á fundi sínum 26. ágúst 2020 ákvörðun um að synja umsókn kæranda um stöðuleyfi fyrir geymslugám og hafnaði því að endurupptaka málið á fundi 28. október s.á. Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið neina ákvörðun í málinu, en samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum falið það vald að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfi í hverju tilviki, eða eftir atvikum að synja um slíkt leyfi. Umsókn kæranda var því ekki afgreidd af þar til bæru stjórnvaldi. Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og verður hún því ekki borin undir úrskurðarnefndina fyrr en málið hefur verið til lykta leitt af þar til bærum aðila. Verður því ekki hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá nefndinni.

Í ljósi þess að umrædd umsókn kæranda hefur ekki fengið lögboðna lokaafgreiðslu hjá sveitarfélaginu þykir þó rétt að vekja athygli á því að dragist hún eftir uppkvaðningu úrskurðar þessa getur kærandi skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga kært óhæfilegan drátt á afgreiðslu umsóknar sinnar til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, en samkvæmt 59. gr. mannvirkjalaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

69/2020 Grásteinn

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 26. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 69/2020, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 14. maí 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Grástein.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur jarðarinnar Fagurhóls, Hellu, þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 14. maí 2020 að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Grástein. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 4. september 2020.

Málavextir: Með afsali, dags. 1. október 1996, eignuðust núverandi eigendur jarðarinnar Grá­steins 200,3 ha spildu úr jörðinni Snjallsteinshöfða II í fyrrum Landmannahreppi. Kærendur keyptu hluta þess lands með kaupsamningi og afsali, dags. 25. mars 2009, en land kærenda ber nú heitið Fagurhóll. Í kjölfar sölunnar deildu kærendur og eigendur jarðarinnar um mörk milli Grásteins og Fagurhóls, en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 562/2016 var leyst úr ágreiningi um landamerkin. Samkvæmt gögnum málsins hafa önnur dómsmál og ágreiningsmál verið rekin milli eigenda jarðanna, sem snerust öðrum þræði um veg eða vegstæði í óskiptri sameign eigendanna.

Með umsókn, dags. 3. október 2018, óskuðu eigendur jarðarinnar Grásteins eftir að unnið yrði deiliskipulag fyrir jörðina þar sem gert yrði ráð fyrir nýrri aðkomu fyrir Grástein ásamt því að byggingarreitir yrðu skilgreindir. Á fundi skipulagsnefndar 5. nóvember 2018 var fallist á að veita heimild til skipulagsgerðar og falla frá skipulagslýsingu þar sem skipulagsáætlun hefði ekki áhrif á stefnu aðalskipulags. Skipulagsnefnd lagði til á fundi sínum 11. mars 2019 að tillagan yrði auglýst. Eftir fundinn barst athugasemd frá kærendum til skipulags- og byggingar­fulltrúa þar sem gerðar voru athugasemdir við deiliskipulagstillöguna. Vísað var m.a. til þess að samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti væri  gert ráð fyrir aðkomu frá Árbæjarvegi. Tillagan tæki þannig til sameignarlands eigenda jarðanna Fagurhóls og Grásteins sem hefði orðið til með kaupsamningi 25. mars 2009. Af því leiddi að samþykki kærenda þyrfti til ef ætlunin væri að deiliskipuleggja sameignarlandið. Í framhaldi af því lagði skipulags- og byggingarfulltrúi til við sveitarstjórn að afgreiðslu sveitarstjórnar á viðkomandi erindi yrði frestað þar sem uppdráttur sá sem hafði verið samþykktur í skipulagsnefnd á fyrrgreindum fundi nefndarinnar 11. mars hefði verið rangur. Sveitarstjórn samþykkti að fresta afgreiðslu málsins á fundi sínum 14. s.m.

Á fundi skipulagsnefndar 19. ágúst 2019 var tekin fyrir uppfærð tillaga að deiliskipulagi Grásteins. Fallið var frá breytingu á aðkomu og vegur færður aftur í núverandi horf. Gert var ráð fyrir byggingarreitum fyrir þrjú íbúðarhús, hesthús og skemmu. Samþykkti skipulagsnefnd tillöguna og lagði til að hún yrði auglýst samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hinn 23. s.m. samþykkti byggðaráð, f.h. sveitarstjórnar, að auglýsa deiliskipulags­tillöguna og var hún kynnt á tímabilinu frá 28. ágúst til 9. október 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma frá kærendum. Að kynningu lokinni var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 14. nóvember 2019 þar sem fyrir lá umsögn skipulagsnefndar með tillögu að svari við framkominni athuga­semd. Samþykkti sveitarstjórn tillögu skipulagsnefndar um að senda auglýsta skipulagstillögu til Skipulags­stofnunar til afgreiðslu. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2019, sendi sveitarstjórn Skipulags­stofnun deiliskipulagstillöguna til lögboðinnar yfirferðar.

Skipulagsstofnun tilkynnti sveitarstjórn með bréfi, dags. 11. desember 2019, að hún gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem m.a. deiliskipulags­svæðið skaraðist við deiliskipulag Fagurhóls, en deiliskipulagssvæði mættu ekki skarast, sbr. gr. 5.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Jafnframt þyrfti að vera skýrt hvort skilmálar varðandi heimreið væru samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar. Einnig þyrfti að gera grein fyrir vegum sem kynnu að vera fyrirhugaðir innan jarðarinnar og sýna þá á uppdrætti. Þá þyrfti sveitarstjórn að svara efnislega athugasemdum sem borist hefðu varðandi sameiginlega heimreið og vegi innan jarðarinnar Grásteins.  Með tölvupósti 12. nóvember 2019 sendi Skipulags- og byggingarfulltrúi kærendum niðurstöðu skipulagsnefndar frá 11. s.m. þar sem upplýst var um bókun skipulags- og umferðarnefndar, en í bókuninni var m.a. áréttað að með samþykkt deiliskipulags­tillögu fyrir Grástein væri skipulags- og umferðarnefnd ekki að taka neina afstöðu til ágreinings aðila er snerti umræddan veg. Taldi nefndin að búið væri að bregðast við öllum framkomnum athugasemdum og lagði til að tillagan yrði send Skipulags­stofnun á ný til afgreiðslu.

Skipulagsnefnd tók erindið aftur fyrir á fundi 10. febrúar 2020 þar sem lögð var fram uppfærð tillaga og greinargerð þar sem búið væri að taka tillit til athugasemda og ábendinga. Var samþykkt „að leiðrétta afmörkun skipulagssvæðisins í deiliskipulagi Fagurhóls í samræmi við afmörkun deiliskipulags Grásteins“. Var og áréttað að framlagt deiliskipulag næði einungis að mörkum Grásteins. Bókaði nefndin að öðrum atriðum hefði verið fullnægt og lagði til að tillagan yrði send Skipulagsstofnun til endanlegrar afgreiðslu. Á fundi sveitarstjórnar 14. maí 2020 var skipulagstillagan samþykkt og bókað að tillaga væri um að sveitarstjórn, að teknu tilliti til meðfylgjandi álits frá lögmanni sveitarfélagsins, staðfesti niðurstöðu skipulagsnefndar frá fundi nefndarinnar 10. febrúar 2020. Þá var og bókað að af gefnu tilefni skyldi einnig áréttað að með deiliskipulagi Grásteins væri ekki verið að samþykkja að umdeildur vegur, sem væri í sameign Fagurhóls og Grásteins, skyldi hafa sérstakt veghelgunarsvæði. Var deiliskipulags­tillagan send Skipulags­stofnun 18. maí s.á. til lögboðinnar yfirferðar að nýju samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga og tilkynnti stofnunin í bréfi, dags. 10. júní s.á., að hún gerði ekki athuga­semd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júní 2020.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að með hinu umdeilda deiliskipulagi sé óskipt sameign landeigenda Grásteins og Fagurhóls í reynd skipulögð. Sé umrædd sameign aðila eina aðkoman að þeim íbúðarhúsum sem fram komi í hinu kærða deiliskipulagi. Í þessu felist veruleg einhliða aukning á afnotum og hagnýtingu hinnar óskiptu sameignar. Sé litið til eðlis sérstakrar sameignar sé meginreglan sú að allir sameigendur hafi sama rétt til að hagnýta sér sameignina. Hins vegar takmarkist slíkur hagnýtingarréttur m.a. við það hvort notkun eiganda sé öðrum sameigendum bagalaus. Sé um að ræða óvenjulegar eða meiriháttar ráðstafanir þurfi að koma til samþykki allra sameigenda fyrir ráðstöfun eignarinnar. Verði ekki annað talið en einhliða aukning umferðar af hálfu eigenda Grásteins um umrædda sameign, líkt og hið samþykkta deiliskipulag geri ráð fyrir, sé í reynd meiriháttar ráðstöfun. Þar sem ekki liggi fyrir samningur eigenda um ákvarðanatöku um sameignina gildi framangreind regla um samþykki allra eigenda um ákvörðun sem þessa.

Leiða megi af úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að deiliskipulag feli ekki í sér ákvörðun um merki eða breytingu á merkjum landareigna. Enn fremur liggi fyrir að nefndin telji sig ekki bæra að lögum til að skera úr um eignarréttarlegan ágreining. Þrátt fyrir að fallast megi á þessa afstöðu nefndarinnar um eðli skipulagsákvarðana verði í þessu tilliti að líta til þess hvaða réttarástand myndist í reynd með hinu umdeilda deiliskipulagi. Með ákvörðuninni hafi sveitarfélagið tekið meiriháttar ákvörðun sem telja verði óvenjulega um óskipta sameign. Slík ákvörðun þarfnist samþykkis allra eigenda. Með ákvörðun um nýtingu þessarar sameignar hafi kærendur í reynd verið sviptir eign sinni, sem njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.

Þá liggi fyrir að heimild landeigenda til að óska eftir við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á því samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé bundin við eigin landareign. Í því felist ekki heimild til að deiliskipuleggja landareign í óskiptri sameign ef samþykki annarra sameigenda liggi ekki fyrir. Þá sé ljóst að ekki hafi verið leitað eftir sjónarmiðum kærenda eða virk samvinna höfð við þá. Hafi það ekki samræmst ákvæðum 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga eða 1. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá liggi enn fremur fyrir að Fagurhóll liggi að mörkum hins deiliskipulagða svæðis, sbr. 3. mgr. gr. 5.2.1., sem leiða eigi til enn frekari samráðs.

Á fundi skipulagsnefndar 10. febrúar 2020 hafi verið lögð til leiðrétting á uppdrætti deili­skipulags fyrir Fagurhól. Hafi það verið skýrt svo að það væri gert svo gætt yrði samræmis milli deiliskipulagsáætlana Fagurhóls og Grásteins, enda hafi Skipulagsstofnun gert athuga­semd við að deiliskipulagssvæðið skaraðist við deiliskipulagssvæði Fagurhóls. Hafi þessi leiðrétting í reynd falið í sér breytingu á deiliskipulagi jarðar kærenda. Af 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga leiði að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi skuli fara um breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða. Í því felist að kynna þarf deiliskipulags­tillöguna fyrir íbúum sveitarfélagsins, auk þess sem auglýsa þurfi tillöguna með áberandi hætti og veita möguleika á að koma að athugasemdum. Það hafi ekki verið gert og leiði það til ógildingar hinnar kærðu stjórnvaldsákvörðunar. Hafi það verið mat sveitarstjórnar að um væri að ræða óverulega breytingu hafi verið skylt að láta fara fram grenndarkynningu. Verði af gögnum málsins ekki séð að það hafi verið gert.

Við skoðun málsins virðist sem ýmis gögn skorti, einkum er varði málsmeðferð á fyrri stigum málsins, s.s. svör sveitarfélagsins við athugasemdum kærenda. Eins og Skipulagsstofnun hefði komið að í umsögn sinni hafi sveitarstjórn borið að svara efnislega þeim athugasemdum sem borist hefðu. Það hafi ekki verið gert fyrr en í kjölfar fundar skipulagsnefndar 10. febrúar 2020. Í gögnum málsins hefði ekki verið að finna umsögn sveitarstjórnar, sem samkvæmt bókunum af fundi skipulags- og umferðarnefndar 10. febrúar 2020 hefði verið send hlutaðeigandi. Rétt sé að taka fram að ekki virðist hafa verið bætt úr þessum annmarka sem Skipulagsstofnun hefði bent á, þ.e. að senda bæri aðilum rökstudda umsögn. Þá sé ekki að sjá að síðari athugasemdum kærenda hafi verið svarað, þ.e. þeim er borist hafi skipulagsnefnd 12. febrúar 2020. Verði að telja það annmarka á málsmeðferð við staðfestingu deiliskipulagsins.

Málsrök Rangárþings ytra: Bæjaryfirvöld benda á að samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarstjórn víðtækt vald í skipulagsmálum innan marka sveitarfélags. Í 1. mgr. 38. gr. laganna sé kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags. Samkvæmt því heyri það undir hana að samþykkja deiliskipulag endanlega, sbr. 40. til 42. gr. laganna, og gildi hið sama um breytingar á slíku skipulagi, sbr. 43. gr. Áréttað sé að skipulags­vald sveitarfélaga gildi óháð eignarhaldi lands. Því sé hafnað að með samþykki nýs deili­skipulags fyrir Grástein hafi verið brotið í bága við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Af hálfu kærenda sé því haldið fram að hið nýja deiliskipulag feli í sér aukinn umferðarrétt og þar sé að finna afstöðu til eignarréttarlegra álitaefna. Þessu sé sérsaklega hafnað. Eignarhald kærenda að jörðinni Fagurhóli byggist á þinglýstum kaupsamningi frá 25. mars 2009. Í 2. mgr. samningsins segi frá vegi sem liggi frá Árbæjarvegi að mælipunkti p17, sem samkvæmt mælingu sé 6.756 m, og sé sameiginleg eign aðila. Því liggi fyrir einkaréttarlegur samningur aðila um að umrætt svæði sé vegstæði í óskiptri sameign. Sveitarfélagið byggi á því að ekkert sé óeðlilegt við að hinn umdeildi vegur sé sýndur á skipulagsuppdrætti deiliskipulagsins. Tilvist vegarins sé ekki byggð á því deiliskipulagi sem hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 14. maí 2020. Vegurinn hafi lengi verið til staðar og um hann gildi einkaréttarlegir samningar aðila. Það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að taka afstöðu til inntaks umferðarréttar um vegstæðið. Um þetta hafi skýrlega verið bókað á fundi skipulags- og umferðarnefndar 14. febrúar 2020.

Því sé mótmælt að í samþykkt hins umdeilda deiliskipulags felist aukning á afnotum og hagnýtingu sameignar. Einungis hafi verið sýndur á uppdrætti sá vegur sem lengi hafi verið til staðar og sé óumdeilanlega í óskiptri sameign beggja jarðanna á grundvelli þinglýsts samnings. Áréttað sé að með deiliskipulaginu sé ekki verið að gera breytingu á „landnotkun“ umrædds vegar.

Deiliskipulag Fagurhóls standi óhaggað en á hinn bóginn hafi Skipulagsstofnun gert athuga­semd við tillögu að deiliskipulagsuppdrætti fyrir Grástein. Ástæðan hafi verið lítilsháttar skörun á deiliskipulags­svæði Fagurhóls annars vegar og Grásteins hins vegar. Hafi sveitarfélagið verið með því að bregðast við athugasemd Skipulagsstofnunar. Sé því algerlega hafnað að með þessu hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi Fagurhóls og að fara hafi þurft með þá breytingu eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða. Minnt sé á að Hæstiréttur Íslands hafi leyst úr ágreiningi um mörk Fagurhóls og Grásteins með dómi sínum 12. október 2017, í máli nr. 562/2016. Eðli máls samkvæmt ráðist deiliskipulagsmörk af þeirri niðurstöðu.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að sveitarfélagið leyfi sér að fullyrða ranglega að með hinu umdeilda skipulagi sé ekki verið að gera neina breytingu á „landnotkun“ umrædds vegar. Landið hafi verið í sameign aðila frá árinu 1995, enda þótt aðilar hafi gert kaupsamning sín á milli árið 2009. Hið umdeilda deiliskipulag fyrir Grástein geri ráð fyrir að heimilt sé að byggja tvö hús innan byggingarreita B2 og B4. Auk þess geri það ráð fyrir að byggja megi skemmu á reit B3, sem geti verið allt að 500 m² að flatarmáli. Tekið sé fram að bygging slíkra mannvirkja, líkt og deiliskipulagið geri ráð fyrir, hafi í för með sér ráðstöfun á eign kærenda þar sem umferðarréttur um veg kærenda sé nauðsynlegur svo unnt sé að hafa aðkomu að þeim fasteignum sem deiliskipulagið geri ráð fyrir. Ekki sé annar vegur að umræddu deiliskipulagssvæði en sá vegur sem sé í óskiptri sameign kærenda og íbúa að Grásteini. Sé þannig engum vafa undirorpið að hið kærða deiliskipulag taki til stjórnarskrár­varinnar eignar kærenda þar sem forsenda þess grundvallist á því að nýttur sé umferðarréttur um eign kærenda. Sé öllum fullyrðingum sveitarfélagsins um annað hafnað sem rökleysu.

Við gerð deiliskipulagsins hafi hvorki verið aflað samþykkis kærenda um að láta eign sína af hendi né gert samkomulag sem heimili öðrum umferðarrétt um eign þeirra. Þá hafi heldur ekki verið gripið til eignarnáms, svo sem lög mæli fyrir um. Þar sem ekkert af framangreindu hafi legið fyrir áður en deiliskipulagið hafi verið samþykkt sé ákvörðun sveitarfélagsins ólögmæt. Að öllu óbreyttu hafi umdeilt deiliskipulag í för með sér bótaskylda háttsemi af hálfu sveitarfélagsins gagnvart kærendum.

