Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

30/2020 Storm orka ehf.

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 9. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2020, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu tillögu að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða, Dalabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 22. apríl 2020, er framsent var 24. s.m. til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærir Storm orka ehf. óhæfilegan drátt á afgreiðslu tillögu að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjar­staða, Dalabyggð. Gerir kærandi þá kröfu að afgreiðslu málsins verði lokið án frekari tafa.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 27. maí 2020.

Málsatvik: Tillaga að matsáætlun fyrir Storm I vindorkuverkefni vegna 80-130 MW vind­orkuvers að Hróðnýjarstöðum, Dalabyggð, var auglýst á heimasíðu Skipulagsstofnunar 23. apríl 2019 í kjölfar nokkurra samskipta kæranda við stofnunina. Kom fram í auglýsingunni að frestur til athugasemda væri til 2. maí 2019. Sama dag og auglýsingin var birt var einnig sent bréf til kæranda og honum tilkynnt að umsagna hefði verið leitað og frestur til að skila inn umsögnum væri sömuleiðis til 2. maí 2019. Þá kom fram að ákvörðunar Skipulagsstofnunar væri að vænta 9. þess mánaðar. Hinn 31. maí 2019 barst tölvupóstur frá kæranda til Skipulags­stofnunar með drögum að svörum kæranda við athugasemdum umsagnaraðila. Í framhaldi af því sendi starfsmaður Skipulagsstofnunar tölvupóst til kæranda 4. júní s.á. þar sem m.a. kom fram að eftir að farið hefði verið yfir drög að svörum við umsögnum og athugasemdum sem kærandi hefði sent væri ljóst að leita þyrfti aftur umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hinn 7. s.m. sendi Skipulagsstofnun tölvupóst til Náttúrufræðistofnunar og óskaði frekari umsagnar við svörum kæranda. Skipulagsstofnun ítrekaði beiðnina 30. júlí 2019 og sendi Náttúrufræði­stofnun Íslands athugasemdir daginn eftir eða 31. s.m. Hinn 1. ágúst 2019 sendi Skipulagsstofnun athugasemdirnar til kæranda og bauð honum að bregðast við. Kærandi skilaði athugasemdum sínum 26. ágúst s.á. þar sem fram kom að frekari umsögn Náttúrufræðistofnunar bætti engu við fyrri umsögn varðandi það hvaða rannsóknir væru nauðsynlegar á svæðinu.

Hinn 18. september 2019 sendi kærandi fyrirspurn um stöðu mála og óskaði eftir áætlun um hvenær ákvörðun myndi liggja fyrir. Tók hann fram að málsmeðferðartími væri kominn langt umfram það sem eðlilegt mætti teljast, allar umsagnir lægju fyrir, sem og svör framkvæmdar­aðila. Eftir ítrekanir kæranda var erindinu svarað 1. október 2019, þar sem fram kom að Skipulagsstofnun væri meðvituð um að dráttur hefði orðið á afgreiðslu verkefnisins sem mætti rekja til nokkurra atriða, m.a. fjölda mála hjá stofnuninni og þess að beðið hefði verið eftir frekari umsögn Náttúrufræðistofnunar. Því miður væri ekki hægt að segja hvenær ákvörðun lægi fyrir, en stofnunin myndi reyna að hraða vinnu við hana eins og unnt væri. Hinn 3. desember 2019 sendi kærandi aftur póst og spurði hvort búast mætti við svari frá Skipulags­stofnun í vikunni. Í svari stofnunarinnar sama dag kom fram að málið næði ekki inn á afgreiðslufund í þeirri viku en að það væri efst á baugi hjá stofnuninni. Kærandi sendi ítrekunarpóst 17. s.m. Erindinu var svarað sama dag og tekið fram að drög að ákvörðun um matsáætlun lægi fyrir hjá Skipulagsstofnun, en fyrirhugað væri að funda með Náttúrufræði­stofnun vegna fuglaumfjöllunarinnar. Ólíklegt væri að af ákvörðun yrði fyrir áramót og var það síðar staðfest með tölvupósti 20. desember 2019. Hinn 21. janúar 2020 sendi Náttúrufræði­stofnun Skipulagsstofnun athugasemdir og ábendingar vegna matsins.

Kærandi sendi Skipulagsstofnun að nýju tölvupóst 30. janúar 2020 þar sem hann lýsti áhyggjum sínum yfir hversu langan tíma afgreiðsla tillögu að matsáætlun tæki. Stofnunin mun hafa viðurkennt óhóflegan drátt á málsmeðferð með tölvupósti 1. febrúar 2020, en vísað til anna, skorts á mannskap, málafjölda og umfangs verkefna ásamt því að taka fram að stefnt yrði að ákvörðun innan tveggja vikna. Kæra í máli þessu barst 24. apríl 2020, eins og áður greinir.

Málsrök kæranda: Að mati kæranda hefur Skipulagsstofnun með málsmeðferð sinni, þ.e. að virða að vettugi eðlilegan tímaramma, tilgreina ekki hvenær vænta hafi mátt ákvörðunar og standa ekki við gefin vilyrði um hvenær vænta mætti ákvörðunar, í raun stöðvað verkefnið og komið í veg fyrir stjórnarskrárvarinn rétt eigenda félagsins til að stunda þá atvinnu í eigin landi sem þeir kjósi, sbr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Með aðgerðar­leysi sínu virðist stofnunin hafa tekið sér vald til að setja kæranda skorður um framgang verkefnisins.

Hinn 21. mars 2020 hafi ríkisstjórn Íslands kynnt mótvægisaðgerðir vegna Covid-19 þar sem hún hafi lofað um 230 milljörðum í ýmsar aðgerðir, m.a. fjárfestingar tengdar atvinnulífinu með það að markmiði að auka og styrkja atvinnu í grænni orku. Það skjóti skökku við að lofa milljörðum úr sjóðum ríkisins til að styrkja og efla atvinnusköpun á sama tíma og Skipulags­stofnun haldi stóru atvinnuskapandi verkefni í gíslingu og stöðvi framgang þess. Með tilkomu vindlundar kæranda muni fjárfesting í orkumálum aukast um 20 milljarða og raforkuöryggi Vestfjarða styrkjast verulega. Muni með því verða komið í veg fyrir straumrof sem íbúar þar hafi orðið fyrir í vetur.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að Skipulagsstofnun skuli taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi tillaga berist, að fenginni umsögn leyfisveitanda og eftir atvikum annarra aðila. Af þessu sé ljóst að afgreiðslu­fresturinn miðist við að tillaga að matsáætlun sé fullnægjandi. Drög að matsáætlun sem kærandi hafi sent 2. maí 2018, svo og önnur drög sem hafi verið send eftir þann tíma, hafi ekki verið fullnægjandi í skilningi umrædds lagaákvæðis.

Afgreiðsla Skipulagsstofnunar hafi samt sem áður dregist úr hófi, en helsta ástæðan sé sú að vindorkuver af því umfangi sem kærandi áformi eigi sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Fjölmargir aðrir aðilar hugi á sambærilega uppbyggingu og hafi Skipulagsstofnun fjögur önnur áformuð vindorkuver til meðferðar. Orkustofnun hafi tilkynnt verkefnastjórn fjórða áfanga ramma­áætlunar um nýja virkjunarkosti 30. janúar 2020, en sá listi hafi 1. apríl s.á. verið uppfærður í 34 nýja virkjunarkosti í vindorku. Telji Skipulagsstofnun mikilvægt að tryggt sé að rétt skref séu tekin frá upphafi í undirbúningi vindorkuframkvæmda. Uppi sé óvissa um þær kröfur sem gera skuli til rannsókna vegna vindorkuvera svo tryggt verði að upplýsa megi um líkleg umhverfisáhrif þeirra. Í því skyni að eyða þeirri óvissu og tryggja samræmdar kröfur til þeirra aðila sem hyggi á uppbyggingu vindorkugarða hafi Skipulagsstofnun átt samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi almennar og sértækar lágmarkskröfur til fuglarannsókna í tengslum við uppbyggingu vindorkuvera. Enn sem komið er hafi Skipulagsstofnun ekki lokið þeirri vinnu en reynt sé að flýta henni eins og kostur sé.

Bent sé á að verkefnisstjórn fjórða áfanga rammaáætlunar eigi eftir að fjalla um áformin. Alþingi eigi enn eftir að afgreiða tillögur verkefnisstjórnar þriðja áfanga og ljóst sé að fjórða áfanga ramma­áætlunar komi ekki til með að ljúka í náinni framtíð.

Loks sé mikill fjöldi umfangsmikilla mála til meðferðar hjá Skipulagsstofnun auk þess sem stofnunin hafi búið við viðvarandi manneklu. Skipulagsstofnun harmi þær tafir sem orðið hafi á afgreiðslu málsins og að hafa ekki upplýst framkvæmdaraðila betur um ástæður þeirra.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að hvorki málefnalegar né hlutlægar ástæður komi fram í umsögn Skipulagsstofnunar. Stofnunin eigi að taka ákvörðun um fullnægjandi tillögu kæranda innan fjögurra vikna, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2011 um mat á umhverfis­áhrifum. Fullnægjandi matstillaga hafi legið fyrir í apríl 2019.

Fyrir liggi álit Skipulagsstofnunar varðandi 200 MW Búrfellslund, vindorkuver í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi, dags. 21. desember 2016, sem sé hliðstætt vindorkuver við það sem kærandi hyggist reisa. Það hafi tekið Skipulagsstofnun um 9 vikur að afgreiða þá tillögu að matsáætlun en það verkefni hafi þá ekki átt sér hliðstæðu. Vindorka hafi verið ofarlega á baugi virkjunarkosta í „grænni orku“ undanfarin ár. Því hafi nægur tími verið til undirbúnings til að rannsaka hvaða kröfur bæri að gera til vindorkugarða. Umfangsmiklar rannsóknir, aðferðarfræði rannsókna, matsáætlanir og mat á umhverfisáhrifum vindorkuvera liggi fyrir í Noregi, Danmörku og einkum í Skotlandi. Auk þess séu aðgengilegar rannsóknir í Hollandi, Frakklandi og Þýskalandi, þar sem niðurstöður séu byggðar á áratuga reynslu. Orkustofnun hafi einungis metið gögn um virkjunarkosti í vatnsafli og jarðhita í samræmi við leiðbeiningar sínar og túlkun þess efnis að vindorka falli ekki undir ákvæði laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Forsenda þess að verkefnisstjórn fjalli um virkjunarkost sé sú að kosturinn sé, að mati Orkustofnunar, nægilega skilgreindur. Einungis þá skuli verkefnastjórn fá hann til umfjöllunar, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011, sbr. einnig reglugerð nr. 530/2014 um virkjunarkosti í verndar- og orkunýtingaráætlun og frumvarp til laganna. Engir virkjunarkostir í vindorku sem verkefnastjórn hafi tekið við hafi verið skilgreindir og metnir af Orkustofnun. Þegar af þessari ástæðu geti verkefnastjórnin ekki tekið umrædda vindorkukosti til skoðunar, hvað þá gert um þá tillögu til ráðherra vegna fjórðu verndar- og orkunýtingaráætlunarinnar. Það sé mikilvægt að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þessa atriðis, þar sem Skipulagsstofnun skýli sér á bak við lög nr. 48/2011, sem sé máli þessu alls óviðkomandi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er meginreglan sú að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laganna er hins vegar unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Kæra í máli þessu lýtur að drætti á afgreiðslu tillögu að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða, Dalabyggð.

Um matsáætlun er fjallað í 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í 1. mgr. ákvæðisins segir m.a. að sé fyrirhuguð framkvæmd háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum skuli framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur sé. Kemur nánar fram í ákvæðinu hvers efnis tillagan skuli vera og hvernig framkvæmdaraðili skuli kynna hana. Við birtingu breytinga­laga nr. 96/2019 1. júlí 2019 tók nefnd 8. gr. nokkrum breytingum. Í þágildandi 2. mgr. lagagreinarinnar var kveðið á um að Skipulagsstofnun skyldi taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila innan fjögurra vikna frá því að tillaga bærist, að fenginni umsögn leyfis­veitanda og eftir atvikum annarra aðila. Í núgildandi 2. mgr. 8. gr. segir að Skipulagsstofnun skuli taka ákvörðun um tillögu framkvæmdaraðila innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi tillaga berst, að fenginni umsögn leyfisveitanda og eftir atvikum annarra aðila. Er grein gerð fyrir því í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að nefndum breytingalögum að breyting sú sem um ræðir sé tilkomin í ljósi reynslu af framkvæmd laganna og er áréttað að málsmeðferð Skipulagsstofnunar, þar sem stofnunin tekur ákvörðun um tillögu að matsáætlun, hefjist þegar fullnægjandi gögn hafi borist og að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila. Þá var með breytingalögunum skeytt við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 að ákvörðun um matsáætlun skuli taka mið af eðli og umfangi framkvæmdar, staðsetningu og líklegum umhverfisáhrifum hennar. Í áðurgreindu frumvarpi er rakið að lagt sé til að kveðið verði á með skýrari hætti en áður um grundvöll ákvörðunar Skipulagsstofnunar um tillögu að matsáætlun. Loks var sú breyting gerð að Skipulagsstofnun geti fallist á tillögu að matsáætlun með skilyrðum, í stað athugasemda áður, og verði þau hluti af matsáætlun. Fallist Skipulagsstofnun ekki á tillögu að matsáætlun skuli stofnunin rökstyðja ákvörðun sína, gera grein fyrir því sem hún telji ábótavant og leiðbeina framkvæmdaraðila um frekari vinnslu tillögu að matsáætlun. Í 4. mgr. 8. gr. segir að fallist Skipulagsstofnun á tillögu að matsáætlun skuli hún kynnt leyfis­veitendum og öðrum umsagnaraðilum og höfð aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Í 5. mgr. ákvæðisins er síðan tekið fram að ef sérstakar ástæður mæli með geti Skipulagsstofnun á síðari stigum, sbr. 9. og 10. gr., farið fram á að framkvæmdaraðili leggi fram frekari gögn, enda rökstyðji stofnunin beiðnina sérstaklega.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Samkvæmt gögnum málsins var tillaga að matsáætlun auglýst á vef Skipulags­stofnunarinnar í apríl 2019 og var hún jafnframt send til umsagnaraðila. Umsagnir bárust í maí og fyrirhugaði stofnunin að taka ákvörðun um tillögu kæranda að matsáætlun í þeim mánuði, svo sem lýst er í málavöxtum. Við lagaskil þau sem áður er lýst hefði ákvörðun Skipulagsstofnunar því þegar átt að liggja fyrir í samræmi við þágildandi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 24. apríl 2020 voru því liðnir um 11 mánuðir frá því að fyrirhugað var taka þá ákvörðun. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að síðan þá hafi Skipulagsstofnun unnið að málinu og talið þörf á að kanna ákveðna þætti nánar, en um stóra og fordæmisgefandi framkvæmd er að ræða. Ber stofnunin jafnframt fyrir sig viðvarandi manneklu þótt hún viðurkenni að dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins.

Að áliti úrskurðarnefndarinnar er sá dráttur sem orðinn er á afgreiðslu tillögu kæranda að matsáætlun vegna vindlundar ekki ástæðulaus. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að komið er langt fram yfir lögboðinn frest 2. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000. Sjái stofnunin sér ekki fært að standa við þann frest ber henni í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga að upplýsa aðila málsins um fyrirsjáanlegar tafir, ástæður þeirra og hvenær ákvörðunar sé að vænta, en á því hefur orðið nokkur misbrestur í máli þessu, svo sem stofnunin hefur sjálf greint frá. Þá getur stofnunin eftir atvikum verið rétt að vekja á því athygli annarra aðila, sé henni illkleift að standa við lögboðna fresti. Þá leiðir það af málshraðareglunni að Skipulagsstofnun ber að sjá til þess að máli sé eðlilega framhaldið og hefur hún þann möguleika að fallast ekki á tillögu að matsáætlun eða fallast á með athugasemdum, eins og áður er rakið, sbr. og lagaskilaákvæði 18. gr. breytingarlaga nr. 96/2019. Loks getur stofnunin farið fram á frekari gögn síðar rökstyðji hún það sérstaklega.

Í ljósi þess sem fram hefur komið verður ekki annað séð en að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins. Verður því lagt fyrir Skipulagsstofnun að ljúka afgreiðslu þess án frekari tafa.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir Skipulagsstofnun að taka fyrirliggjandi tillögu kæranda að matsáætlun vegna 80-130 MW vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða, Dalabyggð, til afgreiðslu án frekari tafa.

53/2020 Leynir 2 og 3

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 9. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2020, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. maí 2020 um að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir aðilar, sem flestir munu vera eigendur eigna og í sumum tilvikum ábúendur í næsta nágrenni Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun Skipulags­stofnunar frá 15. maí 2020 að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi nefndra jarða, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 29. júní og 7. júlí 2020.

Málavextir og rök: Hinn 17. janúar 2020 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða uppbyggingu í landi Leynis 2 og 3 til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar. Í greinargerð er fylgdi tilkynningunni kom fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði tæki til um 15 ha lands. Hefði það að stærstum hluta verið ræktað og nýtt til landbúnaðar, en nyrst á svæðinu hefði verið rekið tjaldsvæði. Áformað væri að efla rekstur þess og koma jafnframt á fót gisti- og veitingarekstri. Stækka ætti m.a. núverandi þjónustuhús eða byggja nýtt og reisa allt að 800 m² móttöku- og veitingahús syðst á svæðinu. Að auki yrðu byggð allt að 45 gesta­hús og við hvert þeirra kúluhús. Stæði yrðu fyrir 85 bifreiðar og fyrir 11 rútur. Þá var tekið fram að svæðið væri innan fjarsvæðis vatnsverndar. Skipulagsstofnun leitaði umsagna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Minjastofnunar Íslands, Rangár­þings ytra og Umhverfisstofnunar um fyrirhugaða framkvæmd. Stofnuninni bárust einnig frekari upp­lýsingar frá heilbrigðiseftirlitinu og framkvæmdaraðila og athugasemd frá einum kærenda máls þessa. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 15. maí 2020. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri fyrirhuguð framkvæmd ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Kærendur byggja á því að hin kærða ákvörðun sé haldin form- og efnisannmörkum. Fyrir­huguð uppbygging sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, einkum með tilliti til hugsanlegrar vatnsmengunar og hættu fyrir heilbrigði manna. Hafi Skipulagsstofnun ekki búið yfir full­nægjandi eða réttum upplýsingum til að leggja forsvaranlegt mat á líkleg umhverfisáhrif og umfang þeirra. Þá hafi framkvæmdaraðili ekki gert nægjanlega grein fyrir fyrirhuguðum mótvægisaðgerðum í tengslum við útfærslu fráveitukerfis vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar. Ljóst sé að uppbyggingaráform framkvæmdaraðila í óbreyttri mynd séu haldin vanköntum og þörf sé á frekari rannsóknum á líklegum umhverfisáhrifum.

Hin kærða ákvörðun feli ekki í sér heimild til að hefja framkvæmdir heldur þurfi að koma til sérstakar stjórnvaldsákvarðanir. Umrædd ákvörðun sé hins vegar nauðsynlegur undanfari frekari framkvæmda á svæðinu, s.s. við veitingu framkvæmdaleyfis. Með tilliti til undirliggjandi almannahagsmuna skuli fresta réttaráhrifum nú þegar og þar með koma í veg fyrir að til frekari aðgerða verði gripið í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu. Sé vandséð að framkvæmdaraðili hafi hagsmuni af því að haga undirbúningi upp­byggingar­innar í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir ef síðar komi í ljós að hún þurfi að sæta mati á umhverfisáhrifum eða ákvörðun Skipulagsstofnunar verði ógilt af öðrum ástæðum.

Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur verið tilkynnt að stofnunin hyggist ekki veita umsögn um framkomna kröfu um frestun réttaráhrifa.

Athugasemdir hafa ekki borist af hálfu framkvæmdaraðila.

Niðurstaða: Á grundvelli 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kæru­máls. Um er að ræða undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og ber að skýra umrædda heimild þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Einnig að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hefur að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun er íþyngjandi fyrir hann, veldur honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sem lýtur eingöngu að því hvort fyrirhuguð framkvæmd skuli sæta mati á umhverfisáhrifum en ákvörðunin felur ekki í sér sjálfstæða heimild til að hefja framkvæmdir, svo sem kærendur raunar taka sjálfir fram. Komi til þess að samþykktar verði sérstakar stjórnvaldsákvarðanir til að framkvæmdir megi hefjast geta þær eftir atvikum verið kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar og geta kærendur þá skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með tilliti til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa er undantekning og með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis hinnar kærðu ákvörðunar verður ekki séð að hagsmunir kærenda knýi á um að fallist verði á kröfu þeirra um frestun réttaráhrifa. Verður ekki heldur séð að neinir undirliggjandi almannahagsmunir geti leitt til annarrar niðurstöðu enda skapast t.a.m. ekki yfirvofandi hætta fyrir umhverfið þótt frekari undirbúningur fram­kvæmda fari fram á meðan tilskilin leyfi hafa ekki verið veitt. Þá ber framkvæmdaraðili áhættu af því að halda áformum sínum til streitu á meðan ekki hefur verið skorið úr þeim ágreiningi sem uppi er í kærumálinu og er það hans, en ekki kærenda, að meta hvort undir­búningi skuli fram haldið á meðan svo er.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 15. maí 2020 um að fyrirhuguð uppbygging verslunar- og þjónustusvæðis í landi Leynis 2 og 3, Rangárþingi ytra, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

36/2020 Skógarstígur

Með

Árið 2020, föstudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 um að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, sem barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Skógarstígs 4, Fjallabyggð, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrði stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 19. júní 2020 var fallist á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjallabyggð 10. júní 2020.

Málavextir: Hinn 11. febrúar 2019 tók skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar fyrir byggingarleyfisumsókn, dags. 7. s.m., þar sem sótt var um leyfi fyrir byggingu frístundahúss að Skógarstíg 2. Erindið var samþykkt og bókaði nefndin að deildarstjóra tæknideildar væri falin útgáfa byggingarleyfis að uppfylltum skilyrðum gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hinn 22. maí s.á. sótti byggingarleyfishafi um leyfi til að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Jafnframt var óskað eftir heimild til að hefja gröft á lóðinni. Samþykkti skipulags- og umhverfisnefnd erindið með vísan til gr. 5.8.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, en ákvæðið mælir fyrir um að við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfa geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá gr. 5.8.2. reglugerðarinnar um grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik frá deiliskipulagi er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Bæjarstjórn Fjallabyggðar staðfesti niðurstöðu skipulags- og umhverfisnefndar á fundi sínum 12. júní 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að fyrirhuguð bygging að Skógarstíg 2 muni skyggja alfarið á langa sjónlínu þeirra út ströndina í átt að Siglunesi í stað þess að byggingin standi samkvæmt gildandi deiliskipulagi lægra og skyggi að mestu á mun styttri sjónlínu í átt að enda flugvallar sem hafi mun minna gildi fyrir þá. Breytingin hafi verið gerð án vitundar þeirra á þeim forsendum að um hafi verið að ræða óverulegt frávik frá deiliskipulagi, sbr. gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þessu séu kærendur ósammála og telji að breytingin skerði hagsmuni þeirra hvað varði útsýni og verðmæti eignarinnar.

Kærendur hafi boðið nágranna sína velkomna á svæðið haustið 2019 þegar unnið hafi verið að jarðvinnu að Skógarstíg 2. Hafi kærendur haft orð á því að „þetta væri ofarlega eða austarlega á reitnum“. Leyfishafi hafi þá sagst vera efst á byggingarreitnum sem hafi verið hálfur sann­leikur. Hafi enda kærendur þá ekki haft vitneskju um að byggingarreiturinn hefði verið færður til um 10 m að ósk leyfishafa, væntanlega til að bæta gæði lóðar hans og ná þeirri fallegu sjónlínu norður ströndina sem kærendur verði nú sviptir. Vísa kærendur til þess að væntanlega hafi verið unnið áfram í grunninum fram á haust. Þau hafi farið lítið til Siglufjarðar í vetur en þá hafi allt verið undir snjó. Í vor þegar snjóa hafi leyst hafi þau farið að skoða málið þar sem þau hafi grunað að grunnurinn gæti ekki verið á réttum stað.

Þegar haft hafi verið samband við byggingarfulltrúa í byrjun maí 2020 hafi hann tjáð þeim að breyting hafi verið gerð á byggingarreitnum og hafi hún verið afgreidd á fundi skipulags- og umhverfisnefndar 21. maí 2019. Kærendur telji kærufrest ekki hafa hafist fyrr en byggingar­fulltrúi hafi upplýst þau um málið.

Málsrök Fjallabyggðar: Af hálfu Fjallabyggðar er þess krafist að kærunni verði vísað frá, en til vara að kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað. Því sé hafnað að ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar hafi verið haldin efnisannmörkum. Ákvörðunin byggi á gr. 5.8.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sbr. 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, þar sem heimilað sé að víkja frá gr. 5.8.2. reglugerðarinnar við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfis þegar um óverulegt frávik sé að ræða.

Fjallabyggð telji að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið liðinn þegar kærendur beindu kæru til nefndarinnar. Skipulags- og umhverfisnefnd Fjalla­byggðar hafi tekið ákvörðun 21. maí 2019 um að samþykkja tilfærslu á byggingarreit fyrir Skógarstíg 2. Fundargerð nefndarinnar, þar sem efni hinnar kærðu ákvörðunar komi fram, þ.e. tilfærsla á byggingarreit um 10 m til austurs, hafi í kjölfarið verið birt á heimasíðu sveitar­félagsins. Í kæru komi að auki fram að kærendur hafi orðið varir við framkvæmdir á lóð Skógar­stígs 4 um haustið. Þau hafi þá þegar talið að framkvæmdin væri of austarlega á byggingar­reitnum/lóðinni. Kærendur hafi því vitað af útgáfu leyfisins og vitað um framkvæmdirnar og þegar haft athugasemdir við staðsetningu byggingarreitsins án þess að aðhafast neitt í málinu. Þess í stað hafi kærendur haldið að sér höndum og fyrst leitað eftir frekari upplýsingum frá Fjallabyggð í maí 2020.