Í athugasemdum sveitarfélagsins sé ranglega fullyrt að það hafi svarað athugasemdum kærenda í sérstökum bókunum þegar málið hafi verið til afgreiðslu hjá skipulags- og umferðarnefnd og  sveitarstjórn. Tekið skuli fram að kærendur kannist ekki við að hafa fengið skrifleg svör frá sveitarfélaginu vegna athugasemda þeirra við meðferð málsins. Þá sé og ljóst að kærendur hafi enn ekki fengið öll gögn málsins. Veigamesta brot sveitarfélagsins á upplýsinga- og andmæla­rétti snúi að því að meina kærendum aðgang að minnisblaði lögmanns sveitarfélagsins, dags. 12. mars 2020, sem hafi verið grundvallarskjal við töku ákvörðunar sveitarfélagsins 14. maí s.á. Þessi annmarki einn og sér valdi ógildingu ákvörðunar sveitarfélagsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulags fyrir jörðina Grástein í Rangárþingi ytra. Er einkum deilt um málsmeðferð deiliskipulagstillögurnar og ætlaða aukna umferð um veg í sameign jarðanna, sem er aðkoma frístundasvæðis í landi Fagurhóls og jarðarinnar Grásteins.

Í Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2016-2028 er tilgreind landnotkun umrædds svæðis landbúnaður. Þar kemur m.a. fram sú stefna að áfram verði stuðlað að eðlilegri sambúð landbúnaðar og annarrar byggðar. Jafnframt eru þar tilgreindar nokkrar leiðir til að ná fram þeirri stefnu, m.a. með því að heimila byggingu stakra íbúðarhúsa, ef aðstæður leyfi, sem ekki tengist búrekstri. Nýjar byggingar skuli að jafnaði reistar í tengslum við núverandi byggð til að nýta sem best þau grunnkerfi sem fyrir séu og skuli þær taka mið af yfirbragði byggðar á landbúnaðarsvæðum. Þá er og tiltekið í kafla 2.1.1. um mannvirki í aðalskipulaginu að utan þéttbýlis og skilgreindra íbúðarsvæða skuli halda í dreifbýlisyfirbragð sveitarfélags, þ.e. ekki vera með samfellda byggð eða götumynd, s.s. húsaröð, par- og raðhús eða litlar samliggjandi lóðir. Afmarkar hið kærða deiliskipulag byggingarreiti þar sem heimilt verður að reisa íbúðarhús, hesthús og skemmu. Samkvæmt greinargerð skipulagsins skal mænis­stefna­ vera frjáls en gæta skal að innbyrðis samræmi. Jafnframt segir að efnisval skuli vera vandað og að vanda skuli frágang bygginga, bílastæða og lóða. Fer ­hið kærða deiliskipulag samkvæmt framan­greindu ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, svo sem áskilið er í 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana því uppfyllt.

Umrætt deiliskipulag var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð um auglýsingu og samþykkt deiliskipulags skv. 1. mgr. 41. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga ásamt samantekt um málsmeðferð og athugasemdir var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Með bréfi, dags. 11. desember 2019, gerði Skipulagsstofnun athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda, þar sem deiliskipulags­svæðið skaraðist við deiliskipulagssvæði Fagurhóls og að sveitarstjórn þyrfti að svara efnislega athugasemd sem borist hefði. Skyldi umsögn sveitarstjórnar vera skrifleg og rökstudd og þar koma fram með hvað hætti brugðist hefði verið við athugasemdum ásamt upplýsingum um kæruheimildir. Sveitarfélagið sendi með erindi, dags. 18. maí 2020, deiliskipulagið til yfirferðar Skipulags­stofnunar að nýju. Jafnframt voru kærendur upplýstir með tölvupósti 19. s.m. um samþykkt sveitarstjórnar á deiliskipulaginu 14. s.m. Meðfylgjandi erindinu var minnisblað lögmanns til sveitarfélagsins, dags. 12. mars 2020, og afrit greinargerðar deiliskipulagsins með uppdrætti. Skipulagsstofnun tilkynnti í bréfi, dags. 10. júní s.á., að hún gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Deiliskipulagið öðlaðist svo gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærendur, sem eigendur jarðarinnar Fagurhóls, og eigendur jarðarinnar Grásteins hafa deilt um vegstæði sem liggur á mörkum jarðanna tveggja, en vegstæðið er í sameiginlegri eigu þeirra. Bera kærendur því m.a. við að með hinni kærðu ákvörðun hafi sveitarfélagið tekið meiriháttar ákvörðun sem telja verði óvenjulega um óskipta sameign, en slík ákvörðun þarfnist samþykkis allra eigenda. Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal í skipulagsáætlunum m.a. taka afstöðu til samgangna í samræmi við markmið laganna. Þá er tekið fram í a-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að við deiliskipulag svæða í þéttbýli og í dreifbýli skuli eftir atvikum gera grein fyrir því samgöngukerfi sem fyrir sé og fyrirhugað er skv. aðalskipulagi. Gera skuli grein fyrir frekari stefnumörkun varðandi útfærslu gatnakerfis eftir því sem við eigi.

Verður að telja að tilgreining umrædds vegar á uppdrætti hins kærða deiliskipulags hafi ekki falið annað og meira í sér en að sveitarstjórn hafi framfylgt framangreindum ákvæðum skipulags­laga og reglugerðar um framsetningu deiliskipulags. Þá skal tekið fram að eignarréttarlegur ágreiningur, svo sem um óskipta sameign, heyrir ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla. Rétt þykir jafnframt að benda á að deiliskipulag getur ekki hróflað við eða ráðstafað eignarréttindum manna nema að undangengnum samningi eða eftir atvikum eignarnámi, séu talin skilyrði til þess.

Að öllu framangreindu virtu þykir hið kærða deiliskipulag ekki haldið þeim form- eða efnis­annmörkum sem leitt geta til ógildingar þess og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 14. maí 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir jörðina Grástein.

28/2020 Steinhella

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 28/2020, kæra á álagningu stöðuleyfisgjalds vegna gáma á lóðinni Steinhellu 5, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. apríl 2020, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Tæknimál ehf. álagningu stöðuleyfisgjalds að fjárhæð kr. 52.046 vegna gáma á lóðinni að Steinhellu 5. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða álagning verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Hafnarfjarðarbæ að endurgreiða kæranda sömu fjárhæð, en greiðslan hafi verið innt af hendi 23. mars 2020 með fyrirvara um endurgreiðslu. Til vara er þess krafist að fjárhæðin verði lækkuð.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 20. maí 2020.

Málsatvik: Með bréfi, dags. 6. apríl 2016, var kæranda tilkynnt að Hafnarfjarðarbær hefði ákveðið að taka upp það verklag að innheimta stöðugjöld af gámum samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og reglum um stöðuleyfi, sem samþykktar hefðu verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 20. janúar 2016. Gjaldið væri til eins árs og væri fyrsta gjaldtímabilið frá 1. maí 2016 til 31. apríl 2017. Samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfirði frá 4. janúar 2016 væri gjaldið kr. 31.780 vegna 20 feta gáms eða minni og kr. 63.559 vegna 40 feta gáms eða minni. Þeir lóðarhafar sem væru með gáma á lóðum sínum þyrftu að sækja um stöðuleyfi og fengju þeir sem sæktu um fyrir 15. maí 2016 10% afslátt af gjöldum. Fullt gjald yrði innheimt af öllum leyfisskyldum gámum eftir þann tíma. Þetta ætti við um alla lóðarhafa nema þá sem væru með skilgreint gámasvæði samkvæmt skipulagi. Gjaldið væri innheimt fyrir gáma sem stæðu lengur en í tvo mánuði í senn.

Nokkrir aðilar sem Hafnarfjarðarbær hafði lagt á stöðuleyfisgjald og hótað beitingu dagsekta sem þvingunarúrræði sendu áskorun, dags. 21. mars 2017, til Hafnarfjarðarbæjar um að fella niður hina ólögmætu innheimtu en skora þess í stað á eigendur gáma sem stæðu á atvinnulóðum að sækja um leyfi fyrir þá, eins og lög og reglugerð gerðu ráð fyrir. Fyrir hvert leyfi sem gefið yrði út fyrir hverja lóð fyrir sig skyldi þá innheimt gjald án tillits til fjölda þeirra gáma sem leyfið næði til og gjaldið tæki mið af raunverulegum kostnaði bæjarins við útgáfu leyfisins.

Hinn 18. febrúar 2019 sendi Hafnarfjarðarbær bréf til kæranda þar sem fram kom að bærinn innheimti gjald fyrir útgáfu stöðuleyfa fyrir gámum samkvæmt 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og reglur um stöðuleyfi sem samþykktar hefðu verið í bæjarstjórn 12. desember 2018. Samkvæmt gr. 2.6.1. væri skylt að sækja um stöðuleyfi ef láta ætti gám/gáma standa lengur en tvo mánuði innan lóðar. Stöðuleyfi væri veitt að hámarki til eins árs í senn. Með umsókn ættu að fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg væru til að sýna staðsetningu og gerð gáma. Mælt væri með því að merkja gáma inn á afstöðumynd fasteignar, sem nálgast mætti á kortavef Hafnarfjarðarbæjar. Staðsetja skyldi gáma þannig að almenningi stafaði ekki hætta af. Samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðar væri gjaldið fyrir útgáfu stöðuleyfis kr. 33.838 fyrir einn gám á hvern eiganda. Ef sótt væri um stöðuleyfi fyrir fleiri en einum gámi í hans eigu væri gjaldið kr. 16.576 umfram fyrsta gáminn. Sérstök athygli væri vakin á því að ef ekki yrði brugðist við ofangreindri áskorun innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi Hafnarfjarðarbær fjarlægja gáminn/gámana af lóðinni á kostnað eiganda, sbr. gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð. Hafnarfjarðarbær sendi aftur bréf til kæranda, dags. 3. júní 2019, þar sem skorað var á hann sem eiganda að sækja um stöðuleyfi eða fjarlægja gám á lóð hans. Var tekið fram að yrði tilmælunum ekki sinnt myndi byggingarfulltrúi taka ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Gæti sú ákvörðun falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað eigenda eða beitingu dagsekta.

Með bréfi, dags. 19. desember 2019, var kæranda tilkynnt að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 12. desember 2019 hefði verið ákveðið að eigendum gáma sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir yrði sent bréf og bent á að sækja þyrfti um stöðuleyfi eða fjarlægja þá gáma sem væru án stöðuleyfa og að dagsektir yrðu lagðar á ef ekki yrði brugðist við. Dagsektir að upphæð kr. 20.000 yrðu lagðar á eigendur gáma sem ekki hefðu sótt um stöðuleyfi frá og með 30. desember 2019. Kærandi fékk reikning með bókunardegi 31. desember 2019 að fjárhæð kr. 40.000 en í skýringum kom fram að þetta væru dagsektir vegna tveggja gáma sem ekki hefði verið sótt um stöðuleyfi fyrir. Tveimur vikum seinna, þ.e. 15. janúar 2020, fékk kærandi samskonar reikning að fjárhæð kr. 300.000. Birtist slíkur reikningur síðan á tveggja vikna fresti eftir það, a.m.k. til 29. febrúar s.á.

Kærandi sendi bréf til Hafnarfjarðarbæjar, dags. 13. janúar 2020, vegna dagsektarkrafna í heimabanka að upphæð kr. 300.000 með gjalddaga 15. janúar 2020 en eindaga 30. s.m. Óskað var eftir skýringum á innheimtunni og tekið fram að ef hún tengdist umræðu um stöðuleyfi hefði kærandi ekki fengið neinar upplýsingar um fyrrnefnt gjald. Hann mótmælti því einnig harðlega að bærinn væri að íþyngja fyrirtæki sem notaði tvo gáma tímabundið til að geyma hluti í. Bærinn væri að framkvæma ólöglegan gjörning og gjaldtöku og gæti ekki skýlt sér bak við grein 2.6.1. í byggingarreglugerð um stöðuleyfi þar sem ekki kæmi þar fram að greiða skyldi fyrir stöðuleyfi. Í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem fjallaði um gjaldskrá vegna byggingareftirlits byggingarfulltrúa, væri nefnt að sveitarstjórnum væri heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, meðal annars útgáfu stöðuleyfa. Þá segði að upphæð gjalds skyldi taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd væru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggðist á. Gjaldið mætti ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrána bæri að birta í B-deild Stjórnartíðinda. Kærandi óskaði því eftir því að byggingarfulltrúi leggði fram rökstudda greinagerð þar sem fram kæmi á hvaða forsendum gjaldið byggði og hvar í lögunum heimild væri til að leggja á dagsektir við því að sækja ekki um stöðuleyfi. Þá óskaði hann eftir því að fjárhæð dagsekta yrði rökstudd og upplýst um hvernig staðið yrði að fullnustu þeirra þegar þær væru komnar langt umfram virði umræddra gáma. Kom síðan fram að kærandi myndi ekki sækja um stöðuleyfi fyrr en umrædd greinagerð hefði verið lögð fram. Þar sem ekkert svar hafði borist sendi kærandi annað bréf, dags. 31. janúar 2020, en þá voru komnar í heimabanka hans þrjár kröfur að fjárhæð samtals kr. 640.000. Í bréfinu var áréttað að það væri mat kæranda að aðgerðir byggingarfulltrúa væru ólöglegar. Þvingunarúrræði Hafnarfjarðarbæjar þyrftu að hafa skýrar heimildir í lögum til að hægt væri að beita þeim án aðkomu dómstóla.

Kærandi sótti um stöðuleyfi 4. mars 2020 fyrir tveimur 20 feta gámum og 23. s.m. greiddi hann reikning frá Hafnarfjarðarbæ samtals að fjárhæð kr. 52.046. Samkvæmt tölvupósti frá lögmanni kæranda sem sendur var sama dag til Hafnarfjarðarbæjar var greiðslan innt af hendi með fyrirvara um lögmæti gjaldtökunnar, sem næði til þess hvort gjaldskrá og gjaldtaka bæjarfélagsins stæðist ákvæði mannvirkjalaga og laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Áskilinn væri réttur til að endurheimta greiðsluna yrði gjaldtakan metin röng eða ólögmæt.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að þegar hann hafi keypt eignarhluta sinn í Steinhellu 5 árið 2012 hafi lóðin þegar verið frágengin og malbikuð. Hafi verið mælt fyrir svæðum fyrir geymslurými á lóðinni og þau afmörkuð með línum, líkt og gert sé með bílastæði. Eign kæranda sé í öðrum enda hússins og við gaflinn sé merkt fyrir gámastæði sem kærandi hafi frá upphafi nýtt fyrir tvo geymslugáma þar sem geymd séu áhöld og efni sem ekki séu í notkun hverju sinni.

Kærandi byggi kröfu sína á því að hið álagða gjald sé of hátt og feli í raun í sér skattheimtu sem eigi sér ekki stoð í lögum. Sé gjaldið því í andstöðu við 77. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, sem skilgreini með tæmandi hætti hvernig sveitarfélög megi afla sér tekna.

Í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki séu ákvæði sem heimili sveitarstjórnum að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu byggingarfulltrúa. Meðal þeirra þjónustuverkefna sem þeim sé heimilað að heimta gjald fyrir sé útgáfa stöðuleyfa fyrir gáma. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Tekið sé fram að gjaldið megi ekki vera hærra en sem nemi kostnaðinum við að veita umbeðna þjónustu og að gjaldskrána skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hafi Hafnarfjarðarbær ekki fengist til að afhenda rekstraráætlun þá sem gjaldskrá hans byggist á, eins og fyrir sé lagt í 51. gr. mannvirkjalaga. Gjaldskráin byggist því ekki á lögmætum grunni og beri að víkja henni til hliðar. Engin leið sé að gera sér grein fyrir því hvort gjaldskráin sé byggð á réttum grunni nema rekstraráætlun, sem tilgreini þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á, liggi fyrir og sé opinber. Ef litið sé til sögu gjaldtöku Hafnarfjarðarbæjar megi álykta að fjárhæð gjaldsins sé ákveðin á grundvelli huglægs mats en ekki ígrundaðrar rekstraráætlunar. Eina sundurliðunin eða skýringin á fjárhæð þóknunar hafi fengist með óformlegum hætti frá byggingarfulltrúa, sem hafi ekki staðist neina skoðun. Hvergi sé í mannvirkjalögum fjallað um eftirlitsstarfsemi á vegum sveitarfélaga á þessu sviði og því síður sé þar að finna heimild til að innheimta gjald af lóðarhöfum til að standa straum af slíkri starfsemi. Engin skynsamleg rök styðji heldur að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar þurfi að inna svo mikla vinnu af hendi við útgáfu stöðuleyfis, enda beri hjálagt leyfisskírteini ekkert slíkt til kynna. Aðalatriðið sé þó að engin rök séu færð, hvorki fyrir þóknuninni né vinnuframlaginu, sem eigi síðan að tengjast hverjum og einum gámi sem finnist á viðkomandi lóð.

Hafnarfjarðarbæ skorti heimild að lögum til að innheimta sérstakt stöðuleyfi fyrir hvern og einn gám í eigu kæranda. Af orðalagi gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð sé ljóst að eigandi eða ábyrgðarmaður gáma þurfi aðeins að sækja um eitt stöðuleyfi, óháð fjölda gáma. Þannig sé talað um stöðuleyfi í eintölu en lausafjármuni í fleirtölu. Í 3. málsl. 3. gr. reglugerðarinnar segi til að mynda að handhafi stöðuleyfis sé ábyrgur fyrir því að ekki skapist hætta vegna lausafjármuna og sé leyfisveitanda heimilt að krefja eiganda um gögn og rökstuðning þar að lútandi. Engin rök styðji það að kostnaður Hafnarfjarðarbæjar við útgáfu stöðuleyfis aukist í takt við fjölda gáma á tiltekinni lóð. Fyrir liggi að Hafnarfjarðarbær hafi einungis gefið út eitt leyfi og ekki verði ráðið að umfang þjónustu Hafnarfjarðarbæjar hafi verið meira eingöngu fyrir þær sakir að það sé vegna tveggja gáma en ekki eins. Aftur styðji þetta þá niðurstöðu að Hafnarfjarðarbær líti fremur á gjaldtöku vegna útgáfu stöðuleyfa sem tekjulind en þóknun vegna veittrar þjónustu. Þetta fari gegn skýrum fyrirmælum 51. gr. mannvirkjalaga. Í þeim leiðbeiningum sem Mannvirkjastofnun hafi gefið út sé áréttað að gjaldtaka vegna útgáfu stöðuleyfa skuli vera óháð fjölda þeirra gáma sem leyfið nái til. Því liggi fyrir afstaða stofnunarinnar til þess hvernig eigi að túlka ákvæði mannvirkjalaga um þessi atriði, enda samræmist hún orðalagi ákvæðisins og inntaki þess. Hafi það verið ætlun löggjafans að sveitarfélög innheimtu stöðugjöld vegna gáma á einstökum lóðum eftir fjölda þeirra eða stærð hefði verið kveðið skýrt á um það í lögunum sjálfum. Það sé ekki á valdi sveitarstjórna að túlka ákvæði 51. gr. með þessum hætti til íþyngingar fyrir lóðarhafa og eigendur gáma í bænum. Ákvörðun og álagning þessara gjalda á kæranda sé því meingölluð og andstæð bæði lögum og ríkjandi sjónarmiðum í íslenskum stjórnsýslurétti.

Varakrafa kæranda um lækkun krafna Hafnarfjarðarbæjar byggist á þeim sömu sjónarmiðum og að framan séu rakin. Einungis eitt leyfi hafi verið gefið út og Hafnarfjarðarbæ sé eingöngu heimilt að heimta eðlilegt gjald í samræmi við kostnað sinn við útgáfu þess leyfis. Engin gögn séu til sem geri kæranda kleift að meta hver eðlilegur kostnaður bæjarins hafi verið við útgáfu leyfisins. Því hljóti varakrafa hans að vera sú að gjaldið verði að álitum lækkað til samræmis við það sem nefndin meti eðlilegt gjald fyrir útgáfu eins leyfis.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er bent á að samkvæmt 9. tölul. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli í reglugerð meðal annars kveðið á um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað sé að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Skuli þar kveðið á um atriði sem varði öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki séu uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 komi fram að sækja skuli um stöðuleyfi til leyfisveitanda til þess að láta m.a. gáma standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu þeirra. Umsókn skuli vera skrifleg og henni meðal annars fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi gámsins. Stöðuleyfi skuli ekki veitt til lengri tíma en 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað. Í gr. 2.6.2. sé síðan fjallað um heimild leyfisveitanda til að fjarlægja þá lausafjármuni sem getið sé um í gr. 2.6.1., m.a. gáma.

Hafnarfjarðarbær hafi sett sérstakar reglur um stöðuleyfi, sem hafi verið samþykktar síðast í bæjarstjórn 12. desember 2018. Þar komi m.a. fram að sækja verði um stöðuleyfi til byggingarfulltrúa ef lausafjármunir eigi að standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem þeim sé ætlað samkvæmt skipulagi og vísað til gr. 2.6.1. í byggingarreglugerðinni og 9. tölul. 60. gr. mannvirkjalaga. Sérstaklega sé tekið fram að með skipulögðu svæði sé átt við svæði sem samkvæmt deiliskipulagi eigi að vera gámasvæði. Hvorki sé í mannvirkjalögum né byggingarreglugerð skilgreint hvað sé átt við með „skipulögðu svæði“. Í samræmi við almenna hugtakanotkun í mannvirkjalögum, byggingarreglugerð og skipulagslögum nr. 123/2010 verði þó að miða við að átt sé við svæði sem hafi verið sérstaklega skipulögð, skilgreind eða afmörkuð sem gámasvæði í deiliskipulagi og eftir atvikum einnig í aðalskipulagi. Þessu til stuðnings sé í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð gert ráð fyrir að með umsókn um stöðuleyfi fylgi uppdrættir þar sem gerð sé grein fyrir staðsetningu leyfisskylds gáms á lóðinni. Ákvæði byggingarreglugerðar geri því ekki ráð fyrir að staðsetning gáma sem sýnd sé á aðaluppdrætti einum saman uppfylli skilyrði um að teljast svæði sem sé sérstaklega skipulagt og ætlað til geymslu gáma. Því verði að ganga út frá því að meginreglan sé að ef tiltekið svæði sé ekki skipulagt, skilgreint eða afmarkað sem geymslusvæði, gámasvæði eða álíka í deiliskipulagi, og þar séu geymdir eða geyma eigi einhvern af þeim lausafjármunum sem taldir séu upp í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð, t.d. gám, lengur en í tvo mánuði, þá sé fyrir hendi skylda til að sækja um stöðuleyfi. Að þessu virtu hafi Hafnarfjarðarbær áréttað að ætli aðili að staðsetja gáma utan svæðis sem sérstaklega sé skipulagt og ætlað til geymslu slíkra lausafjármuna beri honum að sækja um stöðuleyfi eigi gámurinn að standa þar lengur en tvo mánuði.

Skylda til að sækja um stöðuleyfi hvíli réttilega á eiganda eða umráðamanni viðkomandi lausafjármunar en hins vegar sé skýrt samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð að með umsókn skuli fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunirnir standi á. Samkvæmt gr. 2.6.2. í byggingarreglugerð sé svo að finna heimild byggingarfulltrúa til að fjarlægja gám sem staðsettur sé á lóð án stöðuleyfis eða krefja eiganda um að hann fjarlægi gáminn. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð sé byggingarfulltrúa einnig heimilt að beita dagsektum til þvingunar í slíkum málum. Þá sé skýrt samkvæmt 4. mgr. 56. gr. nefndra laga að dagsektir og kostnað megi innheimta með fjárnámi og hafi sveitarfélagið m.a. lögveð í þeirri lóð sem gámur standi á fyrir kröfu sinni. Því sé ljóst að skyldur eiganda gáms og lóðarhafa fari saman og ekki sé hægt að slíta þær í sundur með þeim hætti sem kærandi leggi upp með í kæru. Þá beri lóðarhafi ábyrgð á sinni fasteign og tilheyrandi lóð, s.s. í samræmi við almennar skaðabótareglur og ákvæði í lóðarleigusamningum. Byggingarfulltrúa sé heimilt að beita þvingunarúrræðum gagnvart eigendum gáma sem staðsettir séu innan lóðar án stöðuleyfis og felist sú þvingun í því að eigendum beri að fjarlægja gám ella eiga á hættu að fá lagðar á sig dagsektir.

Samkvæmt 2. gr. í fyrrnefndum reglum Hafnarfjarðarbæjar um stöðuleyfi skuli innheimta gjald fyrir hvern gám (lausafjármun) samkvæmt gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfirði. Samkvæmt gildandi gjaldskrá sé gjald fyrir stöðuleyfi árið 2020 kr. 34.933 fyrir fyrsta gám (lausafjármun) og kr. 17.113 vegna stöðuleyfis fyrir gám (lausafjármun) umfram þann fyrsta. Upphæð gjaldsins taki í fyrsta lagi mið af kostnaði vegna móttöku og umfjöllunar um innsenda umsókn um stöðuleyfi. Fara þurfi yfir umsóknir í samræmi við gr. 2.6.1. í gildandi byggingarreglugerð, s.s. yfirfara uppdrætti og staðsetningu gámsins sem um ræði. Gjald fyrir þennan hluta sé kr. 11.138. Þá sé gert ráð fyrir kostnaði vegna eftirlits við framfylgd útgefinna stöðuleyfa, m.a. eftirlits við að handhafi stöðuleyfis uppfylli þær kröfur sem fram komi í gr. 2.6.1., sbr. kröfu í 2. mgr. gr. 2.6.2. Það sé skylda byggingarfulltrúa að sinna slíku eftirliti, sbr. gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð. Í rekstraráætlun sé gert ráð fyrir að slíkt eftirlit fari almennt fram einu sinni í mánuði og feli þá í sér athugun á staðnum. Gert sé ráð fyrir tveimur tímum í vinnu starfsmanns við eftirlitið á hvert stöðuleyfi. Gjald fyrir þennan hluta sé því kr. 23.795. Framangreindur kostnaður sé eðli málsins samkvæmt lágmarkaður vegna stöðuleyfis fyrir gáma umfram þann fyrsta þótt ljóst sé að kostnaður við móttöku umsóknar og það sem því fylgi falli til vegna annars gáms. Hér skuli þó áréttað að endanlegur raunkostnaður sveitarfélagsins vegna stöðuleyfis fyrir gáma umfram þann fyrsta kunni þó að verða hærri í einhverjum tilvikum en sem nemi upphæð gjaldsins. Sé stöðuleyfi veitt fyrir viðbótargámi eða gámum, nokkru eftir að stöðuleyfi hafi verið veitt fyrir fyrsta gáminn, færi hagræðingin af því að sinna eftirliti með fleiri en einum gámi á viðkomandi lóð. Þrátt fyrir þessa staðreynd þá myndi sveitarfélagið innheimta lágmarksupphæð fyrir eftirlit vegna þeirra gáma og væri gjaldið því lægra en fyrir fyrsta gám.

Reglurnar geri ráð fyrir að eigandi eða umráðamaður gáms sæki um stöðuleyfi með samþykki eiganda lóðar. Samkvæmt þessu sé ljóst að einn eða fleiri ótengdir aðilar geti sótt um stöðuleyfi fyrir gámi/gámum á sömu lóðinni, þ.e. allt með samþykki lóðarhafa. Hafnarfjarðarbær mótmæli þeirri afstöðu sem m.a. komi fram í leiðbeiningum Mannvirkjastofnunar og kærandi vísi til. Eins og fram komi í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð þurfi sérstaklega að taka tillit til öryggissjónarmiða og hollustuhátta við mat á umsóknum og útgáfu stöðuleyfa. Það eigi við um hvern gám sem leyfi sé veitt fyrir. Ef leyfi yrði veitt með einu gjaldi óháð fjölda lausafjármuna á lóð þá sé augljóst að töluvert erfiðara, ef ekki vonlaust, væri að uppfylla þær skyldur.

Tekjur og kostnaður sveitarfélagsins vegna stöðuleyfa séu eftirfarandi:

Niðurstaða: Byggingarreglugerð nr. 112/2012 er sett með stoð í lögum nr. 160/2010 um mannvirki og er í reglugerðinni m.a. kveðið á um stöðuleyfi í kafla 2.6., sbr. 9. tl. 60. gr. nefndra laga. Um veitingu stöðuleyfis segir í gr. 2.6.1. að ef lausafjármunum sem upptaldir séu í ákvæðinu sé ætlað að standa í lengri tíma en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra muna skuli sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda. Umsókn um stöðuleyfi skuli vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og eigi henni að fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað sé að lausafjármunir standi á. Þá skuli í umsókn gera grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis og henni eigi að fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausafjármuna. Í gr. 2.6.2. er fjallað um heimild leyfisveitanda til að fjarlægja lausafjármuni. Skal leyfisveitandi krefja eiganda um að fjarlægja lausafjármun sem er án stöðuleyfis innan eðlilegs frests, þó aldrei lengri frests en eins mánaðar, að öðrum kosti verði það gert á kostnað eiganda. Samkvæmt því sem fram hefur komið er forsenda þess að eigandi stöðuleyfisskylds lausafjármunar fái útgefið stöðuleyfi að hann sæki um slíkt leyfi til leyfisveitanda og skili inn ákveðnum gögnum. Geri hann það ekki á leyfisveitandi þess kost að krefja eigandann um að fjarlægja hlutinn eða að öðrum kosti getur hann gert það á kostnað hans.

Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að leggja á stöðuleyfisgjald vegna tveggja gáma kæranda á lóðinni Steinhellu 5, en kærandi er eigandi eins af 14 matshlutum hússins sem þar stendur. Sótti kærandi um stöðuleyfi vegna gámanna í kjölfar þess að hann var beittur dagsektum, en þau þvingunarúrræði eru ekki til skoðunar í máli þessu heldur gjald það sem innheimt var vegna útgáfu stöðuleyfis. Meðal þess sem kærandi tekur fram er að geymslurými séu afmörkuð á umræddri lóð og sé þar merkt gámastæði sem hann hafi nýtt sér. Samþykktar teikningar sýna hins vegar ekki merkingar fyrir geymslusvæði eða gámastæði heldur eingöngu fyrir bílastæði á lóðinni. Þótt slíkt svæði hafi e.t.v. verið afmarkað með línum á lóðinni án aðkomu viðkomandi sveitarfélags fullnægir það ekki þeim áskilnaði að um svæði sé að ræða sem sérstaklega hafi verið skipulagt og ætlað til geymslu lausafjármuna, sbr. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð. Að því sögðu lítur ágreiningur málsins einkum að fjárhæð þeirra gjalda sem innheimt voru og einstökum kostnaðarliðum sem þar búa að baki.

Að meginstefnu til er fjár aflað til lögbundinna verkefna ríkis og sveitarfélaga með skattheimtu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafa sveitarfélög þó einnig m.a. tekjur af leyfisgjöldum eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um, sbr. og 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Er mælt fyrir um í 51. gr. mannvirkjalaga að sveitarstjórnum sé heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. fyrir undirbúning, svo sem vegna nauðsynlegrar aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, og útgáfu byggingarleyfis byggingarfulltrúa, útgáfu stöðuleyfa, útmælingu, eftirlit, úttektir, yfirferð hönnunargagna og vottorð sem byggingarfulltrúi lætur í té. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skuli birta í B-deild Stjórnartíðinda.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum 11. desember 2019 gjaldskrá nr. 1349/2019 fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðar­kaupstað.

Um svokallað þjónustugjald er að ræða en um ákvörðun slíkra gjalda gilda ýmis sjónarmið. Það er m.a. skilyrði að beint samhengi sé á milli fjárhæðar gjaldsins og þess kostnaðar sem til fellur við það að veita þjónustuna. Sá sem greiðir þjónustugjöld getur hins vegar almennt ekki krafist þess að sá kostnaður sé reiknaður nákvæmlega út heldur er heimilt að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald. Fjárhæð þjónustugjalds verður að byggjast á traustum útreikningi, en þó hefur verið litið svo á að sé ekki hægt að sérgreina nákvæmlega ákveðna kostnaðarliði sé heimilt að byggja þá á skynsamlegri áætlun. Loks hefur verið litið svo á, með tilliti til réttaröryggis borgaranna, að útreikningur þjónustugjalds verði að liggja fyrir áður en ákvörðun um fjárhæð þess er tekin. Er enda áskilið í gjaldtökuheimild 51. gr. mannvirkjalaga að upphæð gjalds skuli byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd séu þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Í nefndri 51. gr. er að finna upptalningu á þeim verkefnum sem heimilt er að innheimta gjald fyrir og gefur orðalag ákvæðisins til kynna að þau séu ekki tæmandi upp talin. Gjaldtökuheimildir hefur verið að finna í eldri lögum um byggingarmál en þær hafa smám saman verið víkkaðar út með frekari upptalningu þeirra verkefna sem má taka gjald fyrir, án þess að nánar sé skýrt í lögskýringargögnum af hvaða sökum það er. Að teknu tilliti til þeirrar meginreglu að opinber þjónusta skuli veitt að kostnaðarlausu nema lög kveði á um annað er ekki hægt að leggja til grundvallar að mannvirkjalög geri ráð fyrir því að allur kostnaður sem hlýst af framkvæmd þeirra sé fjármagnaður með þjónustugjöldum. Verða því ekki innheimt frekari gjöld vegna verkefna byggingarfulltrúa en beinlínis er vísað til nefndri 51. gr. laganna.

Gjaldskrá nr. 1349/2019 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 11. desember 2019 skv. ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, en á fundinum var lögð fram fjárhagsáætlun sveitarfélagsins 2020-2023. Fram kom í greinargerð með áætluninni að gjaldskrá umhverfis- og skipulagsþjónustu hækkaði í samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Fjárhagsáætlunin varðar rekstur sveitarfélagsins í heild sinni, þ. á m. rekstur skipulags- og byggingarmála, en þar er ekki að finna sérstakan rökstuðning vegna kostnaðar þeirra embætta af einstökum verkefnum. Eru þau því annars eðlis en rekstraráætlun með rökstuðningi um þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á.

Úrskurðarnefndin hefur aflað frekari gagna frá sveitarfélaginu, svo sem rakið er í málsrökum þess, um hvað standi að baki gjaldi því sem lagt var á kæranda vegna útgáfu stöðuleyfis honum til handa. Bæjaryfirvöld hafa enn fremur vísað til þess að til grundvallar rekstraráætlun þeirra hafi legið skjal sem sýni yfirlit yfir gáma í Hafnarfjarðarbæ. Einnig hefur úrskurðarnefndin undir höndum nánari útskýringar á skjalinu, sem aflað var vegna rannsóknar eldra kærumáls, en bærinn hefur staðfest að þær eigi einnig við hér. Samkvæmt greindum gögnum taldi bærinn að um hefði verið að ræða 850 stöðuleyfisskylda gáma árið 2016 og 650 slíka árið 2017. Var skorað á alla umráðamenn gáma að sækja um stöðuleyfi þessi ár, en fram kemur að fyrra árið hafi verið greitt fyrir stöðuleyfi vegna ríflega 62% gámanna en fyrir tæplega 55% þeirra seinna árið. Þess er þar og getið að þrír starfsmenn hafi verið ráðnir til að sinna eingöngu þessum störfum auk verktaka. Af hálfu bæjarins er upplýst að störfum þessum sinni nú einn starfsmaður byggingarfulltrúa. Akstursgreiðslur sem tilteknar séu í gögnunum séu raunkostnaður. Starfsmaður fari á staðinn þegar sótt sé um stöðuleyfi auk þess sem reglulega sé farið í eftirlitsferðir. Í nefndum gögnum er hins vegar ekki að finna rökstuðning hvað varðar fjölda þeirra starfsmanna sem sinna þurfi verkinu, en ekki er heimilt að líta til kostnaðar vegna annarra og óskyldra starfa starfsmanna. Ekki er þar heldur að finna svör við þeirri spurningu hvort skert innheimta skýrist af því að sá fjöldi gáma sem tilgreindur er hafi ekki allur reynst stöðuleyfisskyldur og þá hvort þeim kostnaði hafi verið jafnað niður miðað við þá gáma eingöngu sem teljast leyfisskyldir í reynd. Þá er enga skýringu að finna á mismunandi fjölda gáma milli ára eða hvort hluti kostnaðarins hafi fallið til vegna rannsóknar á því hver sá fjöldi sé í raun á hverju ári. Í þessu sambandi er rétt að benda á að ef rýnt er í tölur bæjarins fyrir árið 2020 sést að reiknað er með tekjum og kostnaði vegna 310 gáma sem stöðuleyfi verði gefin út fyrir en að greitt verði fyrir um 178 gáma að auki sem umframgáma. Fer gámum því enn fækkandi án þess að skýringar séu á því, en hafa verður í huga að 51. gr. mannvirkjalaga felur ekki í sér heimild til að jafna niður á alla leyfishafa kostnaði sem rakinn verður til vanskila í einstökum tilvikum. Skilyrði nefndrar 51. gr. um rekstraráætlun með rökstuðningi um þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á eru því ekki uppfyllt með tilvitnuðum gögnum.