Með lögum nr. 130/2011 sé aðilum gefinn kostur á að fá ákvarðanir stjórnvalda endurskoðaðar. Ein af grundvallarforsendum laganna sé að ákvarðanir séu bornar undir úrskurðarnefndina innan mánaðar frá því að endanleg ákvörðun hafi verið tekin í viðkomandi máli og teljist ákvörðun endanleg nema afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Með hliðsjón af atvikum málsins skuli vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni þar sem eins mánaðar kærufrestur hafi verið liðinn, enda liggi ekki fyrir að afsakanlegt hafi verið að leita ekki þegar frekari upplýsinga eða kæra strax. Sérstaklega sé vísað til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið birt á opinberum vettvangi 21. maí 2019. Því beri að miða upphaf kærufrests við það tímamark. Að minnsta kosti sé ljóst að kærufrestur hafi byrjað að líða við upphaf framkvæmda haustið 2019. Sá langi tími sem hafi liðið frá hinni kærðu ákvörðun geti ekki verið afsakanlegur þar sem kærendur hafi, eins og fram komi í kæru, sannarlega verið upplýstir um framkvæmdina og haft við hana athuga­semdir. Einnig verði að hafa í huga að á þessum langa tíma hafi lóðarhafi Skógarstígs 2 unnið að jarðvegsframkvæmdum og grunni fasteignarinnar og haft réttmætar væntingar til þess að halda áfram.

Verði ekki fallist á að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni beri að hafna kröfu kærenda. Tilfærsla byggingarreits um 10 m á lóð sem sé 2.837 m² sé óverulegt frávik frá gildandi deili­skipulagi. Engar breytingar á landnotkun hafi fylgt tilfærslunni. Algjörlega sé ósannað að færslan hafi í för með sér nokkur grenndaráhrif, þ.m.t. hvort skerðing verði meiri á útsýni eða útsýni breytist svo nokkru nemi. Fasteign kærenda standi hærra í landi en fyrirhuguð fasteign við Skógarstíg 2. Ekki verði séð af þeirri ljósmynd sem kærendur hafi lagt fram að hagsmunir þeirra skerðist við tilfærslu byggingarreitsins, eins og fullyrt sé í kæru. Það hvíli á kærendum að sýna og sanna að hagsmunir þeirra skerðist við tilfærslu byggingarreitsins. Þar sem engin gögn hafi verið lögð fram, ef frá sé talin ljósmynd, sem ekki geti talist sönnun fyrir skerðingu hagsmuna, enda liggi ekkert fyrir hvar hún sé tekin né komi fram á henni hvernig útsýnið breytist, beri að hafna kröfunni.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar komu fram í þessu máli.

Niðurstaða: Í gildi er deiliskipulag fyrir Saurbæjarás frístundabyggð, samþykkt 15. maí 2013, sem tekur m.a. til lóðanna að Skógarstíg 2 og 4. Um grannlóðir er að ræða og liggur lóð leyfis­hafa lægra í landi sunnan að mörkum lóðar kærenda að Skógarstíg 4. Er deilt í máli þessu um þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs, en með sömu ákvörðun var veitt leyfi til að hefja gröft á lóðinni. Kæra í máli þessu barst tæpum 11 mánuðum síðar, eða 8. maí 2020.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. nefndrar 28. gr. er tekið fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var kynnt aðila.

Ákvörðun sú sem um ræðir sætti ekki opinberri birtingu og var ekki kynnt kærendum, en haustið 2019 urðu þeir þess varir að framkvæmdir voru hafnar á lóðinni að Skógarstíg 2. Alla jafna hefðu þær framkvæmdir átt að gefa kærendum tilefni til að kanna hvaða heimildir stæðu þeim að baki. Af kæru má hins vegar skilja að kærendur hafi fyrst orðið þess áskynja vorið 2020, þegar snjóa leysti, að grunnur fyrir sumarhúsi á lóðinni gæti ekki verið á réttum stað miðað við gildandi deiliskipulag. Við hina kærðu ákvörðun nýtti sveitarfélagið sér undantekningarheimild 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 til að víkja frá gildandi deiliskipulagi án grenndarkynningar. Þótt kærendur hafi orðið varir við framkvæmdir, og jafnvel talið vafa leika á því hvort þær væru rétt staðsettar miðað við gildandi deiliskipulag, verður að líta til þess að almennt mega borgarar treysta því að byggt sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Enn fremur að verði skipulagi breytt þá verði þeim gert kunnugt um það með grenndarkynningu eða opinberri auglýsingu, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 43. gr. nefndra laga. Eins og hér stendur sérstaklega á þykir því afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, og verður það tekið til efnismeðferðar.

Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu var byggingarleyfi samþykkt, en síðar sóttu lóðarhafar Skógarstígs 2 um leyfi til að hliðra byggingarreit lóðarinnar um 10 m til austurs og hefja gröft á lóðinni. Erindið var samþykkt með vísan til gr. 5.8.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Ákvæðið mælir fyrir um að við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfa geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá gr. 5.8.2. reglugerðarinnar um grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik frá deiliskipulagi er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Ákvæði reglugerðarinnar er samhljóða ákvæði 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga, sem við útgáfu byggingarleyfis heimilar sveitarstjórn að víkja frá skilmálum deiliskipulags, ef um er að ræða svo óverulegt frávik að tilgreindir hagsmunir nágranna skerðist í engu. Ljóst er að um undanþáguákvæði er að ræða sem túlka ber þröngt. Afstaða umræddra lóða að Skógarstíg er með þeim hætti að umdeild tilfærsla á byggingarreit lóðarinnar að Skógarstíg 4 til austurs hafi grenndaráhrif gagnvart kærendum að því er varðar útsýni, umfram það sem verið hefði að óbreyttu skipulagi. Þessi frávik geta ekki talist svo óveruleg að hagsmunir kærenda skerðist í engu í skilningi 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þau ströngu skilyrði að vikið sé frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis samkvæmt 43. gr. laganna voru því ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og verður hún óhjákvæmilega ógilt þegar af þeirri ástæðu.

Það athugist að samþykkt byggingaráforma skv. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki felur í sér að aðaluppdráttur, sbr. skilgreiningu 1. tl. 3. gr. laganna, uppfylli ákvæði þeirra. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki séð að nýir aðalupprættir, ásamt afstöðumynd, þar sem gerð var grein fyrir nýrri staðsetningu byggingarreits og breyttu meginskipulagi lóðar, hafi verið sam­þykktir áður en framkvæmdir hófust í kjölfar hliðrunar á byggingarreit að Skógarstíg 2.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 um að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni.

45 og 49/2020 Norðurstígur

Með

Árið 2020, föstudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2020, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 29. maí 2020 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir endurgerð á Norðurstíg milli Vestur­götu og Geirsgötu, svo og á Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Norðurstíg 5, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir endurgerð á Norðurstíg milli Vesturgötu og Geirsgötu og á Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu. Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Að auki er þess krafist að hætt verði umsvifalaust við fyrirhugaðar framkvæmdir og verður að líta svo á að í því felist krafa um stöðvun framkvæmda. Reykjavíkurborg fór fram á frávísun stöðvunarkröfu kærenda með þeim rökum að framkvæmdir væru ekki hafnar og hefði leyfi ekki verið gefið út fyrir þeim. Hinn 30. júní 2020 fékk úrskurðarnefndin þær upplýsingar frá kærendum að framkvæmdir væru hafnar og var staðfest af hálfu borgarinnar að leyfi hefði verið gefið út án þess að nefndin hefði verið upplýst um þær breyttu aðstæður. Að svo komnu máli verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda en málið þykir hins vegar nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júní 2020, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra eigendur, Nýlendugötu 6, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun skipulagsfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem hið síðara kærumál, sem er nr. 49/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður það sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. og 16. júní og 1. júlí 2020.

Málavextir: Hinn 4. maí 2020 lagði skrifstofa framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna endurgerðar á Norðurstíg milli Vesturgötu og Geirs­götu, svo og á Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu. Í framkvæmdalýsingu segir nánar tiltekið að skipt verði um jarðveg samkvæmt kennisniðum og lagnir veitufyrirtækja verði endurnýjaðar að töluverðu leyti. Verkið felist meðal annars í því að leggja snjóbræðsluslöngur, reisa ljósastólpa, leggja grásteinskant, leggja hellur og ganga frá gróðursvæðum. Gengið verði frá yfirborði með götugögnum og öðrum mannvirkjum í samræmi við útboðsgögn, en til götugagna teljast t.a.m. ljósastaurar, bekkir, biðskýli og ruslafötur. Nánar kemur fram í lýsingunni að samkvæmt framkvæmda­áætlun verði byrjað að framkvæma í Nýlendugötu, en þegar sú framkvæmd verði langt komin verði hægt að hefja framkvæmd efst í Norðurstíg. Verklok séu áætluð 10. október 2020. Framkvæmdirnar voru kynntar íbúum og öðrum hagsmunaaðilum með tilkynningu, dags. 6. maí 2020, og fylgdu tilkynningunni teikningar sem sýndu fyrirhugað útlit gatnanna.

Framkvæmdaleyfisumsókninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra og var það afgreitt með umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 29. maí 2020. Í umsögninni kemur fram að ekki sé lagst gegn því að veitt verði framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmdinni. Hún sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og markmið í því um borgargötur og gæði byggðar. Tekið skyldi sérstakt tillit til þess að um miðborgarsvæði væri að ræða og skyldi virða allar reglur og leiðbeiningar um vinnutíma, merkingar, hávaða og rask gagnvart íbúum við götuna og á nærliggjandi svæðum.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 29. maí 2020 var samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var leyfið gefið út 25. júní s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að á teikningum, sem fylgt hafi tilkynningu Reykjavíkurborgar um framkvæmdirnar, séu þær fyrirhugaðar innan lóðarmarka Norður­stígs 5. Á lóðinni sé meðal annars fyrirhuguð hellulögn, gerð göngustígs og að þar verði stað­settur bekkur og trjágróður. Þetta rask muni hafa í för með sér að allur trjágróður sem fyrir sé á lóðinni verði fjarlægður, sem og hellulögn eigenda. Framkvæmdirnar hafi verið skipulagðar og samþykktar af Reykjavíkurborg, algjörlega án samráðs og samþykkis eigenda lóðarinnar. Kærendur telji að ekki hafi verið gætt að hagsmunum þeirra við skipulagningu verkefnisins og að framkvæmdirnar muni rýra verðmæti fasteignarinnar að Norðurstíg 5.

Kærendur að Nýlendugötu 6 benda á skort á samráði og að grenndarkynning hafi ekki farið fram. Ekki sé til staðar heimild í deiliskipulagi fyrir því að búa til almenningstorg. Ekki sé tekið tillit til hagsmuna þeirra heldur sé gengið á þá að þeim forspurðum. Spurningum til borgar­yfirvalda hafi verið svarað seint, illa og aðeins að litlu leyti. Almenningstorg við húsvegg ógni friðhelgi einkalífs þar sem fjölda óviðkomandi fólks sé beint um svæðið sem sé nálægt mið­svæðum. Borgaryfirvöld hafi fallist á að fella bekki úr gildandi hönnun vegna framkominna athugasemda, en þess sé krafist að almenningsbekkir verði ekki settir upp í portinu til framtíðar. Hellulögn með vatnsleiðslum undir muni stórauka hættu á rakavandamálum í útveggjum húsa og sökklum. Kostnaður muni fylgja því að setja upp girðingar til að varna almenningi aðgengi að garði kærenda. Aðgengi iðnaðarmanna og lítilla flutningabíla meðfram trjám, ljósastaurum og pollum verði torvelt, bæði milli húsanna í portinu og á Norðurstíg, sem og gera flutninga og viðhald erfiðara og dýrara, sbr. gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem segi að tryggja skuli aðkomu að hliðum stakstæðra mannvirkja sem standi við lóðarmörk og að baklóðum sambyggðra húsa með kvöðum eða öðrum hætti. Deiliskipulag sýni ekkert sem hefti aðgöngu að lóðinni en nú séu á útfærsluteikningum ljósastaurar, tré og göngustígar sem takmarki aðkomu að henni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld fallast ekki á framkomin sjónarmið kærenda og krefjast þess að kröfu þeirra um ógildingu framkvæmdaleyfis verði hafnað.

Framkvæmdin sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Norðurstígsreits og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, sem og markmið í aðalskipulagi um borgargötur og gæði byggðar. Ekki sé fallist á að framkvæmdirnar séu innan lóðar kærenda. Samkvæmt gildandi deili­skipulagi fyrir Norðurstígsreit, samþykktu í borgarráði 20. janúar 2004, sé heimilt að stækka lóðina að Norðurstíg 5 fyrir sunnan húsið til suðurs og að stækkunin verði tekin af borgarlandi. Sú heimild hafi þó aldrei verið nýtt af hálfu lóðarhafa, lóðin hafi aldrei verið stækkuð og séu því lóðarmörkin ennþá eins og þau hafi verið áður, þ.e. upp við húsið. Lóðarmörkin séu enn fremur ljóslega sýnd á teikningu með afsalsbréfi, dags. 15. mars 1963, og í eignaskipta­yfirlýsingu, dags. 19. júlí 1993. Enginn trjágróður verði fjarlægður af lóð kærenda og ekki sé með neinu móti hægt að líta svo á að framkvæmdirnar hafi einhver áhrif á hagsmuni kærenda. Fallið hafi verið frá þeim áformum að setja bekki við lóðarmörk.

Ekki sé hægt að fallast á að friðhelgi einkalífs sé skert með framkvæmdinni, enda sé einungis verið að breyta yfirborði svæðisins og fegra það með hellulögn. Ekki sé verið að gera almenningstorg eins og kærendur haldi fram. Gangandi vegfarendur eigi nú þegar greiða leið um svæðið og svo verði áfram. Ekki sé heldur fallist á að hitalagnir undir stéttinni muni stórauka hættu á vatnstjóni á húsi kærenda að Nýlendugötu 6. Þéttidúkur verði lagður undir og upp með hellunum að húsum sem komi í veg fyrir að vatn komist að útveggjum. Engin breyting sé á aðkomu lítilla flutningabíla og aðgengi fyrir iðnaðarmenn.

—–

Í kjölfar þess að framkvæmdir hófust bárust úrskurðarnefndinni viðbótarathugasemdir kærenda sem ekki verða raktar frekar hér en nefndin hefur haft þær hliðsjónar.

—–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi sem heimilar endurgerð Norðurstígs milli Vesturgötu og Geirsgötu og Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu. Nánar felst í leyfinu enduruppbygging gatna og verður heildaryfirbragð þeirra bætt, meðal annars með því að endurnýja yfirborð þeirra og bæta við grjótbeðum og trjám. Auk þess eru heimilaðar verulegar breytingar á lögnum og kerfum í götunum. Fjallað er um framkvæmdaleyfi í 13.-15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Geta stofn-, dreifi- og flutningskerfi fráveitu, hitaveitu, vatnsveitu, fjarskipta, rafveitna og verulegar breyt­ingar á slíkum mannvirkjum m.a. verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. nefndrar reglugerðar.

Kærendur að Norðurstíg 5 bera því m.a. við að umþrættar framkvæmdir séu fyrirhugaðar innan marka lóðarinnar og vísa í því sambandi til deiliskipulags svæðisins þar sem fram kemur að lagt sé til „að lóðin fyrir sunnan gamla húsið inni á reitnum verði stækkuð til suðurs. Stækkunin er tekin af borgarlandi.“ Af hálfu borgarinnar er bent á að fyrirætlun þessi hafi ekki gengið eftir og er skráning í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands í samræmi við það. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en skipulagsáætlanir einar og sér ráðstafa ekki eignarréttindum. Þá styðja önnur gögn málsins ekki fullyrðingu kærenda sem ekki er í samræmi við opinbera skráningu. Verður því ekki séð að eignarréttindi þeirra hafi staðið í vegi fyrir að hið kærða framkvæmdaleyfi yrði veitt, en bent skal á að það fellur ekki innan valdsviðs úrskurðar­nefndarinnar að skera úr ágreiningi um bein eða óbein eignarréttindi, s.s. þau sem skapast geta vegna hefðar, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla. Þar undir á einnig ágreiningur, t.a.m. um skaðabótaskyldu, vegna vandamála sem kunna að rísa í kjölfar fram­kvæmdar, s.s. rakavandamál í útveggjum og sökklum, sem kærendur að Nýlendugötu 6 telja aukna hættu á.

Í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitar­stjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir og er slíkt samræmi áskilið í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Í 7. gr. reglugerðarinnar kemur enn fremur fram sú meginregla að framkvæmdaleyfi skuli vera gefið út á grundvelli deili­skipulags þótt heimilt sé að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Er og kveðið á um í 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga að þar sem fram­kvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn að undangenginni grenndarkynningu veitt framkvæmdaleyfi sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Er því m.a. haldið fram í málinu að grenndarkynning hafi þurft að fara fram.

Í gildi er frá 20. janúar 2004 deiliskipulag Norðurstígsreits, sem afmarkast af Norðurstíg, Vesturgötu, Ægisgötu og Tryggvagötu. Í greinargerð með deiliskipulaginu er meðal annars tekið fram að meðal megineinkenna reitsins sé áberandi skortur á m.a. frágangi útisvæða og lóða og eigi það einnig við um borgarland. Eitt meginmarkmið skipulagsins sé að styrkja stöðu reitsins sem miðborgar- og íbúðarsvæðis, auka notagildi þess almennt og stuðla að endurbótum á svæðinu í umhverfislegu tilliti. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru Nýlendugata og Norðurstígur á svæði blandaðrar miðborgarbyggðar, merkt M1c og í gamla Vesturbænum, merkt ÍB1. Á svæði M1c er m.a. lögð áhersla á að vernda og styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda og um gamla Vesturbæinn segir meðal annars að það sé gróið íbúðarhverfi sem hafi verið fullbyggt að mestu fyrir 1950. Byggðin sé heilsteypt sem njóti verndar að hluta vegna byggða­mynsturs. Í kafla aðalskipulags um veitur er fjallað um hitaveitur og rafveitur og tiltekið að á næstu árum verði gert ráð fyrir talsverðri endurnýjun flutnings- og stofnæða enda væru þær víða orðnar gamlar, bilanir nokkuð tíðar og mikilvægi lagna sé mikið. Hefðbundin endurnýjun minni dreifilagna og heimaæða færi eftir sem áður fram samhliða framkvæmdum sveitarfélaga og veitustofnana. Þá þurfi að styrkja og endurnýja núverandi rafdreifikerfi (strengi, spenni­stöðvar) í grónum hverfum borgarinnar.

Að framangreindu virtu eru heimilaðar framkvæmdir í samræmi við aðal- og deiliskipulag svæðisins og var hið kærða leyfi gefið út á þeim grundvelli. Bar því ekki nauðsyn til að grenndarkynna framkvæmdirnar skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Svo sem fram kemur í aðal­skipulagi er um nauðsynlega endurnýjun lagna að ræða og verður að telja aðrar heimilaðar framkvæmdir í samræmi við það markmið gildandi deiliskipulags að stuðla að endurbótum á svæðinu í umhverfislegu tilliti. Um almenningsrými er að ræða, þ.m.t. göturými, en ekki torg, sbr. gr. 5.3.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Verður að telja að einungis sé um nánari útfærslu að ræða á deiliskipulagi, eins og eðlilegt er að teknu tilliti til framangreinds markmiðs, sem kalli ekki á deiliskipulagsbreytingu. Fallið var frá þeim áformum að setja upp bekki þá sem kærendur mótmæltu og verður ekki annað ráðið en að öll þau gögn verið til staðar sem nauðsynleg voru og málsmeðferð vegna hins kærða framkvæmdaleyfis hafi verið lögum samkvæmt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 29. maí 2020 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir endurgerð á Norðurstíg milli Vesturgötu og Geirsgötu, svo og á Nýlendugötu á milli Norðurstígs og Ægisgötu.

3/2020 Hvíldartími eldissvæða Arnarlax

Með

Árið 2020, miðvikudaginn 1. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2020, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 um að breyting á hvíldartíma eldissvæða í Arnarfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. janúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra 3 landeigendur í Ketildölum, Arnarfirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 þess efnis að „stytting á hvíldartíma á eldissvæðum Arnarlax um 50-63%“ skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 20. febrúar 2020.

Málavextir: Arnarlax ehf. leggur stund á sjókvíaeldi og hefur framleiðsla fyrirtækisins á laxi í Arnarfirði sætt mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í starfsleyfi fyrirtækisins frá 15. febrúar 2016 fyrir 10.000 tonna ársframleiðslu á laxi í firðinum kemur fram að um kynslóðaskipt eldi í sjókvíum á þremur sjókvíaeldissvæðum sé að ræða. Eldið sé að jafnaði á tveimur sjókvíaeldissvæðum í senn en eitt svæði hvílt milli eldislota að lágmarki í sex til átta mánuði. Hinn 21. mars 2019 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Arnarlaxi um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma eldissvæða fyrirtækisins í Arnarfirði til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. tl. 1.11 og 13.02 í 1. viðauka laganna. Í meðfylgjandi greinargerð framkvæmdaraðila kom fram að ástæða fyrirhugaðrar breytingar á lágmarkshvíldartíma eldissvæða væri sú að fyrirtækið vildi geta nýtt sér þann möguleika að setja út nýja kynslóð fiska á tveggja ára fresti væru umhverfisaðstæður hagstæðar. Þannig mætti nýta betur þau eldissvæði þar sem góð eldisskilyrði væru fyrir hendi. Hvíldartími yrði að lágmarki 90 dagar en ef niðurstöður vöktunar eldissvæðis þegar lífmassi væri í hámarki gæfu vísbendingu um að umhverfisástand væri ekki gott yrði svæðið hvílt lengur. Í nefndri greinargerð framkvæmdaraðila komu einnig fram þær mótvægisaðgerðir sem hann hyggðist grípa til ef niðurstöður vöktunar samkvæmt vöktunaráætlun fyrirtækisins fyrir tímabilið 2018-2023 yrðu óásættanlegar.

Skipulagsstofnun leitaði umsagna Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Matvæla-stofnunar við meðferð málsins og bárust þær í apríl og júlí 2019.

Umhverfisstofnun áréttar í umsögn sinni, dags. 15. apríl 2019, að 90 daga hvíldarskilyrði séu til varnar fiskisjúkdómum og laxalús svo hægt sé að verjast því að sjúkdómavaldar berist á milli kynslóða. Falli það undir starfssvið Matvælastofnunar en önnur sjónarmið búi að baki hvíldartíma í starfsleyfum Umhverfisstofnunar. Í þeim geti verið nauðsynlegt að gera kröfu um lengri hvíldartíma sé talin þörf á því vegna mengunar starfseminnar þar sem gæti áhrifa, m.a. á botndýralíf undir kvíum. Stofnunin telji forsendu þess að hvíldartími verði styttur þá að lögð sé fram nákvæm áætlun um mat á svæðunum þar sem fram komi hvernig rekstraraðili eigi að bregðast við ef þurfi að hvíla svæði lengur. Mikil óvissa sé á umhverfisáhrifum styttingar á hvíldartíma og heildaráhrif eldisins séu enn ekki fram komin. Vænlegasti kosturinn sé að fá upplýsingar um áhrif eldisins með þeim hvíldartíma sem lagt hafi verið upp með í upphafi. Að fenginni þeirri reynslu sé fyrst hægt að meta hvort forsendur séu fyrir því að stytta hvíldartímann miðað við upplýsingar um ástand fjarðarins í raun. Breytingin á hvíldartíma sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og því háð mati á umhverfisáhrifum.

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 11. júlí 2019, er ekki tekin afstaða til þess hvort nauðsyn sé á mati á umhverfisáhrifum en stofnunin bendir á að með styttingu hvíldartíma sé líklegt að fram komi áhrif vegna uppsöfnunar lífrænna leifa á botni kvíasvæða. Vöktun framkvæmdaraðila og Hafrannsóknastofnunar bendi til þess að mismunandi eldissvæði þoli lífrænt álag misvel. Þá sé mögulegt að laxa- og fiskilúsarálag muni aukast með styttingu hvíldartíma.