Rekstrartölur fyrir árin 2017-2019, auk áætlunar fyrir árið 2020, sýna að sá kostnaður sem bærinn telur sig verða fyrir vegna útgáfu stöðuleyfa fyrir gáma er hærri en tekjur hans vegna leyfisgjalda fyrir þá. Það eitt og sér leiðir þó ekki til þess að um lögmætt þjónustugjald sé að ræða heldur verða þeir kostnaðarliðir sem þar hvíla að baki að standa í nánum tengslum við þá þjónustu sem veitt er.

Í 51. gr. mannvirkjalaga er meðal annars heimilað að taka gjald vegna eftirlits byggingarfulltrúa sem kærandi hefur gert að umtalsefni. Eftirlit samkvæmt mannvirkjalögum er fyrst og fremst eftirlit með mannvirkjum og byggðu umhverfi í því skyni að vernda líf og heilsu manna, sbr. markmið 1. mgr. 1. gr. laganna. Ákveðin öryggissjónarmið búa þar að baki en þau sjónarmið koma enn fremur fram í ákvæðum byggingarreglugerðar um stöðuleyfi. Þótt þau ákvæði mæli fyrst og fremst fyrir um skyldu eiganda og ábyrgðarmanna lausafjármuna til að tryggja að ekki skapist hætta vegna þeirra verður að fallast á að ákveðnar heimildir til eftirlits leyfisveitanda gildi einnig þar um. Fyrir liggur í málinu að kostnaðarliður vegna eftirlits og útgáfu leyfis er 0,75 klst. á einingarverði kr. 20.338, en að auki liggur fyrir að kostnaður vegna aksturs í eftirlitsferðum hefur verið lagður til grundvallar kostnaðaráætlun. Að sögn sveitarfélagsins fer tíðni eftirlits eftir atvikum, en er jafnan á tveggja til þriggja mánaða fresti og felur í sér athugun á staðnum. Svo sem áður er rakið skulu með umsókn um stöðuleyfi fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að sýna m.a. öryggi lausafjármuna og ber handhafi stöðuleyfis ábyrgð á því að ekki skapist hætta vegna þeirra. Er og leyfisveitanda heimilt að krefjast frekari gagna og rökstuðnings vegna þessa, sbr. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð. Að þessu virtu þykja ekki hafa verið færð viðhlítandi rök fyrir þörf á svo tíðu eftirliti og þykir skorta á tengsl á milli þeirrar skyldu að greiða fyrir eftirlit og gjaldtöku vegna þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu sem veitt er í formi eftirlits umfram það sem nauðsyn stendur til samkvæmt byggingarreglugerð.

Í málavaxtalýsingu er ítarlega rakið hvernig staðið hefur verið að innheimtu gjalda vegna stöðuleyfa í Hafnarfjarðarbæ á síðustu árum. Skorað hefur verið á hlutaðeigandi aðila að sækja um stöðuleyfi fyrir gáma sem standa lengur en í tvo mánuði og eftir atvikum hefur slíkum áskorunum verið fylgt eftir með þvingunarúrræðum, s.s. dagsektum. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að þvingunarúrræði eru ekki hluti eftirlits þótt þeim kunni að verða beitt í kjölfar þess. Af gögnum málsins virðist sem m.a. kostnaður sveitarfélagsins við áskoranir til gámaeigenda hafi verið lagður til grundvallar við ákvörðun stöðuleyfisgjalda. Er rétt í því sambandi að benda á að þótt sveitarfélagi sé ekki skylt að reikna út kostnað við meðferð hverrar einstakrar umsóknar um stöðuleyfi er nauðsynlegt að þess sé gætt við ákvörðun þjónustugjalda að þeim sem gert sé að greiða þau samkvæmt reiknuðu meðaltali eigi nægjanlega samstöðu þannig að kostnaður vegna þjónustu við hvern og einn sé svipaður. Þannig væri óheimilt að jafna kostnaði við almennar áskoranir til allra gámaeigenda, óháð stöðuleyfisskyldu, og láta falla á þá eina sem stöðuleyfisskyldir reynast og sækja um slíkt leyfi. Að öðrum kosti greiðir sá hópur hærra þjónustugjald en almennt hlýst af því að veita umrædda þjónustu og greiðir þannig þjónustuna fyrir aðra. Þá verður ekki innheimt fyrir þann kostnað sem felst í því að beita þvingunarúrræðum þótt þau kunni að leiða til umsóknar um stöðuleyfi, enda er beiting slíkra úrræða ekki meðal þeirra verkefna sem heimilað er að taka gjald fyrir skv. 51. gr. mannvirkjalaga.

Gjaldheimta vegna verkefna byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar hefur tekið nokkrum breytingum á síðustu árum. Til að mynda voru innheimt mismunandi gjöld eftir stærð gáma til desember 2018 en þá samþykkti bæjarstjórn reglur um stöðuleyfi þar sem fram kemur í 2. gr. að innheimt sé gjald fyrir hvern gám eða lausafjármun og er fjárhæð gjalda tilgreind með slíkum hætti í gjaldskrá nr. 1349/2019. Var kæranda þannig gert að greiða fullt gjald fyrir einn gám og hálft gjald fyrir næsta gám þótt sótt væri um leyfi í einni umsókn og eitt leyfi veitt fyrir báða gámana. Hafa hvorki rök bæjaryfirvalda né gögn málsins rennt stoðum undir aukinn kostnað bæjarins miðað við stærð eða fjölda þeirra lausafjármuna sem eitt leyfi er veitt fyrir að fenginni umsókn sem fullnægir kröfum gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð. Verður gjaldtökuheimild 51. gr. mannvirkjalaga því ekki túlkuð á þann veg að fjárhæð gjalds vegna útgáfu stöðuleyfis og tilheyrandi eftirlits ráðist fortakslaust af stærð eða fjölda lausafjármuna sem leyfið tekur til.

Að öllu framansögðu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hið álagða gjald hafi ekki tekið mið af rökstuddri rekstraráætlun um þau atriði sem ákvörðun gjalds eigi að byggjast á í skilningi 51. gr. mannvirkjalaga og að tilgreindir kostnaðarliðir að baki gjaldinu hafi verið ranglega lagðir því til grundvallar, auk þess sem óheimilt hafi verið að leggja til grundvallar að aukinn kostnaður fylgdi útgáfu leyfis og eftirliti með hverjum gámi umfram þann fyrsta sem leyfi væri gefið út fyrir, svo sem gert var. Leiðir þessi niðurstaða úrskurðarnefndarinnar óhjákvæmilega til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, en ekki verður tekin afstaða til kröfu kæranda um endurgreiðslu enda ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að skera þar úr um, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi kærð álagning stöðuleyfisgjalds vegna tveggja gáma á lóðinni Steinhellu 5, Hafnarfirði.

64/2020 Dalabyggð

Með

Árið 2020, föstudaginn 20. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 64/2020, kæra vegna gjaldtöku fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2020, er barst nefndinni 17. s.m., kærir  eigandi, Hofakri, Dalabyggð, „3. gr. gjaldskrár fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð sem staðfest var 12. desember 2019.“ Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að álagning samkvæmt hinni kærðu gjaldskrá verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Dalabyggð 14. ágúst 2020.

Málavextir: Gjaldskrá fyrir árið 2020 vegna hirðingar, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð var samþykkt í sveitarstjórn á fundi hennar 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Álagningarseðill vegna fasteignagjalda 2020, dags. 11. desember það ár, var sendur kæranda. Í apríl 2020 sendi kærandi sveitarstjórn Dalabyggðar erindi þar sem farið var fram á útskýringar á framangreindri gjaldskrá, einkum 3. gr. hennar. Benti kærandi jafnframt á að ósanngirni ríkti við skiptingu gjalds í flokka þannig að misræmis gætti við álagningu sorphirðu- og sorpeyðingargjalds á búfjáreigendur. Loks gerði hann athugasemdir við að umbeðin þjónusta hefði ekki verið veitt í tiltekið skipti.

Sveitarstjórn tilkynnti kæranda um afgreiðslu á ofangreindu erindi með tölvupósti 21. apríl 2020. Í póstinum kom fram að byggðarráð hefði fjallað um erindi kæranda á fundi sínum 16. apríl s.á. og bókað efirfarandi „Gjaldskrá er sett miðað við umfang heildarflutninga og er endurskoðuð árlega. Í henni er lögð áhersla á að gæta meðalhófs. Sveitarstjóra falið að svara erindinu í samræmi við umræður á fundinum.“ Í frekari svörum sveitarstjóra kom fram að áður hefði verið ákveðið eitt gjald fyrir öll bú en vegna framkominna athugasemda hefði gjaldskránni verið breytt, auk þess sem horft yrði til athugasemda kæranda við vinnslu næstu gjaldskrár. Hins vegar væri ljóst að breytileg gjöld eftir stærð búa yrðu alltaf matsatriði. Gjöldum vegna þjónustunnar væri ætlað að standa undir kostnaði vegna hennar en sá væri ekki raunveruleikinn í dag.

Málsrök kæranda: Kærandi telur gjaldskrá nr. 1372/2019 fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð íþyngjandi fyrir búfjáreigendur með fáa gripi, þar sem aðeins þurfi að eiga meira en tíu stórgripi eða fleiri en 50 kindur til að vera kominn í hæsta gjaldflokk. Kærandi haldi tíu kindur og 16 hross og innheimtar séu kr. 51.000 vegna hirðingar og eyðingar dýrahræja, en búfjáreigandi með 1.000 kindur og 100 hross, svo dæmi sé tekið, greiði sömu fjárhæð. Leiði þetta til mismununar milli íbúa sveitarfélagsins.

Árangurslaust hafi verið leitað eftir leiðréttingu hjá sveitarstjórn og hafi svar þar að lútandi nýverið borist í tölvupósti frá sveitarstjóra, eftir að gengið hafi verið eftir því.

Málsrök Dalabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kærunni verði vísað frá þar sem kært sé ákvæði í gjaldskrá, en gjaldskrá af þessu tagi teljist til stjórnvaldsfyrirmæla sem séu almenns eðlis og feli ekki í sér ákvörðun í máli tiltekins aðila. Slík fyrirmæli stjórnvalda sæti ekki kæru.

Ef málið sé skilið á þann veg að kærandi sé að kæra afgreiðslu 243. fundar byggðarráðs sveitarfélagsins frá 16. apríl 2020 þá beri einnig að vísa því frá þar sem ekki sé hægt að líta á afgreiðslu byggðarráðs sem stjórnvaldsákvörðun þar sem hún bindi ekki enda á málið. Einungis sé þar um að ræða svar við gagnrýni sem kærandi hafi sett fram varðandi gjaldskrána. Í tölvupósti kæranda til sveitarfélagsins 2. apríl 2020 sé ekki sett fram nein krafa um úrbætur, leiðréttingu eða afslátt, sem hægt hafi verið að samþykkja eða synja, heldur hafi kærandi þar aðeins lýst óánægju sinni með gjaldskrána og spurt um afstöðu sveitarstjórnar til þeirra sjónarmiða sem hann hafi sett þar fram. Gjaldskráin hafi verið samþykkt á 184. fundi sveitarstjórnar hinn 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Verði ekki séð að það sé á sviði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að endurskoða samþykktina eða gjaldskrána.

Í kæru, dags. 9. júlí 2020, segi kærandi að hann hafi fengið svar frá sveitarstjóra „nýverið í tölvupósti eftir að gengið var eftir svari.“ Þessu orðalagi sé mótmælt en eins og sjá megi af gögnum málsins hafi kæranda verið svarað með tölvupósti hinn 21. apríl 2020 og ekkert hafi gefið til kynna annað en að sending á tölvupóstinum hafi tekist. Því verði að ætla að svarið hafi einhverra hluta vegna farið fram hjá kæranda.

Hirðing á dýrahræjum hafi hafist í Dalabyggð á miðju ári 2018. Gjald á því ári hafi verið samkvæmt gjaldskrá sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 3. janúar 2018. Árið 2019 hafi verið fyrsta heila árið þar sem rukkað hafi verið fyrir allt árið. Hafi gjaldskrá vegna þessa verið birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. janúar 2019. Eins og fram komi í svari til kæranda  21. apríl 2020 hafi gjaldið bæði árin verið það sama fyrir alla búfjáreigendur, án tillits til stærðar bústofns. Vegna þessa hafi borist þrjú erindi þar sem gerðar hafi verið athugasemdir við að ekki hafi verið tekið tillit til stærðar bústofns. Ekki hafi verið gerð breyting á gjaldskrá 2019 í kjölfar þessara erinda en ákveðið hafi verið að endurskoða þetta í gjaldskrá 2020. Við setningu gjaldskrár fyrir 2020 hafi verið leitast við að mæta þeirri gagnrýni sem komið hafi fram. Á sama hátt verði horft til erindis kæranda við vinnslu gjaldskrár 2021. Það sé hins vegar ljóst að um leið og farið sé að hafa gjaldskrá breytilega eftir stærð bústofns verði skilin á milli gjaldflokka sem sett séu alltaf háð mati. Við gerð gjaldskrárinnar hafi verið lögð áhersla á að gæta meðal-hófs en vitað að ólíklegt væri að niðurstaða næðist sem allir yrðu ánægðir með.

Gjaldið eigi að standa undir þjónustunni en geri það reyndar ekki að fullu. Mjög stór hluti af kostnaði við verkefnið sé flutningurinn og skipti þá ekki meginmáli hversu mikið sé sótt á hvern stað heldur ekin vegalend. Það sé því ekki svo að stærð búa sé ráðandi þáttur varðandi kostnaðinn.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur fráleita kröfu sveitarfélagsins um að vísa málinu frá. Sé það í ósamræmi við álagningarseðla þar sem m.a. segi: „Álagning á sorphirðu- og sorpeyðingargjaldi er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá álagningu. Gjald vegna hirðingu og eyðingu á dýrahræjum er innheimt miða við hausttölur (frá MAST) ár hvert, en endanlegar tölur 2019 liggja ekki fyrir fyrr en í apríl n.k. og verður álagt gjald endurskoðað þá annað hvort til hækkunar eða lækkunar.“ Samkvæmt þessu séu tölur um fjölda gripa yfirfarnar hjá hverjum og einum búfjáreigenda og því ætti að vera auðvelt að deila kostnaði við hirðingu og eyðingu dýrahræja niður í samræmi við gripafjölda hvers og eins. Því sé mótmælt að stærð búa sé ekki ráðandi þáttur varðandi kostnaðinn þar sem vanhöld séu væntanlega oftast í samræmi við gripafjölda. Það að kostnað-urinn sé að mestu vegna ekinnar vegalendar hljóti að ráðast af því hvernig þjónustan sé skipulögð, en sú skipulagning sé alfarið í höndum sveitarfélagsins.

Í núverandi gjaldskrá sé ekki gætt meðalhófs en búfjáreigandi þurfi aðeins að eiga nokkrar skepnur sér til gamans til að vera kominn í hæsta gjaldflokk, þ.e. sama flokk og þeir lendi í sem stundi búskap sem atvinnu.

Niðurstaða: Gjaldskrá nr. 1372/2019 fyrir hirðingu, móttöku og eyðingu sorps í Dalabyggð fyrir árið 2020 var samþykkt á sveitastjórnarfundi 12. desember 2019 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. janúar 2020. Gjaldskrár sem slíkar teljast ekki vera stjórnvaldsákvarðanir heldur stjórnvaldsfyrirmæli þegar þær beinast að hópi manna. Almenna kæruheimild vegna stjórnvaldsfyrirmæla er ekki að finna í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Einstaklingar og lögaðilar hafa ekki hagsmuna að gæta umfram aðra af setningu gjaldskráa fyrr en álagning á grundvelli þeirra fer fram. Slík álagning er eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegar mælt er svo fyrir um í lögum. Hin kærða gjaldskrá er sett með stoð í 59. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en fram kemur í 65. gr. laganna að stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt þeim lögum sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í málinu liggur fyrir að álagningarseðill vegna fasteignagjalda 2020, dags. 11. febrúar það ár, var sendur kæranda og því hefur álagning á grundvelli hinnar kærðu gjaldskrár farið fram, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Eins og atvikum í máli þessu er háttað verður því að líta svo á að kærð sé álagning sorphirðu- og sorpeyðingargjalds vegna ársins 2020 og að krafist sé ógildingar álagningarinnar.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar.

Hin kærðu gjöld voru lögð á með álagningarseðli, dags. 11. febrúar 2020, en kæra í máli þessu er dagsett 9. júlí s.á. og barst úrskurðarnefndinni 17. s.m. Í 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega skuli m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild, kærufresti og kæruleið. Á álagningarseðlinum er að finna slíkar kæruleið-beiningar og það fyrirkomulag þykir fullnægja framangreindum áskilnaði stjórnsýslulaga. Á seðlinum er jafnframt að finna upplýsingar um að gjald vegna hirðingar og eyðingar á dýrahræjum sé innheimt miðað við hausttölur (frá MAST) ár hvert, en álagt gjald verði endurskoðað til hækkunar eða lækkunar þegar endanlegar tölur liggi fyrir í apríl 2020. Liggur fyrir að slík endurskoðun fór ekki fram vegna hinnar kærðu álagningar. Kærandi hefur fyrir úrskurðarnefndinni bent á að hann hafi árangurslaust leitað eftir leiðréttingu hjá sveitarstjórn. Erindi kæranda, sem beint var til sveitarfélagsins eftir lok kærufrests sem leiðbeint var um, ber þó ekki með sér að farið sé fram á leiðréttingu eða endurupptöku álagningar hans heldur sýnist þar fremur lýst óánægju með fyrirkomulag álagningar samkvæmt hinni umþrættu gjaldskrá. Bera svör sveitarfélagsins og með sér þann skilning og fólu þau ekki í sér nýja ákvörðun. Stóð hin kærða ákvörðun um álagningu frá 11. febrúar 2020 því óhögguð. Að framangreindu virtu þykja ekki fyrir hendi neinar þær ástæður sem leiða ættu til að kæra þessi, sem barst um fjórum mánuðum eftir að kærufresti lauk, verði tekin til efnismeðferðar. Verður henni því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

 Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

99/2020 Þerneyjarsund

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 17. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dóm­stjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 99/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 um að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á lóðarhafa Þerneyjarsunds 23 í nefndum hreppi frá og með 16. nóvember 2020.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. október 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þerneyjarsunds 23, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 að leggja á hann dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 frá og með 16. nóvember 2020. Skilja verður kæruna svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 12. október 2020.

Málavextir: Með bréfi til kæranda, dags. 8. september 2020, beindi byggingarfulltrúi Grímsnes- og Grafningshrepps þeirri áskorun til kæranda að tekið yrði til á lóð hans Þerneyjarsundi 23, þannig að allt rusl og lausafjármunir yrðu fjarlægðir og að úrgangi yrði fargað á viðurkenndan hátt. Var einnig farið fram á að komið yrði í veg fyrir frekari mengun og þá hættu sem stafaði af nefndum hlutum gagnvart byggingum á lóðinni. Var bent á að umrædd lóð væri skipulögð sem sumarhúsalóð en ekki geymslusvæði fyrir lausafjármuni og rusl. Kom að auki fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi í framhaldi beita þeim aðgerðum sem tilgreindar væru í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þ.e. dagsektum sem gætu numið allt að kr. 500.000. Þá var kæranda leiðbeint um andmælarétt samkvæmt 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærandi kærði fyrrgreint erindi byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 82/2020, uppkveðnum 13. október 2020, var komist að þeirri niðurstöðu að efni bréfs byggingarfulltrúa hefði einungis falið í sér tilmæli til kæranda og viðvörun þess efnis að búast mætti við dagsektum yrði ekki að þeim farið. Lægi því ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Með bréfi til kæranda, dags. 14. október 2020, vísaði byggingarfulltrúi til þess að þar sem fyrr­greindum tilmælum hefði ekki verið sinnt yrði heimildum samkvæmt gr. 2.9.2. í byggingar­reglugerð beitt. Voru lagðar á kæranda 20.000 kr. dagsektir frá og með 16. nóvember 2020 þar til kröfu byggingarfulltrúa yrði sinnt. Er þetta sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar m.a. til þess að um geðþóttaákvörðun byggingarfulltrúa sé að ræða. Kærandi sé með „skaðaðan bústað sem sé í vinnuferli“ og ekki sé nokkur möguleiki að verða við ákvörðuninni á þessum tíma árs og á svo stuttum tíma. Þeir munir sem hin kærða ákvörðun lúti að séu á lokuðu svæði og ekki fyrir neinum en fyrirsjáanlegt sé að selja þurfi bústaðinn með verulegum afföllum vegna ákvörðunarinnar. Þá séu á mörgum öðrum lóðum í hverfinu að finna sambærilega hluti og hafi verið svo árum saman.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að Þerneyjarsund 23 sé í skipulagðri frístundabyggð. Sent hefði verið bréf til kæranda, dags. 8. september 2020, þar sem farið hefði verið fram á að tekið yrði til á lóðinni, allt rusl og aðrir lausafjármunir yrðu fjarlægðir og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Er byggingarfulltrúi hafi farið aftur í skoðun á staðinn 9. október 2020 hafi komið í ljós að eigandi lóðarinnar hefði ekki brugðist við nefndu bréfi frá 8. september 2020. Enn sé mikið af byggingarúrgangi, rusli og öðrum lausa­fjármunum á lóðinni.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er tekið fram að telji byggingar­fulltrúi að ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar sé ábótavant, af því stafi hætta eða það teljist skaðlegt heilsu eða ekki sé gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skuli hann gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan að finna heimild til að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur. Þá er kveðið á um í 4. mgr. 56. gr. að álagðar dagsektir njóti lögveðs í mannvirki, byggingarefni og viðkomandi lóð. Nánar er kveðið á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem byggingarfulltrúa er m.a. veitt heimild til að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja eigendur eða umráðamenn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu tilkynnti byggingarfulltrúi kæranda með bréfi, dags. 8. september 2020, um áform um álagningu dagsekta yrði kærandi ekki við kröfum um að tekið yrði til á lóð hans og allt rusl og aðrir lausafjármunir fjarlægðir og úrgangi fargað á viðurkenndan hátt. Jafnframt var tekið fram að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi og viðeigandi ráðstafanir fyrir 9. október 2020 myndi byggingarfulltrúi beita dagsektum í samræmi við gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var ákvörðun þar um tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. október 2020. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að andmælaréttar kæranda hafi verið gætt og hann fengið hæfilegan frest til að bregðast við áskorun byggingarfulltrúa um úrbætur áður en gripið var til hinna kærðu þvingunarúrræða.

Fyrirliggjandi ljósmyndir af lóð kæranda bera með sér að þar sé talsvert af byggingar­úrgangi, rusli og öðrum lausafjármunum. Er því engum vafa undirorpið að frágangi, ásigkomu­lagi og umhverfi lóðar hans hafi á umræddum tíma verið ábótavant í skilningi 1. mgr. 56. gr. laga um mann­virki, sbr. gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var því byggingarfulltrúa rétt að leggja á kæranda dagsektir til að knýja á um úrbætur á lóð hans, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur umhirðu hennar verið ábótavant um árabil.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 14. október 2020 um að leggja dagsektir að fjárhæð kr. 20.000 á lóðarhafa Þerneyjarsunds 23 í nefndum hreppi frá og með 16. nóvember 2020.

54/2020 Barmahlíð

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 17. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dóm-stjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2020, kæra á ákvörðun  byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júní 2020, er barst nefndinni 22. s.m., kæra eigandi, Barmahlíð 19, og eigandi, Barmahlíð 21, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21. Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Málavextir: Hinn 31. mars 2020 lögðu kærendur fram umsókn um leyfi til þess að stækka íbúðir á 2. hæð fjöleignarhússins nr. 19-21 við Barmahlíð með því að hækka þak og útbúa svefnherbergi, baðherbergi og þvottahús, auk þess að bæta við svölum á rishæð. Fól umsóknin í sér að mænishæð hússins myndi hækka um 2,51 metra. Umsókn kærenda var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. apríl 2020 þar sem afgreiðslu málsins var frestað með vísan til athugasemda og málinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Hinn 24. s.m. tók skipulagsfulltrúi umsóknina fyrir og skilaði neikvæðri umsögn, dags. 15. maí 2020. Umsóknin var tekin að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19 s.m. ásamt framangreindri umsögn skipulagsfulltrúa. Var umsókninni synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020.“

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að umsókn þeirra um hækkun á þaki Barmahlíðar 19-21 hafi verið synjað með vísan til þess að lagt hefði verið til að húsaröðin Barmahlíð 10-24 nyti verndar í rauðum flokki, þrátt fyrir að breytingar hefðu verið gerðar á einhverjum þeirra með tilheyrandi röskun á heildarmynd. Ráðgjafar fyrir hverfisskipulag Hlíða hafi í ljósi niðurstöðu Borgarsögusafns lagt til að þessi hús verði meðal þeirra húsaraða í Hlíðum sem fái sérstaka vernd og að þakhækkun verði ekki heimiluð. Framangreind niðurstaða sé í mótsögn við þær afgreiðslur sem þegar hafi falið í sér leyfi fyrir hækkunum, líkt og hér sé sótt um. Með engu móti sé hægt að sjá að framangreind rök geti vegið þyngra en sú skylda stjórnvalds að meðhöndla sambærileg mál með sambærilegum hætti, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Synjunin feli einnig í sér brot á meðalhófsreglu 12. gr. laganna.

Sá hluti Hlíðarhverfis sem afmarkast í norðri af Miklubraut, í austri af Stakkahlíð, í suðri af Hamrahlíð og í suðvestri af Eskihlíð, hafi verið byggður upp á árunum 1944 til 1955. Breytingar á húsum, t.d. þakbreytingar, hafi verið gerðar allt til dagsins í dag. Síðustu breytingar á þakrými og útliti í Barmahlíð hafi verið gerðar á síðustu tíu árum. Á svæðinu séu samtals 208 af 250 húsum með íbúðarrými í risi, eða 83%. Við íbúðakaup á efri hæðum í Barmahlíð sé fólk með það í huga að nýta rishæð vegna fordæma fyrir nýtingu rishæða í hverfinu. Í ljósi þess að næsta hús til vesturs við Barmahlíð 19-21, sem er nr. 15-17, hafi verið hækkað sé mjög eðlilegt að hægt verði að nýta risið á húsinu við Barmahlíð 19-21 á sambærilegan hátt. Húsið að Barmahlíð 15-17 sé í grunninn alveg eins auk þess sem það hafi verið teiknað af sömu arkitektum. Þakásýnd hússins að Barmahlíð 19-21 hafi mjög lítil áhrif á götumynd og upplifun á göturými.

Risið á húsinu að Barmahlíð 15-17 hafi verið hækkað samkvæmt teikningum frá 1958 og búið sé að leyfa breytingu á risinu í nafni upprunalegs arkitekts. Glerskálum hafi verið bætt við samkvæmt teikningum frá 1981. Af framangreindu megi gera ráð fyrir að mögulegar breytingar á húsum í nágrenninu, í samræmi við þarfir fólks, hafi verið afar skýr ætlun arkitektsins sjálfs, en ekki að húsin yrðu óbreytt um ókomna tíð. Húsið að Barmahlíð 9 sé í grunnin alveg eins og húsið að Barmahlíð 19-21 að öðru leyti en því að það sé ekki parhús heldur sé það með einni íbúð á hverri hæð. Það samsvari því helmingi hússins að Barmahlíð 19-21 og Barmahlíð 15-17. Húsið að Barmahlíð 9 sé teiknað árið 1946 af sömu arkitektum. Teikningum hafi verið breytt árið 2005 og 2007 og þaki lyft með breytingum í framhaldinu.

Þar sem tími hafi verið kominn á endurnýjun þakefnis í Barmahlíð 19-21 og þörf sé fyrir meiri íbúðarrými hafi verið sótt um að hækka ris og að stækka efri íbúðir. Ekki hafi verið sótt um auka fastanúmer og íbúðafjöldi sé óbreyttur. Þakhalli á breyttu þaki sé 40° og mun minni en á næsta húsi að Barmahlíð 15-17 þar sem þakhallinn sé 75°. Flest hús í hverfinu séu með tvíhallandi þaki og kvistum þar sem meðalþakhalli sé 35-55°. Tillaga arkitekta að breytingu á rishæð sé í anda þeirra bygginga sem í hverfinu séu og beri virðingu fyrir upprunalegri hönnun. Kvistarnir kallist á við núverandi byggingar í kring.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé markmiðið að nýta land og lóðir betur og sé þétting byggðar eitt af leiðarljósum skipulagsins ásamt blandaðri byggð með góðu hlutfalli af litlum, meðalstórum og stórum íbúðum í sama hverfi. Stækkun íbúða á efri hæð við Barmahlíð 19-21 með þakstækkun sé í anda markmiða Reykjavíkurborgar um þéttingu byggðar og blöndun íbúðastærða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að umsókn kærenda hafi af byggingar­fulltrúa verið send til umsagnar skipulagsfulltrúa í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um mann-virki nr. 160/2010, sbr. gr. 2.4.2 í byggingarreglugerð nr. 112/2010 m.s.br. Í umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 15. maí 2020, komi fram að ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir það svæði sem fasteignin tilheyri. Í gangi sé vinna við gerð hverfisskipulags þar sem settir séu fram skilmálar og leiðbeiningar varðandi breytingar á útliti, þaki og svölum húsa í Hlíðahverfi. Í byggða­könnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, sem hafi verið unnin vegna vinnslu hverfis­skipulags Hlíða, komi fram að húsaröðin Barmahlíð 10-24 sé ein þeirra húsaraða sem sett séu í rauðan flokk. Byggingar í rauðum flokki séu þær sem teljist hafa hátt varðveislugildi og fara skuli varlega í breytingar á þeim. Skipulagsfulltrúi bendi á að húsaröðin Barmahlíð 10-24 hafi verið reist á árunum 1945-1947 og njóti verndar þrátt fyrir að gerðar hafi verið breytingar á sumum húsanna, sem raski heildarmynd götunnar. Sérfróðir ráðgjafar hafi lagt til við vinnslu hverfis-skipulags að húsaröðin njóti sérstakrar verndar og að þakhækkun verði ekki heimiluð.

Samþykkt á hækkun þaks fyrir fasteignina Barmahlíð 9 hafi verið samþykkt árið 2005 eða fyrir 15 árum. Þak Barmahlíðar 15-17 hafi verið hækkað árið 1958, eða fyrir 62 árum. Mikið hafi breyst í skipulagsmálum á síðustu 15 árum, hvað þá á sex áratugum. Sé verulega langt seilst að telja að nefndar breytingar séu þess eðlis að um brot á jafnræðisreglu sé að ræða. Við Barmahlíð standi 56 númeruð hús en einungis tvö séu nefnd í kæru sem fordæmi.

Skipulagsyfirvöld hafi lagt til grundvallar ákvörðun sinni mat sérfróðs aðila um verndum gamalla bygginga í borginni. Lagt hafi verið til af hönnuðum við hverfiskipulag Hlíða að mat Borgarsögusafns verði tekið inn í skilmála hverfisskipulagsins og sé því eðlilegt að það sé lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknarinnar.

Hvað varði brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá sé það skilyrði slíks brots að fyrir liggi að fleiri valkostir hafi verið til staðar við töku ákvörðunar sem gengju skemur en kærð ákvörðun. Ekki sé að sjá að kærendur hafi lagt til aðra tillögu með umsókn sinni en þá sem synjað hafi verið.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi bendir á að ný rök fyrir breyttri afgreiðslu byggingarfulltrúa hafi komið í ljós sem krefjist breyttrar afgreiðslu hans á erindinu. Afar brýnt sé að breyta þaki hússins að Barmahlíð 19-21 af heilsufarsástæðum eins fljótt og hægt sé þar sem þakið sé með asbesti sem sé afar krabbameinsvaldandi efni. Þakið sé einnig farið að leka, sem gæti haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar fyrir íbúa.

Í lögum nr. 104/2001 um húsafriðun komi skýrt fram að friða megi mannvirki, hús eða húshluta. Samkvæmt 5. gr. laganna ákveði ráðherra friðun eða brottfall friðunar að fengnum tillögum húsafriðunarnefndar. Ekkert slíkt hafi átt sér stað og njóti því umrædd hús ekki verndar. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hafi því ekki lagastoð fyrir því að nota þetta sem rök til að hafna breytingum á þakrými hússins. Tillögur þeirra sem skipulagsfulltrúi hafi nefnt „sérfróðir ráðgjafar“, um að húsaröðin fái vernd, hafi ekkert lagalegt vægi. Þær breytingar í skipulagsmálum sem Reykjavíkurborg vísi til hafi ekki hindrað borgaryfirvöld í að heimila miklar breytingar á þaki Barmahlíðar 6 á síðustu tveimur árum. Að veita aðilum leyfi til að breyta þakrými sé því án efa fordæmisgefandi.

———-

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 10. nóvember 2020.

Niðurstaða: Lóðin Barmahlíð 19-21 tilheyrir grónu hverfi, sem hefur mótast í tímans rás með veitingu einstakra byggingarleyfa, en hverfið hefur ekki verið deiliskipulagt. Þegar aðstæður eru eins og að framan greinir er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í sam­ræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Umsókn kærenda laut að heimild til að stækka íbúðir á 2. hæð í Barmahlíð 19-21 með því að hækka þak og útbúa rishæð með svefnrými, baðherbergi og þvottaherbergi, auk þess að svölum yrði bætt við á rishæð. Kærendur benda á að mænishæð á nýju þaki sé sambærileg því sem sé á mænisþökum í kring. Gert sé ráð fyrir kvistum og séu þeir með einhallandi þaki. Samanlögð heildarlengd kvista sé minni en 40% af samanlagðri heildarlengd þakkanta.

Fyrir liggur að á liðnum árum hafa verið veittar byggingarheimildir og breytingar verið gerðar á þakrými nærliggjandi húsa og víðar í umræddu hverfi, m.a. á húsinu Barmahlíð 15-17, sem stendur við hlið húss kærenda. Samkvæmt því verður ekki annað ráðið en að umsókn kærenda um hækkun á þaki húss þeirra hafi verið í samræmi við gildandi landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar á umræddu svæði, sem eru þeir þættir er líta ber til þegar umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði er metin, sbr. orðalag 44. gr. skipulagslaga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. maí 2020, kemur m.a. fram að ráðgjafar fyrir hverfis-skipulag Hlíða hafi, í ljósi niðurstöðu Borgarsögusafns Reykjavíkur, lagt til að umrædd hús verði meðal þeirra húsaraða í Hlíðum sem fái sérstaka vernd og að þakhækkun verði ekki heimiluð. Jafnframt kemur fram í umsögninni að þrátt fyrir að skilmálar, leiðbeiningar og byggðakönnun fyrir Hlíðar liggi fyrir sé hverfisskipulag Hlíða enn ekki samþykkt þar sem verið sé að vinna úr gögnum og samræma. Í byggðakönnun Borgarsögusafns sem unnin hafi verið fyrir Hlíðar komi fram að húsaröðin Barmahlíð 10-24 sé ein þeirra húsaraða sem sett séu í rauðan flokk, þ.e. þau hafi hátt varðveislugildi og fara skuli varlega í allar breytingar.