Í umsögn Matvælastofnunar, dags. 12. apríl 2019, er tekið fram að hvíldartími í starfsleyfi Umhverfisstofnunar eigi við um hvíld vegna umhverfisaðstæðna. Matvælastofnun telji 90 daga hvíld nægja vegna sjúkdómavarna en óvíst sé hvort slík hvíld dugi þegar hugað sé að umhverfis-þáttum. Nauðsynlegt sé að framkvæmdaraðili geri viðbragðsáætlun sem taki til viðbragða ef tiltekið eldissvæði, sem útsetning eigi að fara fram á, hafi ekki náð ásættanlegu ástandi að lokinni hvíld. Miklu máli skipti að niðurstöður úr sýnatökum að lokinni hvíld eldissvæða liggi fyrir áður en útsetning seiða sé heimiluð af stofnuninni. Að öðru leyti taki hún ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Í kjölfar framangreindra umsagna kom framkvæmdaraðili að athugasemdum og kynnti uppfærða viðbragðsáætlun í tengslum við vöktun á ástandi eldissvæða og hvernig útsetningu seiða yrði háttað á grundvelli niðurstaðna vöktunar. Tók áætlunin frekari breytingum á meðan á málsmeðferð stóð hjá Skipulagsstofnun eftir samráð við Umhverfisstofnun. Afstaða Umhverfisstofnunar til endanlegrar viðbragðsáætlunar kemur fram í tölvubréfi 21. nóvember 2019 og var á þá leið að stofnunin teldi framkvæmdaraðila hafa gert nægjanlega grein fyrir því með hvaða hætti brugðist yrði við neikvæðum áhrifum af völdum breytinga á hvíldartíma.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 er reifað í hverju fyrirhuguð breyting felist. Er tekið fram að framkvæmdaraðili stundi sjókvíaeldi á þremur sjókvíaeldissvæðum í Arnarfirði. Á svæði A séu eldissvæðin Haganes og Steinanes, á svæði B séu eldissvæðin Tjaldaneseyrar og Hlaðsbót og á svæði C séu eldissvæðin Hringsdalur og Kirkjuból. Eldi fari að jafnaði fram á tveimur sjókvíaeldissvæðum í senn og felist fyrirhuguð breyting í því að lágmarkshvíldartími sjókvíaeldissvæða verði styttur úr sex til átta mánuðum í 90 daga. Fjallað er um umhverfisáhrif breytingarinnar á ástand sjávar og botndýralíf sem og laxfiska. Í niðurstöðu sinni tekur stofnunin fram að ákvörðun hennar snúi eingöngu að því hvort stytting hvíldartíma sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér umfram þau áhrif sem vænta megi af óbreyttri framkvæmd. Kemst Skipulagsstofnun að því á grundvelli fyrirliggjandi gagna að svo sé ekki með vísan til viðmiða 1.-3. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé ranglega rökstudd og veigamiklir þættir séu ekki hafðir til hliðsjónar við ákvörðunina. Mat Skipulagsstofnunar sé það að einu áhrif styttri hvíldartíma séu annars vegar aukið álag á botndýralíf og ástand sjávar og hins vegar aukin hætta á fiskisjúkdómum og sníkjudýrum í villtum laxastofnum. Sé það mat stofnunarinnar að framangreind áhrif séu óveruleg og afturkræf. Einnig byggi niðurstaðan á því að treyst sé á eftirlit framkvæmdaraðila og opinberra eftirlitsstofnana ásamt viðbragðsáætlun rekstraraðila ef fram komi neikvæð áhrif framkvæmdarinnar. Gallar séu í rökstuðningi Skipulagsstofnunar og sé framkvæmdaraðila og eftirlitsstofnunum engan veginn treystandi til að sinna eftirliti starfseminnar eða bregðast ásættanlega við frávikum.

Umrædd starfsemi framkvæmdaraðila flokkist sem mengandi starfsemi. Mjög takmörkuð þekking liggi fyrir um mengun frá íslensku laxeldi og langtímaáhrifum þess á lífríki þröskuldsfjarða, svo sem Arnarfjarðar. Skipulagsstofnun bendi á að ummerki lífrænna mengunar gæti enn einu ári eftir að eldistíma við Tjaldaneseyrar hafi lokið og í Patreksfirði hafi þurft að færa til eldisstæði vegna botnmengunar. Ekki sé enn komin reynsla af áhrifum styttri hvíldartíma á botnmengun.

Samkvæmt straummælingum í Arnarfirði gæti lítilla strauma við kvíasvæði við Hringsdal eða einungis 25-50% af straumþunga annarra kvíasvæða. Því til viðbótar séu til staðar gagnvirkir straumar sem hindri fráflutning úrgangs. Í frummatsskýrslu vegna eldisins frá mars 2014 segi „við Tjaldaneseyrar var heildarfærslan (framskreiður vektor) til vest-suðvesturs um 0,04 og 0,03 m/s á 5 og 10 m dýpi á tímabilinu frá lokum nóvember 2013 og fram í byrjun janúar 2014. Við Hringsdal var mælt frá byrjun janúar og fram í seinni hluta febrúar 2014. Yfir heildartímabilið mældist framskreiður vektor ˂0,01 m/s með stefnu í vestur af norðri (NNV) á 5 m dýpi en um 0,01 m/s í stefnu nálægt suðaustri á 10 m dýpi. Á þessum mælistað verður því meiri snúningur á straumi og heildarfærslan yfir tímabilið verður því minni. Frá þessum þremur eldissvæðum er því mesta færsla í stefnu út úr firði frá Haganesi og Tjaldaneseyrum en í meira jafnvægi inn og út við Hringsdal.“ Mengunaráhætta vegna uppsöfnunar lífræns úrgangs sé því meiri við Hringsdal en við önnur kvíasvæði og af þeim sökum óásættanlegt að auka mengunarhættu frekar með styttri hvíldartíma.

Ljóst sé að forsendur sem tilgreindar hafi verið í greindri matsskýrslu frá mars 2014 um fiskidauða séu rangar. Þar segi „þeir fiskar sem drepast verða veiddir með svokölluðum dauðfiskaháf og gert er ráð fyrir að kvíar verði vaktaðar frá þrisvar sinnum í viku til daglega. Við framleiðslu á 7.000 tonnum má gera ráð fyrir að afföll vegna dauða fiska verði um 100 tonn. Við framleiðslu á 10.000 tonnum má gera ráð fyrir að afföll vegna dauða fiska verði 160 tonn.“ Reynslan hafi sýnt að þessi gildi séu nær 15-20% af lífmassa og því gætu afföll verið allt að 2.000 tonn. Mest afföll verði oft í kjölfar slæmra veðurskilyrða og þá hafi oftar en ekki gerst að losun dauðs fisks hafi ekki verið gerleg í nokkra daga vegna veðurs. Í þeim tilfellum hafi niðurbrot fisksins hafist sem hafi skilað sér í grútarslæðu á firðinum og nærliggjandi ströndum.

Eftirlit með mengun sé að mestu leyti í höndum framkvæmdaraðila eða verktaka á þeirra vegum. Í ljósi vanefnda á eftirliti og skráningu ásamt brotum á starfsleyfi er varði hvíldartíma og hámarkslífmassa sé engan veginn hægt að treysta framkvæmdaraðila fyrir auknum kröfum um eigið eftirlit og viðbragðsáætlun. Sem dæmi um ofangreint megi nefna að samkvæmt árlegum eftirlitsskýrslum Umhverfisstofnunar með eldisstöðvum framkvæmdaraðila í Arnarfirði hafi á árunum 2018 og 2019 verið frávik til staðar sem sneru að mengunarmálum. Þannig hafi á árinu 2018 ekki enn verið til staðar útreikningur/sundurliðun á losun fosfórs og köfnunarefnis eldissvæða, sem séu mælikvarðar lífrænnar mengunar. Því sé ekki hægt að meta hvort að losunarmörk hafi verið virk. Í síðustu eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar, dags. 28. nóvember 2019, komi fram að enn hafi ekki verið búið að laga verkferla þannig að hægt væri að reikna út losun fosfórs og köfnunarefnis miðað við tonn framleiðslu og því enn ekki hægt að sannreyna hvort að losunarmörk væru virt.

Fleiri frávik séu tilgreind í eftirlitsskýrslu. Meðal annars komi fram að samkvæmt Grænu bókhaldi hafi engin lyf verið notuð í stöðinni á árinu 2017, en bæði Matvælastofnun og framkvæmdaraðili hafi staðfest að notuð hafi verið svæfingarlyf og lúsalyf (skordýraeitur) á þessu tímabili. Leyfilegur hámarkslífmassi í stöðinni sé 10.000 tonn. Í eftirlitsskýrslu Umhverfisstofnunar, dags. 15. október 2018, komi fram að „skv. gögnum frá rekstraraðila var lífmassi í stöðinni 10.075 tonn þann 10. des. 2018 þrátt fyrir að slátrað hafi verið um rúmum eitt þúsund tonnum fiskjar í nóvember og það sem af var desember.“ Að framangreindu virtu megi sjá að framkvæmdaraðili hafi brotið ákvæði starfsleyfis sem snúi að hámarkslífmassa sem sé einn af helstu mengunarþáttum starfseminnar. Þessu til viðbótar megi gera ráð fyrir að fiskidauði hafi að lágmarki verið 15-20%, sem auki enn umframmagnið. Síðastliðin tvö ár hafi Umhverfisstofnun bent á að vöktunaráætlun þurfi að uppfæra. Samkvæmt eftirlitsskýrslum stofnunarinnar, dags. 15. október 2018 og 28. nóvember 2019, vanti einnig viðbragðsáætlun/áhættumat vegna bráðamengunar. Metnaður framkvæmdaraðila til að uppfylla kröfur um vöktun og viðbragðsáætlun virðist því takmarkaður.

Skipulagsstofnun telji ólíklegt að stytting hvíldartíma „valdi verulega óafturkræfum umhverfisáhrifum“. Í því sambandi sé áhugavert að rifja upp tillögur framkvæmdaraðila í frummatsskýrslu frá mars 2014 vegna aukningar eldismagns í 10.000 tonn sem hafi verið grundvöllur mats á umhverfisáhrifum samþykktu af Skipulagsstofnun. Í skýrslunni segi um sjúkdómavarnir, vöktun og eftirlit að „eins og fram kemur í kafla 5.10 mun Arnalax vinna í nánu samstarfi við dýralækni fiskisjúkdóma um skipulag smitvarna. Einnig með því að hafa nægilega fjarlægð á milli eldissvæða, samræmda útsetningu seiða í firðinum, kynslóðaskipt eldi og að eldissvæði séu hvíld reglulega er dregið úr hættu á fiskisjúkdómum.“

Að tillögu matsskýrslunnar hafi verið ákveðið í starfs- og rekstrarleyfi að lágmarkshvíldartími skyldi vera sex til átta mánuðir og að lágmarksfjarlægð milli eldissvæða skyldi vera 5 km, sbr. reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna og reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi. Fljótlega hafi komið í ljós að fjarlægð milli eldissvæða hafi verið undir 4 km og í júní 2018 hafi framkvæmdaraðili brotið ákvæði um hvíldartíma með útsetningu seiða eftir þrjá mánuði.

Hvað varði rökstuðning Skipulagsstofnunar fyrir takmörkuðum áhrifum styttri hvíldartíma á villta laxastofna sé talað um að helsta áhætta liggi í álagi á gönguseiði laxafiska. Stofnunin minnist hins vegar ekkert á sérstaka áhættu lúsamengunar fyrir villta sjóbirtingsstofna sem gangi í litlar ár í Ketildölum og Arnarfirði. Óumdeilt sé að lúsamengun hafi verulega neikvæðar afleiðingar á sjóbirtingsstofna, enda lifi sjóbirtingsseiði og fullvaxta fiskur í grunnsævi/innfjörðum og oftar en ekki í mikilli nálægð við eldiskvíar. Sýnt hafi verið fram á hnignun/hrun sjóbirtingsstofna í nálægð við laxeldi í Noregi, Skotlandi og Írlandi. Þrátt fyrir að ekki sé um að ræða stóra stofna í umræddum ám, þ.e. Bakkadalsá, Fífustaðadalsá og Selá, þá hafi þeir verið nýttir af landeigendum og eigi sér tilverurétt samkvæmt 1. og 2. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 með síðari breytingum og samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem leggi áherslu á að vernda lífríki á öllum skipulagsstigum þess, þar með talið þær erfðaauðlindir sem lífríkið búi yfir. Nú þegar hafi sést merki um lúsasár á sjóbirtingi og mat heimamanna sé að stofnarnir eigi undir högg að sækja.

Í umfjöllun Skipulagsstofnunar sé ekki minnst á áhættu styttri hvíldartíma fyrir villt fuglalíf og æðavarp. Margoft hafi verið bent á að í nokkur hundruð metra fjarlægð frá kvíastæði í Hringsdal sé eitt stærsta æðavarp á Vestfjörðum, um 1.200 hreiður, sem sé afkomugrundvöllur eins kærenda sem sé einn af síðustu bændunum í Ketildölum. Ljóst sé að stytting hvíldartíma muni bæði fela í sér áhættu á aukinni botnmengun með ófyrirséðum afleiðingum á fæðuframboð æðarfugls og annarra sjófugla. Enn verra sé að styttri hvíldartími muni minnka líkur á að eldissvæðið hreinsi sig af laxalús og því aukist líkur á enn meiri notkun lúsalyfja. Umrædd lyf sé í grunninn skordýraeitur sem leysi upp skel rækju- og krabbadýra. Engar rannsóknir séu til staðar sem sýni möguleg áhrif síendurtekinna lúsaeitrana á æðavarp, en ætla megi að það hafi verulega neikvæð áhrif, þar sem ein aðalfæða æðarfugls og æðarunga sé marfló. Í Noregi hafi rannsóknir sýnt fram á neikvæð áhrif lúsaeitrunar á nálæga rækjustofna. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar komi fram áhyggjur af að notkun lúsaeiturs kunni að hafa skaðleg áhrif á annað líf í Arnarfirði, svo sem rækju- og krabbategundir. Komi til neikvæðra áhrifa á æðarvarp gætu þau áhrif verið óafturkræf og/eða valdið verulegu fjárhagstjóni.

Aðgerðir eftirlitsaðila hafi verið afar veikburða og ekki sé hægt að treysta ábyrgð þeirra og viðbrögðum við aukið mengunarstig. Sem dæmi megi nefna að í júní 2018 hafi framkvæmdaraðili sett út seiði við Hringsdal eftir þriggja mánaða hvíldartíma og þar með brotið í bága við skilyrði starfsleyfis um sex til átta mánaða lágmarks hvíldartíma. Hinn 16. júlí s.á. hafi Umhverfisstofnun sent framkvæmdaraðila bréf þar sem félaginu hafi verið tilkynnt um áform um áminningu vegna brotsins. Hinn 31. s.m. hafi framkvæmdaraðili sent Umhverfisráðuneytinu undanþágubeiðni vegna umrædds brots á hvíldartíma. Engar lagalegar forsendur eða heimildir hafi verið fyrir veitingu slíkrar undanþágu, en engu að síður hafi Umhverfisstofnun notað þetta sem afsökun fyrir aðgerðaleysi þar til 24. maí 2019 þegar Umhverfisráðuneytið hafi hafnað undanþágubeiðninni. Áður, eða 11. september 2018, hafi stofnunin lýst yfir að hún myndi leggjast gegn undanþágubeiðninni. Hinn 7. maí 2019 hafi Umhverfisstofnun sent framkvæmdaraðila aðra tilkynningu um áform um áminningu. Hinn 19. júní s.á. hafi stofnunin samþykkt úrbótaáætlun framkvæmdaraðila en þar segi að samþykktur hafi verið þriggja mánaða hvíldartími gegn því að eldissvæðið verði hvílt í að lágmarki átta mánuði í kjölfarið á núverandi eldislotu og mengunarmælingar verði framkvæmdar.

Framkvæmdaraðili hafi verið með viðvarandi frávik og brot á ákvæðum um upplýsingagjöf um mengun og aðgerðir þar að lútandi. Þannig hafi ekki verið til staðar tilskildar upplýsingar um losun fosfórs og köfnunarefnis og því hafi ekki verið hægt að ákvarða hvort starfsemin uppfyllti starfsskilyrði. Þrátt fyrir þetta veigamikla brot hafi engum viðurlögum verið beitt til að knýja fram betra verklag. Umhverfisstofnun bendi á í eftirlitsskýrslu 2018 að ljóst sé að framkvæmdaraðili hafi brotið ákvæði starfsleyfis um hámarkslífmassa, en engum viðurlögum hafi veri beitt við þessu alvarlega broti. Matvælastofnun hafi eftirlit með notkun lúsaeiturs í laxeldi. Á árunum 2017 og 2018 hafi stofnunin birt á heimasíðu sinni fréttatilkynningu um umrædda notkun. Á árinu 2019 hafi hún hætt að birta upplýsingar og séu þær nú eingöngu aðgengilegar í fundagerðum fisksjúkdómanefndar. Upplýsingagjöf Matvælastofnunar til hagsmunaaðila og almennings sé því verulega ábótavant og oft og tíðum virðist stofnunin sinna frekar hagsmunum eldisfyrirtækja en almennings.

Í frummatsskýrslu frá mars 2014 sé fjallað um ásýnd, þ.e. sjónræna mengun frá starfseminni. Þar megi finna eftirfarandi lýsingu „fyrirhugað eldissvæði kennt við Hringsdal er staðsett á móts við Hólstanga undan strönd Ketildala. Frá kumlstæði í átt að fyrirhuguðu eldissvæði við Hringsdal eru 2,5 km. Gera má ráð fyrir að sjá megi móta fyrir eldiskvíum frá kumlstæði, sjá Mynd 8.32, en kvíarnar verða vel sýnilegar frá Ketildalavegi á móts við Hól þar sem þær verða í um 500 m fjarlægð frá landi, sjá Mynd 8.34. Kvíar muni hins vegar ekki rísa hátt yfir yfirborði sjávar.“ Að mati kærenda sé raunveruleikinn annar í dag. Meðan á eldistíma vari sé til staðar við kvíasvæðið stór yfirbyggður fóðurprammi sem sé flóðlýstur að næturlagi. Hann sjáist í margra kílómetra fjarlægð jafnt að degi sem nóttu, auk þess sem hljóðmengun vegna ljósavéla sé veruleg og berist til nærliggjandi byggða, Hringsdals og Grænuhlíðar, í stilltu veðri. Ljósmengun sé alger forsendubrestur miðað við lýsingu í frummatsskýrslu og eyðileggi ásýnd og kyrrð fjarðarins að næturlagi. Það sé því óásættanlegt að þessa ótilgreindu og ósamþykktu mengun eigi að auka enn frekar með styttri hvíldartíma.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum skuli framkvæmd háð mati á umhverfisáhrifum þegar hún geti haft í för með sér „umtalsverð umhverfisáhrif“ vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skilgreiningu á umtalsverðum umhverfisáhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt henni sé um að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Af þessari skilgreiningu verði ráðið að það þurfi mikið til að koma svo að framkvæmd skuli háð umhverfismati. Líta þurfi til þess hvort og þá til hvaða mótvægisaðgerða framkvæmdaraðili grípi þegar áhrif framkvæmdar á umhverfið séu metin.

Með framangreinda skilgreiningu að leiðarljósi og að virtum gögnum málsins, sem legið hafi að baki matsskylduákvörðuninni, sem og áliti Skipulagsstofnunar frá 2. september 2015 um aukna framleiðslu framkvæmdaraðila, á laxi um 7.000 tonn, fái stofnunin ekki séð að aukin mengunaráhætta, sem kunni að vera fyrir hendi, geti leitt til þess að breyting á hvíldartíma eldissvæða Arnarlax í Arnarfirði skuli undirgangast mati á umhverfisáhrifum. Að öðru leyti vísi stofnunin til umfjöllunar í ákvörðun sinni. Eins og þar komi fram hafi stofnunin tekið mið af vöktun, mótvægisaðgerðum og viðbragðsáætlun framkvæmdaraðila þegar hún hafi komist að niðurstöðu sinni. Lögð sé áhersla á að viðbragðáætlunin hafi tekið breytingum á meðan málsmeðferð Skipulagsstofnunar stóð yfir. Í þeirri áætlun sé tilgreint hvernig brugðist verði við ef eldissvæði, sem útsetning eigi að fara fram á, hafi ekki náð ásættanlegu ástandi að lokinni hvíld.

Í kærunni sé því haldið fram að forsendur sem tilgreindar hafi verið í frummatsskýrslu um fiskidauða séu alrangar. Kærendur hafi ekki bent á áreiðanleg gögn sem renni stoðum undir þá fullyrðingu að forsendur um fiskdauða væru alrangar. Stofnuninni hafi verið vel kunnugt um að slæm veðurskilyrði gætu leitt til meiri dauða en áætlaður hefði verið. Áætlaður fiskidauði og mögulegur fiskidauði við slæmar aðstæður hafi haft takmarkað vægi við ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu framkvæmdarinnar þar sem ákvörðunin sneri að mögulegri styttingu hvíldartíma eldissvæða.

Við mat á því hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum beri Skipulagsstofnun að líta til viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000. Mögulegar vanefndir á eftirliti og skráningu ásamt brotum á starfsleyfi er varði hvíldartíma og hámarkslífsmassa séu atriði sem falli undir starfssvið starfs- og rekstrarleyfisveitenda. Þeir hafi ákveðin úrræði til að bregðast við ef þessi atriði séu ekki í lagi, t.d. með því að afturkalla leyfi. Stofnunin taki fram í hinni kærðu ákvörðun að áhrif af breyttum hvíldartíma kunni mögulega að felast í aukinni hættu á því að fisksjúkdómar og sníkjudýr nái fótfestu í eldiskvíum með mögulegum áhrifum á villta laxfiska „í nágrenni fiskeldis“. Undir tilvitnað orðalag falli m.a. ár í Ketildölum og Arnarfirði. Sjóbirtingur teljist vera laxfiskur en möguleg áhrif á laxfiska í nágrenni eldissvæða hafi, ásamt mögulegum áhrifum á ástand sjávar og botndýralíf, verið meginumfjöllunarefni ákvörðunar stofnunarinnar. Í áliti hennar um mat á umhverfisáhrifum 7.000 tonna framleiðsluaukningu framkvæmdaraðila frá 2. september 2015 sé vikið að laxalús og sjóbleikju og sjóbirtingi. Þar komi m.a. fram sú afstaða að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðs fiskeldis felist í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist frá eldinu í villta laxfiskstofna. Þetta varði fyrst og fremst sjóbirting og sjóbleikju sem dvelji í sjó í Arnarfirði hluta úr ári. Lesa verði hina kærðu ákvörðun með hliðsjón af umræddu áliti stofnunarinnar. Norskar rannsóknir hafi leitt í ljós að sjóbleikja og sjóbirtingur drepist í meira mæli en lax af völdum laxalúsar. Jafnframt sé mikilvægt að við leyfisveitingar verði horft til þess að laxa- og fiskilús hafi komið upp í eldi Arnarlax í Arnarfirði og gripið hafi verið til lyfjanotkunar þrjú ár í röð vegna þess.

Ekki séu færð sérstök rök fyrir því að stytting hvíldartíma hafi í för með sér ófyrirséðar afleiðingar á fæðuframboð æðarfugls og annarra sjófugla. Almennt séu áhrif sjókvíaeldis á botn nokkuð staðbundin og að auki megi almennt segja að fæðuframboð fugla aukist vegna fiskeldis. Bæði sæki fiskur að eldiskvíum í ætisleit sem geti svo orðið bráð fugla og svo myndist ásætur á eldisbúnaði sem sé fæða æðarfugla. Það sé rétt að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki berum orðum minnst á áhættu styttri hvíldartíma fyrir villt fuglalíf og æðarvarp. Hins vegar sé vikið að fuglalífi og æðarvarpi í mati á umhverfisáhrifum 7.000 tonna framleiðsluaukningar Arnalax í Arnarfirði sem hafi lokið með áliti Skipulagsstofnunar í september 2015. Hafi stofnunin ekki talið tilefni til að víkja berum orðum að þessum atriðum í hinni kærðu ákvörðun en hafi haft þau í huga áður en hún hafi verið tekin.

Eftirlitsaðili á sviði fiskeldis sé Matvælastofnun en ekki Skipulagsstofnun. Jafnframt gegni Umhverfisstofnun ákveðnu hlutverki vegna útgáfu starfsleyfis. Skipulagsstofnun hafi hins vegar eftirlit með framkvæmd laga nr. 106/2000, sbr. 2. mgr. 4. gr. þeirra.

Í áliti Skipulagsstofnunar frá september 2015 um mat á umhverfisáhrifum 7.000 tonna aukningar á framleiðslu Arnalax sé þeirri afstöðu lýst að sjónræn áhrif verði helst í námunda við eldissvæði hverju sinni, en takmörkuð á verulegum hluta Arnarfjarðar. Sjónræn áhrif verði því nokkuð neikvæð. Í frummatsskýrslu og matsskýrslu sé ekki vikið að fóðurpramma sem sé flóðlýstur að næturlagi og mögulegri hljóðmengun vegna ljósavéla. Í greinargerð/tilkynningu Arnalax vegna matsskylduákvörðunar sé ekki heldur vikið að umræddum fóðurpramma og hugsanlegri hljóðmengun sem leiði af honum. Ef það hefði verið gert telji Skipulagsstofnun samt sem áður, að virtu því hvernig skilgreiningin á umtalsverðum umhverfisáhrifum í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 sé úr garði gerð, að það hefði ekki leitt til þess að hin tilkynnta framkvæmd hefði verið háð mati á umhverfisáhrifum, enda verði ekki séð að um veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu verði að ræða. Ákvörðunin hafi einungis snúið að styttingu hvíldartíma við tilteknar aðstæður. Umfang eldis í firðinum verði eftir sem áður það sama.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að þetta kærumál sé ekki vettvangur til að leita eftir endurupptöku á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum laxeldis Arnarlax í Arnarfirði. Rökstuðningur í kæru snúi að stórum hluta að almennum umhverfisáhrifum fiskeldis í Arnarfirði en ekki að eiginlegum áhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, þ.e. breytingu á hvíldatíma eldissvæða í Arnarfirði. Álitaefnið snúist hins vegar eingöngu um hvort fyrirhuguð breyting á hvíldartíma á eldissvæðum sé matsskyld framkvæmd. Að hvíldartíma undanskildum verði framkvæmdin í Arnarfirði áfram í fullu samræmi við það sem kynnt hafi verið á sínum tíma í mati á umhverfisáhrifum, þar með talið hvað varði umfang og framleiðslumagn eldisins.

Áhersla sé lögð á að leiðrétta þá mynd sem dregin sé upp í kæru um að hin kærða ákvörðun feli í sér skilyrðislausa heimild til 90 daga hvíldartíma. Í reynd sé gert ráð fyrir hvíldartíma í a.m.k. 90 daga en Matvælastofnun og Umhverfisstofnun geti þó krafist lengri hvíldartíma ef niðurstaða vöktunar kalli á viðbrögð. Fyrirhuguð breyting á hvíldartíma sé í fullu samræmi við 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1170/2015 um fiskeldi. Þar segi að þegar eldi og slátrun hverrar kynslóðar ljúki skuli sjókvíaeldi vera í hvíld í a.m.k. 90 daga. Þá geti Matvælastofnun samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar gert kröfu um aukna og/eða samræmda hvíld stöðva eða svæða hjá samliggjandi sjókvíaeldisstöðvum og ákveðið að stærri svæði verði hvíld í lengri tíma ef þörf sé á slíku.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum jafngildi því ekki að framkvæmd sé talin laus við umhverfisáhrif. Ákvörðunarferlið sem hér um ræði sé grundvallað á 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 1.11 og 13.02 í 1. viðauka laganna. Við ákvörðun um matsskyldu beri stjórnvaldi að fara að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttarins. Í því sambandi megi sérstaklega benda á hina lögfestu meðalhófsreglu sem birtist í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í tengslum við þau sjónarmið sem birtist í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 15. apríl 2019, þar sem vikið sé að varúðarreglunni í 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, verði að líta til þess að við beitingu reglunnar séu stjórnvöldum skylt að taka mið af framangreindri meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og ekki ganga lengra en nauðsyn beri til. Með hliðsjón af þeim skilyrðum sem nú gildi um hvíldartímann, svo sem með vöktunaráætlun og heimildum Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar til inngripa, verði að telja að niðurstaða Skipulagsstofnunar samræmist fyllilega framangreindri varúðarreglu.