Skoðun úrskurðarnefndarinnar á vettvangi leiddi í ljós að húsnúmer sunnan götu Barmahlíðar eru sléttar tölur en húsnúmer norðan götu oddatölu, en þar á meðal er hús kærenda. Húsin sunnan götu, sem bera númer á bilinu 10-24, hafa einsleitt yfirbragð og mynda heildstæða götumynd, en húsin norðan götunnar, sem bera oddatölunúmer og eru fjögur talsins við umræddan hluta hennar, eru hins vegar fjölbreyttari að formi og gerð. Hefur til að mynda þaki hússins að Barmahlíð 15-17 verið lyft með sama hætti og umsókn kærenda laut að svo sem áður greinir. Má ráða af orðalagi áðurnefnds álits Borgarsögusafns Reykjavíkur að verndun götumyndar Barmahlíðar 10-24 eigi einungis að ná til húsaraðarinnar sunnan götu enda myndi verndunin ella aðeins ná til hálfs hússins að Barmahlíð 23-25. Þá liggur ekki fyrir að þar til bær stjórnvöld hafi með lögformlegum hætti tekið ákvörðun um verndun húsaraða á nefndum stað og getur því fyrrgreind verndunartillaga ekki verið forsenda stjórnvaldsákvörðunar. Rétt þykir að benda á að í núgildandi skipulagslögum er ekki heimild til að fresta afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar vegna yfirstandandi skipulagsvinnu svæðis, svo sem var í 6. mgr. 43. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun sé haldin slíkum annmörkum, m.a. hvað rökstuðning varðar, að fallist verður á kröfu kærenda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. maí 2020 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir hækkun þaks hússins að Barmahlíð 19-21 í Reykjavík.

76/2020 Fákaflöt

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 11. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 76/2020, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020, og byggðaráðs Rangárþings eystra 30. s.m., um að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. ágúst 2020, er barst nefndinni 21. s.m., kærir eigandi lóðar úr jörðinni Skeggjastaðir, fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858 þá ákvörðun skipulagsnefndar Rangárþings eystra frá 20. júlí 2020 og byggðaráðs Rangárþings eystra frá 30. s.m. að samþykkja umsókn um stöðuleyfi fyrir tveimur gámahúsum á lóðinni Fákaflöt, landnr. 209731. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að fjarlægja gámahúsin af lóð kæranda að uppkveðnum úrskurði.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 1. október 2020.

Málavextir: Með bréfi, dags. 4. desember 2019, til eiganda Fákaflatar, landnr. 209731, óskaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra eftir skýringum á stöðu mannvirkja (skúr/smáhýsi og gám) á lóðinni Fákaflöt. Með bréfi, dags. 14. apríl 2020, tilkynnti embættið eigendum Fákaflatar að færa þyrfti nefnd mannvirki til þannig að það yrði í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858. Að auki þyrfti að skila inn hönnunargögnum fyrir fyrrgreind mannvirki, sem að mati byggingarfulltrúa virtust flokkast sem tilkynningarskyld framkvæmd skv. i-lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með bréfi til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2020, óskaði eigandi Fákaflatar eftir teikningum og mælingum sem framkvæmdar hefðu verið þannig að hægt yrði að taka upplýsta ákvörðun um hvort ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa yrði andmælt eða ekki.

Með bréfi, dags. 11. júní 2020, ítrekaði embætti skipulags- og byggingarfulltrúa að skila yrði inn hönnunargögnum vegna nefndra mannvirkja, að öðrum kosti yrði að fjarlægja þau og afmá allt jarðrask. Ef ekki yrði brugðist við ítrekuðum óskum skipulags- og byggingarfulltrúa innan fjögurra vikna frá dagsetningu bréfsins myndi embættið láta fjarlægja mannvirkin á kostnað landeiganda Fákaflatar.

Með umsókn, dags. 8. júlí 2020, sótti eigandi Fákaflatar um stöðuleyfi fyrir tvo gáma frá 9. s.m. til 9. júlí 2021. Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra 24. júlí 2020 var umsóknin samþykkt með þeim fyrirvara að gámar yrðu staðsettir innan lóðamarka Fákaflatar, landnr.209731, og var sú afgreiðsla staðfest á fundi byggðaráðs Rangársþings eystra 30. s.m.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að um gámahús sé að ræða og sé búið að leiða bæði vatn og rafmagn í þau og þar rekin atvinnustarfsemi í formi hundaræktunar. Kærandi hafi aldrei verið beðinn um eða veitt leyfi fyrir lausagöngu hunda á landi sínu. Gámahús séu ekki gámar samkvæmt leiðbeiningum Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar og séu því ekki stöðuleyfisskyld. Samkvæmt byggingarreglugerð séu sumar framkvæmdir ekki byggingarleyfisskyldar, enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Þær lóðir sem um ræði í þessu máli séu ódeiliskipulagðar.

Málsrök Rangárþings eystra: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðuleyfisumsókn eiganda Fákaflatar, dags. 8. júli 2020, hafi verið tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Rangárþings eystra hinn 20. júlí 2020. Á fundinum hafi verið bókað að skipulagsnefnd samþykkti að veita stöðuleyfi frá 9. júlí 2020 til 8. júlí 2021 með þeim fyrirvara að gámarnir yrðu staðsettir innan lóðarmarka umsækjanda. Byggðaráð hefði staðfest niðurstöðu skipulagsnefndar á fundi sínum 30. júlí 2020.

Heimild til útgáfu stöðuleyfis sé að finna í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar segi í gr. 6.1.1: „Sækja skal um stöðuleyfi til leyfisveitanda til að láta eftirfarandi lausafjármuni standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna: Hjólhýsi, á tímabilinu frá 1. október til 1. maí. Gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum, sem ætlað er til flutnings, og stór samkomutjöld.“ Á grundvelli umræddrar heimildar hafi Rangárþing eystra talið sig hafa fulla heimild til útgáfu stöðuleyfis með þeim hætti sem gert hafi verið. Áréttað sé að stöðuleyfi sé í eðli sínu tímabundið leyfi. Hið umþrætta stöðuleyfið falli því samkvæmt efni sínu úr gildi um mitt næsta ár.

Í fyrirliggjandi stöðuleyfi sé sérstaklega tekið fram að leyfið taki einungis til þess að setja gámanna niður innan þess lands sem tilheyri Fákaflöt, landnr. 20973. Leyfishafi hafi því enga heimild frá sveitarfélaginu til að setja gámanna niður á landi sem tilheyri kæranda eða öðrum aðilum. Komi það raunar skýrt fram í afgreiðslu skipulagsnefndar frá 20. júní 2020.

Almennt taki sveitarfélagið ekki afstöðu til ágreinings fasteignareigenda um lóðamörk eða landamerkja bújarða. Um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem aðilar verði að leysa úr sjálfir eftir þeim reglum sem um það gildi.

Þrátt fyrir þetta hafi Rangárþing eystra verið í samskiptum við lögmann eigenda Fákaflatar í því skyni að fá upplýst hvort umþrættir gámar væru innan lóðar hans. Ef gámarnir séu að hluta til eða öllu leyti utan lóðamarka Fákaflatar sé ljóst að staðsetning þeirra sé ekki í samræmi við útgefið stöðuleyfi. Það þýði þó ekki að stöðuleyfið sem slíkt sé ólögmætt. Á hinn bóginn sé ljóst að ef gámarnir séu að hluta til inn á landi kæranda geti hún krafist fjarlægingar þeirra að öðrum skilyrðum uppfylltum. Sömu heimild hafi skipulagsyfirvöld.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er gerð sú krafa að kærunni verði vísað frá sökum aðildarskorts. Kærandi titli sig sem eiganda jarðarinnar Skeggjastaðar en skráður eigandi þeirrar jarðar sé Nínukot ehf. Ekki sé hægt að sjá með hvaða hætti kærandi málsins eigi aðild að umræddu máli á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Rétt sé að benda á að kærandi komi fram fyrir sína hönd persónulega en ekki annars aðila eða lögaðila. Í ljósi þessa telji leyfishafi að vísa eigi kærunni frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts, enda ekki hægt að sjá með nokkru móti hvernig kærandi hafi lögmæta hagsmuni af niðurstöðu málsins.

Þá sé kæran með öllu óljós og í henni sé fjallað um hluti sem eigi ekki inn á borð hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Málið sé einfalt í augum leyfishafa, sótt hafi verið um stöðuleyfi sem hafi verið veitt. Ekkert sé við málsmeðferð skipulags- og byggingarráðs Rangárþings eystra að setja og leyfisveiting þeirra fullkomlega lögleg að mati leyfishafa.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að lóðin sem um ræði sé þinglýst eign hans, með fastanúmer 2341917 og landnúmer 194858, og sé hún lögbýlinu Skeggjastöðum óviðkomandi.

Gámahúsin hafi ekki verið innan lóðarmarka Fákaflatar þegar stöðuleyfi hafi verið veitt og séu það ekki ennþá nú 3 mánuðum síðar. Það sé óumdeilt. Þetta séu ekki gámar ætlaðir til tímabundinnar geymslu heldur tvö samliggjandi gámahús með verönd sem standi enn lengra inn á lóð kæranda en gámahúsin og séu ætlaðir fyrir atvinnustarfsemi, það er hundarækt þar sem fjöldi hunda hafi nú íveru. Umferð að þeim, bæði manna og dýra, gangandi og akandi sé því öll um lóð kæranda án heimildar.

Svör Rangárþings eystra skorti rökstuðning fyrir því á hvaða lagaforsendum og reglugerðum byggt hafi verið á þegar tekin hafi verið sú stjórnvaldsákvörðun að veita stöðuleyfi á lóð kæranda án samþykkis. Í gr. 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi vissulega að gámar falli undir heimildarákvæði stjórnvalds til veitingu stöðuleyfis, en í leiðbeiningum Húsnæðis og mannvirkjastofnunar um grein 6.1.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé í grein 2 skýring á hvaða hlutir falli undir stöðuleyfi og tekið fram að svokölluð gámahús falli ekki þar undir. Þar sé ekki að finna heimild til að veita stöðuleyfi gámum eða gámahúsum á lóð annarra hvorki tímabundið, með fyrirvara eða afturvirkt og framvirkt.

—–

Með tölvupósti 1. nóvember 2020 upplýsti kærandi úrskurðarnefndina um að umþrætt gámahús hefðu verið færð 10 cm inn fyrir lóðarmörk Fákaflatar.

—–

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í samræmi við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var þeim tilmælum beint til leyfishafa að fjarlægja mannvirki sín þannig að þau yrðu í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum Skeggjastaða, landnr. 194858, en um þinglýsta eign kæranda er að ræða sem stofnuð var árið 2003 úr jörðinni Skeggjastaðir, landnr. 163963 sem er í eigu Nínukots ehf., en kærandi er forráðamaður og stjórnarmaður félagsins verður kæru þessari því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.

Í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að sveitarstjórnum sé heimild að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. útgáfu stöðuleyfa. Þá mælir 60. gr. nefndra laga fyrir um setningu reglugerða á grundvelli laganna og skulu skv. 9. tl. ákvæðisins m.a. vera í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa, kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er með stoð í lögunum, skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda, en hann er skv. skilgreiningu í 51. tl. í gr. 1.2.1. í reglugerðinni er leyfisveitandi það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur út eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerðinni. Eru það enda þeir aðilar sem veita byggingarleyfi skv. ákvæðum 9.-11. gr. mannvirkjalaga nema til staðar sé sérstök samþykkt skv. 7. gr. mannvirkjalaga, en slík samþykkt virðist ekki vera fyrir hendi.

Svo sem áður er lýst tók skipulagsnefnd Rangárþings eystra, á fundi sínum 20. júlí 2020, ákvörðun um að samþykkja umsókn leyfishafa um stöðuleyfi, og var umsóknin einnig samþykkt á fundi byggðaráðs sveitarfélagsins 30. s.m. Ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið slíka ákvörðun í málinu, en samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum falið það vald að taka ákvörðun um útgáfu stöðuleyfi í hverju tilviki. Var hin kærða ákvörðun því ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki liggur fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál og borin verður undir úrskurðarnefndina. Verði slík ákvörðun tekin af byggingarfulltrúa er hún hins vegar eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sama gildir taki hann ákvörðun um að umdeild mannvirki verði fjarlægð, en slíkar ákvarðanir eru jafnframt á forræði byggingarfulltrúa.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

80/2020 Hlíðarbraut

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 80/2020, kæra á málsmeðferð vegna breytingar á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars, vegna lóðarinnar Suðurgötu 41.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4.september 2020, er barst nefndinni 5. s.m., kæra Hollvinasamtök St. Jósefsspítala, Birkibergi 18, Hafnarfirði, „málsmeðferð og breytingu á skipulagi stofnanalóðar St. Jósefsspítala“. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé breyting á deiliskipulagi Suðurbæjar sunnan Hamars vegna nefndrar lóðar og þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 7. október 2020.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag Suðurbæjar sunnan Hamars frá 28. maí 2014. Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar 10. mars 2020 var samþykkt að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu skipulagi vegna lóðanna nr. 10 og 12 við Hlíðarbraut og nr. 41 við Suðurgötu. Samhliða var auglýst breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025. Bæjarstjórn samþykkti tillögurnar til auglýsingar á fundi sínum 18. mars s.á. og voru þær kynntar á tímabilinu frá 23. apríl 2020 til 4. júní s.á. Tillögurnar voru samþykktar óbreyttar í bæjarstjórn 17. júlí 2020 ásamt umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir, dags. 25. júní 2020. Með erindi, dags. 4. ágúst 2020, sendu bæjaryfirvöld Skipulagsstofnun aðal- og deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin tilkynnti með bréfi, dags. 10. september s.á., að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir svar sveitarfélagsins við bréfi stofnunarinnar, dags. 27. ágúst s.á., vegna breytingar á gildandi aðalskipulagi fyrir umrætt svæði. Hafnarfjarðarbær brást við þeim athugasemdum stofnunarinnar með bréfi, dags. 21. október s.á.

Kærandi bendir meðal annars á að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila og almenning við breytingu á stofnanalóð St. Jósefsspítala. Kynning og samráð virðist ekki hafa verið í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010.

Hafnarfjarðarbær gerir fyrst og fremst kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts. Telji bæjaryfirvöld ljóst að kærandi eigi hvorki lögvarinna hagsmuna að gæta er tengist hinni kærðu ákvörðun né uppfylli hann önnur skilyrði kæruaðildar. Ella sé gerð sú krafa að framkominni kæru verði hafnað.

Niðurstaða: Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Í máli þessu samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu, en svo sem lýst er í málavöxtum gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við aðalskipulagsbreytinguna sem nú hefur verið svarað af hálfu bæjaryfirvalda. Stofnunin hefur hins vegar hvorki staðfest nefnda breytingu á gildandi aðalskipulagi né birt auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 3. mgr. 32. gr., sbr. og 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga.

Umdeild deiliskipulags­breyting hefur ekki heldur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, en ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi tekur ekki gildi fyrr en að undangenginni samþykkt sveitarstjórnar og að lokinni birtingu slíkrar auglýsingar. Verður ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu þá fyrst skotið til úrskurðarnefndarinnar, enda telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni. Hefur þá ekki verið tekin afstaða til þess hvort kærandi geti yfirhöfuð átt aðild að kærumáli þessu, en samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefndina geta þeir einir átt aðild að kærumáli fyrir nefndinni sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

57/2020 Arnarlax ehf.

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2020, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019 á frummatsskýrslu vegna 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga þá „ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019 að meðferð og afgreiðsla umsóknar Arnarlax ehf. um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi fari eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. ákvæði II til bráðabirgða.“ Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að afgreiða umsókn Arnarlax ehf. samkvæmt núgildandi lögum nr. 71/2008.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 6. júlí 2020.

Málsatvik: Í desember 2016 gerði Arnarlax ehf. tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðrar framleiðslu á 10.000 tonnum af laxi á ári í Ísafjarðardjúpi. Tillagan var kynnt frá 4. til 20. janúar 2017 og féllst Skipulagsstofnun á hana með athugasemdum 15. júní s.á.

Framkvæmdaraðili sendi Skipulagsstofnun drög að frummatsskýrslu vegna fiskeldisins 20. júní 2019. Degi síðar sendi stofnunin honum bréf þar sem fram kom hvernig málsmeðferð yrði háttað í ljósi nýsamþykktra breytinga á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. lög nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.), sem samþykkt voru á Alþingi 20. júní 2019. Tók stofnunin fram að verklag hennar hefði verið á þá leið að senda framkvæmdaraðila athugasemdir um þær lagfæringar sem gera þyrfti á frummatsskýrslu til að uppfylla skilyrði til opinberrar kynningar hennar skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Stofnunin hefði með þessu verklagi ekki nýtt sér heimild nefndrar lagagreinar til að hafna frummatsskýrslum með formlegum hætti heldur leiðbeint framkvæmdaraðilum um frekari vinnslu þeirra. Lagaskil gerðu það að verkum að stofnunin þyrfti, þar sem það ætti við, að taka afstöðu til þess með formlegri hætti hvort frummatsskýrslur fullnægðu skilyrðum um efni og framsetningu þeirra sem fram kæmu í 9. gr. laga nr. 106/2000 og matsáætlun, sbr. einnig 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Þyrfti stofnunin m.a. sérstaklega að hafa í huga meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Ekki myndi koma til þess að frummatsskýrslu yrði hafnað nema á henni væru verulegir annmarkar hvað varðaði þær kröfur sem gerðar væru í lögum og matsáætlun til efnis og framsetningar frummatsskýrslu. Að öðrum kosti yrði frummatsskýrsla tekin til meðferðar og ef með þyrfti yrði framkvæmdaraðila leiðbeint um atriði sem bæta þyrfti úr áður en frummatsskýrslan yrði auglýst til opinberrar kynningar. Var framkvæmdaraðila bent á að hann ætti þann kost að lagfæra frummatsskýrslu sína og senda stofnuninni að nýju, fram að gildistöku laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengdust fiskeldi. Lög nr. 101/2019 voru birt í A-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2019 og tóku gildi degi síðar.

Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 15. nóvember 2019, var framkvæmdaraðila tilkynnt að stofnunin teldi drög hans að frummatsskýrslu, dags. 8. júlí s.á., í meginatriðum uppfylla kröfur 9. gr. laga nr. 106/2000 og 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015, og uppfylla jafnframt skilyrði um framlagningu frummatsskýrslu, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Áður en stofnunin auglýsti skýrsluna skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 þyrfti þó að bregðast við tilteknum athugasemdum.