Framkvæmdaraðili sinni umhverfisvöktun í samræmi við vöktunaráætlun sem gerð sé í samráði við Umhverfisstofnun, sem sé útgefandi starfsleyfis. Slík umhverfisvöktun varpi ljósi á ástand sjávar og botndýralíf. Bendi niðurstöður vöktunar fyrirtækisins á eldissvæðum til uppsöfnunar óæskilegra efna við og undir sjókvíum verði brugðist við í samræmi við framlagða aðgerðaráætlun sem kynnt hafi verið í tengslum við fyrirspurn um matsskyldu vegna breytingar á hvíldartíma. Breyting á hvíldartíma á eldissvæðum feli ekki í sér aukningu á framleiðslu eða lífmassa. Því muni álag vegna lífrænna efna sem falli til við eldið ekki aukast.

Félagið hafi lagt stund á fiskeldi við Hringsdal frá árinu 2016. Í staðarúttekt sem gerð hafi verið árið 2016 komi fram að meginstraumur liggi í norðvestur og meðalstraumur sé 9 cm/s sem sé mjög góður straumstyrkur fyrir sjókvíaeldi. Vöktunarskýrslur vegna eldis í Hringsdal hafi leitt í ljós að umhverfisaðstæður á svæðinu henti vel til fiskeldis en svæðið hafi fengið bestu einkunn, þ.e. ástand mjög gott, í öllum botnrannsóknum sem gerðar hafi verið eftir að eldi hafi hafist á svæðinu. Reynslan síðan 2016 sé því sú að umhverfisaðstæður á eldissvæðinu við Hringsdal séu mjög heppilegar með tilliti til eldisstarfsemi. Rétt sé að geta þess að fyrirtæki það, sem gert hafi tilvitnaða staðarúttekt og vöktunarskýrslur, veiti vottaða þjónustu og vinni sýnatöku og rannsóknir eftir stöðlum. Þá sé umhverfisvöktun fyrirtækisins t.d. hagað þannig að sýnatöku úrvinnsla og skýrslugerð uppfylli kröfur sem gerðar séu til umhverfisvottunar hjá Aquaculture Stewardship Council (ASC-staðlinum).

Allur dauðfiskur sé tekinn upp úr kvíunum. Í nær öllum tilfellum sé það gert daglega og í samræmi við ákvæði 3.11, sbr. 3.9, í starfsleyfi Umhverfisstofnunar. Fyrir komi að ekki sé hægt að komast út í kvíarnar vegna veðurs en það sé þó í algjörum undantekningartilvikum. Það sé því ekki rétt sem kærendur haldi fram að mikið magn af dauðum fiski sitji lengi í netpokanum og brotni þar niður sem orsaki einhverskonar mengun. Þrátt fyrir aukin afföll upp á síðkastið hafi leyfisveitandi fyllilega náð að tæma dauðfiskháfa og hafi ekki orðið vart við mengun í nágrenni sjókvía. Hafnað sé því alfarið fullyrðingu kærenda um grútarslæðu í firðinum eða á nærliggjandi ströndum. Að því er varði fullyrðingar kærenda um skort á eftirliti árétti leyfisveitandi að fyrirtækið hafi sent uppfærða viðbragðsáætlun, vöktunaráætlun fyrir eldið í Arnarfirði ef þörf sé aðgerða vegna uppsöfnunar óæskilegra efna undir og við sjókvíar, og áhættumat vegna bráðamengunar til Umhverfisstofnunar og áætlunin bíði nú samþykkis stofnunarinnar.

Umfjöllun um fjarlægðarmörk eigi ekki erindi í kæru sem lúti að ákvörðun um breyttan hvíldartíma. Þó sé rétt að benda á að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi nú þegar fjallað um fjarlægð milli eldissvæða í Arnarfirði, sbr. úrskurð hennar frá 29. október 2015 í máli nr. 73/2012 vegna kæru á ákvörðun Fiskistofu um útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis til handa framkvæmdaraðila.

Áhrif á fuglalíf hafi verið metin í fyrirliggjandi matsskýrslu frá 2015. Þar segi að niðurstaða mats á umhverfisáhrifum feli í sér að áhrif á fugla á athafnasvæði kvíanna og þar í kring verði „afturkræf“ og „óveruleg“ eða „nokkuð jákvæð“. Sé litið á áhrifasvæðið Arnarfjörð í heild þá hafi áhrif á fuglalíf verið talin vera „óveruleg“. Umhverfisstofnun hafi fylgst með ástandi æðarfugls í nágrenni eldisstöðvanna og þyki ekkert benda til þess að starfsemi framkvæmdar-aðila hafi nokkur áhrif á afkomu æðarvarps. Honum sé ekki kunnugt um að starfsemi félagsins hafi truflað æðarfugla eða æðarvarp.

Kærendur staðhæfi ranglega að Umhverfisstofnun hafi með skilyrtu samþykki á úrbótaáætlun leyfisveitanda samhliða samþykkt þriggja mánaða hvíldartíma. Forsaga málsins sé sú að framkvæmdaraðila hafi verið tilkynnt um áform um áminningu vegna fráviks frá starfsleyfi er varðaði ónógan hvíldartíma svæða í sjókvíum. Í kjölfarið hafi hann lagt fram sérstaka úrbótaáætlun þar sem m.a. sé gert ráð fyrir því að upplýsingagjöf til Umhverfisstofnunar um útsetningu seiða yrði bætt, þjálfun starfsmanna yrði aukin og að ráðist yrði í samningu verklagsreglna og gátlista til að nota við útsetningu seiða þar sem yrði tekið tillit til hvíldartíma o.s.frv. Með bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 19. júní 2019, hafi úrbótaáætlun verið samþykkt með skilyrðum. Með öðrum orðum hafi Umhverfisstofnun aldrei áminnt fyrir frávik frá ákvæðum starfsleyfisins um hvíldartíma heldur hafi verið ákveðið að grípa ekki til formlegrar áminningar með hliðsjón af framlagðri úrbótaáætlun. Ekkert bendi til annars en að í þessu tilviki hafi Umhverfisstofnun gripið til viðeigandi aðgerða með tilliti til aðstæðna, valdheimilda stofnunarinnar og í samræmi við reglur stjórnsýsluréttarins um meðalhóf.

Breyttur hvíldartími muni ekki koma til með að hafa áhrif á ætlaða hljóð- eða sjónmengun framkvæmdarinnar og því eigi slíkar röksemdir ekkert erindi í kærumálið.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur hafna því að vöktun geti talist mótvægisaðgerð í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, enda sé með slíkri vöktun hvorki komið í veg fyrir, dregið úr né bætt fyrir neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar heldur sé eingöngu aflað upplýsinga um þau. Þá geti „mögulegar mótvægisaðgerðir“ sem lýst sé í hinni kærðu ákvörðun á þann veg að um sé að ræða „mögulegar úrlausnir eins og hvort hvíla beri svæði lengur, minnka eigi lífmassa/lífþyngd á viðkomandi svæði, hvort sýnatökur þurfi að verða tíðari eða fara þurfi í aðrar aðgerðir“, ekki talist fullnægjandi til að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdar án þess að fyrir liggi í hverju þessar aðgerðir muni felast.

Ástæða þess að hin kærða ákvörðun sé ekki grundvölluð á rökstuddu mati á fullnægjandi áformum um mótvægisaðgerðir sé sú að umhverfisáhrif þeirrar ráðstöfunar sem ákvörðunin lúti að séu óþekkt. Skýrlega sé tekið fram í umsögn Hafrannsóknastofnunar að mikil óvissa sé fyrir hendi um umhverfisáhrif ráðstöfunar sem þessarar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að breyting á hvíldartíma eldissvæða í Arnarfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Að mati kærenda ber nauðsyn til að slíkt mat fari fram þar sem stytting á þeim tíma sem hvíla ber eldissvæði auki hættu á mengun. Fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Almennt verður þó að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að kærendur skorti lögvarða hagsmuni. Þannig ber að jafnaði ekki að vísa málum frá vegna þess nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir hagsmuni kærenda að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu. Kærendur eru landeigendur í Ketildölum, Arnarfirði og skírskota þeir jafnframt til réttar síns yfir veiðiám á svæðinu. Vegna nándar við þau eldissvæði sem um ræðir er ekki hægt að útiloka að kærendur geti átt lögvarða hagsmuni af því að metin verði umhverfisáhrif breytingar á hvíldartíma svæðanna. Verður kærendum því játuð kæruaðild að máli þessu.

Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum mæla fyrir um það hvenær framkvæmd skuli háð slíku mati. Tilteknir eru 13 flokkar mismunandi framkvæmda í 1. viðauka við lögin og eru framkvæmdir innan hvers flokks nánar útlistaðar í nokkrum töluliðum. Hverjum tölulið er svo skipað undir flokk A, B eða C, þar sem framkvæmdir tilgreindar í flokki A skulu ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, en framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B og C skulu háðar slíku mati þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita er til sjávar eða þar sem ársframleiðsla er 20 tonn eða meiri og fráveita er í ferskvatn fellur undir flokk B, sbr. tl. 1.11 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Einnig falla undir flokk B allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir í flokki B sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. tl. 13.02 í nefndum viðauka. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar að auka eldi á laxi í sjókvíum í Arnarfirði úr 3.000 tonnum í 10.000 tonn hefur farið fram og lá álit Skipulagsstofnunar þar um fyrir 2. september 2015. Í samræmi við nefnda 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma eldissvæða, sbr. greinda tl. 1.11 og 13.02 í 1. viðauka laganna.

Í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tl. í 2. viðauka. Undir hverjum tölulið er svo talinn upp fjöldi annarra liða sem skipta mismiklu máli vegna þeirrar framkvæmdar sem til skoðunar er hverju sinni. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið getur skipt máli að mat á umhverfisáhrifum hinnar upprunalegu framkvæmdar hafi farið fram, auk þess sem miða verður við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er, eftir atvikum að meðtöldum mótvægisaðgerðum.

Líkt og áður er komið fram hefur eldi framkvæmdaraðila í Arnarfirði sætt mati á umhverfisáhrifum og takmarkast sú framkvæmd sem hér um ræðir við heimild til styttingar hvíldartíma á eldissvæðum þannig að lágmarkshvíldartími verði 90 dagar í stað sex til átta mánaða, eins og kveðið er á um í gildandi starfsleyfi framkvæmdaraðila. Tók umfjöllun Skipulagsstofnunar mið af því og var í hinni kærðu ákvörðun einkum fjallað um umhverfisáhrif breytts hvíldartíma á ástand sjávar og botndýralíf, svo og á laxfiska.

Svo sem lýst er í málavöxtum leitaði Skipulagsstofnun umsagna Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Matvælastofnunar við meðferð málsins og gafst framkvæmdaraðila tækifæri til andsvara. Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun tóku ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum en gerðu báðar sjúkdómavarnir að umtalsefni. Matvælastofnun taldi 90 daga hvíld nægja vegna sjúkdómavarna, en Hafrannsóknastofnun benti á að laxa- og fiskilúsarálag myndi mögulega aukast með styttingu hvíldartíma. Í frekari gögnum frá Matvælastofnun kom fram að hún teldi miðað við staðsetningar eldissvæða ekki hættu á neikvæðum áhrifum á þeim tíma þegar mest hætta væri, þ.e. þegar seiði gengju í sjó að vori, enda drægi verulega úr áhrifum með aukinni fjarlægð kvía frá útgöngustöðum seiða. Taldi Skipulagsstofnun, með hliðsjón af umsögn Matvælastofnunar og þar sem hægt væri að grípa til ráðstafana eins og að auka hvíld aftur eða draga úr umfangi eldis til að draga úr áhrifum þess á lífríki, ekki líklegt að fyrirhuguð breyting á eldinu kæmi til með hafa umtalsverð umhverfisáhrif á laxfiska. Með hliðsjón af endurtekinni notkun lyfja og mögulegra skaðlegra áhrifa þeirra taldi Skipulagsstofnun þó rétt að leyfisveitendur tryggðu að í leyfum væri skýrt kveðið á um heimildir til að bregðast við vegna mögulegra afleiðinga þess ef laxa- og fiskilús ásamt lyfjameðhöndlun yrði viðvarandi í eldi í Arnarfirði.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kom fram að hún teldi mat á umhverfisáhrifum þurfa að fara fram vegna breytingarinnar. Mikil óvissa væri á umhverfisáhrifum styttingar á hvíldartíma og heildaráhrif eldisins væru enn ekki fram komin. Við frekari málsmeðferð lagði framkvæmdaraðili fram viðbragðsáætlun. Kom þar m.a. fram að möguleg viðbrögð félagsins ef niðurstöður úr botnasýnatöku eftir hvíld væru óásættanlegar væru að minnka lífmassa á eldissvæði, auka hvíldartíma, færa kvíar til innan eldissvæðis eða setja ekki út seiði á viðkomandi eldissvæði og eftir atvikum nota önnur eldissvæði innan sama sjókvíaeldissvæðis. Umhverfisstofnun kom að spurningum og athugasemdum við áætlunina sem var svarað af hálfu framkvæmdaraðila og var áætlunin uppfærð. Lagði stofnunin áherslu á að hvíld myndi miðast við raunástand eldissvæðis í hvert sinn og var það mat hennar að með uppfærðri áætlun hefði framkvæmdaraðili gert nægjanlega grein fyrir því með hvaða hætti brugðist yrði við ef hvíldartíma yrði breytt. Með sama hætti kom fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar að hún teldi almennt mikilvægt að hvíld eldissvæða yrði stýrt af raunástandi botndýralífs, líkt og framkvæmdaraðili áformaði. Með hliðsjón af boðaðri verktilhögun, vöktun og viðbragðsáætlun taldi stofnunin ólíklegt að heimild til að stytta hvíldartíma myndi leiða til neikvæðari áhrifa á ástand sjávar en væru vegna núverandi starfsemi í firðinum, enda myndi ástand eldissvæða stýra útsetningu seiða.

Var það lokaniðurstaða Skipulagsstofnunar að þeir þættir sem féllu undir eðli framkvæmd-arinnar, staðsetningu og eiginleika hennar kölluðu ekki á að framkvæmdin undirgengist mat á umhverfisáhrifum. Í rökstuðningi stofnunarinnar var tiltekið að fyrirhuguð breyting á fyrirkomulagi hvíldartíma fæli hvorki í sér breytingu á stærð og umfangi framkvæmdar né nýtingu náttúruauðlinda eða aukna úrgangsmyndun. Breytingin kynni að fela í sér aukið álag á tilteknum svæðum en minna á öðrum. Áhrif af breyttum hvíldartíma kynnu fyrst og fremst að felast í auknu álagi á botndýralíf og ástand sjávar á tilteknum svæðum, sem og mögulega aukinni hættu á að fisksjúkdómar og sníkjudýr næðu fótfestu í eldiskvíum með mögulegum áhrifum á villta laxfiska í nágrenni fiskeldis. Með hliðsjón af vöktun og mögulegum mótvægisaðgerðum, þ.m.t. mögulegum viðbrögðum og inngripum framkvæmdaraðila ef tilefni væri til, þá væri breyttur hvíldartími ekki líklegur til að valda verulegum óafturkræfum umhverfisáhrifum. Tók stofnunin og fram að í starfsleyfi væru skýr ákvæði um hvernig vöktun og samráði við Umhverfisstofnun skuli háttað í aðdraganda útsetningar seiða, sem og hvaða skilyrði þurfi að vera fyrir hendi svo heimilt sé að setja seiði út í eldissvæði. Vísaði stofnunin til þess að lúsalyf hefðu verið notuð í þrjú ár í röð í eldi í Arnarfirði en lúsalyf kunni að hafa neikvæð áhrif á lífríki í nágrenni sjókvía. Það væri í höndum opinberra aðila að heimila slíka notkun en þeir gætu jafnframt gripið til annarra ráðstafana ef tilefni væri til. Ólíklegt mætti telja að lyfjanotkun yrði viðvarandi til lengri tíma vaknaði grunur um að hún hefði slæm áhrif á lífríki Arnarfjarðar.

Ljóst er að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar, heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Sé talið líklegt að þau verði umtalsverð skal mat fara fram á þeim áhrifum eingöngu en ekki heildarframkvæmdarinnar. Reynsla af upprunalegu framkvæmdinni, vöktun og mótvægisaðgerðum vegna hennar kann hins vegar að gefa vísbendingu um hvaða þætti breytingin geti haft áhrif á og þá hverjar áherslur ættu að vera í tilkynningu framkvæmdaraðila til ákvörðunar um matsskyldu, málsmeðferð Skipulagsstofnunar og matsskylduákvörðun. Að þessu virtu var að áliti úrskurðarnefndarinnar lagt mat á þá þætti sem máli skiptu um það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni, svo sem hún var kynnt, og tók Skipulagsstofnun tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka nefndra laga við það mat. Stofnunin aflaði umsagna sem hluta af rannsókn málsins á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, fékk fram frekari sjónarmið umsagnaraðila og lagði að lokum sjálfstætt mat á það hvort framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Tók stofnunin mið af vöktun, mótvægisaðgerðum og viðbragðsáætlun framkvæmdaraðila vegna starfseminnar sem tók frekari breytingum á meðan á málsmeðferð stofnunarinnar stóð. Rannsókn málsins var því fullnægjandi og færði Skipulagsstofnun viðhlítandi rök að þeirri niðurstöðu sinni að breyting á hvíldartíma eldissvæða væri ekki líkleg til að valda svo umtalsverðum umhverfisáhrifum að mat á þeim þyrfti að fara fram.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem meðferð málsins var ekki áfátt að öðru leyti, verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. desember 2019 um að breyting á hvíldartíma eldissvæða í Arnarfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

14/2020 Bjarnarflag

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 24. janúar 2020 um að samþykkja stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi vegna fjölnýtingar við skiljustöð 2 í Bjarnarflagi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir hluti landeigenda Reykjahlíðar þá ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 24. janúar 2020 að samþykkja stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi vegna fjölnýtingar við skiljustöð 2 í Bjarnarflagi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli stöðuleyfisins yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndar­innar uppkveðnum 9. mars 2020 var stöðvunarkröfu kæranda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 28. febrúar 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 8. janúar 2020, sótti Landsvirkjun um að fá að koma fyrir nýsköpunargámi vegna fjölnýtingar við skiljustöð 2 í Bjarnarflagi. Í umsókninni kemur fram að um sé að ræða rými sem verði notað af rannsóknar- og þróunaraðilum til að kanna möguleika á framleiðslu á kísilríkum húð- og snyrtivörum fyrir innlendan og erlenda markaði úr affallsvatni. Aðstaðan verði til þess að prófa íblöndun á skiljuvatni og náttúrulegum vökvum, s.s. sjóvatni og grunnvatni, auk þess sem vökvar verði geymdir þar í lokuðum ílátum. Samkvæmt umsókninni felst framkvæmdin í jarðvegsskiptum til að koma fyrir forsteyptum undirstöðum fyrir gám, koma fyrir 3×3×9 m gámi og festa hann við undirstöður, tengja 240 V rafmagn, leiða ferskvatn og skiljuvatn úr skiljustöð og tengja affall frá gámnum. Meðfylgjandi umsókninni er afstöðumynd af fyrirhuguðum gámi og teikning af honum.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 14. janúar 2020 og lagði nefndin til við sveitarstjórn að byggingarfulltrúa yrði falið að gefa út stöðuleyfi til 12 mánaða. Var það og samþykkt á fundi sveitarstjórnar 22. s.m. og gaf byggingarfulltrúi stöðuleyfið út 24. s.m. Óskað var eftir rökstuðningi fyrir hönd kærenda með bréfi, dags. 7. febrúar 2020, sem veittur var með bréfi, dags. 13. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að þeir séu þinglýstir eigendur þess lands í Bjarnarflagi þar sem fyrirhugað sé að koma fyrir gámi á vegum Landsvirkjunar. Þinglýsingar­vottorð séu óræk sönnun þess og dómur Hæstaréttar í máli nr. 560/2009 staðfesti ótvírætt eignarhald kærenda á Reykjahlíðarlandi öllu. Landsvirkjun hafi takmarkaðar heimildir til athafna í Reykjahlíðar landi og til að koma þar fyrir mannvirkjum. Skiljustöð 2 sé skráð 101,9 m2 að stærð og lóðin þar undir sé leigulóð. Landsvirkjun sé þannig einungis lóðarleiguhafi þeirrar lóðar sem skiljustöðin standi á og markist af húsinu sjálfu. Stöðin sé að hluta til starfrækt til raforkuframleiðslu og að hluta fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar til heitavatnsframleiðslu sam­kvæmt samningi landeigenda við íslenska ríkið frá 18. mars 1971. Allt annað land umhverfis lóðina sé í eigu kærenda. Beri sveitarstjórn að afla samþykkis landeigenda eftir almennum reglum áður en hún veiti veitir slíkar heimildir og gildi einu hvort um sé að ræða heimild til að koma fyrir gámi eða til byggingar mannvirkja. Það hafi ekki verið gert og beri því að fella samþykki sveitar­stjórnar úr gildi.

Landsvirkjun hafi engar heimildir til að setja upp mannvirki eða aðstöðu í landi Reykjahlíðar til annars en að framleiða raforku. Hafi Landsvirkjun áhuga á að hefja snyrtivöruframleiðslu, sem teljist vart til lögbundins hlutverks hennar, í landi Reykjahlíðar og koma fyrir mannvirkjum til þess eða aðstöðu, þurfi samþykki landeigenda. Á umsóknareyðublaði sé ritað undir af hálfu forsvarsmanns Landsvirkjunar „í fullu umboði landeiganda/lóðarhafa“. Það liggi ekki fyrir og það land/lóð sem ekki sé einungis undir skiljustöð 2 tilheyri landeigendum og þeim einum.

Ekkert bendi til þess að fyrirætlan Landsvirkjunar sé að hafa umræddan gám tímabundið staðsettan við skiljustöð 2. Fyrirhugaðar framkvæmdir séu til þess að koma gámnum fyrir séu þess eðlis að um sé að ræða fasteign sem verði varanlega skeytt við jörð, með jarðvegsskiptum og forsteyptum grunni ásamt frárennslis-, neysluvatns- og öðrum tengilögnum til að leiða vatn o.fl. inn í umræddan gám. Þegar af þeim ástæðum beri að líta á framkvæmdina og niður­setningu gámsins sem mannvirki í skilningi laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem háð sé byggingarleyfi skv. 9. gr. sömu laga og kafla 2.3 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnvel þótt hægt væri að aftengja gáminn og flytja teljist grunnurinn sem hann hvíli á varanlega skeyttur við jörð. Geti fram­kvæmdin sjálf, óháð skorti á nauðsynlegu samþykki landeigenda, ekki fallið undir veitingu stöðuleyfis skv. gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð.

Landsvirkjun hafi engar heimildir til að koma fyrir mannvirkjum í landi Reykjahlíðar í öðrum tilgangi en til raforkuframleiðslu, en það byggi m.a. á samningum einkaréttarlegs eðlis milli landeigenda og íslenska ríkisins, nú Landsvirkjunar, þ. á m. áðurnefndum samningi landeigenda við íslenska ríkið frá 18. mars 1971. Starfsemi Landsvirkjunar sé einnig lögbundin. Hvað sem því líði verði engin heimild sveitarstjórnar veitt á grundvelli eigin útfærslu á efni eða inntaki þeirra samninga sem gangi í berhögg við þær takmörkuðu heimildir sem Landsvirkjun hafi í landi Reykjahlíðar. Sé það samningsaðila að takast á um túlkun samningsins og hvort fram­kvæmd samræmist efni hans. Sjónarmið sveitarstjórnar um að samningurinn heimili mögulega „[…] vinnslu hliðarafurða úr jarðhitavatni […]“ og að slíkar rannsóknir „[…] virðast geta fallið undir samninginn frá 1971 […]“ séu að engu hafandi. Verði engin leyfi veitt á slíkum grundvelli án þess að það sé borið undir landeigendur til samþykktar. Samningurinn heimili Landsvirkjun enga mannvirkjagerð til snyrtivöruframleiðslu í landi Reykjahlíðar frekar en mannvirkjagerð fyrir starfsemi sem óskyld sé raforkuframleiðslu. Þá hafi Landsvirkjun engar heimildir til að leyfa óskilgreindum þriðju aðilum, þ.e. „rannsóknar- og þróunaraðilum“, að hefja atvinnu­starfsemi í landi sem fyrirtækið sé ekki eigandi að. Í dómi Hæstaréttar nr. 560/2009 þar sem fjallað hafi verið um þann samning sem sveitarstjórn vísi til í svarbréfi sínu til landeigenda segi m.a. „Að þessu virtu verður að líta svo á að samningurinn hafi með stoð í þessu lagaákvæði falið í sér fullnaðarafsal eigenda Reykjahlíðar til stefnda íslenska ríkisins fyrir beinum eignarrétti að jarð­hitaréttindum á svæðinu, sem um ræðir, jarðhita sem þar fyndist og aðstöðu til mannvirkja­gerðar til nýtingar hans, án þess að önnur réttindi yfir landinu hafi fylgt með í kaupunum.“ Jarðhitaréttindi hafi þannig verið skilin undan landareigninni, en eignarhald á landi hafi verið óraskað og hafi verið alla tíð. Sé beinlínis skylt eftir meginreglum eignarréttarins að afla samþykkis landeigenda fyrir þeirri ráðstöfun sem um ræði og felist í samþykki sveitar­stjórnar, eins og gildi um aðra hagnýtingu lands í annars manns landi.

Borið hafi að líta til meginreglna stjórnsýsluréttarins, m.a. um andmælarétt, en svo hafi ekki verið gert og eigi það að leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Ætti enda að þykja óumdeilt að landeigendur Reykjahlíðar hafi lögvarða hagsmuni af þeirri starfsemi og þeim mannvirkjum sem til standi að reisa á jörðum þeirra.

Málsrök Skútustaðahrepps: Af hálfu leyfisveitanda er vísað til þess að ákvörðun um stöðu­leyfi hvíli á gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í samræmi við 1. mgr. geti stöðuleyfi varðað gáma, eins og við eigi í þessu tilviki. Almenn skilyrði stöðuleyfis verði talin vera fyrir hendi í samræmi við greinina.

Í 2. mgr. greinarinnar sé gerð grein fyrir því hvað skuli koma fram í umsókn. Skuli m.a. gerð grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Telja verði að ákvæði um tilgang stöðuleyfis þjóni því hlutverki að leyfisveitandi fái lágmarksupplýsingar um tilgang stöðuleyfis þannig að hægt sé að greina hvernig það falli að landnotkun samkvæmt skipulagsákvörðunum og raski ekki starf­semi sem fyrir sé á svæðinu. Með samþykki stöðuleyfis sé leyfisveitandi því ekki að taka afstöðu til eða veita leyfi fyrir tiltekinni afmarkaðri starfsemi sem lýst sé í umsókn. Í þessu tilviki liggi fyrir að umsókn stafi frá Landsvirkjun sem sé með starfsemi á svæðinu og sé eigandi skiljustöðvar 2. Útgáfa stöðuleyfis fyrir gám feli ekki í sér að sveitarfélagið hafi veitt sérstakt leyfi fyrir rannsóknum á jarðhitavatni eða hverjir komi að slíkum rannsóknum í samvinnu við Landsvirkjun. Stöðuleyfið sé veitt þar sem ekki séu til staðar sérstök skipulagsleg rök gegn stöðuleyfi gáms á vegum eigenda nefndrar skiljustöðvar.

Réttindi Landsvirkjunar á landi Reykjahlíðar hvíli á samningi frá 1971, þar sem m.a. komi fram: „Jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því sem afmarkað er á viðfestum uppdrætti og landamerkjalýsingu ásamt jarðhita þeim sem þar er að finna og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans eru héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar.“ Framangreint samningsákvæði milli landeigenda og Landsvirkjunar varði aðstöðu Lands­virkjunar til mannvirkjagerðar. Ákvörðun um stöðuleyfi feli ekki í sér eiginlega mannvirkjagerð, heldur heimild til að lausamunir standi tímabundið á tilteknu svæði. Minniháttar frágangur fjarlægjan­legra undirstaða geti verið þáttur í útgáfu stöðuleyfis.

Í svari Skútustaðahrepps til kæranda, dags. 13. febrúar 2020, hafi verið bent á að telji landeigendur að Landsvirkjun fari út fyrir heimildir samningsins frá 1971 með notkun lausamuna eða annarri starfsemi á svæðinu virðist það einkaréttarlegt ágreiningsefni. Við afgreiðslu umrædds stöðuleyfis hafi ekki verið tekin afstaða til þess þáttar. Hins vegar sé ljóst að umrætt samningsákvæði sé ekki takmarkað við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu, eins og haldið sé fram í kæru. Ákvæðið vísi til jarðhitaréttinda og nýtingar jarðhita. Þá sé ljóst að skiljuvatn sé komið til vegna raforkuvinnslu. Út frá almennum umhverfis­sjónarmiðum virðist rannsókn á slíkri aukaafurð og vinnsla efna úr henni geta fallið undir rannsóknir á umhverfisþáttum, þ.e. mögulega takmörkun á umhverfisáhrifum núverandi jarðhitavinnslu. Tímabundin rannsóknar­starfsemi á vegum Landsvirkjunar virðist því geta fallið undir samningsákvæðið. Í nefndu svari Skútustaðahrepps, dags. 13. febrúar 2020, hafi verið bent á að önnur sjónarmið gætu átt við ef málið varðaði beina vinnslu á afurðum úr skiljuvatni, byggingar- eða framkvæmdaleyfisskyldu eða ef þriðji aðili stæði að mannvirkjagerð.

Bent sé á að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 96/2015, sem varðað hafi borholur á Kröflusvæði, hafi verið fjallað um þýðingu ákvæðis um framkvæmdaleyfi.

Athugasemdir Landsvirkjunar: Af hálfu leyfishafa er bent á að í b. lið 2. mgr. gr. 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé sérstaklega tekið fram að gámar teljist til lausafjármuna. Umræddum gámi megi líkja við flutningagám sem sé færanleg eining og sé ekki varanlega við landið skeytt. Gámurinn sé settur á undirstöður til þess að tryggja öryggi og koma í veg fyrir fok. Ef slíkum lausafjármunum sé ætlað að standa á sama stað í lengri tíma en tvo mánuði þurfi að sækja um stöðuleyfi. Sé þeim ætlað að standa skemur þurfi ekki leyfi. Samkvæmt reglu­gerðinni skuli umsókn um stöðuleyfi vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi lausafjármunar. Með umsókn skuli fylgja uppdrættir og önnur nauðsynleg gögn sem sýni staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi viðkomandi lausafjármunar. Jafn­framt skuli sýnt fram á að fyrir liggi samþykki lóðarhafa. Landsvirkjun hafi með samningnum öðlast rétt til mannvirkjagerðar á því svæði sem gámurinn sé staðsettur. Umsóknin uppfylli því öll framangreind skilyrði ákvæða gr. 2.6 í byggingarreglugerð og verði ekki séð að neinir form- eða efnisannmarkar séu á útgáfu leyfisins.

Með samningi milli íslenska ríkisins og eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar, dags. 18. mars. 1971, hafi ríkissjóður yfirtekið jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á ákveðnu afmörkuðu jarðhita­svæði. Umrædd réttindi hafi síðar verið framseld til Landsvirkjunar. Í 1. gr. samningsins segi: „Jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því, sem afmarkað er á viðfestum uppdrætti og landamerkjalýsingu, ásamt jarðhita þeim sem þar er að finna, og aðstaða til mann­virkjagerðar til nýtingar hans, eru héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar.“ Samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins hafi ríkissjóður yfirtekið jarðhitaréttindi í landi Reykja­hlíðar ásamt aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar jarðhitans. Í ákvæðinu séu engar takmarkanir á nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu líkt og haldið sé fram af hálfu kærenda. Framsal réttinda og nýting jarðhita sé því án nokkurra fyrirvara eða takmarkana. Með umsókn um stöðuleyfi sé gert ráð fyrir að settur verði upp gámur einmitt í þeim tilgangi að kanna mögu­leika á frekari nýtingu jarðhita, annarri en til raforkuframleiðslu, í fullu samræmi við greindan samning frá 1971.

Árið 2008 hafi landeigendur Reykjahlíðar höfðað mál til ógildingar á ofangreindum samningi. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 560/2009 hafi þeirri kröfu verið hafnað. Um 1. gr. samningsins segi í dómnum: „Að þessu virtu verður að líta svo á að samningurinn hafi með stoð í þessu lagaákvæði falið í sér fullnaðarafsal eigenda Reykjahlíðar til stefnda íslenska ríkisins fyrir beinum eignarrétti að jarð­hitaréttindum á svæðinu, sem um ræðir, jarðhita sem þar fyndist og aðstöðu til mannvirkja­gerðar til nýtingar hans, án þess að önnur réttindi yfir landinu hafi fylgt með í kaupunum.“ Samkvæmt skýru orðalagi í dómi Hæstaréttar hafi samningurinn falið í sér fullnaðarafsal til ríkisins á beinum eignarrétti að jarðhitaréttindum á svæðinu sem um ræði, jarðhita sem þar fyndist og aðstöðu til mannvirkjagerðar. Öll þessi réttindi yfir landinu hafi verið framseld með umræddum samningi, en ekki önnur réttindi samkvæmt orðalagi dómsins. Það feli í sér að eignarréttur landeigenda yfir landi sé takmarkaður að því leyti þar sem þeir hafi framselt frá sér afnotarétt af landi vegna jarðhitanýtingar á umræddu svæði. Engar takmarkanir eða fyrirvarar séu um að aðstaða til mannvirkjagerðar takmarkist við nýtingu á jarðhita til raforkuframleiðslu. Þá sé ekki gerð krafa um að leita þurfi samþykkis landeigenda áður en slík mannvirki séu reist. Með engu móti sé unnt að túlka dóm Hæstaréttar með þeim hætti að samþykki landeigenda þurfi fyrir því ef reisa eigi mannvirki á landinu til nýtingar jarðhita, líkt og haldið sé fram af hálfu landeigenda. Þessu til stuðnings vísi Landsvirkjun einnig til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 96/2015.

Allt frá upphafi reksturs Landsvirkjunar hafi íslenska ríkið og síðar Landsvirkjun unnið að framkvæmdum og uppbyggingu við Bjarnarflag og á Kröflusvæði á grundvelli samnings við landeigendur frá árinu 1971. Fjöldi fordæma sé fyrir því að Landsvirkjun hafi í áratugi fengið útgefin leyfi fyrir framkvæmdum á svæðinu vegna borana, nýtingar jarðhita, gerðar mannvirkja og annarrar aðstöðu til nýtingar jarðhita. Við útgáfu leyfa vegna framkvæmda hafi því ávallt verið litið svo á af hálfu sveitarstjórna og annarra leyfisveitenda að íslenska ríkið og Lands­virkjun hafi öðlast umráð til nýtingar lands vegna jarðhita samkvæmt samningi aðila frá 1971. Sú túlkun hafi síðan endanlega verið staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands í máli 560/2009. Ekki verði séð að neitt nýtt hafi komið fram sem breyti framangreindu eða leiði til takmörkunar á þeim réttindum ríkisins og Landsvirkjunar.

Um réttindi íslenska ríkisins og Landsvirkjunar í landi Reykjahlíðar hafi verið fjallað í þó­nokkrum dómsmálum og úrskurðum úrskurðarnefnda. Mál þessi staðfesti framsal eignaréttar að jarðhita, útgáfu leyfa sem og rétt til framkvæmda og mannvirkjagerðar til nýtingar jarðhita.

Í héraðsdómsmáli nr. E-46/2004 hafi landeigendur Reykjahlíðar höfðað mál gegn Landsvirkjun og krafist þess að Landsvirkjun greiddi fyrir notkun á jarðefni og köldu vatni innan jarðhita­réttindasvæðisins í þágu Kröfuvirkjunar. Helsta málsástæða hafi verið að landeigendur ættu beinan eignarrétt að öllum hlunnindum lands sem ekki væru skilin frá eigninni. Í málinu hafi þannig verið deilt um hvort að í 1. gr. samningsins frá 1971 hafi einnig falist réttur til efnis- og vatnstöku innan jarðhitaréttindasvæðisins. Niðurstaða héraðsdóms hafi byggt á því með vísan til samningsins frá 1971 að nýting jarðefna, vatns og aðstaða til mannvirkjagerðar hafi verið hluti af samningi aðila, enda hafi ekki verið gerðar athugasemdir af hálfu landeigenda í rúm þrjátíu ár. Hafi Landsvirkjun verið sýknuð af kröfum landeigenda.

Í héraðsdómsmáli nr. E-45/2005 hafi landeigendur höfðað mál gegn Landsvirkjun og íslenska ríkinu og krafist þess að ógilt yrði í heild sinni rannsóknarleyfi með fyrirheiti um forgang að nýtingarleyfi í landi Reykjahlíðar sem iðnaðarráðherra hafi gefið út 31. maí 2002. Í niðurstöðu héraðsdóms hafi því verið hafnað að 4. gr. laga nr. 57/1998 yrði skýrð með þeim hætti að ráð­herra væri skylt að láta landeigendur njóta forgangs til rannsóknarleyfis og nyti umsókn land­eigenda að því leyti ekki neinnar sérstöðu gagnvart öðrum umsóknum.

Í janúar árið 2008 hafi landeigendur Reykjahlíðar höfðað mál til ógildingar á samningi íslenska ríkisins og eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar vegna framsals jarðhitaréttinda og fleira, dags. 18. mars 1971. Þá hafi verið liðin 37 ár frá undirritun samningsins. Fyrst með dómi héraðsdóms og síðan með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 560/2009 hafi þeirri kröfu alfarið verið hafnað. Samkvæmt skýru orðalagi í dómi Hæstaréttar hafi samningurinn falið í sér fullnaðarafsal til ríkisins á beinum eignarrétti að jarðhitaréttindum á svæðinu sem um ræði, jarðhita sem þar fyndist og aðstöðu til mannvirkjagerðar.

Í máli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 96/2015 hafi landeigendur kært útgáfu framkvæmdaleyfis, m.a. með vísan til þess að útgefið leyfi hafi ekki samræmst gildandi deili­skipulagi og að leyfi landeigenda þyrfti til að nýta landréttindi. Af hálfu Landsvirkjunar hafi verið bent á að í áratugi hafi margskonar framkvæmdir farið fram á Kröflusvæðinu án þess að leitað hafi verið hverju sinni til eigenda Reykjahlíðarjarðarinnar um samþykki fyrir einstökum framkvæmdum, enda hafi allur réttur til nýtingar jarðhitans á svæðinu svo og nauðsynleg landafnot af því tilefni þegar verið framseldur til ríkisins/Landsvirkjunar með samningnum frá 1971. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 3. desember 2015, hafi kröfu landeigenda um stöðvun framkvæmda verið hafnað. Í úrskurði nefndarinnar, dags. 2. maí 2017, hafi kröfu landeigenda verið hafnað. Í úrskurðinum komi eftirfarandi fram: „Hinar leyfðu framkvæmdir eru afmarkaðar og miða að því að viðhalda nýtingu jarðhita sem framkvæmdaraðili telur til réttinda yfir. Breytingar ofanjarðar eru möguleg stækkun borteiga sem fyrir eru. Ljóst er af framangreindum samningi aðila frá árinu 1971 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 560/2009 að framkvæmdaraðili hefur rétt til jarðhita á svæðinu og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans. Fram­kvæmdirnar falli að þessari lýsingu og eru fyrirhugaðar innan þess svæðis sem afmarkað var með uppdrætti sem fylgdi fyrrnefndum samningi. Að teknu tilliti til alls þessa verður að telja að þær heimildir hafi verið til staðar til handa framkvæmdaraðila að skilyrði 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga hafi verið uppfyllt til veitingar hins kærða framkvæmdaleyfis. Telji kærandi hins vegar að landsréttindum sínum sé raskað með hinu útgefna leyfi umfram það sem hann má þola að teknu tilliti til heimilda framkvæmdaraðila getur hann þó eftir atvikum leitað atbeina dómstóla, enda á sá ágreiningur ekki undir úrskurðarnefndina, svo sem áður segir.“

Í héraðsdómsmáli nr. E-979/2019 og úrskurði Landsréttar í máli nr. 723/2019 hafi land­eigendur Reykjahlíðar krafist viðurkenningar á beinum eignarrétti að skiljuvatni (affallsvatni) frá háhita­borholum í landi Reykjahlíðar. Í niðurstöðum héraðsdóms Reykjavíkur, sem og Landsréttar, komi skýrt fram að með dómi Hæstaréttar nr. 560/2009 hafi þegar verið fjallað um og tekin bein afstaða til sakarefnisins og hafi málinu því verið vísað frá héraði og sú niðurstaða hafi verið staðfest í Landsrétti.

Samkvæmt áðurgreindum dómum og úrskurðum hafi komið skýrt fram að íslenska ríkið hafi yfirtekið jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar ásamt aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar jarðhitans. Um fullnaðarframsal hafi verið að ræða á jarðhita á tilteknu landsvæði samkvæmt samningi aðila frá 1971. Engar takmarkanir séu á því framsali eða með hvað hvaða hætti megi nýta jarðhitann eða landsvæði sem sé ráðstafað samhliða til nýtingar hans. Í nefndum dómum og úrskurðum hafi jafnframt verið fallist á útgáfu leyfa til framkvæmda og nýtingar með vísan til samningsins frá 1971. Ljóst sé að nýting hitaréttindanna geti kallað á uppsetningu ýmiss búnaðar, eins og þess gáms sem fjallað sé um í máli þessu. Væru réttindi Landsvirkjunar til nýtingar réttindanna túlkuð svo þröngt að slík uppsetning búnaðar til nýtingar réttindanna séu fyrirtækinu óheimil væru réttindin einungis orðin tóm.

Í kæru séu gerðar athugasemdir við sjónarmið sveitarfélagsins er fram komi í bréfi þess, dags. 7. febrúar 2020, um að samningurinn frá 1971 heimili vinnslu og rannsóknir hliðarafurða úr jarðhitavatni, og tekið fram að slík sjónarmið séu að engu hafandi. Kærendur hafi áður haldið sambærilegum fullyrðingum fram, sbr. dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-979/2019 og úrskurð Landsréttar í máli nr. 723/2019. Í þeim málum hafi slíkar fullyrðingar kærenda ekki verið taldar marktækar. Samningurinn frá 1971 takmarki ekki nýtingu á jarðhita við raforku­framleiðslu. Engin takmörk séu sett fyrir því með hvaða hætti Landsvirkjun nýti jarðhitann, né heldur hvaða mannvirki séu reist til nýtingar hans. Þá segi einnig í kæru að Landsvirkjun hafi engar heimildir til að leyfa óskilgreindum þriðju aðilum að hefja atvinnustarfsemi í landi sem fyrir­tækið sé ekki eigandi að. Eins og skýrt hafi komið fram sé Landsvirkjun eigandi umrædds gáms og hyggist stunda rannsóknir til að kanna mögulega nýtingu á jarðhita. Fyrirhugað sé að hefja samstarf við aðra aðila í þeim efnum, en ekki standi til að framselja rétt til nýtingar eða land­réttindi í þeim tilgangi, eða leyfa þriðja aðila að reisa mannvirki á umræddu svæði. Þótt það standi ekki til verði ekki séð að samningurinn frá 1971 myndi takmarka slíkt framsal líkt og haldið sé fram af hálfu kærenda. Landeigendur hafi framselt rétt sinn til jarðhita og mannvirkja­gerðar til nýtingar hans með fullnaðarafsali, án nokkurra takmarkana á frekara framsali. Íslenska ríkið hafi framselt þann rétt til Landsvirkjunar og verði ekki séð að samningurinn takmarki með einhverjum hætti rétt íslenska ríkisins né Landsvirkjunar til áframhaldandi framsals á þeim réttindum í framtíðinni. Nýting jarðhita í Bjarnarflagi eigi sér talsverða forsögu og hafi ekki takmarkast við rafmagnsframleiðslu. Megi t.d. benda á starfsemi hjá Létt­steypunni frá árinu 1963 til dagsins í dag, Kísiliðjunni frá 1967-2004, Grænna lausna frá árinu 2005-2010, hitaveitu fyrir Skútustaðahrepp frá árinu 1971 og Jarðböðin frá árinu 2004.

Í kæru sé því einnig haldið fram að ekkert bendi til þess að fyrirætlan Landsvirkjunar sé að hafa umræddan gám tímabundið staðsettan við skiljustöð 2. Í umsókn um stöðuleyfi felist að slík ráðstöfun sé eingöngu tímabundin skv. gr. 2.6. í byggingarreglugerð sem kveði sérstaklega á um að stöðuleyfi skuli mest veitt til 12 mánaða. Um sé að ræða gám sem sé lausafé og færan­legur og sé ekki varanlega skeyttur við jörð. Ákvörðun um veitingu stöðuleyfis feli í sér tíma­bundna heimild sem sé til samræmis við umsókn. Ekki séu færð rök fyrir því hvernig megin­reglur stjórnsýsluréttarins hafi verið brotnar við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Í andmælarétti felist að aðili máls eigi þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða að slíkt sé augljóslega óþarft. Ekki verði séð með hvaða hætti kærendur geti talist aðilar máls vegna umsóknar um stöðuleyfi. Kærendur hafi með samningi framselt rétt til afnota af landi og liggi samþykki hans fyrir í formi undirritaðs samnings. Slíkt framsal hafi bæði verið staðfest í dómaframkvæmd og með stjórn­sýslufordæmum. Umsókn um stöðuleyfi, sem og málsmeðferð við afgreiðslu hennar, hafi verið lögum samkvæmt þar sem öll skilyrði fyrir veitingu umsóknar hafi verið uppfyllt.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur taka fram að í tilvitnuðum samningi frá 1971 komi vissulega fram að samningsandlagið séu jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhita­svæði því, sem afmarkað sé á uppdrætti og landamerkjalýsingu, ásamt jarðhita þeim sem þar sé að finna, og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans. Réttur Landsvirkjunar sé þó fjarri því takmarkalaus. Forsaga jarðhitasamningsins sé sú að á árunum í kringum 1963 hafi íslenska ríkið hafið undir­búning að vinnslu umræddrar jarðgufu til raforkuframleiðslu í Námafjalli í landi Reykjahlíðar. Um fjórum árum síðar, í kringum 1967, hafi íslenska ríkið síðan hafið framkvæmdir við gufu­veitu frá Bjarnarflagi í landi Reykjahlíðar, vestan við Námafjall, að Kísil­iðjunni hf. Í landi Reykjahlíðar sé eitt mesta háhitasvæði landsins en þar reki Landsvirkjun raforkuver við Kröflu, oft nefnd Kröfluvirkjun. Á þessum tíma hafi verið unnið að skipulagi raforkumála í landinu og ný orkulög nr. 58/1967 hafi verið sett, þar sem kveðið hafi verið á um skipulag raforkuvinnslu og raforkudreifingar á vegum ríkisins, m.a. með hliðsjón af setningu laga um Landsvirkjun nr. 59/1965 en starfsemi stefnda, sem sé lögbundin, skyldi í upphafi miða að öflun raforku. Orkustofnun hafi verið komið á fót og á árinu 1969 muni síðan hafa verið ákveðið að Orkustofnun hæfi rannsóknir á háhita­svæðinu við Námafjall og Kröflu en um þær mundir hafi verið reist tilraunastöð til raforkufram­leiðslu við Bjarnarflag á vegum Laxár­virkjunar. Þessar tilraunir og rannsóknir hafi að mestu leyti ef ekki öllu farið fram á svæði innan jarðarinnar Reykjahlíðar. Hafist hafi verið handa við byggingu Kröfluvirkjunar á jörðinni, sbr. lög nr. 21/1974 um jarðgufuvirkjun við Kröflu eða við Námafjall í Suður-Þingeyjarsýslu. Af þessu tilefni og vegna virkjunaráforma íslenska ríkisins hafi verið gerður hinn umræddi jarð­hitasamningur. Umrædd áform hafi legið fyrir samningsaðilum við samningsgerðina um nýtingu jarðgufu til raforkuframleiðslu og hafi kærendur ekki vitað annað en að það væri eini tilgangur jarðhitasamningsins.

Eins og sjá megi af þeirri lagasetningu sem hafi átt sér stað og lögskýringargögnum, þ.m.t. lagafrumvörpum, þá hafi réttur íslenska ríkisins verið takmarkaður í landi Reykjahlíðar og réttur Landsvirkjunar til athafna jafnvel enn takmarkaðri. Í frumvarpi til laga um heimild fyrir ríkisstjórn til að selja Kröfluvirkjun í Suður-Þingeyjarsýslu sem legið hafi fyrir Alþingi á 108. löggjafarþingi árið 1985 sé m.a. að finna samning íslenska ríkisins við Landsvirkjun þar sem Landsvirkjun sé seld Kröfluvirkjun. Samkvæmt samningnum hafi fylgt réttur til virkjunar og hagnýtingar á þeirri jarðhitaorku sem finnast kynni á Kröflusvæðinu, að afli sem hafi svarað til allt að 70 MW til raforkuframleiðslu. Þetta komi skýrt fram í frumvarpi sem síðar hafi orðið að lögum og síðan í samningnum sjálfum. Athafnir Landsvirkjunar séu bundnar við raforkufram­leiðslu. Engin mannvirkjagerð til annars sé heimil í landi Reykjahlíðar án leyfis og samþykkis eigenda landsins. Landeigendur Reykjahlíðar hafi alltaf litið svo á að jarðhitasamningurinn næði eingöngu til öflunar jarðhita til raforkuframleiðslu. Nú hyggi Landsvirkjun á snyrtivöru­framleiðslu og ætli að koma fyrir mannvirki í því skyni. Tilkynnt hafi verið m.a. í fjölmiðlum að gerður hafi verið samningur við snyrtivörufyrirtæki í því skyni. Það sé augljóst öllum sem vilji kynna sér málið að hverskyns mannvirkjagerð í landi Reykjahlíðar, sem ekki taki til raf­orku­framleiðslu sé Landsvirkjun óheimil. Mjög gróflega sé brotið á eignarrétti kærenda yfir jörðinni. Breyti engu þó um tímabundið leyfi til niðursetningar gáms sé að ræða, enda tengist þetta á engan hátt þeim takmarkaða rétti sem Landsvirkjun hafi á landinu. Í nefndu frumvarpi komi til að mynda skýrt fram: „Landsvirkjun yfirtekur Kröfluvirkjun til eignar og reksturs frá og með 1. janúar 1986. Virkjunin er seld í því ástandi sem hún er og fylgir í kaupunum fullur og ótakmarkaður réttur til virkjunar og hagnýtingar jarð­varma á Kröflusvæðinu að því marki sem nægja mundi til reksturs 70 MW raforkuvers.“ Réttur íslenska ríkisins nái ekki lengra en hér sé kveðið á um og þyki málatilbúnaður Landsvirkjunar sem og Skútustaðahrepps um annað sæta furðu og gegn betri vitund.