Frummatskýrsla, dags. 6. maí 2020, vegna 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi var auglýst til kynningar 13. s.m. á vefsíðu Skipulagsstofnunar, þar sem skýrslan var jafnframt aðgengileg, í Lögbirtingablaði, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Bændablaðinu með fresti til athugasemda til 26. júní s.á. Skýrsluna var einnig hægt að nálgast á Safnahúsinu á Ísafirði og Þjóðarbókhlöðunni og mun hafa verið kynnt á fundi 10. júní 2020 í Ráðhúsi Bolungarvíkurkaupstaðar. Kom kærandi að athugasemdum með bréfi, dags. 25. júní 2020, sem lutu að lagaskilum vegna breytinga á lögum nr. 71/2008, umfjöllun í frummatsskýrslunni um valkosti og andstöðu hennar við lög um náttúruvernd nr. 60/2013.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar um kæruheimild til 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. einkum 3. tl., sbr. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kveðst kærandi byggja aðild sína á d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kærandi séu hagsmunasamtök sem starfi skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Aðildarfélög séu öll veiðifélög landsins enda sé aðild þeirra lögbundin, sbr. greint ákvæði. Þau séu töluvert fleiri en 30 talsins. Kæra þessi samrýmist tilgangi kæranda, sbr. m.a. 5. mgr. 4. gr. laga um lax- og silungsveiði og 2. gr. samþykktar kæranda frá árinu 2012. Kæran lúti að broti á þátttökurétti almennings í skilningi d-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verulegur ágalli sé á valkostamati í frummatsskýrslu og hafi almenningi, þ. á m. kæranda, ekki gefist tækifæri til að taka virkan þátt í ákvörðunarferlinu. Kærandi hafi fyrst orðið var við brotið þegar hann hafi sent Skipulagsstofnun bréf þar um, dags. 25. júní 2020, og þ.a.l. lagt fram kæru sína innan kærufrests.

Á því sé byggt að hin kærða ákvörðun sé haldin verulegum ágalla sem leiði til þess að hún sé ógild eða ógildanleg. Frummatsskýrsla hafi ekki borist fyrir gildistöku laga nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengist fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.) þar sem um hafi verið að ræða ófullnægjandi drög að slíkri skýrslu en ekki endanlega frummatsskýrslu. Þá hafi skýrslan verið, og sé enn, haldin verulegum ágöllum. Af þeim sökum sé með engu móti hægt að segja að frummatsskýrslu hafi verið skilað fyrir gildisstöku laganna, sbr. bráðabirgðaákvæði II. Við mat á því hvort frummatsskýrsla sé fullnægjandi í skilningi bráðabirgðaákvæðis II beri að taka mið af 9. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 1. mgr. 10. gr., en verulega skorti þar á hvað varði þau drög sem lögð hefðu verið fram fyrir gildistöku laganna.

Ljóst sé að meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi skuli fara eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008 um fiskeldi hafi frummatsskýrslu verið skilað fyrir gildistöku laga nr. 101/2019. Frummatsskýrslu framkvæmdaraðila hafi verið skilað í maí 2020. Meðferð og afgreiðsla umsóknar ætti því að fara eftir nýjum ákvæðum fiskeldislaga. Þau skýrsludrög sem skilað hafi verið fyrir gildistöku laganna hafi verið ófullnægjandi, m.a. í ljósi þeirra athugasemda sem Skipulagsstofnun hafi gert við drögin. Stofnunin hefði með réttu átt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Með hliðsjón af þessu sé ljóst að frummatsskýrslunni hafi verið skilað eftir gildisstöku bráðabirgðarákvæðis II og málsmeðferð hafi því átt að fara eftir nýjum ákvæðum fiskeldislaga. Hefði Skipulagsstofnun talið skil framkvæmdaraðila á frummatsskýrslunni uppfylla skilyrði laga hefði stofnunin átt að kynna skýrsluna með auglýsingu í Lögbirtingablaði, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Það hefði stofnunin ekki gert fyrr en hún kynnti frummatsskýrsluna sem lögð hefði verið fram í maí 2020.

Valkostamat í frummatsskýrslunni sé ófullnægjandi og afar rýrt, en einungis hafi verið skoðaður einn raunhæfur valkostur sem sé laxeldi með frjóum laxi. Skylda til að gera grein fyrir raunhæfum valkostum, sbr. 9. gr. laga nr. 106/2000, sé í órjúfanlegu samhengi við þátttökurétt almennings, sbr. ákvæði 4. mgr. 10. gr. laganna um að öllum, þ.e.a.s. almenningi, sé heimilt að gera athugasemdir við frummatsskýrsluna. Í lögunum segi einnig að gera skuli grein fyrir raunhæfum valkostum og bera þá saman með tilliti til umhverfisáhrifa, en þennan samanburð sé ekki að finna í skýrslunni.

Frummatsskýrslan gangi í berhögg við markmiðsákvæði laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, einkum 1. mgr. 1. gr. Þá hafi verið brotið gegn ákvæði 9. gr. laganna vegna þeirrar óvissu sem sé um notkun ófrjós lax, um útbreiðslu laxalúsar, hversu margir laxar sleppi og hvernig þeir blandist villtum laxi.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun vísar til þess að kæruheimild sé ekki fyrir hendi í málinu. Í bréfi sínu frá 15. nóvember 2019 lýsi stofnunin þeirri afstöðu sinni að frummatsskýrsla framkvæmdaraðila uppfylli í meginatriðum kröfur 9. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum. Uppfylli hún jafnframt skilyrði um framlagningu frummatsskýrslu, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.

Mótmælt sé þeim málsrökum kæranda að kæruheimild hans geti byggst á 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, sbr. einkum 3. tl., sbr. og 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og tilvitnuð ákvæði 6. mgr. 14. gr. séu úr garði gerð fáist ekki séð að hægt sé að byggja á þeim sem grundvelli fyrir kærunni. Afstaða stofnunarinnar, sem birtist í framangreindu bréfi, falli ekki að þeim tilvikum sem talin séu upp í málsgreininni. Ákvæði 3. tl. nefndrar 6. mgr. taki til athafnar eða athafnaleysis stjórnvalda sem brjóti gegn þátttökurétti almennings og gildi ekki um umrædda afstöðu. Í framangreindum tölulið segi: „2.-4. mgr. 10. gr. um athugun Skipulagsstofnunar og matsskýrslu.“ Í tilvitnuðum málsgreinum séu ákvæði sem varði kynningu frummatsskýrslu og hvar hún sé aðgengileg, sem og ákvæði um athugasemdafrest.

Frummatsskýrsla framkvæmdaraðila hafi legið frammi til kynningar 13.-26. júní 2020. Skýrslan og kynning hennar hafi verið auglýst í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Bændablaðinu. Almenningi hafi gefist kostur á að gera athugasemdir við skýrsluna til 26. júní s.á. Kærandi hafi sent athugasemdir við frummatsskýrsluna á kynningartíma með bréfi, dags. 25. s.m. Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að 3. tl. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, sbr. d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, eigi ekki við í málinu.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu framkvæmdaraðila er bent á að enga kæranlega ákvörðun sé að finna í umræddu bréfi Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019. Hafi stofnunin ekki tekið neina ákvörðun um meðferð umsóknar um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi og hafi ekki vald til afgreiðslu slíkra leyfa. Á hinn bóginn hafi stofnunin með höndum meðferð og afgreiðslu mats á umhverfisáhrifum á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hún hafi enga aðkomu að leyfisveitingum í kjölfar slíks mats, þ.e. útgáfu rekstrarleyfa og starfsleyfa fiskeldisfyrirtækja. Útgáfa rekstrarleyfa sé verkefni Matvælastofnunar, sbr. lög nr. 71/2008 um fiskeldi, og sé það sú stofnun sem ákveði hvort meðferð umsóknar um rekstrarleyfi skuli fara eftir nýrri eða eldri ákvæðum laganna.

Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé skilgreint hvaða ákvarðanir hagsmunasamtök geti borið undir nefndina. Af ákvæðinu sé ljóst að ekki sé til staðar heimild í lögunum til að bera undir nefndina þá afstöðu Skipulagsstofnunar sem fram komi í nefndu bréfi. Enn síður geti kærandi haft kæruheimild á grundvelli laga nr. 106/2000. Í 1. mgr. 10. gr. laganna segi að innan tveggja vikna frá því að Skipulagsstofnun taki á móti frummatsskýrslu skuli stofnunin meta hvort skýrslan uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til hennar. Í framangreindu bréfi stofnunarinnar sé að finna þá afstöðu hennar til innsendrar frummatsskýrslu, sbr. nefnda 1. mgr. 10. gr. Þessi niðurstaða athugunar Skipulagsstofnunar sé á hinn bóginn ekki kæranleg ákvörðun skv. 3. tl. 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000. Tilvitnaður 3. tl. 6. mgr. 14. gr. feli ekki í sér heimild til að kæra ákvarðanir sem grundvallist á 1. mgr. 10. gr. laganna þrátt fyrir að nær allur málatilbúnaður kæranda lúti að broti á því ákvæði. Með öðrum orðum þá nái kæruheimild 14. gr. laga nr. 106/2000 ekki til ágreiningsefnis þessa máls.

Þá beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni þar sem frestur kæranda hafi verið liðinn þegar hann hafi sett fram kæru sína. Fyrir liggi kæra, dags. 26. júní 2020, en í málinu sé fjallað um afstöðu Skipulagsstofnunar frá 15. nóvember 2019. Samkvæmt 2. mgr. 4. laga nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur Skipulagsstofnun túlka kæruheimildir í þessu máli of þröngt. Í q-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé skilgreining á hugtakinu þátttökuréttur almennings. Þar segi að það sé réttur almennings til upplýsinga og réttur til að koma að athugasemdum og gögnum við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Þátttökuréttur almennings samkvæmt þessari skilgreiningu taki til mun fleiri þátta en stofnunin vilji meina. Hún haldi sig við þrönga upptalningu 6. mgr. 14. gr. laganna, en það sé ekki réttur lagaskilningur. Í d-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé ekki vísað til 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 heldur almennt til þátttökuréttar almennings. Sá réttur sé ekki takmarkaður við þau tilvik sem talin séu upp í 6. mgr. 14. gr. laganna og kæruheimild sé því ekki bundin við þau tilvik. Þar að auki þurfi að skýra hugtakið þátttökuréttur almennings með hliðsjón af alþjóðaskuldbindingum Íslands og í samræmi við hefðbundnar lögskýringarreglur, nánar tiltekið svonefndan Árósarsamning um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Niðurstaða: Frummatsskýrsla Arnarlax, dags. 8. júlí 2019, vegna 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í Ísafjarðardjúpi, barst Skipulagsstofnun eftir að lög nr. 101/2019 um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat, úthlutun eldissvæða o.fl.) voru samþykkt á Alþingi 20. júní 2019, en áður en þau tóku gildi 19. júlí s.á. Með breytingalögunum var bráðabirgðaákvæði II bætt við lög nr. 71/2008 um fiskeldi og kveður það á um að meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafi verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé lokið fyrir gildistöku bráðabirgðaákvæðisins, eða frummatsskýrslu skilað til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. þeirra laga fyrir sama tímamark, fari eftir eldri ákvæðum laga nr. 71/2008.

Í máli þessu er kærð afgreiðsla Skipulagsstofnunar á frummatsskýrslunni sem kemur fram í bréfi stofnunarinnar, dags. 15. nóvember 2019. Í bréfinu er tekið fram að stofnunin telji skýrsluna í meginatriðum uppfylla kröfur 9. gr. laga nr. 106/2000 og 20. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum og jafnframt uppfylla skilyrði um framlagningu frummatsskýrslu, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008. Áður en stofnunin auglýsi skýrsluna skv. 10. gr. laga nr. 106/2000 þurfi þó að bregðast við tilteknum athugasemdum. Er af kæru að skilja að kærandi telji nefnda afgreiðslu Skipulagsstofnunar leiða til þess að meðhöndla beri umsókn framkvæmdaraðila um rekstrarleyfi vegna eldis þess sem skýrslan fjallar um samkvæmt eldri ákvæðum laga nr. 71/2008. Vísar kærandi um kæruheimild til 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, einkum 3. tl. hennar, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Er m.a. mælt fyrir um kæruheimildir til úrskurðarnefndarinnar í 14. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt 1. mgr. nefndrar 14. gr. sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar matsskylduákvarðanir, ákvarðanir um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fleiri framkvæmda og ákvarðanir um endurskoðun að loknu mati á umhverfisáhrifum. Þá er mælt fyrir um í 3. mgr. 14. gr. að framkvæmdaraðili geti kært ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 8. gr. um synjun matsáætlunar eða breytingar á henni og ákvörðun stofnunarinnar skv. 1. mgr. 10. gr. um að hafna frummatsskýrslu sem ekki uppfylli þær kröfur sem gerðar séu í 9. gr. eða sé ekki í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Með breytingalögum nr. 89/2018 var nefndri 14. gr. laga nr. 106/2000 breytt á þann veg að athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem brýtur gegn þátttökurétti almennings á nánar tilgreindum grundvelli sætir nú einnig kæru til úrskurðarnefndarinnar. Sá grundvöllur sem um ræðir er talinn upp í fimm töluliðum í 6. mgr. 14. gr. og í 3. tl. ákvæðisins, sem kærandi tiltekur sem kæruheimild, er vísað til 2.-4. mgr. 10. gr. laganna um athugun Skipulagsstofnunar og matsskýrslu. Í þeim málsgreinum er kveðið á um að Skipulagsstofnun kynni hina fyrirhuguðu framkvæmd og frummatsskýrslu með tilkynningu á vef stofnunarinnar og auglýsingu í Lögbirtingablaði og öðrum fjölmiðlum, framkvæmdaraðili kynni framkvæmd og frummatsskýrslu í samráði við stofnunina eftir að skýrslan hafi verið auglýst nema stofnuninni þyki sýnt að framkvæmdin og skýrslan hafi hlotið fullnægjandi kynningu, auk þess sem mælt er fyrir um hvar frummatsskýrslan skuli vera aðgengileg, hve lengi og hver frestur sé til athugasemda við skýrsluna. Loks er tiltekið að öllum sé heimilt að gera athugasemdir við framlagða frummatsskýrslu.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var umrædd frummatsskýrsla framkvæmdaraðila kynnt og auglýst á vef Skipulagsstofnunar, í Lögbirtingablaði og í fjölmiðlum, hún lá frammi í tiltekinn tíma, kynningarfundur var haldinn og gefinn var kostur á að koma að athugasemdum við skýrsluna, sem kærandi og gerði. Dregur kærandi í sjálfu sér ekki í efa að kynning hafi farið fram með tilskildum fresti til athugasemda og því um líkt, heldur beinast athugasemdir hans einkum að því að frummatsskýrslan, dags. 8. júlí 2019, hafi verið ófullnægjandi. Hún hafi ekki verið auglýst fyrr en 13. maí 2020 og þannig augljóslega ekki verið fullnægjandi fyrir gildistöku breytingalaga nr. 101/2019. Skipulagsstofnun taldi hins vegar ekki ástæðu til að hafna frummatsskýrslu framkvæmdaraðila heldur leiðbeindi hún honum um atriði sem lagfæra þyrfti áður en skýrslan yrði auglýst. Svo sem áður er rakið getur framkvæmdaraðili skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 kært ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 1. mgr. 10. gr. sömu laga um að hafna frummatsskýrslu, en stofnunin hefur samkvæmt ákvæðinu tvær vikur til að meta hvort skýrslan uppfylli tilskildar kröfur. Verður orðalagið ekki skilið á annan hátt en að kæruheimildin, hvort sem er vegna höfnunar Skipulagsstofnunar eða óhóflegs dráttar hennar umfram tímamörk 1. mgr. 10. gr., sé bundin við framkvæmdaraðila, sbr. til að mynda úrskurð úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 13/2016.

Í q-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 er þátttökuréttur almennings skilgreindur sem réttur almennings til upplýsinga og réttur til að koma að athugasemdum og gögnum við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Þótt fyrir liggi að kæranda  hafði gefist tækifæri til að koma að, og kom raunar að, athugasemdum við auglýsta frummatsskýrslu hefur hann vísað til þess að um brot á þátttökuréttindum hafi verið að ræða. Ekki megi skýra þröngt kæruheimildir sem taki til slíkra réttinda. Samkvæmt fyrirmælum 6. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 skal framkvæmdaraðili vinna endanlega matsskýrslu þar sem hann skal m.a. gera grein fyrir framkomnum athugsaemdum og taka afstöðu til þeirra. Skipulagsstofnun skal svo í áliti sínu fjalla um þá afgreiðslu framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr. 11. gr. laganna. Athugasemdir kæranda við frummatsskýrsluna, sem m.a. lutu að gæðum hennar og lagaskilum, eiga því eftir að koma til skoðunar í því mati á umhverfisáhrifum sem fram fer og er það hluti af þeirri þátttöku almennings sem lög gera ráð fyrir. Í þessu sambandi er rétt að benda á að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður almennt ekki kærð til kærustjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frá því eru undantekningar í lögum, s.s. þær kæruheimildir sem áður er lýst vegna athafna og athafnaleysis stjórnvalda sem brjóta gegn þátttökurétti almennings. Þær er að finna í fimm töluliðum 6. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000, en í meðförum Alþingis var því hins vegar hafnað að bæta við lögin kæruheimild sem fæli í sér „eins konar safnlið“ sem samkvæmt frumvarpi til laganna myndi mæla fyrir um að tilvik sambærileg þeim sem rakin væru í 1.-5. tl. 6. mgr. 14. gr. sættu kæru til úrskurðarnefndarinnar. Tók umhverfis- og samgöngunefnd undir þau sjónarmið að ekki væri tilefni til lögfestingar slíks ákvæðis, auk þess sem orðalag þess byði upp á túlkunarágreining um inntak kæruheimildarinnar, en sjónarmiðum um skýrleika bæri að gefa sérstakan gaum við lagasetningu til að tryggja að réttaróvissa skapaðist ekki. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður kæruheimild 3. tl. 6. mgr. 14. gr. ekki túlkuð þannig að hún heimili kæranda málskot vegna efnis hinnar kærðu afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Þá er ljóst að tilvísun 4. gr. laga nr. 130/2011 til þess að kæra megi ætlað brot á þátttökurétti almennings hefur ekki sjálfstæða þýðingu hér. Fjallar sú lagagrein enda um málsmeðferð og aðild fyrir úrskurðarnefndinni en ekki um kæruheimildir sem kveðið er á um í ýmsum öðrum lögum á sviði umhverfis- og auðlindamála, eins og fram kemur í 1. gr. laga nr. 130/2011. Verði leyfi hins vegar veitt fyrir umræddu fiskeldi er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir málsmeðferð vegna hennar þá lögmætisathugun nefndarinnar, þ. á m. á því hvernig staðið hafi verið að mati á umhverfisáhrifum og hvort lagaskilareglum hafi réttilega verið beitt.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kæruheimildir 14. gr. laga nr. 106/2000 taki ekki til þess ágreinings sem er efni kærumáls þessa, en annar ágreiningur, sem kann að rísa um framkvæmd þeirra laga og ekki er tilgreindur í 14. gr. þeirra eða í öðrum lögum, sætir ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, enda ekki mælt fyrir um það í lögum, eins og títtnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

55/2020 Látrar

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 10. nóvember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 55/2020, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðvík ehf., eigandi hluta eyðijarðarinnar Látra í Aðalvík, meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum. Gerir kærandi þá kröfu „að höfnun Ísafjarðarbæjar á niðurrifi viðbyggingu sjávarhússins verði dæmd ógild.“ Skilja verður kröfugerð kæranda svo að kærð sé afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 um að hafna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús verði fjarlægð og að ógildingar afgreiðslunnar sé krafist.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 31. júlí og í nóvember 2020.