Tilvitnaður dómur Hæstaréttar í máli nr. 560/2009 og úrskurður Landsréttar í máli nr. 723/2019 hafi enga þýðingu í þessu máli. Þess megi hins vegar geta að Landsvirkjun fyrirhugi að hagnýta sér svokallað skiljuvatn í snyrtivöruframleiðslu og tilraunir, en skiljuvatnið sé í dag hagnýtt fyrir Hitaveitu Reykjahlíðar samkvæmt sama samningi og Landsvirkjun kveðist leiða allan sinn rétt frá. Hitaveitan sé í eigu kærenda. Í dómi Hæstaréttar sé að finna umfjöllun um skiljuvatnið en í dóminum sé því slegið föstu að það tilheyri kærendum, með því að íslenska ríkið hafi fellt kvöð á jarðhitaréttindin um að afhenda landeigendum þetta skiljuvatn sem greiðslu frá íslenska ríkinu. Í 3. gr. jarðhitasamningsins segi: „B. Heitt vatn. Úr aðalæð hitaveitu þeirrar, sem getið er undir A hér að framan ber eigendum jarðarinnar Reykjahlíðar allt að 20 l/sek af heitu vatni. […] Vatnið er skiljuvatn frá borholum og afhendist á áðurgreindum vesturmörkum jarðhita­svæðisins án allrar ábyrgðar ríkissjóðs á eðli þess og er flutningur þess frá afhendingarstað og viðhald og viðgerðir á flutningsleiðslum ríkissjóði óviðkomandi.“ Um þessa kvöð hafi Hæsti­réttur sagt: „[…] verður óhjákvæmilega að skýra samninginn svo að með honum hafi stefndi íslenska ríkið skuldbundið sig til að fella kvöð á réttindin, sem hann keypti, um varanlegt tilkall viðsemjanda síns til tiltekinnar hlutdeild í þeim.“ Sú kvöð sé ótímabundin og óuppsegjanleg. Skiljuvatnið tilheyri kærendum sem fari með fullan umráða- og ráðstöfunarrétt yfir því. Frávísunarúrskurður Landsréttar í máli nr. 723/2019 breyti þar engu um, en í því máli hafi t.d. verið talið að kröfugerð væri ekki í samræmi við mála­tilbúnað kærenda. Sú kvöð sem hvíli á jarðhitaréttindunum tilheyri kærendum sem fari með varanlegan umráða- og nýtingarrétt þess magns skiljuvatns, 20 l/sek, sem Landsréttur vísi í. Hvað sem því líði þyki kærendum mikilvægt að andmæla öllum sjónarmiðum Landsvirkjunar um mannvirkjagerð sem snúi að rannsóknum og tilraunum á réttindum sem tilheyri kærendum.

Þótt það sé öðrum þræði einkaréttarlegt ágreiningsefni hvort Landsvirkjun hafi farið út fyrir umræddan samning eða hagnýtt sér í heimildarleysi eignir og réttindi sem tilheyri kærendum sé augljóst að Skútustaðahreppur túlki jarðhita­samninginn frjálslega. Eigi sú túlkun sér enga stoð þegar sagt sé að „samningurinn sé ekki takmarkaður við nýtingu jarðhita til raforku­framleiðslu“. Þetta sé rangt eins og sjá megi af lög­skýringargögnum sem fylgt hafi þeirri laga­setningu sem heimilað hafi framsal réttinda frá íslenska ríkinu til Landsvirkjunar og verði engar skipulagslegar ákvarðanir eða leyfisveitingar reistar á slíkri túlkun samningsins.

Við mat á því hvort að mannvirki teljist fasteign hafi Viðar Már Matthíasson t.a.m. skrifað í grein sinni „Fasteignahugtakið“ að tenging vatns- og skólplagna leiði augljóslega til þess að tengsl við land verði varanlegri. Þá færi hann rök fyrir því með vísan til úrskurðar yfirfasteigna­matsnefndar frá árinu 1987 að draga megi ályktanir um að sumarbústaðir teljist almennt fast­eignir þótt þeir hvíli einungis á steyptum stólpum. Telji höfundur að hið sama eigi við um annars konar hús sem tengd séu við land með sama hætti. Þegar af þeim ástæðum beri að líta á framkvæmdina og niðursetningar gámsins sem mannvirki í skilningi laga nr. 160/2010 sem háð sé byggingarleyfi skv. 9. gr. laganna og kafla 2.3. í byggingarreglugerð. Jafnvel þó hægt væri að aftengja gáminn og flytja teljist grunurinn sem hann muni hvíla á varanlega skeyttur við jörð. Geti framkvæmdin sjálf, óháð skorti á samþykki landeigenda, ekki fallið undir stöðuleyfi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti stöðuleyfis fyrir nýsköpunargám. Samkvæmt 9. tölul. 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skal setja í reglugerð skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað er að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Fjallað er um stöðuleyfi í kafla 2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Samkvæmt b-lið 1. mgr. gr. 2.6.1. reglugerðarinnar skal sækja um stöðuleyfi til að láta gáma standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal umsókn um stöðuleyfi vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðarmanni viðkomandi hlutar og skal fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar sem fyrirhugað er að lausafjármunirnir standi á. Í umsókn skal gera grein fyrir tilgangi og lengd stöðuleyfis. Með umsókn skulu fylgja uppdrættir og önnur gögn sem nauðsyn­leg eru til að sýna staðsetningu, útlit og gerð, fyrirkomulag og öryggi lausa­fjár­munanna. Ágreiningur aðila snýst aðallega um hvort samþykki eiganda eða lóðarhafa hafi fylgt um­sókninni, en einnig um það hvort um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða.

Fyrir liggur að kærendur, sem eru samkvæmt veðbókarvottorði þinglýstir eigendur meirihluta Reykjahlíðar, veittu ekki sérstakt samþykki vegna stöðuleyfisins. Í svarbréfi Skútustaðahrepps, dags. 13. febrúar 2020, vegna beiðni kærenda um rökstuðning kemur fram að réttindi Landsvirkjunar á landi Reykjahlíðar hvíli á samningi frá 1971 þar sem m.a. komi fram: „Jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því sem afmarkað er á viðfestum uppdrætti og landamerkjalýsingu ásamt jarðhita þeim sem þar er að finna og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans eru héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar.“ Segir svo í svari hreppsins að stöðuleyfi vegna gámsins virðist geta tengst nýtingu jarðhita og rannsóknum tengdum nýtingunni. Samningsákvæðið frá 1971 einskorðist ekki við raforkuframleiðslu sam­kvæmt orðanna hljóðan. Eðlilegt virðist að við nýtingu jarðhita geti komið til rannsókna á umhverfis­þáttum, s.s. mögulegri vinnslu hliðarafurða úr jarðhitavatni. Slíkar rannsóknir virðist geta fallið undir samninginn frá 1971. Verður ekki annar skilningur lagður í framangreint en að við afgreiðslu hins kærða stöðuleyfis hafi leyfisveitandi litið svo á að samþykki landeigenda hafi legið fyrir í formi framangreinds samnings milli landeigenda Reykjahlíðar og íslenska ríkisins frá 18. mars 1971, en réttindi samkvæmt samningnum voru framseld til Landsvirkjunar með samningi, dags. 26. júlí 1985.

Í 1. gr. nefnds samnings frá 1971 segir: „Jarðhitaréttindi í landi Reykjahlíðar á jarðhitasvæði því, sem afmarkað er á viðfestum uppdrætti og landamerkjalýsingu, ásamt jarðhita þeim, sem þar er að finna, og aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, eru héðan í frá ríkissjóði til frjálsra umráða og ráðstöfunar.“ Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 560/2009 var deilt um inntak 1. gr. samningsins og segir eftirfarandi í niðurstöðu dómsins: „Ákvæði samningsins um þetta verða ekki eftir orðanna hljóðan skýrð á þann veg að [íslenska ríkið] hafi tekið þessi réttindi á leigu eða fengið þau á annan hátt einvörðungu til afnota, en ætlast hafi verið til að beinn eignarréttur að þeim héldist í höndum eigenda Reykjahlíðar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. þágildandi orkulaga nr. 58/1967 var landeiganda heimilt með leyfi iðnaðarráðherra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna, að undanskilja jarðhitaréttindi landareign sinni og skyldi þá fara um kaup á slíkum réttindum sem um landkaup. Af síðastnefndum fyrirmælum verður ekki ályktað að jarðhitaréttindi, sem skilin væru á þennan hátt undan landareign, skyldu teljast sjálfstæð fasteign, en á hinn bóginn leiddu þessi fyrirmæli til þess að slík réttindi lytu sömu reglum og fasteignir í stað þess að fara eftir reglum, sem gilda um óbein eignarréttindi í fasteignum annarra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. maí 2009 í máli nr. 562/2008. Að þessu virtu verður að líta svo á að samningurinn hafi með stoð í þessu lagaákvæði falið í sér fullnaðarafsal eigenda Reykjahlíðar til stefnda íslenska ríkisins fyrir beinum eignarrétti að jarðhitaréttindum á svæðinu, sem um ræðir, jarðhita sem þar fyndist og aðstöðu til mannvirkjagerðar til nýtingar hans, án þess að önnur réttindi yfir landinu hafi fylgt í kaupunum.“

Tilgreindur hluti landeigenda Reykjahlíðar höfðaði síðar mál gegn Landsvirkjun þar sem krafist var viður­kenningar á beinum eignarrétti að skiljuvatni frá háhitaborholum í landi Reykjahlíðar, en kröfum þeirra var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur, sem og Landsrétti. Í úrskurði Landsréttar í máli nr. 723/2019 var vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 560/2009 og reifað að í forsendum dómsins segði um afhendingu til eigenda Reykjahlíðar á þeim 20 sekúndulítrum af heitu vatni sem málið varðaði: „[V]erður óhjákvæmilega að skýra samninginn svo að með honum hafi stefndi íslenska ríkið skuldbundið sig til að fella kvöð á réttindin, sem hann keypti, um varanlegt tilkall viðsemjanda síns til tiltekinnar hlutdeildar í þeim.“ Tók Landsréttur fram að sóknaraðilar í máli nr. 723/2019 væru stærstur hluti núverandi eigenda Reykjahlíðar og því að hluta til þeir sömu og áfrýjendur í hæstaréttarmáli nr. 560/2009, eða hefðu komið í þeirra stað. Áréttaði Landsréttur að neikvæð réttaráhrif dóms tækju ekki aðeins til niðurstöðu um kröfu eins og hún birtist í dómsorði heldur einnig til forsendna að baki kröfu að því leyti sem bein afstaða hefði verið tekin til þeirra í dómi. Var það niðurstaða réttarins að í hæstaréttarmáli nr. 560/2009 hefði í greindum forsendum dómsins verið tekin bein afstaða til þess sakarefnis sem fælist í meginkröfu sóknaraðila í máli nr. 723/2019 um viðurkenningu á beinum eignarrétti þeirra að tiltölu að 20 sekúndulítrum skiljuvatns sem kæmi frá háhitaborholum varnaraðila í Bjarnarflagi í landi Reykjahlíðar. Sú viðurkenningarkrafa hefði verið dæmd að efni til og var málinu vísað frá dómi með vísan til 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Hið kærða stöðuleyfi var veitt vegna gáms þar sem tilraunir verða gerðar til að nýta skiljuvatn. Það er ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að skera úr einkaréttarlegum ágreiningi en að framangreindum úrlausnum dómstóla virtum þykir ekki varhugavert að fallast á að í hinum umdeilda gámi geti falist aðstaða til mannvirkjagerðar til nýtingar jarðhita, í skilningi 1. gr. nefnds samnings, líkt og byggingarfulltrúi byggði á við veitingu hins kærða stöðuleyfis. Verður leyfið því ekki ógilt á þeim grundvelli að skort hafi á frekara samþykki landeigenda, en þeir geta eftir atvikum nýtt sér önnur réttarúrræði telji þeir á rétt sinn gengið.

Að öðru leyti lýtur ágreiningur máls þessa að því hvort um byggingarleyfisskylda framkvæmd sé að ræða, en skv. 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Um gám er að ræða en kærendur vísa til þess að undir honum verði forsteyptur grunnur sem verði varanlega skeyttur við jörð, auk þess sem gámurinn verði tengdur ýmsum lögnum. Í b. lið 1. mgr. í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð er ekki eingöngu fjallað um stöðuleyfi fyrir gáma heldur einnig aðra lausafjármuni, s.s. torgsöluhús. Ljóst er að torgsöluhús eru gjarnan tengd rafmagni og eftir atvikum vatni og virðist raunar gert ráð fyrir því í 4. mgr. nefndrar gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð að um tengingu við fráveitu geti verið að ræða, enda segir í ákvæðinu m.a. að handhafi stöðuleyfis sé ábyrgur fyrir því að hreinlætisaðstaða í og við lausafjármuni sem falli undir þessa grein uppfylli ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og ákvæði laga um fráveitur og laga, reglugerða og reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eftir því sem við eigi hverju sinni. Verður byggingarleyfisskylda því ekki byggð á því einu að slíkar tengingar verði við hinn umdeilda gám.

Kemur þá til skoðunar hvort um mannvirki sé að ræða í skilningi mannvirkjalaga á mannvirkjum, sbr. 12. tölul. 3. gr. Samkvæmt skilgreiningu mannvirkjalaga er mannvirki hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólks­flutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns og daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfs­manna­búðir og húsvagnar. Samkvæmt umsókn um hið kærða stöðuleyfi felst framkvæmdin í jarðvegsskiptum til að koma fyrir forsteyptum undirstöðum fyrir gám og festa hann við þær. Forsteyptar undirstöður fyrir gám eru ekki svo viðamiklar og tiltölulega auðvelt er að fjarlægja þær. Er að mati úrskurðarnefndarinnar því ekki hægt að telja þær jarðfastar eða varanlega skeyttar við land. Samkvæmt nefndri umsókn verður aðstaðan notuð til þess að prófa íblöndun á skiljuvatni og náttúrulegum vökvum, s.s. sjóvatni og grunnvatni, auk þess sem vökvar verði geymdir þar í lokuðum ílátum. Af framangreindu má ráða að gámurinn sé ekki ætlaður til svefns og daglegrar dvalar manna í skilningi þeirrar skilgreiningar sem áður er rakin, enda bendir lýsingin til þess að í gámnum verði vart dvalið meira en í t.d. torgsöluhúsi. Með hliðsjón af þeirri nýtingu gámsins sem fyrirhuguð er og frágangi hans verður ekki litið svo á að um sé að ræða mannvirki í skilningi 12. tölul. 3. gr. mannvirkjalaga. Verður því ekki haggað því mati byggingarfulltrúa að framkvæmdin sé ekki byggingarleyfisskyld, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna.

Hið kærða stöðuleyfi var gefið út 24. janúar 2020. Í leyfinu kemur annars vegar fram að það gildi til og með 14. október 2021, en jafnframt að það gildi til eins árs í senn. Samkvæmt 4. mgr. gr. 2.6.1. byggingarreglugerðar skulu stöðuleyfi mest vera veitt til 12 mánaða nema ákvæði skipulags mæli fyrir um annað. Í skipulagi svæðisins eru engin ákvæði um að veita megi stöðuleyfi til lengri tíma en 12 mánaða. Verður þegar af þeirri ástæðu að ógilda þann hluta stöðuleyfisins sem mælir fyrir um að leyfið gildi lengur en í 12 mánuði frá veitingu þess. Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þykir þó ekki ástæða til að ógilda stöðuleyfið í heild sinni og stendur það óraskað að öðru leyti með vísan til þess sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Skútustaðahrepps frá 24. janúar 2020 um að samþykkja stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi vegna fjölnýtingar við skiljustöð 2 í Bjarnarflagi að því leyti sem mælt er fyrir um að leyfið gildi lengur en í 12 mánuði frá veitingu þess.

66/2019 Látrar, Aðalvík

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2019, kæra vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum í Aðalvík, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. júlí 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Miðvík ehf., eigandi hluta eyðijarðarinnar Látra í Aðalvík, meintar óleyfisframkvæmdir á Látrum. Beinist kæran annars vegar að svonefndu Sjávarhúsi og hins vegar að byggingum í fjörukambinum. Gerð er krafa um að felld verði úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2019, um að synja beiðni um endurupptöku þeirrar ákvörðunar að hafna kröfu kæranda um að fjarlægja Sjávarhúsið, en sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 2015. Jafnframt er kærð synjun skipulags- og byggingarfulltrúa sem einnig kom fram í greindu bréfi, dags. 28. maí 2019, á þeirri kröfu kæranda að fimm smáhýsi sem staðsett eru í fjörukambinum verði fjarlægð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 31. janúar 2020 og í maí og júní s.á.

Málavextir: Mál þetta á sér talsverða forsögu, en kærandi hefur um langt skeið komið á framfæri athugasemdum við Ísafjarðarbæ vegna meintra óleyfisframkvæmda á Látrum. Á árinu 2014 fór kærandi fram á það við skipulags- og byggingarfulltrúa að hann hlutaðist til um að svonefnt Sjávarhús á Látum yrði fjarlægt, þar sem það hefði verið reist án tilskilinna leyfa. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 3. febrúar 2015, var tilkynnt að fram kominni kröfu væri hafnað, m.a. með þeim rökum að langt væri liðið frá byggingu hússins.

Á árinu 2016 kom kærandi að frekari athugasemdum til Ísafjarðarbæjar og skoraði á sveitar­félagið að hefja lögformlegt ferli er lyti að því að Sjávarhúsið yrði fjarlægt sem og geymslu­skúrar sem reistir hefðu verið í fjörukambinum án tilskilinna leyfa. Jafnframt beindi kærandi kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fór m.a. fram á það að bygging fyrrgreinds Sjávarhúss yrði úrskurðuð óleyfisframkvæmd og að byggingaraðila yrði gert að fjarlægja húsið. Einnig var gerð krafa um að áðurnefndir geymsluskúrar yrðu fjarlægðir. Í úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 6. september 2018 í máli nr. 116/2016, var vísað til þess að meira en ár væri liðið frá því að synjun á kröfu kæranda um að Sjávarhúsið skyldi fjarlægt hefði verið tilkynnt honum og kæmi því ekki til álita að endurskoða lögmæti þeirrar ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var þeim hluta málsins því vísað frá. Þá tók úrskurðarnefndin ekki afstöðu til þeirrar kröfu að viðbygging Sjávarhússins og geymsluskúrar yrðu fjarlægðir heldur lagði fyrir byggingarfulltrúa að afgreiða þá enn óafgreidd erindi kæranda þess efnis.

Í kjölfarið sendi skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til kæranda, dags. 18. janúar 2019, þar sem m.a. var tekið fram að ákvörðun Ísafjarðarbæjar um að hafna því að hlutast til um að Sjávarhúsið yrði fjarlægt teldist endanleg á stjórnsýslustigi. Var og bent á að félagið kynni að eiga rétt á því að umrædd ákvörðun yrði tekin til meðferðar á ný teldi það að skilyrði 24. gr. stjórnsýslu­laga væru uppfyllt. Þá lægi fyrir að svonefnd áhaldahús eða smáhýsi í fjörukambi væru undan­þegin byggingarleyfi, sbr. g. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hefði ekkert fram komið, að telja yrði, um að þau uppfylltu ekki skilyrði ákvæðisins. Auk þess væri ekki unnt að líta svo á að með samkomulagi frá árinu 2004 varðandi byggingarleyfi í friðlandinu á Hornströndum hefði að þessu leyti verið vikið frá ákvæðum reglugerðarinnar. Hefði Ísafjarðarbær ekki haft aðkomu að málum vegna lóðarréttinda á þessu svæði enda landið í einkaeigu. Loks var tilkynnt að skipulags- og byggingarfulltrúi hefði til skoðunar hvort leggja ætti til við skipulags- og mannvirkjanefnd að hafna kröfum kæranda varðandi umrædd áhaldahús eða smáhýsi nema eitthvað kæmi fram af hans hálfu sem leiddi til annars. Var kæranda gefinn kostur á því að koma á framfæri frekari athugasemdum sínum, ábendingum eða andmælum fyrir 25. febrúar 2019. Með bréfi kæranda til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 22. febrúar s.á., fór kærandi fram á að greind ákvörðun um að Sjávarhúsið yrði ekki fjarlægt væri endurupptekin með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún hefði m.a. byggst á röngum forsendum um það hvenær húsið hefði verið reist.

Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 28. maí 2019, var tilkynnt að kröfu um endurupptöku væri hafnað. Var m.a. vísað til þess að ákvörðun sú sem hér um ræddi hefði verið tilkynnt kæranda 3. febrúar 2015 og ljóst að allir tímafrestir skv. 24. gr. stjórnsýslulaga væru liðnir. Einnig var tekið fram að óháð tímafrestum væri ekki fallist á að umrædd ákvörðun hefði byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum í skilningi tilvitnaðs ákvæðis. Engu gæti breytt í þeim efnum hvort fasteignin væri byggð á árunum 1970, 1980-1983 eða 1993. Þá var tekið fram að ekkert hefði fram komið af hálfu kæranda er breytti afstöðu til svonefndra áhaldahúsa eða smáhýsa í fjörukambi. Einnig kom fram að kærandi hefði ekki sýnt fram á eignarhald á sjávarlóðunum í fjörukambi Látra miðað við afsal lóðanna frá 26. október 1932. Með vísan til þess alls sem fram hefði komið væri því kröfu kæranda um að áhaldahús eða smáhýsi í fjörukambi yrðu fjarlægð hafnað. Þá kom fram í nefndu bréfi að ólokið væri málsmeðferð vegna kröfu kæranda um að viðbygging við svonefnt Sjávarhús yrði fjarlægð. Nú liggur fyrir ákvörðun vegna síðastgreindrar kröfu kæranda og hefur hann kært hana til úrskurðarnefndarinnar. Er það kærumál nr. 55/2020.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í bréfi Ísafjarðarbæjar til kæranda, dags. 3. febrúar 2015, hafi átt að upplýsa um þau tímamörk sem 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tilgreini. Ef svo hefði verið gert hefði verið hægt að bregðast við á réttan hátt. Jafnframt hafi ekki verið veittar upplýsingar um það hvernig staðið skyldi að kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Hvað varði kröfu um endurupptöku sé tekið fram að það standist enga skoðun að svonefnt Sjávarhús hafi verið reist árið 1970. Það sé ekki sjáanlegt á loftmyndum frá 4. ágúst 1986 sem finna megi á vef Landmælinga Íslands. Leyfi fyrir byggingu hússins hafi verið veitt árið 1988 og það hafi verið reist á tímabilinu 1988-1992. Ákvörðun Ísafjarðarbæjar sé því byggð á röngum forsendum. Mæli veigamiklar ástæður með því að leyfa endurupptöku, en einnig hafi komið fram nýjar upplýsingar sem styðji kröfu kæranda.

Þegar umrætt hús hafi verið reist hafi gilt allt aðrar reglur og lög en árið 1970. Hvorki liggi fyrir leyfi frá Ísafjarðarbæ fyrir byggingunni né leyfi frá Náttúruverndarráði eða Umhverfisstofnun. Umrædd lóð sé í sameign og eigi kærandi 50% í henni. Þurfi samþykki allra landeiganda til byggingar hússins, en það liggi ekki fyrir. Einnig séu byggingarréttindi bundin við íbúðarhús og þjónustuhús, en á lóðinni hafi staðið verbúð og þar af leiðandi sé ekki leyfilegt að byggja á henni. Á Látrum sé kvóti fyrir fjölda sumarbústaða sem reisa megi og hafi enginn annar land­eigandi látið eigendum Sjávarhússins í té ónýtt byggingarréttindi sín. Skerði Sjávarhúsið því eignarrétt einhvers annars landeiganda og geti þetta valdið miklum vandræðum og deilum seinna meir þegar og ef kvótinn klárist.

Milli nánar tilgreindra landeigenda hafi verið gert samkomulag 26. október 1932 um byggilegar lóðir á Látrakambi, sem sé samnefni fyrir Nessjó og Heimasjó. Ekki hafi allir landeigendur nýtt sér þessar lóðir en einnig hafi verið reistir skúrar fyrir utan þetta skilgreinda svæði seinna meir. Hafi landeigendur Látra ekki verið sammála um hvort um sé að ræða séreignarrétt eða afnotarétt af sameiginlegu landi. Kærandi telji það ekki skipta máli þar sem reglur um byggingu húsa gildi óháð því hvort um séreignar- eða sameignarland sé að ræða. Í dag séu á Nessjó fimm smáhýsi, Sjávarhúsið og Ólafsskáli. Séu smáhýsin nýtt sem fjórhjólageymslur.

Því sé hafnað að smáhýsin séu undanþegin byggingarleyfi, sbr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Standi þau ein og sér, fjarri sumarhúsum viðkomandi aðila. Hvorki hafi verið samþykkt byggingarleyfi fyrir umræddum smáhýsum né liggi fyrir samþykki allra landeigenda eða Umhverfisstofnunar fyrir byggingu þeirra. Einn eigandinn hafi fengið leyfi til að byggja smáhýsi við sumarhúsið sitt en hann hafi reist það við Nessjó. Fjórir af fimm eigendum smáhýsanna séu ekki landeigendur og eigi því engin réttindi á Látrum. Af þeim húsum sem staðið hafi við Nessjó þá falli einungis eitt þeirra í flokkinn „íbúðarhús“, en önnur í flokkinn „önnur hús“ og því sé ekki heimild til að endurbyggja þau. Þrátt fyrir að lög og reglur um þetta svæði séu afar skýrar þá hafi þeir aðilar sem stóðu að byggingu húsanna ekki farið að settum reglum. Sé í þessu sambandi bent á 1. gr. auglýsingar um friðland á Hornströndum og „Samkomulag varðandi byggingarleyfi á friðlandinu á Hornströndum“.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er tekið fram að kæran uppfylli tæpast skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Til að mynda komi ekki fram nákvæmlega hvaða kröfur séu gerðar eða á hvaða grundvelli. Þá virðist hluti kærunnar varða mál sem enn sé til meðferðar hjá Ísafjarðarbæ. Leiði þetta til þess að óhjákvæmilegt sé að vísa kærunni frá. Verði kæran þrátt fyrir þetta tekin til efnislegrar meðferðar sé áréttað að sveitarfélagið telji að það sé ekki hlutverk þess eða byggingarfulltrúa að leysa úr einkaréttarlegum ágreiningi aðila. Nærtækara sé að viðkomandi nýti sér þau einka­réttarlegu úrræði sem standi til boða til að fá þeim rétti sínum framgengt.

Ítrekuð séu sjónarmið sem þegar hafi komið fram í málinu. Afstaða sveitarfélagsins til svo­nefndra áhaldahúsa eða smáhýsa í fjörukambinum sé óbreytt. Þá sé bent á að ákvæði mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012, um þær ráðstafanir sem byggingarfulltrúi geti gripið til, t.d. ef mannvirki séu reist án tilskilinna leyfa, feli í sér heimildir byggingarfulltrúa. Í þeim felist ekki skylda hans til að t.d. stuðla að því að mannvirki sé fjarlægt af þeirri ástæðu og þótt fyrir liggi að það hafi verið reist án byggingarleyfis. Við mat byggingar­fulltrúa á því hvort þessum heimildum skuli beitt komi margvísleg atriði til skoðunar. Þeirra á meðal sé sá tími sem liðinn sé frá því að mannvirki hafi verið reist, réttmætar væntingar eigenda þess og sjónarmið um að ekki skuli raska verðmætum án fullnægjandi tilefnis. Þá hafi sama ágreiningi áður verið vísað til úrskurðarnefndarinnar og sé vísað til þess eftir því sem við eigi.

——-

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu sem ekki verða raktar nánar en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kærð er. Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að hún verði tekin til meðferðar. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 17. júlí 2019. Afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa vegna meintra óleyfisframkvæmda að Látrum voru tilkynntar kæranda með bréfi, dags. 28. maí s.á. en af hans hálfu er því haldið fram að það hafi verið póstlagt 13. júní s.á. og ekki borist stjórnarformanni félagsins fyrr en 18. s.m. Þótt úrskurðarnefndinni hafi borist þær skýringar frá Ísafjarðarbæ að umrætt bréf hafi verið póstlagt 28. maí 2019, og það þyki sennilegt þegar hliðsjón er höfð af verkferlum bæjarins og skráningu í málaskrá, telur nefndin án frekari gagna ekki hægt að útiloka að bréfið hafi ekki borist kæranda fyrr en 18. júní s.á. Verður kæru hans af þeim sökum ekki vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 1.tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í máli þessu er meðal annars deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingar­fulltrúa Ísafjarðarbæjar að synja beiðni kæranda um endurupptöku á þeirri ákvörðun að hafna því að hlutast til um að svonefnt Sjávarhús á Látrum yrði fjarlægt. Sú ákvörðun að hafna því að fjarlægja Sjávarhúsið var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, og var kæru hans á þeirri ákvörðun vísað frá af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála með úrskurði í kærumáli nr. 116/2016 á þeim grundvelli að kærufrestur væri löngu liðinn, svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Í kjölfar úrskurðarins var kæranda af hálfu Ísafjarðarbæjar leiðbeint um möguleika á því að óska eftir endurupptöku teldi kærandi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga uppfyllt. Samkvæmt nefndu lagaákvæði á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný að vissum skilyrðum uppfylltum. Þannig kemur fram í 1. tl. 1. mgr. 24. gr. að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný hafi ákvörðun byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í 2. tl. nefndrar málsgreinar er svo kveðið á um að aðili eigi rétt á endurupptöku máls hafi íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þó er mælt fyrir um það í 2. mgr. 24. gr. laganna að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tl. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tl. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Þá verður, samkvæmt nefndu ákvæði, mál ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Ljóst er að þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Ísafjarðarbæ voru tímafrestir þeir er tilgreindir eru í 24. gr. stjórnsýslulaga löngu liðnir og voru þeir raunar liðnir þegar kæra barst úrskurðarnefndinni á þeirri ákvörðun sem endurupptökubeiðnin laut að. Í athugasemdum við 2. mgr. 24. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur fram að skilyrði hennar séu sett til að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og sé þeim ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt getur verið að upplýsa. Markmiðið sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt sé. Er og tekið fram að telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar.

Hvorki í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né heldur í greinargerð með frumvarpi til laganna er að finna skilgreiningu á því hvaða ástæður teljist til veigamikilla ástæðna. Sama orðalag er notað í 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um hvenær kæra sem borist hefur að liðnum kærufresti getur verið tekin til meðferðar, þótt ljóst sé að henni verði ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr. Í athugasemdum við 1. mgr. 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að við mat á því hvort skilyrði séu til að víkja frá kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Í þeim tilfellum sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Verður að telja ljóst að við mat á því hvort endurupptaka eigi mál beri að líta til eðlis þess hverju sinni og málsatvika allra. Einnig verður að taka mið af þeim sjónarmiðum sem leiða má af skilyrðum ákvæðanna um tímafresti og áður var getið. Eiga nefnd sjónarmið einnig við um rétt til endurupptöku máls sem leiða má af ólögfestum reglum stjórnsýsluréttarins þótt þær reglur kunni að vera rýmri en gert er ráð fyrir í ákvæðum stjórnsýslulaga.

Sú synjun skipulags- og byggingarfulltrúa á að beita þvingunarúrræðum mannvirkjalaga nr. 160/2010 sem kærandi kærði í kærumáli nr. 116/2016 og beiddist síðar endurupptöku á laut að fasteign sem er í eigu annars aðila. Hefði skipulags- og byggingarfulltrúi komist að öndverðri niðurstöðu og beitt þvingunarúrræðunum hefði sú ákvörðun verið verulega íþyngjandi fyrir eiganda húss þess sem hér um ræðir. Eru hagsmunir hans andstæðir hagsmunum kæranda. Þótt kæranda hafi ekki verið leiðbeint um fresti til endurupptöku eða kæru er til þess að líta að almennt verður að gera þá kröfu til aðila, séu þeir ósáttir við niðurstöðu máls, að þeir fylgi því eftir og kanni þau réttarúrræði sem þeim kunna að standa til boða. Í öllu falli réttlætir skortur á leiðbeiningum ekki þann mikla drátt sem varð á því að kærandi leitaði réttar síns þegar litið er til annarra hagsmuna í málinu og þeirra sjónarmiða sem að framan eru reifuð. Breytir það ekki þeirri niðurstöðu að vafi kunni að leika á því hvenær húsið var reist, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er Sjávarhúsið byggt árið 1970. Þrátt fyrir að mögulegt sé að byggingu þess hafi ekki verið lokið fyrr en nokkrum árum síðar er ljóst að töluvert er frá því liðið. Að framangreindu virtu voru ekki fyrir hendi skilyrði til endurupptöku og var skipulags- og byggingarfulltrúa því rétt að synja fram kominni beiðni þess efnis.

Í máli þessu er jafnframt deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar að hafna kröfu kæranda um að svonefnd áhaldahús eða smáhýsi í fjöru­kambinum verði fjarlægð. Er nefnd ákvörðun studd þeim rökum að smáhýsin séu undanþegin byggingarleyfi, sbr. g. lið í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Að auki er til þess vísað að kærandi hafi ekki sýnt fram á eignarhald á sjávarlóðunum í fjörukambi Látra miðað við skiptagjörð vegna lóðanna frá 26. október 1932. Með afsali, dags. 24. maí 2013, er þinglýst var 10. júní s.á., afsala nánar tilgreindir aðilar 100% hlut sínum í ½ hlut í Látrum í Aðalvík, landsnúmer 189033, og 100% hlut í ½ Neðri-Miðvík í Aðalvík, landsnúmer 189037, til kæranda máls þessa. Er kærandi skráður eigandi Látra ásamt fleirum í fasteignaskrár Þjóðskrá Íslands. Þrátt fyrir framangreinda skiptagjörð verður að leggja þá opinberu skráningu til grundvallar og telja að kærandi eigi hagsmuna að gæta um ráðstöfun jarðarinnar.

Kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. mannvirkjalaga að sveitarstjórn beri ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og að byggingar­fulltrúar annist eftirlit með mannvirkjagerð er falli undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Er mælt fyrir um það í 1. mgr. 9. gr. að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna getur byggingarfulltrúi krafist þess, ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti séu fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Ákvörðun um beitingu nefndra þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að beiting þeirra sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Umrædd ákvæði gefa stjórnvöldum sveitarfélaga kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna hagsmuna einstaklinga enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum.

Svo sem fyrr greinir var það mat skipulags- og byggingarfulltrúa að umrædd smáhýsi væru undanþegin byggingarleyfi skv. g. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að nánar tilgreindar framkvæmdir og breytingar séu undanþegnar byggingarleyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Geta smáhýsi fallið þar undir, sbr. g. lið ákvæðisins að nánar tilgreindum kröfum uppfylltum, enda sé slík bygging ekki óheimil samkvæmt gildandi deili­skipulagi. Þótt í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 sé m.a. gert ráð fyrir því að á Látrum megi endurbyggja öll íbúðarhús og þjónustuhús sem búið hafi verið í eftir 1908 og fram­kvæmdir skuli nánar útfærðar í deiliskipulagi verður ekki hjá því litið að ekki er í gildi deiliskipulag fyrir Látra. Kom af þeim sökum ekki til álita að rökstyðja höfnun á beitingu þvingunarúrræða með vísan til ákvæðis gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð sem gerir samræmi við deiliskipulag að skilyrði. Þegar af þeirri ástæðu að hin kærða ákvörðun um synjun á að beita þvingunarúrræðum vegna smáhýsa byggðist á röngum forsendum verður ekki hjá því komist að fella hana úr gildi.

Það athugist að samkvæmt auglýsingu nr. 332/1985 um friðland á Hornströndum eru Látrar í Aðalvík innan friðlandsins. Samkvæmt lið 1 í auglýsingunni er öll mannvirkja­gerð, jarðrask og önnur breyting á landi, svo og undan landi allt að 60 föðmum frá stór­straums­fjöruborði, háð leyfi Umhverfisstofnunar, en að auki þarf eins og fyrr segir að liggja fyrir leyfi byggingarfulltrúa. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað hafði skipulags- og byggingarfulltrúi samband símleiðis við starfsmann Umhverfisstofnunar við meðferð málsins. Þótt úrskurðarnefndin hafi verið upplýst um að í einhverjum tilvikum hafi verið sótt um leyfi til stofnunarinnar fyrir byggingu smáhýsa á sínum tíma er rétt að benda á að ekki verður séð að frekari rannsókn hafi farið fram að hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa á því hvort gætt hefði verið að reglum framangreindrar auglýsingar að öllu leyti og hvaða máli það gæti skipt við ákvörðun hans.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulags- og byggingarfulltrúa Ísafjarðar­bæjar sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2019, um að synja beiðni um endur­upptöku þeirrar ákvörðunar að hafna kröfu kæranda um að fjarlægja Sjávarhúsið á Látrum.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dags. 28. maí 2019, um að synja kröfu kæranda um að fimm smáhýsi sem staðsett eru í fjöru­kambinum á Látrum verði fjarlægð.

25/2020 Seljaland

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 25/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 3. apríl 2020 um að krefjast ekki byggingarleyfis vegna framkvæmda við glugga í íbúðarherbergi í kjallara fjöleignarhússins að Seljalandi 5-7 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

  úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. apríl 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur íbúðar í stigagangi nr. 5 við Seljaland í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, sem tilkynnt var kærendum með tölvupósti 3. apríl 2020, að krefjast ekki byggingarleyfis vegna gluggaframkvæmda íbúðareiganda í nefndu fjöleignarhúsi. Er gerð krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdaraðila verði gert að afla byggingarleyfis fyrir umræddum gluggaskiptum.

 Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 20. maí 2020.

 Málavextir: Hinn 28. september 2017 hafði annar kærenda samband við embætti byggingar­fulltrúa og tilkynnti um að í gangi væru framkvæmdir við gluggaskipti á íbúð í kjallara hússins að Seljalandi 5. Verið væri að setja áberandi breiðara opnanlegt fag auk þess sem glugga­karmurinn væri úr hvítu plasti. Húsfélagið og kærandi teldu þetta brjóta gegn byggingar­reglugerð nr. 112/2012 auk þess sem ekkert samráð hefði verið haft við húsfélagið. Kærandi sendi embætti byggingarfulltrúa aftur tölvupóst 29. s.m. og ítrekaði fyrra erindi ásamt því að taka fram að um væri að ræða óleyfisframkvæmd sem væri í ósamræmi við undantekningar í c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Op fyrir opnanlegt fag gluggans væri 23 cm á breidd í eldri glugga en 56,5 cm í nýja glugganum. Þá væri karmurinn úr plasti en að vísu brúnn á litinn á ytra byrði. Var farið fram á að embættið krefðist þess að viðkomandi aflaði byggingarleyfis eða yrði ella látinn fjarlægja gluggann þá þegar.

Nefndur kærandi var ítrekað í samskiptum við embætti byggingarfulltrúa vegna málsins. Embætti byggingarfulltrúa ritaði eiganda kjallaraíbúðarinnar bréf, dags. 9. október 2017, þar sem vakin var athygli á að borist hefði kvörtun vegna óleyfisframkvæmda og óskað var eftir skýringum innan 14 daga frá dagsetningu bréfsins. Samskipti áttu í sér stað í framhaldi af því Urðu málalyktir þær að embættið sendi kæranda tölvupóst 3. apríl 2020 þar sem fram kom að vettvangsferð skilmálafulltrúa, sem heyrir undir embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík, hefði leitt í ljós að skipt hefði verið um glugga í samþykktu íbúðarherbergi í kjallara hússins og opnanlegt fag stækkað. Umrædd breyting væri á kjallaraglugga og því ekki mjög sýnileg. Jafnframt væri hún mikilvægt öryggisatriði þar sem glugginn nýttist sem björgunarop og væri því flóttaleið. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefði tekið fyrir mál í sama húsi, þar sem reynt hefði á hvort gluggaskipti þar sem opnanleg fög hefðu verið stækkuð væru háð byggingarleyfi. Úrskurðarorð nefndarinnar hefðu verið á þá leið að framkvæmdin væri ekki háð byggingarleyfi. Í ljósi þessa og að um væri að ræða óverulega breytingu á útliti hússins teldi embætti byggingarfulltrúa framkvæmdina falla undir minniháttar framkvæmd sem væri undanþegin byggingarleyfi skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að íbúð sú sem umræddur gluggi tilheyri sé ósamþykkt stúdíóíbúð. Það mat byggingarfulltrúa að breytingin sé ekki mjög sýnileg sé ekki rétt og lýsi einungis órökstuddu mati hans. Umræddur gluggi sé á suðurhlið hússins, upp að honum nái grasflöt sem sé vinsæl til útivistar og leikja og handan hennar sé greið sýn að fjölbýlishúsum við Snæland, auk þess sem bílastæði íbúa þar nái að grasflötinni. Glugginn sé allur ofanjarðar og hvorki svalir sem skyggi á hann að ofan né nokkuð sem byrgi sýn frá honum. Gluggakarmurinn sé 270 cm breiður og um 112 cm hár þannig virkilega erfitt sé að veita honum ekki athygli þegar farið sé hjá. Samkvæmt byggingarreglugerð eigi björgunarop að vera a.m.k. 60 cm á kant og því sé athyglisvert að byggingarfulltrúinn haldi því fram að op sem sé fyrir innan opnanlega fagið og væntanlega ekki nema 50-52 cm breitt sé fullnægjandi björgunarop. Orðalagið „mikilvægt öryggisatriði“ sé ekki rökstutt en enginn annar eigandi hinna sjö kjallaraíbúðanna í húsinu telji þörf á þessu aukaopi á íbúðum sínum. Tvær flóttaleiðir séu fyrir úr kjallara hvors stigagangs fyrir sig og myndu flestir álíta það vera nóg. Byggingarfulltrúa hafi a.m.k. borið sú lágmarksskylda að kynna sér þessi mál áður en hann láti svona fullyrðingu frá sér. Kærendum finnist byggingarfulltrúi snúa út úr niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 106/2017. Samkvæmt úrskurðinum hafi ekki verið þörf á byggingarleyfi í fyrrnefndu máli vegna þess að nýju opnanlegu fögin sem deilt hafi verið um hafi verið 35 cm á breidd en nefndin hafi sagt 40 cm breidd heimila samkvæmt teikningum að húsinu. Í því máli sem hér sé um deilt sé opnanlegt fag hins vegar um 55 cm breitt og því umtalsvert breiðara en 40 cm breitt fagið sem nefndin hafi talið leyfilegt. Farið sé næstum 40% fram yfir leyfilega breidd á opnanlegum fögum í húsinu. (Það sé einkennilegt að byggingarfulltrúi telji 55 cm breiða opnanlega fagið eiga að falla undir sömu reglu og 35 cm opnanlegu fögin í því máli en forsenda niðurstöðu nefndarinnar var að þau voru minni en 40 cm.) Kærendur telji að 55 cm opnanlega fagið sé ekki óveruleg breyting eins og áskilið sé í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Að auki geri gr. 2.3.5. áskilnað um „eins eða sambærileg efni“ en timbur sé í öllum öðrum gluggum í húsinu. Ákvæðið sé undantekningarákvæði sem beri að túlka þröngt í framkvæmd. Það hafi byggingarfulltrúi ekki gert í niðurstöðu sinni. Hið eina sem hafi breyst í staðreyndum málsins og lögum og reglum frá fyrri ákvörðun byggingarfulltrúans haustið 2017 um ólögmæti gluggans sé að þau mistök hafi verið gerð að fá ekki samþykki meðeigenda í húsinu fyrir breytingunni og nýjum teikningum að húsinu. Því sé athyglisvert að byggingarfulltrúi hafi breytt ákvörðuninni hálfu þriðja ári eftir að hún hafi verið tekin og hafi til þess notað hæpinn rökstuðning. Óneitanlega fylgi því mikil réttaróvissa fyrir viðskiptavini stjórnvalds, í þessu tilviki byggingarfulltrúans í Reykjavík, ef þeir geti átt von á að ákvörðunum sé snúið við hálfu þriðja ári eftir að þær séu teknar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að skilmálaeftirlit, sem heyri undir embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík, hafi metið það svo að kærð framkvæmd væri óveruleg, bæði í útliti og umfangi. Í kjölfar vettvangsskoðunar skilmálaeftirlitsins hafi það verið niðurstaða þess að framkvæmdin félli undir c- lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem taki til minniháttar framkvæmda sem séu undanþegnar byggingarleyfi. Undir ákvæðið falli viðhald bygginga, s.s. endurnýjun glugga þegar notað sé eins eða sambærilegt efni. Að mati byggingarfulltrúa sé aukin breidd gluggans minniháttar og það efni sem nýtt hafi verið sambærilegt því sem fyrir hafi verið. Taka verði tillit til þess að um sé að ræða fasteign sem samþykkt hafi verið árið 1970. Frá þeim tíma hafi orðið þróun í byggingarefni og geti efni sem vanalega sé notað í dag, annað hvort í nýframkvæmdum eða við endurnýjun, talist sambærileg þótt það sé ekki sömu gerðar og það sem fyrir hafi verið. Byggingarfulltrúi byggi ákvörðun sína einnig á því mati sem fram hafi farið á framkvæmdum á verkstað og fylgi þar eftir sambærilegri málsmeðferð og viðhöfð hafi verið við mat á framkvæmdum í kærumáli úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 106/2017, þar sem lagt hafi verið mat á umfang framkvæmda.

Byggingarfulltrúi hafi metið það svo að framkvæmdin hefði í för með sér aukið öryggi fyrir íbúa, þar sem breikkað opnanlegt fag gæti nýst sem björgunarop og væri þar af leiðandi flóttaleið. Um björgunarop sé fjallað í 1. mgr. gr. 9.5.5. í byggingarreglugerð. Þar segi að björgunarop í byggingum séu auðopnanlegir gluggar eða hlerar sem nota megi við flótta úr eldsvoða til öruggs svæðis og til að gera vart við sig. Í 2. mgr. ákvæðisins sé að finna viðmiðunarreglur um björgunarop. Í 2. tölul. ákvæðisins segi að breidd björgunarops skuli vera minnst 0,60 m og hæð minnst 0,60 m og skuli samanlögð hæð og breidd gluggans ekki vera minni en 1,50 m. Hæð frá gólfi að björgunaropi megi ekki vera meira en 1,20. Mikilvægt sé að árétta að um sé að ræða viðmiðunarreglur, en ekki reglur sem fortakslaust kveði á um að lágmarksbreidd björgunarops skuli vera 60 cm. Þó svo að björgunarop sé þrengra nýtist það engu að síður sem slíkt og sé til þess fallið að auka öryggi frá því sem fyrir hafi verið og talist fullgilt björgunarop. Með vísan til þess sem að framan sé rakið og gagna málsins sé það ítrekað að um sé að ræða framkvæmd sem sé undanþegin byggingarleyfi og falli undir undanþáguheimild gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Aftur á móti kunni fram­kvæmdin að vera háð samþykki meðeigenda skv. 41. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

 Niðurstaða: Í máli þessu er um það deilt hvort endurnýjun á glugga í íbúðarrými í kjallara fjöleignarhússins að Seljalandi 5-7 hafi verið þess eðlis að afla hefði þurft byggingarleyfis. Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að unnt sé að leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar leiki vafi á um hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi. Eins og atvikum er háttað í máli þessu verður tekin afstaða til þess hvort umdeildar framkvæmdir séu háðar byggingarleyfi eða ekki.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Er þar tekið fram að ráðherra geti í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar.

Við setningu byggingarreglugerðar nr. 112/2012 tók gildi ákvæði gr. 2.3.5. þar sem tiltekin mannvirki og framkvæmdir voru undanþegin byggingarleyfi. Samkvæmt c-lið þeirrar greinar féll viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðning og glugga, undir þá undanþágu, ef notað væri eins eða sambærilegt efni og frágangur væri þannig að útlit byggingar væri ekki breytt. Þó þurfi að sækja um byggingarleyfi fyrir breytingu á útliti byggingar. Með reglugerð nr. 360/2016, um (4.) breytingu á nefndri reglugerð, tók gildi breyting á tilvitnaðri gr. 2.3.5. og var c-lið greinarinnar þá breytt á þann veg að viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðningar og glugga væru undanþegnar byggingarleyfi þegar notað væri eins eða sambærilegt efni og frágangur væri þannig að útlit byggingar væri ekki breytt eða breytingin væri óveruleg. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 2. maí 2016. Breytingarákvæðið í heild sinni hljóðar  svo: „Viðhald bygginga að utan, s.s. endurnýjun þakklæðningar, þakkanta, veggklæðninga og glugga þegar notað er eins eða sambærilegt efni og frágangur er þannig að útlit byggingar sé ekki breytt eða breyting óveruleg. Einnig nýklæðning þegar byggðra bygginga og minniháttar breytingar á burðarviki, enda sé leyfisveitanda tilkynnt um framkvæmdir áður en þær hefjast.“

Samkvæmt fyrirliggjandi aðaluppdrætti fjölbýlishússins að Seljalandi 5-7 í mælikvarða 1:100, sem samþykktur var á fundi byggingarnefndar 12. mars 1970, var gert ráð fyrir að umræddur opnanlegur gluggi með körmum væri um 25 cm breiður. Umdeilt opnanlegt gluggafag er hins vegar um 50 cm breitt. Þegar litið er til þess að um er að ræða glugga í kjallara sem snýr að garði hússins verður að telja að breytingin hafi óveruleg áhrif á ásýnd þess. Þróun hefur orðið á sviði byggingarefna frá því að umrætt hús var byggt og eðlilegt að við endurnýjun t.d. glugga og glerlista sé efni notað sem sé jafnt að gæðum eða betra en það sem fyrir var. Fram er komið að glugginn sé í sama lit og aðrir gluggar hússins.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið er um að ræða framkvæmd sem telst undanþegin byggingarleyfi skv. c-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Var ísetning nýja gluggans því ekki háð byggingarleyfi.

Úrskurðarorð:

Umdeild gluggaskipti í íbúðarherbergi í kjallara fjöleignahússins að Seljalandi 5-7 eru ekki háð byggingarleyfi.

132/2019 Blikanes

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 132/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. nóvember 2019 um að hafna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Arnarness vegna viðbyggingar að Blikanesi 14, Garðabæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir íbúi þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. nóvember 2019 að hafna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Arnarness vegna viðbyggingar að Blikanesi 14, Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að umsóknin verði samþykkt. Til vara er þess krafist að ákvörðuninni verði breytt þannig að leyst verði réttilega úr upprunalegri umsókn kæranda og gefið verði út byggingaleyfi á grundvelli samþykktra teikninga án 85 cm stækkunar bílskúrs. Til þrautavara er þess krafist að lagt verði fyrir bæjarstjórn Garðabæjar að taka umsókn með upprunalegum teikningum til löglegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 17. febrúar 2020.

Málavextir: Með byggingarleyfisumsókn, dags. 5. janúar 2016, var sótt um stækkun hússins að Blikanesi 14, Garðabæ. Gert var ráð fyrir viðbyggingu við vestur- og norðurhlið hússins, byggingu um 35 m2 nýs bílskúrs og að eldri bílskúr undir hæð hússins yrði nýttur sem vinnustofa. Þá var gert ráð fyrir að reist yrði glerskyggni að inngangi hússins við vesturhlið bílskúrsins í samræmi við meðfylgjandi hönnunargögn. Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 26. maí 2016 og eftirfarandi bókað: „Lögð fram byggingarleyfisumsókn að breytingum á einbýlishúsinu Blikanes 14 að lokinni grenndarkynningu. Ein athugasemd hefur borist frá eigendum Blikaness 16 sem hafa áhyggjur af skerðingu sem verður á flatarmáli bílastæðis við breytinguna. Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við að byggingarfulltrúi samþykki byggingarleyfið svo fremi sem gert verði ráð fyrir 3 bílastæðum á lóðinni meðfram lóðarmörkum að götu.“ Sú afgreiðsla var tilkynnt kæranda með bréfi skipulagsstjóra sama dag og að málinu hefði verið vísað til bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs 4. október 2016 var afgreiðsla byggingarfulltrúa samþykkt.