Málavextir: Látrar í Aðalvík teljast hluti af friðlandi á Hornströndum, sbr. auglýsingu nr. 332/1985. Á svæðinu eru nokkur hús, þeirra á meðal svonefnd Sjávarhús og Ólafsskáli er standa hlið við hlið. Hefur kærandi um langt skeið komið á framfæri athugasemdum við Ísafjarðarbæ vegna meintrar óleyfisbyggingar Sjávarhússins, viðbyggingar við það og byggingar smáhýsa/áhaldahúsa í fjörukambinum. Með bréfi kæranda til Ísafjarðarbæjar, dags. 26. ágúst 2014, var þess farið á leit við byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að Sjávarhúsið yrði fjarlægt. Veitti sveitarfélagið eigendum hússins kost á því að koma að athugasemdum og bárust þær með bréfi, dags. 20. janúar 2015. Hinn 3. febrúar s.á. tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi kæranda að beiðni hans væri hafnað með vísan til þess að langt væri liðið frá byggingu hússins, auk þess sem það félli ekki undir valdsvið Ísafjarðarbæjar að skera úr um einkaréttarlegan ágreining.

Sama dag tilkynnti skipulags- og byggingarfulltrúi eigendum Sjávarhússins að sveitarfélagið teldi ekki rök standa til þess að það hlutaðist til um að fasteignin í heild sinni yrði fjarlægð, en að óskað væri skýringa á breytingum og/eða endurbótum sem gerðar hefðu verið á umræddri fasteign á undanförnum árum, að því er virtist án tilskilinna leyfa. Í svarbréfi, dags. 23. febrúar 2015, kom m.a. fram að byggingaraðilar hússins væru ekki eigendur umræddrar jarðar, en hefðu fengið leyfi frá eiganda hennar til að reisa húsið á sínum tíma. Hefði þess einnig verið farið á leit við Náttúruverndarráð með bréfi árið 1994 að húsið fengi að standa. Væri þeim ekki kunnugt um að bréfinu hefði verið svarað og væri þeim því rétt að líta svo á að ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við byggingu hússins. Mættu þeir því hafa réttmætar væntingar til þess að sú ákvörðun stæði óbreytt. Endurbætur sem byggingaraðilar hefðu ráðist í vegna viðhalds hússins væru aðeins minniháttar lagfæringar. Viðbyggingu hefði verið skeytt við húsið árið 2012, en byggingaraðilar hefðu ekki komið að þeirri framkvæmd og væru ekki eigendur viðbyggingarinnar. Þá var óskað eftir afstöðu Ísafjarðarbæjar til þess hvort málinu teldist lokið hvað eigendur Sjávarhússins varðaði.

Hinn 11. mars 2015 var tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar erindi varðandi niðurrif Sjávarhússins og vísað til fyrrgreinds svars eigenda þess. Færði skipulags- og mannvirkjanefnd eftirfarandi til bókar: „Ekki er unnt að fallast á þessi sjónarmið eigenda Sjávarhússins varðandi viðbyggingu fasteignarinnar. Viðbygging verður að teljast tilheyra þeirri fasteign sem hún er skeytt við, sbr. 2. gr. laga nr. 40/2002, og þannig á ábyrgð eiganda eða eigenda þeirrar fasteignar að lögum. Byggingarfulltrúa er falið að tilkynna eigendum Sjávarhússins þá afstöðu Ísafjarðarbæjar að málinu sé þannig ekki lokið gagnvart þeim. Eigendum fasteignarinnar skal jafnframt tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, þrátt fyrir framangreinda afstöðu þeirra til málsins, að til greina komi að krefjast þess að óleyfisframkvæmdirnar verði fjarlægðar, og skal þeim gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og andmælum hvað það varðar.“ Ekki munu athugasemdir hafa borist sveitarfélaginu á þeim tíma, en árið 2016 skaut kærandi afgreiðslum sveitarfélagsins varðandi meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Með úrskurði nefndarinnar 6. september 2018, í máli nr. 116/2016, var tekið fram að samkvæmt upplýsingum frá Ísafjarðarbæ hefði erindi kæranda um að fjarlægja stækkun Sjávarhússins ekki verið tekið fyrir að nýju og var lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til þeirrar kröfu. Í úrskurðinum var einnig lagt fyrir byggingarfulltrúa að afgreiða erindi kæranda um að áhaldahús í fjörukambinum skyldu fjarlægð. Þá var vísað frá kröfu kæranda um að fjarlægja skyldi Sjávarhúsið þar sem kæra þar að lútandi hefði borist nefndinni of seint, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Skipulags- og byggingarfulltrúi sendi kæranda bréf, dags. 18. janúar 2019, varðandi málefni Sjávarhússins og áhaldahúsa/smáhýsa í fjörukambinum og veitti honum færi á að koma að sjónarmiðum sínum. Í kjölfar þessa óskaði kærandi eftir því að ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna því að fjarlægja Sjávarhúsið yrði endurupptekin með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún hefði m.a. byggst á röngum forsendum um það hvenær húsið hefði verið reist. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. maí 2019, var tilkynnt að kröfu um endurupptöku væri hafnað. Skaut kærandi þeirri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði 30. júní 2020, í máli nr. 66/2019, hafnaði kröfu kæranda um ógildingu á þeirri ákvörðun. Með sama úrskurði var felld úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um að synja kröfu kæranda um að fimm smáhýsi sem staðsett væru í fjörukambinum yrði fjarlægð.

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til eigenda Sjávarhússins, dags. 18. janúar 2019, var bent á að ekki hefði verið brugðist við fyrrnefndri bókun skipulags- og mannvirkjanefndar frá 11. mars 2015 varðandi viðbyggingu Sjávarhússins og var veittur á ný fjögurra vikna frestur til að koma sjónarmiðum á framfæri. Barst svar með tölvupósti 26. febrúar s.á. þar sem m.a. var bent á að erfitt væri um vik að færa fram athugasemdir þar sem að í bréfi Ísafjarðarbæjar kæmi hvergi fram hvaða meintu óleyfisframkvæmdir það væru sem um ræddi. Væri vísað til fyrri samskipta og skýringa vegna málsins og því alfarið mótmælt að fyrir hendi væru atvik sem leiða ættu til þess að eigendum hússins yrði gert að fjarlægja tiltekna hluta fasteignarinnar, þ.e. svokallaðar óleyfisframkvæmdir. Jafnframt var tekið fram að liðin væru tæplega fjögur ár frá því að síðustu samskipti vegna þessa máls hefðu átt sér stað milli aðila. Hefðu eigendur Sjávarhússins því staðið í þeirri trú að málinu væri lokið.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 20. maí 2020 var tekin fyrir krafa kæranda um að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð. Í fundargerð kom m.a. fram að landeigendum Látra hefði verið gefið færi á að koma með athugasemdir við kröfu kæranda um að viðbygging við Sjávarhúsið yrði fjarlægð. Hefðu borist sex svör frá landeigendum og hefði enginn þeirra sett sig upp á móti viðbyggingunni. Var eftirfarandi fært til bókar: „Skipulags- og mannvirkjanefnd áskildi sér rétt til þess að leita eftir sjónarmiðum annarra landeigenda jarðarinnar Látra, í útsendu bréfi dags. 14. júní 2019. Ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu landeigenda og vegna þess hve langt er um liðið að umræddri viðbyggingu var skeytt við húsið, telur nefndin ekki tilefni til að gera kröfu á það að viðbygging verði fjarlægð.“ Er það hin kærða ákvörðun, svo sem áður er komið fram, en kæranda var formlega tilkynnt greind afgreiðsla nefndarinnar með tölvupósti skipulagsfulltrúa 2. nóvember 2020.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að einungis sex af 34 landeigendum Látra hafi tekið afstöðu til skoðanakönnunar sveitarfélagsins um hina umþrættu viðbyggingu, en samtals eigi þessir sex aðilar 23,3854% í jörðinni. Eignarhluti kæranda í Látrum sé 50%. Þjóni það ekki hagsmunum umræddra aðila að málefni kæranda nái fram að ganga, en aðeins einn þeirra virðist ekki hafa hag af þessu máli. Ef eingöngu sé horft til þeirra sem tekið hafi afstöðu þá séu tæplega 70% sem vilji láta fjarlægja viðbygginguna.

Fram komi hjá Ísafjarðarbæ að ekki sé tilefni til að gera kröfu á það að viðbyggingin verði fjarlægð vegna þess hve langt sé um liðið frá því að henni hafi verið skeytt við húsið. Þetta sé ekki rökstutt frekar en dráttur sá sem orðið hafi á afgreiðslu málsins sé alfarið sveitarfélaginu að kenna. Kærandi hafi lagt fram erindi í ágúst 2014, úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hafi verið kveðinn upp 6. september 2018 og niðurstaða Ísafjarðarbæjar legið fyrir 20. maí 2020, eða 622 dögum síðar. Það hafi tekið sveitarfélagið 281 dag að koma fyrirspurnum til landeigenda og 310 daga að vinna úr svörum sex aðila.

Sjávarhúsið hafi verið stækkað á árunum 2010-2014. Þurfi samþykki allra landeigenda á sameignarlandi fyrir framkvæmdum sem þessum, en slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Ekki hafi verið aflað umsagnar hjá Umhverfisstofnun eða Náttúruvernd ríkisins, líkt og lög áskilji. Þá hafi Ísafjarðarbær ekki veitt byggingarleyfi svo vitað sé, enda væri slíkt leyfi ólöglegt.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er farið fram á að kröfu kæranda verði hafnað, verði henni ekki vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2016 hafi krafa kæranda verið tekin til nánari athugunar. Á ný hafi verið óskað eftir afstöðu eigenda Sjávarhússins til umræddrar kröfu og hafi þeir hafnað henni. Auk þess hafi m.a. verið óskað eftir afstöðu eigenda Ólafsskála sem ekki hafi gert athugasemdir við viðbyggingu Sjávarhússins. Ljóst sé af framkomnum svörum að afstaða þeirra sem hagsmuna eigi að gæta á svæðinu, annarra en kæranda, sé sú að þeir geri ekki athugasemdir við umrædda viðbyggingu. Til þessa hafi verið litið sérstaklega þegar tekin hafa verið afstaða til kröfu kæranda. Einnig hafi verið horft til þess að nokkuð sé um liðið frá því að viðbyggingin hafi verið reist, auk þess sem hún feli ekki í sér umfangsmikla breytingu á þeim húsum sem hún standi á milli.

Af fyrirliggjandi gögnum megi enda ráða að þegar svonefndur Ólafsskáli hafi verið endurbyggður í upprunalegri mynd á árinu 2012 og í tengslum við endurbætur á Sjávarhúsinu hafi verið skeytt við Sjávarhúsið u.þ.b. tveggja metra viðbyggingu sem lokað hafi þröngu sundi/bili á milli Sjávarhússins og Ólafsskála. Ekki sé um nein grenndaráhrif, útsýnisskerðingu eða skuggavarp að ræða af viðbyggingunni. Sé hún í sömu mynd og húsin sem hún standi á milli. Af þessum sökum megi gera ráð fyrir að töluvert rask yrði á báðum húsunum ef viðbyggingin yrði fjarlægð. Enn fremur hafi verið horft til þess að umrædd krafa lyti að því að fasteign í eigu annars aðila yrði fjarlægð að hluta og að ákvörðun þess efnis myndi teljast verulega íþyngjandi fyrir þann aðila. Slík ákvörðun verði ekki tekin nema á sterkum grundvelli, en kærandi hafi ekki fært fyrir því rök.

Lög og byggingarreglugerð feli í sér heimildir skipulags- og byggingarfulltrúa til að m.a. krefjast þess að mannvirki sé fjarlægt. Ekki sé um að ræða skyldu hans til aðgerða á grundvelli kröfu eins aðila. Við mat á því hvort slíkum heimildum skuli beitt verði að taka tillit til annarra sjónarmiða, þ. á m. hagsmuna annarra, sem og þess rasks sem fylgi því að kröfunni verði framfylgt. Eins verði að horfa til þess að kæranda standi til boða einkaréttarleg úrræði til að framfylgja rétti sínum. Að teknu tilliti til þessara atriða, sem og annarra sjónarmiða sem komið hafi fram af hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa á fyrri stigum, hafi ekki þótt tilefni til að fallast á kröfu kæranda.

Athugasemdir kæranda varðandi „skoðanakönnun“ skipulags- og byggingarfulltrúa hafi ekki þýðingu við úrlausn málsins. Þá geti athugasemdir við málsmeðferðartíma ekki haft þau áhrif eins og hér hátti til að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að við afgreiðslu málsins hafi Ísafjarðarbær ekki tekið tillit til brunavarna og lámarksbils milli húsa, en augljóst sé að komi upp eldur í öðru hvoru húsinu þá verði hitt húsið einnig eldinum að bráð. Þrengi framkvæmdir eigenda Sjávarhússins að Ólafsskála. Sé því alfarið hafnað að rask verði á báðum húsunum við það að fjarlægja þennan hluta af viðbyggingunni. Verði sundið á milli húsanna opnað að nýju muni það ekki hafa áhrif á Ólafsskála að öðru leyti en því að hægt verði að sinna eðlilegu viðhaldi á þeirri hlið.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu, m.a. af hálfu eigenda Sjávarhússins, sem ekki verða rakin nánar í ljósi niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 að synja kröfu kæranda um að fjarlægð verði viðbygging við svonefnt Sjávarhús á Látrum. Mun húsið hafa verið stækkað án þess að fyrir lægi heimild byggingarfulltrúa fyrir þeim breytingum, sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í kröfu kæranda felst að beitt verði ákvæðum 2. mgr. 55. gr. laganna, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur m.a. byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Segir í athugasemdum við 2. mgr. 55. gr. í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að þetta sé metið í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Þá kemur fram í almennum athugasemdum með frumvarpinu að í því sé um að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu til ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar þar að lútandi. Er og tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði.

Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar-leyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki er í gildi samþykkt um afgreiðslur skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar sem sett hefur verið skv. 7. gr. laga nr. 160/2010, en skv. 6. mgr. þeirrar lagagreinar skal samþykkt sem sett er samkvæmt henni lögð fyrir félags- og barnamálaráðherra, áður umhverfis- og auðlindaráðherra, til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hins vegar er í gildi samþykkt um stjórn Ísafjarðarbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 535/2014 með síðari breytingum, þar sem m.a. segir að skipulags- og mannvirkjanefnd fari með byggingar- og skipulagsmál samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Auk verkefna sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi með höndum samkvæmt lögum geti bæjarstjórn falið henni ýmis verkefni með erindisbréfi. Slíkt erindisbréf liggur fyrir og í því segir m.a. að hlutverk nefndarinnar sé að fjalla um skipulagsmál og fara með hlutverk skipulagsnefndar í skilningi 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með síðari breytingum, sbr. einnig heimild í 3. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Jafnframt er tekið fram að skipulags- og byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar sitji fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt með vísan í 5. mgr. gr. 2.4 í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og fari hann með verkefni nefndarinnar, sbr. lög nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslög nr. 123/2010.

Samþykkt nr. 535/2014 er sett með stoð í 9. gr. sveitarstjórnarlaga og var staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á sér ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir, enda er það vald ekki sveitarstjórnar samkvæmt tilvitnaðri grein.

Við meðferð kærumáls þessa aflaði úrskurðarnefndin frekari gagna og beindi m.a. fyrirspurn til Ísafjarðarbæjar um aðkomu byggingarfulltrúa að málinu. Fengust þau svör að byggingarfulltrúi hefði ekki afgreitt erindið á afgreiðslufundi sínum en hann hefði ekki heimildir til að taka afstöðu til kröfu kæranda þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir Látra. Hefði öll málsmeðferðin verið í höndum skipulags- og mannvirkjanefndar og útsend bréf séu með hliðsjón af afgreiðslu nefndarinnar um erindið. Liggur samkvæmt framangreindu fyrir að sú málsmeðferð var ekki í samræmi við skýr ákvæði mannvirkjalaga. Var  skipulags- og mannvirkjanefnd ekki til þess bær að taka hina kærðu ákvörðun heldur þurfti til að koma sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa og breytti engu þar um þótt um væri að ræða byggingu á ódeiliskipulögðu svæði. Þar sem slík ákvörðun byggingarfulltrúa hefur ekki verið tekin liggur ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður því að vísa kröfu kæranda frá úrskurðarnefndinni.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var með úrskurði nefndarinnar 6. september 2018, í máli nr. 116/2016, lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka afstöðu til kröfu kæranda um fjarlægingu stækkunar Sjávarhússins. Með því að ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi brugðist við framangreindri niðurstöðu nefndarinnar verður lagt fyrir hann að nýju að taka afstöðu til fyrrgreindrar kröfu kæranda án frekari dráttar, svo sem honum ber að gera samkvæmt mannvirkjalögum, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar frá 20. maí 2020 um að hafna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús á Látrum verði fjarlægð.

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að taka afstöðu án frekari dráttar til kröfu kæranda um að umrædd viðbygging verði fjarlægð.