Í upphafi árs 2018 óskaði kærandi eftir því að fá að gera breytingu á teikningum fyrir bílskúr sem gerðu ráð fyrir breikkun hans úr 5,3 m í 6,5 m og myndi bílskúrinn standa 6,5 m út fyrir byggingarreit. Með teikningunum fylgdu skrifleg samþykki nágranna, dags. 3. febrúar og 3. mars 2018. Var umsókn kæranda tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 12. apríl s.á. og bókað að nefndin frestaði málinu þar til þegar samþykkt deili­skipulag Arnarness hefði tekið gildi. Það tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 23. nóvember 2018.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 7. mars 2019 og málinu þar vísað til umsagnar tækni- og umhverfissviðs og deiliskipulagsráðgjafa. Málið var síðan á dagskrá nefndarinnar 29. s.m. þar sem fyrir lá umsögn deiliskipulagsráðgjafa, sem mælti gegn stækkun byggingarreits hússins. Var þeirri umsögn vísað til tækni- og umhverfissviðs og var ákveðið að umsækjanda yrði gefinn kostur á að tjá sig um niðurstöðu hennar. Skipulagsnefnd lagði til á fundi sínum 26. apríl 2019 að tillaga að breytingu á deiliskipulagi Arnarness í samræmi við fyrirliggjandi umsókn kæranda yrði grenndarkynnt sem óveruleg deiliskipulagsbreyting og var það samþykkt í bæjarstjórn 2. maí s.á.

 Hinn 27. ágúst 2019 var tillagan grenndarkynnt m.a. fyrir öllum lóðareigendum við Blikanes sem tillaga að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Arnarness samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var hún auglýst til kynningar með athugasemdafresti frá 27. ágúst til 26. september 2019. Athugasemdir bárust frá nokkrum lóðareigendum við Blikanes. Var málið á dagskrá fundar skipulagsnefndar 15. nóvember 2019 þar sem bókað var að nefndin teldi breytinguna fordæmisgefandi og að hún hefði áhrif á heildargötumynd svæðisins. Lagði nefndin til að breytingartillögunni yrði hafnað. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 21. s.m. var afgreiðsla skipulagsnefndar samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi telur ákvörðun sveitarfélagsins ólögmæta. Undirbúningur og taka ákvörðunar hafi brotið í bága við almennar meginreglur stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulög nr. 37/1993, sérstaklega reglur um sérstakt hæfi, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, rétt til andmæla og rannsóknarreglu. Gögn málsins beri með sér að rannsókn og undirbúningur ákvörðunar bæjarstjórnar hafi verið ófullnægjandi, málið hafi ekki verið fyllilega upplýst og að byggt hafi verið á upplýsingum sem ekki hafi verið bornar undir málsaðila við töku ákvörðunar. Andmæla-réttur hafi ekki verið virtur þegar ákvarðanir í málinu hafi verið teknar, hvorki þegar málinu var frestað árið 2018 né þegar leyst hafi verið úr umsókn kæranda árið 2019. Þegar málinu hafi verið frestað þar til nýtt deiliskipulag tæki gildi hafi kærandi ekki fengið að njóta andmælaréttar um það þegar starfsmenn arkitektastofu lögðu fram afstöðu sína í málinu hinn 26. mars 2019.

Aðkoma tækni- og skipulagssviðs sveitarfélagsins að undirbúningi ákvörðunar fari í bága við reglur stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi þar sem verkefnastýra sviðsins hafi komið fram sem málsaðili. Þess sé ekki getið að hún hafi gætt að hæfi sínu við undirbúning ákvörðunar og þegar af þeirri ástæðu sé ákvörðunin ógildanleg. Nánir samstarfsaðilar hennar séu einnig vanhæfir til að leysa úr máli þar sem hún hafi haft beinna hagsmuna að gæta. Tækni- og skipulagssvið sé ekki stór vinnustaður og ótækt að fólk sem starfi saman alla daga á lítilli skrifstofu komi að undirbúningi ákvörðunar í málum hvors annars.

Jafnræðissjónarmið standi til þess að umsókn kæranda fái sömu meðferð og umsóknir annarra íbúa Arnarness er hafi gert sambærilegar breytingar. Ómálefnalegt sé að byggja á mótmælum nokkurra íbúa Blikaness er áður hefðu samþykkt sömu teikningar en ekki útskýrt hvers vegna horfið hefði verið frá þeirri samþykkt. Íbúar Blikaness 6-7 eigi ekki fasteign sem liggi að lóð kæranda og hafi skipulagsstjóri ekki talið ástæðu til að leita afstöðu þeirra árið 2018. Enginn rökstuðningur sé fyrir því hvaða forsendur liggi að baki því að nauðsynlegt hafi verið talið að víkka út grenndarkynningu til þeirra. Ekki hafi verið þörf á því að fara aftur í grenndarkynningu eftir að sömu teikningar hafi verið samþykktar árið 2018. Ekki hafi verið heimilt eða málefn-anlegt að láta nýja grenndarkynningu ná til fleiri aðila en hin fyrri gerði, sér í lagi til aðila er ekki gætu orðið fyrir neinum áhrifum af fyrirhuguðum framkvæmdum.

Deiliskipulag sem samþykkt hafi verið í árslok 2018 hafi komið til eftir að umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir bílskúr og stækkun hans um 85 cm var lögð fram. Frestun á afgreiðslu umsóknarinnar þar til að deiliskipulag tæki gildi hafi verið gerð án vilja og vitundar kæranda. Leiði það af rannsóknarreglu, leiðbeiningarskyldu stjórnvalds og andmælarétti að tilkynna skuli um væntanleg áhrif nýs deiliskipulags á umsóknina. Það brjóti einnig í bága við meðalhófsreglu að bæjarstjórn sveitarfélagsins hafi litið svo á að með höfnun á umsókn um 85 cm stækkun á bílskúr væri einnig fallið úr gildi samþykki er veitt hefði verið fyrir byggingu bílskúrs hinn 4. október 2016. Rannsóknarregla krefjist þess að bæjarstjórn kynni sér nákvæmlega hvað hafi verið samþykkt á þeim tíma og ef litið sé á tilkynningu um samþykkt byggingaáform, dags. 4. október 2016, megi sjá að bygging bílskúrs hafi ekki aðeins verið samþykkt heldur hafi einnig verið greidd byggingaleyfisgjöld. Ekkert hafi komið fram sem valdi því að samþykkt umsókn er farið hafi í gegnum grenndarkynningu verði ógild eða tapi vægi sínu við að farið sé fram á óverulega breytingu á henni. Bæjarstjórn hafi byggt á röngum forsendum þegar hún hafi afgreitt umsóknina en ekki hafi verið óskað eftir því að fyrri teikningar sem hefðu verið samþykktar væru felldar úr gildi með umsókn um óverulega breytingu á þeim.

Málsrök Garðabæjar: Á fundi bæjarráðs 4. október 2016 hafi verið samþykkt byggingaráform samkvæmt umsókn kæranda um stækkun hússins að Blikanesi 14 og byggingu bílskúrs. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 12. júní 2019 og í texta þess komi fram að eingöngu sé verið að samþykkja framkvæmdir vegna stækkunar svefnálmu en ekki stækkun bílskúrs. Umsókn um byggingarleyfi hafi verið grenndarkynnt þar sem deiliskipulag hafi ekki legið fyrir. Ein athugasemd hafi borist vegna fjölda bílastæða og hafi verið tekið tillit til hennar við afgreiðslu málsins.

Ástæða þess að ekki hafi verið gefið út byggingarleyfi fyrir bílskúr hafi verið að framlagðar teikningar hafi ekki verið þær sömu og hefðu verið grenndarkynntar. Í mars 2018 hafi kærandi sent breyttar teikningar fyrir bílskúr þar sem gert hafi verið ráð fyrir breikkun hans úr 5,3 m í 6,5 m. Byggingin hafi náð 6,5 m út fyrir byggingarreit og hafi fjarlægð frá lóðamörkum gagnvart lóðinni Blikanesi 12 verið sýnd sem 3,15 m í stað 5,5 m samkvæmt eldri teikningum. Með teikningunum hafi fylgt skrifleg samþykki nágranna.

Umsókn samkvæmt hinum nýju teikningum fyrir bílskúr hafi verið teknar fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 12. apríl 2018. Skipulagsnefnd hafi frestað málinu þar til að samþykkt deiliskipulag Arnarness hefði tekið gildi. Kæranda hafi verið tilkynnt um þá afgreiðslu skipulagsnefndar með bréfi 17. apríl 2018. Hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 7. mars 2019, en þá hafi deiliskipulag Arnarness tekið gildi, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 1032/2018. Skipulagsnefnd hafi vísað málinu til skoðunar hjá tækni- og umhverfisviði og deiliskipulagsráðgjafa. Á fundi skipulagsnefndar 29. s.m. hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju og lögð fram umsögn skipulagsráðgjafa. Í niðurstöðu umsagnar deiliskipulagsráðgjafa komi fram að mælt sé gegn umsókninni um stækkun byggingarreits vegna byggingar bílskúrs. Í umsögninni komi og fram það álit að stækkun byggingarreits raski almennt byggðarformi á lóðum ofanvert við Blikanes og heildrænu yfirbragði byggðar. Þá sé vakin athygli á að breytingin geti talist fordæmisgefandi.

Á fundi skipulagsnefndar hinn 26. apríl 2019 hafi mál kæranda verið tekið fyrir og hafi niðurstaða nefndarinnar verið að meta nauðsynlega breytingu á deiliskipulagi vegna stækkunar byggingarreits lóðarinnar sem tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi Arnarness skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 2. maí 2019 hafi verið samþykkt að láta fara fram grenndarkynningu vegna óverulegrar breytingar á deiliskipulagi Arnarness vegna lóðarinnar að Blikanesi 14. Tillagan hafi verið grenndarkynnt fyrir eigendum allra húsa við Blikanesi og eigendum húsa að Tjaldanesi 11, 13 og 15. Að lokinni grenndarkynningu hafi tillagan verið tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 4. október s.á. Athugasemdir hafi borist frá eigendum húsa nr. 6, 7, 11 og 12 við Blikanes. Skipulagsnefnd hafi vísað málinu til úrvinnslu hjá tækni- og umhverfissviði.

Kærandi hafi verið upplýstur um þær athugasemdir sem borist hefðu við grenndarkynningu skipulagsbreytingarinnar og hinn 6. nóvember 2019 hafi verið haldinn fundur með kæranda og hönnuði þar sem farið hafi verið yfir athugasemdir og þeim gefinn kostur á að tjá sig um þær. Í framhaldi hafi hönnuðurinn sent tölvupóst 8. s.m., þar sem fram komi að fallið sé frá því að hafa svalir á bílskúrsþaki, eins og teikningar hafi sýnt, til að koma til móts við athugasemdir nágranna. Með tölvupósti lögmanns nágranna 13. s.m., hafi mótmæli gegn tillögunni verið ítrekuð og áréttað að engu breytti um afstöðu þeirra hvort bílskúrinn væri með svölum eða ekki. Á fundi skipulagsnefndar 15. s.m. hafi verið lagt til að umsókn kæranda um hina grenndarkynntu skipulagsbreytingu yrði synjað.

Á fundi bæjarstjórnar hinn 21. nóvember 2019 hafi tækni- og umhverfissviði bæjarins, í kjölfar fundar skipulagsnefndar hinn 15. nóvember s.á., verið falið að kanna hvort æskilegt yrði að skoða möguleika á því að stækka byggingarreiti lóða að ofanverðu við Blikanes og Mávanes. Með slíka breytingu yrði farið með sem breytingu á deiliskipulagi Arnarness skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Breytingin, sem myndi taka til allra lóða og hefði áhrif á form viðkomandi svæðis og yfirbragð, gæti aldrei talist óveruleg breyting á deiliskipulagi.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að ekki sé uppi nokkur vafi um það að hinn 4. október 2016 hafi bæjarráð sveitarfélagsins samþykkt byggingaráform kæranda. Skýrt komi fram í reikningsyfirliti, dags. 19. nóvember s.á., að kærandi hafi greitt byggingaleyfisgjald bæði fyrir stækkun á húsi og nýjum bílskúr. Þannig hafi sveitarfélagið þegar afgreitt umsókn hans og samþykkt hana. Þá hafi sveitarfélagið innheimt opinbert gjald fyrir umsýslu. Breyti engu í þessu sambandi þótt tekin hefði verið ákvörðun um að skipta framkvæmdinni upp í tvö aðskilin byggingarleyfi. Greitt hafi verið gjald fyrir þau bæði.

Ákvörðun skipulagsnefndar um frestun á afgreiðslu málsins hinn 12. apríl 2018 þar til nýtt deiliskipulag Arnarness hefði tekið gildi hafi verið framkvæmd án samráðs. Þar hafi stjórnvaldsákvörðun sem hafi verið birt og þegar komið til framkvæmda verið dregin til baka án þess að skilyrði um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar hafi verið uppfyllt. Ekkert tækifæri hafi gefist til að nýta andmælarétt og engar stjórnvaldsreglur hafi verið virtar við töku þeirrar ákvörðunar.

Ekki sé að finna í greinargerð skýringar á þeirri afstöðu sveitarfélagsins að óveruleg breyting á áður samþykktum teikningum, sem þegar hefðu verið grenndarkynntar, hafi þurft að fara aftur í grenndarkynningu og þá hjá íbúum húsa sem skipulagsstjóri hafi talið á árinu 2018 ekki efni til að leita eftir afstöðu hjá vegna sömu framkvæmda.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar að synja um breytingu á deiliskipulagi Arnarness vegna umsóknar kæranda frá marsmánuði 2018 um viðbyggingar á lóðinni Blikanesi 14 samkvæmt innsendum teikningum.

 Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðar­nefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en ekki verður tekin afstaða til kröfugerðar kæranda að öðru leyti.

Í 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að sveitarstjórnir annast og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitar-stjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu í samræmi við fyrrgreinda umsókn kæranda var grenndar-kynnt samkvæmt framangreindri heimild sem óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdarfresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Að lokinni grenndarkynningu voru kæranda kynntar framkomnar athugasemdir með tölvupósti 15. október 2019 og fundur haldinn 6. nóvember s.á. af hálfu bæjaryfirvalda með kæranda og hönnuði umsóttra framkvæmda Hin kynnta tillaga var síðan tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 15. nóvember 2019 og afstaða tekin til framkominna athugasemda. Lagt var til að breytingar­tillögunni yrði hafnað í ljósi framkominna athugasemda og fyrirliggjandi umsagnar deili­skipulagsráðgjafa. Samþykkti bæjarstjórn þá tillögu á fundi 21. s.m. Samkvæmt framansögðu var málsmeðferð hinnar grenndarkynntu skipulagstillögu lögum samkvæmt, þ.m.t. rannsókn máls, og var andmælaréttur kæranda virtur.

Árið 2013 var að lokinni grenndarkynningu veitt leyfi fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni Blikanesi 22 og við þá afgreiðslu var sérstaklega tekið fram að bílskúrinn rúmaðist innan byggingarreits lóðarinnar. Því er ekki að heilsa í máli þessu þar sem fyrirhugaður bílskúr að Blikanesi 14 myndi standa utan byggingarreits þeirrar lóðar. Eru þessi tilvik ekki sambærileg og því ekki um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar vegna ólíkra niðurstaða í nefndum tilvikum. Þá raskar það ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar þótt starfsmaður skipulags- og tæknisviðs bæjarins hafi andmælt hinni kynntu skipulagstillögu við grenndar­kynningu enda á sviðið engan þátt í töku hinnar kærðu ákvörðunar og ekki eru fyrir hendi þær vanahæfisástæður sem taldar eru upp í 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi forsögu málsins sem rakin er í málavaxtalýsingu þykir rétt að benda á að ákvörðun bæjarstjórnar frá 4. október 2016 um leyfi fyrir viðbyggingu að Blikanesi 14 féll úr gildi að ári liðnu samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 21. nóvember 2019 um að hafna umsókn kæranda um breytingu á deiliskipulagi Arnarness vegna viðbyggingar að Blikanesi 14, Garðabæ.

57/2019 Silfursmári

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 57/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 11. júní 2019 um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna lagningar götunnar Silfursmára, frá Hæða­smára að Smárahvammsvegi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2019, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Norðurturninn hf., eigandi fasteignarinnar Hagasmára 3, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 11. júní 2019 að gefa út framkvæmdaleyfi vegna lagningar götunnar Silfursmára, frá Hæðasmára að Smárahvammsvegi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli framkvæmdaleyfisins yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 19. júlí 2019 var stöðvunarkröfu kæranda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 17. júlí 2019.

Málavextir: Hinn 3. júní 2019 var á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar lagt fram erindi framkvæmdadeildar umhverfissviðs bæjarins þar sem óskað var eftir framkvæmdaleyfi fyrir gatnagerð við nýja götu, Silfursmára, ásamt breytingum á skipulagi núverandi gatna á svæðinu. Var erindið samþykkt af skipulagsráði og var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarráðs 6. s.m. og á fundi bæjarstjórnar 11. s.m. Samkvæmt leyfinu felst framkvæmdin í að núverandi gata Haga­smári, milli Hæðasmára og Smárahvammsvegar, verði lögð niður og ný gata, Silfursmári, gerð í stað hennar og núverandi umferðaljós á Smárahvammsvegi við Hagasmára verði lögð niður. Framkvæmdin nái til jarðefnaskipta, gatnagerðar og tenginga við Hæðasmára og Smára­hvammsveg og lagna veitustofnana að undanskildum yfirborðsfrágangi. Var leyfið gefið út hinn 14. júní 2019.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með dómi Landsréttar 7. júní 2019 hafi verið viðurkennt að samkvæmt stofnskjali fyrir lóðirnar Hagasmára 1, Hagasmára 3 og Hagasmára 5, sem útgefið hafi verið 21. apríl 2008, hvíli kvaðir á lóðunum Hagasmára 1 og Hagasmára 3 um samnýtingu bílastæða o.fl. Áður hafi Kópavogsbær og Eignarhaldsfélagið Smáralind hf. hafnað tilvist kvaðarinnar og í krafti þess skipulagt fyrirhugaðar framkvæmdir á umræddri lóð. Kærandi sé eigandi Hagasmára 3 og því eigandi óbeinna eignarréttinda á lóðinni Haga­smára 1. Lóðum við Silfursmára hafi verið skipt út úr Hagasmára 1 og taki því kvöð samkvæmt framan­greindum dómi jafnframt til þeirra lóða.

Framkvæmdaleyfishafi hafi ekki aflað samþykkis kæranda, sem eiganda óbeinna eignarréttinda á lóðinni, fyrir framkvæmdinni og sé hún í andstöðu við hans vilja. Beiðni um framkvæmdaleyfi stafi því ekki frá aðila sem hafi full yfirráð framkvæmdasvæðisins. Framkvæmdir á lóðinni, sem miði að skerðingu réttinda í eigu kæranda, séu óheimilar án samþykkis hans sem eiganda óbeinna eignarréttinda samkvæmt fyrirliggjandi kvöð. Með bréfi, dags. 26. júní 2019, hafi kærandi mótmælt hinu kærða framkvæmdaleyfi án árangurs.

Samkvæmt c-lið 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 beri sveitarstjórn að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Kærandi telji að bæjarstjórn Kópavogsbæjar hafi við meðferð hvers konar leyfa á umræddum lóðum vanrækt að gæta lögvarinna hagsmuna kæranda.

Fyrirliggjandi dómur Landsréttar staðfesti það sem kærandi hafi haldið fram að á lóðunum Hagasmára 1 og 3 hvíli sameiginlegar kvaðir um samnýtingu bílastæða, um samnýtingu fráveitu­lagna og um gagnkvæman umferðarrétt. Kvaðir þessar komi m.a. fram í þinglýstum lóðarleigusamningi um Hagasmára 3, sem sé undirritaður af Kópavogsbæ og eigendum Hagasmára 1 og 3 hinn 18. apríl 2008. Kvaðir þessar komi einnig fram á stofnskjali útgefnu og undirrituðu af byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 21. apríl 2008. Stofnskjali þessu hafi verið þinglýst á fasteignirnar Hagasmára 1 og Hagasmára 3. Á grundvelli þessara skjala hafi svo eigendur Hagasmára 1 og Hagasmára 3 gert með sér samninga sem báðir séu bundnir af.

Kópavogsbær hafi verið aðili framangreinds dómsmáls og sé því kunnugt um rétt kæranda sem eiganda Hagasmára 3. Að þessu hafi í engu verið gætt við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar enda þótt dómurinn hafi fallið áður en endanleg ákvörðun bæjarstjórnar hafi verið tekin. Eignar­réttindi kæranda séu varin af 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og hafi sveitarfélaginu því verið óheimilt að veita leyfi til framkvæmda sem bersýnilega brjóti gegn þessum réttindum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að framkvæmdasvæðið sem hin kærða ákvörðun taki til sé samkvæmt þinglýstum heimildum bæjarland. Verði því ekki séð að Kópavogsbæ hafi verið skylt sem framkvæmdaleyfishafa að leita eftir samþykki kæranda fyrir greindu framkvæmdarleyfi. Jafnframt sé rétt að benda á að skipulagsvaldið sé í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn hafi töluvert svigrúm við þróun byggðar og umhverfis. Hin kærða ákvörðun sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag, en með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 14. mars 2016 í máli nr. 29/2016 hafi kröfum kæranda um ógildingu greinds deiliskipulags verði hafnað. Þá hafi málsmeðferð framkvæmda­leyfisins verið í fullu samræmi við ákvæði laga og reglna.

——–

Eftir að kærumál þetta barst úrskurðarnefndinni var fyrrnefndur dómur Landsréttar staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 39/2019, sem kveðinn var upp hinn 4. júní 2020.

Niðurstaða: Með hinu kærða framkvæmdaleyfi var heimiluð lagning nýrrar götu, Silfursmára, sem liggja mun um bílastæði á lóðinni Hagasmára 1, sem kærandi hefur afnotarétt af samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 39/2019.

Lagning umræddrar götu var talin framkvæmdaleyfisskyld af leyfisveitanda, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, en nýir vegir og enduruppbygging vega geta verið háð framkvæmdaleyfi skv. 1. mgr. 5. gr. sömu reglugerðar.

Bæjarstjórn Kópavogsbæjar samþykkti framkvæmdaleyfið 11. júní 2019 skv. 13. gr. skipulags­laga nr. 123/2010 og skipulagsstjóri gaf það út 14. s.m., sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin á stoð í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis, svo sem því var breytt með samþykkt bæjarstjórnar 25. nóvember 2015, og fylgdu umsókninni um leyfið fullnægjandi gögn, sbr. 2. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar. Var framangreind afgreiðsla í samræmi við skipulagslög og reglugerð um framkvæmdaleyfi. Bæjaryfirvöld hafa upplýst að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi hafi byrjað innan árs frá samþykkt þess og er leyfið því ekki úr gildi fallið skv. 2. mgr. 15. gr. skipulagslaga.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 39/2019 var staðfestur dómur Landsréttar frá 7. ágúst 2019 þar sem viðurkennt var að samkvæmt stofnskjali fyrir lóðirnar Hagasmára 1, Hagasmára 3 og Hagasmára 5, dags. 21. apríl 2008, hvíli kvaðir á lóðunum Hagasmára 1 og Hagasmára 3 um samnýtingu bílastæða og fráveitulagna og um gagnkvæman umferðarrétt og að þær kvaðir veiti Norðurturninum hf., sem eiganda Hagasmára 3, rétt til nýtingar á bílastæðum á lóðinni Hagasmára 1. Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að kvöð um samnýtingu bílastæða á lóðunum hafi stofnast með gagnkvæmum samningi á einkaréttarlegum grundvelli. Í framangreindu stofnskjali kemur fram að afmörkun lóðar komi fram á meðfylgjandi mæliblaði, útgefnu af Kópavogsbæ 27. mars 2008, og sé það hluti stofnskjalsins. Samkvæmt mæliblaðinu nær lóðin Hagasmári 1 m.a. til þess svæðis sem hið kærða framkvæmdaleyfi tekur til og fyrir liggur að kærandi á þau óbeinu eignarréttindi sem viðurkennd voru með framangreindum dómi Hæstaréttar.

Samkvæmt 20. tölul. 2. gr. skipulagslaga eru skipulagskvaðir skilgreindar sem kvaðir sem lagðar eru á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Þær kvaðir sem um ræðir í máli þessu eru ekki lagðar á með deiliskipulagi og teljast því ekki skipulagskvaðir. Kvaðir þessar eru því einkaréttarlegs eðlis, líkt og fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 39/2019 og geta sem slíkar haft áhrif á innbyrðis réttarstöðu lóðarhafa en geta ekki bundið hendur skipulagsyfirvalda Kópavogsbæjar, sem að lögum annast útgáfu framkvæmdaleyfa.

Samkvæmt 5. mgr. 4. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi veitir framkvæmdaleyfi ekki heimild til framkvæmda sem brjóta í bága við gildandi skipulagsáætlanir og ákvæði laga og reglugerða eða rétt annarra. Ekki er tekið sérstaklega fram í ákvæðinu að þau atriði sem þar eru talin upp varði ógildingu leyfisins eða að ekki sé heimilt að gefa út framkvæmdaleyfi sem sé andstætt þeim atriðum, líkt og sérstaklega er tekið fram í 2. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Einungis er tekið fram að leyfið veiti ekki heimild til framkvæmda sem brjóta í bága við framangreind atriði. Ljóst er hins vegar að réttindi þriðja manns geta staðið því í vegi að ráðist verði í heimilaðar framkvæmdir, eftir atvikum þar til samningar hafa náðst við eigendur um bætur vegna réttindanna eða ákvörðun tekin um eignarnám, sbr. 50. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og þar sem ákveðið var að bíða niðurstöðu Hæstaréttar í fyrrgreindu máli kæranda og Kópavogsbæjar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 11. júní 2019 um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna lagningar götunnar Silfursmára, frá Hæðasmára að Smárahvammsvegi.